Ég biðst afsökunar

Það fer vel á að byrja árið á því að biðja Þjóðminjasafnið og Bakkabræður afsökunar á því að hafa lagt nafn þeirra við hégóma, -batnandi manni er víst best að lifa, eða þannig. Hér á síðunni hafa birst nokkrir miður gáfulega orðaðir Bakkabræðrapistlar um fjósbaðstofu Þjóðminjasafnsins. Og núna í haust einn þar sem lýst var algerri vantrú á varðveislu menningararfleiðarinnar.

Þannig var núna á fyrstu góðviðrisdögum ársins að ég hélt út í sveit til að prufa göngustafi sem mér höfðu verið gefnir fyrir nokkru, -og hafði ég fjasað yfir hvað það ætti að þýða, eins og fólk héldi að ég væri orðið elliært gamalmenni. Mér datt því í hug að koma mér með stafina úr almannafæri og ganga heim að síðasta bænum með fjósbaðstofu. Því þar væri sáralitlar líkur á að nokkur lifandi sála sæi til mín munda stafina.

Þegar ég hafði skakklappast yfir rörahliðið heim að bænum, sem er er nú tengt girðingunni í mýrinni, tók ég eftir því að það var búið að eiga við bæinn sjálfan. Ég sagði frá því hérna síðast þegar þessi bær varð tilefni pistils, að í mörg ár hefði verið unnið að því að hægt yrði að vinna að viðgerð. En sennilega væri meiningin að girða rollurnar það rækilega frá bænum áður en viðgeð hæfist að ekki yrði hætta á að þær ætu viðgerðirnar áður en næðist að reita af þeim sinuna og þegar þar að kæmi yrði bærinn sennilega hruninn.

En núna er semsagt hafnar viðgerðir á bænum ásamt göngustígagerð frá bílastæðum sem unnið er að örstutt fyrir utan bæinn. Búið er að hlaða upp vegg sem var byrjað að hrynja úr auk annarra viðgerða á þekjum bæjarins. Mér er því bæði ljúft og skylt að biðja Bakkabræður og Þjóðminjasafnið afsökunar á þeim orðaleppum sem ég hafði uppi vegna vantrúar minnar á að Galtastaðabærinn yrði hafinn til vegs og virðingar og mun ég ekki gera frekari athugasemdir hér á blogginu um framgang verksins, jafnvel þó svo að Þjóðminjasafnið komi ekki til með að hafa beljur undir baðstofupalli. 

Það er langt um liðið síðan mér hefur verið jafn ljúft að biðjast afsökunar á því að hafa rangt fyrir mér, -af fullri iðrun. 

 

IMG_3529

Hér hefur heldur betur verið tekið til hendinni búið að hlaða upp vegg þar sem steinar voru farnir að velta úr.

 

IMG_3536

Galtastaðir-fremri standa fyrir sínu vetur sem sumar. Þekjan á bæjarburstinni hefur fengið nýja ábreiðu sem bíður gróanda komandi sumars


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband