Gautavík

Gautavík fb mynd

Þessi staður hefur komist í fréttir undanfarið vegna hampræktunar. Ábúendurnir fluttu úr Reykjavík austur í Berufjörð til að láta draum rætast um sjálfþurftarbúskap og sjálfbærni. Gautavík hafði verið í eyði í nokkur ár, en var sennilega bæði leynt og ljóst ein af höfuð höfnum landsins fyrr á öldum. 

Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri. (texti Djúpivogur wikipedia)

Fáeinir miðaldaverslunarstaðir hafa verið rannsakaðir að einhverju marki hér á landi. Eru það Gautavík í Berufirði, Maríuhöfn í Hvalfirði, Gásar í Eyjafirði og Kolkuós í Skagafirði. Rannsóknirnar í Gautavík skiluðu ekki miklum upplýsingum, en þó virðist staðurinn hafa átt sinn blómatíma á 14. öld og svo aftur á þeirri 15., en elsta ritaða íslenska heimildin er frá lokum 12 . aldar. Mest áberandi fundarflokkurinn voru leirker og járnnaglar. Einnig fundust þar byssukúlur úr blýi. Nýlega hefur því verið haldið fram að verslun í Gautavík hafi varað fram undir lok 16. aldar. (Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur/ Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 bls 127)

Í annálum 14. og 15. aldar er Gautavíkur oft getið sem verslunarhafnar. Þjóðverjar ráku þar verslun fram á síðari hluta 16. aldar og var þá ein aðalverslunarhöfn á Austurlandi. Gautavíkur er getið nokkrum sinnum í Íslendingasögum og þá jafnan sem verslunarstaðar og hafnar. Rústirnar eru báðum megin við Búðaá og ein á sjávarbakkanum austan við ána. Friðlýst 1964. (Sjóminjar á Íslandi)

Daniel Bruun var einna fyrstur til að rannsaka fornleifar íslenskra kaupstaða frá miðöldum. Hann kom í Gautavík árið 1901 og í bókinni Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár er þetta um þá heimsókn. "Berufjörður er þriggja mílna langur fjörður á Austurlandi sunnarlega. Nokkuð innan við fjarðamynnið er á norðurströndinni lítil vík, er Gautavík heitir og við hana samnefndur bær. Þar er þyrping með 6 tóttum, sem Olavius segir að munnmæli hermi, að séu leifar verslunarstaðar írskra kaupmanna. Af sögunum sést, að Norðmenn hafa siglt til Gautavíkur (Kålmlund bls 200), og í Njálu er staðarins getið sem lendingarstaðar kaupskipa. Loks herma íslenskir annálar, að þar hafi verið mjög fjölsótt höfn á 14. og 15. öld.

Árið 1589 fengu Hamaborgar kaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Þar áður höfðu Brimar kaupmenn haft leifi til að versla við Fýluvog, sem er nánast á sama stað á Búlandsnesinu og Djúpivogur, munurinn var sá að inn á Fýluvog var siglt úr Hamarsfirði en inn á Djúpavog úr Berufirði. Talið er að rentukammerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

Kort

Sagan um Þórð í Dýjakoti heitir "það segir fátt af einum", leið hans til Gautavíkur er lýst nokkuð nákvæmlega og hefur legið að mestu um óbyggðir

Það skildi ætla að verslun við Gautavík hafi verið alfarið úr sögunni þegar tveir verslunarstaðir voru komnir við minni Berufjarðar. Fyrir nokkrum árum rakst ég á athygliverða sögu í bókinni Syndir feðranna, eftir Gunnar Þorleifsson, og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur. Sé eitthvað að marka söguna þá var verslað við Gautavík um aldamót 17. og 18. aldar.

Þessir atburður er sagður gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787.

Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í annálum. Margt í sögunni passar samt ekki við sagnfræðina.

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Dýjakots, minnist ég ekki að hafa heyrt annarsstaðar getið. Miðað við staðarlýsingar í sögunni, hefur það verið inn af Fljótsdal gæti hafa verið rétt austan við Laugarfell.

Leið Þórðar í verslunarferðinni til Gautavíkur virðist hafa legið sunnan við Hornbrynju, niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir Þórður í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft.

Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum, -og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim samkvæmt sögunni. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim til konu og barna, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot.

Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í fjárgöngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju illa farið, og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu. Þetta gæti allt eins verið skáldsaga því ef Gautavík hefur verið verslunarstaður með erlendar skipakomur fram að 18. öld skortir þar um allar heimildir.

Scan_20210206 (2)

Þó svo að talið sé að fornleifarannsóknir í Gautavík hafi ekki skilað miklum upplýsingum, þá kom múrsteinshleðsla í ljós. Þessi fundur er viss ráðgáta sem setur verslunarstaðinn síðar í tíma en sagan hermir, en tilgáta er nú um að múrsteinarnir séu hluti lýsisgerðarhúss

Um endalok verslunar í Gautavík segir; -"Þar sem ekki fundust neinar leifar eftir þyrpingu innlendra bóndabæja við víkina, má gera ráð fyrir að hún hafi öll verið yfirgefin þegar endalok hennar urðu að veruleika. Vísbendingar um eyðileggingu eru samt ekki fyrir hendi. Allt smálegt sem var nýtilegt hefur verið flutt burtu. Ef til vill stóðu einungis veggir búðanna uppi á meðan annað nýtanlegt byggingarefni, eins og timbur, hefur einnig verið fjarlægt. Veggirnir voru skildir eftir til þess eins að grotna niður, enda var byggingarefni þeirra ekki æskilegt til endurnýtingar. Sérstaklega var tekið eftir því að múrsteinahringurinn var ekki grafinn upp og fluttur með öðrum varningi, þó steinarnir væru örugglega mikils virði og heldur ekki erfitt að grafa þá upp og nota þá aftur. Svo virðist þó sem að efri hluti kúpulsins hafa fljótlega verið fjarlægður." (Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands.)

Það eru til fleiri sagnir um Gautavík fyrri á öldum eftir að verslun í Gautavík var hætt, sem mætti flokka sem þjóðsögur, Gautavíkur er og getið í Tyrkjaránssögum frá 1627. Í bók Öldu Snæbjörnsdóttur, Dvergasteinn – Þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi, segir frá skriðu sem féll við Gautavík 26. júní 1792. Þar sem hluti fjallshlíðarinnar, sem er óravegu frá sjó, virðist hafa losnað og fallið alla leið í sjó fram. Þá fórust hjónin í Gautavík Jón Jónsson matrós og Ásdís Hermannsdóttir kölluð hin fagra.

Heimildir um þetta er að finna í kirkjubók Berufjarðakirkju. “30. júní grafinn hreppstjóri Jón Jónsson bóndi í Gautavík. Varð fyrir skriðuhlaupi í því mikla storm -og hretviðri hinn 26. s.m. á sínu aldurs 44. ári fannst upptekinn af sjónum þann 27. s.m.; ásamt honum deyði kona hans Ásdís Hermannsdóttir hvörrar lík fannst ekki og meinast begrafin undir hlaupinu 32 ára. Þau eftirlétu 4 ungabörn, kýr og meginhluta ærifjár um 27 kvíaær.”

Bókin Sópdyngja – þjóðsögur, alþýðlegur fróðleikur og skemmtan í útgáfu þeirra Braga og Jóhanns Sveinssona er ítarlegri frásögn af þessum atburði. Þar er sagan höfð eftir Antoníu Jónsdóttir á Arnarstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð, en hún var ein af afkomendum Jóns og Ásdísar í Gautavík. Þar segir frá því að Jón hafi farið upp á Fljótsdalshérað að sækja fé og í rekstri hans hafi verið grákollótt kind sem kerling á Héraði hafi ásælst, en Jón ekki viljað láta. Þetta á að hafa verið að haustlagi og þá sennilega haustið áður en skriðan féll. Kellingin á að hafa haft í hótunum við Jón vegna kindarinnar.

Þegar var farið að grafast fyrir um hvernig þessi mikla skriða gæti hafa fallið á að hafa komið í ljós að smalar hefðu séð kerlingu á fjallinu daginn áður. Við upptök skriðunnar hafi sést spor en enginn ferill fundist. Eins kemur fram í frásögninni að Ásdís og Jón hafi verið það efnuð að hægt hafi verið að sjá fyrir fjórum ungum börnum þeirra. Sagt er að einn sonur þeirra hjóna hafi heitið Jón og lengi búið í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd. Nafn og aldur smalans í Gautavík kemur einnig fram í frásögninni, en sá var grunaður um að hafa stolið peningakistli og skorið silfurhnappa af fötum Jóns.

Það má segja, þó undarlegt sé, að upphaf þessa Gautavíkur vangaveltna megi rekja til Bæjarins sem hvarf í ösku og eldi. En í jólagjöf fékk ég samnefnda bók Bjarna E Einarssonar fornleifafræðings um uppgröftinn á Bæ í Öræfum og rannsóknir honum tengdar. Það er talið að allt að 600 manna sveit hafi horfið af yfirborði jarðar með manni og mús á dagparti árið 1362. Ein af blómlegri sveitum landsins, sem áður var nefnd Litla Hérað, fékk þá nafnið Öræfi eftir sprengigos Hnappafellsjökli, þar sem nú nefnist Öræfajökull.

Saga þessarar sveitar glataðist í hamförunum, önnur en þau örlitlu brot sem má finna í kirkjubókum Stafafellskirkju um eignir kirkna í Litla Héraði. Stafafellskirkja er í Lóni, hátt í 200 km fjarlægð. Af uppgreftrinum á Bæ má draga þá ályktun að margt í Íslandssögunni hafi verið með öðrum blæ en heimildir eru fyrir, t.d. að lýsisframleiðsla og sala hafi verið mikilvæg útflutningsvara landsmanna, en lýsi var m.a. notað til að lýsa upp bæi og borgir Evrópu. Vangaveltur í þessa veru má einnig finna í bók Bergsveins Birgissonar, rithöfundar dr í norrænum fræðum, "Svarti víkingurinn", en Bergsveinn telur að þrælaveldi landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns hafi m.a. byggst upp á útflutningi á lýsi. 

Það virðast hafa verið snögg umskipti á Íslandi í gegnum tíðina hvort staðir voru blómlegir eða ekki, náttúruhamfarir hafa ráðið þar mestu. Það fer t.d ekki mikið fyrir sögu Reykjavíkur fram eftir miðöldum, annað en að þar setti fyrsti landnámsmaðurinn sig niður. Hugsast gæti að þau eldsumbrot sem hafa verið á Reykjanesskaga á þeim tíma hafi orðið til þess að sá landshluti naut sín ekki á sama hátt og hann gerir nú á tímum. 

Gautavík DB

Gautavík; teikning Daniel Bruun 1901


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Um verslunarstaðinn í Gautavík kemur það fram í Sveitir og jarðir í Múlaþingi (Búkollu), að einhverjar búðarústir hafa horfið fyrir tíma fornleifauppgraftrar því að um 1950 hafi verið múrsteinar að skolast úr bakkarofi við Búðará og á sjávarbakkanum austan við ána. 

Magnús Sigurðsson, 14.2.2021 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband