Vegurinn heim að síðasta bænum

Það rann ósjálfrátt í gegnum hugann að hér hefði vegurinn verið lagður svo fólkið gæti flutt burt, þegar ekið var á þjóðvegum landsins í síðustu viku. Sveitir fara með áður óþekktum hraða í auðn á meðan punturinn trénar blíðum í blænum, ekki lengur nokkur glóra í að hafa fyrir því að heyja. Íslenska sauðkindin, sem er orðin safngripur rétt eins og íslenska hænan og geitin, sést nú kúra í gegnum vegrykið undir einstaka rofabarði við Animal Farm Guesthouse i hita og þunga dagsins.

Þessi þróun hófst hægt og bítandi á síðustu öld. En eftir að það urðu mannréttindabrot að víxlararnir fengju ekki að græða á innfluttu kjöti til að grilla á kvöldin samkvæmt Evrópurétti, þá hefur óskapnaðurinn vafið margfalt hraðar, -og sárar, upp á sig en gaddavír á girðingastaur. Grundvellinum hefur verið kippt undan heilu sveitunum og þorpin sem þeim þjónuðu missa sitt og berjast nú fáliðuð í glasabökkum við að servera íslenska ferðamenn við að "njóta" og skoða "landið okkar".

Nú má keyra því sem næst í gegnum heilu landshlutana án þess að sjá sauðkind, og við þjóðveginn hokra nú síðustu hálmstrá Bjarts í Sumarhúsum og Gróu á Leiti undir ambögum á við "Street Food- Black Beach Resturant-Spa Lagoon-Guesthouse Bistro" bíðandi á bótum eftir seinni bylgjunni sitjandi uppi með landann flæðandi fram og til baka á öðru hundraðinu með útilegudraslið,  reiðhjól og grill í eftirdragi, röflandi yfir lambakjötsleysi í krummaskuðunum úti á landi í eylífri leit sinni að sólinni með góðri trú á að í heimahaganum þar sem ræturnar eitt sinn gréru sé allt óbreytt, þar sem nú má finna í mesta lagi part úr sumri landlorta búandi með brjótahaldara á gaddavír eða auðróna með veiðistöng. Já blessuð sértu sveitin mín.

Þegar vegurinn kom í fyrndinni fór læknirinn fyrstur, presturinn flutti næstur, síðar sást ekki til flugvélarinnar lengur þegar flóabáturinn var löngu hættur að fljóta og kaupfélögin gjaldþrota. Enda landsmenn ekki of góðir til að nota samgöngubætur á við veginn og samfélagsþjónustu á við virðisaukaskattinn ef þeir þurfa á annað borð einhverja þjónustu, hvað þá banka. Ef eitthvað fámenna sveitafélagið, sem enn veit hvað sjálfstæði og suðfé er og enn hefur auraráð, vogar sér að styrkja íbúa sína þá er meiri vá fyrir dyrum en sjálfur skítahaugurinn.

Samkvæmt samræmdu regluverkinu þarf að skipa nefnd, sem setja skal á stofn rýnihóp latínuliðs með gráðu, sem finnur sér þar til bæra sérfræðinga til ráðgjafar og skýrslugerðar um þarfagreiningu. Og ekki má gleyma að fara yfir lagalegu hliðina með tilheyrandi fjárútlátum, nóg er nú lögleysan samt. Nei það er ekki einu sinni sjálfgefið að fá gluggaumslag í pósti án þess að fyllsta lögmætis sé gætt hvað sjálfbæran kostnað varðar, því ekki vill nokkur heilvita maður brjóta mannréttindi vesalinganna sem þurfa að græða.

Nú er svo komið að hinir heilögu fjárfestar hafa komið auga á veginn sjálfan sem féþúfu, þann sem lagður var á kostnað fólksins svo það gæti farið burt, sem álitlegan fjárfestingakost við innviða uppbyggingu flissandi fábjána. Veggjöld eru því það sem koma skal, ekki vit í öðru en græða á þjóðveginum með sínum Street Food Black Beach Resturant þar sem Grayline Bus 4 You brunar með akfeita dilka af fjalli heim að síðasta bænum í dalnum til liðskipta og botox í einkareknum heilbrigðisiðnaði, -sem vel á minnst var ekki kallaður sá síðasti upp úr þurru, því það var hann ekki lengi. Guð blessi allt Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Guð blessi þig Magnús, fyrir snilldargrein.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 4.8.2021 kl. 07:01

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Tek undir með þeim síðasta.

Nema að kveðjan er úr þokusuddanum að neðan, ennþá án veggjalda.

Ómar Geirsson, 4.8.2021 kl. 08:23

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir lesturinn félagar. Það eru örfáir dagar síðan að heimsfréttir fóru af því að Ísland væri meðal í bestu staða á jörðinni ef samfélagshrun ætti sér stað, var einhversstaðar í grennd við Bretland.

Nýja Sjáland þótti koma best út sökum jarðhita, vatnsafls, öflugs landbúnaðs og hve dreifðir íbúarnir eru um eyjuna.

Ætli fábjánarnir sem koma til með að flissa fram að kosningum viti af þessu, eða hafi vitað þegar þeir opnuðu allar flóðgáttir svo landinu blæðir sem aldrei fyrr?

Með kveðjum úr móskunni að ofan.

https://www.visir.is/g/20212137812d

Magnús Sigurðsson, 4.8.2021 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband