1.12.2021 | 06:00
Hérasmellir - jarðarfarir
Síðast liðið sumar kom út bókin Hérasmellir sem inniheldur broslegar sögur af Héraði. Baldur Grétarsson tók efni bókarinnar saman, en 2017 hafði hann ásamt Jóni Inga Aðalsteinssyni tekið álíka efni saman og þeir gefið út bókina Hérasprettir.
Hérasmellir hefur m.a. að geima nokkrar stuttar frásagnir af jarðarförum þar sem sr Einar Þorsteinsson Eiðaprestur kemur við sögu. Einar tók við sem klerkur út-Héra af sr Sigurjóni Jónssyni á Kirkjubæ, sem hafði lengi verið guðsorðamaður á út-Héraði og þótti mikill hagyrðingur.
Þegar Einar prestur spurði sr Sigurjón forvera sinn hvernig honum hefði gengið prestsverkin á löngum embættisferli á Héraði, svaraði Sigurjón: “Mér gekk alltaf vel að skíra, ferma og gifta, en þeir sem ég jarðaði, gengu allir aftur.”
Hvort sr Einari gekk betur að jarða menn með sínu lagi en Sigurjóni fara af tvennar sögur. - Þegar sr Einar var að jarða Vigfús póst í Hróarstungu hóf hann líkræðuna með þessum orðum: “Hann Fúsi póstur er dáinn!” Þá heyrðist Sigurður í Húsey tauta lágt: “Það þurfti svo sem ekki að segja okkur það.”
Séra Einar var að jarða Ágúst Þorsteinsson, fyrrum bónda á Kleppjárnsstöðum í Tungu. Ágúst hafði stundað stangarstökk á yngri árum með góðum árangri. Einar komst svo að orði í líkræðunni: “Nú er Ágúst í stökkinu stóra – og enginn veit hvar hann kemur niður.”
Þegar séra Einar var að jarða Guttorm í Hleinagarði og komst hann svo að orði: “Einu sinni mætti ég Guttormi í stiga, þá var hann á leiðinni upp – en nú er hann á leiðinni niður.”
Þórhallur bóndi á Breiðavaði var sonur Jóns Eiríkssonar, búnaðarskólastjóra á Eiðum, sem síðan keypti nágrannabæinn Breiðavað og hóf þar búskap. Þórhallur hafði því fylgt föður sínum er hann flutti frá Eiðum í Breiðavað á sinni tíð. Þegar Þórhallur dó var hann jarðsunginn frá Eiðakirkju en jarðsettur á Breiðavaði. Séra Einar sá um athöfnina. Í líkræðunni komst hann svo að orði: “Nú er Þórhallur að leggja upp í ferð sem hann hefur oftsinnis farið áður.”
Af ástæðum, sem ég man ekki lengur hverjar voru, var sr Einar fenginn til að jarða föður minn, þó svo að hann hafi ekki verið út-Héraðsmaður. Er það eina prestverkið sem ég þekki til sr Einars. Ég vil taka fram að hann var við það bæði nærgætinn og virðulegur. Þeir faðir minn þekktust, voru m.a. gamlir Lions-félagar.
Einari hafði það eins og í frásögnunum hér að ofan, að leggja út frá ferðalaginu. Ferðalagið sem hann tók föður minni í var á Ford Bronco, sem Einar hafði keypt nýjan í Reykjavík, og faðir minn hafði fengið far með. Líkræðan var um ágæti Bronco jeppans, en það sem mér þótti öllu verra var að móður mín heitin var vitlaust feðruð.
Ég var á þessum tíma bæði ungur, sorgmæddur og lítt sjóaður í jarðaförum, öðrum en foreldra minna og ömmu. Afi var ekki síður sorgmæddur en við systkinin að sjá á eftir syni sínum á besta aldri.
Ég gat ekki stillt mig um að setja út á líkræðuna á leiðinni til grafar, þá sagði afi; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn, ég hef lent í miklu verri jarðarför hjá honum en þessari.
Ég hef ekki heyrt þess getið, að svo slysalega hafi viljað til, að þeir hafi gengið aftur sem sr Einar jarðaði.
Ps. Bókin hans Baldurs fæst í flestum stærri matvöruverslunum s.s. Netto og Bónus á Egilsstöðum.
Athugasemdir
Þetta er bara dásamlegt að þessar sögur séu varðveittar á þrykki. Hafi Baldur þökk fyrir og aðrir þeir sem að þessum útgáfum komu. Vonandi verður framhald á þessari útgáfu. Mér segir sá hugur um, að þar sé af nægu að taka.
Benedikt V. Warén, 1.12.2021 kl. 17:42
Já Baldur á heiður skilið fyrir að taka þessar sögur saman og koma á prent. Eins og gengur þá eru svona flökkusögur til í mismunandi útgáfur og finnst sjálfsagt hverjum sinn fugl fallegastur þar.
Baldur tekur fram í formála að ef hann hafi úr mörgum útgáfum af sögunni að velja þá láti hann söguna ekkert endilega líða fyrir sannleikann.
Þessar Héra sögur eru sem betur fer flestar þess eðlis að þær halda nafni fólks á lofti fyrir skemmtilega orðhnyttni frekar en hitt.
Sú saga sem ég skellti mest upp úr var af Þórunni móður Baldurs, þegar eiginmaðurinn Grétar hafði ekki sést heima dögum saman eftir stórafmæli í Fellum.
Þórunn var spurð hvort ekki stæði til að grennslast fyrir um hann, "Nei hún ætlaði nú ekki að gera Fellamönnum það til geðs að fara að hringja eftir honum Grétari".
Magnús Sigurðsson, 1.12.2021 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.