Veruleikafirring

Hér á blogginu hefur Guðjóni nokkrum Hreinberg orðið tíðrætt um flóttann frá veruleikanum. Hver veruleikinn er og hvert skal flýja hefur hann látið hverjum og einum eftir að ákveða. Hann hefur samt sagt að svaðrið sé golan í grasinu og kallist fjölæri. Ég ráðlegg öllum að lesa Guðjón, þó hans helsti ókostur sé hvað hann hittir naglann oft óþyrmilega á höfuðið.

Ég sagði frá því í pistli hér um daginn að veruleikinn væri valkvæður. Núna um hvítasunnu helgina var farið í veruleikann í neðra, -í fjölærið. Þar sem þrestirnir sturta nú úr hverju hreiðrinu af öðru fullu af ungum. Í sól og sumaryl, ég sat og horfði á, hreykna þrastamóður mata unga sína smá. Faðirinn stoltur, hann stóð þar sperrtur hjá, og fagurt söng svo fyllti hjartað frið.

Útidyrnar mínar í neðra eru þrem skrefum frá þjóðvegi eitt, -þar sem tímatrekktir  túristar strauja niður smáfugla við hringveginn á hraðferð sinni á milli selfí hápunkta. Þegar ég gekk sex skref í viðbót, -í gegnum húsið og út um garðdyrnar, kom ég í sumarsins paradís. Auk þrastanna gat ég fylgst með blikunum reyna við einu kolluna sem enn var á lausu á hleinunum neðan við kot. Á hverjum degi flaggaði ég svo með nýjum fána fyrir fuglunum og frelsinu.

Þessa daga las ég Álög og bannhelgi, -Árna Óla, -sem ekki þurfa alltaf að vera af því vonda. þar er á það minnst að þennan stað í neðra nam fyrstur Þórhaddur hinn gamli hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærinnar-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Þetta vita enn blessaðir fuglarnir við fjörðinn fagra.

Þegar farið er á sælureitinn við sjóinn þarf því varla að hafa með sér svo mikið sem í matinn. Á þessum árstíma vaxa, hundasúrur, fíflar og njóli eins og hvert annað illgresi við sjávarbakkann, -ekki vantar heldur gróskuna í rabbabara akurinn, -Matthildur mín sér til þess. Það eina sem maður verður að muna að hafa ekki með sér er nettenging, snjallsími og sjónvarp, svo maður verði ekki fyrir truflun af veruleikanum frá Langtíburtukistan í allri firringunni.

Ég opna hér til hliðar á spássíunni myndaalbúmið Sumar 2022 með myndum af firringunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús.

Les oft Guðjón til að auka mér bjartsýni
en umfram allt vegna þess að skrif hans eru oft ljóðræn
og uppsetningin í samræmi við það.

Mér gengur ekkert að flýja sjálfan mig!

Húsari. (IP-tala skráð) 9.6.2022 kl. 00:24

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Húsari, -Guðjón er bæði ljóðrænn og góður.

Samála því að það getur reynst erfitt að flýja sjálfan sig.

Það endar yfirleitt með því að maður finnur sig í fjöru.

Magnús Sigurðsson, 9.6.2022 kl. 06:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband