1.9.2022 | 20:29
Blokkin
Einu sinni voru húsin stór og trén það smá að beðið var í eftirvæntingu eftir að þau stækkuðu svo skjól yrði í kringum húsin. Nú má segja að öldin sé önnur á Íslandi og ef fer sem horfir þá munu byggðir landsins smá saman hverfa í hamfaraórækt. Annars var ekki meiningin að setja saman pistil um timbur heldur steypu. Fyrsta blokkin á Egilsstöðum á nefnilega hálfrar aldar afmæli á þessu ári, þ.e.a.s. ef notast er við byggingaárið 1972, sem skráð er á fasteignaskrá, en bygging blokkarinnar hófst 1971.
Blokkin var lengi vel ekki kölluð annað en blokkin eða allt þar til að annað eins hús var byggt á sömu hæð nokkrum árum seinna, þá voru þær kallaðar annaðhvort rauða eða bláa blokkin. Nú er rauða blokkin blá og bláa blokkin græn og heita Útgarður 6 og 7. Það var ekkert smá mál að ráðast í byggingu blokkar í litlu sveitaþorpi eins og Egilsstaðir voru upp úr 1970.
Það var byggingafélagið Brúnás sem stóð í stórræðunum, yfirsmiður var Þórhallur Eyjólfsson. Að byggja 16 íbúða blokk í nokkur hundruð manna sveitahreppi var því stórhuga framkvæmd. Útgarður 6 er steinsteypt í hólf og gólf úr Hólsmöl, sem er ættuð úr Jöklu, utan úr Hjaltastaðaþinghá. Þeir veggir sem ekki eru staðsteyptir eru hlaðnir úr vikursteini og múrhúðaðir.
Þetta var byggingamáti þessa tíma, innlend byggingarefni og handverk í hvívetna, flest annað en innflutt ósamsett gler, trjáviður, og auðvitað þakjárn -sem þurfti að flytja inn í trjálaust landið. Blokkin á sér margar systurblokkir á Íslandi s.s. á Akureyri og Keflavík og vafalaust var víðar notast var við sömu teikningu.
Þegar ég flutti aftur í Egilsstaði 2004 keyptum við íbúð í blokkinni, þá sagði mér Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur og rithöfundur með fleiru, -sú sem átti íbúðina, að hún hefði komist að því að hreppsnefndarmenn á Egilsstöðum hefðu verið vel meðvitaðir um að blokkin yrði byggð á besta stað í bænum. Þeim hefði þótt rétt að sem flestir gætu notið útsýnisins, -og í blokkinni væru flestir íbúar eins og kóngar í ríki sínu sem horfðu út yfir byggðir Héraðsins.
Undanfarin 18 ár höfum við Matthildur mín átt heima í Útgarði 6. Útsýnið úr gluggunum spannar allt Héraðið og gott betur. Héðan úr gluggunum má sjá inn eftir Fljótinu allt inn í Snæfell, -hæsta fjall utan jökla á Íslandi. Fljótsdalinn, Fellin, norður í Heiðarenda, Jökulsárhlíðina með sínum líparítgulu strandfjöllum, norður Tunguna eftir Lagarfljóti þar sem það mætir bláma Héraðsflóans, Eiðaþinghána, austurfjöllin með Beinageitina gægjast undan Fjarðarheiðarendanum, Gagnheiði, Tungufell og Skagafelli, mynni Fagradals, Rauðshauginn, Höttinn og Sandfellið, Skriðdalinn og Geitdalinn með Þingmúlann á milli, síðan Hallormstaðahálsinn inn af Völlunum.
Reyndar hef ég stundum lýst þessu útsýni fyrir ókunnugum og þá tíundað að auk alls þessa sjái ég yfir Öxi alla leið niður á Djúpavog auk þess sem ég sjái ofan í Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Reyðarfjörð, en þá vill það koma fyrir að fólk segir ; jæja, nú lýgurðu". En það er ekki bara að ég sjái lengra nefi mínu úr Útgarðinum heldur sé ég fyrstur manna blikur á lofti og fáa staði veit ég betri til að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn.
Í seinni tíð hefur trjágróðurinn byrgt á útsýnið niður á göturnar og þar sem gamla þorpið er, er orðið eins og að horfa yfir frumskóg, en flest kemur svo aftur í ljós þegar trén fella laufið á haustin. En það breytir ekki því að aðeins einn staður á Héraði hefur svipað víðsýni, það er í turninum á Egilsstaðakirkju, sem stendur á Gálgaásnum næsta kletti innan við Útgarðinn.
Þegar við Matthildur mín fluttum úr Laufenginu, innan við sundin blá, austur í Útgarðinn lofaði ég henni því að dvölin í Útgarðinum yrði stutt, að ég myndi byggja fyrir hana hús þegar við værum búin að koma okkar hafurtaski austur, hviss bang. Hún hafði það á hreinu að úti á landi væri ekki ástæða til að klifra upp á vindgnauðandi hæðir þar sem fólki væri staflað upp í loftið þegar nóg væri af skjólgóðum trjálundum.
Þetta hafði komið til tals inna stórfjölskyldunnar áður en ákvörðun lá fyrir svo að öllum væri ljóst að um eiðstaf væri að ræða. Mágur minn var fljótur að taka minn málstað varðandi þessa tímabundnu búsetu í Útgarðs blokkinni, þegar ég sagðist vissulega byggja hús þegar tími gæfist til, -hann sagði; þú verður nú ekki lengi að henda upp húsi, varstu nokkuð nema 10 ár að því síðast? Matthildur mín er fyrir löngu hætt að tala um að flytja úr blokkinni, segist ekki tíma að missa útsýnið.
Eins og flestir vita þá standa Egilsstaðir í miðri sveit og fátt sem gerði þéttbýli mögulegt annað enn krossgötur og flugvöllur. Klettahæðin sem Útgarðs blokkin stendur á hét áður en nokkuð hús var reist á Egilsstöðum, því búsældarlega nafni Stekkás samkvæmt Egilsstaðabók. Í mínum uppvexti var svæðið oftast kallað Búbót þó svo að Útgarður hafi verið þá orðið hið formlega nafn. Á hverju ætlar það að lifa á Snæbjörn ömmubróðir minn í Geitdal að hafa spurt þegar þorp fór að myndast á Egilsstöðum.
Þéttbýli byrjaði að myndast eftir að sjúkrahús hafði verið flutt úr Fljótsdal eftir bruna á Brekku, -byggt á Egilsstöðum 1944. Á fyrstu árunum var þorpið oft kallað Gálgaás eftir ásnum sem það var byggt sunnan undir. Veturinn 195152 stofnuðu flestir heimilisfeður í Egilsstaðakauptúni með sér samvinnufélag, og var tilgangur þess að koma upp kúabúi og framleiða nauðsynlega neyslumjólk fyrir þorpsbúa. Vandræði höfðu orðið á því þennan vetur að útvega mjólk. Félagið skírðu þeir Búbót.
Framkvæmdahraði var mikill hjá þessu nýja félagi. Land var fengið og réttindi til nýbýlisstofnunar á því samþykkt af Landnámi ríkisins. Bústjóri var ráðinn, Björgvin Hrólfsson, -búfræðingur frá Hallbjarnarstöðum og frumbyggi í þorpinu. Strax um vorið 1952 hófust framkvæmdir. Byggt var fjós yfir 21 fullorðinn grip, þurrheyshlað 325 m3 að stærð og votheysturnar 2 samtals 144 m3. Auk þess mjólkurhús. Húsunum var valin staður framan í hæðinni utan við Gálgaklett.
Síðari hluta árs 1953 hætti Björgvin ráðsmannsstarfinu, en við tók Metúsalem Ólason frá Þingmúla og hafði það með höndum þar til búið var selt vorið 1956 Ólafi Sigurðssyni frá Bæjum á Snæfjallaströnd, en hann hafði þá búið á Miðhúsum nokkur ár. Búbótarfélagið var jafnframt lagt niður.
Árið 1956 eru hinar upphaflegu forsendur gjörbreyttar og eru þá Ólafi Sigurðssyni seldar eignir Búbótarfélagsins og félaginu slitið. Ólafur, sem oftast var kallaður Óli í Búbót, bjó á jörðinni í 10 ár og byggði á henni íbúðarhúsið Útgarð sem seinna varð nafngjafi fyrstu fjölbýlishúsagötu Egilsstaða þar á hæðinni. Vernharður Vilhjálmsson frá Möðrudal nytjaði jörðina eftir að Ólafur hætti búskap 1966.
Árið 1969 keypti Egilsstaðahreppur öll mannvirki á jörðinni en landið rann aftur til ríkisins. Ég spurði þá bræður Eyþór og Sigurð syni Óla hvort Útgarður væri goðsögulegt nafn, þeir sögðu báðir svo ekki vera pabbi þeirra hefði skýrt húsið Útgarð vegna þess að það hefði þá verið svo langt fyrir utan þorpið.
Á árunum 1970 1980 var ævintýraleg uppbygging við Útgarð og á landi Búbótar. Túnin urðu á svipstundu alsett húsum þar sem nú eru götunöfnin með völlum og tröðum. Menntaskóli var byggður á milli Útgarðs og Gálgaáss, þar sem reis Egilsstaðakirkja. Íþróttahús og sundlaug austan við Útgarðinn, rétt við skólann og menntaskólann.
Breytingarnar á hálfri öld hafa verið ótrúlegar og trén, sem kúrðu sunnan undir vegg við einstaka hús, hafa vaxið tugi metra upp fyrir húsin. Íbúar eru fyrir löngu hættir að bryðja moldarrykið, sem rauk af götunum í suðvestan strekkinginum á heitum sumardögum, og geta nú gengið hnarreistir um göturnar í blíðalogni og hlustað laufvinda ljúfa hvísla í trjátoppunum.
Myndina tók ég 17. júní 1973, þá var Útgarðsblokkin nýlega komin í notkun, íbúðarhúsið Útgarður er vinstra megin við Blokkina og Búbótar fjósið fyrir framan blokkina
Myndin er tekin við Vilhjálmsvöll, á nákvæmlega sama stað og efri myndin, fyrir nokkrum dögum síðan
Búbót áður en blokkin var byggð á hæðinni fyrir aftan sem mun hafa heitið Stekkás samkvæmt Egilsstaðabók. Búbót var brotin niður árið 1978 en síðustu árin höfðu hestamenn þar aðstöðu
Mynd frá sama stað og efri myndin af Búbót, austurendi blokkarinnar gægist á milli trjánna. Fyrir tveimur árum var grafinn rafstrengur að rafbílahleðslustöðvum, sem eru við græn bílastæði Menntaskólans, ég kíkti ofan í skurðinn og viti menn blöstu þá ekki við veggjabrot úr Búbót
Enn má sjá klappir gægjast upp úr, inna á milli trjánna norðan við blokkinni á þeim gróðurlausu klettahrjóstrum sem hún var upphaflega byggð á
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 2.9.2022 kl. 06:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.