Amma

Kalman, Keltar, Hvítaskáld og Heimurinn eins og hann er, hvað á þetta sameiginlegt? Kannski er ekki skrýtið að ungir drengir eigi í vök að verjast i heimi tölvuleiksins og glími við ólæsi í skólanum. Nú er jólabókalestrinum hjá mér lokið og má segja að þær hafi verið skrifaðar án hrútaskýringa af síðmiðaldra karlmönnum í tilvistarkreppu í þetta sinnið, -ekki beinlínis nein Tarzan ævintýr.

Heimurinn eins og hann er, eftir Stefán Jón Hafstein er að mestu rétttrúnaður um hungur og hamfarir, en í því að þvaðra um allt og ekkert er Stefán Jón reyndar bestur með sínu stórskemmtilega orðfæri, mér datt samt af og til Gandih í hug við lesturinn, "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum". En af því að ég hef bæði kynnst Stefáni af góðu og lesið New York - New York þá las ég um hörmungar heimsins eins og hann er mér til ánægju.

Morð í Naphorni eftir Ásgeir Hvítaskáld er skáldsaga um síðustu aftökuna á Austurlandi, ágætis stílfærð frásögn af hryllilegum atburðum, en Hvítaskáldið hefði mátt prófarkar lesa hana áður en hún fór í prentun, auk þess geta betur heimilda, úr því að hann getur þeirra á annað borð, því þar má finna kafla sem eru annarra en skáldsins því sem næst orðrétta, rétt eins og reyndar í margri lærðri lokaritgerðinni.

Keltar, bók Þorvaldar Friðrikssonar er keimlík stórskemmtilegri bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, auk þess sem hún bendir á það, sem hefur verið bent á áður, að móðurmálið er ekki einhlítt, enda landnámsmenn yfir 60 % Keltar í kvenlegg, samkvæmt genafræðinni og karlleggurinn stundum af keltneskum kóngum kominn samkvæmt ættfræði Landnámu, alls ekki ólíklegt að feður, mæður og ömmur í þá tíð hafi kennt börnum að tala. Galli er hvað bókin verður löng með keltnesku orðskýringum, og er ég sammála Ingólfi Sigurðssyni bloggara að orðsifjarnar séu oft full langsóttar.

Guli kafbáturinn hans Jóns Kalmans Stefánssonar er skáldsaga um sannleikann, -hans æsku, og einhver sú al best hrærða steypa sem ég hef augum litið. Ég hafði áður lesið Himnaríki og helvíti eftir Kalman og þótti sú bók aldeilis ágæt, en Guli kafbáturinn tekur henni langt um fram. Það eina sem mér fannst aðfinnsluvert var að sagan toppaði ekki í lokin, -ef svo hefði verið væri þetta grjót hörð steypa. Kalman eyðir síðunum eftir toppinn í að skrapa og  fínpússa steypuna þar til Guli kafbáturinn rennur út í sandinn og strandar í algildum sannindum, -þeim að það stýrir lífinu sem býr innra með okkur.

En hvernig kemst amma inn í jólabókaflóðið? Ég setti bloggið mitt fyrir skemmstu á pásu í einhvern tíma. Þannig er að safnast hafa upp hjá mér minnis- og dagbækur í gegnum tíðina, þeirra sem mig ólu, -rétt eins og þjóðsögur hafa gert allt frá bernsku. Til þess að fara yfir þessar minnis- og dagbækur þarf að gefa sér tíma, rétt eins og lesa þjóðsögur og hef ég gert það nú um stund á milli þess sem ég les langlokur enda hefur ekki beint viðrað til  steypu.

Ég fékk þá hugmynd að gera úr þessu bók fyrir hana Ævi, en hún er orðin fimm ára. Ævi á, auk okkar Matthildar minnar, ömmu (abuela) í Barcelona og afa (abuelo) í Hondúras. Engin skildi ætla að sá ættleggur Ævi, sem nam land nýlega, eigi ekki sína forsögu. En með því að koma dagbókum afa og ömmu í tölvutæk orð varðveitast ævidagar, sem lítið er til um og annars hefðu glatast. Þá á hún upplýsingar um sinn íslenska uppruna með orðum formæðra og -feðra þegar fram líða stundir.

Ævi er einstaklega áhugasöm um bókina og spyr reglulega; afi ertu ekki að verða búinn með bókina mína, -því hún ætlar að myndskreyta síðurnar sem ekki hefur verið skrifað á í dagbókunum. Við að stauta í gegnum dagbækur afa og ömmu rifjast margt upp og þar á meðal hvaða aðferðum amma beitti, fyrir meira en 60 árum síðan, þegar þurfti að koma dreng til manns sem arftaka feðraveldisins.

Í Biblíu ömmu fannst miði eftir hennar dag, þar sem hún hafði skrifað: Til minna nánustu - ég fyllist óumræðanlegu þakklæti er ég hugsa til ykkar allra og samverustundanna og kærleika ykkar til mín og umburðalyndisins, og einnig til Guðs sem gaf mér ykkur öll, og hið dásamlega líf, einnig fyrir sorgina, sem er besti uppalandi sem ég veit, mýkir hug og hjarta, forðar frá ofdrambi. “Ey vitkast sá sem aldrei verður hryggur”.

Ein af fyrstu minningum mínum er þegar amma fór með bæn með mér fyrir svefninn. Þá var hún kannski búin að spyrja mig hvort ég hefði munað eftir að þvo mér um hendur og andlit, auðvitað játti ég því, -það hefur þá verið kattarþvottur; sagði amma stundum, og brosti sínu einstaklega bjarta brosi. En bænin var svona:

 

Ó, Jesús bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ, breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

 

Mér gott barn gef að vera

og góðan ávöxt bera,

en forðast allt hið illa,

svo ei mér nái að spilla.

 

Það ætíð sé mín iðja

að elska þig og biðja,

þín lífsins orð að læra

og lofgjörð þér að færa.

 

Þín umsjón æ mér hlífi

í öllu mínu lífi,

þín líknarhönd mig leiði

og lífsins veginn greiði.

 

Mig styrk í stríði nauða,

æ, styrk þú mig í dauða.

Þitt lífsins ljósið bjarta

þá ljómi í mínu hjarta.

 

Með blíðum barnarómi

mitt bænakvak svo hljómi:

Þitt gott barn gef ég veri

og góðan ávöxt beri.

 

Það virtist að bænin sem amma reyndi að innprenta mér í bernsku bæri ekki tilætlaða árangur. Á yngri árum voru mínir óknyttir margir og þegar kom fram á unglingsárin tengdust þeir yfirleitt óstjórnlegri brennivínsdrykkju. Oft vaknaði ég upp í tukthúsinu á Egilsstöðum eftir næturdvöl án þess að hafa hugmynd um hvers vegna. Tvisvar fékk ég skilyrðisbundna dóma, og dómsáttum sem lauk með sekt hef ég ekki tölu á.

Eitt skiptið eftir óknytti mína, sennilega 1978, komu amma og afi í heimsókn til foreldra minna. Ég var ekki nógu fljótur að láta mig hverfa. Amma náði mér á eintal, að venju skein gæskan úr andlitinu. Um stund hélt ég að hún hefði ekki frétt það sem væri á allra vitorði, en svo var ekki, hún vildi bara að ég vissi af því beint frá henni sjálfri að hún bæði fyrir mér, og sagði það með svip alvörunnar.

Skömmu eftir 17. júní 1983 var ég að vinna við múrverk í íþróttahúsinu á Egilsstöðum og datt aftur fyrir mig af ástandi þannig að hnakkinn skall fyrstur á steinsteypt gólfið. Þegar ég stóð upp, sem gerðist snarlega, var ekkert í höfðinu, ekki ein minning. Var þar að auki hvorki áttaður á stað né stund, þekkti ekki vinnufélagana, en var altalandi á íslensku sem ég notaði til að Guð sverja að allt væri í þessu fína.

Ég man eins og gerst hafi í gær hvað það var mikið hjartans mál að engin kæmist að því allt hefði þurrkast út af harða diskinum. Benni heitinn Jónasar, múrarameistarinn minn, sem ég þekkti ekki baun þá stundina, spurði hvort ég vildi ekki taka því rólega sem eftir væri dags sem mér fannst ekki ólíklegt að eðlilegt væri að svara játandi.

Benni keyrði mig svo heim að garðhliði í götu sem ég þekkti ekki, en vissi að ætlast var til að ég færi inn um húsdyrnar innan við hliðið. Þegar ég kom inn settist ég í fyrsta sætið sem ég sá, pabbi vildi vita hvers vegna ég kæmi svona snemma heim en fékk svar út í hött. Enda kannaðist ég hvorki við manninn né tvö yngstu systkini mín sem enn voru í föðurhúsum. Annað slagið þegar lítið bar á fór ég út í glugga til að horfa út ef það kynni að verða til þess að sjá eitthvað kunnuglegt.

Eftir að pabbi hafði farið út í íþróttahús, og spurt Benna hvers vegna ég hefði komið heim, ákvað hann að fá mig með sér út á sjúkrahús. Læknirinn sem skoðaði mig var þáverandi Borgarlæknir sem leysti af á Egilsstöðum tímabundið. Hann spurði pabba hvernig hann hefði komist að því að ekkert væri í kollinum á mér, því þegar svona gerðist væru þeir sem fyrir því yrðu líklegastir til að fela það með öllum tiltækum ráðum.

Pabbi sagðist hafa séð að persónuleikinn var horfinn, það hefði lítið minnt á elsta son hans í manninum sem kom inn úr dyrunum allt of snemma heim úr vinnunni. Læknirinn sagði að högg á hnakka gæti hitt á minnisstöð með þeim afleiðingum að hún þurrkaðist út tímabundið en minnið ætti allt eftir að koma til baka á innan við sólarhring, sem stóðst nákvæmlega eftir því sem ég best veit. En ég var svo á sjúkrahúsinu í tæpan sólahring til öryggis.

Amma hafði komið þennan sama dag á sjúkrahúsið vegna lasleika í höfði. Þarna hittumst við og horfðum út um suðurglugga og virtum fyrir okkur útsýnið inn Héraðið horfandi yfir nýhafnar byggingarframkvæmdir öldrunardeildar við sjúkrahúsið. Ekki datt mér í hug þá að amma hefði farið að heiman í síðasta sinn og ætti ekki afturkvæmt vegna minnisleysis, svo skýrar voru samræður okkar um það sem fyrir augu bar út um gluggann. Amma var fimm síðustu ár ævinnar á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum. Um þá dvöl hafði séra Ágúst Sigurðsson þessi orð í minningagrein um ömmu.

"Frú Björg var að öllu á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum og óvíst að ætla til hvers hún náði umhverfis. Var hún milli heims og helju, sem kallað er, farin að líkamsheilsu og næstum á burt úr þessum heimi. Hin afar fíngerða kona hafði verið sterk í miklum og endurteknum sjúkdómsáföllum fyrr á árum. Nú um megn fram, er kjarkurinn og þolgæðið, lífsviljinn og þakkarhugurinn á hinu langa hausti aftraði henni að skiljast við. Frú Björgu voru báðir heimar jafn kærir. Og hún átti himinvonina góðu. Langt fram yfir hin lengstu lög lífgaðist hljóður hugur orðlausrar líkamsveru við jarðlífsminnin ljúfu. Og Magnús kom til hennar upp á hvern dag. Það var nóg."

Séra Ágúst minnist á daglegar heimsóknir afa þau ár sem hún dvaldi á sjúkrahúsinu, en hjá henni sat hann ávalt góða stund. Dóttir mín hefur unnið á öldrunardeildinni og síðar hjúkrunarheimilinu á Egilsstöðum. Hún segir að enn sé talað um tryggð afa og ömmu 35 árum eftir brottför hennar. Ég heimsótti ömmu aðeins einu sinni á sjúkrahúsið og fannst amma ekki vera þar, en daginn sem amma dó þá kom hún í óvænta heimsókn til mín.

Haustið 1988 þann 20. október var ég að vinna við múrverk í nýja íbúðarhúsinu fyrir Kristján á Teigarhorni. Í kringum kl. 11 um morguninn var mér allt í einu hugsað til ömmu og sá ljómandi brosið hennar birtist mér fyrir hugskotssjónum. Ég hugsaði ekki frekar út í það þá um morguninn en amma hafði verið á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum frá því 1983 svo að segja út úr þessum heimi.

Eins og ég sagði hér að ofan hafði ég aðeins einu sinni, vorið 1984 áður en ég fór til Færeyja til að vinna hjá Jörgen heitnum Kyster múrarameistara í Þórshöfn, heimsótti ömmu á sjúkrahúsið. Ég hafði verið á sjó og síðan í Reykjavík frá því ég hitti ömmu óvænt á sjúkrahúsinu sumarið áður, ástand hennar snerti mig þá það djúpt að ég treysti mér ekki til að heimsækja hana aftur. En þarna á góðviðris haustmorgni inn á Teigarhorni, öllum þessum árum seinna fékk hún mig til að minnast brossins síns.

Eftir að hafa farið í hádegismat í Sólhól til Matthildar minnar og barnanna okkar, sem þá voru innan við eins árs, fór ég aftur inn í Teigarhorn til vinnu. Upp úr klukkan eitt kom Matthildur keyrandi inn eftir og sagði að afi hefði hringt rétt eftir að ég fór úr mat og sagt að amma væri dáin. Hún hafði skilið við um morguninn, -á sömu stundu og ég sá brosið hennar ljóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér Magnús fyrir að deila með okkur þessum vitnisburði um kærleikan sem var milli þín og ömmu þinnar, Bjargar.

Mér finnst eins og þú sért að lýsa mér og ömmu minni í frásögn þinni.

Amma mín hét Sigríður Gísladóttir. Hún átti einnig þessa sömu bjargföstu trú, á Jesú Krist sem frelsara sinn. Áhrif ömmu minnar voru mikil á alla stórfjölskyldu hennar og líklega varð ég prestur vegna hennar boðunar og bæna.

Margir á okkar aldri gætu borið vitni um að hafa átt ömmu sem bjó yfir takmarkalausum kærleika að miðla til þeirra. Og það réði úrslitum um þá stefnu sem líf þeirra tók til heilla.

Sú blessun sem hefur verið yfir landi okkar og þjóð alla okkar lífs tíð, þinnar og minnar, er að þakka bænum og trú fyrri kynslóða.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 22.1.2023 kl. 00:38

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Guðmundur Örn.

það má vera öllum ljóst að máttur bænarinnar er mikill. Nú á tímum virðist trúin á bænina því miður vera vera tabú.

Samt má finna margan vitnisburðinn um annað, og þá hvernig bænin hefur unnið með kærleikanum. Margir, sem hefur verið beðið fyrir, hafa í kjölfarið eignast trú á betra lífi.

Pistillinn átti nú ekki að vera um mig þó þannig færi, heldur hvernig það er okkar eldri að gefa þeim yngri trú á tilveruna, og hvernig þeir sem gengnir eru fóru að því þegar í óefni stefndi.

Takk fyrir þína sögu af þinni ömmu.

Magnús Sigurðsson, 22.1.2023 kl. 08:30

3 identicon

3Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.

4Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði 5er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína.

Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér. 2. Tím. 1.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 22.1.2023 kl. 11:09

4 identicon

Sæll Magnús.

Það er nú stílbrot af minni hálfu að skrifa yfirleitt nokkuð
eftir jafn magnaðan pistil sem og þau orð sem Guðmundur Arnar skrifar;
bestu þökk fyrir pistilinn.

Er von á bók þeirri minninga um næstu jól eða fyrr?

Húsari. (IP-tala skráð) 22.1.2023 kl. 13:43

5 identicon

*Biðst forláts, - Guðmundur Örn átti að sjálfsögðu að standa þar.

Húsari. (IP-tala skráð) 22.1.2023 kl. 13:46

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir góð orð í minn garð Húsari góður.

Guðmundur Örn undirstrikar vel í seinni athugasemdinni hverjar höfðu gagnlegustu áhrifin á okkur í uppeldinu, þó svo að það sé nú í móð að kalla þessi fræði feðraveldið.

Hvað bók varðar þá eru það afritaðar minnisbækur ömmu minnar og afa fyrir hana Ævi, sem nú er aðeins 5 ára, og tel ég mig því hafa rúm tímamörk, en samt er það svo að þetta gerist ekki á meðan þær eru niður í gamalli ferðatösku hjá kalli sem er að verða gamall. Þetta les sig víst hvorki né skrifar sjálft.

Varðandi minn þátt í frásögninni af ömmu þá er þar um kafla í gömlu þjóðmenningar blogg að ræða, af öðru tilefni lestur dagbóka ömmu. 

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1302730/ 

Magnús Sigurðsson, 22.1.2023 kl. 14:29

7 identicon

Hef lent í þessu sama að fá högg á hnakkann og tapa minninu í nokkra klukkutíma.  Til mig reyndar heldur minnisminni eftir, ef ég man rétt!

Sonarsonur systur minnar á til smá óknytti en þótti það alveg stórmerkilegt þegar móðir mín sagði honum þegar hún gaf honum mjólk og kökur að langamma gæfi líka óþekkum!  Áður hafði hún oft sagt að hún skammaði aldrei langömmubörnin og stendur náttúrulega við það. 

Ömmur eru bestar!

Takk fyrir pistil, maður þarf greinilega að fara að lesa Kalmann!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 22.1.2023 kl. 14:55

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Bjarni Gunnlaugur, -og fyrir að minna á minnisleysið.

Já, ég held ég geti tekið undir það með þér, -ef ég man rétt, þá mundi maður meira, -og að mömmur, ömmur og langömmur eru bestar, svolítið misjafnt samt hvað þær eru skömmóttar.

Ég mæli með Kalman, hann lýsir að vísu feðraveldinu ekki fallega. Babbi og Guð suppland vodka með Jonnny Cash sem sá auðvitað um sönginn. En allir voru þeir hörku kempur í steypu og stríði.

Takk fyrir ömmu söguna, hún staðfestir þetta með hverjar eru bestar.

Magnús Sigurðsson, 22.1.2023 kl. 19:34

9 identicon

Bestu þakkir Magnús, að minna hér á ömmurnar og bænarsálminn fagra um Jesú bróður besta.

Eiginlega finnst mér allur kjarni viskunnar vera fólginn í þeim góða, sanna og fagra bænarsálmi.

Og núna, þegar maður nálgast óðfluga næstsíðasta erindið, óhjákvæmilega, þá biður maður þess að svo megi verða sem þar og í því síðasta segir og þar reynir á okkur afana að koma því til skila.

Með vonarljós í hjarta og sinni og þakklæti fyrir þína góðu pistla.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.1.2023 kl. 15:21

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athugasemdina Pétur Örn.

Þú ferð með sannmæli þegar þú setur þennan sálm í samhengi við kjarna viskunnar, svo yfirgripsmikill er hann í einfeldni sinni.

Ég hafði ekki hugsað út í þetta með næstsíðasta erindið, fyrr en ég fór að rifja bænina upp eftir að hafa grúskað í dagbókum ömmu.

Sennilega hef ég verið sofnaður á fyrst eða öðru versi og ekki talið mig þurfa að vita framhaldið þegar ég vaknaði spenntur að morgni til að vitja um silungsnetin með afa.

Hratt flýgur stund, heldur betur, og þegar þú bendir á það þá rennur upp fyrir mér hvað loka erindið felur raunverulega í sér.

Ábyrgð þeirra fullorðnu. Þeim beri ætið að varðveita barnið í hjarta sínu og koma kjarna viskunnar áfram til baka á aldri ömmu.

Þakka þér fyrir að skýra þetta meistaralega.

Magnús Sigurðsson, 23.1.2023 kl. 18:46

11 identicon

smile

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 2.2.2023 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband