Með tárin í augunum á Tene

það er skipulega verið að gera út á Ísland sem eitt dýrasta land í heimi með því að flytja inn láglaunafólk og hirða mismun af okri og lágum tilkostnaði í launum.

Þar að auki er verið að nýta sér eigur og innviði þjóðarinnar til að moka í eigin vasa, -heimta snjómokstur á jóladag, að björgunarsveitir séu stand bæ 24/7 í sjálfboðavinnu, svo ekki sé nú minnst á skinhelgina í kringum aflátsbréfin af hreinni orku þjóðarinnar.

Þessi fégræðgi er orðin aumari en allt sem aumt er, og það sem verra er, að fyrirtæki landsmanna eru meir og minna að flytjast á hendur erlendra auðróna, a la Landsíma Míla og Icelandair Hotels, innlendum auðrónum til arðs og yndisauka aflands.

Þjóðkjörnir stjórnmálmenn innleiða hver um annan þverann með hraði regluverk andskotans, meðan unga fólkið er skuldsett upp í rjáfur í eigin landi. Flotið er sofandi að feigðarósi og tærnar taldar á Tene, eins og viðundrið í Seðlabankanum orðar það, um leið og kynnt er undir óðaverðbólgu með okurvöxtum.

Því er stundum fleygt hér á þessari síðu að flissandi fábjánar fari með völdin. Það er reyndar of vel meint að kalla þetta fólk fábjána, er í raun þess eina afsökun, því ef ekki þá er varla um annað en hreina illsku að ræða þegar sama kynslóð stjórnmálamanna fer í annað sinn gegn fólkinu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. -Og mestöll verkalýðsforustan stein heldur kjafti rétt eins og síðast.

Við félagarnir í steypunni vorum að steypa í rokinu um daginn, 50/50 íslendingar og austantjaldar. Eftir steypuna fórum við á Grill-66, sem eitt sinn var einfaldlega OLÍS. Þar voru á næsta borði tveir ca 9 ára pattaralegir pollar, með 66°N húfurnar sínar og snjallsímana, babblandi sín á milli á hroðalegri ensku. Þó ég sé íslendingur, rétt eins og þeir, þá skildi ég varla orð.

Félagi minn í steypunni neitar að tala við austantjaldana annað en íslensku. Mér finnst rétt að Íslendingar taki 50% mark á honum og tala skilyrðislaust íslensku sín milli, og reyni að innprenta börnum mikilvægi tungunnar. Við verðum nógu fljót að tapa okkur í glóbalinn samt með fátæklegri hroða ensku.

það verður of seint að ætla að endurheimta landið sitt, tala tungumálið og verja unga fólkið eftir að íslenska þjóðin verður orðin örlítill minnihluta hópur á Íslandi á harðmæltri ensku. Þá gætu Jónar og Gunnur þessa lands átt eftir að syngja “Ég er kominn heim” með tárin í augunum úti á Tene.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Einn besti og hressilegasti pistill sem ætti að vera skyldulesning hjá landanum og stjórnmálamenn hefðu gott af að lesa þetta....

Jóhann Elíasson, 17.2.2023 kl. 14:35

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir með Jóhanni og með tárin í augunum..coolcoolcool

Sigurður Kristján Hjaltested, 17.2.2023 kl. 14:55

3 identicon

Það er auðvelt að að flytja inn láglaunafólk þegar hæstu laun í heimi fyrir þessa vinnu eru að finna á Íslandi. Hingað flykkist fólk að til að njóta bestu kjara í heimi. Og þó Efling vilji ekki ráða erlenda starfsmenn þá vill Efling að þeim fjölgi sem mest í Íslensku þjóðfélagi. Baráttufundir Eflingar fyrir ábót á hæstu laun í heimi eru haldnir á Ensku.

Fyrirtæk landsmanna eru meir og minna að flytjast á hendur erlendra auðróna. Íslendingur sem á fyrirtæki sem skilar hagnaði er úthrópaður af samlöndum sínum sem þjófur, okrari og þrælahaldari. Það er því fáum Íslendingum freisting að reka fyrirtæki á Íslandi. Erlendum auðrónum er sama um álit Íslendinga og geta fengið gróðavænleg fyrirtæki fyrir lítið á Íslandi, ekki vilja Íslendingar þau.

Unga fólkið er skuldsett upp í rjáfur í eigin landi. Það er af sem áður var að unga fólkið byggði sjálft, kvöld helgar og önnur frí, lifði sparsamt og vann alla yfirvinnu sem bauðst því engin lán var að fá. Eða fengu lánað gegnum klíku fyrir húsi og borguðu til baka bílskúrsverð. En almúganum hefur aldrei reynst auðvelt að eignast eigið húsnæði og því vandséð hvernig nú á að bregðast við þeirri kröfu. Hvernig á að eignast hundrað fermetra penthouse íbúð í hundrað og einum á taxtalaunum í dagvinnu með styttri vinnuviku og samt komast á djammið, til tene og á tónleika í london? Snúið, ætli sé til app?

Vagn (IP-tala skráð) 17.2.2023 kl. 18:03

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið landar.

Ég hef sjálfur verið atvinnurekandi meira en helming þess tíma frá því ég hóf atvinnuþátttöku. Fyrsta Pólverjan réði ég til vinnu hjá mínu fyrirtæki árið 1991. Síðustu 9 árin hef ég unnið hjá stóru byggingafyrirtæki, sem er nú með í kringum 40 starfsmenn, um 1/4 starfsmanna koma austantjalds.

Fyrstu árin hjá þessu fyrirtæki var ég mest einn íslendingur með hóp af Pólverjum. Skiljanlega voru ekki allir sem kærðu sig um að vinna með erlendum starfsmönnum, stór hluti vinnunnar er vegna félagsskaparins. Stundum vorkenndi ég mér svolítið, spjallið í kaffitímanum var ekki sama eðlis og hjá okkur löndunum. Allir Pólverjarnir eru enn í vinnu hjá fyrirtækinu, það er engin lengur sem ekki vill hafa þá með sér í verk.

Þessar vikurnar samanstendur hópurinn sem ég vinn með dags daglega af tveim Íslendingum og einum Rúmena. Eldri landinn er vinnufélagi minn frá unglingsárunum, sá yngri er tvítugur og eitt mesta múraraefni sem ég kynnst um ævina, upprennandi steypukall, enda tekur hann sveinspróf í vor. Rúmeninn er á sama aldri og börnin mín, talar reiprennandi ensku, afbragðs starfskraftur og gat valið um vinnu hvort heldur sem var í Noregi, Englandi eða á Íslandi, enda hefur hann unni aflands hátt á annan áratug.

Tengdasonur minn er frá Hondúras, já einn af þeim sem kom til að leita sér að betri tekjum, en ekki til tekjuauka fyrir lögfræðistóð góða fólksins og Útlendingastofnunnar. Hann hefur unnið frá degi eitt á Íslandi og fær greitt eins hver annar og Íslendingur í sinni vinnu. Enda harðduglegur og vöntun á fólki eins og honum í ferðaþjónustu, rétt eins öll störf sem þarf að vinna með höndunum.

Margir þessara manna hafa keypt þak yfir höfuðið fyrir fjölskyldur sínar, hvort sem þær eru aðfluttar eða blandaðar og þar er ekki um neinar penthouse íbúðir að ræða, heldur hús og íbúðir sem kosta á bilinu 30 - 60 milljónir sem þarf að greiða 14-18 sinnum til baka ef tekið er lán fyrir allri upphæðinni. Bæði unga fólkið okkar og þetta fólk sem vinnur vinnuna sem þarf að vinna öðruvísi en með rassgatinu, hefur ekki ímyndunarafl til sjá hvernig flissandi fábjánar vinna þegar kemur að þakinu yfir höfuðið.

Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja þetta um þvæluna í þér Vagn, -en hafðu nú einu sinni vit á að grjót halda kjafti, því að þú hefur þér það í besta falli til afsökunar að vera bæði heimskur og illa upp alinn.

Magnús Sigurðsson, 17.2.2023 kl. 19:20

5 identicon

Sannleikanum verður hver sárreiðastur...

Vagn (IP-tala skráð) 17.2.2023 kl. 19:38

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Akkúrat Vagn, við eigum okkur nefnilega ekki aðra afsökun en þessa sem ég koma inn á hér að ofan, og því varla viðreisnar von.

Magnús Sigurðsson, 17.2.2023 kl. 19:48

7 identicon

Allt satt og rétt hjá þér í pistli Magnús, enda tilheyriðu þeim hluta fólks á vinnumarkaði sem draga Vagninn!   ;-) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.2.2023 kl. 13:15

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir góð orð í minn garð, Bjarni.

Ég er reyndar orðin lélegur dráttarklár bæði gugginn og grár, framtíðin er unga fólksins. Eins og við vitum þá var unga fólkinu, sem var að koma yfir sig þakinu, fórnað í hinu svokallaða hruni um árið. Það var borið út á Guð og gaddinn.

Tugþúsundir yfirgáfu landið þá sem öreigar. Hyskið sá um sína með afskriftum, enda vantar hvorki fræðinga né flissandi fábjána í nágrannlöndunum. Síðan var tekin sú ákvörðun, frekar en bæta þeim hlunnförnu tjónið, að skipta um þjóð í landinu, fá í staðinn erlendar hendur á lélegum launum.

Því er það helvíti hart ef nú í annað sinn á þessari öld á að fórna fólkinu á altari Mammons, sem þú segir að dragi vagninn, auðrónum til arðs. Undanfarin ár hef ég orðið vitni af því að ungum mönnum í steypunni hefur verið að fjölga, þessi þróun hefur vakið mér þá bjartsýni að ég gæti sest í helgan stein sáttur.

Magnús Sigurðsson, 18.2.2023 kl. 14:13

9 identicon

Eftir því sem gráu hárunum hefur fjölgað hjá mér, þá hef ég hallast svona heldur hægra megin við miðju í því hvernig efnahagslífinu sé best fyrir komið. 

Mín kynslóð varð vör við hvernig kommúnisminn reið sjálfum sér á slig, ítrekað og reyndist fullkomið falsljós. 

Gallinn er bara enn og aftur hve auðrónarnir koma miklu óorði á kapítalið. 

Virðast ná höndum saman við leifarnar af kommahugsunarhættinum sem alltaf eru að troða sér á nýja belgi. Enda báðum manntegundum mjög svo umhugað að fá sér þægilegt sæti á velferðarvagninum og láta aðra draga. 

Afskaplega eru þeir nú fáir ríkisbubbarnir sem manni sýnist hafa sótt sinn auð eitthvert annað en undan pilsfaldi ríkisins, á ríkisvörðu einkaleyfi í hendur almennings eða með hreinum þjófnaði oft lögvörðum. Sjálfsagt mætti lengi telja enn. 

Kannski ætti ég ekki að segja mikið þar sem við kúabændur búum einmitt við ákveðna útgáfu af þessu kerfi.  Enda "okkar" fyrirtæki alið af sér suma af verstu auðrónunum. 

En við búum þó við að þeir sem af okkur kaupa hafa aðkomu að því verði sem fyrir er greitt. Þó eitthvað vanti reyndar upp á skilning verkalýðsforustunnar á að bændur þurfi að lifa eins og aðrir. 

Spurning hvort ekki þurfi aðeins að mýla með svipuðum hætti bankakerfið,olíufélögin,tryggingafélögin og að maður tali nú ekki um húsfélögin. Ef ekki finnst annað betra til að hemja svindlið og græðgina á þeim vettvangi.

Trúlega verður þar þó þungt fyrir fæti þegar embættismannakerfið og lagatæknifíflin taka höndum saman að þyrla upp blekkingarmekki utanum svindlarana með dyggum stuðningi þingbrúðanna sem ýmist gapa hver upp í aðra í umræðum um nákvæmlega ekki neitt eða samþykkja og þá jafnvel með þögninni gjafagerninga á eigum almennings til pilsfaldakapítalistanna.  Stundum ekki einu sinni reynt að fela, sbr. söluna á Íslandsbanka til "fagfjárfesta".

"Þeir eiga ekki að stela sem ekki kunna að fela" sagði frægur sunnlenskur bófi.   En sú regla er ekki einu sinni virt enda til hvers þegar maður kemst upp með hvað sem er?  

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 18.2.2023 kl. 16:40

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Bjarni, sennilega endar með því að þeir sem kunna að stela rétt fái sanngirnisbætur frá ríkinu, -svona rétt eins og náhirðin.

Ég ætla að setja hér inn nokkrar línur af hinni frómu facebook sem landsbyggðarmóðir ritaði þar í vikunni vegna dóttur sinnar. Færslan er mun lengri og studd með myndum af skriflegum gögnum, en ég leifi mér bara að birta niðurlagið hér. 

Hér má sjá lánin sem barnið mitt samþykkti að taka og greiða fyrir skitna íbúðarkompu á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ég er brjáluð.

Lán 1 kr. 27.860.000, 480 gjalddagar samtals 471.520.999

Lán 2 kr. 7.980.000, 480 gjalddagar samtals 160.961.003

Hún semsagt fær lánaðar 35.840.000 og skrifar undir það að lánið greiðist næstum 18 falt til baka eða krónur 632.482.000, semsagt 17,6 sinnum hærra en lánað var

Ég þarf ekki kennslustund í verðbólgu, vöxtum, verðbótum, verðtryggingu, föstum vöxtum, að safna eigin fé og svo framvegis. Þetta er veruleikinn sem blasir við fólki í dag, ungum sem öldnum.

Magnús Sigurðsson, 18.2.2023 kl. 18:03

11 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir góðan pistil. En fyrst þú minnist á aflátsbréf sósíalismans, ég skil ekki þá fléttu. Hef séð ýmsar færslur minnast á þetta fyrirbæri, en verð að viðurkenna að þar skil ég ekki fléttuna.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 18.2.2023 kl. 21:25

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðjón og takk fyrir athugasemdina.

Uppruni þerrar raforku sem notuð er á Íslandi var árið 2021 63% jarðefnaefnaeldsneyti, 24% kjarnorka og 13% endurnýtanleg raforka, samkvæmt kolefnisbókhaldi aflátsbréfanna hjá Orkustofnun ríkisins.

Þetta gerist með því að Landvirkjun og orkufyrirtækin selja aflátsbréf fyrir hreina endurnýtanlega raforku út fyrir landsteinanna án þess að þangað sé afhent nokkur einasta raforka. Og svo hefur verið allt frá árinu 2011.

Þetta átti ekki að skipta landann nokkru máli því að hann er ekki tengdur raforkumarkaði ESB með slæmt kolefnisspor, en nú hafa þau boð verið látin út ganga að innlend atvinnustarfsemi þurfi að kaupa sér aflátsbréf upp á hreina orku kolefnissporsins vegna.

Íslenskur almenningur mun að mestu hafa verið s.l. áratug notendur svokallaðrar mengandi raforku á við jarðefnaeldsneyti og kjarnorku, og verður skylt að greiða samkvæmt því, ef og þegar full tenging kemst á við Evrópu, -hugsanlega fyrr, rétt eins og boðað hefur verið með fyrirtækin.

Allir græða nema Jón, Gunna og blessuð börnin, en væntanlega verða þau hjónakornin þá í sólinni úti á Tene röflandi yfir því að vera snuðuð um tekjutrygginguna, á milli þess sem þau syngja með tárin í augunum "ég er komin heim".

https://orkustofnun.is/yfirflokkur/raforkunotandinn/uppruni-raforku/uppruni-raforku-2021/

Magnús Sigurðsson, 18.2.2023 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband