Hálfur álfur

Það má alltaf gantast með álfa og áfatrú landans, en fólk skyldi fara hóflega í þannig spaug. Síðuhafi hefur stundum reynt að vera meiri maður, jafnvel fyndinn, með því að líkja sér við álf út úr hól, þegar hann hefur haft af litlu að státa.

Vinur minn vísindamaðurinn sagði mér eitt sinn að áfatrú landans hefði komið landsmönnum á þann stað lífsgæða sem þeir búa við í dag. Íslenskar mæður í myrkum torfbæjunum hefðu sagt börnum sínu álfasögur, -af höllum þeirra í hólum og upplýstum hýbýlum í klettaborgum.

Þetta hefði orðið til þess þegar börnin uxu úr grasi hefðu þau reynt að líkja eftir upplýstum hýbýlum álfanna. Undir þetta tekur Margrét á Öxnafelli í bók sinni Skyggna konan, en hún segir þar að álfar hafi orðið á undan mannfólkinu á landinu bláa til að virkja vatnsorkuna og raflýsa hýbýli sín.

Þó svo að álfatrúin sé talin barnaskapur, því feimnismál hjá fullorðnu fólki, þá er ég ekki frá því að hún komi aftur með aldrinum. Í vetur sá ég myndina Hálfur álfur um mann sem íhugaði að bæta nafninu Álfur við nafn sitt. Þetta er einhver besta mynd sem ég hef séð um ellina, -sannsöguleg og fjallar um síðustu daga fyrrum vitavarðahjóna á Sauðanesi við Siglufjörð.

Kvikmyndin hlaut dómnefndarverðlaun Skjalborgarhátíðar sem haldin var í Bíó Paradís haustið 2020. Að mati dómnefndar er “ … myndin sterk og heilsteypt saga, einlæg og tilgerðarlaus frásögn. Mynd sem hrífur mann með sér frá fyrstu mínútu og fær mann til að hlæja og gráta á víxl.”

Vitavörðurinn Trausti tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum. Í Hálfum Álfi er lífinu fagnað, þrátt fyrir þann veruleika sem bíður okkar allra.

Fólk skyldi ekki gera grín að þeim vísindum hugans, sem leiða til álfasagna. Fyrr en spurt hefur verið; -trúir þú á álfasögur - og þau vísindi sem eru afleiðingar þeirra.

Hér má sjá stiku úr Hálfum álf.


mbl.is Segir álfatrú hluta af þjóðarhjartanu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Útlendingar borga fyrir allt sem er sérkennilegt og séríslenzkt. Álfatrúin er reyndar víða annarsstaðar til. Hún er fræg meðal Skota og Íra. Er það ekki þjóðlegra og betra fyrir okkur að halda í svona sérkenni en að líkja enn meira eftir stórþjóðunum?

Samkvæmt kenningum dr. Helga Pjeturss eru álfar íbúar annarra hnatta sem við skynjum af einhverjum ástæðum. 

Þú hefur hér skrifað mjög góðan pistil, því hér er lögð áherzla á það sem er mikilvægt, hvort álfar hafi raunverulega hjálpað íslenzku þjóðinni og séu til. 

Vísindamaðurinn ónefndi sem þú þekkir held ég að sé alveg á réttri leið og með þetta á hreinu. Því miður hef ég ekki séð þessa kvikmynd, en Matrix hef ég séð og er sammála séra Guðmundi Erni sem oft hefur ritað um hversu merkileg hún er. 

Ennþá er ekki hægt að sanna vísindalega hvað álfar eru eða gætu verið eða önnur svona fyrirbæri í þjóðtrúnni.

En ef maður spáir í það hvað þjáningar og þrengingar hafa verið miklar í Íslandssögunni finnst manni eins og hér sé haldreipi sem hafi haldið lífi í mörgum, og jafnvel þannig að fólk hafi frekar haldið sönsum þessvegna.

Já, það er auðvelt að gera grín að þessu, en þó er þetta eitt langlífasta fyrirbærið í þjóðarsálinni, sem er gott.

Þetta er mjög góður pistill. Afsannar orð þín um að eitthvað hafi þér farið aftur þarna fyrr í vetur. Það hefur bara verið tímabundið. 

Mér finnst einmitt svo gott þegar menn koma með nýja vinkla á þvæld viðfangsefni og ferska umfjöllun.

Ingólfur Sigurðsson, 13.7.2023 kl. 09:55

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa greinagóðu athugasemd Ingólfur, -það er fengur í hanni.

Hvort álfar eru raunverulega til, þá sem áþreifanlegir, skiptir ekki öllu máli. það er jú þannig með það efnislega að það verður fyrst til sem hugmynd og þannig er heimurinn sem við lifum uppbyggður.

Það að snúa sönnunarbyrðinni ævinlega við gerir það að verkum að við förum að trúa á efnið, en ekki á mátt andans. Að því leiti hefur vinur minn vísindamaðurinn alveg hárrétt fyrri sér, -og mér finnst dæmisagan hans um mátt álfasagna íslenskra mæðra góð.

Ég las pistilinn þinn um daginn um þessa álfakirkju í Hornafirði, -Topphól, og fannst nálgun þín bæði áhugaverð og góð enda held ég að pistillinn þinn hljóti að hafa fengið verðskuldaða athygli.

Takk aftur fyrir góða athugasemd, -það eru ekki svo margir sem tjá sig um álfa.

Magnús Sigurðsson, 13.7.2023 kl. 12:31

3 identicon

Sæll Magnús.

Enginn vafi er á því að trú manna á álfa og huldufólk hefur sannarlega
skilað fóli meiru en helvítispredikanir af stólnum öld fram af öld
til viðbótar því helvíti sem menn bjuggu að öðru leyti við.

Málfríður Sigurðardóttir segir frá því í minningum sínum hvernig
íslensk þjóð hafi verið næsta uppgjöf og fólk alkmennt litið á sjálft sig sem einskis virði nema til þess eins að deyja drottni sínum hið fyrsta.

Nú á tímum terra menn hlutum af gulli, silfri og dýrasta viði framan í heiminn til þess eins að ögra nágrannanum í stað þeirra stofublóma sem gjarna prýddu áður vistarverur manna.

Þá kom það fyrir að þeir sem slíkt litu sáu blómálfa að leik í krónu 
jafnt sem á blöðum og bjuggu að því sinn aldur allan.

Illu heilli hafa menn flokkað trú á álfa og huldufólk undir þjóðfræði, -
sem hvert annað blaður og kjaftæði, trúgirni og fáfræði, þegar veruleikinn
er sá að þetta var lifandi kraftur jafnt innra sem ytra sem bjó með mönnum
og þeir bjuggu að í heimi sem velt hafði öllu grjóti tiltæku að
fótum þeim.

Tek heilshugar undir aðfararorð pistils þessa:

"...að áfatrú landans hefði komið landsmönnum á þann stað lífgæða sem þeir búa við í dag."

Húsari. (IP-tala skráð) 13.7.2023 kl. 13:18

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Já,en þeir eru til!!, spyrjið bara ömmu heitina, síðast bóndakonu á Ímastöðum Ytri, hún trúði ekki, hún vissi.

En allavega, dásemd, og dásamlegar athugasemdir.

Kuldakveðja að neðan úr rigningarhraglanda.

Ómar Geirsson, 13.7.2023 kl. 15:10

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir áhrifaríka athugasemd Húsari.

Já nú skarta menn því efnislega við hýbýli sín í stað stofublómanna sem sýndu innræti húsmóðurinnar til umhverfisins og náttúrunnar.

Að vera í sátt við náttúruna og leifa henni að njóta sín er ekki inn í dag. Að geta ekki sneitt framhjá lítilli álfakirkju í Hornafirði sýnir ónáttúru tíðaandans.

Verkfræðileg afrek nútímans virðast einungis ná til þess efnislega og markmiðið vera að láta ummerkin tala frekar en verkin í sátt við sitt umhverfi.

Já, illu heilli hafa menn glatað sýninni á það þegar veruleikinn var lifandi kraftur, hvort sem um hóla eða hæðir er að ræða.

Magnús Sigurðsson, 13.7.2023 kl. 16:10

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Ómar, -að koma með grjótharða staðreynd. Það vita auðvitað allir að ömmur fara ekki með fleipur.

Ég get vottað; að ekki nokkur maður þarf að efast um að álfar eru veruleiki í Vöðlavík, þó svo að þeir sjáist ekki dags daglega, svo vel fara mannanna verk þar við náttúruna.

Það sést meir að segja í austfjarðaþokunni.

Með kveðju úr norðan nepjunni og þurrasuddanum í efra.

Magnús Sigurðsson, 13.7.2023 kl. 16:22

7 identicon

Ómar. Ánægjulegt að lesa vissu Ömmu þinnar.
Hún er algerlega samhljóða reynslu minni og margra annarra.

Carl Gustav Jung var eitt sinn spurður um tilvist Guðs
og svarið skorinort: Ég þarf ekki að trúa. Ég veit!

Vitanlega rétt sem meistari Magnús segir: Ömmur fara ekki með fleipur!

Lifðu heill!

Húsari. (IP-tala skráð) 14.7.2023 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband