Á að steypa ungmennum í enn meiri skuldir?

 Lanráð II

Hvað meinar félagsmálaráðherrann með þessari nýju áætlun?  Á að bjóða ungmennum upp á störf á vegum ríkisins?  Eða er ætlunin að bjóða ungu fólki upp á nám og uppihald því að kostnaðarlausu í skiptum fyrir atvinnuleysisbætur?  Eða á að ota fólki út í nám sem það kostar sjálft með lántökum ásamt framfærslu sinni? 

 

Staðreyndin er sú að það er alls ekki sjálfgefið að nám leiði til starfa sem eru þess virði að fá lánað fyrir menntun þeirra vegna.  Nógir eru skuldaklafarnir sem íslenskum ungmennum eru ætlaðir nú þegar. 

 

Það hefur verið viðtekin venja að hvetja ungt fólk til að afla sér menntunnar og undirbúa sig þannig fyrir lífi.  Því hefur verið sagt að með góðri menntun fái það gott starf sem geti skapað því tekjur til að stofna heimili með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir. Íbúðarhúsnæðið sé stærsta fjárfesting þess, að auki beri að spara til efri áranna í gegnum lífeyrissjóði og viðbótar lífeyrissparnaði fjármálafyrirtækjanna.

 

Flestir nemendur hafa stofnað til mikilla skulda við að afla sér "dýrmætrar" sérfræðiþekkingar, koma þannig stórskuldugir inn á atvinnumarkaðinn.  Stofna til ennþá stærri skulda til að eignast m.a húsnæði og bíla til að komast til og frá vinnu.  Það má því segja að fólk hafi þegar ráðstafað lífi sínu strax á námsárum sínum.  Þessari skuldsetningu fylgir að störfin gefa miklar skatttekjur í ríkissjóð og öruggt fjárstreymi til fjármálageirans í gegnum lífeyrisgreiðslur,það jafnhliða vaxtagreiðslum af öllum skuldunum sem til eru orðnar.  Það má segja að allt það fjárstreymi sem í gegnum æfi manneskjunnar streymir lendi þannig með einum eða öðrum hætti hjá fjármagnseigendum.

 

Þó svo menntakerfið búi til góða sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum þá kennir það einstaklingnum nánast ekkert um praktísk fjármál.  Staðreyndin er sú að sáralítið samhengi er á milli menntunnar og þeirra sem hafa náð langt í fjárhagslegu frelsi.  Það er því umhugsunarvert hvers vegna menntakerfi sem er svona upp byggt leggur ofuráherslu að ná til barnssálarinnar á mótunarárunum þegar hægt er að hafa mestu áhrifin á ríkjandi viðhorf manneskunnar ævilangt.  Kerfi sem frá byrjun hvetur í raun  einstaklingin til taumlausrar skuldsetningar og fjárhagslegrar ánauðar.

 

Forn Grikkir trúðu að menntun væri til þess að kenna fólki að hugsa. Nútíma menntun gengur út á að þjálfa þá fólk í að gera það sem því er sagt frá blautu barnsbeini. Sagt er að menntakerfi nútímans komi að uppistöðu til frá Prússnesku kerfi19. aldar kerfi sem var ætlað að bú til gott starfsfólk og hlýðna hermenn.  Semsagt fólk sem í blindni fylgir fyrirmælum, fólk sem bíður eftir að vera sagt hvað það eigi að gera, þar með talið hvað það á að gera við tíma sinn og peninga.  Framúrskarandi nemendur eru nær því undantekningarlaust verðlaunaðir, með vinnu fyrir hina ríku við að viðhalda því kerfi sem byggt hefur verið upp og auka þannig við auð þeirra efnamestu.

 

Þessi skortur á frjálsri hugsun og fjárhagslegri menntun skólakerfisins hefur leitt til þess að fólk er tilbúið til að gefa stjórnvöldum sífellt meiri völd í lífi sínu.  Vegna þess að það býr ekki yfir nægilegri fjárhagslegri færni til að ráða við eigin framfærslu í flóknu kerfi sem byggir á síaukinni skuldsetningu.  Þess í stað er okkur ætlað að vænta þess að stjórnvöld leysi vandamálin fyrir okkur.  Með þessum hætti framseljum við frelsi okkar til stjórnvalda nútímans sem hafa sannað sig í því að vera verkfæri fjármagnseigenda að vösum almennings sem aldrei fyrr.

 

Því hefur verið haldið að okkur að við eigum ekki að vera of upptekin af peningum og hefur jafnvel verið láti að því liggja "peningar séu rót hins illa" og þá vitnað til hinnar helgu bókar.  Þar er reyndar sagt eitthvað á þá leið að "ágirnd í peninga séu rót hins illa", takið eftir; ágirnd, en ekki peningarnir sjálfir.

 

Það að halda fólki í fjárhagslegri fáfræði er í raun illska.   Það eitt að einhver þurfi að vinna við starf sem hann hefur ekki áhuga á, eða fyrir fólk sem hann ber ekki virðingu fyrir, jafnvel ganga í hjónaband þar sem eingin ást er og ætlast þannig að til að einhver annar sjái um fjárhagslegt öryggi hvort sem það er maki, vinnuveitandi eða stjórnvöld.  Kerfi sem þannig afvegaleiðir manneskjur sem fæðast inn í þennan heim með alla þá kosti sem gerir þá fullfæra um að bjarga sér sjálfir, er í raun rót hins illa.

 

Skemmtileg sýn á skólakerfið.

 http://www.youtube.com/watch?v=_JTaoAdbjcs&feature=player_embedded


mbl.is Úrræði fyrir 2.400 ungmenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega sammála þér, hef lengi spáð í það afhverju maður er ekki skólaður betur í hlutum eins og fjármálum sem að maður notast við í gegnum lífið og hvernig skuli greiða reikninga, hvað vextir eru og vaxtavextir og svo framvegis. Frekar er okkur kennt eitthvað allt annað í staðin sem að nýtist okkur nákvæmlega ekki neitt.

Gústaf (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 17:34

2 identicon

Krakkarnir verða á endanum sendir í kommúnu þar sem þeir fá borgað í mat fyrir að vinna störf.

Kári (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 18:11

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gústaf;  Þakka þér fyrir kommentið.  Ég er sammála þér að mikið af þeim tíma sem fer í skóla nýtist ekki. Ef þeirri menntun sem við þurfum á að halda út í lífið er skipt upp í þrjú svið gætu þau litið einhvernvegin svona út.

  1. Almenn menntun; hæfileikinn til að lesa, skrifa og skilgreina.
  2. Sérhæfð menntun;  hæfileikinn til að vinna fyrir peningum.
  3. Fjármálalæsi; hæfileikinn til að láta peningana vinna fyrir þig.

Við sjáum strax að skólakerfið gerir það gott í tveimur fyrstu atriðunum en  klikkar á því þriðja.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2009 kl. 18:11

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Kári;  það gæti komið sér betur en að lenda á skuldafæribandinu með því að kosta nám sem nýtist ekki með lánum.  Það verðmætasta sem hver einstaklingur á er hugmyndaflugið, það getur virkað ágætlega til að komast vel af í þessum heimi þó svo menntunina vanti.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2009 kl. 18:15

5 Smámynd: Arngrímur Stefánsson

Þetta eru mjög góðar pælingar enn ég hef nú aldrei sjálfur sem menntamaður sett mér það markmið að taka lán fyrir hlutum.  Þess vegna á ég ekki enn bíl, því hvert lán er auðvitað dýrt, og maður græðir ekkert á þeim. 

Ég hef til dæmis aldrei litið á lán sem peninga sem maður fær, heldur einungis sem leyfi til að setja bankareikningin í mínus.  Enn sumir vilja taka lán og þá er auðvitað ekkert nema sjálfsagt að einhver sem á pening er tilbúinn í að lána hann, og ekkert að því, lán eru nefnilega grundvöllur viðskiptakerfisins.  Ég vill bara sjá þau sem minnst í persónulegum lífum fólks. 

Það má Þó vera rétt að menntakerfið sé merkilega illa nýtt að mínu mati, ég þarf t.d. 140 einingar til að hefja nám í félagsfræði í háskóla, þó ég sé búinn með alla félagsfræði sem kennd er í mínum skóla, verður maður að vera þar áfram og læra upp þýsku, stærðfræði, dönsku, íslensku og önnur merkilega óskyld fög til að ná upp einingafjöldanum.  Ekki fæ ég skilið hvort góð dönsku-eða stærðfræði kunnátta sé nauðsynleg ef ég skyldi ætla í guðfræðideild eða heimspeki, enn slíkt er einingakerfið. 

Enn hvað fréttina varðar, þá er ég sammála að úrræði ráðherra okkar eru merkilega óljós, að gefa fría menntun í skiptum fyrir atvinnuleysisbætur er mjög ósanngjarnt fyrir menn eins og mig, sem fá ekki atvinnuleysisbætur meðan ég er í skóla og þarf á sama tíma að borga fyrir eigin skóla.  Að ýta fólki útí skóla og láta taka lán er á sama tíma mjög ósanngjarnt fyrir aðilana. 

Sjálboðastörf voru einnig nefnd, sem yrðu þá sennilega ekkert annað enn að ýta þeim atvinnulausu út í sjálfboðastörf enn fá að halda bótunum, ekkert athugavert við það, er bara eins og umbótavinnan. 

Annars tel ég að hægt væri að spara mikin pening með því að setja upp stiglækkandi atvinnuleysisbætur, þar sem fyrrverandi hálaunafólki er gefið spark í rassinn þar sem það fær ekki 80% laun greitt í bætur til að viðhalda efnameiri lífstíl sínum sem það hafði þegar það var með vinnu.  Þrepin myndu byrja há enn lækka hægt og hægt þar til lágmarksbótum er náð til að gefa atvinnuleysingja 2 kosti, það er, koma sér undan óþarfa lánum t.d. nýjum bílum eða finna aðra atvinnu.  Slíkt kerfi væri þó óviðunandi við núverandi aðstæður þar sem hvorki er hægt að selja í núverandi aðstæðum né finna aðra atvinnu. 

Hefði það kerfi verið notað fyrir kreppu væri atvinnuleysissjóður líklegast nokkru digrari. 

Arngrímur Stefánsson, 17.12.2009 kl. 19:40

6 identicon

Húrra!

Unga fólkið er framtíðin.  Ungur nemur hvað gamall temur.  Því miður eru tamningamennirnir ríkisreknir og brögðin sem þeir kenna stuðla ekki að betri heimi.  Eða hverjum á að kenna um þann jarðveg siðleysis og afskiptaleysis sem banka- og stjórnmálahrunið óx uppúr?  Kennarar, sjónvarp, tölvuleikir og aðrir fjölmiðlar og áhrifavaldar temja ungt fólk sem er auðvelt í taumi.  Fólk sem fer gjarna í lið og spilar vel, fórnar sér fyrir liðið, gerir það sem þarf til að liðið vinni.  Þá er ég ekki bara að tala um íþróttahreyfinguna, en hún er sannarlega ekki saklausasti aðilinn í því að brjóta niður uppreisnarandann, frelsisandann í fólkinu.

Það þarf að verða töff aftur að vera uppreisnarseggur.  Ef þið eruð kennarar, ekki lyfja þá erfiðu, ekki nöldra í foreldrum og reyna að fá sálfræðinga í spilið.  Afberið þá og hjálpið þeim að þroskast.  Sendið þá á réttar internetsíður svo þeir megi verða baráttumenn fyrir frelsinu.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 21:21

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Arngrímur;  Þetta er skemmtilegur vinkill sem þú kemur inná.  Þú bendir á hvað námskerfið getur verið ómarkviss tímaeyðsla þegar það þarf að bæta við hinum og þessum fögum sem enginn áhugi er fyrir til að fylla upp í einingakerfi. 

Það er mý mörg dæmi þess að þeir sem náð hafa langt á sínu sviði og jafnframt búið við fjárhagslega færni hafa ekki beygt sig undir þessa aðferðafræði.  Þeir hafa semsagt ekki lokið formlegu námi með prófgráðu því það hefur tafið þá frá því sem þeim finnst skipta máli.  Dæmi sem oft er nefnt, Bill Gates, Microsoft.

Það er ekki sanngjarnt að pressa fólk út nám sem það þarf að fjármagna með lánum, sér í lagi ef það er ómarkvisst.  Ef það er markmið út af fyrir sig að halda fólki í námi þá ætti fjármálalæsi sem nýtist út í lífinu vera á þeirri námskrá.  Öll þurfum við peninga og það er mikill munur á því að vinna fyrir peningum eða láta peningana vinna fyrir sig.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2009 kl. 21:25

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gullvagninn;  þú segir

"Það þarf að verða töff aftur að vera uppreisnarseggur.  Ef þið eruð kennarar, ekki lyfja þá erfiðu, ekki nöldra í foreldrum og reyna að fá sálfræðinga í spilið.  Afberið þá og hjálpið þeim að þroskast.  Sendið þá á réttar internetsíður svo þeir megi verða baráttumenn fyrir frelsinu." 

Þetta vildi ég sagt hafa og bæti við, látum hvern og einn njóta sín, því öll erum við einstök.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2009 kl. 21:30

9 identicon

Ehhh... Las nú ekki allt sem þú skrifaði. Enn allavega væri ég bara ánægður yfir haus að komast eitthhvað út og fá að gera eitthvað annað enn hanga í tölvunni 24/7.  Þó fengi minna fyrir það. Sótti í 3 skólum núna og var hafnaður frá þeim öllum.

Hvað verður með mig annars?

Ég eyði bara meiri pening að gera ekki neitt.

Anton (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 02:25

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Anton;  þetta er ekki nógu gott og vonandi nýtist þessi áætlun fólki í þinni stöðu.  Ég er sammála þér að það er ömurlegt að hafa ekkert fyrir stafni og það er ekki auðvelt að koma sér upp dagskrá þegar enginn fastur punktur er í tilverunni til að mæta á.  Þá er jafnvel sjálfboða vinna eða ómarkvist nám kostur, en ef það kostar bótamissi og  það þarf að taka lán fyrir því þá er ég ekki viss um að þau úrræði séu besti kosturinn.

Það gæti verið betra að finna sér tölvunámskeið eða eitthvað áhugavert og vera áfram á atvinnuleysisbótum.  Með því verður til fastur punktur til að mæta á og persónuleg tengsl myndast við annað fólk, án þess að þú sért alveg tekjulaus.  Það er aldrei að vita hvar tækifærin liggja ef þeirra er leitað, maður þekkir mann og allt í einu bingo búin að fá fínt job.  

En hvað verður um þig?  því ræður þú mestu um. 

Magnús Sigurðsson, 18.12.2009 kl. 09:40

11 Smámynd: Arnar Bergur Guðjónsson

Ég er atvinnulaus, hef ekki fundið mér starf eða mér hefur hreinlega ekki verið svarað þegar ég hef sótt um!
Sjálfur hef ég hug á að koma mér í skóla næsta haust,
Núna er ég í Grunnmenntaskóla Mímis sem er mjög gott ef maður hefur verið t.d. lengi frá námi og langar að byrja aftur þá er þetta flott il að byrja á.

Hins vegar, eins og ég sagði þá langar mig í skóla næsta haust, hvernig framfleiti ég mér á meðan?

Ég get byrjað á því að gera samning við vinnumálastofnun um að klára grunnáfangana(1-2 annir) og fá greiddar atvinnuleysirbætur á meðan, sem þýðir að ekki þarf ég að fá mér yfirdrátt því að grunnnám er ekki lánshæft.
En LÍN veitir ekki lán ef ég næ ekki 75% árangri úr grunnprófunum, sem mér finnst alveg agalegt, sumir eiga auðvelt með að læra, aðrir þurfa að hafa ennþá meira fyrir því, það væri ekki gaman að ná ekki prófunum því þá fær maður ekki lán og það þýðir einfaldlega fyrir mig, að lífið mitt væri búið fái maður ekki vinnu ef maður nær ekki prófunum.

Ef ég næ hins vegar prófum þá fer ég inn á sérsviðið sem mig langar að læra og þá get ég fengið lán. en það er slæmt þegar maður er með íbúð sem er frysting er á og allt að hækka...

ég vona svo sannarlega að ég nái öllum prófum og að mér vegni vel í skóla.


Arnar Bergur Guðjónsson, 18.12.2009 kl. 10:00

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Arnar;  þakka þér fyrir að deila þessu.  Þú kemur akkúrat inn á hve þessi úrræði þurfa að vera markviss, eigu þau ekki að vera til enn meira tjóns.

Ég er að sumu leiti í svipaðri stöðu og þú, án fastrar vinnu, eða réttara sagt í vinnu hjá sjálfum mér.  Á sumrin er yfirleitt mun meira um að vera, þannig að það er ekki vandál að ver önnum kafinn yfir þann tíma.  Ég nýti því tímann á við að undirbúa mig fyrir sumarið.  Það er hægt að gera m.a. eins og þú bendir á  með því að sækja markvisst nám hjá Mími, auk áætlunargerðar fyrir sjálfan sig. 

Það eru sumir hlutir öruggir, s.s. að þú veist hvað er best fyrir þig og ef þú sérð þig í þeirri stöðu sem þig dreymir um muntu ná þangað.

Pat Mesiti er líflegur fyrirlesari um það sem mörgum þykir leiðinlegt, þ.e. fjármál.  Eitt af því sem hann hefur verið iðinn við að benda á er hversu mikilvægt það er að eiga sér draum.

http://www.youtube.com/watch?v=kZNA9_BxGo0&feature=player_embedded

Magnús Sigurðsson, 18.12.2009 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband