23.10.2022 | 08:38
Við eigum bæði sannleikann og vísindin segja möppudýrin
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.10.2022 | 20:39
Jökuldæla og Gunnhildur
Þjóðsagan getur farið krókótta leið. Oft má ætla að hún sé upprunnin í munnmælum sem hafa ferðast á milli manna áður en þau voru skráð, svona nokkurskonar kjaftasaga, og því óáreiðanlegri heimild en skráð samtímasaga. Svo má velta vöngum yfir því hvað medían, sem færir okkur vísindi og pólitík dagsins, - samfélagsmiðlar osfv, eru áreiðanleg þegar fram líða stundir.
Síðuhafi hefur bent á að hið viðtekna er oft tískubóla blásin af út áhrifavöldum líkt og hver annar pólitískur áróður eða vísindi, -sem eru eitt í dag og annað á morgun. Þjóðsagan, geti aftur á móti verið fínpússuð, menntuð og fullreynd sannindi að aflokinni rýni fjöldans áður en hún er sett í rit.
Kristian Kålund ferðaðist um landið 1872-1874 minnist á Íslendingasagna bókina Jökuldælu í ferðabók sinni, en þar segir: Jökuldalur og bæir þar koma aðeins stöku sinnum fyrir í sögunum. Reyndar er mikið talað um Jökuldælu, sem þar á að hafa gerst, en virðist þó glötuð að undanteknum fáeinum brotum. (Íslenskir sögustaðir IV bindi bls 16 - Bidrag til historisk-topografisk Beskrivelse af Island)
Í bókinni Að vestan þjóðsögur og sagnir, sem í eru þjóðsögur sem skráðar eru af brottfluttum Íslendingum í vesturheimi, er smáþáttur eftir Guðmund Jónsson sem heitir Sagnir úr Hróarstungu. Þar hefur Guðmundur eftir sögu úr Hróarstungu sem hann telur vera úr Jökuldælu. Í formála sögunnar segir hann svo:
"Fáar sögur eru til frá fornöld af Austfjörðum. Vera má, að þar hafi færra gerst sögulega en í öðrum landshlutum, en hitt er þó öllu líklegra, að þær sögur séu nú margar glataðar. Svo er um margar sögur frá fornöld, sem vissa er fyrir, að voru til á 17. og 18. öld. Þar á meðal er Jökuldæla, sem víst er, að til var á skinnhandriti á 18. öld. Ég heyrði nokkrar sagnir um það, þegar ég var ungur, að gamlir menn höfðu afspurn af þeirri bók í æsku. Sigurður prófastur Gunnarsson á Hallormsstað getur þess, í Safni til sögu Íslands (að mig minnir), að hann hafi frétt um þá bók, en hún hafi verið týnd fyrir sína daga. Þó mun hafa verið til brot af henni lengur, þótt fáir vissu, og er þessi sögn því til sönnunar:
-Sigurður Sigurðsson frá Fögruhlíð sagði mér það síðasta, sem ég hef frétt af bók þessari. Sigurður var vel greindur maður og gætinn og manna færastur að lesa settletur og gömul handrit.
Hann kvaðst hafa farið upp að Arnórsstöðum á Jökuldal nálægt 1880, í kynnisför til bóndans þar, Jóns Kjartanssonar, sem áður hafði verið nágranni hans. Þegar hann kom þangað, var Jón bóndi ekki heima. Hann kvaðst hafa farið að leita þar í bókarusli sér til skemmtunar, en þar rakst hann á skinnbókarræfil, mig minnir aðeins tvö blöð. Þau voru svo máð, að þau voru lítt læsileg. Þó komst hann að þeirri niðurstöðu, að þau væru úr Jökuldælu. Ekki kvaðst hann hafa getað náð samhengi úr efni þeirra, því þetta var í skammdegi og dauf birta. Þó kvaðst hann hyggja, að hann hefði getað lesið þau að mestu leyti við góða dagsbirtu. Enginn þar á bæ sagði hann, vissi hvað á blöðum þessum stóð. Þau höfðu þvælst þar lengi í öðru bókarusli. Næsta vetur heimsótti Sigurður Jón bónda og spurði eftir blöðunum, en þau voru þá glötuð.
Þegar ég var um tvítugsaldur, kynntist ég gömlum manni, sem Magnús hét Einarsson. Hann var greindur maður, bókvinur mikill og fróður um margt, en dulur í skapi. Sagði hann mér margt í fornum fræðum, sem ég sé nú eftir, að ég skrifaði ekki upp. En ég vona, að Sigfús þjóðsagnahöfundur hafi notað betur þann fróðleik, því að ég vissi, að þeir voru kunnugir. Meðal annars sagði Magnús mér, að hann hefði á yngri árum sínum átt tal við gamlan mann, sem hefði heyrt lesna bók þá, er Jökuldæla var á, en ekki kunni hann rétt samhengi úr efni hennar. En hann sagði, að á sömu bók hefði verið þáttur af bræðrum þrem í Hróarstungu. Efnið úr þeim þætti hefði hann numið, og er það þannig:" (Að Vestan þjóðsögur og sagnir I bindi bls 10-11)
Síðan hefur Guðmundur eftir söguna af þeim Gunnhildarsonum, Galta, Geira og Nef-Birni og er hún nokkurn vegin samhljóma sögu í Gunnhildar-þætti í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar að öðru leiti en Sleðbrjóts hlutanum, sem gerist ekki eftir að þeir bræður eru allir, heldur áður, og er þar í aðdraganda ósamlyndis þeirra.
Þannig hefst Gunnhildar þáttur hjá Sigfúsi í hlutanum Fornmenn: Svo hafa gamlir menn sagt er kváðust hafa séð Jökuldæla sögu að í henni hafi verið allir þessir þættir: af Hákoni og Skjöldólfi, af Böðvari og Gull-Birni og enda Hauki; má vera að hann sé sá sami og sá er byggði Haukstaði á Dalnum. Ennfremur fylgja hér þættir er menn segja úr henni.
Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík; segir Landnámabók, og bjó þar, hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir.
Gunnhildur hét kona ein margfróð; hún átti bræður tvo, að sagan segir, og hétu hvortveggja Herjólfur. Gunnhildur segja munnmæli að kæmi skipi sínu í Loðmundarfjörð og við hana sé kenndur Gunnhildartindur þar. Gunnhildur var þá ekkja og átti þrjá sonu, Galta, Geira og Björn, er kallaður var Nef-Björn. Allir voru þeir bræður og synir Gunnhildar miklir fyrir sér og svo hún sjálf og mjög forn í skapi. Galti var fyrir bræðrum sínum um frækileik. Gunnhildur byggði fremst í Húsavík þar sem nú heitir Gunnhildarsel.
Herjólfur eldri nam næstu vík fyrir norðan sem við hann er kennd og heitir Herjólfsvík. Stóð bær hans undir Stórafjalli. Herjólfur annar fór upp í Hérað; segja sumir menn hann byggi að Glúmstöðum og þó fleiri Egilsstöðum í Fljótsdal. (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI bls 61-Sigfús Sigfússon)
Síðan heldur Sigfús áfram að segja af þeim Gunnhildi bræðrum hennar og sonum. Herjólfur eldri í Herjólfsvík og Gunnhildur elduðu grátt silfur svo að Gunnhildur flutti upp í Hérað ásamt sonum sínum, yst í Hróarstungu þar sem Tungan mætir Húsey. Þar eru bæjarnöfnin, Gunnhildargerði, Nef-Bjarnarstaðir, Geirastaðir og Galtastaðir.
Þátturinn um Gunnhildi endar á að segja frá hörmulegum endalokum sona Gunnhildar þar sem þeir börðust við hvern annan og drápu, að endingu dó Gunnhildur úr harmi. Sagan sem Guðmundur Jónsson í vesturheimi kemur með Að Vestan er svo til samhljóða Sigfúsi, en hún er einungis um endalok þeirra mæðgina auk þessa að gefa skýringu á bæjarnafni í Jökulsárhlíð. Þar er sá blæbrigða munur á þeim Guðmundi og Sigfúsi, hvort atburðir þar gerist fyrir eða eftir dauða þeirra Gunnhildarsona.
Það má allt eins ætla að fjöldi munnmæla í þjóðsögum frá landnámsöld séu komnar úr tíndum fornritum á við Jökuldælu, sem hafa að geyma skýringar á því hvernig ýmis örnefni urðu til og eins ýtarlegri frásagnir af fornmönnum.
Mér komu þjóðsögurnar til hugar um daginn þegar ég sá hve tímasetningar fornleifauppgraftarins í Firði á Seyðisfirði eru í takt við sagnir Sigfúsar Sigfússonar af Bjólfi sem nam Seyðisfjörð samkvæmt Landnámu. Um Bjólf er lítið í Landnámu og eingin íslendingasaga um hvenær og hvar nákvæmlega hann nam land í Seyðisfirði.
Sigfús Sigfússon getur sér þess til í Þjóðsagnasafni sínu að til hafa verið skráð saga af Seyðfirðingum þegar hann skrifar niður þau munnmæli sem til eru um Bjólf og landnámsjörð hans Fjörð, -segir þar að Bjólfur hafi komið seint á landnámstíð. Nú hefur fornleifauppgröftur í Firði tímasett upphaf byggðar í Firði á Seyðisfirði í kringum árið 930, -í lok landnáms.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2022 | 19:47
Vestfjarða-Grímur og Vatnajökull
Nú fer hamfarahlýnunin með himinskautum og trúboðar kolefniskirkjunnar skreyta himinhvelfinguna þotuslóðum. Norðurslóðir eiga að vera til marks um hvað er í vændum, -hamfarabráðnun jökla mun drekkja mankyninu. Gott ef ekki verður fleygt dánarvottorði í Ok einn ganginn enn, um leið og liðið þýtur hjá, sem vit kann að hafa fyrir öðrum, með kolefnissporin á eftir sér og tvær litlar Síberíu lerki plöntur til framtíðar hamfaraóræktar og afláts eigin óskapnaðar.
Dálæti íslenskra fyrirmenna á því að vera málsmetandi í þessum söfnuði verður að teljast einkennilegt, ef litið er til þess að enn hefur hitastig landsins bláa ekki náð því sem það var um landnám. Hjákátlegra er að verða vitni að því að litla ísöld sé heiðruð með hinu rétta hitastigi, -þeirra sem eiga að vita að þá riðu yfir einhverjar mestu hörmungar Íslandssögunnar.
Síðuhafi setti hér á bloggið nokkur orð um Öræfi, Litlahérað og Klofajökul fyrir nokkrum dögum. Þau voru að mestu fengin úr Íslenskir sögustaðir, reisu bók Kristian Kålund, og greinarskrifum Sr Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormastað í Norðanfara. Báðir þessir menn skráðu hjá sér gamlar sagnir og leituðu eftir heimildum þeim til staðfestu s.s. úr máldögum kirkna og jarðatölum.
Núna ætla ég að benda á þjóðsöguna um Vestfjarða- Grím, sögu sem vitað er að var til í munnmælum á 16. öld og ekki fyrr en á þeirri 19. sem hún var skráð. Þjóðsögur eru með því marki brenndar að auðveldlega má rengja þær vegna ævintýralegs söguþráðar, eru oft um álfa, drauga og forynjur. En að sama skapi fara þær oftast rétt með staðhætti og geyma miklar upplýsingar um fyrri tíma.
Sagan af Vestfjarða-Grím segir frá manni sem fæddist á Skriðu (Skriðuklaustri) í Fljótsdal. Hann var sonur Sigurðar og Helgu, sem létu hann frá sér til bróður Sigurðar sem bjó vestur á fjörðum, og þar ólst hann upp. Sigurður lenti í stælum við Indriða höfðingja á Eiðum út af belju með þeim afleiðingum að Indriði drap Sigurð.
Grímur fór austur á land, þá fullorðinn maður, til að hefna föður síns og drap Indriða á Eiðum. Hann varð eftirlýstur sakamaður og þurfti að leynast víða um Hérað, m.a. er Grímstorfan í Hafrafellinu í Fellum nefnd eftir þessum Grími. Eins er talið að hann hafi leynst um tíma í helli, sem var á bak við Fardagafoss í Fjarðarheiðinni ofan við Egilsstaði, en fyrir munnann á þeim helli hrundi fyrir nokkrum árum.
Grímur fór síðan, að ráði móður sinnar, til konu sem leyndi honum, sennilega í tjaldi fyrir ofan Krossavík í Vopnafirði, þó sagan geti ekki um hvar. Sú kona ráðlagði honum að fara suður á fjöll og leynast um veturinn á stað þar sem nóg væri af fiski í vötnum og búsældarlegt um að litast. Þegar voraði ráðlagði hún honum að taka sér far með skipi við Ingólfshöfða og fara úr landi, -eða eins og þjóðsagan orðar það:
Þess á milli sótti Helgi (bróðir Indriða) alstaðar eftir Grími og setti öll brögð til að ná honum, frétti og um síðir að hann mundi dyljast hjá fyrrnefndri konu. Kona þessi var berdreymin og forspá; sagði hún Grími eitthvert sinn að Helgi mundi þar innan skamms koma og vísaði honum að vötnum nokkrum í landsuður, hvar hann sig af veiðiskap nært gæti þar til skip einhver af hafi kæmi undir Ingólfshöfða; ráðlagði hún honum þar að leita utanferðar, en voga ekki til langdvala hér í landi.
Grímur fór alfarið að ráðum konunnar, en við vötnin bjó risi í helli ásamt dóttur sinni. Grímur drap risann og bjó með dótturina hjá sér um veturinn. Ferðir Gríms eru rökréttar, sé farið til vatnanna, sem hann bjó við, -en þau eru nú á kafi í snjó, og ef ekki væri fyrir þjóðsöguna hefði sennilega engin vitað af þessum vötnum í fleiri hundruð ár þar til nú á dögum nútíma vísindanna.
Þannig lýsir þjóðsagan þessum stað á dögum Vestfjarðar-Gríms:
Grímur fór sem honum var ráðlagt til vatnanna og gjörði sér þar skála, laufskála úr skógi er þar var nógur, og tók að veiða í vötnum.
Þessi þjóðsaga er hárnákvæmt tímasett, þó svo að ekki sé hægt að rekja munnmæli aftar en til 16. aldar. Grímur eignaðist nefnilega velgerðar mann í Noregi sem var Haraldur konungur harðráði Sigurðsson (1015-1066) sá sem lét lífið í orrustunni við nafna sinn við Stamford Bridge á Englandi, og var afi Þóru Magnúsdóttir í Odda á Rangárvöllum. Faðir Þóru var Magnús berfættur, stundum kallaður síðasti víkingakonungurinn. Sennilega eiga flestir Íslendingar nú ætt að rekja til Þóru í Odda, þannig að Haraldur harðráði hefur óbeint átt stað í lífi fleiri hér á landi en Vestfjarða-Gríms.
Grímur fór utan sem til var ætlað og komu til Noregs; þá var konungur Haraldur Sigurðsson; með honum fékk Grímur sér vistar um veturinn. Að jólum hélt konungur veislu ríkmannlega; bjó Grímur sig þá því fyrrtéða belti. Strax kom á hann ógleði og þráði hann jafnan risans dóttur. Þetta fann konungur og spurði hann hverju gegndi, sagði hann þá konungi allt um sambúð þeirra risadóttur.
Að vori gaf konungur honum skip á hverju hann til Íslands fara kynni til að sækja unnustu sína. Grímur hélt á haf og kom við Ingólfshöfða, gekk á land og fór til Grímsvatna (svo hétu þau síðan Grímur hafði þar vistum verið). Þar við vötnin fann Grímur risans dóttur og hjá henni sveinbarn er hún alið hafði meðan Grímur var í burtu og kenndi honum það nú.
Það varð fagnaðarfundur og bað Grímur hana með sér að fara; tóku þau svo barnið með sér og fé það allt er úr hellinum hafði áður í skálann flutt verið og fóru á burt. Þessu næst héldu þau til skips, létu í haf og náðu Noregi; tók risans dóttir þar kristna trú og skírn með barni þeirra.
Nokkrum vetrum síðar fýstist Grímur að fara út til Íslands og staðnæmast þar. Bjóst hann því burt úr Noregi með konu sína, risans dóttur, og kom norðan að Íslandi að eyju einni; þar sté Grímur á land og bar af skipi; bjuggu þá í eyjunni risar einir eður bjargbúar; stökkti Grímur þeim á burt sumum, en drap suma og hreinsaði svo eyjuna; síðan setti hann þar byggð sína og juku þau risadóttir þar ætt þeirra.
Eyin liggur út frá Eyjafirði og heitir síðan Grímsey; bjuggu ættmenn Gríms þar eftir hann og lýkur svo þessari frásögn.
Dægurmál | Breytt 14.10.2022 kl. 05:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.10.2022 | 21:22
Darraðardans dúkkulísanna í Davos
Hátt er reitt
til manndrápa
glysgjarnar gásir
slefa blóði;
nú skal vopnum
skutlað með Atlanta,
horfinnar karlmennsku
hylli vilja njóta,
slengja með tíðatöppum
fram stolti þjóðar
-og hóta.
Lyga vefur
í garna flækju,
og fjöldagrafar
afhöfðaðrar karlmennsku,
blóðug gufa
af sprengiregni
upp stígur,
með falli eldflaugar;
slá sér úr brjósti
dömu bindi þetta.
Hér fyrir fara
Flissandi og Rjúkandi,
Hnellin, Ljómandi
tungum teygðum,
með lim niður sveigðum
stolt mun bresta
gáfnafari höfuðs
í skuðið sletta.
Dönsum, dönsum
dansinn darraðar
þann er ungum Hán
rúmar fyrir!
Dansinn skulum stíga
fólki á slig ríða,
þegar vinir bíða
er sköpum skipta.
Dönsum, dönsum
dansinn darraðar
og transhuman
síðan fróum!
Þar munu sigrar
unnir á túrtöppum,
guð og djöfulinn
í gæskuna gefum.
Dönsum, dönsum
dansinn darraðar
þras ei þolum
skynugra manna!
Látum eigi
Háns líf fyrir farast,
helgum völlinn;
hræjum fjöldans.
Háns munu þegnar
heimi ráða,
og krummaskuðin
er lýðir áður byggðu;
kvaddir verða
í náttúruleysi
lafandi lostakústar
í horfnu afdala hreysi.
Nú skal þjóð
gengin spor afmá
fljótt fornum
kenjum gleyma.
Dansi lokið
á velli rauðum;
þar hljómar þagna
í ópi glópa.
Ógeðslegt verður
um að litast
er bómullar bólstur
gólfið litar,
en sjálfur himin
speglar tíðablóðið;
er loks skósveinar
skynja hólið.
Trylltan dansinn
Hán stigum
til heiðurs,
kyrjum glaðar!
heyra skal sá
er heyra á:
transhuman skaki
manfólk með taki.
Ríðum rafmagns röftum
hart okkur skökum,
með titrandi bröndum
burt út héðan.
Það getur virst sniðugt að snúa andskotanum upp á ömmu sína, en ekki er það geðslegt þegar andskotinn og amma hans stíga trylltan djöfla dans.
Dægurmál | Breytt 15.10.2022 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.10.2022 | 00:48
Öræfi, Litlahérað og Klofajökull
Sveitin sem hvarf í eldi og ösku, -og síðan undir jökul, er nú á dögum hamfarahlýnunar að koma smá saman aftur í ljós. Þar hóf m.a. birki úr Bæjarstaðaskógi óvænt landnám á örfoka Skeiðarársandi öllum að óvörum fyrir rúmum 20 árum síðan, og er þar talinn nú vaxa stærsti sjálfsáni birkiskógur landsins.
Munnmæli um dapurleg örlög sveitarinnar hafa einnig fengið staðfestu með uppgreftri fornra bæja s.s. Bæ og Gröf. Árið 2020 gaf Bjarni Einarsson út bókina Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 um fornleifarannsóknir sínar á Bæ sem grafin var upp við flugbrautarendann á Fagurhólsmýri á árunum 2002 -2009. Aldeilis stórmerkileg lesning.
Annars þurfti birkiskógur og niðurstöður fornleifarannsókna ekki að koma svo á óvart því munnmæli og sagnir lifðu fram eftir öldum um sveitina sem hvarf, þá sem gekk undir nafninu Litlahérað með Svínafelli sem höfuðbóli hins forna Austfirðingafjórðungs. Hérað sem breyttist í eyðisanda með jökulám á svipstundu og hefur verið kölluð Öræfi fram á okkar daga.
Litlahérað er sagt hafa náð frá Lómagnúpi að Suðursveit. Skeiðará hafi þá nánast verið lækur, -eins og hún er reyndar að verða nú á dögum, eftir að hún flutti sig að mestu í Gígjuhvísl. Enn er nokkuð í að dalir jarðanna Breiðármerkur og Fjalls komi undan jökli, auk þjóleiðar sem á að hafa legið í gegnum Vatnajökul, -um dali hins forna Klofajökuls.
Við upphaf 18. aldar lifðu enn þau munnmæli að fyrrum hefði verið leið milli Skaftafells í Öræfum og Möðrudals á Fjöllum í gegnum miðjan Vatnajökul þar sem hann er hvað breiðastur til beggja handa. Því til sönnunar var m.a. talið að sjá mætti marka fyrir gömlum götum í Miðfelli norðan við Morsárdal, -dals vestan við Skaftafell sem nú er að hluta hulinn skriðjökli. Sagt var að smalinn í Möðrudal ætti víst rúm í Skaftafelli og Skaftafellssmali hið sama í Möðrudal.
Allt þetta kann að virðast aldeilis ótrúlegt í dag, en munnmæli þessi eiga sér stoð m.a. í máldögum frá dögum Gísla biskups Jónsonar (1558-87). Þar er tilgreint að kirkjan í Möðrudal á Fjalli hafi rétt til XII trogsöðla högg í Skaftafellsskógi. Sömuleiðis kemur fram í úrdrætti jarðabókar frá 1779, að bærinn Skaftafell eigi beitarrétt fyrir 14 hesta á Möðrudal yfir sumarið, sem sé þó aldrei nýtt vegna jökla.
Af fróðleik fyrri daga um eyðibæina á Breiðamerkursandi og í Öræfum, má einkum nefna samantekt Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Austur-Skaftafellssýslu, en hann lét árið 1712 skrá á Hofi í Öræfum allt sem menn þar í sveit vissu þá um eydda bæi af eldgosum og jöklum.
Á fyrstu búskaparárum Ísleifs í upphafi 18. aldar, á Felli vestast í Suðursveit, voru hörðustu ár litlu ísaldar. Eftir þann tíma fór verulega að halla undan fæti hvað varðar aðstæður til búskapar á jörðinni vegna framskriðs jökla og kólnandi veðráttu. Fell fór endanlega í eyði árið 1873 eftir að Breiðamerkurjökull hafði lagt undir sig stóran hluta af undirlendi jarðarinnar með framskriði sínu á 18. og 19. öld.
Sr Sigurður Gunnarsson prófastur á Hallormstað fékk birta grein í Norðanfara árið 1878 þar sem hann tók upp úr handriti fræðimannsins Magnúsar Bjarnasonar frá Hnappavöllum í Öræfum þá punkta sem Ísleifur Einarsson sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu hafði tekið niður eftir munnmælum um forn bæjarnöfn í Öræfum.
Anno 1712 voru að Hofi í Öræfum upp teiknaðir bæjarstaðir, sem til forna skulu verið hafa í Öræfum og af tekið og eyðilagst hafa af jöklum, vatns- og grjótágangi og eldi. Er frásögn þessi að nokkru byggð á því, sem hjer hefir fundist skrifað, og að nokkru leyti á sögnum og munnmælum, sem gengið hafa mann frá manni.
1. Jökulfell hefir bær heitið að fornu; var hann i norðvestur frá Skaptafelli, þar sem nú er kallað Bæjarstaðir, undir fjalli því, sem enn er kallað Jökulfell. Segja menn að þar hafi verið kirkjustaður og hafi í minni þeirra manna, sem nú lifa, sjezt þar vottur fyrir tóptum. Jökulfells þessa skal vera getið í einum Hofskirkju máldaga, sem gjört hefir einn mikill biskup í Skálholti. Orðin eru þessi: Og helming allra þeirra fjara er liggja til Jökulfells". Það sem enn er óeyðilagt af landi þessarar jarðar, er leigt frá Skaptafelli fyrir 30 álnir.
2. Freysnes er sagt bær hafi heitið nálægt i suðaustur frá Skaptafelli; sjezt enn til tópta þar nærri, sem fjárhúsin standa, og er enn kallað Freysnes. Er leigt frá Skaptafelli fyrir 30 álnir.
3. Svínanes hefir bær heitið, sem sjezt af áðurnefndum Hofs-máldaga. Þar er kirkjunni að Hofi eignuð hálf sú jörð, en eigi vita menn hvar sá bær staðið hefir. Jón Einarsson og Stefán Ormsson segjast fyrir fáum árum fundið hafa rauðviðisrapt í Neskvíslinni, milli Skaptafells og Svínafells, sem rekíð hafði fram úr jöklinum, hver verið hafði orðinn mjög svartur utan.
4. Rauðilækur hefir bær heitið og verið kirkjustaður sem sjezt af Hofs-máldaga; því það Rauðilækur átti, lagðist til Sandfells; og hefi jeg sjeð í annál eptirskrifuð orð: Anno 1362 var eldsuppkoma á 6 stöðum í landi hjer. í Austfjörðum sprakk sundur Hnappafellsjökull og hljóp yfir Lómagnúpssand, svo aftók vegu alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann, er Rauðilækur heitir, og braut niður staðinn allan, svo ekkert hús stóð eptir nema kirkjan". Þessi bær halda menn að staðið hafi nærri suður frá Svínafelli, framundan falljöklinum, sem er milli Svínafells og Sandfells, nærri i suðaustur frá Smjörsteini, sem stendur þar í falljöklinum; hefir þar sjezt til tópta fyrir 30 árum, en er nú allt i aura komið. Skammt frá bæjarstaðnum rennur á sú, er Virkisá heitir. Í Sandfells-máldaga getur og um Rauðalækjar eignir lögðust til Sandfells.
5. Berjahólar hefir heitið hjáleiga frá Sandfelli, byggð fyrir 80 árum. Þessi hjáleiga skal hafa staðið í falljöklinum í vestur frá Sandfelli. Hefur þar nýlega sjezt til túns og tópta.
6. Gröf halda menn að bær hafi heitið útnorður frá Hofi, fyrir vestan Skriðulæk, uppundir fjallinu. þar sjezt til tópta og hefir fundist smávegis af eyri og látúni. Á milli Grafar og Hofs er steinker, sem sagt er að taki 18 (átján) tunnur.
7. Gröf heyri jeg sagt að bær heitið hafi. það er nær hestskeið frá áðurnefndri Gröf, og hefir þar nýlega sjezt til tópta. þessir báðir bæir eru í Hofslandi.
8. Hreggás er sagt bær heitið hafi, vestur af Hofsnesstanganum, fyrir vestan götu þá, er liggur til Hofs. Hefir nýlega sjezt til tópta og garðs.
9. Eyrarhorn hefir bær heitið, kirkjustaður, sem sannast af Hofs máldaga. Orðin hljóða svo: Gjörði sá virðulegi herra og andlegi faðir, bróðir Magnús biskup í Skálholti, með ráði allra þeirra kennimanna, sem þá voru þar samankomnir, að allt það átt hefði kirkjan að Eyrarhorni, lönd, reka og ítök, það sem eptir var óspjallað, þá skyldi það leggjast til kirkjunnar að Hofi eptir þennan dag, etc.". Halda menn bær þessi hafi staðið út af Hofi, þar vestur af Hofsnesi, en fyrir ofan Ingólfshöfða. Það er og í orði, að rauðviðisstólpinn, sem er fyrir utan karlmannastólinn, sunnan fram I Kálfafellsstaðarkirkju, sje úr kirkjunni á Eyrarhorni.
10. Bær er sagt að verið hafi fyrir austan Fagurhólsmýri, nálægt Salthöfða. Sigurður Pálsson, sem nú hefir nokkra um áttrætt, segir, að einn kvenmaður hafi sá verið í Öræfum á sínum unga aldri, að nafni Steinunn Þormóðsdóttir, er sagt hafi sig fundið hafa i þessu bæjarstæði, undir hellu í holu, að sjá sem\ á bitahöfði, klæði, sem af kvenfati, ljósdökkt, og hafi hún haft það í upphlut sem óskemmt var; en sú hola hafi aldrei síðan fundist.
11. Fyrir ofan Fagurhólsmýri, sem nú er hjáleiga frá Hnappavöllum, uppi undir heiðinni fyrir neðan dalina, er haldið bær verið hafi. Þar sjezt til tópta. Jón Sigmundsson, sem nú býr á Hofshjáleigu, segist ungur hafa fundið þar leðurkúlu af reiða. En bæjarnafnið vita menn eigi.
12. Vestur af Hnappavöllum er haldið bær staðið hafi; þar hefir sjezt tál tópta. Halda menn þar hafi staðið Hnappavellir áður Öræfi aftóku.
13. Hólar er sagt bær heitið hafi fyrir austan Hnappavelli, þar sem nú kallast í Hólum. Þar hefir sjezt til tópta í minni Þeirra manna, sem nú lifa. Halda menn að verið hafi kirkjustaður. Hólalands er getið í Hofs-máldaga.
14. Húsavík er haldið bær heitið hafi, fyrir ofan lónið í suðaustur frá Stórasteini, sem stendur á Staðaraurum. Þar sjezt til tópta enn i dag.
15. Bakki er sagt bær heitið hafi fyrir austan Kvíá, þar hún rann að fornu, eða framundan Kambsmýrarkambi; sjezt ekkert til tópta. Um þetta bæjarnafn má bera saman við Hofs-máldaga og Sandfells-máldaga. Þar er nú graslendi allt aftekið, en fjaran liggur undir Sandfell og er nefnd Bakkafjara.
16. Fjall hefir bær heitið fyrir vestan Breiðumörk; Þar girðir nú jökull i kringum. Hofs-máldagi segir, að til Hofs liggi Fjall með 9 hundraða fjöru.
17. Breiðamörk hefir bær heitið og var í byggð fyrir 60 árum; var hálf kóngs-eign en hálf bændaeign, öll jörðin 6 hundruð. Hún er nú af fyrir jökli, vatni og grjóti. Þar hafði verið bænhús, og lá þar milli dyraveggja í bænhússtóptinni stór hella, hálf þriðja alin að lengd, en á breidd undir tvær álnir, vel þverhandarþykkt, en hvítgrá að lit, sem kölluð var Kárahella; sjezt hún nú ekki, en þó kunna menn að sýna hvar hún liggur undir. Er það sagt hún liggi á leiði Kára Sölmundarsonar, og hafði hann sjálfur borið hana inn, fyrir dauða sinn.
18. Krossholt hefir bær heitið, það sjezt af Sandfells- og Hofs-máldögum. Orðin hljóða svo: Frá Krossholti liggur kýrfóður til Hofs og ábyrgist að öllu", en eygi vita menn hvar sá bær staðið hefir.
19. Í Sandfells-máldaga er getið þessara jarða, og stendur þar svo: Maríukirkja sú, er stendur á Rauðalæk, á heimaland allt, Hlaðnaholt, Langanes og Bakka með öllum gögnum og gæðum". Ítem er þar getið Skammstaða og Steinsholts og Ness. Er svo sagt, að þessir bæir hafi til verið; en hvar þeir staðið hafa vita menn eigi.
20. Ingólfshöfði. Þar staðnæmdist 1 eða 2 vetur Ingólfur Arnarson. Þess getur í Landnámu. Þar er nú engin byggð, en 3 verhús, eitt frá Hnappavöllum, annað frá Hofi og þriðja frá Sandfelli. Höfðinn sjálfur er til Hofs og Sandfells eignaður. Þó er þar um ágreiningur vegna milliburðar máldaganna. Samt er hann af hvoru tveggju brúkaður.
Það er sögn manna i Öræfum, að svo hafi maður manni sagt, hver fram af öðrum, að tvisvar hafi Öræfi af tekið. Eitt sinn Þá smalinn í Svínafelli, að nafni Hallur, hafi verið búinn að reka fje heim til mjalta og kvenfólk var farið að mjólka, þá hafi stór brestur komið í Öræfajöklana, svo að þau hafði undrað; þar eptir hafi annar brestur komið og hafi smalinn þá sagt: að nú væri eigi ráð að bíða þess þriðja. Síðan hafi hann hlaupið upp í Flosahelli, sem er uppi í fjallinu fyrir austan Svínafell, og þá hafi hinn þriðji brestur komið í hjer sagða jökla, og þeir með það sama sprungið svo í sundur og hleypt úr sjer svo miklu vatni og grjóti fram úr hverju gili, að fólk og gripir hafi farist um öll Öræfi utan þessi smali og einn hestur blesóttur. En um sumarið þá þingmenn úr Austfjörðum áformuðu að ríða til alþingis, hafi hestur þessi staðið á einum kletti fyrir austan og sunnan Fagurhólsmýri, og steypzt þar ofan fyrir, þá þeir vildu höndla hann. Og síðan hafi klettur þessi verið kallaður Blesaklettur, og heitir hann svo enn í dag.
Í annað sinn hafi 8 bæir af tekið á Skeiðarársandi, sumir segja 16, aðrir 19, en ekkert vita menn hvað þeir heitið hafa. Sjezt þar nú ekkert nema nóg af steinum, smáum og stórum". https://timarit.is/page/2041037#page/n1/mode/2up
Talið hefur verið að 30-40 bæir hafi lagst í auðn við eldgosið í Öræfajökli árið 1362 og allt að 600 íbúar Litlahéraðs hafi farist í þeim hamförum. Áratugir hafi liðið áður en byggð fór að myndast aftur Öræfum. Áhrifa gosins hafi gætt verulega allt norður í Lónssveit.
"Eldri munnmæli greina frá tvöfaldri eyðingu vegna Öræfajökuls á 14. öld. Af Vilkingsmáldaga má sjá að Gyrður biskup (1349-60) gaf 12 sauðkindur og kú frá Jökulfelli næstu kirkju í Vestur-Skaftafellssýslu. Ætla má að þessi afhending sé vegna niðurfalls kirkjunnar og þegar afhendingin hefur samkvæmt árum biskups átt sér stað fyrir eldgosið mikla 1362, mætti vera að það væri rökstuðningur fyrir þeirri ætlun, að gos hefði verið fyrr á öldinni eða um 1350 að sumra ætlun." (Íslenskir sögustaðir IV bls 72-E P Kristian Kålund)
Landsins-saga | Breytt 10.10.2022 kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.9.2022 | 21:52
Uxafótur, Úlfljótur og geitskór
Það má segja að hið viðurkennda sé tískubóla líkt og vísindi, sem eru eitt í dag og annað á morgun. Þjóðsagan, jafnvel þó nafn- og staðlaus sé, sé aftur á móti fínpússuð, menntuð og fullreynd sannindi að afloknu námi hjá þjóðinni. Þess vegna hefur þjóðsagan það fram yfir samtíma heimildir að lúta hvorki vísindum né tísku, en í stað þess fylla upp í eyður og leiðrétta meinlokur samtímans.
Margar þær sögur, sem hvað mest eru af ætt þjóðsagna, virðast oft hvorki styðjast við skráðar heimildir, rök né staðhætti og eru því afgreiddar sem uppspuni eða hrákasmíð. Þannig er Íslendinga-sagan þátturinn af Þorsteini uxafót Ívarssyni. En þó svo þessi saga sé fræðilega handan þess möguleg þá geymir hún þjóðfélagsgerð og hugsanahátt í upphafi Íslandsbyggðar.
Ég sagði frá því í pistli um fjallagrös, auðróna og dánumenn í sumar að ég hefði farið í Vopnafjörð að Gljúfurárfossi því hugsanlega væri áhugavert að skoða ströndina neðan við foss því það hafði ég ekki gert áður. Þá, -eins og ég hafði tekið eftir áður, hafi svo undarlega viljað til að þar voru örfáir erlendir ferðamenn á rangli, aðallega miðaldra þýskir Norrænu farþegar.
Þegar ég ætlaði að gera grein fyrir þessu sá ég strax að það yrði of langt mál í pistli um fjallagrös, auðróna og dánumenn. Mér hafði semsagt árum saman leikið hugur á að vita hvort hugsanlega eitthvað fleira trekkti erlenda ferðamenn á þessar slóðir, annað en Gljúfurárfossinn, malarslóðinn yfir Hellisheiði og stórbrotin norðurströnd Vopnafjarðar. Því aðrir túristar, en þessir Norrænu farþegar, sem ég þekki einungis af þýsku bílnúmerunum, -virðast fara lítið út fyrir þjóðveg eitt.
Þessi ferð var því engin tilviljun. Ég hafði þar að auki lesið s.l. vetur um Þorstein uxafót Ívarsson og ákvað þá að fleira áhugavert væri að skoða á ströndinni neðan við foss, s.s. tættur Krumsholts sem sagðar eru þar vera, en ekki fann ég þær. Þetta var reyndar eina ferðalagið sem ég hafði planað í sumar. En eftir það tel ég mig hafa komist að því hvað dregur Norrænu farþega að þessum stað, annað en Gljúfurárfoss.
Þórður skeggi hét maður. Hann nam lönd öll í Lóni fyrir norðan Jökulsá, millum og Lónsheiðar, og bjó í Bæ tíu vetur. En er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leiruvogi (nú Mosfellsbær, landnámi Ingólfs) fyrir neðan heiði þá seldi hann lönd sín Úlfljóti lögmanni er þar kom út í Lóni.
Á þessum orðum hefst sagan um Þorstein uxafót og vitna því næst í Úlfljótslög, -fyrstu lög Íslendinga, sem stundum eru nefnd Grágás og er þá látið eins þar sé um lögbók að ræða, en í raun voru lögin upp sögð en ekki lesin því þau fóru ekki á bókfell fyrr en löngu eftir að þau tóku gildi og þá sjálfsag eitthvað bjöguð. Þar eru fyrst tiltekin lög um að eigi skuli styggja landvætti og um heiðna siði, m.a. er þar að finna lýsingu á baug hofgoðanna og hvernig lög voru svarin við goðin.
Þá er sagt frá uppruna og ætt sögupersóna og komu þeirra til Íslands. Skip kemur úr hafi í Gautavík með norskan viðskiptajöfur, hersir er var kallaður Ívar ljómi, Þorkell sonur Geitis í Krossavík býður Ívari og föruneyti að hafa vetursetu í Krossavík. Þorkell biður Oddnýju systur sína, sem var mállaus og honum mjög kær, að vera Ívari til þjónustu um veturinn. Hún biðst undan með því að rista rúnir og lætur þar bróður sinn vita að að þessi ráðstöfun muni leiða til ófagnaðar.
Um vorið er Oddný ófrísk af barni Ívars. Þorkell biður Ívar að eiga Oddnýu og heitir honum ríkidæmi í staðinn. Ívar firrtist við og segist geta valið úr glæsilegu og ættstóru kvonfangi í Noregi í stað málleysingja og gefur í skin að Oddný sé lauslætisdrós. Ívar yfirgefur Krossavík í fússi ásamt föruneyti. Þorkell eltir Ívar um fjöll og heiðar Austurlands með það markmiði að drepa hann. Ívar og félagar komast til skips síns í Gautavík og yfirgefa Ísland.
Það sem er ótrúlegt og órökrétt við í samhengi þessa hluta sögunnar, - auk Úlfljótslaga, er að nefndir eru til sögu staðir vítt og breitt um Austurland. Gautavík suður í Berufirði, Krossavík norður í Vopnafirði sem ekki eru neinir nágrannar, auk þess sem ættfærsla sögupersóna til Þóris hins háva í Krossavík, norðan Reyðarfjarðar (nú Vöðlavík), er nefnd til sögunnar sem er ekki beinlínis í leiðinni.
Oddný eignast um sumarið son sem Þorkell biður í reiði sinni Freystein þræl sinn að bera út. Freysteinn er sagður gæðablóð en hlýðinn og ber ungabarnið út með flesk sneið til að lifa. Krumur í Krumsholti heyrir barnsgrát í landi sínu og finnur snáðann og sneiðina. Kerling hans Þórgunnur, forn í skapi mikið eldri en Krumur og þau barnlaus, tekur drenginn að sér og þau gefa honum nafnið Þorsteinn.
Þorsteinn vex úr grasi í Krumsholti til æskusára, næsta bæ norðan við Krossavík í Vopnafirði. Hann kemur þá dag einn í Krossavík og sér Geitir afi hans hann og þekkir strax á svipnum að þarna er Krossvíkingur á ferð og minnist sonar Oddnýjar sem út var borinn.
Eftir þetta kemur Þorsteinn oft í Krossavík og er þar í góðu yfirlæti. Hann á draumkennt ævintýr með þrælnum Freysteini þar sem hann kemst yfir gull í haug fornmannsins Brynjars og gefur móður sinni, sem verður til þess að Oddný fær málið þegar hún lætur gullið undir tungurætur.
Freysteinn fékk frelsi brátt af orðum Þorsteins og gerði Þorkell það vel og liðuglega því að honum var vel í geði til Freysteins því að hann vissi að hann var góðrar ættar og göfgra manna fram í kyn. Grímkell faðir Freysteins bjó á Vors og átti Ólöfu Brunnólfsdóttur, Þorgeirssonar, Vestarssonar. En Sokki víkingur brenndi inni Grímkel föður hans en tók piltinn og seldi mansali. Hafði Geitir hann út hingað.
Það segja sumir menn að Þorsteinn gifti Freysteini Oddnýju móður sína. Freysteinn hinn fagri bjó í Sandvík á Barðsnesi og átti Viðfjörð og Hellisfjörð og var kallaður landnámsmaður. Frá honum eru komnir Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar.
Síðan yfirgefur Þorsteinn Ísland og siglir úr Gautavík til Noregs. Þar finnur hann Ívar föður sinn og fer fram á að hann gangist við sér. Ívar svarar honum; "Þú munt eiga allt verra faðerni. Eru nógir þrælar út á Íslandi til þess að móðir þín kenni þig. Er það og mála sannast að mér þætti eiga að leiða drengjum og herjanssonum það að hver pútuson kallaði mig föður að sér." Þorsteinn segist muni hitta hann aftur seinna og þá muni honum vera betra að svara sér á réttan máta, því annars muni hann drepa hann.
Þorsteinn varð frækinn maður í Noregi eftir að hafa drepið flögð í Heiðarskógi og Ólafur konungur Tryggvason gefur honum nafnið uxafótur fyrir eitt hreystiverkið. Næst þegar hann hittir Ívar föður sinn til að herma upp á hann faðernið þá gengst Ívar stoltur við syni sínum. Þorsteinn uxafótur lét lífið á Orminum langa með Ólafi konungi Tryggvasyni og þar endar þáttur Þorsteins uxafóts.
Eins og greina má á þessum stutta úrdrætti er sagan þjóðsagnakennt ævintýr sem tekur til upphafs Íslandsbyggðar, -ef með eru talin Úlfljótslög, og til kristnitöku, -ef tekið er tillit til dánardægurs Ólafs konungs Tryggvasonar og Þorsteins uxafóts. Úlfljótur sá er færði Íslendingum lögin bjó á Bæ í Lóni, enn sunnar á Austurlandi, og Grímur geitskór fóstbróðir hans og bjó á næsta bæ.
Það var Grímur sem ferðaðist um Ísland til að vinna lögum Úlfljóts samþykkis og finna Alþingi stað. sumir vilja meina að geitskór hafi ekkert með skótau að gera heldu þýði það mælingamaður, enda segir sagan að Grímur hafi staðsett Alþingi af stakri nákvæmni. Sagan nær því um allt Ísland. Tímarammi sögunnar gengur ekki upp í einni mannsæfi hvað þá á stuttri ævi útborins barns.
Margir hafa tekið lítið mark á þessari sagnfræði og talið hana fjalla um þjóðsagnakenndar missagnir ef ekki sé þá um hreinan skáldskap að ræða. Samt hreifir sagan við flestum á þann hátt að um sannan boðskap sé að ræða. Einn þeirra var Kristian Kålund sem vann eitt af stórvirkjum útlendinga um Ísland og færði útlendingum lykil að heimi Íslendingasagna. Kålund komst ekki fram hjá þættinum um Þorstein uxafót þegar hann fór um Vopnafjörð vegna allra örnefnanna sem vísuðu þar á söguna.
Kålund hefur m.a. þetta að segja: Þessi litli þáttur í Flateyjarbók er sérstaklega eftirtektarverður. Hann sýnir hve lífseig örnefni geta verið án tillits til ritaðra heimilda og jafnvel þótt ritaðar heimildir greini á (og á þá við hvernig sagan hefur lifað í gegnum aldirnar í Vopnafirði m.a. vegna Krossavíkur, Krumholts og Brynjarshaugs ofl örnefna sem honum tengjast).
Hin varðveitta gerð þáttarins í Flateyjarbók, hin eina sem til er, heimfærir semsé greinilega þá atburði sem er sagt frá, til allt annarra byggða. Fyrst er sagt í inngangi þáttarins frá ýmsum landnámsmönnum á Austfjörðum, meðal þeirra er Þórir hávi en nam Krossavík fyrir norðan Reyðarfjörð. - Söguritari þáttarins um Þorstein uxafót, eins og hann er í Flateyjarbók, hlýtur að hafa verið með öllu ókunnur staðháttum á Austurlandi. (Íslenskir sögustaðir-P.E. Kristian Kålund)
Tekur Kålund þarna til þess hvar landnámsmenn námu land, eins getur hann sér þess til að nafn góða þrælsins Freysteins hafi ekki verið upphaflega í þættinum, heldur verið sótt til landnámsmannsins Freysteins fagra sem hann segir að hafi numið land við Reyðarfjörð. En þar misstígur Kålund sig á staðfræðinni því landnáma segir:
Freysteinn hinn fagri hét maður; hann nam Sandvík og bjó á Barðsnesi, Viðfjörð og Hellisfjörð. Frá honum eru Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar komnir.
Þórir hinn hávi og Krumur, þeir fóru af Vors til Íslands, og þá er þeir tóku land, nam Þórir Krossavík á milli Gerpis og Reyðarfjarðar; þaðan eru Krossvíkingar komnir.
En Krumur nam land á Hafranesi og til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúðey og aðrar úteyjar og þrjú lönd öðrum megin gegnt Þernunesi; þaðan eru Krymlingar komnir.
Austfirðingurinn Halldór Stefánsson skrifaði um landnám í Austfirðingafjórðungi í Austurland safni til austfirskra fræða. Hann kemst að þveröfugri niðurstöðu við Kålund. Krymlingar þekkjast nokkuð af sögu Þorsteins uxafóts. Þar segir að sonur hans hafi heitið Ásbjörn, faðir Vémundar föður Krums (yngra) í Krumsholti í Vopnafirði, þess er fóstraði Þorstein uxafót.
Kona Krums, fóstra Þorsteins, segir sagan að hafi verið Þórgunnur Þorsteinsdóttir Veturliðasonar, Ásbjarnarsonar, göfugs manns á Beitistöðum (í Noregi), Ólafssonar langháls, Bjarnasonar reiðarsíðu. Þessi ættfærsla er samhljóða ættfærslu Veturliða (landnámsmanns) í Borgarfirði (eystra) og umgetinna bræðra hans og getur allt vel heimfærst.
Halldór telur þau Krum (yngri) og Þórgunni í Krumsholti í Vopnafirði hafa verið náin frændsystkin, sem venja var til í heiðnum sið. Þáttur Þorsteins uxafóts sé því merk heimild um margt og engin ástæða til að vefengja ættfærsluna. Eins er athyglivert að Halldór telur að Krossavíkur landnámsjarðirnar, sem bæði má finna þar sem nú heitir Vaðlavík norðan Reyðarfjarðar og Krossavík í Vopnafirði, -þar sé nafngiftin tilkomin vegna þess að landnámsmenn þar hafi verið kristnir.
Það leynir sér ekki að sagan af Þorsteini uxafót á sér þann tilgang að lýsa tíðaranda þess tímabils sem hún tiltekur þ.e. á mörkum heiðni og kristni á Íslandi. Margt má finna um Þorstein uxafót á alheimsnetinu. Rúmlega klukkustundar bodcast á ensku finnst við stutta leit um Þorsteins þátt uxafóts, auk þess á Þorsteinn Uxafótur á wikipedia síðu á spænsku. Á vísindavef HÍ má lesa um hvernig sagan geymir heimildir sem ekki finnast víða.
Þrátt fyrir skort á ritheimildum frá heiðnum tíma á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum er sú skoðun ríkjandi meðal fræðimanna að útburður á börnum hafi verið stundaður í norrænum samfélögum í heiðni. Samkvæmt sögunum virðist barnaútburður hafa verið frjáls í heiðni, og ástæður fyrir útburði verið af ýmsum toga. Í Þorsteins þætti uxafóts er drengur borinn út vegna þess að hann er óskilgetinn og faðirinn neitar að kvænast móðurinni. (af vísindavef HÍ)
Sagan af Þorsteini uxafót er ævintýri þar sem útbornu barni er bjargað. Sagan lýsir jafnframt fyrirgefningunni, hvernig Þorsteinn fyrirgefur móðurbróðir sínum og föður. Hann gefur móður sinni gull svo hún fær málið og launar þrælnum Freysteini með frelsinu. Eftir það fer hann til annarra landa og berst við flögð og forynjur og lætur lífið á Orminum langa með Ólafi Tryggvasyni, sem var sá Noregs konungur, er mestan þátt átti í að kristna Ísland. Þorstinn uxafótur var þátttakandi í tímamótum þegar nýr siður tekur við, -kristnin með sínum kærleika, fyrirgefningu og rétti allra barna til lífs.
Sagan skírskotar til dagsins í dag þar sem fæðingarrof þykir svo til sjálfsögð úrlausn, hvað þá ef barn verður til við nauðgun, -eins og skilja má af orðum og afdrifum Oddnýjar. Sagan á sér einnig skírskotun til þeirra sem útskúfaðir hafa verið vegna kynferðislegs ofbeldis, hvað fyrirgefninguna varðar til Ívars ljóma sem fær annað tækifæri. Og sagan á sér síðast en ekki síst skírskotun í nú glataða ímynd karlmennskunnar, með hetjulegri framgöngu útburðarins Þorsteins uxafóts sem ekki var ætlað neitt líf. Svona sannar eru þjóðsögur.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 1.10.2022 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2022 | 06:14
Að austan
Nú er svo komið að nánast hvergi má að stinga niður skóflu án þess að fornminjar blasi við og tefja þar með stórframkvæmdir. Hér fyrir austan hafa verið tveir fornleifauppgreftir í gangi. Annar í Stöð á Stöðvarfirði þar sem Bjarni Einarsson fornleifafræðingur hefur grafið sig aftur fyrir landnám. Hinn við Fjörð í Seyðisfirði þar sem sagan segir að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi búið.
Á Seyðisfirði stóð til að snara upp ofanflóðavörnum vegna skriðuhættu undir Bjólfinum, en rétt þótti sumarið 2020 að skoða minjar frá 17. - 19. öld áður en framkvæmdir hæfust. Nú hefur komið í ljós að fornleyfauppgröfturinn mun standa í þrjú ár í bakgarði húsa við Fjörð. Á Stöð í Stöðvarfirði liggur hins vegar lítið á vegna fjárskorts, enda gæti niðurstaðan þaðan orðið kostnaðarsöm við að breyta Íslandssögunni.
Við Fjörð í Seyðisfirði fannst sumarið 2021 kumlateygur með fleiru en einu bátskumli, og nú í sumar víkingaskáli frá landnámsöld, vel varðveitt undir skriðu sem féll á 11. öld. Þessi fundur staðfestir betur en nokkuð annað hve Íslendingasögur, þjóðsögur og munnmæli fara með nákvæmt mál.
Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þennan vetur.
Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir. (Landnámabók-Sturlubók)
Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari safnaði á sinni ævi miklu af munnmælum um landnám á Austurlandi, sem fátæklega er getið í Íslendingasögum, og hafði í Þjóðsagnasafni sínu. Hann safnaði munnmælum á Seyðisfirði og í VI bindi segir m.a.; Frá Seyðfirðingum.
Bjólfur er heygður í fjallsbrúninni sunnan í tindinum (Bjólfi), upp af Firði, beint á móti Sölva (Ísólfi) í Sölvabotnum, hinumegin sveitarinnar. Það eigi meira en hitt að varna því að hlaupið geti á Fjörð eða ræningjar ræni Seyðisfjörð, sem þeir gera aldrei á meðan haugar þeirra eru órofnir.
Ýmsir af frændum, vinum og venslamönnum Bjólfs byggðu suðurströnd Seyðisfjarðar og bæi þá sem síðan eru við þá kenndir. Hánefur byggði Hánefsstaði og Sörli bróðir hans Sörlastaði. Kolur byggði Kolstaði og Selur segja menn vera bróðir hans og byggði Selstaði. (En aðrir menn segja að sú jörð dragi nafn af því að hún væri selstöð).
Sigfús gefur talsverðar upplýsingar um uppruna Seyðfirðinga í þjóðsagana safni sínu: Ein eru það munnmæli að til hafi til forna verið þáttur af Seyðfirðingum sem nú er tapaður eins og margar aðrar sögur. Hafa reyndar sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum. Síðan er haldið áfram að skýra örnefni með munnmælum sem þeim fylgja.
Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring og fyndi smali nokkur þar marga sauði útigengna og héti fjörðurinn því Sauðafjörður. Og enn er sagt að þar áður seiðmenn (sjá Loðmundar þátt). Þriðju segja nafnið dregið af seiðum.
Sigfús er með þátt af Loðmundi í safni sínu, þar er eftirfarandi um nafn Seyðisfjarðar:
Eyvindur hét maður er út hafði komið með Brynjólfi hinum gamla er nam Fljótsdal. Hann var óeirinn og göldróttur mjög. Er við hann kenndur Eyvindardalur því þar hafðist hann við. En síða flutti hann í Seyðisfjörð og voru þeir átján saman, allir fjölkunnugir og seiðmenn miklir. En er Bjólfur nam fjörðinn færðu þeir byggð sína í Mjóafjörð og námu hann; bjó Eyvindur síðan í Firði (Mjóafirði) fyrir innan fjaðrabotn. Þeir fóstbræður (Bjólfur og Loðmundur) nefndu fjörðinn eftir þeim Eyvindi og heitir hann því Seyðisfjörður. (Þjóðs SS VI bindi)
Sigfús safnaði örnefna- og munnmælasögum á Seyðisfirði árum saman, enda dvaldi hann þar langdvölum þegar hann setti saman sitt þjóðsaganasafn, sem er einstakt á íslenska vísu að því leiti að hann lifði sig inn í staðhætti, með því að dvelja á þeim stöðum þar sem hann safnaði sögum.
Hann segir munnmæli segja að til hafi verið sagna þáttur af Seyðfirðingum sem tapast hafi. Ekki er ólíklegt að munnmælin hafi að einhverju leiti geymt þær Íslendingasögur.
Vitað er að til var Íslendingasaga fram á 19. öld sem kallaðist Jökuldæla og má ætla að í forn þjóðsögum Sigfúsar sé mikið af munnmælum ættuðum úr þeirri bók. Síðustu síðurnar af Jökuldælu eru af sumum sögð hafa glatast í höfninni í Glasgow á tímum Vesturfaranna.
Sjónvarpstöðin N4 var nýlega á Seyðisfirði og ræddi við Ragnheiði Traustadóttir fornleifafræðing sem sagði sögu að austan.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
19.9.2022 | 06:02
Beta frænka borin til grafar
Það hefur varla verið um annað rætt síðustu dagana en að Elísabet drottning sé öll, -og keppast fjölmiðlar við að gera arfleið hennar skil. Það verður seint sagt um Elísabetu að hún hafi verið femínisti, eins og merkingin er lögð í það orð. Hún var merkisberi þess kveneðlis sem ekki villir á sér heimildir, -og fór með hið raunverulega vald feðraveldisins.
Íslendingasögurnar eru einstakur menningararfur sem geima vel ættartengsl Íslendinga við bresku konungsfjölskylduna. Sennilega má segja sem svo að flestir Íslendingar, allavega samkvæmt gömlu goðgánni, geti rakið ættir sínar saman við kóngafólkið.
"Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa": -sagði Breski rithöfundurinn og fornleifafræðingurinn Adam Rutherford, í bókinni Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937.
"Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar": -hélt Rutherford áfram.
Þarna er m.a. verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Þeirra Göngu-Hrólfs forföður Normandí Normanna, sem unnu orrustuna um England við Hastings árið 1066 og breska konungsættin er rakin til, -og landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit.
Vilhjálmur bastarður sá sem fór fyrri Normönnum í orrustunni við Heistings 1066 varð fyrsti konungur núverandi konungsættar.
Átti hann að forfeðratali ætt að rekja til Göngu-Hrólfs Rögnvaldssonar bróður Hrollaugs í Hornafirði.
Tengslin eru reyndar mun nánari því í landnáms föruneyti Auðar Djúpúðgu var Kaðlín dóttir Hrólfs Rögnvaldssonar.
Það eru þau Kaðlín og Hrollaugur sem flestir Íslendingar geta rakið ætt til og fræðst um með því í að glugga í Íslendingasögurnar, sem eru þær bókmenntir að aðrar hafa aldrei ágætari verið, að mati Adams Ruterfords.
Það er vegna hins einstaka íslenska bókmenntarfs, sem við getum farið inn á Íslendingabók erfðagreiningar, og séð að í dag er Beta frænka borin til grafar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2022 | 10:23
Borg óttans
Reykjavík er stundum kölluð borg óttans og kannski ekki að ástæðulausu. Jafnframt hefur því heyrst fleygt að suðvestur hornið allt sé kallað landráðaskagi af landsbyggðarlýðnum. Það breytir samt ekki því að Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og fæðingabær síðuhafa.
Ég fór til Reykjavíkur s.l. sunnudag. Flaug suður til að fara í þræðingu á Hjartagátt Landspítalans eldsnemma á mánudagsmorgunn. Fékk gistingu í Barmahliðinni hjá Dagbjörtu systir sem hringdi í Áskel bróðir og boðaða að hann yrði heimsóttur á sunnudagskvöldið af sér og okkur Sindra bróðir.
Guðjón mágur keyrði upp í Grafarvoginn og á þeirri leið varð mér hugsað hvað ég hefði oft keyrt þessa leið þau fjögur ár sem við Matthildur bjuggum í Grafarvoginum. Breytingarnar á Grafarvogi eru ekki miklar á 20 árum, helst að trén hefðu stækkað og gróðurinn virtist suðrænni.
Morguninn eftir keyrði Guðjón mér á Landspítalann við Eiríksgötu þar sem ég var þræddur. Þessi þræðing var ákveðin í byrjun júní og ég búin að vera með undanbrögð í allt sumar, sem ég tímdi ekki að eyða degi af í leiðindi.
Meðan ég lá á gáttinni bíðandi eftir að slagæðin lokaðist, sem voru um 4-5 klukkutímar, varð mér hugsað til þess, gónandi upp í loftið á rafmagnsljósin, að á horninu hinu megin við götuna hefði verið klippt á naflastrenginn fyrri öllum þessum árum síðan, enda hafði ég um ekkert að hugsa snjall tæknilaus maðurinn og búin að drepa á mínum gsm læstum inn í skáp.
Dagbjört systir kom svo og sótti mig og þegar við komum í Barmahlíðina ákváðum við að ganga út á Klambratún í Kjarvalstaði og skoða portrettin hans Kjarvals. Mér þóttu Borgfirðingarnir, nágrannar mínir að austan bestir og fannst þekkja hvern andlitsdrátt.
Ein af stóru myndunum var af fjórum mönnum stöddum í Hjaltastaðaþinghá í svífandi umhverfi með Selfljótinu og Dyrfjöllunum séðum frá Kjarvalshvamminum. Þeirri mynd snaraði Kjarval á striga í geðshræringu þegar honum var færður Gullmávurinn að gjöf, norskan Norlending, seglbát sem Kjarval sigldi einn niður Selfljótið út á Héraðsflóann og þokuna áður en hann kom inn á Borgarfjörð.
Þá var Kjarval 71 árs siglinga tækjalaus og óreyndur siglingamaður en ekki brást honum ratvísin heim í þokunni. Spurning hvernig menn hefðu sig í gegnum þetta snjalltækjalausir í dag þegar gps og kort eru komin í hvert snjallúr og síma.
Á þriðjudagsmorgunninn fór Dagbjört með mér á rölt um Reykjavík. Við keyrðum upp á Skólavörðuholt og löbbuðum niður Skólavörðustíginn niður í gömlu Reykjavík sem var orðin gjörbreytt neðan við Lækjargötu frá því ég kom þar síðast.
Ég get nú ekki sagt sem svo að ég hafi beint veri imponeraður af nýju Reykjavík þó svo að steinsteypan hafi fengið að njóta sín á stöku stað í því H&M Kalverstraat, þá minnti það meira á Sovéskan supermarkað. Túrista vaðallinn hafði velst um allar götur, en þarna brá svo við að ekki var hræðu að sjá innan um heimsklassa herlegheitin.
Á Austurstræti streymdi túristavaðalinn og hægt var að fylgja straumnum upp á Skólavörðuholtið aftur þar sem markmið ferðarinnar var fullkomnað með því að skoða Listasafn Einars Jónssonar. Það safn hafði ég aldrei skoðað og varð dolfallinn.
Dagbjört keyrði mér svo út á Reykjavíkurflugvöll. Það má því segja að ferðin í borg óttans sem ég hafði forðast í allt sumar hafi endað sem menningartengd borgarferð.
Kjarval engum líkur í sinni fjölbreytilegu litadýrð
Íslenskt handverk á boðstólum í gamalli steypu
Gimli í Lækjarbrekku, húsið sem ég vann síðast við múrviðgerðir í Reykjavík, en ég var svo heppin að vinna mikið í gömlu Reykjavík þegar við bjuggum í Grafarvogi
Nýja Reykjavík
Sovéskur súpermarkaður?
Meir að segja skatturinn er farinn, en myndin hennar Gerðar Helgadóttur stendur fyrir sínu
Eftirsóttasta hornið heitir ekki lengur Kaffi París, nú heitir það Dukc & Rose
Hressó stendur vaktina
Lækjarbrekka án lambasteikur
Skólavörðustígur og glóballinn
Ferðamenn í haustlitum
Ísland í dag
Skólavörðuholt
Slakað á garðinum á bak við Listasafn Einars Jónssonar
Sjá má grilla í hrjóstrugt Skólavörðuholtið í allri hnattrænu hlýnuninni
Útlaginn hans Einars Jónssonar, mitt upp á hald
En má sjá gömlu litfríðu Reykjavík líkt og rigningarskúri á stöku stað
Ferðalög | Breytt 15.9.2022 kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.9.2022 | 16:24
Á gólfinu
Það er sjaldnast svo að allri viti hvað hefur gengið á áður en gengið er um gólf. Þess lags gjörningi má líkja við orrustu, því gólf sem gott er að ganga á eru ekki gerð meðan óviðkomandi eru að þvælast um á svæðinu. Fyrir það fyrsta þarf að ná óvefengjanlegum yfirráðum áður en hafist er handa ef ekki á allt að fara í handaskolum.
Gólf eru venjulegast þannig að þeim er ekki veitt eftirtekt nema eitthvað hafi farið aflaga og þannig á það oftast að vera. Þess vegna eru aðeins mest áríðandi upplýsingar settar á gólf s.s. biðraðagirðingar, tveggja metra regla og gular línur, -merkingar fyrir hauslausar hænur.
Síðuhöfundur hefur fengist við gólf stóran hluta starfsævinnar og þá ekki bara að steypa þau, sem er náttúrulega skemmtilegast, -þannig gjörningur er nokkurskonar algleymi. Steypan flæðir og allir á tánum við strauja hana niður svo ekki verið úr gjörningnum óskapnaður sem myndi seinna vekja athygli.
Það þarf yfirleitt engar aðgangstakmarkanir þegar gólf eru steypt. Oftast nægir bara hávaðinn, hangandi gálgar með svífandi steypu auk röndóttra steypubíla, svo fólk haldi sig frá svæðinu. Enda hætt við að óviðkomandi stigju í gegnum járnagrindina og sykkju niður í steypudýið ef þau hætta sér út á þesskonar hamfarasvæði.
En þegar maður hefur steypt gólf, sem vekur enga athygli, er maður stundum fengin til að gera fleira eftir að steypan harðnar, og þar hefst stríðið. Um leið og komið er gólf á fjöldi manns tilveru sína á því komna, og ver sinn tilverurétt með kjafti og klóm.
Á um 15 ára tímabili fékkst ég aðallega við epoxy iðnaðargólf og þá m.a. fyrir fiskiðnað og matvælavinnslu. Þá vorum við vinnufélagarnir fengnir til viðhalds á gólfum vítt og breitt, og þá á fyrir fram ákveðnum tíma, oft sumarfríum og stórhátíðum eða nóttinni, svo röskun daglegrar starsemi yrði sem minnst.
Það var helst þegar verkefnin urðu þannig að aðrir voru á svæðinu að stríðsástand skapaðist og þá ekki síst þar sem aðrir iðnaðarmenn þurftu einnig að vinna sitt verk áður en gólfið færi í hefðbundna notkun. Þá var betra að vera með fullskipað lið ef ekki átti að fara illa.
Eitt sinn vorum við félagarnir fáliðaðir í Ísrael við nýbyggingu í svo kölluðu dairy og áttum í megnustu vandræðum með að verja okkar svæði, þurftum að marg semja okkur í gegnum gólfið. Samt sem áður þurfti hvað eftir annað að kasta stríðshanskanum enda hefur það gengið þannig til um aldir í landinu helga.
Umboðsmaðurinn okkar hét Israel, reyndi hann lengi að loka öllum aðkomuleiðum með járnbentum grindum í dyragötum, en rafvirkjar og annar óþjóðalýður klipptu sig í gegn með víraklippum. Þá mætti Israel til að ná nýjum samning eða gera við varnargrindurnar tuðandi fokcing cockroaches, sem var það eina sem við skildum í hebresku, meðan illskan skein út úr krókódílsaugunum.
Á sama tíma voru rússneskar krafta konur að þrífa hliðarsali við gang sem við vorum að lakka og komu fram með skolpið til losna við það í niðurföllin. Einn af okkur félögunum hljóp organdi fram og aftur ganginn til að stöðva eyðilegginguna, en þá birtist bara haus á annarri bullworker kellingu út um eitthvað dyragatið og svo skólpfata sem skvett var úr inn á ný lakkað gólfið.
Umboðsmaðurinn gafst upp og fór heim, en þá tók ekki betra við í pökkunar salnum. Færibönd sem komu í gegnum vegginn fóru að snúast og framleiðslulína verksmiðjunnar var prufukeyrð. Hundruð af opnum humus dósum streymdu á böndunum í gegnum vegginn og duttu fram af þeim í gólfið þar sem slettist úr þeim og humus haugar byrjuð að myndast eins og eldfjalla dyngjur.
Eftir að tókst að stoppa prufukeyrsluna fékk ég þær rússnesku til að hreinsa upp humusið, félagar mínir sem voru á bak við blindhorn urðu óðir þegar þeir komu fyrir hornið og sáu að þær rússnesku voru aftur komnar á okkar yfirráðasvæði. Ég þurfti að róa þá og segja þeim að dömurnar væru nú á mínum vegum og ef við fengjum þær ekki í lið með okkur væri orrustan endanlega töpuð.
Já það getur verið betra að vera vel liðaður í stríði þó þar sé bara um gólfsnepil að ræða. Oftar en ekki var það svo í íslensku frystihúsunum að vélamennirnir sögðu við okkur vinnufélagana; mikið verðum við fegnir þegar þið verðið farnir.
En það var nú reyndar ekki svona gólf sem ég ætlaði að skrifa um núna, heldur gólf sem eru gerð án fyrirheits, hafa enga ákveðna fyrirmynd eða tilgang eru svona nokkurskonar happening. Þannig gólf veita oft mikla ánægju, af því þar er maður svo til sjálfráður. Hlaupi yfir þannig gólf hundur eða köttur og skilji eftir spor, þá er þau bara hluti af gjörningnum.
Við félagarnir vorum að vinna við svoleiðis gólf af og til frá áramótum allt til ágústloka. Þetta gólf er í Sláturhúsinu - Menningarmiðstöðinni á Egilsstöðum. Í ár voru akkúrat 30 ár liðin frá því að við félagarnir frá Djúpavogi lögðum epoxy gólf á sláturhús Kaupfélags Héraðsbúa sáluga, -þegar það gekk í endurnýjun lífdaga sem stórgripasláturhús og kjötvinnsla.
Núna 30 árum seinna dunduðum við vinnufélagarnir okkur við að steypa upp í niðurföll og afmá vatnshalla og misfellur, flotuðum síðan gólfið og lökkuðum í sátt við guð og menn. Þetta gólf átti að vera það lit- og látlaust að það tæki enga athygli frá því sem sýnt yrði á veggjum sýningarsala Menningarmiðstöðvarinnar. En viti menn, -á opnunarsýningunni um síðustu helgi voru myndlistin höfð á gólfinu.
Ps. í sláturhúsinu rifjuðust upp mörg dund gólf í gegnum tíðina og set ég hér inn myndir af nokkrum þeirra.
Gólf eru alltaf að verða flóknari og þar af leiðandi fleiri fagmenn sem koma að gerð þeirra, helgast það af því að lagnir fyrir hitakerfi og rafmagn eru í síauknum mæli komið fyrir í gólfum. Því getur þurft að steypa sama gólfið allt að þrisvar sinnum
Gólfið á þessari mynd er í veitingasal baðstaðarins Vök og er steinsteypa í sinni tærustu mynd
Stigahús í blokkinni, flotað og lakkað, flísalagðir blettir á stigapöllum til að brjóta upp flotið
Tilraunagólf frá því á síðustu öld flotað með lituðu sementsfloti og lakkað. Veitingastaðir voru oftast reiðubúnastir í tilraunir
Flotuð, lituð og lökkuð stofugólf. Félagi minn í steypunni fékk mig einu sinni til að hjálpa sér við að flota og lakka stofugólf heima hjá honum. þannig ætlaði hann að hafa gólfið þangað til hann fyndi tíma til flísaleggja það, gólfið mistókst að mestu að okkar mati, enda töldum við okkur það færa að geta unnið tveir 3-4 manna verk. Tveimur árum seinna sagði hann mér að hann væri kominn í veruleg vandræði vegna gólfsins, konan fengist ekki með nokkru móti til að samþykka flísar, það kæmi ekki til greina annað en hafa flotið áfram
Þetta gólf er stimpluð steypa, gert til bráðabyrgða fyrir hana Matthildi mína. Þegar við seldum húsið var ekki enn búið að gera neitt fyrir gólfið og ég frétti að svo hefði ekki verið 20 árum eftir að við fluttum úr því
Kaffistofu gólf sem var flotað og lakkað fyrir hátt í 20 árum. Svo vildi til að fyrirtækið sem ég vinn hjá keypti húsnæðið 12 árum eftir að við félagarnir gerðum þetta gólf. Stundum heyrði maður undrast yfir því hvernig svona stórum flísum hefði verið komið á gólfið. En þetta gólf er flotað og lakkað, fúgur skornar í það með steinskífu. Gólfið var tilraun og varð allt öðruvísi útlits en til stóð
Vök-Bath við Urriðavatn er eins lókal og vera má, veggir, gólf og borðplötur steypt úr möl úr hinni fornu, , , horfnu Jöklu. Tréverk úr Héraðs lerki. Þak og veggir þaktir torfi að utan úr móunum í kring
Það er nánast hægt að gera hvað sem er með floti, en það er nánast útilokað að lofa einhverri ákveðnu útliti. Endirinn verður alltaf óvæntur gjörningur, t.d. átti þetta gólf að vera grátóna - hvítt og svart taflborð, en varð nánast flösku grænt og hlandgult þegar það var glær lakkað
Þegar Sláturhúsið-Menningarmiðstöð var opnað um síðustu helgi voru listakonurnar Ingunn Þóra Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir með sýninguna Hnikun, -sláturhús-þema. Þar mátti sjá blóðið renna um fornan vígvöll ofan í horfin niðurföll sláturhússins
Ps. nr 2 -til að enda þessa gólfa þvælu einhvern veginn þá set ég hérna inn video sem sýnir hvernig grundvöllur er lagður að íslensku gólfi.
Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)