1.12.2020 | 05:50
Millennium
Eins og þeir hafa orðið áskynja, sem hafa lesið langlokur þessarar síðu, þá er yfirleitt um algjöra steypu að ræða. Hrærða saman af þvælukjóa sem á það til að gefa dauðann og djöfulinn í uppskriftina. En eins og hjá flestum viti bornum verum hefur ekki ávallt verið svo, síðuhöfundur hefur haft hugmyndir a la Arnaldur.
Ég læðist stundum niður í geymslu til hnýsast í gömul blöð. Þegar ég sit þar koma upp minningar og atburðarás verður þá oft ansi hröð. Stundum kemur fyrir að ég rekst á eitthvað sem vakið hefur vonir og þrár, -innan um bók daganna. Ef tímann ég ætti þá gaman mér þætti að hverfa til baka ein tuttugu þrjátíu ár. Svona vegna andleysis aðventunnar þá set ég þessa langloku héri inn.
0 0 0 0 0
1# Bíllinn þaut eftir veginum í hljóðri miðsumarnóttinni. Upp af dökkbláum austurfjöllunum bjarmaði bleik birtan frá sólinni sem styttist í að kæmi upp yfir fjallsbrúnirnar. Það var móska yfir landinu. Dularfullir klettar, gaddavírsgirðingar og fjöll spegluðust í tjörnum og lónum sem móða steig upp af í ævintýralegri birtu. Í vegköntunum lágu kindur með lömb og rétt svo létu ferðalanginn, sem rauf næturkyrrðina, trufla sig með því að snúa jórtrandi höfðinu með yfirlætissvip í átt til bílsins um leið og hann fór hjá.
Hann var búin að vera undir stýri frá því eftir vinnu, en þá hafði hugmyndin um að yfirgefa borgina kviknað. Það var eitthvað í andrúmsloftinu þá um daginn sem hafði óvænt vakið þrána, um að komast eitthvað út í buskann, svo sterka að allt annað varða að víkja. Hann hafði ekki einu sinni gefið sér tíma til að koma við í íbúðar holunni sinni til að fara í sturtu og hrein föt. Aðeins eitt hafði komist að og það var að komast út úr borginni.
Það var ekki fyrr en eftir rúmlega klukkutíma akstur að það fór að skýrast í huga hans hvert ferðinni var heitið. Leiðin lá heim þar sem hann hafði ekki komið í rúm fjögur ár. Þegar hann yfirgaf heimkynnin var það fyrir fullt og allt. Örlögin höfðu hagað því þannig að þangað hafði hann ekkert að sækja framar. Samt var hann komin á heimaslóðirnar aftur án þess að vita til hvers. Þegar hann fór héðan var það með konu og börnum en nú var hann einn á ferð. Það var ekki laust við að það örlaði á smá viðkvæmni og tár læddust niður kinnarnar í einmanalegri ró sumarnæturinnar.
Hingað var ekkert að sækja, flestir æskufélagarnir fluttir í burtu. Þó hann væri héðan í báðar ættir og forfeðurnir hefðu alið hér manninn í aldir þá voru flest ættmenni, sem hann hafði haft samskipti við meðan hann bjó hér, annað hvort flutt á brott eða horfin til annarra heima. Foreldrarnir báðir fluttir á vit forfeðranna, móðir hans fyrir fjölda ára langt fyrir aldur fram, faðir hans fyrir fimm árum. Þau voru fjögur systkinin. Tvær yngri systur höfðu báðar farið suður til náms á unglingsárunum og ekki komið aftur, áttu sínar fjölskyldur í borginni.
Svo var það bölvaður minkurinn hann Beggi bróðir, sem var tveimur árum eldri, hann var sá eini af þeim sem ennþá bjó í þorpinu, en þann náunga hafði hann ekki nokkurn áhuga á að hitta. Þau systkinin höfðu ekki hist eða haldið sambandi eftir að faðir þeirra dó. Það var helst að örlaði á smá áhuga hjá honum á að hitta Siggu frænku, móður systur sína. Hún var eina mannveran í þorpinu sem hann hafði haldið sambandi við síðan hann fór, þeir Jonni sonur hennar höfðu verið jafnaldrar og miklir félagar frá því að hann mundi fyrst eftir sér og aldrei borið skugga á þeirra vináttu.
Hér hafði þróunin gengi yfir eins og víða annarsstaðar á landsbyggðinni. Þegar farið var að markaðsvæða rekstur, eins og það var kallað, þá stóð hann ekki lengur undir sér og þeir sem eitthvað kvað að létu sig hverfa. Þar fyrri utan var fólki svo þröngt skorinn stakkur félags- og menningarlega að ekki var búandi við það þegar litið er til þeirra krafna sem nútíminn útheimtir. Það hafði svo sem margt verið reynt. Opinberu fé kastað í elliheimili, heilsugæslustöð, skóla og íþróttamannvirki, en það samt ekki dugað til að halda íbúunum.
Enda voru þeir sem stjórnuðu sveitarsjóði svo sem engir atgerfis menn, mestmegnis aðfluttir kennarar og uppgjafa iðnaðarmenn, flestir á launaskrá hjá sveitarfélaginu. Lengi höfðu stöndug fjármálafyrirtæki líkt og banki, tryggingar- og olíufélag reynt að koma að atvinnulífinu með því að dæla fé í formi lána og hlutafjár inn í fiskvinnslu og útgerðafyrirtæki staðarins, en allt kom fyrir ekki. Jafnvel eftir að Sambandið leið undir lok höfðu öflug fyrirtæki haldið áfram að aðstoða heimamenn við reksturinn með sífelldum skuldajöfnunum í formi hlutafjárkaupa og senda Samvinnuskólagengna atgerfismenn til að stjórna, því fór sem fór.
Það reyndist ekki hagkvæmt að halda útgerðinni áfram nema sameina hana annarri stærri útgerð sem sá sér ekki fært að halda henni gangandi nema sameina veiðiheimildir á sín skip. Það lýsir kannski best um hverskonar krummaskuð var að ræða þegar Olíufélagið, sem var allt að vilja gert, náði ekki að halda úti annarri bensín- og olíuafgreiðslu á staðnum en sjálfsafgreiðslu og það með tapi. Bankinn hafði viðtalstíma eftir hádegi tvisvar í viku auk hraðbankakassa í sjoppunni.
Þessi þróun hafði tekið tiltölulega stuttan tíma. Sem sjómaður hér hafði hann ekki farið varhluta af henni frekar en aðrir. Þegar útgerðin var sameinuð stórútgerðinni liðu aðeins tveir mánuðir þar til nýir eigendur sáu hagkvæmnina í að flytja veiðiheimildirnar yfir á sín skip í fjarlægu byggðarlagi. Togarinn sem hann hafði verið á var seldur en með því skilyrði að áhöfnin héldi plássinu, ókosturinn var sá að kaupandinn og nýja heimahöfnin var hinu megin á landinu.
Það var því undir hverjum og einum áhafnarmeðlimi komið að koma sér heim. Í þrjátíu tíma landlegu þýddi það nokkurra tíma stopp heima ef ferðalagið gekk áfallalaust. Þetta reyndist flestum fjölskyldumönnum ofviða og ekki leið á löngu þar til öll áhöfnin var hætt. Sumir, þar á meðal hann, réðu sig í lakara pláss á línubát sem átti heimahöfn í viðráðanlegri fjarlægð.
Það var samt ekki beinlínis neitt af þessu sem hafði ráðið úrslitum um það að hann flutti fyrir rúmum fjórum árum. Þar hafði ýmislegt komið til. Tvö eldri börnin voru komin á unglingsaldur og það styttist í að kæmi að því að þau þyrftu að yfirgefa heimaslóðirnar til að komast í framhaldsnám. Hann hafði haft lítið af uppeldi barnanna að segja, mest allt árið á togaranum úti á sjó til að afla heimilinu tekna. Konan hafði séð um uppeldið. Hann hafði í huganum séð að í fyllingu tímans myndi mikil vinna með góðum tekjum leiða til þess að hann hefði betra tækifæri á að njóta samvista við fjölskylduna og vinna upp samverumissinn. Þá yrðu þau búin að eignast húsið og daglaunavinna í frystihúsinu dygði til framfærslu.
Svo var allt í einu komið að því að aðeins tvö og þrjú ár voru í að þau eldri færu að heiman til náms. Hann í þeirri aðstöðu að þurfa að vera meira að heiman en nokkru sinni áður til að afla heimilinu tekna og ekki veitti af sitt myndi það kosta að koma börnunum til mennta. Það var fyrst þá sem hugmyndin kviknaði um að kannski væri rétt að flytja á annan stað sem hefði það að bjóða sem vantaði hér, möguleika á námi, vinnu og samvistum við fjölskylduna. Hann myndi með því kannski eitthvað hafa með uppeldi þeirrar yngstu að gera og geta verið til staðar fyrir þau eldri.
Æsku vinur hans og klefafélagi öll árin á togaranum, Jonni Siggu frænku, hafði tekið sig upp og flutt suður ásamt sinni fjölskyldu þegar togarinn fór, eftir það varð þessi hugmynd ágengari. Svo var það eftir að faðir hans dó að málin æxluðust þannig að hann gat ekki hugsað sér að búa lengur í sama bæjarfélagi og bölvaður minkurinn hann Beggi bróðir.
Nú var stutt eftir og tími til kominn að teygja úr sér eftir samfelldan sex tíma akstur. Hann ákvað að stoppa á nesinu gegnt þorpinu sem kúrði á eyrinni hinu megin við fjörðinn, svo spegilsléttan að þegar hann var kominn niður að fjöruborðinu reyndist honum erfitt að átta sig á hvað sneri upp og hvað niður, enda slæptur eftir langa vöku. Þegar hann horfði út fjörðinn, í blíða logninu, runnu fjörður, himinn og haf í eitt, enginn sjóndeildarhringur greinilegur og einmitt hérna á þessum stað hafði honum í bernsku fundist möguleikarnir óendanlegir.
Hann tekur upp stein og beygir sig niður í fjöruborðið, eldsnöggt út á hlið og sveiflar handleggnum, blibbbsss, blibbbsss, blibbs, steinninn þýtur eftir haffletinum og fleytir kellingar. Upp í hugann kemur minning úr bernsku, þegar hann lærði fyrst að fleyta kellingar. Þá var hann hinu megin við fjörðinn með föður sínum sem kenndi honum tæknina og það að steinninn þurfti að vera flatur. Grundvallaratriðin voru fljót að lærast, svo kom það með æfingu og reynslu hvaða aðstæður þyrftu að vera til staðar.
Vaaaáá maður tólf kerlingar.
Hann tók upp annan stein sem þeyttist efir yfirborðinu lengst fyrstu tvö skiptin en svo styttra og styttra og sekkur í áttunda sinn. Svona hafði það líka verið með væntingarnar og draumana í þessum firði. Stærstir og lofuðu mestu til að byrja með en urðu styttri og styttri uns; blibs, blibs, þeir sukku eins og steinninn.
2# Hann hafði ekkert hugsað út í hvert hann væri að fara þegar hann kom inn í þorpið kl. þrjú að nóttu. Svo hafði hann keyrt heim að húsinu hennar Dúddu en hún var systir föður hans og hafði hvatt þennan heim fyrir nokkrum árum.
Húsið hennar Dúddu hafði í raun verið heimili afa hans og ömmu þegar hann mundi fyrst eftir sér, en Dúdda dagaði uppi í foreldrahúsum og bjó þar eftir þeirra daga. Hún hafði alltaf verið svolítið skrýtin og var honum og systkinunum sagt það koma til af því að hún hefði verið yfir sig ástfangin af ungum aðkomumanni sem hafði drukknað til sjós.
Það sem gerði Dúddu skrýtna var að hún átti það til að vera á náttslopp heilu dagana með rúllur í hárinu keðjureykjandi Viceroy og hélt þá yfirleitt vinstri hendi undir hægri olnboga og hallaði undir flatt, var símalandi með sígarettuna á milli fingra hægri handar og pírði augun í gegnum reykinn. Flestar sígaretturnar bara brunnu upp, það voru kannski tveir eða þrír smókar sem fóru ofaní Dúddu. Þegar við urðum eldri þá áttuðum við okkur á því að þegar Dúdda var á sloppnum þá var það ekki bara Viceroy sem hún keðjureykti, heldur læddist eitt og eitt vín glas ofaní hana að auki. Það var sennilega ástæðan fyrir því að hún gleymdi að klæða sig og taka rúllurnar úr hárinu.
Hann og systkinin höfðu oft komið með móður sinni í þetta hús til að heimsæk gömlu hjónin, afa og ömmu. Þessar heimsóknir voru árvissar um jól og páska svo voru yfirleitt tveir sunnudags seinnipartar sumar og vetur. Þegar þessar heimsóknir áttu sér stað hitti svo á að Dúdda var aldrei á sloppnum né með rúllur í hárinu og það litla sem hún reykti var gert snaggaralega að vel athuguðu máli þannig að sem minnst af sígarettunni færi til spillis. Það var eitthvað sem lá ósagt í loftinu sérstaklega á milli móður hans og gömlu hjónanna, milli móður hans og Dúddu ríkti hins vegar nokkurskonar ógnarjafnvægi. Í þessum heimsóknum var ekki frjálslega rabbað um daginn og veginn, heldur var eins og hver setning væri sögð af vandlega yfirlögðu ráði.
Það var fastur liður þegar fór að líða á þessar heimsóknir, að Dúdda færi með systkinin í þann hluta hússins sem hún hafði til umráða. Þar voru tvö samliggjandi herbergi undir súð á efri hæðinni. Þá tók hún fram skrautlegar skálar, opnaði dós með niðursoðnum apríkósum og skar niður núgatís. Þessar dásemdir, sem alltaf voru þær sömu, voru borðaðar með bestu list þar til hvítt ís makið var komið út á kinnar og apríkósu safinn lak niður hökuna, nema hjá Begga bróðir, hann var elstur og kannski þess vegna snyrtilegastur við ísátið.
Svo var það líka það að honum þótti núgat svo vondur að hann þurfti að vanda sig sérstaklega við að borða ísinn og þegar hann fann núgat bita upp í sér stoppaði hann átið og sætti lagi með að spýta honum út úr sér bak við rúmið hennar Dúddu þegar hún sá ekki til. Það var yfirleitt eins og þungu fargi væri létt af móður hans eftir þessar heimsóknir. Hún lagði ríkt á við þau systkinin að vera ekki að sniglast þarna og alls ekki þiggja góðgerðir af Dúddu nema í heimsóknum með henni.
Faðir þeirra kom ekki með í þessar heimsóknir nema um jól, það var stirt á milli þeirra feðganna. Hann hafði heyrt það um tvítugt frá öðrum en foreldrunum að þessi stirðleiki í samskiptum ætti sér sennilega ástæðu. Föðurforeldrarnir hans höfðu búið á jörðinni Eyri fyrir botni fjarðarins, þar höfðu foreldrar hans hafið sinn búskap. Síðan gerðist það að Friðbjörn elsti bróðir föður hans flytur með sína fjölskyldu heim að Eyri, en hann hafði búið í borginni mörg ár eftir að hafa farið að heiman sem ungur maður. Upp úr því flytja foreldrar hans í þorpið, þar sem faðir hans stundaði sjó og þá vinnu sem bauðst hjá öðrum uns hann festi kaup á Bárunni, 3. tonna trillu. Stuttu síðar fluttu föðurforeldrarnir ásamt Dúddu í þorpið og bjuggu þar síðustu æviárin. Eftir daga Dúddu hafði þetta hús orðið athvarf þeirra sem tilheyrðu ættinni og komu til að dvelja í skemmri tíma.
Hann vissi ekki hvort það var þess vegna sem hann stoppaði við húsið. Það virtust engir gestir vera í því núna. Hann fór inn í garðinn sunnan við húsið þar sem þrestirnir voru byrjaðir að syngja drottni til dýrðar og sólin farin að senda mistraða geisla yfir fjallsbrúnirnar. Hátt gras var í garðinum, sem var að mestu orðinn njóla órækt, það hátt að þegar hann settist hvarf hann nánast, síðan lagðist hann út af og horfði upp í bláan himininn, sem hafði verið svo miklu blárri á bernsku árunum.
Þennan garð hafði verið farið með eins og heilagt land á meðan Dúdda réði ríkjum, grasflötin slegin reglulega, sumarblóm í beðum og þess vandlega gætt að ekki væri verið með fótbolta og fíflagang innan girðingar. Reynitrén voru ennþá á sínum stað, há og mikil, en einhvern veginn höfðu þau verið ræktarlegri áður, allavega var laufið þéttara í minningunni.
Hann, Beggi bróðir og Jonni Siggu frænku höfðu stundum komið í garðinn í óleifi. Í eitt skiptið höfðu þeir rekist á köttinn hennar Dúddu og ákveðið að ganga úr skugga um það hvort rétt væri að kettir kæmu alltaf niður á fæturna, sama úr hvaða hæð þeir féllu. Beggi og Jonni tóku köttinn á milli sín og köstuðu honum eins hátt upp í loftið og þeir gátu, nema hvað kötturinn fór upp á milli gereinanna á reynitrénu og kom síðan ekki niður.
Eftir svolitla stund var ákveðið að Beggi bróðir klifraði upp í tréð til að leita að kisa, en það var mikið áhættu atriði, ekki vegna trésins heldur vegna Dúddu. Það dró samt úr óttanum að hafa séð Dúddu á sloppnum rétt fyrir hádegið. Beggi bróðir kom grafalvarlegur niður úr trénu og sagði að kötturinn héngi á hausnum milli greina og væri sennilega dauður og það sem verra væri að hann kæmist ekki að honum.
Það var átakanlegt að fylgjast með Dúddu á kvöldin næstu vikuna, ranglandi um garðinn á sloppnum með höndina undir olnboganum og Viceroy sígarettuna rjúkandi á milli fingranna, umla þvoglumælt kliss, klis. Þeir höfðu sig ekki í að segja Dúddu að kisi hennar væri á vísum stað, rétt yfir höfðinu á henni, en að því komst hún að þegar laufið féll af reynitrjánum um haustið.
Það sótti að honum einhver svefn höfgi þar sem hann lá í háu grasinu. Það var eitthvað við svona hátt gras sem minnti bæði á búsæld og auðn. Hann lét hugann reika fimm ár aftur, en þá hafði hann farið inn í fjörð ásmat syni sínum með veiðistöng. Þeir höfðu farið inn að Eyri og rennt í Eyrarána. Þetta var á hásumardegi eins og þeir gerast bestir. Sólskinið og hlý golan bylgjuðu grasið og gerðu sjóinn kóngabláan. Þá hafði hann gefið sér tíma til að setjast í hátt grasið og virða fyrir sér umhverfið.
Það var þá sem rann upp fyrir honum að eitthvað var bogið við ásýndina. Grasið var orðið hátt og því sem næst úr sér vaxið, engin hreyfing heima við Eyrarbæinn og kyrrðin algjör. Svona var þetta líka á næstu bæjum, Grund og Strönd. Það var þá sem rann upp fyrir honum að Friðbjörn á Eyri hafði selt búmarkið haustið áður og ætlaði að búa hjá börnunum sínum í borginni um veturinn. Síðan hafði hann heyrt ávæning af því að einhver lögfræðingur væri að hugsa um að kaupa Eyri og nota sem sumarbústað auk þess að fá góða silungsveiðiá í kaupbæti.
Grund og Strönd höfðu farið úr ábúð ári fyrr. Hann hafði alltaf verið svo upptekin við sjóinn og eigin hugðarefni þegar hann var í landi að hann hafði ekki veitt þessu eftirtekt fyrr, en þarna hafði hann fyllst einhverjum trega þegar hann leit heim að bæjunum með háu grasi allt í kring, hvorki heyskapur né þvottur á snúrum í blússandi þurrki. Engin hundgá né nokkur hreyfing bara kyrrð og grafar þögn.
Hvaða drunur voru þetta? -Hann áttaði sig fljótlega á að hann hafði sofnað og það sem honum heyrðist vera drunur var frá bíl sem ók eftir aðalgötunni niður á bryggju. Hlýr vindurinn þaut í háu grasinu og sólin skein í tæru morgunnloftinu, klukkan var orðin rúmlega sjö. Hann lá um stund en settist svo upp, golan hvíslaði í laufi reynitrjánna, þetta var nú meiri dásemdin.
Hvar skyldu rætur manns liggja? -Ætli þær séu þar sem draumarnir fæddust og augnabliksstemmingin hafði mest áhrif á sálina?
Eða ætli þær séu á þeim stað sem maður slítur barnskónum?
Hvenær skildi vera hásumar mannsævinnar? -Ætli það sé þegar laufið þýtur í trjánum yfir höfði? -þeirra trjáa sem gróðursett voru þegar kappið og væntingarnar voru mestar?
Hann var þá staddur á þeim slóðum þennan hlýja morgunn.
Þetta var þorpið sem hann fæddist í, hér ólst hann upp og hér hafði hann lengst af séð fyrir sér að lifa ævina. Hann hafði byggt hús yfir fjölskylduna héðan skammt frá upp í hæðinni. Þar hafði ekkert verið til sparað því konan skyldi fá fallegt og gott heimili, sem stæðist hvaða samanburð sem væri. Ómæld vinna og fjarvera á sjónum, þar sem hver aukatúr sem hægt var að komast í hátt í tvo áratugi, varð gjaldið.
Húsið var flott með snyrtilegum garði og mikið hafði honum hlakkað til þegar reynitrén tvö sem hann hafði gróðursett með fjögurra metra millibili yrðu orðin það stór að hann gæti fest hengirúm á milli þeirra. Bílastæðið var hellulagt og körfuboltaspjaldið fyrir strákinn á sínum stað fyrir ofan bílskúrsdyrnar. Í bakgarðinum hafði hann smíðað lítið gullabú, hús fyrir dæturnar í sama stíl og húsið. Þetta hafði kostað mikla orku og alla fjármuni sem ekki fóru í heimilishaldið, -og tókst án þess að stofna til mikilla skulda. Enda voru hann og konan yfirleitt samtaka um hvernig staðið væri að hlutunum.
Þegar hann kom í þorpið um nóttina þurfti hann að keyra fram hjá húsinu en hafði ekki með nokkru móti fengið sig til að líta í áttina að því, það myndaðist einhver kökkur í hálsinum og hann hafði fundið til magnvana reiði. Það hafði verið verulega erfitt fyrir konuna og börnin að yfirgefa þetta heimili þeirra á sínum tíma, en þá hafði hann útilokað allan söknuð og tilfinningar í þeim önnum sem fylgdu flutningunum.
0 0 0 0 0
Já, -ég var að gramsa eftir dagbók sem ég hélt í landinu helga yfir nokkurra vikna tímabil fyrir ca. 23 árum síðan. Þar fann ég óvænt þessa tvo kafla hér að ofan, útstrikaða til leiðréttingar. Þá hafði ég hamrað inn á heimilistölvuna fyrir u.þ.b. 18 árum síðan, ásamt 8 9 öðrum. Þetta átti að verða sólahrings sakamálasaga og ef ég man rétt þá var hún með tvennskonar endi, öðrum fyrirsjáanlegum samkvæmt söguþræðinum með margboðuðu morði, hinum óvæntum.
Þess er skemmst að geta að heimilistölvan gaf upp öndina og þegar farið var í að lappa upp á hana varð niðurstaðan sú að setja í hana nýtt stýrikerfi, en hún var með stýrikerfi sem kallaðist Windows Millennium og þótti þá ekki orðið merkilegt. Það vildi svo slysalega til að það gleymdist að gagnabjarga og þar með glataðist allt sem var í Millennium, -kannski sem betur fer fyrir mig, -en tjónið var tilfinnanlegt fyrir börnin okkar sem deildu sömu tölvu. En óvænt fann ég nú ofangreinda kafla, sem eru það eina sem ég á úr millennium, ásamt handskrifuðu dagbókinni frá því í landinu helga sem ég var leita að.
Ég gerði ekkert í að reyna að skrifa þessa sakamálasögu aftur þó svo að ég hafi munað þráðinn. Enda bjóst ég við að betur ritfærir menn myndu gera sér efnivið í skáldsögu og geta þess skilmerkilega bæði í gamni og alvöru hvernig lífsviðurværið var haft af fjölda fólks með lögum. Ég er og hef alltaf verið steypukall og á því er engin kvóti. Til að fá einhvern botn í þessa steypu þá verð ég að bæta í langlokuna sögu frá því 3 árum fyrr.
Um síðustu aldamót upplifði ég stór tímamót. Það Ísland sem ég þekkti var horfið og fiskimiðin endanlega komin á markað, breytingarnar tóku aðeins örfá ár. Síðasta árið sem ég bjó á staðnum, sem átti að verða mitt heima í þessu lífi, dundaði ég mér við að mála myndir. Einn daginn kom til mín vinkona, sem vann í fiski, með smásagnabók eftir Selmu Lagerlöf og bað mig um að mála mynd eftir einni sögunni í bókinni. Henni langaði svo mikið til að vita hvaða mynd ég læsi út úr sögunni. Ég varð við þessari bón og máliði mynd fyrir hana og lét hugleiðingu fylgja um hvað ég sæi við lestur sögunnar.
Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu.
Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.
Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig.
Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.
Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða. Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.11.2020 | 05:57
Ýlir
vælir úti í veðri og vindi á meðan hungurvofan um gáttir gægist. Hvíslar undan veðum föllnum sígild harmasaga. Já dularfulla drepsóttin er að ganga frá fleiru dauðu en bara ferðaþjónustunni, -þegjandi og hljóðalaust. Búið að loka sextíu ára Sögu Bændahallarinnar og í gær var Gistihúsinu á Egilsstöðum lokað fram á sumar, þar sem óðalsbændur hafa boðið gesti og gangandi velkomna í rúma öld. Vetur harðnandi fer og því rétt að minna á smáfuglana.
Frá hinu "svokallaða hruni" fjölgaði litlum þjónustu fyrirtækjum í mínum smáheimabæ, og slöguðu veitingastaðirnir í tuginn þegar best lét. Fjölgunin hófst í kjölfar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar. Að vísu eftir hið svokallaða hrun, og að kaupfélagið varð gjaldþrota á 100 ára afmælinu, ásamt stærsta verktakafyrirtæki bæjarins, sem safnað hafði molum smáfuglanna saman undir sinn væng. Nú fara margar rútur verri helmingsins niður í neðra dag og nótt til að sækja lífsviðurværið í rauðglóandi smeltiverkið. Það er víst mikið hagkvæmara að skulda stórt en smátt þegar atvinnurekstri er kastað fyrir ætternisstapann.
Það hefur ekki verið beint björgulegt um að litast af hjólinu upp á síðkastið. En ég hjóla yfirleitt til og frá vinnu og stysta leiðin liggur fram hjá íþróttahúsi með sundlaug og líkamsrækt, fyrr um fimm gistiheimilum, snyrtistofu og tveim veitingahúsum. Litlum atvinnufyrirtækum sem byggja á betri helmingnum, einhver verður jú að vera heima til að taka á móti blessuðum börnunum. Undanfarið hefur verið meira og minna lokað og óvíst hvenær opnar. Enda sú árstíð komin að spólað er meira en hjólað nema tifað sé á tveimur jafnfljótum.
Ýlir er annar mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann tekur við af gormánuði og hefst á mánudegi í fimmtu viku vetrar á tímabilinu 20. til 27. nóvember og ríkir þar til mörsugur tekur við seint í desember. Ýlir er í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu nefndur frermánuður. Eina heimildin um nafnið ýlir til forna er í svonefndri Bókarbót sem varðveitt er í handriti frá um 1220. Ásgeir Blöndal Magnússon málfræðingur telur orðið ýlir skylt orðinu jól, en uppruni þess er umdeildur.
Árni Björnsson þjóðháttfræðingur telur mánaðarheitið ýlir ver helstu röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember. Árni telur að norræn jól hafa í öndverðu verið skammdegishátíð, en þær hafa þekkst um víða veröld. Þetta virðist hafa verið veislur og einhvers konar ástarleikir. Þekkt sé að kynferðislegir helgileikir hafi þekkst meðal fólks sem bjó í náinni snertingu við náttúruna og að frjósemi í mannlífinu hafi átt að kalla á frjósemi í náttúrunni. Oft sé því talað um að blóta til árs og friðar á jólum þar sem ár merkir árgæska. Telur Árni þessu til stuðnings megi nefna kvæði um Harald hárfagra. Þar sem hann er sagður vilja drekka jól úti og heyja Freys leik. En Freyr og Freyja voru frjósemis goð í heiðnum sið.
Sennilegt er að heiðin jól hafi verið sólstöðuhátíð að vetri og hafi ekki verið á neinum vissum degi, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu. Í Grettissögu segir frá þúsund ára jólum sem Grettir átti þegar hann dvaldi í Noregi hjá Þorfinni í Háramarsey. Í móti jólum býst Þorfinnur að fara til bús síns þangað sem hét í Slysfirði. Það er á meginlandi. Hafði hann boðið þangað mörgum vinum sínum. Húsfreyja Þorfinns mátti eigi fara með bónda því að dóttir þeirra frumvaxta lá sjúk og voru þær báðar heima. Grettir var heima og húskarlar átta. Þorfinnur fór nú við þrjá tigu frelsingja til jólaveislunnar. Var þar hinn mesti mannfagnaður og gleði.
Þess er skemmst að geta að Háleyskur víkingalýður var á sveimi við Háramarsey um þessi jól er áttu Þorfinni bónda grátt að gjalda, tveir bræður eru nefndir til að verstir voru. Hét annar Þórir þömb en annar Ögmundur illi. Þessi flokkur hafði þann hátt á að; Þeir gengu berserksgang og eirðu öngu þegar þeir reiddust. Þeir tóku á burt konur manna og höfðu við hönd sér viku eða hálfan mánuð og færðu síðan aftur þeim sem áttu. Þegar þeir Hálendingar komu í Háramarsey á aðfangadag gekk Grettir til móts við þá og fagnaði vel þeim víkingum sem þar voru á ferð og bauð þeim bæði bæði öl og annan fagnað, við það stukku fram konur allar og sló á þær óhug miklum og gráti.
En jólaboð Grettis var ekki allt sem sýndist. Strax að veislu lokinni á aðfangadagskvöld hófst hann handa; sex féllu þar víkingar og varð Grettir banamaður allra. Síðan barst leikurinn út úr bænum; Tvo drap Grettir í naustinu en fjórir komust út hjá honum. Fóru þá sinn veg hvorir tveir. Hann eltir þá sem nær honum voru. Gerði nú myrkt af nótt. Þeir hlupu í kornhlöðu nokkurra á þeim bæ sem fyrr var nefndur er á Vindheimi hét. Þar áttust þeir lengi við en um síðir drap Grettir báða. Var þá ákaflega móður og stirður en mikið var af nótt. Veður gerði kalt mjög með fjúki. Nennti hann þá ekki að leita víkinganna, þeirra tveggja er þá voru eftir. Gekk hann nú heim til bæjar. En þess má geta að þeir tveir sem undan komust fann Grettir króknaða daginn eftir. Grettir varð frægur af verki þessu um allan Noreg en átti eftir að stríða við myrkfælni og drauga í skammdeginu það sem eftir lifði ævi.
Smælingjanna gjaldföllnu daga sólu fjarri á flæðiskerinu norðan nepjan nú nagar. Á myrkum mána metrana tvo grímuklæddar hjarðir hljóðar hrekjast um náströndina. Bónus er eftir sem áður opinn upp á gátt fyrir grímuklædda í skammdeginu. Mér varð á að fara þangað grímulaus með henni Matthildi minni skömmu fyrir skylduna. Var þá strax kominn í spor Ögmundar illa. Fólk hrökk frá eins og það hefði mætt þeim Þóri þömb á kvennafarinu forðum í Háramarsey, -þegar sló á þær óhug miklum og gráti.
Nema einn hugdjarfur kunningi sem hefur verið til alla ævi. Hann gekk sallarólegur upp að mér og spurði; -hvers vegna ert þú ekki með grímu? Ég sagði honum eins og var; að þá kæmi móða á gleraugun mín og Bónus væri búin að hafa endaskipti á búðinni allavega tvisvar í kóvinu. Ég ætlaði ekki að tefjast við að fálma mig um í þoku á fordæmalausum tíma. Já veistu, þetta er víst einhver sölusálfræði til að fólk kaupi einhverja vitleysu sem það ætlaði ekki að kaupa; -sagði kunningi minn.
Í vinnunni hafði ég svo orð á því við vinnufélaga í gegnum tíðina. Hvort hann tæki ekki ofan grímuna þegar við vorum að fara á myrkum morgni til að vinna viðvik fyrir gamla konu. Það væri öruggara svo við vektum ekki óhug. Og ekki yrði hringt á lögregluna vegna grunsamlegra manna að sniglast í kringum húsið. Hann sagði mig vaða villu og svima, því bófarnir væru grímulausir þessa dagana. Svo hnerraði hann með heljarinnar orrustu öskri og leit tárvotur yfir grímuna í augun á mér og sagði; nú værirðu dauður ef ég hefði ekki haft grímu.
Heimildir;
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=49887
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5478
http://www.snerpa.is/net/isl/grettir.htm
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2020 | 14:52
Medían
Rétttrúnaðar rasisminn ríður ekki við einteyming þessi misserin. Sjálfssagt þykir, hvar sem gott fólk í flokki stendur, að koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu með lögum. Ritskoðun medíunnar breytir flæði upplýsinga á þann veg að ómeðvitað er sveigt á braut sjálfsritskoðunar, sem er drifkraftur þeirrar hjarðhegðunar sem hvað eftir annað hefur farið með heilu samfélögin fram af bjargbrúninni.
Óvinurinn er síbyljan, hvort sem manni líkar söngurinn eða ekki; -einhvern veginn þannig komst George Orwell að orði, höfundur bókarinnar Animal farm. (The enemy is the gramophone mind, whether or not one agrees with the record that is being played at the moment. ~George Orwell)
Fólk er dregið í dilka hægri vinstri eftir því hvað það lætur uppi um skoðanir sínar. Fjölmenning, frjálshyggja, femínismi, fasismi, kommúnismi, anarkismi, rasismi, , , -bara nefndu það. Allra hættulegastir eru svo þeir sem setja fram falsfréttir í samsæriskenningum. Gegn því gildir ekkert annað en að koma á alheims-net-skimandi löggjöf um upplýsingaóreiðu. Því svo oft fer kenningin nálægt samsærinu sjálfu að vissara þykir að ekki glitti í hryðjuverkin fyrr en þau hafa verið framin.
Á hátt í heilli ævi má finna margt sem taldist til persónulegs frelsis sem fengið hefur að fjúka með rétttrúnaðinum. Farið hefur fé betra segja sjálfsagt flestir eftir að hafa ritskoðað sjálfa sig samkvæmt síbyljunni. En það er samt svo að þeir sem hafa verið sjálfum sér samkvæmir; trúir sínum uppruna og sinni köllun, standa uppúr út yfir gröf og dauða í hjarðhegðunar fjölmenningu samfélagsins.
Má þar nefna marga listamenn á við Kim Larsen, sem söng sína söngva á því sem næst óskiljanlegu hrognamáli sinnar þjóðar, og barðist þar að auki svo hetjulegri baráttu fyrir því að fá að handfjatla sígrettuna að hann mætti ekki í sjónvarp án þess að halda þeim rétti sínum jafnvel þó svo rétttrúnaðurinn hefði lagt blátt bann við.
Eins má nefna Bob Marley sem samdi söngva frelsis Redemption Song og spurði góða fólkið á afró enskunni sinni; -munuð þið ekki hjálpa til við að syngja frelsissöngva? Af því frelsið er allt sem ég hef nokkhverntíma átt, stolinn frá Afríku, fluttur til Ameríku eins og hver annar hjarðhermaður.
Það er varla að hvítur miðaldra karlmaður fullmótaður af feðraveldinu þori orðið að láta í ljós skoðun á óritskoðuðum skoðunum og benda á að fjölbreytileikinn er það eina sem hefur afstýrt óskapnaði í gegnum tíðina. Jafnvel þó svo að tíðarandinn básúni síbyljandi frasa á við að frelsi einstaklingsins takmarkist við að komist sé fyrir að skaða skoðanir annarra.
Samkvæmt merkjamáli tíðarandans eru svona útúrsnúningar nánast hreinn rasismi.
Dægurmál | Breytt 16.11.2020 kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.11.2020 | 16:21
Draumurinn um djöfulinn
Kvíði, þunglyndi og ótti er hlutskipti margra þessa dagana, enda fá hlé gerð á því að auka áhrif þessara tilfinninga á daglegt líf. En við gætum allt eins verið undir áhrifum vera sem tilheyra víddum utan venjulegrar skynjunar. Það er miklu meira í raunveruleikanum en það sem við getum séð, fundið, heyrt, smakkað eða snert.
Fyrir nokkrum nóttum dreymdi mig djöfulinn sjálfan.
Þannig var að ég var staddur um hábjartan dag í óupplýstu glerhýsi. Ég varaðist að fara inni í skuggalega og gluggalausa afkima sem minntu helst á dimmar búðir í verslanamiðstöð, leitaðist við að halda mig úti á glerjuðum göngunum. Þar var engin lýsing önnur en dagsbirta inn um glugga og gler. Mitt hlutverk þarna var að koma styttu af djöflinum á stall öllum til sýnis svo allir vissu hvernig hann liti út.
Það sem kom mér á óvart þegar ég var á leiðinni að ná í styttuna, að þá mætti ég mannveru, sem klæddist og leit út, eins og djöfulinn. Ég ég hugsaði hvernig getur þessi manneskja vitað útlit djöfulsins sem ég átti að fara að opinbera með styttu.
Eftir að hafa sótt styttuna inn í eina dimma afkimann, sem ég kom þarna í, hóf ég gönguna með hana í fanginu í gegnum glerjaða gangana og mætti fáum manneskjum í fyrstu. En það var sammerkt með öllum þeim manneskjum sem ég mætti að þær litu út eins og djöfullinn.
Ég vissi að þessar mannverur gætu ekki gert mér neitt svo lengi sem ég héldi á styttunni. Djöfullegu mannverunum fjölgaði stöðugt. Þær þrengdu að og það rökkvaði frá þeim á ganginum og sýndist lengra og lengra til dyranna. En þangað þurfti að komast með styttuna út undir bert dagsljósið.
Ég vissi einnig að svo lengi sem ég héldi líkneski djöfulsins þétt upp að mér inni í glerhýsinu og hefði það til sýnis þá gætu þessar djöfullegu mannverur ekki snert mig þó þær þrengdu stöðugt meira að og fálmuðu í áttina til mín.
Þegar ég vaknaði upp af draumnum, -með þungan verk fyrir brjósti-, fór ég á fætur og fékk mér vatnsglas og skrifaði strax niður drauminn. Þetta var alls ekki í fyrsta skipti sem mínir draumar snúast um djöfulinn. Sama er hvort mig hefur dreymt skugga djöfulsins, eða hvísl, þá hefur það hingað til boðað eitthvað.
Svo var það í morgunn að ég leit í Waking Times og sá þessa tilvitnun í Rudolf Steiner.
Það eru til verur á andlega sviðinu sem nærast á ótta og kvíða. Þegar fólk er laust við þær kenndir lenda þessi öfl í svelti. Þeir sem eru ekki nægilega sannfærðir um tilveru þeirra gætu samþykkt þessar fullyrðingar séu þær notaðar í dæmisögu.
En fyrir þá sem þekkja þessi öfl eru þau veruleiki. Ef ótti og kvíði heltekur fólk þá leiðir það til óstjórnlegs ótta, í honum finna þessi öfl kærkomna næringu og eflast. Þau eru því mannfjandsamleg.
Allt sem nærist á neikvæðum tilfinningum, kvíða, ótta og hjátrú, örvæntingu eða efa, eru í raun fjandsamlegar verur í skynsömum veruleika og hrinda af stað grimmilegum árásum á mannfólkið, svo lengi sem þær eru fóðraðar.
Þess vegna er umfram allt nauðsynlegt að sá sem fer inn í andlega heiminn byrji á að sigrast á ótta; -tilfinningunni um vanmátt, örvæntingu og kvíða. En þetta eru einmitt tilfinningar sem tilheyra efnishyggju menningu samtímans.
Og vegna þess að efnisheimurinn fjarlægir fólki frá andlega heiminum, þá er hann sérstaklega til þess fallinn að vekja vonleysi og ótta við hið óþekkta og kallar þannig fram þessi fjandsamlegu öfl. -Rudolf Steiner
Þannig rættist draumurinn um djöfulinn.
Dægurmál | Breytt 12.11.2020 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.11.2020 | 08:26
Ólíkt höfðust þeir að
Það má segja að það séu tímanna tákn þegar median ræður úrslitum um hvaða grímuklædda gamalmenni verði forseti fallandi heimsveldis. Eins er það tímanna tákn að ræðubútur demókratans JFK um leynifélagið er nú á dögum vandfundinn ómengaður á youtube. Enda gætu þau orð valdið upplýsingaóreiðu.
Orðið leynd er fráleitt í frjálsu og opnu samfélagi; og við erum sem þjóð, bæði í eðli okkar og sögulega andvíg leynifélögum, leynilegum eiðum og leynilegri málsmeðferð ... Lífsmáti okkar er undir árás. Þeir sem gera sig að óvini okkar eru að ná tökum á heiminum ... ekkert stríð ógnaði okkur meira nokkru sinni.
Ef þú ert að bíða eftir sönnun fyrir núverandi hættu, þá get ég aðeins sagt að hættan hefur aldrei verið skýrari og nærvera hennar hefur aldrei verið nálægari ... við erum andsnúinn því um allan heim, að með einhæfu og miskunnarlausu samsæri, sem reiðir sig fyrst og fremst á leyndarhyggjuna, auki við áhrifasvið sitt - með innleiðingu í stað augljósrar innrásar, með þvingun í stað frjáls vals, með ógnum í stað upplýsts vilja, með ógnandi ákvörðunum teknum náttmyrkri í stað upplýstrar orrustu um hábjartan dag.
Þetta er kerfi sem hefur með hervaldi komist yfir mannlegar- og efnahagslegar auðlindir, uppbyggt net skilvirkra véla, sem sameinar upplýsingaöflun; hernaðarlega, diplómatíska, efnahagslega, vísindalega og pólitískt, -alla starfsemi. Undirbúningur alls þessa er falinn, -ekki opinber. Mistök þessa kerfis eru grafin, -ekki birt með fyrirsögnum. Andófsmenn þess eru þaggaðir niður, -ekki hrósað. Engin útgjöld eru dregin í efa, enginn orðrómur upplýstur, um ekkert leyndarmál upp komið.
- John F Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, úr ræðu sem flutt var hjá samtökum Bandarískra fjölmiðla 27. apríl 1961 og gengur undir nafninu leynifélagið. Stundum talið ástæðan fyrir morðinu á Kennedy af samsæriskenninga smiðum.
The very word secrecy is repugnant in a free and open society; and we are as a people inherently and historically opposed to secret societies, to secret oaths and to secret proceedings Our way of life is under attack. Those who make themselves our enemy are advancing around the globe no war ever posed a greater threat to our security. If you are awaiting a finding of clear and present danger, then I can only saythat the danger has never been more clear and its presence has never been more imminent For we are opposed around the world by a monolithic and ruthless conspiracy that relies primarily on covert means for expanding its sphere of influenceon infiltration instead of invasion, on subversion instead of elections, on intimidation instead of free choice, on guerrillas by night instead of armies by day.It is a system which has conscripted vast human and material resources into the building of a tightly knit, highly efficient machine that combines military, diplomatic, intelligence, economic, scientific and political operations. Its preparations are concealed, not published. Its mistakes are buried, not headlined. Its dissenters are silenced, not praised. No expenditure is questioned, no rumor is printed, no secret is revealed.
![]() |
Þetta er tíminn til að græða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.11.2020 | 10:54
Af hverju fékk lögfræðingurinn ekki fokkmerki?
Þegar fjölskyldudrama lendir fyrir dómstóla vegna ákæru fjölskyldumeðlima í hvers annars garð þá skyldi maður ætla að málskostnaðurinn félli á þann sem tapar málinu. Allavega er það nokkuð langsótt að skattgreiðendur séu gerðir fjárhagslega ábyrgir vegna svoleiðis málatilbúnaðar.
Í þessu máli þarf að lesa dómsorð, sem tengt er á í fréttinni, til að sjá hver ber kostnaðinn af árshátíðardrama fjölskyldunnar. Dómsorð: Ákærða, X, er sýkn sakar. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn 117.400 króna ferðakostnaður og 573.500 króna málsvarnarlaun, , ,
Það viðist vera að að lögfræðingar, sem hafa aðgang að ákæruvaldinu, geti orðið sér úti um tekjur á furðulegum forsendum og dómstólar skaffi þeim þær í gegnum skattgreiðendur. Svona málatilbúnaður og dómsoð er langt frá því að vera einsdæmi. Manni gæti jafnvel dottið í hug að lögfræðingurinn sé í "fjölskyldunni".
![]() |
Kærðu hvort annað eftir stimpingar á árshátíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.11.2020 | 05:22
Ameríski draumurinn
Það má kannski segja sem svo að "Ameríski draumurinn" um frelsið sé smá saman að breytast í stafrænu martröðina um helsið. Allavega varð raunveruleikarinn Trump að keyra flash back slogan til að komast í forsetastól um árið, -"Make America Graet Again"-.
Hvort sem næsti forseti Bandaríkjanna verður Trump eða Biden þá er nokkuð ljóst að frelsandi Bandaríki Norður-Ameríku eru á hverfandi hveli, eða kannski réttara sagt búin að skila hlutverki sínu til heimsbyggðarinnar.
Þeirra mun verða minnst í mankynssögunni sem corporate fánabera alþjóðavæðingar stórfyrirtækjanna, sem síðasta stórveldisins í aðdraganda hins hnattræna ríkis rafræna Babelsturnsins, auðkenndu með tölunni 666 í hinni helgu bók.
En hvernig hefur Ameríski draumurinn haft áhrif undanfarin mannsaldur?
Því er best svarað með því að horfa í eigin barm, svo afgerandi hafa áhrif heimsveldisins verið á líf flestra jarðbúa á öllum sviðum mest alla 20. öldina til dagsins í dag; -í skoðunum, afþreyingu, lífstíl, tónlist, húsnæði, bílum , , , , og bara nefndu það.
Það var fátt sem minnti á Ameríska drauminn upp úr 1960 á mínu bernsku heimili annað en jólin og jeppinn. Enda foreldrar mínir af íslensku bændafólki komnir, -af Héraði og úr Suður-Þingaeyjarsýslu, sem ekki hafði látið sig dreyma um undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum.
Foreldrar mínir byggðu skúr úr vikursteinum á Hæðinni á Egilsstöðum til að komast undir þak. En íbúðarhúsið kom seinna en vænst hafði verið, enda spilauðu í þá daga, kalt stríð, síldarhrun og viðreisnar vandræðin stóra rullu í lífi fólks.
Það var þó eitt sem minnti á Ameríku allt árið. Til var Jeep Willys á heimilinu. Mamma bjó með okkur krakkana í skúrnum en pabbi var venjulega vikum og mánuðum saman í burtu vegna vinnu í Síldarbræðslum Ríkisins á Seyðisfirði.
Þennan Willys jeppa keyrði mamma um með okkur systkinin, aðallega í heimsókn til afa og ömmu í Vallanesið, en þar átti afi líka Willys árg 46. Hún gat þurft að fjallstarta Willysnum vegna rafmagnsleysis eða snúa í gang með sveif, enda var mamma mikil kjarnorkukona með víkinga blóð í æðum.
Á myndinni hér að ofan er síðuhöfundur, frumburður móður sinnar, um fjögurra ára aldurinn með áhyggjusvip. Annað hvort yfir því að Willysinn er rafmagnslaus á jafnsléttu og mamma þarf að snúa hann í gang, eða þá að hún hefur beyglað frambrettið á nýmáluðum jeppanum. Svona verður nú minnið gloppótt þegar á ævina líður.
Það var með jólum og bílum sem Ameríski draumurinn kom til mín. Willys fyrsti bíllinn sem ég keyrði. En þó er vert að geta þess að þegar við Matthildur mín höfðum byggt okkar hús á Djúpavogi, rann það upp fyrir mér að við húsið var ekkert íslenskt nema steypan og vikursteinarnir, sem notaðir voru til að hlaða veggina.
Þó svo að ég hafi teiknað húsið sjálfur og fengið kennarann minn í iðnskóla til að gera nothæfar teikningar fyrir byggingayfirvöld þá var það mun líkara húsi á Flórída eða í Kaliforníu en húsum í gegnum tíðina á Íslandi.
Það var þá sem ég fór að huga að því að slökkva á sjónvarpinu og lesa Þjóðsögurnar. Það er nefnilega engin tilviljun hvar í heiminum við fæðumst -og nú síðari ár hafa steypa, burstir og bárujárn orðið mínar ær og kýr.
Á þessari öld hef ég markvisst unnið að því að slíta mig undan heilaþvotti heimsveldisins og er meir að segja búin að fá mér Rúmenskan Dasía Duster, samsuðu samvinnuverkefna glóbalsins allt frá Frakklandi austur til Japan. Framleiddan á lægstu lágmarkslaunum Evrópu fyrir túrista heimsins.
En ég á samt ennþá gamlan Jeep Grand Cherokee frá því á síðustu öld til að milda markvisst fráhvarfs einkennin yfir í sjálfkeyrandi batterísdrossíu rafræna Babelsturnsins með stafræna GPS navigation simcard eftirlitinu fyrir 5G, sem þessa dagana er hamast við að leggja með ljóshraða meðfram þjóðvegum landsins.
En það er semsagt aðallega í gegnum bíla sem Ameríski draumurinn hefur hlutgerst hjá mér og eitt af því fáa skemmtilega við hið rafræna eftirlitssamfélag er, -að hægt er að finna myndir af svo að segja hverju sem er hjá Gúggúl, þar á meðal bílum sem maður man eftir að hafa átt um ævina.
Ég ætla nú að kynna þá til sögunnar, -þá sem hafa eitthvað með Ameríska drauminn að gera, allavega þá bíla sem hafa verið það eftirminnilegir að viðhalda honum, þó svo að langt í frá sé um tæmandi upptalningu að ræða.
Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var ekki Amerískur heldur Saab 96 árg 1969, skipti á mótorhjóli sem ég hafði klessu keyrt. Saabinn var álíka laskaður og mótorhjólið, hafði orðið fyrir því tjóni á lakki við að vera fægður í blíðskaparveðri með níðsterku Mjallarbóni, sem ekki hafði náðst að þurrka af og græni liturinn því orðið ljósgrár. Saabinn var málaður svartur í snatri og svo ekki söguna meir, -ókeyrandi með öllu.
Fyrsti ökufæri bíllinn minn var Rambler Amerícan árg 1966. Rauður og hvítur eðalvagn nákvæmlega eins og sá á myndinni. Hann var keyptur til að fara á Laugahátíð um Verslunarmannahelgi sumarið 1979 og man ég eftir að hafa keyrt hann fram og til baka með félagana í án þess að muna fleira frá þeirri verslunarmannahelgi. Um haustið keyrði ég hann í klessu að næturlagi á götum Egilsstaða og eignaðist við það tvo bíla, gullitaða fólksvagns bjöllu í harmónikku auk Ramblersins. Var svo eftir það próflaus í góðan tíma.
Eftir að ég fékk bílpróf aftur upp úr tvítugt eignaðist ég Ford Mercury Comet árg 1971, sem var búin að ferðast um á milli margra feðga í stórfjölskyldunni. Liturinn á myndinni er ekki sá rétti því hann var brúnn og blár þegar ég átti hann en hafði upphaflega verið bláleitur. Þennan bíl man ég ekki eftir hvað varð um, en minnir að hann hafi dagað uppi á Neskaupstað.
Næsti bíll var Ford Maverick árg 1974 sem ég keypti veturinn 1984 í Reykjavík til að keyra í Hafnafjörð og múra. Hann kom að vestan með B-númeri og var merkilegur fyrir þær sakir að vera með fullkomna ræsivörn, ekki var hægt að starta honum nema með opinni bílstjórahurð, -í þá daga höfðu bílar sál. Þennan bíl endaði ég á að keyra til Djúpavogs þar sem hún Matthildur mín tók mig loks að sér og hafði það ekkert með Maverickinn að gera.
Þegar ég kynntist henni Matthildi minni taldi ég Ameríska drauminn úti og þegar börnin mættu í heiminn þá keypti ég nýlega Lada Samara árg 1987, að mig minnir. Ég hafði aðallega átt ýmsa Japanska pallbíla sem vinnubíla árin á undan og eina Toyotu sem ég losaði við mig í snatri. En Ladan var vandræða gripur og kenndi mér að Ameríski draumurinn lifði góðu lífi.
Næsti fjölskyldubíll var Dodge Aries árg 1989 nýr úr kassanaum, ekki að þessi bíll hafi verið óska bíllinn, en ég gat skipt á honum og Löduni auk nýlegrar Toyotu Corolla sem ég hafði tekið upp í viðskipti. Þessi bíll var vélarvana gallagripur, allt of lágt undir hann svo hann heflaði flesta malarvegi, og af svo leiðs vegum var nóg af í kringum 1990.
Árið 1991 skipti ég á Dodge Aries upp í nýjan Crhysler Saratoga, enda Jöfur með umboðið. Saratogan var bæði sprækur bíll og hátt undir hann. Eini gallinn var reim fyrir vél, altenator og viftu, sem var reyndar eitt belti fyrir allt saman. Beltið átti það til að taka inn á sig snjó og smásteina við neðsta reimhjól með þeim afleiðingum að beltið fór út af. Ef ég sá Saratoga á förnum vegi átti ég það til að leggjast flatur til að horfa undir hana til að sjá hvernig aðrir hefðu leyst vandamálið. Ég lét smíða undir hana eftir séðri fyrirmynd en allt kom fyrir ekki, á endanum var ég orðin skotfljótur að koma beltinu á og vel græjaður. Þennan bíl átti ég í átta ár og líkaði vel.
Það má segja að Ameríski draumurinn hafi fullkomnast árið 1999. Þá keypti ég nýjan Crhysler Stratus auk þess að vera með nýlegan Dodge Ram sem vinnubíl. Stratusinn var skemmtilega sprækur með nýstárlegri autostic skiptingu. Þennan bíl hélt ég að ég gæti átt alla leið á heimsenda. En hængur var á, bíllinn hafði verið framleiddur fyrir Evrópskan markað með flókinni ræsivörn sem bilaði eftir 10 ár. Jöfur var þá kominn á hausinn, Crhysler búið að sameinast Dalmer-Benz og aðskyljast aftur, orðinn eins og hver annar Fíat, ekki nokkur leið virtist vera til að koma bílnum í gang. Á endanum keypti ég annan Evrópskan Stradus og gat flutt tölvu á milli bíla með þeim afleiðingum að hinn bílinn var ógangfær. Þessi vandræði tóku rúmt ár og Ameríski draumurinn þá þegar orðin að stafrænni martröð.
Á meðan vandræðin stóðu yfir með Stradusinn keypti ég Mercedes-Benz árgerð 1993 á lítið, ágætis bíl. Enda var sagt þá um Benz að þú átt ekki að prófa Benz nema þú hafir efni á að kaupa hann. Benzinn átti ég í stuttan tíma eða þar til Stratusinn hrökk í gang.
Árið 2015 keypti ég okkur Matthildi minni "fjallabíl" á minni pening en Ragnar Reykás hefur fengið Lada Sportinn á sínum tíma. Það er ótrúlegt hvað hægt er að kaupa góða Grand Cherokee á lítinn pening. Hann var reyndar frá því á síðustu öld en það var bara betra. Síðan þegar þurfti að endurnýja á honum dekkin og orðið var dýrt að koma í gegnum skoðun 2018 þá keypti ég bara annan betri sömu árgerðar með tveimur dekkja göngum á svo til dekkja verðinu.
Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að setja hér inn mynd af Duster eða gefa honum einkunn, hef ég þó vanist álík dós með því að keyra Kangoo í vinnunni vel á annan áratug. En það má segja að heilræðið með Benzinum hafi endað Ameríska drauminn frá því á síðustu öld, maður skyldi ekki eiga gamlan Amerískan bíl nema að hafa efni á því að keyra hann. Þó segja megi að Duster sé álíka stílbrot og Saabinn og Ladan þá er Ameríski draumurinn nú hvort eð er kominn við dauðans dyr hvernig sem covidkosningarnar fara hjá gamlingjunum.
Dægurmál | Breytt 13.11.2020 kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.10.2020 | 13:06
Íslenskt halloween
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn,
og hrærist ei.
Það birtir, það syrtir,
því máninn veður, og marvaðann treður um skýja sæinn . . .
Hver ber utan bæinn? . . .
Nú hljóðnar allt . . .
nú heyrist það aftur; það hriktir hver raftur!
Hann ríður húsinu, og hælum lemur,
það brestur, það gnestur, . . .
nú dimmir við dyrin, . . .
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur . . .
Draugurinn kemur!
Hann Grettir hitnar,
af hrolli svitnar,
því Glámur af þvertrénu gáir,
hausinn inn teygir,
og hátt upp við rjáfrið sig reigir;
hann hækkar,
hann lækkar,
en glóandi gína við skjáir;
hann hrekkur,
hann stekkur,
hann hnígur og hverfur . . .
nú hljótt er, sem fyr.
Hann Grettir bíður, og bærist ei,
heldur í feldinn,
horfir í eldinn,
og hrærist ei . . .
Nú kemur orgið sem áður!
Og skálinn riðar, en skellast dyr.
Vomurinn kominn, hann fálmar um fletið,
þrífur í feldinn, en fast er haldið . . .
Hvað veldur?
hver heldur? . . .
Hann fálmar aftur, og feldinn slítur.
Þá brestur skörin, og brotnar setið,
og Grettir réttur á gólfið hrýtur.
Svo takast þeir á,
hreystin og fordæðan forn og grá,
ofurhuginn og heiftin flá,
æskan með hamstola hetjumóð
við heiðninnar dauðablóð,
landstrúin nýfædda, blóðug og blind,
og bölheima forynju-mynd,
harkan og heimskan,
þrjóskan og þjóðin,
krafturinn og kynngin,
Kristur og Óðinn!
Þeir sækjast, þeir hamast með heljartökum,
svo húsin þau leika á þræði;
það ýlir í veggjum, það orgar í þökum,
það ískrar af heiftar bræði.
Og svo hefir Grettir sagt þar frá,
að sóknin hin ferlega gengi,
að aldregi slíka ógn, sem þá
um ævina reyna fengi.
Draugurinn skall úr dyrunum út,
dauðvona Grettir við heljarsút
horfði í hans helsjónir lengi.
Matthías Jochumsson (úr Grettisljóðum)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.10.2020 | 13:12
Kvenmanns kuml
hefði ekki átt að koma á óvart við fornleifa uppgröft í Þrándheimi. Ríkmannlega búin kvenna kuml eru engin nýlunda.
Daníel Bruun fór um Austurland 1901 og gróf í tvö höfðinglega búin kuml, annað að Reykjaseli fyrir ofan Brú á Jökuldal og hitt við Sturluflöt í suðurdal Fljótsdals. Reyndust bæði kumlin vera kvenkyns.
Eins og Íslendingasögurnar greina vel frá þá var kvenfólk ekki síður til forustu fallið en karlmenn. Laxdæla greinir frá því hvernig Auður djúpúðga fór fyrir sínu fólki þegar hún nam land á Íslandi.
Við Arnheiði, dóttir Ásbjörns skerjablesa, hafa Arnheiðarstaðir í Fljótsdal ávalt verið kenndir. Þó svo að Arnheiður hafi verið keypt ánauðug eftir fall föður síns á Suðureyjum. Frá þessu greinir Fljótsdæla.
Helstu sögupersónur Austfirðingasagna voru þeir Grímur og Helgi Droplaugarsynir, kenndir við móður sína, sem segir sitt.
Stutt er síðan að Þjóðminjasafnið gerði bláklæddu konunni skil, en hennar kuml fannst við Ketilsstaði í Hjaltastaðaþinghá.
Þau eru mýmörg dæmin sem tína má til úr sögunum, hvað þá ef lesið er á milli línanna, um að konur hafi staðið körlum jafnfætis til forna.
Það virðist ekki hafa verið fyrr en Rómarvaldið sauð saman sín trúarbrögð sem pallur kvenna varð skör lægri.
![]() |
Óvenjulegur fornleifafundur í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2020 | 00:04
Gormánuður
Þá er hún komin sú napra tíð að vindar vafra um brotnar rár og reiða, -og um dimmar nætur skima þjónar laga og reglu eftir pestargemlingum til sýnatöku. Það þarf ekki einu sinni pestina til, nóg er að hafa verið markaður sóttkví smitrakningarteymisins til að vera ekki gjaldgengur á meðal manna. Margir eru svo sakleysingjarnir sem í góðri trú skrúfa upp í viðtækinu hverja þá varðloku sem í seiðhjallinum er sungin. Síðuhöfundur hefur varað við skepnunni, en rétt eins og tíminn sem líður þá líð ég hjálparvana og hjáróma með, -þó samsæriskenningin sé þegar orðin að samsærinu sjálfu.
Gormánuður er nú hafinn, fyrsti mánuður vetrar, og ber fyrsti vetrardagur ávalt upp á laugardag 21. 27. Ootóber. Gormánuður hefur ekki haft önnur nöfn að fornu. Mánaðarins er getið í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Þar segir: Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr. Sama nafn ber mánuðurinn í Bókarbót frá 12. öld sem til er í handriti frá því um 1220. Gormánuður, þorri og góa eru einu fornu mánuðirnir sem aldrei sjást kallaðir öðru nafn.
Gormánuður ber nafn af því að sláturtíð hófst í þeim mánuði. Með gor er átt við hálfmelta fæðu í innyflum dýra, einkum jórturdýra. Sagt er að gamlir menn hafi kallað þennan mánuð gormánuð og slátruðu aldrei fyrr en hann var byrjaður. Mánuðinum fylgdu í gegnum tíðina margvíslegar annir; sláturgerð, sauma vambir, raka gærur, spýta skinn sem og önnur störf sem tilheyrði árstíðinni. Í gamla norræna tímatalinu er talið að árið hafi hafist með komu vetrar þannig var því fyrsti vetrardagur nokkurskonar nýársdagur. Á undan fóru veturnætur sem eru forn tímamót sem haldin voru hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni.
Heimboða um veturnætur er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu. En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Vetur konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þessa árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld stendur, öllu verri er veturinn en Tyrkinn. Ekki er vitað hve hefðin er gömul, minnst er á veturnætur í ýmsum íslenskum handritum þótt ekki komi fram nema mjög lítið um hvernig hátíðin fór fram.
Í Egils sögu, Víga-Glúms sögu og fleiri handritum er einnig minnst á dísablót sem haldin voru í Skandinavíu í október og má skilja á samhengi textanna þar að þau hafi verið haldin í námunda við vetrarnætur eða mögulega á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir. Dísir voru kvenkyns vættir, hugsanlega gyðjur eða valkyrjur og vetrarnætur oft kenndar við kvenleika.
Talið er að kvenvættir eins og Grýla og nornir í evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessari fornu dísatrú. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýranna og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar sem og nýju upphafi. Eftir að Norðurlönd tóku kristni yfirtók allra heilagra messa sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember ímynd þessarar hausthátíðar. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum eða öðrum heiðnum hausthátíðum
Dagarnir frá síðustu heilu viku sumars (en sumardagurinn fyrst er ætíð fimmtudagur) og fram að fyrsta vetrardegi (sem er alltaf laugardagur), þ.e. fimmtudagurinn og föstudagurinn, voru kallaðir veturnætur. Veturnætur og fyrsti vetrardagur voru samkomu- og veislutími til forna hjá norrænum mönnum enda heppilegur sem slíkur því að þá var til gnótt matar og drykkjar eftir uppskeru haustsins og sláturtíð.
Í fornsögum er víða minnst á veislur og brúðkaup á þessum árstíma. Kirkjan mun hafa amast við þessum hátíðum og því lögðust þær af eða færðust yfir á allra heilagra messu og allra sálna messu, hátíðisdaga kirkjunnar til að minnast píslavotta hennar og látinna.
Um síðustu helgi fórum við Matthildur mín til erfiðrar útfarar á höfuðborgarsvæðinu. Mælst hafði verið til þess að fólk færi ekki á milli landshluta að þarflausu. Sjálfur hafði ég ekki fundið þörf fyrir að mæta á svæðið í rúm þrjú ár. En í þessu tilfelli var engin önnur leið fær, -án eftirsjár það sem eftir lifir ævi.
Síðast þegar ég fór í höfuðstaðinn var það vegna jarðarfarar. Báðir þeir menn sem kvaddir voru fóru yfir móðuna miklu langt fyrir aldur fram, eftir hetjulega baráttu við vágestinn mikla. Hafði mér aldrei dottið í hug, -fyrir fram, -að vegna aðstæðna yrði útför þeirra ekki við fjölmenni i heimahögunum, -þar sem hjartað sló.
Á leiðinni suður keyrðum við um sveitir suð-austurlands, þar sem á þessum árstíma hefur hver náttúruperlan á eftir aðra verið þrædd upp á festi erlendra ferðamanna undanfarin ár. Í Freysnesi stoppuðum við, þar voru tvær torkennilegar manneskjur innan við afgreiðsluborð með grímur, annars hvergi hræðu að sjá svo langt sem augað eygði yfir öræfasandinn. Skaftárskáli stóð eins og krækiber í helvíti út á bílastæðabreiðunni. Þar hafði ekki nokkur sála séð ástæðu til að stansa um miðjan dag. Umferðin um þjóðveg eitt var eins og á jóladegi á síðustu öld, -já nú er Snorrabúð stekkur.
Eftir að við komum aftur heim og fórum til vinnu var mælst til að Matthildur mín gengi með grímu fyrstu fimm dagana eftir landshorna flækinginn. Annan daginn sagðist hún vera orðin bæði andstutt og sár á bak við eyrun, er hún þó höll undir að hlusta eftir kóvítis kjaftæði medíunnar, þar sem básúnuð er í beinni samsuða ranghugmynda og vúddúvísinda úr spákúlu kellingabókmentanna.
Ég hins vegar staulast ennþá um tvo metrana grímulaust í vantrúnni á allt heila kóvítis kjaftæðið, löngu búinn að átta mig á því í steypuryki ævinnar, að hún má vera mikil móskan áður en gríma kemur öðru til leiðar en andnauð. Nú í drungalegri vetrarbyrjun á ég því miður bágt með að boða yður mikinn fögnuð, -lesendur góðir, -en vil ítreka enn og aftur "Passið ykkur á skepnunni".
Heimildir:
www.wikipedia.org
www.visindavefur.is
www.arnastofnun.is
www.nams.is
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)