15.5.2020 | 05:34
Vorsins déjà vu
Snemma í gærmorgunn hitti ég gamlan kunningja og spurði hvernig hann hefði það. Hann sagðist vera lélegur, orðinn óttalegur ræfill; enda kominn vel á níræðisaldurinn. Við töluðum um hve afleitt það væri þegar ekki einu sinni vorið næði að snerpa á loganum.
Eins og vænta mátti kom kóvítið einnig til tals og ég sagði honum að undanfarið hefðum við vinnufélagarnir óttast það mest af öllu að lemja á fingurna á okkur, því þá værum við í ljótum málum. Já hann samsinnti því það væri búið að vera ómögulegt að komast að hjá lækni fyrir kóvítinu. Svo snaraðist hann upp í bílinn því hann hafði mælt sér mót á heilsugæslunni til að nálgast verkjastillandi fyrir konuna.
Stundum hafa birts færslur hér á síðunni sem eru gamlar hugleiðingar úr bók dagana. Þetta er þá oftast eitthvað nauðaómerkilegt rugl sem ekki var ætlað til neins þegar það var sett á blað á sínum tíma.
Vorið 2011 hraktist ég til Noregs. Hafði verið atvinnulaus í u.þ.b. hálft ár eftir að hafa neyðst til að lokað atvinnurekstrinum mínum. Mér bauðst óvænt vinna hjá norsku múrarafyrirtæki eftir gráan og kaldan vetur og gekk nánast samstundis út að heiman um vortímann í hvítu maíhreti og með Vatnajökul gjósandi svartri eimyrju og flutti til Harstad í Troms, Noregi.
Til stóð að Matthildur mín flytti seinna en af því varð ekki vegna heilsuleysis. Árin mín í Noregi urðu þrjú og fór ég heim þrisvar á ári. Sumarfríinu skipti ég í tvennt, -vor og haust- til að vinna sjálfboðavinnu fyrir bankann við að hýsa húsbíla og hjólhýsi, svo kom ég heim um jól. Öll árin kom Matthildur í heimsókn til Noregs og dvaldi þá um tíma, þá gerðust ævintýrin.
Dagbókarfærslan sem hér á eftir fer er skrifuð um þetta leiti í maí 2012, í lok einmanalegs vetrar; um vorsins "déjá vu". Sumarið áður hafði vinnuveitandi minn og sambýlismaður hennar boðið okkur með sér á ljóskastara hátíð.
Hátíð gamla ljóskastarans (Lyskastertreff) er samkoma ca. 50 skemmtilegra karla sem saman koma eina helgi seint í ágúst ár hvert til að kveikja á gömlum ljóskastara sem þjóðverjar notuðu til að lýsa upp óvinavélar á norður norska næturhimninum í seinni heimstyrjöldinni
06.05.2012 Í gærmorgunn keyrði ég í suður, á endanum alla leið til Lödingen bæjar sem við Matthildur höfðum heimsótt í sumar á skútu. Ég var búin að hugsa mér að keyra þessa strönd sem ég hafði séð af sjó. Þegar sólin vakti mig með geislum sínum inn um gluggann kl 5 í gærmorgunn ákvað ég að nú væri dagurinn kominn.
Það sem er svo skemmtilegt við vorið er hvað það er lifandi og hvað litlu má muna. Hlý sólin merlar sjóinn í golunni eina stundina og þá næstu, þegar fyrir hana dregur, er jafnvel orðið grátt og napurt. Svo er það blessaður fuglasöngurinn.
Þegar ég var komin sunnar en ég hef farið áður á landi, keyrði ég upp hæð fram hjá bensínstöð og sjoppu. Varð aldeilis steini lostinn, þarna hafði ég komið áður og það rann upp fyrir mér heill seinnipartur af hlýjum degi þegar ég brunaði framhjá. Svo snarstoppaði ég við næsta afleggjara og sneri við því þetta yrði ég að athuga betur.
Þegar ég koma aftur að sjoppunni þá passaði þetta og bensínstöðin var á réttum stað, ég vissi að ef ég færi á bak við sjoppuna ætti ég að sjá fram af hæðinni og lengra fram á veginn svo ég tékkaði á því, en á bak við sjoppuna voru bara nokkur íbúðarhús og hæð sem ég horfði í bakkann á, útsýnið sem átti að vera áfram veginn var ekki, svo þetta var þá sennilega bara framhliðin á upplifun í öðrum tíma. Eins var lofthitinn kannski 3-5 gráður að morgni en ekki 20-25 á síðdegi.
Ég keyrði áfram og tók eftir því að staðurinn heitir Kongsvik. Þegar ég kom aðeins sunnar kom kóngsörn, sem er brúnn með hvítan haus og makka og sveif fyrir ofan og framan bílinn. Ég var einmitt nýlega búinn að láta það fara í gegnum höfuðið á mér að það væri gaman að sjá svoleiðis fugl.
Í vetur hefur það tvívegis komið fyrir að þegar ég hef litið útum gluggann sem ég sit oftast við hérna í íbúðinni hjá mér að tveir Hafernir hafa hnitað hringi fyrir utan í uppstreyminu frá Gangástoppnum sem er um 200 m hæð hérna rétt hjá. Ég hafði spurt vinnufélaga hvort það gæti staðist að Hafernir hnituðu flugið yfir Harstad. Hann sagði að það gæti alveg staðist en sjaldgæfara væri að sjá Kóngsörn.
Þá langaði mig auðvitað til að sjá Kongósörn og þegar ég sá að staðurinn hét Kongsvik fór ég aftur að hugsa um hvað það væri gaman að sjá Kóngsörn og viti menn þá sveif hann fyrir utan framrúðuna á bílnum. Enn sunnar sá ég svo Elg á fjörubeit í merlandi þaranum og hreindýr á túni.
Ég sagði Matthildi frá undrum dagsins á skypinu í gærkveldi vegna þess að hún var með í minningunni sem kom upp um að hafa komið áður í Kongsvik. Minningu sem kom á sekúndu broti um heilan eftirmiðdag. Þar vorum við á ferð ásamt fleira fólki sem ég kem ekki fyrir mig.
Ég spurði hana hvort henni fyndist þetta ekki skrítið; "þetta hefur verið í einhverju öðru lífi sem við höfum átt saman" sagði hún án þess að finnast mikið til koma. En það sem ég er að velta fyrir mér hvort skaust ég fram eða aftur í tímann eða var það kannski yfir í annan heim.
Sumarið 2011 fórum við Matthildur í boði Mette vinnuveitenda míns og Sverre sambýlismanns hennar í þriggja sólahringa ævintýraferð til Lödingen á skútunni þeirra Libra. Hér skríður skútan fyrir eigin vélarafli suður Tjeldsund sem liggur á milli Vågsfjorden og Vestfjorden í Troms og Norland. Á ströndinni útifyrir liggur Lofoten og enn utar eyjar Vesterålen
Auk þess að brasa í tvo daga við að koma ljósi á kastarann með hjálp 3. tonna ljósvélar sem dreginn er á staðinn, aka ljóskastara karlarnir, sem flestir eru fyrrverandi hermenn, um á gömlum herbílum
"Gáðu að því að þessi ljóskastari var smíðaður 1929 og er ekkert digital dæmi", sagði Sverre við mig til að undirstrika mikilvægi samkomunnar, "það er ekki sjálfgefið að það kvikni á honum". Einn eftirmiðdagur fór í herbíla safarí upp á útsýnisfjall fyrir ofan aflagða herstöð við Lödingen. Við Matthildur upplifðum óbyggðaferð með körlunum auk þess að njóta uppljómaðs norður norska næturhiminsins í geislum ljóskastarans.
Skútan Libra við bækistöð ljóskastarans í bæ lóðsanna Lödingen, sem lóðsuðu skip í gegnum Tjeldsundið í denn. Í Lödingen er nú ferjuhöfn fyrir ferju sem siglir milli fastalandsins og Lofoten. Ef landvegurinn er farinn þá þarf að keyra hundruð km eða alla leið upp Ofoten til Narvik og þaðan aftur yfir á Hynoya í Troms og niður Lofoten í Norland
"Hugsaðu þér Maggi" sagði Matthildur einn morguninn "við búum í skútu hjá fólki sem við vissum ekki að væri til fyrir nokkrum vikum síðan og erum stödd á hátíð gamla ljóskastarans. Hvernig getur svona ævintýri gerst"
Ferðalög | Breytt 22.8.2020 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2020 | 16:01
Siðblinda bara kostur
Það er varla von á öðru en bókhaldssvindlarar skori hátt þegar íslensk stjórnsýsla er annars vegar. Eða eins og ríkisskaup kemst svo smekklega að orði að það skipti engu máli hvort kónarnir hafi viðurkennt misferlið það sem skiptir öllu máli er að ekki hefur ennþá náðst að dæma fiffið, og er á meðan er.
Svona þrælvönduð vinnubrögð kunna innbúðarmenn stjórnsýslunnar svo vel frá því fyrir "hið svokallaða hrun" enda stoppaði ekkert glæpasamtök ríkis og banka í þá tíð fyrr en á þau voru sett hryðjuverkalög, sælla minninga. Enda ættu Íslendingar að vita það frá því 1. mars s.l. að lög um peningaþvætti og bókhaldsóreiðu eiga aðeins við um kvenfélög og önnur áhugamannasamtök.
Ekki skaðar það skorið að þetta skuli vera vegna sérstaks atvinnuátaks ríkisstjórnar Íslands upp úr einum björgunarpakkanum "Ísland - saman í sókn" þegar það gagnast glæpasamtökum á Evrópska efnahagssvæðinu sérstaklega. Íslenskir skattgreiðendur mega bara vera stoltir hvernig hlutabæturnar gagnast nú á EES svæðinu, -fjórfrelsið í allri sinni dýrð.
Bókhaldsmisferlið hefur sennilega verið reiknað M&C Saatchi sérstaklega til tekna ef ekki var til að dreifa þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum, spillingu, sviksemi, peningaþvætti, barnaþrælkun eða annars konar mansali. Svo er bara að vona að vel gangi að múta túristunum í gegnum Schengen og málið er klappað og klárt. Íslensk stjórnsýsla lætur seint að sér hæða í alþjóðlegum samanburði.
![]() |
Frétt um bókhaldsmisferli breytti engu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2020 | 17:31
Gefum þeim geit
Þessi misserin eru villtustu draumar gervi-greindar-lögreglu ríkisins að verða að veruleika á heimsvísu. Nú hafa mannvitsbrekkur ríkisstjórnarinnar opinberað sviðsmynd úr spálíkaninu frá Langtíbutkistan, sem sín næstu skref við losun ferðahafta. Eins og við mátti búast verða ferðamenn að framvísa vottorði og bera á sér smitrakningar-appið í snjallsíma, ella vera settir í sóttkví. Þessi háttur verður væntanlega hafður á þar til heimsbyggðin hefur verið bólusett með smitrakningarappi sem hægt verur að skanna á alheimsvísu.
Almenningur mun smá saman verða var við nýjan veruleika með bólusettum móttökurum fyrir smitrakningar-appið til að komast lönd og strönd, í formi örflögu sem skanna má á öllum stöðum jarðkúlunnar. Robert F. Kennedy, Jr., skrifaði í síðustu viku um afnám almennra manréttinda gervigreindar-lögreglu-ríkisins í þágu lyfjaiðnaðarins. Tók hann þar sem dæmi sektir lögreglunnar í Malibu, sem hljóða upp á 1.000 dollar hver fyrir að nota ólöglega hafið í sóttkví.
Var þetta kannski aðeins fljótfærni lögreglu sem við komum til með að hlæja að eftir kóvítið? Eða finnst einhverjum fleirum en mér að þetta sé fyrsta lota hlýðniþjálfunar fyrir eitthvað varanlegra? Eru öflug ríki og stórfyrirtæki að nota núverandi kreppu til að fjarlægja grundvallar mannréttindi og byggja upp þrýsting til að stuðla að bólusetningum og eftirliti? Finnst einhverjum öðrum en mér að myrk öfl harðstjórnar niðurlægi þjóð okkar? Og að lokum, deilir einhver hræðslu minni við það að Bill Gates - og félagi hans til langs tíma Tony Fauci - muni einhvern veginn takast að koma á Brawe New World?
John Magufuli forseti Tansaníu tók annnan pól í hæðina, enda hefur því verið haldið fram að kóvítið eigi eftir að stráfella fólk í Afríku. Magafuli er samt örlítið tortrygginn á boðskapinn enda opinberast covid-19 í Afríku á svipaðan hátt og annarsstaðar í heiminum, -margir verða sýktir og smitandi án þess að vita nokkurn tíma af því, hvað þá deyja.
Aldrei fyrr í veraldarsögunni hefur flensa verið mæld með sama hætti og covid-19. Stjórnvöld í Tansaníu sögðu því sem svo að allur væri varinn góður og sendu Alþjóða heilbrigðisstofnuninni WHO þrjú sýni sérstaklega til rannsóknar í sínatöku spálíkani Langtíburtkistan án þess að geta úr hverju þau væru, en þau voru úr geit, papaya ávexti og páfugli. Jú mikið rétt allur er varinn góður, því öll sýnin þrjú reyndust smituð.
![]() |
Ferðamenn hafi val frá 15. júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2020 | 06:15
Náhirðin nötrar
Nú eru auðrónarnir komnir með blóðbragðið í munninn og sjá í hillingum fram á gósen tíð. Svona bragðskin hefur verið fylgifiskur allra þrenginga frá því menn muna. Lengi vel þurfti náttúruhamfarir til að fá fólk til að trúa á bjargleysið. Ef þær voru ekki til staðar þá voru uppdiktuð stríðsátök og núna er það kvefpest.
Það er bara tvennt í stöðunni hjá stjórnendum Icelandair, segja fjárfestarnir. Annað hvort keyra þeir laun starfsfólk niður um rúmlega helming eða náhirðin hirðir eignir félagsins á hrakvirði og startar á nýrri kennitölu með aðstoð ríkisins. Gömlu "góðu" viðskiptahættirnir sem þeir kunna svo vel.
Það væri smekklegra fyrir "hina svokölluðu fjárfesta" að koma fram undir nafni þegar svona kröfur eru settar fram til fólks sem hefur misst vinnuna. Það er ekki eins og það verði farið í loftið þegar samningar nást og þegar að því kemur þá geti almenningur forðast að fljúga með svona kónum.
Sennilega væri réttast fyrir þá sem starfa hjá Icelandair, og hafa ökuréttindi eða kunnáttu á kúst, að verða sér strax út um aðra vinnu, -svona launanna vegna. Leifa náhirðinni að þjóta um háloftin í einsemd sinni með rörsýn á nýju kennitöluna, það vill hvor sem er engin sjá hana á jörðu niðri.
![]() |
Staðan orðin grafalvarleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.5.2020 | 09:39
Mafía óttans
Óttinn er til allra breytinga bráðnauðsynlegur. Hvað er betra en loka fólk inni vikum saman fyrir framan fréttir til að magna upp ærlegan ótta, eins og reyndin er nú víða um heim. Verði fréttaflutningurinn nægilega einhæfur þá þarf ekki einu sinni að feika fréttir, það nægir að útiloka þá sem valda "óstöðugleika" með því að skýra hlutina á annan hátt en gert er úr krananaum, eða réttara sagt í "mainstream" miðlunum.
Það birtist hér á síðunni blogg fyrir nokkru um Ríki óttans þar sem bent var á youtube myndband frá því í mars með Amazing Polly. Þar fór hún yfir það hvernig viðbrögðin við covid-19 heimsfaraldrinum hefðu verið skipulögð fyrir allan heiminn á ráðstefnu í október s.l., sem bar heitið 201. Í því videoi lýsti hún aðdraganda þess sem var í gangi og því sem framundan væri.
Þessi spásagnakennda rannsóknarblaðamennska hennar Polly átti stuttan stans á google miðlinum youtube uns það var tekið út vegna vegna "terms of service". Amazing Polly virðist samt hafa opin aðgang ennþá og hlóð niður videoi á youtube í gær þar sem hún fer yfir hvernig alþjóðlegar stofnanir tengjast og hvernig önnur bylgja verður útfærð. Rétt eins og síðast sel ég þetta ekki dýrara en ég keypti.
![]() |
Óttast aðra bylgju faraldursins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.5.2020 | 05:42
Úti á landi í svörtum sandi
Hjá mörgum landanum ríkir nú Þórðargleði með stöðu ferðaþjónustunnar í landinu. Heyrst hefur að hún hafi farið offari í verðlagningu og verðlagt sig út úr veskjum landsamanna. Nú í sumar gefst tækifæri á að skoða landið bláa og njóta um leið atlætis þeirra efnuðu. Síðuhafi hvetur fólk til að heimsækja Djúpavog, fólkið á Hótel Framtíð mun taka höfðinglega á móti landanum nú sem hingað til, það getur síðuhafi ábyrgst.
Bloggið hér fyrir neðan birtist hér á síðunni fyrir nokkrum árum. Síðastliðna Jónsmessunótt var vaktin staðin á Djúpavogi, þ.e. við voginn sjálfan, og rifjaðar upp sjóræningja sögur og fleiri ævintýri, sjá hér.
Þó að ferðlög séu oft tengt sumarfríi þá þarf svo alls ekki að vera. þetta sumarið hefur verið þannig veðurfarslega vaxið að ekki hefur verið ástæða til að ferðast um langan veg innanlands hvað þá til útlanda. Eins og svo oft áður hefur sumarfríinu verið varið austanlands. Þá er gott að eiga aðgang að ævintýralandinu Útlandi, eigra um svört sundin á milli eyja þar sem aldan blá blikaði áður fyrr. Sund sem nú eru full af svörtum sandi og melgresishólum.
Djúpivogur við enda regnbogans
Undanfarna áratugi hef ég notið ævitýralandsins sumar sem vetur, og meðan ég bjó á Djúpavogi þurfti ég ekki annað en fara rétt út fyrir dyrnar. Nú í seinni tíð hafa ferðamenn uppgötvað þetta undraland, og ég að ævin endist ekki til að fullkanna það. Ég ætla reyna að segja í örstuttu máli og með fáeinum myndum frá ævintýralandinu sem kallað er Útland, en að fara "út á land" af innfæddum, það eru eyjar í svörtum sandi syðst á Búlandinu þar sem þorpið á Djúpavogi stendur.
Í þessum sandeyjaklasa má finna Orkneyjar, Hrísey, Úlfsey, Hvaley, Sandey, Hafnarey, Kálk og Kiðhólma svo einhverjar séu nefndar á nafn. Þessar fyrr um eyjar hafa sennileg verið taldar til Þvottáreyja á öldum áður. En eru nú orðnar landfastar við Búlandið sem gengur á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Ekki eru nema 100-150 ár síðan að það þurfti að sigla á milli flestra þessara eyja.
Stækka má myndirnar með því að klikka á þær.
Á flugi með Stefáni Scheving um borð í TF-KHB í mars s.l.
Nú nær sandrif sunnan úr Álftafjarðarfjörum þvert fyrir Álftafjörð og eru hinar eiginlegu Þvottáreyjar orðnar örfáar í minni Hamarsfjarðar, s.s. Eskey, úti í hafinu eru svo aðrar eyjar, Ketilboðaflis og Papey, sem verður sennilega langt í að verði sandinum að bráð. Eyjarnar Stórey, Kjálki, Hróðmundarey og Hundshólmi eru nú orðnar landfastar sandrifinu Álftafjarðar megin en Hamarsfjarðar megin á Búlandinu eru flestar eyjar landfastar, einungis blá sund eftir á milli skerja og boða.
Það er ekki lengra síðan en um 1600 sem aðalhöfnin á Búlandinu var Fúlivogur sem Brimar kaupmenn höfðu á sínum vegum. Siglt var inn í Fúlavog úr minni Hamarsfjarðar á milli innri og ytri Selabryggja. Árið 1589 fengu Hamaborgarkaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Talið er að rentukamerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.
Selabryggjuhólmar séðir frá flugvellinum
Þar sem áður voru blá blikandi sund á milli eyja
Svartur sandur, blikandi haf og Ketilboðaflis
Stólpar á milli Sandeyjar og Kálks, Kálkur í baksýn
Gengið upp á Sandey, greina má klettótta strönd Úlfseyjar í baksýn, og Strandafjöllin við norðanverðan Berufjörð
Það skiptir ekki máli hvort ævintýralandið, út á landi, er skoðað sumar eða vetur; í þoku eða krapaéljum, alltaf er eitthvað skemmtilegt að sjá s.s. hreindýr við hústóft í Hrísey
Í minni Hamarsfjarðar á milli örfárra núverandi Þvottáreyja fer útfallið úr Álftafirði og Hamarsfirði, á fallaskiptum flóðs og fjöru. Straumurinn á fallaskiptum er líkur stórfljóti svo víðfeðmir eru þessir firðir. Vegna þessa straumþunga hafa Álftafjörður og Hamarsfjörðu ekki enn orðið að stöðuvatni. Á myndbrotinu hér á eftir má sjá æðarkollurnar skemmta ungunum sínum í straumþungu útfallinu í Holusundi við Kiðhólmann.
Hér má nálgast kort af Útlandi.
![]() |
Höggið mikið en treysta á Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2020 | 05:41
Passið ykkur á skepnunni
Nú hefur opinberast sá tími að ráðamenn landsins eiga samtal við þjóðina um teiknaðar sviðsmyndir upp úr spálíkani, sem þarf ekki meðalgreindan mann til að átta sig á að búið er til í Langtíburtkistan. Spálíkan þetta flýtur í gegnum stjórnsýsluna en er soðið saman af allsendis ókunnum, -en samt sem áður allra færustu sérfræðingum veraldar.
Almenningi er smá saman gerð grein fyrir veruleika sviðsmyndanna af lýðræðislega kjörnu fulltrúum, sem reglulega hafa birst og borið fram boðskapinn í mýflugumynd flissandi fábjána, Panama prinsa og rykaðra raðlygara með gagnsætt plexigler í ræðupúltunum fyrir framan sig, en bluetooth á bak við eyrað, sem hvíslar súluritum sérfræðinnar upp á vegg með fjarlægðar bláma aðgerðapakka sýndarmennskunnar úr myndvarpa.
Vonandi trúir engin til lengdar á að banvæni kínverski kvef vírusinn sé kominn til að vera, eða styður hans vegna efnahagslega eyðileggingu á almennum lífskjörum. Það eru einfaldlega ekki annað en trúarbrögð hins illa. Hvað þá að almenningur styðji í hjarta sínu framrás gervigreindar-lögreglu-ríkisins með bólusettum móttökurum fyrir smitrakningarapp sem skanna má á öllum stöðum jarðkúlunnar.
Þó svo að margir hafi glapist á því í eirðaleysinu undanfarið að niðurhala appinu í snjall símann sinn við að hlýða á Víði. Þá er þetta sama spálíkanið og var teiknuð upp úr sú sviðsmynd, sem setti fólk í útgöngubann vikum saman víða um veröld. Skipti þá engu hvort fólk hafði aðgang að góðum garði eða einungis heilsuspillandi, glugga- og svalalausa kytru. Allt að fyrirmynd mannréttindavaktar kommúnistanna í Kína.
Við lifum á tímum þar sem trúarbrögðin hopa í sínum hroka með því að læsa dyrum sínum um páska og kærleikann niðri á tveim metrunum, þegar rödd samúðarinnar er orðin eins og hvert annað orðagjálfur í fjarfundarbúnaði.
Við lifum á tímum þar sem 1.maí var aflýst í mesta fjöldaatvinnuleysi lýðveldissögunnar í þögn lífskjarafólks verkalýðsins. Þar höfðu formenn vinnandi stétta glapist á að þenja bringuna í "klúbbi" svokallaðra "aðila" vinnumarkaðarins fljótandi að feigðarósi á skíðum um Alpana ofan í margfaldra lágmarkslauna sóttkví, -umlandi "ég hlýði Víði".
Þetta er sá tími sem ritningin hefur spáð fyrir um. Nú glittir í stund dýrsins sem kastaði marki sínu á mannfólkið, þess er sagt var auðkenna sig með tölunum 666, og kemur því til leiðar að engin kemst lönd né strönd án merkis þess. Þetta er sú viðsjá þar sem við gætum öll verið krossfest af stjórnmálamönnum, auðrónum og trúarbragðarefum, -ef við sofnum á verðinum.
Við erum nú um það bil að dotta í draumi eigin vanmáttar, komin í erfiðleika með hverja stund við að lifa af án aðstoðar yfirvaldanna. Við horfum, dragandi ýsur, á ísaldarleirinn vella úr stundaglasi fjölmiðlanna, og flest virðumst við ekki einu sinni hafa meðvitund til að greina hvort við erum talin lífs eða liðin án fyrirmæla úr beinni.
Lífsrétturinn hefur verið seldur yfir til grimmdar og hugaróra peningaaflanna. Lögfest hefur verið slátrun hinna hinna ófæddu og staðfest innlokun þeirra öldnu þar sem þeim er neitað um að kveðja sína nánustu með sæmd. Öndunarvélar og andlitsgrímur eru mannréttinda tákn þessa tíma. Allir skulu eiga rétt á því að verða ekki varir við andardrátt náungans þar til þeir geispa golunni í öndunarvél.
Við erum fyrir löngu komin framhjá þeim stað þar sem hægt var að spyrna við fótum með því einu að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum. Vestræna veikindavædda heilbrigðismódelið var upp vakið fyrir meira en öld síðan. Veikinda vædda spálíkanið er grundvallað á samsuðu ranghugmynda og vúddú vísinda, þar sem peningar og talnabókhald gilda umfram samúð og heilbrygði. Við erum samt ennþá í grunninn hinn óendanlegi möguleiki þegar við fæðumst til jarðlífsins, -og verðum áfram.
Það er að segja ef við höfum ekki alla meðvitundina á hinni heilögu tölu "dýrsins", og látum vera að draga fólk í dilka meðvirkninnar. Okkur hefur verið kennt með örvandi innrætingu allt frá blautu barnsbeini að trúa því að við séum bæði aðskildir einstaklingar og á sama tíma samtengd á heimskringlu glóbalsins gegnum misstórar einingar s.s. fjölskyldu, þjóðerni, kynþætti, samfélagsstétt, stjórnmálaskoðanir að ógleymdu fjölskrúðugu kynferðinu.
Nú sitjum við uppi með sameiginlega veiru sem hrjáir okkur mest andlega og leggst undarlega mismunandi á fólk líkamlega. Flestir geta verið fárveikir og smitandi án þess að vita nokkurtíma af því, -að okkur er sagt.
Þetta er uppskrift hinnar fullkomnu ringulreiðar, sem er vörðuð hillingum hinna fullkomnu sjónhverfinga, tilvalinni fyrir alræðis gandreið auðsins, -og draumsins um upprisu hins rafræna Babelsturns.
Þegar draugur hefur verið upp vakinn er ekki hægt átta sig á því hvað hann gerir. Um það má lesa í þjóðsögum fyrri alda. Hann getur allt eins átt það til að gera allt annað en honum var ætlað, jafnvel snúist gegn þeim sem hann upp vakti, svo lengi sem hann vekur ekki ótta þeirra sem hann var settur til höfuðs. En magnaðir uppvakningar eiga það samt sem áður til að vera mikil virkir í áratugi.
Nú hefur verið magnaður upp pestardraugur, fyrir honum ber að vernda þá öldruðu, einnig þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma í veikinda væddu heilbrigðiskerfi heimsins, sem uppvakið var líkt og draugur af auðrónum fyrir meira en hundrað árum síðan í líki læknisfræði til þjónustu fyrir lyfjaiðnaðinn og krónu á móti krónu sjálftökunnar.
Lyfjadraugurinn hefur alið á þeirri ímynd, svo til óáreittur, að það eina sem er öruggt þegar við fæðumst sé óeðlilegt. Heilbrigðisstaðall heimsins hefur gert sjálfa upplifunina af dauðanum að tabúi. En viljum við búa í heimi þar sem meir að segja táfýla og gillinæð eru orðin að undirliggjandi sjúkdómum, sem gætu þá og þegar stökkbreyst í smitandi drepsótt innan spákúlu skepnunnar?
Dægurmál | Breytt 5.5.2020 kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.4.2020 | 07:00
Allir vinna steypa, gúmmístígvél og hjólbörur
Eitt sinn á Stefán Jónson rithöfundur, framsóknar-alþýðubandalagsmaður og Kára pabbi, ásamt mörgu fleiru, að hafi haldið því fram að sveitungar hans hafi kennt ónefndum nágrönnum að ganga uppréttir. Þetta á að hafa gerst með því einu að kenna þeim á hjólbörur. Nú er langt um liðið og heyra hjólbörur og asnakerrur sögunni til þegar til framfara horfir.
Á fyrri hluta 20. aldarinnar fór skófatnaður úr gúmmíi að breiðast út um landið, sumir 20. aldar menn hafa lýst gúmmískóm sem stærstu framförunum á tilveru sinni við að valhoppa á milli þúfna í drulludíum landsins. Vaðstígvél úr gúmmí þóttu hér á landi lengi vel stöðutákn hins framfarasinnaða heimsmanns. Þetta má sjá á gömlum myndum á Þjóðminjasafninu.
Nú eru aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar fyrirferðamiklir í umræðunni og átakið allir vinna hefur verið endurvakið frá því í bankaóhappinu um árið. Pakkinn allir vinna hefur ekki farið fram hjá okkur gömlu mönnunum í mínu fyrirtæki sem varla höfum haft stundlegan frið síðan kófvítis pestin fór á stjá. Síðan þá hefur landinn setið þúsundum saman heima og fengið frábærar hugmyndir og eru margar þeirra þannig að til að hrinda þeim í framkvæmd þarf steypukall í gúmmístígvélum.
Verkamenn snemma á 20. öldinni við gerð varnargarða á bökkum Markarfljóts með hjólbörurnar einar að vopni, skammt ofan við þar sem nú svamla sanddæluskip um Landeyjahöfn
Það má segja að fyrsta Íslandsmetið í langstökki inn í nútímann hafi verið setta af verkamönnum í gúmmístígvélum með hjólbörur sér til stuðnings. Eftir að þessum tækni undrum var endanlega blandað saman komst þjóðin svo loksins af mýrkenndu moldarkofagólfinu. Þessar framfarir urðu á 20. Öldinni og gerðu lítið annað en að þróast frekar er á öldina leið.
Það eru samt engin áform uppi um að bæta íslandsmet á þessari öld með öllum þessum aðgerðapökkum, ekki einu sinni matvælasjálfbærni í viðsjálu. Sýklafjölónæm framleiðslan flýtur að ströndum landsins sem aldrei fyrr í boði stjórnvalda. Er vandséð að 21. öldin eigi nokkur met eftir að bæta sem til framfara horfa öðru en smitrakningar-appinu.
Steypan var sennilegast sú tækniframför sem hefur gagnast Íslendingum hvað best frá því á síðustu öld og má segja að hún kom í rökréttu framhaldi af gúmmístígvélum og hjólbörum. Því segja má að steypan hafi hreinlega komið Íslendingum af mýrlendum moldargólfunum. Steypa er því alltaf tilvalin þar sem allir vinna.
Fyrir nokkrum árum var ég sendur á byggingastað til að steypa fyrir þá í stóru greiðslustöðvununum sem ekki hafa efni á uppsagnarfrestinum. Þar var allt gæðavottað í bak og fyrir, umhverfismetið þrátt fyrir vistvænt gjaldþrot,- vatnið mælt, vestin gul og öryggisgirðingin allt um kring.
Þarna voru haldnir vikulegir fundir og farið yfir öryggismál og það sem aflaga hafði farið bundið inn í gormamöppur með súluritum, texta og ljósmyndum öllum til viðvörunar í kaffitímum. Sérfræðingar að sunnan komu með morgunnfluginu til að fylgja öryggismálunum eftir og verkfræðingar blautir á bak við eyrun létu ljós sitt skína með hvítan hjálm úti undir berum himni á sólskinsdögum, sannkallaður allir vinna byggingastaður.
Einn fundinn vorum við pólsku vinnufélagar mínir helsta myndefni gormabókanna. Það hafði komið öryggissérfræðingur að sunnan og smellt af okkur myndum illa tilhöfðum, ógreiddum og þar að auki hjálmlausum innanhúss. Þarna voru við sakaðir um að brjóta alla öryggisstaðla. Að loknum fundi bað ég pólsku félaga mína að tína saman gormabækurnar af borðum kaffistofunnar og færa mér, sem þeir gerðu. Þegar ég hafði fengið þær á borðið fyrir framan mig reif ég úr þeim myndirnar af okkur í strimla ofaní rusladallinn og sagði svona gerðu menn ekki.
Í næstu steyptu neyddist ég þar að auki til að lýsa því yfir að þetta yrði sennilega í síðasta sinn sem ég steypti fyrir fábjána. Umboðsmaður byggingastjóra sagði að ég áhveddi hvorki steypu uppskriftir né verkferla á þessum byggingastað, það gerðu menn með til þess bæra menntun. Ég sagði honum að þeir skildu þá halda sýningu um horfna atvinnuhætti í anda Ábæjarsafnsins því þessi steypa væri torf fyrirskrifuð af fábjánum sem sætu aftast á merinni þegar til nútíma tækni væri litið og væru ekki einu sinn í gúmmístígvélum.
Hann veifaði þá framan í mig snjallsíma og spurði hvort ég vildi að hann spilaði þetta fyrir "fábjánana", því hann hefði tekið upp orðaleppana. Ég bað hann endilega um að gera það því það bæði sparaði mér sporin og geðillskuna. Ég væri nefnilega fyrir löngu orðin hundleiður á því að verða brjálaður í steypu vegna fábjána sem ekkert kynnu. Hann tillit sér þá á tá og benti á hliðið á girðingunni sem umlukti byggingasvæðið og þrumaði ég vísa þér út af svæðinu, og það stígvélalaus í miðri steypu.
Ég bað hann um að ræða þetta við vinnuveitanda minn því það hefði verið hann sem sendi mig og félaga mína innan um fábjána, en ég yrði því fegnastur af öllum að fá lausnina, og hélt svo áfram að steypa. Stuttu seinna hringdi vinnuveitandi minn og spurði hvernig ég hefði það. Ég spurði hann til hvers hann hefði hringt. Hann sagðist ekki vita það almennilega, en hann hefði fengið skrýtið símtal sem hefði hafist á afsökunarbeiðni.
Ég sagðist ekki sjá hvernig ég ætti að ráða fram úr þessu dularfulla símtali. Jú hann sagði að ég hefði verið nefndur og talað hefði verið um að farið hefði verið yfir strikið, af því striki stafaði afsökunarbeiðnin. Þegar hann hefði svo spurt hvort það væri þá ekki réttara að tala um þetta við Magnús þá hefði komið smá þögn í símann, og síðan ákveðið nei. Eftirmálin urðu svo ekki önnur en að eftirleiðis var komið vel fram við vinnufélaga mína, meir að segja skjallaðir með hér eru allir í gulum vestum nema Magnús hann er eins og vanalega í gömlu gráu lopapeysunni sinni.
Það var því meir en lítið undarlegt að ég skildi taka undir grobbsögur með gömlum félögum í vetur þegar því var treglega við komið að steypa samkvæmt nýjustu tækni. En félagar mínir fóru þá að dásama hjólbörur í stað steypudælu og sögðu að þetta hefði ekki verið neitt mál í gamla daga. Segja má að fyrir okkur hafi farið líkt og þeim halta sem leiddi blindan, eða eins og gamall 20.aldar maður sagði mér þegar hann tók félaga sinn með í sund.
Þannig var að þriðji félaginn hafði orðið fyrir því óhappi að gleyma því að fara í sundskýluna áður en hann skellti sér í laugina. Þetta óhapp olli því að flestir sundlaugargestir steinhættu að láta sjá sig, allavega betri helmingurinn. Gripið var til þess ráðs að hafa frítt í sund en allt kom fyrir ekki, þá var einnig farið að bjóða upp á kaffi og með því.
Gamli 20.aldarmaðurinn ákvað að fá aldinn félaga með í sund til að njóta veitinga og rifja upp gamla takta enda var sá vatnshani mikill á yngri árum. Hann sagði að þó svo innganga þeirra í afgreiðsluna hafi ekki verið beint kappaleg, þar sem hann var rangskreiður og nýstiginn upp úr heilablóðfalli og félaginn gamall og haltur, þá hafi þeim verið tekið opnum örmum af sundlaugarvörðunum boðið upp á kaffi og lánaðar sundskýlur.
Sá gamli sagði starfsfólkinu sögur af ótrúlegum sundafrekum sínum fyrr á tíð, bæði köfun og dýfingum. Þegar þeir svo skakklöppuðust á skýlunum út á sundlaugarbakkann vissi hann ekki fyrri til en sá gamli stökk út í djúpaendann og snérist umsvifalaust á haus og spilaði löppunum upp í loft og gat enga björg sér veitt. Hann sá strax að ísaldarleirinn hafði runnið til á milli eyrnanna á honum þannig að ballestin var kominn efst í hausinn.
Nú voru góð ráð dýr því ekkert gekk að tala við sundlaugarverðina sem dáðust að og héldu að sá gamli væri að leika kúnstir, hann varð því að svamla áfram eins og særður sjófugl sífellt út á hlið til að komast til félaga síns og snúa honum við í lauginni og draga hann hálf rænulausan að bakkanum. Það varð ekki meira um sundferðir hjá þeim félögum í bráð.
Það munaði minnstu að eins færi fyrir okkur gömlu steypuköllunum í vetur, sem erum bak-, hjart- og nýrnabilaðir, ungu mennirnir voru fljótir að sjá að steypu hjólbörurnar gerðu meira en að kenna þeim að ganga uppréttum þær voru tilvalið krossfitt tæki.
Gjörið svo vel, hjólbörusteypa þar sem allir vinna.
Ps. þetta myndband tók einn ungi maðurinn upp á snjallsímann sinn. Þegar hann hafði uppgötvað að um horfna atvinnu hætti væri að ræða. Sá kann nú aldeilis á tæknina til að gera langa steypusögu stutta.
Hús og híbýli | Breytt 30.4.2020 kl. 05:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.4.2020 | 05:46
Talnaspeki
Flestir álykta sem svo að á milli talnanna 19 og 21 séu 20, enda allt annað galin samsæriskenning. Fæstir tengja covid-19 við agenda-21 árið 2020. Enn færri átta sig á því að 2+2 þurfa ekki að vera 4 frekar en þeim sýnist, hvað þá að útkoman 4 sé samkomulagsatriði sem mennirnir hafa gert sín á milli. Náttúran gengur ekki upp á 2+2=4 spekinni, þar geta málin gengið þannig fyrir sig; 1+2=3 / 2+3=5 / 3+5=8 / 5+8=13 osfv.. Þess vegna eru 1,2,3,5,8,13 osfv. stundum kallaðar helgar tölur enda mynda þær veldisaukningu náttúrunnar.
Þegar dvalið er úti í náttúrunni, einn með sjálfum sér, jafnvel í sumarfríi, þá átta margir sig á hvað 2+2 útkoman er niðurnjörvuð í sérvisku sinni. Fyrir nokkrum árum setti ég hér inn á síðuna hugvekju í frmahaldi af grein sem ég las eftir talnaspeking, sem greindur hefur verið á alheimsnetinu samsæriskenningasmiður. Það er ágætt að rifja upp speki samsæriskenningasmiða annað slagið svo maður sitji ekki uppi með samsærið sjálft haldandi að það séu réttir 4.
Því endurbirti ég þetta 5 ára gamla blogg, "Níu heimar".
Það er ekki á hverjum degi sem greinaskrif hræra upp í skilningsvitunum. Greinin sem um ræðir er frá því 2010, eftir A. True Ott PhD sem skreytir sig með háskólagráðu í listum frá Cedar City University, Utah 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá American College, Washington DC 1994. Það er með ólíkindum að maður sem hefur dvalið á æðri menntastofnunum í áratugi hafi heilabú til að skrifa slíka hugvekju.
Enda kom í ljós þegar gæinn var gúgglaður að þarna er á ferð gyðingahatari sem logið hefur upp á sig gráðum rétt eins og hver annar framsóknarmaður auk þess að vera þjóðernissinni með tengsl við ný-nasista og öfga kristna, í ofanálag djöfladýrkandi. Þetta höfðu rannsóknarblaðamenn áreyðanlegra fjölmiðla komist á snoður um varðandi A. True Ott og sett hefur verið upp heimasíða svo fólk geti varast fýrinn. það er því með hálfum hug sem ég birti þessar hugleiðingar sem byggðar á eru hugvekju hans um níu heima og slæðurnar sem þá hylja.
Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.
Nærtæk er goðafræðin sem kennd er við Ásatrú sem gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og þeir sem hafa kynnt sér það sem nýlega hefur lekið út á alheimsnetið, þ.e. Annunaki geta fundið samsvörun í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera sú hugmynd sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmyndar fólks um heim þess tíma og lífsviðhorfa sem honum tengdust.
Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúi á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.
A. True Ott bendir á að tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notuð nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur jafnvel í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði (sacret geometry).
Þess virðist því vera vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn sem breytast í rökhugsandi menntamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, skila auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.
Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?
(1 x 8) + 1= 9
(12 x 8) + 2 = 98
(123 x 8) + 3 = 987
(1234 x 8) + 4 = 9876
(12345 x 8) + 5 = 98765
(123456 x 8) + 6 = 987654
(1234567 x 8) + 7 = 9876543
(12345678 x 8) + 8 = 98765432
(123456789 x 8) + 9 = 987654321
Magnað er það ekki; fullkomin speglun, As Above, So Below, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar búið var að umreikna þess óendanlega óþekktu stærð?
Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?
Íhugum ef svokallaðir mystery schools, skólar galdra til forna, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað bara samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?
Því telur A True Ott best svarað með orðum sem hann eignar vini sínum Don Harkins. Á undanförnum árum hef ég leitast við að setja fram kenningar varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þau okkar sem eiga auðvelt með að sjá samsærið hafa örugglega átt óteljandi samræður við fólk sem gremst það að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast
Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að við sækjumst eftir glysinu líkt og asni sem eltir gulrót, tilhneiging er til að líta á þann sem á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja tímaritið Forbes greinir frá því árlega að 1% íbúa jarðar ráði yfir 50% af auði hennar, svo má ætla innan við 1% íbúa heimsins sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hulurnar.
Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og haldi þess vegna ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en okkar innrætta útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima og svo er þetta auðvitað líka atvinnuspursmál.
Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.
Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengslin milli einstaklingsins og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valddreifing getur stjórnskipulega farið saman við stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklingsins.
Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugum ættum sem byggja á gömlum auði heimsins, sem þær viðhalda með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.
Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna s.s. Illuminatti, frímúrarar ofl. sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Þessi samtök eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi þannig að upplýsingarnar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig . Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.
Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.
Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi sem sér inn í þennan heim mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.
Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan auð úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.
Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.
Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, en með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.
Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa, sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun geðveikari eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að loka svoleiðis samsæriskenningasmiði inn á hæli, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn.
Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega stjórnmálamönnum meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa þá áfram í hreinni firringu.
Þeir sem hafa heimsótt 3 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir ruglaðir af megin þorra fólks.
Ekki þurfti samt háskólagráðurnar hans A. True Ott til að uppgötva þetta allt saman. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju um hina ýmsu heima í gegnum aldirnar sem þykja kannski ekki eiga erindi við daginn í dag.
Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var lögtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag;
,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.
Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Nú nægir einn heimur með einum jólasveini.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.4.2020 | 05:01
Harpa og sumardagurinn fyrsti
Þeir eru fáir dagarnir sem hafa jafnstór fyrirheit í nafninu og Sumardagurinn fyrsti. Það veit engin lengur hvað helgar þennan dag annað en nafnið, en upp á hann hefur verið haldið hér á landi svo lengi sem menn muna. Sumardagurinn fyrsti var fram eftir öldum messudagur á Íslandi eða allt til 1744. Talið er að dönsk kirkjuyfirvöld hafi þá gengist fyrir því að dagurinn, sem ættaður er aftan úr heiðni, yrði afnuminn sem einn af hátíðisdögum þjóðkirkjunnar.
Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og hefst hún ævinlega á fimmtudegi á bilinu 19. til 25. apríl, með sumardeginum fyrsta. Í elstu heimildum um fornu norrænu mánaðarnöfnin, Bókarbót frá 12. öld og Snorra-Eddu frá 13. öld, er Hörpu ekki getið uppruni nafnsins því óviss, það virðist ekki heldur eiga sér samsvaranir í norðurlandamálunum.
Aðeins í Snorra-Eddu eru allir mánuðirnir með nöfn og heitir fyrsti mánuður sumars þar Gaukmánuður. Bæði er getið Hörpumánaðar og Hörputungls í 17. aldar rímhandritum. Hugsanlega vísar nafnið Harpa til skáldlegrar hörpu vorsins, en á 17. öld voru vor oft vond og mikill fellir fjár, gæti nafnið Harpa því allt eins verið skylt orðinu herping. Þegar komið er fram á 19.öld er rómantíkin ráðandi, virðist Harpa þá verða að persónugervingi vorsins.
Sumardagurinn fyrsti er einhver elsti hátíðisdagur þjóðarinnar. Hann er nefndur í Íslendingasögum og elstu lögbókum landsins. Í Ynglinga sögu er getið um sumarblót í ríki Óðins. Í Egils sögu og Ólafs sögu helga er minnst á sumarblót bænda í Noregi. Sumarblóta á Íslandi er getið í Vatnsdæla sögu, blóts Ljóts á Hrollhleifsstöðum. Sumargjafir eru þekktar allt frá 16. öld, þær í raun miklu eldri en jólagjafir.
Fyrsti dagur sumars var frídagur frá vinnu áður fyrr eins og nú, og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var dagurinn einnig helgaður ungum stúlkum og stundum nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Um miðja 19. öld þegar skipulega er byrjað að safna alþýðu heimildum kemur fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið ein mesta hátíð ársins næst á eftir jólunum.
Þó það sé hvergi sagt berum orðum í fornum lögum, virðast hafa verið litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Lengi vel eftir kristintöku var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta, það þekktist ekki á öðrum Norðurlöndum. En þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa íslensku sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.
Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu er árinu skipt í tvo nærri jafnlanga helminga, vetur og sumar sem mætast á sumardaginn fyrsta. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því dagarnir frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin eru hlýjustu dagar ársins. Nú til dags teljast árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember, samkvæmt skilgreiningu Veðurstofu Íslands.
Víðast hvar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá desember til febrúar, vorið mars til maí og svo framvegis. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar.
Gamla íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma og full ástæða til að sýna því áfram þá ræktarsemi sem það á skilið með því að fagna sumrinu sérstaklega. Hvað þá af loknum erfiðum og umhleypingarsömum vetri sem endaði í algjörri pest.
Nú hefur vetur af vörum spýtt
virðist sá oft galinn.
Komið er sumar sælt og blítt
og sólin skín um dalinn.
Svarri
Undanfarna daga hafa farfuglarnir flykkst til landsins bláa. Álftir, gæsir og endur fyrir löngu, hafa svifið í stórum flekum inn til lendingar hér á Egilsstaðanesið í grennd við flugbrautina, sem situr nú í þögninni ein, sú sem ISAVIA kallar international airport.
Ég er búinn að draga fram hjólið og ferðast í fuglasöng innan um skokkandi nágranna á nesinu, sem nú eru lausir við hlaupabrettið í ræktinni, og engir tímatrektir túristar lengur til að strauja okkur niður á þjóðvegi eitt.
Dýrðin, dýrðin heyrist lóan syngja, skýrar en nokkru sinni fyrr og er ekki með neitt kóvítis kjaftæði. Hrossagaukurinn hló sínum fyrsta þíða hlátri vorsins úr suðvestri og árstíðirnar frusu saman; sumarið getur ekki klikkað.
Sumardagurinn fyrsti hefur í gegnum tíðina verið minn stærsti hátíðisdagur, eru mörg undur og stórmerki honum tengd. Þennan dag gengum við Matthildur mín upp að altarinu í litlu gömlu kirkjunni á Aurnum á Djúpavogi, og hétum þar hvoru öðru ævilangri tryggð.
Sléttu ári áður höfðum við ruglað saman reitum, og sléttu ári eftir brúðkaupsdaginn héldum við á litlu tvíbura krílunum okkar undir skírn, þennan fyrsta sumardag á sama stað. Deginum er þar að auki tengd áheit síðuhöfundar á Strandakirkju, sem eru orðin nokkur í gegnum tíðina.
Síðuhafi óskar lesendum gæfu og gleði í sumar.
Heimildir;
http://www.vefir.nams.is
http://www.arnastofnun.is
http://www.is.wikipedia.org
http://www.visindavefur.is
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)