7.7.2023 | 21:29
Fasista fabrikkan
Eftir að fávisku fabrikkur ríkisins tók að sér barnauppeldi frá ómálga hefur fasista fabrikkunni fleytt fram. Vinnufélagi minn í steypunni segir stundum að þetta megi rekja til þess þegar leikvöllur varð að skóla og börn hættu að róla án leiðbeininga og fengu þess í stað tilsögn í takt.
Í mínu tilfelli tók fávisku fabrikkan við um 7 ára aldurinn, en þessi vinnufélagi minn slapp fyrir horn þar til hann varð 8 ára. Þetta kostaði mig lengri tíma í að átta mig á tilsögninni, og sat uppi með falsað fagbréf og meistarabréf úr Cocoa Puffs pakka til forsjár fyrir fasistana.
Vinnufélaginn hafði vit á því að hætta í skóla um leið og það var löglegt. Hann á flest sem hugurinn girnist, svo sem tvo góða bíla, einkaflugvél, einbýlishús og hjólhýsi til sumarferðalaga. Á meðan ég berst um í bökkum í blokk á eld gömlum Duster og Cherokee frá því á síðustu öld, of hjartveikur og illa fyrirkallaður til að geta tjaldað í sumarfríinu, -og telst gott ef ég næ að greiða síðustu afborgun af ævilöngu húsnæðisláninu áður en ég geispa golunni.
En það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að barma mér yfir, heldur lýsa því hvernig fasista fabrikkunni hefur allstaðar fleytt fram á minni ævi. Byggingabransinn hefur t.d. verið fullkomlega fábjánavæddur og er allur kominn í gult. Lengi móaðist ég við í gráu lopapeysunni minni, sem Matthildur mín prjónaði um árið, en mátti þá líka eiga á hættu að fá orðaleppa á við ég vísa þér út af svæðinu, eða hér eru allir í gulum vestum með hjálm nema Magnús, hann er í steypu gráu lopapeysunni sinni.
Það er orðið nokkur ár síðan að ég nennti ekki að hlusta á svona heilræði og svara blíðlega til baka, veistu; -ég yrði bara feginn, það var ekki ég sem óskaði eftir því að vera hérna og það er aldrei að vita nema þetta sé í síðast skiptið sem ég vinn fyrir verklega vanvita, nú orðið er ég kominn í appelsínugult eins og álfur út úr hól með sjálflýsandi sportröndum.
Við fengum mannauðsverkfræðing í fabrikkuna í fyrra sem hélt öllum mannskapnum, -sem telur tugi, -á tánum í tvo daga við að mála gular línur á gólfið, -til að ganga síðan eftir rétt eins og hauslausr hænur. Ég benti mannauðsverkfræðinginum vingjarnlega á, eftir fyrri daginn, að hann skildi reyna að fá aftur sölumannsstarfið hjá tryggingafélaginu, -þetta sem hann kulnaði í eins og kelling um árið, frekar en reyna að kenna iðnaðarmönnum að ganga um gólf sem hann þekkti ekki minnsta hót.
Þrjár vikur í byrjun sumars var ég sendur í fasistafabrikku fabrikkanna þar sem hjálmar, fallavarnir, eyrnatappar, öryggisgleraugu, aðgangspassar, rauðar og gular línur eru staðalbúnaður, -ásamt tveimur ungum vinnufélögum til að endurnýja gólf í eldhúsi sem eldar fyrir 7-800 manns. Þetta var þegar blíðan var hvað mest hérna austanlands og nýtt hlýindamet var sett á landinu bláa í júní.
Ég benti vanvitunum í fasista fabrikkunni á að þarna ætti framkvæma það sama og Albert Einstein hefði sagt að væri bilun, þ.e.a. gera sömu afglöpin aftur og búast við öðrum árangri en í þeim þrem skiptum sem þetta hefði áður verið reynt. Og vonaðist þannig til að verða vísað hjálmlausum út í sólina. En allt kom fyrir ekki við skyldum halda áfram með mistökin og horfa á einstaka sumardaga líða hjá fyrir utan gluggann.
Þarna þurfti logaleyfi til að skera nagla úr gólfi með slípirokk, merkjasprey leifi og nefndu það, allar áttu leyfisveitingarnar að taka sinn tíma eftir að lögð hefði verið inn gögn með umsókn. Fljótlega þurfti mann til að kjarnabora gat í snatri svo ég fór í lobbý fabrikkunnar og bað Securitas um gestapassa. Mér var bent á að senda tölvupóst með beiðninni, en ég sagðist ekki vera í þeirri deild ætti ekki einu sinni snjallsíma.
Þarna var aldeilis komið tækifæri til að siða til vitleysing. Securitas sagði mér að það tæki verktaka tvo sólahringa að fá starfsmann samþykktan inn í fasista fabirkkuna og þó svo að menn væru að reyna að fara fram hjá þeim reglum með gestapössum þá væri það ekki í boði.
Ég sagði að það væri allt í lagi þá fengi hann að éta samlokur þeim tveimur dögum lengur sem eldhúsið væri lokað umsóknarinnar vegna. Þa ba bara verið með hótanir hérna nei ég sagði að þetta væri ekki hótun heldur staðreynd. Starfsmaðurinn fékk gestapassa til að bora gatið nokkrum mínútum seinna.
Nú þegar gul vesti, appelsínugulir plasthjálmar, öryggisgleraugu og heyrnahlífar eru orðinn alþjóðlegur þjóðbúningur - tölvupóstar og fjarfundir í snjallsímum eru stöðluð mannleg samskipti, er varla nema von að stutt sé í að hungurvofan gægist út um hverja gátt.
Þegar blíðu dagar sumarsins eru notað til að steypa inni í eldhúsi sem bakar endalaus vandræði fyrir starfsfólkið sem þar vinnur, vegna afglapa þeirra sem aldrei vinna þar, þá koma heilræði Alberts Einsteins ítrekað upp í hugann.
Og varla er nema von að innfluttir krosslímdir gifshjallar séu orðnir myglaðri en moldarkofarnir voru sem þjóðin skreið út úr í árdaga síðustu aldar til að steypa hús hver fyrir sig.
Fasista fabrikkan er fyrir löngu komin á rautt þó svo hún flaggi röndóttum glóbalnum.
Dægurmál | Breytt 5.7.2024 kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
27.6.2023 | 18:59
Skipulögð glæpastarfsemi
Það hefur verið hjákátlegt að fylgjast með fjörbrotum lýðveldisins. Hver ráðherrann og ríkisstofnana-stjórnandinn eftir annan flæmast undan ábyrgð. Í mesta lagi er viðurkennt að lögbrotin séu til þess að læra af þeim.
Það örlar samt á að neytendasamtökin viti hvað skipulögð glæpastarfsemi gengur út á, þegar hætt er viðskiptum við Íslandsbanka. Fara samt væntanlega í viðskipti til stofnunnar sem hefur upp á nákvæmlega sama siðferði að bjóða.
Þegar fjármálaeftirlit seðlabankans lætur fjármálastofnun greiða svimandi stjórnvaldssekt, þar að auki í eigu ríkisins, þá liggur í augum uppi hverjir blæða að endingu.
Það gera þegnar bananalýðveldisins í gegnum hærri vexti og gjöld, -svo lengi sem "ábyrgðin" getur á sig launum bætt.
Hætta viðskiptum við Íslandsbanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.6.2023 | 05:11
Jónsmessudrafli
Sum íslensk orð vekja meiri forvitni en önnur, eru þá oft þess eðlis að ekki er auðvelt að átta sig á upprunalegri merking þeirra eða yfir hvað þau voru nákvæmlega notuð. Þrísamsetta orðið Jónsmessudrafli varð til þannig hugrenninga en á það rakst ég í þjóðsagnasafni Sigmundar Long, -sögn um Þorgrím póst frá 19. öld.
Hafði sagan að geima skýra frásögn um merkingu orðsins ásamt vísbendingu um hvers lags var en þó ekki hvernig. Læt ég hér fylgja eina sögu, þá sem hafði með Jónsmessudrafla að gera, og hvers ég varð áskynja við frekar eftirgrennslan. En í sögunum af Þorgrími póst kom fram að hann hefði verið mikill mathákur frá bernsku.
Það var gömul venja, að minnsta kosti sumstaðar á Íslandi, að á Jónsmessu, 24. júní, var suðamjólkin tekin, látin yfir eld og hleypt, síðan soðin með hægð, uns osturinn var orðinn rauðleitur og sætur. Ekki sá ég þetta gjört, þar sem ég var, nema einu sinni. Það var á Heykollsstöðum í Hróarstungu hjá Eiríki bónda Pálssyni og Helgu Arngrímsdóttur. Þá var ég á áttunda árinu (1849).
Þorgrímur hét maður, hann mun hafa verið Vopnfirðingur. Hann sagði frá því, að þegar hann var unglingur heima hjá móður sinni, var eldaður Jónsmessudrafli. Var það á sunnudegi og potturinn tekinn ofan og látin standa á eldhúsgólfinu, á meðan lesinn var húslesturinn.
Mér leiddist lesturinn, sagði Þorgrímur, svo að ég laumaðist fram í eldhús og fékk mér sleikjukorn úr pottinum, þegar skammtað var, lauk ég því sem mér var gefið (af mat), og Manga systir gaf mér leifarnar sínar. En er frá leið þembdist ég upp með óþolandi kvölum og fannst ég ætla að springa.
Mamma vissi ekki hvað til bragðs skyldi taka, en svo hugkvæmdist henni ráð. Hún tók tvær rúmfjalir, lagði mig á aðra upp í rúm, en hina ofan á mig, brá utan um mig flatbandi, svo fjalirnar gengu ekki til, svo settist hún ofan á. Þá gekk bæði upp og niður hjá Þorgrími. (þetta má lesa í Að Vestan II þjóoðsögur og sagnir, Sigmundar Matthíassonar Long, sem hann skrásetti í Vesturheimi, -úrdráttur úr Þorgrímur Póstur bls 161)
Drafli kk. -nn; drafla drafla·ábrystir; drafla·ostur; drafla·skyr; -samkvæmt Málið.is. Jónsmessudrafli hefur tæplega verið ábrystir því þær hefði Sigmundur Long átt að vera vel kunnur enda algengur matur langt fram á 20. öldina, en hann segist aðeins einu sinni hafa séð Jónsmessudrafla gerðan.
Líklegra verður að teljast, samkvæmt sögunni af Þorgrími, að um sérstakan ost hafi verið að ræða, gerðan úr suðamjólk á Jónsmessu. Hversu uppþembdur Þorgrímur varð af Jónsmessudraflanum bendir heldur ekki til þess að hann hafi étið yfir sig af ábrystum, það er varla hægt.
Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er drafli, -a k, yst mjólk; rauðseyddur d. drafli soðinn, þar til hann fær rauðleitan blæ. Drafli er því talin hafa verið viss aðferð við ostagerð.
Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal: drafli k. yst mjólk, kornótt mjólkurhlaup; sbr. fær dralve (to. í finn. raupuli vont smjör). Sbr. gr. trophalís nýr ostur hlaupin mjólk, gála thrépsai hleypa mjólk, tyrón thrépasi búa til ost. Orðið er efalítið skylt draf, drafna, og drefjar og upphafleg merking orðstofnsins tekur bæði til þess að leysast upp í smámola og renna saman í kekki.
Á Síðunni Ferlir.is má lesa þetta um forna ostagerð:
Ostar voru hversdags fæða í fornöld, og voru þeir gerðir í sérstökum mótum (ostakista), misjöfnum að stærð. Engum blandast hugur um, að forfeður vorir höfðu mikla ostagerð, en hitt vita menn eigi, hvernig osturinn var gerður. Hinn norski gerlafræðingur dr. 0. J. Olsen Sop hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn og Íslendingar hafi einungis gert einskonar súrost í fornöld.
Hann telur líklegt, að mjólkinni hafi verið safnað í stór keröld; þar hafi hún súrnað, og við súrinn eða gerðina hafi mjólkin skilist þannig, að draflinn settist á botn kersins, smjörið eða rjóminn flaut ofan á, og drykkurinn var á millum laga. Nú vitum vér, að ostarnir voru gerðir í mótum, og er því líklegt, að rjóminn hafi verið veiddur ofan af drykknum, draflinn því næst verið veiddur upp úr honum og látinn í mót.
Af fornsögum vorum verður því miður ekki séð, hvernig ostar voru gerðir til forna, en allar líkur eru til þess, að vér höfum tekið ostagerðina í arf af Norðmönnum, og þess vegna hafi ostar hér á landi verið gerðir líkt og í Noregi. - Ferðasaga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ber það með sér, að ostagerð hér á landi hafi að mestu leyti verið fallin í gleymsku og þá um miðja átjándu öld. Þó er þess getið í ferðasögunni, að einstöku búkonur á Austurlandi geri allgóða osta, sem ekki eru seigir og harðir, eins og íslenzkir ostar séu venjulega.
Það má vera nokkuð ljóst að Jónsmessudraflinn, sem Sigmundur M Long segir frá hefur verið gerður samkvæmt aðferð íslendinga við ostagerð sem að mestu hefur verið fallinn í gleymsku um miðja 18. öld, samkvæmt Ferðasögu Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.
Þegar ég fór að leita eftir hvort einhversstaðar væri nú á dögum gerður sauðaostur á Íslandi, þá uppgötvaði ég fljótlega að ekki þyrfti að leita langt því svoleiðis ostur væri gerður í Fljótsdal af þýskri konu, Ann-Marie Schlutz, sem rekur matarhandverksfjölskyldufyrirtæki er nefnist Sauðagull og er með lítinn sölugám við Hengifoss.
Síðastliðinn sunnudag brunuðum við Matthildur mín í Fljótsdalinn með það markmið að hitta á Ann-Marie við Hengifoss og kaupa sauðaost og ég að forvitnast um hvort hann væri gerður eins og Jónsmessudrafli með því að sjóða við hægan eld, eða með því að láta mjólkina súrna og skilja sig.
Við hittum á Ann-Marie, en hún hafði engan suðaost á boðstólnum þá stundina. Eftir nokkrar samræður kom fram hjá henni að vinnsluaðferðin á sauðaostinum hennar var ekki sú sama og á Jónsmessudrafla sem soðin var við hægan hita. Hún undraðist ekki hvernig Þorgrímur Vopnfirðingur blés út þegar hann stalst í draflann. Maginn blési út við heita suðamjólk svo varasamt gæti verið.
Eftir að hafa rætt við Ann-Maríe og orðið nokkuð vísari um Jónsmessudrafla fengum við okkur ís sem hún gerir úr sauðamjólk, hreint út sagt lostæti, minn var með frískandi rabbabarabragði og fór svona líka ljómandi vel í maga. Engin sem er á ferð við Hengifossi í Íslenska sumrinu ætti að sleppa tækifærinu á að bragða ís úr sauðamjólk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2023 | 15:27
Kjaftæði
Munurinn á orðræðu Kristjáns Loftssonar fostjóra Hvals og fræðinga Matvælastofnunnar, sem komust að því að veiðar hvala væru óásættanlegar út frá dýrvelferðarsjónarmiðum, er sá að á meðan Kristján talar kjarnyrta íslensku þá fer stofnunin með orðskrúð umvafið fáfræði fræðimennskunnar, -svo kallað kjaftæði.
Þarna fer sama stofnun fram og lét slátra 1400 kindum í Miðfirði rétt fyrir sauðburð í vor, og bar fyrir sig dýravelferð í öllum æðibunuganginum. Seinna kom í ljós að engin kind var sýkt á öðrum bænum, sem slátrað var á, og ein á hinum.
það er einsdæmi á Íslandi, og sennilega um víða veröld, að annað eins níðingsverk hafi verið framið með velferð dýra að yfirskini. Starfsfólk þessarar stofnunnar hefur komist upp með að skíta upp á bak aftur og aftur í gegnum árin án þess að hafa verið látið axla nokkra ábyrgð.
Hvetur Kristján til að birta nýjar upplýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 25.6.2023 kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
20.6.2023 | 05:54
Stríðið gegn fíflunum
Nú stendur baráttan hvað hæðst gegn því sem fólki hefur verið innrætt að sé illgresi jarðar. Allt til hausts munu heilu vélaherdeildirnar verða sendar út á vígvöllinn. Árangurinn lætur ekki á sér standa, eða þannig, því fíflunum mun einungis fjölga eftir því sem harðar er að þeim sótt, spretta galvaskir upp á ný strax næsta dag, þó svo þeir hreyki sér kannski ekki jafn hátt og í upphafi.
Leitun er að eitri sem er eins auðvelt að nálgast og fíflaeyði, en eins og margir vita sem hafa reynt þann metal er hann því sem næst gagnslaus. Einn sólríkan góðviðris morgunn þegar ég heimsótti kunningja kom ég að honum bálsteyttum út á lóð með heljarinnar stungu vopn sem hann hafði keypt í byggingavöruverslun, og kallaði fíflabana. Þetta vopn hafði hann fengið eftir að hafa keypt eitur af þeim í gallonavís án árangurs.
Þessi kunningi minn hóf vopnið á loft hvað eftir annað þarna í morgunnsárið með miklum formælingum, og keyrði það ofan í svörðinn ásamt brosandi fíflum á sólbrunninni grasflötinni í kringum húsið og sagði að eina ráðið til að drepa þessi kvikindi væri að komast fyrir ræturnar. Ég stillti mig um að minnast á að þær gætu verið allt að metir á dýpt og væru sennilega það eina sem væri fært um að draga raka og næringu svo djúpt að yfirborði jarðar.
Fyrir stuttu setti ég status á fésbókina um að það væri orðið fíflalegt á Egilsstöðum með myndum af fjölda fífla í brakandi blíðunni. Það stóð ekki á viðbrögðum og einhverjum varð hvorki um sel né til setunnar boðið með að líta í eigin barm þegar fíflunum fjölgaði svona í kringum þá, og mátti jafnvel skilja sem svo að nú yrði að taka á þeim, en flestum fannst þeir samt svolítið fallegir.
Undanfarin ár hef ég ekki nennt að gera nokkurn skapaðan hlut í fíflunum eða öðru illgresi, nema þá að éta þá eins og ég hef oft getið um hér á síðunni. Niður við Sólhólinn úti við ysta haf er garður sem er allur í órækt. Illgresið fær að hafa það eins og því sýnist, í mesta lagi að ég kippi upp einum og einum fífli og éti hann, eða njólavendi til að setja í súpupottinn.
Á síðasta ári bað kunningjafólk mig um að leifa sér að gista í Sólhólnum, en hann hafði verið í eigu þeirra fjölskyldu í áratugi áður en hann lenti í okkar Matthildar minnar umsjá. Ég sagði þessum kunningja að því þyrði ég varla, m.a. vegna þess að garðurinn, sem svilkona hans hafði lagt mikla alúð við, væri allur kominn í órækt. Þar hefði ekki verið gert ærlegt handtak síðan þau fóru.
Hann sagði það gerði ekkert til því að svilkona hans hefði skipulagt garðinn þannig að hann mætti vera í órækt. Þá rann upp fyrir mér hvers vegna ég hafði ekki haft brjóst í mér til að farga fíflum og öðru illgresi. Þessi í stað hafði verið byggður sólpallur yfir herlegheitin með svífandi göngustíg út á, og í mesta lagi verið ruddur þröngur stígur niður að hleinunum fyrir neðan kot.
Það er því orðið nokkuð síðan að ég uppgötvaði hve tilgangslaust stríð gegn fíflum er, eina vitið fyrir þá tapsáru er að hugga sig við enska spakmælið if you can´t beat them, join them, eða þá eins og er svo inn að segja á íslensku í dag, -bara að njóta.
Svona var miðbærinn á Egilsstöðum snemma í júní þegar mér þótti ástæða til að birta fíflalega fésbókar statusinn
Hér er búið að slá og allt annað að sjá, engin órækt lengur og umhverfislistaverkið visitegilsstadir.is fær athyglina óskipta
Hér hefur verið lögð ómæld sumarvinna unglinga árum saman í að hafa innkeyrsluna í Fellabæinn ræktarlega, hannað og útpælt undir eftirliti umhverfis sviðsstjóra og alles
Í hinum vegkantinum við innkomuna í Fellabæ er óræktin villt án þess að nokkuð sé að gert og við blasir lúpínan, -óvinur þjóðarinnar no 1
Vegagerðin lagði af að eitra vegkantana með Roundup fyrir nokkrum árum, en hefur fengið kantsláttuvél á skurðgröfu sem silast um þjóðveginn við að slá óræktina svo langt sem hún nær, svo óskapnaðurinn blasi ekki við vegfarendum
Bölti, eða hljóðmön, sem ekki hefur gefist tími til að slá, og ekki leynir sér að fíflarnir hafa náð laumað sér í grasið. Vanalega er þessi bölti eins og vera ber,-snöggrúin rolla sem skjögrar til fjalls að vori, eða vel reyttur kjúklingur
Sama hljóðmön seint í fyrra sumar, og sama hirðuleysið með sláttinn. Vallhumall búin að gera hann kríthvítan eins og fuglabjarg. Gott ef það vottaði ekki fyrir blágresi þegar ekki tókst að slá nógu staðfastlega í júlí á eftir fíflatímabilinu í júní
Húsmóðirin á það til að bregða sér út í óræktina við Sólhól og tína fífla, sóleyjar og aðra órækt saman í vönd, -á meðan ég er meira fyrir að tína illgresið upp í mig
Leynilegur getur hann verið krákustígurinn í gegnum óræktina að hleinunum neðan við kot
Dægurmál | Breytt 24.6.2023 kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.6.2023 | 06:09
Nýtt tungl
Núna þann 18. júní kl 04:37, kviknaði nýtt tungl í norð-austri, s.l 30 daga var suð-vestur tungl. Var einmuna blíða á norðaustur -og austurlandi mest allt það tungl og er enn. Veðurspáin gerir næstu daga ráð fyrir veðrabrigðum. Það dragi úr sól og blíðu fyrir norðan og austan, -fari fljótlega að rigna.
Rigningin er kærkomin því að allt er að skrælna hér á Héraði eftir heita daga og oft vindasama. Varla hefur komið dropi úr lofti svo heitið getur í heilan mánuð sem oft hefur verið mistrað af mold öræfanna. Hitinn síðustu tvo daga hefur farið yfir 26-27 gráður.
Án þess að ég hafi haldið yfir það bókhald þá gætu verið komnir 10-15 dagar, það sem af er sumri, sem hitinn hefur náð yfir 20 gráður á Héraði. Ef bjartir og hlýir dagar eru 20-30 á sumri má segja sem svo að íslenska sumarið hafi verið ásættanlegt, svona eitthvað á við þriggja vikna sólarlandaferð.
Í hvaða átt nýtt tungl kviknar ræður miklu um veður samkvæmt þjóðtrúnni. Hvort nóg er nú komið af góðum sumardögum er ekki gott í að spá, jafnvel fyrir karlinn í tunglinu, því vísindi tunglsins eru dularfull, bæði við fullt tungl og kvartilaskipti. Eins ræður tímasetning stærstu strauma flóðs og fjöru við tungl nokkru.
Á morgunn 19. júní hefst hinn forni Sólmánuður og sumarsólstöður eru þann 21. júní. Þann 13. júlí hefjast hundadagar sem má segja að þjóðtrúin segi að næstir ráði afdráttarlaust veðri. Eiga næstu 40 dagar eftir fyrsta hundadag að verða þeim fyrsta líkir samkvæmt þeirri speki.
Einhverjir kynnu að álykta sem svo að orðið hundadagar sé komið af Jörundi hundadagakonungi. Hundadagar eru mun eldri, ættaðir úr Rómarveldi eða jafnvel alla leið úr stjörnuspeki Grikkja, og orðið var haft yfir þá daga sumarsins sem voru einsleitir molludagar á norðurhveli jarðar, þegar átök hita og kulda voru í lágmarki.
Spáið í tunglið lesendur góðir því veðurfræðingar eiga enn í dag til að ljúga, þó svo að spálíkön gervigreindra langtímaspánna taki nú orðið sífellt meira mark á gamalli speki karlsins í tunglinu.
Eitthvað dylst þar austur frá
undir háum tindum,
er skúrumþrungin skyggja á
ský í norðanvindum,
-sértu þar og sértu þar
að senda geisla nýja,
-tunglið mitt og tunglið mitt,
taktu mig upp til skýja. (Jón Þorleifsson 18251860)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.6.2023 | 16:46
Heillin mín
Mér finnst að ég hafi talað tæpitungulaust hér á síðunni undanfarið, þó svo að ég hafi hvorki flokkað það hægri né vinstri.
Mér leiðist heldur að flokka fólk, og forðast að nefna nöfn þegar ég fer með skæting, þó svo kannski megi skilja við hvað og hverja er átt.
Flokkspólitíkin er ónýt á landinu bláa. Skoðanir fólks koma nú úr þeirri tunnu sem hæðst glymur rétttrúnaðar síbyljunni.
Heilindi og þjóðerniskennd hefur alltaf verið eitthvað jákvætt í mínum huga, en á samt ekkert skylt við þá þjóðernisverkfræði sem fór hamförum í Evrópu á síðustu öld.
Þar var andhverfu þjóðerniskenndar beitt með blekkingum, enda vita það allir sem sjá nefi sínu lengra að það voru ekki nasistar sem töpuðu stríðinu, heldur þjóðverjar.
ESB og þar með EES fjórfrelsis þjóðhelsis samningurinn er afsprengi hugmyndafræði nasismans, -Þjóðernisverkfræði sem kemur óorði á þjóðerniskennd og gömul gildi.
Nasistar komu einnig óorði á heilindi, -meir að segja á orðið heill með kveðju sinni.
Ár var alda
Frá órofa alda
Að ferðast um tímann
er líkt bylgju sem brotnar
við brimsorfna strönd
Við aldanna nið
verður hugurinn heill
og samsamar sig briminu
í samfellu tímans
Vertu því heill,
- heillin mín - eins og amma sagði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2023 | 16:12
Landráðaliðið
Landsmenn fljóta nú að feigðarósi með augun, vatnsblá glær og galtóm límd við snjall skjáinn. Sjónlausir á það hvað missir fullveldis kostaði í 7-800 ár með öllum sínum hörmungum. Gullaldir þessarar þjóðar hafa verið tvær í þessu landi og báðar með fullveldi.
Og nú er svo komið að fjárplógsfólk ræður allri umræðu og er langt komið með að skipta um þjóð í landinu. Mikið af nýju þjóðinni þekkir ekkert annað en júníonið og svo að búa við velmegnum á Íslandi, en það tvennt á enga samleið eins og sagan sannar.
Þetta vita þeir sem aldir eru upp á Íslandssögunni og eru færir um að halda henni til haga, en ekki bara því sem við blasir hverju sinni á skjánum. Erlend öfl hafa aldrei náð völdum á Íslandi öðruvísi en með landráðum innanlands.
Stjórnvöld sem byggja allt sitt á fölskum forsendum, lygum og blekkingum, eru verri en engin. En alltaf virðist vera hægt að sannfæra almenning um að á því sé eitthvað að græða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2023 | 13:14
Öfugmæli - eða hvað?
Það á skilyrðislaust að setja þak á verðtryggingu lána þegar verðbólgan fer langt yfir verðbólgumarkmið stjórnvalda.
Ef verðtrygging á einhvertíma rétt á sér, þá er það til að verðtryggja launatekjur almennings á meðan verðbólguskot gengur yfir, ef það væri gert hyrfi verðbólgan á stuttum tíma.
Bankar og auðrónar yrðu að minka hagnað og arðgreiðslur þar til verðbólgan gengi niður og það opinbera halda aftur af sjálfvirkri sjálftöku.
Ekkert af þessu hefur verið upp á borðum. Kjarasamningar launfólks setja engar skorður við sjálfvirkar hækkanir, sem taka mið af óðaverðbólgu keyrðri áfram m.a. af vísistölu ofurvaxtaðs húsnæðisliðs.
Auðrónar, bankar, ríki og sveitafélög hafa engan hvata til að koma móts við það fólk í landinu sem dregur vagninn, -eins og staðan er í dag. Stunda því sjálftöku og græða eftir sem áður þrátt fyrir verðbólguna - og kalla það þá hagvöxt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.6.2023 | 05:34
Nýja þjóðin, unga fólkið og græðgin
Þegar við, sem fengum þetta land í arf, virðumst ætla að láta glóbalska auðróna hafa það af okkur átölulaust, og höldum að það sé sjálfsagt gæskunnar vegna að þegja.
Er rétt að minnast á það hvað íslenskir auðrónar ganga langt í að skipta um þjóð í landinu við að afla sér ódýrara vinnuafls bæði til að hirða mismun, -og síðar ef vinnuaflið sest að, -snuða það í gegnum þakið yfir höfuðið.
þar sem skipulega er verið að gera út á Ísland sem eitt dýrasta land í heimi með því að flytja inn fólk og hirða mismun af okri og lágum tilkostnaði í launum.
Rétt eins og unga fólkið okkar þá hafa nýbúar ekki hugmyndaflug til að átta sig á hverskonar græðgi býr að baki t.d. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Hvað þá að viðbættri fádæma illskunni þegar kemur að þakinu yfir höfuðið, -sú er slík að vandfundin er í hinum siðmenntaða heimi.
Við þetta bætist svo flóttamannaiðnaður góða fólksins og stjórnvalda, sem hefur orðið til þess að ný met eru slegin hvert af öðru í aðflutningi erlends umkomulauss fólks til landsins, ár eftir ár, -auk allra túristanna.
Snjalla fólkið hefur síðan sankað að sér -nokkurskonar ávöxtunar sparibaukum í verðbólgunni- mun fleiri íbúðum en það kemst nokkurn tíma yfir að búa í yfir alla ævina, -til að leigja út á okurverði.
Í vetur bárust svo fádæma fréttir af því þegar ríkisstofnun yfirbauð leigu fyrir hönd ríkisins þar sem landar okkar með lítið á milli handanna hafa undanfarin ár fengið húsaskjól á viðráðanlegu verði.
Hvað langt munu íslensk stjórnvöld vera tilbúin til að ganga með auðrónum, stríðsherrum og glóbalistum í svokallaðri góðmennsku sinni? -og hvað ætlum við að láta þetta lið teyma okkur langt?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)