Gervigreind - flokkað sorp

Það er búið að að fábjánavæða glóbalinn með trú á ritrýnda tölfræði – fengna úr spálíkönum – smart dýrkun og að flokka sorp ofan í sömu sömu holu.

Þegar sýndarveruleikinn og gervigreindin bætist svo ofaná allt saman – frá þeim sem hæðst gala, -er ekki von á góðu.

Þar sem lífsreynsla – skilningur og raunveruleg kunnátta í lífsins gildum eru látin sigla sinn sjó, -nálgumst við veruleika þar sem hver verður sjálfum sér næstur.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar fólk kaupir óskapnaðinn með þögninni, -kyngjandi honum með kolefnisjafningi og carbfix, -sættandi sig við snuðið.


Klakinn

það er ekkert nýtt undir sólinni hvað vextina varðar og það þarf ekki að efast um að aðferðafræði Seðlabankans gefur sömu niðurstöðu og síðast, -og þar áður. Niðurstaðan er hvorki heimska né mistök í efnahagstjórn, heldur hrein græðgi og illska.

Hvorki er hægt að ætla ungu fólki né erlendu, að gera sér grein fyrir þeirri illsku sem liggur að baki þeirra klækjabragða sem síendurtekin eru við að gera heimili fólks að féþúfu, -og fara síversnandi. Eini möguleiki margra er að hrekjast í verðtygginguna, -eða þá á götuna.

Og ekki má gleyma því að Seðlabankinn var skilvirkasta peningaþvottastöð veraldar á síðasta áratug, og núverandi seðlabankastjóri var efnahagsráðgjafi gamma, þeirra sem hefur verið farið með eins og mannsmorð á hvað fengu íbúðasafn opinberra sjóða, -eignir hirtar af fólki í hinu svokallaða hruni.

Aflands ránsfengurinn, eftir að bankar voru tæmdir innanfrá, var síðan fluttur til landsins bláa á yfirgengi í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og notaður til að kaupa upp eignir m.a. þær sem fjölskyldur höfðu misst, -engin fær að vita á hvað.

Svo var blásið til fasteignaverðbólu, -og nú eiga þeir, sem keyptu sitt fyrsta þak yfir höfuðið á háa verðinu, að blæða í eitt skiptið enn. Þetta er ekki efnahagstjórn fyrir fimm aura, þetta kallast á mannamáli græðgi og illska.

Guð blessi Ísland.


Hleinarnar neðan við kot

Nú væru dagarnir ljúfir hérna fyrir austan mána í sunnan sól ef ekki væri fyrir steypuna og stautið, -ekki einu sinni Tene gæti freistað.

Ég hef stundum sagt frá því hérna á síðunni hvernig ég legg á flótta undan veruleikanum með henni Matthildi minni þegar við förum í gamla gula bárujárnshjallinn úti við ysta haf.

Útidyrnar þar eru þrem skrefum frá þjóðvegi eitt, þar sem tímatrektir túristarnir strauja niður farfuglana á hraðferð sinni um landið, -sex skref í viðbót - í gegnum húsið, út um garðdyrnar, -og komið er í paradís.

Þar syngur þrösturinn, -og máríerlan ber flugurnar í tuga tali heim í hreiðrið sitt úr grýttu fjörunni sem úthafsaldan gjálfrar við undir klappar bakkanum.

Æðakollurnar dugga svo úandi við hleinarnar neðan við kot og stöku sinnum má sjá hnísur fara með þýðum sporðaköstum og blæstri fyrir tangann þar sem krían skellir sér í sjóinn úti fyrir með hvellu kneggi sínu í leit að æti.

Á þessum hleinum á skarfurinn sinn sess á öðrum árstímum við að þerra vængina í hafgolunni, en um varptímann hef ég heyrt að hann haldi sig við Breiðafjörðinn. Veiðibjallan á því það til að tylla sér þar þessa dagana við litlar vinsældir.

En núna um helgina var nýr gestur mættur, -himbrimi, sem ég hef ekki séð svamla við hleinarnar fyrr. Hann kafaði í gríð og erg, kom svo upp með hvert sílið af öðru og á endanum þyrskling sem hann átti í mesta basli með sporðrenna eftir að hafa kokgleypt.

Að verða vitni að andardrætti náttúrunnar milli flóðs og fjöru við þennan stóra spegil hafsins er sennilega sömu andagiftar virði og upplifa almættið.

Almættið og náttúran sér um sína og gefur öllu sem lifir nóg að bíta og brenna, en græðgi mannanna mun hún samt ekki metta því hún fær aldrei nóg. Nú eru áform uppi að setja niður laxeldi í endilangan Stöðvarfjörðinn eins og hvern annan Austfjörð. 

Ég hafði á orði við Búdda bróðir um daginn að réttast væri að friða allt Ísland fyrir ferðamönnum og fiskeldi sem Galápagos norðursins. Hann sagði; ræddu þetta við Attenborough það er aldrei að vita nema að hann myndi stróka norður á einkaþotunni sinni til að taka einn hring yfir herlegheitin.

Þarna í paradísinni sitjum við Matthildur mín tímunum saman úti á palli, sambandslaus við umheiminn, blíðum í blænum við öldunnar vaggandi nið á meðan þrösturinn syngur fyrir okkur hástöfum og fylgjumst með því sem fyrir augu ber við hleinarnar neðan við kot, á meðan túristavaðallinn flæðir fram og til baka ofan við hús um þjóðveg eitt, -hún prjónandi, á meðan ég spái í steypu.


Ódáinsakur á hvítasunnu

Núna í vikunni birti Guðjón Hreinberg pistil sem hann kallaði Af norninni Gullveigu, og lét þess getið innan sviga að hann væri eingöngu ætlað Fjölæringum og Aldingjum. Gullveig er ein af nornum Völuspár og sagði Guðjón hana líka grámunni , , ,sem virkar að sumu leiti þannig að þegar þú ert framliðinn en þorir ekki yfir eða villist, þá getur þú eigrað um hérnamegin en þú sérð allt í gráma og þú sérð ekki venjulegt fólk, utan suma þeirra sem eru ófreskir, að þú ýmist sérð þá berum augum eða eins og þokukenndar verur er bregður fyrir.

Þar sem pistill Guðjóns var langur, margslunginn og torræður þá setti ég inn athugasemd það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn til að fiska eftir því hvað hann meinti, eins til að sýnast gáfaður Fjölæringur eða Aldingi, -og skrifaði; þokukenndur ertu Guðjón, -í grámósku dagsins, en mér sýnist þú samt vera staddur á ódáinsakri. Síðan sendi ég honum tengil og nokkrar ljóðlínur úr Skíðarímu og þakkaði honum fyrir uppljómun dagsins.

Ódáinsakur er torræður og ekki gott að átta sig á hvað orðið merkir annað en eilífðarakur, hvað þá að nokkur viti nákvæmlega hvar sá akur er staðsettur. Ég fór því að grúska í hvar helst væri að finna ódáinsakur en ekki eru til magar skilgreiningar á fyrirbærinu nema þá í ævintýri eða ljóði. Í Eiríkssögu víðförla er talað um ódáinsakur og fann ég hana á netinu á gamalli norsku og þar kemur þetta fram um ódáinsakur þegar Eiríkur leitaði upplýsinga norræns konungs um það hvernig heimurinn væri byggður og þar koma þetta m.a. fram.

Eiríkur mælti; -hvar er sá akur er Ódáinsakur heitir. –Konungur svarar; -Paradís köllum vér hann eða jörð lifenda. – Eiríkur spyr; -en hvar er sá staður. – Konungur segir; -í austur frá Indíalandi hinu ysta. – Eiríkur mælti; -er hægt að komast þangað. – Víst er það; -segir konungur, -allavega fyrir þá er sem öruggir eru með að komast til himna.

Þegar þetta og margt fleira hafði konungur sagt honum, lét Eiríkur sig falla til fóta konungi og mælti; -ég bið þig þess innilega að með fulltingi yðar greiðist ferð mín. Því mér er sú skylda á höndum að efna heitstrengingu mína, þá sem ég strengdi um að fara suður í heim að leita Ódáinsakurs. Konungur sagði Eiríki að til þess þyrfti hann og menn hans að fara að hans ráðum í einu og öllu og láta skírast.

Einn staður á Íslandi er þó sagður hafa heitið Ódáinsakur. Það er í Hvanndölum, en þar segja munnmælin að flytja hafi þurft bæinn vestur fyrir Hvanndalaána vegna þess að á meðan hann var fyrir austan hana hafi engin þar getað dáið, og hafi þurft að flytja fólk vestur fyrir á til að þess að sálast. Eftir það hafi gamla bæjarstæðið fyrir austan á verið kallað Ódáinsakur og síðar bara Akur.

Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar þykja nú óbyggilegir, enda er einungis fært þangað af sjó. Samt var búið í Hvanndölum fram eftir öldum, en byggð lagðist þar af eftir að Hvanneyrarhreppur í Siglufirði keypti jörðina í þeim eina tilgangi að afleggja búsetu þar endanlega.

Hvanndalabræður eru einir af merkilegustu vísindamönnum Íslandssögunnar. Ef ekki væri fyrir þeirra svaðilför þá væru upplýsingar um Kolbeinsey, ysta grunnpunkt landhelginnar í norðri, harla fátæklegar. Hetjudáð Hvanndalabræðra var gerð skil hér á síðunni í pistli fyrir rúmu ári síðan.

Það hefur vakið furðu, að í Landnámu er sagt að deilur um Hvanndali hafi kostað 16 menn lífið. Þar deildu landnámsmennirnir Ólafur bekkur úr Bjarkey í Hálogalandi landnámsmaður í Ólafsfirði og Þormóður rammi landnámsmaður Siglufjarðar er bjó á Siglunesi um Hvanndali, og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa. Þessi verðmæti Hvanndala þurfa ekki að koma á óvart á víkingaöld þegar gulls í gildi var að komast viðstöðulaust í góðan byr.

Til að gera langa sögu stutta þá svaraði Guðjón mér eftir að ég hafði plægt Ódáinsakur í netheimum með þessum orðum: Ef þú gengur upp hálsinn ofan við Seltún í Krísuvík, kemurðu í lítinn dal með tjörn. Þar eru tveir vættir dáinn og ódáinn. Þess virði að ganga þar um og þannig vita af þeim af eigin reynslu. Það sést greinilega á dalverpinu hver er hvorumegin. Eins og margir vita er Krísuvík (eða Krýsuvík) (stórsvæðið) eins og málverk reginna, eins og allar dulsögur "vors siðar" lifna þar við. Guðjón E. Hreinberg, 24.5.2023 kl. 21:12

 

Ég heyrði frá Ódáinsakri

óma í þögulli nótt.

Ég hafði setið og sungið fátt,

í sál mér var orðið hljótt.

Að augum mér viku þær vordagasýnir,

er vetur að síðustu máir og týnir.

Öll sumarsins óræktu áform

og ósungnu fagnaðarljóð

að hug mínum hljóðlát sóttu

og hurfu – sem andvana jóð.

 

Mig dreymdi yfir dánum vonum

og djúpri þögulli sorg,

er streymdi til mín úr allri átt

frá órótt sofandi borg.

Þrá mína ég svæft hafði á sorgararmi,

minn sársauka leyst upp í tár á hvarmi.

Ég hafði setið og sungið fátt,

í sál mér var orðið hljótt.

Þá heyrði ég frá Ódáinsakri

óma í þögulli nótt. ---(Sigurjón Friðjónsson)


Beðið eftir fíflunum

Það er kominn miður maí og ég les enn þungbrýnd skammdegis ljóð. Steypa síðustu daga segir til sín í morgunnsárið, brjóstverkur, bjúgur og svefnleysi. Síðuhafi fór af stað með þau frómu áform að blogga um eitthvað lítilræði daglega fyrir tveim vikum síðan, bara einhverjar litlar áminningar svona svipað og dagbók. Þetta fór í vaskinn eftir fjóra daga og endaði í tómri steypu á stangli þar sem góð áform voru hræð saman við langlokur og skæting.

Þriðja daginn í steypu, þegar við félagarnir stóðum á sliskju utan á svölum skammt fá grafarbakkanum bíðandi eftir steypusílói og ég rífandi kjaft á tærri íslensku, horfði Dan -rúmenskur vinnufélagi íbygginn á mig og sagði á lýtalausri ensku; -nú er ég búin að fatta hvað þú ætlar þér Maggi, þú ætlar að láta Trausta taka við keflinu svo þú getir hætt.

Trausti er tvítugur gullmoli í steypaunni, Dan er 36 ára málaliði sem dregur vagninn í byggingariðnaði á Íslandi. Vinnufélagahópurinn samanstendur, sem betur fer af vöskum ungum mönnum víða að, þó svo eitt og eitt gamalmenni þvælist innan um, og er  heiður fyrir gamlan jálk að fá að starfa með ungum og frískum mönnum, þó heilsan leyfi varla hálfan dag.

Matthildur mín spurði mig svo fyrir nokkrum dögum hvort ekki væri rétt að kíkja á starfslokanámskeiði, fólk gerði það stundum á okkar aldri og það væri einmitt verið að auglýsa eitt í Dagskránni. Ég sagðist ekki gera neitt í því, enda ekki nema rétt að verða 63. ára, en hún gæti gert það sem henni sýndist. Matthildur mín hafði svo sitt fram, og eftir steypu gærdagsins fórum við á þetta fjandans námskeið.

Á þessum árstíma er ég vanalega farin að tína fífla, njóla, hundasúrur og hvönn til að halda heilsunni. Fíflar eru t.d. vatnslosandi og vinna vel á bjúg, njólann nota ég í súpu, hundasúrurnar í salat og hvönnin gefur kraft. Þetta fóður hefur endurnýjað heilsuna að vorlagi undanfarin ár, en ég er með skaddað hjarta, þess vegna orkulaus. Bjúgur og brjóstvekur er því fljótur að láta á sér kræla við áreynslu þrátt fyrir viðvarandi sprengitöfluát.

Það má segja að undanfarna daga hafi allt gengið meira og minna úr skorðu, steypurnar verið fleiri og erfiðari en ég bjóst við, bloggin andlausari og Matthildur mín hætt að hafa trú á mér og ég beðið of lengi eftir fíflunum sem eru reyndar fyrir nokkrum dögum orðnir ætir. Vonandi hef ég mig í það í dag, -uppstigningardag, að verða mér út um andlegt heilsufóður við niðinn í Eyvindaránni


Merci Bocú von der Leyen

Þá er stærsta hagsmunamál Íslendinga síðan EES samningurinn tók gildi komið í höfn og ekkert að vanbúnaði að samþykkja bókun 35 á alþingi. Landinn getur glaðst yfir að fá að fara til Tene án verulega íþyngjandi kolefnisskatta til ESB, en situr í þess stað uppi með flækinga og túristavaðalinn rammflæktan í innviðunum.

Gamla fraukan tók öllum dúkkulísum fram með því að taka af skarið, eftir að landinn hefur hreinlega beðið á milli vonar og ótta um að þetta mál færi á hinn skelfilegasta veg. Að sitja uppi með landráð og flissandi fábjána án þess að eiga raunhæfa möguleika að geta hvílt kvarnirnar við öldugjálfur á suðrænni strönd er hreint ekkert grín.

Já og merci bocú mbl fyrir að vera fyrst með fréttina.


mbl.is Von der Leyen: Ísland fær undanþágur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elíta íslensks fáránleika

Er þegar saman kemur góða fólkið og stjórnmálamenn, sem hafa setið við kjörkatlana árum jafnvel áratugum saman. Flissa í stutta stund með forsætisráðherra yfir háleitum markmiðum um útrýmingu fátæktar íslenskra barna, sem hefur einungis aukist á þeirra vakt, auk þess sem þeim fer fækkandi. 

„En það breytir því ekki að við erum ennþá með of margar hindranir. Það eru þættir sem við getum gert betur og hér var sérstaklega rætt um húsnæðismálin. Ég held að það blasi við að þó að stjórnvöld hafi verið að beita sér á húsnæðismarkaði á undanförnum árum hefur enn ekki verið byggt nóg til þess að standa undir þörfinni“, -segir sú sem flissar best.

Sennilega verður niðurstaðan af skrautsýningunni sú að bjóða heimilum ungs fólks 110% leiðina aftur, og þeim sem hafa enn kjark til að eignast börn. Skrúfa síðan áfram upp vextina auðrónum til arðs, sem hækka síðan fasteignaverðið upp úr skýjunum með tíð og tíma, svo hægt verði að gjaldfæra sjálfvirkt fyrir allri sjálftöku elítunnar.


mbl.is Vilja útrýma fátækt barna fyrir 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söluskatturinn og ö tvöhöndröð og sex

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrri því þegar iðnaðarmanni er borgað fyrir vinnu, að þá eru laun hans ekki há. Þetta kemur til vegna þess að reikningur iðnaðarmannsins er svimandi hár, og ætlaður í fleira en laun. Þegar ég byrjaði á vinnumarkaði þurftu flestir sem keyptu mína vinnu að borga mér svipað fyrir tímann og þeir fengu sjálfir.

Ég rak fyrirtæki síðustu áratugi 20. aldarinnar og fyrsta áratug þeirrar 21. Var það orðið þannig í lok 20. aldar að til að hafa fyrir öllum kostnaði starfsmanns, þurfti að rukka allt að tvöfalt tímakaup hans. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þessu er háttað núna, en mér kæmi ekki á óvart að hlutfallið sé orðið þrefalt. Svo það er ekkert skrýtið að fólki blöskri það að fá iðnaðarmann í vinnu.

Stjórnvöld eiga það til að setja upp allskonar útgáfur af virðisaukaskatti til að hvetja eða letja almenning til viðhalds framkvæmda. Undanfari virðisaukaskattsins var söluskatturinn. Þá var vinna á byggingastað undanþeginn söluskatti og í þá tíð fór flest öll vinna við húsbyggingar fram á byggingarstað, annað en innréttingar til lokafrágangs hússins og var sumt af þeim innflutt.

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina um Ella P, og var tími kominn til, því Elli var mikill steypuhrærukall. Elli segir m.a. frá því hvernig söluskatturinn fór með hann, en þá munaði minnstu að hann og fjölskyldan fengu að gista götuna. Voru þau hjónin þó ýmsu vön, hófu sinn búskap í bragga og er sá braggi sá eini á landinu sem enn er notaður til búsetu, eftir því sem ég best veit.

Steypa hrærð á byggingastað bar ekki söluskatt, en steypa sem keyrt var á byggingastað í steypubíl skyldi bera söluskatt. Þessu flöskuðu sumir á, óviljandi eða viljandi, og segir Elli að þegar skattayfirvöld gerðu átak í að innheimta söluskattinn aftur í tímann hafi verið mikil vá fyrir dyrum hjá mörgum, þar á meðal honum sjálfum. Hann nefnir það t.d. að Hagvirki sem var eitt stærsta verktakafyrirtæki landsins í þá daga, hafi ekki lifað af eftirá söluskatts innheimtuna.

Elli gerði sér ferð til höfuðborgarinnar til að ná tali af fjármálaráðherra þegar öll sund höfðu lokast, en hvorki hafði gengið né rekið að fá einhvern í kerfinu til að hlusta á rök og raunatölur Ella varðandi söluskattinn. Þegar suður kom fór hann í alþingishúsið og faldi sig í fatahenginu, beið af sér og hlustaði á einhvern lengsta og leiðinlegasta fund sem hann segist hafa hafa á ævinni setið.

Þegar þingfundi lauk kom fjármálaráðherra til að ná í frakkann sinn, sem var þá Ólafur Ragnar Grímsson. Elli spratt fram úr fatahenginu og heilsaði Ólafi með handabandi og passaði sig á að sleppa ekki hendinni og halda fast. Hann kynnti sig sem Ella P frá Breiðdalsvík, sem væru búin að reyna að ná tali af honum í síma dögum saman út af söluskattinum og láta liggja fyrir skilaboð án þess að því hefði verið nokkru svarað.

Síðan hóf hann að segja söguna af söluskattinum, sem hann næði ekki að innheimta aftur í tímann, og hvernig það mál færi með hann og hans fjölskyldu, án þess að sleppa hendi fjármálaráðherra. Ólafur sagðist því miður ekki hafa tíma til að ræða þetta þarna í fatahenginu, en bauð honum að koma til sín í ráðuneytið kl 10 morguninn eftir, sem Elli þáði þáði og sleppti hendinni. Daginn eftir var söluskattsskuldin úr sögunni og Elli gat haldið áfram að steypa.

En eftir þetta var steypustarfsemi Ella ekki svipur hjá sjón því hann varð að innheimta  söluskatt og við það hækkaði verðið á steypunni. Í hinum dreifðu byggðum úti um land var veðhæfi ekki talið það hátt á íbúðarhúsnæði að einu sinni íbúðalánasjóður ríkisins treysti sér til að lána fyrir húsi með söluskattinum.

Elli var mikill þjónustu maður og rak einnig krana til að hífa steypuna á byggingastað. Hann hafði þann sið að biðja bæna og heita á Beruneskirkju svo að hann kæmist klakklaust frá verki þar sem líf og limir annarra voru undir því komið að allt gengi óhappalaust hjá honum.

Ég spurði kranamann í steypunni um daginn hvort hann hefði sama hátt á og Elli heitinn, þegar hann hífir 6 tonna sílóið yfir okkur og hvort hann hefði lesið bókina um Ella P. Hann hafði ekki lesið bókina, en mundi vel eftir Ella og hífinga sögunum hans sem hann sagði að allar hefðu endað á orðunum; -það var nú mekjel gvöð melde að ekki fór ver en það fór.

Elli var flámæltur og fyrirvarði sig aldrei fyrir sína gömlu viðkunnanlegu austfirsku. Í síðustu viku þegar ég fór með sögumanni, sem ætlar að fara að byggja upp á gamla mátann til að skoða möl, heyrði ég sögu af því þegar Elli hafði verið að kaupa dísilolíu á uppáhaldsbílinn sinn sem var með skráninganúmerið U-206, og þurfti nótu í bókhaldið.

Þegar afgreiðslustúlkan spurði hvað bílnúmer ætti að setja á nótuna, þá sagði Elli; -ö tvöhöndröð og sex. Á leiðinn út eftir að hafa fengið nótuna tók hann eftir því að stúlkan hafði skrifað Ö-206 í stað U-206. Þá snaraðist hann til baka og sýndi henni; -þú skrefar Ö-206 og ég sem sagði þér að númerið væri ö tvöhöndröð og sex.

Við félagarnir á Djúpavogi tókum við af Ella að hræra þar steypu á byggingastað eftir söluskattsmálið. Elli yfirgaf Austurland í ellinni og sagði við mig bæði í gamni og alvöru; -það voruð þeð félagarnir á Djúpavogi sem hafið það á samviskunni að ég yfirgef Austurland.

Við félagarnir vorum þá orðnir síðustu Móhíkanarnir, og nú er svo komið um allt Ísland að það eru fjárplógsmenn einir sem eru færir um að byggja íðbúðarhúsnæði.


Sumarið fyrir EES

Sumar, sól og steypa. Bæjarhátíð, brauð og barnapíur. Lada, Lapplander og leikir. Allt var með öðrum hætti en í dag, þar sem flest hefur verið njörvað niður á sinn bás, -innan sinnar girðingar í skóm með stálstá, klætt í gult með hjálm, heyrnaskjól og öryggisgleraugu.

Mörkin á milli leiks og starfs skilgreind upp á nýtt, vinna er eitthvað sem á helst að vera leiðinlegt og sumarfrí eitthvað annað, helst einhversstaðar langt í burtu. Allt Íslandi skildi lúta markaði fjórfrelsisins, -eða helsisins, eftir því hvernig túlka ber frelsi.

Fyrir tíð EES hafði hvert EFTA-ríki sjálfstæð samskipti við EB (forvera ESB). Árið 1984 var efnt til sameiginlegs ráðherrafundar EFTA og EB í Lúxemborg með það að markmiði að efla viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum á milli bandalaganna.

1989 hófust formlegar samningaviðræður sem stóðu til 1991 en þá var samningsuppkastið sent Evrópudómstólnum til umfjöllunar. Dómstóllinn gerði athugasemd við grein í samningnum sem fjallaði um sérstakan EES-dómstól sem skyldi fjalla um deilumál vegna framkvæmdar samningsins.

Slíkur dómstóll var talinn brjóta á Rómarsamningnum sem kveður á um að Evrópudómstóllinn fer einn með dómsvaldið innan ESB. Niðurstaðan var að stofnaður var sérstakur EFTA-dómstóll til að leysa úr deilumálum frá EFTA-ríkjunum.

Á Íslandi veitti Alþingi stjórnvöldum heimild til að staðfesta EES-samninginn með því að samþykkja lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 þann 12. janúar 1993. Málið var mjög umdeilt og til marks um það var það samþykkt í þinginu með 33 atkvæðum á móti 23 en 6 sátu hjá.

Alþýðuflokkurinn og megnið af Sjálfstæðisflokkinum samþykktu en Alþýðubandalagið, megnið af Kvennalistanum, hálfur Framsóknarflokkurinn og þrír Sjálfstæðismenn voru á móti. Hinn helmingur Framsóknarmanna og einn þingmaður Kvennalistans sátu hjá.

Andstaðan við samningin var að hluta til komin af ótta við afleiðingar aukins viðskiptafrelsis (t.d. að útlendingar myndu kaupa upp jarðir á Íslandi í stórum stíl) en einnig vegna þess að margra mati felur samningurinn í sér óásættanlegt framsal á sjálfstæði þjóðarinnar til alþjóðastofnunar.

Því hefur einnig verið haldið fram að samningurinn kunni að brjóta á stjórnarskrá Íslands sem að gerir ekki ráð fyrir því að löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald sé framselt. Heimild Wikipedia

Já ég er enn í steypunni flesta daga, klæddur sem gulur trúður innan girðingar. Þar eru engar hetjudáðir framkvæmdar, nema ef vera skildi að upp komist eitt og eitt ómyglað hús. Steypuhrærivélinni er ekki lengur plantað niður og steypan blönduð og hrærð þar sem hennar er þörf, allt skal nú framkvæmt samkvæmt regluverki fjórfrelsisins. En þannig var þetta ekki á Íslandi sumarið fyrir EES.


Er komið að skuldadögum?

Nú hefur ESB stöðvað aflátsbréfasölu íslenska orkuiðnaðarins út fyrir landsteinana. Ekki dugði minna en að láta hálfan álf í fánalitunum fronta fréttina, enda gæti víst tapið hlaupið á milljörðum. Af kolefniskontór Landsvirkjunar berast svo þau válegu tíðindi að ekki sé augljóst hver beri endanlega skaðann.

Að því komust við steypukallarnir í Noregi fyrir meira en áratug síðan, þegar verð á rafmagni til norskra heimila hækkaði hviss bang um 30% við það eitt að hitamælirinn fór niður um nokkrar gráður um haust. Endurnýtanleg vatnsaflsorka Noregs var nefnilega samtengd raforkukerfi ESB með sæstreng, -og þá hafin aflátsbréfasala kolefniskirkjunnar.

Við steypukallarnir ræddum þessa rafmagnshækkun í kaffitíma, og þótti norskum frændum mínum aflátsbréfin vera hvað hrikalegust í þessu seigfljótandi slýgræna orkusvindli kolefniskirkjunnar, þar sem hrein vatnsafls raforka Norðmanna var höfð af eigendunum og þeir látnir greiða fyrir þjófnaðinn með okurverði.

-Og það án þess að nokkur vissa væri fyrri því að sá þungaiðnaður Evrópu, sem sagður var kaupa aflátsbréfin fengi hreina orku í staðin, en fengi samt sem áður upp á skrifað aflátsbréf fyrir sínum sóðaskap, og væru síðan heimili Noregs rukkuð fyrir óskapnaðinn auk förgunarkostnaðar á umbúðum umhverfissóðanna.

Mér datt í hug eftir þetta kaffitímaspjall -um árið- að kanna hvernig þessu væri háttað á Íslandi, -jú einmitt sama aflátsbréfa útgáfan út fyrir landsteinana, -en enginn sæstrengur. Orkustofnun hélt utan um umsvif svindlsins og samkvæmt bókhaldi hennar er sú raforka sem íslensk heimili nota langt innan við 10% endurnýtanleg, rest er fengin með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Það sem er undarlegast við það að ESB skuli nú vera búið að stöðva aflátsbréfasöluna, -er hvað hún fékk að standa lengi, eða allt frá 2011. Ástæðan fyrir því ætti samt að vera flestum skuldseigum Íslendingum augljós, því þegar kemur að skuldadögum borgar sig að hafa þá óviðráðanlega.

Er nema von að nú liggi á að innleiða EES bókun 35 um að Evrópuréttur taki yfir íslensk lög þar sem við á? -þar sem nú á endanlega að staðfesta á Alþingi Íslendinga að hann sé rétthærri íslenskum lögum, nema að þau séu samhljóma.

Allt þetta vita náttúrlega fjárplógsmenn sjálftökunnar og Davos dúkkulísur með augun vatnsblá, glær og galtóm. Þó svo að þeim detti helst í huga að láta hálfan álf fronta óskapnaðinn í fánalitunum í ríkismiðlunum þegar kemur að því -sem kallað er á því ástkæra og ylhýra - skuldadagar.

uppruni-raforku-a-islandi-2019

Þessi kaka var í boði Orkustofnunnar árið 2019, ég nenni ekki að finna nýrri svo oft hef ég bloggað um fyrirbærið að ég á þessa enn óétna.

 

Ps. ef einhver kynni að hafa áhuga á að kinna sér málið þá má hér sjá hvað er að koma út úr hólnum í fánalitunum. Á meðan gálur á glapstigum faðma leikarann ástsæla frá Kænugarði umvafðar stjörnuprýddu flaggi ESB.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband