10.8.2023 | 17:39
Börn náttúrunnar
Við hjalandi læk með sólargeisla á vanga heyri ég dun frá fossinum í fjarska. Þegar ég skrúfa númerin á gamla Grand Cherokee í byrjun sumars þá segi ég vinnufélögunum að ég noti hann til að fara í berjamó. Þá hlæja þeir fyrir kurteisis sakir og halda að ég sé að fíflast.
Enda hvernig getur það borgað sig að halda upp á verðlausan bensínhák sem leikur sér að 40 lítrunum fyrir bláber, jafnvel þó svo þau séu aðal. -Því er auðsvarða við Matthildur mín erum bæði orðin feyskin, lúin og fóta fúin. -Og sólageislinn hún Ævi á það til að spyrja; -afi förum við ekki á græna bílnum út í tjaldastaði.
Í sumarfríinu í síðustu viku fórum við Matthildur mín í lautarferð sem endaði niður í fjöru. Við höfðum rásað fram og aftur þjóðveginn í napurri austfjarðaþokunni áður en við fundum að endingu skjólgóðan stað undir grasbakka í hvítri skeljasands fjöru innan við leifarnar af gömlu steinsteyptu bryggjunni á Hafnarnesi.
Þegar við vorum búin að dekka borðið með Thermos kaffibrúsa og kanilsnúðum tók ég eftir að það var að flæða, en sagði Matthildi að það væri langt í að við flæddum. Ég sagði henni líka söguna af því þegar ég var aleinn úti í Noregi eftir hið svokallaða hrun og fór í fjöruna okkar í Akurvík á löngum frídegi eftir að hún var farin heim til Íslands.
Af því að tíminn var þá óendanlegur settist ég þar í flæðamálið og sat og sat, á meðan fjaraði. Og áfram sat ég og sat á meðan flæddi meðan ljósbrot sólarinnar lýsti upp andlitið á mér í spegli hafsins.
Þá gat ég orðið talaði við fuglana, það kom meir að segja til mín kjagandi máfur og skoðaði mig hátt og lágt veltandi vöngum. Svo skyndilega rankaði ég við mér þegar alda flæddi yfir skóna mína og máfurinn flaug og settist á sjóinn fyrir framan mig þar sem sólin speglaði sig.
Við Matthildur mín sátum í Hafnarnesfjörunni og fylgdumst með austfjarðaþokunni líða fram af grænum grasbakkanum, með máríerlurnar flögrandi í kringum okkur meðan að kollurnar kenndu ungunum sínum að kafa á sjónum fyrir framan. Óðinshani settist í fjöruborðið, snarsnérist á öldunni og tíndi upp í sig þaraflugur. Og kríurnar steyptu sér kneggjandi eftir síli eftir að hafa tekið okkur í sátt.
Ég spurði Matthildi eftir klukkutíma: -eigum við ekki að taka saman, nei bíðum þangað til flæðir yfir skóna: sagði hún. Og áfram sátum við og nú í sólinni á meðan hún strauk okkur blítt um kinn í gegnum þokuna á meðan fyllurnar komu flæðandi inn á lygnuna innan við hafnartangann.
Svona leið tíminn ein klukkustund, tvær og þá allt í einu komst alda það langt að við þurftum að lyfta fótunum. Við tókum saman borðið og stólana settum kaffibrúsann í pokann. Um leið og við höfðum klöngrast upp á bakkann sá ég fyllu flóðs koma fyrir Hafnarnestangann, aldan reis inn með landinu og brotnaði svo á grjótinu í fjörunni undir bakkanum.
Þegar aldan hafði runnið út aftur var ekki svo mikið sem eitt skófar eftir okkur niður á hvíta skeljasandinum. -Þarna vorum við heppin: sagði ég, já heldur betur: sagði Matthildur -Það er ekki víst að við hefðum lifað þetta af. Engin ætti að sleppa því á að hafa setið á milli flóðs og fjöru áður en það verður of seint.
-Nema þá við að vera upptekin eins Matthildur mín. Þegar við keyrðum í þokunni úr Hvaldalnum daginn áður, þar hafði ég lofað henni sól og sumri og stóð við það. En um leið og við komum úr Hvaldalnum og Hvalnesskriðunum í Álftafjörðinn liðum við út í þokuna.
Matthildur þá prjónandi mórauðar buxur á snáðann sem bíður óðþolinmóður eftir því að komast í heiminn sem næsta ömmugull. Ég þurfti að hæga á í þéttum þokubólstri vegna rollu með tvö lömb sem ætluðu sér hálfan veginn.
Þegar ég beygði til hliðar tók lambhrúturinn snögg hliðarspor í sömu átt fyrir framan bílinn og hoppaði hæð sína beint upp í loftið og sló saman fótunum. Hljóp svo hróðugur út fyrir veg. Matthildur hafði litið upp frá tifandi prjónunum og sagði; -sástu þennan töffara, sá var flottur.
Í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar gerði Friðrik Þór Friðriksson sína ljúfustu kvikmynd, -Börn náttúrunnar, mynd sem náði þeim árangri að heilla heiminn. Myndin var um gamlingja sem tilheyrðu ekki lengur tíðarandanum og lögðu upp í ferðalag á gömlum Willys jeppa frá fjölmenninu út í náttúruna, -þar sem hjartað slær.
Já ég held að ég haldi áfram í berjamó eitthvað fram á haustið og stefni svo á að setji númerin aftur á gamla Grand Cherokke næsta sumar.
Ferðalög | Breytt 13.1.2024 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.8.2023 | 20:49
Skálholt Turbulent Times
Út er komin bókin Turbulent Times -Skálholt and the Barbary Corsair Raids on Iceland 1627. Bókinni var fylgt úr hlaði af höfundum hennar Karli Smára Hreinssyni og Adam Nichols á óvenju veglegri Skálholtshátíð helgina 20. 23. júlí s.l. í tilefni 60 ára afmælis dómkirkjunnar í Skálholti sem vígð var 21. júlí 1963.
Adam og Karl Smári eru sagnfræðingar sem eru á góðri leið með að gera Tyrkjaránið á Íslandi heimsfrægt. Út eru komnar 5 bækur frá þeim um það efni;
The Travels of Reverend Ólafur Egilsson um ferðasögu Ólafs Egilssonar prests í Vestamannaeyjum sem komst lifandi heim úr Barbaríinu í Algeirsborg.
Northern Captives um Tyrkjaránið í Grindavík og afdrif fólksins þaðan sem flutt var til Salé í Marokkó og selt á þrælamarkaði.
Stolen Lives um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum.
Enslaved - um Tyrkjaránið á Austfjörðum.
Turbulent Times um þátt biskupssetursins í Skálholti í varðveislu Tyrkjaránssögu.
Bækur þessar eru á ensku og þar er farið yfir sjálfa söguna auk bakgrunns Tyrkjaránsins á Íslandi, er þar ekki einungis byggt á íslenskum heimildum heldur einnig heimildum frá Norður Afríku og því stjórnmálaástandi í Evrópu sem varð til þess að hundruðum Íslendinga var rænt og þeir seldir á þrælamörkuðum.
Íslensku heimildirnar þykja einstaklega áhugaverðar í því ljósi að þær segja ekki einungis frá atburðinum sjálfum eftir á af yfirvöldum eða fræðimönnum, heldur eru til skrásettar samtímafrásagnir fólksins sem í þessum hörmungum lenti bæði í sendibréfum og vegna þess að sagan var skráð í Skálholti svo til um leið og hún gerðist eftir fólki sem varð vitni af atburðunum.
Þar af leiðandi eru þessar íslensku heimildir einstakar, jafnvel á heimsvísu, og vekja gríðarlega athygli varðandi þann hluta mankynsögunnar þegar sjóræningjar og atvinnulausir málaliðar fóru rænandi og ruplandi um Evrópu og seldu fólk í ánauð í múslímsku Barbaríinu. Nú er verið að gefa bækurnar út á m.a. Hollensku, Grísku, Frönsku og í Marokkó.
Heimildir eru til um að tólf skip hafi lagt í haf frá norðurströnd Afríku í þeim tilgangi að ræna eins miklu fólki af Íslandi og mögulegt væri sumarið 1627, -þræl skipulagðar aðgerðir. Einungis fjögur skip skiluðu sér samt alla leið til Íslands stranda svo vitað sé, eitt frá Marokkó og þrjú frá Alsír.
Skipstjórar og stór hluti áhafna þessara skipa voru Evrópumenn, Hollendingar, Þjóðverjar, Danir og jafnvel Norðmenn. Þetta voru menn sem höfðu misst vinnuna sem málaliðar í endalausum 30-90 ára stríðum Evrópu, gerðust trúskiptingar í N-Afríku sem kunnu að sigla um norðurhöf og útveguðu Barbaríinu þræla. Sæúlfar sem hikuðu ekki við að gera sér mannslíf að féþúfu.
Eitt skipanna kom til Grindavíkur fyrrihluta júní mánaðar þetta sumar og rændi þaðan fjölda fólks. Það skip fór síðan inn á Faxaflóann og hugðist gera strandhögg m.a. á Bessastöðum, en snéri frá við Löngusker og sigldi vestur með landinu áður en það snéri til Marokkó.
Tvö skip komu upp að Eystra-Horni við Hvalnes í Lóni. En náðu ekki að ræna fólki af Hvalnesbænum vegna þess að það var á seli í nálægum dal sem þeir fundu ekki þrátt fyrir ítrekaða leit. Þessi skip fóru síðan til Djúpavogs og rændu og drápu vel á annað hundrað manns við Berufjörð og víðar á Austfjörðum.
Tyrkjaránssaga Austfjarða er um margt einstök því söguþráðurinn í henni er þannig að engu líkara er en söguritarinn hafi verið á ferð með sjóræningjunum allan tíman sem þeir dvöldu við Berufjörð. En það kemur sennilega til af því að í Vestmannaeyjum voru fleiri en einn Austfirðingur settur í land í stað álitlegri þræla m.a. maður sem var fatlaður á hendi. Líklegt er að fólkið hafi sagt hvort öðru söguna í lestum skipanna og þannig hafi hún varðveist frá fyrstu hendi á austfjörðum og síðan verið skrásett eftir skólapiltum að austan í Skálholti veturinn eftir.
Þegar skipin yfirgáfu Austfirði, eftir að hafa gefist upp á að komast inn Reyðafjörð vegna sterks mótvinds, sigldu þau suður með landinu og sameinuðust einu sjóræningjaskipi í viðbót sem þá var að koma úr hafi. Þessi skip sigldu svo til Vestamannaeyja, þar rændu og drápu sjóræningjarnir vel á þriðja hundrað manns. Lýsingarnar úr Vestmannaeyjum eru hrikalegar.
Fólkið af Austfjörðum og Vestmannaeyjum var selt á þrælamarkaði í Algeirsborg og er þerri framkvæmd vel lýst í Ferðabók Ólafs Egilssonar sem varð vitni af því þegar kona hans og börn voru seld. Fæstir áttu afturkvæmt til Íslands og ekki er vitað til að nokkur Austfirðingur hafi komist alla leið til baka. Guðríður Símonardóttir, síðar kona sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar, var ein af þeim fáu sem komst aftur til Íslands.
Séra Kristján Björnsson vígslu biskup í Skálholti vill meina, í inngangsorðum bókarinnar um Skálholt, að sálmar Hallgríms Péturssonar verði ekki fullútskýrðir nema með hliðsjón af þessum atburðum Íslandssögunnar, og þá að kona Hallgríms varð Guðríður Símonardóttir, -þjóðsagan persónan Tyrkja Gudda.
Bókin um Skálholt, sem kom út nú í sumar, er um þær heimildir og bréf sem varðveittust um þessa atburði. Telja höfundar að það sé Oddi Einarssyni biskup að þakka hvað mikið er til um sögu fólksins, enda tengdist Oddur biskup sumu af fólkinu sem rænt var bæði fjölskylduböndum og eins er talið að margir hafi þeir verið vinir hans.
Fyrir rétt rúmu ári síðan átti ég því láni að fagna, vegna tilstillis Jóhanns Elíassonar bloggara, að verða þeim bókahöfundunum innanhandar á sögusviðiðnu hér fyrir austan, sem aðallega fólst í því að benda þeim á þjóðsagan safn Öldu Snæbjörnsdóttir, -Dvergaseinn, -sem geymir skýrslu austfirskra skólapilta í Skálholti ásamt fjölda munnmæla og þjóðsagna um Tyrkjaránið hér fyrir austan.
Þeir félagar sendu mér bókina um Skálholt áritaða í pósti og fór ég samstundis sambandslaus niður á Sólhólinn úti við ysta haf í síðustu viku með henni Matthildi minni til að lesa um Skálholt á ólgu tímum.
Bókin er meira en fullkomlega þess virði að stauta sig í gegnum hana á ensku enda rennur hún vel, því sem næst eins og spennusaga. Það er fyrir löngu kominn tími til að Tyrkjaráninu verði gert skil á íslensku á jafn veglegan og vandaðan hátt og þeir Adam og Karl Smári hafa gert á ensku.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Á meðan ég las bókina Skálholt í síðustu viku fórum við Matthildur mín á Hvalnes og fundum dalinn þar sem fólkið dvaldi í þegar sjóræningjarnir fundu það ekki. Þetta er einstakur huldudalur sem heitir Hvaldalur og liggur á bak við Eystra-Horn alla leið inn undir Lónsheiði. Þó það sé hvergi sagt í Tyrkjaránssögu að Hvaldalur sé dalurinn með selinu, þá leynir það sér ekki við skoðun.
Þó svo að keyrt sé í gegnum dalinn á þjóðvegi eitt þá sést hann ekki fyrr en gengið er upp á tvær hæðir. Þó svo að ég hafi í hundruð skipta keyrt þessa leið fram og til baka þá hafði mér ekki hugkvæmst að kanna þennan dal fyrr en ég fór að spá í hvar fólkið á Hvalnesi hafði bjargast undan Hundtyrkjanum.
Eystra-Horn er sterkt kennileiti á austur Íslandi þegar komið er af hafi. Bærinn Hvalnes kúrir undir fjöllunum. Þegar keyrt er fyrir Hvalnesið hægra megin á myndinni er komið yfir í Hvaldal.
Þjóðvegur eitt í Hvaldal, framundan eru Hvalnesskriður. Hvassklettar vinstra megin við veginn. þar fannst einn elsti peningur sem fundist hefur á Íslandi. Silfurpeningur sleginn í Róm 285 - 305 e. kr.. Sandurinn heitir Hlíðarsandur og var á öldum áður algrænn af melgresi, þar voru slegnir 50 hestar. En í Knútsbil 7. jan. 1886 fuku síðustu stráin á haf út. Nú er aðeins farið að votta aftur fyrir grænum lit í sandinum.
Þegar litið er upp Hvaldal frá þjóðveginum við ströndina, þá skyggja Hvassklettar á útsýnið inn dalinn, auk þess sem hann beygir til austurs fyrir innan klettana.
Það leynir sér ekki hvers vegna Hvassklettar bera það nafn. Þegar komið er upp á þá mætti ætla að sæist inn allan Hvaldalinn, en svo er ekki.
Til að sjá inn allan dalinn þarf að fara nokkra leið þar til komið er á brún á framhlaupi sem ég held að heiti Hlaupgeiri. Þar má fyrst sjá inn allan dalinn. Þar eru örnefni eins og Seltindur, Selgil, Selbrekka og Selbotn, sem benda til að þar hafi verið haft við á seli áður fyrr.
Hvaldalurinn er víða að verða grænn og gróinn. Sjá má melgresi bylgjast í blænum og grasbala inn á milli. Dalurinn er sem áður notaður til sumarbeitar fyrir sauðfé. Sennilega yrði túristavaðallinn fyrri til að eyða nýgræðingnum en sauðkindin, ef ferðamenn uppgötvuðu þennan fallega og friðsæla stað sem liggur að baki Eystra-Horni.
Jafnvel þó ánni sé fylgt frá þjóðvegi sést ekki inn allan Hvaldalinn fyrr en komið er fyrir Hvasskletta og Hlaupgeira. Það er því ekki skrítið að Tyrkjunum hafi yfirsést hvar fólkið var á seli í Hvaldal, þó svo að þeir hafi komið í dalinn.
Landsins-saga | Breytt 13.1.2024 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.7.2023 | 06:32
Gervigreind og glötuð sál
Andleg málefni hafa nú um langt skeið talist óraunveruleg vísindi. Vísindalega streyma þau samt sem áður inn í menninguna, ekki aðeins eftir andlegum leiðum, heldur á allan mögulegan hátt. Samruni efnis og andlegs hyggjuvits hefur alltaf verið í gangi. Nauðsynin á að vera meðvitaður um þessi sannindi mun einungis aukast.
Hið ósýnilega ríki liggur ekki í dvala. Það hefur alltaf verið virkt og stöðugt. Þetta er ríkið sem mótar heiminn. Óáþreifanlegt afl alls lífs er hin andlega vídd, innan hennar eru þeir vitsmunir sem koma á efnislegum heimi.
Upp að vissu marki er efnishyggja góðra gjalda verð. Það er viðurkennt af flestum sem ekki eru of djúpt sokknir í efnislegan veruleika. Efnis- og einstaklingshyggja er nauðsynleg til að skynja tilveruna og tilgang jarðvistarinnar.
Þegar þeirri þekkingu hefur verið náð hefst leiðin til baka, -til uppruna vitundarinnar. Ef dvalið er of lengi í fangi efnislegra gæða, þá getur deyfð og andleysi átt sér stað, sem svo aftur kristallar ákveðinn vanþroska, sem leiðir til ofuráhrifa gróða afla.
Hvati andlegrar þekkingar, sem þróaðs afls, svífur um í efnis heiminum, en hefur verið hafnað af öflum sem vilja ekki að fólk uppgötvi sinn innra mátt. Greina má hvernig er skipulega unnið að því að hefta hyggjuvitið á ýmsum stigum mannsævinnar, -talið óumflýjanlegt af þeim sem vita hvað er í veði.
Öfl andlegs þroska hafa þannig unnið að því að ofurvæða efnishyggjuna. Dýpka ánetjunina í efnisleg gæði með því að búa til bæði gerviþarfir og gerviefnisform sem aldrei hefðu orðið til við náttúrulegt ferli eða í mannlegri þróun. Þetta er gert með að beita ákveðnu andlegu afli á efnissviðinu.
Þessu er beitt með því að hindra endurnýjun mannlegrar reynslu umfram efnishyggjuna og beina henni inn í nýtt fljótandi form andlegrar efnishyggju sem virðist óefnisleg. Misvísandi efnishyggju á stafrænu sýndarsviði, sem virðast vera andstæða efnishyggju, en vinnur í raun að því að dýpka fall mannsandans við efnisöflum.
Þannig stafræn form eru nú þegar í notkun sem allsráðandi birtingarmyndir. Algerlega óraunveruleg mannleg reynsla, -í raun einungis fræðileg efnishyggja. Fræðileg efnishyggja táknar raunveruleikabyggingu, sem þarf ekki að vera efnisleg, en er samt varpað fram og byggð á efnislegum grunni.
Innan fræðilegrar efnishyggju er manneskjan yfirtekin með tilkomu spálíkana byggðum á sýndarveruleika. Þar býr heimur ritrýndra staðreynda sem sönnunargagna. Lífsreynslan kemur frá þessu efnislega sviði spálíkana. Innrætir manneskjunni þannig lífssýn sem byggð er á staðreyndum sem viðurkenna engan veruleika utan þessa efnislega sýndarveruleika. Hugmyndin um sál eða andlega yfirskilvitlega hvatningu er annaðhvort talin auka afurð frá þessum efnislega veruleika, ef þá ekki alfarið hafnað sem ranghugmynd. Svo mikið er afl efnisandans á veruleikann.
Efnishyggja er fyrir löngu orðin að alheims vísindum og mun á endanum leiða til hnignunar. Hún orsakar vélrænan tilbúin hugsunarhátt sem að lokum veldur stöðnun hjá þeim öflum er knýja þróun mannsandans. Ef haldið er áfram á sömu braut, skerða þessi efnishyggjuöfl tækniframfara enn frekar mikilvægan andlegan þroska einstaklingsins. Á þessari vegferð sækist manneskjan eftir meiri efnislegum ávinningi en vanrækir þörf fyrir andlegar tengingar.
Tímarnir snúast um þróun efnisheimsins; -og ef manneskjan á ekki að úrkynjast andlega og verða vitorðsvera vélar með lífsreynsluna í snjalltæki, þá verður að finna leið sem liggur frá því vélræna í átt að því andlega. Hins vegar eru ráðandi öfl sem eru andstæð andlegu frelsi og vinna að því að draga úr andlegri leit. Koma í staðinn með annars heims sýndarparadís þar sem allar þarfir geta verið uppfylltar með blekkingum.
Hluti af þessari allsráðandi efnishyggju eru hugmyndin um ódauðleika sem er að fæðast í gegnum transhumanisma. Þá er vísað til falsks ódauðleika sem virkar ekki í gegnum anda ódauðlegrar sálar. Heldur í gegnum framlengingu líkamlegra lífsgæða. Þessi leið mögulegs ódauðleika er innan líkamlega sviðsins en ekki þess andlega.
Þessi ódauðleiki verður að andlegu fangelsi vegna þess að hann neita innri anda að losna undan oki líkamans. Þetta leiðir til sálarleysis manneskjunnar þar sem tengingin við upprunann hverfur með tímanum. Þessi efnislega, transhumaníska vegferð laðar til sín þessa heims andleysi. Þess vegna er nauðsynlegt að vera á verði ef sálin á ekki að glatast.
Líklega er nú þegar til fólk sem gengur um einungis í efnislegum líkama, án sálar. Rudolf Steiner benti á þetta strax fyrir tíma transhumanismans þegar hann sagði; ... nokkurs konar afleiður einstaklinga birtast á okkar tímum, sem eru án sjálfs, en ekki raunverulegar manneskjur. Þetta er hræðilegur sannleikur...Þeir hafa áhrif af manneskju, en þegar betur er að gáð eru ekki mannlegir í orðsins fyllstu merkingu.
Steiner lagði áherslu á að vera meðvitaður um að áhrifavaldar gætu verið í mannlegri mynd, en væru ekki mannlegir, einungis ytra útlitið gæfi svo til kynna. Hann hélt áfram að fullyrða: Við hittum fólk í mannlegri mynd sem eru aðeins í ytra útliti sínu einstaklingar ... sannanlega eru þetta líkamlegar manneskjur, með líkama, en verurnar í þeim nýta sér þessa einstaklinga til að starfa í gegnum.
Þetta vísar til þess að mannslíkaminn getur verið staður fyrir aðrar verur að starfa í gegnum, enda sagt áratugum fyrir daga internets og samfélagsmiðla. Heimur andans er ekki eins og við höfum haldið að hann væri. Með öðrum orðum, það er kannski ekki öll upplýsing siðleg þó hún sé hafin til virðingar.
Þetta felur einnig í sér mikilvægi almennrar dómgreindar byggðri á eigin innsýn. Því það eru andlegir kraftar almennings sem hafa mest áhrif innan efnislega heimsins. Og sumir þessara krafta virka í gegnum nærveru ákveðinna einstaklinga sem út á við geta virst vera sannir en eru það ekki.
Í þessu ljósi má sjá að annarlegar tegundir andlegs eðlis geta verið áhrifavaldar mannkynsins í dag. Álykta má, án þess að það hljómi sem samsæriskenning, að ákveðnir valdahópar og mikilvægir einstakir meðlimir þeirra, séu undir ómannlegum áhrifum ómannlegra vera sem hafa hug á að koma fram ómannlegum markmiðum.
Slíkir hópar einstaklinga sýna skort á sálarheill samkennd og samúð og eru nánast félagsfræðilegur sýndarveruleiki úr spálíkani. En á sama tíma getur slíkt fólk birst á ólíklegustu stöðum og haft mikil áhrif á annað fólk, sérstaklega með orðum sínum í fjölmiðlum, en verið algerlega tilfinningalega skert.
Til enn frekari íhugunar; -þá gætu þessar verur verið hvattar með framgöngu sinni við að hindra tengingu annarra manna við eigin innsýn og andlegt leiðarljós. Með margvíslegum aðgerðum gætu þær einbeitt sér að því að afvegaleiða fólk frá hugmyndinni um frumspekilegan veruleika og eðlislæga tengingu þeirra við uppsprettu lífsnauðsynlegrar vitundar handan efnis-veruleikans.
Í öfgafullum tilfellum gætu slíkir verur jafnvel valdið mannslíkamanum tjóni og þannig skemmt hann sem lífvænlegt farartæki fyrir sálina á leið sinn til eilífðar, -einungis til að ná fram fjárhagslegum ávinningi. Eða hverju öðru gætu þær vonast eftir að ná?
Aftur með vísan til Rudolf Steiner. Hann sagði: Markmið þeirra að viðhalda lífinu, sem eingöngu efnahagslífi, mun smá saman útrýma öllum öðrum þáttum vitsmunalegs og andlegs lífs. Þannig uppræta andlega lífið nákvæmlega þar sem það er er virkast, -við að vinna að bættum efnahag.
Með því að ræna menningar- og félagslegri umgjörð snýr fókusinn frá innra lífi til þess efnahagslega, sem hefur tilhneigingu til að verða virkast þegar fólk glímir við að fullnægja frumþörfum sínum. Ef það er óvissa, truflanir og sveiflur í þeim þáttum, þá getur fólk orðið fyrir sálrænum áhrifum á neikvæðan hátt. Fólk sem lendir undir yfirráðum slíkra efnahagsafla er hætt við að verða undirgefið t.d. í gegnum skuldir, þannig orðið líklegra til að missa persónulega valdeflingu og vilja.
Þegar skautað er í flýti yfir sitjandi leiðtoga, stjórnmálamenn, stórfyrirtæki, fjármálastofnanir osfv, getum við séð augljósan skort á hvers kyns heillavænlegri sálrænni hegðun. Þvert á móti virðast margir af þessum einstaklingum og hópum staðráðnir í að skerða frelsi, fullveldi og innri valdeflingu einstaklingsins.
Ef Steiner væri á lífi í dag myndi hann eflaust segja að það sem við erum að verða vitni að nú á efnissviðinu sé yfirtaka sálarlausra afla á plánetunni. Birtingamynd mannlegrar lífsreynslu með sálarlaus markmið og fyrirætlanir. -Ástæðu þess að svo margir upplifa þunglyndi, gremju og sinnuleysi kulnun , sem fólk telur sig ekki geta leyst úr og kemur fram í síþreytu sem yfirtekur daglegt líf.
Vegna alls þessa verður manneskja nútímans að stíga inn í hlutverk sitt sem líkamlegur fulltrúi andlegs lífs. Það er mikilvægt að frumspekilegur veruleiki sé aldrei smánaður, hvað þá slaufað, og að líf andans haldist heilbrigt og sterkt í allri tjáningu jarðlífsins. Ef einhvern tíma hefur verið barátta um mannssálina, þá er það núna.
Okkur væri því hollt að muna að hver einstaklingur býr yfir einstökum fjársjóði sem aldrei verður frá honum tekinn. Það er hin sanna eilífð, hinn raunverulegi ódauðleiki. Þetta eru því tímar mannsandans til að að vinna að sinni sálarheill.
(Endursögn og hughrif af Materialism & The Loss of Soul / Kingsley L Dennis)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.7.2023 | 08:52
"Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá"
Eitt hefur fallið í skuggann í litla stóra biskupsmálinu. Mismunurinn á tímalengd undirritaðs ráðningasamnings og skipunartími.
Enda kannski varla nema von því það væri ekki ráðvendni af hinum vammlausu að lasta nútíma guðspjöllin. Það gæti kallað sama dóm yfir þeim sem dæmir, eins og má finna í fjallræðunni, -og reyndar með öfugum formerkum í kjararáðs aðferðafræðinni.
Þó svo að seint verði sagt að þær stöllurnar, sem koma að málinu, nái þeim heilagleika að teljast til auðróna, þá verður því ekki á móti mælt að þær kunna aðferðafræði elítunnar sem eykur ávinning.
Að hafa gert ráðningasamning til rúmlega tveggja ára við biskup, sem fer með bráðabirgðaumboð í eitt ár, eftir lögum sem fallin eru úr gildi, -er ekki bara á pari við viðskiptavit þeirra sem dvelja við jötuna, -heldur fundið fé.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.7.2023 | 06:09
Sumarfrí - áður en amma varð ung
Áður en túrisminn og skuldahalinn heltóku landann voru sumarferðalög með öðrum hætti en nú tíðkast. Þetta rifjaðist upp í fyrra þegar ég skoðaði ljósmyndir úr 50 ára ferðalagi um landið, nánar tiltekið frá árinu 1972. Þá var þjóðvegurinn enn þessi grýtta braut og hafði ekki einu sinni bundið slitlag á aðalgötu flestra þorpa landsins.
Þetta var fyrir tíma skipulegra tjaldstæða nema í allra stærstu bæjum. Þegar sjálfsagt þótti að ferðamenn tjölduðu til einnar nætur þar sem nótt nam dag, -svo framarlega sem það væri ekki inn á lóð hjá fólki í þéttbýli eða á ræktarlandi til sveita.
Í dag, -þegar annaðhvort Tene eða hjólhýsið verður þrautalendingin hjá landanum um hábjarta sumarnóttina á landinu bláa, -bæði veðurs vegna og túristavaðals, svo ekki sé nú minnst á munaðinn, -þá getur verið áhugavert að rifja upp þennan horfna tíma.
Foreldrar mínir voru miklir ferðagagarpar í sumarfríum þegar íslensk náttúra var annars vegar. Út fyrir landsteinana fór móður mín t.d. aldrei og faðir minn einungis tvö skipti vegna starfa sinna.
Ömmur mínar og afar vissu varla hvað sumarfrí var, -hvað þá Tene, eða malbik og að í vændum væru tímar lúxus sumarheimila á hjólum um þjóðvegi landsins, jafnvel samfelldir sólskinsdagar á erlendri strönd, -þá varð himnaríki að duga.
Það var mikið ævintýri fyrir okkur börnin að alast upp við ferðamáta foreldra okkar og ekki ósjaldan sem sumarferðalög fjölskyldunnar ber á góma þegar við systkinin hittumst. Ég verð samt að viðurkenna að það er með hálfum huga sem ég segi frá rúmlega hálfrar aldar ferðalagi og birti myndir með hér í þessum pistli. Þær eru eiginlega svo persónulegar.
Mér datt í hug að setja inn blogg um ferðalagið í fyrra, þegar það stóð á fimmtugu, en hætti við, fannst það ekki viðeigandi. Svo var það núna í vetur, þegar ég las í gegnum dagbækur afa míns, að ég sá að hann hafði haldið dagbók um þetta ferðalag, -hvern einasta dag. En ég hygg að þetta hafi verið fyrsta ferðlag hans í sumarfríi, -jafnvel út fyrir Austurland, þá á 64. aldursári, -svipuðum aldri og ég er í dag.
Í þessu ferðalagi vorum við bræðurnir í willysnum með afa, árgerð 1946. Amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum, -Renult, sennilega árgerð 1965, bíll með skottið að framan en vélina að aftan. Frænka okkar, -hennar maður og dætur voru á Opel, líklega árgerð 1959 eða 1960. Tjöldum, svefnpokum, prímusum, pottum og pönnum, -ásamt nesti, niðursuðudósum og öðrum farangri var hlaðið í farangursgeymslur eða bundið á toppgrindur bílanna.
Ferðin var farin norður í land og var endastöðin Lýtingsstaðahreppur í Skagafirði, en þar bjuggu sonarbörn afa og ömmu með sinni móður hjá móðurforeldrum. Þar snérum við við ásamt ömmu og afa, en frænka og hennar fjölskylda hélt áfram ferðalaginu til Reykjavíkur á Opelnum og síðan sömu leið til baka, því þetta var fyrir tíma hringvegarins.
Ferðalagið hjá okkur tók rúma viku. Um Norðurland var farið vítt og breytt. Tjaldað við Mývatn, í túninu hjá ömmu og afa í Laugafelli á Laugum, - á Akureyri, farið um Ólafsfjarðamúla yfir Lágheiði í Fljót og á Siglufjörð, síðan í Skagafjörð. Til baka var farið um Öxnadalsheiði. Á Akureyri og í Laugafelli var stoppað bæði á leiðinni norður og aftur austur. Tjaldað var þar sem dag þraut og allar næturnar nema eina svaf afi í tjaldi og amma fleiri en eina.
Í Laugafelli gisti amma í rúmi, eins á Akureyri, en þar heimsótti hún systur sína og varð 71 árs í þeirri heimsókn. Í Skagafirði heimsóttu amma og afi, auk afkomendanna, vini sína presthjónin á Mælifelli, en þau voru þá nýlega komin í Mælifell frá Vallanesi. Amma og afi höfðu búið í áratugi á Jaðri í Vallanesinu allt til fardaga sumarið 1970.
Þetta var mikið ferðalag fyrir hjón á þessum aldri, mikið á sig lagt með börnum við að skoða landið, sem var svo stórkostlegt, eins og afi benti okkur bræðrum oft á út um bílrúðuna í þessari ferð, -meðan við vorum meira í að benda honum á hvar á veginum williysinn væri. Og ekki leist okkur á allt stórkostlega útsýnið í Ólafsfjarðarmúlanum því willysinn átti til að rása og hrökkva úr gír.
Í dagbókarfærslum afa voru yfirleitt örstuttar setningar um landshætti sem sýna vel hve honum voru landsins gagn og nauðsynjar ofarlega í huga. Ég ætla að setja hér inn dagbókarskrif afa á 71 árs afmælisdegi ömmu fyrir rúmri hálfri öld síðan og myndir úr þessu ferðalagi sem faðir minn tók, ásamt einni sem ég tók.
26. júlí. Þegar við höfðum sofið svefni hinna ánægðu aðra nóttina á Akureyri og snúist við eitt og annað fram að hádegi lögðum við af stað lengra vestur.
Keyrðum blómlegar sveitir. Um Dalvík sem er stórt þorp, fyrir Ólafsfjarðarmúla, sem er um leið hrikalegt vegstæði, en mjög fallegt. Hrísey liggur að baki, Hrólfsker með sinn vita og vísar fleyinu hlöðnu fiski. Grímsey liggur í móðu við sjóndeildarhring. Mörg harmasagan er búin að gerast þar á milli lands og eyjar, nú er hafflöturinn eins og spegill.
Við höfðum fengið okkur hádegisbita í Svarfaðardalnum rétt fyrir innan Hof í mjög fallegum skógarreit. Við erum stödd á Ólafsfirði snotrum bæ sérkennileg og falleg fjöll. Sveitin á sennilega ekki margra kosta völ með ræktun. Ég hitti þar Ásgrím Hartmannsson bæjarstjóra, skólabróðir minn frá Eiðum 1930.
Nú höfum við farið Lágheiði, Fljótin, Strákagöng og erum búin rétt einu sinni enn að stofna heimili í ljúfum lækjarhvammi.
Hjalandi lækur og sléttur grasbali voru lykilatriði þegar tjaldað var til einnar nætur
Magnús afi og Björg amma fyrir framan tjaldið sitt í morgunnsól
Við systkinin; Björg, Dagbjört, Áskell og Magnús, að spá í myndavélina mína
Systkin í sunnan blæ
"Konur gerðu garðinn" í Lystigarðinum á Akureyri sem þótti í þá daga stórkostlegur
Áskell afi og Dagbjört amma við rósirnar hennar ömmu fyrir framan Laugafell
Systur hittast á Akureyri, Björg og Vilborg
Börn fyrir framan íbúðarhúsið á Borgarfelli í Lýtingslaðahreppi
Myndin mín er úr Svarvaðadal, af Bjarghildi og Erlu Einarsdætrum og systkinum mínum
Mamma að kanna tjaldbúðirnar, hún hafði sama kæk og Kim Larsen, setti tunguna upp á vör þegar hún var einbeitt, eða annars hugar. Við börnin hennar erfðum þennan kæk og vorum oft í halarófu á eftir henni. Þetta vandist af með aldrinum, en það var samt svo að mín börn áttu til að kíma og segja hvort við annað "sjáðu nú gerir pabbi þetta aftur"
Þessi mynd er núna akkúrat hálfrar aldar gömul, tekin við Torfunesbryggju á Akureyri. Þetta var síðasta sumarfríð mitt með foreldrum mínum, enda farinn að vinna í byggingavinnu á sumrin 1973. Þetta ferðalag var stutt því mamma var komin á steypirinn. Seinna þetta sumar fæddist Sindri bróðir. Hef myndina með til að sýna hvað pabbi var lunkinn ljósmyndari
Ps.Við Matthildur mín höfðum annan hátt á á sumrin með okkar börn, fórum helst ekki neitt, nema þá í fjörurnar úti á landi við Djúpavog, -lengst í sumarbústað eða heimsókn til Húsavíkur.
Það var ekki fyrr en krakkarnir fóru að spá í hvers vegna aldrei væri farið í almennilegt ferðalag á sumrin að við tókum upp á því að fara til Spánar. Enda var ég alltaf í vinnunni og ferðaðist mikið hennar vegna um landið bláa á þeim árum, -og Spánn því ráðið til að vera ekki með hugann við vinnuna ótruflaður með fjölskyldunni.
Undanfarin ár höfum við Matthildur mín átt það til að setjast upp í okkar fjallabíl með kaffibrúsann, fermingasvefnpokana og tjaldið. Sett þá Bubba í spilarann, hlustað á hann syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Teljum okkur þá trú um að við ætlum að tjalda í eina nótt og fara svo heim aftur, en oft endað á því að fara hringinn í kringum landið með útúrdúrum á Vestfjörðum.
Eftir að sólskríkjan Ævi komst upp á lagið, höfum við aftur tekið upp á að sakna daganna úti á landi og förum þá með henni í stuttar ferðir út í Tjadastaði, sem eru gamlar steypumalarnámur á bökkum Lagarfljótsins, tjöldum þar, tínum blóðberg og fallega steina, erum svo komin heim á náttatíma fyrir háttatíma.
Sumarferðirnar okkar Matthildi út á land í denn voru því hentugar börnum á öllum aldri og voru stundum farnar með frændfólki á Djúpavogi. Sumarið 1992 kom einn frændinn með sína fjölskyldu alla leið frá Ástralíu og fór með í svoleiðis ferð, -einmitt sá sem heimsóttur var í Skagafjörðinn 1972.
Ferðalög | Breytt 13.1.2024 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2023 | 11:16
Sjálfsalinn
Ég hef verið í sumarfríi og af því ég fer aldrei neitt þá hef ég þvælst um það sem er kallað næsta nágrenni. Þetta eru stuttir bíltúrar á gamla sorry Cherokee frá því á síðustu öld, og hef ég talið mér trú um að nóg sé komið þegar nálin er komin niður á bensínmælinum og diska kassettan í dvd spilaranum á enda.
Þvælst um næstu sveitir, það er nefnilega svo með það sem næst er að maður hefur ekki gefið því tíma í gegnum tíðina, því það er svo nálægt að það má skoða hvenær sem er. Þannig uppgötvaðist Hjaltastaðþingháin óvænt fyrir átta árum, og er ég búin að þvælast um hana síðan.
Þó förum við Matthildur mín stundum í lengri ferðir í sumarfríum, t.d. suður á Höfn í gær en þangað höfðum við ekki komið árum saman. Bæ sem er næstur við Djúpavog og 200 km frá Egilsstöðum. Oft var farið þangað á meðan við bjuggum á Djúpavogi, en máttum aldrei vera að því skoða.
Á Höfn verður varla tjaldað til neinnar nætur úr þessu, túristavaðallinn er búinn að sprengja upp verðið, og verða dagsferðir því að duga þó langt sé sé orðið að fara. Matthildur mín er fyrir löngu hætt að nenna með mér í Hjaltastaðaþinghána, en sá heldur betur á eftir því um daginn.
Þá hitti ég Kidda vídeóflugu, þar sem hann var að huga að blómaskreytingu við sjálfsalann sinn og snarstoppaði náttúrulega til að tala við hann. Samtalið varð endasleppt því túristavaðallinn er komin um leið þar sem tveir bílar stoppa, -eins og mý á mykjuskán.
Kiddi var með vídeóleigu á síðustu öld, sem hann kallaði Vídeóflugan, og varð landsfrægur sem Kiddi vídeófluga. Eftir daga vídeóleignanna kom hann upp sjálfsala í Hjaltastaðaþinghá sem er orðinn miklu þekktari en vídeóið á síðustu öld, -hann er hreinlega heimsfrægur.
Þessi sjálfsali er keyrður á umhverfisvænni orku fenginni úr sólarsellum og vindrellum. Fyrir stuttu var Kidda boðinn posi endurgjaldslaust þannig að nú er hægt að kaupa í sjálfsalanum með korti.
Það má segja að Kiddi hafi verið langt á undan sjálfsafgreiðslukössum stórmarkaðanna því hann hefur verið með þennan sjálfsala á Bóndastaðahálsinum í Hjaltastaðþinghá frá því árið 2001.
Fyrir 11 árum voru haldnir hljómleikar við sjálfssalann. Skúla, vinnufélaga í steypunni, og félögum hans þótti staðurinn ákjósanlegur, en þeir voru gefnir fyrir óvæntar uppákomur og áttu það til að poppa upp hér og þar s.s. á bílastæðum við verslanir eða bara þar sem þeir komust í rafmagn.
Kiddi veitti þeim góðfúslega leifi til að spila við sjálfsalann með því eina skilyrði að hann fengi að dansa. En hann var þekktur á árum áður á Egilsstöðum fyrir diskó dans á dögum Saturday Night Fever.
Seint á síðustu öld ætlaði bareigandi á Egilsstöðum að bústa söluna hjá sér með því að fá Kidda til að sýna gamla takta, en var sagður hafa gert þau regin mistök að selja ekki inn á barinn.
Barinn var svo pakkaður af fólki þetta kvöld að engin komst þaðan sem hann stóð og þegar Kiddi hafði lokið dansinum þá var ekki um annað að gera en að olnboga sig út úr troð fullu húsinu, -lítið varð af sölu á barnum.
Það er því kannski ekki skrítið að Kiddi, sem er orðin frægari en bæði diskóið og vídeóið, hafi því viljað dansa í heima sveitinni, þar sem er nóg pláss við sjálfsalann.
Ferðalög | Breytt 13.1.2024 kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.7.2023 | 05:00
Föðurlandið
Það hefur verið kalt og dimmt á Austurlandi í meira en viku. Þessu tíðarfari hefur fylgt norðan gjóla með þurrasudda og rigningarskúrum á stöku stað. Öðruvísi mér áður brá, enda er ég kominn í ullarsokkana, lopapeysuna og færeysku prjónabrókina um mitt sumar.
Gamla góða föðurlandið hefur ekki verið fáanlegt lengi á landinu bláa og verður sjálfsagt ekki úr þessu, miðað við múgsefjun landans gegn íslensku sauðfé sem nú er í móð að kalla ágangsfé í eigin landi. Sauðkindin er nú verr séð en landsins forni fjandi af góða fólkinu og Tene förum sem stíga kolefnissporin af og til á landinu bláa með því að stinga niður sprotum í klakann.
Ágangsfé ! ! -verður þessi hjálparhella þjóðarinnar í gegnum aldirnar sjálfsagt úthrópuð þangað til henni verða búin svipuð heimkynni og giltu í kjúklingabúi. Nema rollunum verði fleytt út á fjörð í flotkví ásamt löxunum. Góða fólkið og erlendir auðrónar eiga jú landið, heiðarnar, firðina og miðin, ásamt norður atlantshafs laxastofninum í ánum.
Landið þarf náttúrulega að friða svo hægt sé að stunda hamfaraórækt og sportveiði með sleppingum. Nokkurskonar umhverfisvænt dýraníð úr carbfixuðu kolefnispori einkaþotunnar. Og þá gengur náttúrulega ekki að sauðkindin éti græðlingana rétt eins og þegar hún nagaði gat á jarðskorpuna um árið. Áður en góða fólkið kom til bjargar með því að ná eignarhaldi á bújörðum og fyllti landið af gosþyrstu túristum.
Annars voru fréttir af því um síðustu helgi að strandveiðimenn hefðu hent 63 þorskhausum við dyr alþingis og fengið Kára klára til að tala yfir hausamótunum á þeim. Aldrei að vita nema þeir hafi skilið þann klára, og að árangur þorskhausa mótsins endi á pari við kóvítis boðskapinn, -ef ekki, -þá verður þorskhausunum komið fyrir í kvóta úti í Grímsey.
Þetta veðurfar, hér á Héraði, hefði einhvertíma verið notað í eitthvað þarflegra en þvælu, t.d. girðingavinnu. En nú kannast ekki nokkur heilvita sála hvorki við sauðkindina né þorskinn, hvað þá að þessi kvikindi hafi verið til gagns. Þetta mátti reyndar allt saman sjá fyrir fyrir löngu síðan. Allt frá því að verstu skammaryrði var að vera sauður með þorskhaus.
Þessi óvild stafar sennilega af því að fávisku fabrikkur ríkisins hafa aldrei getað haldið lífi suðkind né veitt þorsk, en hafa einstakt lag á excel, innflutningi og einokun. Því eru sauðkindin og þorskurinn fyrir löngu orðin hornreka í föðurlandinu, -og í öllum bókmenntum landsins bláa ásamt litlu gulu hænunni, -svona eitthvað svipað og stjörnum prýddur asninn sunnar í álfunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.7.2023 | 07:10
Þjóðminjar
Greint var frá því hér á síðunni, fyrir nokkrum árum, að Bakkabræður hefðu sett rörahlið á þjóðminjasafnið. Líklega til að halda sauðfé, sem nú er í tísku að kalla ágangsfé, í skefjum. Nokkrum mánuðum síðar baðst síðuhafi afsökunar á orðaleppum þar að lútandi og lofaði að hafa ekki fleiri orð um þær þjóðminjar sem vöktu athygli hans á atferli Bakkabræðra. Nú er samt svo komið að ég get ekki lengur orða bundist og verð að brjóta heit mitt um að hafa ekki fleiri orð um pípuhlið Bakkabræðra.
Það er ekki þannig að ég hafi ekki farið í mínar árlegu ferðir til að njósna um þá bræður, snúast í kringum einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins, þó svo að ég hafi heitið að halda kjafti. þeim hef ég haldið til streitu á hverju ári enda er gamli torfbærinn á Galtastöðum fremri sá eini sem eftir stendur af dæmigerðu torbæjum á Héraði og sérstakur í safni þjóðminjasafnsins sem kotbær með baðstofu yfir fjósi.
Í gær fór ég mína árlegu ferð og vonaðist eftir að hitta á vinnumenn við bæinn, allt eins þá bræður sjálfa. Þegar ég kom að pípuhliðinu, sem er langan veg frá bænum, var strengdur í það spotti með hangandi skilti sem á stóð Vinnusvæði öll óviðkomandi umferð bönnuð. Mér kom til hugar þarna við skiltið að snúa við, en varð þá hugsað til bernsku minnar sem ekki hefði látið svona lítilræði standa í vegi.
Það oft var maður búin að vera staðinn að því að háma í sig rifsber eða annað góðgæti úr runnum í gamladaga að galandi húsmóðir, jafnvel vatnsglas, var engin fyrirstaða við að halda áfram að háma í sig góðgætið á meðan fært var, eða þar til sást til húsfreyjunnar með vatnsfötu. En þá var maður líka fljótur að láta sig hverfa eins og þrautreynd túnrolla. Þannig að láta rörhlið stoppa sig á gamalsaldri hefði verið heldur klént.
Ég losaði því bandið og keyrði á gamla sorry Cherokee frá því á síðustu öld heim að þessum 19. aldar bæ til að verða fyrir vonbrigðu. Því miður eru framkvæmdir Bakkabræðra aftarlega á merinni við Galtastaði fremri og lítil von til þess að ég komi til með að fá að skoða fjósbaðstofuna á minni ævi, þessa einstöku gersemi Þjóðminjasafns Íslands. En bílastæðin eru vegleg innan girðingar, enda ekki annað við hæfi í allri innviðauppbyggingunni á heimaslóðum skurðgröfunnar.
Síðuhafi hvetur alla, sem áhuga hafa á, að gera sér ferð út í Galtastaði fremri og láta ekki girt pípuhliðið standa í vegi. Svo þröngur er vegurinn að hliðinu að engin leið er að snúa þar við. Þannig að eina leiðin er að taka niður vinnusvæðisskiltið og keyra heim á bílastæðin til að snúa, nema þá bakka hálfann kílómetri yfir holt og blindhæðir, með tilheyrandi hálsríg.
Heima við Galtastaði má bregða sér út á bílastæðinu og kanna vegsummerki Bakkabræðra um leið skoða bæinn. Og ef einhver skildi koma og fjargviðrast yfir því að þjóðminjasafnið sé lokað, og öll óviðkomandi umferð bönnuð, má alltaf segja; ekkert mál og vertu svo ekki með neitt djöfulsins helvítis píp, snarst upp í bíl og spóla út fyrir pípuhlið.
Dyrfjöllin njóta sín frá Galtastöðum fremri
Bæjarhlaðið með stafna í austur
Bakhliðin grasi vaxin með gömlu handverki
Austurglugginn, heimsókninni til sönnunar
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2023 | 13:44
Hamfaratrúboð kolefniskirkjunnar
Nú básúna fjölmiðlarnir sömu hamafarhlýnunar fréttirnar frá trúboði kolefniskirkjunnar og um mitt sumar í fyrra, -og árin þar áður. Enda ekki ólíklegt að hitinn verði ekki mikið hærri á árinu en um þetta leiti.
Ef gullfiskaminnið ræður við að rifja upp ár aftur í tímann þá voru nákvæmlega sömu fréttir í fyrra um þetta leiti, nema að þá var það ekki Ítalía, hamfarirnar voru í Bretlandi. Ég tók mig til þá og fylgdist með í beinni á Windy.com, enda í sumarfríi þá eins og núna.
Metin voru slegin víða um Bretland þó þau kæmust hvergi nærri þeim hitamælarnir á Windy. Skýringuna mátti svo finna hjá hjá Met Office þegar fréttirnar voru fluttar af medíunni, og þá hvers vegna hitinn hefði hvergi sést á Windy.
Á Vísi var vitnað í Penelope Endersby forstýru Met office Þetta veðurfar er algjörlega fordæmalaust. Við höfum aldrei áður séð slíkar hitatölur í reiknilíkönum okkar. Þar átti hún við að hitinn hefði í fyrsta skipti í sögunni farið yfir 40°C á Bretlandseyjum.
Til sönnunar voru staðirnir taldir upp þar sem hitametin voru sleginn. Mátti þar finna Heatrow flugvöll, herflugvellina Coningsby og Nrtholt; St James´s Park auk Kew Gardens sem er gamalt gróðurhús í London.
Sumarhitar við Miðjaraðarhaf 40-45°C er reyndar engin nýlunda. Sjálfur hef ég verið í 43°C við strönd Miðjarðarhafsins á Spáni um mitt sumar á síðustu öld án þess að það hafi þótt merkilegt. Sennilega hefði einhvertíma þótt merkilegt ef hitinn næði ekki einhverstaðar eitthvert sumarið í S. Evrópu slíkum hæðum.
Reyndar hef ég verið í Íslenskri sólstofu þar sem hitinn fór yfir 50°C. Ég hvet áhangendur hamfarahlýnunar til að fylgjast með Windy.com í beinni og hitamælinum heima hjá sér, tala nú ekki um ef hann er í gróðurhúsi eða sólstofu, því það er ekki alltaf bara Langtíburtukistan sem hitametin falla, þó svo að medíunni þyki það merkilegra.
![]() |
Heljarinnar hiti í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
13.7.2023 | 03:28
Hálfur álfur
Það má alltaf gantast með álfa og áfatrú landans, en fólk skyldi fara hóflega í þannig spaug. Síðuhafi hefur stundum reynt að vera meiri maður, jafnvel fyndinn, með því að líkja sér við álf út úr hól, þegar hann hefur haft af litlu að státa.
Vinur minn vísindamaðurinn sagði mér eitt sinn að áfatrú landans hefði komið landsmönnum á þann stað lífsgæða sem þeir búa við í dag. Íslenskar mæður í myrkum torfbæjunum hefðu sagt börnum sínu álfasögur, -af höllum þeirra í hólum og upplýstum hýbýlum í klettaborgum.
Þetta hefði orðið til þess þegar börnin uxu úr grasi hefðu þau reynt að líkja eftir upplýstum hýbýlum álfanna. Undir þetta tekur Margrét á Öxnafelli í bók sinni Skyggna konan, en hún segir þar að álfar hafi orðið á undan mannfólkinu á landinu bláa til að virkja vatnsorkuna og raflýsa hýbýli sín.
Þó svo að álfatrúin sé talin barnaskapur, því feimnismál hjá fullorðnu fólki, þá er ég ekki frá því að hún komi aftur með aldrinum. Í vetur sá ég myndina Hálfur álfur um mann sem íhugaði að bæta nafninu Álfur við nafn sitt. Þetta er einhver besta mynd sem ég hef séð um ellina, -sannsöguleg og fjallar um síðustu daga fyrrum vitavarðahjóna á Sauðanesi við Siglufjörð.
Kvikmyndin hlaut dómnefndarverðlaun Skjalborgarhátíðar sem haldin var í Bíó Paradís haustið 2020. Að mati dómnefndar er myndin sterk og heilsteypt saga, einlæg og tilgerðarlaus frásögn. Mynd sem hrífur mann með sér frá fyrstu mínútu og fær mann til að hlæja og gráta á víxl.
Vitavörðurinn Trausti tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum. Í Hálfum Álfi er lífinu fagnað, þrátt fyrir þann veruleika sem bíður okkar allra.
Fólk skyldi ekki gera grín að þeim vísindum hugans, sem leiða til álfasagna. Fyrr en spurt hefur verið; -trúir þú á álfasögur - og þau vísindi sem eru afleiðingar þeirra.
Hér má sjá stiku úr Hálfum álf.
![]() |
Segir álfatrú hluta af þjóðarhjartanu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)