Heiðríkja á góu - loftbóla andans

Ragnarökkur

Rifizt er um hvort í Rússaveldi

roði af degi – eða kveldi.

Í ágirndar svaði ákaft gjalla

orustur miklar um veröld alla.

Hroll að vonum og hlýleik setur

helkaldur, margþættur fimbulvetur.

Ískuldi hugar; heiftir; stríð.

Vindöld; vargöld; varmennskutíð.

Spurnir þyrpast að hátt í hljóði:

Hvar er ríki þitt Baldur góði?

Ormahryggjum er undið um sali.

Eitraðar falla ár un dali.

Rógtönnum er lagt til að lemstra og neyða.

Loftungum slafrað til fylgisveiða.

Með mútum fákænska til fylgis vakin.

Fjötruð mannlund og í útlegð hrakin.

Eigið reiptog sem alúð gyllt.

Einlægni smælingja sýkt og villt.

Rifizt er um, hvort í Rússaveldi

roði af degi – eða kveldi.

Heyrði ég í hamrinum 1939

Þá eru um alla veröld orustur miklar (Gylfaginning)

Því hefur borið við hér á síðunni að höfundur hefur látið sig dreyma um að koma orðum sínum í ljóð en ekki langloku. Ljóðið hér að ofan er ekki eftir síðuhafa, heldur langa-afa hans, Sigurjón Friðjónsson, -og er sennilega ort fyrir u.þ.b. 100 árum síðan. Síðuhafi kæmi orðum sínum seint fyrir í svo stuttu og kjarnyrtu máli.

Nokkru sinnum hef ég gert tilraun til að koma orðum mínum fyrir í stuttu máli með myndum, -svo orðin skiljist. Hefur þá brugðið svo við að lesendum síðunnar snarfækkar, enda varða fyrirsagnir bloggsins yfirleitt veginn að efninu, -en athugasemdirnar við bloggið geta aftur á móti orðið áhugaverðari.

Skáldið Pétur Örn Björnsson á þá til að lauma inn einu og einu ljóði í athugasemd. Hann er mitt uppáhalds ljóðskáld og hefur gefið út ljóðabókina Af kynjum og víddum, , , og loftbólum andans. Þessa ljóðabók hef ég lesið þrisvar spjaldanna á milli auk þess að glugga í hana reglulega og lesa af og til eitt og eitt ljóð mér til yndisauka.

Hérna á blogginu er ekki mikið um ljóðskáld þó einn, -sem ég les reglulega bloggin hjá, -eigi það til að setja inn ljóð eftir sjálfan sig, það er Ingólfur Sigurðsson. Svo eru nokkrir sem eru snjallir hagyrðingar og geta sett saman smellnar vísur. En góð ljóð finnst mér hafa það umfram vísur að vera tímalaus. 

Frá því á tvítugsaldri hef ég safnað ljóðabókum Sigurjóns langa-afa míns, þó svo að ég hafi ekki lesið þær með sömu andakt og ljóðabók Péturs Arnar. Í vetur hef ég verið að grúska í því sem afi og amma settu í dagbækur og í aðdraganda þess, -til að sefa samtímann og komast tímalaus rúma hálfa öld aftur í tímann, -nýtti ég mér að lesa ljóð þeirra Péturs Arnar og Sigurjóns.

Sigurjón langi-afi minn gaf út fjórar ljóðabækur, Ljóðmæli og Heyrði ég í Hamrinum 1, 2 og 3. Áður hafði hann gefið út bókina Skriftamál einsetumannsins, sem mætti flokka sem ljóðrænur, -eins og í móð er að kalla svo stutt og hnitmiðað mál í dag. Eins komu út eftir hann  bækur sem ég á ekki; smásagnasafnið Þar sem grasið grær og ljóðabókin Barnið á götunni.

Arnór Sigurjónsson tók saman valin ljóð og ágrip af ævi föður síns og gaf út í bók árið 1967. Í bóki Arnórs kemur margt fram um Sigurjón sem annars væri týnt og tröllum gefið. Þessa bók las ég oftar en einu sinni á mínum yngri árum. Í bókinni birtir Arnór athyglisvert bréf þar sem Sigurjón skýrði tilgang sinn með ljóðagerð. Jafnframt segir Arnór frá Sigurjóni sem ljóðskáldi í samhengi þessa bréfs, og gríp ég nú niður hér og þar:

“Sú mikla þversögn í lífi föður míns, að frá því er hann var ungur maður, var honum ekkert eins hugleikið og ritstörf og skáldskapur, og þó var þetta honum ekki annað en tómstundaiðja, þar til hann var kominn á sjötugsaldur. Hann hafði heldur aldrei neina aðstöðu til að rækja þessa tómstundaiðju sína.”

“Ég varð þess aldrei var, að hann stundaði skáldskap sinn af ástríðu. Ég held að hann hafi ort af því þetta var eina listgreinin, sem hann hafði aðstöðu til að stunda og leggja alúð við.” – “Faðir minn naut aldrei viðurkenningar sem ljóðskáld, nema helst stuttan tíma frá því hann var bóndi á Einarsstöðum þar til lokið var setu hans á Alþingi -  eða um 1922.”

“Tómlæti það, sem ljóðagerð föður míns var sýnd á efri árum hans, olli honum vonbrigðum. Þetta kemur skýrast fram í bréfi skrifað “góðum vini”. “

Hér fyrir neðan eru örstuttar glefsur úr bréfinu:

“Annað aðal markmið mitt er málfegurð – og mýkt málsins fyrst og fremst. Aðaleinkenni okkar forna máls er máttur þess og skýrleiki, sem mjög minnir á hvasst, leiftrandi sverðshögg, ein af megin hugsjónum víkingaaldar.” – “Skilningurinn á krafti mýktarinnar kemur skýrast fram í hugmyndinni um fjötur Fenrisúlfs, sem var gerður úr konu skeggi, kattardyn og öðru þessháttar, og þó öllu heldur vegna þess – var sterkasti fjöturinn.”

“Þriðja skáldskapar markmið mitt, efnið, sem mörgum hefur orðið svo erfitt að finna, eða þeir hafa litið á sem barnaskap að öðrum kosti, má líka segja að sé mýktin – að miklu leyti, þ.e. andstæða harðneskjunnar, grundvallartónn kristninnar, góðvildin, kærleikurinn, sá máttur, sem fáeinum mönnum hefur sýnst “mestur í heimi” og hið eina sem dugað geti í fjötur á Fenrisúlf, -styrjaldarofstopa mannanna.”

Nú hef ég haft mikla ánægju af að lesa ljóð forföður míns og finnst meiriháttar að eiga flest allar ljóðabækurnar í frumútgáfu því ég hygg að þær séu að verða vandfundnar.

Ég á það líka til að líta inn á facebook síðu Péturs Arnar og sjá hann deila þar einu og einu ljóði tímalausrar orðsnilldar sinnar. Í vetur sá ég að hann var spurður hvenær næsta bók væri væntanleg. Pétur Örn svaraði því til að það væri ekki á vísan að róa með það enda færi best á að hann léti ljóðin frá sér eins og honum einum er lagið, -örlátur höfðinginn.

En eftir að ég fór að grúska í gömlum ljóðabókum langa-afa míns hefur mér hvað eftir annað verið hugsað til Péturs Arnar og hversu mikill skaði það væri fyrir íslenska tungu og ljóðagerð samtímans, ef ljóðin hans næðu ekki að lifa í 100 ár vegna þess að engin fyndi þau í bók. Hvet ég hann því til að íhuga, í það minnsta, alvarlega útgáfu fleiri ljóðabóka, -ef hann kynni að líta hér inn.

Eins og ég sagði hér í upphafi þá á fyrirsögnin að varða veginn að efni bloggpistils, og ekki ætla ég að hlunnfara lesendur, sem hafa nennt að lesa þetta langt, -um heiðríkjuna sem nóg hefur verið af hér austan lands síðustu dagana.

Heiðríkjustund

Blátt. Allt loftið blátt. Dökkblátt; fagurblátt. Og í þessu bláa hafi sindrandi sólkringla yfir heiðarbrún.

Ég leita að orðum og ég finn lengi ekki annað en þetta: Blátt, dökkblátt, fagurblátt. Og sindrandi sólkringla yfir lágri heiðarbrún – eins og hún væri á næstu grösum.

Svo tínast orðin að: Þögn. Unaður. Sumardýrð. Helgidagsdýrð.

Ég hika við “sumardýrð”. Þetta er á góu. Enginn fuglasöngur; enginn lækjarniður. – Lágur fossdynur í fjarska. –

“Helgidagskyrrð” minnir mig á messugjörð fyrir 50 árum. Ég sé Jón í Brekku á bekk framundan mér. Hann dottar; missir höfuðið niður á bringu; hrekkur við, lyftir upp höfðinu – missir það niður á bringu aftur. - -

Ég geng frá bænum; langar upp að Austurhlíð. En hún er í skugga. Ég geng út á hól og horfi yfir dalinn.

Þögn. Unaður. – þetta er nóg. Sindrandi sólkringla í bláu hafi; lofthafi. Lágur vatnaniður í fjarska. –

Skriftamál einsetumannsins 1929.

Sigurjón Friðjónsson má finna með google og hægt er að forvitnast um hann hér.


Flissandi fábjánar

Nú hafa Svörtuloft keyrt upp vextina hvað eftir annað og það opinbera upp gjöldin til að halda í við hækkanirnar. Allt eftir að slektið vertryggði kjararáðs sjálftökuna sína um árið, enda hækkar verðbólgan nú sjálfvirkt frá mánuði til mánaðar.

Unga fólkið situr svo uppi með verðtryggingu á húsnæðislánin, eða missir þakið bara hviss bang ofan af höfðinu, þegar verðbólgnir vextirnir fara að bíta í hælana á óverðtryggðu lánunum og síðustu vaxtahækunum.

Ef verðtrygging á einhvertíma rétt á sér þá er það til að verðtryggja launatekjur á meðan verðbólguskot gengur yfir, -og þá ekki bara laun þeirra hæðst launuðu á jötu almennings.

Ef einhvertíma ætti skilyrðislaust að setja þak á vexti og verðtryggingu húsnæðislána fjölskyldunnar, þá er það þegar verðbólgan fer langt yfir verðbólgumarkmiði stjórnvalda.

Þessi aðferðafræði hefur ekki verið upp á borðum á Íslandi. Kjarasamningarnir fyrir jól báru engin ákvæði til að reisa skorður við þær sjálfvirku hækkanir sem voru í kortunum, og taka mið af óðaverðbólgu sem geisað hefur í á annað ár.

Og eina áþreifanlega útspil verðtryggðu sjálftökunnar var að hækka húsleigubætur, til að kynda enn frekar undir verðbólgunni og arðsemi fjármagnseigenda. Annað var íbúðabygginga babblandi og handabönd; -þar sem opinberlega er flissað með fjárfestum og húsbyggingar Jóns og Gunnu skóflustungnar til ólífis með innfluttu og CE vottuðu regluverki andskotans.

Það þarf ekki meðalgreindan mann til að átta sig á því að vitlegra hefði verið greiða leigusölum leigubóta upphæðina beint, frekar en hleypa henni í gegnum allt verðlagið með tilheyrandi stigmögnun, -og þá situr eftir spurningin, -hvað fleira hefur farið úrskeiðis á milli eyrnanna á þessu flissandi skóflustungu liði.

Við blasir að auðrónar, bankar, ríki og sveitafélög hafa engan hvata til að koma til móts við fyrirtæki og fólk, sem dregur vagninn í landi verðtryggðrar sjálftöku, -og þar sem verkalýðsforystan er orðin vanvita vegna launanna og sinna.

Bankar, auðrónar og flissandi fábjánar verða einfaldlega að gjöra svo vel að lækka arðgreiðslur til sín og láta af vertryggðri sjálftöku í svona árferði.


Steypa

heilinn

Það er ljótt að ljúga að blessuðum börnunum, en þess hafa sést merki í þeim tilgangi að fá þau til að afla sér starfsmenntunar í byggingaiðnaði. Stundum er talað um tæknimenntun til að fegra sements gráan veruleikann og því hefur jafnvel verið haldið fram af hámenntuðu latínu liði að störfum iðnaðarmanna fylgi ekki óhreinindi, hávaði og kuldi, í þeim tilgangi að fegra ímynd bóklegs iðnnáms.

Enn sannleikurinn er sá að byggingavinna er fyrir hetjur, sem kalla ekki allt ömmu sína, þ.m.t. óhreinindi, hávaða og kulda. Vilji ungt fólk aftur á móti halda sér í góðu formi og reisa minnisvarða sem standa um ókomin ár, þá er byggingavinna betri en bókhald. En hetjur verða sjaldnast langlífar, þó svo að lengi sé hægt að jamla áfram í starfi sem krefst álíka líkamsburða og t.d. bókhald. Því mættu launin vera betri þar sem hetjunnar er þörf.

Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Og virðist æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar, eða kannski réttara sagt ánægju- og vinnustunda. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn, -í snjallsímanum sínum með svokallaðri fjarvinnu án mætingaskildu.

Um þessar mundir eru þau orðin 45 árin síðan ég byrjaði steypunni, Þó ekki sé samt svo að ég hafi ekki verið viðloðandi hana lengur, enda uppalinn á byggingarstað. Þegar foreldrar mínir byggðu sér hús þá var ca 40m2 skúr hlaðinn fyrst úr Mývatns-vikurholsteini. Þar var mamma með okkur systkinin á meðan pabbi vann í burtu og safnaði fyrir húsi, milli þess sem hann kom heim til að slá upp og steypa í tommu sex.

Fyrstu minningar af steypu voru samt þegar múrari, sem pabbi þekkti, kom við á heimleið og múraði skúrinn að utan á 2 dögum. Ég var rétt að verða 4 ára þá og var alveg hugfanginn og límdur við hann til að læra handtökin. Þegar fór að dimma seint um kvöldið bað hann mig að fari inn og ná í ljósahundinn og var ég snöggur til, hann hafði þá líka haft með sér hund án þess að ég hefði tekið eftir.

Því var það svo þegar pabbi byggði húsið úr tommu sex og steypu þá kunni ég þá þegar að múra og stakk undan sementspoka 7 ára gamall. Safnaði síðan félögunum saman til múrverks. Pabbi koma að þar sem við vorum bak við hús í óða önn að draga upp á vegg. Hann sló á fingurna á mér, sagði að þetta væri bara fúsk sem kæmi í veg fyrir að eitthvað festist á veggnum þegar múrarar kæmu til að múra húsið að utan.

Ég snerti ekki á sementi í fjölda ára á eftir. Lét mér nægja frá 12 ára aldri að naglhreinsa og skafa spýtur hjá Trésmiðju Kaupfélagins á sumrin, á milli þess sem ég var til ama í skólanum. Ég var alltaf hálf týndur í einhverjum vitleysisgangi þangað til veturinn 1978 að ég var beðin óvænt um að vera tímabundið handlangari hjá múrurum. Eftir það var ekki aftur snúið og ég hef ljómað í vinnunni óður og uppvægur svo að segja hvern einasta dag síðan.

Þó svo mikil áhersla hafi verið lögð á að koma vitinu fyrir mig í uppeldinu, til að forða mér frá steypu, þá hefur hún nú verið mín kjölfesta og sálarheill í 45 ár. Þó svo að í æsku hafi verið reynt að telja mér trú um að ég hefði ekki skrokk til erfiðisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ, þá hefur steypan verið mitt lifibrauð.

Alla mína barnaskólagöngu fannst mér margt það sem þar var á borð borðið vera á skjön við meðfædda skinsemina, en lét mig samt hafa það því þeir sem bæru spekina á borð hlytu að vita betur hvað mér væri fyrir bestu en ég sjálfur. En á endanum var það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bókhaldinu.

Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við erfiðisvinnu en allt kæmi fyrir ekki í steypuna væri hann kominn jafnharðan aftur; -Já veistu ekki út af hverju þetta er, -sagði ég, og svaraði honum svo að bragði; -það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum.

 Mjólkurstöð steypa

Úr bókinni 100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa. Tomma sex og steypa, við byggingu mjólkurstöðvar KHB sennilega 1975, en sjaldan hefur annað eins samsafn ungra drengja tekið þátt í að byggja stórhýsi og þá. Ég var lengi að finna mig á myndinni, enda alveg týndur á þessum árum, en sá loks að ég er akkúrat á myndinni miðri að bíða eftir að komast að steypubílnum með hjólbörur

 

Múrverk KBF 1985 MS og Kári Óla mynd Dúna

Þeir ausa steypunni sem mega það, ákast á vegg 1985. Múrverk var unnið samkvæmt uppmælingu fram undir 1990, laun borguð eftir máli. Því skipti skipulagning og dugnaður öllu máli ef átti að hafa gott kaup og gera ekki stór mistök, því mistök uppskar maður sjálfur í launum

 

IMG_0065

Steypa er skemmtileg útivinna, gólf hafa verið mín sérgrein eftir því sem á ævina hefur liðið. Steypa er gjörningur sem grjót harðnar, tekur ekki mið af klukkunni og er ekki hægt að vinna í fjarvinnu

 

Berufjarðarbrú steypa

Gamall og lúinn, feykinn og fúinn steypukall með víkingum

 

Austri SR steypa

Það er ekki oft sem gefist hefur tími til að líta upp úr steypunni, -hvað þá brosa

 

Ps. Myndunum með færslunni hef ég flestum stolið héðan og þaðan en tel það í lagi, þar sem ég er myndefnið.


Eru Fornaldarsögur Norðurlanda gömul samsæriskenning

Íslenskur sagnaarfur geymir marga hulda heimsins sögu. Hertryggur hefur konungur heitið. Hann réð fyrir austur í Rússía. Það er mikið land og fjölbyggt og liggur milli Húnalands og Garðaríkis. Hann var kvongaður. Hann átti tvær dætur. Hét hvortveggja Hildur. Þær voru vænar og vel skapi farnar og voru sæmilega upp fæddar. Konungur unni mikið dætrum sínum.

Þannig hefst Egils saga einhenta og Ásmundar berserkjabana. Saga þessi segir frá því þegar þeir fóstbræður segja skessunni Arinnefju frá sjálfum sér í sitt hvoru lagi og saman. Þeir höfðu ungir að árum farið um víðan völl barist m.a. við blökkumenn og berserki. Nær sögusviðið allt frá Hálogalandi í vestri austur í Tattaríá og frá Dumbshafi í norðri suður til soldánsins í Serklandi.

Það er varla nema von að margir átti sig ekki strax á hvar Tartaria (Tartary) var, en Serkland er líklega Sýrland þaðan sem Héðinn kom, sem hjaðningavígin eru kennd við og ég bloggaðu um í Hjaðningavígum feminismans. En Tartaría var heiti landsvæðis allt fram á miðja 19. öld, notað yfir risastórt svæði í Asíu, þar á meðal það sem við þekkjum nú sem Mansjúriu í Kína, Síberíu og Mið-Asíu.

Mörg gömul landakort, fyrir 20. öld, sýndu allt þetta svæði einfaldlega merkt sem Tartaria. Eftir því sem landfræðileg þekking vesturlandabúa jókst urðu Mansjúría og Mongólía að Kínverska Tartaria, Síberí varð að stóra Tartari og Mið-Asía varð sjálfstætt Tartari.

Fornu örnefnin Tartari féllu því í gleymsku eftir því sem þjóðirnar þar austurfrá urðu þekktar Evrópumönnum. Það gerir að í dag hafa fæstir hugmynd um að svo stór hluti heimsins hafi verið kallaður Tartaría ekki fyrir svo löngu síðan. Hafa sprottið upp þess vegna hinar merkilegustu samsæriskenningar um vísvitandi falda mankynsögu af stórveldi.

Um þetta má að vísu lesa í Egilssögu einhenta og Ásmundar berserkjabana, Fornaldarsögu Norðurlanda sem varðveittist á Íslandi.  Söguþráðurinn aldeilis magnaður. Þar er sagt frá hrikalegum bardögum jötna og flagða sem ná frá Jötunheimum niður Undirheima, og segir síðan frá hvernig málum var skipað í framhaldinu.

Ein sögupersónan, Arinnefja, -skessan sem þeir fóstbræður segja sögu sína, sagði þeim einnig sína sögu og er það ekkert friðsemdar hjal, frekar en vitni má verða af  þegar Davos dúkkulísur miðla málum nú á dögum í Úkraínu með femenisku ofbeldi og gengdarlausum ríkisstyrktum áróðri upplýsingaóreiðunnar.

Nú fór ég í undirheima, og fann Snjá konung, og gaf honum sex tugi hafra og pund gulls og keypta ég svo hornið, en drottningu hans var búinn eiturdrykkur í tólf tunna bikar, og drakk ég það fyrir hennar skyldu, og hefi ég síðan haft nokkurn lítinn brjóstsviða.

Þaðan fór ég í Lúkánusfjall. Þar fann ég þrjár konur, ef svo skyldi kalla, því að ég var barn hjá þeim að vexti. Þær höfðu taflið að geyma. Ég gat náð því hálfu frá þeim, en þær söknuðu og fundu mig og báðu mig leggja aftur taflið, en ég sagðist það eigi gera, og bað ég eina þeirra af mér taka og leggja þar undir taflið, en ég byrði mína af gulli.

Þótti þeim það ekki ofurefli. Hljóp þá ein á mig og greip í mitt hár og reif af mér öðrum megin og með alla vangafylluna og eyrað vinstra. Varð hún mér harðtæk. Ég stóð eigi fyrir, og rak fingurna í augun á henni, og krækti þau bæði úr enni.

Snéri ég henni þá til sveiflu, og festi hún fótinn í bjargrifu, og sleit ég hana úr  augakörlunum, og skildi svo með okkur. Önnur hljóp nú að mér og rak hnefann á nasir mér og braut á mér nefið, og þykir það nokkur lítil lýti á mér síðan, og þar fylgdu með þrjár tennurnar, en ég greip í brjóstin á henni, og reif þau bæði af henni niður að bringuteinum.

Þar fylgdi með magállinn og iðrin. Þá hljóp að mér sú þriðja, og var sú minnst fyrir sér. Ætlaða ég að stinga úr henni augun sem hinni fyrri, en hún beit af mér báða fingurna. Lék ég henni þá hælkrók, og fellur hún á bak aftur.

Hún bað mig þá miskunnar, en ég sagði, að hún fengi ekki líf, utan hún fengi mér allt taflið, en hún dvaldi það ekki. Lét ég hana þá upp standa, og gaf hún mér að skilnaði eitt gler, er það með þeirri náttúru, að hver, sem í það lítur, má vera þeim líkur, sem ég vil, og ef mig lystir, þá má ég þann verða láta blindan sem í litur. 

Fræðimenn hafi talið, allt fram á þennan dag, að Fornaldarsögur Norðurlanda séu skáldskapur og halda nú fram að flest það sem er að koma í ljós um Tartaríu séu samsæriskenning. En sögugrúskurum kom á óvart að finna forn landabréf þar sem stórt landsvæði bar heitið Tartaria.

Týnd menning Tartariu hefur víða valdið heilabrotum upp á síðkastið og hafa verið grafin upp kort allt aftur á 15. öld og heimildir aftur til ársins 635, þó hvergi sé þessa ríkis beint getið í opinberum heimildum.

Það virðist einfaldlega vera hægt að lesa Fornaldarsögur Norðurlanda til að afla heimilda um horfna heimskipan í austurvegi allt frá Rússlandi til Kína, -bæði fram og aftur í tímann.


Skoffín og skuggabaldrar

Þegar fólk með miklu meira en milljón á mánuði, og upp í hið óendanlega, sest á rassgatið til að semja um laun þeirra sem halda samfélaginu gangandi í sveita síns andlits hvern einasta dag, ætlar þeim ekki að hafa í sig og á ásamt þaki yfir höfuðið er ekki hægt að tala um annað en skoffín og skuggabaldra. Enda þetta lið fyrir löngu hætt að geta sett sig í annarra spor. 

Það er helvíti hart ef nú á í annað sinn á þessari öld á að fórna fólkinu á altari Mammons, sem dregur vagninn, auðrónum til arðs. Unga fólkið okkar og  fólkið sem vinnur vinnuna sem þarf að vinna öðruvísi en á rassgatinu, hefur ekki hugmyndaflug til sjá hvernig  flissandi fábjánar, skoffín og skuggabaldrar vinna þegar kemur að því að hafa í sig og á ásamt þakinu yfir höfuðið.

Ég ætla að setja hér inn nokkrar línur af hinni frómu facebook sem landsbyggðarmóðir ritaði þar í síðustu viku vegna dóttur sinnar. Færslan var mun lengri og studd með myndum af skriflegum gögnum, en ég leifi mér bara að birta niðurlagið hér.

Hér má sjá lánin sem barnið mitt samþykkti að taka og greiða fyrir skitna íbúðarkompu á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ég er brjáluð.

Lán 1 kr. 27.860.000, 480 gjalddagar samtals 471.520.999

Lán 2 kr. 7.980.000, 480 gjalddagar samtals 160.961.003

Hún semsagt fær lánaðar 35.840.000 og skrifar undir það að lánið greiðist næstum 18 falt til baka eða krónur 632.482.000, semsagt 17,6 sinnum hærra en lánað var Ég þarf ekki kennslustund í verðbólgu, vöxtum, verðbótum, verðtryggingu, föstum vöxtum, að safna eigin fé og svo framvegis. Þetta er veruleikinn sem blasir við fólki í dag, ungum sem öldnum.

-Og verkalýðsforustan stein heldur kjafti, rétt eins og síðast.


mbl.is Leggja til verkbann á Eflingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með tárin í augunum á Tene

það er skipulega verið að gera út á Ísland sem eitt dýrasta land í heimi með því að flytja inn láglaunafólk og hirða mismun af okri og lágum tilkostnaði í launum.

Þar að auki er verið að nýta sér eigur og innviði þjóðarinnar til að moka í eigin vasa, -heimta snjómokstur á jóladag, að björgunarsveitir séu stand bæ 24/7 í sjálfboðavinnu, svo ekki sé nú minnst á skinhelgina í kringum aflátsbréfin af hreinni orku þjóðarinnar.

Þessi fégræðgi er orðin aumari en allt sem aumt er, og það sem verra er, að fyrirtæki landsmanna eru meir og minna að flytjast á hendur erlendra auðróna, a la Landsíma Míla og Icelandair Hotels, innlendum auðrónum til arðs og yndisauka aflands.

Þjóðkjörnir stjórnmálmenn innleiða hver um annan þverann með hraði regluverk andskotans, meðan unga fólkið er skuldsett upp í rjáfur í eigin landi. Flotið er sofandi að feigðarósi og tærnar taldar á Tene, eins og viðundrið í Seðlabankanum orðar það, um leið og kynnt er undir óðaverðbólgu með okurvöxtum.

Því er stundum fleygt hér á þessari síðu að flissandi fábjánar fari með völdin. Það er reyndar of vel meint að kalla þetta fólk fábjána, er í raun þess eina afsökun, því ef ekki þá er varla um annað en hreina illsku að ræða þegar sama kynslóð stjórnmálamanna fer í annað sinn gegn fólkinu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. -Og mestöll verkalýðsforustan stein heldur kjafti rétt eins og síðast.

Við félagarnir í steypunni vorum að steypa í rokinu um daginn, 50/50 íslendingar og austantjaldar. Eftir steypuna fórum við á Grill-66, sem eitt sinn var einfaldlega OLÍS. Þar voru á næsta borði tveir ca 9 ára pattaralegir pollar, með 66°N húfurnar sínar og snjallsímana, babblandi sín á milli á hroðalegri ensku. Þó ég sé íslendingur, rétt eins og þeir, þá skildi ég varla orð.

Félagi minn í steypunni neitar að tala við austantjaldana annað en íslensku. Mér finnst rétt að Íslendingar taki 50% mark á honum og tala skilyrðislaust íslensku sín milli, og reyni að innprenta börnum mikilvægi tungunnar. Við verðum nógu fljót að tapa okkur í glóbalinn samt með fátæklegri hroða ensku.

það verður of seint að ætla að endurheimta landið sitt, tala tungumálið og verja unga fólkið eftir að íslenska þjóðin verður orðin örlítill minnihluta hópur á Íslandi á harðmæltri ensku. Þá gætu Jónar og Gunnur þessa lands átt eftir að syngja “Ég er kominn heim” með tárin í augunum úti á Tene.


Moldarkofar, mykjuhaugar og hagvaxtarins skemmdarverk

Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum sem eiga það til að líta inn á þessa síðu að henni ritstýrir steypukall sem er sannfærður um að hollur sé heimafenginn baggi. Á það ekki síst við þegar þegar þaki er komið yfir höfuðið, mestu fjárfestingu fjölskyldunnar. Samkvæmt nýjustu útreikningum er staðan nú sú að verðtryggðar 50 milljónir að láni til húsnæðiskaupa verða að 700 milljónum á 40 árum, lánshupphæðin greiðist 14 sinnum til baka. Og eftir því sem húsið er CE vottaðra eru meiri líkur á myglu.

Eftir hið svokallaða hrun gerðist ég flóttamaður íslensks byggingaiðnaðar í Noregi og vann þar með flóttamönnum frá Asíu og Afríku. Minn besti vinnufélagi var Juma, jötun frá Darfur í Súdan. Hann hafði farið að heiman 16 ára, þegar var komið að herskyldu hjá honum. Afi hans hafði sagt; -nú skalt þú forða þér Juma, þú verður látin drepa eigið fólk.

Juma fór til Líbýu og var þar í tvö ár áður en hann sigldi á feigðar fleygi yfir hafið til Lamperdusa við strendur Ítalíu. Í Líbýu sagði hann að gott hefði verið að vera og aldrei hefði hann haft eins mikinn pening á milli handanna. -Hvers vegna fórstu þá frá Líbýu? -spurði ég? -Ég veit það ekki alveg, en félagar mínir voru að fara og ég fylgdi straumnum; -svaraði Juma.

Til að gera langa sögu stutta þá endaði Juma upp í N-Noregi þar sem hann var settur á móttak til að læra norsku og komast inn í norskt samfélag. Þar hittumst við í steypunni sem flóttamenn. Hann sagði mér oft sögur og voru sumar þeirra um húsbyggingar í hans heima högum sem mér þóttu aldeilis ótrúlegar.

Ég hef hér í bók dagana haldið utan um steypu og heimafengna bagga undir færsluflokk sem heitir Hús og híbýli þar gat ég um byggingar aðferðir í heimahögum Juma og hafði meir að segja fundið heimildamynd á youtube því til staðfestu. Hér fyrir neðan endurbirti ég tæplega 10 ára gamlan pistil, sem ég skrifaði þegar var farið að glitta í nýja CE vottuðu byggingareglugerðina sem tók gildi á Íslandi árið 2015.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

 

Lehmhaus 1 

Það þætti sjálfsagt óðs manns æði að halda því fram að hagvöxturinn sé að fara með allt til helvítis. En gæti verið að það megi framkalla hagvöxt með verðhækkunum? Allavega virðist eitt mesta hagvaxtarskeið þessarar aldar hafa átt sér stað með því að blása út fasteignabólu sem ekki reyndist innistæða fyrir án þess að lánastofnanir fjármögnuðu hana. Eftir að bólan sprakk hafa skuldsettir íbúðaeigendur haldið uppi hagvexti bankanna þar sem þeir eru tregir til að færa niður verðmæti lána og þar með að lækka fasteignaverð.

Eins hefur ekki farið framhjá þeim sem standa í húsbyggingum, að á síðustu árum hafa verið settar íþyngjandi reglur bundnar í byggingareglugerðum sem hækka hjúsnæðisverð stórlega. Það hefur í raun verið sett margþætt lög um það að skjól fjölskyldunnar skuli halda uppi hagvextinum. Samræmdum reglum frá ESB er útbýtt og skulu þjóðir ESS einnig fara eftir regluverkinu. Þetta regluverk sýnir færni sína þegar kemur t.d. að orkusparandi aðgerðum s.s. einangrun húsa. Jafnvel þar sem varminn er ódýr eins og á Íslandi eru settar reglur svo ekki tapist varmaorka, þeim skal framfylgja jafnvel þó heita vatnið velli upp úr jörðinni utan við húsvegginn sem veita má inn í húsið með slöngubút. Einangrun sem halda á hitanum inni skal vera allt að 25 cm þykk. 

Beautiful and Green Icelandic Turf Houses3 

Svona reglur sem eru íþyngjandi fyrir almenning efla aftur á móti hagvöxt. Á Íslandi mun nýja byggingareglugerðin hreinlega stórhækka hitunarkostnað þetta kunna gömlu verkfræðingarnir betur að skýra, sjá hér. Ef einhver heldur að þetta sé eitthvað rugl þá er þessum reglum nú þegar framfylgt hér í Noregi sem á samt gnægð orkugjafa s.s. afgangs gas til að hita upp hús almennings, því sem næst frítt. Nú er unnið að því að innleiða samræmdu ESB reglugerðina einnig á Íslandi.

Svona hefur hagvöxturinn verið trekktur áfram m.a. í gegnum byggingariðnað þannig að nú er svo komið að fólki endist ekki ævin til að greiða fyrir sómasamlegt þak yfir höfuðið og er þá ein lausnin að bjóða ungu fólki upp á Kínverska iðnaðargáma til búsetu fyrir 60 þús á mánuði.  Það er af sem áður var að ungu fólki gagnist aðferðir Bjarts í Sumarhúsum, það að fara til óbyggða með skófluna að vopni og koma sér þar upp þaki án þess að uppfylla skyldur sínar við hagvöxtinn. Það má kannski segja að einhver millivegur megi vera á torfkofa og ströngustu reglugerðum, en það ætti aldrei að vera millivegur á því að þakið á að þjóna heimilinu en ekki regluverki hagvaxtarins.

 

burkino faso earth house

 

Undanfarið ár hefur annað slagið komið til þess að við Afríku höfðinginn Juma höfum haft þann starfa að lagfæra gamla Samíska kofa, eins og mátt hefur lesa um á þessari síðu.  Juma sagði mér frá húsi, sem hann byggði sem barn í Sudan ásamt sínu fólki, en þar var byrjað á að búa til múrsteina með því að hræra saman í vatni, kúamykju, sandi og mold sem sett var í nokkhverskonar kökuform sem svo þornaði í sólinni eins og drullukökur. Síðan var hlaðið hús úr skorpnum drullukökunum og veggir pússaðir. Þegar hann heimsótti heimahagana 11 árum eftir að hann fór að heimann þá svaf hann vært í þessu húsi sem hann sagði að hefði verið eins og nýtt.

Þarna var notuð sama aðferð í pússningu og steina, þ.e. er blanda af vatni, leir, sandi og kúaskít. Hann sagði að þeir sem hefðu peninga ættu það til að nota sement og sand í pússninguna. En skítur úr grasbítum hefur þann eiginleika að innihalda trefjar sem binda saman sandinn og leirinn. Eins sagði hann mér að ef svona hús væru hvítmáluð þá væri það gert með því að brenna vissa trjátegund og blanda öskunni, sem er skjannahvít, út í vatn og bera í þurra taðpússninguna.

Það er erfitt að sjá það fyrir sér að ungu fólki liðist að byggja þaki yfir höfuðið nú til dags með því að notast við skóflu, steina og torf án þess að eiga það á hættu að lenda á Hrauninu fyrir það að hundsa reglugerðir hagvaxtarins. Hvað þá ef því dytti í huga að notast við drullukökur úr mykju þá væri sennilega orðið stutt í hvítu sloppana.

Eftir athuganir á netinu fann ég heimildamynd á youtube um það hvernig mykjuhaugur verður að draumahöll án þess að það kosti krónu. Ef einhver endist til að kynna sér myndina til enda þá má sjá að mykjuhaugur getur þar að auki orðið að samfélagslegu listaverki.  

 


Hvers vegna Noregur

Það má ætla að nafnið á landi nágranna okkar skýri sig sjálft, og ekki síður á ensku Norway. En er það alveg svo einfalt? Michael Schulte, prófessor við háskólann í Agder, segir að sú túlkun sé alþýðuskýring. Bók Þorvaldar Friðrikssonar, -Keltar, sem kom út fyrir jól, heldur á lofti að nafnið hafi ekki með norður að gera heldur austur. En sennilega er réttu skýringuna að finna í þeim fornbókmenntun sem varðveittust á Íslandi, eins og svo margt annað um gamla landið Noreg.

"Landsheitið Noregur hefur yfirleitt verið talið merkja vegurinn í norður, norð-vegur, og talið vísa til þeirrar leiðar sem menn fóru til að komast norður á bóginn. Þessi hugmynd hefur verið næsta óumdeild lengi vel en nú hefur norskur fræðimaður bent á að þetta sé ekki óyggjandi. Michael Schulte, prófessor við háskólann í Ögðum (Agder), færir rök að því að sennilega sé nafnið alþýðuskýring (folkeetymologi). Uppruni heitisins sé annar en nú lítur út fyrir. Sögulega sé nafnið ekki Norð-vegur heldur Nor-vegur. Sjá grein um þetta á norsku á síðunni forskning.no. Schulte bendir á að í elstu skriflegu heimildum á Norðurlöndum, rúnaristunum, sé nafnið ekki skrifað Norð- heldur aðeins Nor-, og sömu sögu sé að segja í dróttkvæðum.

Nafnið hafi ekkert með áttina norður að gera heldur sé það dregið af orði sem enn er til í íslensku og norsku, nór og nor, og merkir þrönga siglingaleið eða mjóa vík, skylt enska orðinu narrow. Nafnið vísi til siglingaleiðarinnar meðfram ströndum Noregs rétt eins og Norð-vegur var talið gera. Nafnið Noregur dregur því eftir sem áður nafn af leiðinni meðfram ströndinni en viðmiðið er dálítið annað. Þessi hugmynd Schultes er að vísu ekki glæný heldur hafa fræðimenn kastað henni fram öðru hverju og menn deilt um sanngildi hennar. Inn í þessa sögu er líka stundum dreginn forn norrænn sækonungur að nafni Nórr eða Nóri. Á það má líka benda að í íslensku er til samhljóma orðið nór í merkingunni skip eða bátur. Það orð er svo skylt latneska orðinu navis sem einnig merkir skip. Íslenska orðið naust bátsskýli er einnig af sömu rót. Þetta má sjá á vef Árnastofnunar"

Í bókinni Keltar er fyrrihluti nafnsins sagt noir; -austur. Og skýringin er; orðið austmaður var í íslenskum fornsögum haft um menn frá Noregi. Í orðabók Johans Fritzners (Ordbog over det gamle norke sprog, I. bindi, bls 100) er sú skýring við orðið austmaður að það sé notað um menn sem bjuggu í austri og tekur Fritzner fram að Íslendingar hafi með þessu orði átt við Norðmenn.

Alloft eru menn nefndir í Íslendingasögunum sem virðast bera viðurnefnið austmaður, Geir austmaður, Hrafn austmaður, Hávarður austmaður og Þórir austmaður. Fleiri dæmi eru um að menn séu sagðir austmenn án þess að um viðurnefni sé að ræða. Vestur er ír á gelísku og þaðan er Íri, sem þýðir Vestmaður, samanber Vestmannaeyjar. (Þorvaldur Friðriksson - Keltar bls 15)

En eins og ég sagði í upphafi er skýringuna á nafni lands nágranna okkar að finna í fornbókmenntum sem varðveittust á Íslandi. Fornaldarsögur Norðurlanda eru af fræðimönnum taldar þjóðsögur, sem gangi skáldskap næst, en í raun eru þær hin hliðin á mankynssögunni. Þar er sagt frá afkomendum Fornjóts og kemur skýrt fram hvernig Noregur er til kominn, og hefur það hvorki með norður, austur né siglingaleið að gera.

Í Orkneyinga-sögu er einnig útlistun á tilkomu nafns Noregs. Frá Fornjóti ok hans ættmennum, er ættartala Noregskonunga frá Óðni, jafnvel allt aftur til adams, -og þá líka ættartala Íslendinga. Þátturinn hefst á þessum orðum:

-Nú skal segja dæmi til, hversu Noregur byggðist í fyrstu eða hversu konunga ættir hófust þar eða í öðrum löndum eða hví þeir heita Skjöldungar, Buðlungar, Bragningar, Öðlingar, Völsungar eða Niflungar, sem konunga ættirnar eru af komnar.

Fornjótr hét maður. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annar Logi, þriðji Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs voru þau Þorri, Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri var konungur ágætur. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði og væri skíðfæri gott. Það er ár þeirra. Það blót skyldi vera at miðjum vetri, og var þaðan af kallaður Þorra mánuður.

Þorri konungur átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, og gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanur at blóta, og kölluðu þeir síðan þann mánuð, er þá hófst, Gói.

Þeir Nórr og Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, og féllu fyrir honum þeir konungar, er svo heita: Véi ok Vei, Hundingur og Hemingur, og lagði Nórr það land undir sig allt til sjóvar. Þeir bræður fundust í þeim firði, er nú er kallaður Nórafjörðr.

Nórr fór þaðan upp á Kjölu og kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali og síðan í Vermaland og með vatni því, er Vænir heitir, og svo til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sig, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallað Noregur.


Nú á tímum dreymir flesta um að skapa minningar, -og njóta

Tíminn mælir fjarlægð í rúmi, og er byggður á minni. Veruleikinn í draumi og veröldin í vöku eru upplifun innra og ytra sjálfs. Munurinn er tími. Draumar eru lausir úr viðjum tímans, á meðan minningar eru tímasett framhaldssaga. Án minnis er enginn tími. Án tíma er ekkert minni. Án drauma verður ekkert rými.

Þess vegna er heimurinn í draumi og vöku jafn sannur. Eini munurinn er að heimurinn í draumi á sér ekki tíma, lýkur því um leið og draumnum, -á meðan heimurinn í vöku á sér endurteknar minningar og framhaldsögu í tíma, sem maður á lítinn þátt í að skrifa.

Þetta er ágætt að hafa á bak við eyrað í síbylju heimsins. Af því draumurinn veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sína sérstöku reynslu í þessum heimi, burt sé frá framhaldssögu heimsins.

Jafnvel þó röddin, sem er til staðar í höfði barnsins, hvísli með tímanum "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur heimurinn ekki til með bjarga neinum frá eigin lífi.

Ef þú ert meðvitaður um visku barnsins getur þú skapað ómældar minningar við að ferðast fram og aftur um tímann, á því einu sem skrifað er í skýin, því allt býr í sama rými.

Það er heimur í viðjum minninga tímans sem gerir okkur tímabundin. Lífið er draumur.


Guð blessi Ísland

það orðið helvíti hart þegar þarf að flytja inn erlent láglaunafólk til að kljást við hyskið sem mergsýgur Jón og Gunnu fyrir náhirðina. Þeim hjónakornunum er því miður varla við bjargandi, afvelta með tærnar upp í loft á Tene. Enda eru auðrónarnir á meðan, ásamt öllum frábæru hugmyndunum sínum, langt komnir með að skipta um þjóð í landinu.

Nú tekur helferðarhyskið einn snúninginn til á landanum, enda þarf talsvert til að næra náhirðina, sem er víst öll kominn í annan veruleika, samkvæmt Svörtu loftum, -eftir að hún slapp úr money haven. Því er hart þegar erlent láglaunafólk er orðið bjartasta vonin fyrir íslenska þjóð, sem virðist vera gersamlega ófær um að hrista af sér óværuna, rétt eins lúsina og vistarbandið fram eftir öldum.

Nú hefur Why Iceland viðundrið keyrt upp vextina einn ganginn enn og flissandi fábjánar upp gjöldin til að halda í við hækkanirnar, landanum til höfuðs, -allt eftir að slektið vertryggði kjararáðs sjálftökuna sína um árið. Landinn situr svo uppi með verðtrygginguna á húsnæðislánunum, eða missir þakið bara hviss bang ofan af höfðinu, þegar verðbólgnir vextirnir bíta í hælana á óverðtryggðu lánunum.

Allt er þetta sagt vera Jóni og Gunnu til hagsbóta við að slá á verðbólguna með gengdarlausum hækkunum til að geta staðið undir kjararáðspakkinu og náhirðinni. Samkvæmt nýjustu útreikningum er staðan nú sú að verðtryggðar 50 milljónir að láni til húsnæðiskaupa verða að 700 milljónum á 40 árum, upphaflega lánshupphæðin greiðist 14 sinnum til baka. Fyrir hið svokallaða hruni þótti nóg að borga verðtryggða húsnæðislánið sitt 5 sinnu til baka, -sælla minninga. Já og megi, -Guð blessa Ísland.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband