7.10.2021 | 20:17
Stúdent
Það kom til tals á milli okkar vinnufélaganna á morgunnandaktinni hvað bókmenntir gætu verið stórbrotnar, en yfirleitt skorar latínuliðið ekki hátt hjá okkur steypuköllunum. Þarna var hins vegar rætt um bókmenntir heimahagana sem sumir kalla naive.
Einn félaginn sagðist hafa sagt upp áskrift af héraðsblaðinu Austra þegar Stefán frændi minn í Flögu hætti að senda fréttabréf úr Skriðdal. Í þessum fréttabréfum mátti lesa helstu tíðindi úr dalnum s.s. hver keypti hvaða bíl og hvaða fjölskyldumeðlimum væri hugsanlega um að kenna ef hann rispaðist.
Reyndar lagði Austri upp laupana sem héraðsfréttablað stuttu eftir að fréttabréfin hættu að berast úr Skriðdal. Stefán Bjarnason gaf út tvær bækur um sína ævi; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Þó svo að þessar bækur hafi ekki farið hátt, og umhverfst um þúfu í Skriðdal þá á heimildagildið bara eftir að vaxa.
Í bókinni Að duga eða drepast er aragrúi smásagna sem auðvelt væri að láta sér til hugar koma að væru um nauðaómerkilega smámuni af bæjarhóli Stefáns. En þegar betur er að gáð eru þær stórskemmtilegar auk þess að segja sögu þjóðar.
Stefán segir t.d. frá því þegar Magnús bróðir hans varð fyrsti stútendinn sem Skriðdælingar eignuðust.
"Jafnan er það mikill atburður þegar fjölskyldumeðlimur tekur sitt áfangapróf, hvort heldur er búfræði, stærðfræði, verkfræði, guðfræði, eða læknisfræði, en sú síðasttalda er talin hvað erfiðust, og ábyrgðarmest. Það voru fleiri en fjölskylda og nánustu ættingjar, það var öll sveitin líka, eða svo var hér í Skriðdal, þegar Magnús Bl Bjarnason á Borg tók sitt stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949.
Það gekk svo langt að Kvenfélag Skriðdælinga hét á Strandarkirkju að Magnúsi gengi vel í prófum og sett var í gang söfnun, og söfnuðust 500 kr, sem var þó nokkur fjárhæð í þá daga. En kvenfélagskonur ætluðu að gera meira, þær ætluðu að standa fyrir kaffiveislu í félagsheimilinu, Magnúsi og fjölskyldu til heiðurs. Konur voru að grennslast eftir hjá móður hans, Kristínu Árnadóttir á Borg, hvenær prófi yrði lokið og Magnús væntanlegur heim. En móðir hans vissi nú lítið um það.
En víkur nú sögunni til Magnúsar sem þreytti stúdentspróf vorið 1949 og lauk því með ágætis einkunn.
En þegar þeim áfanga var náð, fór hann að spyrjast um eftir fari austur á land, það var nú ekki eins auðvelt þá eins og síðar varð. Hann hitti af tilviljun Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum, sem var á austurleið, og talaðist svo til með þeim, að þeir skyldu verða samferða. Ekki sagðist Magnús muna til hvernig það atvikaðist, að þeir fengu far með Catalinu flugbát, sem lenti á Lagarfljótinu.
Svo þegar í Egilsstaði kom, tók Pétur Magnús heim með sér og gaf honum að borða. Að máltíð lokinni fór Magnús að hafa orð á því, að verða sér úti um bíl inn í Borg. Ekkert mál sagði Pétur og brá sér í síma. Þegar hann kom út á hlað stóð þar Cervolet fólksbifreið og Bergur Ólason sat undir stýri. Magnús heilsaði honum og þeir félagar komu farangri fyrir í bílnum. Að því loknu kvaddi Magnús Pétur og þakkaði honum fyrir alla hjálpsemi við sig og settist inn í bílinn hans Bergs, sem ók þegar af stað inn Vellina og síðan inn Skriðdalinn inn á móts við bæinn á Borg, sem var næst innsti bær í dalnum.
Allar þverár fjórar voru óbrúaðar og báðar dalsárnar Múlaá og Geitdalsá. Bergur nam staðar á bakka Múlaár á móti bænum Borg. Þar tíndu þeir farangur Magnúsar út úr bílnum og bauð Magnús honum borgun. Þá brosti Bergur og sagði: Við erum báðir Skriðdælingar og rétti Magnúsi hendina, þeir kvöddust og þakkaði Magnús honum veittan greiða. Er skrýtið að þeir Bergur hafa ekki hist síðan og eru þó báðir komnir yfir sjötugt, þegar þetta er skráð.
Magnús var sóttur austur yfir ána frá Borg á hestum og var vel tekið, eins og vænta mátti og boðinn velkominn heim.
Fór nú að verða uppi fótur og fit í sveitinni, konur í kvenfélaginu komu til fundar og ákváðu að hafa kaffisamsæti um næstu helgi í félagsheimilinu.
Þar var heiðursgesturinn boðinn velkominn heim í sveitina sína með smekklegri ræðu Friðriks Jónssonar, oddvita á Þorvaldstöðum, nokkrir fleiri fluttu stutt ávörp og heillaóskir. Allt fór þetta mjög virðulega og smekklega fram, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Skriðdælingur tók stúdentspróf en það gerði Magnús Bl Bjarnason og lauk því með miklum sóma og lauk síðan læknisnámi við Háskóla Íslands 1955."
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2021 | 04:38
Vits er þörf þeim er víða ratar
Mig dreymdi þann draum að ég gengi niður stigahús fjölbýlishúss. Þegar niður kom steig ég til hliðar, í stað þess að stíga fram og út um aðalinnganginn, -fór ég í gegnum dyr, niður eitt þrep inn á langan gang lokaðan í endann.
Á ganginum var hvorki bjart né myrkt, ljós né skuggar. Til hægri voru rökkvuð skúmaskot með rekkum af starfsmannaskápum sem var gengt á milli. Til vinstri var veggur með gluggum hátt á þar sem grá skíma dagsbirtunnar tírði inn í gegnum glerið.
Þarna var einungis gráa súpu að fá og sjá; gerða úr burt flognum hænsnum, steiktum spýtum og teiknuðum kartöflum.
Hefði ég valið aðalinnganginn gekk ég út í litríkan daginn, í brennandi sól eða grimmdar frosti, -þar lá efinn.
Í stað þess gekk ég örugga leið á eftir einlitri gulrótinni er asnann dregur, sem var það eina er gaf ganginum lit.
Skyldi það vera að "draumur lífsins" væri appelsínugul viðvörun?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2021 | 19:52
Hefðbundið klúður - eða lögbrot?
Það fer ekki hjá því að maður spyrji sig hvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna á þeim sem sjá um að telja kjörseðla, gefa í framhaldinu út lokatölur og úrslit kosninga. Skilja síðan kjörseðla eftir óinnsiglaða í sal á hóteli, jafnvel þó svo að hann hafi verið læstur, á meðan farið er heim að sofa.
Að loknum svefni er síðan komið saman aftur og endurtalið, -gefin út ný úrslit. Afleiðingarnar eru að tiltrú almennings og frambjóðenda á framkvæmd lýðræðislegra kosninga á Íslandi er fokin út í veður og vind, -kannski ekki að ástæðulausu.
En spurningin er fyrst og fremst sú; hvernig kom það til að það var endurtalið í NV kjördæmi eftir að úrslit voru kynnt úr því að engin fór í upphafi fram á það, -og hvernig gat það gerst að framkvæmdin er orðin með þeim hætti sem nú hefur opinberast?
![]() |
Vill að endurtalið verði á landinu öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.9.2021 | 05:00
Gömul sannindi og ný
Þagalt og hugalt
skyldi þjóðans barn
og vígdjarft vera.
Glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana.
Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa,
ef hann við víg varast.
En elli gefur
honum engi frið,
þótt honum geirar gefi.
-0-0-0-
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2021 | 04:57
Já, sei, sei, nei
Hann kann að virðast framandi asninn sem gulrótin dregur. Undarlegri en hundurinn sem eltir sitt skott. Kunnuglegur er þó klárinn er leitar þangað sem hann er kvaldastur.
Nú rennur upp sú örstutta stund er lýðurinn í einrúmi valdið velur, en ekki Svarti Pétur með sína feitu peninga verði.
Sá sem í dag ekki gleðst við nýta sinn lýðræðislega rétt ætti því að grjót halda kjafti. Ég segi ekki meir, , , já, sei, sei, nei.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2021 | 05:45
Séra Sigurjón og dularfulla sólarupprásin
Í 10 daga leið mér eins ég hefði verið hafður að fífli, eins og hver annar skýjaglópur. En eins og kom fram í pistli um daginn þá var höfð af mér sólaupprás í glampandi sól. Mig var meir að segja farið gruna um tíma að jörðin væri komin að því að umpólast. Ég leitaði mér aðstoðar hér á síðunni til að komast út úr fíflaganginum án árangurs.
Þannig var að dagsetning stemmdi ekki við sólina hjá fræðimönnum, um það hvenær hún væri dyrum Dyrfjalla. Eins og kannski einhver hefur tekið eftir þá eru Dyrfjöllin líkust riffilsigti og þegar sólin fer fyrir skarðið þá er miðið fullkomið. Um tímasetningu þessa sjónarmiðs hafði fræðimaðurinn Ármann Halldórsson þessi orð Í neðra og efra;
"Þeir sem staddir eru á Kirkjubæ í Hróarstungu aðfaranótt 9. september í björtu veðri við sólarupprás eiga þess kost að sjá sólina ganga fyrir Dyrnar og mun vera ógleymanleg sýn. Hið sama gerist 25. mars klukkan 7 að morgni. Út af þessu fyrirbæri lagði séra Sigurjón Jónsson í nafntogaðri ræðu er hann flutti á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju árið 1951. Þessi ræða er prentuð í predikunarsafni séra Sigurjóns sem hann nefndi Undir Dyrfjöllum".
Í stuttu máli þá stóðst þetta ekki 9. september s.l., um þann sálarháska má lesa í Hnattræn sjónarmið. Mér fannst samt með ólíkindum ef fræðimaður eftir fræðimann flaskaði á þessu atriði og hefðu fólk að fíflum um hábjartan dag. Svo þegar leið á vikuna fór mig að gruna að maðkur væri í mysunni. Sennilega hefði læðst prentvillupúki í predikunina, sem hver fræðimaðurinn spann svo upp á eftir öðrum, vegna þess hve vel þeir treystu séra Sigurjóni til að fara með sannleikann.
Þegar þetta kom upp hafði ég reiknað þessar dagsetningar út í huganum og talið þær rökréttar. S.l. föstudagskvöld ákvað ég að gera það á blaði með því að fara í sitthvora áttina frá vetrarsólstöðum og fann þá mismun upp á 10 daga. Á tölunni 10 er auðvelt að flaska í huganum, jafnvel á tommustokk. Á laugardaginn reiknaði ég þetta í sitthvora áttina frá sumarsólstöðum þá kom upp 8 daga mismunur.
Þar sem fræðimenn tímasetningarinnar eru þrír og vitringar jólaguðspjallsins þrír og þar að auki sagt að sólin setjist um kyrrt í þrjá daga á vetrarsólstöðum ákvað ég að veðja á að prentvillan væri 9. Sannleikur tímasetningarinnar er vissulega bara einn, því hefði í stað 9 átt að standa 19 í prédikunarsafni séra Sigurjóns.
Um leið og ég vaknaði fyrir birtingu í gær, sunnudag 19. september, sagði ég við Matthildi mína að nú skildum við drífa okkur út í Kirkjubæ og sjá ógleymanlega sýn, en hún hefur fylgst með þessum sálarháska mínum vegna sólarupprásarinnar að hætti skilningsríkrar eiginkonu. Enda var komið að þriðju ferðinni minni til að sjá sólarupprásina í Kirkjubæ fyrir allar aldir.
Hún hafði reyndar nærfærnislega á orði að úfið skýjafarið væri með þeim hætti þennan morguninn að ekki væri mikil von með að sjá sólina. Ég maldaði í móinn og sagði að samkvæmt spálíkani veðurfræðinganna ætti að vera skafheiðskýrt í Dyrfjöllum klukkan sjö og hún gæti þá bara misst af því ef hún vildi.
Það var ákveðið að tjalda því sem til var og sest upp í Grand Cherokee. Þeyst út í Kirkjubæ og mætt á kristilegum tíma. Við sólarupprás hófst ólýsanlegt sjónarspil og ekki vantaði andaktina og helgisöngvana. Gæsir og þrestir sungu samkór með rollunum um leið og sólin breiddi út geisla sína til þeirra hægri, vinstri, efra og neðra í gegnu dyr fjallanna.
Þarna stóðum við út í guðsgrænni náttúrunni eins og agndofa óvitar í þakklæti til almættisins fyrir að fá að líta þessa ógleymanlegu sýn. Horfðum á sólina síga fyrir dyrnar á tveim mínútum og upplifðum eilífðina í eitt augnablik, og kom ekkert gáfulegra í hug en tauta -já góðan daginn.
19.09.2021 / 06:54
19.09.2021 / 07:01
Dægurmál | Breytt 23.9.2021 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.9.2021 | 20:47
Síðasta sameiningartáknið
Það má segja að sameiningartákn þjóðarinnar hafi farið veg allrar veraldar þegar fótbolta landsliði karla var rústað. Langt er orðið síðan að sá blái vék úr opinberum flaggstöngum fyrir regnboganum.
Þó síðasta sameiningartáknið hafi umhverfst um tóma sálarlausa tuðru, þá var það eftir sem áður íslenskt, að ógleymdum sænskum Lagerbäck sem setta sitt mark á myndina.
Röndóttur glóballinn blasir nú við hvert sem litið er, transandi hæðst í seiðhjallinum ásamt fálkunum og fíflinu og það jafnvel á sjálfan 17. júní, boðandi helsöngva að utan.
Eftir viku stendur valið um lélega B leikarar úr landsliðinu í kúlu auk annars leiklistarlýðs til að fronta landráð stjórnsýslunnar í skiptum fyrir bitlinga við að stimpla lævísa lagabálka helsisins, sem fluttir hafa verið til landsins bláa í flugvéla förmum með kolefnissporið aftan úr rassgatinu.
Það verður ekki vandi að velja í komandi kosningum þegar ekki einu sinni býðst svo mikið sem kjósa með fótunum. Þá er lítið annað í boði en þögnin þunn og þrautseigan.
Lítið leggst nú fyrir frelsið og lýðveldið sem rásar feyskna refilstigu þræðandi krákustíg þjóðveldisins inn í helsi tuðrunnar helferðarhyskinu til handa. Guð blessi Ísland.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.9.2021 | 06:08
Hnattræn sjónarmið
Tæknin hefur fært okkur spálíkön sem eiga að taka af allan vafa um hvað er, var og verður. Gömul sjónarmið eru nú orðin að staðbundnum þjóðsögum. Fyrir ári birti ég hér á síðunni pistilinn Jöklarnir bráðna lofið vorn drottinn. Við hann spunnust áhugaverðar umræður um segulpóla og þá hvort þeir geti haft áhrif á núverandi veðurfarsbreytingar.
Það fer ekki mikið fyrir fréttum af tilfærslu segulsviðsins, en hún er staðreynd og hefur það ferðalag síst minkað nú síðustu ár. Umræðurnar við pistilinn snérust m.a. um hvort gæti verið að t.d. sólstaða tæki breytingum samfara segulpólum, og sýndist sitt hverjum. Á allt múgligt bloggaranum og skipstjórnarmanninum Jóhanni Elíassyni mátti skilja að svo gæti verið, en Emil Hannes Valgeirsson Esjumyndabloggari og áhugamaður um veðurfar í kringum norðurpólinn taldi það af og frá.
Í sem stystu máli sagði Emil; Möndulhalli jarðar sveiflast til á tugþúsundum ára en þar er sáralítið og hefur ekkert með flakk segulpólsins að gera. Jóhann svaraði; segulpólarnir eru hinir RAUNVERULEGU pólar, þeir sem í daglegu tali eru nefndir Norður- og Suðurpóll eru svokallaðir REIKNAÐIR pólar og það er staðreynd.
Fyrir u.þ.b. 10 árum fór ég að taka eftir huldufréttum af aukinni tilfærslu segulpóla. Þessar fréttir voru oftast á óhefðbundnum síðum og afgreiddar líkt svokölluðum samsæriskenningum. En það sem vakti athygli mína öðru fremur var trúverðug frétt af inúítum sem höfðu tekið eftir því að það sást til sólar yfir fjöllum, sem þeir höfðu haft sem viðmið í gegnum tíðina, -fyrr en áður í lok skammdegis. Dagur sólarkaffisins var orðinn rangur.
Ég hafði orð á þessum fréttum við athugulan kunningja mörgum áratugum eldri en ég og þá orðin gamall maður, ávalt jarðbundinn og laus við allar samsæriskenningar. Hann sagði við mig; Veistu ég hef ekki þorað að hafa orð á þessu við nokkurn mann, en mér finnst eins og að sólin hafi hækkað í skammdeginu. Hann sagðist hafa haft sama viðmið sem blasti við úr glugganum í áratugi.
Ástæðan fyrir því að ég hef máls á þessu nú er sú að ég var að lesa bók fræðimannsins Ármanns Halldórssonar Í neðra og efra, sem hann gaf út 1979. Í þeirri bók fer hann yfir umhverfi ævi sinnar en hann var fæddur og uppalinn á Borgarfirði eystri, seinna var hann lengi vel kennari við Alþýðuskólann á Eiðum og vann síðar við fræðistörf á Egilsstöðum. Eftir Ármann liggur fjöldi fróðlegra bóka.
Það má segja að bókin umhverfist um Dyrfjöllin enda eru Dyrnar á milli Borgarfjarðar og Héraðs, og ævi Ármanns lá úr neðra í efra umhverfis þessi fjöll. Hann lýsir á snilldarlegan hátt þegar hann sá sólina sem ungur maður í Dyrunum Borgarfjarðarmegin að kvöldlagi um sumar án þess að tímasetja það nákvæmar. En lætur jafnframt ljós að þessi sjón sé ekki sjálfgefin og alls ekki hægt að bóka, en gefur í skyn að meiri árangurs megi vænta Héraðsmegin. Síðan segir hann;
"Þeir sem staddir eru á Kirkjubæ í Hróarstungu aðfaranótt 9. september í björtu veðri við sólarupprás eiga þess kost að sjá sólina ganga fyrir Dyrnar og mun vera ógleymanleg sýn. Hið sama gerist 25. mars klukkan 7 að morgni. Út af þessu fyrirbæri lagði séra Sigurjón Jónsson í nafntogaðri ræðu er hann flutti á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju árið 1951. Þessi ræða er prentuð í predikunarsafni séra Sigurjóns sem hann nefndi Undir Dyrfjöllum".
Það vildi svo til að ég las þetta 7. september s.l. og auðvitað flaug strax í gegnum hugann að þetta sjónarspil yrði ég að sjá. Veðurspáin var ekki beint líkleg samkvæmt spálíkönum veðurfræðinnar en kvöldið eftir var spáin orðin heiðskýr. Að morgni þess 9. september var ég á fótum fyrir allar aldir og gáði til veðurs, -það var skafheiðskýrt.
Ég var kominn út í Kirkjubæ vel fyrir kl 7 en þá kom sólin upp og ekki nokkur von á að hún lækkaði flugið til Dyranna neðra þó svo að hún ætti eftir spölkorn. Ég fór því niður á tún, en Kirkjubær stendur í hæð, því kannski væri það þar sem sjónarmiðið á sólahæðina í Dyrunum væri tekið, en allt kom fyrir ekki. Þegar sólin var akkúrat á réttum stað var hún talsvert fyrir ofan skarðið í Dyrfjöllum.
Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefði fræðimaðurinn fíflað mig, þetta væri þá eftir allt saman ónákvæm dagsetning. Ég fór því aftur daginn eftir og enn lofaði veðurspá tölvulíkansins heiðskýru sem fyrr, en eins og dægurflugan suðaði; -veðurfræðingar ljúga. Því miður var háskýjahula þennan morgunn fyrir ofan Dyrfjöll, og var ekki hægt að greina feril sólar í uppkomu þó svo að himin hafi ljómað yfir Kirkjubæ og sól baðaði alla Hróarstungu stuttu eftir sólarupprás.
Það næsta í stöðunni var að tala við kunningja minn sem bjó lengi á Kirkjubæ og spyrja hvort hann myndi eftir að hafa upplifað fyrirbærið. Hann sagðist hafa gert það og væri aldeilis ógleymanlegt augnablik sem hafi staðið í örstutta stund. Þó svo að oft hafi verið reynt að sjá sýnina þá hefði það bara tekist einu sinni á þeim 17 árum sem hann var á Kirkjubæ og taldi hann að það væri minni von til að sjá þetta seinni hluta vetrar. Hann flutti í Kirkjubæ um síðustu aldamót og minnti að þessa sýn hefði hann séð á fyrstu árum sinnar búsetu.
Hann sagði mér, eftir að ég hafði spurt hvort hann gæti sagt um hvaða dagsetningar væri að ræða, -að hann gæti það, með því að fletta upp í bókinni Forn frægðarsetur eftir séra Ágúst Sigurðsson. Einnig sýndi hann mér mynd af sólinni í miðjum dyrum sem náðist í þetta eina sinn þá örstuttu stund sem sjónarspilið stóð. Því miður gaf myndin hvorki dag- né tímasetningu. Dagsetningar og tímasetning í bókinni Forn frægðarsetur eru samhljóma fræðimanninum Ármanni Halldórssyni Í neðra og efra.
Ræða séra Sigurjón Jónssonar á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju 1951 hefst á þessum orðum: Undir Dyrfjöllum. Ég hef dvalið í 36 ár. Dyrfjöll eru meðal fegurstu fjalla á Íslandi. Þau eru með höfuð helgidóma íslensks hálendis. Sólin kemur upp í skarðinu, ár hvert, þann 25. marz kl 7 að morgni á rás sinni til hækkandi dags. Hún birtist einnig í skarðinu 9. september á för sinni á skammdegisskeið. Vart getur fegurri sjónar en þeirrar, er hún birtist í skarðinu og varpar ljóma yfir svipmikið hérað.
Nú væri gaman að fá trúverðugar tilgátur varðandi þetta þjóðsagnakennda sjónarmið. Hvort tímasetning eða segulpóll veldur að ég fór á mis við ógleymanlega sýn, og þá hvort á að veðja á 26. mars í stað 25., eða jafnvel 24. mars næst. Og ekki síður svo endursetja megi hvenær sólin er Dyrgættinni á milli efra og neðra séð frá Kirkjubæ.
Ps. Myndin hér að neðan er tekin 09.09.2021 kl.7.00 samkvæmt myndavélinni. Hún er tekin frá bílastæðinu innan við Kirkjubæjarkirkju en þar mun prestbústaðurinn hafa staðið á dögum séra Sigurjóns, núverandi íbúðarhús er 50-100 m utar. Myndavélin er lítil Canon ixus og því ekkert hágæða apparat og myndu flestir snjallsímar sennilega fanga viðfangsefnið mun betur, en myndin sýnir þó vel sólarhæð yfir dyrunum.
PS. - nr. tvö. Svo skemmtilega vill til að mynd er á netinu af fyrirbærinu í neðra og er sólin þar með sömu afstöðu við Dyrnar og myndin sem kunningi minn sýndi mér úr efra frá Kirkjubæ. Myndina í neðra má sjá HÉR. Ég hafði samband við eigenda myndarinnar, sem sagði mér að hún hefði verið tekin 06.09.2013 kl. 18:49.
Dægurmál | Breytt 13.11.2021 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2021 | 05:58
Það var eins gott að þú komst
Það er stundum svo með áhrifavalda að þeirra gætir meira en í fljótu bragði má greina. Þannig er það með frænda minn sem nýlega kvaddi þetta jarðlíf. Þegar ég fékk fréttina um fráfall hans flaug æði margt í gegnum hugann. En þó hæðst sú hugsun að allt hefði farið að óskum að kvöldi sólríks dags undir lok einstaks sumars í öræfadalnum, sem fékk honum viðurnefnið Goðinn í Grágæsadal.
Mér varð líka hugsað til þess hvenær ég kynntist fyrst þessum manni, sem kallaði mig frænda.Ég mun hafa verið í kringum 5 ára aldurinn þegar hann kom á Hæðina og byggði húsið sitt yfir stórfjölskylduna. Nýkomin út í morgunnsólina klifraði ég upp á undirslátt gólfplötu efri hæðarinnar þar sem sjá mátti Lagarfljótið lognstyllt liðast allt inn undir Snæfell, og dáðist að steypustyrktarstálinu í ósteyptri gólfplötunni. Maðurinn þar uppi spurði mig hvar ég ætti heima, og sagði að fengnu svari, -þá erum við frændur.
Völundur Jóhannesson - fæddur í Haga Aðaldal 23. ágúst 1930 - varð bráðkvaddur að kvöldi 30. ágúst s.l. í Grágæsadal, innst á Brúaröræfum inn undir Vatnajökli. Hans heitasta ósk var að kveðja einmitt á þessum stað, skrifaði Harpa dóttir hans á facebook síðu sína þegar hún tilkynnti andlát föður síns.
Völundur var vörslumaður hálendisins og hlaut viðurkenningu Sigríðar í Brattholti í tilefni dags íslenskrar náttúru árið 2015. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Völundur hljóti viðurkenninguna fyrir einstakt ræktunarstarf á hálendi Íslands í 640 metra hæð. Meðal annars hafi honum tekist að fá birki til að þrífast auk um 200 tegunda á svæði sem áður var talið ómögulegt til ræktunar.
Þá hafi Völundur barist fyrir vernd hálendisins og sýnt framsýni í uppbyggingu skála og salernisaðstöðu á fjölförnum leiðum á hálendinu. Hann nýti sér einnig sjálfbæra orkugjafa og hafi með þrautseigju breytt hugmyndum um hvað sé mögulegt í ræktun á hálendi Íslands.
Völundur var byggingameistari og varði bróðurparti starfsævinnar við byggingu stærstu bygginga Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum, sem voru byggðar þegar hann veitti Trésmiðju KHB forstöðu. Þau eru því mörg; bæði stór og smá minnismerkin sem Völundur skilur eftir sig á langri og töfrandi ævi.
Þessi pistill yrði allt of langur ef ég ætti að rifja upp kynni mín af þessum einstaka manni, en endurbirti þess í stað pistilinn Völundarhús frá því, 16. september 2016.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Upp úr 1970 og árunum þar á eftir var komið fyrir fjölda húsa á öræfunum norðan Vatnajökuls. Þessi hús voru af sumum kölluð Völundarhús. Þetta hefur verið rifjað upp núna í sumar þegar ég fór í fyrsta skipti um þessi öræfi, en mörg þessara húsa og eftirmyndir þeirra standa enn út í auðninni ferðafólki til handa nú sem fyrr til þess að þjóna kalli náttúrunnar.
Völundarhús við Dreka, Snæfellið gnæfir yfir öræfunum hvítt í fjarska
Völundarhús, voru fyrstu húsin sem ég fékk greiðslu fyrir að taka þátt í að byggja. En allt frá bernskudögum hafði kofasmíði verið líf mitt og yndi. Því lá beinast við um 12 ára aldurinn að spyrjast fyrir um vinnu við húsbyggingar hjá Völundi Jóhannessyni, sem var yfirsmiður hjá Trésmiðju Kaupfélags Héraðsbúa. Við vorum nágrannar á Hæðinni undir Hömrunum á Egilsstöðum, þar sem Trésmiðja KHB var til húsa. Lóð sem lengi var óbyggð ská á móti íbúðarhúsi Völundar við Hjarðarhlíðina hafði verið helsti starfsvöllur okkar hæðarstráka við kofasmíði, svo hann þekkti til mín, auk þess eigum við saman ættir að rekja norður í Aðaldal hvort svo sem varð til þess að ég var strax ráðinn.
Nýjasta gerð í Krepputungu, með nútíma þægindum
Fyrsta Völundarhúsið mun hafa verið byggt í kringum 1970 og er nú í Grágæsadal. Völundur sagði mér þegar ég heimsótti hann heim í dalinn í sumar, að yfirsmiður þess húss hafi verið Halldór heitinn Sigurðsson listasmiður og smíðakennari á Miðhúsum, aðstoðarsmiður var Eiríkur Þorbjarnarson húsasmiður á Egilsstöðum og Jónas heitinn Pétursson f.v. alþingismaður, síðar tilraunastjóri á Skriðuklaustri fékk að vera með vegna áhuga síns á framkvæmdinni; "svona sem sérlegur aðstoðarmaður, eða nokkurskonar handlangari. En þetta er náttúrulega bara kamar, sjáðu".
Það leynir sér samt ekki hvað Völundur er ánægður með "kamarinn", á því hvernig hann staðsetur hann í skrúðgarðinum sem hann hefur komið upp lengst inn á öræfum. Þegar Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson heimsóttu hann til að ná af honum tali í Ferðastiklum RUV kom vel fram hvernig hver og einn sem heimsækir garðinn verður að ganga hálfhring í kringum listaverk þeirra smiðanna og alþingismannsins, eins og má sjá hér í stiklunni Grasagarður í meira en 600 m hæð.
Völundur við fyrsta öræfa náðhúsið í garðinum í Grágæsadal
Heimsóknin í sumar til Goðans í Grágæsadal bar upp á 19. júlí, en svo er Völundur stundum nefndur og jafnframt talinn vörslumaður hálendisins og var hann heiðraður á degi íslenskrar náttúru árið 2015. Þann 19. júlí er ævinlega flaggað í hálfa stöng í dalnum. Völundur sagði að svo væri vegna þess að þann dag árið 2002 hefðu stjórnvöld skrifað undir viljayfirlýsingu við Alcoa vegna byggingar álvers í Reyðarfirði og þá ljóst orðið að til yrði Hálslón þar sem hluta víðernanna norðan Vatnajökuls yrði sökkt. Einhverjir sveitastjórnarmenn á Austurlandi hvöttu til þess opinberlega, að austfirðingar flögguðu þennan dag til að fagna tímamótum í austfirskri atvinnuuppbyggingu.
Aftur á móti flögguðu unnendur víðernanna þann dag í hálfa stöng, við skála ferðafélaganna og hvar sem því var við komið á hálendinu. Einn landvörður, sem flaggaði þá í hálfa stöng, var kostaður af ríkinu og varð hann snarlega atvinnulaus. Völundur fór árið eftir með flaggstöng og gaf nýjum landverði ríkisins hana, en sagði honum jafnframt að hann yrði bara að passa sig á því að taka frí í vinnunni rétt á meðan hann flaggaði. Síðan þá hefur verið flaggað í hálfa stöng þann 19. júlí ár hvert í Grágæsadal, þó svo að sá siður sé nú aflagður í öðrum fánastöngum hálendisins norðan Vatnajökuls.
Í Grágæsadal leynir sér ekki hvaða húsgerð hefur átt hug og hjarta Völundar
Ég hef alla tíð búið að því að hafa fengið vinnu hjá Völundi 12 ára gamall og vinna undir hans stjórn hvert sumar til 17 ára aldurs eða þangað til að steypan heltók hugann. Vinnan hjá Völundi var reyndar mest við mun stærri byggingar en Völundarhúsin því á þessum árum voru sumar stærstu steinsteyptu byggingar KHB reistar af starfsmönnum trésmiðju kaupfélagsins undir styrkri stjórn Völundar. Er mér það til efa að í annan tíma hafi eins stórt hlutfall ungra drengja fengið vinnu við eins mikil mannvirki, þá voru oft ekki margir fullorðnir í drengjahópnum, stundum Hermann Eiríksson smiður og Reynir Kjerúlf þeir einu sem komnir voru af táningsaldri. Þegar kom að viðhaldi mannvirkja KHB í seinni tíð s.s. sláturhúss, bakarís og mjólkurstöðvar leitaði Völundur til okkar Djúpavogs drengja með að klæða veggi og gólf með epoxy steypu.
En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar. Og sem dæmi get ég nefnt að þegar nýja mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".
Þetta kvenna og karla náðhús var lengi við Hafnarhólmann á Borgarfirði eystri, sennilega hafa Borgfirðingar sjálfir séð um smíðina en það leynir sér ekki hvert andagiftin við hönnunina hefur verið sótt
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Það er úr vöndu að velja með hvaða orðum ég á að kveðja Völund frænda minn, en að endingu koma mér efst í huga sömu orð og hann við hafði þegar ég heimsótti hann síðast sólbjartan morgunn í Grágæsadal sumarið 2019. Það var eins gott að þú komst, , , það eru þá ekki allar ferðir til einskis, það má nú segja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2021 | 06:15
Fagridalur
Hverjum datt eiginlega í hug að kalla þetta ömurlega veðravíti Fagradal; spurði gamall skólafélagi úr neðra einn kaldann vetrardag. Ég reyndi að sína örlítinn skilning og sagði að sennilega hefði hugmyndin fæðst um há sumar. En hann er ekki einu sinni fallegur þá, þó hann sé kannski ekki jafn ömurlegur; sagði félaginn.
Undanfarið hef ég verið svo frá mér numin við að teyga D-vítamín úti í sólinni, -að steypa og í bláum berjamó, við malið í steypubíl þar sem ég fæ að fljóta með félögunum, eða við hjalandi lækjarsytrur og dunandi fossa, -að ég hef ekki gefið mér nokkurn tíma til að þvæla í langloku eða fara með nokkra speki hér á síðunni.
Mér verður oft hugsað til þessa gamla skólabróðir þegar ég fer niður í neðra yfir dalinn fagra til að steypa á þessum árstíma. Svo þegar ég ligg þess á milli í aðalbláberjamó í Græfum undir Skagafellinu ásamt Matthildi minni og fleiri heilladísum, þar sem Fagridalur mætir Eyvindarárdal.
Um Fagradal á milli Skagafells og Sauðahlíðarfjalls, liggur þjóvegur nú númer eitt úr efra í neðra þangað til komið er úr Skriðum undan Grænafelli í botni Reyðarfjarðar, og auðvitað öfugt. Fyrir skemmstu var hann kallaður Norðfjarðarvegur og þar áður Fagradalsbraut með viðeigandi vegnúmerum. Það var árið 1893 sem séra Magnús Blöndal Jónsson prestur í Vallanesi fékk áhuga á veglagningu yfir dalinn, frá því greinir hann í endurminningum sínum.
Í kaflanum Akvegur yfir Fagradal 1893, segir Magnús frá hugmyndum sínum um lífæð Fljótsdalshéraðs til sjávar. En hann taldi fjallvegi og flutningsmáta sem þeim fylgdu standa uppbyggingu á Héraði fyrir þrifum. Allir flutningar fóru þá fram á hestum bundnir á klakk. Yfir Vestdalsheiði af út Héraði til Seyðisfjarðar og yfir Fjarðarheiði af mið Héraði. Yfir Eskifjarðarheiði til Eskifjarðar og yfir Þórudalsheiði úr Skriðdal til Reyðarfjarðar af inn Héraði.
Hugmyndir voru uppi hjá heimamönnum um höfn í ósi Lagarfljóts og skipaferðir um Fljótið með vörur. Þetta taldi séra Magnús fráleitan möguleika eftir að hafa skoðað aðstæður og taldi sig ekki hafa aflað sér vinsælda með afstöðu sinni nýfluttur á Héraðið. Hann fékk að fara með Jóni Bergssyni á Egilsstöðum og Benedikt Rafnssyni á Höfða á Reyðarfjörð um Fagradal til að mynda sér skoðun á vegstæði. Jón og Benedikt gjörþekktu þessa leið.
Séra Magnúsi leist það vel á að gera veg að hann brýndi þingmenn Héraðsins um sumarið að leiðin yrði lögtekin á Alþingi og þá könnuð betur með það fyrir augum að leggja veg um Fagradal. Tillaga hans var borin upp á almennum fundi á Ketilsstöðum á Völlum við engar undirtektir Vallamanna hún fékk aðeins atkvæði hans sjálfs þaðan, en þrír Skriðdælingar greiddu tillögunni atkvæði.
Fannst Magnúsi þetta undarleg atkvæðagreiðsla þegar ekki einu sinni Jón Bergsson á Egilsstöðum gat hugsað sér að greiða atkvæði með tillögunni, en vegur um Fagradal gegndi lykilhlutverki fyrir Egilsstaði og austur Velli en skipti í sjálfu sér ekki máli fyrir Skriðdælinga þar sem mun styttra yrði fyrir þá að fara áfram Þórudalsheiði til Reyðarfjarðar.
Séra Magnús þakkar séra Sigurði Gunnarssyni þingmanni frá Valþjófstað í Fljótsdal það að Fagradalsbraut var lögtekin á Alþingi. Hann segir einnig frá því að Soffía Einarsdóttir, frá Brekkubæ í Reykjavík, -kona séra Sigurðar, hafi borið af sér blak þegar hann var á milli tannanna á fólki. Það hafi hann frétt seinna og tilgreinar þar sögu frá mannamóti á Valþjófsstað þar sem var hneykslast á tiltektum nýa prestsins í Vallanesi m.a. fyrir að hafa sent fólk sitt út í hláku um hávetur til að slétta þúfur í túninu.
Þá á Soffía að hafa sagt; ykkur ferst amlóðunum, sem aldrei hafið gert neitt, annað en að rangla á eftir rollunum, og aldrei hafið getað neitt annað en að feta í spor feðra ykkar og að standa í sömu sporum frá æsku til elli. Og svo flytur dugandi maður inn í Héraðið ykkar, sem eitthvað getur og gerir, þá getið þið hallmælt og skopast af framkvæmdum hans af bláberri öfund og af því að þið viðurkennið með sjálfum ykkur að þið eruð ekki menn til þess að líkja eftir honum. Já ykkur ferst.
Til forna var Eyvindardalur þjóðleiðin úr efra í neðra, ef eitthvað er að marka Íslending- og þjóðsögurnar. Upp úr honum lá leiðin um Slenju niður í Mjóafjörð rétt eins og nú, og um Tungudal lá leiðin yfir Fönn niður í Norðfjörð og Eskifjörð um Eskifjarðarheiði fram eftir öldum. Vegurinn um Fagradal kom nokkru eftir að séra Magnús Blöndal Jónsson fékk hugmyndina og gerir leiðina á flesta staði í neðra mun lengri en áður. Fullreynt hafði verið með skipaflutninga um ós Lagarfljótsins með tilheyrandi manntjóni áður en kom til vegagerðar um Fagradal.
Félagi minn í neðra ætti ekki að kalla Fagradal ljótan, ætti frekar að hundskast í berjamó í dalnn fagra en vera með múður, ekki væri þá ólíklegt að hann myndi sjá hvað þjóðleiðin um Eyvindarárdal myndi stytta leiðina mikið í aðalbláberin. Það er nefnilega ekki nóg að rýna bara niður á tærnar á sér til að uppgötva fegurð landsins, gæði og nauðsynjar.
Myndirnar hér að neðan, þó svo þær séu aðeins af smá parti af dalnum fagra, sanna það að félaganum ferst ekki frekar en gömlu Hérunum sem röngluðu á eftir rollunum.
Fagradalsá í Græfum
Séð upp á Fagradal úr Græfum, þjóðvegurinn liggur ofar undir Suðahlíðahnjúkum og þaðan sést lítið af Græfum sem eru falin paradís með aðalbláberjum
Séð niður Græfur í átt að Gagnheiði
Endalausir fossar og berjabrekkur eru í og við Fagradalsá upp úr Græfum
Fagradalsá mætir Eyvindará undir Gagnheiði
Kannski er nafngiftin Græfur komin til af því að landið er sundur grafið af hjalandi lækjarsprænum
Lítill lækur tifar létt um máða steina á leið sinni í Faradalsá
Mæðgur á leið í berjamó
Eyvindarárdalur, Gagnheiði t.v. og Skagafell t.h., á milli er Tungufell hægra megin og Slenja vinstra megin. Á milli Gagnheiðar og Slenju er þjóðvegurinn í Mjóafjörð. Á milli Slenju og Tungufells er Tungudalur, þar var forna þjóðleiðin yfir Fönn í Norðfjörð og yfir Eskifjarðarheiði á Eskifjörð. Á milli Tungufells og Skagafells er Svínadalur, sem er styttri en Fagridalur á Reyðarfjörð. Dalirnir saman eru stundum kallaðir Reyðarfjarðardalir
Ævi
Dægurmál | Breytt 9.9.2021 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)