29.8.2021 | 06:29
Nafni minn
Það sem gefur blogginu gildi, öðru fremur, eru athugasemdirnar, þær víkka sjóndeildarhringinn. Þess vegna eru þær vel þegnar á þessari síðu hvort sem þær eru undir nafni eður ei. Sumir setja þumalinn upp með like merki, þá væntanlega ef þeim líkar pistillinn. Mbl bloggið er ekki tengt fésbókinni á annan hátt og er mér t.d. ómögulegt að finna út úr því hver setur like við pistil.
Stundum kemur fyrir að ég fæ skilaboð í gegnum þriðja aðila, sem viðkemur bloggfærslu, og er það þá yfirleitt að viðkomandi hafi líkað. Svo kemur það ekki ósjaldan fyrir að bæði kunnugt og bláókunnugt fólk hringir í mig til að ræða einhver atriði sem fram koma í bloggi. Það eru alveg sérstaklega skemmtileg símtöl.
Undir vorið í vor hringdi í mig kunningi úr steypunni til að fá nánari skýringar á bloggpistli og spurði mig í leiðinni hvort ég gæti sagt honum hver Katrín væri, stúlka sem ólst upp á Seyðisfirði snemma á 20. öld. Þannig væri að í Firði hefðu verið tvær Katrínar á því sem næst sama aldri og báðar Jónsdætur.
Ég gat frætt hann á því að önnur þeirra hefði verið systir afa míns hún hefði alist upp hjá frændfólki sínu. Mér datt það í hug -sagði kunninginn en hann var nær fólkinu í Firði í skiydleika en ég og með aðra tengingu.
Eftir þetta samtal fór ég að grúska í gúggúl og Íslendingabók. Fann mynd á gúggúl af Katrínunum tveim saman á barnsaldri. Í sama myndasafni kom upp mynd af fjölskyldu sem ég fékk áhuga á, þó svo að sú mynd væri frá því á 19. öld og ég hefði aldrei séð þetta fólk á mynd.
Þessi mynd festist með einhverjum dularfullum hætti á destoppnum hjá mér og blasti við í hvert skipti sem ég fór í tölvuna, varð ég að fá son minn til að fjarlægja hana af desktoppnum næst þegar hann kom í heimsókn því mín kunnátta á tölvu var ekki svo yfirgripsmikil.
Myndin var af fjölskyldu sem á enga afkomendur; maður, kona og dóttir. En til þessara hjóna á fjöldi fólks nöfn sín að rekja enn þann dag í dag. Nöfnin eru Magnús og Herborg, sem er auk þess til í samsetningunni Magnea Herborg. Dóttirin hét Björg.
Á sama tíma og kunningi minn úr steypunni hringdi var ég að lesa fágætan fróðleik í doðranti bóka sem heita Austurland. Þar var þessa Magnúsar getið sem glöggs búsýslumanns með sauðfé og þá sem sérlega vinsæls fjármanns hjá stórbændum á Héraði. Var hann m.a. fengin til að sjá um eitt fyrsta fjárræktarbú á Austurlandi, sem stórbændur kostuðu á Ormsstöðum í Hallaormstaðarskógi.
Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld Magnúsi Sigurðssyni hinum merka sauðfjárbónda á Úlfsstöðum, frænda mínum sem ég var part úr tveimur sumrum hjá í sveit sem strákur. Ég vissi fljótlega að Sigurður faðir Magnúsar á Úlfsstöðum og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa.
Þegar ég spurði afa út í þetta á gamals aldri, þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg móðir Magnúsar var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.
Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur á Ormstöðum í Hallormsstaðaskógi, og síðast Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, þar sem það var ekki til í hans langfeðratali, þá tiltók hann að mig grunar þennan Magnús.
Í þá tíð var hvorki til siðs að nefna börn út í bláinn né Magnús sérstakt tískunafn. Minnir mig að hann hafa sagt að hann væri nefndur eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum.
Magnús og Herborg áttu eina dóttir, -Björgu, sem dó af fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.
Til að enda þessa hugleiðingu og gera langa sögu stutta, um hann nafna minn, -þá á Björg litla systir mín, sem hefur búið í S-Frakklandi rúm 30 ár, son í franska hernum. Hann heitir Remi Paul Magnús. Svona getur nú komið í ljós hvað leiðir nafns liggja víða með einni athugasemd, eða í stuttu símtali um tvær Katrínar.
Myndin á sem festist á desktoppnum
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2021 | 05:59
Eins og skepnan deyr
Senn er liðin þessi bið, lokast leiðin fram á við og hverfa önnur sjónarmið. Mun ég samt sem áður elska þig? Mig grunar að við sem höfnum síendurtekið bólusetningu með marki skepnunnar komum að endingu til með að sæta rafrænum aðskilnaði. En veruleikinn hefur sannfært okkur um annað en hið viðtekna nýja norm.
Leið okkar mun liggja úr aðskilnaði í einingu. Á stað þar sem innsæi okkar og hjarta sameinast. Þar er ekki til neitt gott eða slæmt, aðeins skynjun hjartans fyrir því hvað er rétt. þar kemur eðlislæg vitneskja fram í raunveruleika handan skilningsvitana fimm.
Fyrir utan allar hugmyndir um hvað sé rangt eða rétt er grasi gróinn völlur. -Ég hitti þig þar. - Þegar sálin leggst í grasið er heimurinn meira en nokkrum orðum verður að komið. ~Rumi
Dægurmál | Breytt 29.8.2021 kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2021 | 06:17
Skepnan
Það eru sennilega sárafáir sem rýna í sortann vegna dularfullu drepsóttarinnar lengur, eða bólusetningadaga í Höllinni. En samkvæmt tölum frá CDC í Bandaríkjunum þann 19. mars síðastliðinn eru líkur aldurshópa á að lifa sóttina af eftirfarandi; 0-17 ára 99.998%, 18-49 ára 99.95%, 50-64 ára 99.4% og 65 ára + 91%. Síðan þá hefur dauðsföllum drepsóttarinnar farið fækkandi.
Myrkraöflin búa nú meðal vor, við verðum að vera á varðbergi svo að við getum áttað okkur á því sem er raunverulega að gerast um leið og við fáum óræka hugmynd um hvar þau er að finna. Það hættulegasta sem getur gerst í náinni framtíð er að gefast ómeðvitað upp fyrir áhrifunum myrkraraflanna þegar þau eru augljóslega til staðar. ~ Rudolph Steiner.
Rudolph Steiner sagði þetta í ritgerðum sínum árið 1917, sem birtar voru undir nafninu "The Fall of the Spirits of Darkness", þar sá hann fyrir sér framtíð þar sem bóluefni yrði falið að skera á andlegar tengingar og festa okkur í fimm skilningssvita veröld.
Af tveimur tungum var haldið fram fyrir skemmstu að aðeins þeir undirliggjandi og öldruðu væru í hættu vegna veirunnar. Okkur var sagt að hún hefði ekki áhrif á börn og ungmenni. -Svo hvers vegna er nú brýnt að sprauta börnin með hraði, -unglinga, börn og jafnvel barnshafandi konur?
Steiner hafði þá rétt fyrir sér eftir allt saman. Fyrsta skrefið var að einangra og hefta huga blessaðs barnsins með félagslegri fjarlægð, skorti á mannlegri snertingu og laska heilsu þess með grímum. Stig tvö, -auðvitað allt í nafni öryggis, -að sprauta þau með rafsegulsameind grafenoxíðs. Merki skepnunnar.
Sá hryllingur sem við lifum þessa dagana snýst ekki um hættulegan sjúkdóm né hefðbundna bólusetningu , , , þetta snýst um algeran heilaþvott, fikt í ónæmiskerfi og rafræna framtíð mankyns.
22.8.2021 | 06:36
Heilagir hundar, perlur og svín
Upplýsingar eru gagnlegar þegar þær leiða til framfara og þroska. Ef þær þjóna ekki þeim tilgangi þá eru þær einungis truflandi. Nú geisar andlegt upplýsinga stríð.
Þetta ætti fólk að hafa hugfast þegar það opnar fyrir bölmóð heimsins í upplýsingaóreiðu fjölmiðlanna og skrúfar jafnvel upp í viðtækjunum í stað þess að slökkva.
Markmið auðróna glóbalsins er að hefta anda mannkyns og rýma til fyrir rafrænum vélmennum í anda sjálfsafgreiðslukassa stórmarkaðanna.
Fjöldinn hefur óafvitandi yfirgefið frumkraftinn til að komast aftur til "eðlilegs lífs". Aðrir hafi látið undan félagslegum þrýsting eða hótunum undir rós.
"Hugrekki er grundvöllur andlegs styrkleika. Hugleysi getur aldrei orðið grundvöllur siðferðis" ~Mahatma Gandhi
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.8.2021 | 06:09
Bláber
Fyrir nokkrum árum sagði ég frá verslunareiganda sem setti miða í gluggann á búðinni sinni sem á stóð "lokað í dag - farinn í berjamó". Þetta var fyrir mörgum áratugum síðan, þegar ég var enn á barnsaldri. Sumir vildu meina að hann væri alls ekki í berjamó, heldur væri hann blindfullur heima. Hvort sem verslunareigandinn var blindfullur í berjamó eða ekki, þá sýnir tilkynningin hvað tíðarandinn hefur breyst í tímans rás. Þó svo hvorki þá né nú sé auðvelt að að tína ber fullur, þá þótti góð berjaspretta eðlileg afsökun fyrir því að loka sjoppu.
Þetta sumariðið eru brekkurnar bláar af berjum en sárafáir í berjamó, og mér til efs að nokkurri sálu hafi dottið í hug að loka sjoppu vegna góðrar berjauppskeru. Við Matthildur mín skríðum nú um lautir og lyng við að plokka bláber og er þetta sennilega sjötta sumarið í röð sem ég get sagt að aldrei hafi þúfurnar verið eins bláar, ekki hægt að leggjast á hnéin án þess að skilja eftir berjasultu í slóðinni.
Nú kann einhverjum að koma í hug sú sígilda spurning hvar finnið þið ber? Svarið er einfalt, -með því að fara í berjamó. Að vísu þarf bæði að líta upp úr símanum og beygja sig því ber verða ekki tínd með appi frekar en á blindafylleríi, en það er á við heila útihátíð og ranghverfa smitrakningu að liggja eins og barn í blárri brekku við hjalandi læk og tína ber, -svo ekkert sé minnst á andlega íhugun.
Sennilega er berjatínsla orðin jafn ókunn fólki og raun ber vitni vitni, vegna þess að henni hefur ekki verið gerð skil í sjónvarpi, né verið boðið upp á berja app í snjallsímann, það er ekki einu sinni hægt að fá snjallúr með berjateljara. En það væri örugglega jafn áhugavert, -skilst mér af facebook, -að sýna t.d. beinar útsendingar af fólki í berjamó og Íslandsmótinu í golfi.
Enn þann dag í dag hefur tæknin ekki náð þeim hæðum að hægt sé að tína ber rafrænt með fjarfundarbúnaði, hvað þá að frá berjamó hafi verið streymt í beinni líkt og var með brekkusönginn á Þjóðhátíðinni í Eyjum um s.l. verslunarmannahelgi.
Einn félagi minn í steypunni sagði um þá miklu menningarframför, að sennilega yrði "gamla góða" kojufylleríið hafið til vegs og virðingar ný.
Dægurmál | Breytt 15.8.2021 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.8.2021 | 07:39
Staulast í Stuðlagil
Þeir hringdu í morgun sögðu að Lilla væri orðin óð. Að hún biti fólk í hálsinn drykki úr þeim allt blóð. Jú stórir strákar fá raflost, -en hvað á að gera við þá sem hafa drullað upp á bak? Það væri sjálfsagt tilefni til að greina nýjustu uppákomur dularfullu drepsóttarinnar sem tröllríður landanum nú um há sumar annað árið í röð.
En ég bara nenni því ekki og væri gáfulegra að steypa í langloku um það þegar við Matthildur mín stauluðumst í Stuðlagil til að teljast meðal manna, eða þegar við fórum vestur þar sem fjöllin vaka há í skriðum skreyttum hlíðum við spegilslétta firði.
Matthildur latti reyndar staðfastlega til beggja faranna með rökföstum úrtölum, benti mér m.a. á að ég hefði oft komið að þessu fjandans gili. -Já kíkt ofan í það að vestan sagði ég það er bara ekkert að marka. Vestur sagði hún að gömul hró með tjald og fermingasvefnpoka, hefðu ekkert að gera á pestartímum. -Ég fer þá bara einn sagði ég þú getur þá bara verið heima.
Þegar ég hafði runnið á rassgatið með hvoru tveggja, fyrst í Stuðlagilsferðinni vegna þess að Matthildur missteig sig og steyptist á hausinn á fyrstu hundrað metrunum á stórgrýttum göngustígnum og ég staðið um stund á öndinni af mæði bauðst ég loks til að slaufa för, en þá kom það ekki lengur til mála.
Að morgni fyrirhugaðar vesturferðar voru bæði farnar að renna á mig tvær grímur og herfilegar innantökur, en þá brá svo við að Matthildur mín kepptist við að smyrja samlokur og spurði hvort það ætti ekki að drullast af stað.
Þegar við komum í Mývatnssveit sá ég hvað Matthildur hafði haft á réttu að standa með drepsóttina. Ferðamenn liðu um eins og vofur í flugnaneti með pestargrímuna fyrir smettinu og ekki gott að átta sig á hvort það var ferðataskan eða öndunarvélin sem þeir höfðu í eftirdragi.
En ekki er nokkur tími til að fara yfir allar þessar hrakfarir sem enduðu svo í heilum hring um Ísland á verslunarmannahelgi, annað en það að Matthildi varð á orði við lok ferðar; það er nú gott að þessari vestfirðir eru búnir nú eru bara Vestmanneyjar eftir. Þá fyrst krossbrá mér því að Matthildur fór á Atlavík 82, 83, 84 og 85, , , og það var ég sem þurfti að stöðva það brjálæði.
Nú bögglumst við bara um í berjamó í blíðunni og er þetta allt farið að minna á bernskudagana þegar mamma sleppti börnunum sínum á beit og ekkert fékk lítinn dreng inn úr sumrinu og sólinni annað en harðasprettur heim á klósettið.
Reyndar gat það komið fyrir að heimferðin úr móanum væri meira haltrandi hökt á við þúfnagang, en þá mælti mín móðir, eigi skal haltur ganga Magnús minn á meðan báðir fætur eru jafn langir. En móðir mín var ein af þeim sem lengi lifir í minningunni og guðirnir elska.
Dægurmál | Breytt 6.8.2024 kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.8.2021 | 06:40
Vegurinn heim að síðasta bænum
Það rann ósjálfrátt í gegnum hugann að hér hefði vegurinn verið lagður svo fólkið gæti flutt burt, þegar ekið var á þjóðvegum landsins í síðustu viku. Sveitir fara með áður óþekktum hraða í auðn á meðan punturinn trénar blíðum í blænum, ekki lengur nokkur glóra í að hafa fyrir því að heyja. Íslenska sauðkindin, sem er orðin safngripur rétt eins og íslenska hænan og geitin, sést nú kúra í gegnum vegrykið undir einstaka rofabarði við Animal Farm Guesthouse i hita og þunga dagsins.
Þessi þróun hófst hægt og bítandi á síðustu öld. En eftir að það urðu mannréttindabrot að víxlararnir fengju ekki að græða á innfluttu kjöti til að grilla á kvöldin samkvæmt Evrópurétti, þá hefur óskapnaðurinn vafið margfalt hraðar, -og sárar, upp á sig en gaddavír á girðingastaur. Grundvellinum hefur verið kippt undan heilu sveitunum og þorpin sem þeim þjónuðu missa sitt og berjast nú fáliðuð í glasabökkum við að servera íslenska ferðamenn við að "njóta" og skoða "landið okkar".
Nú má keyra því sem næst í gegnum heilu landshlutana án þess að sjá sauðkind, og við þjóðveginn hokra nú síðustu hálmstrá Bjarts í Sumarhúsum og Gróu á Leiti undir ambögum á við "Street Food- Black Beach Resturant-Spa Lagoon-Guesthouse Bistro" bíðandi á bótum eftir seinni bylgjunni sitjandi uppi með landann flæðandi fram og til baka á öðru hundraðinu með útilegudraslið, reiðhjól og grill í eftirdragi, röflandi yfir lambakjötsleysi í krummaskuðunum úti á landi í eylífri leit sinni að sólinni með góðri trú á að í heimahaganum þar sem ræturnar eitt sinn gréru sé allt óbreytt, þar sem nú má finna í mesta lagi part úr sumri landlorta búandi með brjótahaldara á gaddavír eða auðróna með veiðistöng. Já blessuð sértu sveitin mín.
Þegar vegurinn kom í fyrndinni fór læknirinn fyrstur, presturinn flutti næstur, síðar sást ekki til flugvélarinnar lengur þegar flóabáturinn var löngu hættur að fljóta og kaupfélögin gjaldþrota. Enda landsmenn ekki of góðir til að nota samgöngubætur á við veginn og samfélagsþjónustu á við virðisaukaskattinn ef þeir þurfa á annað borð einhverja þjónustu, hvað þá banka. Ef eitthvað fámenna sveitafélagið, sem enn veit hvað sjálfstæði og suðfé er og enn hefur auraráð, vogar sér að styrkja íbúa sína þá er meiri vá fyrir dyrum en sjálfur skítahaugurinn.
Samkvæmt samræmdu regluverkinu þarf að skipa nefnd, sem setja skal á stofn rýnihóp latínuliðs með gráðu, sem finnur sér þar til bæra sérfræðinga til ráðgjafar og skýrslugerðar um þarfagreiningu. Og ekki má gleyma að fara yfir lagalegu hliðina með tilheyrandi fjárútlátum, nóg er nú lögleysan samt. Nei það er ekki einu sinni sjálfgefið að fá gluggaumslag í pósti án þess að fyllsta lögmætis sé gætt hvað sjálfbæran kostnað varðar, því ekki vill nokkur heilvita maður brjóta mannréttindi vesalinganna sem þurfa að græða.
Nú er svo komið að hinir heilögu fjárfestar hafa komið auga á veginn sjálfan sem féþúfu, þann sem lagður var á kostnað fólksins svo það gæti farið burt, sem álitlegan fjárfestingakost við innviða uppbyggingu flissandi fábjána. Veggjöld eru því það sem koma skal, ekki vit í öðru en græða á þjóðveginum með sínum Street Food Black Beach Resturant þar sem Grayline Bus 4 You brunar með akfeita dilka af fjalli heim að síðasta bænum í dalnum til liðskipta og botox í einkareknum heilbrigðisiðnaði, -sem vel á minnst var ekki kallaður sá síðasti upp úr þurru, því það var hann ekki lengi. Guð blessi allt Ísland.
Dægurmál | Breytt 6.8.2021 kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.7.2021 | 05:43
Sálarháski í Valhöll
Það má ætla að að fram til þessa hafi almennt verið litið svo á að manneskjan samanstandi af huga, líkama og sál. En það er misjafnt eftir menningarheimum, trúarbrögðum og tíðaranda hvar sálin heldur sig, eða réttara sagt hvar í sjálfsmynd mannsins hún er staðsett eða þá hvort hún fyrirfinnst þar yfir höfuð.
En ef sjálfsmyndin hefur sál þá má ætla að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hafi að geima persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin sé svo hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni, nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið.
Það fer samt lítið fyrir sálinni í tæknivæddri upplýsingaveröld nútímans. Hafa nútíma vísindi jafnvel efast um að til sé eitthvað sem lifi dauðann líkt og sál. Fornar hugmyndir fólks s.s. þess sem nam Ísland fyrir meira en 1000 árum gerði ráð fyrir öðruvísi sjálfsmynd. Hún samanstóð að mestu af ham, hamingju, huga og fylgju. Þessir þættir sköpuðu manneskjunni örlög. Þetta kann að virðast torskilið í nútímanum en ef heiðin minni og þjóðsögur eru skoðaðar þá var margt í umhverfinu sem hafði áhrif.
Náttúran var t.d. mun stærri hluti af vitundinni en hún er í dag. Þar gátu búið duttlungafullar vættir í steinum, hólum og hæðum, allt um kring, oftast ósýnilegar. Eins las fólk í atferli fugla og dýra. Haldnar voru hátíðir um vetrarsólstöður og önnur árstíðaskipti til að hylla heilladísir og blóta goðin. Fólk taldi sig jafnvel getað séð óorðna atburði með því að sitja á krossgötum á réttu augnabliki.
Ef reynt er að setja sjálfsmynd fornmanna í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina ham sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveldúlfur hafi verið. Á kvöldin varð hann svefnstyggur og afundinn, þaðan var viðurnefnið komið. Eins var talað um hamskipti, þjóðsögurnar skýra þessi fyrirbæri ágætlega og hver hin forna meining er á íslenskri tungu.
Við tölum t.d. enn um hamhleypur til verka, þegar menn herða upp hugann líkamanum til hjálpar. Það má kannski segja sem svo að hugurinn sé á margan hátt með sömu merkingu í dag og til forna. Þó mun hann sennilegast hafa verið meira notaður til hjálpar líkamanum áður fyrr. En í dag þegar hann hneigist meira til þeirrar sjálfhverfu sem einkennir nútímann, enda líf fólks áður meira bundið líkamlegu striti.
Hamingjan var ekki öllum gefin frekar en skýra gull og fólk gat lítið aðhafst til að ávinna sér hana. Miklu af lífsins gæðum hafði þegar verið úthlutað við fæðingu. Þar voru það örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld sem sáu um að útbúa forlög mannanna. En nú á tímum líta menn meira til hamingjunnar sem huglægs ástands.
Eitt var þó til forna, sem mátti hafa áhrif á til heilla, en það var sjálf fæðingafylgjan. Hana bar að fara vel með því í henni bjó sú heill barnsins sem kæmi til með að fylgja því í gegnum lífið. Ef fæðingafylgjunni var t.d. fleygt á viðavangi var heill barnsins óvarin og tók þá fylgja barnsins mynd þess sem fyrst kom, er talið að þessa hafi mátt sjá merkis í nöfnum manna s.s. Kveld-Úlfur, Hrafna-Flóki osfv..
Auðveldasta leiðin til að átta sig á hvar í mismunandi sjálfsmynd sálin er fólgin, er að kanna viðhorf til dauðans. Nútímamanninum getur virst erfitt að skilja hvernig litið var á dauðann í fornri heiðni. Hetjudauðinn var þar ávinningur samanber eilíf veisluhöld vígamanna í Valhöll að kvöldi hvers dags, gagnvart því að þurfa að þola þrautir og liggja köld kör Heljar.
Þessar tvær birtingarmyndir dauðans voru litaðar sterkum litum til að auðvelda gönguna um lífsveginn æðrulaust og án ótta við dauðann. Æðsta markmið var að mæta örlögum sínum óttalaus. Taka dauðanum með óbilandi rósemd, og þola kvalir hans af karlmennsku.
Nú á dögum er algengara að fólk taki pillur til að sefa óttan. Leggist jafnvel meðvitað í kör á meðan vottur af lífsneista er til staðar, þó það viti að það verði svo ósjálfbjarga að það komi til með að vera tengt slöngum og dælt ofaní það með vél. Nútíminn gerir ekki mikið með eilífð óttalausrar sálar.
Hvar sálina var að finna í heiðni er greinanlegt af viðhorfi fólks til forlagana og dauðans. Sálin bjó með manneskjunni og var henni meðvituð dags daglega. Það sem meira var að til forna voru dauðir heygðir og helstu verkfærum sem kæmu að gangi í framhaldslífinu var með komið s.s. vopnum til Valahallarvistar. Í vissan tíma var litið svo á að haugbúinn væri á milli heima, ennþá að hluta í þessum sem draugur.
Nú á tímum hefur sálin verið einangruð frá efnisheiminum, þar sem hugur og líkami dvelja í síauknum hraða tækninnar. Dauðinn er að verða myrkvaður endir alls og flestir karlægir áður en til hans kemur. Hvað er til ráða? ,,, kyrra hugann?
Ps. Þessi pistill er frá 3. mars 2019. Hér á blogginu hef ég haldið út annarri síðu Mason eða maggimur.blog.is, þar sem ég hef sett inn hugðarefni mín utan við steypu dagsins, m.a. þýddar og endursagðar greinar.
Í gegnum tíðina hefur m.a. mátt þar finna glósur skrifaðar undir áhrifum "sækjast sér um líkir" eða það sem á ensku kallast "Law of Attraction". Eins má þar finna skrif undir áhrifum frá búddisma, norrænnar goðafræði og að sjálfsögðu Jesú Krists. Síðuna Mason má sjá hér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2021 | 08:56
Niður með grímuna
Takið af ykkur helvits grímurnar var öskrað á Írlandi um helgina. Almenningur víða um heim er búin að fá upp í kok á pestarfasismanum sem beitt er í baráttunni gegn dularfullu drepsóttinni. Það er ekki bara á Íslandi sem aðgerðir stjórnvalda eru gagnrýndar í pestarfárinu.
Það er ekki bara á Íslandi sem keyptir fjölmiðlar upplýsingaóreiðunnar steinhalda kjafti á bak við grímuna, um það sem er raunverulega að gerast. Stóru samfélagsmiðla veiturnar s.s. youtube og facebook hafa lokað á "upplýsingaóreiðu og falsfréttir". Enn má þó finna síður sem sýna raunveruleikann og hvaða myndir almenningur geymir í símunum sínum.
Á síðu Waking Times hefur verið safnað saman myndböndum af því sem var að gerast í stórborgum Evrópu og Ástralíu um s.l. helgi. Þar sem grímuskyldu, bólusetningum og pestarpössum er mótmælt hástöfum. Almenningur hefur fengið nóg og hópast út á götur og heimtar frelsi. Sjón er sögu ríkari sjá hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
24.7.2021 | 09:12
Fari það svoleiðis í logandi helvíti
Já fari allt heila pestarpakkið norður og niður sem kom flissandi, fölt og píreygt út í sumarið og sólina til að aflýsa gleðinni. Þeir hafa verið fyrirsjáanlegir síðustu dagarnir. Þúsundum landsmanna smalað til sýnatöku með smitrakningar appinu í símanum. Sá klári skrækjandi í fjölmiðlum og Jóhannes útskírari sendur einn út í eyðimörkina svo náfölir pestargemlingar hatursorðræðunnar í athugasemdakerfum medíunnar gætu hafið grjótkastið.
Já og vel á minnst, uppvakningurinn sem reis upp með öfugan krossinn úr kistunni sinni komst að þeirri rökföstu niðurstöðu að það þyrfti fyrst og fremst að elta 10% óbólusettra uppi, ásamt blessuðum börnunum, og sprauta þá ólyfjan svo þeir smituðust kaunum hins margrómaða hjarðónæmis í sama mæli og hinir. Krúttlegi skuldum vafði ferðaþjónustu aðilinn steinheldur kjafti á meðgjöf með atvinnulausum. Helst á honum að skilja að ekki hafi gengið nógu greiðlega að greiða út lokunarstyrkina í vetur.
Já og ekki má gleyma neyðarástandi heilbrigðisiðnaðarins, þar sem starfsmenn, sem ekki hafa nú þegar verið teknir úr umferð vegna sóttvarna og komið fyrir í sóttkví, eru orðnir uppteknir við að skima svo hægt sé að koma fleirum í sóttkví í forvarnaskini. Hver þungbúni læknirinn af öðrum, sem engin heilvita maður myndi láta sér til hugar koma að virða viðlits öðruvísi en láréttur, hefur birst í símanum og sjónvarpinu boðandi fyrirsjáanlegt neyðarástand.
Já við hverju öðru var svo sem að búast en að fábjáni flissaði sig píreyg út í sólskinið ásamt allri heilu helvítis náhirðinni og tilkynnti náföl öryggisvarúðarráðstafanir við drepsótt um mitt sumar. Og nú er þjóðin enn og aftur búin að skrúfa upp þríeykið á seiðhjallinum í viðtæknunum sínum svo bergamálar um alla blokkina.
Á meðan ætla ég að loka mig úti og overdósa d-vítamín í sumrinu, fuglasöngnum og sólinni. Uppskrift sem getur ekki klikkað; -sólin, útlendingar og minnihlutahópar, -jafnvel sjálfur náunginn, -allt er þetta spennandi og stórhættulegt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)