8.10.2020 | 06:13
Vertu góður við geimveruna
Lifirðu því eftirsóknarverða jarðlífi sem þú komst til að lifa? Ertu góður við geimveruna í sjálfum þér? þetta eru ekki einfaldar spurningar. En ekkert svar er mikilvægara en það sem þú gefur sjálfum þér, það hefur að gera með kjarna þíns sanna sjálfs, sálina. Og þegar spurningunum er svarað er rétt að hafa í huga að við lifum lífinu af eigin tilfinningu, ekki með annarra rökum. Eins klæðumst við efni, en erum ekki úr efni.
Vertu því góður við geimveruna og hlustaða á raddirnar í höfðinu svo framarlega sem þær eru þínar. Manneskjan hefur hvorteð er alltaf verið barn stjarnanna. Siðmenningin kortlagði meir að segja stjörnuhimininn lögnu áður en hún kortlagði jörðina undir fótum okkar, nú á tímum felum við samt stjörnuhimininn með raflýsingu sem lýsir rétt svo fram fyrir tærnar en gerir okkur blind á umhverfið sjálft, allt undir formerkjum vísindalegra framfara og rökhyggju. Við viðurkennum varla sálina lengur, vegna þess að hún er hvorki raflýst né vísindalega áþreifanleg líkt og efnislegur líkaminn. En vitundin um okkur sjálf kemur frá sálinni og við vitum að hún býr ekki í líkamanum, því innst inni greinum við að líkaminn býr í vitund sálarinnar og er farartæki hennar í þessu jarðlífi.
Forfeður okkar voru meðvitaðir um að þeir bjuggu í alheimi þar sem líkaminn var til fyrir óáþreifanlega innri vídd. Þar sem línan var var ekki eins skýr á milli sálar og utanaðkomandi veruleika, vegna þess að báðir veruleikarnir þarfnast hvors annars. Sálin var þá stærri hluti hins mikla veruleika og er það reyndar enn. Nú á tímum erum við samt rænd undra ævintýrum ímyndunaraflsins, sakleysisins sem við upplifðum í gegnum visku hjartans með óskeikulu innsæi barnsins. Allt er þetta meira og minna afvegaleitt af efnishyggju og dýrkun á upplýsingar sem okkur eru innrættar frá blautu barnsbeini.
Gervi þörf eftir efnislegri velmegun hefur slitið á tengsl við náttúruna, jafnframt skynjunina á óupplýstan veruleikan sem er umhverfis. Við getum varla sameinast náttúrunni frekar en andlegum verum ævintýraheimsins. Höfum jafnvel snúið bakinu við guðlegum tengingum lífsins, séðum og óséðum , og með því höfum við jafnframt misst samband við okkar sanna sjálf. Við erum aðeins skugginn af sjálfum okkur og upplifum aðeins lítinn hluta þess veruleika sem okkar stendur til boða.
Heimurinn sem við höfum búið okkur líkist æ meir dvalastað djöfulsins. Milljónum saklausra lífa er slátrað á hverjum degi til þess eins að nýta líkama þeirra á veisluborð allsnægtanna og er nú svo komið að aðeins bestu bitarnir rata á diskinn, hitt fer í ruslatunnuna. Villt dýr eru jafnframt drepin einungis sportsins vegna, til dægrastyttingar. Þar kaupa þeir efna meiri leyfi af stofnunum ríkisins til að drepa hreindýr og hika jafnvel ekki við að hirða aðeins lundir og læri. Ef mikilmennum markaðarins, þar sem tíminn er peningar, er síðan bent á að hafa með sér sóðaskapinn heim er svarið allt eins; hélstu að ég væri komin út á land til að bera súpukjöt á milli fjarða.
Sportveiðimenn sem minna hafa á milli handanna stunda magnveiðar á gæsabringum til að selja í fínu veitingahúsin jafnvel með von um að þannig megi fjármagna hreindýraveiðileyfi, eða ferð til Afríku þar sem hægt er að fá að drepa flóðhest í útrýmingarhættu með sjálfum sér á selfí fyrir rétt verð. Dýr eru pínd og kvalin til dauðs í nafni svokallaðra vísinda, í besta falli fyrir græðandi fegrunar krem fyrir aflóga mannfólkið. Allt er þetta gert af fólki sem býr yfir manngæsku og markaðsmenntun. Til að bæta gráu ofan á svart hefur í gegnum tíðina milljónir saklauss fólks verið handtekið, ofsótt og myrt til að ásælast náttúruauðlindir jarðar í nafni tækni og framfara.
Fréttir eru farnar að berast af börnum allt niður í fimm ára aldur, sem eru gefin hugarfarsbreytandi þunglyndislyf eftir vísindalegar greiningar. Foreldrarnir jafnvel orðnir það vel skólaðir að þau seigja frá þeirri blessun að barnið mitt fékk greiningu því nú veit ég loksins hvað gekk að því. Þó það sé búið að lyfjavæða sjúkdómsgreiningar vísindanna í bak og fyrir, þá breytir það ekki því að nú er jafnvel rítalín kynslóðin farin að hverfa úr þessum heimi vegna hjartastopps á besta aldri. Þrátt fyrir allar framfarir vísindanna þá er mannskepnan fyrir löngu orðin óheilbrigðasta dýrategund jarðar.
Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið sótt óumbeðið til saka af lögfróðu fólki vegna ótímabærra dauðsfalla á sjúkrahúsum, því einhver verður að bera ábyrgð þó ekki væri nema hagvaxtarins vegna. Og hvað þegar þeir lögfróðu fá sínu framgengt, breytist þá ekki hlutverk sjúkrahúsa til samræmis við það að flestir enda ævina þar? Er þetta gert í nafni manngæsku og réttlætis, efastu kannski ennþá um að jarðlífið sé umsetið djöfullegum öflum?
Hinn djúpa viska veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sérstaka reynslu í þessum heimi. Þessu fær ekkert breytt, þó svo að allt sé gert til að innræta okkur öllum sama markaðs veruleikann frá vöggu til grafar. Ástæða þess að galdur geimverunnar er ekki upplýstur á okkar tímum er sú að hann brýtur í bága við áþreifanleika markaðsafla, sem bera fyrir sig nútíma vísindum á sama hátt og trúarbrögðum fyrri alda. En galdur andans mun vera til staðar löngu eftir að markaðurinn og nútíma vísindi hafa tortímt sjálfum sér. Annað getur aldrei orðið, því að galdur andans er tjáning hinna eilífu umbreytinga. Trúin og skáldskapurinn verður alltaf mikilvægari en svo kallaðar staðreyndir vísindanna.
Sem manneskjur skynjum við heiminn með hjartanu á mismunandi hátt vegna okkar mismunandi tilgangs. Til dæmis þá eru álfar og geimverur gerðar úr tungumáli en ekki vísindalegu sannreynanlegu efni, rétt eins og mankynssagan. Við trúum mankynssögunni í röðum af lögnu dauðum blöðum, þó svo að hún sé gerð úr sama tungumáli og álfasögur. Við ferðumst um rúm og tíma með hugsun og máli en ef ferðalagið er ekki samkvæmt innrættu normi neyslunnar er stutt í greiningar og pillur. Okkur er tamið að trúa ekki að geimverur séu til, hvað þá álfar, okkur er jafnframt innrætt að treysta ekki á eigin dómgreind varðandi púkana í okkar eigin lífi. Ef þú hugsar og skilgreinir aðstæður það rökfræðilega að þú hættir að trúa innsæi þínu, þá er greindin farin að vinna gegn þér, því getur verið varasamt að hugsa og skilgreina of mikið þannig hættirðu að nota innsæið við að skilja sjálfan þig.
Erfiðustu flækjur hverrar manneskju snúast um skynsemi rökhugsunarinnar, á meðan viska hjartans segir einfaldlega svona er þetta. Hugsuðurinn veit hvernig allt á að vera þó svo að ekkert hjá honum gangi þegar hann ætlar að framkvæma. Gerandinn framkvæmir og fær allt til að ganga upp með síendurtekinni æfingu þó svo að hann hafi ekki hugsað út í hvers vegna. Rökstudd innræting lífsins færir okkur svo oftast þetta tvennt umsnúið í einum pakka, á þann hátt að ekkert virðist virka og við höfum ekki hugmynd um hvers vegna. Hættu að hlusta á þá sem reyna að segja þér að þú gangir með ranghugmyndir og þeir viti betur hvað þér er fyrir bestu, það er ekki svo, ranghugmyndir eru ekki til ef þær koma frá hjartanu og mundu að rökhugsunin verður aðeins þarfur þjónn ef hún þjónar hjartanu.
Þó þér finnist það vera geggjun að fara á móti hámenntaðri rökfræði nútímans þá má hafa í huga að það er engin mælikvarði á heilbrygði neins að vera viðurkenndur í sjúkum heimi. Jafnvel þó röddin í höfðinu hvísli með akademíuni "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur engin til með bjarga þér frá þínu eigin lífi. Flestir vakana upp frá innrættum álögum lífsins skömmu áður en ævinni lýkur, hafðu það í huga, og að síðasta dansinn í þessu jarðlífi stígur þú einn.
Ps. Í andleysi dagsins endurbirti ég þennan pistil sem var hér á síðunni fyrir rúmu tveimur og hálfu ári síðan. Nú með rjómarönd í restina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.9.2020 | 14:50
Bakkabræður komnir með rörahlið á Þjóðminjasafnið
Það verður ekki betur séð en Bakkabræður ráði orðið lögum og lofum á Þjóðminjasafninu og séu farnir að safna rörahliðum og girðingastaurum. Síðuhöfundur hefur nú um tveggja ára skeið gert grein fyrir vorheimsókn að einu fjósbaðstofu landsins í eigu þjóðminjasafnsins hér á blogginu. Eftir vorheimsóknina 2019 var lögð fram spurningin; eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið? Eftir vorheimsóknina þessa árs var velt vöngum yfir arfleið Bakkabræðra.
Bæði árin kom rörahlið við sögu. En þannig er að á Galtastöðum fram er gamall torfbær að hruni kominn þó svo að hver innviðauppbyggingafjárveitingin af annarri fari til viðhalds á bænum ár eftir ár stendur þar varla orðið steinn yfir steini. En aftur á móti hefur forláta rörahlið verið flutt út í mýri hátt í kílómeter frá bænum og vegurinn orðinn því sem næst tvíbreiður að rörahliðinu. Þeir sem til þekkja vita að Galtastaðir er eini bærinn við þennan vegafleggjar og að þar býr ekki nokkur hræða.
Um helgina fékk ég hugboð um að fara út í Galtastaði og kanna hvort og hvernig framkvæmdum sumarsins miðaði því mér til ánægju tók ég eftir því í vor að sinan hafði verið reitt af bæjarstöfnunum og átti því allt eins von á að til stæði að koma steinum sem oltið hafa úr veggjum aftur á sinn stað. Þegar ég beygði inn á afleggjarann heim að bænum jókst ánægjulegur spenningurinn því að mikil umferð vinnuvéla hafði greinilega farið um veginn og ég sá á færi hylla í skurðgröfu ofan við bæ og að heimatúnið hafði verið slegið í sumar.
Til að gera langa sögu stutta þá er nákvæmlega ekkert búið að gera í gamla bænum frá því sinan var reitt af bæjarstafninum, en það er búið að tengja rörahliðið við girðingu sem liggur út og suður mýrarnar, langt inn fyrir bæ, þar vinkilbeygir hún í vestur klesst upp í hæðstu klettabrúnir, þaðan norður og niður að norðurenda rörahliðsins. Nú er gamla girðingin, sem girt var fyrir örfáum árum síðan, í kringum bæinn og heimatúnið, með fínum hengilás á hliðinu, orðin eins og krækiber í helvíti inni í nýju girðingunni.
Fjósveggurinn norðan undir baðstofunni er að hruni kominn sem fyrr og flaksandi bárujárnsplötur brosa upp í norðanáttina þar sem torfið hefur sópast af þakinu. Það er ekki ólíklegt að Þjóðminjasafnið þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur af fjósbaðstofunni sinni eftir veturinn ef fer sem horfir. Kæmi ekki á óvart að safnið myndi eftirláta Skórækt ríkisins girðinguna og rörahliðið svo að fela megi öll verksummerki í órækt Síberíulerkis og Alaskaaspar.
Einhvertíma var metnaður fyrir þessari fjósbaðstofu á Galtastöðum, ef eitthvað er að marka þjóðminjavörð. Í Morgunnblaðsgrein sumarið 2010 fer hún yfir byggingasögulegar perlur og forgangsröðun þeirra. Þar segir að á Galtastöðum fram í Hróarstungu sé varðveitt einstakt alþýðubýli af Galtastaðagerð og unnið sé að viðgerð torfhúsanna. Nú eru liðin rúm tíu ár og ennþá er unnið að því að hægt sé að vinna að viðgerð, sennilega meiningin að girða rollurnar það rækilega frá bænum að þær éti ekki viðgerðirnar áður en næst að reita af þeim sinuna.
En af hverju er torfhús með fjósbaðstofu svona merkilegt? Þjóðminjasafnið segir sjálft á heimasíðu sinni: Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornugerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Í bænum er fjósbaðstofa, reist 1882 af Jóni Magnússyni snikkara, þar sem niðri er fjós en baðstofa er uppi yfir og nýttist ylurinn frá kúnum til húshitunar. Bærinn er lokaður fyrir almenning.
Það má ætla að þjóðminjasafnið hafi tekið við bænum 1976 vegna varðveilugildis hans, og til að sýna almenningi, sem var samviskusamlega gert fram á þessa öld á meðan ábúendur voru á Galtastöðum. Árið 1978 var bærinn lagfærður og endurhlaðin þar sem þess þurfti af hleðslu meistaranum Sveini Einarssyni frá Hrjót. Síðan hafa veggir og innviðið bæjarins fengið sáralítið viðhald. Til þess að fólk geti gert sér grein fyrir hvernig var að búa við fjósbaðstofu er gott að bærinn væri áfram til sýnis, því hann er einstakur á Íslandi.
Þegar Daniel Bruun ferðaðist um Suðausturland upp úr aldamótunum 1900 vakti Austur-Skaftafellssýsla sérstaka athygli hans vegna húsakosts íbúanna og þá sér í lagi fjósbaðstofurnar, sem eru nú flestar endanlega horfnar:
Þegar farið er um Skaftafellssýslur, einkum þó Austursýsluna, tökum vér brátt eftir að byggingarlagið er með miklu fornlegri svip en annars staðar á landinu. Fyrrum bjó fólk á vetrum á fjósloftinu, og sums staðar er það svo enn. Fjósloftið var baðstofan og rúmin í röðum meðfram veggjum. Sums staðar var rúmaröðin aðeins ein og þá á miðju gólfi. Svo lágt var undir loft hjá kúnum, og er kannski enn, að þær ráku hausana oftsinnis upp í baðstofugólfið.
Stundum var þilgólfið aðeins í miðri baðstofunni þar sem rúmin stóðu, en opið meðfram veggjum. Þar leitaði hlýja loftið óhindrað upp frá fjósinu, og kýrnar gátu reist höfuðin dálítið. Hlýtt var í baðstofunni á vetrum af kúnum í fjósinu, en á sumrum voru kýrnar úti. Dæmi voru til þess að bændur, sem reist höfðu nýja baðstofu í sérstöku húsi, fluttu aftur inn í fjósbaðstofuna. Það var títt í Skaftafellssýslum að búa í öðru húsi á sumrum en vetrum (sumarhús og veturhús). Slíkur siður þekktist raunar víðar. (Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár)
Helst er nú að finna frásagnir um daglegt líf í fjósbaðstofum frá gamalli tíð í þjóðsögunum. Hér eru brot frásagna af draugnum Eyjasels-Móra frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð ca 1805: Það var einn dag, að Þóra Hálfdanardóttir var niðri í fjósi að lesa í lærdómskverinu, því að hún átti að fermast á vori komanda. Sá var þá siður víðast, að börn lærðu kverið í fjósi sökum þess, að þar nutu þau bæði næðis og hlýju. Er Þóra hafði verið þar um stund, heyrði fólkið uppi í baðstofunni angistaróp, og er að var komið, var Þóra örend. Ekki virtist nokkur vafi á því, að barnið hafði verið kyrkt til bana.
Önnur frásögn frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðaþinghá ca 1830: Ásmundur hét maður ,Ísleifsson. Hann bjó á Ásgrímsstöðum, en á móti honum á hálflendunni bjó Sigurður, sonur Jóns í Eyjaseli. Katrín hét kona Ámundar, greind kona og skörungur mikill. Eins og margar konur og ekki síst á þeim tímum bar hún mikla umhyggju fyrir kúnum. Eitt kvöld er hún að hlusta eftir, hvort hún heyri nokkurn óróa í fjósinu, en kýr voru þar um slóðir tíðast undir palli. Undrast hún, að ekkert heyrist, að þær jórtri, sem þeirra var vani. Snarast hún þá niður og svipast um í fjósinu. Saknar hún vina í stað, því kýrnar eru horfnar. Vekur hún nú Ásmund, og þau fara að svipast um í bænum eftir beljunum. Innangengt var úr eldhúsi í töðu heyið. Fara þau þangað, og stóð þá eldri kýrin við stálið og kvígan við hjágjöfina. (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)
Til eru lýsingar frá seinni tíma á því hvernig fjósbaðstofa var innréttuð. Lýsing Hrólfs Kristbjörnssonar er í bókinni Skriðdælu, á bænum að Þuríðarstöðum þegar hann var þar sem ársmaður 1899 þá 13 ára gamall:
Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.
Árbók Þingeyinga 2012 hefur að geima einstaklega ítarlega og hlýja frásögn eftir Kristínu Helgadóttur af gamla torfbænum að Gvendarstöðum í Kinn. Kristín ólst upp í gamla bænum og gengur umhverfis hann og í gegnum með lesendum, þegar hún lýsir bæði húsaskipan og lífinu innandyra. Á Gvendarstöðum var fjósbaðstofa fram undir 1948 og leifi ég mér að grípa hér og þar niður í frásögnina þar sem Kristín minnist á fjósið og baðstofuna:
Í fjósi voru fjórir básar og ævinlega einn eða tveir kálfar á tröðinni. Pínulítil gluggabora var til hliðar við innsta básinn og snéri í austur. Básarnir voru með hellum aftast og flórinn var hellulagður. Þennan flór þurfti að moka daglega, þá var mokað upp í fjósbörurnar sem voru kassi með kjálkum á báðum endum. Bræður mínir báru þær á milli sín, út úr fjósi og gegnum gamla eldhús, fram öll göng og bæjardyr, út og niður fyrir varpann. Þar var fjóshaugurinn og ekki aldeilis sama hvernig hann var borinn upp. Þetta var löng leið og erfitt. Þessa sömu leið fóru kýrnar kvölds og morgna þegar farið var að láta þær út þar til þær fóru í sumarfjósið sem var lítið fjárhús úti á túni ofan við götuna.
Næst held ég að við komum inn í baðstofu. Baðstofuinngangurinn var þykktin á veggnum, síðan komu sex tröppur, tvær þær neðstu voru steintröppur, síðan fjórar trétröppur. Baðstofu hurðin var miðja vegu, þrjár tröppur ofan við og þrjár neðan við hurð. Skarsúð var í baðstofu og tveir bitar þvert yfir en vel manngengt undir þá. Þrír fjögurra rúðu gluggar sneru austur og tveir í vestur. Þegar upp var komið var rúm hægra megin við uppgönguna, það sneri öðrum gafli í uppgöngu en hinn nam við þilið. Síðan komu þrjú rúm enda við enda undir austurhliðinni. Bil var á milli þessara þriggja rúma og þess sem var við stafninn.
Á veturna var vatn handa kúnum borið í gegnum eldhúsið og gamla eldhúsið inn í fjósið sem var undir baðstofunni. Það voru fjórar kýr í fjósi og þeim þurfti að brynna kvölds og morgna og nýborinni kú oftar. -, , , , maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því , , ,
Hvernig varðveisla einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins varð að rörahliði og tvöfaldri girðingu utan um hálfhruninn torfbæ er verðugt rannsóknar efni. Ef skyggnst er um á gúggul má finna ýmislegt um verkefnið. Í stjórnartíðindum 2018 eru 8.250.000 eyrnamerktar til varðveislu bæjarins, árið sem rörahliðið birtist. Og stóð síðan í tvö sumur eitt og yfirgefið ásamt tvíbreiðum malarvegi úti í mýri. Árið 2019 má sjá að 9.250.000 eru eyrnamerktar Galtastöðum en ekki lengur vegna viðhalds bæjarins heldur deiliskipulags bílastæða, göngustíga og girðinga. Það er helst að manni detti í hug að Bakkabræður séu komnir í nútímann og loksins búnir að læra hvernig á að fylla út umsóknir um fjárframlög með exel.
Hús og híbýli | Breytt 29.9.2020 kl. 06:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2020 | 06:09
Haustmánuður
Nú lengjast skuggar og kular um kaun þegar krafsar í mann kuldinn. Bara allt í einu komið hrímkalt haust. Jafndægur var fyrir tveimur dögum og nóttin er nú lengri en dagurinn þó svo að ekki sé komin nein myrkurtíð hefur sumarið nú þegar frosið á framrúðunni.
Þessi árstími tekur meira í með hverju árinu sem liður. Gömlu grónu meiðslin, sem safnast hafa á skrokkinn í gegnum árin, segja til sín með kala eftir að hafa legið í dvala bjartsýninnar á hlýju sumri. Steypa dagsins þyngri þraut en torf og verkir vaka langar nætur fram á dimma morgna, -jafnvel þó vinnudagur sé örstuttur hjá hrumu hrói.
Haustmánuður er sjötti og þar með síðasti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu, sem deilir árstíðinni í tvennt, -sumar og vetur. Haustmánuður var einnig talin vera 12. mánuður ársins. Hann hefst alltaf á fimmtudegi í 23. viku eða 24., ef sumarauki er, þ.e. 21.-27. september. Haustmánuður er nefndir svo í Snorra Eddu, en hefur einnig verið kallaður garðlagsmánuður, því þessi tími árs þótti hentugur til að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða.
Samkvæmt gamalli venju er nú tími að plægja land það sem sáð skal í að vori. Vatnsveitingaskurði er gott að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þennan tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.
Sumri og vetri er samkvæmt gamla tímatalinu skipt í tvær jafnlangar árstíðir. Haustmánuður byrjar nálægt jafndægri að hausti og er yfir tíma þar sem nóttin er lengri en dagurinn, ætti því samkvæmt gangi sólar að tilheyra vetrinum. Þar sem Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn, sem hefst í kringum 20. apríl, telst Haustmánuður sjötti mánuður sumars.
Það sýnir vel hvað gamla tímatalið var vel ígrundað, að það tók ekki einungis mið af afstöðu sólar við miðbaug, einnig tók það mið af lofthita og gangi náttúru jarðar sem er mun hagstæðari fyrsta mánuð eftir haustjafndægur heldur en á fyrstu vikum eftir vorjafndægur, sem eru um 20. mars.
Undanfarin sumur hef ég jórtrað íslenskt ofurfæði, því ég nenni ekki lengur að setja niður kartöflur. Langt er síðan ég fékk áhuga á að kanna hversu hollar villtar jurtir væru úr íslenskri náttúru. Flóran sem ég hef prufað er orðin fjölbreitt má þar helst telja; bláber, fjallagrös, njóla, fífla, hundasúrur, hvönn, melfræ, beitilyng, blóðberg og nú síðast í haust hvannarfræ. Rabbabarinn ruglast með þó hann teljist ekki til villijurta ennþá eins og njólinn og hvönnin, sem upphaflega var garðagróður ræktaður til matar og lækninga.
Fyrir veturinn söfnum við Matthildur mín því sem hægt er að geyma af lystisemdunum. Í frosti eru það bláber og rabbabari. Fjallgrösin eru auðveld í geymslu og núna í haust bættist við fræ af hvönn. Það hefur varla liðið dagur síðustu 5-6 árin sem eitthvað úr villtri náttúru hefur ekki verið á borðum. Meir að segja er það orðið svo, um það bil þrjá mánuði yfir sumartímann, að uppistaða matmálstíma er úr flóru landsins.
Það má segja að undanfarin ár hafi verið farið út um þúfur og lagst í berjamó upp úr verslunarmannahelgi. Hreyfingin og upplífgandi útiveran innan um fugla himinsins gefur miklu meira en hálfa hollustuna. Um síðustu helgi var punkturinn settur yfir i-ið á þessu sumri í aðalbláberjamó við lognstylltan Mjóafjörðinn og á vindasömu grasafjalli á heiðum Vopnafjarðar.
Það má vel vera að ég birti hér á blogginu einn daginn lokaritgerð um lækningamátt íslensks illgresis, en læt það vera að sinni, því betra er að æra ekki óstöðugan þegar löggilt læknanna ólyfjan er annars vegar.
Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.
Kristján Jónsson
Heimildir;
https://is.wikipedia.org
http://natturan.is/samfelagid/efni/7426/
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.9.2020 | 13:37
Ævisaga draugs
Það hafa verið vaktir upp magnaðir draugar frá ómunatíð. Því má allt eins segja að daglegt líf fólks helgist af draugagangi. Síðustu misserin hefur það verið covid-19, 2008 fjármálahrunið, 2001 hryðjuverkastríðið, stríðið gegn fíkniefnum seint á síðustu öld, kalda stríðið og þannig má rekja draugaganginn í grófum dráttum allt aftur til staðbundinna skotta og móra þjóðtrúarinnar.
Af því að ég er orðin svo hundleiður á kóvítis-kjaftæðinu þá hef ég undanfarið lagst í að lesa gamlar draugasögur. Ég lét mig meir að segja hafa það að fara á bókasafnið og verða mér úti um lítt þekkta ævisögu draugs, skráða af Halldóri Péturssyni. En sá draugur á að hafa verið ættarfylgja hans öldum saman.
Í fágætlega fróðlegum formála bókarinnar segir Halldór m.a.:
Það er athugavert að um miðja átjándu öld fara Austfirðingar að setja drauga í samband við vísindi og kom læknisfræði þar til. Lítið var um lækna, en lærðir menn, sem aðallega voru prestar og sýslumenn, fóru að hafa meðul með höndum til að liðsinna fólki. Fólkið vissi að draugar voru staðreynd, en trúin á að þeir væru vaktir upp snerist á þá sveif, að þá mætti framleiða úr meðulum.
Halldór segir á öðrum stað í formála:
Ég hef oft ekki getað varist þeirri hugsun, hvort það væru ekki í raun og veru draugar sem stjórnuðu heiminum. Kannski eru draugar og aðrar sviðverur á þeirri bylgjulengd ekkert annað en baráttan á milli ljóss og myrkurs, sem staðið hefur frá örófi alda.
Og í formálanum spyr Halldór:
Gæti það átt sér stað, að heilar þjóðir og jafnvel heilar heimsálfur mögnuðu af haturshug öfl eða drauga, sem hin svokallaða tæknimenning hefur ekki taumhald á?
Undir lok formálans kemur hann inn á þetta:
Hver veit nema harðlæst hlið hrökkvi upp, áður en langt um líður og þá verði því auðsvarað, hvers eðlis draugar eru og einnig því, hvort fyrirbæri andatrúarmanna eigi rót sína að rekja í framhaldslífi. Hér liggja margir þræðir út í óvissuna, en leitin að lögmálinu er það eina, sem leysir gátuna. Við skulum hugsa okkur, að fyrir tíu árum hafi einhver, sem við þekkjum, átt segulþráð og sjónvarp, án þess að við hefðum haft hugmynd um slíkt. Hann hefði neytt þessarar tækni og boðið okkur einn góðan veðurdag á andafund við dauft ljós. Þar hefðum við bæði heyrt og séð dána menn sem við nauðþekktum. Það þarf ekki að efa hvað við hefðum haldið þá.
Hún er athyglisverð samlíking Halldórs við draugagang á ljósvakamiðlum s.s. í sjónvarpi, því bókin er frá árinu 1962, fyrir daga íslensks sjónvarps, þó svo að Halldór hafi greinilega þá þekkt til sjónvarps.
Nú til dags eru okkur færður draugagangur í gegnum fjölmiðla s.s. í sjónvarpi og snjallsíma. Við trúum á draugana þó svo að við höfum aldrei séð þá, aldrei upplifað á eigin skinni djöfulgang þeirra og jafnvel þekkjum engan sem það hefur gert. En við trúum á frásagnirnar og sjónhverfingarnar svo framarlega sem þær eru rétt framreiddar af medíunni í gegnum fréttatímana.
Þjóðsagna ritarinn Sigfús Sigfússon segir svo um þá ættarfylgju Halldórs Péturssonar sem hann sá ástæðu til að rita um ævisögu 1962.
Hann var miklu líkari manndjöfli. Þykir þeim eiga best við hann orð skáldsins: Allir sáu þann illa gest, / óskyggnir sem hinir. Hefur mörgum þótt að hann mundi frægasti kappi eða svo sem höfðingi drauganna því af honum munu einna mestar sagnir allra drauga og vart mun annar nafni hans þótt honum skæðari. Segja menn honum skapaðan aldur í 300 ár. Fyrsta öldin framfaraskeið, önnur viðhaldskeið, þriðja afturfaraskeið. Honum var áskapað að drepa eigi færri en sjö menn, segja sumir, aðrir segja þrjá á mannsaldri og átti hann að yngja sig með því. Í uppsveitum hefur hann oftast verið kallaður Eyjasels-Móri. En í Útmannasveit er hann jafnan kallaður Hóls-Móri. (Þjóðsögur SS,II bindi bls261)
Ég hef sem sagt verið að kynna mér ævisögu Eyjasels-Móra. Sagt hefur verið, nú á tímum, að Eyjasels-Móri hafi verið fyrsta glasabarnið. Sagnirnar af Eyjasels-Móra eru einungis í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar, nema ein, sem er frá 20. öldinni, í þjóðsagnasafninu Skruddu, og þær sem Halldór tilgreinir í ævisögunni frá sínum tíma. Sögurnar af Móra væru sennilega flestar glataðar hefði Sigfús ekki safnað þeim saman.
Halldór Pétursson var 20. aldar maður og tekur það sérstaklega fram í formála að hann trúi ekki á drauga. En Eyjasels-Móri þótti fylgja Halldóri á yngri árum og boða komu hans með djöfulgangi. Þó svo Halldór hafi ekki trúað á drauga þá lætur hann það sem aðrir sögðu um hvernig hann sjálfur sækti að fylgja í ævisögu Eyjasels-Móra ásamt því sem Sigfús skráði, auk þess litla sem hann hafði heyrt sitt fólk tala um Móra.
Í grófum dráttum er sagan af tilurð Móra sú að um aldamótin 1800 flytur Hálfdan Hjörleifsson ásamt konu sinni og börnum frá Eyjaseli í Ketilstaði í Jökulsárhlíð, en Eyjasel var afbýli frá Ketilsstöðum. Faðir Hálfdans hafði búið á Ketilsstöðum en var fallin frá og Hálfdan tók við búi á Ketilsstöðum þar sem þeim hjónum búnaðist vel og voru talin til meiriháttar bændafólks.
Á Ketilstöðum bjó einnig fólk Hálfdáns og Guðlaugar Einarsdóttur konu hans, m.a. Ingibjörg systir Hálfdans vinsæl ung og myndarleg kona. Ingibjörg hafði farið 22 ára gömul til starfa í Hallgeirsstaði í sömu sveit til Brynjólfs Péturssonar læknis, sem þá var miðaldra ekkjumaður.
Brynjólfur á að hafa farið á fjörurnar við Ingibjörgu, en í stuttu máli fór sú fjöruferð svo að Ingibjörg forðaði sér hið snarasta heim í Ketilsstaði. Er hún kom heim veiktist hún hastarlega innvortis og voru meðul fengin hjá Brynjólfi. Þegar Ingibjörg hafði tekið meðalið varð hún vitskert.
Aftur var leitað á náðir Brynjólfs með meðal til að lækna geðveikina. Þegar komið var með það meðalaglas frá Hallgeirsstöðum út í Ketilsstaði og það opnað steig upp úr því gufa sem fólki sýndist þéttast í mórauðan strák með skörðóttan barðastóran hatt og upp frá því hófst djöfulgangur sem á sér enga líka.
Skepnur á Ketilsstöðum voru drepnar umvörpum á hroðalegan hátt, húsum riðið og þau brotin niður dag og nótt. Þóra, dóttir Hálfdans og Guðlaugar, fannst kyrkt í fjósinu sem var undir baðstofunni þegar fólk kom að eftir að hafa heyrt ópin í henni upp í baðstofu. En Þóra hafði farið niður í fjós til að hafa næði við að lesa í kverinu það sem hún þurfti að kunna fyrir fermingu.
Til er Lýsing manns í safni Sigfúsar, sem kom í Ketilsstaði um þetta leiti, en þá hafði öllu sauðfé verið sleppt og það rekið frá húsum svo það slippi frekar við misþyrmingar Móra sem kvaldi lífið úr blessuðum skepnunum með hlátrarsköllum:
Árni Scheving, greindur maður og skilagóður, bjó í Húsey í Hróarstungu. Hann kom að Ketilsstöðum og segir svo frá, að aldrei hafi hann getað hugsað sér slíka aðkomu á einum bæ. Fólkið lá flest í rúminu, og engin hlutur virtist á sínum stað. Útihús skæld, brotin og sliguð, hurðarbrot, raftar, árefti og tróð úti um öll tún. Bæjarhús einnig mjög illa farin og engin hurð á járnum.
Leitað var til skyggns og fjölfróðs manns úr Vopnafirði ef vera kynni að hægt væri að hemja Móra. Sá taldi best fyrir Hálfdan og hans fólk að yfirgefa Ketilsstaði og flytja hið minnsta yfir þrjú stórfljót til að losna við óværuna.
Ævi Ingibjargar, þeirrar sem Móri var upphaflega sendur í meðali, varð ekki björt. Hún fluttist í Vopnafjörð og sneri aldrei aftur í sína heima sveit. Þó svo að hún næði sér að nokkru átti þessi myndar kona ekki sjö dagana sæla, varð hálfgerður niðursetningur. Lítið er um ævi hennar vitað en vitnisburður í húsvitjunarbók segir Halldór vera svo ruddalegan og lítilsvirðandi að hann hefur hann ekki eftir, nema veik á geði, geðveikluð.
Hálfdan leitaði jarðnæðis fyrir sitt fólk og fékk ábúð á Hóli í Hjaltastaðaþinghá, en þangað var einungis yfir tvö stórfljót að fara, Jöklu og Lagarfljót, engin jörð var á lausu austan Selfljóts. Talið er að ef Hálfdan hefði fengið jarðnæði austan Selfljóts þá hefði hann losnað við Móra fyrir fullt og allt.
Á Hóli lét Móri Hálfdan í friði, þó svo að fólk í Hjaltastaðaþinghá yrði vart við hann þegar Hálfdan og hans fólk var á ferð. Móri hélt sig eftir flutning Hálfdans að mestu í Eyjaseli hjá Jóni bróðir hans. Einar sonur Hálfdans bjó eftir föður sinn á Hóli og gilti það sama um hann og föður hans, Móri var spakur á Hóli en verri í Eyjaseli.
Sá sonur Einars sem tók við á Hóli eftir föður sinn hét Hálfdan og var eins og forfeðurnir atgerfismaður, hraustur og vinsæll. Fólkið á Hól vissi alltaf af nærveru Móra en leiddi hann hjá sér og fékk frið fyrir honum. En Hálfdan gat ekki stillt sig um að espa hann á sig enda var hann það hraustur að hann hafði lengi vel í fullu tré við Móra.
Hálfdan kvæntist skörulegri konu sem hét Sigurbjörg en hún var ekki jafn vinsæl og hann meðal sveitunganna. Smá saman fór Hálfdan að fara halloka fyrir Móra auk þess að gerast drykkfelldur. Þau hjónin misstu öll börnin sín 5 úr barnaveiki á tæplega tveggja mánaða tímabili sumarið 1861.
Seint í nóvember veturinn eftir fór Hálfdan inn að Ekru til að fá yfirsetukonu því Sigurbjörg átti von á barni. Veðurútlit var ekki gott og varð úr að Hálfdan lagði einn á stað út í Hól. Hann kom við á bæjum á leiðinni bæði Dratthalastöðum og Víðastöðum. Þá bjó á Víðastöðum Jón Þórarinsson sem áður hafði verið vinnumaður hjá Hálfdan á Hóli.
Hálfdan var eitthvað við vín og muldraði við Móra. Jón bauð honum að gista á Víðastöðum því það var komið kvöld og veðrið versnandi. Það vildi Hálfdan ekki, hann vildi komast heim í Hól til Sigurbjargar sinnar, enda ekki svo langt á milli bæja. Jón fylgdi Hálfdani hálfa leið og sneri svo heim í Víðastaði.
Jón sagði að Hálfdan hefði verið afleitur í umgengni, hvað eftir annað hefði hann þurft að fljúgast á við hann. Veðrið var vont þessa nótt og mikið gekk á húsum í Hól, Sigurbjörg er sögð hafa vitað að nú væri hinsta stund Hálfdans upp runninn og Móri ætti þar sök á. Aðrir héldu að Hálfdan hlyti að hafa gist inn á bæjum veðursins vegna.
Þegar veðrið gekk niður var maður sendur inn á bæi til að vitja um Hálfdan. En hann fannst fljótlega andaður af helsári illa útleikinn í rifnum og tættum fötum, rétt innan við Hól úti á ísnum á Lagarfljótinu í bugtinni þar sem það beygir út með Hólsbæjunum.
Það mátti sjá af sporum í snjónum hvar þeir Jón höfðu skilist að og eins að þeir höfðu slegist á leiðinni frá Víðastöðum þar til þeir skildu. En ekki var hægt að átta sig á af hvaða völdum Hálfdan var rifinn og fatalaus þar sem hann fannst, ekki þótti ástæða til að ætla að Jón á Víðastöðum ætti sök á dauða hans.
Sigurbjörg kona Hálfdans fæddi fljótlega barnið, sem var stúlka, skírð Hálfdanía Petra Katrín Ingibjörg Ragnhildur. Eftir þetta fylgdi Móri þeim mæðgum eins og skugginn og gerði Háfdaníu oft sturlaða af ótta. Sigurbjörg á að hafa sagt að Móri myndi sennilega drepa Hálfdaníu en ekki fyrr en eftir sinn dag.
Halfdanía var um þrítugt þegar Sigurbjörg dó, þá voru þær mæðgur staddar á Sleðbrjót í Hlíð. Skömmu síðar trúlofaðist hún og fluttist með mannsefni sínum að Birnufelli í Fellum. Ófögnuðurinn fylgdi henni og hún lagðist fljótlega í rúmið þar sem vakað var yfir henni dag og nótt. Svo virtist henni létta og brá þá maður hennar sér frá, en þá hljóðaði hún hátt og þegar hlaupið var til hennar reyndist hún öreind og var sagt að hún bæri öll merki þess að hafa verið kyrkt.
Sögurnar af Eyjaseld-Móra og örlögum ættarinnar er samfelld harmasaga í 100 ár og hér hefur aðeins verið stiklað á stöku atburðum sem tengjast Hálfdans nafninu án þess að segja sögurnar sjálfar. Til að fá smá yfirsýn yfir draugaganginn fyrstu hundraða árin eru sagnirnar í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar.
Á 20. öldinni rekur svo Halldór Pétursson sagnir af Eyjasels-Móra í ævisögu hans, en Móri var eins og kom fram hjá Sigfúsi magnaðastur fyrstu 100 árin, næstu 100 viðhélt hann sér og það má segja að Halldór taki til þess tíma og segi m.a. söguna af því hvernig að hann fylgdi honum sjálfum, og bróður hans til Danmerkur.
Enn eru, samkvæmt 300 ára uppkrift Eyjasels-Móra, um 80 ár eftir af líftíma hans og forvitnilegt væri að vita hvort einhverjir kannist við kauða í nútímanum. Annars kemur Halldór inn á það í ævisögu Móra að hans fólk hafi aldrei viljað minnast á drauginn og hafi talið besta ráðið til að losna við hann að þegja hann í hel eins og virðist hafa lukkast þokkalega hjá þeim Hálfdani eldri og Einari syni hans á Hóli.
Reyndar er talið að Móri hafi drepið Einar og hafi eftir að hann drap Hálfdan yngri fylgt tveim systrum hans og þeirra afkomendum, til jafns við þær Sigurbjörgu og Háfdaníu. Þóra Einarstóttir, systir Hálfdans, var amma Halldórs Péturssonar hún og systir hennar voru ásamt föður sínum í hans hinstu ferð. Varð Þóra vitni af því ásamt fleira fólki þegar Einar faðir þeirra fórst á vofeigilegan hátt.
Halldór segist eitt sinn hafa spurt Þóru ömmu sína hvort það geti ekki verið Jón á Víðastöðum hafi átt sök á dauða Hálfdans bróður hennar á Fljótinu við Hól forðum. Hún sagði honum að láta sér ekki í eitt augnablik svoleiðis um hug fara. Hálfdan hafi verið svo miklu hraustari en Jón, auk þess hefi verið gengið úr skugga um þetta á sínum tíma.
Eins minnist Halldór þess þegar Sigfús Sigfússon kom í heimsókn og bað leyfis til að fá að lesa yfir sögurnar, sem hann hafði safnað um Eyjasels-Móra, fyrir vinafólk sitt á Geirastöðum, æskuheimili Halldórs þar sem foreldrar hans bjuggu, til að fá viðbrögð við sögunum. Þá gaf engin neitt út á þessi skrif þó hlustað væri, bæði vegna þess að Móri var algerlega hundsaður og trú á drauga ekki talin gáfuleg. En eftir að Sigfús var farin þá hefði eitt og annað verið leiðrétt með fáum orðum, því hafa skildi það sem sannara væri.
Strax í formála bókarinnar um ævi Eyjasels-Móra kemst Halldór að niðurstöðu um þá draugatrú sem hann kvaðst ekki hafa, og þar af leiðandi hvers eðlis draugar eru:
Skoðun mín á draugatrú er í raun sú, að það, sem við köllum draug, sé hugarfóstur, kraftur, sem maður skapar með einbeittri hugsun í ákveðnu markmiði. Þessi kraftur getur tekið á sig form, og hægt er að senda hann á ákveðinn stað og halda honum við með sömu hugsun af öðrum mönnum.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.10.2020 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.9.2020 | 16:14
Kári í fári
Verða extra löngu eyrnapinnarnir nú brýndir með bómull og reknir upp í hvers manns nasir? Munu niðurstöður skimanda skálka ráða úrslitum um það hvar hver og einn verður gjaldgengur?
Kári í fári veður nú um völlinn eins og hani í skítahaug. Nú veltur á því hvaða vísindi þríeykið á seiðhjallinum opinbera almenningi næst í beinni, og hvaða sviðsmyndir úr spálíkaninu verða kynntar fábjánunum sem flissuðu fyrr um við Austurvöll.
Enda, hvernig á annað að vera, medían búin að mæra drauginn meira en sjálfan Björgólf Thor um árið, sem hún taldi hæfastan til að reka Ísland korteri áður en Landsbankinn fór í money haven.
Nú þarf Kári engan Hannes lengur, skítahaugurinn og tvöföld skimun nægir, -og ef það dugir ekki til þá má alltaf skima þrisvar þar til bóluefnið og stóra skimunarvélin kemur. Sjúklingar eru fyrir löngu orðnir óþarfir.
Er ekki kominn tími til að skima fyrir táfýlu til að skera úr um tilverurétti fólks innan um fólk? Eða er Kári kannski orðin spítalamatur?
![]() |
Ættum að búa okkur undir nýja bylgju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
10.9.2020 | 21:03
Jöklarnir bráðna - lofið vorn drottinn
Það fer mikið fyrir hamfarahlýnun þessi misserin enda gæti hver farið að verða síðastur til að missa ekki af henni ef eitthvað er að marka 30 ára sveifluna sem bent hefur verið á af reynsluboltum í veðurfræði. Það er svolítið sérstakt að sjá Breiðamerkurjökul sérstaklega tilgreindan sem hamfarahlýnunar-dæmi á Sky, því eins nafn og jökulsins ber með sér var þarna gróið land sem hann gekk yfir.
Það er vitað að byggð var víða um landnám þar er jökull gekk síðar yfir og eyddi. Þar á meðal Breiðamörk sem jökullinn var síðar við kenndur. Áður fyrr var byggð undir Breiðamerkurfjalli í A-Skaftafellssýslu sem eyddist undan ágangi jökulsins. Þar stóð bærinn Fjall, landnámsjörð Þórðar Illuga, eða Illuga Fellsgoða. Austar með Breiðamerkurfjalli stóð Breiðamörk sem talin er hafa heitið Breiðá þar á undan þar bjó Kári Sölmundarson sá sem um er getið í Brennunjálssögu.
Í sumar gerði ég það að gamni mínu að keyra upp undir Breiðumarkarjökul. Það land sem nú er að koma undan jökli er ekki beint búsældarlegt, lítið annað en urð og grjót auk bráðins jökulvatns. En hver veit hvað verður ef hamfarhlýnunin heldur sínu striki, kannski verður þá þarna búsældarlegir landkostir svipaðir og fyrir 1000 árum, eftir 100-150 ár eða svo, en Breiðamörk er talin hafa endanlega horfið undir jökul um 1700.
Það sem vakti þó meiri athygli mína þegar ég fór um Breiðumörk í stórgrýtis urðinni sem gerði gamla Cherokee draghaltan, var skilti sem ég rakst á upp við jökullónið undir Breiðamerkurfjalla. Á þessu skilti var mögnuð saga af lífsbaráttu bænda í Öræfum á 20. öld við Breiðamerkurjökul. Ég ætla að leifa mér að birta hana hér fyrir neðan.
Þann 7. nóvember 1936 voru Sigurður Björnsson á Kvískerjum, þá 19 ára gamall, og Gunnar Þorsteinsson á Hofi, að huga að sauðum í Breiðamerkurfjall. Þá féll á þá snjóflóð. Gunnar lenti í vesturjaðri flóðsins og stöðvaðist fljótlega. Sigurður lenti í miðju flóðsins og barst með því um 200 m niður bratta og grýtta hlíðina og stöðvaðist loks vel skorðaður á hvolfi og í kafi í snjó, 28 m niður í djúpri gjá á milli jökulsins og fjallshlíðarinnar.
Eftir að hafa leitað Sigurðar um stund gekk Gunnar heim að Kvískerjum eftir hjálp, en þangað var þriggja klukkustunda gangur. Sigurðar var leitað án árangurs til miðnættis þann dag, m.a. í gjánni þar sem hann lá. Daginn eftir var maður látinn síga niður í gjána og heyrði hann þá Sigurð syngja sálminn "Lofið vorn drottinn, , ," fullum hálsi.
Sigurður var dreginn upp úr gjánni kaldur og máttfarinn eftir að hafa legið þar í 25 klukkustundir. Hann var bundinn á sleða og fluttur heim að Kvískerjum. Svo heppilega vildi til að Héraðslæknirinn var staddur í Öræfunum þennan dag.
Nokkru fyrir slysið hafði Sigurður lesið bók um það hvernig haga ætti sér við slíkar aðstæður til að eiga möguleika á að lifa af. Sagt var að menn ættu að reyna að sofna eins fljótt og þeir gætu meðan þeir væru óþreyttir. Þetta gerði Sigurður en þegar hann vaknaði aftur fór hann að syngja sálma sér til hugarhægðar og til að halda á sér hita.
Það varð til þess að leitarmenn heyrðu til hans. Sigurður var vel klæddur í ullarnærföt, en einnig hafði hann troðið jakkann sinn fullann af heyi til að gefa sauðunum. Heyið hefur eflaust hlíft honum í fallinu og einangrað hann gegn kulda á meðan hann beið bjargar.
![]() |
Hvernig Ísland er að bráðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 11.9.2020 kl. 05:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
5.9.2020 | 07:48
Svartidauði í sparifötum
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska, þannig að þú þarft ekki að hafa nokkrar áhyggjur sagði Óskar sundkennari á Laugum, vatnsgreiddur á bakkanum eftir að hafa hent mér út í djúpa endann, þegar ég hafði sagt honum að ég væri ósyndur. Þannig var að þegar ég kom sextán ára gamall í Lauga taldi ég rétt að upplýsa sundkennarann um að ég væri ósyndur eftir uppeldisárin.
Það má segja að sama hafi átt við um algebruna og sundið þegar ég komst að því að eina leiðin til að finna óþekkta stærð væri að kasta sér út í djúpu endann eftir þeirri þekktu og komast að bakkanum. En efir það gátu skólastjórnendur á Laugum ekki haft mig lengur, enda hafði ég komist upp á lag með að drekka brennivín strax á æskuárunum svika-, hjálpar- og stjórnlaust áður en í Lauga kom.
Því hefur flogið fyrir hér á síðunni að ég hafi prísað mig sælan að hafa sloppið við lokaritgerðina og er þá blessuðu brennivíninu stundum þakkað fyrir að síðuhafi lenti ekki í bókhaldinu. Enda hvernig á annað að vera hjá manni sem veit að tveir plús tveir þurfa ekki að vera fjórir frekar en honum sýnist.
Því verður seint neitaða að það var ekki vegna staðfestu heldur hundaheppni að ævistarfið hefur einkennst af leikjum bernskunnar. Halda mætti að það að hverfa úr skóla til að stunda byggingavinnu væri kjörin leið til að fjármagna fyllerí, en svo er ekki.
Ég ætla samt ekki að draga dul á að brennivínið réði lögum og lofum í mínu lífi strax á unglingsárum, svo rækilega að strax um 17 ára aldurinn reyndu bæði móðir mín og föðurbróðir að koma mér til að leita aðstoðar.
Það var svo ekki fyrr en ári eftir að móðir mín kvaddi þennan heim að ég lét af þeirri áeggjan verða og fór í afvötnun á Silungapoll og þaðan í meðferð á Sogn. Þá var ég nýlega 19 ára, og fór mest allur veturinn 1980 í það að viðurkenna vanmáttinn gagnvart áfengi.
Árin á eftir voru fallvölt því að ég átti mjög svo erfitt með að sættast við æðri mátt. Það má segja að ég hafi aðeins tekið fyrsta skrefið með því að viðurkenna vanmáttinn og að mér væri orðið um megn að stjórna eigin lífi. Mörgum föllum og árum seinna, kynntist ég henni Matthildi minni og varð ljóst að ef þau kynni ættu að endast þá yrði ég að viðurkenna fleira en vanmáttinn.
Hugleiðinguna fyrir neðan, um hversu skaðlegur Svartidauði getur verið, setti ég hér á síðuna fyrir rúmum 3 árum síðan og endurbirti nú í gúrkutíð pestarfársins, sem hefur sett hömlur á flest annað en opnunartíma vínbúða.
Hversu oft hefur einhver sem þú þekkir orðið ölvaður og hagað sér á þann hátt sem ekki var von á? hækkað róminn óvanalega mikið við að upphefja eigið ágæti, jafnvel beitt ofbeldi, gert sig sekan um kynferðislegt lauslæti, orðið valdur af eyðileggingu á eignum, eða staðið að einhverjum öðrum neikvæðum aðgerðum sem ekki eru viðkomandi eðlislægar?
Hugleiddu þetta í augnablik - eins hvort þetta eigi eitthvað skylt við birtingarmyndir heilsteypts persónuleika, kærleika eða jákvæðni? - Samfélagið viðurkennir áfengi sem félagslega jákvætt hjálparmeðal og þar með væntanlega birtingamyndir þess, jafnvel þó það þurfi stundum að nota afsakanir á við; hann eða hún gat nú lítið að þessu gert sökum ölvunar.
Þetta sama samfélag telur sjálfsagt að gera einstaklingnum erfitt fyrir við að skaða sjálfa sig og aðra með tóbaksreykingum þar sem fólk hittist á almannafæri. Þó svo að fylgifiskar tóbaks séu ekki sambærilegir, þá eru þær saklausar hjá andsetningu persónuleikans. Það er t.d. óþekkt að einhver hafi tapað sér við að reykja pakka af sígarettum og hafi af þess völdum gengið í skrokk á öðrum, splundrað heimili eða drepið mann.
Þrátt fyrir að áfengi hafi fylgt manninum í gegnum aldirnar þá hefur almenningur sennilega aldrei verið fjær því að fá haldbærar skýringar á þeim andlegu afleiðingum sem neysla þess veldur. Skaðsemi áfengis á mannsandann getur verið djöfulleg og ætti því að vera opinberlega viðurkennt að orsakanna er að leita í ósýnilegum andaheimi, - en það er ekki svo í heimi nútíma efnishyggju.
Til að átta sig á hvers konar öfl er við að eiga er rétt að skoða merkingu orða sem höfð eru yfir áfengi, s.s. brennivín, vínandi (spíritus), alkóhól osfv. Þarna er um líkingamál að ræða, sem á m.a. að höfða til lífsins vatns, að mestu ættað úr gullgerðarlist.
Það mætti ætla að orðið vínandi skýrði sig að fullu sjálft í því samhengi þegar talað er um huga, líkama og sál. Með skírskotun til þess að andinn sé sá hluti þeirrar þrenningar sem samsvari sálinni. Þessari merkingu vínandans hefur þó verið haldið til hlés í vestrænu samfélagi þar sem alkahól er viðurkennd efnafræði til félagslegra nota.
Efnafræðilega skíringin á vínanda er sú að hann sé gerður úr gerjuðum vökva, sem er hitaður og sýður þá áfengið á undan vatninu og myndar gufu. Þegar gufan er leidd í rör og kæld þéttist hún og verður að vökva sem er mun sterkara áfengi en t.d. vín og bjór. Slíkur vökvi fékk latneska heitið spíritus, -vínandi.
Orðið alkóhól er sagt upphaflega dregið af arabíska orðinu "Al-Kuhl" enska afsprengið er alcohol. En samkvæmt arabísku er Al-Kuhl eða al-gohul, andinn yfirtekur holdið. Alkóhól er, samkvæmt þessari Mið-Austurlensku þjóðtrú, illur andi sem sækist eftir mannsholdi.
Þetta er eftirtektarvert í því ljósi að áfengi er bannað til félagslegrar iðkunnar í flestum Mið-Austurlanda. Í vestrænum ríkjum þykja áfengisbönn bábiljur og hér á landi kallaði ríkið sinn vínanda "Íslenskt Brennivín".
Það fór samt ekki fram hjá þjóðarsálinni um hverskonar anda var að ræða, sem kallaði Brennivín ríkisins umsvifalaust Svartadauða. Eins þekkir þjóðarsálin hugmyndir um að drukkið sé í gegnum einhvern, þegar persónuleiki viðkomandi verður óþekkjanlegur vegna áfengisdrykkju.
Við getum litið svo á að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hefur að geyma persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin er hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið.
Með eimingu áfengis er kjarna vínanda náð. Með því að setja alkóhól í líkamann þá er þessi andi innbyrtur, sem gerir einstaklinginn berskjaldaðri fyrir nálægum öflum sem mörg hver eru á ósýnilegri tíðni. Þetta telja flestir áhættunnar virði til að losa um félagsleg höft t.d. feimni og stundum er sagt að öl sé innri maður.
En jafnhliða slævir áfengið dómgreind og þegar of mikið er drukkið slokknar á henni og hugurinn dettur út af og til eða jafnvel sofnar. Það sama þarf samt ekki að gerast með líkamann það er hægt að vaknað upp síðar á allt öðrum stað en þeim sem hugurinn hvarf frá, jafnvel frétta af fullu fjöri í aðstæðum sem ekki er kannast við, þetta er stundum kallað blackout, og öl verður annar maður.
Það sem gerist í blakcout er að sá góði andi sem við köllum sál ákveður að yfirgefa partýið vegna þeirrar eitrunar sem hefur orðið á huga og líkama. Orkubrautir sálarinnar eru ekki lengur tengdar líkamanum, ókunnug myrk öfl hafa yfirtekið stýrikerfið og halda partý í blokkinni til að fróa sínum sjálfhverfu hvötum í líkama annars manns burtséð frá hans anda og eðli. Það verður erfiðara eftir því sem þetta gerist oftar fyrir sálina að snúa til baka í óreiðuna og persónuleikinn getur brenglast varanlega.
Efist einhver um að blackout geti haft svo geigvænlegar afleiðingar að jafnvel illir andar taki yfir persónuna þá eru til mýmörg dæmi þess og þarf ekki að fara aftur í tíma Jóns Hreggviðssonar til að finna hliðstæður. Nú á tímum getur andsetning meir að segja orðið svo alger að erfitt getur reynst að finna DNA slóð þess einstaklings sem er andsetinn á vettvangi. Það er örfá ár síðan dómsmál vegna manndráps sýndi þetta svo svo ekki verður um villst.
Til að endurheimta sálu sína verður að endingu það eitt til ráða að leita aðstoðar þeirra sem hafa komist út úr vítahring alkóhólisma með andlegri vakningu. Losa þannig um ógnartök ókunnra afla alkóhólsins hvort sem við köllum þau Svartadauða upp á íslensku eða Al-Kuhl upp á Mið-Austurlenskan máta. Þá verður einungis hægt að viðurkenna vanmátt sinn gegn áfengi og treysta á æðri mátt.
Nú vil ég taka fram að ég tel mig ekki vera fanatískan bindindismann og er ekki að leggja öðrum lífsreglur. En vegna reynslu minnar af áfengi vildi ég reyna að benda á hvað leynist undir spariklæðnaði þeirra myrku afla sem eru fylgifiskar áfengisneyslu.
Dægurmál | Breytt 6.9.2020 kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.8.2020 | 06:07
Heilagir hundar
Við keyrðum burt frá öllu saman og það ætti svo sem ekki að segja nokkrum lifandi manni frá því, eða líkt og segir í hinni helgu bók "gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín".
En af því að margir lesendur eiga það til að líta hér inn reglulega þá ætla ég að gefa þeim örlitla sýn á hvað við vinnufélagarnir vorum að bauka bak við hús þessa vikuna.
Kannski réttara sagt þeir, því ég fæ yfirleitt að fljóta með svona til halds og traust, enn ekki það að ég geri mikið meira en að njóta kyrrðarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2020 | 06:10
Tvímánuður
Það ætti náttúrulega hvergi að vera betra golunni að geispa en blíðum í blænum sunnan í bláum berjamó. Eins og flestir landsmenn þá er ég orðinn dauðleiður á dularfullu drepsóttinni, og farin til berja. En það er samt ekki verra en vant er, þar er fámennt og góðmennt, og ekki mikið mál að halda tveggja metra reglunni grímulaust. Þessu virðast sárafáir hafa áttað sig á, kannski sem betur fer.
Nú er kominn tvímánuður (hefur ekkert með tvo metra að gera), sem er fimmti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst ævinlega á þriðjudegi í 18. viku sumars, eða hinni 19., ef sumarauki er, þ.e. 22. 28. ágúst. Í Snorra-Eddu heitir mánuðurinn kornskurðarmánuður, en mætti nú allt eins kalla berjamánuð eftir að tæknin bauð upp á að geyma uppskeruna í frystikistu.
Gömlu mánaðaheitin eru talin upp í tveimur ritum. Annað nefnist Bókarbót og er varðveitt í handriti frá um 1220. Hitt ritið er Snorra-Edda og eru mánaðaheitin talin þar upp í Skáldskaparmálum. Ekki ber mánaðaheitunum saman. Í Bókarbót er tvímánuður talinn upp á milli fjórða mánaðar sumars og sjötta mánaðar sumars.
Nafnið kornskurðarmánuður skýrir sig sjálft þar sem hann ber upp á þann tíma ársins sem vænta má kornuppskeru. Páll Vídalín vildi skýra nafngiftina tvímánuður á þann hátt að tveir mánuðir væru nú eftir að sumri, líkt og einmánuður bæri nafn sitt vegna þess að einn mánuður væri eftir af vetri.
Undanfarin ár hef ég farið í berjamó frekar en taka lyfin mín. Ég komst að því að bláber lækkuðu bæði blóðþrýsting og magn slæms kólesteróls í blóði. Vandamálið var að kólesteróllækkandi lyf, af læknanna ólyfjan, ullu mér verulegum vandræðum, þau eiga það til að valda minnistapi.
Vinnustaðurinn minn var um tíma orðinn með minnistöflum upp um alla veggi og ég vafrandi á milli veggja með minnismiða. Það var ekki fyrr en bókarinn spurði; "hvað ætlarðu svo að gera þegar þú verður búin að gleyma hvar minnistöflurnar eru", -að ég fór í berjamó.
Þessa dagana mætir maður grandvöru fólki á förnum vegi, bæði í búð og einu sér í sínum bíl, glíma við að leggja mat á tvo metrana jafnvel með grímuna fyrir smettinu. Ég var næstum búin að keyra út af niður á nesi um daginn þegar ég sá myndar konu skokkandi í spandex með grímu, átti í erfiðleikum með að standa fyrir máli mínu gagnvart Matthildi minni, þar sem við vorum að koma úr berjamó.
Hún hefur hingað til ekki þurft að hafa áhyggjur af því að ég væri að gefa kvenfólki hýrt auga, þó hún hafi oft séð sig knúna til að setja út á aksturslagið. Ég spurði hvort hún hefði ekki tekið eftir að þetta var stútungs kelling á aldri við okkur alein út á túni í sumarblíðunni með drepsóttar grímuna. Það væri varla nema von að manni fipaðist.
Heimildir;
https://is.wikipedia.org
http://www.arnastofnun.is/page/ordpistlar_tvimanudur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.8.2020 | 06:02
Við skulum bara tala íslensku hérna
var máltæki eins vinnufélaga, og þegar hann hafði haft þennan formála yfir með viðeigandi gæsalöppum, gerðum með fingrum við eyru, vissum við hinir að von var á yfirhalningu.
Einu sinni sleppti hann alveg formálanum og sagði að réttast væri að skera af mér hausinn. Ég áttaði mig strax á að þarna væri töluð hrein íslenska, þó að í viðtenginga hætti væri. Reif af mér vinnuvettlingana úti í miðri steypu og rétti honum spaðann og baðst afsökunar á orðaleppunum sem ég hefði látið mér um munn fara. Hann tók í höndina á mér, þó með semingi væri rétt eins og hann tryði ekki alveg eigin augum.
Það er auðvitað hvergi mikilvægara en í miðri steypu að menn misskilji ekki hvorn annan og vinni vel saman, þetta vissum við báðir. Þessi uppákoma varð ekki til þess eftirá að neinn skugga bæri á okkar félagsskap. Það kom samt fyrir eftir þetta atvik að aðrir vinnufélagar hefðu orð á því við vinnuveitandann að ef hann ætlaði að senda félagann og mig aftur með þeim í steypu þá væri vissara að leita áður af sér allan grun um hugsanlegt blóðbað í vösunum okkur félaganna.
En hversu stóran þátt á íslenskan í því að við skiljum samhengi hlutanna? Er hægt að skilja og skýra myndina svo vel sé t.d. á ensku, þegar maður er alinn upp á íslensku? , , , og skiljum við orðið yfir höfuð hreina íslensku? Ég hef oft verið að velta fyrir mér hve mörg samsett orð hafa villt mönnum sýn. Þannig; að þó merking orðanna sé á hreinu sem mynda samsetta orðið, þá virðast flestir leggja í það aðra merkingu en orðin segja. Ég ætla að taka þrjú örstutt dæmi.
Persónuleiki; er samsett úr orðunum persóna og leikur s.b. persónur og leikendur. Orðið persóna er upprunnið í latínu og merkir upphaflega gríma. Orðið leikur þarf varla að skýra en þar getur verið átt við ærslafullan leik barna, eða leik eftir ákveðnum reglum, jafnvel leik sem felst í að sýnast eitthvað annað en maður er, s.b. persónur og leikendur. Ég hygg að margir ætli að orðið persónuleiki sé haft yfir innsta eðli, þegar það er í raun yfir leikgrímuna sem sett er upp til að sýnast í lífsins ólgu sjó.
Trúarbrögð; samsett úr trú og brögð. Orðið trú er einfalt og getur varla misskilist, -ég allavega treysti því. En annað á við viðtenginguna brögð þar virðist um auðugri garða að gresja. Á ensku er notast við orðið religion með rót í latneska orðinu religio, sem er sagt geta átt við virðingu fyrir því sem er heilagt, lotning fyrir guðunum; samviskusemi, réttlætiskennd, siðferðilegri skyldu; ótta við guðina; guðsþjónustu, trúarathafnir osfv. Íslenska orðið bragð eða brögð getur t.d. átt við athöfn, framkvæmd, verk osfv. Einnig geta verið brögð í tafli, og ef talað væri um trúarbragðaref þá væri sú merking auðskilin.
Vísindi; samsett úr vís og indi. Á Vísindavef HÍ er þetta um orðið að finna "orðið vísindi er leitt af lýsingarorðinu vís í merkingunni vitur, sem hefur þekkingu til að bera. Síðari liðurinn -indi er viðskeyti einkum notað til að mynda nafnorð af lýsingarorðum, til dæmis sannindi af sannur, heilindi af heill, harðindi af harður, rangindi af rangur." Hvað ef orðið væri til komið af því að einhver hefði haft yndi af því að vera vís?
Á ensku er notast við orðið sciense, sagt komið úr gamalli frönsku og þýddi þar þekking, s.s. nám, í beitingu mannkyns þekkingar. Orðið á rót í latneska orðinu scientia sem þýddi þekking eða reynsla, eftir því sem ég kemst næst hjá gúggul.
Það eru kannski ekki allir sem vita að íslenska orðið vísindi er ævafornt orð og var notað löngu fyrir daga "nútíma vísinda", rétt eins og scientia í latínu. Orðið var haft yfir þá sem vissu nefi sínu lengra, s.s. seiðkarla á við Óðinn alföður og Loka Laufeyjarson, eins skapanornir á við Urði, Verðandi og Skuld sem sköpuðu mannfólkinu örlög.
Síðar breyttust seiðkarlar og skapanornir smásaman í nútíma vísindamenn, jafnvel spákonur rýnandi í spákúlu um tíma. Síðustu sex mánuði hefur þríeyki setið seiðhjallinn í beinni og skapað okkur örlög lík Urði, Verðandi, Skuld, rýnandi í spálíkanið. Um vísindin, -því sem næst eins og þau eru praktíseruð dag í dag; má lesa 1000 ára íslenska frásögn í Grænlendingasögum, sjá hér.
Vísindin eru í raun þau trúarbrögð nútímans sem fá okkur til að setja upp grímuna og leika eins og til er ætlast, jafnvel þó okkur gruni innst inni að kenningin sé orðin samsærið sjálft. Þess vegna er því þannig farið að það getur borgað sig að tala bara íslensku þegar til stendur að skera hausinn af, jafnvel þó svo að í viðtenginga hætti sé. En ekki er samt víst að allir þoli orðaleppa, sem ekki geta misskilist, -nema þeir séu sagðir með orðhengilshætti undir rós.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)