10.8.2020 | 06:00
Perlur og svín
Það mætti ætla að náttúruperlur færu ekki forgörðum þó svo að ferðamönnum yrði meinaður aðgangur að landinu bláa á meðan kóvítið geysar, þeir gengju að þeim vísum þegar kóvinu slotaði. En er það nú alveg víst?
Þjónustan við ferðamenn hefur verið sá drifkraftur sem kom Íslandi upp úr hruninu, um það deila fáir. Vegna þess hve stór sá þáttur er í tekjuöflun landsmanna þá er eðlilega mikil eftirsjá í erlendu ferðamönnum og störfum þeim tengdum.
Að sjálfsögðu fer fögur náttúra landsins ekki forgörðum á því að loka fyrir ferðamenn en það gæti samt farið svo að sumir þeirra staða sem vinsælir eru í dag misstu aðdráttarafl sitt, vegna þess að perlurnar verði glataðar þegar kóvinu slotar.
Það er t.d. ekki útilokað að stórframkvæmdir á við virkjanir fallvatna verði nú taldar brýnni ásamt sæstreng til að skapa störf og afla tekna. Náttúruspjöll réttlætt á svipaðan máta og við Kárahnjúkavirkjun m.a. með því að samfara þeim skapist í framtíðinni aðgengi að svæðum sem voru flestu óaðgengileg áður.
Því geti allt eins farið svo að nýjar perlur líti óvænt dagsins ljós. Rétt eins og Stuðlagil, sem kom úr kafinu í farvegi Jökulsár á Dal við það að Jökla var flutt yfir í Lagarfljót. Þetta sumarið var Stuðlagil ein af vinsælu náttúruperlum landans.
Til eru aðrir staðir þar sem tíminn mun afmá aðdráttaraflið nema með nýju rusli. Bieber, Gaga og Cruise heiðri síðan svínaríið með nýrri selfý, því að þegar opnað verður eftir kóvið verði allir búnir að gleyma þannig perlum í ölduróti tískunnar. En 300 milljóna markaðssetning úr ríkissjóð við að öskra slíkan stað á kortið dugar sennilega skammt.
Þessir staðir eru nú víða um land og hafa kostað mannslíf á við hálft kóvíti, t.d. herflugvélarflakið á Sólheimasandi þar sem æskufélaginn, Benedikt sveitaruddi Bragason, sá sér ekki annað fært en að girða sandinn af, -sem kom samt ekki í veg fyrir það að nú síðast í vetur varð ungt ferðafólk úti í hríðar kófi við að berja flugvélaflakið augum.
Í sumar fór ég að venju í Mjóafjörð sem er hérna hinumegin við hólinn. Þar er eitt vinsælasta myndefni ferðamanna haugryðgað flak landgöngupramma í fjörunni. Ef google er skoðaður þá er flakið vinsælla myndefni úr firðinum fagra en sjálfir Klifbrekkufossarnir.
Þessi riðkláfur er varla lengur á vetur setjandi og fer hver að verða síðastur að berja hann augum. En það var ekki fyrr en núna í sumar sem mér varð að fullu ljós tilvera hans á Tanganum í Mjóafirði. Saga flaksins í Mjóafirði hefur nú verið sett á skilti ferðamönnum til glöggvunar, og þá kemur í ljós að þessi myndræna perla er hreinræktað rusl.
Landgöngupramminn: Flakið er af landgöngupramma sem legið hefur hér í fjöruborðinu á Tanga allt frá árinu 1966.
Pramminn kom vestan af fjörðum þar sem ameríski herinn notaði hann, knúinn tveimur díselvélum, til flutninga til ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli. Hann var einnig nýttur í Ísafjarðardjúpi til að ferja m.a. jarðýtur á milli staða, en hægt var að leggja niður gaflinn að framan og keyra upp í sandfjöru.
Þegar komið var upp síldarplani í Brekkuþorpi árið 1965 var pramminn fenginn vélarlaus austur til að flytja burt síldarafskurðinn. Var pramminn þá dreginn frá Mjóafirði til Norðfjarðar þar sem landað var í bræðslu.
Pramminn var einungis í notkun í Mjóafirði tvö sumur áður en honum var endanlega lagt hér á þessum stað. Hann þótti óhagstæður vegna þess að hann er þver fyrir og voru menn hvað eftir annað rétt við að missa hann niður á leiðinni yfir á Norðfjörð. (Heimildarmaður; Sigfús Vilhjálmsson)
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2020 | 11:07
Vegtyllur vísindanna
Það er ekki ólíklegt að margir sem sögðu "ég hlýði Víði" í vetur, hugsi nú með sér "ég hýði Víði". Stutt er á milli feigs og ófeigs, en sennilega hefur engum dottið í hug að mæla það á eins víðum vísinda grunni og ósýnilegu pestarveiruna covid-19. Eins er hægt að mæla feig og ófeig samkvæmt almannarómi.
Það er ekki lengra síðan en 17. júní að forsetinn hengdi fálkaorður á þríhjólandi vísindagengið í viðurkenningaskini fyrir hönd þjóðarinnar. Þetta mun vera einsdæmi í heiminum þegar kóvítið er annars vegar, en forsetin var ekki það fíflið að vita ekki hvað til síns friðar heyrði korter í kosningar. Því er raunhæf spurning hvort tjara og hænsnafiður verður næsta viðurkenning frá Bessastöðum eftir að margboðuð og innflutt seinni bylgja pestarinnar ræður orðið ríkum.
Vísindi hafa frá örófi alda byggst á að greina hið óþekkta og koma spekinni á framfæri með spásagnar sjónhverfingum á við galdur, enda orðið vísindi þaðan ættað. Þegar spálíkanið bregst og keisarinn stendur strípaður þá er stutt í galdrafár og hýðingar ef ekki tekst að halda sjónhverfingunum lifandi á nýjum bylgjum almennra ásakana. Tjara, fiður og fálkaorður eru svo tákn tímanna sem viðurkenningar valdhafana.
Í Grænlendingasögum má lesa 1000 ára gamla frásögn um vísindakonuna Þorbjörgu lítilvölvu, þegar hún bjargaði samfélagi norrænna manna frá mikilli vá á Grænlandi á dögum Leifs heppna Eiríkssonar, og naut til þess hjálpar Guðríðar Þorbjarnardóttur sem nokkurskonar Víðis.
Margt er enn líkt með skyldum, og beina þúsund ára útsending á Grænlandi minnir um margt á nútíma Eurovision. En því er ekki að neita að ólíkt var Þorbjörg vísindakona betur búin tækjum en þær sem nú skima í kóvinu klæddar blárri búrku með einota grímu og hanska, ásamt einum extra löngum eyrnapinna.
"Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona og var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.
Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferði. Og með því að Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búin góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsnafiðri.
En er hún kom um kveldið og sá maður er í móti henni var sendur þá var hún svo búin að hún hafði yfir sér tuglamöttul bláan og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur. Hún hafði á höfði lambskinnskofra svartan og við innan kattarskinn hvítt. Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda og var þar á skjóðupungur mikill. Varðveitti hún þar í töfur þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði kálfskinnsskó loðna á fótum og í þvengi langa og sterklega, látúnshnappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.
En er hún kom inn þótti öllum mönnum skylt að velja henni sæmilegar kveðjur en hún tók því eftir sem henni voru menn skapfelldir til. Tók Þorkell bóndi í hönd vísindakonunni og leiddi hana til þess sætis er henni var búið. Þorkell bað hana þá renna þar augum yfir hjörð og hjú og híbýli. Hún var fámálug um allt.
Borð voru upp tekin um kveldið og er frá því að segja að spákonunni var matbúið. Henni var ger grautur af kiðjamjólk en til matar henni voru búin hjörtu úr alls konar kvikindum þeim sem þar voru til. Hún hafði messingarspón og hníf tannskeftan, tvíhólkaðan af eiri, og var af brotinn oddurinn.
En er borð voru upp tekin gengur Þorkell bóndi fyrir Þorbjörgu og spyr hversu henni virðist þar híbýli eða hættir manna eða hversu fljótlega hann mun þess vís verða er hann hefir spurt eftir og menn vildu vita. Hún kveðst það ekki mundu upp bera fyrr en um morguninn þá er hún hefði sofið þar um nóttina.
En að áliðnum degi var henni veittur sá umbúningur sem hún skyldi til að fremja seiðinn. Bað hún fá sér konur þær sem kynnu fræði það er þyrfti til seiðinn að fremja og Varðlokur heita. En þær konur fundust eigi. Þá var að leitað um bæinn ef nokkur kynni.
Þá svarar Guðríður: "Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona en þó kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það fræði er hún kallaði Varðlokur."
Þorbjörg svaraði: "Þá ertu fróðari en eg ætlaði."
Guðríður segir: "Þetta er þess konar fræði og atferli að eg ætla í öngvum atbeina að vera því að eg er kona kristin."
Þorbjörg svarar: "Svo mætti verða að þú yrðir mönnum að liði hér um en þú værir þá kona ekki að verri. En við Þorkel met eg að fá þá hluti hér til er þarf."
Þorkell herðir nú að Guðríði en hún kveðst mundu gera sem hann vildi. Slógu þá konur hring umhverfis en Þorbjörg sat uppi á seiðhjallinum. Kvað Guðríður þá kvæðið svo fagurt og vel að engi þóttist fyrr heyrt hafa með fegri raust kveðið sá er þar var.
Spákona þakkar henni kvæðið. Hún hafði margar náttúrur hingað að sótt og þótti fagurt að heyra það er kveðið var "er áður vildu frá oss snúast og oss öngva hlýðni veita. En mér eru nú margir þeir hlutir auðsýnir er áður var bæði eg og aðrir duldir. En eg kann það að segja að hallæri þetta mun ekki haldast lengur en í vetur og mun batna árangur sem vorar. Sóttarfar það sem lengi hefir legið mun og batna vonum bráðara. En þér Guðríður skal eg launa í hönd liðsinni það sem oss hefir af staðið því að þín forlög eru mér nú öll glöggsæ. Það muntu gjaforð fá hér á Grænlandi er sæmilegast er til þó að þér verði það eigi til langæðar því að vegir þínir liggja út til Íslands og mun þar koma frá þér ættbogi bæði mikill og góður og yfir þínum ættkvíslum mun skína bjartur geisli. Enda far nú vel og heil, dóttir mín."
Síðan gengu menn að vísindakonunni og frétti hver eftir því sem mest forvitni var á. Var hún og góð af frásögnum. Gekk það og lítt í tauma er hún sagði. Þessu næst var komið eftir henni af öðrum bæ og fór hún þá þangað. Þá var sent eftir Þorbirni því að hann vildi eigi heima vera meðan slík heiðni var framin.
Veðrátta batnaði skjótt þegar er vora tók sem Þorbjörg hafði sagt."
Eiríks-saga Rauða
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2020 | 09:22
Kellingafár í beinni
Þegar ég hitti kunningja fyrir margt löngu, sem er áratugum eldri en ég, -spurði hann hvað væri títt. Ég sagðist hafa komist að því að tveir plús tveir þyrftu ekki að vera fjórir frekar en manni sýndist. Já veistu það, þetta vissu þær alltaf húsmæðurnar; -svaraði kunningi minn.
Nú hafa tekið við aðrir tímar þar sem kellingar spálíkans lokaritgerðarinnar hafa fært sig upp á skaftið, -og hornsteinum heimsins hefur verið kastað á glæ; hámenntaðar fraukur, í Þórálfa líki, sem líta skimandi yfir gleraugun í beinni, og eineygra bláklæddra Óðins hana.
Húsfreyjan hefur verið rammflækt í lokaritgerðinni, fleygt á haugana eins og hverri annarri flugfreyju svo allt geti verið á sjálfstýringu í aðflugi stórfyrirtækisins til alheimsyfirráða. Mynd sem var, er komin á hverfanda hvel, -heimurinn yfirfljótandi í sótthræddum kellingum.
Upp hefur risið haukleg mær, -og lafandi lostakústur. Valkyrja, sem með rafrænum smáskilaboðum fær hvern þann, sem á móti blæs; með metoo myllumerki og stjörnusýslumanni stones borinn út í eyjar. Engin er lengur þjóðhátíð, -femenisk er Þórðargleðin.
Húsmóðirin sér nú sinn sal standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta, þar muna ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna; -engin er þar litla gula hænan, -allt samkvæmt lokaritgerðinni.
En þar mun sem áður, fljúga hinn dimmi dreki, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; bera sér í fjöðrum, fljúgandi völl yfir, Níðhöggur nái, -þar mun hún sökkvast.
Hvað verður svo um leiðsögnina fyrir blessuð börnin, -í siðblindu kóvinu? - Hvernig verður hægt að lifa af tvo plús tvo, -í digital brjálæðinu?
Við höfum skipt út blessun húsmóðurinnar, sem benti barninu á almáttugan skaparann og bróður besta, er innra með barninu byggju; -út fyrir gervigreind lokaritgerðar sérfræði kenningarinnar.
Við staulumst nú um tvo metrana, rammvillt með grímuna; og annað augað hálfopið, blinduð í kóvinu, hitt á símanum í lófanum; -vitandi innst inni að kenningin er fyrir löngu orðin að samsærinu sjálfu.
Við þorum ekki öðru ern lúta leiðsögninni í beinni, skref fyrir skref, þó það eina sem þurfi til að rata, -sé að slökkva á símanum og sjónvarpinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.8.2020 | 06:04
Síðasta sumarið í sæluríkinu
Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum, sem líta reglulega hér inn, að á þessari síðu lætur steypukall móðan mása og telur sig eiga því láni að fagna að hafa ekki lent í lokaritgerðinni.
Kannski finnst ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá og þurfa því á öllu sínu sumarfríi að halda.
Það á samt ekki við þegar ævistarfið verður til út frá leikjum bernskunnar þar sem kofasmíði breyttist í launaða vinnu við varanleg minnismerki í formi húsa.
Síðuhöfundur hefur verið í algjöru sumarfríi og hafa pistlarnir undanfarnar vikur borið þess merki og þessa dagana er gamli sorrý Cherokee þar að auki haltur.
Til að ljúka sumarleyfis hjali þetta árið þá ætla ég að setja hér fyrir neðan video frá síðasta sumrinu í sæluríkinu, þar sem frístundunum var varið á Harstad Camping.
Í dag eru akkúrat sjö ár síðan, þeir sem vilja söguna geta lesið hér.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2020 | 12:11
Stutt á snúruna
Það verður ekki annað séð af fréttum síðustu misserin en að allt stefni í lokun ÍSAL í Straumsvík. Orkupakka mafían er nú allsráðandi og nú hyllir í að rætist villtustu gróða draumar draugsins Geysis Green, -er á meðan er, eða þannig. Feigum verður víst ekki forðað.
Ef einhver minnsti áhugi hefði verið á að halda afrakstri orkunnar í landinu þá hefði verið tekið til á Landsvirkjunar kontórnum strax eftir valdatíma helferðarhyskisins, sem sótti um ESB aðildina. En við engu hefur verið hreift þar á bæ jafnvel þó svo næstum allir stjórnmálflokkar hafi komið að ríkisstjórn síðan 2013.
Það hefur ekki einu sinni verið áhugi fyrir því að draga ESB umsóknina afdráttarlaust til baka. Sama virðist vera uppi með 110 ára leyndina sem hvílir yfir hrun gjörningunum hyskisins, -líkt og með ESB aðildarumsóknina, að engin stjórnmálaflokkur sem komist hefur til valda á alþingi ætlar að rjúfa 110 ára samstöðuna.
Af því að Íslendingar ferðast innanlands sumarið 2020, þá skora ég á þá að fara af alfaraleið norðan Vatnajökuls, þó ekki væri nema um gamla þjóðveg no 1 um Möðrudals fjallgarða. Þar hefur mátt sjá magnaðar framkvæmdir frá því í fyrrasumar við varalínu meðfram annarri varalínu frá orkusvæðunum á Þeystareykjum og í Kröflu austur á land. Tvöföld varalína á milli staða þar sem orkan er næg en íbúar fáir.
Það hefur auk þess verið hvíslað um einkavirkjanaframkvæmdir séu í startholum víða um Austurland m.a. á yfirráðasvæði landakaupmannsins Ratcliffs. Blessaðir bjálfarnir í sameinuðum sveitarfélögum á Austurlandi létu þá ályktun frá sér fara fyrir nokkrum árum síðan, -ef ég man rétt, að algjört skilyrði væri að rafmagnssnúran sem á að upplýsa Evrópu færi á haf út austanlands.
Þetta snýst ekki lengur um það fyrir almenning að lifa við að fá einhverju ráðið í sínu nærumhverfi, því það gera þeir ekki sem nú erum uppistandandi, þetta snýst miklu frekar um að búa blessuð börnin undir meira en 110 ára ósjálfstæði íslenskrar þjóðar og erlend yfirráð auðlindanna.
![]() |
Framtíðarvirði ÍSAL fært niður að fullu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.7.2020 | 05:52
Heyannir
Það hefur færst í vöxt að fyrirsagnir séu innihaldslausar blekkingar. Engu líkara en að þær eigi að plata fólk til að lesa eitthvað sem það hefur ekki nokkurn áhuga á, þetta vill síðuhöfundur forðast í lengstu lög. Þess vegna ætti fyrirsögnin alltaf að varða veginn að innihaldinu, jafnvel þó þvælin langloka sé, lík heyi í harðindum sem farið hefur úr böndunum.
Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður, samkvæmt gamla norræna tímatalinu, þegar miðað var við ársbyrjun 1. vetrardag. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar samkvæmt gömlum heimildum.
Hver mánuður taldi 30 daga í gamla tímatalinu því gengu þeir ekki upp í sólárið. Síðasti mánuður, Sólmánuður, hófst 22. júní, Heyannir hefðu samkvæmt því átt að hefjast 22. Júlí en sá mánuður hefst hinsvegar í dag 26. júlí. Mismunur á milli sólarársins og daga mánaðanna var jafnaður um miðsumar með aukanóttum, stundum kallaður sumarauki eða sumarnætur, sem gátu verið mismargir sólarhringir eftir því hvernig tímatalið var reiknað, eins og sjá má í þætti Gísla Hallgrímssonar um íslenska tímatalið í bók hans Betur vitað.
Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurrkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.
Svona vegna þess að tíðarandinn býður ekki lengur upp á heyannir hjá megin þorra landsmanna, sem þessa dagana flækist um landið, þá ætla ég að segja sögu af tíðarandans toga um afmælisgjöfina hennar Matthildar minnar. En þannig var að Matthildur minntist á það fyrir nokkrum dögum að hana langaði til að fara Lónsheiði, fjallveg sem fara þurfti þegar Djúpavogsbúar fóru á Höfn í Hornafirði áður en vegurinn um Þvottár- og Hvalnesskriður kom til sögunnar. "Hvað er þetta manneskja langar þig núna Lónsheiði, veg sem þú hefur ekki farið síðan þú varst átján", -en vegurinn var aflagður 1981.
Kvöldið fyrir afmælisdaginn staglaði ég mig í gegnum fésbókina og sá þá þar lesningu með tilheyrandi myndum frá vöskum vini, sem sagðist hafa farið með frúna sína yfir Lónsheiði þann daginn, og ekki verið nokkurt mál. Þannig að ég bauð Matthildi morguninn eftir að aka henni yfir Lónsheiði í afmælisgjöf.
Þegar við komum að heiðinni mundi hvorugt okkar hvar hefði verið farið upp frá Álftafirði, þannig að við spurðumst fyrir á Starmýri I og II, og var á báðum bæjum eindregið ráðið frá þessari háskaför. En samt bent á að leifarnar af veginum væru á bak við heyhlöðuna. Við létum samt ekki segjast og vildum fá að kíkja á bak við hlöðu og aka stuttan spöl inn í dal til að rifja upp gömul kynni áður en við snérum við, -sem var auðsótt mál.
Er við vorum komin nógu langt til að sjá eftir veginum upp á hæðstu brún ákváðum við að fá okkur kaffi og snúða, snérum svo við. Vegurinn átti hvort eð var að vera ófær öðrum en torfærutröllum við brúna í Traðargili, sem er ofarlega Lónsmegin. Því fórum við um Þvottár- og Hvalnesskriður yfir í Lón og upp að Traðargili þeim megin og höfðum þá farið fram og til baka Lónsheiði, -ef svo má segja-, til að sjá upp á topp báðu megin, án þess að fara yfir heiðina.
Þá var afmælisdagurinn rétt hálfnaður og sól í Lóni. Við dóluðum suður á bóginn snuddandi um Höfn, Jökulsárlón og Öræfi; enda engin ástæða til að fara austur í dumbunginn heima, og þessi afmælisdagur ekki nærri að kvöldi kominn. Við rásuðum suður fyrir Vatnajökul, settum niður tjaldhæla á Klaustri, síðan upp með Vatnajökli að vestan sitt hvoru megin við Skaftá næsta dag. Höfum nú séð Laka, Eldgjá, Fjaðrárgljúfur, auk þess að keyra í gegnum Meðalland. Stórbrotin hamfarasvæði í heyanna sögu þjóðarinnar, nú með túristanna "Justin Bieber selfy fast track" hörmungum við malbikaðan þjóðveg eitt í bland.
Ég vaknaði svo upp í tjaldinu okkar kl. 4 á þann 3. í afmæli, ranglaði áttavilltur út í morgunnþoku um Eldgjárhraunið eins og dolfallinn álfur, þar var ekki beint heyskaparlegt. Áður en ég treysti mér til að spyrja Matthildi mína hvort hún ætlaðia virkilega að sofa í allan dag og segja henni heyskaparhorfur; að það væri komin súld á tjaldið og þar að auki væri afmælisdagurinn löngu liðinn. Hún varð ekki jafn hrifin af tíðindunum og afmælisgjöfinni, en samþykkti þó með semingi að halda austur í áttina heim.
Það er engin leið til að lýsa vettvangi eldsumbrota og móðuharðinda með orðum, sem nú fara með ábátasamara hlutverk í lífi landsmanna en heyannir, -og jafnvel sjálf sólin, það verður hver að sannreyna á eigin skinni rétt eins og hörmungar fyrri alda. En ég læt hér fylgja með myndir ásamt stuttum fyrirsögnum.
Sá suður fyrir sól og mána,
svarta sanda,
mjúkan mosa,
sólu sorta,
í skýja hroða
, , hraun til að skoða
, , , og þig um gengna götu ganga
grasið græna.
Trúir þú nú álfasögum?
Ferðalög | Breytt 26.12.2024 kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2020 | 05:38
Gíll og hundadagar með aukanóttum
Það er ekki beint bjart yfir landinu þessa dagana þó svo að veðurfréttamenn keppist við að halda öðru fram. En eins og flestir vita, -veðurfræðingar ljúga. Blikur á lofti fara ekki fram hjá skýjaglóp sem hefur vanið sig á að fylgjast með ferð skýanna um himinhvolfið, frekar en að góna á lygina í sjónvarpinu.
Fyrir rúmri viku síðan, nánar tiltekið aðfaranótt 13. júlí, vafraði ég eftir vatnsglasi skömmu eftir miðnættið fram í eldhús. Þegar ég leit út um gluggann sá ég fyrirbæri sem ég tel hafa verið gíl, en "sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni". Þetta fyrirbæri er á ensku kallað "sun dog" og eru haft yfir hjásólir.
Þessar aukasólir eru á því sem kallað er rosabaugur um sólu, geta verið fleiri en ein og er þá stundum talað um að sólin sé í úlfakreppu eða hjálmaböndum. Málshátturinn um gílinn og úlfinn er talin vera kominn úr fornri goðafræði. Úr þessum táknum á himni var lesið í veður og spáð fyrir um stórviðburði fyrr á öldum.
Mér varð því ekki um sel þegar ég taldi mig sjá gíl á norðurhimninum aðfaranótt fyrst hundadags sumarsins, en eins og flestir vita þá eiga þeir það til að vera einsleitir. Daginn áður hafði verið sól og 25°C á Héraði og það hafði verið glansbjart þegar ég fór að sofa skömmu fyrir miðnættið. En þarna út um eldhúsgluggann blasti við drungaleg bleik blika og gíll, en enginn úlfur.
Daginn eftir var fyrsti virki dagurinn minn í sumarfríi og hann rann hvorki upp bjartur né fagur eins og dagarnir á undan höfðu gert, heldur grár og myglulegur. Dagarnir hafa síðan verið á þann veginn. Hundadagar er tímabilið kallað frá 13.júlí til 23.ágúst og eru þeir dagar taldir bera keim af þeim fyrsta og verða hver öðrum líkir eftir það, jafnvel alveg fram að Höfuðdag, sem er 30 ágúst.
Gíll sólar, eða sun dog eins og fyrirbærið er kallað á ensku, ætti samt ekki að sjást á næturhimni þegar sól er ekki á lofti, sama á við um úlfinn. En það var hjásól augsýnileg á norðurhimninum utan við eldhúsgluggann, sem sýndi svo ekki var um villst að rosabaugur var um sólu, -að ég tel.
Ég vonaðist eftir því, allt fram að fullu tungli í gær, að veðurkerfi myndu raðast upp á hagstæðari máta fyrir sólina og að úlfur hefði elt sól á eftir gíl, sem ekki var hægt að sjá þegar sól var ekki á lofti. En nú er það að koma í ljós að norðanskotið sem yfir landið gekk með grámyglulegum dögum um helgina ætlar að verða staðfesting á einsleitni hundadaganna.
Einhverjir kynnu að álykta sem svo að orðið "hundadagar" sé komið af fyrr um konungi á Íslandi, Jörundi hundadagakonungi. En svo er ekki. Jörundur fékk þetta viðurnefni vegna þess að þeir fáu dagar valdatíma hans náðu að hluta yfir þessa daga. Hundadagar eru mun eldri ættaðir úr Rómarveldi, eða jafnvel stjörnuspeki Grikkja, og voru hafðir yfir þá daga sumarsins sem voru einsleitir hitamolludagar á norðurhveli jarðar, -semsagt gúrkutíð.
Það er fleira sem ber undarlega upp á þennan tíðindalausa árstíma en veðurleysan. Samkvæmt gömlu íslensku tímatali má segja að nú fari í hönd algjör tímaleysa á Íslandi næstu fjóra sólarhringana, eða réttara sagt tíminn er endurstilltur. Sólmánuður með sína 30 daga er nú liðinn en næsti mánuður er nefnist heyannir hefst ekki fyrr en 26.júlí, en þá telst vera komið miðsumar. Því eru næstu fjórir sólarhringar nefndir aukanætur.
Rosabaugur um sól, eða sól í hjálmaböndum. hægra megin við sólina er gíll en vinstra megin úlfur. Ljósbrotið beint fyrir ofan sólina er ekki ólíkt hjásólinni sem er á efstu myndinni, sem tekin er út um eldhúsgluggann 13.júlí s.l.
Til gamans er hér mynd sem ég tók 13.júlí 2019. Fyrsta hundadaginn 2019 var þoka á Austurlandi, en rétt áður en sólin settist á bak við Búlandstindinn á Djúpavogi rofaði til í smá stund. Það breytti samt ekki því að hundadagarnir Austanlands 2019 voru þokudagar
Ps. Efsta myndin er frá því 13.07.2020 01:15, ef einhver hefur aðrar skýringar á fyrirbærinu en að um efsta hluta rosabugs sé að ræða, væru þær vel þegnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2020 | 08:10
Velkomin um borð
Mér varð hugsað til flugfreyju hjá Icelandair fyrir mörgum árum síðan, en þá hafði flug til Boston orðið fyrir það mikilli töf að það var verulega tvísýnt að það tækist að ná tengiflugi til St. Luois.
Við vorum 5 steypukallar saman, á leið á námskeið sem átti að hefjast morgunninn eftir. Ég orðaði þessar áhyggjur mínar við flugfreyjuna hún sagðist ætla að íhuga hvort eitthvað væri hægt að gera. Þetta viðmót komst næst "þetta reddast" viðhorfi landans.
Þegar við nálguðumst Boston kom flugfreyjan til mín og sagði að við skyldum flytja okkur yfir í Saga Class þannig kæmumst við fyrr frá borði. Síðan skipulagði hún í örstuttu máli innrás í Bandaríkin, við færum beint á töskubeltið og tækum sprettinn í vegabréfa eftirlitið.
Þegar við komum þangað var hún í hrókasamræðum við einn landamæravörð, sem kinkaði ákaft kolli. Hún sagði við okkur, "segið þið svo bara já við öllu spurningum sem hann spyr ykkur". Þannig glönsuðum við í gegn ásamt flugfreyjunni sem fylgdi okkur að innritunarborði Trans World, sagði þar nokkur vel valin orð við innritunarfulltrúann, síðan við okkur; "ekkert slór strákar, og góða ferð".
Ég fór fremst og tók eitt mest spretthlaup sem ég hef tekið frá því ég var gutti á fjórðungsmóti. Þegar ég kom að útgönguhliði Trans World stóð "bording closed" ég ætlaði að reyna að tala við þann sem stóð við hliðið, en kom ekki upp einu einast orði fyrir hlaupasting og mæði. Öryggisvörðurinn við hliðið klappaði brosandi á öxlina á mér og sagði "I know there are four more vikings on the way".
Þau eru orðin nokkur árin síðan ég hef flogið, en síðast þegar ég flaug með Icelandair varð ég ekki var við annað en flugfreyjur ynnu fyrir sínum launum á útopnu. Í gegnum tíðina hafa þær ekki einungis boðið mig velkominn um borð á því ástkæra og ylhýra, strokið mér blítt um vangann til að bjóða mér kaffi, þegar ég hef dottað. Flugfreyjur voru, og eru að ég held, ennþá, -andlit flugfélagsins.
Það er slæm staða, sem upp er komin, fyrir alla aðila þegar búið er að segja upp flugfreyjum og afþakka vinnuframlag þeirra. Þær í framhaldi af því búnar að ákveða verkfall, sem varla verður túlkað á annan hátt en barátta hetjunnar til síðasta blóðdropa.
Flugfreyjur og Icelandair segjast vera komin upp að vegg. Hvort flugmenn telja sig hafa svigrúm til að setja á sjálfstýringu og ganga í þeirra störf á eftir að koma í ljós. Hvað mig varðar þá valdi ég alltaf Icelandair, -ef það var í boði,- ekki einungis vegna þess að flugfreyjur gátu sagt nafn félagsins á lýtalausri ensku.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2020 | 06:07
Leiðin á Landsenda
Þessa dagana brunar margur landinn "fast trac selfy road trip" með hólhýsið dinglandi aftan í druslunni og reiðhjólin, eða kajakana, flækta í toppgrindinni nema hvoru tveggja sé. Og ríkisstjórnin lofar öflugri innspýtingu vegaframkvæmda upp á áður óþekkta milljarða til að létta 8.700 hlutabótaþegum lundina eftir sumarfrí í samvinnu við fjárfesta. Og það jafnvel þó svo að ekki sé hægt að finna innlendar vinnandi hendur í helming þeirra framkvæmda sem nú þegar eru í gangi í landinu, samkvæmt þeim sem best til þekkja. Þetta á víst að vera til að slá á atvinnuleysið hjá fábjánum með frábærar hugmyndir.
Það skal semsagt efna til fjárplógsstarsemi fyrir fjárfesta og auðnuleysingja á kostnað ferða almennings, jafnvel innan eigin sveitarfélags. Er þetta kallaða innviðauppbygging af flissandi fyllibyttum og auðrónum. Verklausir fræðingar ásamt kennitöluflökkurum kætast svo handlama yfir öllu saman því hægt er að auka innflutning vinnandi handa með þóknun ofan á hlutabætur og 25.000 kall á tímann. Og eru þetta hreinir smáaurar úr vösum almennings við að keyra upp hagvöxtinn að teknu tillit til þess sem þarf að borga malbikuðum Rúmenum í miðju kóvítinu. Það liggur við að manni detti í hug gamli frasinn; -"ertu á landinu".
Hvort vegagerðarframkvæmdir eigi að miða við hugvit sjálfhverfra samfélagsmiðlara er svo kapítuli út af fyrir sig. Gullni þríhyrningurinn sunnan heiða hefur hingað til verið talin einhver besti túristatrekkjarinn fyrir höfuðborgina. Þannig að höfuðstaður Norðurlands varð að fá sinn demantshring sem í eiga að glitra helstu náttúruperlur Norð-Austurlands; Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Hljóðaklettar, Ásbyrgi og hvalaskoðun á Húsavík. Um þetta svæði á fljótlega að vera hægt að bruna á dagparti. Helstu kostirnir við demantinn voru kynntir á þann veg af mannvitsbrekkunum, að hægt væri að fljúga norður að morgni og suður að kvöldi, sannkallað "fast trac selfy road trip", þar sem allir græða nema sérvitringarnir sem döguðu uppi úti í auðninni.
Í júní brunuðum við hjónin niður með Jökulsá á Fjöllum einn eftir miðdag. En fyrir sex árum síðan fórum við niður með Jökulsá að austanverðu að Dettifossi áfram niður í Ásbyrgi og enduðum fyrri daginn í Vesturdal við Hljóðakletta. Síðari daginn fórum við upp með Jökulsá að vestanverðu að Dettifossi og þaðan í Námaskarð. Við urðum dagþrota báða dagana því þetta var sannkallað "safari jurney" í rykmekki og þvottabrettisins glímu við þjóðveginn, hina grýttu braut, -samt hverrar holu virði. Núna í júní var þetta meira skottúr á milli hápunkta og fyrir ofan Hljóðakletta er verið gera hringtorg svo allra stystan tíma taki að skanna pleisið og jafnvel hægt að taka af sér selfí út um bílrúðuna á ferð, með Hljóðaklettum á.
Það stóð samt ekki til hafa þennan pistil um landsins gagn og nauðsynjar, en þetta flaug samt í gegnum hugann þegar ég vaknaði í gærmorgunn. Svo þegar ég leit út um eldhúsgluggann sá ég að það var sólskin úti á Landsenda. Þá fattaði ég að við Matthildur mín vorum bæði komin í sumarfrí þannig að ég bauð henni í gamaldags skottúr út í Jökulsárhlíð. Í ný útkominni bók Skúla Júlíussonar "101 Austurland - Gönguleiðir fyrir alla", hafði ég kynnt mér gönguleið út á Landsenda. En í þeirri bók eru margir laufléttar göngutúrar fyrir þá sem gefa sér tíma til að hossast leiðina án þess að vera með hugann við næsta fast trak selfí punkt. Bókin greinir meir að segja frá gönguleiðum sem hægt er að fara án sítengds snjallúrs.
Þegar við komum að skilti landeiganda um að öll umferð ökutækja væri stranglega bönnuð, eftir að hafa sikk sakkað malarveginn út Hlíð, lögðum við jeppanum og skakklöppuðumst af stað. Við höfðum ekki gengið lengi þegar við sáum sannkallaðan húsfjallabíl á erlendum númerum, sem hafði farið veginn alveg á enda þrátt fyrir strangt bann, -að vísu á kjarnyrtri íslensku. Þegar við gengum fram hjá sat frúin vel vöknuð úti við morgunnverðarborðið og horfði austur í sólina merla sjóinn og gera tíbrá á svarta Héraðssandana. Hún gaf sér samt tíma til að brosa blítt og segja "good morning" glaðlega í andaktinni, um leið og hún lýsti því yfir að hún væri stödd í paradís, -sem við náttúrulega vissum.
Að loknum óskum um góðan dag þá höktum við áfram rollugöturnar um fjörur, klettasnaga og bjargbrúnir. Matthildur jagaðist á því hvað svona ferðalag ætti eiginlega að þýða, hvað ég ætlaði að gera þegar hún hrapaði fyrir björg. Hvort ég ætlaði þá að hringja í neyðarlínuna og biðja um þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ég sagði henni að hún gæti allavega hlakkað til þess að fyrirsögn þeirrar fréttar yrði "Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaða göngukonu á Landsenda", -mikið magnaðra yrði það varla.
Auðvitað komumst við léttilega alla leið á Landsenda og er engu um það logið í 101 bók Skúla að gönguleiðin er að mestu lauflétt fjörulall. Það er ekki fyrr en farið er í Þerribjörg, sem eru fyrir utan Landsenda, sem þarf keppnis göngufólk. En upplýsingar um þann göngutúr verða lesendur að verða sér úti um í bókinni um gönguleiðir fyrir alla sem er um miklu fleiri en 101 göngutúr, því hún hefur að geyma góðar upplýsingar á yfir 200 gönguleiðum á Austurlandi.
Landsendi og Þerribjörg eru við norðanverðan Héraðsflóa, utan við veginn þar sem farið er upp á Hellisheiði til Vopnafjarðar, í fjöllum sem í stórum dráttum heita Kollumúli og Múlakollar Héraðsmegin. Fjöldi annarra nafna eru á fjöllum í fjöllunum s.s. Landsendafjall og svo heita þau allt annað Vopnafjarðarmegin. Þessir fjöll eru úr ljósgrýti (líparít), og hengiflugin fyrir ofan Landsenda og Þerribjörg einstaklega tilkomumiklar. Þerribjörg hafa það víst fram yfir, að mér skilst, að vera bæði stærri og með fjöru fyrir neðan sem hægt er að spóka sig um.
Út af Kollumúla er Bjarnarey þar sem Jón lærði dvaldi á 17. öld ásamt konu sinni, tvö ár í felum fyrir íslenskum yfirvöldum. Þegar valdsmenn sóttust eftir að brenna Jón fyrir galdur, allt þar til að hann fór úr Bjarnarey til Kaupmannhafnar og fékk dóm íslenskra yfirvalda felldan úr gildi. Það dugði samt ekki Jóni til að fá að vera hvar sem var á Íslandi, því þegar hann kom aftur og sýndi yfirvaldinu fyrir sunnan sýknuna, vísaði það honum aftur austur á Hérað því það treysti sér ekki til að brenna hann í trássi við kónginn. Hann bjó svo hjá syni sínum Guðmundi presti á Hjaltastað í Hjaltastaðaþinghá til dauðadags.
Fyrr á öldum var líka búið á Landsenda og má því víða finna tóftarbrot. Talið er að búsetu hafi verið hætt þegar bjarndýr gengu þar á land. Á leiðarenda er gestabók, sem hægt er að rita nöfn sín í og fá stimpil um komuna þangað. Með gestabókinni fylgir sögulegur fróðleikur, s.s. samantekt um Eyjaselsmóra einn magnaðast draug sem upp hefur verið vakinn á Íslandi. Hann var pestardraugur sem vakinn var upp af lyfjum á Ketilsstöðum, næsta bæ fyrir innan Landsenda, en flutti sig svo í Eyjasel sem er svolítið austar á Héraðssandinum. Hann fór hamförum í 150 ár. Drap bæði menn og skepnur, varð vart allt til 1930.
Leiðin á Landsenda er náttúruperlufesti sem er hverrar holu virði og þarf enga hagvaxna innviðaspýtingu, þar fer best á að leyfa sérvitringum að skakklappast áfram í friðsælli paradísinni.
Landsendafjall; litskrúðugt ljósgrýtið er áberandi í fjöllunum sitt hvoru megin við svarta sandströnd Héraðsflóans
Séð inn Héraðið þar sem Kaldá fellur til hafs, og yfir Héraðssanda sem eru ættaðir úr Vatnajökli. Auk Kaldár falla þrjú stórfljót til sjávar í Héraðsflóa; Jökulsá á Dal, Lagarfljót og Selfljót
Strandlengja Héraðssanda er hátt í 30 km löng og þar má finna ýmislegt í tíbránni, þarna er rekið stórhveli
Í ljósgrýtis björgunum leynist fjölskrúðugt fuglalíf
,,,og að sjálfsögðu selfí
Ferðalög | Breytt 16.7.2020 kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.7.2020 | 06:03
Saga úr steypunni
Mér varð það á að firrtast við vinnufélaga mína í byrjun júní yfir því að þeir skyldu rífa ofan af máríerlunni. Það þyrfti alveg einstaka fákunnáttu til að geta ekki séð smáfugl í friði. Telja sig þurfa að hefja byggingarframkvæmd á fleiri hundruð fermetra viðbyggingu, akkúrat á þeim fáu fersentímetrum sem hreiður máríerlunnar stæði.
Það var bara glott við tönn og spurt; heldurðu að hún liggi þá ekki á fúleggjum núna? -því þessi litli fugl kom til baka um leið djöfulganginum linnti í lok dags og lá á hreiðrinu í þokusúld og kulda á berangri.
Þessi spurning var ekki til að bæta skapið og ég sagði að þeir skyldu gá að því, vesalingarnir, að þeir kæmust ekki einu sinni út fyrir landsteinana í kóvítinu á meðan þessi litli fugl hefði komið alla leið frá Afríku. Þeir rötuðu hvorki lönd né strönd án allra heimsins hjálpartækja, aumingjarnir.
Ég hafði tekið eftir því þegar við steypukallarnir steyptum gólfplötuna í vor að máríerlan var að kanna aðstæður í þakskegginu. Þess vegna haft á orði við uppsláttargengið þegar það mætti á svæðið hvar hreiðrið væri og að þeir skyldu sína máríerlunni nærgætni þangað til hún kæmi ungunum úr hreiðrinu.
Því fauk í mig þegar ég kom á þennan byggingastað nokkru seinna og sá máríerluna berskjaldaða fyrir veðri og vindum í sundurtættum þakkantinum. Svo var það um miðjan júní sem einn vinnufélagi kom til mín og sagði; Maggi ég er búinn að byggja yfir hreiðrið svo það rigni ekki ofan á ungana. Þá fór að lyftast á mér brúnin og ég hugsaði með mér að þetta væru kannski ekki eintómir fábjánar.
Í vikunni sem leið steyptum við svo efri plötuna og þá komust ungarnir varla fyrir í hreiðrinu lengur, þannig að það var sett upp öryggishandrið fyrir framan það svo þeir stykkju ekki út í steypuna, rétt á meðan hún væri að harðna í sumarsólinni.
Við það tækifæri sagði ég við vinnufélagana að réttast væri að þeir yrðu sæmdir fálkaorðunni ef ungarnir lifðu. Daginn eftir voru þeir allir flognir úr hreiðrinu.
Þeir voru pattaralegir ungarnir fimm rétt áður en þeir flugu úr hreiðrinu
Steypt í kringum máríerluna, hreiðrið er fyrir miðri mynd neðan við rauðu píluna
Foreldrarnir voru orðnir slæptir á því að bera flugur í hreiðrið, enda ekkert smá mál að koma upp fimm ungum við aðstæður sem ríkja á byggingastað
Virðingaleysi fyrir fuglum himinsins hefur færst í vöxt á undaförnum áratugum, og í byggingariðnaði eru leiðbeiningar sem þessar ekki óalgengt kynningarefni. Ég bý þó svo vel að hafa kynnst öðrum hugsunarhætti frá því að ég byrjaði í byggingavinnu hjá Völundi Jóhannessyni frænda mínum fyrir meira en 40 árum síðan.
En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar.
Og sem dæmi get ég nefnt að þegar mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en ungu vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".
Man ég ekki betur en máríerlan hafi mætt aftur vorið eftir og verpt á nákvæmlega sama stað þó svo að hún þyrfti að fara inn í byggingu á lokastigi til þess, en þá var bara passað upp á að hafa gluggann galopin þangað til ungarnir flugu úr hreiðrinu út í sumarið og sólskinið
Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)