Terrence McKenna.

Terence Kemp McKenna (16 nóvember 1946 - 3 apríl 2000) var bandarískur fyrirlesari og rithöfundur með sérþekkingu á áhrifum plantna á vitund manna.

Hann var þekktur fyrir margvíslega vitneskju um það hvernig frumstæðir ættbálkar notuðu plöntur við að hafa áhrif á andann s.s. í shamanisma Amason.

Einnig er hann þekktur fyrir útlistanir sínar á því hvernig  tungumál, saga og þjóðfélag, móta hugmyndir um mannsandann.

Einna þekktastur er hann fyrir að hafa talað hispurslaust um eigin reynslu af áhrifum sveppa á vitundina. Það má finna mikið af fyrirlestrum McKenna á netinu og myndskreyttum á youtube.

Þetta myndband skreyta frábærar landslagsmyndir sem eru af stórum hluta frá Íslandi auk brots úr fyrirlestri með Mckenna. 

 


Svartnætti sálarinnar

Á einhverjum tímapunkti í lífinu, gætir þú upplifa svartnætti sálarinnar, þar sem allt virðist fara úrskeiðis sem hugsanlega getur farið úrskeiðis. Það sem margir átta sig ekki strax á, er að þetta er sönn blessun.

Þegar yfir hellist "svartnætti sálarinnar" virðist líf þitt hitta botninn. Þú getur fundið skipsbrot lífs þíns nánast allsstaðar; fjárhagslega, andlega og líkamlega.

Það sem venjulega gerist hjá hjá þeim sem upplifa "svartnætti sálarinnar" er að við þá bitru reynslu kviknar hugsunin; " hvers vegna kom þetta yfir mig? "

Þegar greiningin hefst getur þú  fundið til haturs gagnvart þeim sem lögðu til "svartnætti sálarinnar". Þú gætir efast um skaparann, fundist leiðsögnin bregðast og verndarenglarnir yfirgefa þig. Þetta gæti samt ekki verið fjær sannleikanum.

Þú munt uppgötva að allt það svartnætti sem þú fórst í gegnum gagnast þér til andlegs þroska. Að endingu verður þú undirgefinn í lotningu fyrir öllu því sem heimurinn færir þér án truflunar frá "egóinu" og munt sjá að allt þitt er "í höndum skaparans". Þetta er þar sem vakningin hefst.

"Það er ekki hægt koma til meðvitundar án sársauka. Fólk gerir allt, sama hversu fáránlegt það er, til að forðast eigin sál.  Fólk verður ekki upplýst í birtunni, heldur með því að lýsa upp myrkrið." Carl Gustav Jung.


Er Lagarfljótsormurinn til, en fljótið dautt?

IMG 0047

Þessi Lagarfljótsormur er kominn á þurrt og ferðast tæplega um fljótið þetta sumarið.

"Sagan um Lagarfljótsorminn er rúmlega 650 ára gömul en ormsins er fyrst getið í annálum árið 1345. Þannig má gera ráð fyrir því að ormurinn væri enn eldri hefði hann verið til.

Allar lífverur á jörðinni deyja á endanum en ekkert dýr hefur náð hærri aldri en
400 árum. Hafi hann því einhvern tíma verið til er hann að öllum líkindum
dauður.

Engar heimildir eru fyrir því að margir ormar séu í Lagarfljótinu
og því hefur tegundin dáið út ef hún hefur á annað borð verið til."

Þannig svarar vísindavefur Háskóla Íslands þegar að er spurt; Er Lagarfljótsormurinn til? Skriflegar heimildir eru ekki nógu gamlar til að hann geti hafa verið til og ef svo væri þá væri ormurinn of gamall til að geta verið til og þar að auki eru ekki til skriflegar heimildir fyrir því að fleiri en einn ormur hafi verið til í Lagarfljóti því væri hann útdauður hefði hann einhvern tíma verið til.

Kannski ekki við öðru svari að búast úr þessari átt þar sem allt er miðað við skjalfestar heimildir unnar af fólki með opinberlega viðurkenndar gráður í fyrirfram gefnu ferli. Munnmælasögur hafa aldrei átt sérstaklega upp á pallborðið á þeim bænum.

Þjóðsagan segir þó að ormurinn í fljótinu eigi sér mun lengri tilveru heldur en annálar greina frá og ormarnir hafi verið fleiri en einn. En þar segir;"

Það bar til einu sinni í fornöld, að kona nokkur bjó á bæ einum í Héraðinu við Lagarfljót. Hún átti dóttur eina vaxna. Henni gaf hún gullhring. Þá segir stúlkan: "Hvernig get ég haft mest gagn af gullinu því arna, móðir mín?" "Leggðu það undir lyngorm," segir konan. Stúlkan tekur þá lyngorm og lætur gullið undir hann og leggur ofan í trafeskjur sínar. Liggur ormurinn þar nokkra daga. En þegar stúlkan fer að vitja um eskjurnar, er ormurinn svo stór orðinn, að eskjurnar eru farnar að gliðna í sundur. Verður stúlkan þá hrædd, þrífur eskjurnar og kastar þeim með öllu saman í fljótið.

Líða svo langir tímar, og fara menn nú að verða varir við orminn í fljótinu. Fór hann þá granda mönnum og skepnum, sem yfir fljótið fóru. Stundum teygðist hann upp á fljótsbakkana og gaus eitri ógurlega. Þótti þetta horfa til hinna mestu vandræða, en enginn vissi ráð til að bæta úr þeim. Voru þá fengnir til Finnar tveir. Áttu þeir að drepa orminn og ná gullinu. Þeir steyptu sér í fljótið, en komu bráðum upp aftur. Sögðu Finnarnir, að hér væri við mikið ofurefli að eiga og væri ekki hægt að bana orminum eða ná gullinu. Sögðu þeir, að annar ormur væri undir gullinu og væri sá miklu verri en hinn. Bundu þeir þá orminn með tveimur böndum. Lögðu þeir annað fyrir aftan bægslin, en annað aftur við sporðinn. Ormurinn getur því engum grandað, hvorki mönnum né skepnum, en við ber, að hann setur upp kryppu úr bakinu, og þykir það jafnan vita á stórtíðindi, þegar það sést, t.d. harðæri eða grasbrest." (Þjóðsögur Jóns Árnasonar) 

IMG 0141

Lagarfljótsormurinn hans Hrings Jóhannessonar hefur verið á kaupfélagsveggnum fyrir augum Héraðsbúa í hart nær 40 ár skjótandi upp kryppunum.  Enda hefur ekki sprottið gras við vegginn síðan ormurinn birtist þar auk þess sem þau stórtíðindi urðu að Kaupfélagið lagði upp laupana á 100 ára afmælisárinu í harðæri hrunsins.

Það væri reyndar einnig gaman að fá vísindalegt svar frá Háskóla Íslands við því hvort Lagarfljótið sé til þar sem vafi virðist leika á hversu lengi fljótið hefur borið það nafn. Reyndar minnist ég þess að hafa fundist eins og áum mínum sem bjuggu á bökkum fljótsins hafi lítið þótt til Lagar nafnsins koma, þegar ég sem barn upplýsti nýfengna visku mína á því að við byggjum með réttu við Löginn, en þar á bæ var vatnið aldrei kallað annað en fljótið.  

Helgi Hallgrímsson einn helsti sérfræðingur í tilurð Lagarfljóts hefur komið inná sérkennilegheitin við að Lögurinn skulu hafa verið uppdiktaður sem kenninafn fljótsins og ábyggilega velt vöngum yfir hvort hænan eða eggið hafi orðið fyrr til í því tilfelli.  Í tímaritinu Glettingi má m.a. finna fróðleik um tilurð nafngiftarinnar.

"Nafnið Lögurinn á sér merkilega sögu. Ætla mætti að það væri hið upprunalega nafn stöðuvatnsins, sem fljótið rennur frá og er kennt við, en svo er ekki. Það er líklega sótt í Heimskringlu og aðrar fornsögur, en þar er það notað um vatnið eða fjörðinn Mälaren í Svíþjóð, sem höfuðborgin Stokkhólmur stendur við. Elstu heimildir um Löginn í Lagarfljóti eru frá 1883, í ferðalýsingu Þorvaldar Thoroddsen í Andvara og bréfi Þorvarðar Kjerúlf læknis (Múlaþing 14, 1985), sem líklega er upphafsmaður þess. Nafnið hefur rómantíska tilvísun í ásatrú, því að Snorri segir í Ynglingasögu að Óðinn hafi valið sér bústað við Löginn í Svíþjóð, og gefið öðrum ásum þar óðul, þar á meðal Frey, sem bjó að Uppsölum. (Við Löginn á Héraði eru tvö örnefni kennd við Frey). Ekki er ljóst hver er upprunaleg merking orðsins Lagarfljót." (Glettingur 6 (2), 1996). http://www.landogsaga.is/section.php?id=9&id_art=1986 

IMG 0053

Það sama á við orminn hans Sölva Aðalbjarnarsonar og Hrings, hann skýtur upp kryppu á þurru landi.

Það má semsagt velta vöngum yfir hvort langskólagengnum latínumönnum hafi ekki þótt það heldur snautlegt að svo mikið vatnsfall sem fljótið er ætti sér ekki skírskotun í sögulegt kenninafn. Ábyggilega má ekki síður finna fróðleik um fljótið og nafngift þess í bók Helga; Lagarfljót. 

http://www.landogsaga.is/section.php?id=3163&id_art=3193

En ekki ætlaði ég á nokkurn hátt að fara að hætta mér út í röksemdafærslu um það á sérfræði stigi hvort eða hvernig ormurinn og fljótið urðu til. Það má segja að ég hafi fundið þörf að kanna þetta mál á alþýðlegan máta þegar fjölmiðlar landsins upplýstu þau tíðindi að Lagarfljótið væri dautt og kannski ekkert síður eftir að hafa bjástrað við steina í samísku fjósi bróðurpartinn úr s.l. vetri, Samar eru jú fjölkunnugur Finnar sem fengnir voru til að koma orminum fyrir kattarnef.

Því ákvað ég grennslast fyrir bæði um fljótið og orminn þegar ég var heima á Egilsstöðum tvær vikur í maí. Það fór ekki fram hjá mér að fljótið var á sínum stað þó svo að það væri ekki lengur "Vatnajökuls blátt" eins og mig minnir að Helgi Hallgrímsson hafi lýst litnum á því, heldur meira svona móleitt, eitthvað svipað gæsaveiðimenn í felulitunum.

IMG 0218

Þessi er að gægjast upp úr garðinum hjá Grétari Reynissyni, kannski er þetta ormabarn.

Öfugt við silunginn í straumþungu gruggi Jöklu sem nú streymir niður Héraðið í farvegi fljótsins, er ormurinn ekki dauður heldur hefur hann forðað sér á þurrt land og fer fjölgandi. Sennilega hefur hann verið búin að undirbúa þetta fyrir löngu og er þá þjóðsagan dagsönn sem greinir frá því að Finnarnir hafi fundið tvo orma í fljótinu.

En það er eins og vanalega þegar einni spurningu hefur verið svarað verða til  nýjar. Ætli það sé hægt að ná gullinu úr fljótinu ef að ormurinn er ekki í því lengur?

Ps. Þessa orma fann ég á youtube.


Þjónar laga og reglna.

Alltaf þegar ég les um svona aðfarir lögreglu þá dettur mér ósjálfrátt í hug Kiddi Jó ensku kennari fyrir margt löngu.

Kiddi lagði ofuráherslu á það í ensku náminu að við hefðum vitneskju um það hvernig orðið Police hefði orðið til í ensku, en það vildi hann meina að væri stytting á orðunum "puplic service".

Þó það væri ekki auðskilið hversvegna Kiddi lagði svona mikla áherslu á þennan uppruna þá var merkingin auðskilin á íslensku þess tíma.

En það er æ sjaldnar sem orðið "lögregluþjónn" kemur upp í hugann þegar sagðar eru fréttir af vinnubrögðum lögreglunnar.


mbl.is Börn veittust að lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17. júní mynd.

17.júní 83

Myndin í tilefni dagsins er tekin fyrir 30 árum síðan. Hana fann ég þegar ég var að grúska í gömlu myndunum úr safni föður míns, í maí heimsókninni til Íslands, og komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að hún hefði verið tekin árið 1983. Það merkilega við það að muna ártalið er að þetta var sumarið sem ég missti minnið.

Skömmu eftir 17. júní 1983 var ég að vinna við múrverk í íþróttahúsinu á Egilsstöðum og datt aftur fyrir mig af ástandi þannig að hnakkinn skall fyrstur á steinsteypt gólfið.  Þegar ég stóð upp, sem gerðist snarlega, var ekkert í höfðinu, ekki ein minning.  Var þar að auki hvorki áttaður á stað né stund, þekkti ekki vinnufélagana, en var altalandi á íslensku sem ég notaði til að Guð sverja fyrir að allt væri í þessu fína.

Ég man eins og gerst hafi í gær hvað það var mikið hjartans mál að engin kæmist að því allt hefði þurrkast út af harða diskinum. Benni Jónasar múrarameistarinn minn, sem ég þekkti ekki baun þá stundina, spurði hvort ég vildi ekki taka því rólega sem eftir væri dags sem mér fannst ekki ólíklegt að eðlilegt væri að svara játandi.

Benni keyrði mig svo heim að húsdyrum í götu sem ég þekkti ekki, en vissi að ætlast var til að ég færi inn um dyrnar. Þegar ég kom inn settist ég í fyrsta sætið sem ég sá, pabbi vildi vita hvers vegna ég kæmi svona snemma heim en fékk svar út í hött. Enda kannaðist ég hvorki við manninn né tvö yngstu systkini mín sem enn voru í föðurhúsum. Annað slagið þegar lítið bar á fór ég út í glugga til að horfa út ef það kynni að verða til þess að sjá eitthvað kunnuglegt.

Eftir að pabbi hafði farið út í íþróttahús og spurt Benna hvers vegna ég hefði komið heim ákvað hann að fá mig með sér út á sjúkrahús. Læknirinn sem skoðaði mig var þáverandi Borgarlæknir sem leysti af á Egilsstöðum tímabundið. Hann spurði pabba hvernig hann hefði komist að því að ekkert væri í kollinum á mér, því þegar svona gerðist væru þeir sem fyrir því yrðu líklegastir til að fela það með öllum tiltækum ráðum.

Pabbi sagðist hafa séð að persónuleikinn var horfinn, það hefði lítið minnt á elsta son hans í manninum sem kom inn úr dyrunum allt of snemma heim úr vinnunni. Læknirinn sagði að högg á hnakka gæti hitt á minnisstöð með þeim afleiðingum að hún þurrkaðist út tímabundið en þetta ætti allt eftir að koma til baka á innan við sólarhring, sem stóðst nákvæmlega eftir því sem ég best veit.

Einnig er ártalið 1983 minnisstætt varðandi myndina vegna þess að það þótti ráðlegt að ég dveldi á sjúkrahúsinu í sólarhring eftir höfuðhöggið. Í glugganum yst til hægri á gula hluta sjúkrahússins stóðum við Björg amma en hún hafði komið þennan sama dag á sjúkrahúsið vegna  lasleika í höfði. Þarna stóðum við og virtum fyrir okkur útsýnið inn Héraðið horfandi yfir byggingarframkvæmdirnar við sjúkrahúsið. Ekki datt mér í hug þá að amma hefði farið að heiman í síðasta sinn og ætti ekki afturkvæmt vegna minnisleysis, svo skýrar voru samræður okkar um það sem fyrir augu bar út um gluggann.

En þessar hugrenningar voru samt ekki fyrstar til að fljúga í gegnum kollinn þegar ég sá þessa mynd. Það sem flaug fyrst í gegnum hugann tengist tilefni myndarinnar og fánaberanum á hestinum. Á augnabliki komu upp það margar minningar að vonlaust er að rifja þær allar upp, hvað þá að gera þeim skil í rituðu máli. Fánaberinn á hestinum er Ármann Guðmundsson sem ásamt Guðfinnu sinni komu upp einum af stærsta systkinahóp þorpsins á Egilsstöðum. Þessi systkini eru mörg hver á sama reiki og ég, því voru minningar augnabliksins skiljanlega óendanlegar. 

Ég þykist muna eftir því að hafa komið í húsið á Selás 22 þegar bílskúrin var fullur af kindum og hestum, með kartöflugarð á baklóðinni ásamt vappandi hænum. Þetta var reyndar ekkert einsdæmi á Egilsstöðum á þeim árum, hænur og suðfé mátti sjá við fleiri hús, kartöflugarða við flest. Húsasmíði var starfsgrein Ármanns og synirnir fjórir urðu allir húsasmiðir í læri hjá föðurnum að ég best man, sá frækni flokkur gekk stundum undir nafninu Ármenningar í byggingabransanum. Hestar voru áhugamál Ármanns og sona hans sem sumir hverjir eru flinkir knapar.

Þó svo að ég hafi stundað byggingavinnu frá unglingsárum þá var það ekki fyrr en næstum 10 árum eftir að þessi mynd var tekin sem við Ármann unnum fyrst við sömu byggingu. Það var þegar var verið að byggja Kleinuna við Miðvang 2-4. Verktaki var byggingafyrirtækið Baldur & Óskar hf, það sama og byggði þann hluta sjúkrahússins sem sést í byggingu á myndinni. Baldur Sigfússon var þar yfirsmiður og naut útsjónasemi Ármanns við uppsteypu Kleinunnar. Við Ármann tókum þar stundum tal saman um fyrri tíma og sagði hann mér m.a. frá því að hann og móður mín kæmu úr sömu sveit að norðan hann væri jafnaldri eldri systkina hennar. Gamlar minningar rifjuðum við oftar upp þegar við hittumst á förnum vegi.

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um hvernig skuli fara með hugtakið þjóðmenning, sem um er getið í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, hvort hana má t.d. finna í flatkökum, pönnsum og kleinum. Að sjálfsögðu verður þjóðlegum kræsingunum gerð skil í dag, blómsveigar lagðir og haldnar hátíðar ræður. En þegar ég sá þessa 30 ára gömlu 17, júní mynd greyptist það enn dýpra í vitund mína að það er fólk eins og Ármann sem gerir okkur að þjóð. 

 

IMGP5339

 


Alan Watts.

Alan Wilson Watts (6 Janúar 1915 - 16 nóvember 1973) var breskur heimspekingur, rithöfundur og fyrirlesari, best þekktur fyrir túlkanir á austurlenskri heimspeki fyrir vestræna áheyrendur.

Watts skrifaði meira en 25 bækur og greinar um austræna trúariðkun. Í bók sinni Psychotherapy East and West (1961) benti Watts á að búddisminn gæti nýst sem sálfræðimeðferð en ekki trúarbrögð.

Arfleifð Alan Watts hefur verið haldið lifandi af syni hans, Mark Watts, og margir fyrirlestrar hans eru í boði á netinu.

 


Salthúsið 2013.

IMG 0679 

Í dag opnar Salthúsmarkaðurinn í Salthúsinu á Stöðvarfirði fimmta sumarið í röð.  Frá 2009 hefur handverksfólk á Stöðvarfirði haldið úti markaði í aflögðu fiskvinnsluhúsi í bænum, með handverki víða af Austurlandi í boði fyrir ferðafólk. 

Samhliða markaðnum hafa verið ýmsar uppákomur í húsinu, t.d. var haldin ljósmyndasýning árið 2009 m.a. frá sjávarútvegi á Stöðvarfirði auk þess sem varpað var á veggi kvikmyndum frá fiskveiðum og vinnslu í íslenskum sjávarútvegi. Einnig var myndverk gjörnigaklúpsins "Icelandic love corporation" sýnt þar sem gert var að þorsk til útfarar í brúðarkjólum og ein málverkasýning. 

Árið 2010 áttu  hátt á annan tug ungra listamanna sviðið ásamt handverkfólkinu. Það sumar hófst sýningaröðin "Æringi" í Salthúsinu á Stöðvarfirði að frumkvæði listakonunnar Þorgerðar Ólafstóttir. Æringi hefur síðan verið haldinn í Bolungavík 2011 og á Rifi 2012.

IMG 0071

Núna sumarið 2013 er ráðgera aðstandendur "Pólar Festival" að hafa listviðburð í húsinu samhliða bæjarhátíðinni "Maður er manns gaman" á Stöðvarfirði helgina 12-14. júlí. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/30/haefileikasamfelag_a_stodvarfirdi/

Þó svo að þetta verði í þriðja sumarið í röð sem ég missi af opnun Salthúsmarkaðarins þá er hugurinn enn sem áður þar á þessum degi. Í dag ætla ég að nota tækifærið til að kynna handverkið hennar Matthildar sem verður í Salthúsinu í sumar.


Norðurhjarinn

IMG 0366 

Nú er sumarið komið á norðurhjaranum. Hérna á 69°N hefur sólin hnitað himininn sólahringum saman og daghitinn verið 15-25°C síðastliðnar þrjár vikurnar. Þá er tilvalið að nota kvöldin til að rölta niður í fjöru og fylgjast með fuglunum. 

Í kvöld sá ég fyrstu kollu ungana sem minnti mig á þegar morgnarnir voru teknir snemma í denn til að fylgjast með undrum norðurhjarasumarsins við Hamarsfjörðinn.


Landið bláa.


Lygari.

Sannleikurinn þvælist ekki fyrir Steingrími frekar en fyrri daginn.  Nú er hann farinn að ljúga á ensku af því að það gengur ekki lengur á íslensku.

Eftir að hafa reynt ljúga icesave í þrígang upp á þjóðina hélt hann kannski að tvisvar yrði tækifæri til ljúga hana inn í ESB og skjaldborgarlygi norræna helferðarhyskisins yrði svo öllum gleymd. 

Kannski ætti Steingrímur að fá sér hund.


mbl.is Væntingar kjósenda óraunhæfar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband