Er Lagarfljótsormurinn til, en fljótið dautt?

IMG 0047

Þessi Lagarfljótsormur er kominn á þurrt og ferðast tæplega um fljótið þetta sumarið.

"Sagan um Lagarfljótsorminn er rúmlega 650 ára gömul en ormsins er fyrst getið í annálum árið 1345. Þannig má gera ráð fyrir því að ormurinn væri enn eldri hefði hann verið til.

Allar lífverur á jörðinni deyja á endanum en ekkert dýr hefur náð hærri aldri en
400 árum. Hafi hann því einhvern tíma verið til er hann að öllum líkindum
dauður.

Engar heimildir eru fyrir því að margir ormar séu í Lagarfljótinu
og því hefur tegundin dáið út ef hún hefur á annað borð verið til."

Þannig svarar vísindavefur Háskóla Íslands þegar að er spurt; Er Lagarfljótsormurinn til? Skriflegar heimildir eru ekki nógu gamlar til að hann geti hafa verið til og ef svo væri þá væri ormurinn of gamall til að geta verið til og þar að auki eru ekki til skriflegar heimildir fyrir því að fleiri en einn ormur hafi verið til í Lagarfljóti því væri hann útdauður hefði hann einhvern tíma verið til.

Kannski ekki við öðru svari að búast úr þessari átt þar sem allt er miðað við skjalfestar heimildir unnar af fólki með opinberlega viðurkenndar gráður í fyrirfram gefnu ferli. Munnmælasögur hafa aldrei átt sérstaklega upp á pallborðið á þeim bænum.

Þjóðsagan segir þó að ormurinn í fljótinu eigi sér mun lengri tilveru heldur en annálar greina frá og ormarnir hafi verið fleiri en einn. En þar segir;"

Það bar til einu sinni í fornöld, að kona nokkur bjó á bæ einum í Héraðinu við Lagarfljót. Hún átti dóttur eina vaxna. Henni gaf hún gullhring. Þá segir stúlkan: "Hvernig get ég haft mest gagn af gullinu því arna, móðir mín?" "Leggðu það undir lyngorm," segir konan. Stúlkan tekur þá lyngorm og lætur gullið undir hann og leggur ofan í trafeskjur sínar. Liggur ormurinn þar nokkra daga. En þegar stúlkan fer að vitja um eskjurnar, er ormurinn svo stór orðinn, að eskjurnar eru farnar að gliðna í sundur. Verður stúlkan þá hrædd, þrífur eskjurnar og kastar þeim með öllu saman í fljótið.

Líða svo langir tímar, og fara menn nú að verða varir við orminn í fljótinu. Fór hann þá granda mönnum og skepnum, sem yfir fljótið fóru. Stundum teygðist hann upp á fljótsbakkana og gaus eitri ógurlega. Þótti þetta horfa til hinna mestu vandræða, en enginn vissi ráð til að bæta úr þeim. Voru þá fengnir til Finnar tveir. Áttu þeir að drepa orminn og ná gullinu. Þeir steyptu sér í fljótið, en komu bráðum upp aftur. Sögðu Finnarnir, að hér væri við mikið ofurefli að eiga og væri ekki hægt að bana orminum eða ná gullinu. Sögðu þeir, að annar ormur væri undir gullinu og væri sá miklu verri en hinn. Bundu þeir þá orminn með tveimur böndum. Lögðu þeir annað fyrir aftan bægslin, en annað aftur við sporðinn. Ormurinn getur því engum grandað, hvorki mönnum né skepnum, en við ber, að hann setur upp kryppu úr bakinu, og þykir það jafnan vita á stórtíðindi, þegar það sést, t.d. harðæri eða grasbrest." (Þjóðsögur Jóns Árnasonar) 

IMG 0141

Lagarfljótsormurinn hans Hrings Jóhannessonar hefur verið á kaupfélagsveggnum fyrir augum Héraðsbúa í hart nær 40 ár skjótandi upp kryppunum.  Enda hefur ekki sprottið gras við vegginn síðan ormurinn birtist þar auk þess sem þau stórtíðindi urðu að Kaupfélagið lagði upp laupana á 100 ára afmælisárinu í harðæri hrunsins.

Það væri reyndar einnig gaman að fá vísindalegt svar frá Háskóla Íslands við því hvort Lagarfljótið sé til þar sem vafi virðist leika á hversu lengi fljótið hefur borið það nafn. Reyndar minnist ég þess að hafa fundist eins og áum mínum sem bjuggu á bökkum fljótsins hafi lítið þótt til Lagar nafnsins koma, þegar ég sem barn upplýsti nýfengna visku mína á því að við byggjum með réttu við Löginn, en þar á bæ var vatnið aldrei kallað annað en fljótið.  

Helgi Hallgrímsson einn helsti sérfræðingur í tilurð Lagarfljóts hefur komið inná sérkennilegheitin við að Lögurinn skulu hafa verið uppdiktaður sem kenninafn fljótsins og ábyggilega velt vöngum yfir hvort hænan eða eggið hafi orðið fyrr til í því tilfelli.  Í tímaritinu Glettingi má m.a. finna fróðleik um tilurð nafngiftarinnar.

"Nafnið Lögurinn á sér merkilega sögu. Ætla mætti að það væri hið upprunalega nafn stöðuvatnsins, sem fljótið rennur frá og er kennt við, en svo er ekki. Það er líklega sótt í Heimskringlu og aðrar fornsögur, en þar er það notað um vatnið eða fjörðinn Mälaren í Svíþjóð, sem höfuðborgin Stokkhólmur stendur við. Elstu heimildir um Löginn í Lagarfljóti eru frá 1883, í ferðalýsingu Þorvaldar Thoroddsen í Andvara og bréfi Þorvarðar Kjerúlf læknis (Múlaþing 14, 1985), sem líklega er upphafsmaður þess. Nafnið hefur rómantíska tilvísun í ásatrú, því að Snorri segir í Ynglingasögu að Óðinn hafi valið sér bústað við Löginn í Svíþjóð, og gefið öðrum ásum þar óðul, þar á meðal Frey, sem bjó að Uppsölum. (Við Löginn á Héraði eru tvö örnefni kennd við Frey). Ekki er ljóst hver er upprunaleg merking orðsins Lagarfljót." (Glettingur 6 (2), 1996). http://www.landogsaga.is/section.php?id=9&id_art=1986 

IMG 0053

Það sama á við orminn hans Sölva Aðalbjarnarsonar og Hrings, hann skýtur upp kryppu á þurru landi.

Það má semsagt velta vöngum yfir hvort langskólagengnum latínumönnum hafi ekki þótt það heldur snautlegt að svo mikið vatnsfall sem fljótið er ætti sér ekki skírskotun í sögulegt kenninafn. Ábyggilega má ekki síður finna fróðleik um fljótið og nafngift þess í bók Helga; Lagarfljót. 

http://www.landogsaga.is/section.php?id=3163&id_art=3193

En ekki ætlaði ég á nokkurn hátt að fara að hætta mér út í röksemdafærslu um það á sérfræði stigi hvort eða hvernig ormurinn og fljótið urðu til. Það má segja að ég hafi fundið þörf að kanna þetta mál á alþýðlegan máta þegar fjölmiðlar landsins upplýstu þau tíðindi að Lagarfljótið væri dautt og kannski ekkert síður eftir að hafa bjástrað við steina í samísku fjósi bróðurpartinn úr s.l. vetri, Samar eru jú fjölkunnugur Finnar sem fengnir voru til að koma orminum fyrir kattarnef.

Því ákvað ég grennslast fyrir bæði um fljótið og orminn þegar ég var heima á Egilsstöðum tvær vikur í maí. Það fór ekki fram hjá mér að fljótið var á sínum stað þó svo að það væri ekki lengur "Vatnajökuls blátt" eins og mig minnir að Helgi Hallgrímsson hafi lýst litnum á því, heldur meira svona móleitt, eitthvað svipað gæsaveiðimenn í felulitunum.

IMG 0218

Þessi er að gægjast upp úr garðinum hjá Grétari Reynissyni, kannski er þetta ormabarn.

Öfugt við silunginn í straumþungu gruggi Jöklu sem nú streymir niður Héraðið í farvegi fljótsins, er ormurinn ekki dauður heldur hefur hann forðað sér á þurrt land og fer fjölgandi. Sennilega hefur hann verið búin að undirbúa þetta fyrir löngu og er þá þjóðsagan dagsönn sem greinir frá því að Finnarnir hafi fundið tvo orma í fljótinu.

En það er eins og vanalega þegar einni spurningu hefur verið svarað verða til  nýjar. Ætli það sé hægt að ná gullinu úr fljótinu ef að ormurinn er ekki í því lengur?

Ps. Þessa orma fann ég á youtube.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband