Færsluflokkur: kreppan
20.5.2011 | 09:57
Freedom is just another word
Undanfarna mánuði hefur mikið birst af fréttatengdum færslum á þessari síðu, enda hef ég haft meiri tíma en ég hef kært mig um frá því í október. Þessi fréttatengdu blogg hafa oft verið á dökku nótunum, það er erfitt að skilja við svartsýni kreppunnar atvinnulaus, þegar öll erfiðu bréfin streyma inn um lúguna og stefnuvottarnir hanga á dyrabjöllunni. En nú er tækifærið komið til að rífa sig upp og hætta neikvæðum athugasemdum við kreppufréttir, vonandi verður ekki tími til þess á næstunni.
Í síðustu viku bauðst mér vinna. Atvinnutilboðinu fylgja óskir um að ég flytji til Noregs, ásamt fjölskyldu. Þó svo að mér þyki óumræðanlega vænt um landið mitt þá er erfitt fyrir fimmtugan atvinnulausan múrara að hafna atvinnu sem býður tvöfalt hærri laun en í "gróðærinu" og fimmfaldar atvinnuleysisbætur. Hvort hægt verður að gera upp við vinnuveitendur stefnuvottanna í framtíðinni verður svo bara að koma í ljós.
Atvinnutilboðið bar brátt að og ráðningarferlið var 1,2 og bingó. Á föstudag sendi ég inn fyrirspurn vegna starfs. Á mánudagsmorgni var hringt og spurt hvort ég gæti hugsað mér að flytja til Noregs, laun og verkefni tilgreind ásamt ágæti Harstad, þess staðar sem ég mun koma til með að búa og starfa. Ég ráðfærði mig við konuna og ákvað mig svo samdægurs. Á þriðjudegi var búið að maila á mig flugmiða, upplýsingar um íbúð og hvaða störf konunni stæðu til boða ef hún vildi flytja með mér strax.
Þó margt í þessu sýnist vera of gott til að vera satt þá er ég tveimur vikum seinna að leggja í hann. Það hefur alltaf reynst mér best að láta hjartað ráða í stórum ákvörðunum, hvað þá þegar engu er að tapa.
kreppan | Breytt 27.2.2019 kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.5.2011 | 09:00
Flott framtak.
Þessir tveir láta greinilega ekki þjáningar morgunsins spilla deginum. Við eigum eitthvað af sementi og þessa forláta steypuhrærivél og báðir atvinnulausir." Eitthvað verða menn að gera, sögðu þeir þegar þeir fylltu í holurnar á veginum.
Fylltu sjálfir í holurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
kreppan | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2011 | 14:52
Sumarlandið.
Um páskana fórum við frú Matthildur í heimsókn til vinafólks í Noregi. Í þessari ferð var ekki laust við að mér dytti í hug bókin "Sumarlandið" eftir Guðmund Kristinsson, sem ég hef verið að lesa að undanförnu.
Bókin Sumarlandið hefur að geima frásagnir miðla þar sem framliðnir lýsa andláti sínu og endurfundum í framlífinu. Flestar frásagnirnar hafa að geyma fagra endurfundi við fjölskyldu og vini í hinu fagra "Sumarlandi", þar sem veðurblíðan leikur við vangann og einungis rignir á nóttinni, svona til að næra gróðurinn, flestar þjáningar fyrra lífs þar að auki að engu orðnar.
Noregur skartaði sínu fegursta við komuna, sól og 17 stiga hiti. Stefán fyrrum félagi í byggingargeiranum tók á móti okkur, ásamt íslenskum félaga sínum, á lestarstöð í Osló og sýndi okkur borgina seinnipart dags.
Þegar við tékkuðum okkur inn á Skandinavia hótelið í miðborg Osló bað ég dömuna í móttökunni um reykinga herbergi, hún brosti og rétti mér lykilinn og sagði "2107 þú kemst ekki hærra". Þegar við komum upp á herbergið skildi ég hvað hún meinti, Osló blasti við út um herbergisgluggann á efstu hæð Hótelsins. Karl Johann, Stórþingið, Nationalteater og konungshöllin voru fyrir neðan herbergisgluggann okkar auk stórkostlegs útsýnis út yfir höfnina og Óslóarfjörðinn.
Morguninn eftir kom Stefán ásamt félaga sínum og fór með okkur í ökuferð upp á Holmenkollen þar sem búið er að byggja splunkunýjan skíðastökkpall. Síðan var tekinn rúntur um hverfi vel stæðra Norðmanna á Holmennkollen, þar sem Stefán sýndi okkur stórglæsileg einbýlishús og hvar hann hafði unnið. Síðan fór hann með okkur til fjölskyldunnar sinnar sem býr í Asker, þar voru samankomnir margir Egilsstaðabúar bæði fyrrverandi og núverandi.
Í Asker kom svo vinafólkið, Tóti og Dúna, til að sækja okkur og haldið var suður til Porsgrunn þar sem við dvöldum hjá þeim í frábæru yfirlæti um Páskana. Veðrið og sólin lék við hvern dag hitin í kringum 20 stigin yfir daginn. Við fórum í allskonar bíltúra og gönguverðir, skoðuðum eyjar, báta og hyttur norðmannanna auk gamalla húsa þar sem götumyndirnar í bæjunum í kring eru eins og málverk ætluð sem augnakonfekt fyrir iðnaðarmann.
Þeir eru orðnir margir úr byggingageiranum á Íslandi sem flutts hafa til Noregs. Þegar talað er við fyrrum félaga í húsbyggingum sem þar búa er undantekningarlaust svo að þeir eru að vinna að spennandi verkefnum. "Þetta er svipað og var á Íslandi 2006, bara gaman" segja þeir, vinnudagurinn er búinn á skikkanlegum tíma og framfærslan er þægileg. Þeir sem fjárfest hafa í húsnæði sjá höfuðstól lána lækka við afborgun, sem er nokkuð nýtt fyrir Íslending. Allt þetta vinafólk hefur það gott og sér ekki eftir því að hafa skipt um umhverfi fljótlega eftir Íslenska hrunið.
Það fylgdu því þar af leiðandi nokkur heilabrot að koma heim aftur í atvinnuleysi og krepputal. Það fyrsta sem maður tók eftir í fréttum er að búið er að senda skuldamál heimilanna til ESA sem mannréttindabrotamál, þar sem bæði verður látið reyna á útfærslu vaxtaútreiknings ólöglegra erlendra lána og verðtryggingarákvæði húsnæðislána. Auk þess að hafa svipt mörg íslensk heimili aleigunni hafa ránsaðferðir fjármálafyrirtækja í skjóli stjórnvalda inn á íslensk heimili gert það að verkum að byggingargeirinn á Íslandi er frosinn. Það gæti því verið nokkuð í það að iðnaðarmaður geti kallað Ísland "Sumarlandið".
kreppan | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2011 | 22:45
Lífið í litum.
Það að vera án vinnu er ekki eins auðvelt og það gæti virst í fyrstu. Einhvernvegin verður að nota tímann og þegar tíminn berst að í eins stórum skömmtum og hann virðist gera, þegar maður hefur ekkert við hann að gera getur það reynst yfirþyrmandi verkefni. Það er svo skrítið að þegar tíminn er nógur þá er eins og maður komi sér ekki í það að gera það sem alltaf stóð til að gera þegar tími gæfist.
Undanfarna daga hef ég verið að drepa tímann við að mála, en það er eitt af því sem ég hélt áður að yrði aldrei nægur tími til að gera. En það er ekki auðvelt að koma sér að verki þegar hugmyndirnar vantar. Svo fór ég að mála það sem ég sá út um gluggann og það sem ég sé út um gluggann í sælureitnum við sjóinn. Kannski á ég eftir að ná því að láta litina heilla mig þannig að tíminn fljúgi.
Þegar ég var búin að mála nokkrar myndir fór ég að hugsa um mynd sem ég málaði fyrir 11 árum, nýbúinn að opinbera litaáráttu mína á striga. Þá kom til mín kona og skoraði á mig að mála fyrir sig mynd eftir sögu í bók sem hún afhenti mér. Þetta var mögnuð saga og hafði mikil áhrif á mig á meðan ég var að mála myndina. Þessi saga gæti þess vegna verið fyrirboði þess sem gerst hefur síðan. Sagan er eftir Selmu Lagerlöf og heitir Hreiðrið. Hér fyrir neðan er mynd af myndinni sem ég málaði við söguna. Mig minnir reyndar málverkið vera mun skírara en ljósmyndin en það er annað mál.
Hérna kemur textinn sem ég lét fylgja um það sem ég hugsaði þegar ég málaði mynd eftir áskorun.
Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu. Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.
Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig. Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði. Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða.
Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.
Ég þarf ekki að taka það fram að umhverfið í myndinni um hreiðrið var fengið út um stofugluggann minn þá. Hérna má sjá nokkrar af þeim myndum sem ég hef málað undanfarna daga m.a. út um stofugluggann.
kreppan | Breytt 8.3.2018 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2011 | 15:15
Atvinnulaus athafnamaður.
Undanfarna mánuði hef ég verið atvinnulaus og hef verið óvenju fastur við tölvuna og bloggið. Í ársbyrjun 2009 breyttust aðstæður mínar mikið en fram að því hafði ég haft lítinn tíma til annars en að sinna þeim hugðarefnum sem komu upp á í sambandi við vinnu. En ég hef mest alla mína ævi verið í vinnu hjá sjálfum mér og rekið eigin fyrirtæki, oft með tilheyrandi starfsmannahaldi. Haustið 2008 breyttist þetta, verkefnin gufuðu upp og ég átti við líkamstjón að stríða sem tók mest allt árið 2009 að ráða bót á. En það er svo skrítið að þegar tíminn er nógur þá er eins og maður komi sér ekki í það að gera það sem alltaf stóð til að gera þegar tími gæfist.
Það að vera án vinnu er því ekki eins auðvelt og það gæti virst í fyrstu. Einhvernvegin verður að nota tímann og þegar hann berst að í eins stórum skömmtum og hann virðist gera þegar maður hefur ekkert við hann að gera getur það reynst yfirþyrmandi verkefni. Konan ber t.d. út póst og hef ég náð að smygla mér með henni þetta gefur mér u.þ.b. tveggja klukkutíma áríðandi gönguferð á hverjum degi, en stundum hef ég það á tilfinningunni að ég sé að ræna hana stórum hluta af hennar gönguferð. Þess fyrir utan les ég, grúska á netinu, blogga auk þess að þvælast á milli vinnustaða og trufla fólk við sín daglegu störf en þeim ferðum er betra að stilla í hóf ef allir eiga ekki að verða hundleiðir á manni.
Þar sem ég er uppalinn, skólaður og hef átt allan starfsferil minn í byggingabransanum er lítið við að vera þessi misserin því það virðast fá verkefni vera á lausu fyrir fimmtugan múrara, nema þá í Noregi. En þar hef ég verið að spyrjast fyrir, en þar er vinnuvikan um 38 tímar og ekki veit ég hvað ég ætti að gera við hina 130 tíma vikunnar. Því fer mikill tími núna við tölvuna og á blogginu í venjulegt dægurþras geðsstirðs manns sem hefur ekkert nytsamt fyrir stafni. Ég hef meir að segja stytt mér stundir við að lesa vísindalega úttekt á því að breskir karlmenn yfir fimmtugt skrifi að meðaltali 5 kvörtunarbréf á dag í geðillsku sinni. Það má því ætla að ég sé búin að ná meðalmennskunni hvað þetta varðar þegar ég hef sent frá mér 5 blogg á dag. En ég ímynda mér að það hljóti að vera mun meira gefandi að hafa starf við að rannsaka geðillsku karlamanna yfir fimmtugt en að geðylskast sjálfur við tölvuna. 
Þegar ég setti upp þessa bloggsíðu haustið 2008 lýsti ég sjálfum mér sem atvinnurekenda, draumóra- og áhugmanni um frelsi hugans og bjóst við að þetta yrði endingargóð lýsing. Þegar aðstæður voru orðnar það breyttar 2009 að hæpið væri að halda atvinnurekenda nafnbótinni breytti ég lýsingunni í athafnamaður, draumóra- og áhugmaður um frelsi hugans, eftir vandlega íhugun um hvernig auðnuleysingi gæti breyst í athafnamann. Sjá hér. En núna get ég lítið annað en bætt við atvinnulaus, framan við, athafnamaður. En eins og það er víst að 2 + 2 þurfa ekki að vera 4 frekar en mér sýnist, þá kemur bráðum vorið með blóm í haga og þá gerist það einu sinni enn að allt gleymist í tímaleysinu þegar sólarhringurinn á Íslandi verður bara ekki nógu langur.
70,3 milljarðar í bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
kreppan | Breytt 30.1.2011 kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2010 | 16:13
Um áramót.
Um áramót hef ég þann sið að fara yfir árið og setja markmið fyrir árið framundan. Um síðustu áramót stóð ég á gati hvað markmiðasetningu varðar en það hafði ekki gerst í mörg ár. Árið hefur engu að síður verið skemmtilegt og sumu hef ég fengið tækifæri til að fylgjast með og leggja lið.
Árið 2010 hefur verið sérstakt eins og öll önnur ár. Í október hætti ég endanlega þeim rekstri sem ég hef haft atvinnu af undanfarin ár, eða réttara sagt leifunum af þeim rekstri, þar sem rekstrargrundvöll skorti.
Það má segja að í árslok standi ég á meiri tímamótum en oft áður, þarf að finna nýjan starfsvettvang. Ég hef haft atvinnu af eigin rekstri nánast alla mína starfsævi, en nú er ekki um auðugan garð að gresja í byggingariðnaði eða tengdri þjónustu. Helst að það vanti iðnaðarmenn í Noregi.
En það jákvæða við verkefnaleysið er að í markmiðasetningu fyrir 5 árum síðan hafði ég gert það að langtíma markmiði að skipta um starfsvettvang um þessi áramót. Það má því segja að draumarnir rætist alltaf þó aðstæðurnar séu kannski ekki alveg eins og vænst var. En þá er bara að nýta tækifærin sem eins og þau koma fyrir. 
Á þessu ári hafa vissulega komið upp andvökunætur og eftirsjá. Um síðustu áramót gerði ég að mínu markmiði sem má finna stað í fjallræðunni. Matt 6,22; Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. Þetta hefur mér gengið þokkalega að hafa í huga og hef fundið leiðir til að sjá ljósið þar sem dimmt var áður.
Hvað árið 2011 varðar þá á ég s.s. ekki auðvelt með að setja mér veraldleg markmið fyrir það frekar en fyrir árið 2010. Þó er ákveðið leiðarljós sem ég hef ákveðið að fylgja og enn kemur fjallræðan við sögu, Matt 6,26 ; Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?
Megi árið 2011 færa ykkur öllum gæfu og hamingju.
Það er svo við hæfi að kveðja gamla árið og heilsa því nýja með speki Bobby McGee.
kreppan | Breytt 25.12.2011 kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2010 | 21:39
Aðventa.
Jafnvel í skammdeginu, bjarmar af degi við sjóndeildarhringinn,
úti við ysta haf á Gvendarnesi kl. 10 að morgni.
kreppan | Breytt 30.1.2011 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2010 | 13:38
Skellt í lás og farið til helvítis.
Í gær skellti ég í lás í síðasta sinn. Í dag er ég atvinnulaus, en jafn tekjulaus og ég hef verið síðustu mánuði. Sennilega er ég kominn í sömu stöðu og margir Íslendingar, að sjá trauðla fram úr hlutunum, finnast réttlætinu hafa verið fórnað á altari Mammons og vera komin í hraðlestina til helvítis.
Ég hef allan minn starfsferil, frá 23 ára aldri verið í vinnu hjá sjálfum mér, eigin fyrirtækjum. Tímarnir hafa verið misjafnir en ég og fyrirtæki mín hafa getað staðið í skilum í gegnum tíðina. Núna viku í fimmtugt, eru einungis líkur á að þau vanskil sem ég verð valdur að aukist við að halda áfram rekstri. Því var ekki um annað að ræða en skella í lás, því siðferðisvitund mín getur ekki samþykkt að mínum vanda verði velt á aðra.
Árið 2008 voru fyrirtækin mín tvö. Annað verktakafyrirtæki í byggingariðnaði með 10 manns í vinnu auk þess að reka sérverslun með flísar og baðtæki. Hitt fasteignafélag sem leigir út húsnæði. Árið 2008 urðu margir af mínum stærstu viðskiptavinum gjaldþrota, verkefnin gufuðu upp, tapið er ómælt. Skuldir fasteignafélagsins stökkbreyttust. En þetta er svo sem ekki annað en það sama og gekk yfir allt Ísland það ár.
Bæði fyrirtækin voru byggð upp í samstarfi við aðra, verktakafyrirtækið keypti svo ég af félögum mínum seint á árinu 2007. Það hefði þurft 2 - 3- þokkaleg ár til að komast slétt frá þeim kaupum. Fasteignafélagið á ég svo með öðrum félaga. Tveir af þremur félögum mínum í þessum atvinnurekstri eru fluttir til Noregs. Þeir fluttu þangað fyrir rúmu ári síðan til að hefja nýtt líf. Ég sé óumræðanlega eftir þessum vinum mínum yfir hafið. Og kemur oft í hug það sem annar þeirra sagði; "Maggi ég sé ekki betur en komandi ár á Íslandi verði hreint helvíti. Ég ætla ekki að eyða seinni hluta ævinnar í að borga húsið mitt aftur".
Það sem er eftir af eigin rekstri eftir rúman aldarfjórðung er alfarið í "eigu" fjármálastofnana í dag, þó þær séu meira gjaldþrota en allt sem heitið getur. Síðustu tvö ár hef ég reynt að sæta lagi með því að breyta flísaversluninni í ferðamannaverslun yfir sumarmánuðina. Það gekk upp 2009 og gaf vonir um að hægt væri að vinna á vandanum. Árið 2010 hækkaði leigan einhliða og skildi miðaðast við byggingarvísitölu frá 1.janúar 2007. Leigan mín er helmingi hærri en verslunin hinu megin við götuna greiðir og þreföld leiga sem greidd er fyrir húsnæði þar sem fyrrum um byggingaverslun var til húsa. Eftir umleitanir um sanngjarnari leigu ákvað ég að vera út árið, enda staðsetningin góð þegar ég hugsaði til ferðamannanna frá fyrra sumri. Leigusalinn er ný skeint fjármálafyrirtæki eftir að hafa verið með drulluna upp á bak án þess að verða gert gjaldþrota. Uppvakið af fyrrum gjaldþrota Seðlabanka Íslands, það auglýsir nú grimmt með nýju eigin fénu á besta tíma sjónvarpstöðvanna "Komdu heim í Sparisjóðinn".
Í vor hófust óvænt umfangsmiklar lóðarframkvæmdir sem stóðu í mest allt sumar. Innkoma verslunarinnar varð 60% minni en sumarið 2009. Þegar ég fór þess á leit við leigusalan að fá eftirgefna leigu vegna tekjuhruns var svarið þvert nei. Þar á eftir fylgdu umvandanir um það að ég hefði betur gert ráð fyrir mögrum árum eftir góðærið í byggingariðnaði 2004 -2007. Þessum orðum til réttlætingar, átti ég að ég hafa tekið milljóna tugi út úr rekstri í eigin þágu þegar vel áraði. Ég fór fram á að vita hvaðan þessar upplýsingar kæmu svo ég gæti leiðrétt þær. Leigusalinn (sparisjóðsstjóri) sagðist hafa þær beint upp úr ársreikning 2009 sem ég hefði sent honum þegar hann ætlaði að skoða hvort lægri leiga kæmi til greina. Ég varð að biðja hann um að skoða þetta betur þessir miljónatugir sem hann teldi að hefðu lent í mínum vösum voru tekjusamdrátturinn sem varð á milli árann 2008 og 2009, starfsmaður fyrirtækisins væri orðinn einn í stað tíu og hann væri nú tekjulaus ég, sem væri auk þess í persónulegum ábyrgðum upp á milljónir.
Þessi sami sparisjóðstjóri og ég gerði uppahaflegt leigu samkomulag við fyrir tæpum 5 árum síðan, las þetta út úr þeim gögnum sem hann hafði um mín mál og tjáði mér væri því mátulegt að sitja uppi með forsendubrest undangenginna ára. Þegar sama fólkið í fjármálastofnunum fyrir og eftir hrun er við að semja ætti það að vera kostur, allavega mætti ætla að það þekkti menn og málefni. En það virðist vera að þeir sem enn sitja í sínu starfi með sömu laun og áður sé ómögulegt að skilja að svoleiðis sé það ekki allsstaðar. Það sem verra er að margir sem ekki hafa misst milljónina sína á mánuði virðast halda að þær tekjur sem ekki eru lengur sýnilegar séu nú komnar í svart hagkerfi.
Hæstiréttur hefur úrskurðað um hvernig farið verður með skuldamál hins fyrirtækisins. Nú er mér full ljóst hvers vegna Geir Haarde bað Guð um að blessa Ísland 6. október 2008. Við erum á hraðferð til helvítis.
Eggjum kastað í alþingismenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
kreppan | Breytt 7.3.2011 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.9.2010 | 10:47
Hænur eða slaghamar.
Eftir að hafa heilsast barst talið að þjóðfélagsmálum, hann spurði mig hvað væri helst til bragðs að taka, hvort við íslendingar gætu nokkurn tíma upprætt þá hrikalegu spillingu sem uppi væri. Sama liðið sæti í bönkunum afskrifandi af sjálfu sér og þeim sem hefðu skuldað mest, sama kúlulánaliðið í stjórnsýslunni, sömu mútuþægu stjórnmálamennirnir, sveitarstjórnarmenn sem væru því sem næst búnir að selja ömmu sína til sýna árangur í rekstri. Þetta væri að mestu sama velmentaða fólkið og hefði sett Ísland á hausinn á fínu kaupi. Flestir sætu sem fastast áfram á ekki síðri launum en áður og ef það viki þá væru himinhá eftirlaun eða starfslokasamningar í okkar boði. Hann sægi ekki betur en það þyrfti erlenda aðstoð til að koma þessu liði á bak við lás og slá eða jafnvel það sem verra væri, í gálgann.
Eftir að hafa bryddað upp á samræðum um hugsanlega lausn. Þar sem maðurinn með slaghamarinn sem heimsótti stjörnulögfræðinginn kom við sögu. En sá hugðist massa stjörnulögfræðinginn til, þó svo stjörnulögfræðingurinn særi fyrir að hann hefði viljað manninum illt þegar hann setti hann á hausinn vegna lána sem nú hafa verið dæmd ólögleg. Sjörnulögfræðingurinn taldi þetta vera byggt á misskilningi, hann hefði bara verið að vinna vinnuna sína og því alveg blásaklaus. Ég taldi að svona slaghamars aðgerð geta verið áhrifaríka við að koma því inn í hausinn á fólki að ekki dygði endalaust að skýla sér á bak við að vera í vinnunni þegar það yllu öðrum stórskaða, við eigin framfærslu og vegna markvissra afglapa.
"Þetta er bara svo mikið af fólki sem þarf að fara með slaghamar á hvað getum við gert annað en að leita eftir erlendri aðstoð", þrá stagaðist kunningi minn á. Þessi mál verður aldrei hægt að gera upp af okkur það er meira og minna ættingjar okkar og vinir sem settu Ísland á hausinn, ég treysti mér ekki til að fara með slaghamar á þetta fólk.
Ég sá að vonleysið skein úr augum kunningja míns og vildi ekki valda honum vonbrigðum með úrræðaleysi. Það væri til önnur ráð þau kostuðu engar gálgabyggingar, engan kostnað við að fæða og klæða fólk í fangelsum, engar blóðsúthellinga né marbletti eftir slaghamar. Við gætum gert upp málinn með því að gera vel við fólkið okkar sem teldi sig hafa unnið landi og þjóð gagn við að setja allt á hausinn og um leið rétta við ríkiskassann. Til þess þyrfti að fara inn á Alþingi, ráðuneytin, bæjarstjórnarskrifstofurnar og bankana, bera þetta skyldfólk okkar út og negla fyrir dyrnar með slaghamri svo það ætti ekki afturkvæmt. Síðan þyrfti að taka alla af launaskrá, losa stjórnmálamenn við eftirlaunaklafa, eins þá sem setið hafa í stjórnsýslunni síðustu 10 árin. Láta fórnarlömbin kúlulánanna hafa í starfslokagreiðslu og lífeyrir þrjár hænur, 10 kg af kartöfluútsæði og veiðistöng.
Kunningi minn varð mjög hugsandi án þess að svara, ég varð ákafur og sagði að hann hlyti að sjá að þetta væri góður og frændrækinn starfslokasamningur, þarna væri allt sem þyrfti til að lifa. Ein hæna verpti um 280 eggjum ári, kartöfluútsæðið tífaldaðist og veiðistöngin biði upp á óþrjótandi dægrastyttingu og afkomumöguleika. Þetta væri meir að segja það sem margt af þessu fólki væri tilbúið til að eiða stórfé í að gera í sumarfríinu, ef það þyrfti ekki að greiða það sjálft.
Eftir nokkra umhugsun sagði hann að honum fyndist þetta með hænurnar vera full mikið.
Guðbjartur verði ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
kreppan | Breytt 30.1.2011 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.12.2009 | 16:51
Áramót.
Um ármót er algengt að fara yfir árið sem er að líða og setja markmið fyrir árið sem er framundan. Þennan sið hef ég haft til fjölda margra ára og undanfarin ár hef skrifað niður markmið og væntingar.
Árið 2009 hefur að mörgu leiti verið mjög sérstakt ár í mínu lífi. Um langan tíma hafði ég verið upptekin af uppbyggingu rekstrar, sem skyndilega missti fótfestuna í árslok 2008 eins og svo margt í Íslenskum veruleika. Hjá mér hefur 2009 því verið, umfram allt annað ár endurmats, jafnhliða því að vera ár sem farið hefur í að því að ná heilsu eftir líkamstjón.
Á þessu ári hef ég gert margt af því sem mig hafði dreymt um í mörg ár vegna þess að til varð tími og því var best að grípa tækifærið og nota hann. Um síðustu áramót hafði ég það í huga sem árið 2008 hafði kennt mér umfram allt annað, þess má finna stað í fjallræðu Jesú Matt 6,19 -6,21; Safnið yður ekki í fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.
Núna við þessi áramót eru óvissan meiri en nokkru sinni fyrr. Hafi orðið veruleg breyting 2009 þá reikna ég með að 2010 verði hún ekki minni. Þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem ég á erfitt með að sjá fyrir mér markmið ársins sem er framundan. Því ætla ég að reyna að gera framhald fjallræðunnar að markmiði mínu og forðast eins og kostur er þá neikvæðni sem hefur haft veruleg áhrif á mig undanfarið.
Matt 6,22; Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.
Megi árið 2010 vera ykkur gæfuríkt.
Hér er boðið upp á gamlan slagara þar sem töffarar gærdagsins syngja um sígildan sannleika.
http://www.youtube.com/watch?v=TYt1xvjQ35U&feature=player_embedded
kreppan | Breytt 25.12.2011 kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)