Færsluflokkur: kreppan

Af manni og mús, sem kann ekki strauja

Frá því að ég kom hingað á 69°N ,eftir að hafa verið þjakaður af atvinnuleysi, gluggaumslögum og stefnuvottum heima á Fróni, mætti ætla að það hafi verið einmanalegt í kotinu.  Koti sem er fjarri heimahögunum á stað sem ég sem þekkti ekki eina einustu hræðu þegar ég kom.  Þetta væri annað líf en þar sem einhver er til að tala við og kettirnir sjá um móttökur við útidyrnar, eða það sem við köllum heimili.  Jafnvel þó svo að hér banka ekki einu sinni stefnuvottar á dyrnar hvað þá sölumenn sem hægt væri að taka stutt spjall um daginn og veginn.  Meir að segja þó sannist þar hið fornkveðna "engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" og þó það megi svo sem segja að varla hafi hræða komið inn fyrir dyr síðan ég kom hingað í maí ef frá eru taldir dagarnir sem hún Matthildur mín var hérna í ágúst.  Aðeins Pakistanarnir á hæðinni fyrir neðan rétt á meðan á samningaumleitunum stóð um hvernig við deildum með okkur nettengingu, eftir að ég uppgötvaði að það var hægt að nota hana og þeir að það var einhver farin að narta í hana.

Þetta hús sem ég bý í er samt allt annað en lífvana.  Auk Pakistanana á hæðinni fyrir neðan er ökuskóli á götuhæðinni, Salberg Kjöreskole A/S, þar er margt um manninn yfir daginn.  Vöruflutningabílstjórar framtíðarinnar námsfúsir samankomnir eða bara þrælvanir bílstjórar í hinni margrómuðu endurmenntun.  Á neðstu hæðinni er svo Murbygg A/S, fyrirtækið sem ég starfa hjá með sína aðstöðu.  Þar hefst dagurinn í rólegheitunum rétt fyrir 7:00 á því að vinnufélagarnir taka spjall og fá sér smá kaffisopa í morgunnsárið.  Vinnudeginum líkur svo á sama stað kl.15:30 en þá yfirleitt í snatri hjá vinnufélögunum sem fara hver til síns heima.  Eftir það er ekki mikið um mannleg samskipti þann daginn nema þá að drattast út í búð til að kaupa í matinn sem er ekki flókið verkefni fyrir eina hræðu.

En það er meira líf í húsinu en þetta.  Annað kvöldið hérna lá ég upp í sófa og íhugaði hvernig í ósköpunum rúmlega fimmtugum manni hefði dottið það í hug að yfirgefa heimili sitt til að fara að vinna í þræla múrverki norður við heimskautsbaug illa á sig kominn líkamlega.  Þá fannst mér einhver standa í stofudyrunum og horfa á mig, en þar var engin við nánari athugun.  Þessi tilfinning fór samt ekki og ég var farin að hugsa, hver andskotinn er þá reimt hérna.  Svo datt mér í hug að líta niður á gólf ef vera kynni að ég sæi skugga draugsins.  Þar sat þá lítil mús og virti mig fyrir sér í rólegheitum.  Einnig varð ég fljótlega var við fugla sem höfðu komið sér upp hreiðri upp í þakskegginu fyrir ofan útidyrnar, ekki ósjaldan sem fjaðrir og drit rigndi niður á dyrapallinn.  Aðal hávaðaseggirnir voru samt mávar sem höfðu gert sér hreiður á gámi við húsvegginn, þeir gerðu aðflugstilraunir á hausinn á hverjum sem það nálgaðist með tilheyrandi óhljóðum.  Þarna vildu þeir vera enda stutt í næsta pizzustað en því fylgdi sá ókostur að þegar ungarnir komust á legg þurftu þeir að fara ófleygir yfir umferðargötu til að komast á pizzahlaðborð.  Það var ekki ósjaldan sem heyra mátti máfana leiðbeina ungunum yfir götuna þegar þeir sátu upp á mæninum við herbergisgluggann.

Mér hefði ekki þótt það ónýtt þegar ég var polli að búa nánast í dýragarði.  Það að hafa átt þess kost að vera hjá afa og ömmu í Vallanesinu var ómetanlegur tími í sannkölluðum dýragarði.  Það var ekki ónýtt fyrir sjö ára gutta fá að fara einn að sækja kýrnar og fá höfðinglega heimferð eftir að hafa verið boðið á bak af ferfættri vinkonu.  Eftir að afi og amma fluttu í þorpið var fátæklegri bragur á dýrakynnum mínum.  Eitt sumarið áskotnaðist mér samt gæsarungi sem hafði verið tekin hálf stálpaður af kunningja mínum í næsta húsi en kom ekki til greina að hann fengi að halda.  Þessi fugl elti mig fram á haust en lét sig svo hverfa með hinum farfuglunum.  Vængbrotinn stelk reyndi ég einu sinni að gera hændan að mér en gafst fljótlega upp á hávaðanum og styggðinni í honum en þegar ég ætlaði að skila honum við Löngutjörnina elti hann mig hálfa leiðina heim.  Rjúpa var það svo einn veturinn, svo auðvitað hundurinn Tító, kötturinn Sigurlína, páfagaukarnir Napóleon og Jósefína sem voru meðlimir á bernskuheimili mínu.

En það var semsagt músin sem olli mér hugarangri og síðar samviskubiti núna í vor.  Ég minntist á þetta við húseigandann sem sagðist þá þegar fara út í búð og útvega mér tæki og tól til að drepa kvikindið.  Ég sagði að það kæmi ekki til greina hún hefði búið þarna á undan mér og yrði ekki myrt með blóðsúthellingu á sínu eigin heimili.  En ég væri til í að fá gildru til að ná henni lifandi, fara svo með henni í berjamó þegar liði á sumarið og athuga hvort hún hefði nokkurn áhuga á að koma heim aftur.  Þetta var í mínum huga nógu djöfullegt ráðabrugg við að hafa af henni heimilið.  Húseigandinn kom úr verslunarleiðangrinum með rottueitur í poka, sagði að það hefði verið hlegið að sér þegar hún bað um gildru sem næði mús lifandi og treysti mér til að losa fasteign hennar við þessa óværu.  Ég tók við eitrinu í kurteisisskini og setti það upp á hillu niðri í þvottahúsi þar sem var gulltryggt að engin óviti kæmist í það.

Svo var það einn morgunninn þegar ég kom fram að ég heyrði þrusk í ruslapokanum undir eldhúsvaskinum.  Nývaknaður að vanhugsuðu máli greip ég fyrir pokann, fór með hann út og hélt að málið væri leyst með tilheyrandi samviskubiti.  Tveimur morgnum seinna var aftur þrusk í ruslapokanum og ég endurtók leikinn nema núna henti ég honum í ruslatunnuna og lokaði vandlega á eftir með óbærilegu samviskubiti.  Það voru afdrifarík mistök því þá fylltist allt af litlum svöngum músum sem kunnu ekki neina mannasiði.  Þær voru undir örbylgjuofninum ofan í spaghetti pakkanum og rallandi um alla íbúð.  Ég bara fékk mig ekki til að henda þessu saklausa ungviði út á Guð og gaddinn.  Einn daginn róaðist liðið og ég var að spá í hvað hefði gerst þegar ég sá fullorðna mús sem mér fannst ég eitthvað kannast við snúast fyrir framan ruslaskápinn.  Eftir það passaði ég uppá að hafa nóg í ruslaskápnum og fékk í staðinn frið fyrir ólátabelgjum.

Matthildi var búið að hlakka til að sjá músabúskapinn hjá mér þegar hún kom í ágúst en þá brá svo við að þær létu ekki sjá sig enda berjatíminn í hámarki.  Í staðinn mætti elgur til að heilsa upp á hana fyrsta morguninn.  Hún hafði verið að spyrja að því heim af flugvellinum hvort þetta ætti að vera hreindýr sem væri mynd af á umferðaskiltunum meðfram veginum.  Nei sagði ég þetta á að vera elgur, hún spurði strax hvort ég hefði séð svoleiðis dýr, nei aldrei svaraði ég, mikið vildi ég sjá svona elg sagði hún.  Snemma morguninn eftir vakti hún mig og sagði Maggi veistu hvað dýrið á umferðarskiltunum er hérna utan við gluggann að naga tré, og er það í eina skiptið sem ég hef séð elg hérna.  Mér er sagt af innfæddum að ég skuli ekki búast við því aftur að sjá elg inn í miðju Harstad.  Það var svo ekki fyrr en seint í september að ég tók eftir að það var farið að eiga við pokann í ruslafötunni og stuttu seinna sá ég að hafragrjónapokinn hafði orðið fyrir tjóni svo það var ekki um annað að ræða en að splæsa á mýsnar að éta í ruslaskápnum til að hafa skikk á heimilishaldinu.    

 

IMG 0008

 

Annars var svo sem ekki fyrir Matthildi af miklu að missa með músabúskapinn hjá mér enda hefur heimilishald okkar í gegnum tíðina verið eins og gangandi dýragarður.  Lengst af hafa kettir fylgt okkur eins og álög.  Hundurinn Rustikus var að vísu eina dýrið sem ég lagði með mér í þann búskap, þar sem köttur og fuglar voru í aðalhlutverki fyrir, auk músanna tveggja sem ég kom með heim til að gleðja hana gömlu kisu áratugum seinna.

Gamla kisa var þeim gáfum gædd að gera ekki flugu mein.  Mýsnar gátu verið óhræddar því hún sat bara dáleidd og horfð á þær.  Sama var það með fugla sem voru hennar aðal áhugamál svo mikið að ég fór og keypti handa henni margverðlaunuðu Frönsku fuglamyndina á DVD í einu skammdegisþunglyndinu hennar þegar hún var kominn við aldur.   Fyrsta kvöldið sat hún í þrjá tíma fyrir framan sjónvarpið og þegar ég fór á stjá morguninn eftir kom kisa röltandi og settist fyrir framan sjónvarpið og leit á mig með augum sem ekki var hægt misskilja, "fuglamyndina í DVD spilarann".  Þegar kisa dó næstum 16 ára, södd lífdaga eftir að hafa fylgt okkur sem álög þvers og kruss um landið hafði Matthildur á orði að hún gæti sennilega aldrei haft annan kött.  Það leist mér ágætlega á því að þó kettir séu einstaklega sjálfstæðir þá er erfitt að sýna sama sjálfstæði gagnvart þeim.

Akkúrat hálfu ári eftir að kisa var öll fór Matthildur að tala um að nú hefði kisa orðið 16 ára og hún væri farin að sakna þess svo að hafa ekki kött sem tæki á móti henni við útidyrnar.  Rétt á eftir þessa yfirlýsingu fór hún út í búð.  Það voru ekki liðnar margar mínútur þegar dyrabjöllunni var hringt og við útidyrnar stóðu tveir krakkar úr blokkinni með tvo kettlinga og vildu fá að vita hjá formanni húsfélagsins hvað ætti að gera við þá, þeir hefðu verið í sameigninni.  Formaðurinn leit flóttalega fram af svalahandriðinu til að athuga hvort frú Matthildur væri nokkuð í nágrenninu og sagði þeim að kannski ætti Skúli þá sem býr í hinum endanum á neðstu hæðinni eins gætu þau farið með þá í næsta hús því ég hefði grun um að þar væri köttur. 

Tíu mínútum seinna birtist Matthildur inn úr dyrunum og sagði "Maggi veistu hvað það er bara allt fullt af kettlingum niður í sameign og mig langar alveg rosalega í einn".  "Er það þessi grábröndótti" spurði ég; "já hvernig vissirðu það".  Ég sagði að hann væri ekki einn því honum fylgdi annar sem ekki væri hægt að slíta frá honum, ég hafði nefnilega tekið eftir því þegar krakkarnir komu með kettlingana að annar þeirra treysti algerlega á bróðir þegar hún hjúfraði sig upp að honum.  Þannig að Matthildur var kominn með tvo ketti klukkutíma eftir að hún hafði óskað sér að fá kött á afmælinu hennar gömlu kisu.  Þarna var um mikla gleðigjafa aða ræða, annar grábröndóttur ofurköttur sem fékk nafnið Tiger og hitt veikburða kríli sem flutti sig um með því að draga sig áfram á framlöppunum og Matthildur þurfti að mata með mjólk úr sprautu, sem fékk nafnið Trítla. 

Þú sérð það Maggi að það er eitthvað mikið að henni Trítlu, hún er eitthvað fötluð og með skúffukjaft svo hún getur ekki lapið mjólk sagði Matthildur.  Ég sagði að það væri bara að láta hana ekki vita af því að hún væri þroskaheftur krypplingur þá myndi hún taka allt upp eftir Tiger því hann væri hennar hald og traust í lífinu.  Trítla vildi fljótlega fara að launa mér vinskapinn og þegar hún mætti mér reyndi hún sýna það með því að nudda sér upp við lappirnar á mér, en það var allt á ranghverfunni í hausnum á henni þannig að hún datt til að byrja með út á hlið í hina áttina.  Núna tveimur árum seinna er Trítla langt frá því að ver eins og fullvaxinn köttur en hún er samt orðin ofurköttur sem svífur upp gardínurnar á augabragði.  Tiger telur sig stundum þurfa a setja ofaní við systur sína fyrir vitleysisganginn.  Hann hefur líklegast verið maður í fyrra lífi sem hefur fengið Trítlu sem karma í þessu lífi.  Þessa ályktun dreg ég af því að sjá hann liggja á bakinu uppí sófa með framloppurnar á brjóstkassanum við að horfa á sjónvarpið.  Einnig eftir að hafa kynnt mér Búdda fræðin hans Sindra bróðir.

Eitt sumarið okkar á Djúpavogi fyrir löngu síðan, birtist andarungi nýskriðinn úr eggi við útidyrnar og auðvitað bauð Matthildur honum inn.  Það hafði sést til andar með ungahóp í götunni og kattar.  Andarunginn hafði baðkarið til umráða það sumarið og Matthildur veiddi handa honum flugur sem hann dafnaði af.  Seint í ágúst þegar ég var búin að greina ungan sem kvenkyns stokkönd tók ég eftir að hún var farin að fara upp á stóla og borð til að flögra um húsið, samt var þetta pínulítið kríli.  Þá fór fjölskyldan í fjöruferð og öndinni var sleppt á eina seftjörnina.  Hún synti í kvakandi ánægju á þessu stóra baðkari, kom tvisvar að bakkanum þar sem við stóðum til að kveðja sumar fjölskylduna sína.  Síðan hefur hún ekki sést. Seinna var okkur sagt að þetta hefði verið urtönd en ekki stokkönd, þær væru svo styggar og litlar að það sæist sjaldan til þeirra, það skýrði hvað mér fannst hún eiga langt í að verða fullvaxin þegar hún fór að fljúga um húsið.  Matthildur var þar að auki talin göldrótt að hafa komið henni til fullorðins aldurs.

Þá er ég komin að kjarna málsins.  Ég er sem sagt kominn með mýs í heimili hérna í N-Noregi. Er þar að auki ekki viss um að sjá fram úr því án hennar Matthildar minnar sem hefur séð um að dýr og mannfólk dafni í okkar búskap í gegnum tíðina.  Þó svo að heimilishaldið samanstandi ekki af flóknum fyrirbærum, aðalega  hafragrjónum, baunum, hrísgrjónum og spaghetti; heimilistækin séu pottur, örbylgjuofn og samlokugrill þá verður það að segjast alveg eins og er að þetta er að verða fullflókið fyrir karlamann sem kann ekki að strauja.  Enda er það löngu vísindalega sannað að karlmenn geta ekki straujað heilabúið ræður einfaldlega ekki við það.


Hundrað daga að heiman.

scan0002

 

Hvar er sá staður sem maður kallar heima?  Eru það æskustöðvarnar, hús fjölskyldunnar eða bara allir þeir staðir sem augnabliks stemming hefur haft áhrif á sálina? 

Mér varð hugsað til þessa þegar ég sá snilldar videoið hans Skúla Andréssonar "Heima er best-Haustið 2011".  Í myndinni hans Skúla er svifið á englavængum um einn fallegasta stað á Íslandi, stað sem hefur haft hvað mest áhrif á sálina mína.  Þarna má m.a. sjá húsið sem var mitt "heima" lengst af þeim húsum sem ég hef búið í síðan æskuheimilið var yfirgefið og flækingur lífsins tók við.  Húsið sem var fæðingastaðurinn hennar Matthildar minnar og heimili fyrstu 33 ár ævi hennar.  Húsið þar sem börnin okkar slitu fyrstu barnskónum. 

Einnig má sjá í myndinni  litla húsið sem mér er kærast af öllum þeim húsum sem ég hef tekið þátt í að byggja.  En það hús byggði ég fyrir tveimur áratugum síðan ásamt börnunum mínum og vinum þeirra þegar þau voru um þriggja ára aldurinn.  Kannski hefur Skúli verið einn af þátttakendunum í kofabyggingunni þó ég muni það ekki lengur, allavega hefur kofinn snert hjarta hans á þann hátt að hann er í þessu fallega videoi ungs og upprennandi listamanns í kvikmyndagerð.  Ég efast ekki um að myndin hans Skúla snertir  fleiri hjörtu en allra þeirra sem tengjast Djúpavogi, svo vel er hún úr garði gerð.

 

    scan0025

 

Það vill stundum fara svo að eftir að æskustöðvarnar eru kvaddar og ungviðið heldur út í hinn stóra heim að þráin eftir "heima er best" verður öllu yfirsterkari.  Jafnvel eru dæmi þess að þráin eftir æskustöðvunum endist langt fram eftir ævi og miðaldra fólk hafi ekki verið í rónni fyrr en það var búið prófa aftur að búa götunni heima og þá kannski á ská á móti æskuheimilinu án þess að finna nokkuð kunnuglegt þar lengur.  Það þarf því ekki að vera að staðurinn sem þig ól þekki þig nokkhvern tíma aftur eftir að þú hefur einu sinni yfirgefið hann á lífsins leit, þú gætir jafnvel lent í að þér finnist þú búa á ská á móti sjálfum þér það sem eftir lifir ævi.

Það kom fljótlega í ljós eftir að ég hleypti heimdraganum hvað þessi þrá eftir því að vera heima er sterk.  Þó svo að ekki væri farið yfir langan veg í fyrstu, aðeins nokkrar bæjarleiðir þar sem ég lauk iðnskóla og var svo á sjó um nokkurra mánaða skeið.  Eftir tæpa ársfjarveru var aftur snúið heim, en þá hafði faðir minn ásamt yngstu systkinum flutt þvert yfir landið og þegar ég kom í litlu kjallaraíbúðina sem ég hafði til umráða heima leið mér sjálfsagt enn undarlegar en miðaldra manni sem flytur á ská á móti æskuheimilinu enda ókunnugt fólk vafrandi um í húsinu heima sem gat allt eins verið draugagangur.

Í snatri ákvað ég að fara þvert yfir landið til að vera nálægur faðmi fjölskyldunnar.  En það var bara ekkert heima í mínum fæðingarbæ fyrir sunnan.   Þegar voraði fimm mánuðum seinna setti ég aleiguna í aftursætið á Maverick og hélt í austur.  Ég taldi mig fljótlega hafa farið aðeins of langt því ég endaði einhverahluta vegna í Færeyjum þar sem ég var við glaum, gleði, múrverk og húsbyggingar fram eftir sumri.  Það var í bakaleiðinni frá Færeyjum sem Djúpivogur kom inn á radarinn, þar ætlaði ég að stoppa til að komast á togara minnugur þess hvað togarasjómennskan gaf góðar tekjur þegar ég sleppti heimdraganum, tekjur sem jafnvel gætu dugað fyrir farmiða til Ástralíu þar sem æskuvinur minn og frændi hafði fundið sitt heima.

En í Berufirðinum kynntist ég góðu fólki sem var tilbúið til að leyfa mér að eiga þar heima og svo fljótlega henni Matthildi minni en hjá henni á ég ævinlega heima.  Þó svo að ég kæmist aldrei á sjóinn þá var þörf fyrir bæði áhugamenn um húsbyggingar og múrverk þegar ég kom á Djúpavog. Þau heilabrot sem urðu til þess að Djúpivogur var yfirgefin 17 árum seinna, var að ég vildi vera meira heima.  Það var nefnilega þannig að köllunin til að byggja húskofa og múra, þessi þráhyggja í eitt sandkorn til, eina flís í viðbót og einn stein enn, gat kostaði fjarvistir sem voru oft vika til tíu dagar í senn og sum árin voru dagarnir orðnir yfir 200 að heiman.

IMG 0165          IMG 0149          IMG_0167

Það var semsagt þegar tugir ævinnar voru orðnir fjórir sem ég var komin með þá bjargföstu vissu að það væri best að halda sig heima. Fyrir valinu varð fæðingarbærinn Reykjavík, þar væru húsbyggingar stundaðar út í hið óendanlega og þar hlyti ég þrátt fyrir fyrri reynslu að finna mig heima.  Þar hafði ég þó allavega varið fyrstu árum ævinnar og af minningum úr foreldrahúsum þá vissi ég að það hafði verið í Karfavogi, hef aldrei vitað númer hvað.  Eftir stutta yfirferð ákváðum við Matthildur að við skildum næst eiga heima í Grafarvogi.

En þó svo að ég vaknaði þar hvern dag í faðmi fjölskyldunnar var ég samt aldrei alveg heima.  Um leið og ég lokaði augunum á kvöldin var ég kominn austur á Djúpavog, Egilsstaði eða jafnvel Norðfjörð, í þá gömlu uppgangstíma þegar húsbyggingar voru daglegt brauð og ungir athafnamenn gátu dregið fisk úr sjó án þess að úr yrði sakamál.   Svo þegar ég opnaði augun aftur að morgni þá kom sólin ævinlega upp vitlausu megin við rúmið og því spurning hvort ég yrði ekki að flytja mig hinu megin við sólina.  Þó nóg væri að gera við húsbyggingar gat ég engan veginn fundið mig heima í Reykjavík, ekki einu sinni þó ég kíkti á Karfavoginn það kom bara ekki upp ein einasta kunnugleg minning.  

Eftir rúm þrjú ár í Reykjavík hélt ég að heiman og heim.  Eins og svo oft áðr hélt ég í áttina að sólarupprásinni.  Í Þetta sinn á æskustöðvarnar á Egilsstöðum, heimaslóðir föðurættarinnar.  Þar vaknaði ég hvern morgunn upp með fjölskyldunni og með sólina réttu megin við rúmið.  Húsbyggingar í algleymi og lífið lék við hvern sinn fingur svo mikið um að vera og gera að ég fann mig heima.  Svo gerðist það sem gerðist um allt Ísland, ekki eins og áður bara í litlum sjávarþorpum á við Djúpavog, það borgaði sig ekki lengur að byggja hús.  

Eftir að hafa vaknað upp með fjölskyldunni heima í tíu ár var komið að því að halda enn einu sinni að heiman og aftur var stefnan tekin austur í sólarupprásina, kannski væri heima bara enn lengra fyrir austan.  Núna er ég staddur í Harstad í N-Noregi, þó svo sólin sé steinhætt að koma upp þegar ég opna augun á morgnana, þá er hér margt kunnuglegt og jafnvel læðist að manni sá grunur að hér gæti verið gott að eiga heima.  Ekki er nóg með að hænur fái að skoppa heima við hús án þess að heilbrigðiseftirlitið sé að mæla lyktarmengun, heldur fá hanarnir a gala án þess að það sé ljósmengun frá blikkljósum lögreglubíla í skammdeginu.  Það læðist jafnvel að manni sá grunur að heimabakstur til fjáröflunar í góðgerðaskyni sé látin óáreittur. 

Hænur og heimabakstur er eitthvað sem lifir í æskuminningunum frá því heima á Egilsstöðum, þegar hanarnir göluðu frjálsir við Laufásinn, þá var billegt að vera til enda enginn banki í bænum en við annað hvert hús kofi fullur af hænum.  En núna eru fjarvistirnar að heiman ekki lengur vika til tíu dagar eins og á Djúpavog í denn. Nú eru dagarnir að heiman orðnir allt að hundrað í senn.  Allir hundrað eru þeir samt til þess að geta haldið áfram að eiga heima heima.

 


Guð einn veit.

IMG 0076
 

Í dag verður Ægir borinn til grafar.  Í dag ætti ég að vera á Djúpavogi ásamt fólkinu þar til að votta hinstu kveðju.  Í dag er ég staddur í Norður Noregi með tárin í augunum og kökkinn í hálsinum.

Þau voru óumræðanlega sár tíðindin sem hún Matthildur mín flutti yfir hafið miðvikudaginn 12. október.  .......Maggi ......hann Ægir er dáinn........  Hann Ægir einn af þessum hjartahreinu mönnum sem ég hélt að yrði á veginum á meðan ég væri þar sjálfur.  Hann Jón Ægir Ingimundarson sem fórst við vinnu sína í hræðilegu slysi í höfninni við Innri Gleðivík á Djúpavogi þennan örlagaríka október dag á Austurlandi.

Ægir var einn af þeim sem vakti athygli við fyrstu kynni, ekki vegna þess að hann ætlaði það, heldur fyrir að vera öðlingur.  Ég vissi fyrst hver Ægir var þegar hann var á unglingsárum, örlögin höguðu því þannig að móðursystir hans varð lífsförunautur minn og mér féll sá heiður í skaut að kynnast Ægi og hans fjölskyldu í gegnum tíðina.  Claudiu þegar þeirra sambúð hófst, börnunum þeirra Hafrúnu Alexiu, sem var mér eins og kær afmæliskveðja fyrir níu árum og Emilio Sæ sem fyrir rúmum sex árum átti þá skemmtilegustu skírnarveislu sem ég hef setið.   

Í dag get ég aðeins vottað samúð mína með því að senda í huganum yfir hafið og heim mínar dýpstu samúðarkveðjur til hans kæru fjölskyldu;  Claudiu, Hafrúnar,  Emilio; foreldranna Unnar og Ingimundar auk alls fólksins á Djúpavogi, staðarins sem hefur misst einn af sínum kærustu sonum.

Í dag eru öll mín orð fátækleg því ég á ekki að vera hér heldur á Djúpavogi, þess vegna ætla ég að gera orð einnar af dætrum Djúpavogs að mínum við að tjá hinn ólýsanlega missi.

 

"Sonur, faðir, unnusti, ástvinur....á svipstundu fallinn frá, í faðmi fjalla ,í bláma sjávar í rödd vindsins þann dag.....

Sorgin breiðir yfir blæju sína, þorpið sem lamað....
Tárin streyma, söknuðurinn er sárastur..

... ...Tíminn læðist hægt til ykkar...áfram biður lífið ykkur um að horfa fram á veginn.

Vegurinn er endalaus,brattur...erfiður,
Vegurinn er líka beinn og breiður.
Með sameinuðu ferðalagi samfélags í sorg er
Leiðin greið.

Minningar vakna, tónlist ,hlátur,gleði...lítil falleg börn....
Þakklát fyrir að hafa fengið þó þessi ár
Þakklæti fyrir hlýjuna...

Þökkum fyrir manninn sem er kenndur við öldur hafsins...hafið sem var honum svo kært.

Hann fer með tónlistina á nýjan stað.

Hann horfir yfir...

Þorpið kveður...með einlægri hjartans kveðju..."

(höfundur Jóhanna Másdóttir)

 


Stiklað á stóru.

 IMG 0296

 

Eins og sólin hnitaði himininn hátt  næturnar um Jónsmessuna þá lækkar hún flugið hratt núna eftir haustjafndægrin hér í Nord Norge á 69°N.  Það örlaði fyrir því að það rynnu á mig tvær grímur við að sjá að meðfram vegum var búið að reka hátt í tveggja metra rauðar snjóstikur með fárra metra millibili og heyvagnarnir, sem fluttu töðu í  hlöðu á hlýjum sumar dögum, brunuðu hlaðnir eldivið aftan í dráttarvélunum í bæinn og reykurinn er  farinn að liðast upp um strompana á húsunum. 

Að venju á þessum tíma sakna ég sumarsins sem leið allt of fljótt.  Núna eftir hauslitasinfóníuna er myrkrið skollið á um sex leitið og rétt að byrja að birta þegar ég fer í vinnuna sjö að morgni annað en þegar sólin skein nóttina langa.  "Helviti mörketid" segja vinnufélagarnir frá Afganistan, en Norsararnir dásama norðurljós og væntanlega snjóskafla "hver årstid har sin sjarm". 

Hvernig verður þetta í vetur þegar myrkrið ræður ríkjum fá því í lok nóvember þar til seint í janúar?  Hvernig verður það fyrir sjónvarpslausan einstæðinginn að hafa ofan af fyrir sér þegar fjöruferðir í laufþyt og fuglasöng eru ekki í boði? Sagt er að maðurinn sé það vel búinn til höfuðsins að hann noti aðeins ca 3% heilabúsins, það er ekki gott að sjá hvernig á að hafa ofan af fyrir þessum 3% sjónvarpslaus hvað þá hinum 97% ef ske kynni að vera að það tírði á þeim ásamt norðurljósunum í skammdegis myrkrinu í vetur. 

 

 

Ég hef heyrt að indíánar N-Ameríku hafi fundið leið til að stytta sér stundir með því að horfa á það sem ekki sást löngu fyrir tíma sjónvarpsins.  Þetta gerðu þeir t.d. með því að horfa ekki á stjörnurnar að næturlagi heldur á það sem er á milli þeirra og þannig hafi þeir uppgötvað mörg undur alheimsins t.d. það að þeir væru gestir á þessari jörð og hefðu ekki óumdeilt tilkall til auðlegðar hennar.  Þessari kúnst hefur vestræn menning fyrir löngu útrýmt.  Það sem ekki sést er ekki til nema þá sem draugasögur og samsæriskenningar, sjálfan andardráttinn þykir orðið sjálfsagt að skattleggja.  Allt sem ekki sést er hugarburður, nema náttúrulega  það sem kemur ósýnilega og þráðlaust inn í helvítis sjónvarpið.  Það er heilagur sannleikur.

Ég hef reyndar aldrei skilið hvers vegna fólk borgar fyrir að hofa á sjónvarp, hef lengi haft það á tilfinningunni að fólk láti hafa sig að fífli með því að horfa á það kauplaust. Það má auðveldlega sjá það hvernig að því er farið að fá fólk til að nota aðeins 3% heilabúsins eða þaðan af minna með því að ánetja það sjónvarpinu.  David R Hawkins gerir því góð skil í videói hérna að neðan og ekki þarf annað en að minnast 11. september 2001.  Þann dag gerðist nákvæmlega ekkert í heiminum nema það sem var í sjónvarpinu.  Eftir þann dag hefur fólk samþykkt með glöðu geði að ganga með buxurnar á hælunum í gegnum flugstöðvar verandi grunað um glæpi gegn mannkyni, allt í nafni eigin öryggis.  Svona getur nú sjónvarpið virkjað lítinn hluta heilabúsins á stórkostlegan hátt.

Kannski ég taki upp siði indíána frekar en að fá mér sjónavarp í vetur og sitji skammdegisdægrin löng og fylgist með myrkrinu á milli stjarnan hérna á norðurhjaranum.  Enda er ég ekki óvanur eftir að hafa fylgst með skýjunum fara yfir himininn atvinnuleysis veturinn mikla, þó svo mér hafa reyndar ekki hugkvæmst að fylgjast með því sem var á milli skýjanna sem hefði óneitanlega gefið skýjaskoðuninni meira vægi.  En það sýnir best hvað ég nota heilann takmarkað, gott ef það nær heilum þremur prósentum.

Undanarna mánuði hefur minn helsti vinnufélagi verið Juma, svartur Súdani sem hugsar ekki línulega að vestrænum hætti.  Ég hef oft verið hugsi yfir því hvernig hann kemst í gegnum hlutina og hef komist að þeirri niðurstöðu að hann notist við meira en 3% heilans, hann hafi fleiri tengingar.  Ég hef heyrt að munurinn á vesturlandabúum og Afríkufólki felist fyrst og fremst í því að vesturlandbúar hugsa línulega, eða frá upphafi til endis.  Afríkubúar hugsi meira í hring eða réttara sagt spíral, því allt heldur áfram í hinni eilífu hringrás.  Því skiptir það minna máli hvar er byrjað og hvar er endað því þú kemur alltaf að því aftur, þó svo að það verði ekki á nákvæmlega sama stað og tíma.

Mér var fyrirmunað að skilja hvernig Juma ætlaði að fá sumt til að ganga upp sem við unnum að, mér virtist sem hann hefði hvorki skin á stærðir eða tíma, upphaf eða endi.  Samt er það svo að hann skilar fínu verki á undraverðum tíma, þó svo að ekkert af því sé beinlínis eftir bókinni.  Hann hefur eins og sagt er tilfinninguna fyrir því hvenær komið er nóg.  Juma sagði einu sinni við mig að hann héldi að Afríkubúar væru ekki hátt skrifaðir á vesturlöndum.  Eftir að hafa unnið með honum í fjóra mánuði, setið í norðurhjara sólinni undir laufþyt og fuglasöng  með kaffibrúsann og nestisboxið einn mánuðinn át hann ekkert því það var Ramadan hjá múslimum, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Juma eigi því láni að fagna að hafa aldrei farið í skóla.  Þess vegna hafi heilabúið á honum víðtækari tengingar en t.d. mitt.

Sennilega er það vegna þess hvað maður notar heilann lítið að það er alltaf eitthvað að koma fyrir mann.  Maður lendir í hinu og þessu og verður við það að undrandi álfi sem allt i einu er kominn langt norður fyrir heimskautsbaug og farin að spá í það hvort hann á að horfa á stjörnurnar í vetur eða á milli þeirra.

 


Hyskið út úr húsum þjóðarinnar!

Það eru til kynslóðir sem hafa lagt sig fram í öllu til að geta búið á Íslandi.  Þrátt fyrir vilja og ómælda vinnu hefur fjórflokkurinn ásamt sinni verðtryggðu glæpastarfsemi, hirt því sem næst allt af þeim sem eru fæddir 1960-1975.  Þessar kynslóðir, hafa horft uppá verðbólguna éta upp þeirra eignir hvað eftir annað.  Við myntbreytinguna 1980-1981 fylgdi óðaverðbólga uppá 150%, sem gerði fólk að öreygum á örskots stund.  Verðtryggingin sá til þess.  Aftur 1991-1993, og aftur voru sömu fjölskyldur sviptir því sem þær voru búnar að leggja til í íbúðarkaupum.  Verðtryggingin sá til þess.  Enn og aftur var þessi kynslóð rænd í hruninu 2008 sem gengur endanlega frá viljanum hjá mörgum til að búa lengur á Íslandi. Verðtryggingin sér til þess.

Það getur enginn á Íslandi gert fjárhagsáætlun eða framtíðaráætlanir, vegna þess að þeim er rústað á einu augnabliki með vanhugsuðum og verðtryggðum ákvörðunum ráðamanna. Allt sem hér hefur skeð, hefur verið varað við margsinnis.  En allt kemur fyrir ekki, ráðamenn þessa lands, hlusta ekki, jafnvel þó eggjaskurnið hafi verið hamrað úr eyrunum á þeim, er svo komið að í dag að þjóðin hefur hvorki efni á helferðarhyskinu, né náhirðinni sem breytti leikreglunum með neyðarlögum á einni nóttu til að koma afrakstri kúlulánanna sinna inn á verðtryggt öryggi, sem situr nú með drulluna upp á bak á launskrá þjóðarinnar afskrifandi af sjálfu sér og marg samþkkjandi að þjóðin ábyrgist icesave.  Það eru einfaldlega að verða of fá merki um að ungt fólk hafi áhuga á því að byggja þetta land.  Umhverfið er slíkt að það spyr; til hvers eigum við að eyða okkar bestu árum í því að tryggja eftirlaunarétt og hlunnindi fyrir þetta hyski sem ekkert hefur gert til að verðskulda það?

Ég er einn af þeirri kynslóð sem hefur látið spila með mig út í það óendanlega til að geta búið á ástkæra og ylhýra ættlandinu.  Núna eftir að vera kominn á sextugsaldurinn hef ég í þrígang séð á eftir ævisparnaði mínum og rúmlega það.  Eftir að hafa verið á vinnumarkaði frá 16 ára aldri, lengst af í eigin rekstri, er ég kominn á vergang í Noregi svo ég geti sent peninga heim til fjölskyldu og skulda. 

Væri mér nær að líta í eigin barm yfir því hvernig er komið?  Hvað með offjárfestinguna, flatskjái og annað bruðl?

Því er til að svara að íbúð fjölskyldunnar er 90 fermetra blokkaríbúð sem taldist í 50% eign við hrunið, þá miða ég við kaupverð 2004 en ekki þá 40-50% hækkun þegar verðið fór hæst.  Þar fyrir utan er íbúð í raðhúsi á mínu nafni sem ég keypti 2007 til að gera upp og sem verkefnauppfyllinu fyrir reksturinn minn.  Heimilisbíllinn er 13 ára, krakkarnir muna varla eftir öðrum.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um eignastöðuna í dag samkvæmt skattframtali þá er hún nánast núll.  Þá eru ekki meðtaldar  persónulegar ábyrgðir vegna atvinnurekstrar sem var í byggingariðnaði og varð að engu við hrunið vegna gjaldþrota þriggja stærstu viðskiptavina. 

Í byrjun september fór ég heim til Íslands í tveggja vikna frí eftir rúmlega þiggja mánaða úthald í Noregi.  Þar reyndi ég að ná samkomulagi við bankann minn vegna persónulegra ábyrgða í atvinnurekstri sem var með 12 manns í vinnu þegar mest var.  Ég leitaði eftir að ábyrgðir sem heimili fjölskyldunnar er í veði fyrir væru látnar niður falla gegnt því að ég greiddi helming skuldarinnar.  Þetta gæti verið ca sú upphæð sem ég næði að skrapa saman með því að eiða einu ári hér í Noregi í úthaldsvinnu og með því að éta ca eina til tvær dósir af bökuðum baunum á dag auk þess að lauma í mig nokkrum hafragrjónum á morgnanna.  Þess má geta að þetta er banki sem lék eitt aðalhlutverkið í falli Íslands, banki sem helferðarhyskið hefur nú fært óþekktum vogunarsjóðum að fórnargjöf ásamt skuldugum viðskiptavinum.

Til þess að þetta verði tekið til skoðunar, af bankanum sem engin veit hver á lengur, þurfti ég að leggja fram skattaskýrslur þriggja ára,  launaseðla þessa árs, ársreikninga fyrirtækisins s.l. þrjú ár, aðgang að bankareikningum auk þess þarf konan að leggja fram sína launaseðla og bankareikninga.  Tek það fram, svo því sé haldið til haga að ég nota skó nr. 43, sem bíða endurnýjunar. 

Þegar ég var að útvega gögn og annað í þessari Íslandsdvöl spjallaði ég við marga kunningja um þessar væntingar mínar.  Þeir sögðu flestir þú getur gleymt þessu það verður ekkert afskrifað, það er bara 110% leiðin sem er í boði.  Ég sagðist hafa gert þau reginmistök í gróðærinu sem maður í atvinnurekstri með hundraðmilljóna veltu að hafa hvorki byggt mér 250 m2 einbýlishús né keypt Range Rover til að leggja í hlaðið, hvað þá nýjan Benz handa konunni eða tekið kúlulán til að eignast hlutbréf í bönkunum til að erfa börnin af, þar af leiðandi passaði ég ekki inn í 110% leiðina.

Þrír kunningjar höfðu reynt að fara 110% leiðina.  Tveir af þeim höfðu glansað í gegn þeir byggðu báðir 2-300 m2 einbýlishús í gróðærinu, þeir sögðu að þeir hefðu mátt til að sækja um 110% áður en jepparnir sem þeir keyptu í hlaðið lentu á þeirra nöfn því það hefði verið komið að lokagreiðslum til Lýsingar.  Það eina sem þeir voru hugsi yfir var hvort rétt væri að skrá jeppana á krakkana svo að þeir ættu möguleika á umferð tvö í 110.  Sá þriðji sem reyndar keypti litla blokkaríbúð ásamt sambýliskonu þegar íbúðarverð var uppsprengt fékk enga 110% leiðréttingu.  Hann uppfyllti öll skilyrði, en var bent á að á hann væri skráð Toyota Yaris bifreið og hana skildu þau hjónaleysin selja áður en að væri farið að væla um afskriftir.  Já aulinn sá hann ætti að fara í fjármálaráðgjöf áður en hann lætur sér detta svona vitleysa í hug aftur.

Nei hjá helferðarhyskinu koma almennar leiðréttingar ekki til greina.  Vonandi verður í framtíðinni hægt að óska þeim til hamingju sem pössuðu 110%, með að hafa bjagað því sem bjargað varð, þó svo að hingað til hafi 110% verðtryggð skuld með íslenskum vöxtum verið ávísun á gjaldþrot á stjarnfræðilegum hraða.  En það má þá bara reyna aftur að fá 110%, eða þá bara gengur einhvern veginn betur næst. 

Eitt er að brjótast um kollinum á mér, hvort það gæti verið rétt fyrir íslenskan lúser að setjast að í Noregi, frekar en að bíða eftir að það komi að honum í 110% röðinni á þrælaeyju hyskisins.


mbl.is Eggjum kastað í þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri gamla ljóskastarans.

 

Stundum koma upp þau augnablik að allt stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum og ævintýri lífsins verða hið sjálfsagða.  Hingað til Norður Noregs kom ég fyrir þremur mánuðum síðan þjakaður af krepputali fjölmiðlanna, hálfsárs atvinnuleysi og stefnuvottum á útidyrasnerlinum.  Landið mitt yfirgaf ég í maíhretinu mikla sem gerði norðurlandið hvítt og suðurlandið svart með aðstoð gjósandi Vatnajökuls.  Síðan þá hefur allt verið sem nýtt en þó eins og óljós minning um það sem átti eitt sinn að verða.

Hérna hef ég unnið það sem á Íslandi teldist þægilegur vinnudagur fyrir fín laun.  Frítímann hef ég svo notað til að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða auk þess að blogga og standa í skemmtilegum skoðanaskiptum.  Í þessum bloggsamskiptum hafa oft komið púsl sem mig hefur vantað í myndina af lífsgátunni miklu, gátu um hinn eilífa gróanda þar sem allt er sem blómstur að vori.

Fyrir stuttu sendi Sólrún bloggvinkona mín púsl í lífsgátuna sem athugasemd með link á youtube sem snérist um margföldunarháhrif náttúrunnar sem Fibonacci hafði komið í formúlu talna.  Undur lífsins ganga upp samkvæmt Fibonacci, 1+1=2 / 1+2=3 / 2+3=5 / 3+5=8 / 5+8=13, aftari samlagningar talan er lögð saman við síðustu útkomu út í hið óendanlega með stighækkandi margfeldisáhrifum. 

Þarna er ekki um neitt 2+2=4 streð að ræða sem hefur verið niður njörvað sem rétt útkoma.  Það vill því miður gleymast að við erum skóluð í að koma okkur saman um að tveir plús tveir séu fjórir, þó svo að sú útkoma eigi ekkert skylt við gróanda lífsins.  Þessu hafði Fibonacci kallinn komist að fyrir margt löngu.  Enda finnst 2+2=4 hvorki í náttúrunni hvað þá í gróanda lífsins.  Sú útkoma lýsir í raun andláti eða má í besta falli líkja við fangelsi hugans og þá flatneskju jarðar sem fólki var ætlað að trúa á fyrri öldum eða hljóta verra af s.s. gapastokkar og galdrabrennur.   Nútíminn ætlar okkur að trúa á það að tveir plús tveir séu fjórir sem hinn óhagganlegi sannleikur, annars eigum við það á hættu að verða stefnuvottum gjaldþrotabeiðnanna tekjulind.

 

 

En hvað um það hérna í Norge hafa semsagt veður skipast í lofti.  Í stað kreppustagls, skattahækkana og niðurskurðar til að mæta kröfunni um að 2+2 sé 4, er gróandi lífsins aftur orðinn sýnilegur.  Um síðustu helgi upplifðum við Matthildur mín, sem er þessa dagana stödd hérna há mér í Nord Norge, gróanda lífsins.  Við fórum á í boði Mette vinnuveitenda míns í þriggja sólahringa ævintýraferð á skútunni hennar Libra og bjuggm þar ásamt Sverre sambýlismanni hennar.

"Hugsaðu þér Maggi" sagði Matthildur einn morguninn "við búum í skútu hjá fólki sem við vissum ekki að væri til fyrir nokkrum vikum síðan og erum stödd á hátíð gamla ljóskastarans.  Hvernig getur svona ævintýri gerst".

 

 

Hátíð gamla ljóskastarans (Lyskastertreff) er samkoma ca. 50 skemmtilegra karla sem saman koma eina helgi seint í ágúst ár hvert til að kveikja á gömlum ljóskastara sem þjóðverjar notuðu til að lýsa upp óvinavélar á næturhimninum.  "Gáðu að því að þessi ljóskastari var smíðaður 1929 og er ekkert digital dæmi", sagði Sverre við mig til að undirstrika mikilvægi samkomunnar, "það er ekki sjálfgefið að það kveikni á honum".  Auk þess að brasa í tvo daga við að koma ljósi á kastarann með hjálp 3. tonna ljósvélar sem dreginn er á staðinn, aka þessir karlar sem flestir eru fyrrverandi hermenn um á gömlum herbílum.  Einn eftirmiðdagur fer í safarí ferð upp á útsýnisfjall fyrir ofan aflagða herstöð við Lödingen.  Við Matthildur upplifðum óbyggðaferð með körlunum auk þess að njóta uppljómaðs Norður Norska næturhiminsins í geislum ljóskastarans.

Það var svo daginn eftir þegar við röltum frá skútunni Libra að bækistöð ljóskastarans sem var við hinn endann á kæjanum ásamt vitanum í bæ lóðsanna Lödingen, sem púslin röðuðust saman.  Þetta var sunnudaginn 21. ágúst sem tilnefndur hafði verið sem dagur þjóðarsorgar í Noregi vegna voðaverkanna í Osló og Úteyju.  Um hádegisbilið hafði fólk frá Lödingen safnast saman við það sem virtist vera útimessa við enda kæjans skammt frá þar sem gamli ljóskastarinn stóð í miðjum búðum karlanna.  Við Matthildur ákváðum að ganga upp að vitanaum við innsiglinguna og líta eftir berjum í lyngi vaxinni brekkunni.

Brekkurnar voru svartar af berjum Matthildur tíndi kíló á stuttri stund í hálsklútinn.  Ég lét fara vel um mig á steini og fylgdist með letilífi máfanna í fjörunni við Vestfjorden sem vísar í suðvestur áttina heim.  Það var þá sem mér varð hugsað til Jóhönnu með helferðargrímuna og sundurlyndisfjandans hann Steingrím og hversu niðurnjörvuð þau eru í vitfirringunni 2+2=4, svo sturluð að það þykir sjálfsagt að ræna heimili fólks til þess að þeir sem fastir eru í dæminu fái fyrir náð og miskunn að skulda 110% í því sem að var eitt sinn þeirra, áður en bankar og stjórnmálamenn ákváðu að 2+2=4 skyldi vera 110% verðtryggð skuld.  Sé einhvertíma ástæða til að setja vitfirringu í mankynsöguna verður það þegar helferðarhyskisins verður minnst.

Það var upp úr þessum þungu þönkum sem ég hrökk upp við sálmasöng og tók eftir því að búið var að skíra barn í nágrenni við ljóskastarann á degi þjóðarsorgar í Noregi.  Ég stóð upp af steininum hristi af mér slenið og tíndi upp í mig krækiber og bláber sem fullgildan hádegisverð á örskotsstundu og afsannaði þar með eftirlætis kenningu hagfræðinganna að eingin sé málsverðurinn án endurgjalds.  Það er á svona augnablikum sem hugurinn uppljómast um það sem barnssálin alltaf vissi að 2+2 þurfa ekki að vera fjórir frekar en manni sýnist.

Video frá Lyskastertreff gert af Mette.

 


Sjónvarpslaus fáráðlingur

Nú er svo komið fyrir mér hérna í Noregi að einna helst má líka því við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríin sínu en var ekki kominn lengra en í næsta fylki þegar sumarfríið varð búið.  Þetta sagði hann hafa gerst vegna þess að það var svo margt áhugavert að skoða.  Hann sagði að þeir sem kynnu að lesa færu margs á mis vegna þess að þeir létu leiðbeiningar sem þeir læsu segja sér hvað væri áhugavert. 

Þegar ég kom hingað hafði ég uppi góð áform, líkt og prófessorinn, um að nota frítíma til að ferðast um nágrennið og skoða Nord Norge en get varla sagt 11 vikum seinna að ég hafi komist út fyrir bæjarmörkin hérna í Harstad, hvað þá yfir í næsta fylki.  Ég get hvorki kennt bullinu sem ég á það til að lesa né annríki um að svo er komið.  Það er einna helst að ég geti kennt sjónvarpinu um þetta, sem ég hef ekki séð allan þennan tíma og veit þar af leiðandi ekki hvað er merkilegt. 

Því hafa kvöldin og frítíminn farið í að lalla niður í næstu fjöru og fylgjast með fuglunum.  Þar hef ég séð æðarkolluna ala upp ungana sína, kríurnar baða sig, hnísur kinka kolli til mín í flæðarmálinu, marglittur svífa um eins og engla innan um krossfiska og ígulker, stöku sinnum hefur mús stytt sér leið úr fjörunni í holuna sína yfir tærnar á mér.  Mínir helstu félagar hafa verið kettir sem setið hafa með mér og fylgst með af andakt hvað hefur fyrir augu hefur borðið. 

Svona er nú  ástandið þegar sumri er tekið að halla og það þrátt fyrir að ég hafi aðgang að þremur bílum til ferðalaga, hef hreinlega ekki komist hænu fet.  Þess í stað hefur það verið að renna upp fyrir mér hvað fékk David Attenborouh til að gera alla þessar náttúrulífs myndir sem sýndar eru í sjónvarpi og verð að segja það sem mig hefur alltaf grunað að þættirnir hans Attenboruoh eru mislukkaðir miðað við original útgáfuna.

Þegar ég var nýkominn hingað voru allir boðir og búnir til að útvega mér sjónavarp, það væri svo gott að hafa það til að læra norsku og komast inn í norskt mannlíf.  Vinnufélagarnir spurðu með mikilli umhyggju hvort ég hefði ekki sjónvarp og voru strax boðnir og búnir til að útvega mér svoleiðis grip.  Vinnuveitandinn vildi kaupa sjónvarp handa mér en ég kom mér undan því með því að gefa í skyn að ég hefði ekki efni á að kveikja á því, en útvarp skyldi ég fá mér til að læra norskuna hratt og örugglega. 

Eftir að þeir hættu að spila Sweet home Alabama og allar setningar í útvarpinu mínu byrjuðu á Breivik, hugvekjan hans Stoltenberg svo spiluð næst á eftir "víst einn maður gat alið svo mikið hatur með sér ímyndið ykkur þá bara hvað við öll getum sýnt mikinn kærleika" og þar á eftir fóru svo fréttir af því hvernig lögreglan leitaði hús úr húsi að fleiri hatursfullum hryðjuverkamönnum hefur verið slökkt á útvarpinu mínu.  Þetta var bara farið að minna mig of mikið á skjaldborgarhugvekjurnar hennar Jóhönnu um árið og fleiri skringilegar útfærslur á kærleikanum.  Það getur vel verið að ég prufi að kveikja á útvarpinu aftur í september.

 

 

Það er kannski komin tími á að ég geri aðeins grein fyrir vinnufélögunum, enda kom ég hingað vegna vinnu og það eru þeir sem ég hef mest samskipti við, því ekki hef ég séð Íslending síðan í maí frekar en sjónvarp og sakna íslendingana meira.  Múrarahópurinn samanstendur af allra þjóða gersemum, þrír er norskir, tveir eru frá Afganistan og einn frá Súdan og svo náttúrulega þessi þrjóski Íslendingur.  Ég verð að segja það alveg eins og er að mér líkar betur að heyra Afganana kyrja slagara frá heimahögunum heldur en Breivik þvælan í útvarpinu, jafnvel þó Norsararnir tuði "for helvide er det arbisk musik". 

Hjá þverhausum mér þá hefur sagan um apana fimm oftar en einu sinni komið upp í hugann þegar mér hefur fundist vinnufélagarnir vera að gera hlutina fyrir aftan rassgatið á sér.  Því hef ég reynt eins og mér er unnt að hafa orð Bóa félaga míns að leiðarljósi þó misjafnlega hafi gengið.  En hann gaf mér það heilræði áður en ég fór;  "vertu svo ekkert að kenna þeim þó þeir geri allt með handabökunum, þeir hafa einhvern vegin slampast í gegnum þetta fram að þessu".  En mikið rosalega eru þessir apakettir búnir að missa af mörgum bönunum en skýringuna á því er best að sjá á videoinu hérna fyrir neðan.

Stundum hef ég átt það til að vorkenna mér yfir því að hafa verið þessar 11 vikur að heiman frá fjölskyldu og vinum.  En þegar ég heyri vinnufélagana tala um sína fjarveru frá heimahögunum get ég bara ekki vorkennt mér lengur.  Afganarnir eru flóttamenn og nýkomnir með Norskt vegabréf þannig að þeir fóru báðir til að hitta fjölskyldu sína núna í sumarfríinu sínu, en það hafði ekki gerst í mörg ár.  Ekki fóru þeir til Afganistan því þangað geta þeir ekki komið, heldur Pakistan, þar hittu þeir ættingja sína.

Juma sá sem er frá Súdan er nýlega komin með norskt vegabréf og fer í október að í fyrst skipti heim til að hitta foreldra sína og systkin sem hann hefur ekki séð í 11 ár en að heiman fór hann um tvítugt, þá í til að sækja vinnu í Líbýu og nú þarf hann vegabréfsáritun til að fá að fara í heimsókn heim.  Svona getur heimurin verið undarlegur. 

Matthildur mín kemur á föstudaginn og ætlar að skoða sig um, kannski gengur mér betur að kanna umhverfið með henni heldur en lesblinda prófessornum, þó er ekki ólíklegt að ég sýni henni fuglana í fjörunni.  Í lok ágúst tek ég svo frí og við förum heim til Íslands, þá verður þeim þriggja mánaða starfssamningi sem ég gerði lokið og staðan tekin upp á nýtt.  Mikið er mig farið að hlakka til að koma heim til Ísland og taka upp kartöflurnar mínar og kíkja á trénaða njóla, því þó undarlegt sé þá átti ég þar gott líf í yfir 50ár.

Að lokum vil ég beina því til þeirra sem hafa nennt að lesa svona langt að forðast sjónvarpið og fjölmiðlana sem heitan eldinn.  Því þá er nú eiturlyfja- og íþróttabölið hreinn barnaleikur við að eiga hjá þeim ósköpum sem t.d. sjónvarpið er, enda hefur það eyðilagt líf fjölda fólks án þess að það viti af því.


Hér eru engir njólar!

Trondenes kirke

 

Í vetur hafði ég hugsað mér að nota sumarið í að rannsaka njóla.  Til undirbúnings hafði ég hlaðið á náttborðið bókum um nytjajurtir og grasafræði.  Njólinn er til margra hluta nytsamlegur þó svo að hann hafi hálfgert óorð á sér.  Það er helst að njóli sé nefndur í annarri merkingu en niðrandi, þegar menn um miðjan aldur minnast æsku afreka sinna við það að þróa með sér tækni ti tóbaksreykinga.  Ég varð reyndar aldrei þeirrar reynslu aðnjótandi að reykja njóla, ég notaði te til að þróa reykingatæknina.  Það var nefnilega þannig að móðir mín heitin gerðist áskrifandi að Æskunni, því fyrirmyndar blaði, og hélt því að okkur systkinunum sem hollri lesningu.  Í einu tölublaðinu var heilsusemi te-reykinga gerð skil í örfáum setningum.  Þar sem pabbi var í reykbindindi og pípusafnið safnaði bara ryki, fannst mér tilvalið að skella mér í heilsuátak og mökkreykti te dagana langa mömmu til mikilla leiðinda.  Það var sama hvað hún reyndi að fá mig ofan af þessu, alltaf gat ég vitnað í hið ágæta barna blað, Æskuna.

Þetta var í þá daga þegar eldspítur voru á hvers manns færi, en nú er búið að banna að bera eld að flestu og er þær því að verða úreltar, kerti og útigrill eru að verða það eina sem er undanskilið.  Ruslatunnan, sinan, sígaretturnar og varðeldurinn heyra nú  brátt sögunni til að viðlögðum fjársektum eða jafnvel fangelsi.  Þannig þróaðist ein helsta tækniframför mannfólksins eldurinn á hálfum mannsaldri.  Enda er nú svo komið að ef ungt fólk og eldfæri fara saman endar það yfirleitt með ósköpum, ef það næst að kveikja eldinn virðist kunnáttan um það hvernig hann hagar sér og hvernig á að slökkva hann hafa glatast á nokkrum áratugum.  Það þarf orðið sérfræðinga með háskólagráður til að fara með eld.  Öll notkun á eldi er svo háð leyfisveitingum frá hinu opinbera sem kosta sitt, t.d. kostar um 400 þúsund að fá leyfi til að kveikja varðeld en sektin er 80 þúsund fyrir að gera það í leyfisleysi, hvað það kostar að kveikja í njóla, um það hef ég ekki upplýsingar, en sjálfsagt má afla þeirra hjá Umhverfisstofnun.

En hvað um það það var ekki meiningin að þvæla hér um eldspítur og njólareykingar.  Kveikjan að þessum pistli var önnur, sú að ég hafði hugsað mér að nota sumarið í rannsaka njóla til fæðu.   Ég hef nefnilega smásaman verið að átta mig á því eftir því sem á ævina hefur liðið að það er eins og praktísk þekking kynslóðanna sé að glatast, ef ekki af hreinni leti þá vegna regluverks sérfræðingasamfélagsins í boði ríkisins.  Sem dæmi þá gátu afi og amma að ala skepnur og slátra auk þess sem veiddur var silungur yfir sumartímann, sáð kartöflum, rabbabarinn spratt eins og af sjálfu sér, svo má ekki gleyma blessuðum hænunum og berjamónum á haustin.  Heimilið var einhvern veginn alveg sjálfbært og leið aldrei skort það eina sem var skilda að kaupa var dagblaðið Tíminn en hann kom margra daga gamall í sveitina og var notaður í skeinispappír.  Pappi og mamma tóku mikið af kunnáttunni úr foreldrahúsum, en þó ekki þá að ala skepnur og praktíska notkun á áróðursskrifum dagblaðanna.  Þau tóku slátur að hausti, leigðu pláss í frysti þar sem þau byrgðu sig upp af kjöti og fisk fyrir veturinn, ekki má gleyma rabbabaranum, kartöflugarðinum og berjamónum.

Það flaug því gegnum hugann fyrir nokkrum árum þegar við hjónakornin vorum að versla í Bónus, að ef Bónus lokaði í viku þá upplifðum við sennilega hungursneið sem yrði tvísýnt um að við lifðum af.  Ekki minnkaði svartnættið í huga mínum þegar ég hugsaði fram í tímann til blessaðra barnanna, hvað yrði um þau ef mötuneytunum á bensínstöðvunum, Dominos og Subway yrði lokað vegna rafmagnsleysis.  Þau sem kynnu ekki einu sinni að tendra upp eld í njóla og ekki yrði iphone-inn notaður til að skeina sér á með nokkrum árangri.  Það var akkúrat í kælinum á Bónus sem vegferðin að njólarannsókninni hófst.  Það var upp frá því sem ég fór að sjá að það væri vissara að eiga allavega matarbirgðir til vikunnar heima í ísskáp.

Síðan hefur þessi árátta smá saman undið upp á sig og eftir að kreppan skall á þá fór ég að taka aftur eftir því sem manni fannst best í gamla daga en engum með sjálfsvirðingu datt í hug að láta spyrjast að hann æti í gróðærinu.  Berjamórinn varð vinsæll, rabbabaragrauturinn eitt það besta sem ég man eftir frá bernskuárunum varð aftur á mínum borðum og kartöflugarður með ruðum íslenskum hefur verið áhugmál.  Síðasta vetur dugði rabbarin og berin fram í janúar, reiknast mér til að rabbabari hafi verið ca. tvö mál í viku að jafnaði, sælkeramáltíð sem kostar ca. sjötíu og fimm kall.  Kartöflurnar dugðu fram í apríl og þá er komið að mikilvægi njólans einu sinni enn.

Jóhanna á Skorrastað sagði mér einu sinni að njólinn hefði verið notaður sem meðæti í stað kartafla hér áður fyrr, enda geymast kartöflur illa út árið og voru annaðhvort ónýtar eða búnar í sumarbyrjun.  Eins hafði ég heyrt það í útvarpserindi að ætihvönn og ýmsar jurtir, njólinn þar á meðal, hafi upphaflega komið til landsins sem garðjurtir og grænmeti.  Þær hefðu svo dreift sér um landið og fólk væri búið að gleyma því að hver upphaflega hlutverk þeirra var og væri nú flokkaðar sem illgresi.  Grænlendingar kynnu þó ennþá að nýta sér þessa búbót og er t.d. hvönnin talin úrvals grænmeti þar yfir sumartímann.  Það var semsagt meiningin að prófa sig áfram með njóla og afla sér uppskrifta til matargerðar.  Hvað hvönnina varðar þá hef ég heyrt að Grænlendingar leggi hana í nokkurskonar marineringu þannig að minni á súrkál.

Þessi njóla rannsókn mín virðast því miður vera komin á fullri ferð út um þúfur í bili.  Snemma í maí þegar ég var nýbúinn að setja niður kartöflurnar og u.þ.b. var að verða tímabært að líta eftir njóla, álpaðist ég til að spyrjast fyrir vegna atvinnuauglýsingar hérna í Noregi og þar sem vantar fólk til starfa.  Hérna hef ég alveg gleymt mér ásamt öllum njólaáformum þangað til um daginn að ég var að vinna með vinnufélaga sem man tímana tvenna og segir mér þessar hrikalegu kreppusögur frá Rússlandi, nánar tiltekið Múrmansk en þaðan er konan hans.  Í nokkra daga höfðum við þann starfa að múra kanta á heilu íbúðahverfi þar sem endurnýjaðir voru gluggar í því sem næst hverju einasta húsi hérna upp í skógivöxnum hæðunum.  Vinnufélagi minn er mikill matmaður þó mjósleginn sé enda mallar hann sígarettur líkt og Lukku Láki og keðjureykir þær, við getum rætt matbjargir út í eitt. 

Þegar við lágum í kaffi í skógi vaxinni brekku og rannsökuðum berja vísana, fór hann að segja mér að þangað til fyrir nokkrum árum síðan hefðu verið þrjú stór fiskvinnslufyrirtæki hérna í Harstad en nú væri búið að loka þeim öllum.  En í staðinn væru komnar þrjár risastórar byggingavöruverslanir sem gæða hafnarbakkana nýju lífi.  En fiskurinn sem veiðist hérna fyrir utan og í Barentshafinu væri sendur til Kína og unnin þar.  Fyrir hvert eitt kíló sem sent væri af óunnum fiski kæmi eitt kíló til baka "hvis du transportar en kilo, en kilo skal kome til bake, sodan skal det være" segir hann.  Það sem hann undraði sig samt á var að þetta skildi vera flokkað sem matvæli eftir allt þetta transport.

Ég fræddi hann á því að á Íslandi væri árangurinn gott betur en kíló, og sæjum við alfarið um það sjálf, það væri algilt að eitt kíló af fiski upp úr sjó yrðu að einu og hálfu í vinnslu.  Auk þess að nota Kínversku aðferðina, sem hann sagði að fælist í því að hirða allan afskurð og bein hakka það í marningssoppu og sprauta því í flökin, þá væri mikil tækni á Íslandi við að þyngja fisk með efnafræðiformúlum auk þess sem hann væri hvíttaður þó heiðgulur væri orðinn.  Eftir vísindaafrekin gæti hann svo staðið árum saman við stofuhita án þess að nokkuð sæist á útlitinu, ein gallinn væri að hann bragðaðist bæði nýr og gamall eins og korkur, en því mætti kippa í liðinn með góðu kryddi.  Þessi aðferð hefði verið þróuð úr kjúklingaiðnaðnum þar sem kjúklingabringurnar væru seldar á uppsprengdu verði sem heilsufæði enda væru þær alltaf eins og nýslitnar úr hænsninu sama hvað þær væru gamlar og nú væri búið að þróa sumt af tækninni í lambakjötið, lærin í frystinum í Bónus hefðu verið eins og útstungnir sparautufíklar nýkomnir úr vaxtarækt síðast þegar ég fór þangað.  Nei, ef menn ætluðu að borða hollan mat þá væri best að halda sig við rabbbarann og annað heimafengið sagði félagi minn. 

Vinnufélaga mínum leist ekkert orðið á að reyna að toppa upplýsingar mínar um matargerðarlist og fór að tala um að sennilega myndum við fljótlega lenda að vinna við skólabyggingu sem hann benti mér á og blasti við úr brekkunni þar sem við sátum, það eina sem ætti eftir að gera áður en verkið hæfist væri að rífa skólann sem stendur þar fyrir sem er fjögurra hæða steinhús ca. 40 ára gamalt.  Því nú ætti að byggja miklu flottara skólahús sem uppfylltu kröfur nútímans.  Ég fræddi hann á því að í mínu heimabæ á Íslandi væru menn búnir að prófa svona framfarir, menn hefðu rifið bæði skóla og þessi fínu hús til að byggja fínni, vegna þessa að landið var svo verðmætt, þó óbyggðirnar hefðu kallað allt um kring.  Það hefði varla verið liðið árið þegar allt var hrunið og menn hefðu tyrft yfir herlegheitin og leitað til nágrannanna um fjárhagsaðstoð til að hægt væri a koma börnunum í skóla sem hefði þak.  Það hefði nefnilega gleymst að spyrjast fyrir um hvort einhver hefði efni á að borga fyrir svona framfarir.

Þegar við stóðum upp frá og röltum niður brekkuna með nestisboxin og kaffibrúsana, vinnufélagi minn nýbúinn að kveikja í einni handgerðri sem gæti hafa verið gerð úr njóla, tók ég eftir því að eitthvað kannaðist ég við umhverfið.  Úrelt útigrill, garðhúsgögn sem tilheyrðu tískunni frá því í fyrra, tengdamömmubox og fleira dót rann eins og skriða niður frá bakhliðum íbúðarhúsanna í kring, samt var rétt svo að draslið næði að standa upp úr trénuðum rabbabaranum.  Þessir úreltu nytjahlutir höfðu þurft að rýma til fyrir verðmætum sem þjónuðum nútímanum betur, s.s. hjólhýsum, húsbílum, mótorhjólum,  kæjökum og nýjustu sortum af útigillum sem prýddu aðaldyramegin.  Allt í einu fattaði ég á hvað þetta minnti mig, þetta minnti mig á árið 2007.  Og þá mundi ég eftir fyrirhugaðri njólarannsókn í sumar og uppgötvaði mér til mikillar skelfingar að hér eru engir njólar.


Fjórtán kerlinga fyrirboði

Hún hefur skinið glatt sólin 24/7 hér í Hálogalandi undanfarið enda sumarsólstöður í nánd.  Það er ekki laust við það að næturnar beri með sér andvökur bernskuminninganna sem rifjast upp um það þegar dagarnir voru ekki nógu langir, ekki einu sinni um Jónsmessuna þar sem dagur og nótt runnu í eitt.  Þá var oft erfitt fyrir lítinn snáða að halda sig í rúminu yfir blánóttina.  Helst að hægt væri að drepa tímann við að syngja slagara fyrir yngri systkinin þegar miðnætursólargeislarnir skinu inn um herbergisgluggann á eina herberginu í litla húsinu á hæðinni á Egilsstöðum sem kallað var Hábær.  Lagið Obladi, Oblada, var þá efst á vinsældarlistanum, live goes on, yeah....

Í gegnum tíðina hafa Jónsmessunæturnar alltaf gefist mér illa til svefns og ófáar farið í að vaka næturkyrrðina við fuglasöng og geisla morgunnsólarinnar.  Eða farið í það sem skyldan bar til í sveitinni hjá afa og ömmu, að liggja andvaka í bólinu bíðandi óþreyjufullur eftir því að komast út í fljótsmölina við kelduna þar sem vitjað var um silunganetin á morgnanna og finna þar flata líparít steina sem hentuðu vel til að fleyta kerlingar á spegilsléttu Lagarfljótinu.  Þrjár kerlingar í röð var nokkuð gott að mati 7 ára gutta en allt umfram fjórar var frábært.  Með árunum hafa Jónsmessuvökurnar orðið erfiðari, en nú þegar örlögin hafa borið mig langt norður fyrir heimskautsbaug er eins og til hafi orðið nýr kraftur frá sólinni sem hnitar loftið hátt hér um miðnættið í Harstad.

Hvernig og hvers vegna forlögin báru mig akkúrat hingað á þennan stað er íslensk kreppusaga.  Hérna, þar sem fáir steinar finnast til að fleyta kerlingar skín sólin skærar um miðnættið en ég hef áður séð.  En fyrirboðarnir á leiðinni hingað voru margir og engin er ferðin á fyrirheits.  Það augljósa er að það er ekki einfalt mál að fyrir atvinnulausan mann með fimm áratugi á bakinu að gera sig gildandi á krepputímum í starfsgrein þar sem lítil er eftirspurnin. 

Þennan veturinn kom oft upp í hugann samtal sem ég átti við kunningja minn vorið 2009.   Hann átti tvö vel rekin fyrirtæki 2008, eða þar til skuldir annars fyrirtækisins hækkað um rúm 100% vegna gjaldþrots bankakerfisins á Íslandi. Lánadrottnarnir sýndu enga miskunn, hirtu allan tækjabúnað og fyrirtækið var gjaldþrota á augnbliki þrátt fyrir góða verkefnastöðu, keyrt í þrot vegna þess að hann var ekki tilbúin til að leggja heimilið að veði fyrir stökkbreyttum skuldunum.  Kunningi minn sagði að hann héldi hinu fyrirtækinu sínu skuldlausu og það ætti einn bíl til samskonar rekstrar og á því ætlaði hann að byggja sig upp aftur.  Þetta væri gott betur en hann hafði átt þegar hann byrjaði í þessum atvinnurekstri fyrir meira 20 árum síðan.  Ég sagði við hann "blessaður labbaðu frá öllu klabbinu skuldlaus ef þú getur, það eru runnir upp þeir tímar á Íslandi að litlum töppum eins og okkur er bara ætlað að blæða" hann spurði mig "hvað á ég þá að hafa fyrir stafni". 

Ég ráðlagði honum að setjast niður á svölunum heima hjá sér og nota daginn í að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn og í mesta lagi eiða orku í að depla augunum.  Það væri kannski ekki ábátasamt en það ylli honum ekki frekara tjóni,  rifjaði svo upp söguna af köllunum á Djúpavogi í kreppunni miklu, sem Stefán Jónsson rithöfundur segir af bókinni "Að breyta fjalli".  Þar segir að einn af sonum Djúpavogs, ráðherra á sinni tíð, hafi látið þau boð út ganga að ríkisstjórnin væri tilbúin að leggja til efni í íshús á Djúpavogi, ef kallarnir sæju um að byggja það kauplaust.

Eftir sellufund hjá körlunum á Djúpavogi komust þeir að þeirri skinsamlegu niðurstöðu að þetta yrði þeim aðeins til tjóns, því þetta kostaði þá slit á fötum.  Ég skildi ekki niðurstöðuna þegar ég las þetta fullur eldmóðs hins nýkvænta manns, en skil hana mjög vel í dag eftir að hafa upplifað rúmlega tveggja ára kreppu undir handleiðslu íslenskar stjórnmálamanna, auk þess að hafa áttað mig á því að það að byggja íshús þá var álíka vitlaust og að endurreisa banka í dag, verður varla til annars en slits á fötum almúgamannsins.  Síðan við kunningi minn áttum þetta samtal hefur hann þrisvar komið að máli við og sagt mér hversu vitlaust hafi verið af sér að taka ekki mark á mér, ég segi þá ævinlega við hann "ég hefði betur gert það sjálfur".

Svo var það núna í vor eftir að hafa hangið heima við skýjaskoðun í allan vetur, milli þess sem ég sem ég deplaði augunum og  skaust til dyra til að taka á móti stefnuvottum auk stuttra ferða í bankann,  að upp í hugann kom að gaman væri að kíkja á skýin í öðrum löndum.  Eftir að hafa orðað heimsókn við Tóta vin minn, sem fluttist til Noregs ásamt sinni frú sumarið 2009, þá alveg laus við áhuga á skýjaskoðun og að borga húsið sitt tvisvar, var ekki aftur snúið.  Við frú Matthildur skildum fara í páskaheimsókn til vina okkar í Noregi. 

Það var í þeirri ferð sem fyrirboðarnir fóru að hrannast upp.  Við ákváðum að gista nótt á hóteli í Osló, og þar sem við hvorki höfðum efni á þessu ferðalagi né hótelgistingu, ákvað ég upp á íslenska móðinn að við myndum gista á hæsta og flottasta hótelinu þar í bæ, Scandinavia.  Strax og við komum þar inn vildi daman í móttökunni endilega láta okkur hafa tvær nætur fyrir tilvísunina sem var til einnar nætur.  Ég afþakkaði það með trega þar sem skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir öðru, en spurði hvort ekki væri hægt að fá reyk herbergi.  Hún rétti mér lykilinn og sagði; "2107, þú kemst ekki hærra".   Herbergi  nr. 7 á 21. hæð; konungshöllin, Nationalteatre, Sórþingið og Karl Johann fyrir neðan herbergisgluggann.  Matthildur grunar mig sjálfsagt enn um að hafa beðið um herbergi með sama númeri og afmælisdagurinn hennar 21. júlí.

Fljótlega í þessari páskaheimsóknfór ég að hafa það á tilfinningunni að allt væri svolítið á eftir í Noregi, árið 2006 væri ný gengið í garð, þvílíkar voru framkvæmdirnar.  Því þarf það ekki að koma á óvart að í undirmeðvitundina hafi verið sáð þeim fræjum að hér gæfist tækifæri til að leiðrétta það sem aflaga fór hjá mér á Íslandi frá því haustið 2008.  Það var ekki til að slá á þessa hugmynd að vinafólkið Tóti og Dúna lofuðu Noreg sem blómstur að vori.  Svo var það þegar Tóti fór að sýna okkur eyju rétt fyrir utan Sjelsvíkina þeirra Dúnu að en einn fyrirboðinn birtist.

Þegar við gengum út í skógi vaxna eyjuna á flotbryggju þar sem fjöldi fólks dundaði sér við stangveiðar, barst talið sem oftar að ágæti Noregs.  Ég sagði að eitt væri þó öruggt að í Noregi væri ekki hægt að finna jafn fallega steina og á Íslandi, Noregur væri bara klettur með trjám.  Matthildur sem alltaf hefur verið fundvís á það sem fallegt er var ekki búin að vera lengi út í eyjunni þegar hún fann þennan líka fallega steininn, flata gabbró flögu sem glitraði í sólskininu.  Þegar við fórum yfir flotbryggjuna aftur í land rétti hún mér steininn svo ég gæti skoðað hann betur.  Sólin merlaði á spegilsléttum sjónum og ég gat ekki stillt mig um að beygja mig eldsnöggt niður og þeyta steininum eftir haffletinum; "sástu þetta fjórtá kellingar" sagði ég hróðugur "þetta er met, gott ef ekki heimsmet".  Mattildur skildi ekki mikilvægi þess að fleyta kerlingar og sagði bara; "þú ert búinn að henda fallega steininum mínum villtu gjöra svo vel og sækja hann" ég reyndi að skýra undrið "en fjórtán kellingar Matthildur, þetta boðar eitthvað".

Þó ég hafi enga steina fundið ennþá til að fleyta kerlingar í gönguferðum mínum í kvöldlogninu hérna í Harstad þá er ég kominn í hóp sem hefur kennslu seglbátasiglinga fyrir börn og unglinga að áhugamáli.  Það er ævintýri fyrir gutta eins og mig að fá að sigla á barnabát.  Ég hef líka komist í að sitja í kvöldkaffi með þremur reyndum skútukerlingum samtímis í bátahöfninni, sem verður að teljast nokkuð gott eftir tæplega fjögra vikna dvöl.  Hver fyrirboðinn er yrðu þær fjórtán, í það væri gaman að spá fyrir okkur Matthildi.


Engin veit sína ævina

Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan lagði ég í hann yfir hafið til Noregs.  Mér bauðst vinna sem ég tók fagnandi eftir atvinnuleysi vetrarins.  Atvinnutilboðið  bar brátt að og ráðningarferlið einfalt.  Á föstudegi sendi ég inn fyrirspurn vegna starfs.  Á mánudagsmorgni var hringt og spurt hvort ég gæti hugsað mér að flytja til Noregs og á þriðjudegi voru farmiðar á mail-inu mínu.  Það var svo með fyrsta flugi eftir að gosið hófst sem ég lagði af stað suður.  Heima á Egilsstöðum var kafalds hríð allt hvítt að kvöldi þann 23. maí og ég þurfti að fá Sigga son minn til að koma á fjórhjóladrifsbíl til að keyra mér á flugvöllinn sem er svo stutt frá þar sem ég bý að það borgar sig að labba ef maður hefur engan farangur. 

Það var undarleg tilfinning að yfirgefa landið sitt, hvítt og svart, snjór fyrir norðan og aska fyrir sunnan og í miðjunni gaus Vatnajökull.  Morgunnflug með SAS átti að vera flugið mitt þann 24. maí en þar sem flugi hafði verið aflýst tvo daga á undan vegna ösku voru farþegarnir u.Þ.b. 70 fleiri en komust í vélina.  Mér var sagt við innritun að ég væri ekki á farþegalistanum og yrði að hringja í SAS til að fá skýringu á því.  Ég hringdi í SAS og fékk að vita að ég hefði verið settur í flug tveimur dögum seinna og því yrði ekki breytt vegna óviðráðanlegra aðstæðna. 

Þar sem ég hafði nógan tíma ákvað ég að bíða og sjá hvernig innritunin endaði.  Það voru 8 sætum óráðstafað í lokin fyrir um 60 manns sem enn biðu eins og ég, þegar 2 sæti voru eftir var kona kölluð upp sem gekk ljómandi að innritunarborðinu og henni fylgdi maður sem sagðist vera ferðafélagi hennar ásamt konu sinni.  En sætin voru aðeins tvö en þau þrjú.  Önnur daman í innrituninni hringdi og gaf svo hinni merki um að afhenda engan miða, það væri aðeins eitt sæti laust.  Því næst kallaði hún, "Magnús Sigurðsson er hann hér", þá var komið að mér að ljóma.  Ég þurfti að hlaupa í vélina og þær sem tóku við miðunum kölluðu þegar þær sáu mig, "hlauptu hraðar Magnús það bíður full vél bara eftir þér".  

Þegar vélin hækkaði flugið sást niður á landið, vinstra megin var það hvítt hægra megin lá yfir því ömurlega svört móða sem gaf til kynna að ef hún legðist yfir flugvelli að þá yrði varla mikið um flug.  Hvernig það stóð á því að ég komst með þessu flugi er mér ennþá hulin ráðgáta, en einhver ákvað að svo skildi vera og þar sem ég hafði ekkert að gera var eitthvað sem sagði mér að bíða þessa tvo tíma sem innritunin tók.  Ég komst því langt norður fyrir heimskautsbaug alla leið til Harstad þar sem vinnan beið mín, þennan sama dag. 

Harstad er önnur stærsta borgin í Troms fylki og sú þriðja stærsta í N-Noregi, íbúar eru um 23.000. Borgin er á Hinneyju sem er stærsta eyjan við Noregsstrendur aðeins eyjar Svalbarða eru stærri, af þeim eyjum sem tilheyra Noregi. Hluti Harstad stendur á Trondenes sem um er getið í Heimskringlu sem höfuðstaðar á Víkingatímanum.  Harstad sem heitir Harðarstaðir í Heimskringlu tilheyrðu Hálogalandi sem var lítið konungdæmi snemma á víkingatímanum fyrir daga Haralds Hárfagra. Hálogaland náði frá Namdalen í norðanverðum Þrándarlögum til Lyngen í Troms, samkvæmt wikipedia.

Þar sem Harstad er getið í Heimskringlu Snorra þá má geta sér þess til að tengsl þessa svæðis í Noregi við Ísland hafi verið mikil á víkingatímanum og frá Hálogalandi hafi fólkið sem ekki sættu sig við yfirráð Haraldar Hárfagra komið til Íslands.  Allavega finnst mér ég sjá hér sömu andlitin og í gegnum tíðina á Íslandi.  Fyrsta daginn í vinnunni varð mér starsýnt á ungan mann sem ég hélt að væri Villi Rúnar heitinn frændi minn kominn ljóslifandi.  Sömu ljómandi augun, nefið og augnumgerðin nema ég minnist þess ekki að hafa séð Villa með skegg.

Núna eru vikurnar að verða þrjá hér í Harstad, ég lofaði að vera 13 vikur til að byrja með og sjá svo til hvort framhald yrði.  Það er svolítið sérstakt að vera í þrældóms múrverki fimmtugur vinnandi með mönnum sem flestir eru á mun betri aldri.  Vinnufélagarnir eru frá Afganistan, Súdan og Noregi.  Vinnuveitandinn og eigandi Murbygg er kjarnorku kona, Mette Eide menntuð sem verkfræðingur en hefur rekið Murbygg í áratugi.  Vissulega svolítið sérstakt að kona skuli reka hreinræktað múrarafyrirtæki.  En sem komið er leggur hún áherslu á að ég flytji ásamt Matthildi minni hingað til Harstad, allavega í fáein ár meðan atvinnuástandið er gott hér og slæmt á Íslandi.  Matthildur kemur í ágúst til að skoða sig um og þá verður ákvörðun tekin um framhaldið.

Það hafa verið ófáir sólskinsdagar hérna langt fyrir norðan heimskautsbaug og heimskautanóttin bjartari en dagarnir geta verið sunnar á hnettinum.  Þó svo vinnan sé allt annað en létt fyrir gamlan skarf í eingri þjálfun, þá er bara lífsins ómögulegt að sofa sólskinsbjört kvöldin.  Þau eru notuð til gönguferða auk þess sem vinnuveitandinn Mette hefur tekið mig í kennslustund í seglbátasiglingu, en siglingar um  norðurhöf á skútunni Libra eru áhugamál Mette og Sverre sambýlismanns hennar.

Það er ekki hægt að segja annað en að móttökurnar sem íslendingur fær hér hjá íbúum Hálogalands séu höfðinglegar.  Í dag Hvítasunnudag var ég boðinn í grillveislu í sveitinni þar sem heilgrillað var lamb í samatjaldi og flutt lifandi samísktónlist.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband