Færsluflokkur: Dægurmál
3.8.2014 | 06:43
Ægilegur og undrafríður.
gullin mót sólu hlæja blóm
og ginnhvítar öldur gljúfrin háu
kveður þú, foss, minn forni vinur,
með fimbulrómi sí og æ;
undir þér bergið sterka stynur
sem strá í nætur-kulda-blæ.
Dægurmál | Breytt 4.8.2014 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2014 | 19:38
Kofar og kumbaldar.
Gereyðing gamalla húsa hefur lengi verið landlæg og er eftirtektarvert hvað Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu efni.
Á 20. öldinni voru jarðýtur látnar um að varðveita sögu torfbæjarins, svo rækilega að fáir hafa þannig bæ gist jafnvel ekki séð, sem þó var heimili flestra landsmanni í þúsund ár.
Þeir eru fáir sem vilja afturhvarf til liðins tíma, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað er til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið steinkumbaldi".
Menntaskólinn Egilsstöðum
Núna í upphafi 21. Aldar virðist vera komið að því að steinkumbaldinn verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins. Allt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn.
Húsafriðun á Íslandi hefur í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Húsin hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og oft það fjarlægt í leiðinni sem notað var af íbúum til að lengja líftíma þeirra bygginga miðað við staðhætti, svo sem bárujárnið sem var nánast það eina sem landsmenn bættu við hönnun þessara húsa.
Sólhóll Djúpavogi
Það er ekki svo að moldarkofinn eða steinkumbaldinn séu endingarverri en innfluttu timbur húsin sem upphaflega urðu til fyrir erlendar aðstæður þar sem viður var til staðar. Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarefni þegar kemur að varðveislu húsa.
En rétt væri að hafa í huga orð hleðslumeistarans, Sveins Einarssonar heitins frá Hrjót, þegar kemur að byggingarsögulegum verðmætum. "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".
Kannski á eftir að verða vitundarvakning með auknu vægi ferðaþjónustu, allavega má ætla að erlendum ferðamönnum þyki, auk náttúru Íslands, moldarkofar, steinkumbaldar og jafnvel bárujárnsklædd timburhús vera hluta af sjarma landsins.
Sænautasel var eitt haf kotbýlunum í Jökuldalsheiðinni, það þeirra sem var lengst í ábúð til ársins 1943. Íbúðarhús og gripahús voru sambyggð að hætti torfbæjarins. Húsin höfðu verið felld ofaní tóftina í stað þess að ryðja þeim um með jarðýtu. Því var tiltölulega auðvelt að endurbyggja bæinn árið 1993. Sænautasel er vinsæll áningastaður ferðamanna.
Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma.
Steinsteyptar kirkjubyggingar má finna víða um land sem eru íslenskri byggingalist til mikils sóma. Það má sega að steinkumbaldinn ná listrænum hápunkti í kirkjunni. Eins og með öll listaverk sýnist sitt hverjum. Á myndinni er Egilsstaðakirkja en frá vissu sjónarhorni var haft á orði á byggingatíma hennar að hún minnti á sköllóttan Fljótsdæling.
Opinberar byggingar eru oft verðugir minnisvarðar steinsteypunnar. Ég er svo lánsamur að búa við svoleiðis listaverk. Menntaskólinn á Egilsstöðum umlykur íbúðablokkirnar í Útgarði sem sennilega myndu flokkast sem steinkumbaldar af Sovéskri fyrirmynd. En þessi húsaþyrping sýnir að steinkumbaldar geta farið vel í réttu samhengi.
Sólhóll á Stöðvarfirði hefur tvisvar á tæpum 90 árum gengið í endurnýjun lífdaga. Húsið var upphaflega byggt á Kömbum á Kambanesi, 1944 var það flutt á Stöðvarfjörð. Árið 2006 hafði ekki verið búið í húsinu í fjölda ára og það talið ónýtt. Þetta er annað bárujárnsklædda norska timburhúsið með nafninu Sólhóll sem ég hef komist kynni við, hinn Sólhóllinn er á Djúpavogi þar sem Matthildur mín er fædd og við bjuggum fyrstu 9 ár okkar búskapar. Bæði húsin eru staðarprýði og vinsælt myndefni ferðamanna.
Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum.
Bærinn á Bóndastöðum er byggður í nokkrum áföngum, árið 1958 flyst búseta í Laufás sem er nýbýli úr Bóndastaðalandi.
Á Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá er líkast því að kastali hafi verið byggður úr steinsteypu. Íbúðarhús, útihús og hlaða byggð í hringlaga þyrpingu votheysturninn skarar upp úr einu horninu. Steinsteypt girðing umlykur trjá- og rabarbaragarð. Steinsteyptu húsin voru byggð í kringum eldra íbúðarhús sem byggt var 1882 úr rekavið.
Votheysturninn á Sandbrekku ber þannig merki að sennilegast hafi hann verið steyptur upp með skriðmótum, en þá voru steypumótin t.d. metri á hæð og færð upp jafnóðum og steypt hafði verið í og steypan sest. Dæmi eru um að heilu turnarnir hafi verið steyptir með þannig aðferð á einum degi.
Nýja íbúðarhúsið á Sandbrekku er byggt á árunum 1966-68. Teiknað af Teiknistofu landbúnaðarins og ber tíðarandanum þjóðleg merki.
Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með hlöðu í miðju. Torf á timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur.
Í steypumót hlöðu og votheysgryfju beitarhúsanna hefur sennilega verið notað nærtækt bárujárn.
Fjárhúsin með heyhlöðunni að bakatil, sem byggð var í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Þessi hús eru í Hjaltastaðaþinghá.
Ps. Húsbyggingar úr mold og möl er barnaleikur ef reynslu þeirra sem kunna nýtur við, það var ekki fyrr en verkfræðin komst í spilið sem það varð flókið að koma upp þaki yfir höfuðið.
Hér má sjá tvö youtube myndbönd, annars vergar sjónvarpsþátt á RUV um það þegar Sænautasel var endurgert og hins vegar videoklippur um það hvernig steypa var hrærð á staðnum í hús á Djúpavogi.
![]() |
Horfin verðmæti hjartaskerandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 3.4.2016 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2014 | 17:06
Vinar kveðja.
Í dag var kær vinur, Már Karlsson á Djúpavogi kvaddur í Djúpavogskirkju. Hann varð bráðkvaddur þann 25. júní. Már var nýlega orðinn 79 ára gamall í fullu fjöri við rekstur Papeyjarferða. Við spjölluðum saman í síma á Jónsmessukvöld, en vegna anna við pantanir útí Papey daginn eftir varð símtalið í styttra lagi, ákváðum við að heyrast fljótlega aftur, kom því fréttin af fráfalli hans að óvart.
Már var ljúfur nágranni á meðan ég var á Djúpavogi og minn besti vinur. Er mér til efa að það hafi liðið dagur án þess að við hittumst til að spjalla. Eftir að ég flutti frá Djúpavogi voru þau ófá kvöldin sem við heyrðumst í síma enda Már minn helsti ráðgjafi í gegnum tíðina. Vinskapur Más var ómetanlegur, hann var manna flinkastur við að setja fram dæmisögur til að skýra mál. Eins var það heiður að fá að heyra sögurnar sem komu í bókinni hans "Fólkið í plássinu" um leið og hann skrifaði þær. Mikið hefur birts opinberlega eftir Má um lífið á Djúpavogi. Velferð fólksins þar var honum hjartans mál.
Eitt af því sem Már ritstýrði var Djúpivogur Fréttablað sem áhugafólk um blaðaútgáfu á Djúpavogi kom að árið 1991. Vorblaðið var tileinkað ferðaþjónustu, á forsíðu gaf að líta grein ritstjórans með fyrirsögninni "Djúpivogur ferðamannastaður framtíðarinnar þar sem gamli og nýi tíminn mætast" Í niðurlagi segist Már hafa trú á að Djúpivogur eigi mikla framtíð fyrir sér sem áningastaður ferðamanna. Már varð forspár, því í dag er Djúpivogur einn af vinsælu ferðamannastöðunum á Íslandi og fyrirtæki fjölskyldu hans Papeyjarferðir rekur flaggskip staðarins, Gísla í Papey.
Það er svo ótal margt sem vert væri að tína til úr lífshlaupi Más; manns sem var í áratugi kjörinn í sveitarstjórn, manns sem var náinn samverkamaður þriggja kaupfélagstjóra á Djúpavogi um áratuga skeið, manns sem sat langtímum í stjórn stærsta atvinnufyrirtækis staðarins, manns sem gjörþekkti sögu Djúpavogs og var virkur við að skapa hana allt til loka dags. Djúpivogur hefur misst mikið við fráfall Más Karlssonar.
Um leið og ég votta fólkinu þínu mína dýpstu samúð óska ég þér góðrar ferðar kæri vinur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2014 | 20:18
Sumarsólstöður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2014 | 06:19
Síðan eru liðin mörg ár.
Liðin eru 40 ár frá því að fyrsta fermingin fór fram í Egilsstaðakirkju, 1960 árgangurinn á Egilsstöðum varð þess heiðurs aðnjótandi 17 júní 1974. Í tilefni þessa hittumst við nokkur fermingarsystkinin í gærkveldi en það höfðum við einnig gert á 15 og 25 ára fermingarafmælinu. Að venju var þar rifjað upp hvað þjóðhátíðardagurinn væri eftirminnilegur vegna þessa atburðar.
En það er ekki 1960 árgangurinn sem er áberandi á Egilsstöðum, þó svo að u.þ.b. helmingurinn af þeim fjölmenna barnahóp búi hér enn, heldur kirkjan sem eitt helsta kennileiti bæarins. Bygging hennar hófst 1968 og hafði staðið í nokkur ár þegar hún var vígð 16.júní 1974.
Egilsstaðakirkja er með ótal andlit, teiknuð af Hilmari Ólafssyni arkitekt, föður Hilmars Arnar Hilmarssonar núverandi allsherjargoða. Hún er margbrotið meistaraverk sama hvernig á hana er litið, íslenskri byggingalist til mikils sóma og þeim sem höfðu forgöngu um byggingu hennar. Kemur þar nafn Margrétar Gísladóttir þá fyrst upp í hugann.
Hvort sem Egilsstaðakirkja hefði verið byggð Jesú Kristi til dýrðar, eða þá sem hof í heiðni - jafnvel sem moska Múhameðs, þá er hún glæsileg. Á æskuárum blasti framhliðin við út um stofugluggann heima en síðustu 10 árin hefur reisuleg norðurhliðin skreytt útsýnið úr stofuglugganaum. Allar hliðar kirkjunnar hafa síbreytilegt útlit yfir daginn eftir því hvernig sólin fellur á og býr til skugga.
Fyrir 10 dögum síðan lét ég loksins verða að því að hringganga hana með það í huga að festa brot af þeim fjölda andlita sem hún hefur á mynd, mig grunar að engir tveir festi sömu mynd í sína huga.
Það sem er m.a. minnistætt frá því fyrir 40 árum, er að kvöldi 17. júní var skemmtun undir klettunum við norður hlið kirkjunnar. Þar kom í fyrsta skipti fram opinberlega Guðgeir "Blúsari" Björnsson ásamt hljómsveit ungra Egilsstaðabúa sem frændi minn Emil Thoroddsen söng í og fluttu þeir m.a. lagið Black Magic Woman af tærri snilld. En fram að því höfðu gítarsólóin hans Guðgeirs einungis heyrst á Selásnum.
Þar sem ekki eru til youtube klippur frá eftirminnilegum tónleikum félagana þá er hér ein frá síðari tíma Egilsstaðabúum, og jafnaldra þeirra Guðgeirs og félaga, sem haldið hafa merki íslenskrar alþýðumenningar á lofti.
Dægurmál | Breytt 8.8.2014 kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2014 | 19:07
Með kjaftfylli af sól.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2014 | 20:33
Heima er best.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2014 | 06:33
Sjónhverfing sjálfhverfunnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)