Færsluflokkur: Gamla tímatalið
27.10.2023 | 05:46
Rímspillir
Það að vera ekki áttaður á stað og stund eru álitin merki um alvarleg glöp. Nú eru veturnætur og stutt í fyrsta vetrardag og hafa sjálfsagt flestir tekið eftir því að hann er í síðasta lagi þetta árið. Sumum finnst sennilega að hann hefði átt að vera fyrir viku.
Þetta kemur til vegna þess að í sumar var sumarauki og árið 2022 endaði á laugardegi, síðan er árið 2024 hlaupár. Þess vegna er svo kallað rímspilliár. Gamla íslenska tímatalið var stundum kallað rímið og átti að vera það einfalt að hægt væri að telja tímann á fingrunum.
Ýmsar aðferðir voru notaðar við að rétta af árið sem taldi 52 vikur í 12 30 daga mánuðum. Á hverju sumri voru fjórar aukanætur og viku sumarauki sjöunda hvert ár. Þessar afréttingar þurftu að eiga sér stað svo tíminn gengi upp í sólárið til lengri tíma.
Allt á að vera gott sem kemur að utan, en frá Róm kom Júlianska tímatalið, sem kallað var gamli stíll, og svo það Gregoríska sem tók við þegar það Júlianska var komið út yfir öll mörk hvað sólarganginn varðaði. Á 28 ára fresti varð svo að endursetja rímið eftir að Gregoríska tímatalið kom til, sem var tekið upp um 1700, annars ruglaðist fólk í heims tímanum.
Gregoríska hlaupárs tímatalið er það sem nútíminn notar, -og af afréttingum þess og mismuninum á því hvernig gamla íslenska tímatali fór með afréttingar kemur máltækið að ruglast í ríminu. Þessi 28 ára sumaraukaregla var samt ekki algildari en svo, að ef þessi síðasta árs laugardagsstaða hitti á næsta hlaupár átti hún ekki við, -einfalt er það ekki.
Þetta gamla íslenska tímatal var annars mjög nákvæmt með allt nema áramótin, enda kom það frá órofa alda. Áramót gátu allt eins verið um hásumar eða fyrsta vetrardag, rétt eins og kvótaármót fiskveiðikerfisins eru fyrsta september. Merkisdagar gamla tímatalsins lutu íslenskum veruleika og var notað allt fram á 20. öld af stórum hluta almennings.
Það er ekki svo auðvelt að ruglast í ríminu nú til dags þegar dagatöl eru allstaðar, -og öll eins. Á skjánum nórir klukkan, dagsetningin og árið, -það Gregoríska. Fram að digital skjánum voru upphengd dagatöl á áberandi stað þarfaþing á hverju heimili. Og ennþá er til fólk sem þarf sitt dagatal meir að segja til að rífa af á hverjum morgni og henda gærdeginum í ruslið. Matthildur mín er t.d. ein af þeim.
Þess vegna hefur alltaf verið til siðs að eignast kubb með dögum ársins á okkar heimili. Þessir dagatalskubbar eru enn framleiddir af Prentsmiðju Guðjóns Ó, og er sjálfsagt orðin það lítil eftirspurn eftir þessum forngripum að þeir eru orðnir fokdýrir, kosta fleiri þúsund kubburinn og þarf að biðja sérstaklega um þá í betri bókabúðum þar sem þeir eru afgreiddir undir borðið.
Í byrjun okkar búskapartíðar var þessum kubbum dreift frítt, svo til í hverju kaupfélagi landsins, á spjaldi með nafni kaupfélagsins, ártali og oftast fallegri sumarmynd úr heimabyggð. Síðar komu stóru Eimskips dagatölin með stórbrotnum landslagsmyndum vítt og breitt af landinu við hvern mánuð, sem mér tókst stundum að útvega í gegnum sambönd. En Matthildur mín vildi ekkert með þau hafa. Þó svo Kaupfélag Berufjarðar hafi farið á hausinn fékk hún sinn dagtals kubb þá bara hjá Kaupfélagi Austurskaftfellinga.
Sagt var að eitt sinn hafi það komið fyrir hjá Kaupfélagi Héraðsbúa að kubbur frá árinu áður hafi lent í umferð með spjaldi nýja ársins. Þetta á að haf gerst fyrir samviskusemi starfsmanns sem vildi af nýtni klára kubbana frá því árið áður og lét Jökuldælinga hafa þannig dagatöl. Þeir áttu lengst að fara og gátu auk þess allt eins verið í viðskiptum við sláturhús Verslunarfélags Austurlands, sem var fyrir norðan Fljót í N-Múlasýslu, og því átt örðugra með að fá skrifað í KHB sem var fyrir austan Fljót í S-Múlasýslu.
Þetta varð til þess að sumir Jökuldælingar, sem fengu Kaupfélags Héraðsbúa dagatalið, rugluðust í ríminu og áttu það til að mæta í kaupstað á rúmhelgum dögum það árið. Kannski er það þess vegna, sem stundum var sagt í mínu ungdæmi, þegar úr voru algengar fermingargjafir, að betra væri að gefa dagatal í fermingargjöf á Jökuldal en úr, miðað við tímaskinið á Dalnum.
Ég sel þetta samt ekki dýrara en ég keypti. En samt sem áður kom það upp núna að minnstu munaði að þorrablótið á Egilsstöðum, sem alltaf er haldið á bóndadag - fyrsta dag þorra, yrði sett á og auglýst viku of snemma. Kom þetta til vegna þessa gamla rímspilliárs. Rímspillirinn kom mér samt ekki á óvart því ég hef hvorki notast við kubb né gengið með úr í gegnum tíðina, hvað þá snjallsíma.
Það kom svo til umræðu í kaffitíma á mínum vinnustað hvernig á því gæti hafa staðið að bóndadagurinn færi út yfir öll mörk og þorrin hæfist svona seint þetta árið, -eða þannig. Ég var fljótur að upplýsa félagana um að þetta hefði með sumarið í sumar að gera sem gerði þá reyndar bara ruglaðri í ríminu.
En málið er að ég hef verið fornari en bæði hún Matthildur mín og Jökuldælingarnir þegar kemur að stað og stund, og mæti oft þar sem engin átti von á, allar síst ég sjálfur. Verð mér samt árlega út um Almanak hins íslenska þjóðvinafélags, og vissi því að í sumar var sumarauki mitt í öllum dumbungnum, -í því almanaki get ég auk þessa fylgst með tunglinu og sjávarföllum í austfjarðaþokunni.
Það kom fyrir að ég átti samræður við norska vinnufélaga mína um gamla tímatalið, sem ég taldi norrænt, þegar ég var í Noregi. Þeir könnuðust ekki við þetta tímatal og töldu jafnvel að það væri fleipur í mér að kenna það við norðurlönd því sjónvarpið þeirra segir annað. Síðan hef ég komist að því að þetta íslenska tímatal getur allt eins átt upphaf sitt í Babýlon.
Svo merkilegt sem það nú var þá könnuðust vinnufélagar mínir, sem voru innflytjendur í Noregi og komu frá Afganistan og Súdan, frekar við þetta gamla íslenska tímatal. Á Valentínusardegi kom eitt sinn til umræðu vegna spurningar frá norskum félaga hvort heimalöndin héldu upp á þann dag. Ég sagði frá konudeginum á Íslandi sem væru á mánaðarmótum þorra og góu sem hliðstæðum.
Þá kom fram hjá félaga frá Afganistan að þar voru áramót á sama tíma og Þorri og góa mættust á Íslandi. Á sumardaginn fyrsta datt mér svo í hug að spyrja þennan félaga að því hvort þá væru mánaðarmót í Afganistan, hann gluggaði í snjallsímanum sínum og sagði svo; ja det gjør.
Þó ruglast sé í ríminu á stund og stað í snjallvæddu neysluþjóðfélaginu, þá er rétt að hafa það í huga að gamla tímatalið var notað við að mæla hina raunverulegu hringrás tímans.
Degi hallar
haustið kallar
á vetur í myrku
Sálin saknar
þar til vaknar
vor með birtu
Lífið fagnar
aldrei lastar
í sumar blíðu
Gamla tímatalið | Breytt 14.12.2024 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.5.2021 | 22:40
Tímatal
Sérfræðingar hafa bent á að upplýsingatækni og samfélagsmiðlar hafa leitt af sér tímaleysi sem kemur í veg fyrir að eitthvað sé gert af viti. Þó svo samskiptatæknin eigi að spara okkur tíma við vandaða ákvarðanatöku þá hafa afleiðingarnar orðið þær að mun fleiri möguleikar bætast við á tímalínuna.
Möguleikarnir eru orðnir svo margir að heilastarfsemi venjulegs fólks ræður ekki við að greina á milli þeirra. Sagt er að nútímamanneskjunni berist fleiri möguleikar á einum degi en fólki á 19. öld stóð til boða á 7-8 árum. Fyrir nokkru var gerð athugun á athyglisgáfu og komist að þeirri niðurstöðu að fólk hefði misst stóran hluta athygli sinnar til að álykta, sökum tímaskorts.
Þetta gerist vegna aukinna upplýsinga. Samkvæmt athuguninni var athyglistími hvers og eins árið 2000 að meðaltali 12 sekúndur þar til nýr möguleiki bættist við til að draga ályktun af, árið 2013 hafði upplýsinga -og samskiptatæknin stytt þennan tíma niður í 8 sekúndur.
Gullfiskaminni er talið vara í 9 sekúndur. Svo kannski er það ekki bara tíminn sem er nú af skornari skammti en áður. Sífellt meira af minninu, -og meðfæddu vitinu, glatast vegna skorts á ákvarðanatöku, sem sífellt er frestasð vegna síaukinna upplýsinga.
Þess vegna er háhugavert að ímynda sér hvernig upplifunin af tímanum var á öldum áður. Þegar tíminn var nægur til þess að draga ályktanir og ekki var hægt að skrolla í nýjar upplýsingar á snjallsímanum. Hér segir frá búsháttum á Skarðsströnd á 19. öld og því hvernig tíminn var mældur á Á í fásinninu.
"Bústjórnin innan bæjar á Á var með sömu föstu reglu sem utan bæjar. Allt var þar á sínum vissa tíma, þó engin væri klukkan til að mæla tímann. Farið var eftir svo nefndum dagsmörkum sem voru: Miðmorgunn, Dagmál, Hádegi, Nón, Miðaftan og Náttmál. Var þetta sama sem, talið frá morgni til kvölds, kl. 6, 9, 12, 3, 6, og 9.
Dags -eða eyktarmörk voru miðuð við það er sólin stóð yfir einhverju greinilegu kennileiti, svo sem fjallsöxl, fossi, dalskoru eða öðru slíku. Og að kvöldi var mjaltatíminn miðaður við sjöstjörnuna, þegar heiðríkt var loft.
Og þó öll þessi himinmerki væru hulin skýjaþykkni, þoku eða dimmviðrum, þá var stuðst við birtingu og skyggingu, og svo tíminn þess á milli mældur eftir tilfinningu og venju. Mun sjaldan hafa hafa skeikað miklu fá hinu rétta með tímann." (Úr Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar I bindi bls 137)
Á þessari síðu hefur oft verið velt vöngum yfir tímanum, hvernig og með hvaða hætti hann er mældur, -og þá sérstaklega hvernig gamla íslenska tímatalið virkaði. Fyrir okkur flest nú á dögum virðist tíminn vera af skornum skammti. Það getur því verið áhugavert að gefa sér smá tíma til að rannsaka það sjálfur hvernig tímanum hefur verið útdeilt í gegnum tíðina og hvaða tilgangi hann þjónar.
Sagt er að eykt sé orð sem notað er yfir það sem er ca 3 tímar, eyktir dagsins eru því fjórar og svo á nóttin jafnmargar eyktir. Sólarhringurinn er svo tvö dúsín klukkutíma (2X12). Allt árið er fjórar eyktir með eitt dúsín(tylft) mánaða. Það skiptist í þriggja mánaða tímabil, frá vetrarsólstöðum að vorjafndægrum; vorjafndægrum að sumarsólstöðum o.s.f.v.. Maðurinn á meira að segja sína eykt; huga, líkama og sál. Eilíf hringrás tímans gengur upp í eyktum og dúsínum (tylftum / dozenal). En við teljum samt, og reiknum á okkar tíu fingrum, í tugum, -decimal.
Mannsævina mælum við línulega frá vöggu til grafar, og höldum upp á áfanga hennar í tugum s.s. um fertugt, fimmtugt o.s.f.v.. Vísindin hafa gert mannsævina línulega með upphafi og enda, sem tilheyrir þar af leiðandi ekki hringrásinni. Það má jafnvel ímynda sér að að mannsævin sé gerð upp í tíundum með því að ákveða að ekki sé hægt að telja nema á tíu fingrum. Sumir hafi samt sem áður alltaf vitað lengra nefi sínu, að tíundin er fyrir aurinn og því dýpra sem henni er fyrirkomið í hugarheimi mannfólksins, þeim mun tryggari verður neytandinn á línunni.
Forn tímatöl ganga upp í dúsínum, samkvæmt hringrás sólar, líkt og það íslenska gerði og notað var um aldir. Vagga vestrænnar nútímamenningar í Róm, reyndi jafnvel að láta árið ganga upp á tíund, -desimalt. Það má enn sjá á því að síðasti mánuður ársins er desember, en des er tíu á latínu, nov er níu, okt er átta. Síðar þegar tíundin reyndist engan veginn ganga upp á ársgrundvelli var júlí og ágúst bætt inn, sem eru nefndir eftir keisurunum Júlíusi og Ágústusi.
Allt þetta brambolt Rómarvaldsins leiddi til flækjustigs sem tók margar aldir að reikna sig frá svo árið gengi upp í sólarganginn, þess vegna var íslenska tímatalið notað af almenningi fram á 20. öldina, eða þar til búið var að skóla íslendinga nægilega í neyslunni þannig að eilíf hringrás sólarinnar hætti að skipta öllu máli.
Nú á dögum er notast við rómverskt tímatal, -það Gregoríska, sem er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. það tók við af öðru rómversku tímatali, til að leiðrétta meinlega villu á ársgrundvelli, sem var farin að æpa á almenning um 1600. Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal, sem við höldum að sé hið eina sanna, þó svo að það hafi af okkur tímann.
Það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur, sama á við stjörnumerkin þau skiptast samkvæmt sömu reglu. Það má því segja að vísindalega höfum við gert mannsævina að línulegri tíund, -decimal. Á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur í tylftum, -dozenal, á hinni eilífu hringrás eyktarinnar.
Klukku-tíminn er mælikvarði vísinda mannfólksins. Og aðeins trúin, sem vísindin efast hvað mest um, leyfir okkur þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlýkur. Þegar þetta er allt haft í huga þá kemur berlega í ljós að maðurinn er jafn langlífur og eilífðin, -nema hann kjósi annað.
Gamla tímatalið | Breytt 8.5.2021 kl. 06:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.11.2016 | 07:24
Íslenska tímatalið
Í bók Gísla Hallgrímssonar á Hallfreðsstöðum, "Betur vitað" sem kom út 1992, er kafli sem heitir "íslenska tímatalið". Það er margt í hugleiðingu Gísla sem er athyglivert, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að bók hans kemur út fyrir tíma internetsins og aðrar leiðir þurfti til að afla óhefðbundinna upplýsinga en nú á tímum. Gísli telur í það fyrsta að gamla íslenska tímatalið byggi ekki á gömlu norrænu tímatali;
"Margt bendir til þess að tímatal, sem íslendingar tóku upp líklega þegar Alþingi var stofnað 930 hafi átt rætur sínar að rekja til Babýlon og Persíu. Ef til vill má rekja sumt í tímatalinu til finnskra þjóða, sem ríktu um mörg þúsund ára skeið í löndunum frá Finnlandi til Úralfjalla. Finnsk þjóð lagði undir sig ríki sunnan Kákasusfjalla og lærði þá menningu sem þar var. Menning frá Asíuþjóðum kom norður í Evrópu með Skýþum og svo vestur og norður að Eystrasalti með Gotum. Náskyldar þjóðir áttu vafalítið heima á þessum tíma (400-800 e. kr.)á Austur-Englandi og víða í kringum Eystrasalt. Innhöf tengdu þessar þjóðir saman.
Íslendingar virðast vera komnir af þessum þjóðum, og enn má sjá líkt fólk í Bretlandi, Íslandi og Eystrasaltslöndunum. Flestir af þessari þjóð, sem sest höfðu að á vesturströnd Noregs munu hafa farið til Íslands. Þess vegna eru Norðmenn ekki mjög líkir Íslendingum.
Íslenska árið byrjaði með heyönnum, um 20. júlí eins og hjá Babýloníumönnum. Síðan kemur tvímánuður, haustmánuður, gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður harpa, skerpla, og sólmánuður. Á eftir Sólmánuði í árslok voru svo 4 aukanætur. Allir 12 mánuðirnir voru þrítugnættir, svo árið allt var 364 dagar, eða sléttar 52 vikur. 24 árum eftir Alþingisstofnun fundu hinir fornu Íslendingar að sumarbyrjun hafði flust aftur til vorkomu þ. e. um einn mánuð. Trúleg hefur þá ekki verið kominn gróður handa hestum þegar Alþingi skyldi háð.
Þá fann Þorsteinn Surtur upp það ráð að bæta inn í árið viku sumarauka sjöunda hvert ár. Þetta ráð var upp tekið. Sjöunda hvert ár var sumarið aukið með einni viku. Það ár er 53 vikur eða 371 dagur. Nú voru Íslendingar komnir með ár, sem var að meðaltali 365 dagar að lengd. Árið 954 hefur skekkjan, sem orðin var eflaust verið leiðrétt þ. e. sumarbyrjun færð á réttan stað.
Ennþá var tímaskekkja á hverju ári samkvæmt júlíanska árinu. Það ár kom með kristninni. Samkvæmt júlíanska tímatalinu þarf sumarauki oftast að vera 6. hvert ár, en stundum á fimm ára fresti. Eitt af einkennum íslenska ársins er vikukerfið. Veturinn er 26 vikur í venjulegu ári, og rúmar 27 vikur í sumaraukaári. Veturnætur og sumarmál eru til samans í viku.
Síðustu 2 dagar sumars eru kallaðar veturnætur og 5 síðustu vetrardagar eru sumarmál. Sérhver mánuður byrjar ætíð á sama vikudegi. Við búum enn við þetta tímatal að hálfu. Enn byrjar harpa og sumar á fimmtudegi og gormánuður með vetri á laugardegi. Enn getum við lesið í almanaki um veturnætur, sumarmál og aukanætur í sumri í árslok. Í þessu gamla ári okkar er margt miðað við nætur. Þrítugnættir mánuðir, aukanætur, gestanætur, þriggja nátta fiskur.
Þess mætti geta hér að norræna tímatalið var annað en það íslenska. Þar var árið 365 dagar og notuð voru fimmt í stað vikna. Í gömlu kvæði er talað um órofi alda. Gísli Konráðsson telur að með því sé átt við þann tíma, sem var áður en fór að rofa til, þ. e. áður en farið var að telja í árum og öldum. Erfitt væri nútímamönnunum að hugsa sér lífið án tímatals.
Íslenska árið er miðað við það að ólæsir og óskrifandi menn eigi auðvelt með að fylgjast með tímanum er hann líður. Árið er útfært á tvo vegu. Annars vegar eru 12 þrítugnættir mánuðir og 4 aukanætur. Þetta ár hefur 5 mánaða sumar, eins mánaðar haust, 5 mánaða vetur og vor, sem er einn mánuður. Hins vegar er 52 vikna árið, sem hefur tvær árstíðir, sumar og vetur. Eru 180 dagar í vetri og 184 dagar í sumri. Í sumarauka ári eru 191 dagur í sumri.
Allar árstíðir byrja ennþá eftir íslenska árinu. Í 26. viku vetrar eru aðeins 5 dagar af því sumar byrjar 2 dögum fyrr í vikunni. Í 27. (eða 28.) viku sumars eru 2 dagar. Síðan byrjar vetur. Sumarauki fluttist um 1928 frá sumarlokum til ársloka á miðju sumri. Sérhver vika á vetri byrjar á laugardegi, en allar sumarvikur á fimmtudegi. Veturnætur eru alltaf fimmtudagur og föstudagur, en sumarmál hinir dagar vikunnar.
Íslenska árið var áður mikið notað með tvennu móti. Annars vegar var fardagaár. Fardagar eru 3 fyrstu dagar þ. e. fimmtudagur, föstudagur og laugardagur í 7. viku sumars. Þessa daga höfðu bændur til ábúðaskipti á jörðum. Ábúendaskipti á jörðum voru á hverju ári mjög algeng. Vissu þó gamlir menn að langir búferlaflutningar voru ámóta dýrir og húsbruni.
Hins vegar var skildagaárið. Þann 14 maí hafði vinnufólk vistaskipti. Þetta hefur verið í þriðju viku sumars samkvæmt íslenska árinu, en er nú alltaf miðað við Gregoríska árið. Hið einfalda og fasta form hjálpaði ólærðu fólki mjög mikið við að telja tímann rétt."
Þessi bókarkafli Gísla Hallgrímssonar í "Betur vitað" er settur hér vegna þess að á árinu 2015 grúskaði ég í þeim fróðleik sem má finna á netinu um gömlu íslensku mánuðina og má finna þær upplýsingar hér á síðunni undir "gamla tímatalið". Í því grúski var leitað í Vísindavef Háskóla Íslands, Wikipadia, Árnastofnun og víðar. Margt af því sem kemur fram hjá Gísla er öðruvísi en hægt er að finna á vefnum. Hvaðan Gísli hefur haft sinn fróðleik annarsstaðar en af sínu lífi er ekki gott að sjá. En þó kemur manni til hugar, vegna skoðana hans um uppruna íslenska tímatalsins, að hann hafi komist í kynni Freystein Sigurðsson auk þess sem hann nefnir alþýðufræðimanninn Gísla Konráðsson.
Gamla tímatalið | Breytt 27.12.2016 kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2015 | 07:29
Mörsugur
Í dag, á Þorláksmessu, hefst þriðji mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Mánuðurinn hefst ævinlega á miðvikudegi í níundu viku vetrar á tímabilinu 20.-26. desember. Honum líkur um miðnætti á fimmtudag í þrettándu viku vetrar á tímabilinu 19.-26. Janúar, en þá hefst þorri. Mánaðarheitið mörsugur er nefnt í Bókarbót sem er viðauki við rímnatal frá 11. öld, varðveitt í handriti frá því um 1220. Í Eddu Snorra Sturlusonar er þessi sami mánuður nefndur hrútmánuður.
Hvað nafnið mörsugur þýðir er ekki alveg vitað. Auk þess að vera kallaður hrútmánuður í Snorra Eddu, var hann í seinni tíð kallaður jólamánuður. Auðvelt er að geta sér til um hversvegna mánuðurinn er nefndur hrútmánuður því þetta var og er mánuðurinn sem hrútarnir fara á ærnar. Orðið jólamánuður segir sig svo til sjálft, en gætir þó danskra áhrifa. Norræna tímatalið var það tímatal sem notað var af flestum Norðurlandabúum þar til júlíanska tímatalið tók við og raunar lengur. Í Danmörku voru gömlu mánaðaheitin löguð að nýja tímatalinu þar bar þessi mánuður nafnið jólamánuður.
Sr. Oddur Oddsson á Reynivöllum í Kjós taldi orðið mörsugur vera sett saman úr orðunum mör innanfita í kviðarholi dýra og sugur sem leitt er af sögninni sjúga, þ.e. sá sem sýgur mörinn. Einnig taldi Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, að mörsugur héti svo vegna þess að hann væri sá mánuður sem sýgur mörinn, ekki einasta úr skepnunum, heldur nánast öllu sem lífsanda dregur. þó svo því sé þveröfugt farið í dag hvað mennina varðar, því sennilega er mörsugur orðinn sá mánuður sem mör hleðst hvað mest á mannfólkið.
Norræna tímatalið er það tímatal sem notað var af norðurlandabúum þar til það júlíanska, eða nýi stíll, tók við og mánaðaheitin miðast við árstíðir náttúrunnar. Því er skipt í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Þannig hefjast mánuðirnir á ákveðnum vikudegi, fremur en á föstum degi ársins.
Árið var talið í 52 vikum og 364 dögum. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var skotið inn svokölluðum sumarauka. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær veturnætur og var sumarið alls því 26 - 27 vikur og tveir dagar. Í mánuðum taldist árið vera 12 mánuðir þrjátíu nátta og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumaraukinn taldist heldur ekki til neins mánaðar.
Í Íslendingasögum er algengt orðalag að tala um þau missiri þegar átt er við heilt ár, en orðið ár kemur hins vegar varla eða ekki fyrir þegar rætt er um tíma. Eins eru talið að það sem kalla mætti áramót hafi verið á vori eða hausti og hefur bæði sumardagurinn fyrsti og fyrsti vetrardagur verið nefndir sem tímamót á við nýársdag. Æviskeið manna var ekki talið í árum, heldur vetrum og er það ennþá svo hvað dýr varðar, s.s. að hestur sé 8 vetra.
Vetur: gormánuður, ýlir (frermánuður), mörsugur (hrútmánuður eða jólamánuður), þorri, góa, einmánuður.
Sumar: harpa (gaukmánuður), skerpla (sáðtíð eða eggtíð eða stekktíð), sólmánuður (selmánuður), heyannir (miðsumar), tvímánuður (kornskurðarmánuður), haustmánuður (garðlagsmánuður).
Undanfarna tólf mánuði hafa mánuðunum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu verið gerð skil hér á þessar síðu. Sá fróðleikur sem um mánuðina hefur birst má allan finna á netinu og hefur hann verið sóttur á Árnastofnun, Vísindavef háskólans, Wikipedia, Náttúru, fornsögurnar ofl.. Áður en þessi rannsókn á gamla norræna tímatalinu hófst, taldi ég að um fánýtan fróðleik væri að ræða. En eftir að hafa farið yfir alla mánuðina hef ég komist á þá niðurstöðu að gamla tímatalið er mun betur tengt gangi himintungla og hrynjanda náttúrunnar en það Gregoríska, sem er það tímatal sem notað er í neyslusamfélagi nútímans. Til að upplifa þetta til fulls fór ég í gær á sólstöðuamkomu við Lagarfljót þar sem hillt var rísandi sól.
Bloggfærslur um gömlu mánuðina má finna hér.
Gamla tímatalið | Breytt 24.12.2015 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2015 | 06:03
Ýlir
Ýlir er annar mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann tekur við af gormánuði og hefst á mánudegi í fimmtu viku vetrar á tímabilinu 20. nóvember til 27. nóvember og ríkir þar til mörsugur tekur við seint í desember. Ýlir er í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu nefndur frermánuður. Eina heimildin um nafnið ýlir til forna er í svonefndri Bókarbót sem varðveitt er í handriti frá um 1220.
Ásgeir Blöndal Magnússon telur orðið ýlir skylt orðinu jól, en uppruni þess er umdeildur. Árni Björnsson telur mánaðarheitið ýlir ver helstu röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember. Árni telur að norræn jól hafa í öndverðu verið skammdegishátíð, en þær hafa þekkst um víða veröld. Þetta virðist hafa verið veislur og einhvers konar ástarleikir. Þekkt sé að kynferðislegir helgileikir hafi þekkst meðal fólks sem bjó í náinni snertingu við náttúruna og að frjósemi í mannlífinu hafi átt að kalla á frjósemi í náttúrunni. Oft sé því talað um að blóta til árs og friðar á jólum þar sem ár merkir árgæska. Telur Árni að þessu til til stuðnings megi nefna kvæði um Harald hárfagra. Þar sem hann er sagður vilja drekka jól úti og heyja Freys leik. En Freyr og Freyja voru frjósemis goð í heiðnum sið.
Sennilegt er að heiðin jól hafi verið sólstöðuhátíð að vetri og hafi ekki verið á neinum vissum degi, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu. Í Grettissögu, sem lýsir vel heiðnum háttum, segir frá jólum sem Grettir átti þegar hann dvaldi í Noregi hjá Þorfinni í Háramarsey. Í móti jólum býst Þorfinnur að fara til bús síns þangað sem hét í Slysfirði. Það er á meginlandi. Hafði hann boðað þangað mörgum vinum sínum. Húsfreyja Þorfinns mátti eigi fara með bónda því að dóttir þeirra frumvaxta lá sjúk og voru þær báðar heima. Grettir var heima og húskarlar átta. Þorfinnur fór nú við þrjá tigu frelsingja til jólaveislunnar. Var þar hinn mesti mannfagnaður og gleði.
Þess er skemmst að geta að Háleyskur víkingalýður var á sveimi við Háramarsey um þessi jól, sem átti Þorfinni bónda grátt að gjalda, tveir bræður eru nefndir til að verstir voru. Hét annar Þórir þömb en annar Ögmundur illi. Þessi flokkur hafði þann hátt á að; Þeir gengu berserksgang og eirðu öngu þegar þeir reiddust. Þeir tóku á burt konur manna og höfðu við hönd sér viku eða hálfan mánuð og færðu síðan aftur þeim sem áttu. Þegar þeir Hálendingar komu í Háramarsey á aðfangadag gekk Grettir til móts við þá og fagnaði vel þeim víkingum sem þar voru á ferð og bauð þeim bæði bæði öl og annan fagnað, við það stukku fram konur allar og sló á þær óhug miklum og gráti.
En jólaboð Grettis var ekki allt sem sýndist. Strax að veislu lokinni á aðfangadagskvöld hófst hann handa; sex féllu þar víkingar og varð Grettir banamaður allra. Síðan barst leikurinn út úr bænum; Tvo drap Grettir í naustinu en fjórir komust út hjá honum. Fóru þá sinn veg hvorir tveir. Hann eltir þá sem nær honum voru. Gerði nú myrkt af nótt. Þeir hlupu í kornhlöðu nokkura á þeim bæ sem fyrr var nefndur er á Vindheimi hét. Þar áttust þeir lengi við en um síðir drap Grettir báða. Var þá ákaflega móður og stirður en mikið var af nótt. Veður gerði kalt mjög með fjúki. Nennti hann þá ekki að leita víkinganna, þeirra tveggja er þá voru eftir. Gekk hann nú heim til bæjar. En þess má geta að þeir tveir sem undan komust fann Grettir króknaða daginn eftir. Grettir átti það sem eftir var ævi við myrkfælni og drauga að stríða í skammdeginu.
Svo takast þeir á,
hreystin og fordæðan forn og grá,
ofurhuginn og heiftin flá,
æskan með hamstola hetjumóð
við heiðninnar draugablóð,
landstrúin nýfædda, blóðug og blind,
og bölheima forynjumynd,
harkan og heimskan,
þrjóskan og þjóðin,
krafturinn og kynngin,
Kristur og Óðinn.
Þeir sækjast, þeir hamast með heljartökum,
svo húsin þau leika á þræði.
Það ýlir í veggjum, það orgar í þökum,
það ískrar af heiftar bræði.
(Úr Grettisljóðum, Matthíasar Jochumssonar)
Heimildir;
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=49887
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5478
http://www.snerpa.is/net/isl/grettir.htm
Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2015 | 22:18
Gormánuður
Gormánuður er fyrsti mánuður vetrar og ber upp á laugardaga 21. 27. Október, er þá fyrsti vetrardagur. Gormánuður hefur ekki haft önnur nöfn að fornu. Mánaðarins er getið í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Þar segir: Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr. Sama nafn ber mánuðurinn í Bókarbót frá 12. öld sem til er í handriti frá því um 1220. Gormánuður, þorri og góa eru einu fornu mánuðirnir sem aldrei sjást kallaðir öðru nafn.
Gormánuður ber nafn af því að sláturtíð hófst í þeim mánuði. Með gor er átt við hálfmelta fæðu í innyflum dýra, einkum jórturdýra. Sagt er að gamlir menn hafi kallað þennan mánuð gormánuð og slátruðu aldrei fyrr en hann var byrjaður. Mánuðinum fylgdu í gegnum tíðina margvíslegar annir; sláturgerð, sauma vambir, raka gærur, spýta skinn sem og önnur störf sem tilheyrði árstíðinni. Í gamla norræna tímatalinu er talið að árið hafi hafist með komu vetrar þannig var því fyrsti vetrardagur nokkurskonar nýársdagur. Á undan fóru veturnætur sem eru forn tímamót sem haldin voru hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni.
Heimboða um veturnætur er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu. En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Vetur konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þessa árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld stendur, öllu verri er veturinn en Tyrkinn. Ekki er vitað hve hefðin er gömul, minnst er á veturnætur í ýmsum íslenskum handritum þótt ekki komi fram nema mjög lítið um hvernig hátíðin fór fram.
Í Egils sögu, Víga-Glúms sögu og fleiri handritum er einnig minnst á dísablót sem haldin voru í Skandinavíu í október og má skilja á samhengi textanna þar að þau hafi verið haldin í námunda við vetrarnætur eða mögulega á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir. Dísir voru kvenkyns vættir, hugsanlega gyðjur eða valkyrjur og vetrarnætur oft kenndar við kvenleika.
Talið er að kvenvættir eins og Grýla og nornir í evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessari fornu dísatrú. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýranna og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar sem og nýju upphafi. Eftir að Norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember ímynd þessarar hausthátíðar. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum eða öðrum heiðnum hausthátíðum
Dagarnir frá síðustu heilu viku sumars (en sumardagurinn fyrst er ætíð fimmtudagur) og fram að fyrsta vetrardegi (sem er alltaf laugardagur), þ.e. fimmtudagurinn og föstudagurinn, voru kallaðir veturnætur. Veturnætur og fyrsti vetrardagur voru samkomu- og veislutími til forna hjá norrænum mönnum enda heppilegur sem slíkur því að þá var til gnótt matar og drykkjar eftir uppskeru haustsins og sláturtíð. Í fornsögum er víða minnst á veislur og brúðkaup á þessum árstíma. Kirkjan mun hafa amast við þessum hátíðum og því lögðust þær af eða færðust yfir á allraheilagramessu , 1. nóvember, sem var hátíðisdagur kirkjunnar.
Heimildir:
www.wikipedia.org
www.visindavefur.is
www.arnastofnun.is
www.nams.is
Gamla tímatalið | Breytt 20.12.2015 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2015 | 22:18
Haustmánuður
Haustmánuður er sjötti og þar með síðasti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Haustmánuður var einnig talin 12. mánuður ársins og hefst alltaf á fimmtudegi í 23. viku eða 24., ef sumarauki er, þ.e. 21.-27. September. Hann er nefndir svo í Snorra Eddu, en hefur einnig verið kallaður garðlagsmánuður, því þessi tími árs þótti hentugur til að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða.
Samkvæmt gamalli venju er nú tími að plægja land það sem sáð skal í að vori. Vatnsveitingaskurði er gott að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þennan tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.
Sumri og vetri er samkvæmt gamla tímatalinu skipt í tvær jafnlangar árstíðir. Haustmánuður byrjar nálægt jafndægri að hausti og er yfir tíma þar sem nóttin er lengri en dagurinn, ætti því samkvæmt gangi sólar að tilheyra vetrinum. Þar sem Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn, sem hefst í kringum 20. apríl, telst Hausmánuður sjötti mánuður sumars.
Það sýnir vel hvað gamla tímatalið var vel ígrundað, að það tók ekki einungis mið af afstöðu sólar við miðbaug, einnig tók það mið af lofthita og gangi náttúru jarðar sem er mun hagstæðari fyrsta mánuð eftir haustjafndægur heldur en á fyrstu vikum eftir vorjafndægur, sem eru um 23. mars.
Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.
Kristján jónsson
https://is.wikipedia.org
http://natturan.is/samfelagid/efni/7426/
Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2015 | 21:30
Tvímánuður
Tvímánuður er fimmti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Tvímánuður hefst á þriðjudegi í 18. viku sumars, eða hinni 19., ef sumarauki er, þ.e. 22. 28. ágúst. Í Snorra-Eddu heitir mánuðurinn kornskurðarmánuður.
Gömlu mánaðaheitin eru talin upp í tveimur ritum. Annað nefnist Bókarbót og er varðveitt í handriti frá um 1220. Hitt ritið er Snorra-Edda og eru mánaðaheitin talin þar upp í Skáldskaparmálum. Ekki ber mánaðaheitunum saman. Í Bókarbót er tvímánuður talinn upp á milli fjórða mánaðar sumars og sjötta mánaðar sumars. Nafnið kornskurðarmánuður skýrir sig sjálft þar sem hann ber upp á þann tíma ársins sem vænta má kornuppskeru. Páll Vídalín vildi skýra nafngiftina tvímánuður á þann hátt að tveir mánuðir væru nú eftir að sumri líkt og einmánuður bæri nafn sitt vegna þess að einn mánuður væri eftir af vetri.
Gamla tímatalið fylgdi gangi himintungla og hrynjanda náttúru. Þó það hafi aðeins gert ráð fyrir tveimur árstíðum, sumri og vetri, þá komu kvartilaskipti upp í kringum sólstöður og jafndægur, mánaðarmót grennd við tunglkomur. Það má með réttu halda því fram að gamla tímatalið hafi verið greinilegra en Gregoríska tímatalið sem notað er í dag og var innleitt árið 1582 af kaþólsku kirkjunni og kallað nýi stíll á íslensku. Þegar það Gregoríska tók við var skekkjan orðin það mikil í því júlíansa, sem kennt var við Júlíus Sesar, að klippa þurfti 11 daga úr árinu þannig að 29. nóvember kom í stað 17. nóvember. Gregoríska tímatalið var tekið upp á Íslandi árið 1700 og er notað í dag.
Júlíaska og Gregoríska tímatölin voru byggð á gömlu rómversku tímatali sem hafði marga galla sem enn má sjá í dag, t.d. nær tvímánuður yfir hluta úr tveimur núverandi mánaða, þ.e. ágúst og september, frá því skömmu eftir nýtt tungli í ágúst til jafndægurs að hausti sem er rétt fyrir nýtt september tungl. Þá færist mánuðurinn lengra frá nýju tungli vegna sumarauka leiðréttingar sólársins. Rómverska tímatalið var minna tengt árstíðum náttúrunnar en gamla tímatalið, þar voru Rómar keisarar áhrifavaldar þegar tíminn skildi mældur t.d. er mánuðurinn júlí nefndur eftir Júlíusi Sesar en ágúst sem er annar mánuðurinn sem ber upp á tvímánuð eftir Ágústusi keisara en september ber nafn sitt vegna þess að hann var sjöundi mánuður ársins en septem merkir sjö, október átta osfv.
Líkt og með hina rómversku hundadaga, sem enduðu s.l. sunnudag, vöndust íslendingar smá saman á að notast við hið tilskipaða tímatal frá Vadikaninu í Róm um það hvernig tíminn skildi mældur. Þrátt fyrir að hafa haft mun greinilegra tímatal til að staðsetja sig í tíðum ársins aldirnar þar á undan.
Mörsugur á miðjum vetri
markar spor í gljúfrasetri.
Þorri hristir fannafeldinn
fnæsir í bæ, og drepur eldinn.
Góa á til grimmd og blíðu,
gengur í éljapilsi síðu.
Einmánuður andar nepju,
öslar snjó og veður krepju.
Harpa vekur von og kæti,
vingjarnleg og kvik á fæti.
Skerpla lífsins vöggu vaggar,
vitjar hrelldra, sorgir þaggar.
Sólmánuður ljóssins ljóma
leggur til og fuglahljóma.
Heyannir og hundadagar
hlynna að gæðum fróns og lagar.
Tvímánuður allan arðinn
ýtum færir heim í garðinn.
Haustmánuður hreggi grætur
hljóða daga langar nætur.
Gormánuður, grettið tetur,
gengur í hlað og leiðir vetur.
Ýlir ber, en byrgist sólin,
brosa stjörnur, koma jólin.
Hallgrímur Jónsson
Heimildir:
https://is.wikipedia.org
http://www.arnastofnun.is/page/ordpistlar_tvimanudur
Gamla tímatalið | Breytt 31.7.2020 kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2015 | 07:35
Heyannir
Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar samkvæmt gömlum heimildum.
Hver mánuður taldi 30 daga í gamla tímatalinu því gengu þeir ekki upp í sólárið. Síðasti mánuður, Sólmánuður, hófst 22. júní, Heyannir hefðu samkvæmt því átt að hefjast 22. Júlí en sá mánuður hefst hinsvegar í dag 26. júlí. Þessi mismunur á milli sólarársins og daga mánaðanna var jafnaður um miðsumar og kallaður sumarauki eða sumarnætur, sem gátu verið mismargir sólarhringir eftir árum.
Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.
Oft finnst oss vort land eins og helgrinda hjarn,
en hart er það aðeins sem móðir við barn.
Það agar oss strangt með sín ísköldu él,
en á samt til blíðu, það meinar allt vel.
Því svartar sem skyggir vor skammdegis neyð,
þess skærara brosir vor júnísól heið.
Nú skín hún á frónið vort fátækt og kalt,
og fegurðar gullblæjum sveipar hún allt.
Sjá ljómann um strandir, þar leikur hún sér
í ljósinu suðandi bjargfugla her,
og æðarfugls móðurkvak ómar í ró
við eyjarnar grænar á lognstafa sjó.
Nú veit ég, að engum finnst ævi sín löng.
því allt fagnar hásumarbirtu með söng
frá hafströnd að óbyggðar hrjóstugri slóð
þar heiðlóan kveður sín einbúa ljóð.
Steingrímur Thorsteinsson
Heimildir:
https://is.wikipedia.org
http://vefir.nams.is
Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2015 | 06:48
Sólmánuður
Miðnætursól á Borgarfirði-eystri 20. júní 2015
Í dag hefst sólmánuður sem er þriðji mánuður sumars samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst alltaf á mánudegi í 9. Viku sumars (18 24 júní). Nafn mánaðarins skýrir sig sjálft þar sem hann hefst um sumarsólstöður, þegar sól er hæst á lofti og hlýjasti tíminn er framundan á norður hveli jarðar. Sólmánuður sem einnig er nefndur selmánuður í Snorra-Eddu, er níundi mánuður ársins samkvæmt gamla tímatalinu.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um sólmánuð, að hann byrjar á sólstöðum og fyrst í honum fara menn á grasafjall. Um það leyti safna menn þeim jurtum, sem til lækninga eru ætlaðar og lömb gelda menn nálægt Jónsmessu er færa frá viku seinna. Engi, sem maður vill tvíslá, sé nú slegið í 10. viku sumars. Vilji maður uppræta skóg skal það nú gjörast; þá vex hann ei aftur. Einnig er hvannskurður bestur síðast í þessum mánuði.
Sumar sólstöður voru í gær 21. júní, þannig að í dag, fyrsta dag sólmánaðar, tekur daginn aftur að stytta. En jafnframt er hlýjasti tími ársins fram undan. Það sem af er þessu sumri hefur birtan verið blökk, flestir dagar þungskýjaðir og svalir, þannig að himin og haf hafa verið dökk á að líta. Þó hafa komið hlýir og bjartir dagar inn á milli. Veður spillti ekki blakkri birtu sumarsólstaðanna, andvöku bjart var víða um land að venju. Það er vel þess virði fyrir sálina að sleppa svefni eina og eina nótt á þessum árstíma.
Hér má sjá sumar 2015 í myndum.
Það er andvökubjart
himinn kvöldsólarskart,
finnum læk, litla laut,
tínum grös, sjóðum graut.
Finnum göldróttan hval
og fyndinn sel í smá dal
lækjarnið, lítinn foss,
skeinusár, mömmukoss.
Hoppum út í bláinn,
kveðjum stress og skjáinn,
syngjum lag, spilum spil,
þá er gott að vera til.
Tínum skeljar, fjallagrös,
látum pabba blása úr nös,
við grjótahól í feluleik,
á hleðslu lambasteik.
Stingum af -
í spegilsléttan fjörð
stingum af -
smá fjölskylduhjörð
senn fjúka barnaár
upp í loft, út á sjó
verðmæt gleðitár,
- elli ró, elli ró.
Heimild; https://is.wikipedia.org
Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)