Færsluflokkur: Gamla tímatalið

Skerpla

IMG 4542

Skerpla er annar mánuður sumars, samkvæmt gamla tímatalinu, sem tekur við af Hörpu og hefst á laugardegi í 5. viku sumars á milli 19. og 25. maí. Nafnið er ekki mjög gamalt, kemur fyrst fram á 17. öld ,en í eldri rímtölum og Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er mánuðurinn nefndur eggtíð og stekktíð. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu þar sem greint er frá heitum stundanna og segir um skiptingu ársins.

„Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr, þá er frermánuðr, þá er hrútmánuðr, þá er þorri, þá gói, þá einmánuðr, þá gaukmánuðr ok sáðtíð, þá eggtíð ok stekktíð, þá er sólmánuðr ok selmánuðr, þá eru heyannir, þá er kornskurðarmánuðr.“

„Gjarnan er vísað í þá séra Odd Oddsson á Reynivöllum og séra Þórð Sveinsson um að hafa nefnt annan mánuð í sumri Skerplu, en þeir voru báðir uppi á 17. öld. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er heimild tekin upp úr riti Páls lögmanns Vídalín, Skýringar yfir fornyrði lögbókar. Þar nefnir hann einmitt séra Odd sem heimild. Í greininni Misseristalið og skipting þess eftir Þorkel Þorkelsson (Skírnir 1928:141) eru þessir prestar báðir nefndir sem heimildir um nafnið (dæmin eru tekin úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans):

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:841) telur að Skerpla sé vísast skylt lýsingarorðinu skarpur 'beittur, hvass, harður, skorpinn ...' og nafnorðinu skerpa sem skylt er nýnorska orðinu skjerpe „hrjóstur, jarðþurrkur“, færeyska orðinu skerpa „vindþurrkað kjöt“ og orðinu skärpa „þurrt, ófrjótt land“ í sænskum mállýskum. Skerpla vísar þá líklegast til lítils gróðurs að vori".

Skerpla er sáðtími þegar seint vorar um miðjan mánuð eru fardagar. Um það leyti má grafa villirætur til matar. Því síðar þegar gras fer að vaxa úr þeim eru þær lakari. Skerpla er tími til að byggja hús, vinna garða, hreinsa tún og engjar, hylja með mold flög og skriður eða færa þær burt, vinna í skógi, safna berki og litunargrösum. Þegar hnaus veltur nú á klaka er hann bestur í veggi því þá er jörðin enn laus og ófrjó. 

Manstu litlu lömbin út við stekkinn,

litla rjóðrið fagra upp við hól;

fuglinn litla er sætast söng á kvöldin,

silungshylinn fram við kvíaból.

                                          Jenni Jóns

Heimildir:

www.vísindavefurinn.is

www.nattura.is


Harpa og sumardagurinn fyrsti

IMG_4314

Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu og hefst hún ævinlega á fimmtudegi á bilinu 19. til 25. apríl, með sumardeginum fyrsta. Í elstu heimildum um fornu norrænu mánaðarnöfnin, Bókarbót frá 12. öld og Snorra-Eddu frá 13. öld, er Hörpu ekki getið uppruni nafnsins því óviss, það virðist ekki heldur eiga sér samsvaranir í norðurlandamálunum .

Aðeins í Snorra-Eddu eru allir mánuðirnir með nöfn og heitir fyrsti mánuður sumars þar Gaukmánuður. Bæði er getið Hörpumánaðar og Hörputungls í 17. aldar rímhandritum. Hugsanlega vísar nafnið Harpa til skáldlegrar hörpu vorsins, en á 17. öld vor voru oft vond og mikill fellir fjár, gæti nafnið Harpa því allt eins verið skylt orðinu herping. Þegar komið er fram á 19.öld er rómantíkin ráðandi, virðist Harpa þá verða að persónugervingi vorsins.

Sumardagurinn fyrsti er einhver elsti hátíðisdagur þjóðarinnar. Hann er nefndur í Íslendingasögum og elstu lögbókum landsins. Í Ynglinga sögu er getið um sumarblót í ríki Óðins og í Egils sögu og Ólafs sögu helga er minnst á sumarblót bænda í Noregi. Sumarblóta á Íslandi ert getið í Vatnsdæla sögu, blóts Ljóts á Hrolleifsstöðum. Sumargjafir eru þekktar allt frá 16. öld og þær því miklu eldri en jólagjafir.

Fyrsti dagur sumars var frídagur frá vinnu hér áður fyrr og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var dagurinn einnig helgaður ungum stúlkum og stundum nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Um miðja 19. öld þegar skipulega er byrjað að safna alþýðu heimildum kemur fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð ársins næst á eftir jólunum.

Þó það sé hvergi sagt berum orðum í lögum, virðast hafa verið litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Lengi vel eftir kristintöku var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta. Það þekktist hvergi annars staðar. En þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa íslensku sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.

Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu er árinu skipt í tvo nærri jafnlanga helminga, vetur og sumar sem mætast á sumardaginn fyrsta. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því dagarnir frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin eru hlýjustu dagar ársins. Nú til dags teljast árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember, samkvæmt skilgreiningu Veðurstofu Íslands.

Víðast hvar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá desember til febrúar, vorið mars til maí og svo framvegis. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar.

Gamla íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma og full ástæða til að sýna því þá ræktarsemi sem það á skilið.

Nú hefur vetur af vörum spýtt

virðist sá oft galinn.

Komið er sumar sælt og blítt

og sólin skín um dalinn.

                                       Svarri

Heimildir;

http://www.vefir.nams.is

http://www.arnastofnun.is

http://www.is.wikipedia.org

http://www.visindavefur.is


Einmánuður.

IMG_4166

Einmánuður er sjötti mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið að því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.

Fyrsti dagur einmánaðar er helgaður piltum eins og harpa stúlkum og þorri og góa húsbændum og húsfrúm og kallaður yngismannadagur. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.

Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann geri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.

Einmánuður er auk þess að vera síðasti mánuður vetrar, sá þriðji af útmánuðum en svo voru þrír síðustu mánuðir vetrar kallaðir, þau þorri, góa og einmánuður. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti mánuður vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði. Eftirfarandi vísa um útmánuði er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:

Langi Þorri leiðist mér

lata Góa á eftir fer.

Einmánuður yngstur er,

hann mun verða þyngstur þér.

Í þjóðsögum austfirðingsins Sigfúsar Sigfússonar er þetta haft eftir álfkonu; „Þurr skyldi þorri, þeysin góa, votur einmánuður og þá mun vel vora“.

Heimildir: http://is.wikipedia.org/wiki/Einm%C3%A1nu%C3%B0ur


Góa.

IMG_3945

Góa er fimmti mánuður vetrar gamla norræna tímatalsins og hefst á sunnudegi í átjándu viku vetrar, eða 18. til 24. febrúar. Fyrsti dagur góu er konudagur og var dagur húsfreyjunnar eins og fyrsti dagur þorra var dagur húsbóndans. Konudagur er þekktur frá miðri 19. öld. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst um miðja 20. öld. Síðasti dagur góu nefnist góuþræll en þá tekur einmánuður við.

Orðmyndin góa virðist ekki notuð fyrr en í lok 17. aldar. Áður var notuð kvenkynsmyndin gói (beygist eins og elli) allt frá því í fornu máli. Gömul saga, sem lesa má um í fyrsta kafla Orkneyingasögu, segir frá Fornjóti konungi í landi því er kallað er Finnland og Kvenland. Hann átti soninn Þorra sem aftur átti dótturina Gói og tvo syni, Nór og Gór. Þorri var mikill blótmaður og hélt á miðjum vetri ár hvert blót sem kallaðist þorrablót. Það bar til tíðinda á einu slíku blóti að Gói hvarf og fannst ekki þótt víða væri leitað.

Þremur vetrum síðar, þegar Gói var enn ófundin, strengdu bræður hennar þess heit að leita hennar, Nór um löndin en Gór um útsker og eyjar. Leituðu þeir víða og lengi um það land sem nú heitir Noregur. Loks komast þeir að því að Hrólfur nokkur úr Bjargi á Heiðmörk, sonur Svaða jötuns norðan úr Dofrum, hafði numið Gói á brott og heldur Nór til fundar við hann. Þegar Hrólfur fréttir af Nór fer hann til móts við hann og Nór býður honum til einvígis. Þeir börðust lengi og hafði hvorugur betur. Þeir sættust þá, Nór fékk systur Hrólfs en Hrólfur Gói og hafði Nór í leitinni að systur sinni lagt undir sig Noreg.

Orðin góa og gói finnast einnig í Norðurlandamálum. Í færeysku er myndin gø, í nýnorsku gjø, go, í sænskum mállýskum göja, gya og í forndönsku gue, gøj. Ásgeir Blöndal Magnússon telur orðið líklega skylt nýnorsku gjø í merkingunni 'snjóföl' og forníslenska veðurheitinu gæ (í þulum).

Húsfreyjur áttu að fagna góu á sama hátt og bændur fögnuðu fyrsta degi í þorra. Þær áttu að fara fyrstar allra á fætur, ganga fáklæddar út fyrsta morgun góu og bjóða hana velkomna með þessari vísu:

Velkomin sértu, góa mín,

og gakktu í bæinn;

vertu ekki úti í vindinum

vorlangan daginn.

Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna þar sem oft var farið að ganga á matarbirgðir. Í söfnum Orðabókar Háskólans er þessi orðatiltæki meðal annars að finna um góuna: Hægt er að þreyja þorrann og góuna. Kerling kvað það væri óséð. ,,Því að ekki er öll góa úti enn." Góunnar er oft getið í þulum og vísum.

Við skulum þreyja þorrann

og hana góu

og fram á miðjan einmánuð;

þá ber hún Grána.

 

Heimildir;

http://is.wikipedia.org/wiki/G%C3%B3a

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=55529

 


Þorri og dagatal

5034eb82ab9de

Í dag er bóndadagur fyrsti dagur Þorra sem er fjórði vetrarmánuðurinn og sá fyrsti af útmánuðum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Þorri hefst á föstudegi á bilinu 19.–25. janúar og lýkur þorraþræl sem er laugardagurinn áður en góa tekur við á sunnudegi. Um bóndadag hefur m.a. verið sagt að áður fyrr hafi sú hefð verið meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður til að bjóða þorrann velkomin í bæinn eins og um tignann gest væri að ræða. Meir að segja hefur sú saga komist á kreik að bóndinn eigi að fara út fyrir bæ að morgni fyrsta dags þorra, klæða sig í aðra buxnaskálmina og hoppa á öðrum fæti í kringum húsið, um bóndadag má því kannski segja að hann sé öðrum dögum fremur dagur karlmennsku.

Tilgáta er um að þorri dragi nafn sitt af því að þverra; minnka, skerðast. Orðið þekkist einnig í færeysku sem torri og í nýnorsku sem torre. Eldri heimildir gefa til kynna uppruna þorrans. Fornaldarsögur norðurlanda segja frá manni sem hét Fornjótur, hann átti son sem hét Kári. Sonur Kára var Snær konungur, börn Snæs voru Þorri, Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti svo þrjú börn, tvo syni þeir voru Nór og Gór og dótturina Gói.

Þó svo að flestir hér á landi viti af þorranum er mér það til efa að það sé svo hjá nágrannaþjóðunum. Það kom fyrir að ég átti samræður við norska vinnufélaga mína um gamla tímatalið, þeir könnuðust ekki við það og töldu jafnvel að það væri fleipur að kenna það við norðurlönd. Svo merkilegt sem það nú var þá könnuðust vinnufélagr mínir sem voru innflytjendur í Noregi frekar við svipað tímatal.

Í kringum Valentínusardag kom eitt sinn til umræðu á milli okkar félagana hvort heimalöndin héldu upp á þann dag. Ég sagði frá konudeginum sem væru á mánaðarmótum þorra og góu sem hliðstæðum. Þá kom fram hjá Yasin sem er frá Afganistan að þar voru áramót á sama tíma og Þorri og góa mættust á Íslandi. Á sumardaginn fyrsta datt mér svo í hug að spyrja Yasin að því hvort þá væru mánaðarmót í Afganistan, hann gluggaði í símanum sínum og sagði „ja det gjør“.

Vinnufélagi frá Súdan sagði okkur að í hans landi væri þekkt, auk hins hefðbundna almanaks, gamalt tímatal sem væri svipað og það Afganska enda íbúar beggja landa að mestu múslimar. Sá hefur mörg nöfn, en það nafn sem hann notar er Juma, dregið af fæðingardegi hans sem er föstudagurinn, eða El Juma á arabísku. Í heimahéraði hans í Darfur er það til siðs að eitt af nöfnunum sem hverjum er gefið sé dregið af vikudegi fæðingar því sá dagur hafi merkingu í lífi viðkomandi.

Það er sama hvar í heiminum er þá hafa flest samfélög rambað á það að hafa vikudagana sjö talsins. Kanski er það svo enn merkilegra að þeir eiga sér svipaðan uppruna. Eins er það merkilegt að fáar þjóðir hafa gengið lengra í að afmá goðsögur vikudagana og íslendingar með því að breyta nöfnum þeirra til veraldlegri merkingar, þó enn sé haldið í daga aftan úr grárri fornesku á við bóndadaginn.

Hér á landi var nöfnum vikudagana breytt aðallega fyrir tilverknað Jóns Ögmundssonar biskups. Á 12. öld hlutu flestir vikudagarnir þau nöfn sem notuð eru í dag. Áður voru þeir með svipuðum nöfnum og í nágrannalöndunum eða; Sunnudagur, Mánadagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Lokadagur. Meir að segja var reynt að breyta hér á landi sunnudegi í drottinsdag og mánadegi í annadag.

Á norðurlönunum eru nöfn dagana Søndag, Mandag, Tirsdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og Lørdag, enn þann dag í dag kenndir við nöfn hinna fornu goða nema Sunnudagur og Mánudagur sem kenndir eru við himintungl. Í ensku eru dagarnir kenndir við sömu himintungl, sömu goð, í sömu röð, nema lokadagurinn Saturday sem kenndur er við stjörnuna Satúrnus eða rómverska goðið Saturn. Miðvikudagur sem er Wedensday á ensku var áður skrifað Wodensday sem Óðinsdagur.

Uppruni vikudagana um víða veröld er talinn eiga meira sammerkt en að vera sjö talsins og goðsöguleg nöfn, því goðin eru talin hafa haft sína skírskotun til himintunglana. Það segir sig sjálft að sunnudagur er sólardagur og mánudagur er mánadagur. Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi komist að sömu niðurstöðu um víða veröld hvað dagana varðar, með sama himinhvolf til að styðjast við, kennt þriðjudaginn við mars, miðvikudaginn við merkúr, fimmtudaginn við jupiter, föstudaginn við venus og laugardaginn við saturnus.

7 days with symbols 2 web

Einkenni dagana gætu hafa verið eitthvað á þennan veg í gegnum tíðina:

Sunnudagur til sigurs, er fyrsti dagur vikunar / Sól, gull = Sunnudagur; uppljómun „hin skínandi“ gyðja uppljómunar, ákvarðanir, leiðandi, afl. Sólin hefur verið tilbeðin um allan heim og goð henni tengd. Ra var t.d. sólguð í fornegypskri goðafræði sem réð yfir himni og jörð. Ra var guð hádegissólarinnar, um tíma höfuðguð trúarbragða egypta.

Mánudagur til mæðu, er annar dagur vikunar og fyrsti vinnudagur / Máni, silfur = Mánadagur; hugur, tilfinningar, hjartnæmi, samhygð. Máninn hefur ekki verið talinn álitlegur til tilbeiðslu í gegnum tíðina. Orðið „Luna“ er máninn á grísku og rót enska orðsins „lunatic“ sem gæti útlagst hugsjúkur, á íslensku tunglsjúkur. „Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn"(Matth 17:15)

Þriðjudagur til þrautar, er eins og nafnið gefur til kynna þriðji dagur vikunar / Mars, járn = Týsdagur; hamingja, velferð, réttlæti, lög, tærleik,hreysti (hin guðlegu alheimslög)lögmál náttúru. Týr er guð hernaðar, en einnig goð himins og þings. Týr er sonur Óðins. Hann var hugprúðastur og djarfastur allra ása. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna. Meira um Tý ...

Miðvikudagur til moldar, hefur það í nafninu að bera upp á miðja viku / Merkúr, kvikasilfur = Óðinsdagur; vitund skilningur rökhugsun. Óðinn er æðstur goða í norrænni goðafræði, guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn birtist mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt og gengur þá undir mörgum nöfnum, jafnvel má ætla að eitt þeirra hafi verið Bhúdda. Meira um Óðinn ...

Fimmtudagur til frama, er fimmti dagur vikunar / Júpíter, tin = Þórsdagur; kraftur, þekking, viska. Þór er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og er mest dýrkaður að fornu og nýju. Himnarnir skulfu er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu við þrumur og eldingar sem fylgdu honum, hamar hans Mjölnir er tákn þrumu og eldinga. Meira um Þór ...

Föstudagur til fjár, er dagur sem skal nota til föstu samkvæmt kaþólskum sið / Venus, kopar = Freyjudagur; ást, sköpun, laðar að fólk. Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Freyja var valdamikil gyðja og mikið dýrkuð af konum en einnig af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar, veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn bæði goð og konunga sem hún studdi svo í valdatíð þeirra. Meira um Freyju ...

Laugardagur til lukku, er til hreingerninga og var um tíma nefndur þvottadagur / Saturnus, blý = Lokadagur; efnishyggja, völd, veraldarhygga. Loki er brögðóttastur allra goða, ekki hafa fundist merki þess að Loki hafi nokkurstaðar verið tilbeðinn eða dýrkaður opinberlega sem goð, enda tákn efnishyggjunnar og undirferlisins í heiminum. Hnötturinn Saturnus er stundum kallaður „hringa drottinn“ tákngervingur bragða, valds og græðgi, er nafnið Satan líklega af honum dregið. Meira um Loka ...

Þó svo vikudagarnir íslensku hafi tínt sínum goðsögulega uppruna og aðeins tveir þeirra eigi enn sína stjarnfræðilegu merkingu, þá heldur bóndadagurinn lífi á íslenska dagatalinu þrátt fyrir veraldarhyggju nútímans. Umborinn enn í dag, jafnvel með blómum til að hafa einhverja meiningu, líkt og konudagurinn hafði sem fyrsti dagur góu, sem þó á orðið í verulegri vök að verjast fyrir deginum hans Valentínusar.

Heimildir:

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=58509

http://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6828/24gudin-dagar-planetur-mannsheili.pdf?sequence=1

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=48074

http://www.factsbehindfaith.com/Satan-astrology.html

http://infinity-codes.net/raah/_archive(infinity-codes)/earth-codes/7-day-week.html

www.wikipedia.org


mbl.is Syngja um íslenskan heimilismat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti vetrardagur.

IMG 2060 

Fyrsti vetrardagur er laugardagurinn að lokinni 26. viku sumars. Hann er fyrsti dagur fyrsta vetrarmánaðarins Gormánuðar, í gamla norræna tímatalinu. Fyrsta vetrardag ber upp á 21.-27. október, nema í rímspillisárum, þá 28. október. Rímspillisár þekkist á því að aðfarardagur ársins er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár (hefur aðfarardagana sunnudag og mánudag).

Gormánuður er fyrsti mánuður vetrar og virðist ekki hafa átt önnur nöfn að fornu, nafnið vísar til sláturtíðar. Veturnáttaboða er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku . Raunar má segja, að engin árstíðabundin boð eða blót séu nefnd eins oft nema um jólaleytið.

Þetta á sér líklega þær náttúrulegu skýringu að á haustin var mest til af nýju sláturkjöti, og var það nánast nauðsyn að neyta þess nýmetis þá í sem ríkustu mæli vegna þeirra vandkvæða, sem þá voru á geymslu þess, þegar ekki voru til frystihús og salt. Kornuppskera var þá einnig lokið, hafi hún verið einhver.

Veturnáttboð er aftur á móti ekki getið í samtíðarsögum frá 12. og 13. öld, þótt t.a.m. jólaveislur haldi áfram og síst minni í sniðum. Þessi munur gæti átt sér þá eðlilega skýringu að öllum veislum af þessu tagi fylgja nokkrir helgisiðir, og í heiðnum sið virðist hafa verið blótað til árs og friðar móti vetri og drukkinn heill heiðinna goða og vætta. En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Veturs konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þessa árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld stendur:

Öllu verri er veturinn en Tyrkinn.

Og er þar vísað til hræðslu manna við sjóræningja þá sem kenndir voru við Tyrki. Því er líklegt að í veturnóttaboðum hafi heiðnar vættir verið blótaðar í þeim tilgangi að fá þær til að milda veturinn, líkt og líklega hafi verið með þorrablót.

Norræna tímatalið er það tímatal sem notað var af  norðurlandabúum þar til júlianska tímatalið tók við sem almennt tímatal, og raunar lengur. Tímatalið og mánaðaheitin miðast við árstíðir sveitasamfélagsins og skiptast í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur, fremur en daga, og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Með þessum hætti hefjast mánuðirnir þannig á ákveðnum vikudegi, fremur en á föstum degi ársins.

(heimild wikipedia) 

Íslensku mánaðaheitin

  • Vetur: gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður. 
  • Sumar: harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður, haustmánuður. 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband