Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur
3.5.2022 | 06:00
Heiðmyrkur og Hermann
Það er til veður fyrirbæri sem kallast heiðmyrkur. Íslenskt orðnet gefur upp skýringarnar þoka, þokudrungi eða þokumyrkur á fyrirbærinu auk 123 vensla. Þetta mun samt vera sérstök tegund lágþoku í heiðskýru verði, stundum sögð það sama og dalalæða. Það eru ekki margar heimildir til þar sem nafnið á fyrirbrigðinu kemur við sögu.
Við austurströndina er kaldur hafsstraumur sem rennir sér suður með Austurlandi og býr til hina frægu Austfjarðaþoku í samspili við hlýtt loft. Um helgina var ég niður á Stöðvarfirði og gafst færi á að fylgjast með fyrirbærinu heiðmyrkur af sólpallinum, sem ég hef reyndar oft séð áður án þess að íhuga hvað það kallaðist annað en þoka.
Myndin að ofan er af heiðmyrkri sem birgði sýn þegar þoka af hafi kom inn á sólríkan fjörðinn með innfalli og hafgolu. Neðri myndin er með sama útsýni frá kvöldinu áður
Í vetur las ég þjóðsöguna um Hermann litla sem bjargaði fólkinu sínu undan Hundtyrkjanum, en þá var heiðmyrkur.
Er Tyrkir fóru ránsferð sína 1627 komu þeir að Eyjum í Breiðdal fyrir miðjan morgun. "Náðu þeir öllu fólki heima, tóku það allt og bundu, nema dreng einn fjögurra ára er Hermann hét. Síðan fóru þeir burtu og leituðu fleiri bæja. Heiðmyrkur var á mikið. Þegar þeir voru farnir sagði móðir Hermanns við hann: -Hefurðu ekki busann þinn í kotinu þínu svo þú getir skorðið af mér böndin? Drengur hvað já við því, kom með busann og gat um síðir skorið svo böndin, að önnur höndin losnaði. Tók hún þá við busanum og skar öll bönd af sér og síðan af þeim manni sem næstur var. Fékk hún síðan þeim manni busann og bað hann að losa hitt fólkið, en hljóp sjálf til fjalls með Hermann litla. Slapp allt fólkið með þessum hætti. Þegar Hermann var fulltíða réðst hann á skip og var lengi í siglingum, var mælt að hann hafi síðar eignast Berunes. (Ættir Austfirðinga, 11307)
Hermann Ásmundsson var fæddur 1623 og passar aldurinn við þjóðsöguna. Hann er fjögurra ára er Tyrkjaránið var 1627. Í jarðarbréfum frá 16.-17. öld (s.280) sést að Hermann eignast 200 í Berunesi, en átti jörðin alla samkvæmt bréfi dagsettu 13.júlí 1687. Hermann bjó á Berunesi þar til hann lést upp úr 1695. (Dvergasteinn - þjóðsögur og sagnir / Alda Snæbjörnsdóttir)
Því er þessi sögn af Hermanni tilfærð hér af heiðmyrkri, að þegar Tyrkir rændu við Berufjörð og í Breiðdal, þá kom þokan mörgum til bjargar, en í veðurlýsingum var blíðviðri þá daga sem Tyrkir dvöldu í Berufirði, enda hásumar. Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9, -í Hamarsfirði, Berufirði og í Breiðdal, náðu fáum í Breiðdal.
Tyrkjaránssaga hefur verið talin sannsögulegt plagg enda var hún skrásett sem samtímaheimild. Tyrkir fóru frá Austfjörðum í Vestamannaeyjar og létu þar nokkra Austfirðinga lausa til að hafa pláss fyrir fleiri Vestamannaeyinga sem þeim þótti álitlegri söluvara. Saga ránanna fyrir austan var síðan skráð eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti.
Þjóð- og munnmælasögur hafa því ekki átt upp á pallborð fræðimanna hvað Tyrkjaránið varðar, nema þá sem kviksögur. Sagan af Hermanni skýrir kafla sem má finna í Tyrkjaránssögu um það hversvegna Tyrkjum tókst ekki að ræna prestsetrið Heydali. Um það hefur Tyrkjaránssaga þetta að segja.
Nú er Hamarsfólkið var til skips komið þ. 7. júlíum, fóru nokkrir af illvirkjunum enn strax aptur um fjörðinn að Berunesi, þustu svo norður yfir fjöllin, til þess þeir komu í Breiðdal. Þeir voru alls átta illmennin. Þessir komu fyrst á þann bæ, sem Ós heitir. Þar fundu þeir átta karlmenn og bundu á þeim bæði hendur og fætur og voru þar eptir tveir Tyrkjar að gæta þeirra, meðan hinir fóru yfir um ána til þeirra manna, er þeir sáu hinu megin árinnar, hverjir voru menn frá síra Höskuldi Einarssyni frá staðnum Heydölum, sem áttu að koma undan kistum nokkrum fullum af gripum, því spurzt hafði þangað af illvirkjunum. En í þessum atriðum kom að Ósi gangandi neðan úr byggðinni með sitt fólk sá maður, sem hjet Jón, af bænum Streiti. Hann vissi ekki að ófriðarmenn voru komir í Breiðdalinn. En sem þeir tveir illgjörnu vaktarar þetta fólk sáu, flýðu þeir upp í fjallið, en nefndur Jón á Streiti leysti þá þrjá menn hina bundnu, Gísla Þórarinsson með sínum syni og Ásmund Hermannsson, og flýðu þeir svo gangandi með Jóni inn eptir Breiðdal og upp í hjeruðin. Þeir menn, sem með kistur síra Höskuldar fóru, yfir gáfu þær, en flýðu síðan. úr þeim kistu tóku ræningjarnir nær 30 hundruð í silfri og klæðum, en klufu þar eptir kisturnar í sundur. Heim til staðarins fóru ræningjarnir ekki, því þeim sýndist þar klettur vera, sem staðurinn var. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðasá)
Munnmælin segja frá atburðum í Breiðdal á svipaðan hátt og Tyrkjaránssaga þó svo Hermanns litla sé ekki getið í Tyrkjaránssögu. Hermann og móður hans voru á bænum Eyjum, sem er bær fyrir innan Ós. Hvers vegna aðeins karlmenn voru heima við í böndum á Ósi gæti stafað af því, eins og reyndar kemur fram um kistur séra Höskuldar, að spurst hafi til Tyrkjanna við Berufjörð. Líklegt er að Ásmundur Hermannsson, einn af þeim sem leystur var úr böndum á Ósi, hafi verið faðir Hermanns litla.
Munnmælunum ber nokkuð vel saman við Tyrkjaránssögu um atburðina á Ósi, en hefur það þó til viðbótar að vera staðkunnug. Við Ós hef ég heyrt að hafi verið ferjustaður áður fyrr yfir Breiðdalsá og Heydalir eru handan ár, ekki er ólíklegt að þeir menn sem voru að flytja kisturnar hafi forðað sér á bát yfir ána án kistnanna og síðan í Heydali.
Þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara segir frá því að Tyrkir hafi oftar en einu sinni reynt að komast í Heydali en hafi ítrekað tínt bænum eða sýnst hann vera kletta. Þar er þess getið að séra Höskuldur hafi farið til kirkju og bænhita hans þakkað að bærinn fannst ekki, en ekki er ólíklegt að heiðmyrkri sé að þakka hvort sem séra Höskuldur bað þess í bænum sínum eða lét almættið um með hvaða hætti hann verndaði Heydali.
Það kemur víða fram í Tyrkjaránssögu hvernig dyntótt Austfjarðaþokan kom sér fyrir fólkið þessa ógnardaga, bæði vel og illa. Ein sagan er af dreng sem var fluttur úr Breiðdal í böndum ásamt fleirum. Þegar hann sá sér færi, á bænum Núpi á Berufjarðaströnd, hljóp hann inn í þokuna með hendur bundnar aftur fyrir bak. Hann komst inn í þokuna með ræningjana á hælunum en missti þá niður um sig buxurnar og féll, lá síðan grafkyrr, ræningjarnir leituðu allt í kring, svo nálægt að hann heyrði tal þeirra, en þeir fundu hann ekki, svo skyndilega getur heiðmyrkur úr Austfjarðaþokunni skollið á í glaða sólskini.
Orðabók Menningasjóðs hefur þetta að segja um orðið heiðmyrkur; "þoka á láglendi en tindar bjartir og heiður himinn. Íslensk Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal hefur ekki orðið heiðmyrkur, en um orðið heið segir; "skýlaus himin, bjart loft" og um myrkur; dimma, ljósleysi
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2022 | 06:27
Svaðalegar kerlingabækur
Þetta er svaðalegt var stundum sagt og er kannski sagt enn. Er þá átt við svakalegt, hrikalegt eða eitthvað verulega slæmt. En hvaðan er svaðalegt upprunnið? Um upprunann má lesa í fyrstu hallærum íslandssögunnar.
Árin skömmu fyrir 1000 voru slæm hallærisár með hörðum vetrum. Veturinn 975-976 var talin harðastur á þjóðveldisöld, þó svo að fleiri slæmir kæmu fyrir árþúsundamótin. Vildu sumir meina að þessi hallæri hafi flýtt fyrir kristnitöku á Íslandi.
"þá átu menn hrafna og melrakka, og mörg óátan ill var étin. En sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir og drepnir. Þá vógust skógarmenn sjálfir, því það var lögtekið að ráði Eyjólfs Valgerðarsonar, að hver frelsti sig, sá er þrjá dræpi seka". (viðauki Skarðsbókar)
Í Svaða þætti og Arnórs kerlingarnefs kemur glöggt fram hversu harðneskjan var mikil, en þar tókust á tveir pólar, -harkan og gæskan. -Gleðilega páska.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Mikil og margföld er miskunn allsvaldanda guðs í öllum hlutum og háleitur hans dómur er hann lætur öngan góðgerning fyrirfarast heldur kallar hann elskulegri mildi þá sem eigi kunna hér áður til að nema, skynja og skilja, dýrka og elska sinn lausnara sem vor herra Jesús Kristur, lifandi guðs son, hefir sýnt í mörgum frásögnum þó að vér munum fár tína. Svo sem yfirboðan miskunnar tilkomu og fullkomins kristindóms á Íslandi sýnir guð í þeim frásögnum sem eftir fara að hann styður og styrkir hvert gott verk þeim til gagns er gera en hann ónýtir og eyðir illsku og grimmd vondra manna svo að oftlega fyrirfarast þeir í þeim snörum er þeir hugðu öðrum.
Nokkuru eftir utanferð Friðreks biskups og Þorvalds Koðránssonar gerðist á Íslandi svo mikið hallæri að fjöldi manns dó af sulti. Þá bjó í Skagafirði nokkur mikilsháttar maður og mjög grimmur er nefndur er Svaði, þar sem síðan heitir á Svaðastöðum.
Það var einn morgun að hann kallaði saman marga fátæka menn. Hann bauð þeim að gera eina mikla gröf og djúpa skammt frá bæ sínum við almannaveg. En þeir hinir fátæku urðu fegnir ef þeir mættu hafa amban erfiðis síns með nokkuru móti og slökkva sinn sára hungur. Og um kveldið er þeir höfðu lokið grafargerðinni leiddi Svaði þá alla í eitt lítið hús.
Síðan byrgði hann húsið og mælti síðan til þeirra er inni voru: "Gleðjist þér og fagnið þér því að skjótt skal endir verða á yðvarri vesöld. Þér skuluð hér búa í nótt en á morgun skal yður drepa og jarða í þeirri miklu gröf er þér hafið gert."
En er þeir heyrðu þann grimma dóm fyrir sitt starf, er þeim var dauði ætlaður, síðan tóku þeir að æpa með sárlegri sorg um alla nóttina. Þar bar svo til að Þorvarður hinn kristni, son Spak-Böðvars, fór þá sömu nátt upp um hérað að erindum sínum en leið hans lá allsnemma um morguninn hjá því sama húsi er hinir fátæku menn voru inni. Og er hann heyrði þeirra grátlegan þyt spurði hann hvað þeim væri að angri.
En er hann varð vís hins sanna mælti hann til þeirra: "Vér skulum eiga kaup saman ef þér viljið sem eg. Þér skuluð trúa á sannan guð þann er eg trúi á og gera það sem eg segi fyrir. Þá mun eg frelsa yður héðan. Komið síðan til mín ofan í Ás og mun eg fæða yður alla."
Þeir sögðu sig það gjarna vilja. Tók Þorvarður þá slagbranda frá dyrum en þeir fóru þegar fagnandi með miklum skunda ofan í Ás til bús hans.
En er Svaði varð þessa var varð hann harðla reiður, brá við skjótt, vopnaði sig og sína menn, riðu síðan með öllum skunda eftir flóttamönnum. Vildi hann þá gjarna drepa en í annan stað hugsaði hann að gjalda grimmu sína svívirðu er hann þóttist af þeim beðið hafa er þá hafði leysta. En hans illska og vondskapur féll honum sjálfum í höfuð svo að jafnskjótt sem hann reið hvatt fram hjá gröfinni féll hann af baki og var þegar dauður er hann kom á jörð. Og í þeirri sömu gröf er hann hafði fyrirbúið saklausum mönnum var hann sjálfur, sekur heiðingi, grafinn af sínum mönnum og þar með hundur hans og hestur að fornum sið.
En Þorvarður í Ási lét prest þann er hann hafði með sér skíra hina fátæku menn er hann hafði leyst undan dauða og kenna þeim heilug fræði og fæddi þá þar alla meðan hallærið var.
Það segja flestir menn að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi skírður verið af Friðreki biskupi en Gunnlaugur munkur getur þess að sumir menn ætla hann skírðan verið hafa á Englandi og hafa þaðan flutt við til kirkju þeirrar er hann lét gera á bæ sínum. En móðir Þorvarðs Spak-Böðvarssonar hét Arnfríður, dóttir Sleitu-Bjarnar, Hróarssonar. Móðir Sleitu-Bjarnar var Gróa Hrafnsdóttir, Þorgilssonar, Gormssonar hersis, ágæts manns úr Svíþjóð. Móðir Þorgils Gormssonar var Þóra dóttir Eiríks konungs að Uppsölum. Móðir Herfinns Eiríkssonar var Helena dóttir Búrisláfs konungs úr Görðum austan. Móðir Helenu var Ingibjörg systir Dagstyggs, ríks manns.
Á þeim sama tíma sem nú var áður frá sagt var það dæmt á samkomu af héraðsmönnum, og fyrir sakir hallæris og svo mikils sultar sem á lá var lofað að gefa upp fátæka menn, gamla, og veita öngva hjálp, svo þeim er lama var eða að nokkuru vanhættir og eigi skyldi herbergja þá. En þá knúði á hinn snarpasti vetur með hríðum og gnístandi veðrum.
Þá var mestur höfðingi út um sveitina Arnór kerlingarnef er bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. En er Arnór kom heim af samkomu þessi þá gekk þegar fyrir hann móðir hans, dóttir Refs frá Barði, og ásakaði hann mjög er hann hafði orðið samþykkur svo grimmum dómi. Tjáði hún fyrir honum með mikilli skynsemd og mörgum sannlegum orðum hversu óheyrilegt og afskaplegt það var að menn skyldu selja í svo grimman dauðann föður sinn og móður eða aðra náfrændur sína.
"Nú vit það fyrir víst," segir hún, "þó að þú sjálfur gerir eigi slíka hluti þá ertu með öngu móti sýkn eða hlutlaus af þessu glæpafullu manndrápi þar sem þú ert höfðingi og formaður annarra, ef þú leyfir þínum undirmönnum að úthýsa sínum feðginum eða frændum nánum í hríðum og jafnvel þó að þú leyfir eigi ef þú stendur ekki í mót með öllu afli slíkum ódáða."
Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og tók vel ásakan hennar. Gerðist hann þá mjög áhyggjufullur hvað er hann skyldi að hafast. Tók hann þá það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni því er út var rekið og flytja til sín og lét þar næra með allri líkn.
Annan dag stefndi hann saman fjölda bónda.
Og er Arnór kom til fundarins mælti hann svo til þeirra: "Það er yður kunnigt að vér áttum fyrir skömmu almennilega samkomu. En eg hefi síðan hugsað af sameiginlegri vorri nauðsyn og brotið saman við þá ómannlegu ráðagerð er vér urðum allir samþykkir og gáfum leyfi til að veita líftjón gamalmenni öllu og þeim öllum er eigi mega vinna sér til bjargar með því móti að varna þeim líflegri atvinnu. Og hirtur sannri skynsemd iðrast eg mjög svo illskufullrar og ódæmilegrar grimmdar. Nú þar um hugsandi hefi eg fundið það ráð sem vér skulum allir hafa og halda. Það er að sýna manndóm og miskunn við mennina svo að hver hjálpi sínum frændum sem hver hefir mest föng á, einkanlega föður og móður og þar út í frá, þeir sem betur mega fyrir sulti og lífsháska, sína aðra náfrændur. Skulum vér þar til leggja allan vorn kost og kvikindi að veita mönnum lífsbjörg og drepa til hjálpar vorum frændum faraskjóta vora heldur en láta þá farast af sulti svo að engi bóndi skal eftir hafa meira en tvö hross. Svo og eigi síður sá mikli óvandi er hér hefir fram farið að menn fæða fjölda hunda svo að margir menn mega lifa við þann mat er þeim er gefinn. Nú skal drepa hundana svo að fáir eða öngir skulu eftir lifa og hafa þá fæðu til lífsnæringar mönnum sem áður er vant að gefa hundunum. Nú er það skjótast af að segja að með öngu móti leyfum vér að nokkur maður gefi upp föður sinn eða móður, sá er með einhverju móti má þeim hjálpa en sá er eigi hefir lífsnæring til að veita sínum náfrændum eða feðginum, fylgi hann þeim til mín á Miklabæ og skal eg fæða þá. En hinn er má og vill eigi hjálpa hinum nánustum frændum þá skal eg grimmu gjalda með hinum mestum afarkostum. Nú þá mínir kærustu vinir og samfélagar heldur en undirmenn, fremjum í alla staði manndóm og miskunn við vora frændur og gefum ekki færi til óvinum vorum því oss að brigsla að vér gerum með of mikilli fávisku við vora náunga svo ómannlega sem á horfist. Nú ef sá er sannur guð er sólina hefir skapað til þess að birta og verma veröldina og ef honum líkar vel mildi og réttlæti sem vér höfum heyrt sagt þá sýni hann oss sína miskunn svo að vér megum prófa með sannindum að hann er skapari manna og að hann megi stjórna og stýra allri veröldu. Og þaðan af skulum vér á hann trúa og öngan guð dýrka utan hann einn saman ríkjanda í sínu valdi."
Og er Arnór hafði þetta talað þá var þar Þorvarður Spak-Böðvarsson við staddur og segir svo: "Það er nú sýnt Arnór að sá hinn sami guð er þú kvaddir að þínu máli hefir sinn helgan anda sent í þitt brjóst til að byrja svo blessaðan manndóm sem þú hefir mönnum nú tjáð í tölu þinni og það hygg eg ef Ólafur konungur hefði þig heyrt slík orð segja að hann mundi gera guði þakkir og þér fyrir svo fagran framburð og því trúi eg að þá er hann spyr þvílíka hluti að hann verði forkunnar feginn og víst er oss það mikill skaði að vér skulum hann eigi mega sjá eða heyra hans orð sem mér þykir ugganda að hvorki verði."
En er allir þeir er þar voru saman komnir létu sér þetta allt vel viljað er hann hafði talað þá slitu þeir með því þinginu. Þá var hinn snarpasti kuldi og frost sem langan tíma hafði áður verið og hinir grimmustu norðanvindar en svelli og hinu harðasta hjarni var steypt yfir jörð svo að hvergi stóð upp. En á næstu nótt eftir þennan fund skiptist svo skjótt um með guðlegri forsjá að um morguninn eftir var á brottu allur grimmleikur frostsins en kominn í staðinn hlær sunnanvindur og hinn besti þeyr. Gerði þaðan af hæga veðráttu og blíðar sólbráðir. Skaut upp jörðu dag frá degi svo að af skömmu bragði fékk allur fénaður nógt gras af jörðu til viðurlifnaðar. Glöddust þá allir menn með miklum fagnaði er þeir höfðu hlýtt því miskunnar ráði er Arnór hafði til lagt með þeim og tóku þegar í mót svo nógan velgerning guðlegrar gjafar að fyrir þá skyld gengu allir þingmenn Arnórs, karlar og konur, fljótt og feginsamlega undir helga siðsemi réttrar trúar með sínum höfðingja er þeim var litlu síðar boðið því að á fárra vetra fresti var kristni lögtekin um allt Ísland.
Arnór kerlingarnef var son Bjarnar Þórðarsonar frá Höfða. Móðir Bjarnar hét Þorgerður, dóttir Þóris ímu og Þorgerðar dóttur Kjarvals Írakonungs. Höfða-Þórður var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hróks, Áslákssonar, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar.(Svaða þáttur og Arnórs kerlingarnefs)
Málsháttur páskaeggsins þessa páska er; "Bregður ávexti til rótar".
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2022 | 19:58
Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar
Innan við Rakkaberg eru Hermannastekkar, nafn frá Tyrkjaráni, og er þar nú grafreitur. Það er ekki mikið meira að finna um örnefnið Hermannastekkar á alheimsnetinu, en staðurinn er við þjóðveg eitt þar sem hann liggur rétt fyrir innan Djúpavog. Við Hermannastekka er núverandi grafreitur Djúpavogsbúa, fagur og friðsæll staður. Málvenjan er Hermannastekkar ekki Hermannastekkir eins og ætla mætti.
En hvers vegna bera Hermannastekkar þetta nafn - hvaða atburður varð nákvæmlega til þess að klettarnir við grafreitinn fengu þetta nafn? Um þá atburði er getið í Tyrkjaránssögu og munnmælum m.a. í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og víðar, þó svo að sumir telji að þar beri atburðarásinni ekki saman við opinberu heimildina, sem er Tyrkjaránssaga.
Þorsteinn Helgason sagnfræðingur vildi meina í greininni Örnefni og sögur tengd við Tyrkjarán á Austurlandi, sem hann skrifaði í Gletting árið 2003, að atburðarásin, sem nafnið er dregið af, stæðist ekki skoðun. Atburðurinn hefði gerst við Berunes á norðan verðri Berufjarðarströnd þar sem var verið að hlaða stekk samkvæmt þjóðsögunni, en söguhetjan hafi verið hernuminn sunnan fjarðar á Búlandsnesi, sem er á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar, samkvæmt Tyrkjaránssögu.
Þetta ályktar Þorsteinn af munnmælasögu, sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari birti í þjóðsagna safni sínu, um bardaga Guttorms Hallssonar frá Búlandsnesi við Tyrki á Berunesi þar sem hann var sagður í heimsókn hjá móðursystur sinni (reyndar var Sigríður húsfreyja á Berunesi dóttir séra Einars á Eydölum, systir Sesselju Einarsdóttir fyrri konu Halls föður Guttorms samkv. Íslendingabók). Miðað við örnefnakortið sem Þorsteinn birti með grein sinni verður ekki betur séð en að Hermannastekkar hafi því verið að Berunesi á Berufjarðarströnd og eru þar nefndir Hermannastekkir.
Hermannastekkar eru sunnan við Berufjörð rétt austan við þar sem bærinn Búlandsnes stóð og þar er munnmælasaga til af nafngiftinni á svipuðum nótum og á Berunesi. Guttormur á að hafa varist Tyrkjum með reku og pál. Hann hefði þess vegna getað verið báðu megin fjarðar með hálftíma millibili og átt í útistöðum við sitthvorn Tyrkjaflokkinn og munnmælin þess vegna farið rétt með, því Tyrkir sendu flokka á land svo til samtímis sitthvoru megin Berufjarðar samkvæmt Tyrkjaránssögu.
Munnmælin eru á tveimur stöðum í þjóðsaganasafni Sigfúsar og greinir á öðrum staðnum frá atburðum á þann hátt að Guttormur hafi einmitt verið báðu megin fjarðar. Þannig að ekki þarf að fara á milli mála hvoru megin Berufjarðar Hermannastekkar hafa ávalt verið og hvaða atburðum nafnið tengist. Það er eins og önnur sagan hafi farið fram hjá Þorsteini Helgasyni þegar hann skrifar greinina í Gletting.
En hver var Guttormur Hallson? Hann var fæddur um 1600, sonur séra Halls Högnasonar og Sigþrúðar sem bjuggu á Kirkjubæ í Hróarstungu á Héraði. Sigþrúður er sögð seinni eða síðasta kona Halls, án þess að meira sé um hana vitað, annað en að hún var einnig nefnd Þrúður. Víst er talið að hún hafi verið móðir þeirra Guttorms og Sigríðar, -yngst 10 barna Halls.
Guttormur var nýlega farinn að búa á kristfjárjörðinni Búlandsnesi þegar Tyrkir gerðu strandhöggið við Djúpavog. Búlandsnes hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi, en hvorki ríki né kirkju. Tyrkjaránssaga segir að Guttormur hafi verið fangaður á Búlandsnesi ásamt heimilisfólki sínu en þar voru þá auk þess 6 umrenningar, enda sú kvöð á kristfjárjörðum að hýsa fátæka.
Til eru talsverðar heimildir um afdrif Guttorms m.a. vegna sendibréfa, -bréfs sem hann skrifaði úr Barbaríinu til Íslands, þar sem hann biður landsmenn um að biðja fyrir sér, og bréfs sem enskur skipstjóri skrifaði að honum látnum. En Guttormur var ásamt heimilisfólki seldur á þrælamarkaði í Algeirsborg. Smala piltur Guttorms, Jón Ásbjarnarson, var einnig seldur í þrældóm, en komst til nokkurra metorða hjá húsbónda sínum, sem var fursti í borginni. Jón fékk Guttorm, fyrr um húsbónda sinn, leystan úr ánauð og keypti fyrir hann far til Íslands með ensku skipi, lét Guttorm hafa farareyri og gull sem hann átti að færa foreldrum Jóns.
Þegar skipið var að nálgast höfn á Englandi höfðu skipverjar komist að því að Guttormur var með gullsjóð og tóku sig þá 4 saman um að ræna hann og drepa. Tveir ræningjanna náðust og voru hengdir. Skipstjórinn kom síðar bréfi til Íslands þar sem þess var getið að það sem eftir var af jarðneskum eigum Guttorms væri í Bristol á Englandi.
Sigríður systir Guttorms og Magnús, sonur séra Höskuldar Einarssonar á Eydölum, sem einnig kemur talsvert við sögu í Tyrkjaránsögu, settust að á Búlandsnesi eftir Guttorm og hans búalið. Tyrkjaránssaga greinir frá því að ræningjarnir hafi farið um Breiðdal án þess að verða verulega ágengt við mannrán og hafi hvað eftir annað týnt Eydölum. Bæði Tyrkjaránssaga og þjóðsagan segir frá því að þar komi við sögu feðgarnir, -prestarnir Einar og Höskuldur. Út af Sigríði og Magnúsi er komin stór ættbálkur íslendinga þ.m.t. síðuhöfundur.
Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9. Til eru samtímaheimildir af því sem gerðist skráðar eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti. Sennilega eru heimildirnar fyrir því sem gerðist á austfjörðum áreyðanlegar og greinagóðar vegna þess að þegar ræningjarnir komu til Vestamannaeyja, eftir að hafa verið í Berufirði, settu þeir 5 austfirðinga frá borði, skiptu þeim út fyrir Vestmannaeyinga. Tvo af þessum fimm drápu þeir í Eyjum, en ekki er ólíklegt að hinir þrír hafi farið heim og sagt sínar farir ekki sléttar. Þannig hafi sagan fljótlega borist með skólapiltum í Skálholt.
Það eru fáar heimildir eins trúverðugar og Tyrkjaránssaga. Þekkt eru nöfn fjölda fólks sem rænt var, og örlög nokkurra í þrældómi. Alls var fólkið tæplega 400 sem hernumið var frá Grindavík, nágrenni Djúpavogs og úr Vestmannaeyjum sumarið 1627. Fólkið var flutt til Marokkó og Alsír og selt þar á þrælamörkuðum. Hátt í 50 manns voru drepnir hérlendis meðan á ránunum stóð. Mörgum árum seinna náðist að safna lausnarfé til að kaupa fólk úr ánauð, talið er að innan við 50 hafi náði að snúa aftur heim til Íslands. Þektust er saga Guðríðar Símonardóttur úr Eyjum, -Tyrkja Guddu.
Uppnefni og örnefni, sem munnmæli geyma, eru oft einu upplýsingarnar sem til eru fyrir þjóðsögum er greina frá ákveðnum atburðum. Þannig heimildaleysi er ekki til að dreifa um sjálft Tyrkjaránið. Þó svo Hermannastekkar finnist einungis í munnmælunum og þjóðsögunni þá vann nafngiftin Hermanna, eðli málsins samkvæmt, sér ekki sess fyrr en eftir skráningu hinnar upphaflegu Tyrkjaránssögu á Austfjörðum.
Heimildir:
Glettingur tímarit um austfirsk málefni 1. tbl 2003
Dvergasteinn, þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi - Alda Snæbjörnsdóttir
400 ár við Voginn - Ingimar Sveinsson
Undir Búlandstindi - Eiríkur Sigurðsson
Þjójóðsögur og sagnir - Sigfús Sigfússon
Tyrkjaránið - Jón Helgason
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 16.3.2022 kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.3.2021 | 13:39
Saga sifja, spella og blóðskammar
Þó svo drekar fortíðar hafi vissulega verið lygilegri ógn en veirur nútíðar getur verið gagn af því að vita uppruna sinn, enda byggir genafræði nútímans á þeirri vitneskju. Íslendingar ku víst vera komnir af Sigurði Fáfnisbana, en Sigurður vó drekann Fáfni, sem var engin venjuleg kvefveira. Þetta gerðist á Gnitheiði sælla minninga.
Samkvæmt sifjunum var Sigurður sonur Sigmundar sem var sonur Völsungs sonar Rera er var sonur Siga sonar Óðins. Lengra er ekki vafrað í þá áttina. En Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir eignuðust Áslaugu kráku, þá er átti Ragnar loðbrók víking í Danmörku. Þeirra synir voru Ívar beinlausi víkingakonungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð, Sigurður ormur í auga og Hvítserkur.
Það er út af þeim Sigurði ormi í auga og Birni blásíðu sem Íslendingar eru sagðir komnir. En Sigurður ormur átti Blæju dóttir Ella konungs, en fornaldar Danakonungar eru komnir af Hörða-Knúti syni þeirra, sem átti svo dótturina Áslaugu en af henni var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar. Og nú erum við komnir á síður Íslendingabókar svo gramsi nú hver fyrir sig.
Ég hef semsagt verið að lesa Völsunga sögu og það ekki í fyrsta sinn. Þetta er einstök ástarsaga sem varðveitist á Íslandi, en á sér samsvörun í þeim Niflungakviðum sem þriðja ríkið gerði að sínum helgu véum. Sagan er stutt, en margþætt, og er að stærstum hluta um tvo ættliði. Sagan gerist ekki á Íslandi heldur í víða um Evrópu. Þáttur Sigurðar og Brynhildar er talin gerast í Þýskalandi og Frakklandi.
Sá hluti Sögunar sem tekur til Sigmundar, föður Sigurðar Fáfnisbana, og Völsungs afa hans á sér víðar skírskotanir landfræðilega. Þó svo að Sigmundur hafi eignast Sinfjötla sinn eftirlætis son með systur sinni Signý, þá voru það engin afdala sifjaspell. Sá ættleggur varð svo að engu við dauða Sinfjötla.
Framan af sögu höfðu þeir feðgar legið í útlegð sem varúlfar í Moldavíu, og dundað sér við að drepa menn og börn Signýjar systur sinnar og móður, auk þess að drepa mann hennar Siggeir konung, þegar þau systkinin hefndu í sameiningu Völsungs föður síns. Eftir það fór hagur Sigmundar að vænkast og fékk hann Borghildi sem konu og átti með henni synina Hámund og Helga Hundingsbana.
Þeir bræður blésu til stórorrustu, sem nú á tímum engin virðist vita hvar og hvernig fór, en í aðdraganda hennar beið Helgi þess að mikill flokkur kom til þeirra úr Héðinsey og mikið lið úr Njörvasundum með fögrum skipum og stórum. Liðsöfnuðurinn hefur því náð allt frá Svartahafi til Gíbraltarsunds og taldi tugi þúsunda manna. Bræðurnir Helgi Hundingsbani og Sinfjötli urðu sigursælir. En frú Borghildur öfundsjúk og drap Sinfjötla með eitri að Sigmundi manni sínum ásjáandi.
Án þess að nánar sé hér farið út í söguþráðinn, annað en forsögu Fáfnisbana, þá heldur hin ótrúlega saga ásta, töfra og blóðhefnda áfram. Engin virðist lengur vita nákvæmlega hvar sagan gerist eða um hvaða atburði hún fjallar. Einfaldast væri því að afgreiða hana á sama hátt og drekann Fáfni. Fræðimenn telja þó marga atburði hennar trúverðuga og hún gerist við fall keisaraveldisins í Róm. Þetta er því tímamótasaga þegar heimsmynd hverfur og ný verður til, saga aðdraganda hinna myrku miðalda. Enda verður ekki annað skynjað við lestur hennar.
Margir hafa fengið sína andargift af Völsungasögu má þar t.d. nefna Tolkien, sem talin er hafa verið innblásinn af horfnum heimi sögunnar, þegar hann skrifaði Lord of the Rings, sem varð að þekktri kvikmynd í upphafi þessarar aldar. Enn á ný bankaði ættartal Fáfnisbana upp á öldina og afþreyingariðnaðinn í sjónvarpsþáttunum Vikings árið 2013, sem fjalla um Áslaugu kráku og Ragnar loðbrók.
Og nú kunna margir að spyrja; heldur maðurinn virkilega að sagan sé sönn? En ættu mun frekar að spyrja sig; hvernig stendur á því að slíkar sögur varðveitast í ættartölu Íslendinga?
Þó svo að tímalína sögunnar sé ekki samsíða hinni opinberu mankynsögu segir það ekki neitt. Þó svo að háskólaðir fræðimenn bendi á að sagan ruglist fram og aftur í tíma, jafnvel þó að hátt í 400 ár séu á milli dótturinnar kráku og föðurins Fáfnisbana, segir það nákvæmlega ekki neitt. En sagan ásamt Ragnarssögu loðbrókar er af fræðimönnum talin gerast að mestu á tímabilinu 400 800 eftir Krist.
Í þessu sambandi mættu fleiri íhuga orð gamla bóndans á Jökuldal sem sagði að hálka væri einungis hugarástand eftir að hann hafði í þrítugasta sinn þvælst út af á svelluðum veginum, -hann hefði bara keyrt aðeins of hratt. Það er nefnilega svo að tími er sjónhverfing notaður sem mælieining til að skýra liðna atburðarás, og við það eitt verður atburðurrásin ekki staðreynd.
Eins þurfa 2 + 2 ekki að vera 4 frekar enn hverjum og einum sýnist, útkoman 4 er einungis samkomulagsatriði, -rétt eins og verðtryggðir 10. Ávalt ber því að hafa í huga að það er sigurvegarinn sem skrifaði mankynsöguna. Einmitt þetta kemur svo vel fram í sögunni hans Sigurðar, sem varð ekki sigurvegari sögunnar þrátt fyrir Fáfnis drápið.
Þó svo Völsungasaga sé sögð sú fornaldarsaga norðurlanda sem geimi meinlokur norrænnar goðafræði fjallar hún jafnframt á undarlega lygilegan hátt um óræða atburði víða í Evrópu. Því er hún af sama meiði og Íslendingasögurnar, -sagna sem segja hina óopinberu mankynssögu. Svo sem af heimsálfunni í vestri, sem mankynssagan segir að hafi ekki uppgötvast fyrr en 500 árum eftir að Íslendingar vissu af þeim heimi.
Völsungasaga segir frá heimsmynd sem tíðarandi nútímans segir að hafi ekki verið til og af atburðum sem eru sagðir aldrei hafa gerst. En Völsunga saga er sannari en mankynsagan, þegar kemur að greina frá því að það er hjartað sem ræður að endingu ævi mannanna, sama hvort um er að ræða dreka eða veirur.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2020 | 05:50
Millennium
Eins og þeir hafa orðið áskynja, sem hafa lesið langlokur þessarar síðu, þá er yfirleitt um algjöra steypu að ræða. Hrærða saman af þvælukjóa sem á það til að gefa dauðann og djöfulinn í uppskriftina. En eins og hjá flestum viti bornum verum hefur ekki ávallt verið svo, síðuhöfundur hefur haft hugmyndir a la Arnaldur.
Ég læðist stundum niður í geymslu til hnýsast í gömul blöð. Þegar ég sit þar koma upp minningar og atburðarás verður þá oft ansi hröð. Stundum kemur fyrir að ég rekst á eitthvað sem vakið hefur vonir og þrár, -innan um bók daganna. Ef tímann ég ætti þá gaman mér þætti að hverfa til baka ein tuttugu þrjátíu ár. Svona vegna andleysis aðventunnar þá set ég þessa langloku héri inn.
0 0 0 0 0
1# Bíllinn þaut eftir veginum í hljóðri miðsumarnóttinni. Upp af dökkbláum austurfjöllunum bjarmaði bleik birtan frá sólinni sem styttist í að kæmi upp yfir fjallsbrúnirnar. Það var móska yfir landinu. Dularfullir klettar, gaddavírsgirðingar og fjöll spegluðust í tjörnum og lónum sem móða steig upp af í ævintýralegri birtu. Í vegköntunum lágu kindur með lömb og rétt svo létu ferðalanginn, sem rauf næturkyrrðina, trufla sig með því að snúa jórtrandi höfðinu með yfirlætissvip í átt til bílsins um leið og hann fór hjá.
Hann var búin að vera undir stýri frá því eftir vinnu, en þá hafði hugmyndin um að yfirgefa borgina kviknað. Það var eitthvað í andrúmsloftinu þá um daginn sem hafði óvænt vakið þrána, um að komast eitthvað út í buskann, svo sterka að allt annað varða að víkja. Hann hafði ekki einu sinni gefið sér tíma til að koma við í íbúðar holunni sinni til að fara í sturtu og hrein föt. Aðeins eitt hafði komist að og það var að komast út úr borginni.
Það var ekki fyrr en eftir rúmlega klukkutíma akstur að það fór að skýrast í huga hans hvert ferðinni var heitið. Leiðin lá heim þar sem hann hafði ekki komið í rúm fjögur ár. Þegar hann yfirgaf heimkynnin var það fyrir fullt og allt. Örlögin höfðu hagað því þannig að þangað hafði hann ekkert að sækja framar. Samt var hann komin á heimaslóðirnar aftur án þess að vita til hvers. Þegar hann fór héðan var það með konu og börnum en nú var hann einn á ferð. Það var ekki laust við að það örlaði á smá viðkvæmni og tár læddust niður kinnarnar í einmanalegri ró sumarnæturinnar.
Hingað var ekkert að sækja, flestir æskufélagarnir fluttir í burtu. Þó hann væri héðan í báðar ættir og forfeðurnir hefðu alið hér manninn í aldir þá voru flest ættmenni, sem hann hafði haft samskipti við meðan hann bjó hér, annað hvort flutt á brott eða horfin til annarra heima. Foreldrarnir báðir fluttir á vit forfeðranna, móðir hans fyrir fjölda ára langt fyrir aldur fram, faðir hans fyrir fimm árum. Þau voru fjögur systkinin. Tvær yngri systur höfðu báðar farið suður til náms á unglingsárunum og ekki komið aftur, áttu sínar fjölskyldur í borginni.
Svo var það bölvaður minkurinn hann Beggi bróðir, sem var tveimur árum eldri, hann var sá eini af þeim sem ennþá bjó í þorpinu, en þann náunga hafði hann ekki nokkurn áhuga á að hitta. Þau systkinin höfðu ekki hist eða haldið sambandi eftir að faðir þeirra dó. Það var helst að örlaði á smá áhuga hjá honum á að hitta Siggu frænku, móður systur sína. Hún var eina mannveran í þorpinu sem hann hafði haldið sambandi við síðan hann fór, þeir Jonni sonur hennar höfðu verið jafnaldrar og miklir félagar frá því að hann mundi fyrst eftir sér og aldrei borið skugga á þeirra vináttu.
Hér hafði þróunin gengi yfir eins og víða annarsstaðar á landsbyggðinni. Þegar farið var að markaðsvæða rekstur, eins og það var kallað, þá stóð hann ekki lengur undir sér og þeir sem eitthvað kvað að létu sig hverfa. Þar fyrri utan var fólki svo þröngt skorinn stakkur félags- og menningarlega að ekki var búandi við það þegar litið er til þeirra krafna sem nútíminn útheimtir. Það hafði svo sem margt verið reynt. Opinberu fé kastað í elliheimili, heilsugæslustöð, skóla og íþróttamannvirki, en það samt ekki dugað til að halda íbúunum.
Enda voru þeir sem stjórnuðu sveitarsjóði svo sem engir atgerfis menn, mestmegnis aðfluttir kennarar og uppgjafa iðnaðarmenn, flestir á launaskrá hjá sveitarfélaginu. Lengi höfðu stöndug fjármálafyrirtæki líkt og banki, tryggingar- og olíufélag reynt að koma að atvinnulífinu með því að dæla fé í formi lána og hlutafjár inn í fiskvinnslu og útgerðafyrirtæki staðarins, en allt kom fyrir ekki. Jafnvel eftir að Sambandið leið undir lok höfðu öflug fyrirtæki haldið áfram að aðstoða heimamenn við reksturinn með sífelldum skuldajöfnunum í formi hlutafjárkaupa og senda Samvinnuskólagengna atgerfismenn til að stjórna, því fór sem fór.
Það reyndist ekki hagkvæmt að halda útgerðinni áfram nema sameina hana annarri stærri útgerð sem sá sér ekki fært að halda henni gangandi nema sameina veiðiheimildir á sín skip. Það lýsir kannski best um hverskonar krummaskuð var að ræða þegar Olíufélagið, sem var allt að vilja gert, náði ekki að halda úti annarri bensín- og olíuafgreiðslu á staðnum en sjálfsafgreiðslu og það með tapi. Bankinn hafði viðtalstíma eftir hádegi tvisvar í viku auk hraðbankakassa í sjoppunni.
Þessi þróun hafði tekið tiltölulega stuttan tíma. Sem sjómaður hér hafði hann ekki farið varhluta af henni frekar en aðrir. Þegar útgerðin var sameinuð stórútgerðinni liðu aðeins tveir mánuðir þar til nýir eigendur sáu hagkvæmnina í að flytja veiðiheimildirnar yfir á sín skip í fjarlægu byggðarlagi. Togarinn sem hann hafði verið á var seldur en með því skilyrði að áhöfnin héldi plássinu, ókosturinn var sá að kaupandinn og nýja heimahöfnin var hinu megin á landinu.
Það var því undir hverjum og einum áhafnarmeðlimi komið að koma sér heim. Í þrjátíu tíma landlegu þýddi það nokkurra tíma stopp heima ef ferðalagið gekk áfallalaust. Þetta reyndist flestum fjölskyldumönnum ofviða og ekki leið á löngu þar til öll áhöfnin var hætt. Sumir, þar á meðal hann, réðu sig í lakara pláss á línubát sem átti heimahöfn í viðráðanlegri fjarlægð.
Það var samt ekki beinlínis neitt af þessu sem hafði ráðið úrslitum um það að hann flutti fyrir rúmum fjórum árum. Þar hafði ýmislegt komið til. Tvö eldri börnin voru komin á unglingsaldur og það styttist í að kæmi að því að þau þyrftu að yfirgefa heimaslóðirnar til að komast í framhaldsnám. Hann hafði haft lítið af uppeldi barnanna að segja, mest allt árið á togaranum úti á sjó til að afla heimilinu tekna. Konan hafði séð um uppeldið. Hann hafði í huganum séð að í fyllingu tímans myndi mikil vinna með góðum tekjum leiða til þess að hann hefði betra tækifæri á að njóta samvista við fjölskylduna og vinna upp samverumissinn. Þá yrðu þau búin að eignast húsið og daglaunavinna í frystihúsinu dygði til framfærslu.
Svo var allt í einu komið að því að aðeins tvö og þrjú ár voru í að þau eldri færu að heiman til náms. Hann í þeirri aðstöðu að þurfa að vera meira að heiman en nokkru sinni áður til að afla heimilinu tekna og ekki veitti af sitt myndi það kosta að koma börnunum til mennta. Það var fyrst þá sem hugmyndin kviknaði um að kannski væri rétt að flytja á annan stað sem hefði það að bjóða sem vantaði hér, möguleika á námi, vinnu og samvistum við fjölskylduna. Hann myndi með því kannski eitthvað hafa með uppeldi þeirrar yngstu að gera og geta verið til staðar fyrir þau eldri.
Æsku vinur hans og klefafélagi öll árin á togaranum, Jonni Siggu frænku, hafði tekið sig upp og flutt suður ásamt sinni fjölskyldu þegar togarinn fór, eftir það varð þessi hugmynd ágengari. Svo var það eftir að faðir hans dó að málin æxluðust þannig að hann gat ekki hugsað sér að búa lengur í sama bæjarfélagi og bölvaður minkurinn hann Beggi bróðir.
Nú var stutt eftir og tími til kominn að teygja úr sér eftir samfelldan sex tíma akstur. Hann ákvað að stoppa á nesinu gegnt þorpinu sem kúrði á eyrinni hinu megin við fjörðinn, svo spegilsléttan að þegar hann var kominn niður að fjöruborðinu reyndist honum erfitt að átta sig á hvað sneri upp og hvað niður, enda slæptur eftir langa vöku. Þegar hann horfði út fjörðinn, í blíða logninu, runnu fjörður, himinn og haf í eitt, enginn sjóndeildarhringur greinilegur og einmitt hérna á þessum stað hafði honum í bernsku fundist möguleikarnir óendanlegir.
Hann tekur upp stein og beygir sig niður í fjöruborðið, eldsnöggt út á hlið og sveiflar handleggnum, blibbbsss, blibbbsss, blibbs, steinninn þýtur eftir haffletinum og fleytir kellingar. Upp í hugann kemur minning úr bernsku, þegar hann lærði fyrst að fleyta kellingar. Þá var hann hinu megin við fjörðinn með föður sínum sem kenndi honum tæknina og það að steinninn þurfti að vera flatur. Grundvallaratriðin voru fljót að lærast, svo kom það með æfingu og reynslu hvaða aðstæður þyrftu að vera til staðar.
Vaaaáá maður tólf kerlingar.
Hann tók upp annan stein sem þeyttist efir yfirborðinu lengst fyrstu tvö skiptin en svo styttra og styttra og sekkur í áttunda sinn. Svona hafði það líka verið með væntingarnar og draumana í þessum firði. Stærstir og lofuðu mestu til að byrja með en urðu styttri og styttri uns; blibs, blibs, þeir sukku eins og steinninn.
2# Hann hafði ekkert hugsað út í hvert hann væri að fara þegar hann kom inn í þorpið kl. þrjú að nóttu. Svo hafði hann keyrt heim að húsinu hennar Dúddu en hún var systir föður hans og hafði hvatt þennan heim fyrir nokkrum árum.
Húsið hennar Dúddu hafði í raun verið heimili afa hans og ömmu þegar hann mundi fyrst eftir sér, en Dúdda dagaði uppi í foreldrahúsum og bjó þar eftir þeirra daga. Hún hafði alltaf verið svolítið skrýtin og var honum og systkinunum sagt það koma til af því að hún hefði verið yfir sig ástfangin af ungum aðkomumanni sem hafði drukknað til sjós.
Það sem gerði Dúddu skrýtna var að hún átti það til að vera á náttslopp heilu dagana með rúllur í hárinu keðjureykjandi Viceroy og hélt þá yfirleitt vinstri hendi undir hægri olnboga og hallaði undir flatt, var símalandi með sígarettuna á milli fingra hægri handar og pírði augun í gegnum reykinn. Flestar sígaretturnar bara brunnu upp, það voru kannski tveir eða þrír smókar sem fóru ofaní Dúddu. Þegar við urðum eldri þá áttuðum við okkur á því að þegar Dúdda var á sloppnum þá var það ekki bara Viceroy sem hún keðjureykti, heldur læddist eitt og eitt vín glas ofaní hana að auki. Það var sennilega ástæðan fyrir því að hún gleymdi að klæða sig og taka rúllurnar úr hárinu.
Hann og systkinin höfðu oft komið með móður sinni í þetta hús til að heimsæk gömlu hjónin, afa og ömmu. Þessar heimsóknir voru árvissar um jól og páska svo voru yfirleitt tveir sunnudags seinnipartar sumar og vetur. Þegar þessar heimsóknir áttu sér stað hitti svo á að Dúdda var aldrei á sloppnum né með rúllur í hárinu og það litla sem hún reykti var gert snaggaralega að vel athuguðu máli þannig að sem minnst af sígarettunni færi til spillis. Það var eitthvað sem lá ósagt í loftinu sérstaklega á milli móður hans og gömlu hjónanna, milli móður hans og Dúddu ríkti hins vegar nokkurskonar ógnarjafnvægi. Í þessum heimsóknum var ekki frjálslega rabbað um daginn og veginn, heldur var eins og hver setning væri sögð af vandlega yfirlögðu ráði.
Það var fastur liður þegar fór að líða á þessar heimsóknir, að Dúdda færi með systkinin í þann hluta hússins sem hún hafði til umráða. Þar voru tvö samliggjandi herbergi undir súð á efri hæðinni. Þá tók hún fram skrautlegar skálar, opnaði dós með niðursoðnum apríkósum og skar niður núgatís. Þessar dásemdir, sem alltaf voru þær sömu, voru borðaðar með bestu list þar til hvítt ís makið var komið út á kinnar og apríkósu safinn lak niður hökuna, nema hjá Begga bróðir, hann var elstur og kannski þess vegna snyrtilegastur við ísátið.
Svo var það líka það að honum þótti núgat svo vondur að hann þurfti að vanda sig sérstaklega við að borða ísinn og þegar hann fann núgat bita upp í sér stoppaði hann átið og sætti lagi með að spýta honum út úr sér bak við rúmið hennar Dúddu þegar hún sá ekki til. Það var yfirleitt eins og þungu fargi væri létt af móður hans eftir þessar heimsóknir. Hún lagði ríkt á við þau systkinin að vera ekki að sniglast þarna og alls ekki þiggja góðgerðir af Dúddu nema í heimsóknum með henni.
Faðir þeirra kom ekki með í þessar heimsóknir nema um jól, það var stirt á milli þeirra feðganna. Hann hafði heyrt það um tvítugt frá öðrum en foreldrunum að þessi stirðleiki í samskiptum ætti sér sennilega ástæðu. Föðurforeldrarnir hans höfðu búið á jörðinni Eyri fyrir botni fjarðarins, þar höfðu foreldrar hans hafið sinn búskap. Síðan gerðist það að Friðbjörn elsti bróðir föður hans flytur með sína fjölskyldu heim að Eyri, en hann hafði búið í borginni mörg ár eftir að hafa farið að heiman sem ungur maður. Upp úr því flytja foreldrar hans í þorpið, þar sem faðir hans stundaði sjó og þá vinnu sem bauðst hjá öðrum uns hann festi kaup á Bárunni, 3. tonna trillu. Stuttu síðar fluttu föðurforeldrarnir ásamt Dúddu í þorpið og bjuggu þar síðustu æviárin. Eftir daga Dúddu hafði þetta hús orðið athvarf þeirra sem tilheyrðu ættinni og komu til að dvelja í skemmri tíma.
Hann vissi ekki hvort það var þess vegna sem hann stoppaði við húsið. Það virtust engir gestir vera í því núna. Hann fór inn í garðinn sunnan við húsið þar sem þrestirnir voru byrjaðir að syngja drottni til dýrðar og sólin farin að senda mistraða geisla yfir fjallsbrúnirnar. Hátt gras var í garðinum, sem var að mestu orðinn njóla órækt, það hátt að þegar hann settist hvarf hann nánast, síðan lagðist hann út af og horfði upp í bláan himininn, sem hafði verið svo miklu blárri á bernsku árunum.
Þennan garð hafði verið farið með eins og heilagt land á meðan Dúdda réði ríkjum, grasflötin slegin reglulega, sumarblóm í beðum og þess vandlega gætt að ekki væri verið með fótbolta og fíflagang innan girðingar. Reynitrén voru ennþá á sínum stað, há og mikil, en einhvern veginn höfðu þau verið ræktarlegri áður, allavega var laufið þéttara í minningunni.
Hann, Beggi bróðir og Jonni Siggu frænku höfðu stundum komið í garðinn í óleifi. Í eitt skiptið höfðu þeir rekist á köttinn hennar Dúddu og ákveðið að ganga úr skugga um það hvort rétt væri að kettir kæmu alltaf niður á fæturna, sama úr hvaða hæð þeir féllu. Beggi og Jonni tóku köttinn á milli sín og köstuðu honum eins hátt upp í loftið og þeir gátu, nema hvað kötturinn fór upp á milli gereinanna á reynitrénu og kom síðan ekki niður.
Eftir svolitla stund var ákveðið að Beggi bróðir klifraði upp í tréð til að leita að kisa, en það var mikið áhættu atriði, ekki vegna trésins heldur vegna Dúddu. Það dró samt úr óttanum að hafa séð Dúddu á sloppnum rétt fyrir hádegið. Beggi bróðir kom grafalvarlegur niður úr trénu og sagði að kötturinn héngi á hausnum milli greina og væri sennilega dauður og það sem verra væri að hann kæmist ekki að honum.
Það var átakanlegt að fylgjast með Dúddu á kvöldin næstu vikuna, ranglandi um garðinn á sloppnum með höndina undir olnboganum og Viceroy sígarettuna rjúkandi á milli fingranna, umla þvoglumælt kliss, klis. Þeir höfðu sig ekki í að segja Dúddu að kisi hennar væri á vísum stað, rétt yfir höfðinu á henni, en að því komst hún að þegar laufið féll af reynitrjánum um haustið.
Það sótti að honum einhver svefn höfgi þar sem hann lá í háu grasinu. Það var eitthvað við svona hátt gras sem minnti bæði á búsæld og auðn. Hann lét hugann reika fimm ár aftur, en þá hafði hann farið inn í fjörð ásmat syni sínum með veiðistöng. Þeir höfðu farið inn að Eyri og rennt í Eyrarána. Þetta var á hásumardegi eins og þeir gerast bestir. Sólskinið og hlý golan bylgjuðu grasið og gerðu sjóinn kóngabláan. Þá hafði hann gefið sér tíma til að setjast í hátt grasið og virða fyrir sér umhverfið.
Það var þá sem rann upp fyrir honum að eitthvað var bogið við ásýndina. Grasið var orðið hátt og því sem næst úr sér vaxið, engin hreyfing heima við Eyrarbæinn og kyrrðin algjör. Svona var þetta líka á næstu bæjum, Grund og Strönd. Það var þá sem rann upp fyrir honum að Friðbjörn á Eyri hafði selt búmarkið haustið áður og ætlaði að búa hjá börnunum sínum í borginni um veturinn. Síðan hafði hann heyrt ávæning af því að einhver lögfræðingur væri að hugsa um að kaupa Eyri og nota sem sumarbústað auk þess að fá góða silungsveiðiá í kaupbæti.
Grund og Strönd höfðu farið úr ábúð ári fyrr. Hann hafði alltaf verið svo upptekin við sjóinn og eigin hugðarefni þegar hann var í landi að hann hafði ekki veitt þessu eftirtekt fyrr, en þarna hafði hann fyllst einhverjum trega þegar hann leit heim að bæjunum með háu grasi allt í kring, hvorki heyskapur né þvottur á snúrum í blússandi þurrki. Engin hundgá né nokkur hreyfing bara kyrrð og grafar þögn.
Hvaða drunur voru þetta? -Hann áttaði sig fljótlega á að hann hafði sofnað og það sem honum heyrðist vera drunur var frá bíl sem ók eftir aðalgötunni niður á bryggju. Hlýr vindurinn þaut í háu grasinu og sólin skein í tæru morgunnloftinu, klukkan var orðin rúmlega sjö. Hann lá um stund en settist svo upp, golan hvíslaði í laufi reynitrjánna, þetta var nú meiri dásemdin.
Hvar skyldu rætur manns liggja? -Ætli þær séu þar sem draumarnir fæddust og augnabliksstemmingin hafði mest áhrif á sálina?
Eða ætli þær séu á þeim stað sem maður slítur barnskónum?
Hvenær skildi vera hásumar mannsævinnar? -Ætli það sé þegar laufið þýtur í trjánum yfir höfði? -þeirra trjáa sem gróðursett voru þegar kappið og væntingarnar voru mestar?
Hann var þá staddur á þeim slóðum þennan hlýja morgunn.
Þetta var þorpið sem hann fæddist í, hér ólst hann upp og hér hafði hann lengst af séð fyrir sér að lifa ævina. Hann hafði byggt hús yfir fjölskylduna héðan skammt frá upp í hæðinni. Þar hafði ekkert verið til sparað því konan skyldi fá fallegt og gott heimili, sem stæðist hvaða samanburð sem væri. Ómæld vinna og fjarvera á sjónum, þar sem hver aukatúr sem hægt var að komast í hátt í tvo áratugi, varð gjaldið.
Húsið var flott með snyrtilegum garði og mikið hafði honum hlakkað til þegar reynitrén tvö sem hann hafði gróðursett með fjögurra metra millibili yrðu orðin það stór að hann gæti fest hengirúm á milli þeirra. Bílastæðið var hellulagt og körfuboltaspjaldið fyrir strákinn á sínum stað fyrir ofan bílskúrsdyrnar. Í bakgarðinum hafði hann smíðað lítið gullabú, hús fyrir dæturnar í sama stíl og húsið. Þetta hafði kostað mikla orku og alla fjármuni sem ekki fóru í heimilishaldið, -og tókst án þess að stofna til mikilla skulda. Enda voru hann og konan yfirleitt samtaka um hvernig staðið væri að hlutunum.
Þegar hann kom í þorpið um nóttina þurfti hann að keyra fram hjá húsinu en hafði ekki með nokkru móti fengið sig til að líta í áttina að því, það myndaðist einhver kökkur í hálsinum og hann hafði fundið til magnvana reiði. Það hafði verið verulega erfitt fyrir konuna og börnin að yfirgefa þetta heimili þeirra á sínum tíma, en þá hafði hann útilokað allan söknuð og tilfinningar í þeim önnum sem fylgdu flutningunum.
0 0 0 0 0
Já, -ég var að gramsa eftir dagbók sem ég hélt í landinu helga yfir nokkurra vikna tímabil fyrir ca. 23 árum síðan. Þar fann ég óvænt þessa tvo kafla hér að ofan, útstrikaða til leiðréttingar. Þá hafði ég hamrað inn á heimilistölvuna fyrir u.þ.b. 18 árum síðan, ásamt 8 9 öðrum. Þetta átti að verða sólahrings sakamálasaga og ef ég man rétt þá var hún með tvennskonar endi, öðrum fyrirsjáanlegum samkvæmt söguþræðinum með margboðuðu morði, hinum óvæntum.
Þess er skemmst að geta að heimilistölvan gaf upp öndina og þegar farið var í að lappa upp á hana varð niðurstaðan sú að setja í hana nýtt stýrikerfi, en hún var með stýrikerfi sem kallaðist Windows Millennium og þótti þá ekki orðið merkilegt. Það vildi svo slysalega til að það gleymdist að gagnabjarga og þar með glataðist allt sem var í Millennium, -kannski sem betur fer fyrir mig, -en tjónið var tilfinnanlegt fyrir börnin okkar sem deildu sömu tölvu. En óvænt fann ég nú ofangreinda kafla, sem eru það eina sem ég á úr millennium, ásamt handskrifuðu dagbókinni frá því í landinu helga sem ég var leita að.
Ég gerði ekkert í að reyna að skrifa þessa sakamálasögu aftur þó svo að ég hafi munað þráðinn. Enda bjóst ég við að betur ritfærir menn myndu gera sér efnivið í skáldsögu og geta þess skilmerkilega bæði í gamni og alvöru hvernig lífsviðurværið var haft af fjölda fólks með lögum. Ég er og hef alltaf verið steypukall og á því er engin kvóti. Til að fá einhvern botn í þessa steypu þá verð ég að bæta í langlokuna sögu frá því 3 árum fyrr.
Um síðustu aldamót upplifði ég stór tímamót. Það Ísland sem ég þekkti var horfið og fiskimiðin endanlega komin á markað, breytingarnar tóku aðeins örfá ár. Síðasta árið sem ég bjó á staðnum, sem átti að verða mitt heima í þessu lífi, dundaði ég mér við að mála myndir. Einn daginn kom til mín vinkona, sem vann í fiski, með smásagnabók eftir Selmu Lagerlöf og bað mig um að mála mynd eftir einni sögunni í bókinni. Henni langaði svo mikið til að vita hvaða mynd ég læsi út úr sögunni. Ég varð við þessari bón og máliði mynd fyrir hana og lét hugleiðingu fylgja um hvað ég sæi við lestur sögunnar.
Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu.
Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.
Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig.
Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.
Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða. Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2020 | 13:37
Ævisaga draugs
Það hafa verið vaktir upp magnaðir draugar frá ómunatíð. Því má allt eins segja að daglegt líf fólks helgist af draugagangi. Síðustu misserin hefur það verið covid-19, 2008 fjármálahrunið, 2001 hryðjuverkastríðið, stríðið gegn fíkniefnum seint á síðustu öld, kalda stríðið og þannig má rekja draugaganginn í grófum dráttum allt aftur til staðbundinna skotta og móra þjóðtrúarinnar.
Af því að ég er orðin svo hundleiður á kóvítis-kjaftæðinu þá hef ég undanfarið lagst í að lesa gamlar draugasögur. Ég lét mig meir að segja hafa það að fara á bókasafnið og verða mér úti um lítt þekkta ævisögu draugs, skráða af Halldóri Péturssyni. En sá draugur á að hafa verið ættarfylgja hans öldum saman.
Í fágætlega fróðlegum formála bókarinnar segir Halldór m.a.:
Það er athugavert að um miðja átjándu öld fara Austfirðingar að setja drauga í samband við vísindi og kom læknisfræði þar til. Lítið var um lækna, en lærðir menn, sem aðallega voru prestar og sýslumenn, fóru að hafa meðul með höndum til að liðsinna fólki. Fólkið vissi að draugar voru staðreynd, en trúin á að þeir væru vaktir upp snerist á þá sveif, að þá mætti framleiða úr meðulum.
Halldór segir á öðrum stað í formála:
Ég hef oft ekki getað varist þeirri hugsun, hvort það væru ekki í raun og veru draugar sem stjórnuðu heiminum. Kannski eru draugar og aðrar sviðverur á þeirri bylgjulengd ekkert annað en baráttan á milli ljóss og myrkurs, sem staðið hefur frá örófi alda.
Og í formálanum spyr Halldór:
Gæti það átt sér stað, að heilar þjóðir og jafnvel heilar heimsálfur mögnuðu af haturshug öfl eða drauga, sem hin svokallaða tæknimenning hefur ekki taumhald á?
Undir lok formálans kemur hann inn á þetta:
Hver veit nema harðlæst hlið hrökkvi upp, áður en langt um líður og þá verði því auðsvarað, hvers eðlis draugar eru og einnig því, hvort fyrirbæri andatrúarmanna eigi rót sína að rekja í framhaldslífi. Hér liggja margir þræðir út í óvissuna, en leitin að lögmálinu er það eina, sem leysir gátuna. Við skulum hugsa okkur, að fyrir tíu árum hafi einhver, sem við þekkjum, átt segulþráð og sjónvarp, án þess að við hefðum haft hugmynd um slíkt. Hann hefði neytt þessarar tækni og boðið okkur einn góðan veðurdag á andafund við dauft ljós. Þar hefðum við bæði heyrt og séð dána menn sem við nauðþekktum. Það þarf ekki að efa hvað við hefðum haldið þá.
Hún er athyglisverð samlíking Halldórs við draugagang á ljósvakamiðlum s.s. í sjónvarpi, því bókin er frá árinu 1962, fyrir daga íslensks sjónvarps, þó svo að Halldór hafi greinilega þá þekkt til sjónvarps.
Nú til dags eru okkur færður draugagangur í gegnum fjölmiðla s.s. í sjónvarpi og snjallsíma. Við trúum á draugana þó svo að við höfum aldrei séð þá, aldrei upplifað á eigin skinni djöfulgang þeirra og jafnvel þekkjum engan sem það hefur gert. En við trúum á frásagnirnar og sjónhverfingarnar svo framarlega sem þær eru rétt framreiddar af medíunni í gegnum fréttatímana.
Þjóðsagna ritarinn Sigfús Sigfússon segir svo um þá ættarfylgju Halldórs Péturssonar sem hann sá ástæðu til að rita um ævisögu 1962.
Hann var miklu líkari manndjöfli. Þykir þeim eiga best við hann orð skáldsins: Allir sáu þann illa gest, / óskyggnir sem hinir. Hefur mörgum þótt að hann mundi frægasti kappi eða svo sem höfðingi drauganna því af honum munu einna mestar sagnir allra drauga og vart mun annar nafni hans þótt honum skæðari. Segja menn honum skapaðan aldur í 300 ár. Fyrsta öldin framfaraskeið, önnur viðhaldskeið, þriðja afturfaraskeið. Honum var áskapað að drepa eigi færri en sjö menn, segja sumir, aðrir segja þrjá á mannsaldri og átti hann að yngja sig með því. Í uppsveitum hefur hann oftast verið kallaður Eyjasels-Móri. En í Útmannasveit er hann jafnan kallaður Hóls-Móri. (Þjóðsögur SS,II bindi bls261)
Ég hef sem sagt verið að kynna mér ævisögu Eyjasels-Móra. Sagt hefur verið, nú á tímum, að Eyjasels-Móri hafi verið fyrsta glasabarnið. Sagnirnar af Eyjasels-Móra eru einungis í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar, nema ein, sem er frá 20. öldinni, í þjóðsagnasafninu Skruddu, og þær sem Halldór tilgreinir í ævisögunni frá sínum tíma. Sögurnar af Móra væru sennilega flestar glataðar hefði Sigfús ekki safnað þeim saman.
Halldór Pétursson var 20. aldar maður og tekur það sérstaklega fram í formála að hann trúi ekki á drauga. En Eyjasels-Móri þótti fylgja Halldóri á yngri árum og boða komu hans með djöfulgangi. Þó svo Halldór hafi ekki trúað á drauga þá lætur hann það sem aðrir sögðu um hvernig hann sjálfur sækti að fylgja í ævisögu Eyjasels-Móra ásamt því sem Sigfús skráði, auk þess litla sem hann hafði heyrt sitt fólk tala um Móra.
Í grófum dráttum er sagan af tilurð Móra sú að um aldamótin 1800 flytur Hálfdan Hjörleifsson ásamt konu sinni og börnum frá Eyjaseli í Ketilstaði í Jökulsárhlíð, en Eyjasel var afbýli frá Ketilsstöðum. Faðir Hálfdans hafði búið á Ketilsstöðum en var fallin frá og Hálfdan tók við búi á Ketilsstöðum þar sem þeim hjónum búnaðist vel og voru talin til meiriháttar bændafólks.
Á Ketilstöðum bjó einnig fólk Hálfdáns og Guðlaugar Einarsdóttur konu hans, m.a. Ingibjörg systir Hálfdans vinsæl ung og myndarleg kona. Ingibjörg hafði farið 22 ára gömul til starfa í Hallgeirsstaði í sömu sveit til Brynjólfs Péturssonar læknis, sem þá var miðaldra ekkjumaður.
Brynjólfur á að hafa farið á fjörurnar við Ingibjörgu, en í stuttu máli fór sú fjöruferð svo að Ingibjörg forðaði sér hið snarasta heim í Ketilsstaði. Er hún kom heim veiktist hún hastarlega innvortis og voru meðul fengin hjá Brynjólfi. Þegar Ingibjörg hafði tekið meðalið varð hún vitskert.
Aftur var leitað á náðir Brynjólfs með meðal til að lækna geðveikina. Þegar komið var með það meðalaglas frá Hallgeirsstöðum út í Ketilsstaði og það opnað steig upp úr því gufa sem fólki sýndist þéttast í mórauðan strák með skörðóttan barðastóran hatt og upp frá því hófst djöfulgangur sem á sér enga líka.
Skepnur á Ketilsstöðum voru drepnar umvörpum á hroðalegan hátt, húsum riðið og þau brotin niður dag og nótt. Þóra, dóttir Hálfdans og Guðlaugar, fannst kyrkt í fjósinu sem var undir baðstofunni þegar fólk kom að eftir að hafa heyrt ópin í henni upp í baðstofu. En Þóra hafði farið niður í fjós til að hafa næði við að lesa í kverinu það sem hún þurfti að kunna fyrir fermingu.
Til er Lýsing manns í safni Sigfúsar, sem kom í Ketilsstaði um þetta leiti, en þá hafði öllu sauðfé verið sleppt og það rekið frá húsum svo það slippi frekar við misþyrmingar Móra sem kvaldi lífið úr blessuðum skepnunum með hlátrarsköllum:
Árni Scheving, greindur maður og skilagóður, bjó í Húsey í Hróarstungu. Hann kom að Ketilsstöðum og segir svo frá, að aldrei hafi hann getað hugsað sér slíka aðkomu á einum bæ. Fólkið lá flest í rúminu, og engin hlutur virtist á sínum stað. Útihús skæld, brotin og sliguð, hurðarbrot, raftar, árefti og tróð úti um öll tún. Bæjarhús einnig mjög illa farin og engin hurð á járnum.
Leitað var til skyggns og fjölfróðs manns úr Vopnafirði ef vera kynni að hægt væri að hemja Móra. Sá taldi best fyrir Hálfdan og hans fólk að yfirgefa Ketilsstaði og flytja hið minnsta yfir þrjú stórfljót til að losna við óværuna.
Ævi Ingibjargar, þeirrar sem Móri var upphaflega sendur í meðali, varð ekki björt. Hún fluttist í Vopnafjörð og sneri aldrei aftur í sína heima sveit. Þó svo að hún næði sér að nokkru átti þessi myndar kona ekki sjö dagana sæla, varð hálfgerður niðursetningur. Lítið er um ævi hennar vitað en vitnisburður í húsvitjunarbók segir Halldór vera svo ruddalegan og lítilsvirðandi að hann hefur hann ekki eftir, nema veik á geði, geðveikluð.
Hálfdan leitaði jarðnæðis fyrir sitt fólk og fékk ábúð á Hóli í Hjaltastaðaþinghá, en þangað var einungis yfir tvö stórfljót að fara, Jöklu og Lagarfljót, engin jörð var á lausu austan Selfljóts. Talið er að ef Hálfdan hefði fengið jarðnæði austan Selfljóts þá hefði hann losnað við Móra fyrir fullt og allt.
Á Hóli lét Móri Hálfdan í friði, þó svo að fólk í Hjaltastaðaþinghá yrði vart við hann þegar Hálfdan og hans fólk var á ferð. Móri hélt sig eftir flutning Hálfdans að mestu í Eyjaseli hjá Jóni bróðir hans. Einar sonur Hálfdans bjó eftir föður sinn á Hóli og gilti það sama um hann og föður hans, Móri var spakur á Hóli en verri í Eyjaseli.
Sá sonur Einars sem tók við á Hóli eftir föður sinn hét Hálfdan og var eins og forfeðurnir atgerfismaður, hraustur og vinsæll. Fólkið á Hól vissi alltaf af nærveru Móra en leiddi hann hjá sér og fékk frið fyrir honum. En Hálfdan gat ekki stillt sig um að espa hann á sig enda var hann það hraustur að hann hafði lengi vel í fullu tré við Móra.
Hálfdan kvæntist skörulegri konu sem hét Sigurbjörg en hún var ekki jafn vinsæl og hann meðal sveitunganna. Smá saman fór Hálfdan að fara halloka fyrir Móra auk þess að gerast drykkfelldur. Þau hjónin misstu öll börnin sín 5 úr barnaveiki á tæplega tveggja mánaða tímabili sumarið 1861.
Seint í nóvember veturinn eftir fór Hálfdan inn að Ekru til að fá yfirsetukonu því Sigurbjörg átti von á barni. Veðurútlit var ekki gott og varð úr að Hálfdan lagði einn á stað út í Hól. Hann kom við á bæjum á leiðinni bæði Dratthalastöðum og Víðastöðum. Þá bjó á Víðastöðum Jón Þórarinsson sem áður hafði verið vinnumaður hjá Hálfdan á Hóli.
Hálfdan var eitthvað við vín og muldraði við Móra. Jón bauð honum að gista á Víðastöðum því það var komið kvöld og veðrið versnandi. Það vildi Hálfdan ekki, hann vildi komast heim í Hól til Sigurbjargar sinnar, enda ekki svo langt á milli bæja. Jón fylgdi Hálfdani hálfa leið og sneri svo heim í Víðastaði.
Jón sagði að Hálfdan hefði verið afleitur í umgengni, hvað eftir annað hefði hann þurft að fljúgast á við hann. Veðrið var vont þessa nótt og mikið gekk á húsum í Hól, Sigurbjörg er sögð hafa vitað að nú væri hinsta stund Hálfdans upp runninn og Móri ætti þar sök á. Aðrir héldu að Hálfdan hlyti að hafa gist inn á bæjum veðursins vegna.
Þegar veðrið gekk niður var maður sendur inn á bæi til að vitja um Hálfdan. En hann fannst fljótlega andaður af helsári illa útleikinn í rifnum og tættum fötum, rétt innan við Hól úti á ísnum á Lagarfljótinu í bugtinni þar sem það beygir út með Hólsbæjunum.
Það mátti sjá af sporum í snjónum hvar þeir Jón höfðu skilist að og eins að þeir höfðu slegist á leiðinni frá Víðastöðum þar til þeir skildu. En ekki var hægt að átta sig á af hvaða völdum Hálfdan var rifinn og fatalaus þar sem hann fannst, ekki þótti ástæða til að ætla að Jón á Víðastöðum ætti sök á dauða hans.
Sigurbjörg kona Hálfdans fæddi fljótlega barnið, sem var stúlka, skírð Hálfdanía Petra Katrín Ingibjörg Ragnhildur. Eftir þetta fylgdi Móri þeim mæðgum eins og skugginn og gerði Háfdaníu oft sturlaða af ótta. Sigurbjörg á að hafa sagt að Móri myndi sennilega drepa Hálfdaníu en ekki fyrr en eftir sinn dag.
Halfdanía var um þrítugt þegar Sigurbjörg dó, þá voru þær mæðgur staddar á Sleðbrjót í Hlíð. Skömmu síðar trúlofaðist hún og fluttist með mannsefni sínum að Birnufelli í Fellum. Ófögnuðurinn fylgdi henni og hún lagðist fljótlega í rúmið þar sem vakað var yfir henni dag og nótt. Svo virtist henni létta og brá þá maður hennar sér frá, en þá hljóðaði hún hátt og þegar hlaupið var til hennar reyndist hún öreind og var sagt að hún bæri öll merki þess að hafa verið kyrkt.
Sögurnar af Eyjaseld-Móra og örlögum ættarinnar er samfelld harmasaga í 100 ár og hér hefur aðeins verið stiklað á stöku atburðum sem tengjast Hálfdans nafninu án þess að segja sögurnar sjálfar. Til að fá smá yfirsýn yfir draugaganginn fyrstu hundraða árin eru sagnirnar í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar.
Á 20. öldinni rekur svo Halldór Pétursson sagnir af Eyjasels-Móra í ævisögu hans, en Móri var eins og kom fram hjá Sigfúsi magnaðastur fyrstu 100 árin, næstu 100 viðhélt hann sér og það má segja að Halldór taki til þess tíma og segi m.a. söguna af því hvernig að hann fylgdi honum sjálfum, og bróður hans til Danmerkur.
Enn eru, samkvæmt 300 ára uppkrift Eyjasels-Móra, um 80 ár eftir af líftíma hans og forvitnilegt væri að vita hvort einhverjir kannist við kauða í nútímanum. Annars kemur Halldór inn á það í ævisögu Móra að hans fólk hafi aldrei viljað minnast á drauginn og hafi talið besta ráðið til að losna við hann að þegja hann í hel eins og virðist hafa lukkast þokkalega hjá þeim Hálfdani eldri og Einari syni hans á Hóli.
Reyndar er talið að Móri hafi drepið Einar og hafi eftir að hann drap Hálfdan yngri fylgt tveim systrum hans og þeirra afkomendum, til jafns við þær Sigurbjörgu og Háfdaníu. Þóra Einarstóttir, systir Hálfdans, var amma Halldórs Péturssonar hún og systir hennar voru ásamt föður sínum í hans hinstu ferð. Varð Þóra vitni af því ásamt fleira fólki þegar Einar faðir þeirra fórst á vofeigilegan hátt.
Halldór segist eitt sinn hafa spurt Þóru ömmu sína hvort það geti ekki verið Jón á Víðastöðum hafi átt sök á dauða Hálfdans bróður hennar á Fljótinu við Hól forðum. Hún sagði honum að láta sér ekki í eitt augnablik svoleiðis um hug fara. Hálfdan hafi verið svo miklu hraustari en Jón, auk þess hefi verið gengið úr skugga um þetta á sínum tíma.
Eins minnist Halldór þess þegar Sigfús Sigfússon kom í heimsókn og bað leyfis til að fá að lesa yfir sögurnar, sem hann hafði safnað um Eyjasels-Móra, fyrir vinafólk sitt á Geirastöðum, æskuheimili Halldórs þar sem foreldrar hans bjuggu, til að fá viðbrögð við sögunum. Þá gaf engin neitt út á þessi skrif þó hlustað væri, bæði vegna þess að Móri var algerlega hundsaður og trú á drauga ekki talin gáfuleg. En eftir að Sigfús var farin þá hefði eitt og annað verið leiðrétt með fáum orðum, því hafa skildi það sem sannara væri.
Strax í formála bókarinnar um ævi Eyjasels-Móra kemst Halldór að niðurstöðu um þá draugatrú sem hann kvaðst ekki hafa, og þar af leiðandi hvers eðlis draugar eru:
Skoðun mín á draugatrú er í raun sú, að það, sem við köllum draug, sé hugarfóstur, kraftur, sem maður skapar með einbeittri hugsun í ákveðnu markmiði. Þessi kraftur getur tekið á sig form, og hægt er að senda hann á ákveðinn stað og halda honum við með sömu hugsun af öðrum mönnum.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.10.2020 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.1.2020 | 06:51
Í snjallúrið vantar Völuspá um endalok karlmennskunnar
Það ættu flestir að kannast við það úr síðasta áramótaskaupi hvað karlmenn eiga orðið erfitt með að lifa án snjallúrs. Heilsan og þetta eina líf er svo mikils viðri að rökrétt þykir að setja upp forsíðustatus með bleikri slaufu einn mánuð á ári auk þess að telja skrefin á milli blárra nagla og vera vel meðvitaður um svefninn.
Vinnufélagar mínir sem fengu snjallúr í jólagjöf báru saman tæknifídusana í úrunum sínum í byrjun árs; annar spurði hinn hvað ert þú með í stressi? Eftir að hafa gluggað í snjallúrinu sínu svaraði hann svona ca. 20 vanalega. Haaa,,, bara tuttugu? Ég er venjulega með á milli 50-60,,,; og hafði hann ekki haft hugmynd um að vera svona stressaður.
Visku mannfólksins fleytir fram um leið og hún er öll að færast í tæki. Svo er komið að síðasta kynslóðin sem hefur náttúrulega heilaburði til að keyrir bíl er að renna sitt skeið, eftirleiðis verða það að mestu fjarstýrð öryggisforrit og gps leiðsögutæki sem sjá um aksturinn í gegnum 5G. Auðvitað er þetta allt gert til að við getum haft hugann við eitthvað áhugaverðara, t.d. snjallúrið.
Þessar tækniframfarir við akstur ættu ekki að þurfa að koma nokkrum á óvart ef miðað er við hve stutt er síðan að kunnátta manna við siglingar á sjó var vædd tækjum svo ekki þyrfti að rýna í himintungl og hafstrauma. Nú er sennilega fáum orðið fært að sigla eftir fallaskiptum og stjörnum og myndu segja sem svo tækjalausir í þoku; Haah, Pétur minn hvað gerum við nú.
Sjálfur hef ég ekki ennþá eignast snjallúr, ekki einu sinni haft vit á að fá mér snjallsíma með áttavita og keyri þar að auki um á bíl frá síðustu öld eins og hver annar lúser. Og kannski ekki nema von að á mér hafi bæði dunið hjartaáföll og bílslys, en það verður nú væntanlega boðið upp á fríar bólusetningar við þessu öllu saman fljótlega.
Það er samt ekki lengra síðan en á síðustu öld að gamaldags úr urðu algeng, og þá bara til að mæla tímann í mínútum og klukkustundum. Úr á ég nú reyndar ekki heldur en einhvernvegin hefur karlrembusvíni með hrútaskíringarnar sínar bjargast með tímann í allri hjarðhegðuninni, en varla verður það mikið lengur því nú hefur öld hrútsins runnið á enda, ásamt öllu heila feðraveldinu.
Völuspá greinir frá því að í árdaga hafi goðin gengið þannig frá tímanum að hann markaðist af skiptum sólarhringsins og gangi himintungla til þess mennirnir gætu fylgst með tímanum frá degi til dags í hinu stóra samhengi, þ.e. allt frá upphafi til ragnaraka og frá þeim í nýtt upphaf. Þar þurfti hvorki að hugsa sérstaklega um mínútur né heilsuna, ótímabær dauðdagi hetjunnar var síst talinn síðri en það að leggjast í kör.
Það sem hefur breyst í hugmyndum manna til tímans á síðari árum er að hann hefur allur verið settur á tímalínu tækninnar í stað hringekju sólarinnar. Við þetta breytast hugmyndir manna um heimsendi úr því að vera tímamót, í að verða endir alls og er þá rétt betra að tóra sem lengst. Er á meðan er þar til golunni verður geispað.
Það má sjá í Völuspá að hún greinir oft frá upphafi nýs heims og ragnarökum þess gamla. Hefur tíminn því um langt skeið verið annars vegar hringferli náttúrunnar sem lýtur umhverfi og aðstæðum, svo beinlínuferli sem lýtur fæðingu og dauða einstaklingsins sem aðstæðurnar byggir og nýtir, - eða eru það kannski öfugt, eru það aðstæðurnar sem nýta einstaklinginn. Þetta eru allavega sá mælikvarði tímans sem hafur gilt á tímum hrútaskýringanna.
Það getur verið auðveldara að gera sér grein fyrir hugmyndum um rás tímans með því að fara hann afturá bak. Og þá hvernig mennirnir breyta mörkum hans. Enda tíminn ekki annað en mælieining mannanna byggð á takmörkunum goðanna í öndverðu. Þessa mælieining hefur verið notað til að breyta upplifun mannsins á heiminum.
Í bók Tryggva Emilssonar, Baráttan um brauðið, er athyglisverð lýsing á því hvernig tímarnir breyttust 1940 við það að Breski herinn kom til Akureyrar. Þó svo Tryggvi lýsi vel hversu áhrifamikil breytingin var á tíðarandanum þá sýnir hún jafnframt, þó svo framtíð almúgans yrði miklum mun óráðnari en áður, að samt mátti lesa framtíðar tilganginn, allavega eftir á, úr atburðinum sem hann lýsir:
"Fyrstu setuliðsdagana var nokkur spenna í lofti. Enginn vissi lengra nefi sínu hvað allt þetta átti að þýða í samtímanum, hvað þá að menn sæju fetinu lengra fram í tímann. Spámenn setti hljóða, hvorki veðurlag eða draumar sögðu fyrir hvað koma mundi og ekki var mark takandi á framferði hunda eða hrafna. Tíminn, sem var því vanur að líða í vissum áföngum, hljóp úr öllum skorðum og varð helst miðaður við stríðsfréttir, eða hver spyr um sauðburð eða sláttarbyrjun eða réttir að miða barnsfæðingar við? Tunglkomur og önnur stórmerki á himni, nema sólin, týndust í rás þessa nýja tíma."
Sagt er að nútímamanneskjunni berist fleiri möguleikar á einum degi en fólki í upphafi 19. aldar stóð til boða á 7-8 ára tímabili og við hvert svar sem fáist við spurningu vakni tvær nýjar. Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á athyglisgáfu fólks, sem komist að þeirri niðurstöðu að fólk hefði misst mestan hluta tíma síns til að draga ályktanir. Þetta gerist vegna stóraukinna upplýsinga, sem allar byggja á viskunni aftur á bak.
Svo höldum áfram niður tímaspíralinn eða aftur á bak tímalínuna. Mikil tímamót urðu um 1930 þegar Ríkisútvarpið tók til starfa og hafði aðal fréttatíma sinn og veðurfregnir ásamt tímamerki í hádeginu. Fram að þeim tíma hafði fólk farið eftir stöðu sólar með matmálstíma, og tekið mið af skýjafari og hegðun dýra hvað veðrið varðaði.
Á sumrin þegar hendur þurftu að standa fram úr ermum voru fjórar máltíðir á dag. Algengt var að klukkan 8-9 væri morgunnmatur, næsta máltíð skatturinn, var kl 12-1. Miðdegismaturinn var aðalmáltíðin kl 4-5, kvöldmaturinn var lítil máltíð kl 9. Þessi skipan máltíða er enn í Noregi, en tók að breytast á Íslandi með tilkomu ríkisútvarpsins.
Fram eftir 20. öldinni þurfti klukkan ekki að vera það sama um allt land heldur tók hún mið af stöðu sólar á hverjum stað og stundum bara eftir því hvað hentaði. Klukkur urðu ekki almennar á Íslandi fyrr en á 19. öld fram að þeim tíma mældu menn tímann að ævafornum hætti eftir stöðu sólar á himni og hvernig hana bar við tiltekna staði í nágrenninu. Hver bær átti sín eyktarmörk, sem tíminn var miðaður við, með aðferðum allt frá því á landnámsöld, því eru til Hádegis- og Nóntindar víða um land.
Völuspá greinir reyndar ekki frá þessum smávægilegu breytingum manna við að mæla eða hafa áhrif á tímann heldur hinum stóru aldahvörfum himintunglanna, hún er í ætt við tímatal Maja Mið-Ameríku. Níu man ég heima segir Völvan snemma í þulu sinni þegar hún hefur þrætt tímann aftur á bak um stund. Síðan lýsir hún heimsmynd goða, tilurð fyrsta mannfólksins, Asks og Emblu, ragnarökum ása og manna, og að ragnarökum afloknum endurkomu Baldurs og Haðar sem voru saklausir ljúflingar í Ásgarði.
Völuspá greinir frá heimsmynd sem var á fallandi fæti við landnám Íslands þegar heiðnir menn, sem enn dvöldu á tíma goða ákváðu að setja upp þjóðveldi á Íslandi, vegna þess að þeir gátu ekki unað við hrútaskýringar miðstýrðs konungsvalds sem hafði tekið heimsmynd Rómar upp á sína arma með sitt feðraveldi og línulegu mannsævi.
Skömmu fyrir fæðingu frelsarans hafði heimurinn snúist úr öld hrútsins inn í stjörnumerki fiskanna með endalokum blóðhefndarinnar sem laut sæmd Valhallar byggðri á fyrr um níu heimum og við tóku kristilegri viðmið, - með jarðlífinu, himnaríki og helvíti. Völuspá lýsir þessum tímamótum með ragnarökum í goðheimum og í framhaldi ragnarökum heims Asks og Emblu sem goðin blésu lífs af sínum heimi.
Fræðimönnum hefur gengið misjafnlega að staðsetja boðskap Völuspár í tíma, hvort hún lýsi heiðinni heimsmynd eða kristinni. Nærtækast er að ætla að hún lýsi þeim báðum (þ.m.t, öld hrútsins) og gefi í skin níu þar fyrir framan. Það er varla tilviljun að Ásgarðs goðin blása lífi í Ask og Emblu á svipaðan hátt og Adam og Eva eru til í Biblíu Rómarkirkjunnar.
Völuspá lýsir í lokin nýjum heimi þar sem gullið eitt mun lýsa í heiminum; Sal sér hún standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta. Ekki er um að villast að nýrri heimsmynd er lýst, sem við tekur eftir ragnarök og heimurinn er einn salur hagvaxtarins. Þar eru gull og dyggar dróttir lykilorðin.
Endalokum karlmennskunnar, eins og við þekkjum hana, er skilmerkilega lýst í ragnarökum Völuspár og eru um upphaf þeirra óskapa hafðar þær hendingar sem best eru kunnar úr þulunni; Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla; hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir munu klofnir, vindöld, vargöld, áður en veröld steypist; mun engin maður öðrum þyrma.
Meetoo tók við af hrútaskýringunum þegar siglt var inn öld vatnsberans, að sagt er í ársbyrjun 2019. Varla hefur farið fram hjá nokkrum að á s.l. ári var jafnlaunavottun með lögleiddum kynjahalla innleidd í allt regluverk, og eru afleiðingarnar þegar farnar að líta dagsljósið með tugmilljóna bótum til þeirra drótta sem á hefur verið brotið með lögmálum sem áttu við á fyrri öldum. Þarf þessi nýi heimur þá að koma á óvart, eða hvað?
Völuspá greinir nákvæmlega frá því undir lok þulunnar hvernig nýr heimur rís, sem dyggar dróttir byggja, með þeim bræðrum Baldri og Heði sem saklausastir voru meðal goða Munu ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna, Baldur mun koma; búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel, valtívar, vitið þér enn, eða hvað?
Tíminn er endanlega kominn á línu í mannheimi og þarf ekki lengur goðsagna og sólarinnar við, akrar náttúrunnar munu vaxa án hringferlis árstíðanna, þess sjást nú þegar merki í gróðurhúsarækt og verkssmiðjubúskap. Framtíð karlmennskunnar verður í líki Baldurs og Haðar, sem voru saklausir synir stríðandi goða, harmdauði allra.
Blóðhefndin var afnumin með lögmáli sem tóku við í lok aldar hrútsins, sem lauk fyrir rúmum 2000 árum og fiskarnir eru nú að líða undir lok. Í upphafi aldar vatnsberans hefur dauðdagi hetjunnar endanlega horfið á braut. Bleikar slaufur, bleyjuskipti og snjallúrið verða eftirleiðis viðfangsefni karlmennskunnar.
En rétt eins og á þeim orðunum sem Völuspá líkur, þá mun hið næsta óþarfa hringferli sólar og himintungla hafa sinn vana gang; Þar kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; ber sér í fjöðrum, flýgur völl yfir, Níðhöggur nái, nú mun hún sökkvast.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.1.2019 | 07:31
Íslenskur herforingi - hver var hann?
Þann 2. janúar 1911 birtist í danska blaðinu Politiken grein með fyrirsögninni: Hver var hann?, sem var sögð send inn af alkunnum stjórnmálamanni (sagður vera fyrrverandi varnarmálaráðherra Dana, Christopher Krabbe). Í greininni segir hann frá herforingja sem getið var um í bókinni Eitt horn af Provence, sem er í S-Frakklandi. Í greininni er sagt frá málaliða herdeild, sem fékk þveröfuga dóma miðað við foringja hennar, sem sagður var vera réttsýnn maður og mannúðlegur, og auk þess Íslendingur, svo mörg voru þau orð sem um Íslendinginn voru höfð.
Í febrúar sama ár er í Lögréttu vakin athygli á greininni og lesendur spurðir hvort þeir viti hver maðurinn var. Svo er það akkúrat ári eftir að greinin birtist í Poletiken, að grein er í Eimreiðinni þann 1. janúar 1912, undir fyrirsögninni Íslenskur herforingi, þar sem leitast var við að svara hvaða íslenski maður þetta gæti hafa verið. Undir greininni er fangamarkið V.G., og verður að ætla að hana hafi ritað Valtýr Guðmundsson sagnfræðingur, og ritstjóri Eimreiðarinnar.
Ég rakst á þess greinaskrif fyrir tveimur árum þegar ég var að forvitnast um ævi Jóns lærða Guðmundssonar. En komst þá fljótlega að því að auðveldast myndi vera að kynna sér ævi Jóns með því að lesa bókina Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson. Ég fór því á bókasafnið og útvegaði mér bókina, hafandi fyrst og fremst áhuga á að kynna mér hvað í henni væri að finna um veru Jóns lærða á Austurlandi.
Austur á Hérað hafði Jón flúið vegna galdraofsókna og dvalið þar það sem hann átti ólifað ásamt konu og afkomendum, fyrir utan ferðar til Kaupmannahafnar sem endaði svo fyrir íslenskum dómstól. þar sem hann freistaðist til að fá leiðréttingu mála sinna. En það tókst ekki, hann fékk þó grið áfram á Austurlandi. Í stuttu máli sagt þá var ekki ýkja mikið á þessari næstum 800 síðna bók að græða varðandi veru Jóns lærða á Austurlandi, umfram það sem segir í Fjölmóði hans, sem er nokkurskonar skorinorð ævisaga sem hann skildi eftir sig í bundnu máli.
252. Hitti þar mæta menn / og milda fyrir, / Bjarna sýslumann / og blíðan prófast, / síra Ólaf vorn, / sælan með guði; / umbuni guð þeim / allar velgerðir. (Úr Fjölmóði ævidrápu, Þegar Jón lærði kom á Héraðið) - 317. En að skilnaði / ályktuðu / Jens og junkur / að ég frí skyldi / í Múlasýslu / mína reisa / og hjá kerlingu / kúra síðan. (Úr Fjölmóði eftir að konungsbréf að lokinni Kaupmannahafnar ferð hafði verið tekið fyrir á alþingi).
Svo var það núna um jólin að ég heyrði í litlu systir sem býr í S-Frakklandi að upprifjaðist þessi athyglisverða grein Valtýs Guðmundssonar sagnfræðings í Eimreiðinni. En til tals kom á milli okkar systkinanna hvort nafni minn, Remi Paul Magnús sonur hennar, væri genginn í Franska herinn eins og til hafði staðið síðast þegar við heyrðumst. Það hafði dregist en hann hefði staðist inntökupróf.
Tafirnar höfðu aðallega stafað af nákvæmri bakgrunns rannsókn franska hersins á íslenskri móðurinni. Mér varð á orði að það hefði verið eins gott að franski herinn hefði ekki komist í Íslendingabók því þá hefði verið hægt að rekja nafna aftur til Egils Skallagrímssonar og hann hefði ekki reynst frökkum neitt sérstaklega. En mundu svo eftir greininni í Eimreiðinni þar sem getið var þessa Íslendings sem sagður var hafa verið réttsýnn maður og mannúðlegur. Greinin fylgir hér á eftir;
ÍSLENSKUR HERSHÖFÐINGI
Þann 2. janúar 1911 stóð í danska blaðinu Politiken grein með fyrirsögninni: "HVER VAR HANN?", er blaðið kvað sér senda af alkunnum stjórnmálamanni (höf. kvað vera fyrv. hermálaráðherra Dana C. Krabbe) dönskum sunnan frá Miðjarðarhafströnd. Sú grein hljóðar svo:
"Sex stunda ferð í vestur frá Nízza er bærinn Hyéres. Hann stendur í fjallshlíð og eru krókóttar miðaldagötur upp eftir henni, en uppi á fjallinu rústir af kastalaborg. Við fjallsræturnar eru íbúðarhús í nútíðarstíl. Hyéres er álíka stór og bæirnir Helsingjaeyri og Hilleröd samanlagðir, og hefir víst aldrei stærri verið. En á miðöldunum voru ríkin smá og var þá Hyéres með umhverfi sínu sjálfstætt furstadæmi. 1254 var það sameinað greifadæminu Provence, sem þá var sjálfstætt, og er Provence 1481 sameinaðist konungsríki Frakka, rann Hyéres saman við Frakkland í byrjun 18. aldar átti Frakkakonungur í ófriði við hertogann af Savoyen, og tóku þá herflokkar hertogans Hyéres 1707. Í þeim herflokkum voru flestir liðsmanna Þjóðverjar, Savoyingar og Genúingar; en eftir því, sem Louis Bronard segist frá í bók sinni "Eitt horn af Provence", var foringi þeirra Íslendingur, og um hann er það tekið fram gagnstætt því, er segir um liðsmenn hans , að hann hafi verið "réttsýnn maður og mannúðlegur".
"Þessi frásögn um að Íslendingur hefði haft herstjórn í þjónustu hertogans af Savoyen, vakti eftirtekt mína, og þar sem honum var borin svo vel sagan, fór mér að þykja vænt um hann. Ég hafði aldrei fyrr heyrt hans getið. Og þar sem ég (og sjálfsagt fleiri af lesendum Politiken mundi hafa gaman af að fá eitthvað meira um hann að vita, þá leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til íslenskra sagnfræðinga: Hver var þessi íslendingur? Veit nokkur maður nokkuð um hann?"
Sé hér um sanna sögu að ræða, er ekki ólíklegt, að mörgum Íslendingum mundi ekki síður en Dönum þykja fróðlegt að fá að vita, hver þessi íslenski hershöfðingi hafi verið. Vér Íslendingar höfum ekki átt svo marga hershöfðingja nú á seinni öldum, að ekki væri vert að halda nöfnum þeirra til skila, sem getið hafa sér góðan orðstír. En hér er ekki svo hægt um vik, þar sem nafnsins er ekki getið, enda óvíst, að það gæfi næga leiðbeiningu, þó svo hefði verið. Því Íslendingar hafa svo oft tekið sér ný nöfn, eða önnur í útlöndum en heima fyrir, og gat það vel hafa átt sér stað hér. Hins vegar mun þess hvergi finnast getið í íslenskum ritum, að nokkur Íslendingur hafi gengið í herþjónustu í Savoyen, og er þá ekki annað fyrir hendi til úrlausnar spurningunni, en að beita sennilegum líkum og tilgátum, þó engin vissa geti með því fengist að svo stöddu.
Sá maður, sem böndin virðast helst berast að í þessu efni, er Guðmundur Guðmundsson, sonarsonur Jóns Guðmundssonar lærða, þess er Þormóður Torfason kallaði Plinius Islandicus og sem Guðbrandur Vigfússon segir um í formála sínum fyrir "Íslenskum þjóðsögum", að fáir hafi þá verið svo fjölfróðir og víðlesnir sem hann. Enda var hann göldróttur talinn og slapp með naumindum frá að verða brenndur á báli. Sonur Jóns lærða, en faðir Guðmundar, var séra Guðmundur Jónsson, sem fyrst var prestur á Hvalsnesi (vígður 1633), en síðan (16541683) á Hjaltastað, og dó 1685.
Guðmundur, sonur Guðmundar prests Jónssonar, var fæddur 1643 og var 15 vetra gamall (haustið 1658) sendur utan til náms í Frúarskóla í Kaupmannahöfn. Þá var ófriður milli Svía og Dana og var Guðmundur hertekinn af Svíum. En Danir hertóku aftur skip það, er Guðmundur var á með Svíum, og hefir það líklega verið skip það, er hinn hrausti Manarbúi Jakob Nielsen Dannefer tók af Svíum 2. okt. 1658 og varð frægur fyrir. Var þá Guðmundur hernuminn í annað sinn, og hafði sætt svo illri meðferð, að hann var "af sér kominn af sulti, klæðleysi og órækt". Hætti hann þá við lærdómsnám sitt og gekk á mála sem hermaður, og var 4 ár í herþjónustu, uns hann var leystur úr henni af dönskum herramanni (1662), "því hann var skarpvitur og ritari góður", segir Espólín í Árbókum sínum.
Var hann svo sveinn herramanns þessa í önnur 4 ár, uns hann (1666) gekk í þjónustu Soffíu Amalíu, drottningar Friðriks III., "og fékk náð hennar mikla". Var þá einveldi fyrir skömmu á komið í Danmörku, og gerðist drottning umsvifamikil og var að mörgu leyti meira ráðandi í ýmsum greinum en konungur sjálfur. Var hún skrautgjörn mjög og gefin fyrir skemmtanir, og hóf þá, sem henni geðjaðist að, til metorða og valda, en þeir, sem urðu fyrir ónáð hennar, fengu oft á hörðu að kenna. Það var því ekki lítils vert, að komast inn undir hjá henni.
Vér skulum nú láta Espólín segja sögu hans áfram, með eigin orðum:
"Guðmundur Guðmundarson prests, Jónssonar lærða, hafði nú (1673) verið 14 eða 15 vetur utan, og í veg miklum með Soffíu Amalíu drottningu; hann fékk þá leyfi að finna foreldra sína, og sendi drottningin Guðmundi presti föður hans hökul dýran. Guðmundur kom út, og að Hjaltastað til sunnudagsmessu, öllum óvart og ókenndur, og duldi þess alla, hver hann var; lést hafa skylduerindi til alþingis og Bessastaða, og vilja fara sem fljótast. Faðir hans vildi fá tíðindi, og bað hinn ókunna mann mjög að gjöra sér þann veg, að þiggja að sér máltíð eða annan greiða og spurði að Guðmundi syni sinum. Hann kvað hann lifa og vera gott af hans ráði að segja; og|slíkur væri hann nú orðinn, að prestur mundi eigi kenna hann, þó hann sæi.
Prestur lést víst hyggja, að hann mundi kenna hann, og spurði, hvern vöxt eða þroska hann hefði. Guðmundur mælti alt á dönsku, kvaðst eigi annað segja kunna sannara, en að hann væri mjög líkur sér að vexti og áliti. Ekki var Guðmundur prestur haldinn glettingarbarn, og er þess nokkuð getið fyrri, en þó varð hann eigi að vísari, og hélt Guðmundur honum uppi með þessu fram á aftan, og lést þá vilja brottu. En síðan sagði hann foreldrum sínum með fyrirgefningarbón, hver hann var; urðu þau þá mjög fegin, og þóttust hafa heimt hann úr helju. Var hann um vetur í landi, og fór utan síðan í sömu þjónustu".
Það hafði fyrr orðið um Guðmund Guðmundarson, er hann var með Soffíu Amalíu drottningu, að þá er meistari Jón Vigfússon vígðist til vísibiskups (1674), tók hann bréf fyrir allri Borgarfjarðarsýslu, og ætlaði út. Það mislíkaði drottningu og kvað hann fá annað betra hjá sér; og þorði hann eigi að neita boði hennar, og hafði gjörst fógeti hennar á Láglandi, því að þau smálöndin hafa drottningar í Danmörku til uppeldis sér í ekkjudómi. Gekk hann að eiga þernu eina þýska, þó ættaða vel, og var um hríð í allgóðum veg, þar til er bændur nokkrir kærðu hann um álögur nýjar. Kom það fyrir rétt í Kaupmannahöfn, og vann hann málið, en var þó kærður um hið sama skömmu síðar aftur; þá varð hann undir í málinu, og missti embættis, en þóttist þó eigi annað hafa gjört en skipun síns herra. Og nú er hér var komið, var drottning önduð (1685), og var það eitthvað í efnum, að hann hafði sig til Þéttmerskis; var sagt hönd hans hefði kennst á nokkrum bréfum hennar.
Hann bjó ár nærri Lukkustað, og átti húsið bróðir konu hans, ármaður konungs vistast þar; hann studdi þau Guðmund, því að hann var þá fátækur og hneigður til drykkju. Guðmundur var ritari góður og skáld, þýskur vel, og fór vel við stúdenta íslenska, meðan hann var í uppgangi sínum í Kaupmannahöfn. Ekki vildi hann heyra hallmælt Jóni lærða föðurföður sínum. Hann kvaðst vera að snúa á þýska sálma píslarsálmum Hallgríms prests Péturssonar, og stunda að fylgja orðum og efni, og væri þeir í afhaldi.
Vita menn eigi lengur af honum að segja, en þrjá vetur umfram það, er nú er komið frásögnum (til 1688). Þorleifur prestur, bróðir hans, hélt Hallormsstað í Múlaþingi; um hann er sagt að misst hafi hálft skegg sitt tilfinningarlaust eina nótt, og óx það aftur. En Guðmundur prestur, faðir þeirra, má ætla að dáinn hafi verið fyrir tveimur árum eða þremur, þá tíð er komið er nú áratali (dó 1685).
Það er eigi allfátt, sem mælir með því, að þessi Guðmundur Guðmundsson, sem hér hverfur svo skyndilega úr sögu annálaritaranna íslensku, hafi einmitt verið hershöfðingi sá, er getið er um í Savoyen 1707. Að minnsta kosti er ekki kunnugt um neinn Íslending frá þessu tímabili, sem fremur gæti komið til greina. Að hann hafði sig á brott úr Danmörku eftir andlát Soffíu Amalíu drottningar, er vel skiljanlegt; því þeir, sem verið höfðu gæðingar hennar, áttu þá ekki upp á pallborðið og urðu margir fyrir ofsóknum. Mun hann ekki hafa talið sér óhult þar, enda auðséð, að einhverjar sakir hafa verið á hann bornar, þó orð Espólíns um það séu mjög á huldu. Hann segir aðeins, að "eitthvað það hafi verið í efnum", að hann hafi haft sig til Þéttmerskis, og að sagt hafi verið, að hönd hans hefði kennst á nokkrum bréfum drottningar.
Bæði þetta og að tvívegis er tekið fram, að hann hafi verið "ritari góður", virðist benda á, að drottning hafi notað hann til að rita leyniskjöl sín, og hefir hann þá ef til vill verið grunaður um að hafa ritað erfðaskrá hennar, þá er svo mikið stapp varð út úr, og sem Kristján V. varð svo æfur yfir, að hann lét ónýta hana og brenna á báli. Hafi svo verið, er engin furða, þó Guðmundur hafi viljað forða sér. Að hann einmitt fór suður til Þéttmerskis, er líka skiljanlegt, þar sem kona hans var þýsk og hann átti þar mágafólk, sem gat skotið skjólshúsi yfir hann. En líklega hefir hann ekki heldur álitið sér óhætt þar til lengdar, eftir að erfðaskrá drottningar náðist heim frá Þýskalandi, þar sem hún hafði verið geymd hjá bræðrum hennar.
Er þá allsennilegt, að hann hafi haldið enn lengra suður á bóginn, og það orðið ofan á hjá honum, að taka til ungdómsiðju sinnar; herþjónustunnar. Hafi hann svo, ásamt mörgum Þjóðverjum, gengið í málalið hertogans af Savoyen og smámsaman stigið þar í tigninni, uns hann hafi verið gerður að foringja málaliðsins. Hin frábæra kunnátta hans í þýskri tungu og fjögra ára herþjónusta í málaliði Dana á æskuárunum hafa þá komið honum að góðu haldi. Og hæfileika virðist hann að hafa haft nóga til að hefja sig upp á við. Átti hann bæði kyn til þess, enda segir Espólín um hann sjálfan, að hann hafi verið skarpvitur; þá sýnir og hefðarferill hans í Danmörku, að hann hefir ekki verið neinn miðlungsmaður, og vel kunnað að koma ár sinni fyrir borð og vinna sér hylli manna.
Alt þetta virðist gjöra það sennilegt, að íslenski hershöfðinginn, sem tók Hyéres 1707, hafi einmitt getað verið Guðmundur Guðmundsson, það kemur og ágætlega heim við tímann. Hann var fæddur 1643, og hefði þá 1707 verið orðinn 64 ára að aldri. Og það er 19 árum eftir að hann hverfur frá Þéttmerski og ekkert spyrst til hans framar. Líkurnar fyrir því, að hér sé um sama mann að ræða, eru því svo miklar, að næst liggur að hafa það fyrir satt, ef ekki koma aðrar betri og sennilegri skýringar fram.
Og er ekki nógu gaman að hugsa til þess, að sonarsonur hans Jóns lærða, alþýðusnillingsins okkar þjóðfræga og höfundar Krukkspár, hafi eftir hina dönsku ævintýrabraut sína orðið hershöfðingi og getið sér góðan orðstír suður í Savoyen? - VG
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2326198
14.9.2018 | 19:07
Eru álfar kannski menn?
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga af stúlku í Mývatnsveit sem virðist hafa verið komin á samfélagsmiðla löngu áður en tæknin varð til. Hún vissi atburði í öðrum landshlutum svo til um leið og þeir gerðust. Lýsingin á atferli stúlkunnar var samt ekkert sérstaklega geðsleg, sem segir svo sem ekki mikið annað en tíðarandinn hefur breyst. Þar segir m.a.;
En þegar hún þroskaðist meira vitkaðist hún sem aðrir menn að öðru leyti en því að hún var alltaf hjárænuleg og jafnan óglaðvær. Fór þá að bera á því að hún sæi mannafylgjur öðrum framar svo hún gat sagt fyrir gestkomur; en er fram liðu stundir urðu svo mikil brögð að undursjónum hennar að svo virtist sem hún sæi í gegnum holt og hæðir sem síðar mun sýnt verða. Til vinnu var hún næsta ónýt og prjónaskapur var næstum eina verkið hennar. Hún átti vanda til að sitja heilum tímum saman eins og agndofa og hvessa augu í ýmsar áttir innan húss þótt aðrir sæju ekkert er tíðinda þætti vert.
Það má spyrja sig hvort þessi stúlka hafi þá strax haft wi-fi tengingu og snjallsíma auk sjónvarps, sem fólk vissi hreinlega ekki af, tækni sem flestum þykir sjálfsögð í dag. Þannig hafi hún vitað ýmislegt sem öðrum var hulið.
Á öldum áður moraði allt í álfum, ef eitthvað er að marka þjóðsögurnar. Á því hvað um þá varð hefur engin haldbær skýring fengist. Hugsanlega hafa þeir horfið með raflýsingunni, rétt eins og mörg skyggnigáfa mannfólksins, eftir að veröldina fór að fara fram í gegnum upplýstan skjá. Það er t.d. mjög sjaldgæft að álfur náist á mynd, þó segja sumir að það sé meiri möguleiki eftir að digital ljósmyndatæknin hélt innreið sína, sem flestir eru með við höndina í símanum.
Sjálfur er ég svo sérvitur að ég hef ekki ennþá tileinkað mér margt af þessari undra tækni og verð því að nokkru leiti að notast við sömu samfélagsmiðla og fólkið sem umgekkst stúlkuna í Mývatnssveit. Svo forneskjulegur er ég að hvorki er sjónvarp né útvarp í minni nærveru og hefur ekki verið hátt í áratug, hvað þá að ég hafi eignast snjallsíma. Ég þrjóskast samt enn við að halda mig í raunheimum með því að hafa internettengingu og gamla fartölvu svo ég geti fylgst með því sem allir vita.
Þessi þverska mín varðandi framfarir hefur í nútímanum gert mig álíka hjárænulegan og stúlkuna í Mývatnssveit um árið, svo öfugsnúið sem það nú er. Í kaffitímum á mínum vinnustað á ég það t.d. til að rausa við sjálfan mig um bæði forna og framandi atburði, á meðan allir aðrir horfa upplýstir í gaupnir sér og þurfa í mesta lagi vísa lófanum í andlitið á næsta manni og segja sjáðu, til að gera sig skiljanlega.
Hjárænulegastur hef ég samt orðið heima hjá mér. Eftir að hafa gefist upp á því að gera rausið í mér skiljanlegt innan fjölskyldunnar, sat ég þá þegjandi í sófanum líkt og álfur út úr hól. Fjölskyldumeðlimir sátu saman við borðstofuborðið og glugguðu í símunum sínum, á meðan ég starði bara út í bláinn, borandi í nefið. Allt í einu klingdi í hverjum síma og bjarmaði af hverjum skjá upp í andaktug andlitin, allir horfðu kankvísir í sinn síma, án þess að þurfa að segja svo mikið sem sjáðu. Sonur minn hafði náð mynd af sófa-álfi og sent hinum við borðið hana á snapchat.
30.3.2018 | 06:02
Höfuðlausn eða splatter?
Flugu hjaldrs tranar
á hræs lanar.
Vorut blóðs vanar
benmás granar.
Sleit und freki
en oddbreki
gnúði hrafni
á höfuðstafni.
Sagt er að eftir að útskýrt hefur verið fyrir barni hvað fugl sé, þá muni það aldrei sjá fugl framar, aðeins hugsanir sínar um fugl samkvæmt útskýringunni. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér hvað Egilssögu varðar. Þegar hún var fyrst útskýrð fyrir mér í skóla lét kennarinn þess getið að þarna væri um magnaða lygasögu að ræða, ekki væri nóg með að söguhetjan hefði lent á sitt fyrsta fyllerí þriggja ára gömul, heldur hefði hún drepið mann sex ára. Síðan væri söguþráðurinn svo blóði drifin og lýsingar á manndrápum það yfirgengilegar, að hálfa væri miklu meira en nóg.
Egilssaga Skallagrímssonar er saga tvennra bræðra. Þar sem annar bróðirinn í hvoru pari er hvers manns hugljúfi, eftirsóttur af eðalbornum, ljós og fagur; en hinn svartur, sköllóttur, þver og ljótur. Bræðurnir eru annarsvegar, þeir Skallagrímur og Þórólfur, Kveldúlfssynir og svo synir Skallagríms þeir Þórólfur og Egill. Sagan fjallar um örlög ættar á 150 ára tímabili á víkingaöld, glímuna við að ná sínum rétti samkvæmt lögum sem valdhafar setja og breyta jafnharðan ef þeim hentar. Í sögunni falla báðir Þórólfarnir fyrir vopnum á besta aldri, þeir voru hinir hugljúfu, á meðan Skallagrímur og Egill þverskallast til elli. Sagan gerist víða í N- Evrópu, en aðallega þó í Noregi, Englandi og á Íslandi.
Þegar ég las loksins söguna í heild á sextugsaldri, en lét ekki bara útskýringar kennarans næga, þá gerði ég það mér til huggunar þar sem ég var staddur í minni sjálfskipuðu þriggja ára útlegð í Hálogalandi. Söguþráðurinn er eins og kennarinn sagði á sínum tíma, mögnuð saga af drykkju og manndrápum, sem myndi sóma sér vel í hvaða splatter sem er, a la Tarantino. En þó var fleira sem vakti forvitni mína við lesturinn, Hálogaland var nefnilega heimavöllur Þórólfs Kveldúlfssonar. Áhugi kviknaði á að komast að því hvar nákvæmlega í Hálogalandi Þórólfur hafði alið manninn og efaðist ég um að rétt væri farið með það atriði. Á meðan á þeim heilabrotum stóð hitti ég mann sem gjörbreytti viðhorfi mínu til Egilssögu.
Leit minni að Þórólfi Kveldúlfssyni hefur áður verið gerð skil hér á síðunni. En þá hitti ég norðmann sem kunni önnur skil á Agli Skallagrímssyni en kennarinn í denn. Þessi fundur var í Borkenes nágrannabæ Harstad, þar sem ég bjó. Þangað hafði ég verið sendur um tveggja vikna skeið til að laga flísar í sundlaug grunnskólans. Þetta litla sveitarfélag gerði út á að hafa "móttak" fyrir flóttamenn sem þurfa að komast inn í norskt samfélag. Eins er þar "móttak" fyrir þá sem hafa misstigið sig á kóngsins lögum og vilja komast aftur á meðal löghlíðina borgara með því að veita samfélagsþjónustu. Þarna átti ég marga áhugaverða samræðuna.
Síðasta daginn minn í Borkenes höfðum við sammælst um það, fjölbreyttur vinnuhópur móttaksins og íslenski flísalagningamaðurinn, að ég kæmi með hákarl og íslenskt brennivín til "lunsj" í skiptum fyrir vöfflur með sultu. Leifur, sem kannski ekki bar með sér að hafa verið hinn heppni eins og íslenski nafni hans ef marka mátti rúnum rist andlitið, sá um vöfflubaksturinn og heilsaði mér með virktum. "Ja so du er en Islanding kanskje viking som Egil Skallagrimson kommen å hente din arv ". Þarna hélt ég mig hafa himinn höndum tekið við að fá botn í heimilisfang Þórólfs. Spurði því Leif hvort hann hefði lesið Egilssögu; "að minnsta kosti fjórum sinnum" sagði hann. Þegar ég færði Þórólf Kveldúlfsson í tal sagðist hann ekki hafa hugmynd um þann náunga. En eitt vissi hann; "Egil var ikke en kriger han var en poet" (Egill var ekki vígamaður, hann var skáld).
Síðan fór Leifur yfir það hvernig Egill hefði bjargað lífi sínu með ljóðinu Höfuðlausn, þegar Egill kunni ekki við annað en að heilsa upp á fjanda sinn Eirík blóðöxi, sem óvænt var orðinn víkinga konungur í York, en ekki lengur Noregskonungur. Til York rambaði Egill í sinni síðustu Englandsferð. Þau konungshjónin (Eiríkur og Gunnhildur) og Egill höfðu eldað grátt silfur árum saman. Hafði Egill m.a. drepið Rögnvald son þeirra 12 ára gamlan, reisti þeim hjónum að því loknu níðstöng með hrosshaus og rúnaristu, þar sem hann hét á landvætti Noregs að losa sig við þá óværu sem þau hjónin sannarlega væru, en virðist hafa sést yfir það að biðja Englandi griða fyrir hyskinu.
Eiríkur náði um Egil eina nótt í York, en fyrir áeggjan Arinbjarnar fóstbróður síns, auk þess sem Arinbjörn var besti vinur Egils, lét Eiríkur Arinbjörn narra sig til loforðs um grið Agli til handa, svo framarlega sem Egill gæti samið eilífa lofgjörð um Eirík. Þá varð til ljóðið Höfuðlausn, sem Eiríkur blóðöxi gat ekki tekið öðruvísi en lofi. Úr þessu ljóði fór Leifur með erindi við vöfflubaksturinn í Borkenes um árið, og sagði svo að endingu að þarna væri allt eins um hreinustu níðvísu að ræða til handa Eiríki.
Þetta vakti áhuga minn á kveðskap Egils sem ég hafði skautað fram hjá sem óskiljanlegu þrugli í sögunni, enda vel hægt að fá samhengi í fyllerí og vígaferli Egils án ljóðanna. Þegar ég las svo Höfuðlausn náði ég fyrst litlum botni í kveðskapinn, en gekk þó betur að skilja hann á ensku en því ástkæra og ylhýra.
Þegar Hálogalandsútlegð minn lauk árið 2014 átti ég eina glímu eftir henni samfara, en þessi útlegð var tilkominn vegna ósættis við bankann. Mér hafði tekist með þriggja ára Noregsdvöl að losa heimilið við óværuna. Og það án þess að reisa níðstöng með hrosshaus, en með því að senda mína hverja einustu norska krónu til þriggja ára í hít hyskisins. En eina orrustu varð ég að heyja til viðbótar. Ég gat nefnilega ekki látið bankanum eftir Sólhólinn við ysta haf, jafnvel þó á honum stæði bara dekurkofi. Vegna ósveigalegrar græðgi fjármálaflanna í skjóli ríkisvaldsins (eðalborinna okkar tíma)gekk hvorki né rak og að endingu kom mér til hugar, Höfuðlausn.
Þetta magnaða kvæði náttúrustemminga og manndrápa, þar sem blóðugur blærinn flytur dauðann yfir láð og lög. Aðeins ef ég gæti ráðið í það hvernig Egill færi að því að bjarga sínu á mínum tímum, því eins og öðrum hverjum manni af Kveldúlfsætt þá geðjast mér ekki að því að vera botnlaus fjáruppspretta aðalsins fyrir lífstíð, enda kannski ekki á öðru von, því ef Íslendingabók Kára fer með rétt mál er ég komin út af Agli Skallagrímssyni. Ég ákvað því að til þess að komast að leyndarmáli lausnarinnar myndi ég mála mynd af kveðskapnum og væri best að stytta sér leið og byrja á höfðinu.
Þess er skemmst að mynnast að byrjunin lofaði ekki góðu, þegar ég hafði gert lítið meira en koma blindrammanum á trönurnar fékk ég hjartaáfall af verri gerðinni, hjarnaði við á hjartadeild. Við tók nokkurra vikna endurhæfing undir handleiðslu hjúkrunarfólks og sálfræðings. Þegar ég færði tildrög minnar ófullgerðu höfuðlausnar í tal við sálfræðinginn var svarið einfalt; þessu skaltu reyna að gleyma þú hefur ekkert þrek lengur í að stofna til orrustu. Myndin lenti ókláruð upp á skáp þó svo hún væri fullkláruð í höfðinu. Það var síðan núna í vetur sem ég tók hana fram aftur og fullgerði hana enda lausnin fyrir löngu fram komin.
Þegar ég las núna Egilssögu í annað sinn með hliðsjón af myndinni þá átta ég mig á því að lofgjörð Egils í Höfuðlausn er ekki ort til Eiríks blóðöxi. Það sést á þeim náttúrustemmingum sem ljóðið hefur að geyma að þetta er ljóð um orrustuna á Vínheiði þar sem Þórólfur bróðir Egils lét lífið nokkrum árum fyrir örlagaríku nóttina í York. Sú orrusta hefur verið kölluð orrustan við Brunanburh og mun hafa markað upphafið að nútíma skipan Bretlands. Þar hafði Þórólfur gengið á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi ásamt Agli bróður sínum og víkingum þeirra.
Um liðskipan í orrustunni lét Þórólfur Aðalstein konung ráða, við mótmæli Egils, því fór sem fór, þrátt fyrir frækilegan sigur þá lét Þórólfur lífið. Lýsingarnar á Agli þegar hann kom til sigurhátíðar Englandskonungs eru magnaðar. Þar settist hann gengt konungi yggldur á brún, með sorg í hjarta og dró sverð sitt hálft úr slíðrum án þess að segja eitt aukatekið orð og smellti því svo aftur í slíðrin. Aðalsteinn hætti ekki á annað en láta bera gull og kistur silfurs í röðum til Egils um leið og hann þakkaði honum sigurinn.
Ljóðið Höfuðlausn orti Egill svo í sinni seinni Englandsferð þegar hann fór til að heilsa upp á Aðalstein Englandskonung og herma upp á hann loforð. Í enskri útgáfu ljóðsins má m.a. finna þessar hendingar;
The war-lord weaves
His web of fear,
Each man receives
His fated share:
A blood-red suns
The warriors shield,
The eagle scans
The battlefield.
----
The ravens dinned
At this red fare,
Blood on the wind,
Death in the air;
The Scotsmens foes
Fed wolves their meat,
Death ends their woes
As eagles eat.
----
Carrion birds fly thick
To the body stack,
For eyes to pick
And flesh to hack:
The ravens beak
Is crimson-red,
The wolf goes seek
His daily bread.
Þetta er varla lofgjörð til nokkurs manns þó svo Egill hafi leyft Eiríki blóðöxi að halda svo um árið í York. Það var rétt með farið hjá Leif í Borkenes að þarna er kveðið argasta níð til rangláts valds. Það er nær að ætla að Egill hafi haft bróðir sinn í huga þegar hann yrkir kvæðið þessa nótt í York. Höfuðlausn sé því í minningu Þórólfs og þeirra Þórálfa sem láta glepjast af gylliboðum um fjárhagslegan frama með þjónkun við það vald sem telur sig eðalborið til yfirgangs og græðgi.
Þó Höfuðlausn sé tvíeggjað torf og tímarnir aðrir þá en nú á dögum markaðsvæddra svartra föstudaga, lögfróðra og bankstera; er rétt að fara varlega í að útskýra fyrir blessuðu barninu hvers eðlis fuglinn er, og hafa þá efst í huga orð mankynslausnarans. "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 06:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)