Í snjallúrið vantar Völuspá um endalok karlmennskunnar

Það ættu flestir að kannast við það úr síðasta áramótaskaupi hvað karlmenn eiga orðið erfitt með að lifa án snjallúrs. Heilsan og þetta eina líf er svo mikils viðri að rökrétt þykir að setja upp forsíðustatus með bleikri slaufu einn mánuð á ári auk þess að telja skrefin á milli blárra nagla og vera vel meðvitaður um svefninn.

Vinnufélagar mínir sem fengu snjallúr í jólagjöf báru saman tæknifídusana í úrunum sínum í byrjun árs; annar spurði hinn „hvað ert þú með í stressi?“ Eftir að hafa gluggað í snjallúrinu sínu svaraði hann „svona ca. 20 vanalega“. – „Haaa,,, bara tuttugu? Ég er venjulega með á milli 50-60,,,“; og hafði hann ekki haft hugmynd um að vera svona stressaður.

Visku mannfólksins fleytir fram um leið og hún er öll að færast í tæki. Svo er komið að síðasta kynslóðin sem hefur náttúrulega heilaburði til að keyrir bíl er að renna sitt skeið, eftirleiðis verða það að mestu fjarstýrð öryggisforrit og gps leiðsögutæki sem sjá um aksturinn í gegnum 5G. Auðvitað er þetta allt gert til að við getum haft hugann við eitthvað áhugaverðara, t.d. snjallúrið.

Þessar tækniframfarir við akstur ættu ekki að þurfa að koma nokkrum á óvart ef miðað er við hve stutt er síðan að kunnátta manna við siglingar á sjó var vædd tækjum svo ekki þyrfti að rýna í himintungl og hafstrauma. Nú er sennilega fáum orðið fært að sigla eftir fallaskiptum og stjörnum og myndu segja sem svo tækjalausir í þoku; Haah, Pétur minn hvað gerum við nú.

Sjálfur hef ég ekki ennþá eignast snjallúr, ekki einu sinni haft vit á að fá mér snjallsíma með áttavita og keyri þar að auki um á bíl frá síðustu öld eins og hver annar lúser. Og kannski ekki nema von að á mér hafi bæði dunið hjartaáföll og bílslys, en það verður nú væntanlega boðið upp á fríar bólusetningar við þessu öllu saman fljótlega.

Það er samt ekki lengra síðan en á síðustu öld að gamaldags úr urðu algeng, og þá bara til að mæla tímann í mínútum og klukkustundum. Úr á ég nú reyndar ekki heldur en einhvernvegin  hefur karlrembusvíni með hrútaskíringarnar sínar bjargast með tímann í allri hjarðhegðuninni, en varla verður það mikið lengur því nú hefur öld hrútsins runnið á enda, ásamt öllu heila feðraveldinu.

Völuspá greinir frá því að í árdaga hafi goðin gengið þannig frá tímanum að hann markaðist af skiptum sólarhringsins og gangi himintungla til þess mennirnir gætu fylgst með tímanum frá degi til dags í hinu stóra samhengi, þ.e. allt frá upphafi til ragnaraka og frá þeim í nýtt upphaf. Þar þurfti hvorki að hugsa sérstaklega um mínútur né heilsuna, ótímabær dauðdagi hetjunnar var síst talinn síðri en það að leggjast í kör.

Það sem hefur breyst í hugmyndum manna til tímans á síðari árum er að hann hefur allur verið settur á tímalínu tækninnar í stað hringekju sólarinnar. Við þetta breytast hugmyndir manna um heimsendi úr því að vera tímamót, í að verða endir alls og er þá rétt betra að tóra sem lengst. Er á meðan er þar til golunni verður geispað.

Það má sjá í Völuspá að hún greinir oft frá upphafi nýs heims og ragnarökum þess gamla. Hefur tíminn því um langt skeið verið annars vegar hringferli náttúrunnar sem lýtur umhverfi og aðstæðum, svo beinlínuferli sem lýtur fæðingu og dauða einstaklingsins sem aðstæðurnar byggir og  nýtir, - eða eru það kannski öfugt, eru það aðstæðurnar sem nýta einstaklinginn. Þetta eru allavega sá mælikvarði tímans sem hafur gilt á tímum hrútaskýringanna.

Það getur verið auðveldara að gera sér grein fyrir hugmyndum um rás tímans með því að fara hann afturá bak. Og þá hvernig mennirnir breyta mörkum hans. Enda tíminn ekki annað en mælieining mannanna byggð á takmörkunum goðanna í öndverðu. Þessa mælieining hefur verið notað til að breyta upplifun mannsins á heiminum.

Í bók Tryggva Emilssonar, Baráttan um brauðið, er athyglisverð lýsing á því hvernig tímarnir breyttust 1940 við það að Breski herinn kom til Akureyrar. Þó svo Tryggvi lýsi vel hversu áhrifamikil breytingin var á tíðarandanum þá sýnir hún jafnframt, þó svo framtíð almúgans yrði miklum mun óráðnari en áður, að samt mátti lesa framtíðar tilganginn, allavega eftir á, úr atburðinum sem hann lýsir:

"Fyrstu setuliðsdagana var nokkur spenna í lofti. Enginn vissi lengra nefi sínu hvað allt þetta átti að þýða í samtímanum, hvað þá að menn sæju fetinu lengra fram í tímann. Spámenn setti hljóða, hvorki veðurlag eða draumar sögðu fyrir hvað koma mundi og ekki var mark takandi á framferði hunda eða hrafna. Tíminn, sem var því vanur að líða í vissum áföngum, hljóp úr öllum skorðum og varð helst miðaður við stríðsfréttir, eða hver spyr um sauðburð eða sláttarbyrjun eða réttir að miða barnsfæðingar við? Tunglkomur og önnur stórmerki á himni, nema sólin, týndust í rás þessa nýja tíma."

Sagt er að nútímamanneskjunni berist fleiri möguleikar á einum degi en fólki í upphafi 19. aldar stóð til boða á 7-8 ára tímabili og við hvert svar sem fáist við spurningu vakni tvær nýjar. Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á athyglisgáfu fólks, sem komist að þeirri niðurstöðu að fólk hefði misst mestan hluta tíma síns til að draga ályktanir. Þetta gerist vegna stóraukinna upplýsinga, sem allar byggja á viskunni aftur á bak.

Svo höldum áfram niður tímaspíralinn eða aftur á bak tímalínuna. Mikil tímamót urðu um 1930 þegar Ríkisútvarpið tók til starfa og hafði aðal fréttatíma sinn og veðurfregnir ásamt tímamerki í hádeginu. Fram að þeim tíma hafði fólk farið eftir stöðu sólar með matmálstíma, og tekið mið af skýjafari og hegðun dýra hvað veðrið varðaði.

Á sumrin þegar hendur þurftu að standa fram úr ermum voru fjórar máltíðir á dag. Algengt var að klukkan 8-9 væri morgunnmatur, næsta máltíð „skatturinn“, var kl 12-1. Miðdegismaturinn var aðalmáltíðin kl 4-5, kvöldmaturinn var lítil máltíð kl 9. Þessi skipan máltíða er enn í Noregi, en tók að breytast á Íslandi með tilkomu ríkisútvarpsins.

Fram eftir 20. öldinni þurfti klukkan ekki að vera það sama um allt land heldur tók hún mið af stöðu sólar á hverjum stað og stundum bara eftir því hvað hentaði. Klukkur urðu ekki almennar á Íslandi fyrr en á 19. öld fram að þeim tíma mældu menn tímann að ævafornum hætti eftir stöðu sólar á himni og hvernig hana bar við tiltekna staði í nágrenninu. Hver bær átti sín eyktarmörk, sem tíminn var miðaður við, með aðferðum allt frá því á landnámsöld, því eru til Hádegis- og Nóntindar víða um land.

Völuspá greinir reyndar ekki frá þessum smávægilegu breytingum manna við að mæla eða hafa áhrif á tímann heldur hinum stóru aldahvörfum himintunglanna, hún er í ætt við tímatal Maja Mið-Ameríku. Níu man ég heima segir Völvan snemma í þulu sinni þegar hún hefur þrætt tímann aftur á bak um stund. Síðan lýsir hún heimsmynd goða, tilurð fyrsta mannfólksins, Asks og Emblu, ragnarökum ása og manna, og að ragnarökum afloknum endurkomu Baldurs og Haðar sem voru saklausir ljúflingar í Ásgarði.

Völuspá greinir frá heimsmynd sem var á fallandi fæti við landnám Íslands þegar heiðnir menn, sem enn dvöldu á tíma goða ákváðu að setja upp þjóðveldi á Íslandi, vegna þess að þeir gátu ekki unað við hrútaskýringar miðstýrðs konungsvalds sem hafði tekið heimsmynd Rómar upp á sína arma með sitt feðraveldi og línulegu mannsævi.

Skömmu fyrir fæðingu frelsarans hafði heimurinn snúist úr öld hrútsins inn í stjörnumerki  fiskanna með endalokum blóðhefndarinnar sem laut sæmd Valhallar byggðri á fyrr um níu heimum og við tóku kristilegri viðmið, - með jarðlífinu, himnaríki og helvíti. Völuspá lýsir þessum tímamótum með ragnarökum í goðheimum og í framhaldi ragnarökum heims Asks og Emblu sem goðin blésu lífs af sínum heimi.

Fræðimönnum hefur gengið misjafnlega að staðsetja boðskap Völuspár í tíma, hvort hún lýsi heiðinni heimsmynd eða kristinni. Nærtækast er að ætla að hún lýsi þeim báðum (þ.m.t, öld hrútsins) og gefi í skin níu þar fyrir framan. Það er varla tilviljun að Ásgarðs goðin blása lífi í Ask og Emblu á svipaðan hátt og Adam og Eva eru til í Biblíu Rómarkirkjunnar.

Völuspá lýsir í lokin nýjum heimi þar sem gullið eitt mun lýsa í heiminum; Sal sér hún standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta. Ekki er um að villast að nýrri heimsmynd er lýst, sem við tekur eftir ragnarök og heimurinn er einn salur hagvaxtarins. Þar eru gull og dyggar dróttir lykilorðin.

Endalokum karlmennskunnar, eins og við þekkjum hana, er skilmerkilega lýst í ragnarökum  Völuspár og eru um upphaf þeirra óskapa hafðar þær hendingar sem best eru kunnar úr þulunni; Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla; hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir munu klofnir, vindöld, vargöld, áður en veröld steypist; mun engin maður öðrum þyrma.

Meetoo tók við af hrútaskýringunum þegar siglt var inn öld vatnsberans, að sagt er í ársbyrjun 2019. Varla hefur farið fram hjá nokkrum að á s.l. ári var jafnlaunavottun með lögleiddum kynjahalla innleidd í allt regluverk, og eru afleiðingarnar þegar farnar að líta dagsljósið með tugmilljóna bótum til þeirra drótta sem á hefur verið brotið með lögmálum sem áttu við á fyrri öldum. Þarf þessi nýi heimur þá að koma á óvart, eða hvað?

Völuspá greinir nákvæmlega frá því undir lok þulunnar hvernig nýr heimur rís, sem dyggar dróttir byggja, með þeim bræðrum Baldri og Heði sem saklausastir voru meðal goða Munu ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna, Baldur mun koma; búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel, valtívar, vitið þér enn, eða hvað?

Tíminn er endanlega kominn á línu í mannheimi og þarf ekki lengur goðsagna og sólarinnar við, akrar náttúrunnar munu vaxa án hringferlis árstíðanna, þess sjást nú þegar merki í gróðurhúsarækt og verkssmiðjubúskap. Framtíð karlmennskunnar verður í líki Baldurs og Haðar, sem voru saklausir synir stríðandi goða, harmdauði allra.

Blóðhefndin var afnumin með lögmáli sem tóku við í lok aldar hrútsins, sem lauk fyrir rúmum 2000 árum og fiskarnir eru nú að líða undir lok. Í upphafi aldar vatnsberans hefur dauðdagi hetjunnar endanlega horfið á braut. Bleikar slaufur, bleyjuskipti og snjallúrið verða eftirleiðis viðfangsefni karlmennskunnar.

En rétt eins og á þeim orðunum sem Völuspá líkur, þá mun hið næsta óþarfa hringferli sólar og himintungla hafa sinn vana gang; Þar kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; ber sér í fjöðrum, flýgur völl yfir, Níðhöggur nái, nú mun hún sökkvast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakk fyrir Magnús Sigurðsson.

Egilsstaðir, 19.01.2020  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 19.1.2020 kl. 21:25

2 identicon

Sæll Magnús og ég þakka góða hugvekju. Ég ek um á nýlegum jeppling sem er hlaðinn allskonar tölvubúnaði. En í miðju mælaborði trónir gamaldags klukka með tveim vísum. Fyrir utan hraðamælinn er þetta eina tækið um borð sem er mér hugleikið. En það er engin Völuspá í aksturstölvunni, því miður.

Bestu kveðjur.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 08:28

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sælir Jónas og Sigurður og þakka ykkur fyrir að komast í gegnum pistilinn. Þetta er hálfgerð fljótaskrift hjá mér en málið er að ég hef verið að þrælast í gegnum Völuspá nokkra undanfarna vetur og varð ekki almennileg ágengt fyrr en ég komst í greinaskrif Haraldar Bessasonar og Gísla Sigurðssonar um Völuspá í bókinni Heiðin minni.

Pistillinn er nú nokkuð í takt við þá fræðimennina nema að ég fór að þvæla stjörnumerkjunum inn í þetta og þriðja heimsendanum, þar sem hyllir þar að auki í þann fjórða.

Hefði kannski betur látið þriðja heimendinn einan duga því ég get ekki séð betur en stjörnumerkjaaldirnar sem eru ca. 2.160 ár hver gangi aftur á bak miðað við stjörnumerkja mánuðina þetta flækti bæði málið og gerði mig rammviltan þar sem ég á ekkert snjallúr til að fletta upp á þessu.

Og sennilega tæki það mig helmingi meira tíma að fá botn í það mál heldur en þau þrjú ár sem það tók að fá þó þennan botn í Völuspá.

En það hefur ekki farið fram hjá mér að hlutverk kynjanna hefur verið breytast mikið á minni ævi og alveg gríðarlega upp á síðkastið. Það má kannski segja sem svo að farið hefur fé betra en gamla karlmennskan með hrútaskýringunum.

En það koma vonandi meira krefjandi verkefni fyrir unga menn en snjallúrið þegar líður á öld vatnsberans undir stjórn dyggra drótta á Gimlé.

Ég set hérna fyrir neðan link á skemtilega útvarpsþætti Gísla Sigurðssonar um Völuspá og þar fyrir neðan link á youtube um hið stóra samhengi þar sem grillir í hina "níu heima" sem vövan man að fyrir voru.

https://www.ruv.is/utvarp/spila/voluspa/28832/8iuqg1?term=v%C3%B6lusp%C3%A1&rtype=radio&slot=1

https://www.youtube.com/watch?v=Ft1waA3p2_w&t=101s

Magnús Sigurðsson, 20.1.2020 kl. 14:28

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Athyglisverð skýring að tengja fornar lýsingar á heimsendi við hringrás náttúrunnar.

En felur þessi lýsing, sem sannarlega á við nútímann, ekki í sér heimsendi sem bæði endar hið línulega ferli, sem og hið hringlaga??

"Endalokum karlmennskunnar, eins og við þekkjum hana, er skilmerkilega lýst í ragnarökum  Völuspár og eru um upphaf þeirra óskapa hafðar þær hendingar sem best eru kunnar úr þulunni; Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla; hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir munu klofnir, vindöld, vargöld, áður en veröld steypist; mun engin maður öðrum þyrma.".

Og þá reyndar er ég ekki að spá í karlmennskuna í þessu samhengi, held að þeir sem hugsuðu hin fornu orð hefðu ekki þekkt til þessa hugtaks, hvað þá feðraveldis eða annað sem póstmódernisminn og tómhyggjan í hugsun sem í kjölfarið kom, ól af sér og á það sannmerkt að þetta er okkar sýn aftur á bak, en ekki upplifun þeirra sem lifðu og skópu samtíma sinn og við köllum einu nafni Saga í dag.

Takk fyrir enn einn yndislega pistilinn, þeir eru hugaráskorun.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.1.2020 kl. 17:49

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar og þakka þér fyrri innlitið og athugasemdina.

Þú spyrð hvort lýsing erindisins sem á við nútímann (sem og alla tíma) sé ekki endir allra ferla.

Eins og ég skil þessi orð þá er þetta erindi um endi heimsmyndar og er ég ekki viss um að á þeim tíma, - af þeim sem erindið var samið, - hafi línuleg mannsævi hafi verið til yfir höfuð. Menn kneyfðu jú öl í Valhöll og glímdu á Iðavöllum féllu þeir á þann hátt sem erindið fjallar um.

Það var ekki fyrr en í næstu heimsmynd á eftir sem feðraveldið kom til með sinni línulegu mannsævi. Og það sem meira er það var ekki fyrr en í þeirri heimsmynd sem syndir konunnar urðu það miklar að henni var drekkt eða hún grýtt, fram að því höfðu dróttir staðið jafnfætis hetjum og jafnframt voru til valkyrjur, þó svo að hlutverkaskipting hafi verið við lýði.

Hetjudauðdaginn hefur síðustu 2000 árin verið á undanhaldi enda mannsævin línuleg og til að milda áhrifin frá hringferlinu yfir á línuna var boðið upp á himnaríki eða helvíti. Nú undir lok þeirrar heimsmyndar er markmiðið klárlega að komast í kör þar sem engin Valhöll fyrirfinnst lengur og himnaríki og helvíti eru komin á hverfanda hvel. 

Af nýrri heimsmynd Völuspár - Gimlé, þar sem gullið lýsir fegurri birtu en sjálf sólin og dyggar dróttir yndis njóta, höfum við "gömlu mennirnir" fengið smjörþefinn af, eða voru það ekki dyggar dróttir sem fóru í fylkingarbrjósti orkupakkanna, eða hvað? 

Kannski er bara svo komið fyrir karlmennskunni að tími snjallúrsins er óumflúinn.

Magnús Sigurðsson, 20.1.2020 kl. 19:50

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Já, við verðum orðlausir. Eruð þið að fletta upp í kjarnanum hans Tesla? Takk.

Egilsstaðir, 25.01.2020  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 25.1.2020 kl. 00:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband