Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur

Jón hrak

IMG_1259

Það má segja að sagan af Jóni hrak verði undarlegri með hverri jarðarförinni. Ég hafði lengi hugsað mér að kanna sannleiksgildi hennar og fara að leiði þessarar dularfulli þjóðsagna persónu. En hann á að vera grafinn í gamla kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og því stutt að fara.

Í dag fórum við hjónin svo á glæsilegt kaffihlaðborð í klausturkaffi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri þar sem hægt er að éta á sig tertusvima á vöffluverði. Eftir kræsingarnar fórum við á efri hæðina og fengum leiðsögn um vistarverur Gunnars Gunnarssona, rithöfundarins sem sumir segja að hafi ekki verið verður Nóbelsins vegna óljósra tengsla við nasismann. En Gunnar er eini íslendingurinn sem vitað er til að hafi átt fund með Hitler og lengi gekk sú saga að glæsihús hans á Skriðuklaustri hafi verið teiknað af sama arkitekt og teiknaði Arnarhreiðrið fyrir Hitler.

Við vorum ein á ferð með leiðsögumanninum og fljótlega barst talið að uppgreftrinum á klaustrinu sem fór fram á fyrstu árum þessarar aldar. Klaustrið mun hafa verið nokkurskonar sjúkrahús og fólk komið víða að til að leita sér lækninga við hinum ýmsu meinum ef marka má þau bein sem upp komu úr kirkjugarðinum. Fljótlega bryddaði ég upp á áhugamáli mínu um það hvernig best væri að finna leiði Jóns hrak og vísaði leiðsögumaðurinn okkur á leiðið á mynd af uppgreftrinum á klaustrinu.

IMG_1261

 

Þjóðsögur Jóns Árnasonar hafa þetta að segja um Jón hrak:

Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:

Köld er mold við kórbak,

kúrir þar undir Jón flak.

Ýtar snúa austur og vestur

allir nema Jón flak,

allir nema Jón flak.“

Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. – Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.

Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:

Kalt er við kórbak,

hvílir þar Jón hrak;

allir snúa austur og vestur

ýtar nema Jón hrak.

Kalt er við kórbak.

Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.

Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.

IMG_1253

Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum og hafði leiðsögumaðurinn upplýst okkur um það, að þegar uppgröfturinn á klaustrinu og garðinum fór fram 2002-2012 þá hafi sérstaklega verið athugað hvort Jón væri á sínum stað undir steininum. En á honum stendur daufum stöfum JÓN HRAK. Svo einkennilega hefði viljað til að undir þeim steini fundust engin bein og ekki var hægt að ætla að önnur bein sem upp komu í þessum mikla uppgreftri tilheyrðu Jóni.

Það er því búið að grafa Jón hrak tvisvar upp samkvæmt heimildum og í annað sinn kom í ljós að hann var ekki við kórbak. Leiðsögumaðurinn hafði heyrt eina munnmælasögu sem segði að vetrarhörkur hefði verið og frost í jörðu þegar átt hafi að jarðsetja Jón og því hefðu menn sennilega losað sig við líkið á auðveldari máta. En hvar og í hvaða skipti vissi engin.


Séra Jón - aumasti prestur á Íslandi

Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.

goodfriday

Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.

Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.

Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.

Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði „aumasta prest á Íslandi“. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.

Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.

Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.

Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.

Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða „Tuttugubýla Brynki“.

Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann „aumasta prest á Íslandi“ í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.

Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).

Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.

Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.

Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.

Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu „og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.“

Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.

Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.

Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.

Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.

Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir.“ (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.

Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; „... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta ...“. Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.

Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.

Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.

Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.

Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.

Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.


Mara, sendingar og sálfarir

Fyrir stuttu var athyglisvert frásögn á Vísi, sem byggir á viðtali við þekktan sjónvarpsmann þar sem hann lýsti svefntruflunum sem höfðu angrað hann fyrr á ævinni. Truflanirnar sagði hann hafa verið líkar því að hafa eitt heilu nóttunum í forgarði helvítis. Frásögnin var notuð til fræðilegrar skýringar á því sem kallað er svefnrofalömun við kynningu á nýrri bók Erlu Björnsdóttur um svefn, en Erla er doktor í sálfræði. Í bókinni, sem heitir einfaldlega Svefn, segir að svefnrofalömun lýsi sér í því að einstaklingurinn lamast algjörlega þegar hann sofnar eða þegar hann vaknar. Þá getur hann hvorki hreyft legg né lið en er þó með fullri meðvitund. Ofskynjanir geta stundum verið hluti af svefnrofalömun en lömunin varir oftast stutt og er hægt að fá viðkomandi úr þessu ástandi með því að snerta hann eða tala við hann.

Þriðja augað líf og dauði

Það sem ekki var síður athyglisvert, en frásögn sjónvarpsmannsins, voru kommentin sem lesendur settu undir fréttina. Því flest þeirra bættu talsverðu við þessa örstuttu fræðilegu skýringu á svefnrofalömun. Í kommentum mátti finna frásagnir fólks sem hefur frá svipaðri reynslu að segja, svo sem þessar:

Þetta er ásókn illra afla handan þessa heims. Þekki þetta af eigin reynslu....

Hef upplifað þetta síðan ég var unglingur og kemur enn (51 árs) en sem betur fer ekki oft. Síðast reyndi ég að kalla á manninn minn sem var frammi (ég heyrði vel i honum) hann heyrði einhvern kalla og fór í herbergi sonar okkar því hann heyrði karlmannsrödd...ég fann líka að þetta var ekki mín rödd, heldur djúp karlmannsrödd þegar ég kallaði á hann og þurfti ég að kalla mörgum sinnum þangað til að hann áttaði sig hver þetta væri....

Ég er 42 ára og hef barist við þetta alla ævi síðasta kastið fékk ég í gær og var það mitt fyrsta á erlendri grund. Ég heyrði mikinn barnsgrátur og var sannfærður um að þar færi draugur látins barns á ferð og öskraði ég á hjálp til móður minnar sem sat ekki nema 3 metra frá mér en hún heyrði ekki píp í mér, oftast eru þetta draugar eða árar en einstaka sinnum börn að leik og grínast þau í mér og verð ég ekki hræddur....

Ég hef dílað við þetta nkl sama og þú líka síðan ég var 14 ára. Ég náði ekki að losna við þetta fyrr en ég eitt skiptið alveg ómeðvitað, ákveð að krossa mig í þessum aðstæðum....

Bara kalla á Jesú ef þetta gerist þannig sigraðist ég á þessu....

Það sama geri ég þegar ég er lömuð og veit ég um aðra konu sem kallar líka á Jesú og það virkar....

Þetta ástand hefur alltaf kallast "sálfarir", ég hef glímt við þetta síðan ég var barn og hef mikla reynslu í þessu ;) þetta gerist þegar sálin er að tengjast líkamanum eftir að hafa verið fjarverandi, þetta getur gerst bæði þegar maður er að fara að sofa og þegar maður vaknar en yfirleitt gerist þetta þegar maður vaknar, þá "lamast" maður oft á meðan sálin er að ná tengingu við líkamann....

Þetta hefur verið þekkt öldum saman og þetta er einfaldlega ásókn drauga og púka og hefur ekki með neitt annað að gera....

Það finnst flestum sínir draumar merkilegir og að þeir hljóti að boða eitthvað. Jafnframt þá hafa fáir mikinn áhuga á draumum annarra og geta venjulega tekið undir þau sjónarmið að draumar séu ekki til að hafa miklar áhyggjur af, en Erla segir; "Þetta tengist oft álagi, óreglulegum svefntímum og þetta er ekki hættulegt. Það er mjög mikilvægt að maður viti það þegar þetta gerist því þetta er mjög óhugnanlegt og óþægileg reynsla." En í þessu tilfelli þar sem martröð fylgir svefnrofalömun virðist flestir hafa frá ógn að segja og ekki er það af kommentunum að skilja að um meinlausa upplifun sé að ræða.

Án þess að fara djúpt í það, þá hef ég sjálfur orðið fyrir svipuðum upplifunum í svefni. Fyrr á ævinni tengdi ég þetta óreglu, eins kom fyrir að svipuð líkamleg áhrif gerðu vart við sig í vöku, þ.e. andnauð og brjóstverkur sem varði yfirleitt í stutta stund. Eftir að hafa gist hjartadeild fyrir 16 árum síðan, með tilheyrandi rannsóknum sem leiddu ekki ljós læknisfræðilega áhættuþætti hjartasjúkdóma né að sérstakrar eftirfylgni væri þörf, gerðist það fyrir tveimur árum að hjartað skemmdist við að upplifa þessa tilfinningu síendurtekið í vöku, sem svefni, og þá með tilheyrandi draumarugli. Hjartaáfall var eitthvað sem átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig. Vegna eftirkastanna hef ég mikið velt fyrir mér hverju sætir. Einna helst hefur mér dottið í hug aðsóknir fyrirbrigða, sem kallast í þjóðsögunum mara og sendingar.

Mara er samkvæmt þjóðtrúnni, óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Það að fá martröð er að vera troðin af möru. Í orðabók Menningarsjóðs, 1988, er mara skilgreind sem óvættur sem ætlað var að træði á fólki eða þjarmaði að því í svefni; sbr. martröð: mara treður einhvern; það hvíldi á honum eins og mara, sem í yfirfærðri merkingu þýðir að hann hafði þungar áhyggjur. Venjulega finnur sá sem fyrir martröð verður eitthvað þrýsta fast á bringu sér, svo að það verður óbærilegt. Læknavísindin rekja þetta til hindrunar á andardrætti, sökum veikinda t.d. kæfisvefn, eða jafnvel óþægilegrar legu og þess að rúmföt hafi dregist yfir vitin.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar frásagnir af fyrirbærinu. Þar er frásögn af möru sem Sveinn Jóhannesson frá Seljamýri í Loðmundarfirði fékk á Skálum á Langanesi þegar hann var þar á vertíð 1914. Það vildi þá til Sveini fannst komið að sér og lagst ofan á sig svo úr honum dró allan mátt og leið honum þá mjög illa áður en af honum létti og hann gat snúið sér. Sveinn hugsaði nú að þetta kæmi til af óhentugri legu og óhagkvæmri blóðrás. Skömmu síðar kom þó aftur fyrir það sama og öllu verra nema nú gat hann brotist um og snúið sér og hvarf þá loks maran. En enn skýrði Sveinn þetta sem fyrr á lækna vísu. Í þriðja sinn kom mara og tróð Svein. Var það nú svo lengi að honum þótti tvísýnt hversu færi þangað til hann gat rekið upp org og létti þá á honum. Þá var Sveinn orðinn reiður mjög, því skapríkur var hann þótt stilltur sé. Kallar hann þá hástöfum: Ef hér er nokkur djöfullinn sem er að ónáða og kvelja mig þá fari hann til Helvítis. Upp frá þessu tróð engin mara Svein að Skálum.

Ein frásögn Sigfúsar er frá Víðivöllum í Fljótsdal þar sem sama maran leggst hvorki meira né minna en á fjóra í svefni sömu nótt, hvern á fætur öðrum. Sá fyrsti hafði verið vakin af öðrum þegar hann varð var við martröð hans, sá sofnað síðan, en ekki sá sem fyrir mörunni varð. Síðan fær sá martröð stuttu seinna og sá sem hana fyrstur fékk vakti þá hann. Þar sem þeir lágu nú báðir andvaka verða þeir varir við að þriðji félagi þeirra er kominn með martröð svo þeir vekja hann. Þegar þeir þrír bera sig saman um hvað þá hafi dreymt var það eins hjá öllum, þeim fannst eitthvað hafa lagst ofan á sig. Á meðan þeir eru að tala saman heyra þeir uml í stúlku sem svaf við stigaskör fyrir ofan þá og vekja hana. Þegar hún var spurð hvað hefði angrað hana segir hún að einhver djöfullinn hafi lagst ofan á sig.

Fleiri sagnir af möru eru í þjóðsögum Sigfúsar og þar er m.a. sagt frá því hvað Færeyingar kalla fyrirbærið. Eins má lesa samantekt Þorsteins frá Hamri um möru í Þjóðviljanum frá því 1975 og hversu útbreidd vitneskjan um hana hefur verið frá fyrstu tíð. Mörunnar verður vart um allan heim og talið er að 1 af hverjum 5 verði fyrir barðinu á henni einhvertíma á lífsleiðinni. Á doktor.is má sjá svar Bryndísar Benediktsdóttur um möru, hún er sérfræðingur í heimilislækningum, með svefnrannsóknir sem sérsvið.

Þegar ég skoðaði hvort þjóðsögurnar greindu frá aðsóknum, þar sem svipuð líkamleg þyngsli koma fram í vöku og þegar mara treður mann í svefnrofalömun, þá rakst ég fljótlega á söguna um Brest. Þar segir frá Páli Pálssyni, sem bjó í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld og fékk sendingu sem hann vildi aldrei tjá sig um og fór því sennilega vitneskjan um hvers eðlis sendingin raunverulega var í gröfina með Páli. En þessi sending fór samt ekki fram hjá neinum sem umgengust hann í lifanda lífi eftir að ásóknin hófst. Þetta er ein þekktasta frásögn af sendingu og er í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum. Auk þess að vera ekki einungis munnmælasaga, heldur skráð heimild þegar atburðirnir gerast. Það sem vakti öðru fremur athygli mína, var ekki sagan af sendingunni sjálfri, heldur endalok Páls.

Þegar að Páll hafði flosnað upp og nokkru eftir að konan hrökklaðist að heiman, fór hann til vinar síns á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki. Vinurinn bauð hann velkominn, en fannst ekkert benda til að hann væri dauðvona. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því yrði ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi útlimakuldi Páls sem fékk mig til að taka sérstaklega eftir sögunni um Brest, því kuldinn hlyti að hafa stafað af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

Þjóðsögurnar hafa að geyma sagnir af ýmsum gerðum sendinga, og með hvaða kunnáttu þær voru uppvaktar. Tilgangur þeirra til forna er aðallega talinn hafa verið að leita fregna um það sem fram ætti eftir að koma. En á seinni öldum sýnist tilgangur sendinga  vera stefnt til höfuðs öðrum. Sigfús Sigfússon segir að munurinn á sendingum og afturgöngum sé sá að sendingar séu séu uppvaktar af eigingirni manna sem knýi þær til illra verka í sína þágu, á meðan afturgöngur fari um af eigin hvötum. Sendingum sé ætlað að fullnægja verstu hvötum mannsins s.s.heiftarhefnd og drápi, þó séu þær einnig stöku sinnum framkallaðar af fégræðgi. Algengastir voru snakkar, tilberar og árar.

Ætla mætti að allar þessar gerðir sendinga væru það sem einu nafni kallast púkar, eða djöflar í Biblíunni. En það er þó ekki svo einfalt. Samkvæmt Íslenskri orðabók Máls og menningar er sending, -ar 3 uppvakningur, sendur til að gera öðrum mein, sem er í fullu samræmi við Sigfús. Þar er djöfull 1 illur andi, andskoti, fjandi, púki, og samkvæmt sömu orðabók er púki 1 ári, smádjöfull. Þetta má svo finna um djöful í Biblíunni, Opinberun Jóhannesar 12.9; Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. Það er því nokkuð ljóst að sendingar eru í sjálfu sér ekki djöflar, heldur eru þeir sem þær uppvekja og senda, haldnir djöflum.

Reyndar er gert ráð fyrir því í flestum trúarbrögðum að jörðin sé djöfulsins. Í norrænni goðafræði var afkvæmi Loka, Miðgarðsormurinn erkifjandi Ása, sem umlukti Miðgarð mannanna. Í Múhameðstrú búa púkar meðal mannanna sem kallast Jinn, ámóta mýtur má finna í flestum trúarbrögðum. Margir líta á frásagnir Opinberunarbókar Nýja testamentisins af djöflinum, sem og annarra trúarrita, sem hið mesta óráðshjal eða í mesta lagi spádóm sem gæti átt eftir að koma fram.

En allt eins getur verið að gjörföll heimsbyggðin sé nú þegar afvegaleidd af djöflinum. Þannig að þeir sem verða fyrir því, sem kallað var sendingar sendi þær sjálfum sér. Í Nýja testamentinu er þess getið hvernig Jesú losaði þá við illa anda sem voru þeim haldnir. Matth 8.16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá er sjúkir voru læknaði hann.

"Með orði einu" hvernig má það nú vera? -það orð inniheldur vissuna um að allt fari vel. Þannig að ef trúin væntir einungis þess góða og þá verður útkoman eftir því. Þetta er sama trúin og flytur fjöll, nokkurskonar ímyndun, placebo effect. Illir andar og sjúkdómar fá ekki staðist fyrir slíku. Sömu áhrif má virkja í gagnstæða átt. Það hefur sjúkdómavæðingin gert í gegnum fjölmiðla. Þar er fólki talin trú um að það fái litlu ráðið um eigin heilsu án hjálpar lyfja, sem hefur með tímanum leitt til þess að maðurinn er sjúkasta dýrategund jarðar og hefur undirgengist þrælsok huglægs ótta.

Hvað er það sem hugsar? Það eru augun sem sjá, eyrun sem heyra, nefið sem finnur lykt, tungan bragð og fingurgómarnir sem snerta, kölluð skilningsvitin fimm. En höfum við einhverntíman velt því fyrir okkur hvað það er er sem hugsar? Sjálfsagt myndum við í fljótu bragði álykta sem svo að það værum við sjálf með heilanum. En með innrætingu frá blautu barnsbeini hefur okkur verið tamið að hugsa með heilanum á rökrænan hátt. Hugsanir eru sú tegund orku sem stýra okkur meðvitað fram á veginn.

Það hefur komið í ljós að þegar heilinn er í slökun s.s. í hugleiðslu, þá fer minna í árvekni, rökhugsun, gagnrýni og streitu. Við slökun er jafnvel talið að sálfarir geti átt sér stað, þar sem sálin yfirgefur líkamann um stund en kemur síðan aftur. Þær eiga sér því oft stað í svefni eða svefnrofum þegar hugsunin veldur ekki áreiti. Sálfarir lýsa oftar en ekki góðri tilfinningu sem inniheldur fagra drauma, en geta jafnframt verið þess eðlis að vitneskja fæst um ýmislegt sem er fjarlægt.

Stundum geta sálfarir verið ferðalag utan tíma og rúms um fjarlægar slóðir og lýst atburðum sem þar gerast án þess að sá sem förina fór hafi átt nokkurn möguleika á að vita um atburði öðruvísi. Þetta er því stundum kallað þriðja augað eða astral travel og mætti jafnvel líkja við gandreið þjóðsagnanna nema sá fararmáti þarfnaðist skuggalegri undirbúnings en hugleiðslu og slökunar.

Eitt af kommentunum við fréttina á Vísi gerði ráð fyrir að svefnrofalömun stafaði af sálförum. Annað lýsti sálförum; Sem unglingur þá gat ég stundum þegar ég var að festa svefn, ferðast úr líkamanum, horft á sjálfa mig í rúminu og svifið yfir fallega dali. (man mest eftir fallegu landslagi) Mér fannst þetta magnað og gaman, það var ekkert illt í þessu, engar verur eða neitt og tilfinningin var stórkostleg. Ég las mig til um að þetta sé algengt á unglingsárunum. Man samt ekki eftir að ég hafi lamast. Kannski annað fyrirbrigði.

Það hafa sjálfsagt allir dreymt fagra drauma í svefni þar sem þeir eru á ferð um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Fyrir nokkru dreymdi mig að ég kom á byggingarstað, sem systir mín og mágur voru að byggja sér hús í suður Frakklandi. Það var ekkert óeðlilegt við það að mig dreymdi þennan draum vegna þess að þau voru að byggja hús á þessum tíma og fluttu í það fyrir rúmu ári síðan. Draumurinn var um stað sem ég hafði einu sinni komist í grennd við áður, en það var fyrir rúmum tuttugu árum við brúðkaup litlu systur. Þá var farið í heimsókn til tengdamóður hennar, sem bjó í smábæ. Hún átti smá landskika hinu megin við götuna skáhalt á móti húsinu hennar utan í skógivaxinni hæð.

Þennan landskika hafði hún seinna gefið ungu hjónunum og á hann var ég kominn í draumi til fylgjast með húsbyggingunni. Ég horfði niður að húsi tengdamömmu systur minnar og sá því að ég var á réttum stað. Þarna kom svo systir mín með börnunum sínum án þess að þau yrðu mín vör. Þetta var kannski ekkert skrýtið vegna þess að ég hafði oftar en einu sinni rætt það við systur í síma hvar nákvæmlega húsið yrði staðsett og taldi mig vera með nákvæma mynd í huganum af því hvernig landið lá þó svo að ég hefði aldrei komið þarna megin við götuna, upp á þessa hæð.

Það sem mér fannst sérkennilegra við drauminn og gera hann óraunverulegan var hvað það var mikið af öðrum húsum ofar á hæðinni. Eftir að systir og fjölskylda höfðu flutt í húsið hugkvæmdist mér að heimsækja hana á google earth og ganga síðasta spölinn á street wiew. Og viti menn húsin sem höfðu gert drauminn óraunverulegan voru á street view nákvæmlega eins og í draumnum.

Séra Jakob Jónsson lýsir sálförum í tímaritinu Morgunn 2 tbl árið 1940. Þessa för hafði mágur hans farið til að heimsækja systur sína yfir langan veg og greint frá um leið og henni lauk. Það var því vitað að hann átti ekki að geta vitað um það sem hann varð áskynja, nema hafa verið á staðnum þegar atburðurinn gerðist. Séra Jakob hafði þetta að segja um sálfarir; Læt ég lesendum mínum eftir að hugleiða það, hvers eðlis hinar svonefndu sálfarir eru í sjálfu sér; sjálfur nota ég orðið í þeirri merkingu, að sá hluti persónuleikans, sem skynjar og hugsar, hafi fluzt um stundarsakir úr efnislíkamanum, og sé því ekki háður skynfærum hans og heilastarfsemi, svo að fundið verði.

Það má því segja að heimarnir sem við upplifum í vöku og svefni geti því allt eins verið jafn sannir og í báðum tilfellum upplifum við líf okkar. Munurinn á þessum tveimur vitundarstigum er að upplifanirnar verða til vegna mismunandi næmni okkar innra sjálfs. Draumaheimurinn er ekki bundinn þeirri rökhugsun sem okkur er innrætt frá blautu barnsbeini, hvað er raunverulegt er svo okkar að meta.

Í myndinni hér að neðan er svefnrofalömun í hinum ýmsu menningarheimum gerð skil á einstaklega áhugaverðan hátt.

 


Hrævareldar

Hrævareldur

Eru hrævareldar sem loga um nætur villuljós, sem eiga sér enga samsvörun í upplýstum heimi nútímans og eiga þar með það sameiginlegt með álfum og huldufólki þjóðtrúarinnar að hafa horfið af sjónarsviðinu þegar raflýsingin hélt innreið sína?

Eða eru hrævareldar kannski til? og gæti þá líka verið að það mætti sjá álfa við rétt skilyrði?

Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna lesturs bókar Halldórs Pálssonar um Knútsbyl, sem gekk yfir Austurland 7. janúar 1886, en þar er að finna þessa frásögn frá Ósi í Breiðdal; Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hrævarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.

Þarna er sagt þannig frá hrævareldum, líkt og þeir ættu að vera hverju mannsbarni þekktir ekki síður en norðurljósin, sem hafa heillað ljósmyndara nú á tímum. Þegar ég las frásögnina hugsaði ég með mér "já, það er mýri þarna fyrir innan fjárborgina" en í votlendi grunaði mig að gæti verið von hrævarelda, þó svo að ég hafi þá aldrei séð og þekki engan sem það hefur gert, og viti varla hvernig þessari hugmynd skaut niður í kollinn. En eitthvað truflaði hugmyndina um mýrarljósið, því Knútsbylur var fárviðri og því ekki líklegt að logi lifði í þeim veðraham, hvað þá að Jón hafi séð frá sér á móti dimmviðrinu. Því fór ég að grennslast fyrir um eðli Hrævarelda sem þjótrú fyrri alda er full af frásögnum af, en fáir virðast hafa séð nú á tímum.

Kleifarrétt

Kleifarrétt, þar sem Jón gætti fjárins niður við sjó í Knútsbyl, skarð hefur verið gert fyrir þjóðveginn í gegnum klettinn

Strax í fornsögunum er hrævarelda getið. Í Grettissögu segir frá því þegar Grettir kom til Háramarsey á Suður Mæri í Noregi og sá elda á haug Kárs gamla og gekk í hauginn, rændi gulli Kárs og afhöfðaði draug hans með sverðinu Jökulnaut. Gullið færði Grettir syni Kárs, Þorfinni bónda á Háramarsey. Samkvæmt frásögninni má ætla að það hafi verið hrævareldar eða mýrarljós, sem loguðu á haug Kárs og vísaði Grettri á grafhauginn. Því í vísu um þennan gjörning talar hann um "Fáfnis mýri" eftir að hafa áður haft á orði að "margt er smátt það er til ber á síðkveldum".

Þjóðsaga segir að sjá hafi mátt bjarma frá landi við Djúpavog, sem loga átti á haug Melsander Raben úti í Papey. En engin vissi fyrir víst hvar Melsander hafði borið beinin né hvað af auðæfum hans varð, því hvoru tveggja hvarf vofaginlega þar úti í eynni. Samt grunar mönnum að gull Melsanders kunni að vera grafið undir kirkjugólfinu. Þessi hrævarelda bjarmi sem menn töldu sig áður fyrr verða vara við út í Papey gætu því verið af sama toga og greint er frá í öllum þeim þjóðsögum, sem til eru um gull á álagablettum en þegar reynt var að grafa það upp þá sýndist kirkjan loga.

Eftir að hrævareldar hafa komið við sögu í þjóðtrúnni í þúsund ár, viðurkenna vísindi nútímans að stundum sé nokkur sannleikskorn í alþýðutrúnni. Samkvæmt Vísindavef Háskólans er skýringin á fyrirbærinu; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli".

Þó verður það að teljast undarlegt að um leið og vísindavefurinn viðurkennir hrævarelda sem eðlilegan bruna metangass, þá er þetta einnig tekið fram; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau". Það undarlega er að ef gengið er að metangasloga úr prímus, þá færist hann ekki undan. Það má því segja að vísindin komist að svipaðri niðurstöðu og þjóðtrúin gerði, þ.e. að hrævareldar geti leitt menn út í kviksyndi eða aðra villu vegar. 

Í athyglisverðri grein Ólafs Hanssonar í Mánudagsblaðinu 5. október 1959 segir; "Oft eru hrævareldar settir í samband við haugaelda og þeir taldir loga yfir gröfum, þar sem gull er fólgið. Stundum loga þeir á leiðum, þó að ekkert gull eða fé sé þar. Þetta mun ekki vera eintóm hjátrú, það er talin staðreynd, að hrævareldar sjáist mjög oft í kirkjugörðum, og mun rotnun líkanna valda þeim með einhverjum hætti. Það er ekki að furða, þótt þetta fyrirbæri í reit hinna dauðu hafi komið margvíslegri hjátrú af stað. Sú skoðun er talsvert algeng, að eldarnir séu sálir framliðinna. Einna almennust er sú skoðun, að hér séu á ferðinni sálir sjálfsmorðingja, sem séu á sífelldu reiki og finni engan frið. Líka þekkist sú trú, að hér séu andar manna, sem hafi látizt af slysförum, og reiki æ síðan um í námunda við slysstaðinn. Sú trú, að slíkir andar séu á sveimi í námd við slysstaði er mjög algeng á Íslandi".

Fjárborg

Gamla fjárborgin á Ósi hægra megin við þjóðveg 1, mýrin vinstra megin

Samt sem áður getur þetta varla verið skýringin á þeim hrævareldum sem getið er um að Jón hafi séð við fjárborgina á Ósi í Knútsbyl, þó svo mýrin sé nálæg, því varla hafa verið veðurskilyrði fyrir slíkan loga í því aftaka veðri sem talið er hafa farið yfir með fellibylsstyrk.

Á heimasíðu Veðurstofunnar segir frá hrævareldum af öðrum toga, þeim sem fylgja veðrabrigðum s.s. eldingarveðri. Þar er lýsing þriggja manneskja sem telja sig hafa upplifað hrævarelda á Eiríksjökli 20 ágúst 2011, þó svo engin hafi verið þar eldurinn. Þar segir m.a.; "Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós (will-o´-the-wisp á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri". Frásögnin á Eiríksjökli segir af hagléli og réttum viðbrögðum við eldingahættu, þegar umhverfið er orðið það rafmagnað að hárin rísa. Þessi réttu viðbrögð stemma við þau ráð sem gefin voru í þjóðtrúnni, sem sagði að ekki mætti benda á eða berja hrævarloga því þá gætu þeir ráðist á menn og brennt og ef reynt væri að slökkva hrævareld af vopni dytti maður dauður niður.

Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1772 er lýsingu úr Kjósarsýslu þar sem segir: "Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helst verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum".

Líklegast er því að hræfareldarnir sem Jón Einarsson frá Ósi sá við fjárborgina í Knútsbyl hafi stafað af völdum rafmagnaðra veðurskilyrða, svipaðra og greint er frá á síðu Veðurstofunnar að fólkið á Eiríksjökli hafi upplifað sumarið 2011. Líklega hafi þetta því verið sú tegund hrævarelda sem getið er í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, og sagt er þar að menn kalli snæljós. En greinilegt er að hrævareldar hafa verið fólki mun kunnuglegra fyrirbæri hér áður fyrr en þeir eru nú til dags. Og virðast vísindin ekki skýra til fulls þá tegund hrævarelda sem stundum voru kallaðir mýrarljós eða haugeldar.


Hér er enginn guð

IMG_3786 

Í gegnum tíðina hafa fjöllin fangað hugann, augun og fjarlægðin gert þau blá. Eitt af þeim fjöllum sem þetta á við frá því að ég fór að muna eftir er Skagafellið sem klýfur Fagradal, þar sem þjóðvegurinn liggur frá Héraði til Reyðarfjarðar, frá því sem kallað var inn í Dölum af Eiðaþinghármönnum. En nefndist Eyvindardalur í fornsögum, og er kallaður Eyvindarárdalur í dag þó þar séu dalir inn af dal. Einu nafni hafa þessir dalir á stundum verið kallaðir Reyðarfjarðardalir þó svo þeir séu í efra en ekki í neðra.

Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir, þá hef ég undanfarið haft áhuga á torfbæjum. Einn sá bær sem ég hef verið að snudda í kringum tóftirnar af eru Þuríðarstaðir sem mun hafa verið efsti bær í svokölluðum Eyvindardal. Ég hef nokkrum sinnum gert mér ferð þarna upp eftir enda ekki nema nokkurra mínútna akstur frá Egilsstöðum. Gallinn er bara sá þó svo að tætturnar séu mjög skírar í túninu þá eru Þuríðarstaðir nú æfingarsvæði skotveiðimanna. Því hef ég oftar en ekki þurft frá að hverfa enda er skotlínan í áttina að tóftunum, eða réttara sagt í bakkann þar sem þær standa. Það fór samt svo að fyrir rest tókst mér að skoða þær nokkuð vel, bæði á staðnum og með því að fljúga yfir á Google earth.

Þuríðarstaðir tættur

Meiningin var að reyna að gera mynd af bænum eftir frásögn sem ég hafði lesið. Þegar ég fór að leita eftir lýsingum af torfbæjum frá sama tíma rakst ég á aðra frásögn í Múlaþingi sem einmitt segir frá byggð í Eyvindarárdal, og viti menn þar er tilgátumynd af bænum á Þuríðarstöðum teiknuð af Páli Sigfússyni. Er ástæða til að ætla að hann hafi teiknað myndina eftir frásögn því Sigfús faðir hans bjó á næsta bæ, Dalhúsum 1928-1931. Þannig að þarna var ég komin með í kollinn ljóslifandi mynd af bænum þar sem ekki hefur verið búið síðan 1905, - með því að skoða tóftirnar og tilgátumynd Páls, sem passar við húsaskipan tóftanna, og lesa lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar frá vinnumanns ári sínu á Þuríðarstöðum. Hafði ég allt þetta þó svo bærinn hafi horfið ofan í svörðinn löngu fyrir mína tíð.

Í Múlaþings greininni er þremur efstu bæjunum í Eyvinarárdal gerð skil og því sem má finna í heimildum um fólkið þar, sérstaklega Þuríðarstöðum. En þessir bæir voru Dalhús, Kálfhóll og Þuríðarstaðir. Bærinn Kálfhóll var aðeins til um skamman tíma, en hann var byggður 1850 og fór í eiði 1864. Kálfhóll var byggður af Magnúsi Jónsyni f. 1802 og var hann uppalinn á Strönd og Kollstaðagerði en þar hafði faðir hans búið. Magnús var tvíkvæntur og það var með seinni konunni, Þuríði Árnadóttir frá Sævarenda í Loðmundafirði sem hann bjó á Kálfhól. Þau bjuggu þar með fjögur börn, tvö úr fyrra hjónabandi Magnúsar og tvö eigin, auk þess átti Þuríður dóttir sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem kemur við sögu á Þuríðarstöðum.

IMG_4836

Eyvindarárdalur séður frá Egilsstaðahálsi, með Gagnheiði, Tungufelli, Skagafelli og Hnútu í baksýn. Bærinn Kálfhóll hefur staðið fyrir miðri mynd í skugganum af Gagnheiði 

Vorið 1860 verður Magnús úti á Eskifjarðarheiði, pósturinn Níels Sigurðsson fann lík hans seinna um sumarið undir stórum steini með baggann á bakinu og skríðandi maðkinn út og inn um vitin.  Þuríður býr á Kálfhól með börnum þeirra eftir það í eitt ár. Þegar að Rósa dóttir hennar og Gísla á Þuríðarstöðum er farin að búa á Nýabæ á Hólsfjöllum flytur hún til hennar og síðan með fjölskyldunni til Ameríku. Vorið 1861 flytja Bjarni Eyjólfsson og Eygerður Gísladóttir í Kálfhól og bjuggu þar til 1864 og lauk þar með 13-14 ára ábúð. Hvergi getur um í skráðum heimildum, og ekki í þjóðsögum, að búið hafi verið á Kálfhól í annan tíma, en húsin þar munu hafa verið notuð sem beitarhús frá Dalhúsum fram til 1945 þegar hætt var að búa á þeim bæ.

Talið er að búið hafi verið á Þuríðarstöðum af og til í gegnum aldirnar og er jafnframt talið að átt sé við Þuríðarstaði í Austfirðingasögum þó bærinn sé þar ekki nafngreindur. Þjóðsagan segir að fyrst til að búa á Þuríðarstöðum hafi verið Þuríður blákinn og hún hafi verið systir Gróu á Eyvindará. Ef þjóðsagan fer með rétt mál er allar líkur á að Þuríðarstaðir hafi þegar verið í ábúð fyrir árið 1000 og jafnvel frá landnámi. Skráðar heimildir s.s. annálar, kirkju- og dómabækur virðast þó ekki hafa að geyma jafn langa búsetusögu því fyrst er á bæinn minnst með nafni í Gíslamáldaga 1575, þá sem eyðijarðar. Í Múlaþingsgrein Sigurðar Kristinssonar "Heimbyggð í Heiðardal" er sagt að bærinn hafi verið upp byggður 1856. 

"Sóknartal greinir fyrst frá býlinu í apríl 1857. Hefur því verið byggt þar upp sumarið 1856. Það gerði Gísli Nikulásson frá Dalhúsum f. um 1785 og kona hans Margrét Árnadóttir frá Gilsárteigi, 64 ára. Höfðu áður búið á Dalhúsum og Breiðavaði, áttu mörg börn þá uppkomin og flest gift. En hjá þeim var telpa á tólfta ári. Hét hún Rósa og var dóttir Gísla. Nærri sextugur tók hann fram hjá konu sinni með Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Hún var þá vinnukona á Miðhúsum. Þessi Þuríður giftist svo Magnúsi Jónssyni og þau byggðu upp á Kálfshól 1850. En Gísli og Margrét sáu um uppeldi stúlkunnar, sem fluttist fullorðin til Ameríku."

Þuríðarstaðir tilgátumynd

Tilgátuteikning Páls Sigfússonar, samkvæmt lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar er baðstofan í húsinu fyrir miðri mynd sem snýr þvert á burstirnar. Baðstofu gluggarnir hafa verið með tveimur rúðum samkvæmt frásögninni í stað fjögurra

Gísli og Margrét búa aðeins eitt ár á Þuríðarstöðum. Við tekur búsetusaga fjölda fólks og eru að mér telst til nefnd til sögunar a.m.k. 14 hjón sem ábúendur næstu 47 árin auk tuga fólks sem hafði heimili á bænum, flestir stoppa stutt við. Búsetu saga þessa fólks er mikil sorgarsaga, samkvæmt heimildum deyja á Þuríðarstöðum þennan stutta tíma þrettán manns á besta aldri, þar af sjö börn. Það heyrir til undantekninga ef fólk er lengur en 1-3 ár á bænum. Sóknarmannatal vantar frá sumum árana, en nefna má að 4 júní 1865 dó Sigurbjörg Sigurðardóttir 28 ára gömul, Hálfdán maður hennar fer á brott strax eftir lát hennar. Þau höfðu flust í Þuríðarstaði um vorið.

Átakanlegastar eru búsetur tveggja hjóna. Stefáns Jónsonar frá Kirkjubóli í Norðfirði og Guðrúnar Einarsdóttir flytja í Þuríðarstaði árið 1861 með sex börn. Sama ár í júlímánuði deyr Guðrún og í ágúst eru fjögur af börnum þeirra dáin. Árið 1892 flytja í Þuríðarstaði Friðrik Halldórsson 25 ára og Gróa Jónsdóttir 28 ára ásamt syni sínum og móður Friðriks. Sama ár í júní deyr Gróa, viku síðar Jón Björn sonur þeirra, Friðrik verður úti á Eskifjarðarheiði veturinn eftir. Eftirtektar vert er að samkvæmt skjalfestum heimildum flyst fjöldinn allur af því, fólki sem hafði viðdvöl á Þuríðarstöðum þessi ár og komst þaðan lifandi, til Ameríku.

Um aldarmótin 1900 búa þau Halldór Marteinsson úr Helgustaðhreppi og Guðrún Jósefsdóttir úr Tungu á Þuríðarstöðum, en þau hjón bjuggu þar hvað lengst eða frá 1889-1903. Aðeins þau Jón Bjarnason úr Fellum og Vilborg Indriðadóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði höfðu búið þar lengur, eða 1870-1890. Það var 1899 sem Hrólfur Kristbjörnsson hafði ráðið sig sem ársmann á Þuríðarstöðum þá 13 ára gamall. Það var frásögn hans sem varð til þess að ég fór að snudda í kringum Þuríðarstaða þúfurnar.

"Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.

Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði, og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.

Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju."

Síðustu ábúendur voru þau Gunnar Sigfússon frá Gilsárteigshlálegu í Eiðaþinghá og Anna Jónsdóttir frá Fjarðarkoti í Mjóafirði bjuggu þau þar til 1905 og lauk þar með tæplega 50 ára skráðri búsetu á þessu afdalabýli. það er samt nokkuð víst að búseta nær mun lengra aftur en skráðar heimildir herma, það segir allavega þjóðsagan.

Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá ferð Hallgríms í Sandfelli (sem svo var kallaður þó svo að hann hafi búið að Þorvaldstöðum þegar sagan gerist)og Ingibjargar ekkju á Þingmúla niður í Mjóafjörð til að falast eftir hvalreka hjá Hermanni höfðingja í Firði, en hann var uppi 1749-1837. Sagan gæti því verið 50-60 árum fyrir skráða búsetu. Þessi för varð ekki til fjár því þau frændsystkinin Hallgrímur og Ingibjörg hrökkluðust upp yfir Mjófjarðaheiði hvallaus eftir að Hermann hafði reynt heiftarlega við Ingibjörgu. Á Hermann að hafa samið vísu af þessu tilefni um kynni þeirra Ingibjargar, sem varð til ævilangra vinslita þegar hún fréttist upp í Hérað.

Í Mjóafjörðinn vasa vann

var sú bl,,, ,, neðan,

fjandans skíta frethettan

falaði hval á meðan.

Sagt var að Hallgrímur hefði verið skyldur sálmaskáldinu Péturssyni og bæri nafn hans, því eru vísur þessu tengdu mun fleiri í Þjóðsögum Sigfúsar. Gekk reyndar ævilangt á með sendingum á millum þeirra fyrrum vinanna eftir hvalreka ferðina. 

IMG_0641

Eyvindaráin fyrir neðan Þuríðarstaði í skammdegisskímunni um daginn

En þau Ingibjörg og Hallgrímur komu semsagt hrakin í snjófjúki af Mjóafjarðaheiði að Þuríðarstöðum um hánótt og ætluðu að biðjast þar gistingar. En það sem þau vissu ekki þá var að ábúendurnir voru nýlega fluttir í burtu. Þegar Hallgrímur bankaði á baðstofugluggann var honum svarað "hér er enginn guð". Fannst honum þetta skrítinn húmor. En fór inn í bæinn og fann þar ekki nokkurn mann, komst svo við illan leik út aftur og sagði för sína ekki góða þó svo að hann vildi gista í bænum. Ingibjörgu var orðið illt af hræðslu út á hlaði og tók ekki í mál að gista mann- og guðlausan bæinn. Hallgrímur fer niður að Eyvindará að sækja henni vatn að drekka og heyrir þar undarleg hljóð rétt hjá sér, en lét sér samt ekki bregða og segir "Skíttu á þig hver sem þú ert". Ætluðu sumir að Hermann hefði sent draug á eftir þeim, en fleiri álitu að það myndi hafa verið bæjarfylgjan á Þuríðarstöðum sem hefði þarna gert vart við sig, því hennar höfðu margir orðið varir.

Eftir að hafa paufast í skammdegisskímunni um rústirnar af Þuríðarstöðum, þar sem dynkirnir úr haglabyssum skotmannanna yfirgnæfðu niðinn í Eyvindaránni og hvæs haglanna þytinn í golunni þegar þau grófu sig í bakkann þar sem bærinn stóð. Jafnvel þó ég hafi lesið 50 ára hörmungarsögu íbúa kotbæjarins í þessum fallega heiðardal sem stóð undir hlíðum Gagnheiðarinnar sem gnæfir í yfir 1000 metra hæð með austfirska sjónvarpsmastrið ofaná, og með dumbbláar hlíðar Skagafellsins beint á móti. Þá varð auðvitað sú skammdegis mynd sem fæddist á striganum þessa dimmu daga eins og eftirprentun sem hékk í veglegum ramma berskuheimilisins og hafði yfirskriftina "Drottinn blessi heimilið". Gleðileg jól.

 

Þuríðarstaðir málverk

 

Heimildir;

Múlaþing 34-2007/ Heimbyggð í Heiðardal, Sigurður Kristinsson

Skriðdæla, Hrólfur Kristbjörnsson

Þjóðsögur, Sigfús Sigfússon

 


Útlægar sálir á Íslandi

Þjóðsögurnar varðveita sagnir um útilegumenn en tæpast eru allar þær sagnir taldar áreiðanlegar heimildir. En hvaða heimildir af alþýðufólki eru svo sem sannleikanum samkvæmar? Sennileg væri svarið við þeirri spurningu; þær sagnir sem skjalfestar hafa verið af yfirvaldinu í gegnum tíðina, s.s. dómsmál og annað því um líkt. Það er sigurvegarinn skráir opinberu útgáfu sögunnar, en sú sanna getur samt allt eins haldið áfram að lifa með fólkinu sem þjóðasaga. 

Þeir útilegumenn sem ekki er efast um að hafi verið uppi á Íslandi eru t.d. Halla og Eyvindur og svo náttúrulega Grettir. En þjóðsögurnar segja frá miklu fleira fólki og jafnvel heilu byggðarlögunum í afdölum inn á hálendi landsins. Stundum hafa þessi byggðalög uppgötvast í seinni tíð með því að til eru skráðar opinberar heimildir um fólk sem þar bjó og þá er hvorki um útilegumenn né þjóðsögu að ræða.

Lónsöræfi kort

Einn af þeim afdölum sem líklegt er að hafi verið byggður útilegufólki í gegnum aldirnar er Víðidalur á Lónsöræfum. Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1963 var dalnum gerð rækileg skil með tveimur greinum. Sú fyrri heitir Litizt um í Víðidal og byggir að miklu leiti á ferðabókum Þorvaldar Thoroddsen, þar má m.a. lesa;

"Víðidalur í Stafafellsfjöllum er óraleið frá mannabyggðum, og er mikið torleiði þangað að sækja um reginfjöll og jafnvel jökla. En hann er gróðursæll og á liðinni öld freistaði hann jarðnæðislausra manna. Hvað eftir annað tóku menn sig upp niðri í byggðum, fluttu í dalinn og reistu þar bú. En öræfadalurinn var harður börnum sínum, þótt hvönnin angaði ljúft á fitjum og lækjarbökkum á sumrin. Þar gerðust miklar harmsögur, og þaðan komust ekki allir lifandi. Enn er þar í gömlum túnfæti kuml þeirra, er þar biðu bana með válegum atvikum."

"Landslag er um þessar slóðir stórhrikalegra en víðast annars staðar á Íslandi, fjallstindarnir hvassir og himinháir, gljúfrin ægileg, bergtegundirnar margbreyttar og marglitar, klungrin óteljandi, skriðjöklar og hjarn skaflar í lautunum innan um eggjar og kamba. Ljósið skrámir í augu manns, er það kastast aftur frá hinum marglitu fjallshlíðum, og í fljótu bragði sýnist ófært að ferðast um slík klungur."

Illikambur

 Göngufólk á Illakambi við minni Víðidals mynd Iceland Magazine

þetta hrikalega landslag sem þarna er lýst hefur orðið vinsæl gönguleið á seinni tíð, þar sem gengið er jafnvel alla leið úr Lóni í Austur-Saftafellssýslu að Snæfelli í Norður-Múlasýslu og er sú leið nú kölluð Austurstræti. Á heimasíðu Vegagerðarinnar má einnig sjá frásögnina "Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi" sem ætla má að hafi verið fjölfarinn til forna, en þar liggur leiðin upp úr suðurdal í Fljótsdal og suður í Lón með viðkomu í Víðidal.

Frásagnir af þeirri byggð sem vitað er með vissu að var í Víðidal eru þjóðsögum líkastar. þaðan sem dagleið var til byggða hið minnsta og harðir vetur.  Ekki var búið í Víðidal Þegar náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen kom í dalinn árið 1882 í fylgd Sigfúsar Jónssonar, bónda á Hvannavöllum í Geithellnadal. Er talið að sú för og gróskan í dalnum hafi átt drjúgan þátt í ákvörðun Sigfúsar á Hvannavöllum að flytja í dalinn vorið eftir ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Jónsdóttur, og tvítugum syni þeirra, Jóni. Voru þau þriðju og síðustu ábúendurnir í dalnum sem vitað er um á 19. öld og af þeim fara mestar frásagnir.

Í sendibréfi frá Sigfúsi á Grund sem birtist í Austra 27.08.1884 lýsir hann aðdraganda flutninganna í Víðidal. "Það þótti mikið áræði af mér, jafngömlum –og ónýtum að flytja búferlum í Víðidal, jafnvondan veg sem yfir þarf að fara. Ég tók þetta fyrir því að ég fékk ekkert jarðnæði sem mér líkaði og hægt var að flytja á." Byggðu þau bæ sinn fyrst á rústum fyrri bæjar en fljótlega nokkru neðar í túninu. Bæinn nefndu þau Grund og bjuggu þar ellefu manns er flest var við þokkalegan hag í fjórtán ár eða til vors 1897. Fjárfellir í harðindum þann vetur mun hafa ráðið mestu um að þau yfirgáfu dalinn.

Kollumúli

Kollumúli við Víðidal, mynd pahuljica.blog.is

Þar áður höfðu búið í dalnum Þorsteinn Hinriksson frá Hafursá í Skógum og Ólöf Nikulásdóttir, ættuð af Síðu. Fluttu þau í Víðidal úr vinnumennsku árið 1847, með tvo kornunga syni sína og dóttur Ólafar á fermingaraldri. Settust þau að í eyðibæ eftir fyrri íbúa dalsins. Búseta þeirra hlaut hörmulegan endi á öðrum eða þriðja vetri.

"Á þrettánda degi jóla ... hljóp snjóflóð á bæinn er Þorsteinn hafði lokið húslestrinum og fórst hann ásamt báðum drengjunum. Mæðgurnar sluppu ... Ólöf viðbeinsbrotin. Lifðu þær við harmkvæli í rústunum og höfðu helst hrátt hangikjöt og slátur sér til matar, en húsdýr öll fórust ... Eru þær taldar hafa verið þarna 5-6 vikur uns þær afréðu að koma sér til byggða sökum vistaskorts. Þær villtust og grófu sig í fönn en þremur dægrum eftir það komu þær fram á svonefnda Sniðabrún fyrir ofan bæinn Hvannavelli ... Fundust mæðgurnar þarna aðframkomnar en þó tókst að bjarga þeim." (-Úr bókinni "Svei þér þokan gráa" eftir Stefaníu Gísladóttir í Seldal um ævi austfirsku skáldkonunnar Guðrúnar Ólafsdóttur).

Minnisvarði er í túninu um Þorstein og drengina tvo, þar sem talið er að bærinn hafi staðið.

Grund í Víðidal

Grund í Víðidal, mynd eirag.blog.is

Íbúar dalsins þar á undan voru þau Stefán sterki Ólafsson úr Húsavík eystri og Anna Guðmundsdóttir frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Komu þau sér upp nýbýli í Víðidal sumarið 1835 en höfðu líklega flutt þangað sumarið áður og því búið þar sem útilegufólk í eitt ár. Með þeim flutti vinnukona og smali.

Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar af þessum hjónum og sennilega er saga þeirra óvíða svo vel skráð annarsstaðar. Samkvæmt þjóðsögunum á Stefán sterki að hafa verið viðsjálvert skrautmenni, rólegur og latur. Hann var grunaður um að hafa átt þátt í dauða Eiríks á Aðalbóli, fyrri manns Önnu. Þau Anna héldust ekki við á Aðalbóli eftir dauða Eiríks, kom þar til óvild ættmenna Önnu út í Stefán.

Þau fluttust þá niður í Húsavík til Ólafs föður Stefáns sem eftirlét þeim Litlu-Breiðuvík. Ólánið elti þau, Stefán gerði hverja vinnukonuna á eftir aðra ólétta. Önnur þeirra var tilvonandi tengdadóttir Hafnarbróðirins Hjörleifs sterka og fóru þeir feðgar í heimsókn í Breiðuvík þegar þeir fréttu af óléttunni. En þá var Guðrún orðin léttar og höfðu Stefán og Anna ákveðið að láta sem Anna ætti barnið. Við þetta reiddust þeir feðgar Hjörleifur og Árni og tóku með sér þaðan Guðrúnu og barnið og hófu málaferli á hendur Stefáni. Þegar þau Stefán og Anna höfðu búið 10 ár í Breiðuvík voru þau búin að koma sér þannig að ekki var um annað að gera en að láta sig hverfa. 

Þá fór Stefán að kynna sér Víðidal því hann hafði heyrt að þar hefðu útilegumenn búið í gegnum aldirnar, hann komst að því að engin hafði eignarhald á dalnum og flutti þangað. Þau Anna bjuggu í dalnum fram undir 1840 en þá var vinnukonan farin og smalinn allur. Í þjóðsögum Sigfúsar segir svo um þetta; "Smali sá er hjá þeim hafði verið varð nú leiður á leti og ásælni Stefáns og bar þeim á milli og svo fór að drengurinn andaðist þar með skjótum og tortryggilegum atburði; gróf Stefán hann hjá kofunum. En síðar, þegar loks þau Stefán sáu sig engan fengið geta sér til aðstoðar og óhróður um lát drengsins barst til byggða, þá sáu þau sér nauðugan einn kost að flytja þaðan. Höfðu þau bein drengsins með sér og létu jarða þau að Stafafelli. Varð engin rannsókn hafin út af hans snögga fráfalli. Það var árið 1840 að þau flosnuðu upp í Víðidal. Fór Anna þá að Aðalbóli til dóttur sinnar en Stefán á flæking."  

Tröllakrókar

Tröllakrókar, mynd; Vatnajökulsþjóðgarður

Samkvæmt þjóðsögunni frétti Stefán af því að Þorsteinn og Ólöf hefðu flust í Víðidal eftir hans og Önnu daga í þá kofa sem þau höfðu byggt og sagði við það tækifæri; "Hum, hum, vel mátti hann flytja í dalinn án míns leyfis en kofana átti ég og hefði hann getað fengið leyfi mitt til þess að búa í þeim því þá á ég með öllum rétti. Mun þetta hann til ills draga." Þessi ummæli Stefáns festu margir í minni og þóttu all--ægileg því sumir hugðu hann vita fleira en almenning frá sér. Varð mönnum að trú sinni því á þriðja ári sínu þar var þorsteinn að lesa húslestur á helgidegi; þá hljóp snjó- og aurhlaup úr fjallinu og braut bæjarkofana. (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Í Þjóðsögum Sigfúsar er sagt frá Gerðissystkinunum, þeim Jóni og Sigríði sem bjuggu eftir foreldra sína í Víðivallagerði í Fljótsdal seinnihluta 17. aldar. Þegar þjóðsagan gerist "voru bæði fríð sýnum og atgerfisfólk, fullþroska, vinsæl og vel látin". Sveitungar þeirra tóku eftir því að Sigríður var ófrísk án þess að nokkur vissi til að hún hefði verið við karlmann kennd og því kom upp sú getgáta að það væri eftir Jón bróðir hennar. Á þessum árum var Jón Þorláksson sýslumaður í Fljótsdal, "eftirgangsamur um smábrot sem siður var margra stórmenna á þeirri tíð" (Stóridómur tók hart á sifjaspellsmálum). Sýlslumaður og Fljótsdælingar vildu taka Sigríði og yfirheyra hana. Á þessum tíma var Böðvar Sturluson prestur á Valþjófsstað, vinur þeirra Gerðisyssystkina. Hann taldi ekkert liggja á best væri að gefa Sigríði næði til að eiga barnið og feðra það í framhaldinu.

Þegar kom að því að sýslumaður heimsótti Víðivallagerði voru þau systkinin horfin og auðsjáanlegt á því sem þau tóku með sér að þau gerðu ekki ráð fyrir því að koma aftur, framkvæmd var ítarleg leit en árangurslaust. Sagan segir að Þorlákur prestur hafi látið gera margt undarleg næstu áratugina, m.a. látið reka fé á fjall í þeim tilgangi að það skilaði sér ekki aftur. Sent trúnaðarmann sinn um ókunnan fjallveg um há vetur uppfrá Sturluflöt í suðurdal Fljótsdal suður öræfin í þeim tilgangi að færa kolleiga sínum á Hofi í Álftafirði bréf.

Lónsöræfi

Göngufólk á Lónsöræfum, mynd; Land og saga

Eins og þjóðsagan lýsir þeim fjallvegi leynir sér ekki að um sama forna fjallveg er að ræða og má lesa um á síðu Vegagerðarinnar. Enda villtist þessi trúnaðarmaður prestsins á Valþjófstað í óveðri í afskektan dal þar sem tveir bæir voru með útilegufólki. Annar bæinn taldi hann vera byggðan af þeim systkinum í Víðivallagerði og dóttur þeirra.

Mörgum áratugum eftir að systkinin hurfu frá Víðivallagerði kom ung kona í Fljótsdal sem flestir töldu sig kannast við, var þar á ferð Sigríður dóttir þeirra Jóns og Sigríðar Víðivallagerðis systkina. Voru foreldrar hennar þá bæði dáin, lét þá Þorlákur prestur gera leiðangur eftir þeim í afskekta dalinn og voru þau jarðsett að Valþjófsstað. Þarna telur Sigfús þjóðsagnaritari um Víðidal að ræða. Margar fleiri þjóðsögur um útilegumenn í safni Sigfúsar gætu átt við Víðidal.

Eins og ætla má þá eru til mestar heimildir af síðustu íbúum Víðidals, fjölskyldum þeirra feðga Sigfúsar og Jóns sem bjuggu þar á síðustu áratugum 19. aldar. Í Sunnudagsblaði Tímans er frásögn eftir Helga Einarssona bónda og hreppstjóra á Melrakkanesi, síðar Djúpavogi, þar sem hann segir frá lífinu í Víðidal en þar ólst hann upp hjá skyldfólki á fyrstu árum ævi sinnar. Hann telur að búskapurinn í Víðidal hafi ekki verið frábrugðin þess tíma, nema hvað þar var afskekkt og erfitt með aðföng. "Fólk fékk hvort tveggja, fæði og klæði, nær eingöngu af jörðinni og sauðkindinni. Veiðiskapur var enginn, nema hvað rjúpur voru skotnar við og við að vetrinum".

Einnig vitnar Helgi í bréf sem Jón Sigfússon skrifaði honum, en Jón mun hafa haldið dagbók mest allan þann tíma sem þeir feðgar bjuggu í Víðidal. Auðbjörg Jónsdóttir vinnukona í Víðidal dó árið 1887, þar vitnar Helgi í bréf Jóns . "Dauða Auðbjargar bar með voveiflegum hætti, og hefur Jón Sigfússon sagt svo frá tildrögum þess atburðar í bréfi til mín: "Auðbjörg heitin villtist úr grasatínslu 5. Ágúst 1887, og leituðum við í viku og fundum ekki. En 20. sama mánaðar fannst hún af pabba sálaða í húsi í Þormóðshvömmum, þá með lífsmarki. Pabbi reið strax í hasti út í Kambsel. Þar bjó þá Jón Árnason, hálfbróðir pabba, og var hún dáin, þegar þeir komu inn eftir." í embættisbókum Hofsprestakalls segir og, að hún hafi dáið 20. ágúst, "varð úti á grasaheiði, fannst á Geithellnadal".

Eins segir Jón Sigfússon frá því hvað skíði voru mikið notuð af Víðidalsmönnum t.d. til dægrastyttinga. "Það bjargaði okkur í Víðidal, að við vorum allir góðir á skíðum, enda gafst okkur færi á að æfa vel skíðaferðir. Einu sinn kom mikill snjór í Víðidal. Þá var öllu gefið inni. Þá sagði ég við Bjarna frænda, að nú skyldum við taka okkur skíðatúr. "Já, hvert skulum við þá fara?" "Upp á há-Hofsjökul"; sagði ég. "Það er þá aldeilis sprettur", sagði Bjarni. Svo lögðum við af stað og gengum alltaf á skíðunum upp og alveg upp á jökulinn, þar sem hann er hæstur. Þaðan sáum við út á sjó í Álftarfirði og Búlandstind og norður á Fljótsdalsheiði. Alls staðar var hvítt, nema Kverkfjöllin voru að sjá mikið auð og randir meðfram Fellunum, helzt í Snæfellshálsinum. Ekki man ég, hvað við vorum lengi upp á jökulinn neðan frá bænum. En fimmtán mínútur vorum við niður að bænum. Úr Víðidal mátti fara til byggða á skíðum, þegar mikill snjór var, út í Lón, Álftarfjarðardali alla, til Fljótsdals og Skriðdals og Hrafnkelsdals, án þess að fara fyrst til Fljótsdals. Það var bein leið af Marköldunni í Laugarfjall, yzta hnúkinn af Fellunum og úr Laugarfelli út og norður í Aðalból".

Það er nokkuð ljóst að útilegumenn til fjalla á Íslandi hafa verið fleiri í gegnum aldirnar en Grettir, Eyvindur og Halla.


Streiti

Þau eru mörg annesin á Austfjörðunum sem vert er að skoða þó svo stundum umlyki þau dulúðleg þoka. Hérna á síðunni hefur tveimur annesjum verið gerð fátækleg skil í máli og myndum en það eru Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð og Kambanes við Stöðvarfjörð. Í vetur lét ég í fyrsta skipti verða af því að stoppa við Streiti en það er strönd annessins kölluð sem skiptir Breiðdalsvík og Berufirði. Þarna hafði ég farið framhjá ótal sinnum í gegnum tíðina án þess að stoppa. Í mars s.l. var farin sérferð til að virða fyrir sér fjallið Naphorn sem gnæfir yfir Streitisbænum en uppi í því höfðust útigangsdrengir við í Móðuharðindunum, og leiddi sú nöturlega vist til manndráps, hungurmorða og að lokum síðustu opinberu aftökunnar á Austurlandi.

IMG_8181

Eyðibýlið Streiti, fjallið Naphorn

Jörðin Streiti telst landfræðilega vera á Berufjarðarströnd en tilheyrir Breiðdalshreppi. Þar, örlítið austar, er ysti skaginn á milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar sem nefnist Streitishvarf. Í sumar fór ég svo aftur á Streiti, en þá til að skoða það sem ég hafði tekið eftir í vetur, að niður við ströndina má greina leifar af mannabyggð. Ég hafði í millitíðinni kynnt mér málið í bókunum Breiðdælu, Búkollu (Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og Þjóðsögunum.

þjóðsagan segir frá býlinu Vafrastöðum og það var það bæjarstæði sem ég vonaðist eftir að finna í sumar, því ég gat vel gert mér grein fyrir hvar aðrir bæir á Streiti hefðu staðið. Það er skemmst frá því að segja að eftir að hafa vafrað um ströndina góða morgunnstund komst ég ekki á þann stað sem mér þótti líklegast að Vafrastaðir hefðu staðið, vegna rafmagnsgirðinga og nautgripa.  

IMG_8112

Skrúðskambur sem er austast á Streitishvarfi og Breiðdalseyjar í baksýn

Það var margt að skoða í þessari fjögurra stunda gönguför. Svokallað tröllahlað er sunnan á Streitishvarfi sem nefnist Skrúðskambur. Sunnan við hvarfið tekur svo Berufjarðarströndin við með landnámsjörðinni Streiti, sem nefnt var Stræti í þremur Landnámuhandritum. Í Landnámu segir; „Skjöldólfur hét maður, er nam Stræti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.“ Það er því ekki vitað hvaðan þessi Skjöldólfur kom eða hver þessi Háleygaætt er, en í Breiðdælu má finna vangaveltur um hvort Háleygar nafnið hafi haft tengingu til Hálogalands í Noregi.

Einnig má finna vangaveltur í bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, þar sem því er velt upp að þeir landnámsmenn austanlands sem ekki er nákvæmlega getið hvaðan komu hafi í reynd verið af keltneskum uppruna, en gefin norræn nöfn í landnámu til að fela upprunann. Þetta má vel ímynda sér þegar staðið er á ströndinni Streiti og við blasir eyja með keltneskri nafngift í suðri, Papey.

IMG_8123

Vitinn á Streitishvarfi

Þó svo að Streiti hafi þótt vænleg búskaparjörð við landnám þá er hún nú í eyði. Vitað er að fram eftir öldum voru mörg býli í Streitislandi, þ.e.a.s. á Berufjarðarströndinni frá Streitishvarfi að Núpi. Þar var austast Hvarf eða Streitishvarf sem fór í eyði 1850. Streitisstekkur var austan og neðan við Streiti, sem fór í eyði 1883 eftir að bærinn brann þann 7. Desember. Þar brunni inni þau hjónin Sigurður Torfason og Sigríður Stefánsdóttir eftir að hafa bjargað út börnum sínum sem heima voru, en áttu ekki afturkvæmt frá því að reyna að bjarga kúnni úr brennandi bænum. Reistur hefur verið minnisvarði um atburð þennan við Þjóðveginn rétt fyrir ofan bæjarstæðið, enn má vel greina hvar bærinn stóð.

IMG_8135

Streitisstekkur, sjá má móta fyrir bæjarrústunum á miðri mynd til vinstri

Vafrastaðir var svo býli sem stóð sunnan við Streiti, á milli Streitis og Núps, sem sumar sagnir segja að hafi staðið svo nálægt fjallinu að þeir hafi horfið undir skriðu. Þeirra er fyrst getið 1367 og síðast eftir heimild frá því 1760. Vafrastaðir hefur verið þjóðsagnakenndur bær löngu eftir að þeirra var síðast getið, sögu þeim tengdum má bæði finna í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar(I bindi bls 288) og Jóns Árnasonar (III bindi bls 435). Einhverstaðar má samt finna þá þjóðsögu heimfærða á Núp en það er ekki líklegt að sögusviðið sé þar, vegna þess að flæðiskerin sem sagan greinir frá eru það langt frá bænum á Núpi að þau eru ekki í sjónlínu.

IMG_8170

Hugsanlega eru skerin sem fjærst eru þar sem Vafrastaðir hafa staðið

Þjóðsagan frá Vafrastöðum segir frá eineygu Mórukollu. Bóndinn hafði þann sið að fá fóstru sína hruma af elli en fjölvísa til að segja sér hvaða fé væri feigt að hausti og slátraði svo því fé sem hún valdi. Þegar kerlingin var því sem næst blind orðin leiddi hann hana að réttarveggnum eitt haustið. Þar stendur hún þegjandi um stund en bendir svo á eineyga mórukollótta kind, rytjulega, og segir allt fé þitt er feigt sonur sæll nema Mórukolla.

Þetta haust tók Vafrastaðabóndinn ekkert mark á fóstru sinni og lógaði því fé sem honum sjálfum sýndist. Veturinn varð snjóþungur og stormasamur með tilheyrandi hagaleysi. Seint á aðfangadag brá til betra veðurs og skipar þá bóndinn smalanum að beita fénu í þara á rifi sem stóð uppi á fjöru. Á meðan sat hann inn í bæ og tálgaði í sig hangikjöt af rifi úr sauðasíðu.

Smalinn kom á gluggann heima á bæ og segir; Þykkt er nú á rifi bóndi“. „Hvað kemur þér það við“ svarar bóndinn og heldur áfram að sneiða af rifjunum. Þá segir smalinn „þynnast fer nú á rifinu bóndi“. Bóndinn svarar ekki en heldur áfram að gæða sér á á hangikjötinu þar til allt er búið. Þá segir smalinn "allt er nú af rifinu". Þá heyrir bóndinn fyrst í briminu og áttar sig á því að smalinn á við féð sem var í fjörubeitinni á rifinu. Þegar hann kom út var allt fé hans komið í sjóinn og aðeins rak eina kind að landi úr briminu, en sú var eineyga rytjulega Mórukolla.

Bóndinn varð svo reiður yfir missi sínum að hann henti henni umsvifalaust í brimgarðinn, en aftur skreið eineyga Mórukolla á land. Eftir að hafa hent henni þrívegis í sjóinn og hana áfalt rekið í land, gafst hann upp. En um vorið var Mórukolla tvílembd af gimbrum og allar þær gimbrar sem út af henni komu urðu tvílembdar þannig að út af eineygu Mórukollu varð fljótleg mikill fjárstofn. Bóndanum á að hafa verið svo mikið um þetta að hann flutti frá Vafrastöðum og hafa þeir verið í eyði alla tíð síðan.

þær eru til margar þjóðsögurnar frá þessu annesi. Ein sagan seigir frá bóndanum í Skrúðskambi sem á að hafa verið bróðir Skrúðsbóndans sem bjó í Skrúði. Þeir bræður voru hálftröll sem mátti heyra kallast á þegar kyrrt var á morgnana. Eins hef ég heyrt að þriðji bróðirinn hafi búið á Hellisbjarginu í Papey og hafi tekið þátt í samræðum bræðra sinna. Sjónlína er á milli þessara staða en mikið hafa þeir bræður verið raddmiklir ef þeir hafa heyrt hvorir í öðrum.

Einnig eru til sögur frá Tyrkjaráninu árið 1627, þar sem segir frá hetjudáðum bóndans á Streiti. Tyrkjaránssaga segir frá því þegar Streitisbóndinn forðaði fólki sínu undan Tyrkjum frá Streiti yfir í Breiðdal, en þá höfðu ræningjarnir þegar hneppt fólkið á Ósi í bönd og sett yfir það gæslumenn sem flýðu til fjalls þegar Streitisfólkið bar að garði.

Þjóðsagnaritaranum Sigfúsi Sigfússyni finnst hins vegar Tyrkjaránssaga segja undarlega frá, því miðað við hvernig landið liggur sé mun líklegra að Tyrkir hafi farið Berufjarðaströndina á leið sinni í Breiðdal og þá farið fyrir Streiti á leið sinni í Ós. Þetta hefur Sigfús að segja um Tyrkjaránssögu "er því einkennilegt er það að ýmsar sagnir hafa geymst eða myndast utan við söguna sem eru einskonar viðbætur við hana og uppfylling. Þær sagnir lýsa varnartilraunum manna er sagan segir frá en sleppir þó þeim atriðum.

Eitt af þeim atriðum sem Tyrkjaránssaga sleppir er munnmælasagan um bóndann á Streiti sem sagður er hafa verið á leið með timbur úr Breiðdal yfir í Streiti þegar hann mætti 18 Tyrkjunum rétt norðan við Skrúðskamb á leið frá Streiti austur að Ósi í Breiðdal. Þar á þröngum stíg grandað hann þeim 18 talsins. Um þann atburð vitna m.a. örnefnin Tyrkjaurð, Timburklettur og Tyrkjahamar.

Munnmælin segja ýmist að Streitisbóndinn hafi náð á slá Tyrkina með planka fram af klettinum ofan í urðina eða slegið þá í rot með ístaði. Í Tyrkjaránssögu sjálfri er sagt frá timburflutningamanni sem var á leið úr Breiðdal upp í Hérað en þegar hann varð Tyrkjann var aftan við sig var hann svo nískur á timbrið að frekar en að forða sjálfum sér timburlaus þá lét hann Tyrkina ná sér.

Hvort sem Streiti hefur upphaflega heitið Stræti eins og Landnáma gefur til kynna og þá verið landkosta jörð í alfaraleið, þá breytir það því ekki að hún hefur verið í eyði í áratugi. Miðað við þann málskilning sem lagður er í nafnið Streiti nú á dögum þá er það dregið af því að streitast eða strita og gæti því verið hið rétta nafn miðað við þjóðsögurnar. Enda var ekki laust við að hendingin úr texta Bubba, Vonir og þrár, fylgdu mér á þessu eyðistrandar rölti.

Þar sem skriðan féll skúrar stóðu

minningar um hendur sem veggina hlóðu.

Myndir af fólki sem lifði hér um stund

með kindur og kött, beljur og hund. 

IMG_8128

Minnisvarði um hjónin sem brunnu inni við að bjarka kúnni á Streitisstekk


Stóridómur, Jóns og séra Jóns

Undanfarið hafa birst færslur hér á síðunni af dauðadómum yfir alþýðufólki fyrr á öldum austanlands. Í mars s.l. var síðustu aftökunnar á Austurlandi gerð skil og aðdraganda hennar. Í síðasta bloggi birti ég frásögn Magnúsar Helgasonar af Kjólsvíkurmálum, þar sem tvær manneskjur voru teknar af lífi og tvær hýddar samkvæmt laganna boði. Nú ætla ég að leggja út frá nokkrum málum sem fóru illa með fólk, þar sem dauðdómar voru upp kveðnir án þess að verða fullnægt.

Ástæðan fyrir því að þessi mál hafa leitað á hugann eru m.a. að um sumt af þessu má lesa í þjóðsögunum, og þessar þjóðsögur er hægt að sannreyna vegna þess að um þessi mál hafa varðveist dómskjöl sem seinni tíma menn hafa rannsakað og ritað um. Þjóðsögur voru eitt af mínu huppáhalds lesefni sem barn, þessu tóku þeir eftir sem mig ólu og í gegnum tíðina hefur safnast á mig bækur sem hafa þjóðsögur að geyma ásamt efni tengdu Austurlandi. Lengi framan af gaf ég mér ekki tíma til að lesa þetta efni, en hafði það alltaf á bak við eyrað að gera það þegar tími gæfist. Síðasta eitt og hálfa árið hef ég haft tíma en þá kemur í ljós að þjóðsögur eru ekki ýktar bábiljur heldur fara nær sannleikanum en opinbera þjóðarsagan.

 

SESSELJA HAMRA-SETTA

Fyrir stuttu rakst ég á söguna haf Hamra-Settu sem hefur óbeint að geyma fyrstu heimildir um Egilsstaði en það er eins og að sá staður hafi ekki verið á yfirborði jarðar fyrr en á 16. öld, svo merkilegt sem það nú er af stað sem hefur talist á krossgötum í þjóðbraut allar götur síðan. Algengasta útgáfa þjóðsögunnar af Hamra-Settu segir reyndar ekki frá neinu á Egilsstöðum, heldur af útilegukvendi á Borgarfirði eystra. En þegar nöfn þjóðsögunnar eru borin við tiltækar opinbera heimildir má finna sömu nöfn og þjóðsagan hefur að geyma í dómskjölum vegna morðs sem Sesselja Loftsdóttir var dæmd sek um á Egilsstöðum á 16. öld í málaferlum á árunum 1541-1543 skömmu fyrir siðaskiptin 1550.

Sesselja var fundin sek um að hafa myrt mann sinn Steingrím Böðvarsson sem lést árið 1540. Upphaflega var ekkert talið athugavert við andlát Steingríms, hálfu ári eftir útför hans var lík hans grafið upp í Vallneskirkjugarði til rannsóknar vegna orðróms sem var uppi um að Sesselja hefði banað honum í félagi við vinnumann sinn, Bjarna Skeggjason, en þau voru þrjú í heimili. Sesselja eignaðist barn með þessum vinnumanni sínum og það sem meira var að vinnumaðurinn hafði áður átt barn með dóttir Sesselju. Þeir sem rannsökuðu lík Steingríms skjalfestu að ekkert finnist á líkinu sem benti til manndráps en einhverra hluta vegna breyttu þeir síða framburði sínum fyrir rétti.

Eftir dauða Steingríms, en áður en á Sesselja var sökuð um morðið, þá hafði hún selt jörðina Egilsstaði nágranna sínum, Birni bónda á Eyvindará og eru þeir kaupsamningar til, en í þeim kom fram að þau höfðu gert með sér skipti á Egilsstöðum og Hólalandi í Borgarfirði eystra ásamt því sem Björn átti að greiða milligjöf í reiðufé. Sá fyrirvari var samt á þessum kaupsamning, af Björns hálfu, að ekki mættu vera meinbugir á eignarhaldi Sesselju og gengu kaupin ekki að fullu í gegn fyrr en það væri komið í ljós. Fyrirvarinn hefur sennilegast komið til vegna erfðaréttar dóttir Sesselju til Egilsstaða, sem síðar kom í ljós að hún hafði framselt til Skálholtskirkju.

Eftir að þeir sem rannsökuðu lík Steingríms breyttu vitnisburði sínum var Sesselja dæmd til dauða fyrir morð, en vinnumaðurinn ekki, Egilsstaðir voru gerðir upptækir af ríkinu þ.e.a.s. til danska kóngsins. Þetta varð ekki til að minka málaferlin og því er til margra ára heilleg saga af þessu tímabili í málskjölum. Eigendur Egilsstaða voru nefnilega orðnir þrír, Björn bóndi á Eyvindará sem hafði keypt þá alla með fyrirvara, Skálholtsbiskupstóll sem taldist eiga þá á móti ríkinu eftir að þeir höfðu verið dæmdir af Sesselju vegna morðs.

Í dómi Sesselju var athyglisverð ákvæði um það að ef hún gæti fengið 12 málsmetandi menn til að sverja fyrir sakleysi sitt þá slippi hún við dauða, þar að auki var ákvæði til vara um að hún gæti innan tiltekins tíma leitað sér griða í dómkirkjum landsins annaðhvort í Skálholti eða á Hólum, sem hún gerði að Hólum. Þetta bendir til að dómarar hafi ekki haft hreina samvisku varðandi dauðadóminn. Til eru málskjöl þar sem hún leitar á náðir Skálholtsbiskups, ári eftir að hún nær griðum á Hólum, þegar biskup er í erindrekstri á Héraði m.a. vegna Egilsstaða mála, þar fer hún fram á syndaaflausn vegna hórdómsbrotsins með vinnumanni sínum.

Þar sem málskjölum líkur, þar líkur einnig opinberri sögu Sesselju Loftsdóttur á Egilsstöðum, og ekki er vitað til þess að hún hafi sest að á Hólalandi í Borgarfirði eystra og þjóðsagan minnist ekki á þann stað. Enda er ekki útilokað að þar sé á ferð allt önnur saga sem byggi á svipuðum nöfnum, eða þau hafi brenglast að einhverju leiti í meðförum þjóðsagnaritara.

 

NÝR SIÐUR

Siðaskiptin urðu á Íslandi um miðja 16. öld. Þau eru talin vera að fullu framkvæmd með aftöku Jóns Arasonar biskups á Hólum árið 1550, en hann var hálshöggvinn um haustið það ár ásamt sonum sínum í Skálholti. Siðbreytingin hófst samt töluvert fyrir aftöku Jóns Arasonar, því árið 1539 valdi Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti Gissur Einarsson sem sinn eftirmann og var hann vígður biskup að Ögmundi lifandi. Gamli biskupinn sá brátt eftir vali sínu, þegar skoðanir Gissurar komu í ljós. Vorið 1541 komu danskir hermenn til Íslands og handtóku Ögmund gamla biskup, ætluðu að flytja hann út til Danmerkur en hann lést á leiðinni. Gissur Einarsson hafði þá frjálsar hendur við að koma hinum nýja sið á hvað Skálholt varðaði, en varð þó lítið ágengt við siðbreytinguna á meðan Hólabiskupsdæmi var enn rammkaþólskt.

Það var því ekki fyrr en Jón biskup Arason hafði verið líflátinn sem hægt var að hefjast handa að fullum krafti við siðbreytinguna. Með henni fluttust eigur kirkjunnar að miklu leiti í hendur Danakonungs þ.e. ríkisins. Við það jukust ítök Dana til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, þar sem þeir komu m.a. á hinni illræmdu einokunarverslun 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin, m.a. varð öll löggjöf strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur stóridómur, sem var grimm löggjöf í siðferðismálum. Þá má segja að kerfi sýslumanna og lögsagnara ríkisins hafi verið komið á til að framfylgja löggjöf sem kenndi sig við siðbót í samvinnu ríkis og kirkju. Sýslumannsembætti voru eftirsótt enda gátu sýslumenn ráðið tekjum sýnum eftir því hversu dugandi þeir voru í að framfylgja lögunum.

Það er í umróti siðaskiptanna sem Sesselja á Egilsstöðum er sökuð um morðið á Steingrími manni sínum og um hórdómsbrot með vinnumanni sínum. Athyglisvert er að hún verður sér út um grið vegna dauðadóms sínum í Hólakirkju sem þá var enn í biskupsdæmi Jóns Arasonar. Þegar hún leitar syndaaflausnar heima á Héraði árið 1544 þá er það hjá siðbótarbiskupnum Gissuri Einarssyni sem hélt Skálholt, enda fékk hún ekki aflausn. Það má ætla að örlög Sesselju hefðu orðið enn grimmari ef siðaskiptin hefðu verið gengin í gegn þegar málaferlin á hendur henni stóðu.

Það hefur um langan tíma verið, - og er enn siður þeirra sem lögin setja að fegra tilgang þeirra. Við siðaskiptin voru þessi lög kennd við siðbótarmenn. Stóridómur sem kom til skömmu eftir siðaskiptin og lögfestur var á alþingi árið 1564 var ekki kominn til sögunnar þegar málaferlin á Egilsstöðum áttu sér stað. Við siðaskiptin á Íslandi kom ríkið inn af fullum þunga í dómsmálum þjóðarinnar, og var það kölluð siðbót.

Siðbót eru einhver örgustu öfugmæli í lagalegu tilliti, sé litið til þess tímabils sem á eftir fór. Því í annan tíma hefur ekki öðrum eins fjölda almúgafólks verið slátrað í nafni laga á Ísland, yfirstéttinni til ágóða. Í nafni stóradóms var konum drekkt, karlmenn hálshöggnir, þjófar hengdir og þeir brenndir sem vissu meira, sakaðir um galdur. Galdrafárið gekk í garð á Íslandi með siðbótinni, þó það hafi verið árhundruðum fyrr sem það fár tröllreið Evrópu. Það var svo að segja útilokað fyrir almúgafólk að verjast ásökunum sem runnar voru undan rifjum siðbótar.

 

DAUÐADÆMDUR DÆMIR TIL DAUÐA  

Til voru menn sem höfðu uppi burði við að verja sig gegn stóradóms valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.

Kristín var 37 ára ekkja og Jón hafði þá nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.

Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með bróður síns konu. Þessi lagarök munu hafa verið sótt 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.

Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.

En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir séu á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.

Þegar svo er komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka dagsins í dag er leyst eftir að fólk hefur verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því nú er í boði okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.

Það merkilega við Jón Jónsson er að hann er síðar á ævinni dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. „ólöglega getna hórbarn“ og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur má sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varða, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.

 

UMRENNINGUR GERÐUR AÐ FÉÞÚFU 

Um Mjófirðinginn Hermann í Firði eru til margar þjóðsögur og þótti hann bæði göldróttur og viðsjárverður. Í Múlaþingi 32 – 2005 hefur Vilhjálmur Hjámarsson tekið saman ítarlegt efni af málskjölum sem til er um réttarhöld sem fram fóru í Firði árið 1813. En þar segir frá örlögum Eiríks Ólafssonar tvítugs manns sem verið hafði hjá héraðshöfðingjanum Hermanni í Firði, sennilega sem niðursetningur. Hermann kærði hann fyrir að stela frá sér mat og kom honum fyrir sýslumann sem dæmdi Eirík til hýðingar og fjársektar sem ekki var um að ræða að gæti hann greitt.

Þetta leiddi til þess að Eiríki er komið í geymslu hjá Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi í Mjóafirði til gæslu á meðan fjársektin er ógreidd. Þó svo Sveinn hreppstjóri þyrfti að fæða Eirík þá fékk hann ekkert tillegg til þess frá ríkinu þ.e. sýslumanni, enda þeir gerðir að hreppstjórum sem voru þokkalega efnaðir og það voru hjónin á Krossi. En ekki mátti hreppstjórinn notast við Eirík til vinnu. Sveinn kemur Eiríki fyrir i ókleyfum hamravogi niður við sjó svo hann sleppi ekki úr haldinu og hyggst fóðra hann þar, þetta gerir hann samkvæmt ráðum sýslumanns.

Eiríkur sleppur úr haldinu og leggst í flakk upp á Hérað þar sem hann verður að stela sér til matar, næst svo þar og er skilað til Sveins á Krossi sem hefur hann þá heima við, en þaðan sleppur hann stuttu seinna og leggst þá í flakk í Norðfirði þar dæmir sýslumaður hann til enn frekari fjársekta og þrælkunarvinnu "í hinu íslenska fangelsi" og til greiðslu málskostnaðar. Síðan er Eiríkur aftur sendur til Sveins bónda og hreppstjóra á Krossi til varðveislu uns hægt verði að fullnægja þrælkunnar dómnum "í hinu íslenska fangelsi".

Þann veturinn tekur Sveinn upp á því að láta Eirík vinna með heimilisfólki á Krossi m.a. við sjóróðra og virðist það hafa orðið til þess að Eiríkur er til friðs, enda má ætla að í staðinn hafi hann fengið fæði og húsnæði á við annað heimilisfólk. En þegar Krossverjar eru að taka upp bátinn eftir einn sjóróðurinn dettur Eiríkur niður bráðkvaddur, þann dag hittir svo á að Sveinn er í kaupstaðarverð á Eskifirði. Sveinn fer svo með lík Ólafs í bát, ásamt fleirum inn Mjóafjörð, á næsta sunnudegi og hyggst hitta prestinn í Firði. Þann sunnudag messar prestur ekki svo þeir hittast ekki, þá fer Sveinn þess á leit við Hermann "höfðingja" í Firði að fá lánaðar skóflur svo mætti jarðsetja lík Eiríks. En hann er í upphafi þessarar atburðarásar á framfæri Hermanns, sem þá sinjar Sveini um alla aðstoð.

Veðurútlit hafði verið slæmt þennan sunnudag, Sveinn og Krossverjar fara síðan róandi út Mjóafjörð eftir að komið er afleitt veður. En ná þó landi á Krossi með erfiðismunum án líks Eiríks sem hvarf frá borði. Upp úr þessu hefjast mikil réttarhöld sem fram fara í Firði sem enda með því að aleigan er því sem næst dæmd af Sveini bónda á Krossi, sem var þá fjarstaddur vegna heilsubrests, mikið af fjármunum Sveins fara í málkostnað sem sýslumaður og rekendur málsins skiptu á milli sín. Forsendur dómsins voru m.a. þær að varsla Sveins á Eiríki hafi verið svo slök að hann slapp margsinnis úr haldinu auk þess sem hann hafði að endingu brúkað hann til vinnu á Krossi og tínt að lokum líkinu.

Erfitt er að færa svona málatilbúnað til nútímalegs réttarfars, en þó má greina líkindi með máltilbúnaði þessa máls í Firði og lagaumhverfis vegna ólöglegra innflytjenda dagsins í dag, þar sem regluverkið býður upp á að lögfróðir menn einir geti farið með umboð flóttamann á kostnað skattgreiðenda í boði ríkisins. En í dag eru þó breiðu bökin fleiri, en hreppstjórans í Mjóafirði í denn, til að standa undir málskostnaðinum.

 

AUMUR LÝÐUR

Það mætti ætla að alþýða landsins hafi verið svo varnarlaus og aum að valdsmenn hafi vaðið yfir fólk að vild sinni með lögin ein að vopni. En í þjóðsögunum má líka finna frásagnir af því hvernig alþýðu fólk lét valdsmenn finna fyrir því á þann hátt að aumt hefði þótt til afspurnar.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá Bjarna Einarssyni sem bjó á 18. öld á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, Austal í Seyðisfirði og á Krossi í Mjóafirði og jafnvel víðar. Í þjóðsögunni er Bjarni sagður eiga Snjólaugu systir Hermanns í Firði, en í Ættum Austfirðinga er kona Bjarna talin Guðný dóttir Péturs Nikulássonar á Breiðavaði og Snjófríðar systur Hermanns í Firði. Hann var talinn göldróttur sjónhverfingamaður og greina sagnir Sigfúsar aðallega frá því hvernig hann náði að leyna suðaþjófnaði hvað eftir annað og m.a. með því að fá þá sem hann stal sauðunum frá til geyma þá fyrir sig.

Sigfús segir svo frá viðskiptum Bjarna við Jón Arnórsson sýslumann á Egilsstöðum, sem sennilega hefur þá verið það sem kallað var lögsagnari, svona nokkurskonar sýslufulltrúi dagsins í dag.

Það var á fyrri árum Bjarna í Austdal að sagnir segja það að Jón sýslumaður Arnórsson hafi dæmd frændkonu Bjarna til hýðingar fyrir ólöglegan barnsgetnað. Hún var í Mjóafirði og þótti mörgum of harður dómurinn. Bjarni bauð að gjalda fé fyrir hana en við það var alls eigi komandi og kom sá orðrómur í ljós að óþarflega harður þætti dómurinn.

En hvað sem í því var satt lét sýslumaður fullnægja dómnum og var stúlkan hýdd vægðarlaust. Þetta sveið Bjarna mjög. Svo segja menn að þegar sýslumaður reið upp yfir frá hýðingunni með fylgjara sínum þá sat Bjarni fyrir honum. Bjarni gerði fylgdarsvein sýslumannsins aðvaran um það að heillavænlegast væri fyrir hann að fara leið sína. Trúði hann að svo mundi vera og hélt áfram nokkurn spöl og beið þar. En Bjarni greip annarri hendi fyrir brjóstið á sýslumanni og spyr um málsúrslit.

Hann sagði sem var og heimtar að Bjarni sleppi sér. "Nei," sagði Bjarni, "en hafið þér nú gert rétt í þessu gagnvart mannúðarskyldu yðar." "Lögin heimila það," segir sýslumaður, "eða hvað viltu, kotungurinn, kenna mér réttarganginn?" „Eigi vil ég það en rétt minn og minna vil ég hafa af yður sem öðrum," segir Bjarni, "og eigi óþarfa harðbrýstni. Menn batna ekki við hana." "Ég dæmi rétt lát mig lausan," segir sýslumaður og ætlar að slíta sig frá honum, en það tjáði eigi. "Ekki nenni ég að sleppa yður svo að ég geri yður eigi áður áminningu," segir Bjarni, "og mun ég nú dæma yður á líkan hátt og þér dæmduð lítilmagnann. Skuluð þér nú reyna hversu sú hýðing er mjúk. Þér eruð ekki saklausari en stúlkan."

Eftir þetta kippti hann sýslumanni af baki og hætti eigi fyrri en hann hafði hirt hann á sama hátt og hann hafði látið hirta frændkonu Bjarna áður. Skildu þeir svo og er sagt svo að sýslumaður rétti þar aldrei hlut sinn. (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar V bindi bls. 328-329)

 

ÚTLAGAR FÓSTURJARÐARINNAR 

Þegar líða tók á lögbundna siðbótina má segja að reiði Guðs hafi farið láta á sér kræla á landinu bláa. Náttúruhamfarir bættust við ógnarstjórn og einokun, sem komið hafði verið á í landinu af þeim sem með völdin sýsluðu. Smám saman komst örbyrgð almúgans á það stig að ekki var eftir miklu að slægjast fyrir slektið.

Á 19. öldinni streymdi margt almúgafólkið vestur um haf í leit að bættum lífskjörum. Það er athyglivert að þegar þrengir að á Íslandi er það dugandi alþýðufólk sem hverfur úr landi og getur sér góðs orðs í nýjum heimkynnum, þó svo að ætla mætti að þeir sem með valdið fara þegar í óefni er komið ættu fyrstir að fljóta frá borði, en svo hefur það aldrei verið á landinu bláa.

Á öldunum 18. 19. og 20 var það rétt eins og á þeirri 21.,prelátar stjórnkerfisins sátu eftir heima, sýslumenn, lögspekingar, prestar og bankamenn. Þá, eins og nú í hinu "svokallaða hruni", var ekki nokkur  þörf meðal annarra þjóða eftir atgervi þessara gæðinga. Þeir sátu eftir við að enduræsa óskapnaðinn með nýrri ímynd, og ákváðu að nú skyldi ekki nota ímynd siðbótar eða hvað annað það sem áður hafði verið upphugsað, nú skyldi það heita hagvöxtur og fjármálastöðugleiki.

Æviráðnir stjórnmálamenn sem sem sumir hverjir töldu fólki trú um að þeir væru að fórna sér við flórmokstur í nafni velferðar, jusu líkt og skítadreifarar skuldaklyfjum slektisins yfir heimili landsins sem kostaði marga barnafjölskylduna útburð og útlegð frá ættlandinu. Allt gert í nafni fjármálastöðugleika og hagvaxtar. Svo verða sömu launþegar ríkisins hissa á að val almúgans skuli ekki vera um það að halda afrekum þeirra á lofti, eftir að hafa endurreist gamla ógeðið einu sinni enn, með öllum sínum stóradóms-siðbætta hagvaxtar þvættingi. 

Fólkið sem fór vestur um haf á öldinni 19. hefur getið sér gott orð þó svo að ferilskráin hafi verið rýr frá embættismannakerfi ættlandsins. Afkomendur þess fólks minnast gamla landsins með stolti og þar má sjá að afkomendur fyrirverða sig ekki fyrir að vera komnir út af almúga fólki sem dæmt var af slektinu heima á gamla Íslandi.

Hér má sjá eftirmæli eins afkomenda Kristínar Rustikusdóttir, þeirrar sem dæmd var til dauða og gerð eignalaus á meðan beðið var eftir svari konungs, fyrir það að verða ófrísk vinnukona á barnaheimili ekkjumanns sem hún hafði ákveðið að giftast. 

Það var ekki úrkast hinnar íslenzku þjóðar, sem vestur flutti frá menningarlegu sjónarmiði skoðað, þeir voru flestir fátækir, en þeir áttu andlegan auð og manndóms yfirburði, sem haslaði þeim völl meðal bestu manna hjá hvaða Þjóð, sem hefði verið. Þeir voru karlar í krapinu margir íslenzku leikmennirnir, bæði hvað vit, framtakssemi og höfðingsskap snerti, og í flestum og jafnvel öllum byggðum íslendinga voru þessir afburða menn — héraðshöfðingjar, sem höfuð og herðar báru yfir fjöldann. Sigbjörn Sigurðsson Hofteig, sem alla sína tíð hér vestra var héraðshöfðingi í Lyon County í Minnesota. Hann var Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur á Breiðumýri í Vopnafirði, 31. Desember 1841 Faðir hans var Sigurður Rustikusson, bónda á Breiðumýri Bjarnasonar. Kona Bjarna var Kristín Rustikusdóttir Þorsteinssonar bónda á Kóreksstöðum og víðar.

 

LÖG OG LÖGLEYSA

Stóridómur var verkfæri fégráðugra valdsmanna og jafnvel siðblindra sadista, sem notað var til að véla eignir af alþýðu bændum og halda vinnufólki í ánauð. Nú á dögum fara valdsmenn ríkisins fínna í sakirnar þegar þeir, ásamt fjármálastofnunum og lögfræðingum þeirra, sölsa undir sig eigur almúgafólks með regluverki verðbættra okurvaxta svo jaðrar við skipulega glæpastarfsemi. Vextir og verðbætur af talnaverki tíðkuðust ekki fyrr á öldum, því þurfti stóradóminn til, sem nú hefur verið afnuminn úr eignaupptöku lögunum. 

Nú er málatilbúnaðurinn af tíðarandans toga, verðtryggðir okurvextir með belti og axlaböndum vegna verðmæta sem aldri verða til nema fyrir vinnusemi fólksins. Sem vinnur fyrir slekti sem hefur ekki annað til brunns að bera en ítök í kerfi sem er notað til að skóla fólk frá vöggu til grafar í að hlíta lögum sem hefur verið komið á fyrir sjónhverfingar fárra gráðugra aurapúka.

Þau lög eru, nú sem fyrr, siðlaus þegar kemur að hjartanu og eiga sér enga bót fyrir lagaboðinu æðsta," Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig".

 

Heimildir;

Sakamál Sesselju Loptsdóttur og munnmælasagan af Hamra-settu / Austurland III bindi bls. 105-117 Halldór Stefánsson.

Molar úr sögu / Fólk og saga bls. 114-133 Benedikt Gíslason frá Hofteigi.

Eiríkur Ólafsson síðasta æviár- og ævilok / Múlaþing 32. árg. 2005 Vilhjálmur Hjálmarsson.

Þjóðsögur, Vísindavefurinn, Wikibedia og fleira sem linkað er á í bloggfærslunni.


Átján konur og fólkið í Kjólsvík

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar I bindi eru "Sögur af æðstu völdum" þar sagt frá Kjólsvíkurfólkinu undir kaflanum "Refsidómar drottins". Sú frásögn er að miklu leiti tekin upp úr Desjamýrarannál sem séra Halldór Gíslason hafði ritað nokkrum ártugum eftir að þeir atburðir gerðust sem þjóðsaga Sigfúsar greinir frá, sakamáli sem upp komu í byrjun 18. aldar í afskektu vík sunnan undir fjallinu Glettingi. Kannski hefur þessi Þjóðsaga Sigfúsar svo orðið til þess í seinni tíð að farið var að grennslast fyrir um sannleiksgildi hennar af tiltækum heimildum. 

Núna í júlí fórum við hjónin í fyrsta skipti akandi um fjallveginn ofan við víkurnar suður af Borgarfirði eystri, leiðina í Loðmundarfjörð. Áður hafði ég flogið með Stefán Scheving félaga mínum yfir þetta svæði og séð hvað það er torfarið vegna endalausra fjalla og brattlendis. Þegar við flugum þarna með ströndinni seint í vetur rifjaðist upp frásögnin af örlögum fólksins í Kjólsvík, sem var það áhrifamikil að nafnið á víkinni hafði greipst mér í minni frá því ég las um Kjólsvíkurmálin fyrir næstum tveimur áratugum síðan. En víkina þekkti ég um leið og Stebbi sagði þarna er Glettingur.

Kjólsvík

Í Kjólsvík var eitt afskekktasta býli á Íslandi

Svo var það litlu eftir að við Matthildur fórum umrædda ferð um þetta svæði, þó svo að ekki ættum við kost á því að fara í Kjólsvík því þangað kemst enginn nema fótgangandi, að þessi afskekkta vík leitaði aftur á hugann og ég ákvað að lesa frásögnina um fólkið þaðan aftur og kanna bakgrunn hennar. Frásögnin sem ég las var ekki þjóðsagan heldur greindi hún frá því hvað kemur í ljós þegar allar tiltækar heimildir eru skoðaðar. Hún er í tímaritinu Glettingi og ætla ég að leyfa mér að birta hana óstytta hér á eftir.

Ein ástæðan fyrir því að sagan bankaði upp á aftur og aftur núna í júlí var nýlegur diskur Bubba Morthens sem heitir "18 konur" og var í spilaranum í bílnum um tíma. Þar tekur Bubbi upp hanskann fyrir konur í því órétti sem þær hafa verið beittar í gegnum tíðina og syngur um 18 konur sem drekkt var á Þingvöllum í krafti Stóradóms. En konunum sem drekkt var með þessu lagaboði voru mun fleiri þó svo að ekki hafi það alltaf verið gert með viðhöfn á Þingvöllum og ekki voru það síður fátækir karlar sem mátti gjalda fyrir þennan lagabókstaf. Lög stóradóms bitnuð fyrst og fremst á fátæku fólki og um það vitna málaferlin á hendur fólkinu í Kjólsvík.

Drekkingarhylur 

Með Stóradómi voru dauðarefsingar vegna hjúskaparbrota leiddar í lög á Alþingi árið 1564, þar sem karla átti að hálshöggva en drekkja konum, en fyrstu 300-400 árin frá landnámi, þ.e. þjóðveldistímann var ekkert framkvæmdarvald á Íslandi. Fram að þeim tíma höfðu dómar yfir sekum mönnum verið þrenns konar:

Í fyrsta lagi var hægt að dæma hinn seka til að greiða bætur eða fjársekt en þegar féð hafði verið greitt var maðurinn aftur óhultur fyrir þeim sem kröfu áttu á hann.

Næsta stig var kallað fjörbaugsgarður en það fól í sér að hinn seki var dæmdur til þriggja ára brottvísunar úr landi. Þá varð hann að fara úr landi áður en þrjú sumur voru liðin frá dómi og vera í burtu í þrjú ár. Að þremur árum liðnum gat hann komið heim og lifað sem frjáls væri.

Þriðja og þyngsta refsingin kallaðist skóggangur. Sá sem var dæmdur skógargangsmaður mátti ekki vera á Íslandi. Ef hann náðist á Íslandi var hverjum sem er leyfilegt að drepa hann. Sumir skógarmenn gátu verið frjálsir í útlöndum, aðrir voru réttdræpir þar líka. Grettir Ásmundarson hlaut 20 ára skóggangsdóm en var stóran hluta hans sem útlagi á Íslandi.

Það var því ekki fyrr en landið komst undir vald Noregskonunga að refsingar dómstóla ríkisins urðu til, og má segja að kaþólska kirkjan hafi leikið stórt hlutverk sem framkvæmdavald við að framfylgja þeim, allt fram að siðaskiptum. Eftir siðaskiptin var hert mjög á líkamlegum refsingum brotamanna á Íslandi. En stóridómur fjallaði um viðurlög í frændsemi- og sifjaspellsbrotum, hórdómi og frillulífi.

Við gildistöku stóradóms færðist dóms- og framkvæmdarvald í slíkum siðferðismálum frá kirkjunni til veraldlegra yfirvalda. Á 16. og 17. öld var ráðamönnum mikið í mun að refsa fyrir afbrot og syndir almennings, meðal annars til að koma í veg fyrir reiði Guðs sem talin var geta beinst að samfélaginu í heild og um leið orðið til að æsa það illa upp með brotunum. Fyrir utan hert viðurlög var það nýmæli að veraldlegir embættismenn konungs, það er sýslumenn, skyldu nú sjá um framkvæmd refsinganna og innheimtu sekta. Næstu aldir var eftirgrennslan í þessum málum eitt helsta verkefni þeirra allan ársins hring. Fyrir siðaskipti hafði kirkjan annast siðferðisbrot og sett sakamönnum refsingar, misharðar eftir alvöru máls. Dauðadómi bar að skjóta til alþingis.

Hálshöggvinn

Fyrsta konan sem drekkt var á Þingvöllum hét Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Hún var dæmd sek um að bera ljúgvitni um að hún væri ekki ófrísk og hafa svarið sig hreina mey. Þá neitaði hún að segja til föðurins en viðurkenndi að lokum að mágur hennar væri faðirinn, enda þótt það væri aldrei sannað. Játningar voru gjarnan kallaðar fram með pyntingartæki, einskonar fingraklemmu, eins og í tilfelli Þórdísar og oft var húðstrýkingu beitt í sama skyni. Var Þórdís dæmd til drekkingar fyrir áðurnefndar sakir, þrátt fyrir mótmæli bræðra hennar og annarra ættingja. Dómnum var ekki framfylgt fyrr en að tíu árum liðnum. Á sama alþingi voru Guðbjörg Jónsdóttir og Þórarinn Jónsson tekin af lífi eftir að hafa verið dæmd sek vegna ólögmætrar barneignar, bæði voru þau af Austurlandi. Guðbjörg bar að Þórarinn frændi hennar væri faðir að barni hennar en hann svarði af sér faðernið, Guðbjörgu var drekkt og Þórarinn hálshöggvinn.

En þá er komið Kjólsvíkur málum, sem um er skrifað í tímaritinu Glettingi af Magnúsi Helgasyni. Hann leitar heimilda í frásögn sína úr Manntölum, Desjamýrarannál, Alþingisbókum, Setbergsannál, Norskulögum og í Gísla Gunnarsson. Tímaritið Glettingur er ekki til í nettæku formi því ættu allir sem áhuga hafa á Austfirsku málefnum að útvega sér blaðið í áskrift, sjálfur hef ég verið áskrifandi frá upphafi útgáfu þess.

 kjolsvik_viknaslodir_bf 

Kjólsvík

Hinn 18. Júlí 1708 var Hallfríður Magnúsdóttir, vinnukona frá Kjólsvík, leidd að hinum svokallað Drekkingahyl á Þingvöllum. Þar fann hún sitt skapadægur í köldu vatninu – dæmd af alþingi fyrir hórdóm og tilraun til barnsútburðar. Með dauða Hallfríðar var lokið hinu svokallaða Kjólsvíkurmáli, sem hófst þremur árum áður og kostaði þrjár manneskjur lífið. Þær heimildir sem hér er stuðst við, eru alþingisbækur auk frásagna úr annálum.

Kjólsvík er lítil vík sunnan undir fjallinu Glettingi og gengur þar þröngur en grösugur dalur upp milli fjallanna. Neðan undir Glettingi stendur klettur, er Kjóll heitir, og dregur víkin nafn sitt af honum. Á þessum stað var byggt eitt býli frá fornu fari.

Árið 1705 bjuggu í Kjólsvík hjónin Sigmundur Vigfússon og kona hans, Helga Þorvarðardóttir. Sigmundur var þá 46 ára en Helga tíu árum eldri. Áttu þau þrjú börn á aldrinum 8-14 ára. Hjá þeim voru vinnuhjú Hallfríður Magnúsdóttir, 34 ára, og Ólafur Kolbeinsson, ári eldri. Tveimur árum áður höfðu þau Sigmundur og Helga búið á Glettinganesi, skammt norðan Kjólsvíkur, en þangað hafði Hallfríður komið til þeirra. Á þeim tíma var Ólafur vinnumaður í Húsavík.

Á umræddu ári, 1705, fór menn að renna í grun að ekki væri allt með felldu í Kjólsvík. Í Desjamýrarannál segir: Opinberaðist það ljóta mál í Borgarfirði austur, kallað Kjólsvíkurmál. Höfundur annálsins var séra Halldór Gíslason á Desjamýri (1718-1772). Þótt annállinn sé hugsanlega ekki mjög traust heimild fyrir atburðunum, enda ekki skrifaður fyrr en nokkrum áratugum eftir að málinu lauk, ber hann þó sterkt vitni viðhorfum 18. aldar manna til þess verknaðar sem framinn var.

Í annálnum segir: Á þessum mönnum (þ.e. Sigmundi og Ólafi) lá illt orð um það, að eigi mundu umgangast siðsamlega með téðri Hallfríði. Leyfðu margir sér frekt í því að tala, þó lágt fara ætti. Á þessu ári yfir féll óvenjuleg hríða- og bjargarleysistíð. Mæltu margir það mundi standa af illu athæfi í Kjólsvík. Varð það úr þessu, að við kirkju á Mýrarstað þann 9. sunnudag í trinitatis bundu hreppstjórar það fastmælum að fara í Kjólsvík til rannsóknar. En sem heitið var staðfest, gekk veður til batnaðar. Deginum eftir tókst þessi fyrr téða ferð. Fundu þeir fyrir Helgu á smalaferð og spurðu tíðinda, en hún lést engin kunna að segja. Þar eftir fundu þeir Hallfríði að sápuþvotti, hverja þeir tóku og rannsökuðu. Fannst þá mjólk í brjóstum hennar. Þeir spurðu hana, hvað hún hefði gjört af barni sínu, en hún sagðist hafa fengið það Ólafi Kolbeinssyni. Hann, aðspurður um sama efni, sagðist hafa gengið frá því út í Flugum (í Glettingi norðan Kjólsvíkur). Þeir báðu hann sýna sér barnið og sögðust skyldi festi á honum hafa, hvað honum nauðugt var, jafnvel þó þeir réðu meira. Gekk hann svo í Flugin og tók barnið út úr holu innan í tyrju. Síðan voru þau þrjú tekin og færð til sýslumanns.

Hér kemur fram glögg lýsing á atburðum, auk viðhorfs séra Halldórs sjálfs til þess sem gerðist. Hann telur að guðleg forsjón ráði örlögum þeirra Hallfríðar og Ólafs, sem birtist m.a. í veðráttunni, er gefi til kynna vanþóknun Guðs á mannanna verkum í Kjólsvík.

Samkvæmt lögum á þessum tíma máttu vinnuhjú ekki ganga í hjónaband nema þau ættu jarðnæði og fólk utan hjónabands ekki eignast afkvæmi. Var þetta trygging samfélagsins fyrir því, að þeir sem voru eignalausir eða börn þeirra, þyrftu ekki að segja sig til sveitar. Ef fólk átti ekki eigið bú, var skylda þess að verða hjú á heimili bónda þar sem það ætti grið. Vinnuhjú í þessu samfélagi lifðu því ófrjálsu einlífi. Ef þau brutu lög var þeim refsað, þar eð þau hefðu framið svokölluð hórdómsbrot, en við þriðja broti af því tagi var dauðarefsing.

Árið 1706 voru þau Ólafur, Hallfríður og Sigmundur færð til alþingis af sýslumanni Norður-Múlasýslu. Á leið þeirra til þings, sem hefur tekið marga daga frá þessum austustu nesjum landsins, hafa þau Ólafur og Hallfríður haft talsverðan tíma hvort fyrir annað og samskipti þeirra verið mjög náin. Sýslumanni hefur tæpast þótt ástæða til að koma í veg fyrir atlot þeirra, enda hugsanlega talið augljóst að þetta fylgdarfólk sitt væri dauðasekt. Á alþingi kom málið fyrir dóm og var Ólafur dæmdur til lífláts. Á sama þingi var hann hálshöggvinn.

Sigmundur bóndi og Hallfríður vinnukona voru hins vegar dæmd til húðlátsrefsingar fyrir eiðfall og barnsmorðsins meðvitund og samhylli. Í Setbergsannál segir svo um sama mál: Höggvin var maður úr Múlasýslu á alþingi fyrir leynilegan barnsútburð, en móður barnsins vægt um lífstraffið orsaka vegna. Henni refst á alþingi og giftum manni, er vitund hér hafði og hórdómsverknað með henni framið, einnin sá maður, sem höggvinn var og barnið átti, hver að fyrr hafði í hórdóm fallið, markaður fyrir þjófnað.

Ekki er ljóst hvers vegna Hallfríður var ekki líflátin á sama þingi og erfitt að túlka orðin orsaka vegna í þessu samhengi.

Fljótlega að aflokinni Þingvallaferð, þegar Hallfríður var aftur komin heim í sitt hérað, kom í ljós að hún var þunguð í annað sinn. Kenndi hún Ólafi þungann og sagði barnið hafa komið undir á leið þeirra til alþingis. Þetta barn fæddi hún 23. mars á Kóreksstöðum, sem þá var heimili lögréttumannsins, Ólafs Andréssonar. Af fæðingarstað barnsins má vera ljóst að mönnum hefur þótt nauðsynlegt að hafa gætur á Hallfríði, enda kom í ljós, að eftir að barnið var fætt, reyndi hún að leyna því undir klæðum sínum og hugðist bera það út. Komið var í veg fyrir það og lifði barnið.

Þegar hér var komið var Hallfríður orðin sek um þrjú hórdómsbrot, tvö með Ólafi og eitt með Sigmundi, og ásetning um að bera síðara barn sitt út. Mál hennar var tekið fyrir af Bessa Guðmundssyni, þáverandi sýslumanni, á Hjaltastaðamanntalsþingi árið 1707. Sýslumaður sendi alþingi bréf um þetta mál þá um sumarið. Í alþingisbókum segir ....sýnist áðurtéðum valdsmanni með dómsmönnum téð Hallfríður Magnúsdóttir nærri dauðadómsatkvæði standa og setja svo þetta mál til fyllilegrar ályktunar lögmanna og lögréttunnar á þessu Öxarárþingi. Ákváðu þingmenn nú að dæma ekki í þessu máli fyrr en árið síðar, þar sem Hallfríður var fjarverandi.

Málið var tekið fyrir á alþingi 11. júlí 1708, að viðstöddum sakborningi. Í dómsúrskurði segir m.a.: Hallfríður Magnúsdóttir, af sinni eigin meðkenning sannprófuð af þremur hórdómsbrotum, hefur forboðið sitt líf og á að drekkjast í vatni eftir hljóðan lögmálsins, sem almennilega kallast stóridómur, nema kóngur vilji meiri miskunn á gera, segir sama lögmál. En vér álítum hún hafi þá miskunnarvon forboðið með sinni óguðlegu meðferð á sínu síðasta nýfæddu fóstri... Metum því, að þessi vesöl Hallfríður sé þeim líkust, sem láta smábörn á eyðimerkur, þar sem ólíklegt er, að menn bráðlega komi þeim til bjargar, og lögmálið segir, að hafi sitt líf forboðið... .

Viku síðar, 18 júlí, var líflátsdómnum fullnægt. Í hinum norsku lögum, sem dæmt var eftir, er þannig komist að orði, í þýðingu Magnúsar Ketilssonar: Hittist nokkur eður verður nógsamlega yfirbevísaður, að hafa annaðhvort sitt eður annars barn útborið og eftirskilið á eyðimörk, hvar menn ekki eru, eður líklegt er að menn komi, þá skal hann látast sem manndrápari, og hafa fyrirgjört lífinu, jafnvel þó barnið fyrir Guðs forsjón kunni að finnast og halda lífi.

Árið 1703, rétt fyrir atburðina í Kjólsvík var vinnuhjúastéttin fremur fámenn, ef miðað er við 19. öldina. Telur Gísli Gunnarsson sagnfræðingur, sem skrifað hefur um þetta tímabil, að megin skýringin hafi verið sú að þá hafi sveitarómagar verið margir en slíkur fjöldi er skýrt dæmi um að margt vinnufært fólk gat ekki einu sinni fengið vist vegna harðæris. Á þessum tíma hefur vinnukona, sem fæddi barn utan hjónabands, því ekki átt margra kosta völ. Miklar líkur eru til að bæði hún og barnið hefðu endað sem sveitarómagar. Samfélagið viðurkenndi ekki óvelkomin börn. Hugsanlega hafi því samfélagsaðstæður að einhverju leyti ýtt undir fyrrgreindan verknað, sem framin var í Kjólsvík.

Á sama þingi, 1708, var dæmt í máli húsfreyjunnar í Kjólsvík, Helgu Þorvarðardóttir. Hún hafði verið sökuð um yfirhylmingu í fyrra barnsútburðarmálinu. Helga var dæmd í fésekt. Í dómnum yfir henni segir, að ef hún ekki geti greitt féð, líði hún á kroppinn eftir miskunnsamri linkindartempran valdsmannsins monsr. Bessa Guðmundssonar. Í dómsúrskurði í máli hennar var vísað til hinna norsku laga. Í þeim segir: Hvar misklíð og óeining tilfellur millum manna, skal sérhver sem viðstaddur er, vera skyldugur til að hindra og koma í veg fyrir ólukku og manndráp. En ef manndráp skeður, þá að hindra manndráparann að ei uppkomist. En komist hann burtu. Þá skulu þeir allir vera skyldugir að elta hann, og færa tilbaka innan átta daga í hið seinasta.

Það þótt því sannað að húsfreyjan í Kjólsvík hefði vitað meira um útburð barns þeirra Ólafs og Hallfríðar en hún hafði látið uppi.

Heimleið þeirra Kjólsvíkurhjóna Sigmundar og Helgu af alþingi árið 1708 hefur að öllum líkindum verið erfið. Frá því að Ólafur Kolbeinsson hafði fengið vist hjá þeim, um 1704, hafði líf þeirra tekið stakkaskiptum. Dauðinn hafði umlukið tilveru þeirra. Aftökur vinnuhjúa þeirra og vitnisburður um barnsútburð hefur eflaust orðið þeim þung hugraun. Að auki voru þau bæði dæmdar manneskjur. Heima í Kjólsvík biðu þeirra þrjú börn, sjálfsagt milli vonar og ótta, undir hlíðum Glettings.Höf. Magnús Helgason, Glettingur 2.tbl 7.árg 1997

Höfundur kemur inn á að vegna harðæris þessa tíma hafi vinnukona sem eignaðist barn átt fárra kosta völ. En eftir lestur þessarar greinar um Kjólsvíkurmálið vaknar spurningin hvort vinnufólk og efnalítið bændafólk áttu nokkurra ásættanlegra kosta völ, þegar stóridómur var annarsvegar, ef barn kom á annað borð "ólöglega" í heiminn. Að loknum lestri frásagnar Magnúsar Helgasonar í Glettingi verður vart komist hjá því að íhuga hvort þjóðsagan varðveitir ekki betur sannleikann en hin opinbera saga, enda getur sú síðarnefnda yfirleitt ekki alþýðufólks nema þegar það kemst í kast við lögin.


Litu blóðs í pollinn

IMG_2639

Um Hvítasunnuleitið árið 1784 var ógeðfellt morð framið í grennd við syðsta bæ í Breiðdalshrepp, Streiti á Berufjarðarströnd, eftir að þrír ungir menn lögðust út og hugðust lifa í félagi sem útilegumenn, inn í atburðarásina blandaðist síðar fjórði austfirski unglingurinn. Örlögin höguðu því þannig að allir þessir ungu menn tíndu lífinu í framhaldi þessa Hvítasunnumorðs. Síðasta opinbera aftakan á Austurlandi var lokakaflinn í þeirri atburðarás, þegar einn þessara ungu manna var aflífaður á hroðalegan hátt á Eskifirði rúmum tveimur árum seinna. Sagan hefur ekki farið fögrum orðum um ævi og örlög þessara drengja, en spyrja má hverjir voru valkostirnir.

Árferðið 1784 var eitt það versta sem á Íslandi hefur dunið, móðuharðindin voru þá í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á lífskjörum fólksins í landinu. En árið 1783 hófust eldsumbrot á Síðumannaafrétti í Lakagígum sem sagan kallar Móðuharðindin. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um mitt sumar, hraunflóð vall fram milli Síðu og Skaftártungu með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og flókið úr flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja átthaga sína, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fénaður kom magur af fjalli ef ekki horaður og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þegar fallinn.

Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins þrjár kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Melarakkasléttu, reikaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyflin í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu. Mannfólkið var svipað leikið um vorkomuna 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði auk blóðkreppusóttar og annarra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli sveita og bæja. Þetta sumar gengu menn víða um land fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.

Ofan á þessar hörmungar bætast svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, þegar fjöllin hristu af sér jarðveginn svo gróðurtorfurnar lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bóndabæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu. Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Þó greina annálar frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið hvað skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.

Djúpivogur

Djúpivogur

Þann 10. júní 1784 var Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga staddur á Djúpavogi, en hann var búsettur á Eskifirði. Þar sem hann var í kaupmannshúsinu hjá Grönholt ritaði hann bréf til dönsku stjórnarinnar sem átti að fara með verslunarskipinu sem lá við ból úti á voginum, ferðbúið til Kaupmannhafnar. Gripið er hér niður í bréf sýslumanns; , .. tel ég það mína embættisskyldu að skýra hinu háa stjórnarráði stuttlega frá óheyrilegu eymdarástandi þessarar sýslu, sem orsakast ekki aðeins af feiknarlegum harðindum tveggja undangenginna ára, heldur hefur dæmalaus ofsi síðastliðins vetrar þreifanlega á því hert; því eftir að napur kuldi ásamt viðvarandi öskufalli og móðu af völdum eldgosa höfðu kippt vexti úr gróðri, þá þegar örmagnað búpeninginn sem fitna átti á sumarbeitinni, skall hér á strax um Mikjálsmessu (þ.e. 29. sept) svo harður vetur, að hann gerist sjaldan bitrari í marsmánuði. Hlóð þegar miklum snjó í fjöll og dali, svo að fé fennti víða á svipstundu.

Menn urðu að hætta heyskap í miðjum klíðum. Heyið lá undir snjó og spilltist. Lestir á leið að höndlunarstöðum komust ekki leiðar sinnar, en urðu að láta þar nótt sem nam. Þeir sem voru á heiðum uppi misstu ekki aðeins hesta sína úr hungri, heldur skammkól þá sjálfa í frostinu. Veðurfar þetta hélst fram í miðjan nóvember, er heldur brá til hins betra. Með nýári hófst miskunnarlaus vetrarharka með langvinnum stormum og fannfergi og svo óstjórnlegu frosti, að um 20. febrúar hafði alla firði lagt innan úr botni til ystu nesja, en slíks minnast menn ekki næstliðið 38 ár. Hér við bætist hafísinn, sem hinn 7. mars þakti svo langt sem augað eygði af hæstu fjallstindum, og hélst þessi ótíð fram á ofanverðan apríl, að heldur hlýnaði í lofti, þó ekki nóg til þess að fjarðarísinn þiðnaði eða hafísinn hyrfi frá landi fyrr en í maímánaðarlok.

Sauðfé og hross, sem hjarað höfðu af harðærin tvö næst á undan og fram á þennan ódæma harða vetur féll nú víðast hvar í sýslunni... Búendur á hinu kunna Fljótsdalshéraði, sem áður voru fjáðir og gátu sent 5-8 eða 10 hesta lestir í kaupstað, verða nú að fara fótgangandi um fjöll og heiðar og bera á sjálfum sér eina skeppu korns í hverri ferð... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti, flakk og þjófnaður ágerist svo, að ég hef síðan manntalsþing hófst haft auk annarra, sem refsað hefur verið, tvo sakamenn í haldi, sem dæma verður til Brimarhólmsþrælkunar, af því hesta er hvergi að fá til að flytja þá í fangahús landsins...

Landsbóndinn hefur misst búfjáreign sína, og missir hrossanna gerir honum með öllu ókleift að stunda atvinnu sína eða afla sér brauðs, þótt í boði væri. Sjóarbóndinn svonefndi, sem um mörg undanfarin ár hefur eins og hinn að mestu lifað af landsins gæðum, er engu betur settur...; verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema Yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara Yðar þrautpíndu fátæku undirsáta á eftirfarandi hátt.

1. Að kaupmenn konungsverslunarinnar hér í sýslu fengju með fyrsta skipi skýlaus fyrirmæli um að lána öllum bændum sýslunnar undantekningalaust nauðsynjavörur, þó í hlutfalli við þarfir og fjölda heimilisfólks.

2. Að Yður náðarsamlegast þóknaðist að gefa fátæklingunum í hreppunum, þeim sem annars féllu, tiltekinn skammt matvæla, þar sem lán sýnist ekki mundu verða til annars en sökkva þeim í skuldir, sem aldrei yrði hægt að borga

3. Eða, að Yður allramildilegast þóknaðist að flytja héðan það fólk, sem komið er á vergang og vinnufært teldist, annað hvort til Danmerkur eða annarra staða hérlendis, þar sem betur kynni að horfa, til að létta þá byrði sem það er á örsnauðum fjölskyldum, sem þreyja á býlum sínum, og bjarga þannig dýrmætu lífi margrar óhamingjusamrar manneskju, er ella hlyti að hníga í valinn ríkinu til tjóns...“

Það er í þessu árferði, á uppstigningardag, sem þrír ungu menn hittast á Hvalnesi við sunnan verðan Stöðvarfjörð og eru sagðir hafa gert með sér félag um að leggjast út. Sá elsti þeirra hét Eiríkur Þorláksson fæddur á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1763 og vistaður hjá séra Gísla Sigurðssyni á Eydölum. Umsögn séra Gísla um Eirík var á þann veg; að hann væri latur, áhugalaus um kristin fræði, hneigður til stráksskapar, þjófnaðar og brotthlaups úr vistum. Eiríkur hafði, þegar hér kemur sögu, hrökklast úr vist við norðanverðan Reyðarfjörð á útmánuðum. Hann hafði verið hjá Marteini Jónssyni útvegsbónda í Litlu-Breiðuvík í Helgustaðahreppi, sem var sagður „valinkunnur maður“, og sjósóknari í betra lagi, ekki er ólíklegt að Eiríkur hafi róið með Marteini og hafi því hrakist til neyddur úr góðri vist.

IMG_2706

Sá yngsti þeirra þriggja var Gunnsteinn Árnason, fæddur 1766, frá Geldingi (sem heitir Hlíðarendi eftir 1897) í Breiðdal. Hann hafði dvalist með foreldrum sínum framan af æfi en þau annaðhvort flosnað upp eða fyrirvinnan látist, var honum fyrirkomið sem niðursetningi á Þverhamri í Breiðdal um 12 ára aldurinn. En síðast settur niður á Einarstöðum við norðanverðan Stöðvarfjörð (þar sem þorpið á Stöðvarfirði stendur nú) og hafði þaðan hrakist í apríl byrjun. Eftir það hafði hann dregið fram lífið á flakki á milli bæja allt frá Breiðdal í Fáskrúðsfjörð. Umsögn séra Gísla á Eydölum um Gunnstein er á þann veg að hann teljist læs en latur og kærulaus um kristin fræði.

Þriðji ungi maðurinn sem kom þennan uppstigningadag í Hvalnes var Jón Sveinsson frá Snæhvammi í Breiðdal sennilega fæddur 1764. Sagður á sveitarframfæri eftir að hafa misst föður sinn sem fór niður um ís á Breiðdalsá 1772. Hann er þó skráður sá eini af fjölskyldu sinni hjá föðurbræðrum sínum í Snæhvammi 1771, svo ef til vill hefur fjölskyldunni verið tvístrað áður en faðir hans fórst. Bræður hans eru síðar skráðir niðursetningar víða um Breiðdal, en hann niðursettur að Ánastöðum 10 ára gamall og síðar í Flögu og Eyjum, en eftir það hjá Birni föðurbróðir sínum í Snæhvammi. Þennan uppstigningardag á Hvalnesi leikur grunur á að Jón hafi verið orðinn sjúkur og máttlítill. Haft var eftir Jóni Árnasyni í Fagradal sem hafði hitt nafna sinn skömmu áður, að hann hafi verið magur, en þó gangfær, og ekki kvartað um veikindi.

Eins og greina má af opinberum lýsingunum höfðu þeir félagar ekki átt sjö dagana sæla. Enda hafa þeir sem minna mega sín, allt frá fyrstu hallærum Íslandssögunar, átt verulega undir högg að sækja. Sagnir herma að fyrsta hungursneiðin eftir að land byggðist hafi verið kölluð „óöld“ (975) „Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var þá étin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir drepnir.“ Í Flateyjarbók segir að árið 990 hafi verið svo mikið hallæri á Íslandi, að fjöldi manna hafi dáið úr sulti. Þá var samþykkt á héraðsfundi í Skagafirði, að reka út á gaddinn öll gamalmenni og vanheila, og banna að veita þeim hjálp. (En Arnór kerlinganef, sem kannski var kallaður svo vegna afstöðu sinnar, kom í veg fyrir að þetta væri gert). Því þarf kannski ekki að koma á óvart, miðað við árferðið þetta vor, að þessir þrír ungu menn hafi látið sig dreyma um betra líf sem útilegumenn.

UntitledÞeir félagar Eiríkur, Gunnsteinn og Jón lögðu upp frá Hvalnesi við Stöðvarfjörð að kvöldi uppstigningardags þann 20 maí 1784, sennilega án þess að nokkur sakanaði þeirra, enda vafalaust lítið til skiptana handa gestum og gangandi í því árferði sem ríkti, hvað þá handa ómögum. Fóru þeir fyrir Hvalnesskriður(nú er algengara að kalla bróðurpart lands Hvalness við Stöðvarfjörð, Kambanes, og hluti fyrrum Hvalnesskriða er kallaður Kambaskriður). Þar hefur hafísinn lónað úti fyrir ef marka má bréf Jóns sýslumanns. Þeir fóru yfir í Snæhvamm í Breiðdal og eru sagðir hafa gist þar hjá frændum Jóns. Síðan fara þeir yfir í Þverhamar og sagði Gunnsteinn þá hafa gist í fjósinu, hafa kannski ekki gert vart við sig hjá Höskuldi hreppstjóra Breiðdælinga þar sem Gunnsteinn hafði verið niðursettur nokkru fyrr. Á þriðja degi fluttu þeir sig suður í Krossdal gegnt Breiðdalseyjum þar sem þeir hafast við í kofa eina nótt og þaðan fara þeir upp í miðja kletta í fjallinu Naphorni á Berufjarðarströnd, við Streiti syðsta bæ í Breiðdalshreppi. Þar gerðu þeir sér sér byrgi og bjuggu um sig upp í klettarák. Þegar þarna var komið var Jóni Sveinssyni ekki farið að lítast á blikuna og vildi draga sig úr félagskapnum. Enda orðin það sjúkur að hann taldi sig betur kominn í byggð. Eiríkur aftók það með öllu.

IMG_2674

Neðst á myndinni má greina bæinn Streiti þar sem hann kúrir undir Naphorninu

Í fyrstu reyndu þeir að seðja hungrið með því að grafa upp hvannarætu ofan við klettana við Streiti, þar sem Stigi heitir, en fóru fljótlega heim að Streiti, rufu þar þak á útihúsi og stálu fiski og kjöti. Jón stóð álengdar en tók ekki þátt vegna sjúkleika og máttleysis. Vildi hann fara heim að bæ og leita þar hjálpar. En félagar hans vantreystu honum og tóku hann aftur með sér upp í klettana í Naphorninu, þar sem þeir lágu fyrir næstu daga. Jón fór þar úr öllum fötunum og fór að leit á sér lúsa. Það, og vegna þess hvað hann var orðin veikur og vælgjarn, virðist hafa orðið til þess að Eiríkur stekkur að honum, kannski í bræðikasti, hefur hann undir, sker úr honum tunguna og stingur hann síðan með hnífnum í brjóstið. Gunnsteinn segist hafa látið sem hann svæfi og ekki hafa séð svo gjörla hvað fram hafi farið á milli þeirra Eiríks og Jóns. En þarna var samt enn óljóst hvort Jón var lífs eða liðin, þegar þeir félagar yfirgáfu hann eftir að hafa hent fötum hans yfir hann.

Héldu þeir Eiríkur og Gunnsteinn síðan af stað inn Berufjörð og fengu sig ferjaða yfir fjörðinn við þiljuvelli. Segir lítið af ferðum þeirra fyrr en suður í Álftafirði, þar sem þeir voru fljótlega handteknir vegna suðaþjófnaðar á Melrakkanesi. Á Geithellum, þann 12. Júní, dæmir Jón Sveinson sýslumaður þá Eirík og Gunnstein til húðstrýkingar fyrir suðaþjófnað, en um þetta leiti hefur hann verið á ferð við Djúpavog eins og bréf hans til Stjórnarinnar í Kaupmannahöfn þann 10. júní ber með sér hér að ofan. Kannski hafa þeir tveir verið sakamennirnir sem hann telur í bréfinu að verði að dæma til Brimarhólmsvistar en endirinn á verið húðstrýking þar sem engir hestar hafi verið tiltækir til flutninga á föngum.

Þegar það svo fréttist í Breiðdal að þeir félagar hafi verið handteknir í Álftafirði vekur það undrun að Jón skuli ekki hafa verið með þeim. Gunnsteinn sagði frá því í Álftafirði að Jón hafi verið með þeim í upphafi útilegunnar en þeir hafi skilið við hann á milli Streitis og Núps þar sem hann hafði viljað leita sér hjápar vegna lasleika. Þegar Gunnsteinn kom svo aftur í Breiðdal að áliðnu sumri játaði hann fyrir séra Gísla í Eydölum og Höskuldi hreppstjóra á Þverhamri, hvar lík Jóns myndi vera að finna. Voru tveir menn á Streiti fengnir með þeim Gísla, Höskuldi og Gunnsteini til að sækja líkið eftir leiðsögn Gunnsteins. Aðkoman var ekki geðsleg, líkið var kvikt af maðki og lyktin óbærileg. Samt báru þeir það niður úr illfærum klettunum og létu það í stokk sem þeir höfðu haft meðferðis. En ekki fóru þeir með líkið strax heim að Streiti vegna myrkurs, og dróst það í tvær vikur að vitja um stokkinn. Þegar það var svo loksins gert var ekki lengur hægt að sjá neina áverka á líkinu, því maðkurinn hafði ekkert annað skilið eftir en beinin og sinarnar sem tengdu þau saman.

Eskifjörður

Eskifjörður

Samt sem áður gekkst Eiríkur við verknaðnum eftir að Gunnsteinn hafði greint frá viðskiptum þeirra Jóns. Þeir félagar voru þá fluttir til Eskifjarðar þar sem Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga fékk málið til frekari meðferðar. Að rannsókn lokinni dæmdi sýslumaður Eirík til dauða sem morðingja, en Gunnsteinn í ævilanga þrælkun sem vitorðsmann. Þar til dómur yrði staðfestur átti að geyma þá í dýflissu sýslumanns á Eskifirði. Með þeim þar í haldi var Sigurður Jónsson 18 ára unglingur úr Mjóafirði, sagður ólæs og skrifandi, sem hafði náðst á flakki og verið dæmdur vegna þjófnaðar í Helgustaðahreppi.

Þessi ungi Mjófirðingur er ekki talin hafa verið neinn venjulegur þjófur eða hreppsómagi, því þjóðsagan telur hann hafa legið úti í nokkur ár, og skýrir það kannski hvers vegna hann var fangelsaður með þeim Eiríki og Gunnsteini en ekki hýddur og sendur heim í sína sveit. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa þetta um Sigurð; „gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helst þó í kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhverjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan til byggða og fór að stela sjófangi út hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns,,,“ Þeir þremenningar struku úr dýflissunni eina nóvember nótt, og stálu sér til matar frá sýslumanni. Félagarnir lögðu svo af stað í glórulausum hríðarbyl, daginn eftir voru þeir handteknir úti í Helgustaðahreppi eftir að bóndinn í Sigmundarhúsum hafði orðið þeirra var í útihúsum og boðið þeim heim með sér í mat um morguninn, en lét senda skilaboð til Jóns sýslumanns í laumi.

Eftir þetta voru þeir fluttir á nýjan stað, til vetursetu í byrgi sem sýslumaður lét gera við bæinn Borgir sem var sunnan Eskifjarðarár gegnt Eskifjarðarbænum. Fangageymslan var lítið annað en hola þar sem var hægt að láta mati niður um gat í þakinu. Þar tókst ekki betur til en svo að þeir Gunnsteinn og Sigurður dóu báðir úr hungri, en Eiríkur var þeirra hraustastur og át þann mat sem kom í byrgið. Talið er að hann hafi setið við gatið, þegar von var matar og félagar hans aðeins fengið naumar leifar þess sem hann ekki át. Sagt var að sýslumannsfrúin hafi séð um matarskammtinn og var haft eftir Eiríki að svo naumt hafi frúin skammtað, að maturinn hefði rétt dugað handa sér einum.

Fremur hljótt var um þennan atburð og sýslumaður var í slæmum málum vegna þessa, er jafnvel talið að hann hafi látið dysja hina horföllnu fanga með leynd undir steini skammt frá byrginu um leið og uppgötvaðist hve slysalega hafði tekist til við fangavörsluna. Þjóðsagan segir vandræði sýslumanns hafa verið mikil vegna þessa hungurmorðs: „En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumann á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin – og bar ekki á Sigurði eftir það.“ Sagt er að skriða úr Hólmatindinum hafi rótað ofan af beinagrindum þeirra Sigurðar og Gunnsteins á 19. öld og hafi mátt sjá þar tvær hauskúpur og mannabein á stangli, liggja fyrir hunda og manna fótum allt fram undir 1940.

Um sumarið (18. júlí 1785) var kallaður saman héraðsdómur til að staðfesta dóm sýslumanns yfir Eiríki, var þar staðfest að Eiríkur skildi klipinn fimm sinnum með glóandi töngum á leið á aftökustað, þá handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn. Hönd og höfuð skildu sett á stjaka, öðrum vandræða mönnum til eftirminnilegrar aðvörunar. Að réttum landslögum hefði Eiríkur átt að koma fyrir Öxarárþing til að staðfesta dóminn. En þar sem kostnaður sýslumanns af föngunum var nánast allar tekjur hans af sýslunni fékk hann því breytt og dómurinn var staðfestur heima í héraði, enda tvísýnt að nothæfir hestar hefðu fengist til að flytja fanga þvert yfir landið. En þetta var þó gert með þeirri viðbót að aftakan mætti ekki fara fram fyrr en fyrir lægi konungleg tilskipun. Þann 20. janúar 1786 staðfesti konungurinn í Kristjánsborg dóminn endanlega með þeirri mildun að Eiríkur yrði ekki klipinn með glóandi töngum en dómurinn skildi standa að öðru leiti. Svo virðist sem sýslumaður hafi ekki fengið tilkynningu um úrskurð konungs fyrr en undir haust og virðist því sem sýslumaður hafi setið uppi með Eirík ári lengur en hann hugðist gera með því að óska eftir að dómurinn yrði staðfestur í héraði.

Þann 30. september 1786 var Eiríkur Þorláksson tekin af lífi á Mjóeyri við Eskifjörð þá 23 ára gamall. Erfiðlega hafði gengið að fá mann í böðulsverkið, en seint og um síðir hafði verið fenginn maður að nafni Björn frá Tandrastöðum í Norðfirði og fékk hann 4 ríkisdali og 48 skildinga að launum. Hann var kallaður eftir þetta Björn Tandri eða Karkur, sagður hrikalegur á velli og hranalegur í orði. Eftir munnmælum var hann búinn að drekka talsvert áður en embættisverkið hófst. Eins segja sumar sagnir að það hafi verið eldhús saxið í Eskifjarðarbænum sem notað var til aftökunnar. Björn Tandri lagðist í flakk síðari hluta ævi sinnar og eiga börn að hafa verið hrædd við hann því að sú saga fylgdi honum að hann hefði drepið mann, enda síðasti böðullinn á Austurlandi.

Fátt er til í opinberum plöggum um aftökuna sjálfa, eða hversu fjölmennt þar var. Til siðs var að viðstaddir væru aftökur á Íslandi annað hvort biskup eða prestur, séra Jón Högnason á Hólmum við Reyðarfjörð uppfyllti þetta ákvæði og var þar allavega viðstaddur ásamt Jóni Sveinssyni sýslumanni. Varla þarf að efast um að hönd Eiríks og höfuð hafa verið fest á stangir til sýnis að aftökunni lokinni almenningi til viðvörunar. Sýslumaður hafði sett mann sem umsjónarmann verksins sem hét Oddur, og var sagður hreppstjóri frá Krossanesi við Reyðarfjörð.

Til er handrit eftir Einþór Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal sem hann skráði niður eftir munnmælasögum um atburði þessa. Þó svo margt í þeim sögum sé ekki samkvæmt því sem fram kemur í opinberum heimildum hvað sum nöfn og atburði varðar, er þó greinilegt við hvað er átt. En í handriti Einþórs stendur þetta um það sem gerðist Eskifirði þennan haustdag.

IMG_4730

Mjóeyri

Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar. Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð. Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess. Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist. Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið. Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði.

Þegar lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann. Voru þeir allir mjög við vín. Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn. Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín. Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi. Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.

Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík. Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð viðbúnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu. Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað. Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins. Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: „Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.”

Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin. Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik. En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn. Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri. Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.

Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, „eða hvað skal nú gera,” mælti hann, „samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar.” Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi. Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: „Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn. Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir.” Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.

Um þennan atburð varð til vísan;

Aftaka

Öxin sem Eiríkur var höggvin með er sögð hafa verið til í verslun á Eskifirði fram til 1925 og á að hafa verið notuð þar sem kjötöxi. Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland þann 30. desember síðastliðinn urðu miklar skemmdir vegna sjávargangs á Eskifirði. Sjór braut þá á leiði Eiríks Þorlákssonar sem hefur verið á Mjóeyri allt frá því að þessir atburðir gerðust. Vitað var með vissu alla tíð hvar hann hvílir, þó svo að menn hafi talið sig þurft að staðfesta það með því að grafa í leiðið. Var það gert í upphafi 20. aldar að viðstöddum þáverandi héraðslækni á Eskifirði. Þá var komið niður á kassa úr óhefluðum borðum sem innhélt beinagrind af manni sem hefur verið meira en í meðallagi. Hauskúpa lá við hlið beinagrindarinnar og var hún með rautt alskegg.

Frásagnir af atburðum þessum bera það með sér að Eiríkur Þorláksson hefur verið hraustmenni sem komst lengur af en félagar hans, við ömurlegar aðstæður. Lokaorð Einars Braga rithöfundar, sem gerir þessum atburðum mun gleggri skil í I. bindi Eskju, eiga hér vel við sem lokaorð. „Hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Við nútímamenn áfellumst ekki þessa ógæfusömu drengi. Kannski hefðu þeir við hliðhollar aðstæður allir orðið nýtir menn. En þeir urðu fórnarlömb grimmilegrar aldar, sem ekkert okkar mundi vilja lifa. Meinleg forlög sendu þá í þessa byggð til þess eins að þjást og deyja.“

IMG_4726

 Leiði Eiríks Þorlákssonar á Mjóeyri við Eskifjörð

 

 

Efnið í þessa frásögn er fengið úr; Öldin átjánda, Eskja I. bindi, Þjóðsögum Jóns Árnasonar, Landnámið fyrir landnám - eftir Árna Óla, handriti Einþórs Stefánssonar sem hefur birst víða og þætti Þórhalls Þorvaldssonar af síðustu aftökunni á Austurlandi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband