Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur

Viðsjálvert háskakvendi, eða fróm dandikvinna?

Augun

Augun eru eins og stampar,

í þeim sorgarvatnið skvampar,

ofan með nefi kippast kampar,

kjafturinn er eins og á dreka,

mér kemur til hugar kindin mín,

að koma þér niður hjá Leka.

Þannig segir sagan að guðsmaðurinn hafi kveðið vögguvísuna fyrir barnunga dóttur sína. Meir að segja greinir þjóðsagan svo frá að dótturinni hafi verið komið í læri hjá Leka þegar hún hafði aldur til og hafi numið þar fjölkynngi. Hún varð síðar fræg þjóðsagnapersóna, og gekk undir nafninu Galdra-Imba. Sigfús Sigfússon, hinn austfirski þjóðsagnaritari, segir Imbu hafa verið stórgerða og blandna (viðsjálverða, undirförula) en þó höfðingja í lund. Í þjóðsögum Sigfúsar eru margar frásagnir af göldrum hennar, enda um austfirska þjósagnapersónu að ræða og gott betur en það, eina af ættmæðrum austfirðinga.

Þjóðasagan segir að Imba hafi elt mann sinn austur á land, séra Árna Jónsson, eftir að hann hafði flúið hana. Þar hafi presturinn á Skorrastað gengist fram í því að bjarga kolleika sínum undan Imbu með því að sækja hann á báti til Loðmundafjarðar, flutt hann þaðan sjóleiðina á Norðfjörð. Þegar þeir voru staddir ásamt föruneyti á móts við Dalatanga gerði Imba þeim galdur, sendi þeim svo mikinn mótvind að þeim miðaði ekkert, auk þess sem það sóttu að þeim nokkrir hrafnar með járnklær. Þessu áttu guðsmennirnir mótleik við, með bæn á almættið, þannig að til varð lognrönd sem þeir gátu róið frá Dalatanga í Norðfjörð. Eftir að þeir komu á Skorrastað á Imba að hafa sent þeim fimm drauga en þeir prestarnir, ásamt Galdra-Rafni á Hreimsstöðum, eiga að hafa komið þeim fyrir þar sem síðan heitir Draugadý eða Djöfladý. Að endingu eiga þeir félagar að hafa forðað séra Árna á enska duggu sem flutti hann til Englands.

Margar þjóðsagnirnar af Imbu eru um samlindi þeirra mæðgnanna í Loðmundarfirði, Imbu og Þuríðar dóttur þeirra Árna. Samband þeirra á að hafa verið eldfimt og á Imba að hafa drepið tvo eiginmenn fyrir Þuríði með göldrum á meðan þær mæðgur bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þuríður tók við sem húsfreyja á Nesi, en Imba flutt sig um tíma inn á Seljamýri, næstu jörð innan við Nes. Síðar þegar Imba kemur aftur í Nes, eiga Þuríður og maður hennar, Guðmundur Oddson, að hafa komið Imbu fyrir í kofa við túnjaðarinn sem kallaður var Imbukvíar, vegna ósamlyndis Imbu og Guðmundar, sem endaði með því að Imba fyrirfór honum. Síðustu árin flutti Imba að Dallandi í Húsavík fyrir tilstilli dóttur sinnar, en þá jörð höfðu þau átt Þuríður og Guðmundur. Þar dvaldi Imba síðustu árin, eða þar til Þuríður kom henni fyrir kattarnef með eitruðu slátri, samkvæmt þjóðsögunni.

Nokkrar sögur eru til af Imbu þegar hún á að hafa búið að Hurðarbaki við Hreimsstaði í Hjaltastaðaþinghá en ekki er vitað hvort þær eiga að gerast á fyrstu árum hennar á Austurlandi aða síðar. Þó verður líklegt að teljast að þar hafi hún búið einhvern tíma á milli þess sem hún var í Loðmundarfirði og Húsavík, ef eitthvað er hægt að ráða í söguna af því þegar hún seldi smáfættu sauðina á Eskifirði og Þuríður dóttir hennar mætti henni með sauðareksturinn í Eyvindarárdölum og hafði á orði "smáfættir eru sauðir þínir móðir" en þeir reyndust vera mýs þegar Imba hafði fengið þá greidda.

En hver var Galdra-Imba? Á því hef ég haft áhuga frá því ég sá ættartölu afa míns og nafna fyrir rúmum 30 árum síðan. Því þjóðsagna persónan Ingibjörg Jónsdóttir (Galdra-Imba) var formóðir okkar nafnanna, eins og svo margra austfirðinga. Nú á dögum netsins er auðvelt að fletta Galdra-Imbu upp og fá um hana fleiri upplýsingar en finna má í þjóðsagnasöfnunum.

Ingibjörg Jónsdóttir mun hafa verið fædd árið 1630, dóttir ábúendanna á Þverá í Skagafirði, þeirra Helgu Erlendsdóttir, sem var prestdóttir, og séra Jóns Gunnarssonar prests í Hofstaðaþingum í Skagafirði og síðar á Tjörn í Svarfaðardal. Það rann því ómengað prestablóð um æðar Imbu. Litlar heimildir eru af uppvaxtarárum Ingibjargar aðrar en þær að hún á að hafa verið í læri hjá Leodegaríusi, sem mun hafa búið í Eyjafjarðarsýslu og var annað hvort enskur eða þýskur, almennt kallaður Leki. Allavega er ekki vitað til að íslendingur hafi borið þetta nafn. Eiginmaður Ingibjargar varð séra Árni Jónsson, fæddur sama ár og hún, prestsonur úr Svarfaðardal. Árni hafði gengið í Hólaskóla og verið í nokkur ár í læri hjá Gísla Magnússyni sýslumanni (Vísa-Gísla). Ingibjörg er sögð seinni kona Árna (samkv. einstaka heimildum) en fyrri kona hans hét Þórlaug og áttu þau 4 börn. Af því hjónabandi eru engar sagnir.

Árni var prestur í Viðvík árið 1658. Þuríður dóttir Árna og Ingibjargar er fædd 1660, en árið 1661 flytja þau í Fagranes, undir Tindastóli utan við Sauðárkrók, og eru þar presthjón í tólf ár. Árni verður svo prestur að Hofi á Skagaströnd árið 1673. Þau Ingibjörg eru sögð hafa eignast saman 5 börn, Þuríði, Jón, Margréti, Gísla og Gunnar. Athygli vekur að þrjú af elstu börnum þeirra eru sögð fædd 1660 þegar þau hjón standa á þrítugu. Gísli og Gunnar eru svo fæddir 1661 og 1664. Þegar þau eru að Hofi á Skagaströnd er Árni sakaður um galdur og málferlin gegn honum dómtekin árið 1679. Þeir sem sóttu að Árna voru ekki nein smámenni, því þar fóru fyrirmenni og lögréttumenn, sem höfðu undirbúið aðförina vel og vandlega eftir lögformlegum leiðum þess tíma. Strax vorið 1678 hafði prófasturinn í Húnavatnssýslu, séra Þorlákur Halldórsson, tilkynnt Gísla biskupi Þorlákssyni um galdraiðkun Árna. 

Séra Árni var að lokum kallaður fyrir prestastefnu að Spákonufell 5. maí 1679. Jón Egilsson lögréttumaður í Húnavatnssýslu bar það á Árna að hann hefði ónýtt fyrir sér kú og hafði 12 vitni sem svörðu fyrir að hann færi með rétt mál. Þegar Árni var spurður hvað hann hefði sér til varnar kvaðst hann engar varnir hafa aðrar en vitnisburð nokkurra góðra manna um kynni þeirra af sér, sem prestastefnan komst að niðurtöðu um að væru gagnslausar þar sem þær kæmu málinu ekki við.

Næstur sakaði Halldór Jónsson, einnig lögréttumaður Húnvetninga, Árna um "að djöfuls ásókn og ónáðun hafi á sitt heimili komið, með ógn og ofboði á sér og sínu heimilisfólki, að Gunnsteinsstöðum í Laugadal,,," og lagði fram vitnisburð 3 manna, sem höfðu staðfest þá á manntalsþingi í Bólstaðahlíð um vorið, og auk þessa lagði hann fram yfirlýsingu 21 manns um það, að Halldór "segi satt í sínum áburði upp á prestinn síra Árna". Árni kvaðst aðspurður engin gögn hafa gegn þessum áburði Halldórs en lýsti sig sem fyrr saklausan.

Þriðja ákærandinn, sem fram kom í réttinum, var bóndinn Ívar Ormsson. Hann kvað séra Árna vera valdan „að kvinnu sinnar, Ólafar Jónsdóttur, ósjálfræði, veikleika og vitfirringu," og vísaði hann um þetta til þingvitna, sem hefðu verið tekin og eiðfest þessu til sönnunar. Árni neitaði á sömu forsemdum og áður.

Fjórði og síðasti ákærandinn var Sigurður Jónsson ríkur bóndi í Skagafirði og lögréttumaður í Hegranesþingi. Lagði hann fram svohljóðandi ákæru á séra Árna: „Ég, Sigurður Jónsson eftir minni fremstu hyggju, lýsi því, að þú, Árni prestur Jónsson, sért valdur að þeirri neyð, kvöl og pínu, sem sonur minn, Jón, nú 10 vetra að aldri, hefur af þjáður verið, síðan fyrir næstumliðin jól, og nú til þessa tíma. Sömuleiðis lýsi ég þig valdan af vera þeirri veiki, kvöl og pínu, er dóttir mín, Þuríður, hefur af þjáðst, síðan fimmtudaginn í 3. viku góu. Held ég og hygg þú hafir þá neyð, kvöl og pínu mínum báðum áður nefndum börnum gjört eður gjöra látið með fullkominni galdrabrúkun eður öðrum óleyfilegum Djöfulsins meðulum. Segi ég og ber þig, Árni prestur Jónsson, að ofanskrifaðri hér nefndra minna barna kvöl valdan."

Lagði Sigurður svo fram vottaðan vitnisburð fjögurra hemilsmanna að hann hefði þrisvar sinnum synjað Árna bónar sem hann bað áður en veikindi barna hans hófust. Þessi veikindi þeirra hafi síðan "aukist, með kvölum og ofboði í ýmislegan máta", einkum ef guðsorð var lesið eða haft um hönd. Loks var þriðja ásökun Sigurðar á hendur Árna einkennileg. Hann hafði verið í fiskiróðri, lenti í hrakningum, og fékk erfiða lendingu "framar öðrum" sem róið höfðu þennan dag, svo að bátur hans hafði laskast. Þetta hafði skeð sama daginn og kona hans hafði synjað séra Árna bónar. Sannsögli sínu til staðfestu lagði lögréttumaðurinn fram vottorð frá Benedikt Halldórssyni sýslumanni í Hegranesþingi og fimmta lögréttumanns, auk fleiri frómra manna.

Þegar hér var komið snéri biskup sér að Árna og skoraði á hann að leggja fram málsbætur sér til varnar gegn áburði Sigurðar, en prestur kvaðst eins og áður, vera saklaus af öllum galdra áburði og engar vottfestar varnir hafa fram að færa, og myndi hlíta dómi stéttarbræðra sinna, hvort sem hann yrði harður eða vægur. Sumir hafa talið séra Árna hafa verið veikan á geði, jafnvel vitfirrtan, hvað þessa málsvörn varðar. En sennilegra er að hann hafi treyst á réttsýni kolleika sinna. Það þarf ekki að orðlengja það frekar, réttarhöld prestastefnunnar að Spákonufelli komust að þeirri niðurstöðu að séra Árni Jónsson skildi brenndur á báli. Árni átti þó einn möguleika á undankomu með svokölluðum tylftareiði, en það er eiður 12 málsmetandi manna um sakleysi hans á því sem á hann var borði. 

Árni virðist hafa ákveðið þegar í stað eftir dóminn að flýja austur á land, enda vandséð hverjir hefðu verið tilbúnir að sverja honum eið gegn þeim höfðingjum sem eftir lífi hans sóttust. Þjóðsagan segir að Árni hafi flúið einn, en aðrar sagnir segja að hann hafi farið með fjölskylduna alla og þau Ingibjörg hafi sett sig niður á Nesi við Loðmundarfjörð. Austurland hafði áður verið griðastaður þeirra sem sættu galdraofsóknum á Íslandi og er saga Jóns "lærða" Guðmundssonar um það eitt gleggsta dæmið. 

Sumarið 1680 var lýst eftir Árna sem óbótamanni á Alþingi. Lýsingin hljóðaði svo; „Lágur maður, herðamikill, dökkhærður, brúnasíður, dapureygður, svo sem teprandi augun, með ódjarfIegt yfirbragð, hraustlega útlimi, mundi vera um fimmtugsaldur". Þetta ár fer Árni til Englands, sennilega vegna þess að þar hafði bróðir hans, Þorsteinn, sest að og hefur hann sjálfsagt ætlað að leit ásjár hjá honum, en óvíst er hvort fundum bræðranna hefur borið saman. Hann á að hafa skrifað heim, því í Mælifellsannál er ömurlegum árum Árna í Englandi lýst með þessum orðum: "Árið eftir skrifaði séra Árni til Íslands og segist eiga örðugt að fá sér kost og klæði í Englandi, því það tíðkanlega erfiði sé sér ótamt, og andaðist hann þar ári síðar (þ.e.1861)."

Þegar þessar hörmungar dynja á presthjónunum á Hofi standa þau á fimmtugu og börnin eru fimm, öll innan við tvítugt. Það má ljóst vera að hjónin hafa verið dugmikil og hafa átt talsvert undir sér efnalega, því það hefur ekki verið heglum hent að taka sig upp, flytjast þvert yfir landið með stóra fjölskyldu, og koma upp nýju heimili. Hafi einhverjum dottið í hug að Árni hafi verið veikur á geði eða sýnt af sér heigulshátt þegar hann flúði til Englands, þá má benda á hvernig fór fyrir Stefáni Grímssyni, sem fór á bálið 1678, ári áður en Árni hlaut sinn dóm, gefið að sök að hafa borið glímustaf í skó sínum ásamt því að eyðileggja nit í kú. Var sérstaklega til þess tekið við þau réttarhöld að Stefán og Árni þekktust, enda málatilbúnaðurinn gegn Stefáni m.a, komin frá Jóni Egilssyni, sama lögréttumanni og fór fyrir máltilbúnaði á hendur Árna. Hver rótin var að aðförinni að séra Árna er ekki gott að geta til um, en ekki er ólíklegt að hún hafi verið fjárhagslegs eðlis.

Ingibjörg virðist hafa haft bolmagn til að koma sér og börnum sínum vel fyrir á Austurlandi og má því ætla að þau hjón hafi verið vel stæð þegar þau flýðu Norðurland. Þuríður dóttir hennar bjó á Nesi í Loðmundarfirði. "Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar", segir Espólín. "Þótti væn kona og kvenskörungur", segir Einar prófastur. Synir hennar voru Jón og Oddur, sá sem Galdra Imbu ætt er við kennd. Um þau Jón og Margréti er fátt vitað, bæði sögð fædd 1660 eins og Þuríður. Gísli varð bóndi í Geitavíkurhjáleigu, Borgarfirði. "Þótti undarlegur, fáskiptin og dulfróður", segir Einar prófastur. Þjóðsögur Sigfúsar greina frá Jóni "Geiti" Jónssyni sem var galdramaður í Geitavík og á að hafa verið sonarsonur Ingibjargar og Árna gæti þess vegna verið að þeir bræður Gísli og Jón hafi báðir alið manninn í Geitavík, því ekki er vitað til að Gísli hafi átt afkomendur. Gunnar varð prestur á Stafafelli í Lóni, síðar á Austari-Lyngum í V-Skaftfellssýslu. Gunnar var borinn galdri líkt og faðir hans, en bar það af sér með eiði 3. júní árið 1700. Hafði hann þá misst hempuna um tíma bæði vegna þessa og barneignar. Þegar hann hafði hreinsað sig af galdraáburðinum, var honum veitt uppreisn og voru honum veitt Meðallandsþing árið 1700.

Galdra orðið fylgdi Ingibjörgu og afkomendum út yfir gröf og dauða, og lifir enn í þjóðsögunni. Samt er ekki vitað til að Ingibjörg Jónsdóttir hafi nokkru sinni verið ákærð fyrir galdur og fáar þjóðsögur sem greinir frá göldrum hennar á Norðurlandi. Hún leitaðist samt við að hreinsa sig af galdraáburði líkt og sjá má í Alþingisbókum árið 1687. Þar er pistill; "Um frelsiseið Ingibjargar Jónsdóttur úr Múlaþingi. Var upp lesin erleg kynning þeirrar frómu og guðhræddu dandikvinnu Ingibjargar Jónsdóttur, sem henni hefur verið af mörgum góðum manni, bæði norðan og austan lands, út gefin um hennar erlegt framferði. Og eftir því að trúanlega er undirréttað af valdsmanninum Bessa Guðmundssyni, að hér nefnd kvinna beri þunga angursemi, sökum þess henni hafi ei leyft verið að ná frelsiseiði mót því galdraryktis hneykslunar aðkasti, er hún þykist merkt hafa viðvíkjandi fjölkýnngisrykti, þar fyrir, svo sem ráða má af hennar vitnisburða inntaki, að stór nauðsyn til dragi, samþykkja lögþingismenn, að velnefndur sýslumaðurinn Bessi Guðmundsson henni frelsiseiðsins unni, svo sem hann með góðra manna ráði og nauðsynlegu fortaki fyrirsetjandi verður." (Alþingisbækur Íslands, 1912-90: VIII, 154-55).

Dylgjurnar um galdrakukl Ingibjargar virðast ekki eiga sér aðra stoð í opinberum gögnum en í þeim frelsiseið sem hún fær tekin fyrir á Alþingi. Þá er Ingibjörg 57 ára gömul,ekki hef ég rekist á hversu gömul hún varð, og virðist frelsiseiður hennar vera síðustu opinberu heimildir um hana.

Þjóðsagan segir að þegar Galdra-Imba lá banaleguna, bað hún að taka kistil undan höfðalagi sínu og kasta honum í sjóinn, en lagði blátt bann við því að hann væri opnaður. Maður var sendur með hann og var lykillinn í skránni. Hann langaði mikið til þess að forvitnast um hvað væri í kistlinum, og gat ekki á sér setið, og lauk honum upp. En þá kom í ljós, að í honum var selshaus, sem geispaði ámátlega framan í manninn, sem þá varð hræddur og fleygði kistlinum í sjóinn eins fljótt og hann gat. Nokkru síðar dó maddaman.

Samkvæmt þjóðsögunum er því nokkuð ljóst að það hefur gustað af Ingibjörgu og afkomendum hennar á Austurlandi. Sigfús Sigfússon getur þess, að eftir að Imba var öll þá hafi Þuríður látið flytja hana frá Dallandi í Húsavík yfir á kirkjustaðinn Klyppstað í Loðmundarfirði. Hann segir að gamlir menn hafi lengju vitað af leiði Galdra-Imbu með hellu ofan á, sem hún sagði fyrir um að þar skildi látin þegar hún létist. Sigfús endar galdraþátt sinn um Imbu á orðunum "Margt og myndarlegt fólk er komið af þeim mæðgum á Austurlandi".

 

Selshaus 2

 

Heimildir;

Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússonar

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar

Íslendingabók

Prestasögur 4 / Oscar Clausen

Galdra-Imba / Indriði Helgason

Galdra-Imba / Wikipedia

Þjóðfræði 


Skessugarðurinn; á sér enga líka

IMG_4294

Gamli vegurinn um Jökuldalsheiði og Möðrudalsfjallgarða liggur um ævintýraleg hrjóstur. Hann var áður þjóðvegur nr. 1, eða allt fram undir árslok 2000 þegar Hárekstaðaleið leysti hann af hólmi. Þessi vegur hefur núna síðustu árin komist inn á gps punkta erlendra ferðamann.

IMG 7217

Ferðamenn á Möðrudalsfjallgarði-vestari virða fyrir sér Möðrudal

Þó svo að ég hafi farið þennan veg oftar en tölu verður á komið frá því fyrst ég man eftir, þá eru þau undur, sem við veginn liggja enn að koma á óvart. Sum þeirra hafa farið fram hjá mér alla tíð vegna þess að þarna er um öræfi að fara, sem þurfti að komast yfir á  skemmstum tíma.

Eitt af þeim undrum, sem ég uppgötvaði ekki fyrr en fyrir 5 árum síðan, vegna þess að mér var þá bent á það er Skessugarðurinn, sem er á Grjótgarðahálsi 2 km innan við veginn þar sem hann þverar hálsinn. Skessugarðurinn sést vel frá veginum en einhverra hluta vegna hefur hann ekki gripið athyglina umfram aðra urð og grjót við veginn í gegnum tíðina. En eftir að ég vissi af honum hefur hann dregið mig til sín hvað eftir annað.

IMG 4956

Gamli þjóðvegur nr 1 um Geitasand, sem er á milli Möðrudalsfjallgarða

Það hefur verið fámennt við Skessugarðinn í þau skipti sem ég hef komið og virðist hann ekki hafa vakið eftirtekt ferðamanna frekar en mína í hálfa öld. En þetta gæti nú farið að breytast og er þá eins víst að Grjótgarðaháls gæti orðið eins og hver önnur Reynisfjara þar sem ferðafólk mátar sig í umhverfi sem einna helst má líkja við tunglið.

Vísindalega skýringin á Skessugarðinum er að þarna hafi Brúarjökull skriðið fram og skilið eftir sig ruðning. En hvernig það stendur á því að aðeins risasteinar eru í þessum ruðningsgarði er erfiðara að skýra. Telja vísindamenn einn helst að hamfara flóð hafi skolað öllum fínefnum og smærri steinum úr garðinum þó svo að erfitt sé að ímynda sér hvernig. En jökulruðnings skýringuna má sjá hér á Vísundavefnum og segir þar að hér sé um að ræða fyrirbæri, sem á fáa eða enga sína líka í heiminum.

IMG_4003

Heljardalur við Möðrudalsfjallgarð-eystri

Önnur skíring er sú að tvær tröllskessur hafi hlaðið garðinn og verður það alveg að segjast eins og er að sú skýring er mun sennilegri. Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna skessu skýringuna á fyrirbærinu:

IMG_4985

"Það er gömul tíska á Austurlandi að kalla Möðrudals- og Tungnaheiði Norðurheiðina en Fljótsdalsheiðina Austurheiði. Mun það runnið upp á Jökuldal því hann gengur sem kunnugt er inn á milli þessara heiða.

Svo er sagt að til forna bjó sín skessan í hvorri heiði og voru þær systur; er við Fljótsdalsheiðarskessuna kenndur Skessustígur í Fljótsdal. Skessurnar lifðu mest á silungsveiði og fjallagrösum er hvort tveggja var nægilegt í heiðum þessum en þrátt fyrir það nægði hvorugri sitt hlutskipti og stal hvor frá annarri; gengu þær yfir Jökulsána á steinbrú ofarlega á Dalnum.

Einu sinni hittust þær og slóst þegar í heitingar með þeim og álög. Norðanskessan mælti þá: "Það legg ég á og mæli um að allur silungur hverfi úr Austurheiðarvötnunum í Norðurheiðavötnin og sérðu þá hvern ábata þú hefur." Austanskessan greip þegar orðið og mælti: "En veiðist treglega og komi jafnan á sporðinn og það legg ég á enn fremur að öll fjallagrös hverfi úr Norðurheiði í Austurheiði og mun þetta þá jafna sig."

"Haldist þá hvorugt," sagði norðanskessan. "Jú haldist hvoru tveggja," mælti hin og hefur af þessu eigi brugðið síðan að nægur þykir silungur í Norðurheiðinni en veiðitregur og kemur jafnan öfugur upp en í Austurheiði skortir eigi fjallagrös.

Þegar stundir liðu fram undi hvorug  þeirra sínum hlut að heldur og stálu hvor enn frá annarri á mis og þó austanskessan enn meir. Reiddist norðanskessan því og brá þá fæti á steinbogann og braut hann af ánni. Systir hennar varð samt ekki ráðalaus og annaðhvort stökk yfir ána eða óð hana þegar henni sýndist. Lögðu þær þá enn mót með sér og sömdu mál sín á þann hátt að þær skyldu báðar búa í Norðurheiðinni og skipta landi með sér til helminga.

Tóku þær þá til starfa og ruddu síðan stórbjörgum og hlóðu merkisgarð þann er æ síðan heitir" Skessugarður (tröllkonugarður)..... og er þess eigi getið að þeim hafi borið síðan neitt á milli."

IMG_4980

Nú hefur erlendur ferðabloggari uppgötvað Skessugarðinn og birt þaðan myndir á bloggsíðu sinni auk þess að birta video á youtube þannig að ekki er víst að eins friðsælt verði við Skessugarðinn og hefur verið frá því skessurnar sömdu um friðinn.

 

 

 


Fjallið og Múahameð

IMG_3500

Þegar fjallið kemur ekki til Múhameðs má segja sem svo að Múhameð verði að fara til fjallsins. Eitthvað á þennan veg hefur sjálfsagt margur landinn hugsað þegar utanlandsferðin í sólina hefur verið versluð þetta sumarið. Þó svo sumarið sem af er hafi verið með betri sumrum hvað gróanda jarðar varðar og langt frá því að vera með meiriháttar úrkomusumrum, hvað þá kalt, þá hefur sólina vantað. Og þegar gengi krónunnar er sterkt þá bíður landinn ekki eftir sólinni að sumarlagi heldur fer þangað sem hún skín.

Það er fjall hérna rétt innan við hús, sem í skyggni gærdagsins var þrjóskara en fjallið sem kom til Múhameðs, þannig að við hjónakornin ákváðum að fara til fjallsins. Fjallið, sem er hæsta fjall landsins utan jökla og trúað var fram eftir öldum að væri hæsta fjall Íslands. Þetta fjall blasir við úr stofuglugganum flesta daga en í gær morgunn voru skúrir og þokubólstrar á víð og dreif sem skyggðu sýn á Snæfellið.

Það var því ekki um annað að ræða en láta sig hafa það að panta sólarlandaferð í 16 stiga hita og skúrasömu blíðviðri, eða leggja upp í óvissuferð til fjallsins og sjá hvernig viðraði þar um slóðir. Síðan Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika er auðvelt að skjótast inn að Snæfelli, ferðlag sem tók jafnvel einhverja daga fyrir nokkrum árum tekur nú fáar klukkustundir. Og þó svo að ekki sé hægt að hringkeyra Snæfellið þá er hægt að fara því sem næst inn að rótum Vatnajökuls bæði að austan- og vestanverðu um útilegumannaslóðir þjóðsagnanna.

IMG_3521

Við Laugafell, horft með austanverðu Snæfelli inn að Eyjabakkajökli

Við byrjuðum á því að fari inn með því að austan í sólskini og sunnan blæ, þó svo hitastigið væri ekki nema 12 – 14 gráður þá mátti vel búast við meiru þegar liði á daginn enda enn bara miður morgunn. Þarna er hægt að keyra á malbikuðum vegum Landsvirkjunar langleiðina inná Eyjabakka, þ.e.a.s. að uppistöðulónum Ufsaveitu. Þarna er með góðum vilja hægt að hæla Landsvirkjun fyrir fleira en veginn, því þar hefur nokkurn veginn tekist varðveitt sýnishorn af fyrrum Vatnajökulsbláa lit Lagarfljóts í lónunum neðan við Eyjabakkana sem náttúrverndarfólki tókst að fá þyrmt í stærstu framkvæmd íslandssögunnar.

Þegar við fórum þarna um kom lítil saga upp í hugann sem ég rakst óvænt á í bókinni "Syndir feðranna" og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur þarna í nágreninu, nánar tiltekið við Hornbrynju. Dýjakot, sem ég minnist ekki að hafa heyrt getið um, gæti hafa staðið á þessum slóðum miðað við staðarlýsingar í sögunni, eða rétt austan við Laugarfell. Það er reyndar ýmislegt í sögunni sem passar ekki alveg við þær hugmyndir sem sagnfræðin hefur komið inn hjá manni í gegnum tíðina.

Þessir atburðirnir er sagðir gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787. Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í sögubókum.

IMG_3473

Norður af Ufsaveitu, þar sem Dýjakot gæti hafa staðið. Laugarfell ber hæðst vinstra megin

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Hann fer sunnan við Hornbrynju niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir hann í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft. Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim, um þriggja daga ferðalag. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot. Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í göngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju í, illa farið og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu.

IMG_3577

Vestan við Snæfell á bökkum Hálslóns, fremri Kárahnjúkur fyrir miðri mynd

Eftir að hafa ferðast um í kyrrðinni austan við Snæfellið, þar sem einungis urðu tvenn þýsk hjón á vegi okkar fórum við vestur fyrir fjallið á hin margrómuðu Vesturöræfi. þar sem hreindýraskyttur og gangnamenn einir kunnu áður fyrr að greina frá undrum Svörtugljúfra, Kringilsárrana, Töfrafoss o.fl., sem nú er á botni Hálslóns. Á leiðinni norðan við Snæfell tókum við ungt par frá Frakklandi uppí, en þau voru á leið í Kárahnjúka og svo þaðan vestur í Öskju, með engan farangur, en full eftirvæntingar og bjartsýni. Þau höfðu verið við vinnu á Héraði frá því í maí og ætluðu að nota tímann þar til í September til gönguferða um hálendið norðan Vatnajökuls.

IMG_3570

Sauðfé, sem lengi var talið mesti skaðvaldur íslenskrar náttúru, á fyrrum Vesturöræfum nú uppgræddum bökkum Hálslóns. Snæfell í baksýn 

Við keyrðum svo vestan við Snæfellið inn með Hálslóni Kárahnúkastíflu eins langt og við komumst á vegi Landsvirkjunar. Þarna var allt annað skyggni en í tæra fjallaloftinu austan við Snæfell því það rauk af leirum Hálslóns í suðvestan golunni og byrgði sýn. Í suðvestan átt getur það verið fleira en þoka, ský og skúrir sem byrgja útsýnið á Snæfellið úr stofuglugganum heima. Það eru nefnilega líka dagar sem fokið af leirunum kemur í veg fyrir skyggni, jökulryk sem hefur sama lit og Lagarfljótið hefur núorðið.

En ekki er víst að mögulegt hefði verið að skoða stóran hluta víðernanna norðan Vatnajökuls á dagsstund án afleiðinga Kárahnjúka.

 

IMG_5689

Við Kárahnjúkastíflu á góðviðrisdegi, Snæfell í fjarska hægra megin 

 

IMG_5734

Laugafellsskáli, rétt austan við Snæfell

 

 IMG_6457

Horft í áttina að Hálslóni og Vesturöræfum úr lofti í suðvestan golu, Snæfell í baksýn


Jón hrak

IMG_1259

Það má segja að sagan af Jóni hrak verði undarlegri með hverri jarðarförinni. Ég hafði lengi hugsað mér að kanna sannleiksgildi hennar og fara að leiði þessarar dularfulli þjóðsagna persónu. En hann á að vera grafinn í gamla kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og því stutt að fara.

Í dag fórum við hjónin svo á glæsilegt kaffihlaðborð í klausturkaffi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri þar sem hægt er að éta á sig tertusvima á vöffluverði. Eftir kræsingarnar fórum við á efri hæðina og fengum leiðsögn um vistarverur Gunnars Gunnarssona, rithöfundarins sem sumir segja að hafi ekki verið verður Nóbelsins vegna óljósra tengsla við nasismann. En Gunnar er eini íslendingurinn sem vitað er til að hafi átt fund með Hitler og lengi gekk sú saga að glæsihús hans á Skriðuklaustri hafi verið teiknað af sama arkitekt og teiknaði Arnarhreiðrið fyrir Hitler.

Við vorum ein á ferð með leiðsögumanninum og fljótlega barst talið að uppgreftrinum á klaustrinu sem fór fram á fyrstu árum þessarar aldar. Klaustrið mun hafa verið nokkurskonar sjúkrahús og fólk komið víða að til að leita sér lækninga við hinum ýmsu meinum ef marka má þau bein sem upp komu úr kirkjugarðinum. Fljótlega bryddaði ég upp á áhugamáli mínu um það hvernig best væri að finna leiði Jóns hrak og vísaði leiðsögumaðurinn okkur á leiðið á mynd af uppgreftrinum á klaustrinu.

IMG_1261

 

Þjóðsögur Jóns Árnasonar hafa þetta að segja um Jón hrak:

Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:

Köld er mold við kórbak,

kúrir þar undir Jón flak.

Ýtar snúa austur og vestur

allir nema Jón flak,

allir nema Jón flak.“

Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. – Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.

Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:

Kalt er við kórbak,

hvílir þar Jón hrak;

allir snúa austur og vestur

ýtar nema Jón hrak.

Kalt er við kórbak.

Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.

Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.

IMG_1253

Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum og hafði leiðsögumaðurinn upplýst okkur um það, að þegar uppgröfturinn á klaustrinu og garðinum fór fram 2002-2012 þá hafi sérstaklega verið athugað hvort Jón væri á sínum stað undir steininum. En á honum stendur daufum stöfum JÓN HRAK. Svo einkennilega hefði viljað til að undir þeim steini fundust engin bein og ekki var hægt að ætla að önnur bein sem upp komu í þessum mikla uppgreftri tilheyrðu Jóni.

Það er því búið að grafa Jón hrak tvisvar upp samkvæmt heimildum og í annað sinn kom í ljós að hann var ekki við kórbak. Leiðsögumaðurinn hafði heyrt eina munnmælasögu sem segði að vetrarhörkur hefði verið og frost í jörðu þegar átt hafi að jarðsetja Jón og því hefðu menn sennilega losað sig við líkið á auðveldari máta. En hvar og í hvaða skipti vissi engin.


Séra Jón - aumasti prestur á Íslandi

Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.

goodfriday

Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.

Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.

Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.

Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði „aumasta prest á Íslandi“. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.

Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.

Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.

Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.

Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða „Tuttugubýla Brynki“.

Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann „aumasta prest á Íslandi“ í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.

Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).

Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.

Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.

Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.

Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu „og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.“

Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.

Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.

Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.

Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.

Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir.“ (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.

Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; „... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta ...“. Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.

Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.

Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.

Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.

Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.

Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.


Mara, sendingar og sálfarir

Fyrir stuttu var athyglisvert frásögn á Vísi, sem byggir á viðtali við þekktan sjónvarpsmann þar sem hann lýsti svefntruflunum sem höfðu angrað hann fyrr á ævinni. Truflanirnar sagði hann hafa verið líkar því að hafa eitt heilu nóttunum í forgarði helvítis. Frásögnin var notuð til fræðilegrar skýringar á því sem kallað er svefnrofalömun við kynningu á nýrri bók Erlu Björnsdóttur um svefn, en Erla er doktor í sálfræði. Í bókinni, sem heitir einfaldlega Svefn, segir að svefnrofalömun lýsi sér í því að einstaklingurinn lamast algjörlega þegar hann sofnar eða þegar hann vaknar. Þá getur hann hvorki hreyft legg né lið en er þó með fullri meðvitund. Ofskynjanir geta stundum verið hluti af svefnrofalömun en lömunin varir oftast stutt og er hægt að fá viðkomandi úr þessu ástandi með því að snerta hann eða tala við hann.

Þriðja augað líf og dauði

Það sem ekki var síður athyglisvert, en frásögn sjónvarpsmannsins, voru kommentin sem lesendur settu undir fréttina. Því flest þeirra bættu talsverðu við þessa örstuttu fræðilegu skýringu á svefnrofalömun. Í kommentum mátti finna frásagnir fólks sem hefur frá svipaðri reynslu að segja, svo sem þessar:

Þetta er ásókn illra afla handan þessa heims. Þekki þetta af eigin reynslu....

Hef upplifað þetta síðan ég var unglingur og kemur enn (51 árs) en sem betur fer ekki oft. Síðast reyndi ég að kalla á manninn minn sem var frammi (ég heyrði vel i honum) hann heyrði einhvern kalla og fór í herbergi sonar okkar því hann heyrði karlmannsrödd...ég fann líka að þetta var ekki mín rödd, heldur djúp karlmannsrödd þegar ég kallaði á hann og þurfti ég að kalla mörgum sinnum þangað til að hann áttaði sig hver þetta væri....

Ég er 42 ára og hef barist við þetta alla ævi síðasta kastið fékk ég í gær og var það mitt fyrsta á erlendri grund. Ég heyrði mikinn barnsgrátur og var sannfærður um að þar færi draugur látins barns á ferð og öskraði ég á hjálp til móður minnar sem sat ekki nema 3 metra frá mér en hún heyrði ekki píp í mér, oftast eru þetta draugar eða árar en einstaka sinnum börn að leik og grínast þau í mér og verð ég ekki hræddur....

Ég hef dílað við þetta nkl sama og þú líka síðan ég var 14 ára. Ég náði ekki að losna við þetta fyrr en ég eitt skiptið alveg ómeðvitað, ákveð að krossa mig í þessum aðstæðum....

Bara kalla á Jesú ef þetta gerist þannig sigraðist ég á þessu....

Það sama geri ég þegar ég er lömuð og veit ég um aðra konu sem kallar líka á Jesú og það virkar....

Þetta ástand hefur alltaf kallast "sálfarir", ég hef glímt við þetta síðan ég var barn og hef mikla reynslu í þessu ;) þetta gerist þegar sálin er að tengjast líkamanum eftir að hafa verið fjarverandi, þetta getur gerst bæði þegar maður er að fara að sofa og þegar maður vaknar en yfirleitt gerist þetta þegar maður vaknar, þá "lamast" maður oft á meðan sálin er að ná tengingu við líkamann....

Þetta hefur verið þekkt öldum saman og þetta er einfaldlega ásókn drauga og púka og hefur ekki með neitt annað að gera....

Það finnst flestum sínir draumar merkilegir og að þeir hljóti að boða eitthvað. Jafnframt þá hafa fáir mikinn áhuga á draumum annarra og geta venjulega tekið undir þau sjónarmið að draumar séu ekki til að hafa miklar áhyggjur af, en Erla segir; "Þetta tengist oft álagi, óreglulegum svefntímum og þetta er ekki hættulegt. Það er mjög mikilvægt að maður viti það þegar þetta gerist því þetta er mjög óhugnanlegt og óþægileg reynsla." En í þessu tilfelli þar sem martröð fylgir svefnrofalömun virðist flestir hafa frá ógn að segja og ekki er það af kommentunum að skilja að um meinlausa upplifun sé að ræða.

Án þess að fara djúpt í það, þá hef ég sjálfur orðið fyrir svipuðum upplifunum í svefni. Fyrr á ævinni tengdi ég þetta óreglu, eins kom fyrir að svipuð líkamleg áhrif gerðu vart við sig í vöku, þ.e. andnauð og brjóstverkur sem varði yfirleitt í stutta stund. Eftir að hafa gist hjartadeild fyrir 16 árum síðan, með tilheyrandi rannsóknum sem leiddu ekki ljós læknisfræðilega áhættuþætti hjartasjúkdóma né að sérstakrar eftirfylgni væri þörf, gerðist það fyrir tveimur árum að hjartað skemmdist við að upplifa þessa tilfinningu síendurtekið í vöku, sem svefni, og þá með tilheyrandi draumarugli. Hjartaáfall var eitthvað sem átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig. Vegna eftirkastanna hef ég mikið velt fyrir mér hverju sætir. Einna helst hefur mér dottið í hug aðsóknir fyrirbrigða, sem kallast í þjóðsögunum mara og sendingar.

Mara er samkvæmt þjóðtrúnni, óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Það að fá martröð er að vera troðin af möru. Í orðabók Menningarsjóðs, 1988, er mara skilgreind sem óvættur sem ætlað var að træði á fólki eða þjarmaði að því í svefni; sbr. martröð: mara treður einhvern; það hvíldi á honum eins og mara, sem í yfirfærðri merkingu þýðir að hann hafði þungar áhyggjur. Venjulega finnur sá sem fyrir martröð verður eitthvað þrýsta fast á bringu sér, svo að það verður óbærilegt. Læknavísindin rekja þetta til hindrunar á andardrætti, sökum veikinda t.d. kæfisvefn, eða jafnvel óþægilegrar legu og þess að rúmföt hafi dregist yfir vitin.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar frásagnir af fyrirbærinu. Þar er frásögn af möru sem Sveinn Jóhannesson frá Seljamýri í Loðmundarfirði fékk á Skálum á Langanesi þegar hann var þar á vertíð 1914. Það vildi þá til Sveini fannst komið að sér og lagst ofan á sig svo úr honum dró allan mátt og leið honum þá mjög illa áður en af honum létti og hann gat snúið sér. Sveinn hugsaði nú að þetta kæmi til af óhentugri legu og óhagkvæmri blóðrás. Skömmu síðar kom þó aftur fyrir það sama og öllu verra nema nú gat hann brotist um og snúið sér og hvarf þá loks maran. En enn skýrði Sveinn þetta sem fyrr á lækna vísu. Í þriðja sinn kom mara og tróð Svein. Var það nú svo lengi að honum þótti tvísýnt hversu færi þangað til hann gat rekið upp org og létti þá á honum. Þá var Sveinn orðinn reiður mjög, því skapríkur var hann þótt stilltur sé. Kallar hann þá hástöfum: Ef hér er nokkur djöfullinn sem er að ónáða og kvelja mig þá fari hann til Helvítis. Upp frá þessu tróð engin mara Svein að Skálum.

Ein frásögn Sigfúsar er frá Víðivöllum í Fljótsdal þar sem sama maran leggst hvorki meira né minna en á fjóra í svefni sömu nótt, hvern á fætur öðrum. Sá fyrsti hafði verið vakin af öðrum þegar hann varð var við martröð hans, sá sofnað síðan, en ekki sá sem fyrir mörunni varð. Síðan fær sá martröð stuttu seinna og sá sem hana fyrstur fékk vakti þá hann. Þar sem þeir lágu nú báðir andvaka verða þeir varir við að þriðji félagi þeirra er kominn með martröð svo þeir vekja hann. Þegar þeir þrír bera sig saman um hvað þá hafi dreymt var það eins hjá öllum, þeim fannst eitthvað hafa lagst ofan á sig. Á meðan þeir eru að tala saman heyra þeir uml í stúlku sem svaf við stigaskör fyrir ofan þá og vekja hana. Þegar hún var spurð hvað hefði angrað hana segir hún að einhver djöfullinn hafi lagst ofan á sig.

Fleiri sagnir af möru eru í þjóðsögum Sigfúsar og þar er m.a. sagt frá því hvað Færeyingar kalla fyrirbærið. Eins má lesa samantekt Þorsteins frá Hamri um möru í Þjóðviljanum frá því 1975 og hversu útbreidd vitneskjan um hana hefur verið frá fyrstu tíð. Mörunnar verður vart um allan heim og talið er að 1 af hverjum 5 verði fyrir barðinu á henni einhvertíma á lífsleiðinni. Á doktor.is má sjá svar Bryndísar Benediktsdóttur um möru, hún er sérfræðingur í heimilislækningum, með svefnrannsóknir sem sérsvið.

Þegar ég skoðaði hvort þjóðsögurnar greindu frá aðsóknum, þar sem svipuð líkamleg þyngsli koma fram í vöku og þegar mara treður mann í svefnrofalömun, þá rakst ég fljótlega á söguna um Brest. Þar segir frá Páli Pálssyni, sem bjó í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld og fékk sendingu sem hann vildi aldrei tjá sig um og fór því sennilega vitneskjan um hvers eðlis sendingin raunverulega var í gröfina með Páli. En þessi sending fór samt ekki fram hjá neinum sem umgengust hann í lifanda lífi eftir að ásóknin hófst. Þetta er ein þekktasta frásögn af sendingu og er í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum. Auk þess að vera ekki einungis munnmælasaga, heldur skráð heimild þegar atburðirnir gerast. Það sem vakti öðru fremur athygli mína, var ekki sagan af sendingunni sjálfri, heldur endalok Páls.

Þegar að Páll hafði flosnað upp og nokkru eftir að konan hrökklaðist að heiman, fór hann til vinar síns á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki. Vinurinn bauð hann velkominn, en fannst ekkert benda til að hann væri dauðvona. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því yrði ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi útlimakuldi Páls sem fékk mig til að taka sérstaklega eftir sögunni um Brest, því kuldinn hlyti að hafa stafað af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

Þjóðsögurnar hafa að geyma sagnir af ýmsum gerðum sendinga, og með hvaða kunnáttu þær voru uppvaktar. Tilgangur þeirra til forna er aðallega talinn hafa verið að leita fregna um það sem fram ætti eftir að koma. En á seinni öldum sýnist tilgangur sendinga  vera stefnt til höfuðs öðrum. Sigfús Sigfússon segir að munurinn á sendingum og afturgöngum sé sá að sendingar séu séu uppvaktar af eigingirni manna sem knýi þær til illra verka í sína þágu, á meðan afturgöngur fari um af eigin hvötum. Sendingum sé ætlað að fullnægja verstu hvötum mannsins s.s.heiftarhefnd og drápi, þó séu þær einnig stöku sinnum framkallaðar af fégræðgi. Algengastir voru snakkar, tilberar og árar.

Ætla mætti að allar þessar gerðir sendinga væru það sem einu nafni kallast púkar, eða djöflar í Biblíunni. En það er þó ekki svo einfalt. Samkvæmt Íslenskri orðabók Máls og menningar er sending, -ar 3 uppvakningur, sendur til að gera öðrum mein, sem er í fullu samræmi við Sigfús. Þar er djöfull 1 illur andi, andskoti, fjandi, púki, og samkvæmt sömu orðabók er púki 1 ári, smádjöfull. Þetta má svo finna um djöful í Biblíunni, Opinberun Jóhannesar 12.9; Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. Það er því nokkuð ljóst að sendingar eru í sjálfu sér ekki djöflar, heldur eru þeir sem þær uppvekja og senda, haldnir djöflum.

Reyndar er gert ráð fyrir því í flestum trúarbrögðum að jörðin sé djöfulsins. Í norrænni goðafræði var afkvæmi Loka, Miðgarðsormurinn erkifjandi Ása, sem umlukti Miðgarð mannanna. Í Múhameðstrú búa púkar meðal mannanna sem kallast Jinn, ámóta mýtur má finna í flestum trúarbrögðum. Margir líta á frásagnir Opinberunarbókar Nýja testamentisins af djöflinum, sem og annarra trúarrita, sem hið mesta óráðshjal eða í mesta lagi spádóm sem gæti átt eftir að koma fram.

En allt eins getur verið að gjörföll heimsbyggðin sé nú þegar afvegaleidd af djöflinum. Þannig að þeir sem verða fyrir því, sem kallað var sendingar sendi þær sjálfum sér. Í Nýja testamentinu er þess getið hvernig Jesú losaði þá við illa anda sem voru þeim haldnir. Matth 8.16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá er sjúkir voru læknaði hann.

"Með orði einu" hvernig má það nú vera? -það orð inniheldur vissuna um að allt fari vel. Þannig að ef trúin væntir einungis þess góða og þá verður útkoman eftir því. Þetta er sama trúin og flytur fjöll, nokkurskonar ímyndun, placebo effect. Illir andar og sjúkdómar fá ekki staðist fyrir slíku. Sömu áhrif má virkja í gagnstæða átt. Það hefur sjúkdómavæðingin gert í gegnum fjölmiðla. Þar er fólki talin trú um að það fái litlu ráðið um eigin heilsu án hjálpar lyfja, sem hefur með tímanum leitt til þess að maðurinn er sjúkasta dýrategund jarðar og hefur undirgengist þrælsok huglægs ótta.

Hvað er það sem hugsar? Það eru augun sem sjá, eyrun sem heyra, nefið sem finnur lykt, tungan bragð og fingurgómarnir sem snerta, kölluð skilningsvitin fimm. En höfum við einhverntíman velt því fyrir okkur hvað það er er sem hugsar? Sjálfsagt myndum við í fljótu bragði álykta sem svo að það værum við sjálf með heilanum. En með innrætingu frá blautu barnsbeini hefur okkur verið tamið að hugsa með heilanum á rökrænan hátt. Hugsanir eru sú tegund orku sem stýra okkur meðvitað fram á veginn.

Það hefur komið í ljós að þegar heilinn er í slökun s.s. í hugleiðslu, þá fer minna í árvekni, rökhugsun, gagnrýni og streitu. Við slökun er jafnvel talið að sálfarir geti átt sér stað, þar sem sálin yfirgefur líkamann um stund en kemur síðan aftur. Þær eiga sér því oft stað í svefni eða svefnrofum þegar hugsunin veldur ekki áreiti. Sálfarir lýsa oftar en ekki góðri tilfinningu sem inniheldur fagra drauma, en geta jafnframt verið þess eðlis að vitneskja fæst um ýmislegt sem er fjarlægt.

Stundum geta sálfarir verið ferðalag utan tíma og rúms um fjarlægar slóðir og lýst atburðum sem þar gerast án þess að sá sem förina fór hafi átt nokkurn möguleika á að vita um atburði öðruvísi. Þetta er því stundum kallað þriðja augað eða astral travel og mætti jafnvel líkja við gandreið þjóðsagnanna nema sá fararmáti þarfnaðist skuggalegri undirbúnings en hugleiðslu og slökunar.

Eitt af kommentunum við fréttina á Vísi gerði ráð fyrir að svefnrofalömun stafaði af sálförum. Annað lýsti sálförum; Sem unglingur þá gat ég stundum þegar ég var að festa svefn, ferðast úr líkamanum, horft á sjálfa mig í rúminu og svifið yfir fallega dali. (man mest eftir fallegu landslagi) Mér fannst þetta magnað og gaman, það var ekkert illt í þessu, engar verur eða neitt og tilfinningin var stórkostleg. Ég las mig til um að þetta sé algengt á unglingsárunum. Man samt ekki eftir að ég hafi lamast. Kannski annað fyrirbrigði.

Það hafa sjálfsagt allir dreymt fagra drauma í svefni þar sem þeir eru á ferð um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Fyrir nokkru dreymdi mig að ég kom á byggingarstað, sem systir mín og mágur voru að byggja sér hús í suður Frakklandi. Það var ekkert óeðlilegt við það að mig dreymdi þennan draum vegna þess að þau voru að byggja hús á þessum tíma og fluttu í það fyrir rúmu ári síðan. Draumurinn var um stað sem ég hafði einu sinni komist í grennd við áður, en það var fyrir rúmum tuttugu árum við brúðkaup litlu systur. Þá var farið í heimsókn til tengdamóður hennar, sem bjó í smábæ. Hún átti smá landskika hinu megin við götuna skáhalt á móti húsinu hennar utan í skógivaxinni hæð.

Þennan landskika hafði hún seinna gefið ungu hjónunum og á hann var ég kominn í draumi til fylgjast með húsbyggingunni. Ég horfði niður að húsi tengdamömmu systur minnar og sá því að ég var á réttum stað. Þarna kom svo systir mín með börnunum sínum án þess að þau yrðu mín vör. Þetta var kannski ekkert skrýtið vegna þess að ég hafði oftar en einu sinni rætt það við systur í síma hvar nákvæmlega húsið yrði staðsett og taldi mig vera með nákvæma mynd í huganum af því hvernig landið lá þó svo að ég hefði aldrei komið þarna megin við götuna, upp á þessa hæð.

Það sem mér fannst sérkennilegra við drauminn og gera hann óraunverulegan var hvað það var mikið af öðrum húsum ofar á hæðinni. Eftir að systir og fjölskylda höfðu flutt í húsið hugkvæmdist mér að heimsækja hana á google earth og ganga síðasta spölinn á street wiew. Og viti menn húsin sem höfðu gert drauminn óraunverulegan voru á street view nákvæmlega eins og í draumnum.

Séra Jakob Jónsson lýsir sálförum í tímaritinu Morgunn 2 tbl árið 1940. Þessa för hafði mágur hans farið til að heimsækja systur sína yfir langan veg og greint frá um leið og henni lauk. Það var því vitað að hann átti ekki að geta vitað um það sem hann varð áskynja, nema hafa verið á staðnum þegar atburðurinn gerðist. Séra Jakob hafði þetta að segja um sálfarir; Læt ég lesendum mínum eftir að hugleiða það, hvers eðlis hinar svonefndu sálfarir eru í sjálfu sér; sjálfur nota ég orðið í þeirri merkingu, að sá hluti persónuleikans, sem skynjar og hugsar, hafi fluzt um stundarsakir úr efnislíkamanum, og sé því ekki háður skynfærum hans og heilastarfsemi, svo að fundið verði.

Það má því segja að heimarnir sem við upplifum í vöku og svefni geti því allt eins verið jafn sannir og í báðum tilfellum upplifum við líf okkar. Munurinn á þessum tveimur vitundarstigum er að upplifanirnar verða til vegna mismunandi næmni okkar innra sjálfs. Draumaheimurinn er ekki bundinn þeirri rökhugsun sem okkur er innrætt frá blautu barnsbeini, hvað er raunverulegt er svo okkar að meta.

Í myndinni hér að neðan er svefnrofalömun í hinum ýmsu menningarheimum gerð skil á einstaklega áhugaverðan hátt.

 


Hrævareldar

Hrævareldur

Eru hrævareldar sem loga um nætur villuljós, sem eiga sér enga samsvörun í upplýstum heimi nútímans og eiga þar með það sameiginlegt með álfum og huldufólki þjóðtrúarinnar að hafa horfið af sjónarsviðinu þegar raflýsingin hélt innreið sína?

Eða eru hrævareldar kannski til? og gæti þá líka verið að það mætti sjá álfa við rétt skilyrði?

Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna lesturs bókar Halldórs Pálssonar um Knútsbyl, sem gekk yfir Austurland 7. janúar 1886, en þar er að finna þessa frásögn frá Ósi í Breiðdal; Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hrævarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.

Þarna er sagt þannig frá hrævareldum, líkt og þeir ættu að vera hverju mannsbarni þekktir ekki síður en norðurljósin, sem hafa heillað ljósmyndara nú á tímum. Þegar ég las frásögnina hugsaði ég með mér "já, það er mýri þarna fyrir innan fjárborgina" en í votlendi grunaði mig að gæti verið von hrævarelda, þó svo að ég hafi þá aldrei séð og þekki engan sem það hefur gert, og viti varla hvernig þessari hugmynd skaut niður í kollinn. En eitthvað truflaði hugmyndina um mýrarljósið, því Knútsbylur var fárviðri og því ekki líklegt að logi lifði í þeim veðraham, hvað þá að Jón hafi séð frá sér á móti dimmviðrinu. Því fór ég að grennslast fyrir um eðli Hrævarelda sem þjótrú fyrri alda er full af frásögnum af, en fáir virðast hafa séð nú á tímum.

Kleifarrétt

Kleifarrétt, þar sem Jón gætti fjárins niður við sjó í Knútsbyl, skarð hefur verið gert fyrir þjóðveginn í gegnum klettinn

Strax í fornsögunum er hrævarelda getið. Í Grettissögu segir frá því þegar Grettir kom til Háramarsey á Suður Mæri í Noregi og sá elda á haug Kárs gamla og gekk í hauginn, rændi gulli Kárs og afhöfðaði draug hans með sverðinu Jökulnaut. Gullið færði Grettir syni Kárs, Þorfinni bónda á Háramarsey. Samkvæmt frásögninni má ætla að það hafi verið hrævareldar eða mýrarljós, sem loguðu á haug Kárs og vísaði Grettri á grafhauginn. Því í vísu um þennan gjörning talar hann um "Fáfnis mýri" eftir að hafa áður haft á orði að "margt er smátt það er til ber á síðkveldum".

Þjóðsaga segir að sjá hafi mátt bjarma frá landi við Djúpavog, sem loga átti á haug Melsander Raben úti í Papey. En engin vissi fyrir víst hvar Melsander hafði borið beinin né hvað af auðæfum hans varð, því hvoru tveggja hvarf vofaginlega þar úti í eynni. Samt grunar mönnum að gull Melsanders kunni að vera grafið undir kirkjugólfinu. Þessi hrævarelda bjarmi sem menn töldu sig áður fyrr verða vara við út í Papey gætu því verið af sama toga og greint er frá í öllum þeim þjóðsögum, sem til eru um gull á álagablettum en þegar reynt var að grafa það upp þá sýndist kirkjan loga.

Eftir að hrævareldar hafa komið við sögu í þjóðtrúnni í þúsund ár, viðurkenna vísindi nútímans að stundum sé nokkur sannleikskorn í alþýðutrúnni. Samkvæmt Vísindavef Háskólans er skýringin á fyrirbærinu; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli".

Þó verður það að teljast undarlegt að um leið og vísindavefurinn viðurkennir hrævarelda sem eðlilegan bruna metangass, þá er þetta einnig tekið fram; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau". Það undarlega er að ef gengið er að metangasloga úr prímus, þá færist hann ekki undan. Það má því segja að vísindin komist að svipaðri niðurstöðu og þjóðtrúin gerði, þ.e. að hrævareldar geti leitt menn út í kviksyndi eða aðra villu vegar. 

Í athyglisverðri grein Ólafs Hanssonar í Mánudagsblaðinu 5. október 1959 segir; "Oft eru hrævareldar settir í samband við haugaelda og þeir taldir loga yfir gröfum, þar sem gull er fólgið. Stundum loga þeir á leiðum, þó að ekkert gull eða fé sé þar. Þetta mun ekki vera eintóm hjátrú, það er talin staðreynd, að hrævareldar sjáist mjög oft í kirkjugörðum, og mun rotnun líkanna valda þeim með einhverjum hætti. Það er ekki að furða, þótt þetta fyrirbæri í reit hinna dauðu hafi komið margvíslegri hjátrú af stað. Sú skoðun er talsvert algeng, að eldarnir séu sálir framliðinna. Einna almennust er sú skoðun, að hér séu á ferðinni sálir sjálfsmorðingja, sem séu á sífelldu reiki og finni engan frið. Líka þekkist sú trú, að hér séu andar manna, sem hafi látizt af slysförum, og reiki æ síðan um í námunda við slysstaðinn. Sú trú, að slíkir andar séu á sveimi í námd við slysstaði er mjög algeng á Íslandi".

Fjárborg

Gamla fjárborgin á Ósi hægra megin við þjóðveg 1, mýrin vinstra megin

Samt sem áður getur þetta varla verið skýringin á þeim hrævareldum sem getið er um að Jón hafi séð við fjárborgina á Ósi í Knútsbyl, þó svo mýrin sé nálæg, því varla hafa verið veðurskilyrði fyrir slíkan loga í því aftaka veðri sem talið er hafa farið yfir með fellibylsstyrk.

Á heimasíðu Veðurstofunnar segir frá hrævareldum af öðrum toga, þeim sem fylgja veðrabrigðum s.s. eldingarveðri. Þar er lýsing þriggja manneskja sem telja sig hafa upplifað hrævarelda á Eiríksjökli 20 ágúst 2011, þó svo engin hafi verið þar eldurinn. Þar segir m.a.; "Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós (will-o´-the-wisp á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri". Frásögnin á Eiríksjökli segir af hagléli og réttum viðbrögðum við eldingahættu, þegar umhverfið er orðið það rafmagnað að hárin rísa. Þessi réttu viðbrögð stemma við þau ráð sem gefin voru í þjóðtrúnni, sem sagði að ekki mætti benda á eða berja hrævarloga því þá gætu þeir ráðist á menn og brennt og ef reynt væri að slökkva hrævareld af vopni dytti maður dauður niður.

Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1772 er lýsingu úr Kjósarsýslu þar sem segir: "Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helst verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum".

Líklegast er því að hræfareldarnir sem Jón Einarsson frá Ósi sá við fjárborgina í Knútsbyl hafi stafað af völdum rafmagnaðra veðurskilyrða, svipaðra og greint er frá á síðu Veðurstofunnar að fólkið á Eiríksjökli hafi upplifað sumarið 2011. Líklega hafi þetta því verið sú tegund hrævarelda sem getið er í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, og sagt er þar að menn kalli snæljós. En greinilegt er að hrævareldar hafa verið fólki mun kunnuglegra fyrirbæri hér áður fyrr en þeir eru nú til dags. Og virðast vísindin ekki skýra til fulls þá tegund hrævarelda sem stundum voru kallaðir mýrarljós eða haugeldar.


Hér er enginn guð

IMG_3786 

Í gegnum tíðina hafa fjöllin fangað hugann, augun og fjarlægðin gert þau blá. Eitt af þeim fjöllum sem þetta á við frá því að ég fór að muna eftir er Skagafellið sem klýfur Fagradal, þar sem þjóðvegurinn liggur frá Héraði til Reyðarfjarðar, frá því sem kallað var inn í Dölum af Eiðaþinghármönnum. En nefndist Eyvindardalur í fornsögum, og er kallaður Eyvindarárdalur í dag þó þar séu dalir inn af dal. Einu nafni hafa þessir dalir á stundum verið kallaðir Reyðarfjarðardalir þó svo þeir séu í efra en ekki í neðra.

Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir, þá hef ég undanfarið haft áhuga á torfbæjum. Einn sá bær sem ég hef verið að snudda í kringum tóftirnar af eru Þuríðarstaðir sem mun hafa verið efsti bær í svokölluðum Eyvindardal. Ég hef nokkrum sinnum gert mér ferð þarna upp eftir enda ekki nema nokkurra mínútna akstur frá Egilsstöðum. Gallinn er bara sá þó svo að tætturnar séu mjög skírar í túninu þá eru Þuríðarstaðir nú æfingarsvæði skotveiðimanna. Því hef ég oftar en ekki þurft frá að hverfa enda er skotlínan í áttina að tóftunum, eða réttara sagt í bakkann þar sem þær standa. Það fór samt svo að fyrir rest tókst mér að skoða þær nokkuð vel, bæði á staðnum og með því að fljúga yfir á Google earth.

Þuríðarstaðir tættur

Meiningin var að reyna að gera mynd af bænum eftir frásögn sem ég hafði lesið. Þegar ég fór að leita eftir lýsingum af torfbæjum frá sama tíma rakst ég á aðra frásögn í Múlaþingi sem einmitt segir frá byggð í Eyvindarárdal, og viti menn þar er tilgátumynd af bænum á Þuríðarstöðum teiknuð af Páli Sigfússyni. Er ástæða til að ætla að hann hafi teiknað myndina eftir frásögn því Sigfús faðir hans bjó á næsta bæ, Dalhúsum 1928-1931. Þannig að þarna var ég komin með í kollinn ljóslifandi mynd af bænum þar sem ekki hefur verið búið síðan 1905, - með því að skoða tóftirnar og tilgátumynd Páls, sem passar við húsaskipan tóftanna, og lesa lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar frá vinnumanns ári sínu á Þuríðarstöðum. Hafði ég allt þetta þó svo bærinn hafi horfið ofan í svörðinn löngu fyrir mína tíð.

Í Múlaþings greininni er þremur efstu bæjunum í Eyvinarárdal gerð skil og því sem má finna í heimildum um fólkið þar, sérstaklega Þuríðarstöðum. En þessir bæir voru Dalhús, Kálfhóll og Þuríðarstaðir. Bærinn Kálfhóll var aðeins til um skamman tíma, en hann var byggður 1850 og fór í eiði 1864. Kálfhóll var byggður af Magnúsi Jónsyni f. 1802 og var hann uppalinn á Strönd og Kollstaðagerði en þar hafði faðir hans búið. Magnús var tvíkvæntur og það var með seinni konunni, Þuríði Árnadóttir frá Sævarenda í Loðmundafirði sem hann bjó á Kálfhól. Þau bjuggu þar með fjögur börn, tvö úr fyrra hjónabandi Magnúsar og tvö eigin, auk þess átti Þuríður dóttir sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem kemur við sögu á Þuríðarstöðum.

IMG_4836

Eyvindarárdalur séður frá Egilsstaðahálsi, með Gagnheiði, Tungufelli, Skagafelli og Hnútu í baksýn. Bærinn Kálfhóll hefur staðið fyrir miðri mynd í skugganum af Gagnheiði 

Vorið 1860 verður Magnús úti á Eskifjarðarheiði, pósturinn Níels Sigurðsson fann lík hans seinna um sumarið undir stórum steini með baggann á bakinu og skríðandi maðkinn út og inn um vitin.  Þuríður býr á Kálfhól með börnum þeirra eftir það í eitt ár. Þegar að Rósa dóttir hennar og Gísla á Þuríðarstöðum er farin að búa á Nýabæ á Hólsfjöllum flytur hún til hennar og síðan með fjölskyldunni til Ameríku. Vorið 1861 flytja Bjarni Eyjólfsson og Eygerður Gísladóttir í Kálfhól og bjuggu þar til 1864 og lauk þar með 13-14 ára ábúð. Hvergi getur um í skráðum heimildum, og ekki í þjóðsögum, að búið hafi verið á Kálfhól í annan tíma, en húsin þar munu hafa verið notuð sem beitarhús frá Dalhúsum fram til 1945 þegar hætt var að búa á þeim bæ.

Talið er að búið hafi verið á Þuríðarstöðum af og til í gegnum aldirnar og er jafnframt talið að átt sé við Þuríðarstaði í Austfirðingasögum þó bærinn sé þar ekki nafngreindur. Þjóðsagan segir að fyrst til að búa á Þuríðarstöðum hafi verið Þuríður blákinn og hún hafi verið systir Gróu á Eyvindará. Ef þjóðsagan fer með rétt mál er allar líkur á að Þuríðarstaðir hafi þegar verið í ábúð fyrir árið 1000 og jafnvel frá landnámi. Skráðar heimildir s.s. annálar, kirkju- og dómabækur virðast þó ekki hafa að geyma jafn langa búsetusögu því fyrst er á bæinn minnst með nafni í Gíslamáldaga 1575, þá sem eyðijarðar. Í Múlaþingsgrein Sigurðar Kristinssonar "Heimbyggð í Heiðardal" er sagt að bærinn hafi verið upp byggður 1856. 

"Sóknartal greinir fyrst frá býlinu í apríl 1857. Hefur því verið byggt þar upp sumarið 1856. Það gerði Gísli Nikulásson frá Dalhúsum f. um 1785 og kona hans Margrét Árnadóttir frá Gilsárteigi, 64 ára. Höfðu áður búið á Dalhúsum og Breiðavaði, áttu mörg börn þá uppkomin og flest gift. En hjá þeim var telpa á tólfta ári. Hét hún Rósa og var dóttir Gísla. Nærri sextugur tók hann fram hjá konu sinni með Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Hún var þá vinnukona á Miðhúsum. Þessi Þuríður giftist svo Magnúsi Jónssyni og þau byggðu upp á Kálfshól 1850. En Gísli og Margrét sáu um uppeldi stúlkunnar, sem fluttist fullorðin til Ameríku."

Þuríðarstaðir tilgátumynd

Tilgátuteikning Páls Sigfússonar, samkvæmt lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar er baðstofan í húsinu fyrir miðri mynd sem snýr þvert á burstirnar. Baðstofu gluggarnir hafa verið með tveimur rúðum samkvæmt frásögninni í stað fjögurra

Gísli og Margrét búa aðeins eitt ár á Þuríðarstöðum. Við tekur búsetusaga fjölda fólks og eru að mér telst til nefnd til sögunar a.m.k. 14 hjón sem ábúendur næstu 47 árin auk tuga fólks sem hafði heimili á bænum, flestir stoppa stutt við. Búsetu saga þessa fólks er mikil sorgarsaga, samkvæmt heimildum deyja á Þuríðarstöðum þennan stutta tíma þrettán manns á besta aldri, þar af sjö börn. Það heyrir til undantekninga ef fólk er lengur en 1-3 ár á bænum. Sóknarmannatal vantar frá sumum árana, en nefna má að 4 júní 1865 dó Sigurbjörg Sigurðardóttir 28 ára gömul, Hálfdán maður hennar fer á brott strax eftir lát hennar. Þau höfðu flust í Þuríðarstaði um vorið.

Átakanlegastar eru búsetur tveggja hjóna. Stefáns Jónsonar frá Kirkjubóli í Norðfirði og Guðrúnar Einarsdóttir flytja í Þuríðarstaði árið 1861 með sex börn. Sama ár í júlímánuði deyr Guðrún og í ágúst eru fjögur af börnum þeirra dáin. Árið 1892 flytja í Þuríðarstaði Friðrik Halldórsson 25 ára og Gróa Jónsdóttir 28 ára ásamt syni sínum og móður Friðriks. Sama ár í júní deyr Gróa, viku síðar Jón Björn sonur þeirra, Friðrik verður úti á Eskifjarðarheiði veturinn eftir. Eftirtektar vert er að samkvæmt skjalfestum heimildum flyst fjöldinn allur af því, fólki sem hafði viðdvöl á Þuríðarstöðum þessi ár og komst þaðan lifandi, til Ameríku.

Um aldarmótin 1900 búa þau Halldór Marteinsson úr Helgustaðhreppi og Guðrún Jósefsdóttir úr Tungu á Þuríðarstöðum, en þau hjón bjuggu þar hvað lengst eða frá 1889-1903. Aðeins þau Jón Bjarnason úr Fellum og Vilborg Indriðadóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði höfðu búið þar lengur, eða 1870-1890. Það var 1899 sem Hrólfur Kristbjörnsson hafði ráðið sig sem ársmann á Þuríðarstöðum þá 13 ára gamall. Það var frásögn hans sem varð til þess að ég fór að snudda í kringum Þuríðarstaða þúfurnar.

"Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.

Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði, og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.

Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju."

Síðustu ábúendur voru þau Gunnar Sigfússon frá Gilsárteigshlálegu í Eiðaþinghá og Anna Jónsdóttir frá Fjarðarkoti í Mjóafirði bjuggu þau þar til 1905 og lauk þar með tæplega 50 ára skráðri búsetu á þessu afdalabýli. það er samt nokkuð víst að búseta nær mun lengra aftur en skráðar heimildir herma, það segir allavega þjóðsagan.

Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá ferð Hallgríms í Sandfelli (sem svo var kallaður þó svo að hann hafi búið að Þorvaldstöðum þegar sagan gerist)og Ingibjargar ekkju á Þingmúla niður í Mjóafjörð til að falast eftir hvalreka hjá Hermanni höfðingja í Firði, en hann var uppi 1749-1837. Sagan gæti því verið 50-60 árum fyrir skráða búsetu. Þessi för varð ekki til fjár því þau frændsystkinin Hallgrímur og Ingibjörg hrökkluðust upp yfir Mjófjarðaheiði hvallaus eftir að Hermann hafði reynt heiftarlega við Ingibjörgu. Á Hermann að hafa samið vísu af þessu tilefni um kynni þeirra Ingibjargar, sem varð til ævilangra vinslita þegar hún fréttist upp í Hérað.

Í Mjóafjörðinn vasa vann

var sú bl,,, ,, neðan,

fjandans skíta frethettan

falaði hval á meðan.

Sagt var að Hallgrímur hefði verið skyldur sálmaskáldinu Péturssyni og bæri nafn hans, því eru vísur þessu tengdu mun fleiri í Þjóðsögum Sigfúsar. Gekk reyndar ævilangt á með sendingum á millum þeirra fyrrum vinanna eftir hvalreka ferðina. 

IMG_0641

Eyvindaráin fyrir neðan Þuríðarstaði í skammdegisskímunni um daginn

En þau Ingibjörg og Hallgrímur komu semsagt hrakin í snjófjúki af Mjóafjarðaheiði að Þuríðarstöðum um hánótt og ætluðu að biðjast þar gistingar. En það sem þau vissu ekki þá var að ábúendurnir voru nýlega fluttir í burtu. Þegar Hallgrímur bankaði á baðstofugluggann var honum svarað "hér er enginn guð". Fannst honum þetta skrítinn húmor. En fór inn í bæinn og fann þar ekki nokkurn mann, komst svo við illan leik út aftur og sagði för sína ekki góða þó svo að hann vildi gista í bænum. Ingibjörgu var orðið illt af hræðslu út á hlaði og tók ekki í mál að gista mann- og guðlausan bæinn. Hallgrímur fer niður að Eyvindará að sækja henni vatn að drekka og heyrir þar undarleg hljóð rétt hjá sér, en lét sér samt ekki bregða og segir "Skíttu á þig hver sem þú ert". Ætluðu sumir að Hermann hefði sent draug á eftir þeim, en fleiri álitu að það myndi hafa verið bæjarfylgjan á Þuríðarstöðum sem hefði þarna gert vart við sig, því hennar höfðu margir orðið varir.

Eftir að hafa paufast í skammdegisskímunni um rústirnar af Þuríðarstöðum, þar sem dynkirnir úr haglabyssum skotmannanna yfirgnæfðu niðinn í Eyvindaránni og hvæs haglanna þytinn í golunni þegar þau grófu sig í bakkann þar sem bærinn stóð. Jafnvel þó ég hafi lesið 50 ára hörmungarsögu íbúa kotbæjarins í þessum fallega heiðardal sem stóð undir hlíðum Gagnheiðarinnar sem gnæfir í yfir 1000 metra hæð með austfirska sjónvarpsmastrið ofaná, og með dumbbláar hlíðar Skagafellsins beint á móti. Þá varð auðvitað sú skammdegis mynd sem fæddist á striganum þessa dimmu daga eins og eftirprentun sem hékk í veglegum ramma berskuheimilisins og hafði yfirskriftina "Drottinn blessi heimilið". Gleðileg jól.

 

Þuríðarstaðir málverk

 

Heimildir;

Múlaþing 34-2007/ Heimbyggð í Heiðardal, Sigurður Kristinsson

Skriðdæla, Hrólfur Kristbjörnsson

Þjóðsögur, Sigfús Sigfússon

 


Útlægar sálir á Íslandi

Þjóðsögurnar varðveita sagnir um útilegumenn en tæpast eru allar þær sagnir taldar áreiðanlegar heimildir. En hvaða heimildir af alþýðufólki eru svo sem sannleikanum samkvæmar? Sennileg væri svarið við þeirri spurningu; þær sagnir sem skjalfestar hafa verið af yfirvaldinu í gegnum tíðina, s.s. dómsmál og annað því um líkt. Það er sigurvegarinn skráir opinberu útgáfu sögunnar, en sú sanna getur samt allt eins haldið áfram að lifa með fólkinu sem þjóðasaga. 

Þeir útilegumenn sem ekki er efast um að hafi verið uppi á Íslandi eru t.d. Halla og Eyvindur og svo náttúrulega Grettir. En þjóðsögurnar segja frá miklu fleira fólki og jafnvel heilu byggðarlögunum í afdölum inn á hálendi landsins. Stundum hafa þessi byggðalög uppgötvast í seinni tíð með því að til eru skráðar opinberar heimildir um fólk sem þar bjó og þá er hvorki um útilegumenn né þjóðsögu að ræða.

Lónsöræfi kort

Einn af þeim afdölum sem líklegt er að hafi verið byggður útilegufólki í gegnum aldirnar er Víðidalur á Lónsöræfum. Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1963 var dalnum gerð rækileg skil með tveimur greinum. Sú fyrri heitir Litizt um í Víðidal og byggir að miklu leiti á ferðabókum Þorvaldar Thoroddsen, þar má m.a. lesa;

"Víðidalur í Stafafellsfjöllum er óraleið frá mannabyggðum, og er mikið torleiði þangað að sækja um reginfjöll og jafnvel jökla. En hann er gróðursæll og á liðinni öld freistaði hann jarðnæðislausra manna. Hvað eftir annað tóku menn sig upp niðri í byggðum, fluttu í dalinn og reistu þar bú. En öræfadalurinn var harður börnum sínum, þótt hvönnin angaði ljúft á fitjum og lækjarbökkum á sumrin. Þar gerðust miklar harmsögur, og þaðan komust ekki allir lifandi. Enn er þar í gömlum túnfæti kuml þeirra, er þar biðu bana með válegum atvikum."

"Landslag er um þessar slóðir stórhrikalegra en víðast annars staðar á Íslandi, fjallstindarnir hvassir og himinháir, gljúfrin ægileg, bergtegundirnar margbreyttar og marglitar, klungrin óteljandi, skriðjöklar og hjarn skaflar í lautunum innan um eggjar og kamba. Ljósið skrámir í augu manns, er það kastast aftur frá hinum marglitu fjallshlíðum, og í fljótu bragði sýnist ófært að ferðast um slík klungur."

Illikambur

 Göngufólk á Illakambi við minni Víðidals mynd Iceland Magazine

þetta hrikalega landslag sem þarna er lýst hefur orðið vinsæl gönguleið á seinni tíð, þar sem gengið er jafnvel alla leið úr Lóni í Austur-Saftafellssýslu að Snæfelli í Norður-Múlasýslu og er sú leið nú kölluð Austurstræti. Á heimasíðu Vegagerðarinnar má einnig sjá frásögnina "Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi" sem ætla má að hafi verið fjölfarinn til forna, en þar liggur leiðin upp úr suðurdal í Fljótsdal og suður í Lón með viðkomu í Víðidal.

Frásagnir af þeirri byggð sem vitað er með vissu að var í Víðidal eru þjóðsögum líkastar. þaðan sem dagleið var til byggða hið minnsta og harðir vetur.  Ekki var búið í Víðidal Þegar náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen kom í dalinn árið 1882 í fylgd Sigfúsar Jónssonar, bónda á Hvannavöllum í Geithellnadal. Er talið að sú för og gróskan í dalnum hafi átt drjúgan þátt í ákvörðun Sigfúsar á Hvannavöllum að flytja í dalinn vorið eftir ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Jónsdóttur, og tvítugum syni þeirra, Jóni. Voru þau þriðju og síðustu ábúendurnir í dalnum sem vitað er um á 19. öld og af þeim fara mestar frásagnir.

Í sendibréfi frá Sigfúsi á Grund sem birtist í Austra 27.08.1884 lýsir hann aðdraganda flutninganna í Víðidal. "Það þótti mikið áræði af mér, jafngömlum –og ónýtum að flytja búferlum í Víðidal, jafnvondan veg sem yfir þarf að fara. Ég tók þetta fyrir því að ég fékk ekkert jarðnæði sem mér líkaði og hægt var að flytja á." Byggðu þau bæ sinn fyrst á rústum fyrri bæjar en fljótlega nokkru neðar í túninu. Bæinn nefndu þau Grund og bjuggu þar ellefu manns er flest var við þokkalegan hag í fjórtán ár eða til vors 1897. Fjárfellir í harðindum þann vetur mun hafa ráðið mestu um að þau yfirgáfu dalinn.

Kollumúli

Kollumúli við Víðidal, mynd pahuljica.blog.is

Þar áður höfðu búið í dalnum Þorsteinn Hinriksson frá Hafursá í Skógum og Ólöf Nikulásdóttir, ættuð af Síðu. Fluttu þau í Víðidal úr vinnumennsku árið 1847, með tvo kornunga syni sína og dóttur Ólafar á fermingaraldri. Settust þau að í eyðibæ eftir fyrri íbúa dalsins. Búseta þeirra hlaut hörmulegan endi á öðrum eða þriðja vetri.

"Á þrettánda degi jóla ... hljóp snjóflóð á bæinn er Þorsteinn hafði lokið húslestrinum og fórst hann ásamt báðum drengjunum. Mæðgurnar sluppu ... Ólöf viðbeinsbrotin. Lifðu þær við harmkvæli í rústunum og höfðu helst hrátt hangikjöt og slátur sér til matar, en húsdýr öll fórust ... Eru þær taldar hafa verið þarna 5-6 vikur uns þær afréðu að koma sér til byggða sökum vistaskorts. Þær villtust og grófu sig í fönn en þremur dægrum eftir það komu þær fram á svonefnda Sniðabrún fyrir ofan bæinn Hvannavelli ... Fundust mæðgurnar þarna aðframkomnar en þó tókst að bjarga þeim." (-Úr bókinni "Svei þér þokan gráa" eftir Stefaníu Gísladóttir í Seldal um ævi austfirsku skáldkonunnar Guðrúnar Ólafsdóttur).

Minnisvarði er í túninu um Þorstein og drengina tvo, þar sem talið er að bærinn hafi staðið.

Grund í Víðidal

Grund í Víðidal, mynd eirag.blog.is

Íbúar dalsins þar á undan voru þau Stefán sterki Ólafsson úr Húsavík eystri og Anna Guðmundsdóttir frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Komu þau sér upp nýbýli í Víðidal sumarið 1835 en höfðu líklega flutt þangað sumarið áður og því búið þar sem útilegufólk í eitt ár. Með þeim flutti vinnukona og smali.

Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar af þessum hjónum og sennilega er saga þeirra óvíða svo vel skráð annarsstaðar. Samkvæmt þjóðsögunum á Stefán sterki að hafa verið viðsjálvert skrautmenni, rólegur og latur. Hann var grunaður um að hafa átt þátt í dauða Eiríks á Aðalbóli, fyrri manns Önnu. Þau Anna héldust ekki við á Aðalbóli eftir dauða Eiríks, kom þar til óvild ættmenna Önnu út í Stefán.

Þau fluttust þá niður í Húsavík til Ólafs föður Stefáns sem eftirlét þeim Litlu-Breiðuvík. Ólánið elti þau, Stefán gerði hverja vinnukonuna á eftir aðra ólétta. Önnur þeirra var tilvonandi tengdadóttir Hafnarbróðirins Hjörleifs sterka og fóru þeir feðgar í heimsókn í Breiðuvík þegar þeir fréttu af óléttunni. En þá var Guðrún orðin léttar og höfðu Stefán og Anna ákveðið að láta sem Anna ætti barnið. Við þetta reiddust þeir feðgar Hjörleifur og Árni og tóku með sér þaðan Guðrúnu og barnið og hófu málaferli á hendur Stefáni. Þegar þau Stefán og Anna höfðu búið 10 ár í Breiðuvík voru þau búin að koma sér þannig að ekki var um annað að gera en að láta sig hverfa. 

Þá fór Stefán að kynna sér Víðidal því hann hafði heyrt að þar hefðu útilegumenn búið í gegnum aldirnar, hann komst að því að engin hafði eignarhald á dalnum og flutti þangað. Þau Anna bjuggu í dalnum fram undir 1840 en þá var vinnukonan farin og smalinn allur. Í þjóðsögum Sigfúsar segir svo um þetta; "Smali sá er hjá þeim hafði verið varð nú leiður á leti og ásælni Stefáns og bar þeim á milli og svo fór að drengurinn andaðist þar með skjótum og tortryggilegum atburði; gróf Stefán hann hjá kofunum. En síðar, þegar loks þau Stefán sáu sig engan fengið geta sér til aðstoðar og óhróður um lát drengsins barst til byggða, þá sáu þau sér nauðugan einn kost að flytja þaðan. Höfðu þau bein drengsins með sér og létu jarða þau að Stafafelli. Varð engin rannsókn hafin út af hans snögga fráfalli. Það var árið 1840 að þau flosnuðu upp í Víðidal. Fór Anna þá að Aðalbóli til dóttur sinnar en Stefán á flæking."  

Tröllakrókar

Tröllakrókar, mynd; Vatnajökulsþjóðgarður

Samkvæmt þjóðsögunni frétti Stefán af því að Þorsteinn og Ólöf hefðu flust í Víðidal eftir hans og Önnu daga í þá kofa sem þau höfðu byggt og sagði við það tækifæri; "Hum, hum, vel mátti hann flytja í dalinn án míns leyfis en kofana átti ég og hefði hann getað fengið leyfi mitt til þess að búa í þeim því þá á ég með öllum rétti. Mun þetta hann til ills draga." Þessi ummæli Stefáns festu margir í minni og þóttu all--ægileg því sumir hugðu hann vita fleira en almenning frá sér. Varð mönnum að trú sinni því á þriðja ári sínu þar var þorsteinn að lesa húslestur á helgidegi; þá hljóp snjó- og aurhlaup úr fjallinu og braut bæjarkofana. (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Í Þjóðsögum Sigfúsar er sagt frá Gerðissystkinunum, þeim Jóni og Sigríði sem bjuggu eftir foreldra sína í Víðivallagerði í Fljótsdal seinnihluta 17. aldar. Þegar þjóðsagan gerist "voru bæði fríð sýnum og atgerfisfólk, fullþroska, vinsæl og vel látin". Sveitungar þeirra tóku eftir því að Sigríður var ófrísk án þess að nokkur vissi til að hún hefði verið við karlmann kennd og því kom upp sú getgáta að það væri eftir Jón bróðir hennar. Á þessum árum var Jón Þorláksson sýslumaður í Fljótsdal, "eftirgangsamur um smábrot sem siður var margra stórmenna á þeirri tíð" (Stóridómur tók hart á sifjaspellsmálum). Sýlslumaður og Fljótsdælingar vildu taka Sigríði og yfirheyra hana. Á þessum tíma var Böðvar Sturluson prestur á Valþjófsstað, vinur þeirra Gerðisyssystkina. Hann taldi ekkert liggja á best væri að gefa Sigríði næði til að eiga barnið og feðra það í framhaldinu.

Þegar kom að því að sýslumaður heimsótti Víðivallagerði voru þau systkinin horfin og auðsjáanlegt á því sem þau tóku með sér að þau gerðu ekki ráð fyrir því að koma aftur, framkvæmd var ítarleg leit en árangurslaust. Sagan segir að Þorlákur prestur hafi látið gera margt undarleg næstu áratugina, m.a. látið reka fé á fjall í þeim tilgangi að það skilaði sér ekki aftur. Sent trúnaðarmann sinn um ókunnan fjallveg um há vetur uppfrá Sturluflöt í suðurdal Fljótsdal suður öræfin í þeim tilgangi að færa kolleiga sínum á Hofi í Álftafirði bréf.

Lónsöræfi

Göngufólk á Lónsöræfum, mynd; Land og saga

Eins og þjóðsagan lýsir þeim fjallvegi leynir sér ekki að um sama forna fjallveg er að ræða og má lesa um á síðu Vegagerðarinnar. Enda villtist þessi trúnaðarmaður prestsins á Valþjófstað í óveðri í afskektan dal þar sem tveir bæir voru með útilegufólki. Annar bæinn taldi hann vera byggðan af þeim systkinum í Víðivallagerði og dóttur þeirra.

Mörgum áratugum eftir að systkinin hurfu frá Víðivallagerði kom ung kona í Fljótsdal sem flestir töldu sig kannast við, var þar á ferð Sigríður dóttir þeirra Jóns og Sigríðar Víðivallagerðis systkina. Voru foreldrar hennar þá bæði dáin, lét þá Þorlákur prestur gera leiðangur eftir þeim í afskekta dalinn og voru þau jarðsett að Valþjófsstað. Þarna telur Sigfús þjóðsagnaritari um Víðidal að ræða. Margar fleiri þjóðsögur um útilegumenn í safni Sigfúsar gætu átt við Víðidal.

Eins og ætla má þá eru til mestar heimildir af síðustu íbúum Víðidals, fjölskyldum þeirra feðga Sigfúsar og Jóns sem bjuggu þar á síðustu áratugum 19. aldar. Í Sunnudagsblaði Tímans er frásögn eftir Helga Einarssona bónda og hreppstjóra á Melrakkanesi, síðar Djúpavogi, þar sem hann segir frá lífinu í Víðidal en þar ólst hann upp hjá skyldfólki á fyrstu árum ævi sinnar. Hann telur að búskapurinn í Víðidal hafi ekki verið frábrugðin þess tíma, nema hvað þar var afskekkt og erfitt með aðföng. "Fólk fékk hvort tveggja, fæði og klæði, nær eingöngu af jörðinni og sauðkindinni. Veiðiskapur var enginn, nema hvað rjúpur voru skotnar við og við að vetrinum".

Einnig vitnar Helgi í bréf sem Jón Sigfússon skrifaði honum, en Jón mun hafa haldið dagbók mest allan þann tíma sem þeir feðgar bjuggu í Víðidal. Auðbjörg Jónsdóttir vinnukona í Víðidal dó árið 1887, þar vitnar Helgi í bréf Jóns . "Dauða Auðbjargar bar með voveiflegum hætti, og hefur Jón Sigfússon sagt svo frá tildrögum þess atburðar í bréfi til mín: "Auðbjörg heitin villtist úr grasatínslu 5. Ágúst 1887, og leituðum við í viku og fundum ekki. En 20. sama mánaðar fannst hún af pabba sálaða í húsi í Þormóðshvömmum, þá með lífsmarki. Pabbi reið strax í hasti út í Kambsel. Þar bjó þá Jón Árnason, hálfbróðir pabba, og var hún dáin, þegar þeir komu inn eftir." í embættisbókum Hofsprestakalls segir og, að hún hafi dáið 20. ágúst, "varð úti á grasaheiði, fannst á Geithellnadal".

Eins segir Jón Sigfússon frá því hvað skíði voru mikið notuð af Víðidalsmönnum t.d. til dægrastyttinga. "Það bjargaði okkur í Víðidal, að við vorum allir góðir á skíðum, enda gafst okkur færi á að æfa vel skíðaferðir. Einu sinn kom mikill snjór í Víðidal. Þá var öllu gefið inni. Þá sagði ég við Bjarna frænda, að nú skyldum við taka okkur skíðatúr. "Já, hvert skulum við þá fara?" "Upp á há-Hofsjökul"; sagði ég. "Það er þá aldeilis sprettur", sagði Bjarni. Svo lögðum við af stað og gengum alltaf á skíðunum upp og alveg upp á jökulinn, þar sem hann er hæstur. Þaðan sáum við út á sjó í Álftarfirði og Búlandstind og norður á Fljótsdalsheiði. Alls staðar var hvítt, nema Kverkfjöllin voru að sjá mikið auð og randir meðfram Fellunum, helzt í Snæfellshálsinum. Ekki man ég, hvað við vorum lengi upp á jökulinn neðan frá bænum. En fimmtán mínútur vorum við niður að bænum. Úr Víðidal mátti fara til byggða á skíðum, þegar mikill snjór var, út í Lón, Álftarfjarðardali alla, til Fljótsdals og Skriðdals og Hrafnkelsdals, án þess að fara fyrst til Fljótsdals. Það var bein leið af Marköldunni í Laugarfjall, yzta hnúkinn af Fellunum og úr Laugarfelli út og norður í Aðalból".

Það er nokkuð ljóst að útilegumenn til fjalla á Íslandi hafa verið fleiri í gegnum aldirnar en Grettir, Eyvindur og Halla.


Streiti

Þau eru mörg annesin á Austfjörðunum sem vert er að skoða þó svo stundum umlyki þau dulúðleg þoka. Hérna á síðunni hefur tveimur annesjum verið gerð fátækleg skil í máli og myndum en það eru Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð og Kambanes við Stöðvarfjörð. Í vetur lét ég í fyrsta skipti verða af því að stoppa við Streiti en það er strönd annessins kölluð sem skiptir Breiðdalsvík og Berufirði. Þarna hafði ég farið framhjá ótal sinnum í gegnum tíðina án þess að stoppa. Í mars s.l. var farin sérferð til að virða fyrir sér fjallið Naphorn sem gnæfir yfir Streitisbænum en uppi í því höfðust útigangsdrengir við í Móðuharðindunum, og leiddi sú nöturlega vist til manndráps, hungurmorða og að lokum síðustu opinberu aftökunnar á Austurlandi.

IMG_8181

Eyðibýlið Streiti, fjallið Naphorn

Jörðin Streiti telst landfræðilega vera á Berufjarðarströnd en tilheyrir Breiðdalshreppi. Þar, örlítið austar, er ysti skaginn á milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar sem nefnist Streitishvarf. Í sumar fór ég svo aftur á Streiti, en þá til að skoða það sem ég hafði tekið eftir í vetur, að niður við ströndina má greina leifar af mannabyggð. Ég hafði í millitíðinni kynnt mér málið í bókunum Breiðdælu, Búkollu (Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og Þjóðsögunum.

þjóðsagan segir frá býlinu Vafrastöðum og það var það bæjarstæði sem ég vonaðist eftir að finna í sumar, því ég gat vel gert mér grein fyrir hvar aðrir bæir á Streiti hefðu staðið. Það er skemmst frá því að segja að eftir að hafa vafrað um ströndina góða morgunnstund komst ég ekki á þann stað sem mér þótti líklegast að Vafrastaðir hefðu staðið, vegna rafmagnsgirðinga og nautgripa.  

IMG_8112

Skrúðskambur sem er austast á Streitishvarfi og Breiðdalseyjar í baksýn

Það var margt að skoða í þessari fjögurra stunda gönguför. Svokallað tröllahlað er sunnan á Streitishvarfi sem nefnist Skrúðskambur. Sunnan við hvarfið tekur svo Berufjarðarströndin við með landnámsjörðinni Streiti, sem nefnt var Stræti í þremur Landnámuhandritum. Í Landnámu segir; „Skjöldólfur hét maður, er nam Stræti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.“ Það er því ekki vitað hvaðan þessi Skjöldólfur kom eða hver þessi Háleygaætt er, en í Breiðdælu má finna vangaveltur um hvort Háleygar nafnið hafi haft tengingu til Hálogalands í Noregi.

Einnig má finna vangaveltur í bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, þar sem því er velt upp að þeir landnámsmenn austanlands sem ekki er nákvæmlega getið hvaðan komu hafi í reynd verið af keltneskum uppruna, en gefin norræn nöfn í landnámu til að fela upprunann. Þetta má vel ímynda sér þegar staðið er á ströndinni Streiti og við blasir eyja með keltneskri nafngift í suðri, Papey.

IMG_8123

Vitinn á Streitishvarfi

Þó svo að Streiti hafi þótt vænleg búskaparjörð við landnám þá er hún nú í eyði. Vitað er að fram eftir öldum voru mörg býli í Streitislandi, þ.e.a.s. á Berufjarðarströndinni frá Streitishvarfi að Núpi. Þar var austast Hvarf eða Streitishvarf sem fór í eyði 1850. Streitisstekkur var austan og neðan við Streiti, sem fór í eyði 1883 eftir að bærinn brann þann 7. Desember. Þar brunni inni þau hjónin Sigurður Torfason og Sigríður Stefánsdóttir eftir að hafa bjargað út börnum sínum sem heima voru, en áttu ekki afturkvæmt frá því að reyna að bjarga kúnni úr brennandi bænum. Reistur hefur verið minnisvarði um atburð þennan við Þjóðveginn rétt fyrir ofan bæjarstæðið, enn má vel greina hvar bærinn stóð.

IMG_8135

Streitisstekkur, sjá má móta fyrir bæjarrústunum á miðri mynd til vinstri

Vafrastaðir var svo býli sem stóð sunnan við Streiti, á milli Streitis og Núps, sem sumar sagnir segja að hafi staðið svo nálægt fjallinu að þeir hafi horfið undir skriðu. Þeirra er fyrst getið 1367 og síðast eftir heimild frá því 1760. Vafrastaðir hefur verið þjóðsagnakenndur bær löngu eftir að þeirra var síðast getið, sögu þeim tengdum má bæði finna í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar(I bindi bls 288) og Jóns Árnasonar (III bindi bls 435). Einhverstaðar má samt finna þá þjóðsögu heimfærða á Núp en það er ekki líklegt að sögusviðið sé þar, vegna þess að flæðiskerin sem sagan greinir frá eru það langt frá bænum á Núpi að þau eru ekki í sjónlínu.

IMG_8170

Hugsanlega eru skerin sem fjærst eru þar sem Vafrastaðir hafa staðið

Þjóðsagan frá Vafrastöðum segir frá eineygu Mórukollu. Bóndinn hafði þann sið að fá fóstru sína hruma af elli en fjölvísa til að segja sér hvaða fé væri feigt að hausti og slátraði svo því fé sem hún valdi. Þegar kerlingin var því sem næst blind orðin leiddi hann hana að réttarveggnum eitt haustið. Þar stendur hún þegjandi um stund en bendir svo á eineyga mórukollótta kind, rytjulega, og segir allt fé þitt er feigt sonur sæll nema Mórukolla.

Þetta haust tók Vafrastaðabóndinn ekkert mark á fóstru sinni og lógaði því fé sem honum sjálfum sýndist. Veturinn varð snjóþungur og stormasamur með tilheyrandi hagaleysi. Seint á aðfangadag brá til betra veðurs og skipar þá bóndinn smalanum að beita fénu í þara á rifi sem stóð uppi á fjöru. Á meðan sat hann inn í bæ og tálgaði í sig hangikjöt af rifi úr sauðasíðu.

Smalinn kom á gluggann heima á bæ og segir; Þykkt er nú á rifi bóndi“. „Hvað kemur þér það við“ svarar bóndinn og heldur áfram að sneiða af rifjunum. Þá segir smalinn „þynnast fer nú á rifinu bóndi“. Bóndinn svarar ekki en heldur áfram að gæða sér á á hangikjötinu þar til allt er búið. Þá segir smalinn "allt er nú af rifinu". Þá heyrir bóndinn fyrst í briminu og áttar sig á því að smalinn á við féð sem var í fjörubeitinni á rifinu. Þegar hann kom út var allt fé hans komið í sjóinn og aðeins rak eina kind að landi úr briminu, en sú var eineyga rytjulega Mórukolla.

Bóndinn varð svo reiður yfir missi sínum að hann henti henni umsvifalaust í brimgarðinn, en aftur skreið eineyga Mórukolla á land. Eftir að hafa hent henni þrívegis í sjóinn og hana áfalt rekið í land, gafst hann upp. En um vorið var Mórukolla tvílembd af gimbrum og allar þær gimbrar sem út af henni komu urðu tvílembdar þannig að út af eineygu Mórukollu varð fljótleg mikill fjárstofn. Bóndanum á að hafa verið svo mikið um þetta að hann flutti frá Vafrastöðum og hafa þeir verið í eyði alla tíð síðan.

þær eru til margar þjóðsögurnar frá þessu annesi. Ein sagan seigir frá bóndanum í Skrúðskambi sem á að hafa verið bróðir Skrúðsbóndans sem bjó í Skrúði. Þeir bræður voru hálftröll sem mátti heyra kallast á þegar kyrrt var á morgnana. Eins hef ég heyrt að þriðji bróðirinn hafi búið á Hellisbjarginu í Papey og hafi tekið þátt í samræðum bræðra sinna. Sjónlína er á milli þessara staða en mikið hafa þeir bræður verið raddmiklir ef þeir hafa heyrt hvorir í öðrum.

Einnig eru til sögur frá Tyrkjaráninu árið 1627, þar sem segir frá hetjudáðum bóndans á Streiti. Tyrkjaránssaga segir frá því þegar Streitisbóndinn forðaði fólki sínu undan Tyrkjum frá Streiti yfir í Breiðdal, en þá höfðu ræningjarnir þegar hneppt fólkið á Ósi í bönd og sett yfir það gæslumenn sem flýðu til fjalls þegar Streitisfólkið bar að garði.

Þjóðsagnaritaranum Sigfúsi Sigfússyni finnst hins vegar Tyrkjaránssaga segja undarlega frá, því miðað við hvernig landið liggur sé mun líklegra að Tyrkir hafi farið Berufjarðaströndina á leið sinni í Breiðdal og þá farið fyrir Streiti á leið sinni í Ós. Þetta hefur Sigfús að segja um Tyrkjaránssögu "er því einkennilegt er það að ýmsar sagnir hafa geymst eða myndast utan við söguna sem eru einskonar viðbætur við hana og uppfylling. Þær sagnir lýsa varnartilraunum manna er sagan segir frá en sleppir þó þeim atriðum.

Eitt af þeim atriðum sem Tyrkjaránssaga sleppir er munnmælasagan um bóndann á Streiti sem sagður er hafa verið á leið með timbur úr Breiðdal yfir í Streiti þegar hann mætti 18 Tyrkjunum rétt norðan við Skrúðskamb á leið frá Streiti austur að Ósi í Breiðdal. Þar á þröngum stíg grandað hann þeim 18 talsins. Um þann atburð vitna m.a. örnefnin Tyrkjaurð, Timburklettur og Tyrkjahamar.

Munnmælin segja ýmist að Streitisbóndinn hafi náð á slá Tyrkina með planka fram af klettinum ofan í urðina eða slegið þá í rot með ístaði. Í Tyrkjaránssögu sjálfri er sagt frá timburflutningamanni sem var á leið úr Breiðdal upp í Hérað en þegar hann varð Tyrkjann var aftan við sig var hann svo nískur á timbrið að frekar en að forða sjálfum sér timburlaus þá lét hann Tyrkina ná sér.

Hvort sem Streiti hefur upphaflega heitið Stræti eins og Landnáma gefur til kynna og þá verið landkosta jörð í alfaraleið, þá breytir það því ekki að hún hefur verið í eyði í áratugi. Miðað við þann málskilning sem lagður er í nafnið Streiti nú á dögum þá er það dregið af því að streitast eða strita og gæti því verið hið rétta nafn miðað við þjóðsögurnar. Enda var ekki laust við að hendingin úr texta Bubba, Vonir og þrár, fylgdu mér á þessu eyðistrandar rölti.

Þar sem skriðan féll skúrar stóðu

minningar um hendur sem veggina hlóðu.

Myndir af fólki sem lifði hér um stund

með kindur og kött, beljur og hund. 

IMG_8128

Minnisvarði um hjónin sem brunnu inni við að bjarka kúnni á Streitisstekk


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband