Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur

Stóridómur, Jóns og séra Jóns

Undanfarið hafa birst færslur hér á síðunni af dauðadómum yfir alþýðufólki fyrr á öldum austanlands. Í mars s.l. var síðustu aftökunnar á Austurlandi gerð skil og aðdraganda hennar. Í síðasta bloggi birti ég frásögn Magnúsar Helgasonar af Kjólsvíkurmálum, þar sem tvær manneskjur voru teknar af lífi og tvær hýddar samkvæmt laganna boði. Nú ætla ég að leggja út frá nokkrum málum sem fóru illa með fólk, þar sem dauðdómar voru upp kveðnir án þess að verða fullnægt.

Ástæðan fyrir því að þessi mál hafa leitað á hugann eru m.a. að um sumt af þessu má lesa í þjóðsögunum, og þessar þjóðsögur er hægt að sannreyna vegna þess að um þessi mál hafa varðveist dómskjöl sem seinni tíma menn hafa rannsakað og ritað um. Þjóðsögur voru eitt af mínu huppáhalds lesefni sem barn, þessu tóku þeir eftir sem mig ólu og í gegnum tíðina hefur safnast á mig bækur sem hafa þjóðsögur að geyma ásamt efni tengdu Austurlandi. Lengi framan af gaf ég mér ekki tíma til að lesa þetta efni, en hafði það alltaf á bak við eyrað að gera það þegar tími gæfist. Síðasta eitt og hálfa árið hef ég haft tíma en þá kemur í ljós að þjóðsögur eru ekki ýktar bábiljur heldur fara nær sannleikanum en opinbera þjóðarsagan.

 

SESSELJA HAMRA-SETTA

Fyrir stuttu rakst ég á söguna haf Hamra-Settu sem hefur óbeint að geyma fyrstu heimildir um Egilsstaði en það er eins og að sá staður hafi ekki verið á yfirborði jarðar fyrr en á 16. öld, svo merkilegt sem það nú er af stað sem hefur talist á krossgötum í þjóðbraut allar götur síðan. Algengasta útgáfa þjóðsögunnar af Hamra-Settu segir reyndar ekki frá neinu á Egilsstöðum, heldur af útilegukvendi á Borgarfirði eystra. En þegar nöfn þjóðsögunnar eru borin við tiltækar opinbera heimildir má finna sömu nöfn og þjóðsagan hefur að geyma í dómskjölum vegna morðs sem Sesselja Loftsdóttir var dæmd sek um á Egilsstöðum á 16. öld í málaferlum á árunum 1541-1543 skömmu fyrir siðaskiptin 1550.

Sesselja var fundin sek um að hafa myrt mann sinn Steingrím Böðvarsson sem lést árið 1540. Upphaflega var ekkert talið athugavert við andlát Steingríms, hálfu ári eftir útför hans var lík hans grafið upp í Vallneskirkjugarði til rannsóknar vegna orðróms sem var uppi um að Sesselja hefði banað honum í félagi við vinnumann sinn, Bjarna Skeggjason, en þau voru þrjú í heimili. Sesselja eignaðist barn með þessum vinnumanni sínum og það sem meira var að vinnumaðurinn hafði áður átt barn með dóttir Sesselju. Þeir sem rannsökuðu lík Steingríms skjalfestu að ekkert finnist á líkinu sem benti til manndráps en einhverra hluta vegna breyttu þeir síða framburði sínum fyrir rétti.

Eftir dauða Steingríms, en áður en á Sesselja var sökuð um morðið, þá hafði hún selt jörðina Egilsstaði nágranna sínum, Birni bónda á Eyvindará og eru þeir kaupsamningar til, en í þeim kom fram að þau höfðu gert með sér skipti á Egilsstöðum og Hólalandi í Borgarfirði eystra ásamt því sem Björn átti að greiða milligjöf í reiðufé. Sá fyrirvari var samt á þessum kaupsamning, af Björns hálfu, að ekki mættu vera meinbugir á eignarhaldi Sesselju og gengu kaupin ekki að fullu í gegn fyrr en það væri komið í ljós. Fyrirvarinn hefur sennilegast komið til vegna erfðaréttar dóttir Sesselju til Egilsstaða, sem síðar kom í ljós að hún hafði framselt til Skálholtskirkju.

Eftir að þeir sem rannsökuðu lík Steingríms breyttu vitnisburði sínum var Sesselja dæmd til dauða fyrir morð, en vinnumaðurinn ekki, Egilsstaðir voru gerðir upptækir af ríkinu þ.e.a.s. til danska kóngsins. Þetta varð ekki til að minka málaferlin og því er til margra ára heilleg saga af þessu tímabili í málskjölum. Eigendur Egilsstaða voru nefnilega orðnir þrír, Björn bóndi á Eyvindará sem hafði keypt þá alla með fyrirvara, Skálholtsbiskupstóll sem taldist eiga þá á móti ríkinu eftir að þeir höfðu verið dæmdir af Sesselju vegna morðs.

Í dómi Sesselju var athyglisverð ákvæði um það að ef hún gæti fengið 12 málsmetandi menn til að sverja fyrir sakleysi sitt þá slippi hún við dauða, þar að auki var ákvæði til vara um að hún gæti innan tiltekins tíma leitað sér griða í dómkirkjum landsins annaðhvort í Skálholti eða á Hólum, sem hún gerði að Hólum. Þetta bendir til að dómarar hafi ekki haft hreina samvisku varðandi dauðadóminn. Til eru málskjöl þar sem hún leitar á náðir Skálholtsbiskups, ári eftir að hún nær griðum á Hólum, þegar biskup er í erindrekstri á Héraði m.a. vegna Egilsstaða mála, þar fer hún fram á syndaaflausn vegna hórdómsbrotsins með vinnumanni sínum.

Þar sem málskjölum líkur, þar líkur einnig opinberri sögu Sesselju Loftsdóttur á Egilsstöðum, og ekki er vitað til þess að hún hafi sest að á Hólalandi í Borgarfirði eystra og þjóðsagan minnist ekki á þann stað. Enda er ekki útilokað að þar sé á ferð allt önnur saga sem byggi á svipuðum nöfnum, eða þau hafi brenglast að einhverju leiti í meðförum þjóðsagnaritara.

 

NÝR SIÐUR

Siðaskiptin urðu á Íslandi um miðja 16. öld. Þau eru talin vera að fullu framkvæmd með aftöku Jóns Arasonar biskups á Hólum árið 1550, en hann var hálshöggvinn um haustið það ár ásamt sonum sínum í Skálholti. Siðbreytingin hófst samt töluvert fyrir aftöku Jóns Arasonar, því árið 1539 valdi Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti Gissur Einarsson sem sinn eftirmann og var hann vígður biskup að Ögmundi lifandi. Gamli biskupinn sá brátt eftir vali sínu, þegar skoðanir Gissurar komu í ljós. Vorið 1541 komu danskir hermenn til Íslands og handtóku Ögmund gamla biskup, ætluðu að flytja hann út til Danmerkur en hann lést á leiðinni. Gissur Einarsson hafði þá frjálsar hendur við að koma hinum nýja sið á hvað Skálholt varðaði, en varð þó lítið ágengt við siðbreytinguna á meðan Hólabiskupsdæmi var enn rammkaþólskt.

Það var því ekki fyrr en Jón biskup Arason hafði verið líflátinn sem hægt var að hefjast handa að fullum krafti við siðbreytinguna. Með henni fluttust eigur kirkjunnar að miklu leiti í hendur Danakonungs þ.e. ríkisins. Við það jukust ítök Dana til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, þar sem þeir komu m.a. á hinni illræmdu einokunarverslun 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin, m.a. varð öll löggjöf strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur stóridómur, sem var grimm löggjöf í siðferðismálum. Þá má segja að kerfi sýslumanna og lögsagnara ríkisins hafi verið komið á til að framfylgja löggjöf sem kenndi sig við siðbót í samvinnu ríkis og kirkju. Sýslumannsembætti voru eftirsótt enda gátu sýslumenn ráðið tekjum sýnum eftir því hversu dugandi þeir voru í að framfylgja lögunum.

Það er í umróti siðaskiptanna sem Sesselja á Egilsstöðum er sökuð um morðið á Steingrími manni sínum og um hórdómsbrot með vinnumanni sínum. Athyglisvert er að hún verður sér út um grið vegna dauðadóms sínum í Hólakirkju sem þá var enn í biskupsdæmi Jóns Arasonar. Þegar hún leitar syndaaflausnar heima á Héraði árið 1544 þá er það hjá siðbótarbiskupnum Gissuri Einarssyni sem hélt Skálholt, enda fékk hún ekki aflausn. Það má ætla að örlög Sesselju hefðu orðið enn grimmari ef siðaskiptin hefðu verið gengin í gegn þegar málaferlin á hendur henni stóðu.

Það hefur um langan tíma verið, - og er enn siður þeirra sem lögin setja að fegra tilgang þeirra. Við siðaskiptin voru þessi lög kennd við siðbótarmenn. Stóridómur sem kom til skömmu eftir siðaskiptin og lögfestur var á alþingi árið 1564 var ekki kominn til sögunnar þegar málaferlin á Egilsstöðum áttu sér stað. Við siðaskiptin á Íslandi kom ríkið inn af fullum þunga í dómsmálum þjóðarinnar, og var það kölluð siðbót.

Siðbót eru einhver örgustu öfugmæli í lagalegu tilliti, sé litið til þess tímabils sem á eftir fór. Því í annan tíma hefur ekki öðrum eins fjölda almúgafólks verið slátrað í nafni laga á Ísland, yfirstéttinni til ágóða. Í nafni stóradóms var konum drekkt, karlmenn hálshöggnir, þjófar hengdir og þeir brenndir sem vissu meira, sakaðir um galdur. Galdrafárið gekk í garð á Íslandi með siðbótinni, þó það hafi verið árhundruðum fyrr sem það fár tröllreið Evrópu. Það var svo að segja útilokað fyrir almúgafólk að verjast ásökunum sem runnar voru undan rifjum siðbótar.

 

DAUÐADÆMDUR DÆMIR TIL DAUÐA  

Til voru menn sem höfðu uppi burði við að verja sig gegn stóradóms valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.

Kristín var 37 ára ekkja og Jón hafði þá nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.

Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með bróður síns konu. Þessi lagarök munu hafa verið sótt 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.

Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.

En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir séu á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.

Þegar svo er komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka dagsins í dag er leyst eftir að fólk hefur verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því nú er í boði okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.

Það merkilega við Jón Jónsson er að hann er síðar á ævinni dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. „ólöglega getna hórbarn“ og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur má sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varða, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.

 

UMRENNINGUR GERÐUR AÐ FÉÞÚFU 

Um Mjófirðinginn Hermann í Firði eru til margar þjóðsögur og þótti hann bæði göldróttur og viðsjárverður. Í Múlaþingi 32 – 2005 hefur Vilhjálmur Hjámarsson tekið saman ítarlegt efni af málskjölum sem til er um réttarhöld sem fram fóru í Firði árið 1813. En þar segir frá örlögum Eiríks Ólafssonar tvítugs manns sem verið hafði hjá héraðshöfðingjanum Hermanni í Firði, sennilega sem niðursetningur. Hermann kærði hann fyrir að stela frá sér mat og kom honum fyrir sýslumann sem dæmdi Eirík til hýðingar og fjársektar sem ekki var um að ræða að gæti hann greitt.

Þetta leiddi til þess að Eiríki er komið í geymslu hjá Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi í Mjóafirði til gæslu á meðan fjársektin er ógreidd. Þó svo Sveinn hreppstjóri þyrfti að fæða Eirík þá fékk hann ekkert tillegg til þess frá ríkinu þ.e. sýslumanni, enda þeir gerðir að hreppstjórum sem voru þokkalega efnaðir og það voru hjónin á Krossi. En ekki mátti hreppstjórinn notast við Eirík til vinnu. Sveinn kemur Eiríki fyrir i ókleyfum hamravogi niður við sjó svo hann sleppi ekki úr haldinu og hyggst fóðra hann þar, þetta gerir hann samkvæmt ráðum sýslumanns.

Eiríkur sleppur úr haldinu og leggst í flakk upp á Hérað þar sem hann verður að stela sér til matar, næst svo þar og er skilað til Sveins á Krossi sem hefur hann þá heima við, en þaðan sleppur hann stuttu seinna og leggst þá í flakk í Norðfirði þar dæmir sýslumaður hann til enn frekari fjársekta og þrælkunarvinnu "í hinu íslenska fangelsi" og til greiðslu málskostnaðar. Síðan er Eiríkur aftur sendur til Sveins bónda og hreppstjóra á Krossi til varðveislu uns hægt verði að fullnægja þrælkunnar dómnum "í hinu íslenska fangelsi".

Þann veturinn tekur Sveinn upp á því að láta Eirík vinna með heimilisfólki á Krossi m.a. við sjóróðra og virðist það hafa orðið til þess að Eiríkur er til friðs, enda má ætla að í staðinn hafi hann fengið fæði og húsnæði á við annað heimilisfólk. En þegar Krossverjar eru að taka upp bátinn eftir einn sjóróðurinn dettur Eiríkur niður bráðkvaddur, þann dag hittir svo á að Sveinn er í kaupstaðarverð á Eskifirði. Sveinn fer svo með lík Ólafs í bát, ásamt fleirum inn Mjóafjörð, á næsta sunnudegi og hyggst hitta prestinn í Firði. Þann sunnudag messar prestur ekki svo þeir hittast ekki, þá fer Sveinn þess á leit við Hermann "höfðingja" í Firði að fá lánaðar skóflur svo mætti jarðsetja lík Eiríks. En hann er í upphafi þessarar atburðarásar á framfæri Hermanns, sem þá sinjar Sveini um alla aðstoð.

Veðurútlit hafði verið slæmt þennan sunnudag, Sveinn og Krossverjar fara síðan róandi út Mjóafjörð eftir að komið er afleitt veður. En ná þó landi á Krossi með erfiðismunum án líks Eiríks sem hvarf frá borði. Upp úr þessu hefjast mikil réttarhöld sem fram fara í Firði sem enda með því að aleigan er því sem næst dæmd af Sveini bónda á Krossi, sem var þá fjarstaddur vegna heilsubrests, mikið af fjármunum Sveins fara í málkostnað sem sýslumaður og rekendur málsins skiptu á milli sín. Forsendur dómsins voru m.a. þær að varsla Sveins á Eiríki hafi verið svo slök að hann slapp margsinnis úr haldinu auk þess sem hann hafði að endingu brúkað hann til vinnu á Krossi og tínt að lokum líkinu.

Erfitt er að færa svona málatilbúnað til nútímalegs réttarfars, en þó má greina líkindi með máltilbúnaði þessa máls í Firði og lagaumhverfis vegna ólöglegra innflytjenda dagsins í dag, þar sem regluverkið býður upp á að lögfróðir menn einir geti farið með umboð flóttamann á kostnað skattgreiðenda í boði ríkisins. En í dag eru þó breiðu bökin fleiri, en hreppstjórans í Mjóafirði í denn, til að standa undir málskostnaðinum.

 

AUMUR LÝÐUR

Það mætti ætla að alþýða landsins hafi verið svo varnarlaus og aum að valdsmenn hafi vaðið yfir fólk að vild sinni með lögin ein að vopni. En í þjóðsögunum má líka finna frásagnir af því hvernig alþýðu fólk lét valdsmenn finna fyrir því á þann hátt að aumt hefði þótt til afspurnar.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá Bjarna Einarssyni sem bjó á 18. öld á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, Austal í Seyðisfirði og á Krossi í Mjóafirði og jafnvel víðar. Í þjóðsögunni er Bjarni sagður eiga Snjólaugu systir Hermanns í Firði, en í Ættum Austfirðinga er kona Bjarna talin Guðný dóttir Péturs Nikulássonar á Breiðavaði og Snjófríðar systur Hermanns í Firði. Hann var talinn göldróttur sjónhverfingamaður og greina sagnir Sigfúsar aðallega frá því hvernig hann náði að leyna suðaþjófnaði hvað eftir annað og m.a. með því að fá þá sem hann stal sauðunum frá til geyma þá fyrir sig.

Sigfús segir svo frá viðskiptum Bjarna við Jón Arnórsson sýslumann á Egilsstöðum, sem sennilega hefur þá verið það sem kallað var lögsagnari, svona nokkurskonar sýslufulltrúi dagsins í dag.

Það var á fyrri árum Bjarna í Austdal að sagnir segja það að Jón sýslumaður Arnórsson hafi dæmd frændkonu Bjarna til hýðingar fyrir ólöglegan barnsgetnað. Hún var í Mjóafirði og þótti mörgum of harður dómurinn. Bjarni bauð að gjalda fé fyrir hana en við það var alls eigi komandi og kom sá orðrómur í ljós að óþarflega harður þætti dómurinn.

En hvað sem í því var satt lét sýslumaður fullnægja dómnum og var stúlkan hýdd vægðarlaust. Þetta sveið Bjarna mjög. Svo segja menn að þegar sýslumaður reið upp yfir frá hýðingunni með fylgjara sínum þá sat Bjarni fyrir honum. Bjarni gerði fylgdarsvein sýslumannsins aðvaran um það að heillavænlegast væri fyrir hann að fara leið sína. Trúði hann að svo mundi vera og hélt áfram nokkurn spöl og beið þar. En Bjarni greip annarri hendi fyrir brjóstið á sýslumanni og spyr um málsúrslit.

Hann sagði sem var og heimtar að Bjarni sleppi sér. "Nei," sagði Bjarni, "en hafið þér nú gert rétt í þessu gagnvart mannúðarskyldu yðar." "Lögin heimila það," segir sýslumaður, "eða hvað viltu, kotungurinn, kenna mér réttarganginn?" „Eigi vil ég það en rétt minn og minna vil ég hafa af yður sem öðrum," segir Bjarni, "og eigi óþarfa harðbrýstni. Menn batna ekki við hana." "Ég dæmi rétt lát mig lausan," segir sýslumaður og ætlar að slíta sig frá honum, en það tjáði eigi. "Ekki nenni ég að sleppa yður svo að ég geri yður eigi áður áminningu," segir Bjarni, "og mun ég nú dæma yður á líkan hátt og þér dæmduð lítilmagnann. Skuluð þér nú reyna hversu sú hýðing er mjúk. Þér eruð ekki saklausari en stúlkan."

Eftir þetta kippti hann sýslumanni af baki og hætti eigi fyrri en hann hafði hirt hann á sama hátt og hann hafði látið hirta frændkonu Bjarna áður. Skildu þeir svo og er sagt svo að sýslumaður rétti þar aldrei hlut sinn. (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar V bindi bls. 328-329)

 

ÚTLAGAR FÓSTURJARÐARINNAR 

Þegar líða tók á lögbundna siðbótina má segja að reiði Guðs hafi farið láta á sér kræla á landinu bláa. Náttúruhamfarir bættust við ógnarstjórn og einokun, sem komið hafði verið á í landinu af þeim sem með völdin sýsluðu. Smám saman komst örbyrgð almúgans á það stig að ekki var eftir miklu að slægjast fyrir slektið.

Á 19. öldinni streymdi margt almúgafólkið vestur um haf í leit að bættum lífskjörum. Það er athyglivert að þegar þrengir að á Íslandi er það dugandi alþýðufólk sem hverfur úr landi og getur sér góðs orðs í nýjum heimkynnum, þó svo að ætla mætti að þeir sem með valdið fara þegar í óefni er komið ættu fyrstir að fljóta frá borði, en svo hefur það aldrei verið á landinu bláa.

Á öldunum 18. 19. og 20 var það rétt eins og á þeirri 21.,prelátar stjórnkerfisins sátu eftir heima, sýslumenn, lögspekingar, prestar og bankamenn. Þá, eins og nú í hinu "svokallaða hruni", var ekki nokkur  þörf meðal annarra þjóða eftir atgervi þessara gæðinga. Þeir sátu eftir við að enduræsa óskapnaðinn með nýrri ímynd, og ákváðu að nú skyldi ekki nota ímynd siðbótar eða hvað annað það sem áður hafði verið upphugsað, nú skyldi það heita hagvöxtur og fjármálastöðugleiki.

Æviráðnir stjórnmálamenn sem sem sumir hverjir töldu fólki trú um að þeir væru að fórna sér við flórmokstur í nafni velferðar, jusu líkt og skítadreifarar skuldaklyfjum slektisins yfir heimili landsins sem kostaði marga barnafjölskylduna útburð og útlegð frá ættlandinu. Allt gert í nafni fjármálastöðugleika og hagvaxtar. Svo verða sömu launþegar ríkisins hissa á að val almúgans skuli ekki vera um það að halda afrekum þeirra á lofti, eftir að hafa endurreist gamla ógeðið einu sinni enn, með öllum sínum stóradóms-siðbætta hagvaxtar þvættingi. 

Fólkið sem fór vestur um haf á öldinni 19. hefur getið sér gott orð þó svo að ferilskráin hafi verið rýr frá embættismannakerfi ættlandsins. Afkomendur þess fólks minnast gamla landsins með stolti og þar má sjá að afkomendur fyrirverða sig ekki fyrir að vera komnir út af almúga fólki sem dæmt var af slektinu heima á gamla Íslandi.

Hér má sjá eftirmæli eins afkomenda Kristínar Rustikusdóttir, þeirrar sem dæmd var til dauða og gerð eignalaus á meðan beðið var eftir svari konungs, fyrir það að verða ófrísk vinnukona á barnaheimili ekkjumanns sem hún hafði ákveðið að giftast. 

Það var ekki úrkast hinnar íslenzku þjóðar, sem vestur flutti frá menningarlegu sjónarmiði skoðað, þeir voru flestir fátækir, en þeir áttu andlegan auð og manndóms yfirburði, sem haslaði þeim völl meðal bestu manna hjá hvaða Þjóð, sem hefði verið. Þeir voru karlar í krapinu margir íslenzku leikmennirnir, bæði hvað vit, framtakssemi og höfðingsskap snerti, og í flestum og jafnvel öllum byggðum íslendinga voru þessir afburða menn — héraðshöfðingjar, sem höfuð og herðar báru yfir fjöldann. Sigbjörn Sigurðsson Hofteig, sem alla sína tíð hér vestra var héraðshöfðingi í Lyon County í Minnesota. Hann var Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur á Breiðumýri í Vopnafirði, 31. Desember 1841 Faðir hans var Sigurður Rustikusson, bónda á Breiðumýri Bjarnasonar. Kona Bjarna var Kristín Rustikusdóttir Þorsteinssonar bónda á Kóreksstöðum og víðar.

 

LÖG OG LÖGLEYSA

Stóridómur var verkfæri fégráðugra valdsmanna og jafnvel siðblindra sadista, sem notað var til að véla eignir af alþýðu bændum og halda vinnufólki í ánauð. Nú á dögum fara valdsmenn ríkisins fínna í sakirnar þegar þeir, ásamt fjármálastofnunum og lögfræðingum þeirra, sölsa undir sig eigur almúgafólks með regluverki verðbættra okurvaxta svo jaðrar við skipulega glæpastarfsemi. Vextir og verðbætur af talnaverki tíðkuðust ekki fyrr á öldum, því þurfti stóradóminn til, sem nú hefur verið afnuminn úr eignaupptöku lögunum. 

Nú er málatilbúnaðurinn af tíðarandans toga, verðtryggðir okurvextir með belti og axlaböndum vegna verðmæta sem aldri verða til nema fyrir vinnusemi fólksins. Sem vinnur fyrir slekti sem hefur ekki annað til brunns að bera en ítök í kerfi sem er notað til að skóla fólk frá vöggu til grafar í að hlíta lögum sem hefur verið komið á fyrir sjónhverfingar fárra gráðugra aurapúka.

Þau lög eru, nú sem fyrr, siðlaus þegar kemur að hjartanu og eiga sér enga bót fyrir lagaboðinu æðsta," Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig".

 

Heimildir;

Sakamál Sesselju Loptsdóttur og munnmælasagan af Hamra-settu / Austurland III bindi bls. 105-117 Halldór Stefánsson.

Molar úr sögu / Fólk og saga bls. 114-133 Benedikt Gíslason frá Hofteigi.

Eiríkur Ólafsson síðasta æviár- og ævilok / Múlaþing 32. árg. 2005 Vilhjálmur Hjálmarsson.

Þjóðsögur, Vísindavefurinn, Wikibedia og fleira sem linkað er á í bloggfærslunni.


Átján konur og fólkið í Kjólsvík

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar I bindi eru "Sögur af æðstu völdum" þar sagt frá Kjólsvíkurfólkinu undir kaflanum "Refsidómar drottins". Sú frásögn er að miklu leiti tekin upp úr Desjamýrarannál sem séra Halldór Gíslason hafði ritað nokkrum ártugum eftir að þeir atburðir gerðust sem þjóðsaga Sigfúsar greinir frá, sakamáli sem upp komu í byrjun 18. aldar í afskektu vík sunnan undir fjallinu Glettingi. Kannski hefur þessi Þjóðsaga Sigfúsar svo orðið til þess í seinni tíð að farið var að grennslast fyrir um sannleiksgildi hennar af tiltækum heimildum. 

Núna í júlí fórum við hjónin í fyrsta skipti akandi um fjallveginn ofan við víkurnar suður af Borgarfirði eystri, leiðina í Loðmundarfjörð. Áður hafði ég flogið með Stefán Scheving félaga mínum yfir þetta svæði og séð hvað það er torfarið vegna endalausra fjalla og brattlendis. Þegar við flugum þarna með ströndinni seint í vetur rifjaðist upp frásögnin af örlögum fólksins í Kjólsvík, sem var það áhrifamikil að nafnið á víkinni hafði greipst mér í minni frá því ég las um Kjólsvíkurmálin fyrir næstum tveimur áratugum síðan. En víkina þekkti ég um leið og Stebbi sagði þarna er Glettingur.

Kjólsvík

Í Kjólsvík var eitt afskekktasta býli á Íslandi

Svo var það litlu eftir að við Matthildur fórum umrædda ferð um þetta svæði, þó svo að ekki ættum við kost á því að fara í Kjólsvík því þangað kemst enginn nema fótgangandi, að þessi afskekkta vík leitaði aftur á hugann og ég ákvað að lesa frásögnina um fólkið þaðan aftur og kanna bakgrunn hennar. Frásögnin sem ég las var ekki þjóðsagan heldur greindi hún frá því hvað kemur í ljós þegar allar tiltækar heimildir eru skoðaðar. Hún er í tímaritinu Glettingi og ætla ég að leyfa mér að birta hana óstytta hér á eftir.

Ein ástæðan fyrir því að sagan bankaði upp á aftur og aftur núna í júlí var nýlegur diskur Bubba Morthens sem heitir "18 konur" og var í spilaranum í bílnum um tíma. Þar tekur Bubbi upp hanskann fyrir konur í því órétti sem þær hafa verið beittar í gegnum tíðina og syngur um 18 konur sem drekkt var á Þingvöllum í krafti Stóradóms. En konunum sem drekkt var með þessu lagaboði voru mun fleiri þó svo að ekki hafi það alltaf verið gert með viðhöfn á Þingvöllum og ekki voru það síður fátækir karlar sem mátti gjalda fyrir þennan lagabókstaf. Lög stóradóms bitnuð fyrst og fremst á fátæku fólki og um það vitna málaferlin á hendur fólkinu í Kjólsvík.

Drekkingarhylur 

Með Stóradómi voru dauðarefsingar vegna hjúskaparbrota leiddar í lög á Alþingi árið 1564, þar sem karla átti að hálshöggva en drekkja konum, en fyrstu 300-400 árin frá landnámi, þ.e. þjóðveldistímann var ekkert framkvæmdarvald á Íslandi. Fram að þeim tíma höfðu dómar yfir sekum mönnum verið þrenns konar:

Í fyrsta lagi var hægt að dæma hinn seka til að greiða bætur eða fjársekt en þegar féð hafði verið greitt var maðurinn aftur óhultur fyrir þeim sem kröfu áttu á hann.

Næsta stig var kallað fjörbaugsgarður en það fól í sér að hinn seki var dæmdur til þriggja ára brottvísunar úr landi. Þá varð hann að fara úr landi áður en þrjú sumur voru liðin frá dómi og vera í burtu í þrjú ár. Að þremur árum liðnum gat hann komið heim og lifað sem frjáls væri.

Þriðja og þyngsta refsingin kallaðist skóggangur. Sá sem var dæmdur skógargangsmaður mátti ekki vera á Íslandi. Ef hann náðist á Íslandi var hverjum sem er leyfilegt að drepa hann. Sumir skógarmenn gátu verið frjálsir í útlöndum, aðrir voru réttdræpir þar líka. Grettir Ásmundarson hlaut 20 ára skóggangsdóm en var stóran hluta hans sem útlagi á Íslandi.

Það var því ekki fyrr en landið komst undir vald Noregskonunga að refsingar dómstóla ríkisins urðu til, og má segja að kaþólska kirkjan hafi leikið stórt hlutverk sem framkvæmdavald við að framfylgja þeim, allt fram að siðaskiptum. Eftir siðaskiptin var hert mjög á líkamlegum refsingum brotamanna á Íslandi. En stóridómur fjallaði um viðurlög í frændsemi- og sifjaspellsbrotum, hórdómi og frillulífi.

Við gildistöku stóradóms færðist dóms- og framkvæmdarvald í slíkum siðferðismálum frá kirkjunni til veraldlegra yfirvalda. Á 16. og 17. öld var ráðamönnum mikið í mun að refsa fyrir afbrot og syndir almennings, meðal annars til að koma í veg fyrir reiði Guðs sem talin var geta beinst að samfélaginu í heild og um leið orðið til að æsa það illa upp með brotunum. Fyrir utan hert viðurlög var það nýmæli að veraldlegir embættismenn konungs, það er sýslumenn, skyldu nú sjá um framkvæmd refsinganna og innheimtu sekta. Næstu aldir var eftirgrennslan í þessum málum eitt helsta verkefni þeirra allan ársins hring. Fyrir siðaskipti hafði kirkjan annast siðferðisbrot og sett sakamönnum refsingar, misharðar eftir alvöru máls. Dauðadómi bar að skjóta til alþingis.

Hálshöggvinn

Fyrsta konan sem drekkt var á Þingvöllum hét Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Hún var dæmd sek um að bera ljúgvitni um að hún væri ekki ófrísk og hafa svarið sig hreina mey. Þá neitaði hún að segja til föðurins en viðurkenndi að lokum að mágur hennar væri faðirinn, enda þótt það væri aldrei sannað. Játningar voru gjarnan kallaðar fram með pyntingartæki, einskonar fingraklemmu, eins og í tilfelli Þórdísar og oft var húðstrýkingu beitt í sama skyni. Var Þórdís dæmd til drekkingar fyrir áðurnefndar sakir, þrátt fyrir mótmæli bræðra hennar og annarra ættingja. Dómnum var ekki framfylgt fyrr en að tíu árum liðnum. Á sama alþingi voru Guðbjörg Jónsdóttir og Þórarinn Jónsson tekin af lífi eftir að hafa verið dæmd sek vegna ólögmætrar barneignar, bæði voru þau af Austurlandi. Guðbjörg bar að Þórarinn frændi hennar væri faðir að barni hennar en hann svarði af sér faðernið, Guðbjörgu var drekkt og Þórarinn hálshöggvinn.

En þá er komið Kjólsvíkur málum, sem um er skrifað í tímaritinu Glettingi af Magnúsi Helgasyni. Hann leitar heimilda í frásögn sína úr Manntölum, Desjamýrarannál, Alþingisbókum, Setbergsannál, Norskulögum og í Gísla Gunnarsson. Tímaritið Glettingur er ekki til í nettæku formi því ættu allir sem áhuga hafa á Austfirsku málefnum að útvega sér blaðið í áskrift, sjálfur hef ég verið áskrifandi frá upphafi útgáfu þess.

 kjolsvik_viknaslodir_bf 

Kjólsvík

Hinn 18. Júlí 1708 var Hallfríður Magnúsdóttir, vinnukona frá Kjólsvík, leidd að hinum svokallað Drekkingahyl á Þingvöllum. Þar fann hún sitt skapadægur í köldu vatninu – dæmd af alþingi fyrir hórdóm og tilraun til barnsútburðar. Með dauða Hallfríðar var lokið hinu svokallaða Kjólsvíkurmáli, sem hófst þremur árum áður og kostaði þrjár manneskjur lífið. Þær heimildir sem hér er stuðst við, eru alþingisbækur auk frásagna úr annálum.

Kjólsvík er lítil vík sunnan undir fjallinu Glettingi og gengur þar þröngur en grösugur dalur upp milli fjallanna. Neðan undir Glettingi stendur klettur, er Kjóll heitir, og dregur víkin nafn sitt af honum. Á þessum stað var byggt eitt býli frá fornu fari.

Árið 1705 bjuggu í Kjólsvík hjónin Sigmundur Vigfússon og kona hans, Helga Þorvarðardóttir. Sigmundur var þá 46 ára en Helga tíu árum eldri. Áttu þau þrjú börn á aldrinum 8-14 ára. Hjá þeim voru vinnuhjú Hallfríður Magnúsdóttir, 34 ára, og Ólafur Kolbeinsson, ári eldri. Tveimur árum áður höfðu þau Sigmundur og Helga búið á Glettinganesi, skammt norðan Kjólsvíkur, en þangað hafði Hallfríður komið til þeirra. Á þeim tíma var Ólafur vinnumaður í Húsavík.

Á umræddu ári, 1705, fór menn að renna í grun að ekki væri allt með felldu í Kjólsvík. Í Desjamýrarannál segir: Opinberaðist það ljóta mál í Borgarfirði austur, kallað Kjólsvíkurmál. Höfundur annálsins var séra Halldór Gíslason á Desjamýri (1718-1772). Þótt annállinn sé hugsanlega ekki mjög traust heimild fyrir atburðunum, enda ekki skrifaður fyrr en nokkrum áratugum eftir að málinu lauk, ber hann þó sterkt vitni viðhorfum 18. aldar manna til þess verknaðar sem framinn var.

Í annálnum segir: Á þessum mönnum (þ.e. Sigmundi og Ólafi) lá illt orð um það, að eigi mundu umgangast siðsamlega með téðri Hallfríði. Leyfðu margir sér frekt í því að tala, þó lágt fara ætti. Á þessu ári yfir féll óvenjuleg hríða- og bjargarleysistíð. Mæltu margir það mundi standa af illu athæfi í Kjólsvík. Varð það úr þessu, að við kirkju á Mýrarstað þann 9. sunnudag í trinitatis bundu hreppstjórar það fastmælum að fara í Kjólsvík til rannsóknar. En sem heitið var staðfest, gekk veður til batnaðar. Deginum eftir tókst þessi fyrr téða ferð. Fundu þeir fyrir Helgu á smalaferð og spurðu tíðinda, en hún lést engin kunna að segja. Þar eftir fundu þeir Hallfríði að sápuþvotti, hverja þeir tóku og rannsökuðu. Fannst þá mjólk í brjóstum hennar. Þeir spurðu hana, hvað hún hefði gjört af barni sínu, en hún sagðist hafa fengið það Ólafi Kolbeinssyni. Hann, aðspurður um sama efni, sagðist hafa gengið frá því út í Flugum (í Glettingi norðan Kjólsvíkur). Þeir báðu hann sýna sér barnið og sögðust skyldi festi á honum hafa, hvað honum nauðugt var, jafnvel þó þeir réðu meira. Gekk hann svo í Flugin og tók barnið út úr holu innan í tyrju. Síðan voru þau þrjú tekin og færð til sýslumanns.

Hér kemur fram glögg lýsing á atburðum, auk viðhorfs séra Halldórs sjálfs til þess sem gerðist. Hann telur að guðleg forsjón ráði örlögum þeirra Hallfríðar og Ólafs, sem birtist m.a. í veðráttunni, er gefi til kynna vanþóknun Guðs á mannanna verkum í Kjólsvík.

Samkvæmt lögum á þessum tíma máttu vinnuhjú ekki ganga í hjónaband nema þau ættu jarðnæði og fólk utan hjónabands ekki eignast afkvæmi. Var þetta trygging samfélagsins fyrir því, að þeir sem voru eignalausir eða börn þeirra, þyrftu ekki að segja sig til sveitar. Ef fólk átti ekki eigið bú, var skylda þess að verða hjú á heimili bónda þar sem það ætti grið. Vinnuhjú í þessu samfélagi lifðu því ófrjálsu einlífi. Ef þau brutu lög var þeim refsað, þar eð þau hefðu framið svokölluð hórdómsbrot, en við þriðja broti af því tagi var dauðarefsing.

Árið 1706 voru þau Ólafur, Hallfríður og Sigmundur færð til alþingis af sýslumanni Norður-Múlasýslu. Á leið þeirra til þings, sem hefur tekið marga daga frá þessum austustu nesjum landsins, hafa þau Ólafur og Hallfríður haft talsverðan tíma hvort fyrir annað og samskipti þeirra verið mjög náin. Sýslumanni hefur tæpast þótt ástæða til að koma í veg fyrir atlot þeirra, enda hugsanlega talið augljóst að þetta fylgdarfólk sitt væri dauðasekt. Á alþingi kom málið fyrir dóm og var Ólafur dæmdur til lífláts. Á sama þingi var hann hálshöggvinn.

Sigmundur bóndi og Hallfríður vinnukona voru hins vegar dæmd til húðlátsrefsingar fyrir eiðfall og barnsmorðsins meðvitund og samhylli. Í Setbergsannál segir svo um sama mál: Höggvin var maður úr Múlasýslu á alþingi fyrir leynilegan barnsútburð, en móður barnsins vægt um lífstraffið orsaka vegna. Henni refst á alþingi og giftum manni, er vitund hér hafði og hórdómsverknað með henni framið, einnin sá maður, sem höggvinn var og barnið átti, hver að fyrr hafði í hórdóm fallið, markaður fyrir þjófnað.

Ekki er ljóst hvers vegna Hallfríður var ekki líflátin á sama þingi og erfitt að túlka orðin orsaka vegna í þessu samhengi.

Fljótlega að aflokinni Þingvallaferð, þegar Hallfríður var aftur komin heim í sitt hérað, kom í ljós að hún var þunguð í annað sinn. Kenndi hún Ólafi þungann og sagði barnið hafa komið undir á leið þeirra til alþingis. Þetta barn fæddi hún 23. mars á Kóreksstöðum, sem þá var heimili lögréttumannsins, Ólafs Andréssonar. Af fæðingarstað barnsins má vera ljóst að mönnum hefur þótt nauðsynlegt að hafa gætur á Hallfríði, enda kom í ljós, að eftir að barnið var fætt, reyndi hún að leyna því undir klæðum sínum og hugðist bera það út. Komið var í veg fyrir það og lifði barnið.

Þegar hér var komið var Hallfríður orðin sek um þrjú hórdómsbrot, tvö með Ólafi og eitt með Sigmundi, og ásetning um að bera síðara barn sitt út. Mál hennar var tekið fyrir af Bessa Guðmundssyni, þáverandi sýslumanni, á Hjaltastaðamanntalsþingi árið 1707. Sýslumaður sendi alþingi bréf um þetta mál þá um sumarið. Í alþingisbókum segir ....sýnist áðurtéðum valdsmanni með dómsmönnum téð Hallfríður Magnúsdóttir nærri dauðadómsatkvæði standa og setja svo þetta mál til fyllilegrar ályktunar lögmanna og lögréttunnar á þessu Öxarárþingi. Ákváðu þingmenn nú að dæma ekki í þessu máli fyrr en árið síðar, þar sem Hallfríður var fjarverandi.

Málið var tekið fyrir á alþingi 11. júlí 1708, að viðstöddum sakborningi. Í dómsúrskurði segir m.a.: Hallfríður Magnúsdóttir, af sinni eigin meðkenning sannprófuð af þremur hórdómsbrotum, hefur forboðið sitt líf og á að drekkjast í vatni eftir hljóðan lögmálsins, sem almennilega kallast stóridómur, nema kóngur vilji meiri miskunn á gera, segir sama lögmál. En vér álítum hún hafi þá miskunnarvon forboðið með sinni óguðlegu meðferð á sínu síðasta nýfæddu fóstri... Metum því, að þessi vesöl Hallfríður sé þeim líkust, sem láta smábörn á eyðimerkur, þar sem ólíklegt er, að menn bráðlega komi þeim til bjargar, og lögmálið segir, að hafi sitt líf forboðið... .

Viku síðar, 18 júlí, var líflátsdómnum fullnægt. Í hinum norsku lögum, sem dæmt var eftir, er þannig komist að orði, í þýðingu Magnúsar Ketilssonar: Hittist nokkur eður verður nógsamlega yfirbevísaður, að hafa annaðhvort sitt eður annars barn útborið og eftirskilið á eyðimörk, hvar menn ekki eru, eður líklegt er að menn komi, þá skal hann látast sem manndrápari, og hafa fyrirgjört lífinu, jafnvel þó barnið fyrir Guðs forsjón kunni að finnast og halda lífi.

Árið 1703, rétt fyrir atburðina í Kjólsvík var vinnuhjúastéttin fremur fámenn, ef miðað er við 19. öldina. Telur Gísli Gunnarsson sagnfræðingur, sem skrifað hefur um þetta tímabil, að megin skýringin hafi verið sú að þá hafi sveitarómagar verið margir en slíkur fjöldi er skýrt dæmi um að margt vinnufært fólk gat ekki einu sinni fengið vist vegna harðæris. Á þessum tíma hefur vinnukona, sem fæddi barn utan hjónabands, því ekki átt margra kosta völ. Miklar líkur eru til að bæði hún og barnið hefðu endað sem sveitarómagar. Samfélagið viðurkenndi ekki óvelkomin börn. Hugsanlega hafi því samfélagsaðstæður að einhverju leyti ýtt undir fyrrgreindan verknað, sem framin var í Kjólsvík.

Á sama þingi, 1708, var dæmt í máli húsfreyjunnar í Kjólsvík, Helgu Þorvarðardóttir. Hún hafði verið sökuð um yfirhylmingu í fyrra barnsútburðarmálinu. Helga var dæmd í fésekt. Í dómnum yfir henni segir, að ef hún ekki geti greitt féð, líði hún á kroppinn eftir miskunnsamri linkindartempran valdsmannsins monsr. Bessa Guðmundssonar. Í dómsúrskurði í máli hennar var vísað til hinna norsku laga. Í þeim segir: Hvar misklíð og óeining tilfellur millum manna, skal sérhver sem viðstaddur er, vera skyldugur til að hindra og koma í veg fyrir ólukku og manndráp. En ef manndráp skeður, þá að hindra manndráparann að ei uppkomist. En komist hann burtu. Þá skulu þeir allir vera skyldugir að elta hann, og færa tilbaka innan átta daga í hið seinasta.

Það þótt því sannað að húsfreyjan í Kjólsvík hefði vitað meira um útburð barns þeirra Ólafs og Hallfríðar en hún hafði látið uppi.

Heimleið þeirra Kjólsvíkurhjóna Sigmundar og Helgu af alþingi árið 1708 hefur að öllum líkindum verið erfið. Frá því að Ólafur Kolbeinsson hafði fengið vist hjá þeim, um 1704, hafði líf þeirra tekið stakkaskiptum. Dauðinn hafði umlukið tilveru þeirra. Aftökur vinnuhjúa þeirra og vitnisburður um barnsútburð hefur eflaust orðið þeim þung hugraun. Að auki voru þau bæði dæmdar manneskjur. Heima í Kjólsvík biðu þeirra þrjú börn, sjálfsagt milli vonar og ótta, undir hlíðum Glettings.Höf. Magnús Helgason, Glettingur 2.tbl 7.árg 1997

Höfundur kemur inn á að vegna harðæris þessa tíma hafi vinnukona sem eignaðist barn átt fárra kosta völ. En eftir lestur þessarar greinar um Kjólsvíkurmálið vaknar spurningin hvort vinnufólk og efnalítið bændafólk áttu nokkurra ásættanlegra kosta völ, þegar stóridómur var annarsvegar, ef barn kom á annað borð "ólöglega" í heiminn. Að loknum lestri frásagnar Magnúsar Helgasonar í Glettingi verður vart komist hjá því að íhuga hvort þjóðsagan varðveitir ekki betur sannleikann en hin opinbera saga, enda getur sú síðarnefnda yfirleitt ekki alþýðufólks nema þegar það kemst í kast við lögin.


Litu blóðs í pollinn

IMG_2639

Um Hvítasunnuleitið árið 1784 var ógeðfellt morð framið í grennd við syðsta bæ í Breiðdalshrepp, Streiti á Berufjarðarströnd, eftir að þrír ungir menn lögðust út og hugðust lifa í félagi sem útilegumenn, inn í atburðarásina blandaðist síðar fjórði austfirski unglingurinn. Örlögin höguðu því þannig að allir þessir ungu menn tíndu lífinu í framhaldi þessa Hvítasunnumorðs. Síðasta opinbera aftakan á Austurlandi var lokakaflinn í þeirri atburðarás, þegar einn þessara ungu manna var aflífaður á hroðalegan hátt á Eskifirði rúmum tveimur árum seinna. Sagan hefur ekki farið fögrum orðum um ævi og örlög þessara drengja, en spyrja má hverjir voru valkostirnir.

Árferðið 1784 var eitt það versta sem á Íslandi hefur dunið, móðuharðindin voru þá í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á lífskjörum fólksins í landinu. En árið 1783 hófust eldsumbrot á Síðumannaafrétti í Lakagígum sem sagan kallar Móðuharðindin. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um mitt sumar, hraunflóð vall fram milli Síðu og Skaftártungu með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og flókið úr flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja átthaga sína, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fénaður kom magur af fjalli ef ekki horaður og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þegar fallinn.

Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins þrjár kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Melarakkasléttu, reikaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyflin í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu. Mannfólkið var svipað leikið um vorkomuna 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði auk blóðkreppusóttar og annarra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli sveita og bæja. Þetta sumar gengu menn víða um land fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.

Ofan á þessar hörmungar bætast svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, þegar fjöllin hristu af sér jarðveginn svo gróðurtorfurnar lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bóndabæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu. Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Þó greina annálar frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið hvað skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.

Djúpivogur

Djúpivogur

Þann 10. júní 1784 var Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga staddur á Djúpavogi, en hann var búsettur á Eskifirði. Þar sem hann var í kaupmannshúsinu hjá Grönholt ritaði hann bréf til dönsku stjórnarinnar sem átti að fara með verslunarskipinu sem lá við ból úti á voginum, ferðbúið til Kaupmannhafnar. Gripið er hér niður í bréf sýslumanns; , .. tel ég það mína embættisskyldu að skýra hinu háa stjórnarráði stuttlega frá óheyrilegu eymdarástandi þessarar sýslu, sem orsakast ekki aðeins af feiknarlegum harðindum tveggja undangenginna ára, heldur hefur dæmalaus ofsi síðastliðins vetrar þreifanlega á því hert; því eftir að napur kuldi ásamt viðvarandi öskufalli og móðu af völdum eldgosa höfðu kippt vexti úr gróðri, þá þegar örmagnað búpeninginn sem fitna átti á sumarbeitinni, skall hér á strax um Mikjálsmessu (þ.e. 29. sept) svo harður vetur, að hann gerist sjaldan bitrari í marsmánuði. Hlóð þegar miklum snjó í fjöll og dali, svo að fé fennti víða á svipstundu.

Menn urðu að hætta heyskap í miðjum klíðum. Heyið lá undir snjó og spilltist. Lestir á leið að höndlunarstöðum komust ekki leiðar sinnar, en urðu að láta þar nótt sem nam. Þeir sem voru á heiðum uppi misstu ekki aðeins hesta sína úr hungri, heldur skammkól þá sjálfa í frostinu. Veðurfar þetta hélst fram í miðjan nóvember, er heldur brá til hins betra. Með nýári hófst miskunnarlaus vetrarharka með langvinnum stormum og fannfergi og svo óstjórnlegu frosti, að um 20. febrúar hafði alla firði lagt innan úr botni til ystu nesja, en slíks minnast menn ekki næstliðið 38 ár. Hér við bætist hafísinn, sem hinn 7. mars þakti svo langt sem augað eygði af hæstu fjallstindum, og hélst þessi ótíð fram á ofanverðan apríl, að heldur hlýnaði í lofti, þó ekki nóg til þess að fjarðarísinn þiðnaði eða hafísinn hyrfi frá landi fyrr en í maímánaðarlok.

Sauðfé og hross, sem hjarað höfðu af harðærin tvö næst á undan og fram á þennan ódæma harða vetur féll nú víðast hvar í sýslunni... Búendur á hinu kunna Fljótsdalshéraði, sem áður voru fjáðir og gátu sent 5-8 eða 10 hesta lestir í kaupstað, verða nú að fara fótgangandi um fjöll og heiðar og bera á sjálfum sér eina skeppu korns í hverri ferð... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti, flakk og þjófnaður ágerist svo, að ég hef síðan manntalsþing hófst haft auk annarra, sem refsað hefur verið, tvo sakamenn í haldi, sem dæma verður til Brimarhólmsþrælkunar, af því hesta er hvergi að fá til að flytja þá í fangahús landsins...

Landsbóndinn hefur misst búfjáreign sína, og missir hrossanna gerir honum með öllu ókleift að stunda atvinnu sína eða afla sér brauðs, þótt í boði væri. Sjóarbóndinn svonefndi, sem um mörg undanfarin ár hefur eins og hinn að mestu lifað af landsins gæðum, er engu betur settur...; verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema Yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara Yðar þrautpíndu fátæku undirsáta á eftirfarandi hátt.

1. Að kaupmenn konungsverslunarinnar hér í sýslu fengju með fyrsta skipi skýlaus fyrirmæli um að lána öllum bændum sýslunnar undantekningalaust nauðsynjavörur, þó í hlutfalli við þarfir og fjölda heimilisfólks.

2. Að Yður náðarsamlegast þóknaðist að gefa fátæklingunum í hreppunum, þeim sem annars féllu, tiltekinn skammt matvæla, þar sem lán sýnist ekki mundu verða til annars en sökkva þeim í skuldir, sem aldrei yrði hægt að borga

3. Eða, að Yður allramildilegast þóknaðist að flytja héðan það fólk, sem komið er á vergang og vinnufært teldist, annað hvort til Danmerkur eða annarra staða hérlendis, þar sem betur kynni að horfa, til að létta þá byrði sem það er á örsnauðum fjölskyldum, sem þreyja á býlum sínum, og bjarga þannig dýrmætu lífi margrar óhamingjusamrar manneskju, er ella hlyti að hníga í valinn ríkinu til tjóns...“

Það er í þessu árferði, á uppstigningardag, sem þrír ungu menn hittast á Hvalnesi við sunnan verðan Stöðvarfjörð og eru sagðir hafa gert með sér félag um að leggjast út. Sá elsti þeirra hét Eiríkur Þorláksson fæddur á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1763 og vistaður hjá séra Gísla Sigurðssyni á Eydölum. Umsögn séra Gísla um Eirík var á þann veg; að hann væri latur, áhugalaus um kristin fræði, hneigður til stráksskapar, þjófnaðar og brotthlaups úr vistum. Eiríkur hafði, þegar hér kemur sögu, hrökklast úr vist við norðanverðan Reyðarfjörð á útmánuðum. Hann hafði verið hjá Marteini Jónssyni útvegsbónda í Litlu-Breiðuvík í Helgustaðahreppi, sem var sagður „valinkunnur maður“, og sjósóknari í betra lagi, ekki er ólíklegt að Eiríkur hafi róið með Marteini og hafi því hrakist til neyddur úr góðri vist.

IMG_2706

Sá yngsti þeirra þriggja var Gunnsteinn Árnason, fæddur 1766, frá Geldingi (sem heitir Hlíðarendi eftir 1897) í Breiðdal. Hann hafði dvalist með foreldrum sínum framan af æfi en þau annaðhvort flosnað upp eða fyrirvinnan látist, var honum fyrirkomið sem niðursetningi á Þverhamri í Breiðdal um 12 ára aldurinn. En síðast settur niður á Einarstöðum við norðanverðan Stöðvarfjörð (þar sem þorpið á Stöðvarfirði stendur nú) og hafði þaðan hrakist í apríl byrjun. Eftir það hafði hann dregið fram lífið á flakki á milli bæja allt frá Breiðdal í Fáskrúðsfjörð. Umsögn séra Gísla á Eydölum um Gunnstein er á þann veg að hann teljist læs en latur og kærulaus um kristin fræði.

Þriðji ungi maðurinn sem kom þennan uppstigningadag í Hvalnes var Jón Sveinsson frá Snæhvammi í Breiðdal sennilega fæddur 1764. Sagður á sveitarframfæri eftir að hafa misst föður sinn sem fór niður um ís á Breiðdalsá 1772. Hann er þó skráður sá eini af fjölskyldu sinni hjá föðurbræðrum sínum í Snæhvammi 1771, svo ef til vill hefur fjölskyldunni verið tvístrað áður en faðir hans fórst. Bræður hans eru síðar skráðir niðursetningar víða um Breiðdal, en hann niðursettur að Ánastöðum 10 ára gamall og síðar í Flögu og Eyjum, en eftir það hjá Birni föðurbróðir sínum í Snæhvammi. Þennan uppstigningardag á Hvalnesi leikur grunur á að Jón hafi verið orðinn sjúkur og máttlítill. Haft var eftir Jóni Árnasyni í Fagradal sem hafði hitt nafna sinn skömmu áður, að hann hafi verið magur, en þó gangfær, og ekki kvartað um veikindi.

Eins og greina má af opinberum lýsingunum höfðu þeir félagar ekki átt sjö dagana sæla. Enda hafa þeir sem minna mega sín, allt frá fyrstu hallærum Íslandssögunar, átt verulega undir högg að sækja. Sagnir herma að fyrsta hungursneiðin eftir að land byggðist hafi verið kölluð „óöld“ (975) „Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var þá étin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir drepnir.“ Í Flateyjarbók segir að árið 990 hafi verið svo mikið hallæri á Íslandi, að fjöldi manna hafi dáið úr sulti. Þá var samþykkt á héraðsfundi í Skagafirði, að reka út á gaddinn öll gamalmenni og vanheila, og banna að veita þeim hjálp. (En Arnór kerlinganef, sem kannski var kallaður svo vegna afstöðu sinnar, kom í veg fyrir að þetta væri gert). Því þarf kannski ekki að koma á óvart, miðað við árferðið þetta vor, að þessir þrír ungu menn hafi látið sig dreyma um betra líf sem útilegumenn.

UntitledÞeir félagar Eiríkur, Gunnsteinn og Jón lögðu upp frá Hvalnesi við Stöðvarfjörð að kvöldi uppstigningardags þann 20 maí 1784, sennilega án þess að nokkur sakanaði þeirra, enda vafalaust lítið til skiptana handa gestum og gangandi í því árferði sem ríkti, hvað þá handa ómögum. Fóru þeir fyrir Hvalnesskriður(nú er algengara að kalla bróðurpart lands Hvalness við Stöðvarfjörð, Kambanes, og hluti fyrrum Hvalnesskriða er kallaður Kambaskriður). Þar hefur hafísinn lónað úti fyrir ef marka má bréf Jóns sýslumanns. Þeir fóru yfir í Snæhvamm í Breiðdal og eru sagðir hafa gist þar hjá frændum Jóns. Síðan fara þeir yfir í Þverhamar og sagði Gunnsteinn þá hafa gist í fjósinu, hafa kannski ekki gert vart við sig hjá Höskuldi hreppstjóra Breiðdælinga þar sem Gunnsteinn hafði verið niðursettur nokkru fyrr. Á þriðja degi fluttu þeir sig suður í Krossdal gegnt Breiðdalseyjum þar sem þeir hafast við í kofa eina nótt og þaðan fara þeir upp í miðja kletta í fjallinu Naphorni á Berufjarðarströnd, við Streiti syðsta bæ í Breiðdalshreppi. Þar gerðu þeir sér sér byrgi og bjuggu um sig upp í klettarák. Þegar þarna var komið var Jóni Sveinssyni ekki farið að lítast á blikuna og vildi draga sig úr félagskapnum. Enda orðin það sjúkur að hann taldi sig betur kominn í byggð. Eiríkur aftók það með öllu.

IMG_2674

Neðst á myndinni má greina bæinn Streiti þar sem hann kúrir undir Naphorninu

Í fyrstu reyndu þeir að seðja hungrið með því að grafa upp hvannarætu ofan við klettana við Streiti, þar sem Stigi heitir, en fóru fljótlega heim að Streiti, rufu þar þak á útihúsi og stálu fiski og kjöti. Jón stóð álengdar en tók ekki þátt vegna sjúkleika og máttleysis. Vildi hann fara heim að bæ og leita þar hjálpar. En félagar hans vantreystu honum og tóku hann aftur með sér upp í klettana í Naphorninu, þar sem þeir lágu fyrir næstu daga. Jón fór þar úr öllum fötunum og fór að leit á sér lúsa. Það, og vegna þess hvað hann var orðin veikur og vælgjarn, virðist hafa orðið til þess að Eiríkur stekkur að honum, kannski í bræðikasti, hefur hann undir, sker úr honum tunguna og stingur hann síðan með hnífnum í brjóstið. Gunnsteinn segist hafa látið sem hann svæfi og ekki hafa séð svo gjörla hvað fram hafi farið á milli þeirra Eiríks og Jóns. En þarna var samt enn óljóst hvort Jón var lífs eða liðin, þegar þeir félagar yfirgáfu hann eftir að hafa hent fötum hans yfir hann.

Héldu þeir Eiríkur og Gunnsteinn síðan af stað inn Berufjörð og fengu sig ferjaða yfir fjörðinn við þiljuvelli. Segir lítið af ferðum þeirra fyrr en suður í Álftafirði, þar sem þeir voru fljótlega handteknir vegna suðaþjófnaðar á Melrakkanesi. Á Geithellum, þann 12. Júní, dæmir Jón Sveinson sýslumaður þá Eirík og Gunnstein til húðstrýkingar fyrir suðaþjófnað, en um þetta leiti hefur hann verið á ferð við Djúpavog eins og bréf hans til Stjórnarinnar í Kaupmannahöfn þann 10. júní ber með sér hér að ofan. Kannski hafa þeir tveir verið sakamennirnir sem hann telur í bréfinu að verði að dæma til Brimarhólmsvistar en endirinn á verið húðstrýking þar sem engir hestar hafi verið tiltækir til flutninga á föngum.

Þegar það svo fréttist í Breiðdal að þeir félagar hafi verið handteknir í Álftafirði vekur það undrun að Jón skuli ekki hafa verið með þeim. Gunnsteinn sagði frá því í Álftafirði að Jón hafi verið með þeim í upphafi útilegunnar en þeir hafi skilið við hann á milli Streitis og Núps þar sem hann hafði viljað leita sér hjápar vegna lasleika. Þegar Gunnsteinn kom svo aftur í Breiðdal að áliðnu sumri játaði hann fyrir séra Gísla í Eydölum og Höskuldi hreppstjóra á Þverhamri, hvar lík Jóns myndi vera að finna. Voru tveir menn á Streiti fengnir með þeim Gísla, Höskuldi og Gunnsteini til að sækja líkið eftir leiðsögn Gunnsteins. Aðkoman var ekki geðsleg, líkið var kvikt af maðki og lyktin óbærileg. Samt báru þeir það niður úr illfærum klettunum og létu það í stokk sem þeir höfðu haft meðferðis. En ekki fóru þeir með líkið strax heim að Streiti vegna myrkurs, og dróst það í tvær vikur að vitja um stokkinn. Þegar það var svo loksins gert var ekki lengur hægt að sjá neina áverka á líkinu, því maðkurinn hafði ekkert annað skilið eftir en beinin og sinarnar sem tengdu þau saman.

Eskifjörður

Eskifjörður

Samt sem áður gekkst Eiríkur við verknaðnum eftir að Gunnsteinn hafði greint frá viðskiptum þeirra Jóns. Þeir félagar voru þá fluttir til Eskifjarðar þar sem Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga fékk málið til frekari meðferðar. Að rannsókn lokinni dæmdi sýslumaður Eirík til dauða sem morðingja, en Gunnsteinn í ævilanga þrælkun sem vitorðsmann. Þar til dómur yrði staðfestur átti að geyma þá í dýflissu sýslumanns á Eskifirði. Með þeim þar í haldi var Sigurður Jónsson 18 ára unglingur úr Mjóafirði, sagður ólæs og skrifandi, sem hafði náðst á flakki og verið dæmdur vegna þjófnaðar í Helgustaðahreppi.

Þessi ungi Mjófirðingur er ekki talin hafa verið neinn venjulegur þjófur eða hreppsómagi, því þjóðsagan telur hann hafa legið úti í nokkur ár, og skýrir það kannski hvers vegna hann var fangelsaður með þeim Eiríki og Gunnsteini en ekki hýddur og sendur heim í sína sveit. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa þetta um Sigurð; „gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helst þó í kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhverjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan til byggða og fór að stela sjófangi út hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns,,,“ Þeir þremenningar struku úr dýflissunni eina nóvember nótt, og stálu sér til matar frá sýslumanni. Félagarnir lögðu svo af stað í glórulausum hríðarbyl, daginn eftir voru þeir handteknir úti í Helgustaðahreppi eftir að bóndinn í Sigmundarhúsum hafði orðið þeirra var í útihúsum og boðið þeim heim með sér í mat um morguninn, en lét senda skilaboð til Jóns sýslumanns í laumi.

Eftir þetta voru þeir fluttir á nýjan stað, til vetursetu í byrgi sem sýslumaður lét gera við bæinn Borgir sem var sunnan Eskifjarðarár gegnt Eskifjarðarbænum. Fangageymslan var lítið annað en hola þar sem var hægt að láta mati niður um gat í þakinu. Þar tókst ekki betur til en svo að þeir Gunnsteinn og Sigurður dóu báðir úr hungri, en Eiríkur var þeirra hraustastur og át þann mat sem kom í byrgið. Talið er að hann hafi setið við gatið, þegar von var matar og félagar hans aðeins fengið naumar leifar þess sem hann ekki át. Sagt var að sýslumannsfrúin hafi séð um matarskammtinn og var haft eftir Eiríki að svo naumt hafi frúin skammtað, að maturinn hefði rétt dugað handa sér einum.

Fremur hljótt var um þennan atburð og sýslumaður var í slæmum málum vegna þessa, er jafnvel talið að hann hafi látið dysja hina horföllnu fanga með leynd undir steini skammt frá byrginu um leið og uppgötvaðist hve slysalega hafði tekist til við fangavörsluna. Þjóðsagan segir vandræði sýslumanns hafa verið mikil vegna þessa hungurmorðs: „En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumann á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin – og bar ekki á Sigurði eftir það.“ Sagt er að skriða úr Hólmatindinum hafi rótað ofan af beinagrindum þeirra Sigurðar og Gunnsteins á 19. öld og hafi mátt sjá þar tvær hauskúpur og mannabein á stangli, liggja fyrir hunda og manna fótum allt fram undir 1940.

Um sumarið (18. júlí 1785) var kallaður saman héraðsdómur til að staðfesta dóm sýslumanns yfir Eiríki, var þar staðfest að Eiríkur skildi klipinn fimm sinnum með glóandi töngum á leið á aftökustað, þá handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn. Hönd og höfuð skildu sett á stjaka, öðrum vandræða mönnum til eftirminnilegrar aðvörunar. Að réttum landslögum hefði Eiríkur átt að koma fyrir Öxarárþing til að staðfesta dóminn. En þar sem kostnaður sýslumanns af föngunum var nánast allar tekjur hans af sýslunni fékk hann því breytt og dómurinn var staðfestur heima í héraði, enda tvísýnt að nothæfir hestar hefðu fengist til að flytja fanga þvert yfir landið. En þetta var þó gert með þeirri viðbót að aftakan mætti ekki fara fram fyrr en fyrir lægi konungleg tilskipun. Þann 20. janúar 1786 staðfesti konungurinn í Kristjánsborg dóminn endanlega með þeirri mildun að Eiríkur yrði ekki klipinn með glóandi töngum en dómurinn skildi standa að öðru leiti. Svo virðist sem sýslumaður hafi ekki fengið tilkynningu um úrskurð konungs fyrr en undir haust og virðist því sem sýslumaður hafi setið uppi með Eirík ári lengur en hann hugðist gera með því að óska eftir að dómurinn yrði staðfestur í héraði.

Þann 30. september 1786 var Eiríkur Þorláksson tekin af lífi á Mjóeyri við Eskifjörð þá 23 ára gamall. Erfiðlega hafði gengið að fá mann í böðulsverkið, en seint og um síðir hafði verið fenginn maður að nafni Björn frá Tandrastöðum í Norðfirði og fékk hann 4 ríkisdali og 48 skildinga að launum. Hann var kallaður eftir þetta Björn Tandri eða Karkur, sagður hrikalegur á velli og hranalegur í orði. Eftir munnmælum var hann búinn að drekka talsvert áður en embættisverkið hófst. Eins segja sumar sagnir að það hafi verið eldhús saxið í Eskifjarðarbænum sem notað var til aftökunnar. Björn Tandri lagðist í flakk síðari hluta ævi sinnar og eiga börn að hafa verið hrædd við hann því að sú saga fylgdi honum að hann hefði drepið mann, enda síðasti böðullinn á Austurlandi.

Fátt er til í opinberum plöggum um aftökuna sjálfa, eða hversu fjölmennt þar var. Til siðs var að viðstaddir væru aftökur á Íslandi annað hvort biskup eða prestur, séra Jón Högnason á Hólmum við Reyðarfjörð uppfyllti þetta ákvæði og var þar allavega viðstaddur ásamt Jóni Sveinssyni sýslumanni. Varla þarf að efast um að hönd Eiríks og höfuð hafa verið fest á stangir til sýnis að aftökunni lokinni almenningi til viðvörunar. Sýslumaður hafði sett mann sem umsjónarmann verksins sem hét Oddur, og var sagður hreppstjóri frá Krossanesi við Reyðarfjörð.

Til er handrit eftir Einþór Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal sem hann skráði niður eftir munnmælasögum um atburði þessa. Þó svo margt í þeim sögum sé ekki samkvæmt því sem fram kemur í opinberum heimildum hvað sum nöfn og atburði varðar, er þó greinilegt við hvað er átt. En í handriti Einþórs stendur þetta um það sem gerðist Eskifirði þennan haustdag.

IMG_4730

Mjóeyri

Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar. Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð. Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess. Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist. Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið. Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði.

Þegar lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann. Voru þeir allir mjög við vín. Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn. Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín. Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi. Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.

Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík. Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð viðbúnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu. Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað. Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins. Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: „Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.”

Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin. Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik. En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn. Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri. Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.

Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, „eða hvað skal nú gera,” mælti hann, „samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar.” Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi. Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: „Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn. Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir.” Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.

Um þennan atburð varð til vísan;

Aftaka

Öxin sem Eiríkur var höggvin með er sögð hafa verið til í verslun á Eskifirði fram til 1925 og á að hafa verið notuð þar sem kjötöxi. Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland þann 30. desember síðastliðinn urðu miklar skemmdir vegna sjávargangs á Eskifirði. Sjór braut þá á leiði Eiríks Þorlákssonar sem hefur verið á Mjóeyri allt frá því að þessir atburðir gerðust. Vitað var með vissu alla tíð hvar hann hvílir, þó svo að menn hafi talið sig þurft að staðfesta það með því að grafa í leiðið. Var það gert í upphafi 20. aldar að viðstöddum þáverandi héraðslækni á Eskifirði. Þá var komið niður á kassa úr óhefluðum borðum sem innhélt beinagrind af manni sem hefur verið meira en í meðallagi. Hauskúpa lá við hlið beinagrindarinnar og var hún með rautt alskegg.

Frásagnir af atburðum þessum bera það með sér að Eiríkur Þorláksson hefur verið hraustmenni sem komst lengur af en félagar hans, við ömurlegar aðstæður. Lokaorð Einars Braga rithöfundar, sem gerir þessum atburðum mun gleggri skil í I. bindi Eskju, eiga hér vel við sem lokaorð. „Hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Við nútímamenn áfellumst ekki þessa ógæfusömu drengi. Kannski hefðu þeir við hliðhollar aðstæður allir orðið nýtir menn. En þeir urðu fórnarlömb grimmilegrar aldar, sem ekkert okkar mundi vilja lifa. Meinleg forlög sendu þá í þessa byggð til þess eins að þjást og deyja.“

IMG_4726

 Leiði Eiríks Þorlákssonar á Mjóeyri við Eskifjörð

 

 

Efnið í þessa frásögn er fengið úr; Öldin átjánda, Eskja I. bindi, Þjóðsögum Jóns Árnasonar, Landnámið fyrir landnám - eftir Árna Óla, handriti Einþórs Stefánssonar sem hefur birst víða og þætti Þórhalls Þorvaldssonar af síðustu aftökunni á Austurlandi


Rýnt í rúnir og forna siði

IMG_6204

Hrekkjavaka eða Halloween, vakan fyrir Allraheilagramessu, er kvöldið 31. október og var tileinkuð píslarvottum kirkjunnar. Allraheilagramessa sem fram til ársins 834 var haldin 1.maí var þá flutt til 1. nóvember, fyrst og fremst vegna þess að henni var ætlað að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.

Veturnætur var forn tímamótahátíð sem haldin var hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni. Heimaboða, sem kölluðust dísarblót, er getið í fornsögum og eiga að hafa átt sér stað fyrir kristnitöku. Blót þessi munu hafa verið haldin í námunda við vetrarnætur eða á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir.

Talið er að kvenvættir líkar Grýlu og nornum úr evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessum fornu dísum. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýra og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar. Eftir að norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa, sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember, ímynd þessara hausthátíða. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna því að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum og dísablótum eða öðrum heiðnum hausthátíðum.

Eins og þeir hafa kannski tekið eftir sem heimsótt afa þessa síðu undafarið þá hefur hún verið undirlögð af upplýsingum um fornar sögur. Undanfarin ár hefur fánýtur fróðleikur eða það sem kallast "useless information" heillað hug minn. Ein af þessum fornu fræðum eru rúnir sem eiga sín tengsl aftur í fornan heim. Rúnir komu til Íslands með víkingum og eru taldar hafa verið hvað lengst í almennri notkun af öllum löndum veraldar á Íslandi.

Upplýsingar um rúnir og merkingu þeirra má víða finna á veraldarnetinu, auk gúggúl hef ég gramsað í Galdraskræðu Skugga og íslensku þjóðsögunum sem hafa miklar upplýsingar að geyma um rúnir og galdrastafi. Það má segja að þjóðtrúin sem fram kemur í íslensku þjóðsögunum komi frá sama uppruna og rúnirnar sem spönnuðu allt sviðið ekki síður myrkrið en ljósið. En í þeim fræðum er myrkrið talið hluti ljóssins. Í þessa rúnarýni hafa farið ófáar stundir og afrakstur þeirra má finna hér.

 

 
 

Heimildir:

www.visindavefur.is 

Myndin að ofan er af húsvegg á Seyðisfirði, sjá meira um hann hér.


Kórekur og bláklædda konan

kvennskart L

Árið 1938 fannst merkur fornleifafundur við vegagerðar framkvæmd, þar sem þá var kallað að Litlu-Ketilstaðastöðum í Hjaltastaðaþingá, þar sem nú er Hlégarður. Um var að ræða líkamsleifar konu, tvær koparnælur, litla skrautnælu, auk klæðisbúta ásamt fleiru. Þessar minjar hafði mýrin varðveitt í meira en þúsund ár. Þáverandi Þjóðminjavörður gekk frá líkamsleifum konunnar í formalíni, sem ekki hefur verið sjálfgefin fyrirhyggja á þeim tíma. Mýrin hafði varðveitt líkamsleifarnar á þann hátt að mjúkvefir konunnar varðveittust þar til formalínið tók við varðveislu þeirra, það má því líkja þessari konu við nokkhverskonar múmíu. Sérstakt er að til séu líkamsleifar sem varðveittar hafa verið í formalíni á Þjóðminjasafni Íslands og hafi nú með nýjustu tækni veitt einstæða innsýn í líf konu sem bjó á Íslandi við landnám.

Bláklædda konanÞað sem komið hefur í ljós með nútíma rannsóknum er að konan hefur látist um árið 900. Eins er rannsóknin talin leiða í ljós að hún sé fædd á vestanverðum Bretlandseyjum og hafi flust til Íslands 5-11 ára gömul, en dáið í kringum tvítugt. Klæðnaður og skart konunnar gefur það til kynna að um efnameiri manneskju hafi verið að ræða. Eins þykir bútur úr bláu ullarsjali gefa ótvírætt til kinna að ullin hafi komið af íslensku sauðfé, því má leiða að því líkur að litun og vefnaður ullar hafi þegar verið orðin til í landinu á bernskuárum landnámsins.

Sýning um bláklæddu konuna úr Ketilstaðamýrinni stendur nú yfir á Þjóðminjasafni Íslands.

Því hefur þráfaldlega verið haldið fram í skúmaskotum að ekki sé allt sem sýnist varðandi upphaf landnáms Íslands og leiddar hafa verið að því margvíslegar líkur að meiri fjöldi fólks hafi búið í landinu en sagan vill greina frá, fyrir eiginlegt landnám. Niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á Ketilstaðakonunni slá lítið á þær getgátur þó svo að þær sanni ekkert þar að lútandi heldur. Í mýrunum í Hjaltastaðaþinghánni er vafalaust margt fleira forvitnilegt að finna og sennilegast ekki öll kurl þaðan komin til grafar.

IMG_5311

Helstu einkenni Hjaltastaðaþinghár eru Dyrfjöll og stuðlabergsásar, sem víða standa upp úr mýrunum sem Selfljótið hlykkjast í gegnum

Margir hafa orðið til þess að benda á að sumar nafngiftir í þessari sveit séu sérkennilegar, t.d. heitir mýri í Hjaltastaðaþinghá blá og er þannig háttað víða á Austurlandi. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur sýndi fram á í ársritinu Múlaþingi árið 2010 að minnsta kosti tvö örnefni í Hjaltastaðaþinghá væru af gelískum uppruna þ.e.a.s. frá heimahögum ungu konunnar sem heygð var í Ketilstaðamýrinni. Þar er annarsvegar um helsta einkenni sveitarinnar að ræða, Dyrfjöllin, og hinsvegar um fornar rústir Arnarbælis í landi Klúku, andspænis Jórvík sem stendur sunnan við Selfljótið.

Syðri hluti Dyrfjalla heitir Beinageit eða Beinageitarfjall. Freysteinn telur víst, og rökstyður það rækilega, að upphaflega hafi öll Dyrfjöllin heitið Bheinn-na-geit, sem útleggst á fornri gelísku, dyrnar við fjallið. Arnarbæli vill Freysteinn meina að hafi upphaflega heitið Ard-na-bhaile á forn-gelísku, sem útleggst sem Búðarhöfði sé því snarað yfir á Íslensku. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki frá örófi alda í Útmannasveit að á þessum stað hafi verið forn verslunarhöfn þó svo að nú sé ekki skipgengt lengur að Arnarbæli. Frumrannsókn fornleifa í Arnarbæli var gerð árið 2010 og leiddi hún í ljós að rústirnar þar eru umfangsmiklar.

Eitt nafn í Hjaltastaðaþinghá hefur valdið mér heilabrotum öðrum fremur, en það er nafnið Kóreksstaðir sem eru rétt fyrir innan Jórvík. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þetta Kóreks-nafn annarsstaðar. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en nýverið að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn, enn sem komið er. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður.

IMG 5625

Kóreksstaðavígi

Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.

Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar tegja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."

 IMG_5280

Selfljót, mýrar og stuðlabergsásar í Jórvíkur og Kóreksstaðalandi, Kóreksstaðavígi er fyrir miðri mynd

Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.

IMG_5611

Blá í Hjaltastaðaþinghá

Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið enn eitt örnefnið af gelískum uppruna, og þá farið að nálgast kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.

En að fullyrða það blákalt að með nýjustu tækni á gúggul sé hægt að bendla bláklæddu konuna í Ketilstaðamýrinni við afa Þorbjörns kóreks bónda á Kóreksstöðum sem líklega hafi átt rætur að rekja til Finnbars í Corcach Mór na Mumhan, er blátt áfram full langt gengið.


Hvaðan kom Snæfellið?

IMG_4725

Það getur verið forvitnilegt að vita hvernig nafngift varð til og hvað hún merkir. Þetta þekkja flestir varðandi eigin nöfn. Í barnaskóla var Guðmundur heitinn Magnússon kennari og síðar sveitarstjóri á Egilsstöðum oft með skemmtilegt námsefni, eins og að setja það fyrir sem heimaverkefni að finna út hvað nöfnin okkar þýddu. Ég varð yfir mig ánægður þegar ég fann það út að mitt nafn merkti "hinn mikli". Þó svo ég hafi síðar komist að því að það hafi ekkert með nafngift mína að gera, heldur það að afi minn hét Magnús.

Í minningunni áttu kennarar það til að leifa krakkahópnum að ráfa um fjallahringinn í huganum og geta sér til um hvernig nafngiftir hæstu tinda væru til komnar. Það má segja að frá þessum barnskólaárum hafi þörf verið til staðar að vita hvað nafnið merkir og hvernig það er til komið. Snæfellið er eitt af einkennum Fljótsdalshéraðs sem hefur nafn sem ætti að vera auðskilið hverju barni hvers vegna.

Snæfellið er fjallið sem Björg amma fékk sér kvöldgöngu inn fyrir bæ til að sjá,því það sást ekki frá íbúðarhúsinu á Jaðri í Vallanesinu. Ef ekki ber ský í Snæfellið að kvöldlagi sagði þjóðtrúin að heyskaparþurrt yrði daginn eftir. Snæfellið blasti einnig við úr stofuglugganum á æskuheimilinu á Hæðinni og enn í dag er það fyrsta og síðasta sem ég lít í áttina að kvölds og morgna frá Útgarðinum til að taka veðrið. Í mínum huga hefur í gegnum tíðina ekki farið á milli mála hvernig nafnið er til komið, fjallið ber það hreinlega utan á sér í heiðríku.

En í vetur fóru að draga upp ský á hvelið í höfðinu á mér við nýjar upplýsingar frá Sigurði Ólafssyni á Aðalbóli, áður Siggi Óla í Útgarði eða réttara sagt Búbót. Hann hafði verið á ferðalagi á eynni Mön, þar hafði hann einnig séð Snæfell sem er hæsta fjall Manar. Einhvern veginn hef ég ekki náð að sjá sama Snæfellið eftir að Siggi sagði mér frá þessu og jafnvel talið að það gæti verið falsað. Mig fór að gruna Arnheiði nokkra Ásbjörnsdóttur um verknaðinn. Þannig að ég ákvað að lesa Droplaugarsonasögu aftur. Jú einmitt, sagan byrjar á því að segja frá landnámsmanninum Katli þrym í Fljótsdal, sem kaupir ambáttina Arnheiði af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð.

Í tilhugalífi þeirra Ketils trúði Arnheiður honum fyrir því að hún væri höfðingjadóttir úr Suðureyjum en þeir Ormar, Grímur og Guttormur bræður Véþorms víkings í Jamtalandi hefðu drepið faðir hennar Ásbjörn skerjablesa ásamt öllum karlmönnum á hennar heimili en selt kvenfólkið mansali. Þegar Ketill hafði gengið frá kaupunum á Arnheiði af Véþormi sigla þau til Íslands og setjast að í Fljótsdal að Arnheiðarstöðum, gegnt Atla graut bróður Ketils sem setti sig niður austan við Lagarfljótið í Atlavík. Það eitt að Arnheiðastaðir hafi borið nafn þessarar konu í meira en þúsund ár bendir til að hún hafi átt því að venjast að hafa sitt fram.

Þegar hér var komið sögu leitaði ég ásjár gúggúls, bæði himins og jarðar. Lausnarorðið sem ég sendi var „Skerjablesi“ og viti menn upp kom saga Manar. Þar hafði verið uppi höfðingi sem hét Ásbjörn skerjablesi laust fyrir árið 900 sem er sagður hafa verið drepin af skyldmennum Ketils flatnefs, norsks hersis sem haldið hafði til á Suðureyjum í áratugi þar á undan. Í gúggúl jörð setti ég svo inn Snaefell, og viti menn hæsta fjall Manar heitir einmitt Snaefell. Eins heitir gata í nágrannaborginni Liverpool Snaefell avenue. Snæfells nöfnin er reyndar fleiri á þessum slóðum á Bretlandseyjum.

Börn Ketils flatnefs, forvera Ásbjörns skerjablesa á Suðureyjum, settust mörg hver að á vestanverðu Íslandi, svo sem Auður djúpúðga og Björn austræni. Björn austræni er sagður landnámsmaður á Snæfellsnesi og Auður í grennd við hann í Dölunum. Það er ekki ósennilegt að nafn á nesið og þess hæsta kennileiti Snæfellsjökul hafi orðið til um landnám.

Þannig er nú farið að ég er ekki lengur viss um að Snæfell sé nefnt eftir snævi þöktum hlíðum þess, það geti allt eins verð eftirlíking af felli sem sjaldan festir í snó á Bretlandseyjum. En eitt er víst að Snæfellið var haft í öndvegi í stofu æskuheimilisins og ef það sást ekki út um gluggann vegna skyggnis þá var annað hangandi upp á vegg málað af meistaranum sjálfum, Steinþóri Eiríkssyni.

Það vill svo skemmtilega til að í dag er opnuð sýning í tilefni aldarminningar listmálara okkar Héraðsbúa sem engin ætti að láta fram hjá sér fara sem verður á Héraði þetta sumarið. Því þar verður hægt að bera hið eina og sanna Snæfell augum. 

IMG_4714


Hví skyldi gralið vera á Kili

Um það bil 20 árum eftir að Evrópskir krossfarar höfðu frelsað hina helgu borg Jerúsalem undan yfirráðum múslima árið 1118, er stofnuð regla musterisriddara sem sögð er hafa haft aðsetur þar sem musteri Salomons stóð. Regla þessi auðgaðist gríðarlega af áheitum og landareignum víða á vesturlöndum. Í Frakklandi einu er hún talin hafi átt um 10.000 herragarða. Leynd hvíldi yfir reglunni og þeim fornu fræðum sem hún á að hafa haft aðgang að úr musteri Salomons, sem sum hver voru talin komin úr Egipsku píramídunum. Öfund gerði vart við sig í garð reglunnar vegna ríkidæmis hennar og þegar múslímar náðu Jerúsalem aftur á sitt vald árið 1291 fór að halla verulega undan fæti fyrir musterisriddurum. 

Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru reglubræður þá um 20.000 talsins, ákærðir fyrir jafnt sannar sem upplognar sakir. Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum. Eftir sýndarréttarhöld og pyntingar voru þeir brenndir á báli í þúsunda tali um alla Evrópu fyrir galdur og önnur forn fræði. Árið 1312 bannaði páfinn reglu musteriddara og leið hún undir lok að talið var, því er þó haldið fram að að hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu yfir til Skotlands. Hin nýja regla Musterisriddara varð síðan forveri seinni tíma frímúrarareglna og var sett á laggirnar í Skotlandi undir verndarvæng Robert Bruce konungs Skotlands árið 1314. Árið 1319 veitir nýr páfi, Jóhannes XXII , reglunni aftur tilverurétt þá undir nafninu Riddarar Jesú Krists.

Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur musterisriddara hafi komið til Íslands árið 1217 með leyndar helgar frá Jerúsalem. Telur Gianazza sig hafa lesið þetta út úr dulmálskóda sem megi finna í hinum Guðdómlega gleðileik eftir Dante. Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur unnið með Giancarlo Gianazza við að fylla uppí myndina með vísbendingum sem felast í Sturlungu. Þórarinn telur komna fram raunverulega skýringu á pólitískum átökum í kringum Snorra Sturluson á þrettándu öld. Hverjir voru hinir „áttatíu austmenn, alskjaldaðir" sem voru í fylgd með Snorra á Þingvöllum? Þórarinn og Giancarlo telja að þetta kunni að hafa verið musterisriddarar sem töldu tryggast að koma dýrgripum frá landinu helga í örugga geymslu vegna trúarlegra og pólitískra átaka í Evrópu. 

Í grein um fræði Gianazza sem birtist í Leyndarmálum sögunnar (Historic Mysteries) 10. febrúar 2011 er greint frá að Gianazza hafi ransakað þetta undarlega mál frá því 2004. Þar segir m.a.;

"It seems incredible that Iceland would be a part of what some call the greatest literary work of all time. Gianazza avers that it is not so far-fetched.

Apparently a group of the Knights Templar, a monastic military order of the Middle Ages long associated with discovering holy relics, visited Iceland. "In the official historic records of Iceland it is stated that in 1217, during the meeting of the Althing - the Parliament established in 930 - the leader and poet Snorri Sturlusson appears next to what the text defines as ‘80 knights from the south, all dressed and armed in the same fashion’ and is elected as commander for that year.” Gianazza is convinced that the Knights "travelled to Iceland and backed the election of Sturlusson in exchange for his support in the building of a secret chamber to be filled over the years with sacred books and objects from the Temple of Jerusalem.

"After the eradication of the Knights Templar in 1307, Gianazza believes a secret elite of the Knights remained and that Dante belonged to this elite. Dante, therefore, would have been privy to the knowledge of the Knights and the whereabouts of the secret chamber. Consequently, he would have coded this knowledge into the Comedy."

Þó það sé langsótt að halda því fram að Snorri Sturluson hafi verið forveri frímúrara á Íslandi og þó svo tilgátur ítalans Gianazza ættu ekki við nein rök að stiðjast, þá er eftir sem áður um athygliverða tilgátu að ræða. Þetta verður sérlega áhugavert þegar ævi Snorra er skoðuð í þessu ljósi og höfð til hliðsjónar kenning Jochums M Eggertssonar í Brisingameni Freyju frá 1948 þar sem hann leggur m.a. út frá orðum Gísla Oddaonar biskubs í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands, um; -„að ófreskju skuggar og áþreyfanleg Egipsk myrkur hafi eihvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. –Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin.“ –skrifar biskup.

Snorra Sturlusonar er einkum minnst fyrir íslendingasögurnar og hið mikla ritverk Heimskringlu, sem hefur að geyma sögu Noregskonunga auk þeirra heimilda um norræna goðafræði sem í verkum hans felast. Vegna þessarar arfleiðar mætti ætla að Snorri hafi verið mikill fræðimaður og grúskari. En sannleikurinn er sá að hann var umfarm allt annað íslenskur höfðingi á umbrotatímum sem hæpið er að ímynda sér að hafi haft tíma til að sinna grúski og ritstörfum. Á ævi Snorra logar Ísland í borgarastyrjöld sem endar með því að landið kemst undir Noregskonung. Helstu persónur og leikendur í þeirri styrjöld voru Noregs konungur ásamt biskupnum í Niðarósi sem íslenska kirjan heirði undir, auk íslenskra höfðingjaætta á við „Sturlunga“, ætt Snorra. Enda gengur tímabilið undir heitinu Sturlungaöld í Íslandssöguni. 

Auðsöfnun og valdagræðgi var áberandi á meðal íslenskra höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Tilgáta Giancarlo Gianazza er sérstaklega áhugaveð í þessu ljósi. Eins kenning Jocums M Eggertssonar um að Snorri hafi ekki skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar heldur hafi þær verið skrifaðar mun fyrr, en Snorri hafi komist yfir þau handrit og látið endurrita þau þannig að þau varðveitast. Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Noergskonungur fer þess á leit við Snorra Sturluson að hann komi Íslandi undir norsku krúnuna og hann gerist lénsmaður konungs. Þarna hefur konungur því talið sig vera að gera samning við einn valdamesta mann landsins, en Snorri gerði lítið til þess að koma landinu undir Noreg og var drepinn árið 1241 af Gissuri Þorvaldsin að undirlagi konungs.

Það er ævintýralegt að setja frama Snorra Sturlusonar í stjórnmálum Íslands í samhengi við Musterisriddara en því verður samt ekki á móti mælt að eftir þessa heimsókn 80 austmanna sem mæta með alvæpni á Þingvöllum með Snorra 1217 hefst frami Snorra sem var sonur Hvamm Sturlu Sighvatssonar sem talin er hafa verið nýlega tilkominn höfðingi af bænda ætt en ekki goða. Eins verður ævi Snorra sem rithöfundar allt önnur í þessu ljósi því auðséð er á þeim bókmenntaverkum sem kennd eru við hann að þar var um víðtækar heimildir að ræða sem ná árhundruð ef ekki þúsund aftur í tímann frá hans æviárum.

Það er því spurning hvort Musterisriddarar hafi valið Snorra til að geima þær launhelgar sem fluttar voru úr musteri Salomons vegna þeirra miklu bókmenntaverka sem hann varðveitti þá þegar og við hann eru kennd. Samkvæmt kenningu Jochums sem finna má í Brisingarmeni Freyju eiga verk Snorra uppruna sinn í Krýsuvík, mörghundruð árum fyrir fæðingu Snorra. Fræðasetrið í Krýsuvík á svo að hafa átt rætur sínar að relkja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum Skotlands, nánar tiltekið klausturs St. Columbe, og verið flutt til Íslands löngu fyrir landnám eða um árið 700.

Allavega virðist Snorri hafa haft tengingar til Skotlands ef marka má Sturlungu. Þann 29. september 2013 má finna í Akureyrarblaðinu áhugaverða grein um kenningar Giancarlo Gianazza , þar segir m.a.;

„Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254). Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.“


mbl.is Leita að hinu heilaga grali á Kili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðingarfylgjan

Duality

Sennilega dettur fáum í hug að leita sér andlegrar uppörvunar í íslenskum draugasögum, eða auka skilning á andans málum með því að glugga í sögur um íslensku fornkappanna. Hin fjarlægu austurlensku fræði hafa þótt álitlegri kostir til sáluhjálpar. Nútíma sálfræði gerir ráð fyrir aðgreiningu líkama og sálar. Í því sambandi er algengt að álykta sem svo að manneskja samanstandi af huga, líkama og sál. Skilningsvit séu fimm; sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt. Heimarnir hafi síðustu aldirnar verið taldir þrír þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Efnishyggja nútímans hefur aftur á móti tilhneigingu til að hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á líf fólks, maðurinn tilheyri ríki náttúrunnar. Heimurinn sé einn og lúti þróunarsögu Darwins sem er nátengd markaðslögmálunum. Hugleiða má svo hvaða vitneskju menn hafi um tilveru efnisheimsins aðra en huglæga. Heimurinn geti því allt eins verið hugmynd, líkur þeirri sem Gandi benti á, "ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér".

Samkvæmt margri austurlenskri speki getur heimurinn aðeins verið til í huga sérhvers einstaklings í eins mörgum útgáfum og hann óskar sér, þar verður hver að vera sinnar gæfu smiður. Innan hverrar manneskju býr samkvæmt því, rýmið, sólin og áttirnar fjórar, það sem er fyrir ofan og fyrir neðan, guðir, djöflar og hægt að fara hvert þangað sem andans truntur þeysa. Því er betra að vera meðvitaður um að hugurinn getur svifið í tómarúmi líkt og skýin um himininn. Þó skýin geri ekki mistök með ferð sinni um himininn, þá hefur vindátt og hitastig áhrif á hvort þeim fylgir blíða eða ótíð.   

Hugmyndir fornmanna um skinfæri einstaklingsins virðast hafa verið frábrugðnar, t.d. er hugurinn talin til eins af skilningsvitunum, líkt og enn er gert í Búddisma. Með því að færa hugsunina úr flokki skilningsvita yfir á vestræna vísu, í það sem mætti kalla hið óskilvitlega, er hægt að hafa gífurlega ómeðvituð áhrif á huga fólks og það hafa markaðsöfl nútímans notfært sér miskunnarlaust.

Eye of Horas

Hið alsjáandi auga, fornt tákn fyrir skilningsvitin sex.

Sjálfsmynd heiðinna mann s.s. þeirra víkinga sem námu Ísland gerði ráð fyrir að manneskjan samanstæði af ham, hamingju, huga og fylgju, þessi fjögur atriði sköpuðu henni örlög. Þetta fernt virðist kannski flókið, en er það svo? Þeir hafa kannski gert sér betri grein fyrir hvað hugurinn er flækjugjarn ef hann er ekki notaður til að fylgjast með rétt eins og sjón og heyrn, þess í stað notaður til að fabúlera með það hvers hin skilningsvitin verða áskynja.

Ef sjálfsmynd fornmanna er sett í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina haminn sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveld-Úlfur faðir Skalla-Gríms hafi verið.

En Kveld-Úlfur var samkvæmt söguni klofinn persónuleiki. Á daginn var hann góður búmaður, duglegur og vitur, en á kvöldin svefnstyggur og afundinn, þaðan er viðurnefnið komið. Var því sagt að hann væri hamrammur eða hamskiptingur. Þjóðsögurnar skýra þetta fyrirbæri ágætlega og hve algeng hin forna meining er í íslenskri tungu.

"Betur hefur sú trú haldist frá fornöld að menn ímynda sér að sálin geti yfirgefið líkamann um stund, verið fyrir utan hann, en vitjað hans svo aftur; af þessu eru leidd mörg orð: vér köllum að maður sé hamslaus og hamstola af ákafa eður æðisfenginni reiði; hamhleypa er kallaður ákafur maður og skjótvirkur; hamur er vestanlands kölluð kona sem er geðvargur, óhemja og annað því um líkt. Alkunn eru orðin að hamast, skipta hömum og enn fleiri." Þjóðs. JÁ bls 341 I bindi

Nú á tímum verður fólki tíðrætt um hamingjuna sem allir þrá, orðið hamingja er haft um gleði eða sælu. Hamingjan er talin tilfinning, sem kemur innan frá eitthvað sem sagt er að þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að öðlast, hún sé nátengd hugarástandi. Til forna bjó hamingjan ekki í huganum, frekar en huganum er ætlaður staður á meðal skilningsvitana fimm nú á tímum. En hver er merking íslenska orðsins hamingja og hvernig er það saman sett?

joySamkvæmt því sem sérfræðingar segja merkir orðið hamingja gæfa, heill, náðargjöf og í elsta máli einnig heilladís eða verndarvættur. Það er sett saman úr orðunum hamur sem merkir líkami, húð eða gervi og í eldra máli með viðtengingunni fylgja eða verndari. Viðtengingin –ingja er komin af engja af sögninni að ganga, nokkurskonar vættur sem gengur inn í ham eða gervi.

"Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til í Íslenskri orðsifjabók (1989:303) að hamur merki í þessari samsetningu "fósturhimna, fylgja" og vísar þar til ham í dönsku og sænskum mállýskum í sömu merkingu. Hamingjan hafi þá upphaflega verið heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir sérhverjum frá fæðingu".

Fræðimenn telja því hina fornu notkun orðsins bera vitni um að einstaklingurinn hafi ekki ráðið miklu um hamingju sína, sumum fylgi mikil hamingja en öðrum minni. Þetta á þá væntanlega rætur að rekja til upphaflegrar merkingar orðsins hamingja, þ.e verndarvættur, heilladís, fylgja. Einnig eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og; „Það má hamingjan vita“ eða „Hamingjan hjálpi mér!“ Þar sem talað er um hamingjuna eins og sjálfstæða persónu, „ hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“; segir í íslenskum dægurlagatexta og kveður þar við fornan tón. 

Fylgja er oftast talið draugalegt fyrirbæri, en svo hefur ekki alltaf verið. Hjá forfeðrunum skipti miklu að búið væri þannig að einstakling sem nýkominn var í heiminn að honum fylgdi góður andi eins og lesa má um í þjóðsögunum.

"En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta aða gæfa, auðna eða heill." Þjóðs. JÁ bls 340 I bindi

Valkirja

"En eigi eru allar fylgjur sagðar draugakyns og nokkuð annars eðlis; því svo segir gamla þjóðtrúin að þegar barn fæðist þá verður eftir af sálarveru þess hluti – sem sérstæð vera – í himnubelg þeim sem utan um það í móðurlífi og leysist síðar og kallast barnsfylgja. Þessi vera kallast fylgja og verður leiðtogi barnsins og líklega verndarvera þess. Hún er kölluð heilög og hefur ef til vill af fornmönnum verið sett í samband við forlög og hamingju og gefin stundum vinum og orðið kynfylgja." Þjóðs. SS bls.183 III bindi

Því var til siðs að fara vel með barnsfylgjuna í henni byggi heill barnsins sem myndi fylgja því í gegnum lífið. Fylgjan var stundum grafin innanhúss í námunda við móðir barnsins svo hún myndi hafa góð áhrif á fylgju þess. Ef fylgjan var grafin utandyra eða fleygt á víðavang þá var hún talin taka áhrif þess sem fyrst fór þar yfir, hvort sem um mann eða dýr væri að ræða, sem myndi uppfrá því einkenna fylgju einstaklingsins. Athyglivert er í því sambandi hvað mörg íslensk nöfnu bera í sér dýraheiti, björns nöfn og úlfs eða fuglsnöfn á við örn, val, svan, hrafn ofl..

Fylgja"Mikill hluti fylgja þykir vera sá hluti mannssálarinnar sem verður eftir þegar barnið fæðist og fylgir barnsfylgjuhimnunni. Guðlaugur Guðmundsson – Guðlaugssonar, Hálfdánarsonar er gera lét á sig reiðfæri og óð allar ár austan af Djúpavogi með hestburð á baki – bjó að Þverá í Hörgslandshreppi á Síðu. Synir hans voru tveir, Guðmundur og Guðlaugur. Þegar Guðlaugur fæddist gleymdi nærkonan að bera ljós í kross yfir móðurina og barnið í rúminu og fleygði fylgjunni í koppinn. Þá kom Guðmundur, þá 7ára gamall, og settist á koppinn, enda átti Guðlaugur mynd bróður síns fyrir fylgju upp frá því, alltaf á því reki sem hann var þá og eins eftir að Guðmundur var dáinn." Þjóðs. SS bls 287 III bindi

Þegar börn fóru að fæðast á fæðingardeildum, og jafnvel fyrr, er fæðingarfylgjan yfirleitt brennd og eftir það er einstaklingurinn talinn fylgjulaus, hafi þess í stað það sem vinsælt er að kalla áru. Fylgjan gerði yfirleitt vart við sig áður en viðkomandi einstaklingur birtist, ef hún gerði vart við sig á eftir viðkomandi þá var hann talinn feigur. Sumir eru taldir hafa átt fleiri en eina fylgju, þá oft ættarfylgju að auki eða jafnvel aðra góða og hina vonda. Fylgjan var samt oftast talin heilladís eða verndarvættur sem lifði og dó með manneskjunni. Ef fylgjan dó eða yfirgaf manninn í lifanda lífi af einhverjum völdum þá var hann talinn gæfulaus eða heillum horfinn. 

Það þarf ekki endilega að fara langt yfir skammt við að sækja andlegan skilning. Flest trúarbrögð eiga sinn uppruna á fjarlægum slóðum, austurlenskri speki s.s. hindú, jóga og búddismi sem þurfa mikla iðkunn áður en þau nýtast til sáluhjálpar, auk þess sem það þarf að setja sig inn í aragrúa torskilinna hugtaka. Kannski liggur einfaldasta leiðin til sálarþroska í gegnum þann menningararf sem fylgir heimahögunum og skilningur auðmeltastur þar sem tungumálið hefur verið drukkið með móðurmjólkinni. Því er það hvorki tilviljun hvar við fæðumst né hvað því fylgir.


Hvaðan kom nafnið?

Þau eru mörg til staðarnöfnin sem hafa haldið sér frá því landið byggðist og jafnframt til heimildir um tilurð þeirra. Svo eru önnur nöfn sem virðast hafa verið til frá landnámi, en aðeins óljósar sagnir þeim tengdum má þar nefna nöfn eins og Papey, Papaós, Papafjörður ofl. En mörg nöfn eiga sér einungis stoð í þjóðsögum má þar nefna Vattarnes sem þjóðsagan segir að hafi fyrst verið numið af heljarmenni sem hét Vöttur og Kolfreyjustað sem sagan segir að hafi fyrst verið byggður af skessunni Kolfreyju.

IMG_0041

Fossárvík í Berufirði

Í sautján ár bjó ég á Djúpavogi við Berufjörð, það var ekki flókið á átta sig á nafngiftinni Djúpivogur. En Berufjörður flæktist fyrir mér árum saman. Bera er að vísu þekkt íslenskt kvenmannsnafn sem samkvæmt nafnskýringum merkir birna. Berufirðirnir eru tveir á Íslandi en engar sagnir um birni hef ég rekist á þeim tengdum.

Lítið hef ég heyrt um tilurð nafnsins annað en Bera átti að hafa búið á bænum Berufirði, heimildir um þá búsetu er einungis þjóðsagan. Söguna heyrði ég fyrst á fundi fyrir mörgum árum á Djúpavogi þar sem stofna átti til félagsskaparins Axarvinir. Þar upplýsti einn fundarmanna Berufjarðarnafnið með skýringu sem ég hef látið mér nægja í gegnum árin.

Það eftirminnilegasta frá þeim fundi var snilldarfrásögn af ferðalagi hjónakornanna Beru og Sóta yfir erfiðan fjallveg í botni Berufjarðar. Þessa frásögn rakst ég á í Þjóðsögum Jóns Árnasonar án stórskemmtilegra stílfæringa sagnamannsins á fundinum forðum. Þar er fjallvegurinn sem um ræðir ekki Öxi og dalurinn er ekki Skriðdalur en allt kemur heim og saman í botni Berufjarðar;

BhéaraBerufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru. Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli.

Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni. Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.

Þessi skýring á Berufjarðarnafninu dugði mér fullkomlega þar til í vetur en þá fóru að renna á mig tvær grímur þess efnis að nafnið gæti verið gamall misskilningur.

Valgerður H Bjarnadóttir magister í femínískri menningar og trúarsögu, kom fram með þá tilgátu að tröllkonan Grýla hafi hafi verið landnámskessa frá Skotlandi og hafi þar gengið undir nafninu Bhéara.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna sögn tengda nafninu Bera sem skýtur stoðum undir tilgátu Valgerðar og skýrir einnig það sem mér hefur verið hulin ráðgáta í gegnum árin hvers vegna áin í Skriðdal er kennd við Grím.

Í tilefni þess að til stendur að minnast 160 ára árstíðar austfirska þjóðsagnaritarans Sigfúsar Sigfússonar á þessu ári læt ég fylgja sögu sem skýrir vel hvers eðlis Bera var.



UntitledÞað er til eldgömul alþýðusögn að í fyrndinni hafi tröllkarl og tröllkona búið undir fossinum í Grímsá á Völlum í helli þeim er gengur inn undir bergið og verður illa í komist nema á ís þegar hylurinn er lagður. Þessi tröll voru ektapar og hétu Grímur og Bera. Þau áttu að sumra sögn tíu syni og þótti lýður þessi umfangsmikill í grenndinni. Löngum sáust reykir þar úr gljúfrinu er þau suðu sér til matar. Mest fóru þau til fanga á nóttu því þau voru nátttröll.

Þegar fram liðu tímar leiddist þeim veran undir fossinum og fastréðu að flytja sig í svonefnt Tunghagaklif handan ár gagnvart bænum. Hófu þau nú ferð sína á nýársnótt á svartasta lágnættinu. Tók hvert sína byrði og afréðu að þræða eftir ánni því eigi sér þar sól fyrr en hún hækkar nokkuð á lofti vegna dýptar gilsins. Grímur varð fyrstur, þar næst fóru synir hans í einfaldri fylkingu en Bera seinust.

Stóðst það á endum að þá er Grímur var kominn út að Tunghagatúninu þegar Bera byrjaði för sína. En þegar hún kom út úr hellinum varð henni bilt við því þá kastaði morgunsólin sínum fyrstu árgeislum í norðurbarm gilsins. Varð hún þá að dranga þeim er þar stendur og sömu urðu forlög hinna allra að þau urðu til í réttri röð þar sem þau voru þá komin og er þar halarófan með jöfnu millibili. Af Grími þessum dregur áin nafn sitt.

 


Níu heimar

The Kardashian

Það er ekki á hverjum degi sem greinaskrif hræra upp í skilningsvitunum. Greinin sem um ræðir er frá því 2010, eftir A. True Ott PhD sem skreytir sig með háskólagráðu í listum frá Cedar City University, Utah 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá American College, Washington DC 1994. Það er með ólíkindum að maður sem hefur dvalið á æðri menntastofnunum í áratugi hafi heilabú til að skrifa slíka hugvekju.

Enda kom í ljós þegar gæinn var gúgglaður að þarna er á ferð gyðingahatari sem logið hefur upp á sig gráðum rétt eins og hver annar framsóknarmaður auk þess að vera þjóðernissinni með tengsl við ný-nasista og öfga kristna, í ofanálag djöfladýrkandi. Þetta höfðu rannsóknarblaðamenn áreyðanlegra fjölmiðla komist á snoður um varðandi A. True Ott og sett hefur verið upp heimasíða svo fólk geti varast fýrinn. það er því með hálfum hug sem ég birti þessar hugleiðingar sem byggðar á eru hugvekju hans um níu heima og slæðurnar sem þá hylja.

Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Nærtæk er goðafræðin sem kennd er við Ásatrú sem gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og þeir sem hafa kynnt sér það sem nýlega hefur lekið út á alheimsnetið, þ.e. Annunaki geta fundið samsvörun í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera sú hugmynd sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmyndar fólks um heim þess tíma og lífsviðhorfa sem honum tengdust.

Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúi á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.

A. True Ott bendir á að tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 – 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notaðar nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði (sacret geometry).

magical_numbers_by_bernce-d4u2vvwÞess virðist því vera vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn sem breytast í rökhugsandi menntamenn sem vilja láta taka sig alvarlega, skila auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.

Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?

(1 x 8) + 1= 9

(12 x 8) + 2 = 98

(123 x 8) + 3 = 987

(1234 x 8) + 4 = 9876

(12345 x 8) + 5 = 98765

(123456 x 8) + 6 = 987654

(1234567 x 8) + 7 = 9876543

(12345678 x 8) + 8 = 98765432

(123456789 x 8) + 9 = 987654321

Magnað er það ekki; fullkomin speglun, As Above, So Below, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar búið var að umreikna þess óendanlega óþekktu stærð?

Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?

Íhugum ef svokallaðir „mystery schools“, skólar galdra til forna, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað bara samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?

MonopolyÞví telur A True Ott best svarað með orðum sem hann eignar vini sínum Don Harkins. „Á undanförnum árum hef ég leitast við að setja fram kenningar varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þau okkar sem eiga auðvelt með að sjá samsærið hafa örugglega átt óteljandi samræður við fólk sem gremst það að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast“

Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að við sækjumst eftir glysinu líkt og asni sem eltir gulrót, tilhneiging er til að líta á þann sem á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja tímaritið Forbes greinir frá því árlega að 1% íbúa jarðar ráði yfir 50% af auði hennar, svo má ætla innan við 1% íbúa heimsins sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hulurnar.

Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og haldi ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en okkar innrætta útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima og svo er þetta auðvitað líka atvinnuspursmál.

consciousnessportal-640x427

Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.

Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengslin milli einstaklingsins og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valddreifing getur stjórnskipulega farið saman við stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklingsins.

Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugum ættum sem byggja á gömlum auði heimsins, sem þær viðhalda með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.

Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna s.s. Illuminatti, frímúrarar ofl. sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Þessi samtök eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi þannig að upplýsingarnar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig . Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.

Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.

Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi sem sér inn í þennan heim mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.

Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan auð úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.

Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.

Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, enn með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.

Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun geðveikari eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að loka svoleiðis samsæriskenningasmiði inn á hæli, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn. Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega stjórnmálamönnum meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa þá áfram í hreinni firringu. Þeir sem hafa heimsótt 3 – 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir ruglaðir af megin þorra fólks.

sinister-santa

Ekki þurfti samt háskólagráðurnar hans A. True Ott til að uppgötva þetta allt saman. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju um hina ýmsu heima í gegnum aldirnar sem þykja kannski ekki eiga erindi við daginn í dag. Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var meðtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag; „,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir.“ Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; „Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.“

Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Nú nægir einn heimur með einum jólasveini.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband