Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur

Rýnt í rúnir og forna siði

IMG_6204

Hrekkjavaka eða Halloween, vakan fyrir Allraheilagramessu, er kvöldið 31. október og var tileinkuð píslarvottum kirkjunnar. Allraheilagramessa sem fram til ársins 834 var haldin 1.maí var þá flutt til 1. nóvember, fyrst og fremst vegna þess að henni var ætlað að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.

Veturnætur var forn tímamótahátíð sem haldin var hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni. Heimaboða, sem kölluðust dísarblót, er getið í fornsögum og eiga að hafa átt sér stað fyrir kristnitöku. Blót þessi munu hafa verið haldin í námunda við vetrarnætur eða á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir.

Talið er að kvenvættir líkar Grýlu og nornum úr evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessum fornu dísum. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýra og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar. Eftir að norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa, sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember, ímynd þessara hausthátíða. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna því að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum og dísablótum eða öðrum heiðnum hausthátíðum.

Eins og þeir hafa kannski tekið eftir sem heimsótt afa þessa síðu undafarið þá hefur hún verið undirlögð af upplýsingum um fornar sögur. Undanfarin ár hefur fánýtur fróðleikur eða það sem kallast "useless information" heillað hug minn. Ein af þessum fornu fræðum eru rúnir sem eiga sín tengsl aftur í fornan heim. Rúnir komu til Íslands með víkingum og eru taldar hafa verið hvað lengst í almennri notkun af öllum löndum veraldar á Íslandi.

Upplýsingar um rúnir og merkingu þeirra má víða finna á veraldarnetinu, auk gúggúl hef ég gramsað í Galdraskræðu Skugga og íslensku þjóðsögunum sem hafa miklar upplýsingar að geyma um rúnir og galdrastafi. Það má segja að þjóðtrúin sem fram kemur í íslensku þjóðsögunum komi frá sama uppruna og rúnirnar sem spönnuðu allt sviðið ekki síður myrkrið en ljósið. En í þeim fræðum er myrkrið talið hluti ljóssins. Í þessa rúnarýni hafa farið ófáar stundir og afrakstur þeirra má finna hér.

 

 
 

Heimildir:

www.visindavefur.is 

Myndin að ofan er af húsvegg á Seyðisfirði, sjá meira um hann hér.


Kórekur og bláklædda konan

kvennskart L

Árið 1938 fannst merkur fornleifafundur við vegagerðar framkvæmd, þar sem þá var kallað að Litlu-Ketilstaðastöðum í Hjaltastaðaþingá, þar sem nú er Hlégarður. Um var að ræða líkamsleifar konu, tvær koparnælur, litla skrautnælu, auk klæðisbúta ásamt fleiru. Þessar minjar hafði mýrin varðveitt í meira en þúsund ár. Þáverandi Þjóðminjavörður gekk frá líkamsleifum konunnar í formalíni, sem ekki hefur verið sjálfgefin fyrirhyggja á þeim tíma. Mýrin hafði varðveitt líkamsleifarnar á þann hátt að mjúkvefir konunnar varðveittust þar til formalínið tók við varðveislu þeirra, það má því líkja þessari konu við nokkhverskonar múmíu. Sérstakt er að til séu líkamsleifar sem varðveittar hafa verið í formalíni á Þjóðminjasafni Íslands og hafi nú með nýjustu tækni veitt einstæða innsýn í líf konu sem bjó á Íslandi við landnám.

Bláklædda konanÞað sem komið hefur í ljós með nútíma rannsóknum er að konan hefur látist um árið 900. Eins er rannsóknin talin leiða í ljós að hún sé fædd á vestanverðum Bretlandseyjum og hafi flust til Íslands 5-11 ára gömul, en dáið í kringum tvítugt. Klæðnaður og skart konunnar gefur það til kynna að um efnameiri manneskju hafi verið að ræða. Eins þykir bútur úr bláu ullarsjali gefa ótvírætt til kinna að ullin hafi komið af íslensku sauðfé, því má leiða að því líkur að litun og vefnaður ullar hafi þegar verið orðin til í landinu á bernskuárum landnámsins.

Sýning um bláklæddu konuna úr Ketilstaðamýrinni stendur nú yfir á Þjóðminjasafni Íslands.

Því hefur þráfaldlega verið haldið fram í skúmaskotum að ekki sé allt sem sýnist varðandi upphaf landnáms Íslands og leiddar hafa verið að því margvíslegar líkur að meiri fjöldi fólks hafi búið í landinu en sagan vill greina frá, fyrir eiginlegt landnám. Niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á Ketilstaðakonunni slá lítið á þær getgátur þó svo að þær sanni ekkert þar að lútandi heldur. Í mýrunum í Hjaltastaðaþinghánni er vafalaust margt fleira forvitnilegt að finna og sennilegast ekki öll kurl þaðan komin til grafar.

IMG_5311

Helstu einkenni Hjaltastaðaþinghár eru Dyrfjöll og stuðlabergsásar, sem víða standa upp úr mýrunum sem Selfljótið hlykkjast í gegnum

Margir hafa orðið til þess að benda á að sumar nafngiftir í þessari sveit séu sérkennilegar, t.d. heitir mýri í Hjaltastaðaþinghá blá og er þannig háttað víða á Austurlandi. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur sýndi fram á í ársritinu Múlaþingi árið 2010 að minnsta kosti tvö örnefni í Hjaltastaðaþinghá væru af gelískum uppruna þ.e.a.s. frá heimahögum ungu konunnar sem heygð var í Ketilstaðamýrinni. Þar er annarsvegar um helsta einkenni sveitarinnar að ræða, Dyrfjöllin, og hinsvegar um fornar rústir Arnarbælis í landi Klúku, andspænis Jórvík sem stendur sunnan við Selfljótið.

Syðri hluti Dyrfjalla heitir Beinageit eða Beinageitarfjall. Freysteinn telur víst, og rökstyður það rækilega, að upphaflega hafi öll Dyrfjöllin heitið Bheinn-na-geit, sem útleggst á fornri gelísku, dyrnar við fjallið. Arnarbæli vill Freysteinn meina að hafi upphaflega heitið Ard-na-bhaile á forn-gelísku, sem útleggst sem Búðarhöfði sé því snarað yfir á Íslensku. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki frá örófi alda í Útmannasveit að á þessum stað hafi verið forn verslunarhöfn þó svo að nú sé ekki skipgengt lengur að Arnarbæli. Frumrannsókn fornleifa í Arnarbæli var gerð árið 2010 og leiddi hún í ljós að rústirnar þar eru umfangsmiklar.

Eitt nafn í Hjaltastaðaþinghá hefur valdið mér heilabrotum öðrum fremur, en það er nafnið Kóreksstaðir sem eru rétt fyrir innan Jórvík. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þetta Kóreks-nafn annarsstaðar. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en nýverið að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn, enn sem komið er. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður.

IMG 5625

Kóreksstaðavígi

Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.

Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar tegja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."

 IMG_5280

Selfljót, mýrar og stuðlabergsásar í Jórvíkur og Kóreksstaðalandi, Kóreksstaðavígi er fyrir miðri mynd

Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.

IMG_5611

Blá í Hjaltastaðaþinghá

Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið enn eitt örnefnið af gelískum uppruna, og þá farið að nálgast kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.

En að fullyrða það blákalt að með nýjustu tækni á gúggul sé hægt að bendla bláklæddu konuna í Ketilstaðamýrinni við afa Þorbjörns kóreks bónda á Kóreksstöðum sem líklega hafi átt rætur að rekja til Finnbars í Corcach Mór na Mumhan, er blátt áfram full langt gengið.


Hvaðan kom Snæfellið?

IMG_4725

Það getur verið forvitnilegt að vita hvernig nafngift varð til og hvað hún merkir. Þetta þekkja flestir varðandi eigin nöfn. Í barnaskóla var Guðmundur heitinn Magnússon kennari og síðar sveitarstjóri á Egilsstöðum oft með skemmtilegt námsefni, eins og að setja það fyrir sem heimaverkefni að finna út hvað nöfnin okkar þýddu. Ég varð yfir mig ánægður þegar ég fann það út að mitt nafn merkti "hinn mikli". Þó svo ég hafi síðar komist að því að það hafi ekkert með nafngift mína að gera, heldur það að afi minn hét Magnús.

Í minningunni áttu kennarar það til að leifa krakkahópnum að ráfa um fjallahringinn í huganum og geta sér til um hvernig nafngiftir hæstu tinda væru til komnar. Það má segja að frá þessum barnskólaárum hafi þörf verið til staðar að vita hvað nafnið merkir og hvernig það er til komið. Snæfellið er eitt af einkennum Fljótsdalshéraðs sem hefur nafn sem ætti að vera auðskilið hverju barni hvers vegna.

Snæfellið er fjallið sem Björg amma fékk sér kvöldgöngu inn fyrir bæ til að sjá,því það sást ekki frá íbúðarhúsinu á Jaðri í Vallanesinu. Ef ekki ber ský í Snæfellið að kvöldlagi sagði þjóðtrúin að heyskaparþurrt yrði daginn eftir. Snæfellið blasti einnig við úr stofuglugganum á æskuheimilinu á Hæðinni og enn í dag er það fyrsta og síðasta sem ég lít í áttina að kvölds og morgna frá Útgarðinum til að taka veðrið. Í mínum huga hefur í gegnum tíðina ekki farið á milli mála hvernig nafnið er til komið, fjallið ber það hreinlega utan á sér í heiðríku.

En í vetur fóru að draga upp ský á hvelið í höfðinu á mér við nýjar upplýsingar frá Sigurði Ólafssyni á Aðalbóli, áður Siggi Óla í Útgarði eða réttara sagt Búbót. Hann hafði verið á ferðalagi á eynni Mön, þar hafði hann einnig séð Snæfell sem er hæsta fjall Manar. Einhvern veginn hef ég ekki náð að sjá sama Snæfellið eftir að Siggi sagði mér frá þessu og jafnvel talið að það gæti verið falsað. Mig fór að gruna Arnheiði nokkra Ásbjörnsdóttur um verknaðinn. Þannig að ég ákvað að lesa Droplaugarsonasögu aftur. Jú einmitt, sagan byrjar á því að segja frá landnámsmanninum Katli þrym í Fljótsdal, sem kaupir ambáttina Arnheiði af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð.

Í tilhugalífi þeirra Ketils trúði Arnheiður honum fyrir því að hún væri höfðingjadóttir úr Suðureyjum en þeir Ormar, Grímur og Guttormur bræður Véþorms víkings í Jamtalandi hefðu drepið faðir hennar Ásbjörn skerjablesa ásamt öllum karlmönnum á hennar heimili en selt kvenfólkið mansali. Þegar Ketill hafði gengið frá kaupunum á Arnheiði af Véþormi sigla þau til Íslands og setjast að í Fljótsdal að Arnheiðarstöðum, gegnt Atla graut bróður Ketils sem setti sig niður austan við Lagarfljótið í Atlavík. Það eitt að Arnheiðastaðir hafi borið nafn þessarar konu í meira en þúsund ár bendir til að hún hafi átt því að venjast að hafa sitt fram.

Þegar hér var komið sögu leitaði ég ásjár gúggúls, bæði himins og jarðar. Lausnarorðið sem ég sendi var „Skerjablesi“ og viti menn upp kom saga Manar. Þar hafði verið uppi höfðingi sem hét Ásbjörn skerjablesi laust fyrir árið 900 sem er sagður hafa verið drepin af skyldmennum Ketils flatnefs, norsks hersis sem haldið hafði til á Suðureyjum í áratugi þar á undan. Í gúggúl jörð setti ég svo inn Snaefell, og viti menn hæsta fjall Manar heitir einmitt Snaefell. Eins heitir gata í nágrannaborginni Liverpool Snaefell avenue. Snæfells nöfnin er reyndar fleiri á þessum slóðum á Bretlandseyjum.

Börn Ketils flatnefs, forvera Ásbjörns skerjablesa á Suðureyjum, settust mörg hver að á vestanverðu Íslandi, svo sem Auður djúpúðga og Björn austræni. Björn austræni er sagður landnámsmaður á Snæfellsnesi og Auður í grennd við hann í Dölunum. Það er ekki ósennilegt að nafn á nesið og þess hæsta kennileiti Snæfellsjökul hafi orðið til um landnám.

Þannig er nú farið að ég er ekki lengur viss um að Snæfell sé nefnt eftir snævi þöktum hlíðum þess, það geti allt eins verð eftirlíking af felli sem sjaldan festir í snó á Bretlandseyjum. En eitt er víst að Snæfellið var haft í öndvegi í stofu æskuheimilisins og ef það sást ekki út um gluggann vegna skyggnis þá var annað hangandi upp á vegg málað af meistaranum sjálfum, Steinþóri Eiríkssyni.

Það vill svo skemmtilega til að í dag er opnuð sýning í tilefni aldarminningar listmálara okkar Héraðsbúa sem engin ætti að láta fram hjá sér fara sem verður á Héraði þetta sumarið. Því þar verður hægt að bera hið eina og sanna Snæfell augum. 

IMG_4714


Hví skyldi gralið vera á Kili

Um það bil 20 árum eftir að Evrópskir krossfarar höfðu frelsað hina helgu borg Jerúsalem undan yfirráðum múslima árið 1118, er stofnuð regla musterisriddara sem sögð er hafa haft aðsetur þar sem musteri Salomons stóð. Regla þessi auðgaðist gríðarlega af áheitum og landareignum víða á vesturlöndum. Í Frakklandi einu er hún talin hafi átt um 10.000 herragarða. Leynd hvíldi yfir reglunni og þeim fornu fræðum sem hún á að hafa haft aðgang að úr musteri Salomons, sem sum hver voru talin komin úr Egipsku píramídunum. Öfund gerði vart við sig í garð reglunnar vegna ríkidæmis hennar og þegar múslímar náðu Jerúsalem aftur á sitt vald árið 1291 fór að halla verulega undan fæti fyrir musterisriddurum. 

Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru reglubræður þá um 20.000 talsins, ákærðir fyrir jafnt sannar sem upplognar sakir. Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum. Eftir sýndarréttarhöld og pyntingar voru þeir brenndir á báli í þúsunda tali um alla Evrópu fyrir galdur og önnur forn fræði. Árið 1312 bannaði páfinn reglu musteriddara og leið hún undir lok að talið var, því er þó haldið fram að að hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu yfir til Skotlands. Hin nýja regla Musterisriddara varð síðan forveri seinni tíma frímúrarareglna og var sett á laggirnar í Skotlandi undir verndarvæng Robert Bruce konungs Skotlands árið 1314. Árið 1319 veitir nýr páfi, Jóhannes XXII , reglunni aftur tilverurétt þá undir nafninu Riddarar Jesú Krists.

Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur musterisriddara hafi komið til Íslands árið 1217 með leyndar helgar frá Jerúsalem. Telur Gianazza sig hafa lesið þetta út úr dulmálskóda sem megi finna í hinum Guðdómlega gleðileik eftir Dante. Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur unnið með Giancarlo Gianazza við að fylla uppí myndina með vísbendingum sem felast í Sturlungu. Þórarinn telur komna fram raunverulega skýringu á pólitískum átökum í kringum Snorra Sturluson á þrettándu öld. Hverjir voru hinir „áttatíu austmenn, alskjaldaðir" sem voru í fylgd með Snorra á Þingvöllum? Þórarinn og Giancarlo telja að þetta kunni að hafa verið musterisriddarar sem töldu tryggast að koma dýrgripum frá landinu helga í örugga geymslu vegna trúarlegra og pólitískra átaka í Evrópu. 

Í grein um fræði Gianazza sem birtist í Leyndarmálum sögunnar (Historic Mysteries) 10. febrúar 2011 er greint frá að Gianazza hafi ransakað þetta undarlega mál frá því 2004. Þar segir m.a.;

"It seems incredible that Iceland would be a part of what some call the greatest literary work of all time. Gianazza avers that it is not so far-fetched.

Apparently a group of the Knights Templar, a monastic military order of the Middle Ages long associated with discovering holy relics, visited Iceland. "In the official historic records of Iceland it is stated that in 1217, during the meeting of the Althing - the Parliament established in 930 - the leader and poet Snorri Sturlusson appears next to what the text defines as ‘80 knights from the south, all dressed and armed in the same fashion’ and is elected as commander for that year.” Gianazza is convinced that the Knights "travelled to Iceland and backed the election of Sturlusson in exchange for his support in the building of a secret chamber to be filled over the years with sacred books and objects from the Temple of Jerusalem.

"After the eradication of the Knights Templar in 1307, Gianazza believes a secret elite of the Knights remained and that Dante belonged to this elite. Dante, therefore, would have been privy to the knowledge of the Knights and the whereabouts of the secret chamber. Consequently, he would have coded this knowledge into the Comedy."

Þó það sé langsótt að halda því fram að Snorri Sturluson hafi verið forveri frímúrara á Íslandi og þó svo tilgátur ítalans Gianazza ættu ekki við nein rök að stiðjast, þá er eftir sem áður um athygliverða tilgátu að ræða. Þetta verður sérlega áhugavert þegar ævi Snorra er skoðuð í þessu ljósi og höfð til hliðsjónar kenning Jochums M Eggertssonar í Brisingameni Freyju frá 1948 þar sem hann leggur m.a. út frá orðum Gísla Oddaonar biskubs í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands, um; -„að ófreskju skuggar og áþreyfanleg Egipsk myrkur hafi eihvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. –Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin.“ –skrifar biskup.

Snorra Sturlusonar er einkum minnst fyrir íslendingasögurnar og hið mikla ritverk Heimskringlu, sem hefur að geyma sögu Noregskonunga auk þeirra heimilda um norræna goðafræði sem í verkum hans felast. Vegna þessarar arfleiðar mætti ætla að Snorri hafi verið mikill fræðimaður og grúskari. En sannleikurinn er sá að hann var umfarm allt annað íslenskur höfðingi á umbrotatímum sem hæpið er að ímynda sér að hafi haft tíma til að sinna grúski og ritstörfum. Á ævi Snorra logar Ísland í borgarastyrjöld sem endar með því að landið kemst undir Noregskonung. Helstu persónur og leikendur í þeirri styrjöld voru Noregs konungur ásamt biskupnum í Niðarósi sem íslenska kirjan heirði undir, auk íslenskra höfðingjaætta á við „Sturlunga“, ætt Snorra. Enda gengur tímabilið undir heitinu Sturlungaöld í Íslandssöguni. 

Auðsöfnun og valdagræðgi var áberandi á meðal íslenskra höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Tilgáta Giancarlo Gianazza er sérstaklega áhugaveð í þessu ljósi. Eins kenning Jocums M Eggertssonar um að Snorri hafi ekki skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar heldur hafi þær verið skrifaðar mun fyrr, en Snorri hafi komist yfir þau handrit og látið endurrita þau þannig að þau varðveitast. Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Noergskonungur fer þess á leit við Snorra Sturluson að hann komi Íslandi undir norsku krúnuna og hann gerist lénsmaður konungs. Þarna hefur konungur því talið sig vera að gera samning við einn valdamesta mann landsins, en Snorri gerði lítið til þess að koma landinu undir Noreg og var drepinn árið 1241 af Gissuri Þorvaldsin að undirlagi konungs.

Það er ævintýralegt að setja frama Snorra Sturlusonar í stjórnmálum Íslands í samhengi við Musterisriddara en því verður samt ekki á móti mælt að eftir þessa heimsókn 80 austmanna sem mæta með alvæpni á Þingvöllum með Snorra 1217 hefst frami Snorra sem var sonur Hvamm Sturlu Sighvatssonar sem talin er hafa verið nýlega tilkominn höfðingi af bænda ætt en ekki goða. Eins verður ævi Snorra sem rithöfundar allt önnur í þessu ljósi því auðséð er á þeim bókmenntaverkum sem kennd eru við hann að þar var um víðtækar heimildir að ræða sem ná árhundruð ef ekki þúsund aftur í tímann frá hans æviárum.

Það er því spurning hvort Musterisriddarar hafi valið Snorra til að geima þær launhelgar sem fluttar voru úr musteri Salomons vegna þeirra miklu bókmenntaverka sem hann varðveitti þá þegar og við hann eru kennd. Samkvæmt kenningu Jochums sem finna má í Brisingarmeni Freyju eiga verk Snorra uppruna sinn í Krýsuvík, mörghundruð árum fyrir fæðingu Snorra. Fræðasetrið í Krýsuvík á svo að hafa átt rætur sínar að relkja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum Skotlands, nánar tiltekið klausturs St. Columbe, og verið flutt til Íslands löngu fyrir landnám eða um árið 700.

Allavega virðist Snorri hafa haft tengingar til Skotlands ef marka má Sturlungu. Þann 29. september 2013 má finna í Akureyrarblaðinu áhugaverða grein um kenningar Giancarlo Gianazza , þar segir m.a.;

„Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254). Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.“


mbl.is Leita að hinu heilaga grali á Kili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðingarfylgjan

Duality

Sennilega dettur fáum í hug að leita sér andlegrar uppörvunar í íslenskum draugasögum, eða auka skilning á andans málum með því að glugga í sögur um íslensku fornkappanna. Hin fjarlægu austurlensku fræði hafa þótt álitlegri kostir til sáluhjálpar. Nútíma sálfræði gerir ráð fyrir aðgreiningu líkama og sálar. Í því sambandi er algengt að álykta sem svo að manneskja samanstandi af huga, líkama og sál. Skilningsvit séu fimm; sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt. Heimarnir hafi síðustu aldirnar verið taldir þrír þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Efnishyggja nútímans hefur aftur á móti tilhneigingu til að hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á líf fólks, maðurinn tilheyri ríki náttúrunnar. Heimurinn sé einn og lúti þróunarsögu Darwins sem er nátengd markaðslögmálunum. Hugleiða má svo hvaða vitneskju menn hafi um tilveru efnisheimsins aðra en huglæga. Heimurinn geti því allt eins verið hugmynd, líkur þeirri sem Gandi benti á, "ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér".

Samkvæmt margri austurlenskri speki getur heimurinn aðeins verið til í huga sérhvers einstaklings í eins mörgum útgáfum og hann óskar sér, þar verður hver að vera sinnar gæfu smiður. Innan hverrar manneskju býr samkvæmt því, rýmið, sólin og áttirnar fjórar, það sem er fyrir ofan og fyrir neðan, guðir, djöflar og hægt að fara hvert þangað sem andans truntur þeysa. Því er betra að vera meðvitaður um að hugurinn getur svifið í tómarúmi líkt og skýin um himininn. Þó skýin geri ekki mistök með ferð sinni um himininn, þá hefur vindátt og hitastig áhrif á hvort þeim fylgir blíða eða ótíð.   

Hugmyndir fornmanna um skinfæri einstaklingsins virðast hafa verið frábrugðnar, t.d. er hugurinn talin til eins af skilningsvitunum, líkt og enn er gert í Búddisma. Með því að færa hugsunina úr flokki skilningsvita yfir á vestræna vísu, í það sem mætti kalla hið óskilvitlega, er hægt að hafa gífurlega ómeðvituð áhrif á huga fólks og það hafa markaðsöfl nútímans notfært sér miskunnarlaust.

Eye of Horas

Hið alsjáandi auga, fornt tákn fyrir skilningsvitin sex.

Sjálfsmynd heiðinna mann s.s. þeirra víkinga sem námu Ísland gerði ráð fyrir að manneskjan samanstæði af ham, hamingju, huga og fylgju, þessi fjögur atriði sköpuðu henni örlög. Þetta fernt virðist kannski flókið, en er það svo? Þeir hafa kannski gert sér betri grein fyrir hvað hugurinn er flækjugjarn ef hann er ekki notaður til að fylgjast með rétt eins og sjón og heyrn, þess í stað notaður til að fabúlera með það hvers hin skilningsvitin verða áskynja.

Ef sjálfsmynd fornmanna er sett í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina haminn sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveld-Úlfur faðir Skalla-Gríms hafi verið.

En Kveld-Úlfur var samkvæmt söguni klofinn persónuleiki. Á daginn var hann góður búmaður, duglegur og vitur, en á kvöldin svefnstyggur og afundinn, þaðan er viðurnefnið komið. Var því sagt að hann væri hamrammur eða hamskiptingur. Þjóðsögurnar skýra þetta fyrirbæri ágætlega og hve algeng hin forna meining er í íslenskri tungu.

"Betur hefur sú trú haldist frá fornöld að menn ímynda sér að sálin geti yfirgefið líkamann um stund, verið fyrir utan hann, en vitjað hans svo aftur; af þessu eru leidd mörg orð: vér köllum að maður sé hamslaus og hamstola af ákafa eður æðisfenginni reiði; hamhleypa er kallaður ákafur maður og skjótvirkur; hamur er vestanlands kölluð kona sem er geðvargur, óhemja og annað því um líkt. Alkunn eru orðin að hamast, skipta hömum og enn fleiri." Þjóðs. JÁ bls 341 I bindi

Nú á tímum verður fólki tíðrætt um hamingjuna sem allir þrá, orðið hamingja er haft um gleði eða sælu. Hamingjan er talin tilfinning, sem kemur innan frá eitthvað sem sagt er að þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að öðlast, hún sé nátengd hugarástandi. Til forna bjó hamingjan ekki í huganum, frekar en huganum er ætlaður staður á meðal skilningsvitana fimm nú á tímum. En hver er merking íslenska orðsins hamingja og hvernig er það saman sett?

joySamkvæmt því sem sérfræðingar segja merkir orðið hamingja gæfa, heill, náðargjöf og í elsta máli einnig heilladís eða verndarvættur. Það er sett saman úr orðunum hamur sem merkir líkami, húð eða gervi og í eldra máli með viðtengingunni fylgja eða verndari. Viðtengingin –ingja er komin af engja af sögninni að ganga, nokkurskonar vættur sem gengur inn í ham eða gervi.

"Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til í Íslenskri orðsifjabók (1989:303) að hamur merki í þessari samsetningu "fósturhimna, fylgja" og vísar þar til ham í dönsku og sænskum mállýskum í sömu merkingu. Hamingjan hafi þá upphaflega verið heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir sérhverjum frá fæðingu".

Fræðimenn telja því hina fornu notkun orðsins bera vitni um að einstaklingurinn hafi ekki ráðið miklu um hamingju sína, sumum fylgi mikil hamingja en öðrum minni. Þetta á þá væntanlega rætur að rekja til upphaflegrar merkingar orðsins hamingja, þ.e verndarvættur, heilladís, fylgja. Einnig eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og; „Það má hamingjan vita“ eða „Hamingjan hjálpi mér!“ Þar sem talað er um hamingjuna eins og sjálfstæða persónu, „ hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“; segir í íslenskum dægurlagatexta og kveður þar við fornan tón. 

Fylgja er oftast talið draugalegt fyrirbæri, en svo hefur ekki alltaf verið. Hjá forfeðrunum skipti miklu að búið væri þannig að einstakling sem nýkominn var í heiminn að honum fylgdi góður andi eins og lesa má um í þjóðsögunum.

"En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta aða gæfa, auðna eða heill." Þjóðs. JÁ bls 340 I bindi

Valkirja

"En eigi eru allar fylgjur sagðar draugakyns og nokkuð annars eðlis; því svo segir gamla þjóðtrúin að þegar barn fæðist þá verður eftir af sálarveru þess hluti – sem sérstæð vera – í himnubelg þeim sem utan um það í móðurlífi og leysist síðar og kallast barnsfylgja. Þessi vera kallast fylgja og verður leiðtogi barnsins og líklega verndarvera þess. Hún er kölluð heilög og hefur ef til vill af fornmönnum verið sett í samband við forlög og hamingju og gefin stundum vinum og orðið kynfylgja." Þjóðs. SS bls.183 III bindi

Því var til siðs að fara vel með barnsfylgjuna í henni byggi heill barnsins sem myndi fylgja því í gegnum lífið. Fylgjan var stundum grafin innanhúss í námunda við móðir barnsins svo hún myndi hafa góð áhrif á fylgju þess. Ef fylgjan var grafin utandyra eða fleygt á víðavang þá var hún talin taka áhrif þess sem fyrst fór þar yfir, hvort sem um mann eða dýr væri að ræða, sem myndi uppfrá því einkenna fylgju einstaklingsins. Athyglivert er í því sambandi hvað mörg íslensk nöfnu bera í sér dýraheiti, björns nöfn og úlfs eða fuglsnöfn á við örn, val, svan, hrafn ofl..

Fylgja"Mikill hluti fylgja þykir vera sá hluti mannssálarinnar sem verður eftir þegar barnið fæðist og fylgir barnsfylgjuhimnunni. Guðlaugur Guðmundsson – Guðlaugssonar, Hálfdánarsonar er gera lét á sig reiðfæri og óð allar ár austan af Djúpavogi með hestburð á baki – bjó að Þverá í Hörgslandshreppi á Síðu. Synir hans voru tveir, Guðmundur og Guðlaugur. Þegar Guðlaugur fæddist gleymdi nærkonan að bera ljós í kross yfir móðurina og barnið í rúminu og fleygði fylgjunni í koppinn. Þá kom Guðmundur, þá 7ára gamall, og settist á koppinn, enda átti Guðlaugur mynd bróður síns fyrir fylgju upp frá því, alltaf á því reki sem hann var þá og eins eftir að Guðmundur var dáinn." Þjóðs. SS bls 287 III bindi

Þegar börn fóru að fæðast á fæðingardeildum, og jafnvel fyrr, er fæðingarfylgjan yfirleitt brennd og eftir það er einstaklingurinn talinn fylgjulaus, hafi þess í stað það sem vinsælt er að kalla áru. Fylgjan gerði yfirleitt vart við sig áður en viðkomandi einstaklingur birtist, ef hún gerði vart við sig á eftir viðkomandi þá var hann talinn feigur. Sumir eru taldir hafa átt fleiri en eina fylgju, þá oft ættarfylgju að auki eða jafnvel aðra góða og hina vonda. Fylgjan var samt oftast talin heilladís eða verndarvættur sem lifði og dó með manneskjunni. Ef fylgjan dó eða yfirgaf manninn í lifanda lífi af einhverjum völdum þá var hann talinn gæfulaus eða heillum horfinn. 

Það þarf ekki endilega að fara langt yfir skammt við að sækja andlegan skilning. Flest trúarbrögð eiga sinn uppruna á fjarlægum slóðum, austurlenskri speki s.s. hindú, jóga og búddismi sem þurfa mikla iðkunn áður en þau nýtast til sáluhjálpar, auk þess sem það þarf að setja sig inn í aragrúa torskilinna hugtaka. Kannski liggur einfaldasta leiðin til sálarþroska í gegnum þann menningararf sem fylgir heimahögunum og skilningur auðmeltastur þar sem tungumálið hefur verið drukkið með móðurmjólkinni. Því er það hvorki tilviljun hvar við fæðumst né hvað því fylgir.


Hvaðan kom nafnið?

Þau eru mörg til staðarnöfnin sem hafa haldið sér frá því landið byggðist og jafnframt til heimildir um tilurð þeirra. Svo eru önnur nöfn sem virðast hafa verið til frá landnámi, en aðeins óljósar sagnir þeim tengdum má þar nefna nöfn eins og Papey, Papaós, Papafjörður ofl. En mörg nöfn eiga sér einungis stoð í þjóðsögum má þar nefna Vattarnes sem þjóðsagan segir að hafi fyrst verið numið af heljarmenni sem hét Vöttur og Kolfreyjustað sem sagan segir að hafi fyrst verið byggður af skessunni Kolfreyju.

IMG_0041

Fossárvík í Berufirði

Í sautján ár bjó ég á Djúpavogi við Berufjörð, það var ekki flókið á átta sig á nafngiftinni Djúpivogur. En Berufjörður flæktist fyrir mér árum saman. Bera er að vísu þekkt íslenskt kvenmannsnafn sem samkvæmt nafnskýringum merkir birna. Berufirðirnir eru tveir á Íslandi en engar sagnir um birni hef ég rekist á þeim tengdum.

Lítið hef ég heyrt um tilurð nafnsins annað en Bera átti að hafa búið á bænum Berufirði, heimildir um þá búsetu er einungis þjóðsagan. Söguna heyrði ég fyrst á fundi fyrir mörgum árum á Djúpavogi þar sem stofna átti til félagsskaparins Axarvinir. Þar upplýsti einn fundarmanna Berufjarðarnafnið með skýringu sem ég hef látið mér nægja í gegnum árin.

Það eftirminnilegasta frá þeim fundi var snilldarfrásögn af ferðalagi hjónakornanna Beru og Sóta yfir erfiðan fjallveg í botni Berufjarðar. Þessa frásögn rakst ég á í Þjóðsögum Jóns Árnasonar án stórskemmtilegra stílfæringa sagnamannsins á fundinum forðum. Þar er fjallvegurinn sem um ræðir ekki Öxi og dalurinn er ekki Skriðdalur en allt kemur heim og saman í botni Berufjarðar;

BhéaraBerufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru. Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli.

Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni. Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.

Þessi skýring á Berufjarðarnafninu dugði mér fullkomlega þar til í vetur en þá fóru að renna á mig tvær grímur þess efnis að nafnið gæti verið gamall misskilningur.

Valgerður H Bjarnadóttir magister í femínískri menningar og trúarsögu, kom fram með þá tilgátu að tröllkonan Grýla hafi hafi verið landnámskessa frá Skotlandi og hafi þar gengið undir nafninu Bhéara.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna sögn tengda nafninu Bera sem skýtur stoðum undir tilgátu Valgerðar og skýrir einnig það sem mér hefur verið hulin ráðgáta í gegnum árin hvers vegna áin í Skriðdal er kennd við Grím.

Í tilefni þess að til stendur að minnast 160 ára árstíðar austfirska þjóðsagnaritarans Sigfúsar Sigfússonar á þessu ári læt ég fylgja sögu sem skýrir vel hvers eðlis Bera var.



UntitledÞað er til eldgömul alþýðusögn að í fyrndinni hafi tröllkarl og tröllkona búið undir fossinum í Grímsá á Völlum í helli þeim er gengur inn undir bergið og verður illa í komist nema á ís þegar hylurinn er lagður. Þessi tröll voru ektapar og hétu Grímur og Bera. Þau áttu að sumra sögn tíu syni og þótti lýður þessi umfangsmikill í grenndinni. Löngum sáust reykir þar úr gljúfrinu er þau suðu sér til matar. Mest fóru þau til fanga á nóttu því þau voru nátttröll.

Þegar fram liðu tímar leiddist þeim veran undir fossinum og fastréðu að flytja sig í svonefnt Tunghagaklif handan ár gagnvart bænum. Hófu þau nú ferð sína á nýársnótt á svartasta lágnættinu. Tók hvert sína byrði og afréðu að þræða eftir ánni því eigi sér þar sól fyrr en hún hækkar nokkuð á lofti vegna dýptar gilsins. Grímur varð fyrstur, þar næst fóru synir hans í einfaldri fylkingu en Bera seinust.

Stóðst það á endum að þá er Grímur var kominn út að Tunghagatúninu þegar Bera byrjaði för sína. En þegar hún kom út úr hellinum varð henni bilt við því þá kastaði morgunsólin sínum fyrstu árgeislum í norðurbarm gilsins. Varð hún þá að dranga þeim er þar stendur og sömu urðu forlög hinna allra að þau urðu til í réttri röð þar sem þau voru þá komin og er þar halarófan með jöfnu millibili. Af Grími þessum dregur áin nafn sitt.

 


Níu heimar

The Kardashian

Það er ekki á hverjum degi sem greinaskrif hræra upp í skilningsvitunum. Greinin sem um ræðir er frá því 2010, eftir A. True Ott PhD sem skreytir sig með háskólagráðu í listum frá Cedar City University, Utah 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá American College, Washington DC 1994. Það er með ólíkindum að maður sem hefur dvalið á æðri menntastofnunum í áratugi hafi heilabú til að skrifa slíka hugvekju.

Enda kom í ljós þegar gæinn var gúgglaður að þarna er á ferð gyðingahatari sem logið hefur upp á sig gráðum rétt eins og hver annar framsóknarmaður auk þess að vera þjóðernissinni með tengsl við ný-nasista og öfga kristna, í ofanálag djöfladýrkandi. Þetta höfðu rannsóknarblaðamenn áreyðanlegra fjölmiðla komist á snoður um varðandi A. True Ott og sett hefur verið upp heimasíða svo fólk geti varast fýrinn. það er því með hálfum hug sem ég birti þessar hugleiðingar sem byggðar á eru hugvekju hans um níu heima og slæðurnar sem þá hylja.

Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Nærtæk er goðafræðin sem kennd er við Ásatrú sem gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og þeir sem hafa kynnt sér það sem nýlega hefur lekið út á alheimsnetið, þ.e. Annunaki geta fundið samsvörun í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera sú hugmynd sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmyndar fólks um heim þess tíma og lífsviðhorfa sem honum tengdust.

Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúi á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.

A. True Ott bendir á að tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 – 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notaðar nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði (sacret geometry).

magical_numbers_by_bernce-d4u2vvwÞess virðist því vera vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn sem breytast í rökhugsandi menntamenn sem vilja láta taka sig alvarlega, skila auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.

Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?

(1 x 8) + 1= 9

(12 x 8) + 2 = 98

(123 x 8) + 3 = 987

(1234 x 8) + 4 = 9876

(12345 x 8) + 5 = 98765

(123456 x 8) + 6 = 987654

(1234567 x 8) + 7 = 9876543

(12345678 x 8) + 8 = 98765432

(123456789 x 8) + 9 = 987654321

Magnað er það ekki; fullkomin speglun, As Above, So Below, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar búið var að umreikna þess óendanlega óþekktu stærð?

Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?

Íhugum ef svokallaðir „mystery schools“, skólar galdra til forna, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað bara samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?

MonopolyÞví telur A True Ott best svarað með orðum sem hann eignar vini sínum Don Harkins. „Á undanförnum árum hef ég leitast við að setja fram kenningar varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þau okkar sem eiga auðvelt með að sjá samsærið hafa örugglega átt óteljandi samræður við fólk sem gremst það að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast“

Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að við sækjumst eftir glysinu líkt og asni sem eltir gulrót, tilhneiging er til að líta á þann sem á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja tímaritið Forbes greinir frá því árlega að 1% íbúa jarðar ráði yfir 50% af auði hennar, svo má ætla innan við 1% íbúa heimsins sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hulurnar.

Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og haldi ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en okkar innrætta útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima og svo er þetta auðvitað líka atvinnuspursmál.

consciousnessportal-640x427

Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.

Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengslin milli einstaklingsins og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valddreifing getur stjórnskipulega farið saman við stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklingsins.

Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugum ættum sem byggja á gömlum auði heimsins, sem þær viðhalda með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.

Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna s.s. Illuminatti, frímúrarar ofl. sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Þessi samtök eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi þannig að upplýsingarnar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig . Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.

Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.

Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi sem sér inn í þennan heim mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.

Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan auð úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.

Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.

Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, enn með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.

Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun geðveikari eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að loka svoleiðis samsæriskenningasmiði inn á hæli, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn. Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega stjórnmálamönnum meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa þá áfram í hreinni firringu. Þeir sem hafa heimsótt 3 – 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir ruglaðir af megin þorra fólks.

sinister-santa

Ekki þurfti samt háskólagráðurnar hans A. True Ott til að uppgötva þetta allt saman. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju um hina ýmsu heima í gegnum aldirnar sem þykja kannski ekki eiga erindi við daginn í dag. Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var meðtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag; „,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir.“ Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; „Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.“

Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Nú nægir einn heimur með einum jólasveini.

 


Er landnáma lygi?

Hvað ef öll mankynssagan væri meira og minna lygi skrifuð af þeim sem valdamestir voru á hverjum tíma og skáldsagna ritarar á við Dan Brown færu nær sannleikanum? Það er reyndar oftast svo að ríkjandi öfl sjá um að skrásetja opinbera útgáfu sögunnar. Þegar Íslendingasögurnar eru skoðaðar þá má samt greina að þær hafa ekki verið skráðar undir handleiðslu Noregskonunga þó þær geymi heimildir sem til eru um upphaf konungsríkis í Noregi. Það virðist ekki hafi verið nein hefð fyrir sagnaritun í Skandinavíu þegar norðmenn námu Ísland né fyrir þann tíma, það má næstum segja að miðalda saga Noregs væri ekki til nema fyrir Ísland.

Hvernig stóð þá á því að saga þessa tímabils varðveitist á Íslandi? Ágiskun hefur m.a. verið uppi um að það sé vegna þess að á Íslandi séu langir og dimmir vetur og því hafi landsmenn drepið tímann með því að segja sögur af uppruna sínum og landnámi (874-930) mann fram að manni þar til einhverjir sáu ástæðu til að skrásetja þær, jafnvel mörghundruð árum seinna s.s. Snorri Sturluson upp úr 1200 og Landnáma einhvertíma upp úr 1100. Langir vetur með skammdegismyrkri eru ekki síður í Noregi svo varla kom þörfin fyrir það að skrásetja sagnahefðina þaðan með landnámsfólki.

Við lestur Völsungasögu vakna margar áleitnar spurningar s.s. hvernig stóð á því að sú saga varðveitist á Íslandi sem er talin hafa verið skráð 1270 en sögusviðið er Evrópa 800 árum fyrr á tímum Atla Húnakonungs (406-453) auk þess sem Völsunga saga hefur að geyma heimildir um hugsunarhátt heiðinna manna og sögu norrænnar goðafræði sem ríkjandi var í norður Evrópu þess tíma.

Egils saga sem er talin hafa verið rituð um 1200 segir frá atburðum í Noregi, Englandi og víðar í Evrópu á tímabilinu 850-1000. Egilssaga segir svo háðuglega frá Noregskonungum að útilokað er annað en sögunni hefði verið eitt af samtíma konungum í Noregi hefðu þeir vitað af tilvist hennar. En hvað sem öðru líður þá segir sagan á hárnákvæman hátt frá Noregi þess tíma auk þess að gefa magnaða innsýn í heiðinn hugarheim í gegnu Egil. Það hefur komið betur í ljós eftir því sem fornleifarannsóknum hefur fleytt fram hvað Egilssaga er nákvæm heimild.

Grettis- og Laxdælasaga geta landnámsfólks sem kom frá Skotlandi. Önundur einfætti forfaðir Grettis fór til Suðureyja Skotlands til að þola ekki ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs. Laxdæla greinir frá landnámi Auðar djúpúðgu sem kom frá Skotlandi og hefur tengsl við konung á Írlandi. Báðar þessar sögur gera sambandi sögupersóna við Noreg góð skil en geta þess aðeins lauslega hvar þetta fólk hafði alið manninn við Skotland.

Eina kenningu sem lítið hefur farið fyrir, um landnám Íslands og tilurð íslendingasagna, má finna í ritgerða safni Jochum M Eggertsson frá 1948. Þetta ritgerðasafn heitir einu nafni Brísingamen Freyju og kemur inn á norræna goðafræði, rúnaletur ofl. Í 5. kafla er svo kenning um hvernig Ísland byggðist sem einna helst má líkja við skálsöguna Da Vinci Code, enda var Jochum ekki hátt skrifaður hjá fræðimannasamfélaginu. Þrátt fyrir merkilegar rannsóknir sínar varð hann aldrei annað en utangarðs fræðimaður.

Í 5. kafla Brísingamens Freyju leggur Jochum út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, sem Gísli lætur falla í bók sinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands. En þar segir biskup: "Þann 18. Apríl, 1638 byrja ég á lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi ég óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum“.

Síðan bendir Jochum á merkilegan hluta í frásögn Gísla biskups í kaflanum „Jarðskjálftar og ýmiskonar hræðileg eldgos“; „ -Til þess að ég þreyti ekki lesarann eða virðist ætla að segja neitt ógeðfellt, mundi ég engu bæta við þetta, ef gagnstæður kraftur skapferlis míns kallaði ekki fram í huga mér á þessum stað, að ég hef fræðst um það af gömlum annálum fornmanna, að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. –Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. –En þetta eru ekki þau myrkur, sem taka alveg fyrir sól og dagsljós og koma af sandskýjum á vissum stöðum og í fjöllum, á meðan þau eru að spýa eldi, heldur einhverjir aðrir furðulegir skuggar".

Þessa frásögn Gísla Oddsonar telur Jochum vera stórmerkilegan útúrdúr frá efni bókarinnar og að Gísli hafi haft aðgang að fornum annálum í Skálholti sem greindu frá falinni fortíð. Eins sagðist Jochum sjálfur hafa yfir hinu glataða fornriti Gullbringu að ráða þar sem kæmi fram ítarlegri útgáfa af landnámi Íslands en um væri getið í Landnámu sem getur þess þó lítillega að fyrir í landinu hafi verið fólk af keltneskum uppruna.

Sú útgáfa sem kemur fram í Gullbringu er í stuttu máli á þá leið að þegar þeir landnemar komu til Íslands frá Noregi sem vildu forðast ofríki Haralds konungs hárfagra var fyrir á Ísland byggð. Nánar tiltekið hafi sú byggð átt uppruna sinn að sækja til eyjarinnar Iona sem er ein af Suðureyjum Skotlands. Á Iona hafi verið varðveitt viska sem rekja megi til Egipsku píramídana. Þessi vitneskja sem síðar var kennd við galdur hafi upphaflega verið til staðar í fornum menningarheimum en flust frá Egiptalandi til Iona eyja sem eru í eyjahafi Grikklands, þaðan hafi fræði þessarar visku flust til Hebredes eyjar í Suðureyjum Skotlands og þaðan til smá eyjar í Suðureyjum sem hafi fengið nafnið Iona eftir hinum Grísku eyjum. Eins kemur fram hjá Jochum að Skotland hafi verið nafn á Írlandi á þeim tíma. Þegar ekki var lengur öruggt að varðveita þessa launhelgu visku á eyjunni Iona við Skotland var hún flutt til Íslands u.þ.b. árið 700, nánar tiltekið til Krýsuvíkur.

Þetta gerist löngu fyrir landnám og tekur þetta fólk sem fyrir er á Íslandi vel á móti flóttafólki þegar landnám norrænna manna hefst. Eins segist Jochum þess fullviss af heimildum úr fornritinu Gullbringu að Íslendingasögurnar séu m.a. ritaðar að undirlagi Kolskeggs vitra Ýberíasonar sem hafði aðsetur í Krýsuvík, m.a. kemur fram að mestur hluti Heimskringlu Snorra sé upphaflega rituð af Grími Hrafnsyni af Mýramannakyni auk þess sem hann hafi ritað Egils-sögu Skallagrímssonar frænda síns. Grímur þessi hafði aðsetur á Vífilsstöðum ásamt Jóni hinum gamla Kjarvalssyni, þar sem fræðisetur á að hafa verið samhliða því í Krýsuvík. Þeir Jón Kjarvalsson og Kolskeggur vitri Ýberíason eiga að hafa samið Völuspá og Hávamál.

Því sem næst 200 árum seinna á Snorri Sturluson, sem var að upplagi íslenskur höfðingi en ekki fræðimaður, að hafa komist yfir rit þeirra Krýsvíkinga og gert sér grein fyrir um hverskonar verðmæti var að ræða, ráðið til sín skrifara til að endurskrifa og varðveita heimildirnar. Þegar þessi fornu rit voru endurrituð á skinn undir handleiðslu Snorra hafi pólitískt ástand á Íslandi og staða Snorra (sem var lénsmaður Noregskonungs) verið með þeim hætti að það hafi frekar verið varðveitt úr þeim sem var hliðhollara Noregskonungum.

Örlög Kolskeggs, sem á að hafa verið drepinn 1054 í Kapelluhrauni, urðu þau að með tímanum fékk hann nafnið Kölski í íslenskri tungu, þar sem þau fræði sem upprunnin voru úr fornum menningarheimi og varðveitt voru í Krýsuvík þóknuðust ekki kirkjunni. Megi rekja upphaf þess til laga sem sett voru á alþingi 1032 og um er getið í Grettissögu en þar segir "að allir forneskjumenn skyldu útlægir af landinu".


mbl.is Segir Kverkhelli frá um 800
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bera.

Það að íslenska Grýla sé Keltneskt ættuð tröllkona er skemtileg tilgáta og ekki ósennileg. Nafnið Cail­leach Bhé­ara eða Cail­leach Beur benda til að hún hafi átt sér nöfnuna Beru á Íslandi, þó svo tilgáta sé um að nafnið Bera sé afbrygði af nafninu Birna.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar era saga af því hvers vegna einn austfjarðanna heitir Berufjörður. Sú saga ber þess merki að þar gætu hafa verið tröll á ferð um fjöll.

Berufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru.

Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli.

Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni.

Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.


mbl.is Er Grýla keltnesk gyðja?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Snorri Sturluson frímúrari?

Um það bil 20 árum eftir að Evrópskir krossfarar höfðu frelsað hina helgu borg Jerúsalem undan yfirráðum múslima árið 1118, er stofnuð regla musterisriddara sem sögð er hafa haft aðsetur þar sem musteri Salomons stóð. Regla þessi auðgaðist gríðarlega af áheitum og landareignum víða á vesturlöndum. Í Frakklandi einu er hún talin hafi átt um 10.000 herragarða. Leynd hvíldi yfir reglunni og þeim fornu fræðum sem hún á að hafa haft aðgang að úr musteri Salomons, sem sum hver voru talin komin úr Egipsku píramýdunum. Öfund gerði vart við sig í garð reglunnar vegna ríkidæmis hennar og þegar múslímar náðu Jerúsalem aftur á sitt vald árið 1291 fór að halla verulega undan fæti fyrir musterisriddurum.

Knights-Templar-Riding

Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru reglubræður þá um 20.000 talsins, ákærðir fyrir hvers konar upplognar sakir. Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum. Eftir sýndarréttarhöld og pyntingar voru þeir brenndir á báli í þúsunda tali um alla Evrópu fyrir galdur og önnur forn fræði. Árið 1312 bannaði páfinn reglu musteriddara og leið hún undir lok að talið var, því er þó haldið fram að að hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu yfir til Skotlands. Hin nýja regla Musterisriddara varð síðan forveri seinni tíma frímúrarareglna og var sett á laggirnar í Skotlandi undir verndarvæng Robert Bruce konungs Skotlands árið 1314. Árið 1319 veitir nýr páfi, Jóhannes XXII , reglunni aftur tilverurétt þá undir nafninu Riddarar Jesú Krists.

Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn að Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur musterisriddara hafi komið til Íslands árið 1217 með leyndar helgar frá Jerúsalem. Telur Gianazza sig hafa lesið þett út úr dulmálskóda sem megi finna í hinum Guðdómlega gleðileik eftir Dante. Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur unnið með Giancarlo Gianazza við að fylla uppí myndina með vísbendingum sem felast í Sturlungu. Þórarinn telur komna fram raunverulega skýringu á pólitískum átökum í kringum Snorra Sturluson á þrettándu öld. Hverjir voru hinir „áttatíu austmenn, alskjaldaðir" sem voru í fylgd með Snorra á Þingvöllum? Þórarinn og Giancarlo telja að þetta kunni að hafa verið musterisriddarar sem töldu tryggast að koma dýrgripum frá landinu helga í örugga geymslu vegna trúarlegra og pólitískra átaka í Evrópu.

a-knight_templar-989888

Í grein um fræði Gianazza sem birtist í Leyndarmálum sögunnar (Historic Mysteries) 10. febrúar 2011 er greint frá að Gianazza hafi ransakað þetta undarlega mál frá því 2004. Þar segir m.a.;

"It seems incredible that Iceland would be a part of what some call the greatest literary work of all time. Gianazza avers that it is not so far-fetched.

Apparently a group of the Knights Templar, a monastic military order of the Middle Ages long associated with discovering holy relics, visited Iceland. "In the official historic records of Iceland it is stated that in 1217, during the meeting of the Althing - the Parliament established in 930 - the leader and poet Snorri Sturlusson appears next to what the text defines as ‘80 knights from the south, all dressed and armed in the same fashion’ and is elected as commander for that year.” Gianazza is convinced that the Knights "travelled to Iceland and backed the election of Sturlusson in exchange for his support in the building of a secret chamber to be filled over the years with sacred books and objects from the Temple of Jerusalem.

" After the eradication of the Knights Templar in 1307, Gianazza believes a secret elite of the Knights remained and that Dante belonged to this elite. Dante, therefore, would have been privy to the knowledge of the Knights and the whereabouts of the secret chamber. Consequently, he would have coded this knowledge into the Comedy."

Þó það sé langsótt að halda því fram að Snorri Sturluson hafi verið forveri frímúrara á Íslandi og þó svo tilgátur ítalans Gianazza ættu ekki við nein rök að stiðjast, þá er eftir sem áður um athygliverða tilgátu að ræða. Þetta verður sérlega áhugavert þegar ævi Snorra er skoðuð í þessu ljósi og höfð til hliðsjónar kenning Jochums M Eggertssonar í Brisingameni Freyju frá 1948 þar sem hann leggur m.a. út frá orðum Gísla Oddaonar biskubs í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands, um; -„að ófreskju skuggar og áþreyfanleg Egipsk myrkur hafi eihvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. –Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin.“ –skrifar biskup.

Snorra Sturlusonar er einkum minnst fyrir íslendingasögurnar og hið mikla ritverk Heimskringlu, sem hefur að geyma sögu Noregskonunga auk þeirra heimilda um norræna goðafræði sem í verkum hans felast. Vegna þessarar arfleiðar mætti ætla að Snorri hafi verið mikill fræðimaður og grúskari. En sannleikurinn er sá að hann var umfarm allt annað íslenskur höfðingi á umbrotatímum sem hæpið er að ímynda sér að hafi haft tíma til að sinna grúski og ritstörfum. Á ævi Snorra logar Ísland í borgarastyrjöld sem endar með því að landið kemst undir Noregskonung. Helstu persónur og leikendur í þeirri styrjöld voru Noregs konungur ásamt biskupnum í Niðarósi sem íslenska kirjan heirði undir, auk íslenskra höfðingjaætta á við „Sturlunga“, ætt Snorra. Enda gengur tímabilið undir heitinu Sturlungaöld í Íslandssöguni.

knights-templar-holy-grail

Auðsöfnun og valdagræðgi var áberandi á meðal íslenskra höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Tilgáta Giancarlo Gianazza er sérstaklega áhugaveð í þessu ljósi. Eins kenning Jocums M Eggertssonar um að Snorri hafi ekki skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar heldur hafi þær verið skrifaðar mun fyrr, en Snorri hafi komist yfir þau handrit og látið endurrita þau þannig að þau varðveitast. Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Noergskonungur fer þess á leit við Snorra Sturluson að hann komi Íslandi undir norsku krúnuna og hann gerist lénsmaður konungs. Þarna hefur konungur því talið sig vera að gera samning við einn valdamesta mann landsins, en Snorri gerði lítið til þess að koma landinu undir Noreg og var drepinn árið 1241 af Gissuri Þorvaldsin að undirlagi konungs.

Það er ævintýralegt að setja frama Snorra Sturlusonar í stjórnmálum Íslands í samhengi við Musterisriddara en því verður samt ekki á móti mælt að eftir þessa heimsókn 80 austmanna sem mæta með alvæpni á Þingvöllum með Snorra 1217 hefst frami Snorra sem var sonur Hvamm Sturlu Sighvatssonar sem talin er hafa verið nýlega tilkominn höfðingi af bænda ætt en ekki goða. Eins verður ævi Snorra sem rithöfundar allt önnur í þessu ljósi því auðséð er á þeim bókmenntaverkum sem kennd eru við hann að þar var um víðtækar heimildir að ræða sem ná árhundruð ef ekki þúsund aftur í tímann frá hans æviárum.

Snorri_sturluson_1930

Það er því spurning hvort Musterisriddarar hafi valið Snorra til að geima þær launhelgar sem fluttar voru úr musteri Salomons vegna þeirra miklu bókmenntaverka sem hann varðveitti þá þegar og við hann eru kennd. Samkvæmt kenningu Jochums sem finna má í Brisingarmeni Freyju eiga verk Snorra uppruna sinn í Krýsuvík, mörghundruð árum fyrir fæðingu Snorra. Fræðasetrið í Krýsuvík á svo að hafa átt rætur sínar að relkja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum Skotlands, nánar tiltekið klausturs St. Columbe, og verið flutt til Íslands löngu fyrir landnám eða um árið 700.

Allavega virðist Snorri hafa haft tengingar til Skotlands ef marka má Sturlungu. Þann 29. september 2013 má finna í Akureyrarblaðinu áhugaverða grein um kenningar Giancarlo Gianazza , þar segir m.a.;

„Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254). Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.“


mbl.is Þróa þáttaröð um Sturlunga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband