Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur
16.4.2015 | 07:36
Er landnáma lygi?
Hvað ef öll mankynssagan væri meira og minna lygi skrifuð af þeim sem valdamestir voru á hverjum tíma og skáldsagna ritarar á við Dan Brown færu nær sannleikanum? Það er reyndar oftast svo að ríkjandi öfl sjá um að skrásetja opinbera útgáfu sögunnar. Þegar Íslendingasögurnar eru skoðaðar þá má samt greina að þær hafa ekki verið skráðar undir handleiðslu Noregskonunga þó þær geymi heimildir sem til eru um upphaf konungsríkis í Noregi. Það virðist ekki hafi verið nein hefð fyrir sagnaritun í Skandinavíu þegar norðmenn námu Ísland né fyrir þann tíma, það má næstum segja að miðalda saga Noregs væri ekki til nema fyrir Ísland.
Hvernig stóð þá á því að saga þessa tímabils varðveitist á Íslandi? Ágiskun hefur m.a. verið uppi um að það sé vegna þess að á Íslandi séu langir og dimmir vetur og því hafi landsmenn drepið tímann með því að segja sögur af uppruna sínum og landnámi (874-930) mann fram að manni þar til einhverjir sáu ástæðu til að skrásetja þær, jafnvel mörghundruð árum seinna s.s. Snorri Sturluson upp úr 1200 og Landnáma einhvertíma upp úr 1100. Langir vetur með skammdegismyrkri eru ekki síður í Noregi svo varla kom þörfin fyrir það að skrásetja sagnahefðina þaðan með landnámsfólki.
Við lestur Völsungasögu vakna margar áleitnar spurningar s.s. hvernig stóð á því að sú saga varðveitist á Íslandi sem er talin hafa verið skráð 1270 en sögusviðið er Evrópa 800 árum fyrr á tímum Atla Húnakonungs (406-453) auk þess sem Völsunga saga hefur að geyma heimildir um hugsunarhátt heiðinna manna og sögu norrænnar goðafræði sem ríkjandi var í norður Evrópu þess tíma.
Egils saga sem er talin hafa verið rituð um 1200 segir frá atburðum í Noregi, Englandi og víðar í Evrópu á tímabilinu 850-1000. Egilssaga segir svo háðuglega frá Noregskonungum að útilokað er annað en sögunni hefði verið eitt af samtíma konungum í Noregi hefðu þeir vitað af tilvist hennar. En hvað sem öðru líður þá segir sagan á hárnákvæman hátt frá Noregi þess tíma auk þess að gefa magnaða innsýn í heiðinn hugarheim í gegnu Egil. Það hefur komið betur í ljós eftir því sem fornleifarannsóknum hefur fleytt fram hvað Egilssaga er nákvæm heimild.
Grettis- og Laxdælasaga geta landnámsfólks sem kom frá Skotlandi. Önundur einfætti forfaðir Grettis fór til Suðureyja Skotlands til að þola ekki ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs. Laxdæla greinir frá landnámi Auðar djúpúðgu sem kom frá Skotlandi og hefur tengsl við konung á Írlandi. Báðar þessar sögur gera sambandi sögupersóna við Noreg góð skil en geta þess aðeins lauslega hvar þetta fólk hafði alið manninn við Skotland.
Eina kenningu sem lítið hefur farið fyrir, um landnám Íslands og tilurð íslendingasagna, má finna í ritgerða safni Jochum M Eggertsson frá 1948. Þetta ritgerðasafn heitir einu nafni Brísingamen Freyju og kemur inn á norræna goðafræði, rúnaletur ofl. Í 5. kafla er svo kenning um hvernig Ísland byggðist sem einna helst má líkja við skálsöguna Da Vinci Code, enda var Jochum ekki hátt skrifaður hjá fræðimannasamfélaginu. Þrátt fyrir merkilegar rannsóknir sínar varð hann aldrei annað en utangarðs fræðimaður.
Í 5. kafla Brísingamens Freyju leggur Jochum út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, sem Gísli lætur falla í bók sinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands. En þar segir biskup: "Þann 18. Apríl, 1638 byrja ég á lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi ég óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum.
Síðan bendir Jochum á merkilegan hluta í frásögn Gísla biskups í kaflanum Jarðskjálftar og ýmiskonar hræðileg eldgos; -Til þess að ég þreyti ekki lesarann eða virðist ætla að segja neitt ógeðfellt, mundi ég engu bæta við þetta, ef gagnstæður kraftur skapferlis míns kallaði ekki fram í huga mér á þessum stað, að ég hef fræðst um það af gömlum annálum fornmanna, að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. En þetta eru ekki þau myrkur, sem taka alveg fyrir sól og dagsljós og koma af sandskýjum á vissum stöðum og í fjöllum, á meðan þau eru að spýa eldi, heldur einhverjir aðrir furðulegir skuggar".
Þessa frásögn Gísla Oddsonar telur Jochum vera stórmerkilegan útúrdúr frá efni bókarinnar og að Gísli hafi haft aðgang að fornum annálum í Skálholti sem greindu frá falinni fortíð. Eins sagðist Jochum sjálfur hafa yfir hinu glataða fornriti Gullbringu að ráða þar sem kæmi fram ítarlegri útgáfa af landnámi Íslands en um væri getið í Landnámu sem getur þess þó lítillega að fyrir í landinu hafi verið fólk af keltneskum uppruna.
Sú útgáfa sem kemur fram í Gullbringu er í stuttu máli á þá leið að þegar þeir landnemar komu til Íslands frá Noregi sem vildu forðast ofríki Haralds konungs hárfagra var fyrir á Ísland byggð. Nánar tiltekið hafi sú byggð átt uppruna sinn að sækja til eyjarinnar Iona sem er ein af Suðureyjum Skotlands. Á Iona hafi verið varðveitt viska sem rekja megi til Egipsku píramídana. Þessi vitneskja sem síðar var kennd við galdur hafi upphaflega verið til staðar í fornum menningarheimum en flust frá Egiptalandi til Iona eyja sem eru í eyjahafi Grikklands, þaðan hafi fræði þessarar visku flust til Hebredes eyjar í Suðureyjum Skotlands og þaðan til smá eyjar í Suðureyjum sem hafi fengið nafnið Iona eftir hinum Grísku eyjum. Eins kemur fram hjá Jochum að Skotland hafi verið nafn á Írlandi á þeim tíma. Þegar ekki var lengur öruggt að varðveita þessa launhelgu visku á eyjunni Iona við Skotland var hún flutt til Íslands u.þ.b. árið 700, nánar tiltekið til Krýsuvíkur.
Þetta gerist löngu fyrir landnám og tekur þetta fólk sem fyrir er á Íslandi vel á móti flóttafólki þegar landnám norrænna manna hefst. Eins segist Jochum þess fullviss af heimildum úr fornritinu Gullbringu að Íslendingasögurnar séu m.a. ritaðar að undirlagi Kolskeggs vitra Ýberíasonar sem hafði aðsetur í Krýsuvík, m.a. kemur fram að mestur hluti Heimskringlu Snorra sé upphaflega rituð af Grími Hrafnsyni af Mýramannakyni auk þess sem hann hafi ritað Egils-sögu Skallagrímssonar frænda síns. Grímur þessi hafði aðsetur á Vífilsstöðum ásamt Jóni hinum gamla Kjarvalssyni, þar sem fræðisetur á að hafa verið samhliða því í Krýsuvík. Þeir Jón Kjarvalsson og Kolskeggur vitri Ýberíason eiga að hafa samið Völuspá og Hávamál.
Því sem næst 200 árum seinna á Snorri Sturluson, sem var að upplagi íslenskur höfðingi en ekki fræðimaður, að hafa komist yfir rit þeirra Krýsvíkinga og gert sér grein fyrir um hverskonar verðmæti var að ræða, ráðið til sín skrifara til að endurskrifa og varðveita heimildirnar. Þegar þessi fornu rit voru endurrituð á skinn undir handleiðslu Snorra hafi pólitískt ástand á Íslandi og staða Snorra (sem var lénsmaður Noregskonungs) verið með þeim hætti að það hafi frekar verið varðveitt úr þeim sem var hliðhollara Noregskonungum.
Örlög Kolskeggs, sem á að hafa verið drepinn 1054 í Kapelluhrauni, urðu þau að með tímanum fékk hann nafnið Kölski í íslenskri tungu, þar sem þau fræði sem upprunnin voru úr fornum menningarheimi og varðveitt voru í Krýsuvík þóknuðust ekki kirkjunni. Megi rekja upphaf þess til laga sem sett voru á alþingi 1032 og um er getið í Grettissögu en þar segir "að allir forneskjumenn skyldu útlægir af landinu".
![]() |
Segir Kverkhelli frá um 800 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 24.1.2017 kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2014 | 09:12
Bera.
Það að íslenska Grýla sé Keltneskt ættuð tröllkona er skemtileg tilgáta og ekki ósennileg. Nafnið Cailleach Bhéara eða Cailleach Beur benda til að hún hafi átt sér nöfnuna Beru á Íslandi, þó svo tilgáta sé um að nafnið Bera sé afbrygði af nafninu Birna.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar era saga af því hvers vegna einn austfjarðanna heitir Berufjörður. Sú saga ber þess merki að þar gætu hafa verið tröll á ferð um fjöll.
Berufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru.
Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli.
Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni.
Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.
![]() |
Er Grýla keltnesk gyðja? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.1.2017 kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.11.2014 | 11:18
Var Snorri Sturluson frímúrari?
Um það bil 20 árum eftir að Evrópskir krossfarar höfðu frelsað hina helgu borg Jerúsalem undan yfirráðum múslima árið 1118, er stofnuð regla musterisriddara sem sögð er hafa haft aðsetur þar sem musteri Salomons stóð. Regla þessi auðgaðist gríðarlega af áheitum og landareignum víða á vesturlöndum. Í Frakklandi einu er hún talin hafi átt um 10.000 herragarða. Leynd hvíldi yfir reglunni og þeim fornu fræðum sem hún á að hafa haft aðgang að úr musteri Salomons, sem sum hver voru talin komin úr Egipsku píramýdunum. Öfund gerði vart við sig í garð reglunnar vegna ríkidæmis hennar og þegar múslímar náðu Jerúsalem aftur á sitt vald árið 1291 fór að halla verulega undan fæti fyrir musterisriddurum.
Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru reglubræður þá um 20.000 talsins, ákærðir fyrir hvers konar upplognar sakir. Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum. Eftir sýndarréttarhöld og pyntingar voru þeir brenndir á báli í þúsunda tali um alla Evrópu fyrir galdur og önnur forn fræði. Árið 1312 bannaði páfinn reglu musteriddara og leið hún undir lok að talið var, því er þó haldið fram að að hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu yfir til Skotlands. Hin nýja regla Musterisriddara varð síðan forveri seinni tíma frímúrarareglna og var sett á laggirnar í Skotlandi undir verndarvæng Robert Bruce konungs Skotlands árið 1314. Árið 1319 veitir nýr páfi, Jóhannes XXII , reglunni aftur tilverurétt þá undir nafninu Riddarar Jesú Krists.
Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn að Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur musterisriddara hafi komið til Íslands árið 1217 með leyndar helgar frá Jerúsalem. Telur Gianazza sig hafa lesið þett út úr dulmálskóda sem megi finna í hinum Guðdómlega gleðileik eftir Dante. Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur unnið með Giancarlo Gianazza við að fylla uppí myndina með vísbendingum sem felast í Sturlungu. Þórarinn telur komna fram raunverulega skýringu á pólitískum átökum í kringum Snorra Sturluson á þrettándu öld. Hverjir voru hinir áttatíu austmenn, alskjaldaðir" sem voru í fylgd með Snorra á Þingvöllum? Þórarinn og Giancarlo telja að þetta kunni að hafa verið musterisriddarar sem töldu tryggast að koma dýrgripum frá landinu helga í örugga geymslu vegna trúarlegra og pólitískra átaka í Evrópu.
Í grein um fræði Gianazza sem birtist í Leyndarmálum sögunnar (Historic Mysteries) 10. febrúar 2011 er greint frá að Gianazza hafi ransakað þetta undarlega mál frá því 2004. Þar segir m.a.;
"It seems incredible that Iceland would be a part of what some call the greatest literary work of all time. Gianazza avers that it is not so far-fetched.
Apparently a group of the Knights Templar, a monastic military order of the Middle Ages long associated with discovering holy relics, visited Iceland. "In the official historic records of Iceland it is stated that in 1217, during the meeting of the Althing - the Parliament established in 930 - the leader and poet Snorri Sturlusson appears next to what the text defines as 80 knights from the south, all dressed and armed in the same fashion and is elected as commander for that year. Gianazza is convinced that the Knights "travelled to Iceland and backed the election of Sturlusson in exchange for his support in the building of a secret chamber to be filled over the years with sacred books and objects from the Temple of Jerusalem.
" After the eradication of the Knights Templar in 1307, Gianazza believes a secret elite of the Knights remained and that Dante belonged to this elite. Dante, therefore, would have been privy to the knowledge of the Knights and the whereabouts of the secret chamber. Consequently, he would have coded this knowledge into the Comedy."
Þó það sé langsótt að halda því fram að Snorri Sturluson hafi verið forveri frímúrara á Íslandi og þó svo tilgátur ítalans Gianazza ættu ekki við nein rök að stiðjast, þá er eftir sem áður um athygliverða tilgátu að ræða. Þetta verður sérlega áhugavert þegar ævi Snorra er skoðuð í þessu ljósi og höfð til hliðsjónar kenning Jochums M Eggertssonar í Brisingameni Freyju frá 1948 þar sem hann leggur m.a. út frá orðum Gísla Oddaonar biskubs í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands, um; -að ófreskju skuggar og áþreyfanleg Egipsk myrkur hafi eihvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. skrifar biskup.
Snorra Sturlusonar er einkum minnst fyrir íslendingasögurnar og hið mikla ritverk Heimskringlu, sem hefur að geyma sögu Noregskonunga auk þeirra heimilda um norræna goðafræði sem í verkum hans felast. Vegna þessarar arfleiðar mætti ætla að Snorri hafi verið mikill fræðimaður og grúskari. En sannleikurinn er sá að hann var umfarm allt annað íslenskur höfðingi á umbrotatímum sem hæpið er að ímynda sér að hafi haft tíma til að sinna grúski og ritstörfum. Á ævi Snorra logar Ísland í borgarastyrjöld sem endar með því að landið kemst undir Noregskonung. Helstu persónur og leikendur í þeirri styrjöld voru Noregs konungur ásamt biskupnum í Niðarósi sem íslenska kirjan heirði undir, auk íslenskra höfðingjaætta á við Sturlunga, ætt Snorra. Enda gengur tímabilið undir heitinu Sturlungaöld í Íslandssöguni.
Auðsöfnun og valdagræðgi var áberandi á meðal íslenskra höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Tilgáta Giancarlo Gianazza er sérstaklega áhugaveð í þessu ljósi. Eins kenning Jocums M Eggertssonar um að Snorri hafi ekki skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar heldur hafi þær verið skrifaðar mun fyrr, en Snorri hafi komist yfir þau handrit og látið endurrita þau þannig að þau varðveitast. Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Noergskonungur fer þess á leit við Snorra Sturluson að hann komi Íslandi undir norsku krúnuna og hann gerist lénsmaður konungs. Þarna hefur konungur því talið sig vera að gera samning við einn valdamesta mann landsins, en Snorri gerði lítið til þess að koma landinu undir Noreg og var drepinn árið 1241 af Gissuri Þorvaldsin að undirlagi konungs.
Það er ævintýralegt að setja frama Snorra Sturlusonar í stjórnmálum Íslands í samhengi við Musterisriddara en því verður samt ekki á móti mælt að eftir þessa heimsókn 80 austmanna sem mæta með alvæpni á Þingvöllum með Snorra 1217 hefst frami Snorra sem var sonur Hvamm Sturlu Sighvatssonar sem talin er hafa verið nýlega tilkominn höfðingi af bænda ætt en ekki goða. Eins verður ævi Snorra sem rithöfundar allt önnur í þessu ljósi því auðséð er á þeim bókmenntaverkum sem kennd eru við hann að þar var um víðtækar heimildir að ræða sem ná árhundruð ef ekki þúsund aftur í tímann frá hans æviárum.
Það er því spurning hvort Musterisriddarar hafi valið Snorra til að geima þær launhelgar sem fluttar voru úr musteri Salomons vegna þeirra miklu bókmenntaverka sem hann varðveitti þá þegar og við hann eru kennd. Samkvæmt kenningu Jochums sem finna má í Brisingarmeni Freyju eiga verk Snorra uppruna sinn í Krýsuvík, mörghundruð árum fyrir fæðingu Snorra. Fræðasetrið í Krýsuvík á svo að hafa átt rætur sínar að relkja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum Skotlands, nánar tiltekið klausturs St. Columbe, og verið flutt til Íslands löngu fyrir landnám eða um árið 700.
Allavega virðist Snorri hafa haft tengingar til Skotlands ef marka má Sturlungu. Þann 29. september 2013 má finna í Akureyrarblaðinu áhugaverða grein um kenningar Giancarlo Gianazza , þar segir m.a.;
Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði. (Sturlunga saga, 1988:253-254). Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.
![]() |
Þróa þáttaröð um Sturlunga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.2.2016 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2014 | 08:38
Úlfar og arfleið.
Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa". Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar".
Þetta má lesa í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937. Þarna er verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Annars vegar til Göngu Hrólfs forföður Normandí Normanna sem unnu orrustuna um Bretland við Hastings árið 1066 og enska konungsættin er rakin til, hins vegar til landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit. Adam Rutherford vildi meina að þessir bræður og allflestir landnámsmenn Íslands hefðu ekki verið dæmigerðrar norskrar ættar heldur hefði þeirra ættbálkur verið aðfluttur í Noregi. Að stofni til verið ein af 12 ættkvíslum Ísraels, hvísl Benjamíns.
Í ljósi þessa uppruna væru Íslendingar, vegna einangrunar í gegnum aldirnar, ekki Norskastir Norðmanna eins og ætla mætti af Landnámu, heldur hreinasta afbrigðið sem fyrir finnist á jörðinni af ætthvísl Benjamíns. Þessu til stuðnings benti hann m.a. á að ýmsir sagnaritarar telji að þegar Normannar réðust inn í England árið 1066, þá hafi úlfur verið í skjaldarmerki Vilhjálms bastarðar. Úlfur var merki Benjamíns og algengt í mannanöfnum þeirrar ættkvíslar. Rutherford vill meina að nafngift sem ber úlfsnafnið í sér hafi verið algeng hjá landnámsfólki Íslands, s.s. Ingólfur sem sagður er fyrsti landnámsmaðurinn, Kveldúlfur, Þórólfur, Herjólfur, Brynjólfur, Hrólfur, Snjólfur osfv., enda megi úlfs örnefni víða finna á Íslandi þó svo aldrei hafi þar verið úlfar.
Vissuna um uppruna Íslendinga taldi Adam Rutherford sig hafa úr píramídanum mikla í Gíza, en hann var einn þeirra sem var þar við fornleifauppgröft og rannsóknir árið 1925, þegar áður ófundinn veggur kom í ljós sem talinn er hafa að geima skýringar hinna ímsu spádóma sögunnar þ.m.t. spádóm um fæðingu frelsarans, sem og um eyjarnar í vestri með eldlandinu sem má finna í enskri þýðingu Biblíunnar í spádómum Jesaja.
Með útreikningum komst hann auk þess að því Ísland er í geisla norðvestur hliðar píramídans, liggur þar í honum miðjum ásamt Suðureyjum Skotlands. Ísland á samkvæmt spádómnum að komast í brennidepil mankynsögunnar með því að vera á ásnum þar sem geislinn er breiðastur, verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Langt mál er að fara í gegnum þessa útreikninga Rutherford og það sem hann uppgötvaði um Ísland í Gíza píramídanum enda gaf hann út bókina "Hin mikla arfleið Íslands" um þessar rannsóknir sínar auk margra annarra rita.
En hverjir voru Benjamínítar? Samkvæmt hinni helgu bók var Benjamín yngsti sonur Ísraels (Jakobs sonar Ísaks Abrahamssonar) sem bar beinin í Egyptalandi. Ætthvísl Benjamíns var sú minnsta af Ísrael. Í Dómarabókinni 19-21 segir frá refsidómi Benjamíns ættkvíslarinnar sem kveðinn var upp á þeim tíma þegar allar ættkvíslar Ísraels bjuggu í fyrirheitna landinu. Benjamín skildi eytt úr Ísrael vegna níðingsverksins í Gíbeu, mönnum, konum og börnum.
Ísraelsmenn hófu útrýminguna og sáu ekki að sér fyrr en þeir höfðu eitt svo til öllum kynstofni Benjamíns. En þá tók þá að iðrast og sögðu Nú er ein ætthvísl upphöggvin úr Ísrael! Hvernig eigum við að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar að vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum". Það urðu því örlög Benjamíns að fara með vopnum á aðrar þjóðir og ræna sér kvonfangi. Síðar fékk Benjamín uppreisn æru í Ísraelsríki og var Sál fyrsti konungur Ísrael af ætt Benjamíns, Davíð konungur sem á eftir kom gerði Jerúsalem að höfuðborg, sonur hans Salómon lét reisa musterið þar sem hin mikla viska á að hafa verið geymd.
Þegar Ísraelsmenn voru herleiddir af Assýríumönnum voru það aðeins tvær ættkvíslar sem snéru aftur til fyrirheitna landsins, Juda og Benjamín. Benjamín hafði áður búið í Jerúsalem en þegar aftur var snúið varð Galílea heimkynni Benjamíns, Jerúsalem tilheyrði þá Juda. Lærisveinar Jesú eru allir taldir hafa verið af ætthvísl Benjamíns, nema Júdas sem var af ætt Juda líkt og Jesú. Um það bil 100 árum eftir Krist, í kjölfar ofsókna Rómverja, flyst ættkvísl Benjamíns til Litlu Asíu og dreifist þaðan til annarra landi m.a. til Svartahafslanda. Talið er að þeir hafi svo aftur lent á flakk á tímum Atla Húnakonungs skömmu fyrir fall Rómarveldis u.þ.b. árið 400.
Fleiri hafa fetað svipaðar slóðir og Rutherford varðandi uppruna þeirra Norðmanna sem námu Ísland. Þar má nefna Barða Guðmundsson (1900-1957) sagnfræðing, þjóðskjalavörð og um tíma Alþingismann. Árið 1959 kom út ritgerðasafn hans um uppruna Íslendinga. Þar leiðir Barði líkum að því að Íslendingar séu ekki komnir út af dæmigerðum Norðmönnum heldur fólki sem var aðflutt, einkum á vesturströnd Noregs.
Þessu til stuðnings bendir hann á að útfararsiðir íslendinga hafi verið allt aðrir en tíðkuðust á meðal norrænna manna. Samkvæmt fornleifarannsóknum á norðurlöndunum hafi bálfarargrafir verið algengastar, á Íslandi finnist engin bálfarargröf frá þessum tíma né sé um þann útfararsið getið í íslenskum bókmenntum. Því sé ljóst af þessum mikla mun á útfararsiðum Norðmanna og Íslendinga í heiðni að meginþorri þeirra sem fluttu til Íslands frá Noregi hafi þar verið af ættum aðkomumanna.
Barði bendir einnig á baráttuna sem var gegn Óðni í Noregi, guði seiðs og skáldskapar. Hann telur hamremmi, Óðinsdýrkun og skáldskap hafa haldist í hendur, sbr. Egils-sögu Skallagrímssonar. Seiðmennska var í litlu uppáhaldi hjá Haraldi hárfagra og lét hann m.a. Eirík blóðöxi gera ferð til Upplanda þar sem hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn ásamt átta tugum seiðmanna.
Einnig vitnar Barði Guðmundsson í Snorra Sturluson þar sem hann segir að Æsir hafi komið til Norðurlanda frá Svartahafslöndum, undir forystu tólf hofgoða, er réðu fyrir blótum og dómum manna á milli." Óðinn er þeirra æðstur. Þykir Barða einkum merkilegt, að Snorri skuli gera ráð fyrir norrænni sérmenningu, sem upptök eigi í hinum fjarlægu Svartahafslöndum við Donósa, en njóti lítilla vinsælda sem aðflutt í Noregi.
Einn af þeim sem ekki hefur hikað við að umturna hefðbundnum kenningum sögunnar er Thor Hayerdhal. Hann hefur leitað uppruna Óðins á svipuðum slóðum og bent á að við Kasbíhaf, nánar tiltekið í Qobustan héraði í Azjerbaijan séu hellar sem hafi að geima myndir greyptar í stein af bátum sem minni á víkingaskip. Einnig taldi hann að nafngiftina Æsir á guðum norrænnar goðafræði mætti rekja til lands sem bæri það í nafninu s.s. Azer í Azerbaijan.
Við þetta má bæta að rúnaletur var notað á norðurlöndum árhundruðum eftir að latnesk letur náði yfirhöndinni í hinu evrópska Rómarveldi. Rúnir hafa, af ýmsum fræðimönnum, löngum verið kenndar við þær launhelgar sem stundaðar hafa verið við að varðveita viskuna úr musteri Salómons sem ættuð var úr Egypsku píramídunum. Að öllu þessu athuguðu þá er alls ekki svo ólíklegt að fótur sé fyrir kenningum um að uppruni Íslendinga eigi sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist mega ætla.
Það er í íslenskum bókmenntum sem heimildir um goðafræðina varðveitast og má því segja að fornbókmenntirnar séu hin mikla arfleið. En eins líklegt er að sá spádómur sem Adam Rutherford telur sig hafa fundið í píramídanum Gíza og viðrar í bókinni Hin mikla arfleið Íslands", þar sem hann gerir ráð fyrir því að landið muni verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar" hafi komið fram fyrir þúsund árum þegar landnámsmenn opinberuðu siglingaleið á milli Evrópu og Ameríku.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 2.10.2017 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2014 | 18:56
Úr álögum
Hér á þessum kletti voru þeir af lífi teknir sem töldust hafa brotið lög þessa lands. Enginn veit nú nöfn þessara ólánsömu manna. Nema Valtýs á grænni treyju. Kletturinn einn vitnar þögull um stór örlög. Rotaryklúbbur Héraðsbúa.
Eftir að ég kom heim í Hérað, úr fjörbaugsgarðinum í Noregi, hefur það verið að smá renna upp fyrir mér að ég bý á sögulegri klettabyggð. Gálgakletturinn er það fyrsta sem ég rek augun í þegar þau opnast á morgnanna. Þar sem ofangreinda áletrun má finna greypta í plötu úr kopar. Þó engin hafi haft fyrir því að skrá nöfn þeirra ólánsmanna sem af lífi voru teknir á Gálgakletti þá voru Valtýarnir allavega tveir eins og fræðast má um í sögunni Valtýr á grænni treyju.
Á upplýsingaskilti við klettinn má lesa að; "aldrei hefur nein staðfesting fengist á sanngildi Valtýssögu, önnur en sú að við klettinn komu upp mannabein, sem lágu í óreiðu fram á miðja síðustu öld, en var þá safnað saman, og sett í kassa, með glerloki, sem festur var á klettinn. Árið 1975 gekkst Rotaryklúbbur Héraðsbúa fyrir því að sett var upp skilti á klettinn, en beinakassinn tekinn niður og settur á minjasafnið á Egilsstöðum, og um áratug síðar á Þjóðminjasafnið, þar sem beinin eru nú geymd".
Nú er ég nokkuð öruggur á því að sannleiksgildi Valtýssögu er ekki síðra en upplýsinganna sem koma fram á skiltinu við klettinn. Allavega minnist ég þess að hafa verið ásamt fleiru ungviði að gramsa í beinum undir Gálgakletti löngu eftir miðja síðustu öld. Ef rétt er munað lágu mannabein undir klettinum fram yfir 1970 er þau fóru í umræddan kassa með glerlokinu svo hægt væri að skoða án þess að snerta. Ekki fengu bein þessara ólánsmanna að hvíla í friði þó í kassa með glerloki væru komin, og fljótlega mátti sjá þau liggja á jörðu niðri innan um glerbrot og spýtnabrak. Sennilega hefur orsakavaldur þess verið fallandi steinn ofan af klettinum.
Einnig er á upplýsingaskiltinu lesning um nánasta umhverfi Gálgaklettsins; "Klettaásinn sem Egilsstaðakirkja og sjúkrahúsið standa á heitir Gálgaás (Gálgás), og það heiti var var í fyrstu notað um þorpið sem byggðist á ásnum og við hann um miðja 20. öld. (Sbr. vísu Sigurjóns á Kirkjubæ Glatt er á Gálgaás)". Mig skortir kannski aldur til að minnast þess að þorpið hafi verið kallað Gálgaás þó ég hafi heyrt hvíslað um vísuna hans séra Sigurjóns á Kirkjubæ á unga aldri, sem farið var með eins og mannsmorð. Enda var hún þess eðlis að ekki var talið rétt að kenna byggðina og íbúa hennar við þesskonar skáldskap.
Glatt er á Gálgaás,
Gróa á hverjum bás,
það er nú þjóð legur staður,
engin af öðrum ber,
efalaust þaðan fer,
til andskotans annar hver maður.
Þó svo Gálgakletturinn standi nú orðið á besta staðnum í bænum hefur ekki nokkrum lifandi manni dottið í hug að byggja sér hús norð-austan undir honum. En ekki er svo með klettinn sem ég bý á, norð-austan undir honum var byrjað á húsi sem má sjá merki um enn í dag.
Til að gera langa sögu stutta þá var byrjað á þessar húsbygginu fyrir áratugum og hafa örlagasögur þeirra sem hafa haft eignarhald á þessum bletti stundum verið sorglegar. Það má því kannski segja sem svo að aldrei sé rétt að byggja hús norð-austan undir kletti sem skyggir á sól yfir bjartastan daginn þó svo að morgunn sólar gæti.
Það var æskufélagi minn sem hóf húsbyggingu stórhuga og bjartsýnn. Ég man að það sótti á mig efa þegar hann sagði mér frá þessum áformum sínum, er ekki frá því að sami hrollurinn hafi hríslast niður bakið og þegar gramsað var í beinunum undir Gálgaklettinum um árið. Þó svo mér fyndust kostnaðar- og tímaáætlun byggingarinnar vera í bjartara lagi, þá fannst mér staðarvalið skuggalegt.
Æskufélaginn fékk bekkjarbróðir okkar til verksins og vann hann að því ásamt félaga sínum sumarlangt. Fljótlega kom í ljós að byggingin myndi ganga treglegar en áætlað var og ekki varð meira en húsgrunnur. Enn þann dag í dag stendur allt eins og þegar félagi minn gaf þessi áform upp á bátinn fyrir 30 árum, breytir engu þó síðan séu eigendurnir orðnir fjórir.
Fyrir um sex árum fékk ágætur kunningi minn eignarhald á þessum stað. Mér brá í brún við fréttirnar og spurði hann hvort honum væri ekki sagan kunn. Sagan var honum kunn, hann sagðist þess vegna hafa haft samband við sjáanda til að skoða staðinn áður en hann lét verða af viðskiptunum. Sjáandinn hafði setið dagstund undir klettinum og lygnd aftur augunum. Eftir þá helgistund hafði hann sagt að þessi staður væri ekki lengur bundinn álögum, ljóti kallinn sem hefði haldið þarna til í gegnum árin væri fluttur undir annan klett.
Stuttu eftir þetta samtal vakti Matthildur mín mig um miðja nótt. Í símanum var maður sem nauðsynlega þyrfti að hafa tal af mér hvað sem tímanum liði. Þetta var æskufélagi minn sem ég hafði hvorki heyrt né séð árum saman enda var hann þá búin að búa erlendis hátt á annan áratug. Honum var mikið niðri fyrir, sagðist hafa frétt af eigendaskiptum á húsbyggingunni. Hann bað mig lengstan orða að vara nýja eigandann við, því þessi blettur hefði óvægin álög. Ég róaði hann með því að láta hann vita að nýi eigandinn hefði fullvissað mig um að álögin hvíldu ekki lengur á staðnum.
Við æskufélagarnir spjölluðum lengi saman þessa nótt og fórum yfir örlagasöguna. þessi blettur hafði snert flesta sem nálægt komu. Bekkjarbróðir okkar og félagi sem séð hafði um húsbygginguna var þá horfin á vit feðranna langt um aldur fram. Eins kunni æskufélagi minn skil á flestum þeim sorgaratburðum sem hent höfðu eigendur þessarar byggingar. Hann hafði sagt söguna í útvarpsþætti þar sem hann nú bjó og hafði hún vakið mikla athygli.
Eins og ég sagði í upphafi þá fóru þessi klettur að sækja á hugann eftir að ég kom heim yfir himin og haf, enda hef ég hann fyrir augunum dag hvern. Af örlagasögum hálfbyggðra húsa hefur heldur ekki verið neinn hörgull á síðustu árin, þar skiptir ekki nokkru máli hvort kletturinn snýr út og suður eða norður og niður.
En nú er aftur svo komið að sjá má byggingakranana sveiflast yfir klettum. Við þær framkvæmdir hefur margur gamall sótrafturinn verið á flot dreginn og skýjaglópurinn á loft hafinn þó kannski sé ekki beinlínis farið þöndum seglum með himinskautum. Nýt ég nú góðs af stórhuga fólki sem er að byggja við 110 ára gistihús höfuðbýlisins á Egilsstöðum, sem hefur frá aldaöðli búið við þau álög að hýsa gesti og gangandi.
Eða eins og segir; "Á stórbýlinu Egilsstöðum, sem stendur á fjölförnustu vegamótum á Austurlandi, hefur löngum verið mikill gestagangur og segja má að engin tilviljun hafi ráðið því að komið var upp gistihúsi á þessum stað. Fyrr á öldum reyndist erfitt að hýsa þann fjölda gesta sem sótti húsráðendur heim vegna fátæktar. Fór það svo að árið 1884 taldi Eiríkur Halldórsson, ábúandi á Egilsstöðum, sig tilneyddan að hefja gjaldtöku fyrir gistingu að Egilsstöðum. Þar með hófst rekstur gistihúss á Egilsstöðum, sem hefur í raun haldist óslitinn alla tíð síðan (Gistihúsið Egilsstöðum 2004)".
Árið 1889 keyptu Jón Bergsson og Margrét Pétursdóttir jörðina Egilsstaði og er það upphafið að sögu þeirrar ættar sem þar rekur nú eitt glæsilegasta hótel á Austurlandi. Jón byggði gamla Egilsstaðahúsið árið 1904 og á þá að hafa sagt: Hér verða vegamót".
Eins get ég hugsað mér gott til glóðarinnar eftir að hótelbyggingunni lýkur, því verið er að byggja hjúkrunarheimili aldraðra rétt neðan við Lagarásinn, ásnum sem um er getið með forskeytinu gálgi á upplýsingaskiltinu við Gálgaklett.
Núna í bygginga blíðunni um daginn hitti ég svo kunningja sem á álagablett og spurði hvort allt væri með felldu? Hann svaraði; "Þetta allt í þessu fína, ljóti kallinn er farinn".
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 5.10.2019 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)