Grímsey 66°N

Grímsey

Það þarf oft ekki langan aðdraganda að góðu ferðalagi. Reyndar eru bestu ferðalögin sjaldnast plönuð þau bara verða til á leiðinni. Í síðustu viku var ég spurður hvort við hjónin vildum út í Grímsey, svarið varð að liggja fyrir 1, 2 og 3 því sá sem spurði var með tvo síma í takinu og í hinum var verið að ganga frá bókun í bát og gistingu. Auðvitað varð svarið já, og þó svo spáin væri ekki góð þá kom aldrei annað til greina en að ferðaplanið væri gott. Að vísu hafði ég lofað mér í steypuvinnu í vikunni, og samkvæmt plani veðurfræðinganna var steypudagur ekki fyrr en á fimmtudag, en það var akkúrat dagurinn sem planið var að sigla út í Grímsey. Svo klikkaði veðurspáin og steypt var s.l. á þriðjudag þannig að ég hafði ekki lofað neinu upp í ermina.

Fimmtudagsmorgunninn rann svo upp bjartur og fagur á Dalvík þvert ofan í nokkurra daga veðurspána, en það er frá Dalvík sem Grímseyjarferjan Sæfari gengur. Það tekur um 3 tíma að sigla út í Grímsey og var útsýnið af dekkinu magnað á svona björtum degi. Þegar komið er út fyrir Hrísey blasti Látraströndin við til hægri og Ólafsfjarðamúlinn til vinstri og eftir að komið er út úr Eyjafirðinum sást inn í Fjörðu á milli Skjálfanda og Eyjafjarðar, austur með landinu allt austur á Melrakkasléttu og vestur með því eins og augað eygði. Og þó svo að maður hafi ekki upplifað glampandi kveldsólareld þá var gott að sleikja morgunnsólina á Grímseyjarsundi.

IMG_9852

Á Grímseyjarsundi Ólafsfjarðarmúli og Ólafsfjörður fyrir miðri mynd

Þegar út eyju var komið þá fóru ævintýrin að gerast. Óvænt var tekið á móti okkur af Göggu eiganda gistihússins á Básum og okkur keyrt í gegnum þorpið út í iðandi kríugerið, en ef einhver man ekki hvernig kría lítur út þá ætti hann að fara til Grímseyjar og þá mun hann aldrei gleyma hvernig kría er útlits. Gagga gaf okkur ótal heilræði varðandi hvað væri áhugvert í eynni s.s. gönguleiðir út og suður, hvar Emilíuklappir væru, bauðst til að lána okkur bíl ef fæturnir væri lúnir ofl. ofl.. Eins gaf hún okkur örstutta innsýn í líf fólksins og sagði "það er gott að þið komuð á meðan þetta er ennþá eins og það er" en þeim fækkar "originölunum" sem eru í Grímsey árið um kring.

Þó svo plönuð hafi verið í Sæfara stutt hvíld þegar komið yrði á gistihúsið að Básum, varð ekkert úr því enda upplýsingar Göggu þess eðlis að betra væri að sitja ekki heima og lesa. Ég varð viðskila við samferðafólkið í þorpinu þar sem er verslun, veitingastaður, mynjagripaverslun og kaffihús, auk þess sem þennan dag voru hundruð ferðamanna á götunum úr erlendu skemmtiferðaskipi sem lá rétt utan við höfnina. Ég tók strikið austur í kríugerið og ákvað að komast á Emilíuklappir. Eftir að hafa fundið þessa náttúrusmíð neðan við stuðlabergsstapann og mátað mig á gólfið með rituna gaggandi upp á hamraveggjunum, áttaði ég mig á því að samferðafólkið myndi ekki hafa hugmynd um hvað um mig hefði orðið.

IMG_0178

Krían er áberandi í Grímsey á sumrin, sumir innfæddir segjast vera búnir að fá nóg af söngvunum hennar

Eftir svolítinn tíma birtist félagi minn á rölti eftir bakkanum, um sama leiti renndi að okkur pickup í háu grasinu og mikilúðlegur maður spurði hvaða erindi við ættum hér. Hann væri kominn í umboði eigenda landsins til að rukka okkur um skoðunargjald. Svo hló hann tröllahlátri og spurði hvort ekki mætti bjóða okkur í siglingu í kringum eyjuna, veðrið væri ekki til að spilla útsýninu af sjó, upp í björgin. Við þáðum það, en sögðumst þurfa að finna samferðafólkið og koma því með okkur í siglinguna. Eftir að hópurinn hafði sameinast göngulúinn og fótafúinn var skakklappast af stað en hvíldarpása tekinn á kirkjugarðsveggnum.

Siggi, sá sem til siglingarinnar hafði boðið, kom þá keyrandi og selflutti hópinn niður á bryggju þar sem klöngrast var um borð í Sóma hraðfiskibát. Síðan var allt gefið í botn út úr höfninni, skemmtiferðaskipið hringsiglt, og haldið ausur með Grímsey, tekin salíbuna með mannskapinn súpandi hveljur á milli skerja, gónt upp í himinhá björgin þar sem Bjarni faðir Sigga háfaði lundann, orðinn 88 ára gamall. Rollurnar ferðuðust um bjargbrúnirnar eins og þar væru engar lundaholurnar, en sá fugl raðar sér í hvert barð allt í kringum eyjuna. Þessi sigling tók öllum sólarlandaferðum fram þó svo að farið hafi verið norður yfir heimskautsbaug.

IMG_0033

Undir fuglabjörgunum

Þegar í land var komið þökkuðum við Sigga fyrir siglinguna með handabandi og kossi, eftir því hvort var viðeygandi, því ekki var við það komandi að koma á hann aurum. Á eftir var farið á veitingahúsið, sem ber það frumlega nafn Krían en ekki The Arctic Tern eins og er í móð á meginlandinu. Þar var snæddur listilega steiktur lundi, nýlega háfaður og snúinn, eftir því sem matseljan upplýsti aðspurð. Eftir matinn var skakklappast út í gistihúsið að Básum enda viðburðaríkur dagur gjörsamlega að niðurlotum kominn.

Morguninn eftir vaknaði ég fyrir allar aldir til að taka sólarhæðina í kríuskýinu. Við morgunnverðar borðið spurði Gagga hvort fótafúinn hópurinn vildi ekki bíl til að komast langleiðina norður á eyjuna að kúlunni sem markar hvar 66°N liggur. Það var þegið og þá var farin sú ferð sem flestir sem koma til Grímseyjar telja tilgang ferðarinnar, þ.e. að eiga mynd af sér á heimskautsbaug og skjal sem staðfestir komuna þangað.

IMG_9933

Horft til lands frá kirkjugarðinum

Flestum dugar þeir örfáu klukkutímar sem Sæfari stoppar í hverri ferð út í Grímsey til að skottast út að heimskautsbaug. En ekki var það svo með okkur fótafúnu vesalingana frekar en með danska parið sem var á gistihúsinu um leið og við. Þau höfðu komið í fyrra og fattað að ekki væri þess virði að leggja á sig þriggja tíma ferð til Grímseyjar fyrir heimskautsbauginn einann, jafnvel þó því fylgi skjal og selfí. Því höfðu þau komið aftur þetta sumarið til upplifa eyjuna í eina viku. Enda,,, ef þessu væri snúið við,,, hver leggur á sig þriggja tíma flug til Kaupmannhafnar fyrir selfí á Ráðhústorginu, og svo spretthlaup í næstu flugvél til baka.

Þó svo að í upphafi viku hafi ekkert ferðalag staðið til þá breyttust planið með hverjum degi þar til komið var norður fyrir 66°N. Áður en Grímsey var kvödd, eftir  örstutta heimsókn, þá fengum við enn frekar að njóta höfðinglegra móttöku heimafólks, okkur var boðið í kaffi og kökur á Grímseysku heimili, því smá tími gafst þar til Sæfari sigldi til lands. Þegar eyjan var kvödd rann í gegnum hugann hversu original gamla íslenska gestrisnin er, og hversu vel hún lifir út í Grímsey, það er engu líkara en eyjaskeggjar séu ósnortnir af ferðamannaiðnaði nútímans, gangi það eitt til að sýna áhugasömum eyjuna sína fögru með væntumþykju og stolti. 

 IMG_9881

Höfnin í Grímsey

 IMG_0165

Vitinn úti við nyrsta haf

IMG_9918

Ritubjargið og Emilíuklappir

 66°N

Á norður- og austurströnd Grímseyjar eru há björg, en suður- og vesturströndin er lægri  

IMG_0112

Áður fyrr voru 10 býli í Grímsey, hvert býli átti sitt fuglabjarg. Nú hafa verið settir staurar sem afmarka björgin því engin vissi nákvæmlega hvar mörkinn lágu, nema hinn 88 ára gamli öldungur sem enn háfar lundann í sínu bjargi 

 Lundar

Lundinn raðar sér á allar bjargbrúnir

 Krummi

Krummi krúnkaði á Básabjargi, Grímsey er hæst 105 m 

IMG_0104

Ó jú, víst komumst við norður fyrir kúlu


Bloggfærslur 5. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband