Helvíti fyrr og síðar

Það er nokkuð síðan að kirkjan hætti að prédika helvíti opinberlega barnanna vegna, en þá tók kolefniskirkjan boðskapinn upp á sína arma. Nú fara þeir með himinskautum, sem vilja að venjulegt fólk verði skattlagt fyrir að draga andann, gott ef þeir eiga ekki eftir að þjóta einhverja hringi í kringum hnöttinn með kolefnissporið strókandi aftan úr rassgatinu í viðleitni sinn í að koma á neyðarástandi til tekjuauka fyrir stjórnmálamenn og auðróna.

Þegar svona árar er ágætt að líta í gamlar heimildir, -jafnvel í þjóðsögur. Því helvíti hefur yfirleitt verið í Langtíburtukistan nema svo óheppilega vilji til að það sé á staðnum. Árni Magnússon sagði í Chorographica Islandica, að um 1640 hafi verið vegur frá Hoffelli í Hornafirði upp í Fljótsdalshérað. Hafi það verið stíf dagleið, en á hans tíma hafi jöklar lokað leiðinni. Þessi frásögn, þótt ósennileg sé, fær þó styrk í Droplaugarsona sögu. Enn í dag lokar Vatnajökull leiðinni og skriðjökull sem heitir Hoffellsjökull.

Það er til Þjóðsaga um Hornafjarðafljót, -og er hún svona:

Hornafjarðarfljót koma úr jökli þeim er kallaður er Heiðnabergsjökull. Falla þau niður miðjan Hornafjörð og eyddu þau þar bæi marga er þau hlupu fram. Segir sagan að þar hafi áður verið fögur sveit og þéttbýl. Jökullinn hljóp um nótt og var fólk allt í svefni. Fórust þar allir og engu varð bjargað, hvorki mönnum né skepnum. Sópuðu fljótin gjörsamlega öllu, bæjum og húsum og því er í var, og fylgdi þar grassvörðurinn með. Þurrkaðist þannig sveitin öll í burtu og þótti það mikil sjón og ógurleg um morguninn er menn sáu vegsummerki.

Þrem árum síðar var smali á ferð niður við ósinn á fljótinu. Hundur var með honum og nam staðar við þúfu eina á sandinum. Smalinn ætlaði að halda áfram, en rakkinn flaðraði upp um hann og hljóp ýmist að þúfunni og rótaði í henni snuddandi eða að smalamanni. Smalamaður gekk þá að þúfunni og vildi vita hvað um væri. Heyrði hann þá gelt niðri í henni. Reif hann þá til og fann þar stúlku eina og hund hjá henni. Hún hafði þar verið síðan hlaupið varð og hafði húsið sem hún var í haldið sér og sandorpið. Hafði hún fundið þar vistir margar og því hafði hún getað lifað. Smalamaður fór nú heim með fund sinn, og þótti þetta merkilegur atburður og þykir svo enn í dag.

Finnist einhverjum þjóðsagan um Hornafjarðafljót helst til ótrúleg þá má þetta finna í ferðabókum Kålund:

Sé haldið inn Nesjasveit, er komið að prestsetrinu Bjarnanesi (Njála) um mílu vegar frá fjarðarmynni, en á bakka Eystra fljóts, en margar hjáleigur allt í kring. Eystra fljótið skilur Bjarnanes frá Skógey, sem fyrr var nefnd og er nú næstum gróðurlaust sand- og hraunsker, en sagnir herma að upphaflega hafi verið þar frjósöm ey með 18 bæjum. Sýslulýsing frá síðustu öld segir að þar hafi enn sést tóftir og gamlir grjótveggir húsa. Af máldögum mætti ef til vill draga að þar hafi eitt sinn verið kapella. Sennilega hefur eyjan beðið mikinn hnekk við skyndilega breytilegt vatnsmagn Fljótanna, mikinn vöxt, stíflun óssins, jökulhlaup ofl. Sóknarlýsingar Bjarnaness segja frá jökulhlaupum eða skyndilegu og óreglulegum vexti vatnsmagnsins, sem einkennir Hornafjarðarfljótin eins og aðrar jökulár. (Íslenskir sögustaðir IV- Kristian Kålund bls 58)

Í sóknarlýsingu sr Magnúsar Bergsonar frá árinu 1839 fyrir Stöðvarsókn í Stöðvarfirði má lesa eftirfarandi um veðurfar á hans tímum:

Hafís kemur hér þráfaldlega en þykir aldrei góður gestur, stundum kemur hann seint á góu, stundum á einmánuði, um og eftir sumarmál, og stundum seinna, en því fyrr hann kemur því skemur liggur hann hér við land. Komi bráð norðvestanveður öndverðlega á vetri en liggi í norðanátt og norðaustrum þegar á hann líður, þykja líkindi til eftir því veðráttufari að hafís komi á vorinu og það reynist ogsvo oft. Meðan hafís er í reki er loft oft sífelldlega hulið gráu þykkni og hrein sólskin gefst þá mjög sjaldan; um það bil eru og stöndugir norðaustan þræsingar og ýmist norðanveður með kófi og frosti, regn kemur þá mjög sjaldan úr lofti. Af þessu leiðir að jörðin skrælist upp og gróður hindrast, ýmisleg óhollusta fylgist með honum er fyrir verkanir sínar, einkum á sauðpeningi, í hvörn að detta ýmsir sjúkdómar, aflleysi, útbrot og fleira sem almennt er kölluð hafísplága, en þegar hafís er orðin landfastur, búinn að fylla firði og víkur, þá reynist það oft að tíð stillist og mildast og jafnvel koma þá mildar rigningar og loftvarmi. (Sýslu- og sóknarlýsingar Múlasýslur bls 450)

Nú segja prédikarar kolefniskirkjunnar að vá sé fyrir dyrum um allt Langtíburtukistan það sé að breytast í hamfarahlýnunarhelvíti, nú þegar hafi hlýnað um 1,2 gráðu frá því að séra Magnús í Stöðvarfirði upplifði hafísinn þráfaldlega, en Stöðfirðingar hafa nú verið blessunarlega lausir við landsins forna fjanda frá því 1968.

Hækki hitastig í heiminum um gráðu í viðbót, samkvæmt loftslagsvísindunum, verður það svipað og á landnámsöld, það nálgast nú óðfluga það sem var á Sturlungaöld, -og ekki vill fólk það er það, þó réttast væri að hver fengi að eiga sitt helvíti án þess að þurfa að borga sérstaklega fyrir að draga andann.


mbl.is „Á hraðri leið til loftslagshelvítis“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband