Áramót og ný markmið.

 

Áramót eru tími uppgjörs og nýrra væntinga.  Í árslok 2010 voru tímamótin stærri en oft áður.  Atvinnulaus með skýjaskoðun sem eina fyrirliggjandi verkefnið fyrir árið 2011 reyndi ég að setja mér markmið.  Það fann ég í fjallræðunni Matt 6,26 ; Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? 

Um síðustu áramót fannst mér ég bara eiga bágt, atvinnulaus, heilsutæpur og allt mitt 50 ára streð virtist vera að renna út í sandinn.  Einn kunningi minn, sem séð hefur tímana tvenna og býr við heilsu sem setur honum alvöru skorður, hafði þá komið inn í myndina mér til sáluhjálpar, þegar hann bað mig að aðstoða sig við verkefni sem hann hafði tekið að sér.  Hann sagði við mig einn janúar morgunn, eftir að verkefninu var löngu lokið; "verst er að vera svo blankur að geta ekki haft eitthvað fyrir stafni".  Þetta var þegar við sátum við eldhúsgluggann heima hjá honum, drukkum kaffi og horfðum á sólina koma upp úr hafinu.  Hann býr við þann lúxus að snúa upp í sólarupprásina og sólin getur þess vegna skinið á eldhúsgluggann hans alla daga ársins. 

Í stað þess að ráðleggja honum mína iðju, sem var um þær mundir eingöngu skýjaskoðun, þá spurði ég hann að því hvort hann ætti ekki myndavél.  Jú myndavél átti hann, "af hverju tekurðu þá ekki eina mynd á dag út um eldhúsgluggann eða þann glugga þar sem þú færð þér morgunnkaffið hvern morgunn og heldur um þær bókhald" spurði ég, til að reyna að stinga upp á einhverju verkefni sem kostaði ekki fjárútlát.  Þetta fannst kunninga mínum ekki vera verkefni við sitt hæfi, enda ekki alveg svona blankur. 

En ég hugsaði um hugmyndina og ákvað svo að bæta myndatöku við skýjaskoðunina.  Komst svo fljótlega að því að svo lítið verk sem það er, að smella einni mynd á dag þar sem maður vaknar er ekkert smá verkefni.  Það var orðið mér ofviða strax í ágúst, var þá bæði búin að gleyma tveimur dögum auk þess sem bókhaldið var komið í steik.

Eins ákvað ég snemma árs að bæta við skýjaskoðunina því verkefni að mála skýin og múra af þeim myndir.  Þetta kom til áður en ég hélt til Noregs til að skoða skýin þar.  Þessara verkefna má sjá merki í myndaalbúmi ársins, sem kemur hér  í stað annáls.  Athyglisvert er að sjá eftir árið hvað ég vaknaði víða og sá margt, ekki síður en fljúgandi fuglar himinsins sem um er getið í fjallræðu frelsarans, þó svo að í upphafi árs hafi ég séð mér það eitt fært að horfa til himins eftir skýjunum rígnegldur við jörðu.

Þegar ég les yfir áramótahugleiðinguna 2010 sé ég að Noregur hefur verið kominn í hugann þó svo að engin fastmótuð hugmynd né ferli hafi verið þá komin í gang.  Noregur varð 2011 sem myndaannáll ársins staðfestir.  Eins hef ég haldið nokkurskonar dagbók ársins á ritmáli í kreppan undir efnisflokkar hérna ofarlega til hægri á síðunni.

Eins og undanfarin áramót þá á ég erfitt með að setja mér veraldleg markmið fyrir árið 2012, ætla því að halda mig við fjallræðu frelsarans Matt.6.34 "Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum.  Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.  Hverjum degi nægir sín þjáning."

Ég óska þeim sem eiga það til að líta hér inn kærleika, gæfu og gleði.  Þakka innilega fyrir öll  kommentin á árinu sem er að líða, sem hafa auk þess að gefa mér púsl í myndina af lífsgátunni miklu veitt mér sáluhjálp og styrk til að finna að ég tilheyri þeirri stóru heildarmynd.  Gleðilegt nýtt ár.

Það er vel við hæfi að láta þann mann ársins sem átt hefur mestan samhljóm með þjóðinni 2011 eiga lokaorðin í ár og fyrstu orðinn inn í nýja árið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Maggi minn skýjaglópur, þú ert perla og mér finnst frábært að vera svo heppinn að þekkja þig.
Haltu áfram að skrifa, taka myndir, skoða himininn og vera til með þín mann og landsbætandi áhrif. 
Gleðilega rest og hamingjusamt nýtt ár fyrir þig og þína vinur.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 1.1.2012 kl. 03:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband