Íslenski torfbærinn - húsagerðarlist á heimsmælikvarða

Löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, byggðu Íslendingar umhverfisvæn hús án þess að vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru en á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum eins og "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið athygli og talin eiga erindi á heimsminjaskrá.

Hinn íslenski torfbær þróaðist út frá langhúsunum, norður-evrópskri byggingarhefð, sem fylgdi landnemunum er þeir námu hér land. Eins og nafnið gefur til kynna þá er torf meginefni bygginganna. Timbur var notað í grindina og klæðningu innanhúss en torf var notað til að mynda veggi og þak. Stundum voru steinar notaðir ásamt torfinu í veggi og steinskífur voru stundum nýttar undir þakið.

Ef það er hægt að eyrnamerkja byggingalist sérstöku landi eða þjóð öðrum fremur, þá er það þegar byggt er úr byggingarefninu sem er á staðnum og með hugviti íbúanna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga orð alþýðumannsins Sveins Einarssonar torfbæjahleðslumeistara frá Hrjót; "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".

Einnig er rétt í þessu sambandi að rifja upp orð heimsmannsins Halldórs Laxness, sem einn íslendinga hefur hlotið Nóbelsverðlaun; "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."

Undanfarin fjögur ár hefur þessi rammíslenska byggingarhefð fangað huga minn á þann hátt að ég hef varla látið fara forgörðum tækifæri til að kynna sér gamla torfbæi þar sem ég hef verið á ferð. Mest sé ég þó eftir hvað ég lét framan af ævi "moldarkofa" máltækið villa mér sýn. Árið 2013 vann ég part úr sumri við að koma steinum í gamla veggi samísks moldarkofa í N.Noregi. Við þá vinnu kviknaði áhuginn á hinni íslensku arfleið. Undanfarin 4 ár hef ég heimsótt margan torbæinn og tóftarbrotið eins og hefur mátt greina hér á síðunni. Myndavélin hefur oft verið með í för og ætla ég nú að gera lítillega grein fyrir þessu áhugamáli.

 

Glaumbær - Skagafirði

IMG 3265

Gamli bærinn í Glaumbæ var friðlýstur árið 1947. Sama ár flutti síðasta fjölskyldan úr bænum. Gamli bærinn tilheyrir húsasafni þjóðminjasafnsins en Byggðasafn Skagfirðinga hefur hann til afnota fyrir sýningar. Húsin hafa staðið á bæjarhlaðinu í meira en 1000 ár eða allt frá 11. öld en talið er að bærinn hafi áður staðið í túninu austan við bæjarhólinn. Glaumbær er með veglegri torfbæjum landsins og hefur frá aldaöðli talist til höfðingjasetra. Guðrún Þorbjarnardóttir og Þorfinnur Karlsefni eignuðust Glaumbæ eftir farsaæla Vínlandsferð. Þar bjó eftir þau Snorri sonur þeirra sem er fyrsta evrópska barnið sem sögur fara af að hafi fæðst á meginlandi Ameríku. Varðveisla Glaumbæjar er ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka, en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu hans strax árið 1938. 

IMG_3271

Glaumbær er sennilega torfríkasti bær landsins, því varla er grjót að finna í Glaumbæjarlandi. Bærinn er því gott dæmi um hinar ýmsu aðferðir við að búa til byggingarefni úr torfi s.s. klömbruhnausa, sniddur og strengi sem bundu saman vegghleðslurnar.

 

Burstafell - Vopnafirði

IMG_3720

Burstafell er einn af fegurstu torfbæjum á Íslandi. Sérstaða bæjarins felst að miklu leyti í því hversu glöggt hann miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Sama ættin hefur búið á Burstarfelli í tæplega 500 ár. Bærinn telst til betri bæja enda var setur sýslumanna að Burstafelli á öldum áður.

IMG_3708

Burstafellsbærinn sýnir vel hvað strengur úr torfi í bland við grjót var algeng byggingaraðferð austanlands, en lítið um klömbruhnausa. Búið var í bænum fram á sjöunda áratug 20. aldar og tók hann breytingum samkvæmt tímanum t.d. er bárujárn undir torfþekjunni.

 

Galtarstaðir fram - Hróarstungu

IMG_3623

Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornri gerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Bærinn er með svokallaðri fjósbaðstofu. Baðstofuloftið var þá yfir fjósinu og ylurinn af kúnum nýttist til húshitunar. Bærinn er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og velur þjóðminjasafnið að kalla byggingarstíl bæjarins "svokallaða Galtarstaðagerð" má ætla að þessi húsaskipan hafi verið algeng í bæjum alþýðufólks á Austurlandi, eða á svokölluðum kotbæjum. Byggingarstíllinn var t.d. mjög svipaður á Þuríðarstöðum í Eyvindarárdal. 

IMG_3618

Galtastaðir eru í Tungunni u.þ.b. 15 min. akstur frá Egilsstöðum. Bærinn er lokaður almenningi og því ekki hægt að komast inní hann. Það væri verðugt verkefni að gera Galtastaðabæinn sýningarhæfan sérstöðu hans vegna. Áfast gamla bænum er nýrra hús sem búið var í þar til búsetu á Galtastöðum lauk fyrir nokkrum árum. Nokkur stök útihús úr torfi eru í námunda við bæinn.

 

Laufás - Eyjafirði

IMG_5146

Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni en í elsta hluta gamla bæjarins sem nú stendur er talið að séu viðir allt frá 16. og 17. öld. Bærinn kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvaður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur. Laufás hefur því talist til höfðingjasetra og algengt var að tuttugu til þrjátíu manns væru til heimilis í Laufási, því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð. 

IMG_5153

Bæjarhúsin á Laufási eru byggð úr torfi og grjóti. Þar má sjá listilega fallegt handverk s.s. klömbruveggi samanbundna með streng. Matjurtagarði haganlega fyrirkomið inn á milli húsanna og hlaðið fyrir með grjóti.

 

Sænautasel - JökuldalsheiðiIMG_1830

Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843. Búið var í bænum í heila öld. Flutt var úr bænum árið 1943. Árið 1992 lét Jökuldalshreppur endurbyggði bæjarhúsin. Þar er nú rekin ferðaþjónusta. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu „Sjálfstætt fólk”. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar. 

IMG_3884

Bærinn í Sænautaseli er lifandi dæmi um þá útsjónasemi sem þurfti til að byggja hús fjarri mannabyggðum. Þar viðhafði Sveinn Einarsson frá Hrjót orðin "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum", þegar hann endurbyggði bæinn ásamt ungdómnum á Jökuldal.

 

Lindarbakki - Borgarfirði eystra

IMG_3723

Lindarbakki er lítið torfhús, upphaflega byggður sem þurrabúð rétt fyrir aldarmótin 1900. Búið var í húsinu fram undir lok 20. aldar en nú er það sumarbústaður. Sennilega er þetta eitt mest ljósmyndaða hús á Borgarfirði.

IMG_3733

Það má segja að húsið beri íslenskri húsagerðarlist vitni á fleiri en einn hátt. Auk þess að vera úr torfi eru stafnar þess bárujárnsklæddir.

 

Skógar - undir Eyjafjöllum

IMG_4478

 

Gamli torbærinn að Skógum samanstendur af krossbyggðu fjósi frá um 1880, skemmu frá um 1830, baðstofu frá um 1850, stofu frá um 1896 og svefnherbergi frá 1838. Bærinn er hluti af byggðasafninu á Skógum. Gömlu húsin voru endurbyggð 1968 og hafa frá þeim tíma verið einn megin þáttur safnsins að Skóum. Byggðasafnið á Skógum er stórt og mikið safn. Þar er m.a. samgöngusafn þar sem má skoða gamla bíla. 

IMG_4489

Í bæjarhúsunum á Skógum sést vel hvað grjót spilar stórt hlutverk í sunnlenskum torfbæjum. Undir torfi í þökunum er steinhellum raða til að gera þau vatnsheld, sem var algengt sunnanlands á meðan hrís var oftar notað undir torf í þaki og þau þétt með kúamykju ef með þurfti þar sem veðrátta var þurrari. 

  

Hof - Öræfum

IMG_4723

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954.

IMG_4713

Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju er ekki síður athyglisverður, með öllum sínum upphleyptu leiðum þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa ofan í svörðinn.

 

Hrútshóll - undir Eyjafjöllum

IMG_4450

Manngerðir hellar eru víða á Suðurlandi, vitað er um hátt á annað hundrað manngerða hella syðra á meðan aðeins er vitað um fjóra nyrðra. Hrútshellir einn af þeim merkari, framan við hann er hlaðið fjárhús úr torfi og grjóti. Inn af því eru tveir hellar höggnir í móbergið. Stór hellir sem notaður er sem hlaða og er um 20m langur. Annar lítill gengur þvert á þann stóra og er kallaður Stúkan. Dr. Walter Ghel rannsakaði Hrútshelli árið 1936 og komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði verið heiðið hof. Ristir hafa verið krossar í hellin sem bæði geta vísað til heiðinna og kristinna tákna.

 

Færeyskt hús - Kunoy

IMG 1835

Þetta hús gekk ég fram á í Kúney snemma í sumar. Færeyingar hafa notað grjót í veggi og torf á þök húsa í gegnum tíðin. Mikinn fjöldi þesskonar húsa má finna uma allar eyjarnar, jafnvel heilu þorpin. Í mörgum þeirra er enn búið en þetta hús er sennilega notað sem sumarhús. Færeyingar hafa lagt mun meiri rækt við að varðveita byggingarsögu sína en Íslendingar.

 

Vilgesvárre - Troms

IMG_1087

Til gamans læt ég fylgja með litla kofann í Bláfjöllum N.Noregs sem varð til þess að áhuginn á torfbænum kviknaði. Þetta er Samaískur torfbær sem Samarnir kalla Gámma. Vilgesvárra var í ábúð sömu fjölskyldunnar í 90 ár samtímis heiðarbýlunum í Jökuldalsheiðinni. Búset hófst þar af sömu ástæðum og á heiðarbýlum Íslands þ.e.a.s. vegna skorts á landnæði. Vilgesvárre er nú Samískt safn.

IMG_1082

Upp í Bláfjöllum, í Vilgesvárre upplifði ég þá reynslu að gistaí torfbæ víðsfjarri mannabyggðum. Án rafmagns, rennandi vatns og allra nútímaþæginda. Vatnsbólið var í túnfætinum neðan við bæinn, eldavélin var gömul viðareldavél og moldargólf í framhelmingnum en þiljuð vistarvera þar sem var sofið og eldað.  

Það væri hægt að segja svo miklu meira um torfbæina, en suma þeirra hef ég aðeins átt kost á að skoða að utan. Þeir sem eru opnir almenningi eru yfirleitt söfn. Þeir eru oftar en ekki stút fullir af erlendum feðamönnum og þegar inn er komið er þar heil veröld annars tíma, en hér læt ég staðar numið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband