Myrkrið í ljósinu

Í dag eru jafndægur að hausti. Næsta ársfjórðunginn mun því dimma með hverjum deginum. Þó svo slökkt yrði á öðru hverju ljósi á Íslandi þá mun birtan frá þeim sem á eftir loga samt sem áður næga til þess að flestir sæju betur í myrkrinu, eftir en áður. Er það því ekki undarlegt hvernig rándýr raflýsing er notuð til að búa til myrkur?

Nú mun sjálfsag einhver hugsa sem svo að þetta sé nú meira endemis bullið, síðuhöfundur hljóti að vera eitthvað ruglaður. Að sérviska sem setur sig á móti raflýsingunni í skammdeginu sé undarleg bilun. En staðreyndin er engu að síður sú, að þegar raflýsing er orðin eins fyrirferðamikil og raun ber vitni þá getur hún orðið til að framleiða rándýrt myrkur sem kemur í veg fyrir að umhverfið sjáist. Eins og dæmin sanna. 

Undanfarin ár hef ég tamið mér að ganga eða hjóla til og frá vinnu, allan ársins hring. Þetta geri ég ekki af sérviskunni einni saman, heldur líka samkvæmt læknisráði. Eftir því sem sérfræðingar segja er þessi aðferð nauðsynleg til þess að ég fái nægjanlegt súrefni. Það á víst að vera betra að verða passlega móður og gapa út í loftið. Það sleppur víst ekki lengur, eins og á yngri árum, að draga djúpt andann um leið og maður fékk sér smók.

Á þessum eyðimerkur göngum mínum, á dimmum morgnum, hef ég oft tekið eftir því að ljósið myrkvar umhverfið, nema það sem er rétt fyrir framan tærnar. Á leiðinni er smá spotti sem áhrifa rafljósanna gætir minna. Einmitt þar sé ég best frá mér, en ekki bara svartan vegg þegar ljósinu sleppir. Mér hefur meir að segja stundum sýnst grilla í hulduverur í móunum lengra frá vegkantinum.

Reyndar var ég búin að taka eftir því áður, þegar ég var útlagi í Noregi, að raflýsingin býr til myrkur og kemur í veg fyrir að flest sjáist annað en leiðin inn í næstu sjoppu. Best tók ég eftir þessu, þegar ég af tómri heimþrá kíkti á vefmyndavélar á yr.no, við að taka veðrið á morgnana á mínum heima slóðum. Vegna tímamismunar voru veðurathuganir mínar á morgnanna í Noregi seinni hluta nætur á Íslandi, og því sá ég hvers kyns var. 

131012_1134238_1

Þessar myndir sýna vel hversu myrkvandi raflýsing getur verið á tunglskins bjartri nóttu. Báðar eru þær frá því fimm mínútur í fimm þann 28.11.2012. Það eru einungis örfáir kílómetrar á milli Fjarðarheiðar, þar sem engin raflýsing er, og flóðlýstra gatna á Seyðisfirði. Skær raflýsing hefur svipuð áhrif á sjáaldur augna og ljósop myndavéla

Álfar virðast t.d., rétt eins og sjónin, hverfa við raflýsingu. Gott ef vitið fer ekki líka sé eitthvað að marka kostnaðinn, sem upplýst var í vikunni að sjálftökuliðið við Austurvöll hafði stofnaði til, þegar það ætlaði að lýsa upp dagsbirtuna um hásumar, svo þjóðin greindi betur merkisbera fullveldisins. Á þessu ljósasjói var víst kveikt eftir að liðið hafði girt sig af úti í móum á fyrr um aftökustað þjóðarinnar. Já, þeir eru orðnir fáir staðirnir sem er lausir við ljósið og alls ekki allir sem þola dagsbirtuna.

Þetta er í eina skiptið sem ég hef vitað til að hægt væri að upplýsa álfa með rafmagni, en að það skyldi gerast þegar reynt var að yfirgnæfa dagsljósið um hábjartan dag gat náttúrulega ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug fyrirfram. Það væri vel þess virði að nýta þessi rándýru uppgötvun og halda við girðingunni utan um fullveldis álfana svo hafa megi þá til sýnis fyrir túrista þarna lengst út í móum ásamt norðurljósunum. En þá þyrfti líka að bæta stólum og kömrum við kostnaðinn.

Á dimmri nóttu s.l. vetur vorum við Matthildur mín á ferð við Streitishvarf,alveg grunlaus um hve stutt væri í þann tímamóta viðburð að dagurinn yrði raflýstur. Við eiðbýlið, Streiti, er smá kafli á þjóðveginum sem ekkert rafmagnsljós nemur. Allt í einu slökkti ég bílljósin, steindrap á bílnum og snarstoppaði. Matthildur leit andartak upp frá prjónunum og spurði hvað nú væri í gangi. Ég sagði henni að við skildum koma okkur út úr bílnum í einum grænum hvelli. Þarna stóðum við svo eins og agndofa óvitar út á miðjum þjóðveginum í froststilltri nóttinni og göptum upp í himininn án þess að hafa hugmynd um hvað til bragðs skildi taka.

Þarna virtust vera einungis við og stjörnurnar. Á himninum voru þær eins og endalaus hundruð þúsundir ljósa, sem liðu fram af fjöllunum í kring til að lýsa leiðina út í hafsauga. Og ef maður horfði ekki beint í ljós stjarnanna, heldur upp í myrkrið á milli þeirra, þá sá maður varðaðan veginn að hinum óendanlega möguleika. Þó að nærliggjandi móar, klettaborgir og fjallshlíðar sæist eins og á björtum degi væri, þá tókum við ekki eftir nokkrum lifandi álfi, svo hægt væri að leita leiðsagnar um hvort rétt væri að fagna augnablikinu.

Við biðum ekki eftir því að sjá stjórnsýsluálf þessa stjörnubjörtu nótt á Streiti, þó svo umhverfið gæfi til kynna að þar gæti þá verið að finna. Og í stað þess að sogast inní þá ljósum prýddu veröld, sem er orðin okkur venjulegu fólki svo framandi, settumst við upp í bílinn og skröngluðumst áfram þjóðveginn með bæði ljósin logandi, hlustandi Hjálminn söngla.; En gæti ég andað á ný og með augunm skæru örlitla mæðu og stundarkorn leikið mér. Og gluggi og hurð á herbergisveggjunum væru. Og 700 þúsund stólar, ég settist hjá þér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband