Sænautasel og heimsmaðurinn á heiðinni

IMG_3862

Nóbelskáldið taldi sig vera nokkuð vissan um að til væri aðeins einn íslenskur heimsborgari, maður sem talist gæti alþjóðavæddur. Það hefði margsannast að hann væri eini íslendingurinn sem allt fólk, hvar sem það væri í heiminum, myndi skilja. Þessi maður var Bjartur í Sumarhúsum, hetja sjálfs sín. Það er fátt sem hefur glatt hverúlanta samtímans meira en geta atyrt Bjart í Sumarhúsum með orðsnilli sinni við að upplýsa að í honum búi allt það verstau sem finna megi í fólki. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna sem lýsir lífsbaráttu þessa sjálfstæða kotbónda í afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar hafi verið að finna Sænautaseli.

Undanfarin sumur höfum við hjónin þvælst margann góðviðrisdaginn um Jökuldalsheiðina til að kynna okkur undur hennar. Oftast var komið við í Sænautaseli, enda rekur fyrr um vinnufélagi minn þar ferðaþjónustu ásamt konu sinni og þar er hægt að fá bestu lummur á landinu. Eftir að maður var komin á bragðið fór ferðunum fjölgand með ættingjum og vinum til að sýna þeim undur Sænautasels og gæða sér á gómsætum lummum og kakói. Sænautasel var endurbyggt 1992 og hafa þau Lilja og Hallur verið þar gestgjafar síðan þá, en auk þess er bærinn til sýnis, og er eftirsótt af erlendum ferðamönnum sem lesið hafa Sjálfstætt fólk, að setja sig inn í sögusviðið með dvöl í bænum.

IMG_3927

Tímarnir breytast og mennirnir með. Þar sem draugar áður riðu röftum í ærhúsinu er nú gestum og gangandi gefnar lummur á garðann og brynnt með kakói og kaffi innan um lopapeysur

Ástæða þessara mörgu ferða okkar var auk þess saga allra heiðarbýlanna og gætu ferðirnar þess vegna átt eftir að verða enn fleiri á næstu árum. Enda voru þessi heiðabýli 16 þegar best lét og við í mesta lagi búin að heimsækja helminginn. Til að fá sögu heiðarinnar beint í æð las ég samantekt Halldórs Stefánssonar í bókinni Austurland um heiðabyggðina, sem var í á milli 5-600 m hæð. Halldór Stefánsson segir m.a.; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri." Eins las ég Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness og Heiðarharm Gunnars Gunnarssonar auk fjölda annarra frásagna af lífinu í heiðinni. Hér á eftir fer hluti þess sem ég tel mig hafa orðið áskynja um Sjálfstætt fólk.

IMG_8593

Horft heim að rústum Fögrukinnar sem var eitt af heiðarbýlunum. Gunnar Gunnarsson rithöfundur skrifaði bækur um búsetuna á heiðinni. Ein af þeim er Heiðarharmur sem fjallar um heimsfólkið í heiðinni með annarri nálgun en Halldór í Sjálfstæðu fólki. Gunnar segir frá því hvernig búsetan á heiðinni eyddist bæ fyrir bæ m.a. vegna uppblásturs. Sagt hefur verið að Gunnar hafi komið til álita sem Nóbelshafi á sama tíma og Halldór. Það sem á að hafa staðið Gunnari aðallega fyrir þrifum var aðdáun nasismans á verkum hans. Hann er t.d. eini Íslendingurinn sem vitað er til að hafi hitt Hitler. Þó Halldór hafi opinberaði skoðanir sínar á "gúlags" kommúnisma Sovétsins, sem var þá meðal sigurvegara stríðsins, varð það ekki talið honum til hnjóðs. Eftir að ryk moldviðranna er sest gægist það upp úr rykföllnu hugskotinu, að Nasistar hafi ekki verið þeir sem töpuðu stríðinu, Það hafi fyrst og fremst verið þjóðverjar og svo sjálfstætt fólk. 

Það fer framhjá fáum sem setja sig inn í staðhætti að hin þekkta íslenska skáldasaga, sem þýdd hefur verið á fjórða tug tungumála, gerist á Jökuldalsheiðinni. Fleira en ferðlag Bjarts í Sumarhúsum á hreindýrstarfi yfir Jökulsá á heiði staðfestir tengsl sögunnar jafnt við staðhætti sem og þjóðsöguna. Í sögubyrjun má með góðum vilja sjá glitta í Hjaltastaðafjandann og þegar á líður verður ekki betur séð að Eyjaselsmóri ríði röftum á ærhúsinu í Sumarhúsum, þannig að Halldór hefur verið búin að kynna sér mögnuðustu þjóðsagnir á Héraði og flytja þær upp á Jökuldalsheiði. Þó eru sennilega fáir bókmenntafræðingar  tilbúnir til að kvitta undir það að Sjálfstætt fólk sé í reynd sannsöguleg skáldsaga sem gerist á heiði austur á landi. Þeir hafa flestir hverjir kappkostað að slíta söguna upp með rótum til að lyfta henni á æðra plani, meir að segja talið sögusvið hennar hafa allt eins orðið til í Kaliforníu. En í þessu sem og öðru, er sannleikurinn  oft lyginni líkastur um það hvar heimsborgarana er að finna.

Halldór Laxness ferðaðist um Austurland haustið 1926 og fór þá meðal annars um Jökuldalsheiðina og gisti í Sænautaseli. Halldór skrifar af þessu tilefni greinina „Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni“, sem birtist fyrst í Alþýðublaðinu í mars 1927. Þar segir m.a.; "Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum. -Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: Við fengum soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur". Einnig þótti Halldóri það kindugt að húsbóndinn hafði helst áhuga á að vita hvort góðar afréttir fyrir sauðfé væru á Ítalíu, þegar til tals kom að víðförull heimshornaflakkari var á ferð í Sænautaseli. „Ég var því miður ekki nógu menntaður til að svara þessari spurningu eins og vert hefði verið“, eru lokaorð skáldsins í greininni.

IMG_1811

Sænautasel við Sænautavatn; bærinn var byggður 1843 í honum var búið til 1943, ef frá eru talin 5 ár vegna Dyngjufjallagoss

Það eru reyndar til munnmælasögur þess efnis að Halldór hafi dvalið lengur í Sænautaseli en þessa einu skammdegisnótt og þegar saga heiðarbýlanna er skoðuð má finna marga atburði í sjálfstæðu fólki sem gerðust á öðrum heiðarkotum. Sumarið 1929 skrifaði Halldór uppkast að sögu um íslenskan bónda sem býr á afskekktri heiði. Þetta er fyrsta gerð skáldsögunnar Sjálfstætt fólk. Halldór las úr þessari frumgerð sinni fyrir vin sinn, Jóhann Jónsson, í Leipzig vorið 1931 og þóttist ætla að fleygja henni. Jóhann harðbannaði honum það og sagði að þetta væri það besta sem hann hefði skrifað. Svo merkilega vill til að bóndinn og aðalpersónan í þessari frumgerð Sjálfstæðs fólks hét einmitt Guðmundur Guðmundsson, eins og gestgjafinn í Sænautaseli sem bauð Halldóri upp á beljukjöt „Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni“.

Hvernig Nóbelskáldið lætur „Sjálfstætt fólk“ líta út samkvæmt sinni heimsmynd hefur sjálfsagt mörgum sviðið sem upp ólust í „Sumarhúsum“ Jökuldalsheiðarinnar. Skúli Guðmundsson sonur Guðmundar Guðmundssonar í Sænautaseli, af seinna hjónabandi og því ekki fæddur þegar Halldór var á ferð, hefur gert heiðinni ítarleg skil í ræðu og riti. Um mismunandi áhuga föður síns og heimshornaflakkara á búskaparháttum úti í hinum stóra heimi hefur Skúli þetta að segja.

"Það mun láta að líkum að bændur þeir sem bjuggu á Jökuldalsheiðinni, eins og bændur annars staðar á landinu, muni jafnan hafa skeggrætt um tíðarfarið og fénaðarhöldin er þeir hittust. Einnig eru til heimildir um að þeir muni jafnvel hafa leitað tíðinda varðandi þetta áhugamál sitt, ef svo bar við að til þeirra komu menn lengra að, og jafnvel frá fjarlægari löndum. Hins vegar er það öldungis óljóst hvort svoleiðis ferðagarpar hafi haft svör á reiðum höndum varðandi afkomu bænda í öðrum heimshlutum. Trúlega mun þeim hafa verið ýmislegt annað hugstæðara heldur en hvort einhverjir bændur skrimtu á kotum sínum þar eða hér. Undantekning mun þó e.t.v. hafa verið á þessu, og hugsanlega munu ýmsir hafa haft áhuga á basli þessara manna – a.m.k. ef þeir eygðu möguleika á að notfæra sér nægjusemi þeirra sjálfra sér til frægðar og framdráttar." (Múlaþing 20 árg bls. 185-186)

 IMG_4022

Afréttalönd heiðarinnar eru hvoru tveggja, hrjóstrug og grasgefin, snjóþung og köld á vetrum, en hitinn getur auðveldlega farið í 20-25°C margann sumardaginn eins og svo víða á heiðum austanlands

Hverúlantar samtímans láta oftar en ekki ljós sitt skína við að atyrða persónu Bjarts í Sumarhúsum, með speki sinni upplýsa þeir að í honum sé allt það versta að finna. Honum er lýst sem einyrkja sem þverskallast við að halda sjálfstæði, sem megi myndgera í heimsku heillar smáþjóðar, kvennaböðli sem hélt konu og börnum í ánauð. Jafnvel hefur verið svo langt gengið að ætla honum barnaníð að hætti nútímans. En þó verður ekki annað skilið af skrifum þeirra sem ólust upp á meðal sjálfstæðs fólks í Jökuldalsheiðinni, en að þar hafi æskan átt sér góðar minningar. Margir seinni tíma menntamenn hafa lagt þetta út á allt annan hátt. Meir að segja verið haldin málþing um barnaníðinginn Bjart í Sumarhúsum og finna má hjartnæmar greinar frá guðfræðingum um ofbeldisfaðirinn Bjart.

Þann 19. nóvember 2014 var fjölmenni í Stúdentakjallaranum þar sem fram fór málþing um Sjálfstætt fólk sem var jólasýning Þjóðleikhússins það árið. Þar var Bjartur í Sumarhúsum gerður að barnaníðing, sem hafði haldið konum sínum í stofufangelsi, af hverjum sérfræðingnum á fætur öðrum. En til þess að finna barnaníð Bjarts stað þurfti að vísu að draga söguna inn í hugarheim hámenntaðra greininga nútímans því hvergi er minnst á barnaníð Bjarts í sögunni sjálfri, nema þá hve samfélagið var harðneskjulegt í fátækt þess tíma sem sagan gerist. Að vísu upplýsti Illugi Jökulsson á málþinginu að hann hefði átt blaðaviðtal við Nóbelsskáldið á sínum tíma þar sem hann hefði næstum því upplýst þetta leyndarmál aðalsögupersónunnar, en hann hefði bara ekki þorað að hafa það eftir skáldinu í blaðinu á sínum tíma.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson skrifa sameiginlega jólapostillu í vefritinu Trúin og lífið þar sem þau ferðast 2000 ár aftur í tímann og bera Bjart í Sumarhúsum saman við Jósef fósturföður Jesú Krists, og finnst þar ólíku saman að jafna, þar sem þau segja að Jósef hafi flúið til Egiptalands með konu og barn undan ranglæti Heródesar en Bjartur þrjóskast við í heiðinni með fjölskyldu sína og var varla ærlegur við neinn nem tíkina sem var honum algjörlega undirgefin. Þau segja; „Sjálfstætt fólk er saga um óhlýðni við lífslögmálið, saga af hörmung þess rangláta hugarfars þegar hundsaugun eru valin umfram augu barnsins“. Ekkert fer fyrir vangaveltum, í postillu þeirra prestanna, um það hvar Jósef hélt sig á meðan fóstursonurinn hékk á krossinum. Hvað þá endalokum bókarinnar, Sjálfstætt fólk, þar sem Bjartur brýtur odd af oflæti sínu, eftir að hafa misst Sumarhús á nauðungaruppboði ásamt aleigunni, og bjargar Ástu Sóllilju, þar sem hún var komin að því að geispa golunni í heilsuspillandi greni í nábýli siðferðilegs hugarfars, til þess að byggja henni og börnum hennar líf í draumalandi þeirra á heiðinni.

IMG_3908

Í sumarhúsum heiðarinnar eru ævintýri að finna fyrir börn á öllum aldri

Björn Jóhannsson fyrrum skólastjóri á Vopnafirði gerir búsetu sinni á Jökuldalsheiðinn skil í bókinni frá Valastöðum til Veturhúsa. En í Veturhús koma Nóbelsskáldið og gætu þau einmitt verið kveikjan að Sumarhúsa nafngift sögunnar, miðað við staðhætti. Björn bjó á Veturhúsum um tíma, næsta bæ við Sænautasel, samt eftir að Halldór var þar á ferð. Björn hefur þetta að segja; „Á yfirborðinu yrði þó saga Heiðarbúana lík, en hún yrði jöfnum höndum saga andstreymis og erfiðleika, búsældar og bættra kjara. Margsinnis hafa verið lagðar fyrir mig eftirfarandi spurningar: -Var ekki voða leiðinlegt að vera í Heiðinni? Kom nokkurntíma maður til ykkar. –Þessum spurningum og öðrum slíkum hef ég svarað sannleikanum samkvæmt. En sannleikurinn var sá, að þó okkur væri ljóst að staðurinn væri ekki til frambúðar, hvorki vegna barnanna né heldur vegna einangrunar, ef veikindi bæri að höndum, held ég þó að hvorugt okkar hafi fundið til leiðinda. Hitt er svo annað mál, og kemur ekki leiðindum við, að við fórum þaðan strax og önnur betri atvinna bauðst, enda hafði ég aldrei ætlað mér að leggja kennarastarfið algerlega á hilluna.“

IMG_3968

 Rústir Heiðarsels við Ánavatn en þar var Hallveig Guðjónsdóttir fædd og uppalin. Hún bjó síðar Dratthalastöðum á Úthéraði. Hallveig segir þetta af sínum grönnum í Sænautaseli í viðtali við Gletting 1995. "Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var".

Það sem hefur komið okkur Matthildi minni mest á óvart er að í friðsæld heiðarinnar höfum við fundið miðpunkt alheimsins, okkur hefur meir að segja ekki komið til hugar að fara til sólarlanda eftir að við uppgötvuðum sumarhúsin rétt við bæjardyrnar, ekki einu sinni séð ástæðu til að fara í Þjóðleikhúsið í sjálfum höfuðstaðnum til að uppfæra okkur smávegis í  borgaralegri heimsmenningu. Enda hefur ekki þurft að fara langt til að njóta sólar og hitta auk þess afkomendur heimsmannsins, hennar hefur mátt njóta og þá hitta ókrossfesta á götum heimabæjarins.

Það hefur löngum verið einkenni íslensku hópsálarinnar að atyrða þá sem sjálfum sér eru nógir. Upp á síðkastið hefur þess sést stað í því hverjir teljast nægilega menntaðir fyrir flóknar aðstæður, jafnvel er svo langt seilst að ungt minna menntað fólk hefur ekki mátt hafa uppi einföld skilaboð um hvað til gagns megi verða fyrir þeirra jafnaldra. En í því sambandi má segja að heimsmaðurinn í Sumarhúsum hafi verið á undan sinni samtíð, og af þeirri gerð sem benti á það aldeilis ókeypis, með þögninni í kyrrð heiðarinnar, að "þú ert nóg".

IMG_3974

Að endingu selfí og pikknikk


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góðan pistil.

Skelfingar amlóði og eymdarpersóna var nú annars þessi spjátrúngur að sunnan að éta matinn frá heylitlu fólkinu, gera lítið úr honum og spinna svo andstyggðar lygasögur út úr þessari greiðasemi, sögur sem áttu að undirbyggja eina verstu og misheppnuðustu hugmyndafræði sem mannkyn hefur getið af sér. 

Amlóðanum og spjátrúngnum má segja það til einhverra bóta að hann gekk af trúnni þó áfram og æ síðan yrði honum hampað fyrir óhróðurinn í garð gestrisinna fátækra bænda. 

En þetta er víst réttur skálda að hafa endaskipti á sannleikanum og láta söguna ráða. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 23.1.2019 kl. 15:58

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni og takk fyrir innleggið. Já það er aldeilis ekki allt sem sýnist þegar sjálfstæði er annars vegar og betra að kynna sér hvað að baki liggur áður en skáldsögunni er trúað, þó mögnuð sé.

Magnús Sigurðsson, 23.1.2019 kl. 16:34

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Var Sænautaselið ekki rústir einar, ekki alls fyrir löngu? Svo var selið byggt upp af Auðunni Einarssyni. Er það ekki rétt munað?

FORNLEIFUR, 23.1.2019 kl. 18:24

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Rétt Fornleifur. Úr Sænautaseli höfðu verið hirtir allir viðir, eins og algengt var þegar torfbæirnir hættu að þjóna sínum tilgangi, og verið felldur ofaní tóftina. Auðunn Einarsson gekkst fyrir því að "heiðarbýli" á Jökuldalsheiðinni yrði endurreyst og varð Sænautasel fyrir valinu vegna þess hve vel það hafði varðveist.

Auðunn og Sveinn Einarsson,hleðslumeistari frá Hrjót, endurbyggðu svo bæinn og nutu til þessa verks aðstoðar Jökuldalshrepps.Unglingarnir á Jökuldal fengu sumarvinnu við endurbygginguna, sem fram fór 1992, um hana gerði RUV heimildamynd á sínum tíma.

Þessi mynd RUV var einstök perla þar sem Auðunn, gamli hleðslumeistarinn og ungdómurinn fóru á kostum. Þessarar endurbyggingar minntist Auðunn á í minningagrein um Svein Einarsson og sagði; Eitt kvöldið þegar við vorum tveir einir í Sænautaseli lagði Sveinn snöggt frá sér Njálu sem hann var að lesa, settist upp og sagði: "Auðun, nú hef ég öðlast trú á framtíðina, hefurðu séð hvað allt fólkið er duglegt að vinna, krakkarnir læra alla hluti um leið og þau sjá hvernig á að vinna verkið. Þetta eykur manni bjartsýni á framtíðina, að sjá það, að fólk vill vinna, slíkt fólk kemst alltaf af."

Magnús Sigurðsson, 23.1.2019 kl. 18:46

5 identicon

Fróðlegt. Svo kemur að því, hvað Halldóri gekk til með sögunni. Um það fjallar hann gamall. Ég hef unnið úr því í grein, nefnilega https://www.abcd.is/is/laxness/202-frumglaedhi-ritstarfa-i-laxnesi.html

Björn S. Stefánsson (IP-tala skráð) 23.1.2019 kl. 20:58

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Magnaður pistill, og takk fyrir að halda uppi vörnum fyrir skyldmenni mitt og áa, Bjart í Sumarhúsum. 

Þegar ég las um þetta gáfumannatal skilningsleysisins þarna í Kjallaranum, þá hristi ég svo mikið hausinn, að ég næstum rauf þáverandi bloggbindindi mitt til að skrifa varnarræðu Bjarts.

En hverjum var svo sem ekki sama, svo ég hristi bara hausinn aftur.

Núna tek ég gleði mína á ný, hvað þetta varðar.

Langar samt að segja tvennt.

Það fyrra er að Bjarni og Jóna eru úti á túni, og lítillækka bæði sig og Jósef með þessum samanburði.  En þeim til betrunar vil ég benda á þá einföldu staðreynd, að okkur verður öllum á, ef við á annað borð reynum að tjá hugsanir okkar.  Og axarsköftin fleyta þroskanum áfram, líkt og mistökin hjá afreksíþróttamanninum. 

En það seinna, og mikilvægara er að það er dálítið leiðinlegt að lesa viðbrögð nákunnugra við skáldsögu Halldórs.  Það er eins og að fólk átti sig ekki á að þetta er saga sem lýtur sínum eigin lögmálum.  Vissulega fá skáld fóður úr raunveruleikanum, en þeir eru skáld því þeir leggja út frá honum.  Minningar af heiðinni eru hinsvegar frásagnir af því sem var, og þar kappkostar fólk örugglega að fara rétt með.  En slíkar frásagnir hafa ekkert með skáldskap að gera.

Og þetta með kúna er eitt lykilatriðið í að útskýra bæði aðstæður heiðarbóndans sem og persónu Bjarts í Sumarhúsum.  Harðindi vorsins voru raunveruleiki um allt Ísland, kynslóð eftir kynslóð, og það voru ekki bara fátæklingar sem féllu.  Til dæmis missti sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu tvær dætur sínar úr hörgulsjúkdómum svo seint sem í byrjun 19. aldar.  Og þegar ég las greinina um þau harðindi, þá var bent á að það voru ekki endilega fátæklingarnir sem féllu, það var meiri seigla í þeim, enda þekktu örkotin fátt annað en hörgul á vormánuðum.

Og sá sem gat ekki heyjað nóg, hann þurfti að velja. Og það val var spurning um líf og dauða.

Og það var sauðkindin sem hélt lífi í þjóðinni, ekki nautgripir.

Þetta vissi Halldór og snilld hans fólst í að koma þessum sannindum til skila í bókinni á þann hátt að þetta er eitt eftirminnilegasta atriði hennar.

En fólk sem þekkir ekki til sögu fyrri tíma getur alveg hnotið um þetta og lagt út af þessu uppá einhvern nútíma máta, en það lýsir bara því en ekki sögunni, hvorki sögu Halldórs, eða hinni raunverulegu sögu áa okkar.

Og fólk sem lifði þessa hörðu tíma, og kannast ekki við svona frásögn, það hefur einfaldlega bara verið heppið.  Eða það skammast sín á einhvern hátt fyrir fátækt sína.  Áttar sig ekki á því að það var ekki að skrifa um það, eða raunverulegar persónur sem það þekkti.

Halldór var að skrifa sögu mannsins sem þraukaði.

Sem lifði af.

Sem skýrir að við erum til í dag.

Og saga hans er snilldarverk.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 21:17

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Björn; Þakka þér fyrir þennan tengil sem gefur innsýn í bernsku Nóbelskáldsins. Halldór drap því ævinlega á dreif hvar sögusvið bókar hans Sjálfsætt fólk hefði átt sér stað. Enda sagði hann að Bjartur væri heimsmaður, sennilega eini íslendingurinn sem heimurinn skildi. 

Ómar; þakka þér fyrir þetta innlegg. Það er vissulega þannig að sannleikurinn er sagna bestur í umbúðum skáldsögu og auðvitað hafði Laxness hugmynd um hvað heimurinn vildi heyra eftir allt sitt heimshornaflakk. Enda hans metnaðarmál frá unga aldri að verða stórskáld. Skáldsagan er vissulega snilld þó svo lygin taki sjaldnast sannleikanum fram og þetta vissi skáldið manna best. 

Jökuldalsheiðin gat ekki síður verið blómleg en sveitir láglendisins þegar fátækt fólk var annars vegar. Og einhverjir hafa orðið til að benda á það að Fjalla Eyvindur og Halla hafi átt betri daga á fjöllum sautjánhundruð og súrkál heldur en margur sýslumaðurinn á höfuðbóli. 

En það sem ég kannski vildi fyrst og fremst benda á með þessum pistli er hvað Jökuldalsheiðin er frábær staður að skoða og ekki síst í ljósi sögunnar hvort sem hún er talin raunsönn eða skáldsaga.

Eins finnst mér alltaf hæpin fræði þegar menn og málefni eru dreginn út úr sínum tíma og dæmdir með tíðaranda dagsins. Og vissulega voru það Bjartur og hans líkar sem gerðu það að verkum að hægt er að njóta Sumarhúsa heiðarinnar nú til dags án þess að skera beljur.

Magnús Sigurðsson, 23.1.2019 kl. 21:56

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ómar granni minn góður fyrr austan þú átt skilið nákvæmara svar hjá mér en þetta hér að ofan sem var rummpað niður í fljótheitum. Varðandi viðbrögð nákunnugs æskufólks af heiðinni þá er það ekki "Sjálfstætt fólk" sem ég hygg að því svíði, heldur greinin "Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni" í Alþýðublaðinu, sem Halldór fékk þar birta 1927 mörum árum fyrir Sjálfstætt fólk.

Mér kæmi ekki á óvart að Halldór hafi einhvertíma séð eftir því að hafa birt þá frásögn. En í henni er beljan nýlega dauð, konur og börn á bænum mjólkurlaus og sú gamla emjandi. Ég þurfti að fara á bókasafn til að komast yfir greinina og lét þessa stuttu tilvísun í hana nægja, en í henni má greina neistann af Bjarti.

Það eru svo aðrir sem hafa rakið Bjart í Sumarhúsum og Guðmund í Sænautaseli saman, t.d. Jóhann Jónsson vinur Halldórs í Leipzig. Það sem ég komst að með flækingi mínum á heiðinni er að staðhættir og vegalengdir passa við söguna ef maður gerir Veturhús að Sumarhúsum. Eins vegalengd í kaupstað ef farið er á Vopnafjörð eins og heiðarbúar gerðu.

Bóndinn í Sænautaseli bjó þar í mörg ár eftir að skáldsagan kom út. Endalok búskapar Bjarts í Sumarhúsum og Guðmundar í Sænautaseli voru með ólíkindum lík þó gjörólíkar ástæður lægu þeim að baki.

Bjartur ofmetnaðist og  húsaði Sumarhús upp eftir nýjustu tísku að undirlægi peningamannsins og pólítíkusins og missti jörðina í gjaldþroti. Samkvæmt mínum heimildum veðsetti Guðmundur Sænautasel vegna sjúkrahúslegu konu sinnar og missti jörðina í framhaldinu.

Það fór enginn heiðabúanna út í það húsa upp eftir nýjustu tísku, Björn Jóhannsson lýsir vel raunveruleikamati heiðarbúa í bókinni Frá Valastöðu til Veturhúsa og ég gef tilvísun í hér að ofan. Þó ótrúlegt sé þá er skáldsagan samt sem áður jafn raun sönn, og þess vegna talaði hún til heimsins.

Magnús Sigurðsson, 24.1.2019 kl. 06:34

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Magnús.

Ég vissi reyndar ekki um þessa grein hans Halldórs, en náttúrulega vissi ég að fram eftir öllu var hann óforbetranlegur hrokagikkur.

En í honum bjó skáldtaug sem tók alltaf yfir eftir að hann hafði sankað að sér efni, og fór að segja sögu.

Heimsljós, önnur ódauðleg skáldsaga sem fjallar um aumingja og vesalinga allra tíma sem geta ekki unnið ærlega vinnu því þeir eru alltaf að skapa eitthvað eða eru að kljást við listtaugina, hún byggist vissulega á dagbókum, en þær eru aðeins innblástur, skáldsagan er höfundarverk.  Og áður en lengra er haldið þá langar mig að geta að langafi minn var svona aumingi, hann var tónlistamaður sem barnaði vinnukonur hér og þar.  Sá ekki fyrir neinum en var alltaf kallaður til ef það þurfti að slá upp balli.  Um hann á tengdamóðir ömmu minnar hafa sagt, að betra hefði xxx druknað í stað yyy, því yyy var harðduglegur og féll frá ómegð.  En þeir voru saman í bát sem fórst í lendingu.

Í dag eru þessar liðleskjur hagvaxtarbroddur, í tónlist, kvikmyndalist, í allskonar sköpun. 

Vafalaust sækir Halldór í Jökuldalsheiðina sem sögusvið, en það hefði alveg eins getað verið við sjávarsíðuna eða annars þar sem fólk reyndi að skrimta við aðstæður sem voru lítt lífvænlegar á harðindatímum.

Halldór sagði sögu af manni sem lét ekki kúga sig, hvorki lífið, náttúruna eða burgeisana, mann sem var sjálfstæður en jafnframt þræll aðstæðnanna.

Og til að segja þessa sögu þurfti umhverfi og söguþráð, og hvað er þá betra en að koma ástinni að, sérstaklegri þeirri forboðnu.  Enda hef ég sjaldan lesið fallegri óð en þegar Ásta Sóllilja sagði við Bjart þegar hann hélt á henni fárveikri í fanginu, og bað hana að halda sér fast um hálsinn á honum; "Já, hvíslaði hún.  Alltaf- meðan ég lifi.  Eina blómið þitt.  Lífsblómið þitt.  Og ég skal ekki deyja nærri nærri strax.".

Meðan ég fletti þessu upp þá fór ég að hugsa betur um þessa bernskuhrokagrein Halldórs, og fékk þá loks skilning á kafla sem var dálítið á skjön við söguna, það er þegar ferðalangurinn hitti Jón uppá heiði og sagðist ekki hafa upplifað meiri fegurð, eða eitthvað svoleiðis, það eru rúm 30 ár síðan ég las bókina síðast.  Sá kafli var óður til heiðarinnar og þar sem alla tíðina var augljóst að þarna var Halldór að bregða sér inní skáldsögu sína, þá er spurning hvort þetta hafi verið hans afsökunarbeiðni,.

En heimurinn væri betri í dag ef fleiri létu svipuð orð úr munni sér eins og Bjartur gerir undir lok sögu sinnar;

"Það hefur alltaf verið mín skoðun, sagði hann, að maður eigi aldrei að gefast upp meðan maður lifir, jafnvel þó þeir hafi tekið alt af manni.  Maður á þó altaf öndina sem þöktir í vitunum á manni, eða að minsta kosti hefur maður hana að láni.".

Við eigum ekki að gefast upp fyrir andskotanum og hans pótintátum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2019 kl. 08:55

10 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð og skemmtileg grein Magnús. Þarna kemur fram hvernig elítan túlkar enn í dag íbúa þessa lands. Fólk sem flest kann ekki annað en að fara út í búð til að kaupa sér í matinn. Ég get ekki séð að þau gætu bjargað sér í neyð á hörðum vetri hvað þá ef bíll þeirra yrði rafmagnslaus. 

Valdimar Samúelsson, 25.1.2019 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband