Duldar rúnir vestursins og sá heppni

Mankynssagan gerir að því skóna að ekki hafi komist skikk á óöld miðalda fyrr en blessun kirkjunnar nær yfirhöndinni með banni almennra manndrápa á sunnudögum og með upptöku galdrabrenna í Evrópu til að eyða forneskju heiðninnar. En athygliverðara er þó það sem hin opinbera saga greinir ekki frá um þetta tímabil, s.s. vitneskjunni um stóra heimsálfu í vestri 500 árum áður en hennar er getið í heimssögunni. Eins og margir erlendir fræðimenn vita nú orðið þá var það þekkt á Íslandi og til væru skráðar heimildir um Ameríku þó ekki þyki rétt að geta þess í opinberum sögubókum að þangað hefðu siglt norrænt fólk í kjölfar annarra Evrópubúa nema þá sem hugsanlegs möguleika nú á allra síðustu árum.

Samkvæmt íslendingasögunum er Leifur heppni Eiríksson (980 – 1020) sagður hafa komið til Ameríku. Talið er að Leifur hafi fæðst um árið 980 á Íslandi, sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar og Þjóðhildar konu hans. Hann flutti ungur með foreldrum sínum til Grænlands, ásamt bræðrum sínum, Þorvaldi og Þorsteini. Í Grænlendinga sögu segir frá því að Leifur kaupir skip Bjarna Herjúfssonar sem hafði áður villst til Norður-Ameríku, en steig ekki á land.

Grænlendingasaga hefst á þessum orðum; "Herjúlfur var Bárðarson Herjúlfssonar. Hann var frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjúlfi gaf Ingólfur land á milli Vogs og Reykjaness. Herjúlfur bjó fyrst á Drepstokki. Þorgerður hét kona hans en Bjarni son þeirra og var hinn efnilegasti maður. Hann fýstist utan þegar á unga aldri. Varð honum gott bæði til fjár og mannvirðingar og var sinn vetur hvort, utan lands eða með föður sínum. Brátt átti Bjarni skip í förum. Og hinn síðasta vetur er hann var í Noregi þá brá Herjúlfur til Grænlandsferðar með Eiríki og brá búi sínu. Með Herjúlfi var á skipi suðureyskur maður, kristinn, sá er orti Hafgerðingadrápu. Þar er þetta stef í:

Mínar bið eg að munka reyni

meinalausan farar beina,

heiðis haldi hárrar foldar

hallar drottinn yfir mér stalli."

Eins og svo oft tengjast hér fornsögurnar frá Íslandi Suðureyjum Skotlands og auðvelt er að ímynda sér að hinn kristni suðureyski maður hafi verið „munkur“ með rætur frá því fyrir landnám. Jafnvel átt rætur að rekja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum þar sem klaustur Kólumkilla (St Columbe) var staðsett öldum fyrr með öllum sínum vísdómi og þá vitneskjunni um ferðir St Bernaden vestur um haf. En St Bernadan er sagður hafa farið allt norður til Svalbarða, Grænlands og vestur til Ameríku á 5.öld.

Auk þessara Suðureyja tengsla segir Eiríkssaga rauða frá því þegar Leifur Eiríksson fer frá Grænlandi til Suðureyja Skotlands á leið sinni til Noregs og dvelst þar sumarlangt. Þar kynnist hann stórættaðri konu sem hét Þórgunnur, þegar Leifur yfirgefur Suðureyjar vill Þórgunnur fara með Leifi því hún bar hans barn undir belti. Leifur tekur það ekki í mál, en sagt er að síðar hafi þessi sonur Leifs komið til Grænlands þar sem Leifur gekkst við faðerninu.

Í Noregi fær Leifur svo skoskan mann og konu að gjöf frá Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi, en Ólafur hafði dvalist á vestanverðum Bretlandseyjum áður en hann hlaut konungstign í Noregi. Konungur á að hafa beðið Leif um að kristna Grænland. Engum sögum fer af kristniboði Leifs á Grænlandi, en þetta skoska fólk fengu þeir Leifur og Eiríkur rauði síðar til að fylgja Þorfinni Karlsefni er hann fór til Vínlands og virðist það þar hafa verið kunnugt samkvæmt sögunni. Við lestur Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða virðast þau torskilin þessi keltnesku tengsl, og að sumt af þessu fólk skuli yfir höfuð vera nefnt til sögunar. Nema þá að eitthvað sem upphaflega var skrifað hafi úr sögunum glatast.

Um árið 1000 sigldi Leifur heppni, sonur Eiríks rauða í Brattahlíð, frá Grænlandi til Ameríku og kom fyrst að Hellulandi (Baffinsland). Hann sigldi því næst suður og kemur þá að hinu skógi vaxna Marklandi (Labrador). Að lokum er talið að hann hafi komið til Nýfundnalands og hafi nefnt það Vínland eftir að fundið þar vínber, þó líklegra sé að hann hafi verið sunnar ef finna átti vínber. Grænlendinga saga greinir svo frá; „Þar var svo góður landskostur, að því er þeim sýndist, að þar mundi engi fénaður fóður þurfa á vetrum. Þar komu engi frost á vetrum og lítt rénuðu þar grös. Meira var þar jafndægri en á Grænlandi eða Íslandi. Sól hafði þar eyktarstað og dagmálastað um skammdegi“. Þar var gras því grænt árið um kring. Á Vínlandi byggðu Leifur og fylgismenn hans nokkur hús til vetursetu við á sem var full af laxi.

Hermann Pálsson prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla taldi nafn Vínlands eldra en Íslands byggð og sagði að hvergi í sögunum væri minnst á það að Vínlandsfarar hefðu gert sér vín af vínberjum Vínlands. En ef Vínland drægi heiti sitt af víni fremur en vínberjum eða vínviði, yrði að leita þeirrar vitneskju utan íslenskra fornrita. Þótt af Grænlendinga sögu telji menn hiklaust að Vínland sé kennt við vínber og vínvið taldi hann þá skýringu ærið grunsamlega. Hann sagði íslendinga hafa búið yfir vitneskju um Vínland óháðar Grænlendinga- og Eiríkssögu. Þær tengdust Írlandi hinu mikla sem hefði verið skammt frá Vínlandi hinu góða.

Grænlendingasaga ber þess glögg merki að landnám norrænna manna hélt áfram vestur um höf eftir að Ísland var byggt. Þar eru þekktust nöfn Eiríks rauða sem gaf Grænlandi nafn og Leifs heppna sonar hans sem sigldi til Ameríku. Grænlendingasaga greinir nokkuð nákvæmlega frá áhuga norrænna manna á Ameríku og ferðum þeirra þangað. Góðir landkostir á Vínalandi hefur verið eitt helsta umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt sögunni. Gerðir eru nokkrir leiðangrar til Vínlands með fjölmennu föruneyti og konur þar með í för því til stendur að nýta landkosti nýja landsins með framtíðar búsetu, t.d. fara tvö systkini Leifs til Ameríku fyrst Þorvaldur sem lætur þar lífið og síðar Freydís en hennar Vínlandsferð var blóði drifin.

Grænlendingasaga segir einnig frá Guðríði Þorbjarnardóttur sem var þrígift, fyrst Þóri austmann, hennar annar eiginmaður var svo Þorsteinn Eiríksson bróðir Leifs heppna. Þorsteinn og Guðríður hyggjast fara til Vínlands en villast sumarlangt í hafi og koma loks að landi í Lýsufirði í vestaribyggð á Grænlandi og hafa þar vetursetu hjá nafna Þorsteins og konu hans. Þann vetur andast Þorsteinn og einnig húsfreyja nafna hans, sá Þorsteinn heitir Guðríði því að koma henni til vesturbyggðar í Eiríksfjörð til Leifs mágs síns.

Það er eftirtektarvert hvernig Grænlendingasaga getur þess að siðaskipti séu að komast á í Grænlandi, þegar Þorsteinn og Guðríður koma að landi í Lýsufjirði, en sagan segir svo frá kynnum þeirra nafna; "Þorsteinn heiti eg og er eg kallaður Þorsteinn svartur. En það er erindi mitt hingað að eg vil bjóða ykkur báðum hjónum til vistar til mín. "Þorsteinn kveðst vilja hafa umræði konu sinnar en hún bað hann ráða og nú játar hann þessu."Þá mun eg koma eftir ykkur á morgun með eyki því að mig skortir ekki til að veita ykkur vist en fásinni er mikið með mér að vera því að tvö erum við þar hjón því að eg er einþykkur mjög. Annan sið hefi eg og en þér hafið og ætla eg þann þó betra er þér hafið." Ekki er það síður athyglisvert hvernig Þorsteinn Eiríksson er sagður nánast rísa upp eftir andlát sitt og segja Guðríði fyrir um framtíð sína.

Þegar Guðríður er komin aftur í vesturbyggð undir verndarvæng Leifs mágs síns giftist hún í þriðja sinn og þá Þorfinni karlsefni. Þau halda svo til Vínlands ásamt miklu föruneyti og hefja þar kaupskap. Þar fæðist þeim sonurinn Snorri. Síðar fara þau aftur til Grænlands eftir að efnast á blómlegum viðskiptum við innfædda og þaðan til Noregs til að selja þar varning frá Vínlandi. Samkvæmd Grænlendinga sögu hafði ekki áður farið svo vel búið skip frá Grænlandi, enda hagnast Þorfinnur vel á farminum í Noregi. Þau halda svo frá Noregi til Íslands og kaupa Glaumbæ í Skagafirði.

Saga Guðríðar er stórmerkileg en hún lifir alla eiginmenn sína, er eftir það talin hafa farið fótgangandi til fundar við páfann í Róm og komið þaðan aftur til Íslands. Þá hafði Snorri sonur hennar reyst kirkju í Glaumbæ. Hún gerist þar einsetukona og nunna. Grænlendingasögu líkur svo; „Snorri átti son þann er Þorgeir hét. Hann var faðir Yngveldar móður Brands biskups. Dóttir Snorra Karlsefnissonar hét Hallfríður. Hún var kona Runólfs föður Þorláks biskups. Björn hét sonur Karlsefnis og Guðríðar. Hann var faðir Þórunnar móður Bjarnar biskups. Fjöldi manna er frá Karlsefni komið og er hann kynsæll maður orðinn. Og hefir Karlsefni gerst sagt allra manna atburði um farar þessar allar er nú er nokkuð orði á komið“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þetta er góð umfjöllun hjá þér Magnús. Er hægt að fara nærri um breiddargráðu með því að skoða þessi orð?

Sól hafði þar eyktarstað og dagmálastað um skammdegi.

Egilsstaðir, 26.01.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 26.1.2019 kl. 10:10

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Jónas. Já það ætti að vera hægt að fara nærri um staðsetninguna.Mig grunar að hún sé talsvert sunnar en L Anse aux Meadows þar sem hefur verið tali hingað til að Leifur heppni hafi haft vetursetu.

Árið 2016 var frétt í New York Times um nýjan fornleifafund sem vísindamenn fundu með aðstoð gervihnatta. Sá staður er 500 km sunnar en L Anse aux Meadowns á nyrsta odda Nýfundnalands.

https://www.nytimes.com/2016/04/01/science/vikings-archaeology-north-america-newfoundland.html?hp&action=click&pgtype=Homepage&clickSource=story-heading&module=second-column-region&region=top-news&WT.nav=top-news&_r=0

Magnús Sigurðsson, 26.1.2019 kl. 12:03

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

"Mankynssagan gerir að því skóna að ekki hafi komist skikk á óöld miðalda fyrr en blessun kirkjunnar nær yfirhöndinni með banni almennra manndrápa á sunnudögum og með upptöku galdrabrenna í Evrópu til að eyða forneskju heiðninnar". 

Myndum við ekki segja að Þorrablót væri heiðinn siður?

Var hann Þorri ekki heiðinn konungur?

Jón Þórhallsson, 27.1.2019 kl. 10:49

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jón og þakka þér fyrir að benda á þetta.

Það er náttúrulega eitt að gera að einhverju skóna annað uppræta gjörsamlega.

Fyrstu setningar Orkneyingasögu segja frá Þorra.

There was a king named Fornjot, he ruled over those lands which are called Finland and Kvenland; that is to the east of that bight of the sea which goes northward to meet Gandvik; that we call the Helsingbight. Fornjot had three sons; one was named Hler, whom we call Ægir, the second Logi, the third Kari; he was the father of Frost, the father of Snow the old, his son’s name was Thorri; he (Thorri) had two sons, one was named Norr and the other Gorr; his daughter’s name was Goi. Thorri was a great sacrificer, he had a sacrifice every year at midwinter; that they called Thorri’s sacrifice; from that the month took its name. One winter there were these tidings at Thorri’s sacrifice, that Goi was lost and gone, and they set out to search for her, but she was not found.

Góa er samkvæmt þessu dóttir Þorra og svo merkilegt er, ef einhver nennir að lesa lengra, þá er Noregur sagður nefndur eftir Norr syni Þorra.

http://www.sacred-texts.com/neu/ice/is3/is302.htm

Magnús Sigurðsson, 27.1.2019 kl. 12:07

5 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þá er það spurningin hvort að biskup íslands

sem æðsti maður KRISTINNAR TRÚAR  hér á landi

myndi vilja  leggja niður hina heiðnu daga Þorraþræl og Góu

ef að viðkomandi fengi öllu ráðið?

Jón Þórhallsson, 27.1.2019 kl. 12:55

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Til að fá svar við því verðurðu að spyrja biskup. Sjálfur efast ég um að íslenska kirkjan hafi nokkuð á móti dögum sem rekja má til heiðni og hafi jafnvel passað upp á að saga þeirri varðveitist í gegnum aldirnar, t.d. er talið að sumardagurinn fyrsti megi rekja allt til heiðni en sá dagur var samt lengi vel almennur messudagur í íslenskum kirkjuna eða allt þar til Danir fettu fingur út í þá messugjörð.

Þó svo að sumardagurinn fyrsti sé ekki lengur almennur messudagur á Íslandi þá vorum við hjónin ekki neinum vandræðum með að fá okkur gefin saman í kirkju né fá börnin skírð í kirkju á sumardaginn fyrsta. En þér að segja þá tel ég himin og haf vera á milli Rómar kirkjunnar sem valdastofnunnar á miðöldu og íslensku þjóðkirkjunnar á okkar tímum. 

Magnús Sigurðsson, 27.1.2019 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband