Frá Vínlandi til fundar við Vadíkanið

Guðríður Þorbjarnardóttir er án efa víðförulasta kona íslendingasagnanna. Hún yfirgaf Ísland ung að árum ásamt Þóri austmann manni sínum og siglir til Grænlands. Grænlendingasaga segir að Leifur heppni hafi bjargað hópi manna af skeri þegar hann kom úr Vínlandsferð. Þar á meðal Guðríði og Þóri, og tekið þau með heim í Bröttuhlíð austurbyggðar Grænlands, þar sem Þórir veiktist og deyr. Vegna þessarar björgunar fær Leifur Eiríksson viðurnefnið heppni. Guðríður giftist svo Þorsteini Eiríkssyni, bróður Leifs. Þorsteinn deyr úr sótt í Lýsufirði í vesturbyggð á Grænlandi, eftir sumarlanga villu þeirra hjóna í hafi og misheppnaðan leiðangur til Vínlands.

Þriðji maður Guðríðar var svo Þorfinnur karlsefni Þórðarson úr Skagafirði. Þau Guðríður sigldu til Vínlands með vel á annað hundrað manns að talið er, í þeim tilgangi að hefja þar búskap. Þau könnuðu landið og og eru talin hafa farið mun sunnar en víkingar höfðu gert áður, eða allt suður til Long Island og eyjuna Manhattan í Hudson fljóti er talið að þau hafi nefnt Hóp. Guðríður og Þorfinnur voru nokkur ár í Ameríku. Áttu blómleg viðskipti við innfædda og eignuðust þar soninn Snorra. Þau fóru þaðan aftur til Grænlands og síðan fljótlega til Noregs. Þar voru þau í einn vetur en héldu þá til Íslands og setjast að í Glaumbæ í Skagafirði.

Sonurinn Snorri bjó í Glaumbæ eftir föður sinn. Þegar Guðríður er orðin ekkja fór hún í það sem sagan kallar suðurganga „til Rómar“ þar sem hún hefur að öllu líkindum heimsótt Vatíkanið. Þegar hún kemur aftur til Íslands hafði Snorri sonur hennar byggt fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ. Grænlendinga saga segir að Guðríður hafi verið síðustu æviárin einsetukona og nunna í Glaumbæ. Afkomendur Guðríðar og Þorfinns karlsefnis hlutu mikinn frama innan kirkjunnar og út af þeim eru komnir margir biskupar íslandssögunnar.

Hvað Guðríði og valdamönnum Vatíkansins fór á milli er vandi um að spá því ekkert er um það getið í Grænlendingasögu sem sennilegast er afrit eldri heimilda og engin leið að segja hvað úr henni hefur glatast. Árið 1999 kom út bókin "Ingen grenser" (No Boundaries) eftir þá Thor Heyerdahl og Per Lilleström. Við útkomu þeirrar bókar greindi Thor Heyerdahl frá því að hann hefði undir höndum gögn sem sanni að víkingar hafi komið til Ameríku. Annars vegar gögn frá 1070, sem hann fann í skjalasafni Vatíkansins, þar sem getið er um landafundi Íslendinga í Ameríku, hálfri annarri öld áður en Grænlendingasaga og Eiríks saga rauða eiga að hafa verið skrifaðar. Hins vegar afrit af portúgölskum gögnum sem sýna fram á að Kólumbus hefði haft upplýsingar um Ameríku frá norrænum mönnum.

Í samtali við Aftenposten í tilefni útkomu bókarinnar í Noregi 1999, greinir Thor Heyerdahl einnig frá þeirri skoðun sinni, að siðaskiptunum megi að mörgu leyti kenna um hve saga norrænna manna sé snautleg. Með upptöku Lútersks siðar hafi Norðurlönd fallið í ónáð hjá páfastól og um leið verið dregið úr vægi þeirra í mannkynssögunni. Ýmsar heimildir séu þó varðveittar í skjalasafni Vatíkansins og einnig séu til mikið af arabískum heimildum um norrænar miðaldir. "Þar hef ég skoðað mikið af heimildum sem flestum er ókunnugt um" sagði hann.

Í New York Times 19. desember árið 2000 birtist grein eftir Walter Gibbs um bók þeirra Heyerdahls og Lilleström. Auk þess að gera vitneskju kaþólsku kirkjunnar skil, um tilveru Ameríku 500 árum áður en mankynssagan segir að Kólumbus hafi fyrstur Evrópumanna uppgötvað hana, þá er farið vítt yfir sviðið varðandi ferðir norrænna manna hundruðum ára fyrir Kolumbus. Meðal annars er minnst á Vínlandskortið, eins kemur greinarhöfundur inn á Kensington rúnasteininn sem fannst í Minnesota árið 1898 en á þeim steini er greint frá ferðum norrænna manna árið 1362 langt inn á meginlandi Norður Ameríku.

Niðurlag greinar Walter Gibbs er þó athyglisverðasti hluti hennar, en þar kemur hann inn á annáls brot þau sem vekja undrun Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, þau sömu og Jochum Eggertsson leggur út frá í 5. kafla ritgerðasafns síns „Brisingamen Freyju“,sem getið er um hér á síðunni af öðrum ásæðum. En í grein New York Times stendur þetta;

„The clearest suggestion that something transformative had taken place in North America came from the hand of a 17th century Icelandic bishop. Citing 14th century annals that have been lost, the bishop, Gisli Oddsson, wrote: The inhabitants of Greenland, of their own free will, abandoned the true faith and the Christian religion, having already forsaken all good ways and true virtues, and joined themselves with the folk of America“.

Orð Gísla Oddsonar er sérdeilis áhuga verð en þau má skilja eitthvað á þessa leið; „Íbúarnir á Grænlandi, af frjálsum vilja, yfirgáfu sanna kristna trú, þar með allar sannar og góða dyggðir, og sameinuðust fólkinu í Ameríku“. Nú liggur bók Gísla Oddsonar frá 1638 „ Íslensk annálsbrot og undur Íslands“ ekki á lausu og kostar um 70-80.0000 hjá söfnurum, þess vegna erfitt að sannreyna hve nákvæmlega þetta er eftir haft í New York times. En þarna virðist Gísli tala um Ameríku en ekki Vínland enda næstum 150 ár frá því Kólumbus fann hana þegar Gísli skrifar þetta. Reyndar eru til meira en getgátur í fleiri íslenskum handritum en Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða, þess efnis að fólk frá Íslandi hafi sett sig niður í Ameríku löngu fyrir annálagrúsk Gísla Oddsonar biskups.

Hermann Pálsson prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla bennti á að; "Samkvæmt Eyrbyggju var Guðleifur Þorfinnsson farmaður úr Straumfirði á siglingu frá Dyflinni til Íslands, þegar hann hrakti vestur um haf; þá bar hann að landi sem minnir mjög á Vínland; þar töluðu menn írsku og helsti leiðtogi þeirra var aldraður Íslendingur, grár fyrir hærum, sem neitaði tvívegis að segja til nafns síns, en með því að hann kvaðst vera betri vinur húsfreyjunnar á Fróðá en goðans á Helgafelli, þykjast allir vita að maðurinn hljóti að hafa verið Björn Breiðvíkingakappi. Frá hinu ókunna landi í vestri siglir Guðleifur austur um haf til Írlands, á þar vetrardvöl og heldur síðan heim til Íslands sumarið eftir; hið vestræna land er tengt Írlandi á ýmsa lund. Hrakningar Guðleifs eiga að hafa gerst skömmu fyrir 1030.

Í Landnámu segir frá Ara Mássyni á Reykhólum, sem var farmaður rétt eins og Guðleifur úr Straumfirði, Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni en ílentist í ókunnu landi eins og Björn Breiðvíkingakappi. Frásögnin af Ara er í sneggsta lagi: "Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi. Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn jarl í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður. Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.""

Hvaða fólk í Ameríku Gísli á við er auðvitað ráðgáta. Á hann við frumbyggja eða voru það norrænir landnemar Ameríku sem Grænlendingar sameinuðust? Gæti verið að það undanhald sem frelsiselskandi menn voru á þegar Ísland byggðist, hafi haldið áfram vestur yfir haf og byggð Evrópumanna hafi verið til staðar í Ameríku? Alla vega virðast orð Gísla biskups bera merki þess að hann sé hneykslaður ákvörðun kristins samfélags á Grænlandi, þegar hann rekst á þessi gömlu annálsbrot. Þarna gæti því verið skýring á hve snögglega byggð norrænna manna á Grænland hvarf og ekki er ólíklegt ef djúpt væri kafað í skjalsöfn Vatíkansins að þar mætti finna frekari vitneskju um það hvað varð um afkomendur Íslendinga á Grænlandi. Á Grænlandi hafði kaþólska kirkjan gríðarleg ítök, og hefur kostað miklu til af rústum dómkirkjunnar í Görðum að dæma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið sem er alltaf fróðlegt og skemmtilegt að lesa pistla þína Magnús.  Hafðu miklar þakkir fyrir.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.2.2019 kl. 15:57

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Magnús. Vel skrifað og skýrmerkilegt sagt og allstaðar nægar sannanir nema fyrir hina akademísku elítu. Ég hef unnið í þessu frá um 2004 með fólki í Bandaríkjum bæði í suður Dakota og Rhode Island. Ég get engan vegin en séð að Íslendingar hafi verið á báðum þessum stöðum.

Ef ég tek S Dakota og Minnesota þá er svo mikið af mannvirkjum sem benda á að þarna hafa verið byggðir Íslendinga. Það eru vörður og svo KRS rúnasteinninn það er mjög líklegt að þar sé naust við Red river og skipasteinn jæa og Borg-ir lítið vestur af Manitoba vatninu það er steinn ekki langt frá KRS með ártalinu 1119 sem er svipaður tími og Eiríkur Upsu átti að hafa verið þarna. 

Ég sjálfur tók það upp að nota landnáms formúluna sem notuð var notuð frá Bergþórs hvoli og viti menn samkvæmt henni hef ég fundið þrívörður noti ég sólstöðu áttirnar svo fyrir mig persónulega er þetta ekkert vafamál.

Félagi minn sem hefir stúderað Vinland og telur að það sé suður af Winnipeg vatni og Hóp inn í Hudson bay það er rétt norðan við James Bay austan megin í flóanum. Guðbrandur er með heimasíðu oldgreenland.com Hans svæði er er í kring um hudson bay en ég hef stúterað suður af hann svæði og hef mikið að gögnum og myndum.

Það er alveg sama hvað akademarnir segja þetta mál kemur þeim ekkert við lengur og hvernig þeir fóru með ásamt medíunni Olaf sem fann KRS steininn var  hreint og beinn terrorismi á heibriggða menn.

Gaman að hafa kommerad en eins og ég segi þá er þetta allt borðliggjandi.

kveðja.   

Valdimar Samúelsson, 1.2.2019 kl. 16:39

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir Pétur Örn og Valdimar.

Ég hafði mjög gaman að því að grúska í þessu um leið og ég las Íslendingasögur fyrir nokkrum árum og punktaði þá hjá mér flest af þessu sem ég hef sett inn að undanförnu. Margt hafði ég sett hérna á síðuna áður en kannski ekki alveg í þessu samhengi.

Svo má segja að Valdimar hafi vakið þetta grúsk af dvala þegar hann kom með athugsemd við blogg sem ég birti um fjárborgir. En þar minntist hann á Newport turninn á Rhoad Island ofl en það mannvirki hafði einmitt komið fyrir í þessu grúski um árið og ég ekki brotið almennilega til mergjar.

Svo þegar ég fór að fylgja vísbendingum Valdimars þá rifjaðist þetta upp og vísbendingarnar urðu að púsli í myndina. Og kannski endist ég til að púsla saman meira texta áður en yfir líkur, þó svo að hvorki hann né myndin verði eins og ætlast er til af "sögunni".

Magnús Sigurðsson, 1.2.2019 kl. 18:55

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Já Magnús menn læra alltaf af hvorum öðrum s.s. það sem þú kemur með það vekur upp það sem blundar í mér. Þessvegna er alltaf gott að segja frá þá koma alltaf svör fyrir báða. :-)

Valdimar Samúelsson, 1.2.2019 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband