Að þreyja þorrann við þjóðsögur

Það er óveðurský yfir Íslandi segja strákarnir í litlu bláu jakkafötunum með áttföldu lágmarkslaunin, og dúkkulýsurnar stíga dansinn með flissandi fábjána í fararbroddi. Þjóðin situr 12 árum eftir „hið svokallaða hrun“ með mest alla náhirðina og allt heila helferðaryskið við ofanflóðasjóð galtóman og allt að fara til helvítis í Straumsvík.

Hvernig verður svo framhaldið mun 4. iðnbyltingin og 5G sjá um að skaffa þeim sem hafa miklu meira en þeir þegar þurfa hærri tölur inn á Tortóla reikningana sína? Þarf þjóðin að treysta á að gagnaverin haldi áfram að hvítþvo bitcoin svo rafmagnið verði ekki flutt óunnið úr landi? Eða verður kannski hægt að finna upp sjálfvirka neytendur til að versla við allar nýju sjálfsafgreiðslu búðirnar, svona bókhaldsins vegna?

Það væri vissulega þörf á að greina þjóðmálin í svo sem einum bloggpistli. En ég nenni því bara ekki, jafnvel þó svo að lífskjarasamningurinn liggi undir skemmdum álíka snarbilaður og þjóðarsáttin var um árið, sú sem skapaði stöðuleikann, sem skapaði svo aftur 5-10 faldann launamuninn, sem nú þykir svo sjálfsagt að varðveita.

Ég nenni ekki einu sinni að blogga um ógn Vúhanveirunnar, eða yfirvofandi hamfarahlýnun í Grindavík, hvað þá Trump og hvernig má bjarga heimsbyggðinni frá glötun. Þess í stað ætla ég þreyja þorrann við að lesa þjóðsögur af gömlu gerðinni, þess á milli sem maður kemst ekki út til að steypa vegna gulra viðvaranna.

Ég komst nefnilega yfir tvö þjóðsagnasöfn fyrir slikk á nytjamarkaði Rauða krossins um daginn. Að öðru safninu hafði ég um langan tíma leiðtað, enda eru sögurnar í því margar frá klettunum hérna í kring. Einu sinni var ég svo bjartsýnn að ég hélt að ég gæti fengið það lánað á bókasafninu en þar var mér bent á að ég yrði að fara á Héraðskjalasafnið ef ég ætlaði að glugga í þeim bókum, og þar voru þær ekki lánað út úr húsi. En nú hafði einhver þurft að losa sig við ónýtan arf úr dánarbúinu og dottið í hug nytjamarkaður Rauða krossins frekar en Sorpa.

Annars höfum við félagarnir á andaktinni náð að steypa þrjár stórar steypur á þessu ári. Eina þeirra upp á gamla mátann með áhaldi sem Stefán heitin Jónsson rithöfundur og fréttamaður sagði að Djúpavogsbúar hefðu notað til að kenna ónefndum nágrönnum sínum að ganga uppréttir. En það gerðist með því einu að kenna nágrönnunum á hjólbörur.

Það vildi reyndar svo óheppilega til að hjólbörurnar gætu kostað okkur 25 ára afturför. Við steypum nefnilega vanalega með steypudælu, eða kranabíl, en urðum óvænt fljótari með því trilla steypunni á sinn stað með hjólbörunum. En nýmóðins tækjum var bara ekki við komið innandyra í þetta skiptið.

Mér varð það á orði við kolleiga minn á sjötugsaldri „sjáðu alla þessa ungu menn er þetta ekki alveg magnað,“„Nú hvað meinarðu“ sagði hann. -„Það eru ekki nema þrjú ár síðan að við vorum þrír víkingarnir, þú bakveikur og ég nýstigin upp úr hjartaáfalli, með þeim gamla árið sem hann fór á eftirlaun ásamt nokkrum miðaldra og mállausa Pólverja okkur til halds og trausts, nú er allt morandi af ungum og sprækum drengjum sem rótast í steypunni og við þurfum ekki að gera neitt" sagði ég og þurfti ekki einu sinni að verða brjálaður.

Jú kollegi minn sá það sama og ég að flest horfir til betri vegar í atvinnumálum þjóðarinnar. Tæknistörf á hjólbörur og snjallsíma er greinilega það sem koma skal. Ungu mennirnir fundu það svo út sjálfir að ef það yrði selt inn á hjólböruaksturinn á snapchat álíka dýrt og í crossfitt tíma þá væri steypuvinna ágætt viðskiptatækifæri.

Það getur vel verið að ég eigi eftir að steypa einni og einni draugasögu hér inni á síðuna áður en vorar ef maður dagar ekki endanlega uppi sem steinrunnið náttröll. Svona á meðan maður kemst ekki út úr húsi vegna gulra og appelsínugulra viðvaranna. En það er rétt svo að maður þori orðið út í óvissuna á morgnanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held svei mér þá að þú sért uppi á rangri öld.smile

Ég er oft sakaður um hið sama en það verður þá bara að hafa það.

Besatu kveðjur.

sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 13.2.2020 kl. 08:07

2 identicon

Bestu kveðjur auðvitað. Ég er með plástur á vísifingri.

sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 13.2.2020 kl. 08:10

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitið Sigurður, svona er að vera sérvitringur.

Það má kannski segja sem svo að ég sé 20. aldar maður, eða tíðarandans fram undir þjóðarsátt, þó svo þjóðsögur fyrri alda hafi alltaf heillað.

Krakkarnir spyrja mig stundum hvenær ég ætli að fá mér snjallsíma, en eru alveg hætt að spá í hvað varð af sjónvarpinu sem hvarf af heimilinu nokkru eftir að þau fóru að heiman. En þá var reyndar búið að vera slökkt á því í mörg ár. Þau vorkenna að vísu móður sinni fyrir að sitja uppi með sjónvarpslausan sérvitringinn.

Svo dæmi séu tekin þá er það svo sérkennilegt að maður virðist vita meira en þarf að vita án allra tækniframfara og komast allra sinna ferða á bíl frá því á síðustu öld, sem var nú kannski bæði bíla öldin og öld sjónvarpsins, sem ég gat reyndar aldrei sætt mig við.

Var það ekki rétt fyrir þjóðarsáttina sem fólk hætti að hafa frið einn dag í viku fyrir imbakassanum, - ef ég man rétt á fimmtudögum? Afleiðingarnar blasa við í dag.

Bestu kveðjur, þó svo með þumalfingrum séu ;)

Magnús Sigurðsson, 13.2.2020 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband