22.5.2020 | 23:47
Skerpla
Það hefur ekki þurft að skeyta skapi sínu á fíflum þetta vorið, þeir hafa varla sést hér í efra. Aðeins hef ég heyrt á fólki að því sé farið er að lengja eftir að lúpínan fái sinn blómstrandi bláma svo hægt sé að ganga á milli bols og höfuðs á henni, svo ekki sé nú talað um blessaðan njólann.
Það er um margt sérkennilegt hvaða jurtir við teljum til illgresis, flestar voru þær áður fyrr þekktar matjurtir með lækningamátt, sem hafa það enn í dag fram yfir læknanna ólyfjan að vera lausar við aukaverkanir og kosta þar að auki ekki krónu. Þessar fyrrum nytjajurtir eru yfirleitt þær fyrstu sem gefa sumrinu lit, annan en þennan grámyglulega sem einkenna skorpin hrjóstrin og andlit inniverunnar.
Einu sinni heimsótti ég kunningja snemma á vormorgni og kom að honum með furðulegt spjótverkfæri út í garði þar sem hann stakk því krossbölvandi ofan sinugulan svörðinn. Þegar ég spurði hvaða verkfæri þetta væri og hvað tilgangi það þjónaði, þá sagði hann mér að þetta væri fíflabani. Hvorki dygði að eitra né slá þessi helvíti þeir spryttu upp helmingi fleiri morgunninn eftir.
Ég stillti mig um að segja honum að mér þættu fíflar fallegir og minntist ekki á hvað þeir hefðu langar rætur, sem gögnuðust grasinu þegar þær drægju upp rakann djúpt úr jörðu á þurru vori, að auki væri mun minni mosi þar sem væru fíflar. Síðan hef ég komist að mörgu fleiru varðandi fíflana, m.a. lækningarmætti þeirra á mannfólkið.
Nú er Skerpla gengin í garð, sem var annar mánuður sumars samkvæmt gamla tímatalinu, og tekur við af Hörpu. Skerpla hefst ævinlega á laugardegi í 5. viku sumars á milli 19. og 25. maí. Nafnið er ekki mjög gamalt, kemur fyrst fram á 17. öld, en í eldri rímtölum og Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er mánuðurinn nefndur eggtíð og stekktíð.
Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er greint frá heitum stundanna og segir þar um skiptingu ársins;
Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eyktarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir hinn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr, þá er frermánuðr, þá er hrútmánuðr, þá er þorri, þá gói, þá einmánuðr, þá gaukmánuðr ok sáðtíð, þá eggtíð ok stekktíð, þá er sólmánuðr ok selmánuðr, þá eru heyannir, þá er kornskurðarmánuðr.
Gjarnan er vísað í þá séra Odd Oddsson á Reynivöllum og séra Þórð Sveinsson um að hafa nefnt annan mánuð í sumri Skerplu, en þeir voru báðir uppi á 17. öld. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er heimild tekin upp úr riti Páls lögmanns Vídalín, Skýringar yfir fornyrði lögbókar. Þar nefnir hann einmitt séra Odd sem heimild. Í greininni Misseristalið og skipting þess eftir Þorkel Þorkelsson (Skírnir 1928:141) eru þessir prestar báðir nefndir sem heimildir um nafnið. (dæmin eru tekin úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans):
Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:841) telur að Skerpla sé vísast skylt lýsingarorðinu skarpur "beittur, hvass, harður, skorpinn ..." og nafnorðinu skerpa sem skylt er nýnorska orðinu skjerpe hrjóstur, jarðþurrkur, færeyska orðinu skerpa vindþurrkað kjöt og orðinu skärpa þurrt, ófrjótt land í sænskum mállýskum. Skerpla vísar þá líklegast til lítils gróðurs að vori".
Skerpla er sáðtími þegar seint vorar, um miðjan mánuð eru fardagar. Um það leyti má grafa villirætur til matar. Því síðar þegar gras fer að vaxa úr þeim eru þær lakari. Skerpla er tími til að byggja hús, vinna garða, hreinsa tún og engjar, hylja með mold flög og skriður eða færa þær burt, vinna í skógi, safna berki og litunargrösum. Þegar hnaus veltur nú á klaka er hann bestur í veggi því þá er jörðin enn laus og ófrjó.
Nú er sumar í Köldukinn,
kveð ég á millum vita.
Fyrr má nú vera, faðir minn,
en flugurnar springi af hita!
Eins og þjóðskáldið kemur inn á má nú fyrr vera en flugurnar springi úr hita, en samt mættu flugurnar fara að sjást í öðrum mánuði sumars, svona allavega fyrir máríerluna, kríuna og hrossgaukinn. Fuglar hafa verið á fullri gjöf hjá henni Matthildi minni fram undir þetta og er fugla lífið fjölskrúðugt, skógarþrestir, máríerlur, auðnutittlingar, starrar og stöku þúfutittlingar, að ógleymdum fjandans hettumáfnum. Lóurnar voru á lóðinni fram að síðustu helgi enda harðindi til heiða.
Undanfarin ár hef ég verið að fikta við illgresi á vorin, af því að ég nenni ekki að setja niður kartöflur. Hef ég komist að því að margt af því má éta sér til heilsubótar t.d. var njóli áður fyrr kallaður fardagakál vegna þess að hann var fyrsta grænmeti ársins og var nýsprottinn um fardaga. Ætihvönn er ofurplanta sem sprettur snemma vors og þótti mikilsverð markaðsvara á víkingaöld, hreinn fjársjóður þegar þurfti að ná upp orku eftir erfiðan vetur.
Áhugi fyrir fuglum og illgresi er ágætur mælikvarði á vorið, þ.e. hversu snemma það er á ferðinni og hversu gróðursælt það er. Síðustu ár hefur það verið u.þ.b. 2 vikum fyrr á ferðinni enn nú hér á Héraði, samkvæmt þeim mælikvarða. Samt hefur ekki verið ótíð, heldur hefur hitinn verið fyrir neðan meðallag með næturfrostum og kulda til fjalla.
Annars er merkilegt eftir að ég tók upp þá sérvisku að prufa mig áfram með "illgresi" íslenskrar náttúru að þá er hún er orðin að hversdagsfæði fæði í einhverri mynd, hafragrauturinn með fjallagrösum og bláberjum á morgnanna. Rabbabaragrautur allt árið. Enda rabbabarinn orðin því sem næst villtur eins og njólinn, og geymist þar að auki vel í frosti eins og bláberin. Og sjálfur er ég orðinn eins og álfur út úr hól af útiveru með furðufuglum.
Heimildir:
www.vísindavefurinn.is
www.nattura.is
Athugasemdir
Góðan dag.
Ég velti því fyrir mér til hvaða Kaldakinnar er vísað. (Mér var skipað af heimamönnum að tala um Kaldakinn).Ekki er það sú sem ég þekki í Ljósavatnshreppi hinum forna. Aftur á móti hefst við hjá mér Máríuerla í grjótgarði og fitnar vel af ósprungnum flugum og öðru góðgæti. Þar er líka nóg af njóla og fíflum og lúpínubreiðum þannig að svæðið er ótæmandi matarkista. Sjálfur er ég frekar linur í að leggja mér þessar jurtir til munns en um hollustugildi þeirra efast ég ekki. Sútunarsýrurnar barka mann allan að innan þannig að þú verður allt að því ódauðlegur.
Kveðja.
sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 23.5.2020 kl. 07:50
Sæll Sigurður, gott að heyra að máríerlan hefur úr ósprungnum flugum að moða. Í mínum huga er aðeins ein Kaldakinn og er það sjálfsagt sú sama og þín hjartfólgna. Ljóðið er sagt eftir Jónas Hallgrímsson þann eina og sanna úr Öxnadalnum.
Ég efast ekki um að Kinnin sé ótæmandi matarkista. Eins man ég að Dagbjört amma mín á Laugarfelli í Reykjadal tók alltaf "veðrið" fyrir morgunndaginn með því að líta út um eldhúsgluggann yfir uppvaskinu á kvöldin og var mikið meira mark á takandi hvernig henni leist á Kinnarfjöllin en veðurspá ríkisútvarpsins.
Ef þú hefur gaman að því að matbúa fleira en sútunarsýrur þá ættirðu að prófa matarkistuna í túnfætinum. Það kom mér allavega verulega á óvart hve kraftmiklar jurtir má finna í þessari kistu snemma að vorlagi, og ekki síður hversu gómsætt má matbúa það með nútíma tækni.
Njólasúpa mánaðarins, ásamt fífla, njóla og hundasúrusalti
Hérna er uppskriftin af njólasúpu fyrir þá sem enst hafa til að lesa þetta langt og eru ekki farnir að kúgast en langar kannski til að prófa sig áfram. Þessi súpa er skálduð upp úr tveimur njólasúpu uppskriftum sem ég fann á netinu og hitti í mark við fyrstu tilraun.
2 ltr vatn
300 gr njóli, saxaður
3 grænmetissúpu teningar
½ paprika skorin í bita
4-6 hvítlauksrif söxuð smátt
2 laukar niður skornir
100 gr smjör (hægt að nota jurtaolíu og er þá vegan)
4 msk spelt eða hveiti (til að þykkja súpuna)
400 gr saxaðir tómatar (niðursoðnir)
Njólinn , súputeningarnir og paprikkan sett í sjóðandi vatn. Hvítlauksrifin og laukurinn bræddur í litlum potti upp úr smjöri (á sama hátt og laukfeiti með mat) speltinu bætt út í þegar laukurinn er orðin mjúkur og bökuð upp bolla. Smjörbollunni bætt út í sjóðandi súpupottinn og hrært vel út, tómötunum bætt við og soðið í 1 klst. Saltað eftir smekk með Himilaia salti og svörtum pipar.
Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 08:19
Ég tek þig á orðinu en til öryggis steiki ég nokkrar rammíslenskar pólskar pylsur og sýð Lómatjarnarkartöflur með súpunni. Þá verður þetta eins og naglasúpan forðum.
sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 23.5.2020 kl. 08:40
Þetta líst mér vel á, svoleiðis súpa getur hreinlega ekki klikkað.
Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 08:51
Þakka umfjöllunina, Guð var engin asni. Það sem við þurfum til að lifa, er oft í seilingar fjarlægð.
Og svo að leita og þá finnst lausnin.
Egilsstaðir, 23.05.2020 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 23.5.2020 kl. 19:36
Satt segirðu Jónas, og til þess fengum við m.a. naglasúpu og njóla.
Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.