Steypa í minningu íslensku sauðkindarinnar

Nú þegar lífstílsliðið hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska sauðkindin sé fulltrúi feðraveldisins, ásamt Bjarti heitnum í Sumarhúsum, og þar að auki völd af flestum banaslysum í umferðinni, eftir að hafa verið staðin að því að naga gat á jarðskorpuna á síðustu öld, á hún sér varla viðreisnar von. Ofan á þetta hafa stjórnvöld lagt óværunni fé til höfuðs að ráði spretthlauparans Móra með einstakri hækkun eingreiðslu, þannig að búast má við að henni hafi verið slátrað sem aldrei fyrr þetta haustið.

Málpípur bænda prísa sig sælar enda komnar á jötuna án þess að þurfa að yfirgefa Garðabæinn, Hótel Saga undir græna torfu og Bændahöllin á vonarvöl. Stærðu sig af því á miðju sumri að kindakjötsfjallið væri á hverfandi hveli í fyrsta skipti um aldir. Túristavaðallinn hafði étið það upp til agna á meðan landinn taldi tærnar á Tene. Hvernig á að fylla á fjallið er hulin ráðgáta öðrum en þeim sem vinna að hagvöxnu matvælaöryggi með innflutningi.

Mér varð það á fyrir skemmstu í óþökk við land og lífstílslýð, að reisa við afvelta rollu. En þannig var að við Matthildur mín vorum á sunnudagsbíltúr um fyrr um búsældarlega sveit, hún með lopann á tifandandi prjónunum og ég við stýrið gónandi út í móa, þar sem við blasti hópur af álftum og kindum. Ég reyndi að telja álftirnar en fannst fjórar þeirra hafa undarlegan háls og höfuðlag.

Mér var þetta hugleikið næstu kílómetrana en mundi þá allt í einu eftir að hafa séð svona furðufugla áður innan um hrafna. Það var kaldan hríðar morgunn að vorlagi um sauðburð þegar hretin koma sér hvað verst. Þá var ég snáði í sveit hjá nafna mínum á Úlfsstöðum og man ég hvað hann varð reyður þegar við komum að þessum furðufugla söfnuði, enda hrafnarnir búnir draga garnir úr rollu langt út á tún, ekki að henni ásjáandi vegna þess að augun voru þá þegar úr.

Þegar við komum inn í hádegismat til Siggu þá var það helst í fréttum að þrír menn hefðu látið lífið á Fjarðarheiði eftir að bíll þeirra festist í skafli og fennti fyrir púst, -í þessu maíhreti árið 1971. Allt þetta rann í gegnu hugann við stýrið þar til að ég stoppaði bílinn svo snarlega að Matthildur mín leit upp frá prjónunum og sagði; -hvað nú? Ég sagði henni að ég yrði að snúa við ég hefði séð furðufugla úti í mýri.

Við keyrðum til baka bæði rýnandi í móann án þess að sjá álftir eða kindur, hvað þá furðufugla. Allt í einu sagði ég, -þarna voru þeir. Þar gægðust horn upp úr grasi á liggjandi gimbur, -og allt í einu teygðu furðufuglarnir fjórir upp hálsana á bak við gimbrina. Álftirnar og hinar kindurnar höfðu fært sig um set. Ég stoppaði og óð yfir mýrarfen, gimbrin spratt strax upp, hljóp í átt til hinna kindanna og nam svo staðar. Þá kom í ljós rolla sem lá ósjálfbjarga í tvennum reifum á bakinu milli þúfna spilandi upp fótunum.

Ég sagði rollunni að vera alveg rólegri því ég ætlaði að reyna að hjálpa henni. Síðan reisti ég hana við, hún skjögraði smá og féll svo aftur í sömu skorður. Aftur reisti ég hana við og studdi í smá stund þar til hún skjögraði upp á barðið til gimbrarinnar. Matthildur mín stóð við veginn og kallaði; -Maggi sjáðu hvað þær horfa fallega á eftir þér, -á meðan ég öslaði til hennar eins og álfur út úr hól í gegnum mýrarsefið í gráu lopapeysunni sem hún prjónaði á mig s.l. vetur.

Það verður að segjast alveg eins og er að mér leið mun betur þegar við keyrðum áfram heim við prjónaglamur í síðdegissólinni, en áður en ég snéri við, -eftir að hafa greint furðufuglana fjóra. Jafnvel þó svo þetta hafi allt verið til einskis og þær mæðgur séu sennilega báðar komnar í Sumarlandið og telji nú tærnar á Hótel Sögu.

 

IMG_1533

Þó ég gæfi upp öndina, ófær um andardrátt framar andlit mitt gapandi í loftið sem ekkert er

 

IMG_1542

Hjarta mitt brostið og greindin beinhvítur hamar þá barn, í huganum væri ég ávallt hjá þér

 

 Gilsárvellir

Ef veröldin snerist á hæli og léti sig hverfa hánefjuð hefði sig burt með hurðir og gler

 

IMG_4908 (1)

Þá veggirnir grétu og gólfið, það myndi sverfa burtgengin spor sem enginn lengur sér

 

IMG_5517

 Ef lægi mitt lík í miðið og mælti eigi svo mátulegt væru slík örlög, hygði einhver

 

IMG_4884 (1)

 Því aldrei eins vitlaus og volaður hefði neinn tregi velkst í brjósti sem banaði sjálfu sér

 

IMG_5513

 En gæti ég andað á ný og með augunum skæru örlitla mæðu og stundarkorn leikið mér

 

IMG_4800

 Og gluggi og hurð á herbergisveggjunum væru og 700 þúsund stólar, ég settist hjá þér

 

IMG_1531 (2)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bestu þakkir, meistari Magnús.

Þegar maður les svona snilldarpistil, þá verður manni annars orða vant, mann setur hljóðan.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.11.2022 kl. 09:17

2 Smámynd: Hörður Þór Karlsson

Alúðarheilsan Magnús.

Svona "steypa" myglar sko aldrei, sem er talsvert ólíkt og með flestum opinberum húsakostum á Fróni í dag, a.m.k. af fréttum að dæma.

Takk enn og aftur fyrir að deila hugrenningum þínum svona út í eterinn. Mig hlakkar til flesta daga þegar ég kemst á moggabloggið og hefi tök á að næra andann yfir pistlunum frá þér.

Kveðja sunnan úr álfum

Hörður Þór Karlsson, 3.11.2022 kl. 11:57

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir lesturinn og athugasemdirnar Pétur og Hörður. Upplífgandi að heyra að þið höfðuð gaman að, þó svo að hér sé um háalvarleg mál að ræða. 

Magnús Sigurðsson, 3.11.2022 kl. 14:29

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Takk fyrir mig, meistari Magnus. Thad er kjarngott andlegt fodur ad lesa hugrenningar thinar og ppistla.

Kvedja ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 3.11.2022 kl. 16:09

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér Halldór, -lesturinn og athugasemdina. Ég sá á bloggi hjá Viðari Garðarssyni markaðsstjóra að það væri ekki sjálfgefið að ekki færi eins með þorskinn og suðkindina á Íslandi, ef menn héldu ekki vöku sinni.

Persónulega held ég að það sem Guðbergur Bergsson sagði eitt sinn, eigi bæði við suðkindina og þorskinn. Að það hefði ekki verið vandamál bóndans og sjómannsins að lifa góðu lífi við hvort tveggja, vandamálið væri latínuliðið. 

Verstu skammaryrði á Íslandi hefðu í gegnum tíðina verið að kenna mann við sauð eða þorsk. Hann vildi jafnframt meina, ef ég man rétt, að asninn væri mun hærra skrifaður í latínufræðunum en litla gula hænan..

Magnús Sigurðsson, 4.11.2022 kl. 06:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband