Snjófríður

Er ekki algengt nafn í dag, en kemur samt fyrir í yfir 60 skipti á Íslendingabók. Tvisvar finn ég nafnið í mínu langmæðratali. Árið 1961 fluttu foreldrar Matthildar minnar börn og bú á bát yfir Berufjörð, frá Núpshjáleigu á Berufjarðaströnd suður á Djúpavog í Búlandsnesinu. Þegar ég hef heyrt þessum flutningi lýst er það líkt og ævintýri úr örðum heimi. Matthildur fæddist svo um ári seinna í Sólhól á Djúpavogi.

Dóttir okkar heitir Snjófríður, og Kristín að millinafni, eftir ömmum sínum. Hún er sú eina sem ber nafnið Snjófríður nú á Íslandi, eftir því sem ég best veit, og sennilega í heiminum. Snjófríður Hjálmarsdóttir amma hennar var móðir Matthildar minnar, henni kynntist ég aldrei því hún var fallin frá áður en til kynna okkar Matthildar kom. En Jóni Antoníussyni pabba Matthildar kynntist ég vel, enda héldum við Matthildur heimili með honum fyrstu búskaparár okkar og urðum við Jón góðir vinir.

Í bók Eiríks Sigurðssonar, Af Sjónarhrauni er þáttur um Fossárdal og fyrr um íbúa hans. Þar er athygliverð frásögn af ungum hjónum ásamt dóttur, sem fluttust að Eyjólfsstöðum á Fossárdal við Berufjörð árið 1826, úr Breiðdal. Þetta voru þau Gunnlaugur Erlendsson og Sigríður Þorsteinsdóttir, dóttirin Ljósbjörg. Þau voru þá 24 ára og dóttir þeirra 6 ára.

Á meðan þau áttu heima á Fossárdal kynnist Gunnlaugur jafnöldru þeirra hjóna, Snjófríði Árnadóttir fæddri í Núpshjáleigu 1802. Árið 1829 skildi Gunnlaugur við Sigríði konu sína og þau sóttu síðan sameiginlega um skilnað til amtmanns. Gunnlaugur byrjaði búskap árið 1830 á Eiríksstöðum í Fossárdal og Snjófríður varð ráðskona hans, þetta sama ár eignaðist Snjófríður dóttir. Gunnlaugur er ekki skráður faðir dóttur Snjófríðar í kirkjubókum heldur Erlendur bróðir Gunnlaugs, sem var vinnumaður á næsta bæ, Eyjólfsstöðum í Fossárdal.

Snjófríður eignaðist tvö börn í viðbót, sem bústýra hjá Gunnlaugi, og eru hvorugt þeirra skráð Gunnlaugsbörn í kirkjubókum, en byrjað hefur verið á að skrá Gunnlaug í öðru tilfellinu, en síðan strikað yfir nafn hans. Árið 1842 fá Gunnlaugur og Sigríður kona hans loks samþykktan skilnað hjá amtmanni, -eftir 12 ár. Þá giftust þau Gunnlaugur og Snjófríður og eignuðust saman tvær dætur. Óskiljanlegt er hvers vegna svo langan tíma tók fyrir þau Gunnlaug og Sigríði að fá skilnað, en gögn eru sögð sína að þau hafi verið sammála í því efni.

Kannski hafa börn Snjófríðar verið rangt feðruð í kirkjubókum vegna þess að Gunnlaugur og Sigríður voru enn gift samkvæmt lögum og stutt síðan að lög stóradóms ullu fólki í þeirri stöðu stórfelldum vandkvæðum. Fyrsta dóttir Snjófríðar hét Ingibjörg, skráð Erlendsdóttir. Út af Ingibjörgu er móðurfólk Matthildar komið og til Snjófríðar móður hennar má sennilega rekja Snjófríðar nafn dóttur minnar og reyndar enn aftar því amma Snjófríðar hét einnig Snjófríður og var líka Árnadóttir og bjó í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd.

Á Íslendingabók er það svo að Ingibjörg er skráð Erlendsdóttir. Í kvenlegg dóttur minnar á Íslendingabók hefur annað hvert nafn verið Snjófríður, svo langt sem hægt er að rekja, eða allt aftur til ársins 1741, ef með er talið nafnið Snjólaug, sem var dóttir Ingibjargar Erlendsdóttur, dóttir Snjófríðar. Má ætla að Ingibjörg hafa látið Snjólaugu heita eftir foreldrum sínum báðum. Búskapar annáll þeirra Snjófríðar og Gunnlaugs er langur og nákvæmur í bók Eiríks Sigurðssonar og sagt á greinagóðan hátt frá fólkinu á Fossárdal og hvet varð lífshlaup þeirra Sigríðar og Ljósbjargar, fyrri konu og dóttur Gunnlaugs.

Nýlega átti ég samtal við hana Ævi 5 ára dóttur dóttur okkar, um að nafnið hennar væri einstakt á Íslandi og það sama ætti við um mömmu hennar. Hvort hún myndi þá ekki láta dóttur sína heita Snjófríður: Nei; -sagði Ævi; -hún á að heita Sóví. - En þú verður nú eiginlega að láta hana heita Snjófríður; -maldaði ég í móinn; -og getur þá kallað hana Sóví. - NEI, -sagði Ævi hækkandi rómi alveg harðákveðin; -hún á víst að heita Sóví.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Amma mín hét Lundfríður Guðrún, en hún gekkst bara við síðara nefninu, og aðeins fjölskyldan þekkti hið fyrra. Ég spurði stundum ömmu hvers vegna, því mér finnst Lundfríður fallegt nafn, en amma svaraði með munnsvip sem gaf til kynna að maður ætti ekki að spyrja um hluti sem kæmu manni ekki við.

Guðjón E. Hreinberg, 27.11.2022 kl. 13:24

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Lundfríður finnst mér vera fallegt nafn, en sjaldgæft hlýtur það að vera. Merkingin er líka einstaklega falleg. Eins er Guðrún mikið og fallegt nafn. Kannski hefði ömmu þinni líkað betur við Linda sem fyrsta nafn og kannski notað það þá frekar en Guðrún.

Sjálfum hefur mér alltaf fundist Snjófríður fallegt nafn og einnig í útgáfunum Snjáfríður eða Snæfríður sem virðast vinsælli. Mér sýnist vera tvær Snjáfríðar á Íslandi í dag og fjöldin allur af Snæfríðum.

Magnús Sigurðsson, 27.11.2022 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband