Hrúturinn Hreinn

Nú er fokið í flest skjól hjá þeim sem lét flatskjáinn fjúka fram af svölunum eins og hvern annan frisbee disk um árið. Það er kominn annar mun stærri, sem bleikur fíll í miðja stofuna. Þessi ósköp verður afi gamli að þola þó svo að engin viti betur en hann að sjónvarpið er verkfæri djöfulsins. Hún Ævi hefur verið heimagangur undanfarið og pabbi hennar kom með sjáinn til að stytta henni stundirnar í útlegðinni að heiman.

Ævi segist vera prinsessa og ég gæti vel trúað að það sé rétt hjá henni, svona miðað við stjórnsemina og útganginn. Undir þessa vissu hennar ýta svo þættir sem hún horfir á í sjónvarpinu. Þriggja ára blessunin veit ekki að svona er boðskap sónvarpsins lætt inn í saklausa barnssálina. Síðar þegar árin hafa líka læðst yfir verður boðskapurinn að hreinni drepasótt, og ekki aftur snúið nema með því einu að slökkva bæði á sjónvarpinu og símanum.

Því segi ég að fokið sé í flest skjól að ég freistaðist til að horfa á verkfærið með Ævi um daginn. En hún á það til að læðast fram og læsa mömmu sína frammi, og jafnvel ömmu líka um leið og hún segir; -afi mig langar að horfa á youtube. En þá byrja ég alltaf á því að sega hátt og snjallt; -mamma þín vill ekki að þú horfir á youtube því það geta komið svo ljótar myndir í auglýsingunum á youtube í prinsessu þáttunum.

Svo var það um daginn að ég lét mig hafa það að horfa á hrútinn Hrein með henni. Þar hafði hundurinn á bænum orðið sér út um dróna, sem hann batt við sólstólinn sinn, til að létta sér eftirlitið með rollunum rétt áður en hann sofnaði. Hrúturinn Hreinn komst í fjarstýringuna hjá hundinum og kunni ekki betur á hana en svo að hann sendi hundinn á loft sofandi í sólstólnum.

Þegar hundurinn rumskaði og áttaði sig á að það var hann sjálfur sem sveif um í sólstólnum yfir rolluhópnum fjarstýringarlaus rak hann upp skaðræðis boffs og bóndinn kom út til að aðgæta hvað væri eiginlega um að vera og náði um fjarstýringuna fyrir drónann en tók svo hart á í öfuga átt að hann braut stýripinnann af fjarstýringunni og hundurinn sveif stjórnlaust í sólstólnum út í geim.

Þar sem hundurinn var kominn út á meðal stjarnanna í sólstólnum, svo að segja til himnaríkis, kom svífandi að honum geimfarabúningur, en ekki engill, og stillti sér upp við hliðina á hundinum og tók selfí á símann sinn. Eftir myndatökuna tók sólstóllinn óvænt að hrapa með hundinum á hvolfi og nálgaðist jörðina aftur á ógnar hraða.

Hrúturinn Hreinn og rollurnar fylgdust með í angist og urðu sér í snatri út um brigði úr rúllubaggaplasti og strengdu það á milli sín, ekki til að bjarga hundinum heldur drónanum. Hundurinn náði í tíma að gera sér röndótta fallhlíf úr áklæðinu á sólstólnum og sveif mjúklega til jarðar. Bæði dróninn og hundurinn björguðust blessunarlega svo lífið á bóndabænum gat haft sinn vanagang þrátt fyrir þessa óvæntu himnaför hundsins.

Á sama tíma í himnaríki var geimfara búningurinn að skoða selfíið sitt í símanum sínum af sér og hundinum. Hann stillti svo símanum með selfíinu upp á hvíta hillu úr skýi og tók niður geimfara hjálminn. Þá blasti við grár hundur alveg eins og sá brúni á jörðu niðri með hrútinum Hreini og rollunum, nema hrukkóttur og eldgamall. Þá sagði Ævi; -þessi er alveg eins og afi, en mig langar að horfa á youtube.


Safna auð með augun rauð en aðra brauðið vantar

Nú er opinberu fyrritæki í almannaeign gert að rukka þá landsmenn sem búa í mestri fjarlægð frá þjónustunni um raunkostnað á flutningi fyrir allt yfir 50 grömmum, og það með virðisaukaskatti.

Til sam­ræm­is við ný­lega breyt­ingu í lög­um um póstþjón­ustu, afgreiddum af há æruverðugu alþingi, fyrirtæki þess sama opinbera og var ætlað jafna kjörin í þessu landi, en tók upp á því að níðast á vesalingum undir verndarvæng ríkisins.

Félag vesælla atvinnurekenda fer auðvitað fram á að Þessi breyting verði framkvæmd tafarlaust. Enda hið mesta sanngirnis mál að þeir sem stundi flutningaþjónustu sitji við sama borð í botnlausri samkeppninni.

Þau flutninga fyrirtæki sem bjóða uppá þessa pakkaflutninga fyrir almenning eru sennilega tvö, , , , -jafnvel alveg heil þrjú. Eimskip á nýju hundrað ára kennitölunni sinni eftir "hið svokallaða hrun" nú með sama eigendahóp og miskunnsami samherjinn. Samskip þar sem eigandinn hefur verið ofsóttur af dómstólum þessa lands allt frá "hinu sama svokallaða hruni".

Með góðum vilja má bæta Icelandair við á stöku stað, sem hafa verið hlutabótaþegar almennings í gegnum hið opinbera í heimsfaraldrinum, "hinni svokölluðu drepsótt", en það fyrirtæki komst um tíma í eigu lífeyrissjóða landsmanna eftir "hið svokallaða hrun". Svo á náttúrulega Byggðastofnun að sjá um eftirlitið, svona til að faðirvorinu verði ekki snúið upp á andskotann.

Já það er kominn tími til að Jón og Gunna norð-austur á landi hætti að safna auð með augun rauð á meðan aðra brauðið vantar.


mbl.is Pósturinn breyti verðskrá án tafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumar og sólstöður

Það vildi svo einkennilega til að það tók að birta eftir bölmóðinn sem ég setti hérna á síðuna í gær, og birti þeim mun meira eftir því sem fleiri lásu óskapnaðinn. Það verður að teljast meira en lítið skrítið ef bölbænir verða til þess að veður batnar, en hér á Héraði hafði verið ísköld norðan nepja dögum saman. 

Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag; brosir veröld víða, veðurlagsins blíða eykur yndishag, eða svo skildi maður ætla. Þessar ljóðlínur Steingríms Thorsteinssonar verða seint metnar til fjár en þykja varla merkilegar á þeim markaði sem lýtur hagvexti nútímans.

Allavega tala stjórnmálamenn ekki um svoleiðis hagvöxt, hvað þá auðrónar. En aukin yndishagur tekur þó öllum hagvexti fram fyrir Jón og Gunnu. Samkvæmt orðsifjunum þá eru "gumar" hinir jarðnesku jarðarbúar, andstætt við himnesk máttarvöldin. Þessar orðsifja sannindi mættu allir hafa í huga þegar þeir heyra tönglast á hagvexti peninga í stað yndishags manfólksins.

Í dag er sumarsólstöðu sólahringurinn og voru sólstöður kl. 03:32 í nótt samkvæmt Almanaki hins íslenska þjóðvinafélags 2021. Af því að það varð andvökubjart í gærkvöldi þá fór ég út um þúfur á meðan sólin rétt svo sleikti þúfnakollana. En þann sið hef ég haft s.s. segja frá barnæsku, og sef þá ekkert endilega á nóttinni þegar sólin varla sest.

Þar sem ég bjó á 69°N í Noregi hnitaði sólin himininn hærra á sumarsólstöðum og þar hafði ég sama sið þ.e. að fara út um þúfur andvaka. Þar var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á fótboltaleik.

Eins hef ég nokkrum sinnum verið um sumarsólstöðurnar á Spáni en þar halda innfæddir upp á þessi tímamót með "Noche de San Juan", sem er náttúrulega bara Jónsmessunótt sem er núna á fimmtudaginn. Þar var San Juan brenndur í bálkesti með viðhöfn á ströndinni, í svarta myrkri á Jónsmessunótt.

Það ætti engin sem er andvaka á þessum bjartasta tíma ársins að sleppa því að fara út um þúfur í Íslenskri náttúru, því upplifunin er einstök þegar orka norðurhjarans flæðir öllu lífi til yndishags. Þetta vita bæði furðu- og farfuglar, og má víða sjá álfa og menn verða sér út um þann yndisauka.

Ps. hér fyrir neðan eru myndir frá nýliðnum sumarsólstöðum og auðvitað eru þær úr Útmannasveit.

 IMG_0847

Selfljót við Unaós

 

Sumarsólstöður

Héraðsflói séður ofan úr Vatnsskarði

 

IMG_0826

Jaðrakan á sólstöðufundi

 

IMG_0889

Dyrfjöll í næturandaktinni

 

IMG_0891

Lagarfljót og vesturfjöllin við Héraðsflóa


Á sunnudegi í vígamóð

Fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Nú er einn dagur í sumarsólstöður og eftir morgunndaginn fer að halla í hina áttina. Flissandi fábjáni sagði á svipuðum tíma og veðurfræðingurinn aflýsti sumrinu að nú væri að birta yfir landinu á meðan farfuglar til fjalla frusu á hreiðrunum og blessuð litlu lömbin skulfu á beinunum í norðan næðingnum.

Þó allur vindur sé nú úr þjóðhátíðardeginum eftir að 3. orkupakkinn kom sá og sigraði, er stemming slektisins grámyglulegri enn nokkru sinni fyrr, á meðan hvorki gengur né rekur að fikta við stjórnarskrána svo hægt sé að halda upp á daginn hans Jóns samhliða Eurovision. Já við skulum rétt vona að það sé svo að veðurfræðigarnir ljúgi og hjá þeim sem leiðist allt sem íslenskt er sé skóluð skinsemin andvana fædd því þar er það hálfa orðið meira en nóg á tekjutengdu bótunum.

Nú flykkjast ferðamennirnir helmingi færri en áður til landsins og í þeim á sennilega birtan felast yfir landinu gráa, -eða kannski réttara sagt í hinum nýja gullna þríhyrning, sem skartar Fly over Iceland, Sky lagoon og eldgosi, í birtu sem er grárri en nokkur steinsteypa var í sovéskum súpermarkaði og Ice hot one búin að taka fyrstu viðspyrnuna að nýrri flugstöð.

Út á landi er innviðabygging áformuð á fullu, enda kosningar í grennd. Flugstöðvarbyggingu á Akureyri með skógarböðum við brautarendann. Vatnajökulsþjóðgarðsþjónustumiðstöð og hóteli á Orrustustöðum í einmanalegum Skaftárhreppi. Að ógleymdu öllu því sem byggja skal upp í löskuðum Seyðisfirði. Nályktin næðir nú nöpur um flestar gáttir drepsóttarinnar, á meðan erlendur land lortur ætlar að byggja veiðihús yfir vinina upp á milljarða í landshlutanum sem hann keypti fyrir slikk.

Landinn flýtur svo nýbólusettur að feigðarósi með nýja passportið sitt fram hjá hverjum váboðanum af öðrum, -hækkandi vöxtum úr sagnabrunni Why Iceland viðundursins á eftir að sá gamli grái ákallaði lokun landsins. Rafmagn og fasteygnagjöld æða upp með húsnæðisverði í hæðstu hæðum, -kunnugleg uppskrift að gósentíð auðrónanna, og kúlulánadrottningin hikar ekki lengur við að skjóti fram skúffunni.

Já það má nú segja að það sé bjart yfir landinu fyrir fjárfestana og uppskerutími í nánd, sem kallaðir voru fyrir skemmstu hrægammar, þar til kom í ljós að um Panama prinsa í álögum var að ræða og ekki á að skemma fyrir að skattgreiðendur séu losaðir við Íslandsbanka svo þeir hafi einhverja innviði til að bjástra við að byggja í framtíðinni. Já fari hún svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti steypugráa nepjan sem næðir nú um landið á miðju sumri. 


Útmannasveit

IMG_0661

Hvernig gat þetta gerst á minni vakt, mannsins sem ungur í árdaga spilaði á bassatrommuna í skólalúðrasveitt Árna Ísleifs, á sumardaginn fyrsta; “Blessuð sértu, sveitin mín, sumar, vetur, ár og daga”, dagskipunin var að við elliheimilið yrði bragurinn básúnaður. Að vísu reyndi Árni að kenna mér á gítar, og var ég fengin til að berja trommuna vegna manneklu.

Þennan fyrsta sumar dag 1977 var norðaustan krapa slydda og þegar kom að elliheimilinu hafði fryst. Þannig að ekki varð við það ráðið að blása í lúðra því varir frusu við hljóðfærin. Bassatromman var þá ein eftir til að spila á skaðlaust. En svo þröngt var á heyvagninum, sem notaður var til að flytja sveitina, að ekki náðist sveifla á kjuðann svo í trommunni heyrðist og ég þar að auki orðinn krókloppinn.

Núna eftir að það fór að hlýna í öðrum mánuði sumars -skerplu- sé miðað við gamla tímatalið, hef ég farið sem oftar um Útmannasveit. En það heiti var haft yfir út-Hérað, aðallega Hjaltastaðaþinghá, einnig Hróarstungu og jafnvel Jökulsárhlíð. Um þessar sveitir bruna nú á seinna hundraðinu tímatrektir túristar á leið sinn á Borgarfjörð eystri, gjörsamlega grunlausir um það af hverju þeir eru að missa.

IMG_0620

Útmannasveit á verulega í vök að verjast, eins og svo margar sveitir landsins, og virðist þar haldast í hendur, að eftir því sem tískuorðið sjálfbærni hefur sótt á þá hefur matvæla sjálfbærni farið hrakandi. Er þannig komið að sveitir á Íslandi eiga sér víða varla viðreisnar von. Þær “heilla mig og heim til sín huga minn úr fjarlægð draga” ekki svo að ég sé að leita að jarðnæði nú á gamals aldri.

Heldur eru það torf og steypa sem hugann draga. Í sveitinni náði íslensk byggingarlist að blómstra. Mold og grjót úr næstu mýri og urð í þúsund ár, -ásamt reka af ströndinni. Steypumölin úr næsta mel eða fjöru, alla síðustu öld, ásamt sementi og innfluttu bárujárni, að ógleymdri hugmyndaauðgi fólksins, -sem óðum hverfur nú allt í svörðinn.

Það má því ekki seinna vera að berja þá tíma augum þegar fólk fékk að byggja af hjartans list án strangra reglugerða, ég set hérna inn nokkrar myndir sem sýnishorn.

 

IMG_0628

Snilldarlega hönnuð steinsteypt beitarhús frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðarþinghá, þar sem blandað hefur verið saman helstu byggingarefnum íslenskrar hefðar

 

 IMG_0637

Bárujárnið hefur verið notað til uppsláttar steypumóta eins og mótatimbrið áður en þða var notað í þakið

 

IMG_0649

Torfið hefur verið lagt á bárujárnið til einangrunar

 

 IMG_0665

Dæmi um nýtni 20 aldar bóndans, brynningastampur í fjárhúsum gerður úr 200 líta olíutunnu sem skorin hefur verið í tvennt

 

IMG_0495

Fjárhús á Galtastöðum fram, gott dæmi um alda gamla byggingahefð

 

 IMG_0486

Útihús á Galtastöðum fram, hlaða og fjárhús, sem voru í notkun fram á þessa öld

 

IMG_0482

Galtarstaðir fram í Hróarstungu dæmigerður 19.aldar alþýðu-torfbær á Héraði með fjósbaðstofu, búið var í bænum til 1960, er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands

 

IMG_0692

Hóll í Hjaltastaðarþinghá

 

IMG_0693

Steinsteypt 20. aldar fjárhús á Hól, steypumölin var fengin svo til á staðnum

 

IMG_0673

Bændur víluðu ekki fyrir sér að múra smáskreytingar í kringum glugga

 

IMG_0688

Rekaviðar þaksperra á Hól, sennilega af Héraðsandi, sem eru rétt utan við bæinn

 

IMG_0519

Geirsstaðakirkja við Litla-Bakka í Hróarstungu, sem talin er hafa verað svona um kristnitöku, tilgátuhús gert samkvæmt ævafornri byggingahefð landnámsmanna. Í túninu eru taldar leynast  fornminjar, skálabyggingar og fleiri mannvirkja frá landnámstíð


Sal sér hún standa sólu fegri

Nú hafa tekið við nýir tímar. Mynd sem var, er komin á hverfanda hvel. Upp hefur flögrað haukleg mær, -vængstýfður fiðringurinn grái. Valkyrja, sem með rafrænum smáskilaboðum fær hvern þann er á móti blæs; rannsakaðan og stimplaðan metoo myllumerki. Og við; -þorum ekki öðru en lúta leiðsögninni, skref fyrir skref, þó það eina sem þurfi, sé að slökkva á símanum og sjónvarpinu.

Fræðimönnum hefur gengið misjafnlega að staðsetja boðskap Völuspár í tíma, og þá hvort hún lýsi heiðinni eða kristinni heimsmynd. Nærtækast er að ætla að hún lýsi þeim báðum og gefi í skin níu þar fyrir framan. Það er varla tilviljun að Ásgarðs goðin blása lífi í Ask og Emblu á svipaðan hátt og Adam og Eva eru til í Biblíu Rómarkirkjunnar.

Völuspá lýsir í lokin nýjum heimi þar sem gullið eitt mun lýsa í heiminum; Sal sér hún standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta. Ekki er um að villast að nýrri heimsmynd er lýst, sem við tekur eftir ragnarök og heimurinn er einn salur hagvaxtarins. Þar eru gull og dyggar dróttir lykilorðin.

Endalokum karlmennskunnar, eins og við þekkjum hana, er skilmerkilega lýst í ragnarökum Völuspár og eru um upphaf þeirra óskapa hafðar þær hendingar sem best eru kunnar úr þulunni; Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla; hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir munu klofnir, vindöld, vargöld, áður en veröld steypist; mun engin maður öðrum þyrma.

Meetoo tók við af hrútaskýringunum þegar siglt var inn öld vatnsberans, að sagt er í ársbyrjun 2019. Varla hefur farið fram hjá nokkrum mannni að það ár var jafnlaunavottun með lögleiddum kynjahalla innleidd í allt regluverk, og eru afleiðingarnar þegar farnar að líta dagsljósið með tugmilljóna bótum til þeirra sem á hefur verið brotið. Þarf þessi nýi heimur að koma á óvart, -eða hvað?

Hvað verður svo um okkur í siðblindu kófinu? - Hvernig verður hægt að lifa í rafrænu brjálæðinu? -Völuspá greinir nákvæmlega frá því undir lok þulunnar hvernig nýr heimur mun rísa, sá er dyggar dróttir byggja þeim bræðrum Baldri og Heði, sem saklausastir voru meðal goða. Munu ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna, Baldur mun koma; búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel, valtívar, vitið þér enn, eða hvað?

Framtíð karlmennskunnar verður í líki Baldurs og Haðar, sem voru saklausir synir stríðandi goða, -harmdauði allra. Bleikar slaufur, snjallsímar og bleyjuskipti munu eftirleiðis vera viðfangsefni karlmennskunnar í ríki dyggra drótta. En rétt eins og á þeim orðunum sem spánni hennar Völu líkur, þá kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; ber sér í fjöðrum, flýgur völl yfir, Níðhöggur nái, nú mun hún sökkvast.


Grasalækningar og D-vítamín

Það fékk mig til að hinkra við eftir sér sumarið og mikið var maður búin að bíða eftir blessuðum fíflunum. En nú er sumarið komið með sínum fardögum sem ég læt lesendum eftir að gúggla til hvers voru. Ég ætla aftur á móti að segja frá því af hverju ég beið eftir fíflunum en þar koma við sögu grasalækningar.

Málið er að s.l. 4 ár hef ég útbúið mér fardagakálsúpu og fíflasalat á þessum árstíma. Tvö undanfarin ár hafa þessir gómsætu heilsuréttir verið á borðum eftir 20. maí, en 2019 voru þessar jurtir sprottnar til átu 20. apríl og 2018 var það 10. maí, en núna í ár ekki fyrr en 25. maí. Það er semsagt missnemma á ferðinni sumrarið og ég núna búin að lifa á hvönn, hundasúrum, fíflum og fardagakáli í 10 daga þetta árið.

Upphaflega byrjaði ég á þessari sérvisku til að prófa hvort villtar íslenskar jurtir væru ætar og eins hvort þær hefðu eitthvað af þeim lækningamætti sem fornar sagnir fara af. Satt að segja bjóst ég ekki við því að lækningamáttur þeirra væri meiri en þess grænmetis sem má finna í Bónus, grasalækninga gróusögurnar væru einungis til komnar vegna þess að ekki var neitt grænmeti að hafa á veturna á landinu bláa á öldum áður.

Það hefur bæði komið á óvart hvað villtar íslenskar jurtir eru gómsætar og ekki síður hve lækningarmátturinn er afgerandi. Eitt það helsta sem hefur verið fundið jurtalyfjum til foráttu er að þau eru ekki stöðluð. En það er einmitt sú staðreynd að jurtalyf eru ekki stöðluð sem jók gildi þeirra fyrir sérvitring. Sagt er að á margan hátt liggja grasalækningar utan sviðs almennra óhefðbundinna læknavísinda og má það til sanns vegar færa.

Það er einmitt sú staðreynd hve lækningarmáttur jurta er á breiðum grunni sem eykur gildi grasalækninga og vegna þess að þau eru lífræn en ekki ólífræn eru þau svo til án aukaverkana. Hver sem er getur tínt jurtir og haft þær í notkunar í eldhúsinu; það eru nefnilega engin skýr mörk milli notkunar þeirra til matargerðar eða lækninga. Þess vegna getur hvaða sérvitringur sem er fundið heilsusamlega þáttinn í mataræði sér til heilsubótar.

Það kom ekki til af góðu að ég fór út um þúfur. Fyrir nokkrum árum fékk ég hjartaáfalla af verri gerðinni, dæligeta hjartans út í líkamann varð einungis 40% af því sem áður var og var mér sagt að þar væri um varanlegan skaða að ræða. Við tók margra vikna endurhæfing og var ég ekki búin að vera þar lengi þegar ég var sendur til sálfræðings. Þegar ég spurði hvers vegna ég væri hjá henni þá var svarið; við höfum áhyggjur af þér - geturðu ekki sætt þig við það sem skeði?

En ég hafði upphaflega sagt að ég ætlaði að ná heilsu til vinnu það væri markmið mitt í endurhæfingunni. Í stuttu máli þá tók við rúmlega tveggja ára tímabil hjá sjúkraþjálfara með tveggja til sex stunda vinnudögum og tilheyrandi ferðum til hjartalæknis til að stilla af lyfjagjöf. En á sama tíma fór ég út um þúfur og stúderaði hvaða grös gætu komið mér til hjálpar.

Það er ekki óalgengt að fólk með mín vandamál taki 6-8 mismunandi lyf dag hvern og eru þá sum þeirra vegna aukaverkana þeirra sem nauðsynleg teljast. Í dag tek ég aðeins eitt lyf auk hjartamagnyls þriðja hvern dag og líður þokkalega, mun betur en minnislaus af lyfjaáti, en hef ekki náð þeirri heilsu sem ég hafði og næ sjálfsagt aldrei. 

það er víst nóg að eldast þó svo að ekki bætist önnur áföll við, og ég hef blessunarlega sloppið við fleiri hjartaáföll. Ég hef sem áður fengið að halda minni steypuvinnu með þeim velvilja vinnuveitenda að það sé eins og ég hafi þrek til, sem hefur verið u.þ.b. hálfan daginn.

Þessa dagana baxa ég við að hjóla hjálmlaus innan um gæsirnar á Egilsstaðanesinu 10 km til og frá vinnu norður í fyrrum aðra sýslu og hugsa til þess þegar börnin spurðu mig um árið; hvers vegna ert þú ekki með hjálm gamli maður. Þá benti ég á höfuðið á mér og sagði; hér inni er ekkert sem getur skemmst. Þau skildu hvorki upp né niður í svarinu og ég varla sjálfur.

Þessar ferðir á hjólinu eru reyndar afleitar í mótvindi og um daginn mætti ég frú á mínum aldri sem sveif tígurlega yfir nesið á hjólinu sínu á móti suðaustan golunni á meðan ég amlaði niðurlútur og lafmóður undan vindi. Þeir urðu ekki fleiri hjólreiðatúrarnir um tíma en þegar það tók að lygna aftur þá fór mig að gruna að hún hefði verið á rafmagnshjóli, þannig að ég er farin að láta sjá mig á hjólinu aftur.

Ég á það til að benda vinnufélögum á að stinga upp í sig fífli, en þá halda þeir að ég sé að fíflast. Um daginn samferða einum vinnufélaga yfir nesið benti ég á að einungis meðfram vegkantinum væri svo mikið fardagakál að það dygði til að fæða alla Egilsstaðabúa, og þá væru túnin eftir. Þessi félagi hefur aðrar hugmyndir um illgresi en ég, og varð á orði; ég ætla rétt að vona að Didda frænda hafi tekist að drepa njólann í nýræktinni þetta árið.

En í fullri alvöru þá er heimulan holl og kellingabækurnar enn í fullu gildi. Og þó svo að allt færi í vaskinn í eldhúsinu þá nær maður allavega D-vítamíni út úr útiverunni við að höndla stöffið.

Súpa og salat

Njólasúpa, ásamt fífla, njóla og hundasúru-salti


Seiður heilbrigðisiðnaðarins

Það er ekki lengra síðan en á síðustu öld að úr urðu algeng, og þá til að mæla tímann í mínútum og klukkustundum. Nú eiga flestir snjallúr ásamt snjallsíma, nema kannski einstaka sérvitringur aftan úr grárri forneskju. Gamaldags úr geng ég nú reyndar ekki með, og á hvorki snjallúr eða snjallsíma, en var samt boðaður þrisvar í bólusetningu á dögunum. Svo einhvernvegin hefur  sérvitringi tekist að bjargast inn í nútímann með öllu sínu velmeinandi hjarðónæminu.

Völuspá greinir frá því að í árdaga hafi goðin gengið þannig frá tímanum að hann markaðist af skiptum sólarhringsins og gangi himintungla til þess að mennirnir gætu fylgst með frá degi til dags í hinu stóra samhengi, allt frá upphafi til ragnaraka og frá þeim til nýs upphafs. Þar þurfti hvorki að hugsa sérstaklega um sekúndur né mínútur, hvað þá púlsinn. Ótímabær dauðdagi hetjunnar var ekki talinn síðri en að leggjast í kör.

Það sem hefur breyst í hugmyndum manna til tímans nú á síðari árum er að hann hefur allur verið settur á tímalínu tækninnar í stað hringekju sólarinnar. Við þetta breytast hugmyndir manna til lífs og dauða. Lífinu er lifað línulega af varúð og dauðinn hættir að vera tímamót og verður þess í stað endir alls. Því þykir rétt og betra að tóra sem lengst. Er á meðan er þar til golunni verður geispað, -dauða skal fá þeim, þann er kennir lengst. -Vitið þér enn - eða hvað?


Paradísarfuglinn

Í dögun hvarf hún innum aðrar dyr

mig óraði ekki fyrir því sem skeði

en fyrren varði – fyrirgefiði

mér feimnina – hún gjörðist veik á geði

hún gjörðist veik

hún gjörðist veik á geði.

 

Þeir gáfu henni truntusól og tungl

og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli

en hann sem vissi allt var ómálga

– afsakiði meðan að ég æli

meðanað ég,

meðanað ég æli

en paradísarfuglinn fló og gelti

mér finnst því líkast sem ég sé í svelti.

 

Loks kvað hún uppúr innri mann með sinn

og æpti: ég vil heim í hass og sýru – og basa

þeir glottu útað eyrunum í spíss

og önsuðu: þú hefur gervinýru – og vasa

þú hefur nefnilega fengið

risagervinýru – með vasa

og paradísarfuglinn fló og gelti

ég fíla mig eins og ég sé í svelti.

Höfundur Megas


mbl.is Þykir bréfið til Lilju stórfurðulegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband