Sal sér hún standa sólu fegri

Nú hafa tekið við nýir tímar. Mynd sem var, er komin á hverfanda hvel. Upp hefur flögrað haukleg mær, -vængstýfður fiðringurinn grái. Valkyrja, sem með rafrænum smáskilaboðum fær hvern þann er á móti blæs; rannsakaðan og stimplaðan metoo myllumerki. Og við; -þorum ekki öðru en lúta leiðsögninni, skref fyrir skref, þó það eina sem þurfi, sé að slökkva á símanum og sjónvarpinu.

Fræðimönnum hefur gengið misjafnlega að staðsetja boðskap Völuspár í tíma, og þá hvort hún lýsi heiðinni eða kristinni heimsmynd. Nærtækast er að ætla að hún lýsi þeim báðum og gefi í skin níu þar fyrir framan. Það er varla tilviljun að Ásgarðs goðin blása lífi í Ask og Emblu á svipaðan hátt og Adam og Eva eru til í Biblíu Rómarkirkjunnar.

Völuspá lýsir í lokin nýjum heimi þar sem gullið eitt mun lýsa í heiminum; Sal sér hún standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta. Ekki er um að villast að nýrri heimsmynd er lýst, sem við tekur eftir ragnarök og heimurinn er einn salur hagvaxtarins. Þar eru gull og dyggar dróttir lykilorðin.

Endalokum karlmennskunnar, eins og við þekkjum hana, er skilmerkilega lýst í ragnarökum Völuspár og eru um upphaf þeirra óskapa hafðar þær hendingar sem best eru kunnar úr þulunni; Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla; hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir munu klofnir, vindöld, vargöld, áður en veröld steypist; mun engin maður öðrum þyrma.

Meetoo tók við af hrútaskýringunum þegar siglt var inn öld vatnsberans, að sagt er í ársbyrjun 2019. Varla hefur farið fram hjá nokkrum mannni að það ár var jafnlaunavottun með lögleiddum kynjahalla innleidd í allt regluverk, og eru afleiðingarnar þegar farnar að líta dagsljósið með tugmilljóna bótum til þeirra sem á hefur verið brotið. Þarf þessi nýi heimur að koma á óvart, -eða hvað?

Hvað verður svo um okkur í siðblindu kófinu? - Hvernig verður hægt að lifa í rafrænu brjálæðinu? -Völuspá greinir nákvæmlega frá því undir lok þulunnar hvernig nýr heimur mun rísa, sá er dyggar dróttir byggja þeim bræðrum Baldri og Heði, sem saklausastir voru meðal goða. Munu ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna, Baldur mun koma; búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel, valtívar, vitið þér enn, eða hvað?

Framtíð karlmennskunnar verður í líki Baldurs og Haðar, sem voru saklausir synir stríðandi goða, -harmdauði allra. Bleikar slaufur, snjallsímar og bleyjuskipti munu eftirleiðis vera viðfangsefni karlmennskunnar í ríki dyggra drótta. En rétt eins og á þeim orðunum sem spánni hennar Völu líkur, þá kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; ber sér í fjöðrum, flýgur völl yfir, Níðhöggur nái, nú mun hún sökkvast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

ALLTAF GÓÐUR........

Jóhann Elíasson, 6.6.2021 kl. 07:30

2 identicon

Ekki breyjuskipti eftir þriggja ára aldur, það gæti örvað óstöðugan!! Reyndar hélt ég að krakkar væru yfirleitt hættir að vera með bleyju komnir á þann aldur ...

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 6.6.2021 kl. 10:24

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakk fyrir fróðleikinn. 

Egilsstaðir, 07.06.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 7.6.2021 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband