Grasalækningar og D-vítamín

Það fékk mig til að hinkra við eftir sér sumarið og mikið var maður búin að bíða eftir blessuðum fíflunum. En nú er sumarið komið með sínum fardögum sem ég læt lesendum eftir að gúggla til hvers voru. Ég ætla aftur á móti að segja frá því af hverju ég beið eftir fíflunum en þar koma við sögu grasalækningar.

Málið er að s.l. 4 ár hef ég útbúið mér fardagakálsúpu og fíflasalat á þessum árstíma. Tvö undanfarin ár hafa þessir gómsætu heilsuréttir verið á borðum eftir 20. maí, en 2019 voru þessar jurtir sprottnar til átu 20. apríl og 2018 var það 10. maí, en núna í ár ekki fyrr en 25. maí. Það er semsagt missnemma á ferðinni sumrarið og ég núna búin að lifa á hvönn, hundasúrum, fíflum og fardagakáli í 10 daga þetta árið.

Upphaflega byrjaði ég á þessari sérvisku til að prófa hvort villtar íslenskar jurtir væru ætar og eins hvort þær hefðu eitthvað af þeim lækningamætti sem fornar sagnir fara af. Satt að segja bjóst ég ekki við því að lækningamáttur þeirra væri meiri en þess grænmetis sem má finna í Bónus, grasalækninga gróusögurnar væru einungis til komnar vegna þess að ekki var neitt grænmeti að hafa á veturna á landinu bláa á öldum áður.

Það hefur bæði komið á óvart hvað villtar íslenskar jurtir eru gómsætar og ekki síður hve lækningarmátturinn er afgerandi. Eitt það helsta sem hefur verið fundið jurtalyfjum til foráttu er að þau eru ekki stöðluð. En það er einmitt sú staðreynd að jurtalyf eru ekki stöðluð sem jók gildi þeirra fyrir sérvitring. Sagt er að á margan hátt liggja grasalækningar utan sviðs almennra óhefðbundinna læknavísinda og má það til sanns vegar færa.

Það er einmitt sú staðreynd hve lækningarmáttur jurta er á breiðum grunni sem eykur gildi grasalækninga og vegna þess að þau eru lífræn en ekki ólífræn eru þau svo til án aukaverkana. Hver sem er getur tínt jurtir og haft þær í notkunar í eldhúsinu; það eru nefnilega engin skýr mörk milli notkunar þeirra til matargerðar eða lækninga. Þess vegna getur hvaða sérvitringur sem er fundið heilsusamlega þáttinn í mataræði sér til heilsubótar.

Það kom ekki til af góðu að ég fór út um þúfur. Fyrir nokkrum árum fékk ég hjartaáfalla af verri gerðinni, dæligeta hjartans út í líkamann varð einungis 40% af því sem áður var og var mér sagt að þar væri um varanlegan skaða að ræða. Við tók margra vikna endurhæfing og var ég ekki búin að vera þar lengi þegar ég var sendur til sálfræðings. Þegar ég spurði hvers vegna ég væri hjá henni þá var svarið; við höfum áhyggjur af þér - geturðu ekki sætt þig við það sem skeði?

En ég hafði upphaflega sagt að ég ætlaði að ná heilsu til vinnu það væri markmið mitt í endurhæfingunni. Í stuttu máli þá tók við rúmlega tveggja ára tímabil hjá sjúkraþjálfara með tveggja til sex stunda vinnudögum og tilheyrandi ferðum til hjartalæknis til að stilla af lyfjagjöf. En á sama tíma fór ég út um þúfur og stúderaði hvaða grös gætu komið mér til hjálpar.

Það er ekki óalgengt að fólk með mín vandamál taki 6-8 mismunandi lyf dag hvern og eru þá sum þeirra vegna aukaverkana þeirra sem nauðsynleg teljast. Í dag tek ég aðeins eitt lyf auk hjartamagnyls þriðja hvern dag og líður þokkalega, mun betur en minnislaus af lyfjaáti, en hef ekki náð þeirri heilsu sem ég hafði og næ sjálfsagt aldrei. 

það er víst nóg að eldast þó svo að ekki bætist önnur áföll við, og ég hef blessunarlega sloppið við fleiri hjartaáföll. Ég hef sem áður fengið að halda minni steypuvinnu með þeim velvilja vinnuveitenda að það sé eins og ég hafi þrek til, sem hefur verið u.þ.b. hálfan daginn.

Þessa dagana baxa ég við að hjóla hjálmlaus innan um gæsirnar á Egilsstaðanesinu 10 km til og frá vinnu norður í fyrrum aðra sýslu og hugsa til þess þegar börnin spurðu mig um árið; hvers vegna ert þú ekki með hjálm gamli maður. Þá benti ég á höfuðið á mér og sagði; hér inni er ekkert sem getur skemmst. Þau skildu hvorki upp né niður í svarinu og ég varla sjálfur.

Þessar ferðir á hjólinu eru reyndar afleitar í mótvindi og um daginn mætti ég frú á mínum aldri sem sveif tígurlega yfir nesið á hjólinu sínu á móti suðaustan golunni á meðan ég amlaði niðurlútur og lafmóður undan vindi. Þeir urðu ekki fleiri hjólreiðatúrarnir um tíma en þegar það tók að lygna aftur þá fór mig að gruna að hún hefði verið á rafmagnshjóli, þannig að ég er farin að láta sjá mig á hjólinu aftur.

Ég á það til að benda vinnufélögum á að stinga upp í sig fífli, en þá halda þeir að ég sé að fíflast. Um daginn samferða einum vinnufélaga yfir nesið benti ég á að einungis meðfram vegkantinum væri svo mikið fardagakál að það dygði til að fæða alla Egilsstaðabúa, og þá væru túnin eftir. Þessi félagi hefur aðrar hugmyndir um illgresi en ég, og varð á orði; ég ætla rétt að vona að Didda frænda hafi tekist að drepa njólann í nýræktinni þetta árið.

En í fullri alvöru þá er heimulan holl og kellingabækurnar enn í fullu gildi. Og þó svo að allt færi í vaskinn í eldhúsinu þá nær maður allavega D-vítamíni út úr útiverunni við að höndla stöffið.

Súpa og salat

Njólasúpa, ásamt fífla, njóla og hundasúru-salti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta var alveg ótrúlega góður pistill og mér finnst alveg ótrúlegt hvað þú hefur náð þér eftir hjartaáfallið miðað við steypusögurnar frá þér getur maður ekki ímyndað sér að þú hafi verið að streða við hjartaáfall.  En hvernig býrðu til NJÓLASÚPU??????

Jóhann Elíasson, 5.6.2021 kl. 06:51

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég stend nú varla upp úr steypunni lengur Jóhann, og er það helvíti hart að þurfa að biðja félagana um að toga sig á lappir, manninn sem er óðastur og lætur flest fúkyrðin fjúka.

Hérna er uppskriftin af njólasúpu. Þessi súpa er skálduð upp úr tveimur njólasúpu uppskriftum sem ég fann á netinu og hitti í mark við fyrstu tilraun.

2 ltr vatn

300 gr njóli, saxaður

3 grænmetissúpu teningar

½ paprika skorin í bita

4-6 hvítlauksrif söxuð smátt

2 laukar niður skornir

100 gr smjör (hægt að nota jurtaolíu og er þá vegan)

4 msk spelt eða hveiti (til að þykkja súpuna)

400 gr saxaðir tómatar (niðursoðnir)

Njólinn , súputeningarnir og paprikan sett í sjóðandi vatn. Hvítlauksrifin og laukurinn bræddur í litlum potti upp úr smjöri (á sama hátt og laukfeiti með mat) speltinu bætt út í þegar laukurinn er orðin mjúkur og bökuð upp bolla. Smjörbollunni bætt út í sjóðandi súpupottinn og hrært vel út, niðursoðnu tómötunum bætt við og soðið í 1 klst. Saltað eftir smekk með Himilaia salti og svörtum pipar.

Magnús Sigurðsson, 5.6.2021 kl. 07:01

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þakka þér kærlega fyrir.....

Jóhann Elíasson, 5.6.2021 kl. 13:02

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þau eru út um allt, fíflin.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.6.2021 kl. 23:00

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Njóttu fíflanna þorsteinn, meða þeirra nýtur við þeir eru bæði hollir og flottir. En fífl eru og  verða alltaf fífl.

Magnús Sigurðsson, 6.6.2021 kl. 05:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband