12.4.2020 | 15:59
Eilífðar töffari allt til enda
Það er stundum sagt að þeir deyi ungir sem guðirnir elska. Það eru samt ekki allir sem njóta ásta guðanna og nú á tímum þykja þar auki sjálfsögð mannréttindi að hafa aðgang að öndunarvél til að geispa í golunni.
Heimsbyggðin hefur verið að rumska við það undanfarið að hún mun aldrei verða söm. Að til voru aðrir tímar þar sem töffarar héldu kúlinu og datt aldrei í hug að setja á sig svo mikið sem "maska", hvað þá að setjast í sjálfskipaða sóttkví áður en að þeir lentu niður á tvo metrana.
Erum við kannski orðin tilbúin til þess að hætta að lifa lífinu í skiptum fyrir smitrakningar-app og öndunarvél? Lifa við hljóðlátt hvísl og tímann stöðvaðan frá þeim degi sem bílarnir þögnuðu?
Verandi gamlingjar sem ferðast innanhúss bíðandi eftir hjarðónæmi og dreymandi um það sem einu sinni var andvaka í dimmri nóttinni? Eða eigum við syngja upp til stjarnanna og lofa okkur því að upp á svona páska verði aldrei boðið aftur?
Það stóð til að á lönguföstu og páskum, myndi síðuhafi eiga stundir með ungviðinu sínu og var farið að hlakka mikið til að hafa hjá sér ungar fallegar manneskjur klippandi út pappír, en þá fór béfvítis kóvitinn í beinni á stjá. Þá var ég minntur óvænt á af gömlum vin á facebook að ein fyrsta hljómplatan sem ég eignaðist var "Stakkels Jim" með Gasolin.
Í staðin fyrir að hlusta á kóvisku tölur básúnaðar í beinni þá hef ég rifjað upp hvað það er sem gefur lífinu gildi, -og mótað það ómeðvitað í gegnum árin. Kim Larsen hélt kúlinu allt til enda og var enginn Stakkels Jim.
1984
2007
2018
2019 í minningu TÖFFARA
![]() |
Jarðarbúar eru að krossfesta heimili sitt jörðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.4.2020 | 06:07
Gerviþjóðsaga um aftökustað
Það eru ekki allir sem vakna hvern morgunn með aftökustað fyrir augum. Eitt það fyrsta sem ég rek augun í þegar ég lít út um gluggann er Gálgaásinn með sínum Gálgakletti. Frá því fyrst ég man hef ég vitað af þessum stað, en núna seinni árin hefur hann verið fyrir framan gluggann minn í Útgarðinum. Þarna á Valtýr á grænni treyju að hafa verið tekin af lífi.
Á upplýsingaskilti við klettinn má lesa að; "aldrei hefur nein staðfesting fengist á sanngildi Valtýssögu, önnur en sú að við klettinn komu upp mannabein, sem lágu í óreiðu fram á miðja síðustu öld, en var þá safnað saman, og sett í kassa, með glerloki, sem festur var á klettinn. Árið 1975 gekkst Rotaryklúbbur Héraðsbúa fyrir því að sett var upp skilti á klettinn, en beinakassinn tekinn niður og settur á minjasafnið á Egilsstöðum, og um áratug síðar á Þjóðminjasafnið, þar sem beinin eru nú geymd".
Gálgakletturinn; samkvæmt sögnum var gálginn sex álna tré, sem komið var fyrir uppi á klettinum og látið standa fram af honum, stórir steinar settir sem farg á enda trésins upp á klettinum. En hengingarsnörunni var komið fyrir á þeim enda sem fram af stóð. Þeim dauðadæmda var ýtt með snöruna um hálsinn fram af klettasyllunni framan við klettinn
Nú er ég nokkuð öruggur á því að sannleiksgildi Valtýssögu er ekki síðra en upplýsinganna sem koma fram á skiltinu við klettinn. Allavega minnist ég þess að hafa verið ásamt fleiru ungviði að gramsa í beinum undir Gálgakletti löngu eftir miðja síðustu öld. Ef rétt er munað lágu mannabein undir klettinum fram yfir 1970, þess á milli sem þau voru í umræddum kassa með glerlokinu svo hægt væri að skoða án þess að snerta, því ekki hvíldu beinin í friði þó í kassa með glerloki væru komin, og mátti þá sjá þau þess á milli liggja á jörðu niðri innan um glerbrot og spýtnabrak. Sennilega hefur orsakavaldur þess verið steinn ofan af klettinum.
Einnig er á upplýsingaskiltinu lesning um nánasta umhverfi Gálgaklettsins; "Klettaásinn sem Egilsstaðakirkja og sjúkrahúsið standa á heitir Gálgaás (Gálgás), og það heiti var í fyrstu notað um þorpið sem byggðist á ásnum og við hann um miðja 20. öld. (Sbr. vísu Sigurjóns á Kirkjubæ Glatt er á Gálgaás)". Mig skortir aldur til að minnast þess að þorpið hafi verið kallað Gálgaás þó ég hafi heyrt hvíslað um vísuna hans séra Sigurjóns á Kirkjubæ á unga aldri, sem farið var með eins og mannsmorð. Enda var hún þess eðlis að ekki var talið rétt að kenna byggðina og íbúa hennar við þesskonar skáldskap.
Glatt er á Gálgaás,
Gróa á hverjum bás,
það er nú þjóð legur staður,
engin af öðrum ber,
efalaust þaðan fer,
til andskotans annar hver maður.
Gálgaás voru klettarnir undir kirkjunni kallaðir, gatan við þá fékk síðar nafnið Hörgsás. Á myndinni er Egilsstaðakirkja í byggingu á þeim árum þegar síðuhafi sleit síðustu barnskónum. Útgarður er í byggingu á hæðinni lengst til vinstri og það sést á bak Gálgaklettsins hægra megin við kirkjuna
"Engar heimildir eru um aftökur við Gálgaklett, nema hin landskunna þjóðsaga: Valtýr á grænni treyju, sem víða hefur birst. Samkvæmt henni átti Valtýr bóndi á Eyjólfsstöðum á Völlum að hafa verið saklaus dæmdur fyrir rán og morð er átti sér stað í landi hans, og hengdur á Gálgaás. Valtýr bað guð að sanna sakleysi sitt, og dundu þá fádæma harðindi yfir Austurland, svonefndur Valtýsvetur, sem er getið í fleiri heimildum. Lifðu aðeins 8 kindur á Héraði, segir sagan. Nokkrum árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr, og var hengdur á sama stað"; texti af facebook síðu Fljótsdalshéraðs.
Í gegnum árin hef ég oft hugleitt sannleiksgildi þjóðsögunnar um Valtý, og lét mig hafa það nú í vetur að lesa skáldsöguna Valtýr á grænni treyju eftir Jón Björnsson. Skáldsagan hefur verið gefin út oftar en einu sinni og fylgir algengustu gerð þjóðsögunnar. Þessi skáldsaga hefur samt aldrei náð vinsældum í heimahögum þjóðsögunnar þó svo að hún fylgi vel þræði hennar og persónur séu gerðar ljós lifandi. Það sem upp á vantar er að höfundur hefur ekki verið staðkunnugur. Því er ýmislegt sem kemur Spánskt fyrir sjónir þeirra sem til staðhátta þekkja.
Þó svo að flestir fræðimenn telji Valtýssögu upplogna skáldsögu og kalli hana í besta falli gerviþjóðsögu í fræðiritum, þá breytir það ekki því að undir Gálgaklettinum lágu mannabein fyrir allra augum fram til 1975. Þetta voru bein tveggja manna, á því fékkst staðfesting eftir að þjóðminjasafnið fékk beinin til rannsóknar. Þetta vissu reyndar flestir Héraðsbúar því í upphafi 20. aldarinnar höfðu verið þarna tvær höfuðkúpur, en með aðra þeirra hafði verið farið á Borgarfjörð eystri snemma á 20.öldinni til að nota við barnakennslu.
Þegar sannleiksgildi Valtýssögu er hafnað ber heimildaleysið hæðst og einnig er það gert með því að skoða þau minni sem fram koma í sögunni, þau tekin til grandskoðunar hvert fyrir sig. Þau eru helst; nafnið Valtýr, græna treyjan, aftakan og Valtýsvetur.
Nafnið Valtýr var ekki algengt á Íslandi sautjánhundruð og súrkál. Nafnið er sagt koma aðeins 7 sinnum fyrir í manntalinu 1703, oftast þó á Austurlandi eða 6 sinnum. Engar heimildir eru samt fyrir því að einhver Valtýr hafi búið á Eyjólfsstöðum, -og reyndar litlar heimildir til um nöfn ábúenda þar í þá tíð.
Hannes Pétursson rithöfundur og fræðimaður í íslenskum og germönskum fræðum hefur rannsakað Valtýssögu og komist að sömu niðurstöðu og dr Guðni Jónsson sagnfræðingur, að um hreina gerviþjóðsögu sé að ræða. Í úttekt sinni bendir hann m.a. á að sagnaminnið um grænu treyjuna sé sennilega komið úr vinsælli þýskri 19. aldar skáldsögu, "Der Grunmantel von Venedig". Þessi saga hafi verið vinsæl þegar þekktasta útgáfa þjóðsögunnar um Valtýr var skráð.
Það hefur samt fundist eldri skráð útgáfa þjóðsögunnar um Valtý en sú hefðbundna, þar sem á grænu treyjuna er einnig minnst og hafa sumir bent á að sú útgáfa sé það gömul að hæpið sé að þýska skáldsagan hafi verið þekkt á Austurlandi á þeim tíma sem sú saga er skráð.
Það sem einkum er talið skorta á sannleiksgildi Valtýssögu er að engar opinberar heimildir hafa fundist um réttarhöld, né dómsorð, hvað þá að aftaka hafi farið fram við Gálgaklett. Þjóðsagan nefnir þó þann sýslumann, eða réttara sagt lögsagnara, sem stóð fyrir rannsókn, réttarhöldum, dómsorði og framkvæmd tveggja aftaka. Sá maður á að hafa verið Jón Arnórsson á Egilsstöðum sem var lögsagnari Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri sem fór með sýsluvöld í þeim hluta Múlasýslu sem sagan gerist.
Margir hafa svo orðið til þess að leitast við að finna sögunni annan stað í tíma vegna skorts á opinberum heimildum, en samkvæmt þjóðsögunni ættu atburðir að hafa átt sér stað á árabilinu 1769-1783. Þá hafa menn horft til Valtýsvetrar og reynt að finna hann í örófi aldanna. Engar skráðar heimildir lærðra manna eru til um orðið Valtýsvetur fyrir utan ein vísa. Vilja fræðimenn leiða að því líkum að sá vetur hafi annaðhvort verið kallaður Lurkur eða Kollur annarstaðar á landinu.
Vísuna, sem talinn er þessu til stuðnings, orti séra Bjarni Gissurarson í Þingmúla og færð í letur í upp úr 1700 og hefur Valtýsvetur verið reiknaður samkvæmt vísunni aftur til vetrarins 1601-1602 þegar Lurkur geisaði á Íslandi. Þessi vísa er úr ljóðabréfi sr Bjarna þegar hann lét af prestskap 1702 þar sem hann fer yfir ævi sína, en hann er fæddur 1621 og er þarna talin vera að yrkja um það þegar hann hóf prestskap og eru þaðan reiknuð 50 ár aftur til vetrarins Lurks, sem samkvæmt vísunni mun þá hafa verið kallaður Valtýsvetur á Austurlandi. Gallinn við þessa kenningu er samt sem áður sá að engar heimildir eru fyrir dauðadómi Valtýs eða aftöku við Gálgaklett árið 1601, -og hvorki fyrr né síðar, aðrar en þjóðsagan.
Valtýs- grimmi veturinn forðum
var í minnum lengi hér,
rákust þá og rýmdu úr skorðum
Reyðfirðinga bestu kjör.
Eftir þá á ufsafleti
enginn fiskur á neinum vetri
fékkst vel fimmtigi ár;
fór því margur öngul sár.
Leiðin hans Valtýs til aftökustaðarins blasir við úr stofuglugganum mínum. Hún lá frá Egilsstöðum yfir Egilsstaðablá, meðfram Gálgaásnum að Gálgakletti. Sagan segir að það hafi verið bjartur haustdagur, og rétt fyrir aftökuna hafi dregið upp óveðurský sem voru undanfari Valtýsvetrar, "þar kemur sá sem mun hefna mín" á Valtýr að hafa sagt, og síðan "Guð geymi mig en fyrirgefi ykkur"
Það sem hefur valdið miklu um að Valtýssaga sé talin gerviþjóðsaga er sá hluti hennar sem segir frá því að hönd Valtýs bónda hafa verið negld upp á bæjadyraþilið á Egilsstöðum. Þar á hún að hafa þornað og skorpnað í 14 ár þar til Valtýr hinn seki kom óvænt í heimsókn og gekk inn um bæjardyrnar ásamt Jóni lögsagnar. Þá drupu 3 blóðdropar úr hendinni í höfuð Valtýs sem ábending um sekt hans. Frásögnin af hendinni afhöggnu og uppskorpnuðu er talið eitt það sérstakasta sem finna má í íslenskri þjóðsögu og þó víðar væri leitað.
Mörg skáld hafa grúskað í sögunni um Valtý, einn þeirra er Gunnar Hersveinn rithöfundur. Þegar Gunnar var kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum hafði hann Gálgaklettinn fyrir augunum út um kennslustofu gluggann. Hann skrifaði þá grein í Sunnudagsblað Moggans um Valtýr á grænni treyju. Greinin hefst á þessum orðum um söguna og þann mann sem þekktasta útgáfa þjóðsögunnar um Valtý er rakinn til:
Þjóðsagan Valtýr á grænni treyju er glæpasaga sögð á snilldarlegan hátt eftir lögmálum frásagnarlistarinnar og formúlu sem margar spennusögur nútímans eru skrifaðar eftir. Valtýssaga var einungis þekkt á Austurlandi og virðist hafa geymst frábærlega vel í samanburði við ýmsar aðrar munnmælasögur. Við rannsókn á handritum hefur komið í ljós að sagnaþulurinn Halldór Jakobsson á Hofi skrifaði sögu sína um Valtý á grænni treyju að beiðni Magnúsar Bjarnasonar árið 1868. (Gunnar Hersveinn / Morgunnblaðið 30. ágúst 1992)
Halldór Jakobsson var kenndur við Hof í Öræfum þar sem hann bjó mest allt sitt líf. Hafi hann verið rómaður sagnaþulur þá eru ekki neinar tilgreindar heimildir fyrir því, frekar en að hann hafi verið rithöfundur annarra glæpasagna. En Halldór ólst upp til 16 ára aldurs á Gíslastöðum á Völlum, sem eru í sömu sveit og Eyjólfsstaðir. Menn hafa ætlað honum að hafa skáldað upp söguna enda er hún lyginni líkust. En þess ber þá að geta að Halldór var að alast upp á Völlum nokkrum áratugum eftir að þeir atburðir eiga að hafa gerst sem sagan greinir frá og hefur hann þá verið áhugasamur grúskari þegar kemur að því hvað sýslumenn voru á Héraði áður en hann fæddist.
Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari er með samhljóða útgáfu af Valtýssögu í sínu safni en þó nokkru nákvæmari í ýmsum atriðum. Enda er Sigfús fæddur og uppalin á söguslóðinni, auk þess sem hann ól þar mestan sinn aldur. Hann fer ekki dult með að styðjast við útgáfu Halldórs af sögunni og hafa fræðimenn ætlað honum að hagræða henni og bæta við frá eigin brjósti. Að minnsta kosti eru til þrár aðrar útgáfur Valtýssögu.
Árið 1977 kom óvænt fram elsta útgáfa Valtýssögu sem rituð var af Sigurði Jónsyni í Njarðvík eftir frásögn Hjörleifs sterka Árnasonar (1760-1831) á Snotrunesi í Borgarfirði eystra. Telja margir að sú útgáfa sögunnar færi hana aftar í tíma, en hún er hjá Halldóri og Sigfúsi. Því þar eru hvorki nafngreindir sýslumenn né sá myrti. En þess í stað þjóðsögunni um eineygu Mórukollu frá Vafrastöðum á Berufjarðarströnd skeytt við og hún færð upp í Kirkjubæ í Hróarstungu svo úr verður hálfgerð þjóðsagna súpa.
Gunnar Hersveinn rithöfundur fellur í sömu gryfju og flestir fræðimenn sem fjallað hafa um þjóðsöguna, þ.e.a. trúa henni ekki vegna þess að opinberar heimildir skortir. Hann telur þó að um ótímasetta sannsögulega skáldsögu sé að ræða. Í grein Gunnars tilgreinir hann mörg örnefni sem finna má á söguslóðum s.s. Valtýshelli í Hjálpleysu, Símonarlág á milli Eyjólfsstaða og Ketilstaða. Það eru reyndar fjölmörg örnefni og munnmæli sem tengjast Valtý í hans heimasveit á Völlum á Héraði sem ekki hafa ratað í þjóðsögur. Má þar nefna Valtýsskot og Valtýstóft í Vallanesi. Gunnar endar grein sína á að koma með tilgátu um hvar silfrið sé falið sem sagt er vera ástæða morðsins í glæpasögunni.
Símon hét sá myrti í Valtýssögu og var hann vinnumaður á Ketilsstöðum hjá Pétri Þorsteinssyni sýslumanni, sem þar bjó en fór með sýsluvöld annarsstaðar í Múlasýslu. Símon á að hafa verið sendur suður á land með silfur til smíða því engin silfursmiður var á þeim tíma í Múlasýslum, þegar hann var komin aftur heim á Hérað var hann stungin 18 hnífstungum og rændur silfurmununum. Það eina sem Símon á að hafa getað stunið upp í vitna viðurvist áður en hann gaf upp andann var "Valtýr á grænni treyju".
Eitt af því sem talið er gegn sannleiksgildi sögunnar er að ekkert er um þessi mál að finna í Ketilstaðaannál Péturs Þorsteinssonar sýslumanns. En þá má jafnframt hafa í huga að ekkert er þar heldur að finna um síðustu aftökuna á Austurlandi sem kolleiki hans á Eskifirði framkvæmdi. Nokkrar söguhetjur Valtýssögu eru nefndar í Ketilsstaðaannál, Símon vinnumaður sýslumannsins á Ketilsstöðum, ásamt Jóni Arnórssyni lögsagnara, auk annálshöfundarins Péturs Þorsteinssonar sýslumanns.
Sjö sinnum er í Ketilsstaðannál, sem spannar árabilið 1663-1792, er getið mannsmorða og aftaka í kjölfar málaferla. Það sem er þó athygliverðast við umgetin morðmál er að ekkert þeirra kemur upp á Austurlandi. Samt var Eiríkur Þorláksson frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal tekinn af lífi árið 1786 á Eskifirði fyrir að hafa myrt Jón Sveinsson frá Snæhvammi í sömu sveit, eftir að þeir höfðu í félagi við þann þriðja, Gunnstein Árnason frá Geldingi í Breiðdal, gerst útilegumenn á Berufjarðarströnd.
Það er ekkert einsdæmi að opinberar heimildir skorti fyrir þjóðsögu. Um síðustu aftökuna á Austurlandi væri til fáar heimildir ef ekki væri fyrir bréf sem sýslumaðurinn á Eskifirði sendi til Kansellísins í Kaupmannahöfn til þess að fá undanþágu fyrir því að flytja þann dauðadæmda á alþingi til aftöku. Í bókum sýslumanns frá þessum tíma vantar ekki bara síður um aftökuna sjálfa á Mjóeyri við Eskifjörð, heldur einnig hvað varð um tvo samfanga þess dauðadæmda. En rétt eins og við Gálgaklettinn á Egilsstöðum þá lágu bein tveggja manna fyrir fótum Eskfirðinga undir Hólmatindinum við Borgir langt fram á 20. öldina og þjóðsagan geymdi nöfn hverra manna bein þar voru.
Sautjánhundruð og súrkál er einhver mesta ógnaröld sem íslensk þjóð hefur farið gegnum. Harðir vetur, hafís, hungursneyðir og hallæri voru tímanna tákn, að ógleymdum Móðuharðindunum. Þetta var gullöld útilegufólksins Eyvindar og Höllu, sem talin eru hafa haft það mun betra í sinni útlegð til fjalla en almúginn í byggð. Átakanlegt er að lesa lýsingar þeirra skáldanna, Guðmundar G Guðmundssonar í sögu Fjalla-Eyvindar og Jóns Björnssonar í sögu Valtýs á grænni treyju, þar sem þeir fara yfir tíðarandann í lok sautjánhundruð og súrkál.
Um aldarmótin átjánhundruð var Ísland ofurselt danskri einveldisstjórn og harðsvíruðu verslunarfyrirkomulagi. Aldrei hefur Ísland verið nær því að gefast upp við að halda lífi í þjóð sinni og aldrei hefur sorfið meira að norrænum kynstofni, utan þess er dó út á Grænlandi og í lítt kunnum löndum Norður-Ameríku á fimmtándu og sextándu öld.
Skattheimta af landinu var seld hæstbjóðanda, hvort sem hann var ótíndur fjárkúgari eða siðlaus ribbaldi, aðeins ef kóngurinn fékk sitt. Jafnvel einstök sýsla var þannig seld á leigu misvitrum og misgóðum sýslumönnum, sem dæmdir voru ærulausir annaðhvort ár og lágu, ef svo atvikaðist, í slagsmálum og fylleríi um sjálfan þingtímann á Þingvöllum. Sem hlunnindi höfðu þeir sakareyri, sem þeir dæmdu sjálfir af fórnardýrum sínum, og voru þeir fáu menn, sem heita máttu nokkurnveginn bjargálna, aldrei öruggir fyrir þeim.
Refsilöggjöfin var Stóridómur: Hýðing og brennimark fyrir smá yfirsjónir en skammarlegt líflát fyrir það sem meira var, og við þetta bættist réttleysi í málarekstri og mátti til undantekninga telja, ef maður var sýknaður. (Guðmundar G Guðmundssonar / Saga Fjalla-Eyvindar bls 11)
Þegar sveitungar Valtýs á Eyjólfsstöðum snéru baki við bjargálna bóndanum og löttu ekki sýslumann til þess að losa sveitina við grunaðan morðingja þó svo að sekt væri ekki sönnuð, þá komst Jón Björnsson svo að orði í skáldsögu sinni "Valtýr á grænni treyju":
Lítilmennska er sterkast aflið í mannheimum. Hún vinnur oft stærri sigra en frægustu hershöfðingjar. Hún getur náð slíkum tökum á heilum þjóðum, að þær gleymi sjálfum sér og láti öll sín dýrmætustu djásn af hendi fyrir augnablikshagnað sem þó er ekki annað en blekking.
Lítilmennið ræðst alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur. Lotning lítilmennisins fyrir öllu, sem er sterkara en það sjálft, er takmarkalaus. Sönn drengskapartilfinning er því framandi. Það hikar ekki við að fórna vináttu á altari ágirndar og öfundsýki, en fóðrar þó alltaf gerðir sínar með tilliti til almenningshagsmuna.
Sannleikur og lygi eru innihaldslaus hugtök í augum lítilmennisins. Það notar lygina í hvert skipti sem hagnaðarvon er fyrir það sjálft og virðist ekkert hafa við það að athuga. Lygin verður að sannleika í augum smámennanna, þegar hún getur fullnægt hagnaðarvon þeirra. (Jón Björnsson / Valtýr á grænni treyju bls 184)
Gálgakletturinn að baka til; steinarnir sem liggja t.h., og eru nú að hverfa ofan í svörðinn, má ætla að séu þeir steinar sem notaðir voru til að fergja gálgatréð. Þeim var velt niður af klettinum eftir 1960. Margt bendir til að Gálgaklettur sé forn aftökustaður. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sagði að beinin sem voru undir Gálgakletti séu af Jóni skarða og Valtý hinum seka. Hann segir að Jón skarði hafi lagst út eftir að hafa verið dæmdur sekur fyrir sifjaspell og hafi leynst í Hrafnavík, sem er skammt innan við Egilsstaði, við fljótið niður af Höfða
Jón Arnórsson var lögsagnari Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Jón hafði aðsetur á Egilsstöðum. Lögsagnari var þeirra tíma fulltrúi sýslumanns. Það var Jón sem þjóðsagan segir að hafi dæmt báða Valtýana sem tóku út sinn dauðadóm við Gálgaklett. Eitt af því sem haldið hefur verið á lofti við að rýra sannleiksgildi sögunnar um Valtýr á grænni treyju, er að samkvæmt þekktustu gerð hennar liðu 14 ár á milli aftaka. En samkvæmt skráðum heimildum þá var Jón Arnórsson á Egilsstöðum lögsagnari í einungis 9 ár, eða frá því 1769 -1778, þá fékk hann sýslu á Snæfellsnesi. Svona getur nú snilldarlega sögð glæpasaga auðveldlega verið hrakin þegar farið er að kanna sannleiksgildið samkvæmt skráðum heimildum.
Um Hans Wium má þessu við bæta að hann mun hafa fengið sýsluembætti sitt í arf eftir föður sinn Jens Wium, sem var danskur, og á að hafa keypt sýslumannsembætti yfir hluta Múlasýslu á 300 ríkisdali án þess þó að hafa hundsvit á lögum. Hann réði því lögsagnara upp á formlegheitin. Endalok Jens sem sýslumanns og lögsagnara hans voru þegar þeir hurfu á dularfullan hátt í Seyðisfirði, lögsagnarinn fannst dauður en Jens aldrei. Út af Jens Wium er komið fjölmargt ágætis fólk á Íslandi, þess á meðal síðuhafi.
Hans Wium fékk fleira í arf eftir Jens föður sinn en sýsluna. Hann fékk hin svo kölluðu Sunnevumál. Sunneva var ung stúlka úr Borgarfirði eystri sem hafði eignast barn í lausaleik er hún kenndi manni sem sór fyrir barnið. Hún breytti þá framburði sínum og kenndi barnið Jóni bróður sínum. Systkinin voru Jónsbörn en voru þegar þetta gerist komin í fóstur hjá bónda í Geitavík í Borgarfirði eystri, Sunneva 16 ára og Jón 14 ára.
Þau systkinin voru flutt upp í Fljótsdal til Jens sýslumanns sem dæmdi þau umsvifalaust til dauða. Nokkrum dögum eftir dauðadóminn hvarf Jens sýslumaður í Seyðisfirði. Nokkru síðar tók Hans sonur hans við sýslu og Sunnevumálum, sótti hann um náðun til konungs til handa systkinunum og sluppu þau við að dauðadómnum væri framfylgt vegna ungs aldurs.
Sunneva var sögð forkunnarfögur, þá fegurst kvenna á landi hér; segir þjóðsagan. Eignaðist hún fljótlega annað barn í Fljótsdalsvistinni þá 19 ára gömul. Þá feðraði hún barnið Hans Wium sýslumanni. Sagt var að Hans hafi fengið Sunnevu til að breyta um framburð og kenna bróður sínum frekar um aftur. Hans á að hafa reynt að telja henni trú um að þau systkinin myndu sleppa enn á ný við harðann dóm vegna ungs aldurs.
Jón bróðir Sunnevu viðurkenndi ekki líkamlegt samræði við systur sína en sagði að ef Sunneva segðu svo yrði svo að vera. Hann meðgekkst barnið eftir dauða Sunnevu, sem hafði áður snúist hugur og haldið sig við að Hans væri faðirinn. Hún á að hafa sagt að hann hefði hrætt hana til að kenna Jóni barnið. Þjóðsagan segir að Jón hafi misst viljann til lífsins eftir að Sunneva systir hans var öll. Jóni hlotnaðist þó ekki aftaka samkvæmt lögum. Dauðadómi var breytt í ævilanga þrælkun á Brimarhólmi. Fyrir játningu og afdrifum Jóns Jónssonar skortir ekki skráðar opinberar heimildir.
Þjóðsagan segir svo um dularfullan dauða Sunnevu, að Hans Wíum sýslumaður hafi farið með hana frá Skriðuklaustri að næturlagi, komið henni fyrir í poka og drekkt í Sunnevuhyl í Bessastaðaá. Þetta er náttúrulega bara heimildalaus gerviþjóðsaga yfir örnefni. Til er landsfræg þjóðvísa, sem lifað hefur í gegnum aldirnar, sem á að vera um heimferð Hans Wíum frá hylnum í Bessastaðaá þessa nótt.
Týnd er æra, töpuð er sál,
tunglið veður skýjum;
Sunnevunnar sýpur skál
sýslumaður Wíum.
Svona er nú þjóðsagan áreiðanleg þegar að er gáð og hún borin saman við skráðar heimildir. Þá stendur varla steinn yfir steini. Þó svo að mannbein liggi undir Gálgakletti og gálgasteinar þar við hlið, þá er þar um að ræða gerviþjóðsögu. En fram hjá því verður ekki komist að hún og örnefnið eru oft einu heimildirnar um stað og atburð honum tengdur.
Það er bæði gömul saga og ný að opinberar heimildir yfir óhæfuverk veraldlegs valds eiga það til að glatast. En staðreyndin er að hvorki fyrr né síðar hefur sannleikurinn verið annað en lyginni líkastur, nema að með hann hafi verið misfarið í málatilbúnaði. Það liggur því beinast við að trúa gerviþjóðsögunni af Valtý á grænni treyju.
Heimildir;
Facebook - gamlar ljósmyndir; Gálgaás, Egilsstaðakirkja og Gálgaklettur (sennilega tekin af Edmund Bellesen sem sveif um á svifi yfir Héraðinu í kringum 1970)
Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar
Þjóðsögur Jóns Árnasonar
Úr manna minnum - greinasafn um íslenskar þjóðsögur; Gluggað í "gerviþjóðsögu" / Hannes Pétursson.
Múlaþing 26-1999; Valtýr á grænni treyju/Jón Sigurðsson - Valtýr á grænni treyju/Indriði Gíslason - Þessi mun hefna mín/Páll Pálsson
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3289854&lang=1
https://timarit.is/page/1770511#page/n16/mode/2up
Haustskip/Björn Th Björnsson
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
29.3.2020 | 08:09
Ríki óttans
Ótti er öflugt vopn, getur verið álíka banvænn og kóróna vírusinn. Hann segir okkur líka þessa dagana margt um samfélag okkar, sambönd við aðra og okkur sjálf. Ótti hamlar hugsun, hann takmarkar frelsið, hann bindur ímyndunaraflið við sig sjálfan og hann einangrar okkur hvert frá öðru og að lokum frá okkur sjálfum. Hann getur verið gagnlegur menningarlega, jafnframt pólitískt tæki til að beygja og jafnvel brjóta á fólki.
Skilgreining á orðinu ótti er sú að hann sé óþægileg hræðslu tilfinning sem stafar af ógn, hættu, -á sársauka eða skaða. Svo hann er í raun andlegt ástand, ímyndaður, og lykilorðið er ógn. Það eru til vel yfir fimm hundruð heimsenda fóbíur og listinn fer sífellt vaxandi eftir því sem menning okkar verður hræddari við sjálfa sig í sínu óhófi og taugaveiklun.
En það er bæði til þarfur ótti og framleiddur ótti, -sá sem notaður er til stýringar. Ef einhver æðir að þér og segist ætla að drepa þig, þá forðar þú þér eða bregst við. Ef t.d. bíll burnar að þér á manndrápshraða þar sem þú ert á leið yfir götu er óttinn þarfur. Hann mun hjálpa adrenalíninu til að gefa þér viðbragð til að taka til fótanna. Það væri allavega heimskulegt að hunsa þannig ótta.
Svo er til allt annar ótti sem haldið er á lofti til að ná fram markmiðum, - óttastýring. Sá ótti kann að byggjast á spálíkönum, svo sem eins og óttinn við hnattræna hlýnun fyrir 15 árum um að margar byggðir ættu eftir að vera komnar undir sjávarmál í dag. En það hefur samt ekki gerst.
Eins getur ótti verið byggður á einhverju raunverulegu, eins og kórónavírus, sem er raunveruleg pest og getur brenglast með stökkbreytingu. Í því tilfelli er óttinn ekki endilega heilbrigð viðbrögð, hann er viðbragð sem lamar okkur frá réttum skilningi og samhengið getur tínst.
Markmiðadrifinn ótti hefur oftast þrjú skref, það er; 1 að sá fræi óttans. 2 - láta það vaxa. 3 - uppskera niðurstöðu. En til hvers að hræða fólk til að ná fram markmiðum? -Það er vegna þess að við hræðslu einangrast fólk. Það dregur sig í hlé, hættir að viðra og virða ólíkar skoðanir, getur að lokum misst mannúð sína. Það er auðvelt fyrir illgjarna valdamenn, sem vilja breyta heiminum eftir sínu höfði, að vinna með svoleiðis aðstæður. Þriðja ríkið er hræðilegt dæmi um slíka óttastjórnun.
Kórónavírusinn er nýjasta dæmið um óttastjórnun og er hluti af stærri mynd alþjóðasamfélagsins. Hann kemur upp í sítengdu eftirlitsþjóðfélagi, þjóðfélagi sem tekur sér neyðarvald til að afnema gildandi lög í almannaþágu og lögregla er látin framfylgja almannavörnum á neyðarstigi.
Ný lög taka við sem segja okkur hvert við getum farið, hversu mörg við megum vera saman, hver fjarlægðin á milli okkar má vera og hversu lengi við getum verið á almennum stöðum. Herjir eru nú víða um heim í startholum til að framfylgja þessum nýju reglum.
Það er ágætt að velta því fyrir sér, svona til að fá einhverja sýn á heildarmyndina, hvort að einhver hefur hag af vírus, sem alltaf hefur verið til þó svo að nú sé komið upp afbrigðið covid-19.
Hérna fyrir neðan er sett inn umfjöllun um ráðstefnu sem haldin var um heimsfaraldur í október 2019. Á þessari ráðstefnu var þeim tímum lýst sem við höfum verið að upplifa undanfarnar vikur, eins hvers má vænta á næstu dögum. Amazing Polly sýnir okkur klippur frá þessari ráðstefnu um leið og hún leiðir okkur í allan sannleikann, -sem ég sel ekki dýrara en ég keypti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2020 | 07:38
Á tímum kóvitana
er margs að varast. Vinnufélagi minn sagði að iðnaðarmenn mættu stórpassa sig þessa dagana þegar kóvitar í sóttkví ætluðu að koma frábærum hugmyndum í framkvæmd , enda gæfist nú til þess tími. Margt hefði allt of lengi setið á hakanum og þegar þeir væru búnir með kúfinn s.s. að þrífa sig þreytta og taka niður jólaskrautið, sem ekki hefði gefist tími til vegna þess hve stutt væri á milli jóla og utanlandsferðar, þá væri komið að því að hringja í iðnaðarmann til að vera sér innanhandar við lappa upp á húsið.
Ég var reyndar búin að átta mig á því strax í síðustu viku að símann þarf að umgangast með gætni. Ég átti þá símtal við kolleiga, og af eðlislægri forvitni spurði ég hvers vegna hann væri heima hvort hann væri kannski með covid-19, nei það var ekki svo slæmt; " Æ,æ,æ, heldurðu að ég hafi ekki asnast til Barcelona og þeir settu reglur um tveggja vikna sóttkví rétt á meðan".
Hér heima við lá ég í mínum vesaldóm yfir síðustu helgi með mína nánustu velmeinandi um að ég færi í sóttkví. Það væru meir að segja eindregin tilmæli yfirvalda til vesalinga um að halda sig heima á viðsjáverðum tímum. Af því að svo illa fór síðast þegar ég fullyrti að ekkert væri að mér, þá sagðist ég skildi athuga málið en ég væri í starfi hálfan daginn hjá vinnuveitanda sem væri svo almennilegur að leifa mér að hafa það eins og mér sýndist á launum sem tækju örorkubótum fram.
Þegar ég hringdi svo í kóvíd komu vöflur á viðmælandann og það þyrfti nú að athuga þetta tilfelli betur, en þetta myndi þá snúast um læknisvottorð ætlað vinnuveitenda mínum. Læknir myndi hafa samband. Þegar læknirinn hringdi þá skýrði ég það út að þetta snérist ekki um vinnuveitandann, ég ætlaðist ekki til að hann greiddi mér laun fyrir að vera heima vegna þess að mínir nánustu væru skíthræddir við að ég fengi pest. Enda sagðist læknirinn ekki vita hvernig það ætti að enda á endalausum pestartímum.
Það er nokkuð ljóst að þegar fábjánarnir flissuðu sig saman um það við Austurvöll fyrir nokkrum vikum síðan að engin missti spón úr aski sínum við að fara í sóttkví þá var átt við kóvita á skíðum, enda geta fábjánarnir sýnt fólki frábæra samstöðu svo lengi sem það er flissar í kringum þá með milljón á mánuði. Enda flestir aðrir vesalingar hvort eð er á bótum að þeirra mati, -en ekki skíðum.
Svo hringdi annar kunningi óvænt í mig núna í gær út af allt öðru, spurði vegna væntumþykju, hvort ekki væri farið að dragast saman hjá steypuköllum. Nei, ég sagði honum að það væri nú yfirleitt ekki svo rétt á meðan fólk hefði dottið í lukkupottinn með að hafa bæði nægan tíma og pening.
Það má því svo sannarlega segja nú á tímum, að kóvítin séu til að varast þau.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2020 | 06:00
Einmánuður
Þessi vetur hefur verið vindasamur með slyddu, krapa, snjó og frostum. Hrafnarnir sveima nú sársvangir innanbæjar í leit að æti. Hérna fyrir framan svalirnar í Útgarðinum fer flugfimi þeirra ekki framhjá mér, þegar þeir fylgjast með gjöf snjótittlinganna hjá henni Matthildi minni. Stundum fellur til brauð og fita sem hrafnarnir hremma. Smyrillin á það til að fela sig upp í öspinni í von um að geta náð um snjótittling til að seðja sárasta hungrið. Austanlands má segja að hafi verið fannhvítur vetur frá því fyrir fyrsta vetrardag þann 26. október og með jarðbönnum á Héraði frá því í desember, landið er orðið eins og jökull yfir að líta.
Nú kviknar nýtt tungl á fyrsta degi einmánaðar. Nýtt tungl gefur væntingar um breytt veðurlag, en næsta víst er að ekki er vetrinum liðinn. Nú kviknar tungl í SA en undanfarin tungl hafa kviknað SV og V. Ég ætla að leifa mér að spá því að nú verði vindátt á landi vestanstæðari næstu vikurnar, jafnvel útsynningur Vestanlands en sólbráð að degi og frost að nóttu Austanlands. Gamla tímatalið hefur fleira í nánd við mánaðamót en tunglkomur, stjörnumerkjum skiptir á svipuðum tímamótum. Stjörnumerki Fiskanna rann sitt skeið á vorjafndægrum 20. mars. Daginn sem sólin nær yfirhönd á norðurhveli jarðar tekur merki Hrútsins við með lengri degi en nótt.
Hestar á íslenskum útigangi í Norðfjarðarsveit s.l. viku, daginn fyrir vorjafndægur, svona lítur Austurlandið út þegar varla sést á dökkan díl. Myndir frá þessum vetri má nálgast HÉR eða skoða í myndaalbúminu Vetur 2020 sem er til hægri á síðunni
Einmánuður er sjötti og síðasti vetrarmánuðinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið af því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.
Góu sem lauk á degi sem kallast Góuþræll eins og Þorra sem lauk á sínum þræl. Fyrsti dagur einmánaðar kallast yngismannadagur og er helgaður piltum eins og harpa stúlkum, -þorri og góa húsbændum og húsfreyjum. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning. Síðustu dagar Einmánaðar kallast sumarmál enda tími til komin að fá vorið, en í gamla íslenska tímatalinu voru árstíðirnar aðeins tvær, -vetur og sumar.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.
Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann geri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.
Einmánuður er auk þess að vera síðasti mánuður vetrar, sá þriðji af útmánuðum en svo voru þrír síðustu mánuðir vetrar kallaðir, þau þorri, góa og einmánuður. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti mánuður vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði. Eftirfarandi vísa um útmánuði er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:
Langi Þorri leiðist mér
lata Góa á eftir fer.
Einmánuður yngstur er,
hann mun verða þyngstur þér.
Í þjóðsögum austfirðingsins Sigfúsar Sigfússonar er þetta haft eftir álfkonu; Þurr skyldi þorri, þeysin góa, votur einmánuður og þá mun vel vora.
Ps. Munið eftir smáfuglunum.
Heimildir: http://is.wikipedia.org/wiki/Einm%C3%A1nu%C3%B0ur
Dægurmál | Breytt 14.4.2021 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2020 | 05:58
Magnað helvíti
Þegar athyglissýkin hefur komist á það stig að instagram reikningurinn veitir ekki fullnægingu lengur, vegna þess að það eru komin fleiri þúsund manns í sóttkví á instagram, þá verður maður sér úti um gult vesti með aðvörun um að allir haldi sér í tveggja metra fjarlægð og skokkar í gula vestinu um miðbæ Reykjavíkur.
Aldrei að vita nema að með því sé hægt að komast í að verða forsíðufrétt. Gult vesti með þríhyrning og tveggja metra viðvörun ætti að duga til að ryðja brautina til frægðar og frama. Og ef vera kynni að sóttvarnatilmæli almannavarna verði brotin, þá er það ekki athyglissjúklingnum í gula vestinu að kenna.
Það er ekki gott að segja hvað hefur farið úrskeiðis á milli eyrnanna á fólki, en það hefði verið æskilegt að yfirvöld hefðu bent landanum á strax í upphafi kórónu fundanna í beinni að skíðaferðir í Alpana hefðu alltaf verið á eigin ábyrgð, í stað þess að mæta flissandi niður á Austurvöll til að breyta reglunni og ætla skattgreiðendum að borga sóttkvína.
Þá hefðu athyglissjúkar mannvitsbrekkur kannski getað spókað sig um í Ölpunum núna þessa dagana í gulu vestunum sínu og vakið heims athygli sem viðundur sem þyrfti að fjarlægja af almannafæri.
Síðuhafi spáir því að það styttist í útgöngubann á Íslandi.
![]() |
Sóttkví - 2 metrar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.3.2020 | 17:48
Eftir covid-19
Það hefur verið þrúgandi að fylgjast með framvindu covid-19 veirunnar. Veiru sem engin hefur séð og sára fáir orðið varir við, sumir segja samt að nóg sé að slökkva á sjónvarpinu þá sýkist maður ekki, Því það sem maður hefur ekki séð í sjónvarpi sé ekki til.
Veiran er samt svo lúmsk að fólk getur verið sýkt af henni án þess finna nokkurntíma einkennin en samt sem áður smitað aðra. Nú er svo komið að margar lýðræðisþjóðir vesturlanda hafa ákveðið að taka kommúnistana í Kína sér til fyrirmyndar varðandi veiruna, og loka þegna sína inni vikum saman.
Vinnustaðurinn minn, sem telur um 30 manns, hefur sett upp sína sóttvarnaáætlun. Nú mætir engin lengur á morgunnandaktina, þannig að ég er orðin alveg sambandslaus á morgnanna því snjallsíma tæknina hef ég aldrei náð tileinka mér. Nokkrum dögum áður en andaktin var leist upp í spritti þá varð mér á orði að eitthvað meira kynna að búa undir hjá Kínverjunum en umhyggjan ein.
Félagi minn leit eldsnöggt upp úr lófanum sínum sem geymdi símann og lét mig vita af því að hann hefði ekki hugmyndaflug til að ætla yfirvöldum, hvar sem þau væru í heiminum, annað en manngæskuna eina þegar þvílík og önnur eins vá stæði fyrir dyrum. Í morgunnkaffinu hélt ég svo áfram að tuða um það að það væri aðallega fólk yfir áttrætt sem hefði greinst dáið og þá jafnvel verið lagst í kör áður ef ekki komið á grafarbakkann.
Morguninn eftir þegar ég mætti á andakt okkar vinnufélagana fannst mér eins og þessi félagi horfði á mig með grunsemd þegar hann sagði; að betra væri að fara af öllu með gát á þessum viðsjáverðu tímum til að vernda aldraða og hjartasjúklinga sem væru að þvælast innan um heilbrigt fólk. Enda var umræðuefni okkar vinnufélagana þá að venju covid-19. Það er ekki svo að vesalingur eins og ég, sem hef fengið það stóra skammta af hlandi fyrir hjartað að læknar tala um bilun, sé orðinn of gamall fyrir hetjudauða þó svo að ég hafi ekki beint trú á nýjustu lýðheilsumarkmiðunum frá Kína.
Já ég verð að segja það eins og er að ég er strax farin að sakna morgunn andaktarinnar. En nú hefur tekið við önnur alvara. Við Matthildur mín höfum verið að æfa tveggja metra fjarlægðina með málbandi heima í stofu því samkvæmisdansar verða varla viðurkenndir sem sóttvarnir inn á heimilum, hvað þá vangadans. Það sem mér hefur þótt erfiðast við tvo metrana er að þeir eru nákvæmlega sama fjarlægð og sex fet í vígðri mold. En við Matthildur mín lofuðumst einmitt til að halda utan um hvort annað uns dauðinn aðskildi.
En hvað tekur svo við eftir tveggja metra covid-19 dansinn, varla verður það kjarnorkuvetur nú á vordögum hnattrænnar hlýnunar, það myndi leysa of mörg vandamál í flóknu samfélagi þjóðanna. Stjórnvöld þurfa sjálfsagt að teikna upp sviðsmyndir áður en þau eiga samtal og setja málin í nefnd. Niðurstöðurnar verða svo sjálfsagt kynntar í 5G snjall sjónvarvarpi eftir að ekki reynist lengur þörf á að kynna nýjustu neyðaráætlanir og covid-19 tölur í beinni.
Þar sem ég er ekki með sjónvarp núna þá verður mér hugsað til ársins 1983 þegar Ameríska sjónvarpsmyndin The Day After fór eins og eldur í sinu um hinn vestræna heim. Þar var lýst endalokum heimsins eftir kjarnorkustyrjöld . Síðan hafa sjónvarpsstöðvarnar kynnt til sögunar marga óáranina. Núna stendur víst yfir covid-19, en á 21. öldinni hafa auk þessa verið kynnt til sögunnar fjármálahrun 2008 og þar áður 9/11 2001, sem var hið formlega upphaf stríðs gegn hryðjuverkum.
Þó svo að stríð hafi staðið yfir gegn hryðjuverkum alla þessa öld þekki ég samt ennþá engan sem hefur farist í hryðjuverki, ég þekki ekki einu sinni neinn sem þekkir mann sem farist hefur í hryðjuverki. Bjó ég þó í Noregi 2011 og varð vitni af hinum ógnvænlega hryðjuverki á Úteyju, -en einungis í gegnum fjölmiðla.
Nú eftir öll þessi hryðjuverkastríðsár get ég samt talið á annan tug eftirlitsmyndavéla út um stofugluggann minn sem geta fylgst með hryðjuverkum. En það að njósna um fólk að ósekju gerði bara Stasi Þýskalands og önnur kommúnistaríki fram yfir The Day After.
Hvað er það svo sem fjármálahrunið 2008 hefur leitt af sér og sjá má í dag hvar sem fólk kemur saman? Þessarar spurningar ætti hver einasti maður að spyrja sig þó að svarið sé að öllum líkindum beint fyrir framan nefið á honum akkúrat núna.
Samt er rétt að minnast þess áður að árið 2008 var góðæri til lands og sjávar á Íslandi. En eftir fjármálahrunið flýðu fleiri land en í Móðuharðindunum, og ég meir að segja um tíma til Noregs. En samt var ekki um neitt raunverulegt hallæri að ræða, -heldur bókhaldsmistök. En hefur þá bókhaldið batnað? En það er hvorki betra bókhald né árferði sem allstaðar má sjá eftir 2008.
Það sem má sjá hvert sem litið er í dag er fólk með snjall síma. Sá staður er varla til í veröldinni þar sem snjallsíminn með sinn staðsetningabúnað er ekki hafður í hönd. Er þá sama hvort um fátækrahverfi í Afríku eða flóttamannbúðir í Grikklandi er að ræða, og flestir þessir símar eru framleiddir í Kína.
Úr sítengdum snjall símanum birtast upplýsingar á sama sekúndu broti í lófa því sem næst hverrar einustu manneskju á jörðinni, upplýsingar um raunverulega atburði, -eða svo er okkur sagt. En hvað ef google er að ljúga og þetta er af álíka Stasiskum toga og á dögum sjónvarpsmyndarinnar The Day After?
Sumir kynnu að halda því fram að covid-19 hafi að endingu eitthvað að gera með Brawe New World, eða þegar gamli Bush Íraks bani hélt titrandi af geðshræringu New World Order ræðuna sína, eða jafnvel Sameinuðu þjóðanna Agenda 21.
Að halda öðru fram en að þrúgandi fréttir 21. aldarinnar með öllum sínum upplýstu viðburðum, sem nú birtast sítengdir í lófa hvers manns, sé ekki hrein tilviljun og að kommúnistarnir í Kína hafi ekki mannúðleg lýðheilsumarkmið í heiðri eftir að þeir fengu áhuga á raunverulegu peningabókhaldi er auðvitað ekkert annað en samsæriskenning.
Ps. Munið að halda eftir klósettpappírsrúllu, hún gæti orðið dýrmætari minjagripur en flugmiði.
Dægurmál | Breytt 18.3.2020 kl. 06:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2020 | 04:46
Skandali
Síðustu tvær vikurnar hafa verið sjúklega lýsandi fyrir hvers yfirvöld og fjölmiðlar megna þegar magana skal upp fár. Í lok viku fór klósettpappír að seljast betur en heitar lummur öllum að óvörum. Sáu sóttvarnayfirvöld og samtök verslunarinnar ástæðu til að gefa út samhljóða yfirlýsingar, bæði úr Skógarhlíðinni afgirt á efsta stigi sóttvarnaáætlunar sinnar, eða þá heimavinnandi úr snjallsímunum sínum. þar var biðlað til fólks að hætta að hamstra og það á meðan blessuð krónan var í frjálsu falli, sennilegast til þess að verslunum gæfist tími til að lagfæra verðið áður en allt kláraðist. En fólk var ekki orðið algjör fífl og hélt áfram að höndla á gamla verðinu.
Þó svo að flestir kalli eftir Marshallskri leiðsögn á samfélagsmiðlum þá upplifa margir sig þar sem hrópandann í eiðimörkinni. Því það virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis á milli eyrnanna á sjálftökuliðinu í stjórnarráðinu. Þau hafa nú þvælst um miðbæinn, milli Arnarhóls og Tjarnargötu nætur og daga. Og komust loks að þeirri sérkennilegu niðurstöðu að rétt væri að beina því til landans að takmarka flæking út fyrir landsteinana, eftir að flestum landamærum veraldar hafði verið lokað. Því ekki sé víst að fólk komist heim aftur, ekki einu sinni sjóleiðina með Norrænu. Utanríkis hafði samt uppi áform um að bregða sér vestur um haf í vikunni og kippa þessu í liðinn fyrir Icelandair og þá sem þyrftu að komast á skíði í Aspen, en ræstitæknir Trumps veitti honum leiðsögn með sms skilaboðum í tíma.
Þessi síða hefur ekki farið varhluta af Wuhan veirunni og hefur undanfarna daga verið útbíuð hugleiðingum fíflsins tengdum fjölmiðlafári heimsbyggðarinnar. Síðuhafi biðst velvirðingar á þessum leiðindum enda hefur síðan verið að mestu tileinkuð þjóðþrifamálum af landinu bláa fram til þessa. Og þó svo að það hafi stundum verið sagðar sögur af mórum og skottum þá er ekki meiningin að láta alþjóðlegan draugagang yfirvalda ríða hér endalaust röftum.
Stundum á ég það til að skrifa hjá mér punkta þegar eitthvað verður til að vekja upp gamlar minningar. Yfirleitt tíni ég þessum skrifum svo einhversstaðar í tölvunni og rekst stundum óvænt á þau mörgum árum seinna og á þá það til að setja þá hér inn á bloggið í andlegri örbyrgð og gúrkutíð líkri og gengur yfir nú um stundir þegar aðeins eitt kemst að í helsýktu höfðinu.
Þegar ég kom á Djúpavog 1984 var þar hundur sem hét Skandali og var hann með öll einkenni íslensks hunds, hringaða rófu, sperrt eyru og gekk um hnarreistur með spekingssvip, svartur á skrokk með hvítar lappir og bringu, þó svo að hann væri hvorki stór né kraftalegur. Það fyrsta sem ég heyrði af visku Skandala var að hann hefði rakið slóð húsbónda síns niður í frystihús þar sem hann vann. Hafði Skandali komist þar inn í búningsherbergi, þar hafði húsbóndinn skipt um skó með því að stíga í vinnuskóna án þess að snerta gólfið. Skandali leit undrandi til lofts og síðan í allar áttir áður en hann tók þá skinsamlegu ákvörðun leggjast yfir skó húsbónda síns og bíða.
Plássið; var svæðið milli gömlu verslunarhúsanna á Djúpavogi kallað. Þó svo að þessi mynd sé frá fyrri hluta 20. aldar þá er engu líkara en Skandali standi þarna fyrir miðri mynd
Þó Sakndali væri skarpvitur þá var hann vita gagnslaus til flestra nota og ef farið var með hann í smalamennsku þá var hann miklu verri en engin, en það sýndi reyndar best hversu gáfaður hann var. Honum þótti afleitt að láta segja sér fyrir verkum og var fljótur að koma sér úr leiðinlegum aðstæðum, -eins og t.d. að hlaupa fyrir rollur-, með því einu að æra þær úr allra augsýn. Um leið og hann fann inn á að framtak hans þætti til hins verra lét hann sig hverfa og fór á sitt venjuleg snuðr eftir lóðatíkum og góðum matarbita.
Það var ekki til siðs að hafa hunda í bandi á Djúpavogi í þá daga því gat Skandali farið allra sinn ferða eins og honum þóknaðist. Hann átti það til að skaprauna bæjarbúum með því að ná af þeim góðum matarbita. Honum tókst eitt sinn að ræna steikum af grillinu hjá útibústjóra Landsbankans. Útibústjórinn hafði aftur á móti gaman af því að segja frá því hvernig hann komst að þessu ráni. En hann hafði ætlað að grilla á blíðviðris kvöldi og setti á grillið framan við hús og fór svo inn.
Þegar hann kom út var lítið á grillinu og skildi ekkert í því. Hann ákvað að setja aftur á grillið og fara inn og fylgjast með grillinu í laumi út um gluggann, því þetta var fyrir tíma öryggismyndavélanna. Það leið ekki á löngu þar til svört eyru komu upp fyrir barðið á lóðinni og svo hausinn allur þar sem Skandali skimaði eftir því hvort óhætt væri að nálgast grillið. Eins var hann grunaður um hafa rænt tertu úr barnaafmæli, sem húsmóðirin hafði sett út fyrir dyr af einhverjum ástæðum. Það var aftur á móti engin sérstök ánægja með það rán.
Húsbóndi Skandala flutti frá Djúpavogi og komst þá Skandali á hálfgerðan vergang. Reynt var að koma honum fyrir í sveit í Álftafirði, hann stoppaði stutt við þar og var fljótlega kominn aftur á göturnar á Djúpavogi, þetta var reynt oftar en einu sinni en allt kom fyrir ekki, -aftur kom hann á Djúpavog. Þá var honum komið lengst upp í sveit alla leið upp á Hérað í Fljótsdal og reiknað með að þaðan ætti hann ekki svo auðvelt með að rata heim á Djúpavog.
Veturinn 1985-86 var ég að vinna á Egilsstöðum við að múra öldrunardeild við sjúkrahúsið og bjó þá hjá afa mínum. Þegar ég fór upp á Hérað í þetta verkefni seint í október þá hafði ég með mér hvolp. Þetta var því sem næst íslenskur hvolpur undan tík, sem ég man því miður ekki lengur nafnið á, en faðirinn var grunaður Skandali. Þennan hvolp hafði ég tekið að mér af algjörum fábjána hætti.
Afa leist ekki á gestinn en samþykkti samt að ég fengi inni með hvolpinn svo framarlega sem ég hefði hann með mér í vinnuna yfir daginn. Þetta var engin Skandali en varð samt úlfgrár íslenskur hundur með sperrt eyru, hvíta bringu og hringaða rófu, fékk hann nafnið Rustikus. Hvolpurinn fylgdi mér í vinnuna en var ósköp smár og umkomulaus í múrverkinu en braggaðist fljótlega. Eftir áramótin kom smiður frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal til að vinna við bygginguna. Hann hafði gaman hvolpinum eins og fleiri á þessum vinnustað, en þó ekki nægan áhuga á að eignast hann til að losa mig úr vandræðunum.
Plássið; -eins og það er í dag, komið með grjótgarð meðfarma Löngubúð og ný uppgerðu Faktorshúsi fyrir neðan. Aðdráttarafl fyrir ferðamenn. -Síberían; húsið sem stóð fyrir enda húsanna, og sést á gömlu myndinni að ofan, brann á fimmta áratug 20. aldar
Hann sagði mér að hann hefði haft ansi sérstakan hund frá Djúpavogi hjá sér fram eftir vetri. Sá hefði dagað uppi hjá honum þegar Fljótsdælingar voru að smala Fljótsdalsheiðina og Vesturöræfin. Hundurinn hafði komið frá Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal og héti Skandali. Taldi hann hundinn dauðann. Hann hefði verið fjarrænn og eirðarlaus, hefði helst haft áhuga á að vera með sér í silungsveiði niður um ís. Hafði þá stundum orðið svo áhugasamur að hann lenti í vökinni. Skandali hefði svo horfið einn daginn og hvergi fundist hvernig sem var leitað. Taldi kunningi minn að hann hefði farið sjálfur að vökinni á veiðar og jafnvel kafað undir ísinn og drukknað.
Seinna um veturinn kom Skandali fram, örmagna niður í Fossárdal við innanverðan Berufjörð. Hann fékk að hvíla sig þar og safna kröftum. Þegar hann var farinn að braggast þá hvarf hann úr Fossárdal og hélt út Berufjörðinn með viðkomu í Urðarteigi, þaðan hélt hann svo út á Djúpavog. Þar tók gamall vinur hans hann að sér, sem þá var nýlega fluttur út í Sólvang, gamla heimili Skandala.
Aldrei var eftir þetta reynt að koma Skandala frá Djúpavogi og eftir að vinar hans naut ekki lengur við þá tók tók annar vinur hann að sér og lifði hann alsæll til elli. Hann kom oft á byggingarstaði og kunni vel að labba upp stiga, alveg upp á þak. Eins munaði hann ekki um að far niður stiga þó svo að hann gerði það ekki alveg á sama hátt og iðnaðarmaður, því hann hljóp niður með hausinn á undan og fipaðist ekki að hitta rimarnar.
Skandali naut alla ævi þeirra forréttinda á Djúpavogi að þurfa ekki að vera í bandi þó svo að þær reglur hefðu á hans tíð verið teknar upp um aðra hunda, og átti það til að stoppa bíla til að fá far. Einu sinni gekk Skandali í veg fyrir Matthildi mína og lét hana ekki komast fram hjá. Þegar hún opnaði dyrnar á bílnum dreif hann sig inn, settist í framsætið og mændi út um framrúðuna. Matthildur skildi að hún átti að skutla honum út í Sólvang og gerði það, opnaði þar fyrir honum. Þar fór hann strax út og skokkaði heim að útidyrum með dinglandi rófu.
Ps. Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér fjarlægðinni sem sóttvarnaryfirvöld telja nú nauðsynlega á milli fólks, þ.e.a.s. tveir metrar -sama sem sex fet- og hef trú á að dagar miðaldra skíðamanna líkt og lausaganga hunda séu nú taldir á Íslandi, allavega þennan veturinn.
Leiðin hans Skandala heim á Djúpavog var að minnstakosti um 80 km löng og tók þar að auki marga daga um óbyggðir, þegar íslenski veturinn er hvað harðastur og snjóþyngstur
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.3.2020 | 17:04
Farið hefur fé betra
Nú keppist hver stjórnsýslustofnunin, í klapp við aðra, við að virkja viðbragðsáætlanir sínar með því að senda fólk heim með snjallsímann sinn og vinna þaðan. Enda er vel hægt að tæma gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar með símtali eins og dæmin sanna.
Almannadeild ríkislögreglustjóra mun samt halda áfram að hittast í Skógarhlíðinni innmúruð og afgirt á efsta stigi sóttvarnaráætlunar sinnar. Eins gott að Tetra kerfið hangi inn svo ekki fari eins og í rafmagnsleysinu í desember s.l. og setið var þar í sambandsleysi við landið í tvo sólahringa og trúað að allt væri í gúddí. Það gæti hreinlega þýtt nýja og rándýra innviða yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.
Landlæknir kemur svo í dag starfsfólki sínu til varnar fyrir að sinna ekki tilmælum embættisins um að sleppa því að fara erlendis í vetrarfrí úr snjóþyngslunum hér á landi til að renna sér á skíðum í háskalegum Ölpunum, vitandi af sóttkví kynni að bíða í bakaleiðinni. En eins og allir ættu að vera farnir að vita þá er mjög mikilvægt fyrir almenning að fara að fyrirmælum yfirvalda og fylgjast með nýjustu tölum úr Skógarhlíðinni.
Það var reyndar alltaf í ásættanlegt að taka sénsinn í skíðabrekkunum því flissandi fábjánar á þingi voru búnir að gefa út að laun í sóttkví yrði á kostnað skattgreiðenda svo framarlega sem skjólstæðingarnir heyrðu undir það opinbera. Helst má ætla að Panama prinsinn sem heldur um ríkissjóð hafi nú áhyggjur af því að búið sé að loka fyrir flug vestur um haf þegar bestu skíðadagar ársins eru framundan í Aspen.
Í dag eru það, eins og vanalega, helst Jói litli, smáfyrirtækin og starfmenn þess opinbera á plani, sem daglegt líf getur ekki verið án, sem ætlað er að draga björg í bú. Enda betra á viðsjáverðum tímum að þeir haldi sig til hlés og þvælist ekki fyrir vinnandi fólki sem engin augljós þörf er fyrir hvort eð er dags daglega.
![]() |
Viðbragðsáætlun Seðlabankans virkjuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2020 | 19:34
Skinsama liðið
Nú hefur hver mannvitsbrekkan um aðra þvera af sjálftökujötunni látið ljós sitt skína síðustu tvo dagana. Það er ekki lengra síðan en í gær að sjálf ríkisstjórnin tuggði martuggna tuggu um innviðauppbyggingu sem hrundið yrði í framkvæmd. Nú vegna covid-19 veirunnar og bætist þar með við sem ástæða, ofan á Íslandsbankasöluna, tóma ofanflóðasjóðinn og væntanleg veggjöld.
Why Iceland viðundrið fór svo á kostum í dag, viku fyrr en von var á, enda febrúar hagspáin farin veg allrar veraldar þannig að nú dugir ekki annað en lækka bindiskyldu bankanna niður í núll og lækka stýrivexti Seðlabankans niður á áður óþekkt plan. Hann verður varla í vandræðum með að tæma Seðlabankann til vina og vandamanna með sviðsmyndunum einum því nú er bara orðið alltof erfitt að halda uppi sannfærandi hagstjórn samkvæmt nokkurra daga gamalli áætlun.
Nú rétt fyrir kvöldið bættist forseta fí,,,, í hópinn þrúgaður af ábyrgð og segist ómlöglega geta afhent tónlistarverðlaun í Hörpu í kvöld á svona viðsjálfverðum tímum ný kominn frá útlöndum þar sem hann vann sér það helst til frægðar að spígspora um á sokkalestunum í almenningslest. Þeir SA og VR lífskjaravinirnir, sem vanalegast eru kallaðir aðilar vinnumarkaðarins, skemmta sér svo í sóttkví eftir bæði bráð nauðsynlega og velheppnaða skíðaferð í Alpana.
Helst að skinsama liðið hafi getað kvartað yfir því að búið sé að handfjatla og káma út lesefnið í vösum sætisbaka Icelandair þotnanna þegar flogið er með kolefnissporið aftan úr rassgatinu heim til landsins bláa. Það eru jú viðsálverðir tímar í heiminum og sóttvarnir í forgangi og allir verða að sína samstöðu. Svo má jú alltaf selja ömmu sína ef hún lifir af covid-19.
![]() |
Guðni og Lilja hætt við að mæta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)