23.1.2019 | 13:06
Sænautasel og heimsmaðurinn á heiðinni
Nóbelskáldið taldi sig vera nokkuð vissan um að til væri aðeins einn íslenskur heimsborgari, maður sem talist gæti alþjóðavæddur. Það hefði margsannast að hann væri eini íslendingurinn sem allt fólk, hvar sem það væri í heiminum, myndi skilja. Þessi maður var Bjartur í Sumarhúsum, hetja sjálfs sín. Það er fátt sem hefur glatt hverúlanta samtímans meira en geta atyrt Bjart í Sumarhúsum með orðsnilli sinni við að upplýsa að í honum búi allt það verstau sem finna megi í fólki. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna sem lýsir lífsbaráttu þessa sjálfstæða kotbónda í afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar hafi verið að finna Sænautaseli.
Undanfarin sumur höfum við hjónin þvælst margann góðviðrisdaginn um Jökuldalsheiðina til að kynna okkur undur hennar. Oftast var komið við í Sænautaseli, enda rekur fyrr um vinnufélagi minn þar ferðaþjónustu ásamt konu sinni og þar er hægt að fá bestu lummur á landinu. Eftir að maður var komin á bragðið fór ferðunum fjölgand með ættingjum og vinum til að sýna þeim undur Sænautasels og gæða sér á gómsætum lummum og kakói. Sænautasel var endurbyggt 1992 og hafa þau Lilja og Hallur verið þar gestgjafar síðan þá, en auk þess er bærinn til sýnis, og er eftirsótt af erlendum ferðamönnum sem lesið hafa Sjálfstætt fólk, að setja sig inn í sögusviðið með dvöl í bænum.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Þar sem draugar áður riðu röftum í ærhúsinu er nú gestum og gangandi gefnar lummur á garðann og brynnt með kakói og kaffi innan um lopapeysur
Ástæða þessara mörgu ferða okkar var auk þess saga allra heiðarbýlanna og gætu ferðirnar þess vegna átt eftir að verða enn fleiri á næstu árum. Enda voru þessi heiðabýli 16 þegar best lét og við í mesta lagi búin að heimsækja helminginn. Til að fá sögu heiðarinnar beint í æð las ég samantekt Halldórs Stefánssonar í bókinni Austurland um heiðabyggðina, sem var í á milli 5-600 m hæð. Halldór Stefánsson segir m.a.; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri." Eins las ég Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness og Heiðarharm Gunnars Gunnarssonar auk fjölda annarra frásagna af lífinu í heiðinni. Hér á eftir fer hluti þess sem ég tel mig hafa orðið áskynja um Sjálfstætt fólk.
Horft heim að rústum Fögrukinnar sem var eitt af heiðarbýlunum. Gunnar Gunnarsson rithöfundur skrifaði bækur um búsetuna á heiðinni. Ein af þeim er Heiðarharmur sem fjallar um heimsfólkið í heiðinni með annarri nálgun en Halldór í Sjálfstæðu fólki. Gunnar segir frá því hvernig búsetan á heiðinni eyddist bæ fyrir bæ m.a. vegna uppblásturs. Sagt hefur verið að Gunnar hafi komið til álita sem Nóbelshafi á sama tíma og Halldór. Það sem á að hafa staðið Gunnari aðallega fyrir þrifum var aðdáun nasismans á verkum hans. Hann er t.d. eini Íslendingurinn sem vitað er til að hafi hitt Hitler. Þó Halldór hafi opinberaði skoðanir sínar á "gúlags" kommúnisma Sovétsins, sem var þá meðal sigurvegara stríðsins, varð það ekki talið honum til hnjóðs. Eftir að ryk moldviðranna er sest gægist það upp úr rykföllnu hugskotinu, að Nasistar hafi ekki verið þeir sem töpuðu stríðinu, Það hafi fyrst og fremst verið þjóðverjar og svo sjálfstætt fólk.
Það fer framhjá fáum sem setja sig inn í staðhætti að hin þekkta íslenska skáldasaga, sem þýdd hefur verið á fjórða tug tungumála, gerist á Jökuldalsheiðinni. Fleira en ferðlag Bjarts í Sumarhúsum á hreindýrstarfi yfir Jökulsá á heiði staðfestir tengsl sögunnar jafnt við staðhætti sem og þjóðsöguna. Í sögubyrjun má með góðum vilja sjá glitta í Hjaltastaðafjandann og þegar á líður verður ekki betur séð að Eyjaselsmóri ríði röftum á ærhúsinu í Sumarhúsum, þannig að Halldór hefur verið búin að kynna sér mögnuðustu þjóðsagnir á Héraði og flytja þær upp á Jökuldalsheiði. Þó eru sennilega fáir bókmenntafræðingar tilbúnir til að kvitta undir það að Sjálfstætt fólk sé í reynd sannsöguleg skáldsaga sem gerist á heiði austur á landi. Þeir hafa flestir hverjir kappkostað að slíta söguna upp með rótum til að lyfta henni á æðra plani, meir að segja talið sögusvið hennar hafa allt eins orðið til í Kaliforníu. En í þessu sem og öðru, er sannleikurinn oft lyginni líkastur um það hvar heimsborgarana er að finna.
Halldór Laxness ferðaðist um Austurland haustið 1926 og fór þá meðal annars um Jökuldalsheiðina og gisti í Sænautaseli. Halldór skrifar af þessu tilefni greinina Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni, sem birtist fyrst í Alþýðublaðinu í mars 1927. Þar segir m.a.; "Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum. -Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: Við fengum soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur". Einnig þótti Halldóri það kindugt að húsbóndinn hafði helst áhuga á að vita hvort góðar afréttir fyrir sauðfé væru á Ítalíu, þegar til tals kom að víðförull heimshornaflakkari var á ferð í Sænautaseli. Ég var því miður ekki nógu menntaður til að svara þessari spurningu eins og vert hefði verið, eru lokaorð skáldsins í greininni.
Sænautasel við Sænautavatn; bærinn var byggður 1843 í honum var búið til 1943, ef frá eru talin 5 ár vegna Dyngjufjallagoss
Það eru reyndar til munnmælasögur þess efnis að Halldór hafi dvalið lengur í Sænautaseli en þessa einu skammdegisnótt og þegar saga heiðarbýlanna er skoðuð má finna marga atburði í sjálfstæðu fólki sem gerðust á öðrum heiðarkotum. Sumarið 1929 skrifaði Halldór uppkast að sögu um íslenskan bónda sem býr á afskekktri heiði. Þetta er fyrsta gerð skáldsögunnar Sjálfstætt fólk. Halldór las úr þessari frumgerð sinni fyrir vin sinn, Jóhann Jónsson, í Leipzig vorið 1931 og þóttist ætla að fleygja henni. Jóhann harðbannaði honum það og sagði að þetta væri það besta sem hann hefði skrifað. Svo merkilega vill til að bóndinn og aðalpersónan í þessari frumgerð Sjálfstæðs fólks hét einmitt Guðmundur Guðmundsson, eins og gestgjafinn í Sænautaseli sem bauð Halldóri upp á beljukjöt Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni.
Hvernig Nóbelskáldið lætur Sjálfstætt fólk líta út samkvæmt sinni heimsmynd hefur sjálfsagt mörgum sviðið sem upp ólust í Sumarhúsum Jökuldalsheiðarinnar. Skúli Guðmundsson sonur Guðmundar Guðmundssonar í Sænautaseli, af seinna hjónabandi og því ekki fæddur þegar Halldór var á ferð, hefur gert heiðinni ítarleg skil í ræðu og riti. Um mismunandi áhuga föður síns og heimshornaflakkara á búskaparháttum úti í hinum stóra heimi hefur Skúli þetta að segja.
"Það mun láta að líkum að bændur þeir sem bjuggu á Jökuldalsheiðinni, eins og bændur annars staðar á landinu, muni jafnan hafa skeggrætt um tíðarfarið og fénaðarhöldin er þeir hittust. Einnig eru til heimildir um að þeir muni jafnvel hafa leitað tíðinda varðandi þetta áhugamál sitt, ef svo bar við að til þeirra komu menn lengra að, og jafnvel frá fjarlægari löndum. Hins vegar er það öldungis óljóst hvort svoleiðis ferðagarpar hafi haft svör á reiðum höndum varðandi afkomu bænda í öðrum heimshlutum. Trúlega mun þeim hafa verið ýmislegt annað hugstæðara heldur en hvort einhverjir bændur skrimtu á kotum sínum þar eða hér. Undantekning mun þó e.t.v. hafa verið á þessu, og hugsanlega munu ýmsir hafa haft áhuga á basli þessara manna a.m.k. ef þeir eygðu möguleika á að notfæra sér nægjusemi þeirra sjálfra sér til frægðar og framdráttar." (Múlaþing 20 árg bls. 185-186)
Afréttalönd heiðarinnar eru hvoru tveggja, hrjóstrug og grasgefin, snjóþung og köld á vetrum, en hitinn getur auðveldlega farið í 20-25°C margann sumardaginn eins og svo víða á heiðum austanlands
Hverúlantar samtímans láta oftar en ekki ljós sitt skína við að atyrða persónu Bjarts í Sumarhúsum, með speki sinni upplýsa þeir að í honum sé allt það versta að finna. Honum er lýst sem einyrkja sem þverskallast við að halda sjálfstæði, sem megi myndgera í heimsku heillar smáþjóðar, kvennaböðli sem hélt konu og börnum í ánauð. Jafnvel hefur verið svo langt gengið að ætla honum barnaníð að hætti nútímans. En þó verður ekki annað skilið af skrifum þeirra sem ólust upp á meðal sjálfstæðs fólks í Jökuldalsheiðinni, en að þar hafi æskan átt sér góðar minningar. Margir seinni tíma menntamenn hafa lagt þetta út á allt annan hátt. Meir að segja verið haldin málþing um barnaníðinginn Bjart í Sumarhúsum og finna má hjartnæmar greinar frá guðfræðingum um ofbeldisfaðirinn Bjart.
Þann 19. nóvember 2014 var fjölmenni í Stúdentakjallaranum þar sem fram fór málþing um Sjálfstætt fólk sem var jólasýning Þjóðleikhússins það árið. Þar var Bjartur í Sumarhúsum gerður að barnaníðing, sem hafði haldið konum sínum í stofufangelsi, af hverjum sérfræðingnum á fætur öðrum. En til þess að finna barnaníð Bjarts stað þurfti að vísu að draga söguna inn í hugarheim hámenntaðra greininga nútímans því hvergi er minnst á barnaníð Bjarts í sögunni sjálfri, nema þá hve samfélagið var harðneskjulegt í fátækt þess tíma sem sagan gerist. Að vísu upplýsti Illugi Jökulsson á málþinginu að hann hefði átt blaðaviðtal við Nóbelsskáldið á sínum tíma þar sem hann hefði næstum því upplýst þetta leyndarmál aðalsögupersónunnar, en hann hefði bara ekki þorað að hafa það eftir skáldinu í blaðinu á sínum tíma.
Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson skrifa sameiginlega jólapostillu í vefritinu Trúin og lífið þar sem þau ferðast 2000 ár aftur í tímann og bera Bjart í Sumarhúsum saman við Jósef fósturföður Jesú Krists, og finnst þar ólíku saman að jafna, þar sem þau segja að Jósef hafi flúið til Egiptalands með konu og barn undan ranglæti Heródesar en Bjartur þrjóskast við í heiðinni með fjölskyldu sína og var varla ærlegur við neinn nem tíkina sem var honum algjörlega undirgefin. Þau segja; Sjálfstætt fólk er saga um óhlýðni við lífslögmálið, saga af hörmung þess rangláta hugarfars þegar hundsaugun eru valin umfram augu barnsins. Ekkert fer fyrir vangaveltum, í postillu þeirra prestanna, um það hvar Jósef hélt sig á meðan fóstursonurinn hékk á krossinum. Hvað þá endalokum bókarinnar, Sjálfstætt fólk, þar sem Bjartur brýtur odd af oflæti sínu, eftir að hafa misst Sumarhús á nauðungaruppboði ásamt aleigunni, og bjargar Ástu Sóllilju, þar sem hún var komin að því að geispa golunni í heilsuspillandi greni í nábýli siðferðilegs hugarfars, til þess að byggja henni og börnum hennar líf í draumalandi þeirra á heiðinni.
Í sumarhúsum heiðarinnar eru ævintýri að finna fyrir börn á öllum aldri
Björn Jóhannsson fyrrum skólastjóri á Vopnafirði gerir búsetu sinni á Jökuldalsheiðinn skil í bókinni frá Valastöðum til Veturhúsa. En í Veturhús koma Nóbelsskáldið og gætu þau einmitt verið kveikjan að Sumarhúsa nafngift sögunnar, miðað við staðhætti. Björn bjó á Veturhúsum um tíma, næsta bæ við Sænautasel, samt eftir að Halldór var þar á ferð. Björn hefur þetta að segja; Á yfirborðinu yrði þó saga Heiðarbúana lík, en hún yrði jöfnum höndum saga andstreymis og erfiðleika, búsældar og bættra kjara. Margsinnis hafa verið lagðar fyrir mig eftirfarandi spurningar: -Var ekki voða leiðinlegt að vera í Heiðinni? Kom nokkurntíma maður til ykkar. Þessum spurningum og öðrum slíkum hef ég svarað sannleikanum samkvæmt. En sannleikurinn var sá, að þó okkur væri ljóst að staðurinn væri ekki til frambúðar, hvorki vegna barnanna né heldur vegna einangrunar, ef veikindi bæri að höndum, held ég þó að hvorugt okkar hafi fundið til leiðinda. Hitt er svo annað mál, og kemur ekki leiðindum við, að við fórum þaðan strax og önnur betri atvinna bauðst, enda hafði ég aldrei ætlað mér að leggja kennarastarfið algerlega á hilluna.
Rústir Heiðarsels við Ánavatn en þar var Hallveig Guðjónsdóttir fædd og uppalin. Hún bjó síðar Dratthalastöðum á Úthéraði. Hallveig segir þetta af sínum grönnum í Sænautaseli í viðtali við Gletting 1995. "Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var".
Það sem hefur komið okkur Matthildi minni mest á óvart er að í friðsæld heiðarinnar höfum við fundið miðpunkt alheimsins, okkur hefur meir að segja ekki komið til hugar að fara til sólarlanda eftir að við uppgötvuðum sumarhúsin rétt við bæjardyrnar, ekki einu sinni séð ástæðu til að fara í Þjóðleikhúsið í sjálfum höfuðstaðnum til að uppfæra okkur smávegis í borgaralegri heimsmenningu. Enda hefur ekki þurft að fara langt til að njóta sólar og hitta auk þess afkomendur heimsmannsins, hennar hefur mátt njóta og þá hitta ókrossfesta á götum heimabæjarins.
Það hefur löngum verið einkenni íslensku hópsálarinnar að atyrða þá sem sjálfum sér eru nógir. Upp á síðkastið hefur þess sést stað í því hverjir teljast nægilega menntaðir fyrir flóknar aðstæður, jafnvel er svo langt seilst að ungt minna menntað fólk hefur ekki mátt hafa uppi einföld skilaboð um hvað til gagns megi verða fyrir þeirra jafnaldra. En í því sambandi má segja að heimsmaðurinn í Sumarhúsum hafi verið á undan sinni samtíð, og af þeirri gerð sem benti á það aldeilis ókeypis, með þögninni í kyrrð heiðarinnar, að "þú ert nóg".
Að endingu selfí og pikknikk
Ferðalög | Breytt 19.3.2019 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.1.2019 | 12:31
Draugar í silfri Egils
Vegna þrálátra getgáta um keltneskan uppruna íslendinga og í ljósi þess að margar íslendingasögurnar eru meir í ætt við heimildaöflun úr klaustri Kólimkilla en skandinavíska sakamálasögu er ekki úr vegi að haf í huga orð Hermanns Pálssonar Ísland byggðist að nokkru leyti af Írlandi og Suðureyjum og því þykir skylt að kanna menningu vora í ljósi þeirra hugmynda sem auðkenndu Íra og Suðureyinga fyrr á öldum. En Hermann var lengst af prófessor í norrænum fræðum við Edenborgarháskóla og hafði því jafnan aðgang heimildum sem ættaðar voru bæði frá draugum Kólumkilla og skandinavísku sakamálasögunni.
Þessu samhliða er ekki úr vegi að beina einnig athyglinni að atburðum í Evrópu sem gerast í kringum fall Rómarveldis og varða sögu þeirra landa sem styðst vegalengd er til frá Íslandi, m.a. Bretlandseyja. Yfir þeim hafði Rómarveldi drottnað að hluta um langan tíma. Í Völsungasögu, sem varðveitist á Íslandi, er Atla Húnakonungs (406-453) getið en hann réðist hvað eftir annað á Rómverska heimsveldið úr austri en veldi hans er talið hafa náð allt frá Þýskalandi til Kína. Atli gerði innrás í Vestur-Rómverska keisaradæmið með innrás í hluta þess sem tilheyra nú Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Sögusvið Völsungasögu er talið vera frá þeim atburðum. Veldi Atla var í aðdraganda að falli Rómverska keisaraveldisins sem talið er hafa verið orðið endanlegt árið 476.
Rómarveldi náði lengst í norð-vestur til Englands að Skotlandi. Þar byggðu Rómverjar múr þvert yfir England frá Newcastle í austri yfir á vesturströndina við Carlisle, stendur þessi múr víða enn og er á heimsminjaskrá. Múrinn nefnist Hadrian wall eftir samnefndum keisara. Talið er að bygging hans hafi byrjað árið 122, hann var um 120 km langur, 3. m breiður og 5 m hár. Þar fyrir norðan var fyrirstaðan of mikil fyrir heimsveldið. Múrinn var því byggður til að verjast Caledónum en Caledonia var nafnið sem Rómverjar höfðu á landsvæðinu sem nú kallast Skotland. Rómverjar gerðu svo aðra tilraun til að sölsa undir sig Skotland 20 árum síðar og komust norður að Edinborg. En urðu þar að láta staðar numið og byggja annan vegg. Sá veggur nefndist Antonien wall, var úr timbri og náði frá austurströndinni í grennd við Edinborg stystu leið yfir á vesturströndin u.m.b. við Glasgow. Þeirri landvinninga stöðu héldu rómverjar þar til árið 208 að þeir urðu að hörfa aftur fyrir Hadrian wall og kölluðu þar eftir það, sem fyrir norðan var, heimsenda.
Erfitt er að geta sér til hvaða kraftar voru þarna að verki nógu öflugir til að stöðva heilt heimsveldi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þess. En athyglisvert er að eftir fall Rómarveldis kallar mankynssagan tímabilið þar til kaþólska kirkjan í Róm nær afgerandi yfirráðum í Evrópu hinar dimmu miðaldir eða dark ages á ensku. Sagan segir að á þessu tímabili hafi heiðingjar farið um með yfirgangi, morðum og ránum. Heiðnir íbúar norðurlanda eru kallaðir víkingar, útlistaðir nánast sem hryðjuverkamenn. Í þessu róti byggist Ísland norsku fólki en áður en það gerist tekur það fólk að flýja Noreg til Bretlandseyja s.s. Suðureyja við Skotland og til Írlands undan ofríki konungsvalds sem fljótlega varð hallt var undir kirkjuna.
Saga Skotlands greinir frá því að á tímum Rómverja og á miðöldum hafi þar búið heiðin þjóð sem kallaðist Picts og yfirráðasvæðið Pictsland. Á vesturströndinni og á Suðureyjum bjuggu Gails sem hneigðust til kristni og höfðu tengsl við Írland. Gails var þjóð sem kölluð var á þessum tíma, Skotar. Á eyjunni, Iona þétt við vesturströnd Skotlands, var frægt klaustur stofnað af írska munknum St Columbe (521-597), Kólumkilla. Sú þekking sem þetta klaustur er talið hafa haft innan sinna veggja náði allt frá Írlandi í vestri, jafnvel enn lengra því til eru heimildir um Írland hið mikla og mun þar hafa verið átt við Ameríku. Þessi landafræði er sagt að hafi verið kunn í klaustri Kolumkilla á Iona, auk Ísland, Grænlands og Svalbarða ofl.. Til austurs er vitað að fræðin sem voru varðveitt í á Iona náðu allt til Afganistan.
Tilgátan um hvað varð um þá heiðnu þjóð sem kallaðist Picts er sú að hún hafi að tekið upp kristin sið Gails og sameinast þeim þannig að úr varð skosk þjóð um svipað leiti og norrænt landnám er á Íslandi. Sagan greinir frá því að Gereg foringi Gails hafi drepið Ire höfðingja Picts 878, eftir að Gereg hafði hörfað inn í Pictsland undan víkingum. Synir Ire, þeir Donald og Constantine eru á Norður Írlandi á yfirráðasvæði Gails þjóðarinnar, í læri í klaustri vegna fjölskyldutengsla við Írska konungsætt. Þegar þeir fullorðnast verða þeir lögmætir erfingjar Pictslands, þannig hafi tvær flugur verið slegnar í einu höggi, siðaskiptum Picts og sameiningu Picts og Gails.
Skotland verður svo endanlega til þegar víkingar í Dublin á Írlandi og York á Englandi ásamt Skotum undir stjórn Constantine sameinast á móti Englendingum í orrustunni miklu (The grate battle) við Brunanburh 937 og þar staðfestist í raun skipan nútímans á Bretlandi þó svo að ríki Víkinga hafi verið við lýði á Bretlandi eftir það í York en það er talið hafa staðið með stuttu hléi frá 875 til 954. Ástæðan fyrir því að kristnir og víkingar sameinast í orrustunni miklu við Bruaburh er talin vera m.a. sú að Aðalsteinn Englandskonungur hafði náð yfirráðum yfir York af víkingum.
Í orrustunni við Bruaburh er talið að bræðurnir Egill og Þórólfur Skallagrímssynir hafi tekið þátt, þó svo að Egilssaga tali þar um Vínheiði. Þeir voru þar ásamt 300 manna liði sínu á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi. Í orrustunni féll Þórólfur og fékk Egill tvær kistur silfurs frá Aðalsteini konungi sem hann átti að færa Skallagrími í sonargjöld auk þess að fá gull í sinn hlut fyrir hetjulega framgöngu liðs þeirra bræðra. Aðalsteinn Englandskonungur var kirkjunnar konungur en þeir Egill og Þórólfur Skallagrímssynir rammheiðnir. Fram kemur í Egilssögu að þeir bræður hafi prím signst en sá siður mun hafa verið um heiðna menn er þeir gerðust málaliðar kirkjunnar konunga, en með prím signingu gerðust þeir ekki kristnir heldur héldu sínum sið.
Sagan hefur greint frá miðöldum sem átökum á milli heiðinna og kristinna manna þar sem heiðnir íbúar norðurlanda voru útlistaðir nánast sem hryðjuverkamenn þessa tíma í gegnum víkingana. Þegar saga þessa tímabils er skoðuð í öðru ljósi er þetta ekki eins klippt og skorið. Miklu frekar má ætla að hinar dimmu miðaldir hafi verið tímabil þar sem hvorki keisaraveldið né kirkjan í Róm höfðu þau völd sem sótts var eftir í Evrópu. Það er ekki fyrr en Róm fer að sækja í sig veðrið eftir fall keisaraveldisins í gegnum páfastól að þau róstur, sem hinar myrku miðaldir eru kenndar við ná hæðum með borgarastyrjöldum og tilheyrandi þjóðflutningum. Upp úr því róti verður landnám norsk ættaðra manna á Íslandi.
Samkvæmt sögu Evrópu er víkingatímabilið talið hefjast með árás norrænna manna á klaustrið í Lindisfarne á Englandi 793, sem átti rætur að rekja til eyjarinnar Iona. Þó svo heimildirnar fyrir þeirri villimannlegu árás séu fyrst skráðar af kirkjunnar manni í Frakkland sem aldrei er vitað til að hafi komið til Lindisfarne og endurskráðar í fréttabréf til klaustra allt til ársins 1200. Víkinga tímabilinu er svo talið endanlega lokið með orrustunni við Hasting 1066 og falli Haraldar Englandskonungs sem var af norskum ættum, en þar bar Vilhjálmur bastarður afkomandi göngu Hrólfs sem fór til Normandí sigur. Síðan hafa afkomendur hans tilheyrt konungsættinni á Englandi.
Hvað það var sem fékk þá norsku menn til að halda í vestur á haf út í leit að nýjum heimkynnum er ekki vandi um að spá. Það kemur misskýrt fram í Íslendingasögunum. Ofríki konunga sem voru hliðhollir hinu miðstýrða valdi og svo vitneskja Kólumkilla um löndin í vestri. Fall rómarveldis varð því varla, eftir að keisarar hættu að ríkja, nema tímabilið þar til kirkjan tók við með sinn páfastól í Vadikaninu, sem réri svo undir borgarastyrjöldum í samfélögum manna sem ekki lutu valdinu. Með því að styrkja einstaka framagjarna höfðingja, þá sem ásældust mest völd.
Vesturfararnir | Breytt 2.2.2019 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.1.2019 | 13:24
Hús úr hassi
Þó undarlega kunni að virðast þá er farið að byggja hús úr hassi, eða kannski réttara sagt hampi, sem er jurt af þeirri ætt er gefur af sér kannabis. Hollenska fyrirtækið Dun Agro hefur um nokkurt skeið framleitt vörur úr hampi og hefur nú hafið framleiðslu húsa úr þessari jurt. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í að steypa húseiningar úr hampi og telja sig geta afhent 500 hús á ári. Heimasíðuna má skoða hér.
Dun Agro er ekki fyrsta fyrirtækið sem hefur reynt að byggja hamphús. Hins vegar segjast þeir vera fyrstir til að takast það með einhverjum árangri. Þeir vilja meina að eitt af því jákvæðasta við þessi hús sé kolefnisporið. Hampurinn í hús taki til sín ca 13.500 kg af CO2 við það eitt að vaxa, hann er síðan uppskorinn og bundinn í steypu hússins ásamt kolefninu. Það þarf mikil vísindi til að umreikna rúmál ósýnilegrar loftegundar í sýnilegan massa með jákvæðu kolefnisspori í húsi úr hassi, gott ef ekki hugvísindi.
Hér sést í endan á steyptri hampveggs einingu frá Dun Agro
En hversu raunhæft er notagildi hamps burtséð frá kolefnissporinu? Ef eitthvað er að marka Vísindavef Háskólans nær saga hampræktunar árþúsundir aftur í tímann. Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir mannkyninu eina plöntu að gjöf sem átti að uppfylla alla þarfir þess og var plantan sú formóðir allra kannabis- og hampplantna í heiminum. Mikilvægi hamps og notagildi hans hefur ekki síst legið í því hversu trefjaríkir stofnar plöntunnar eru. Trefjarnar mátti nota í klæði, segl, reipi, pappír og margt fleira. Sem dæmi var hampur notaður bæði í segl og kaðla á tímum landafundanna miklu. Greinina um hamp á vísindavefnum má nálgast hér.
Hamp er hægt að rækta hér á landi, og þá á annan hátt en við raflýsingu til ólöglegra nota. Fyrstu skráðu heimildir um ræktun á hampi á Íslandi er að finna í bréfi sem Vísi Gísli sendi syni sínum árið 1670 þar sem hann segir frá tilraunum sínum með að rækta innfluttar plöntur. Fyrir rúmum áratug var gerð tilraun með ræktun á iðnaðarhampi úti í guðs grænni náttúrunni norður í Eyjafirði og gekk ræktunin vel. Um notkunar möguleika hampsins má einnig fræðast í BB hér.
Það hefur verið talið, þar til fyrir skemmstu, að sá sé í besta falli "steiktur hasshaus", sem hefði látið sér detta í hug að byggja hús úr hassi. En eftir að tilvist heimsins byggist orðið að mestu á hinu ímyndaða kolefnisspori og reiknikúnstum sem má líkja við gullgerðalist, þarf sá ekki að vera neitt "steiktur" sem lætur sér til hugar koma að byggja og selja hús úr hassi þó ekki væri nema kolefnissporsins vegna. Þó svo sporinn hræði þá virðist hampur veraverulega misskilin jurt.
Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.1.2019 | 13:21
Kölski og hin launhelga Landnáma
Hvað ef öll mankynssagan væri meira og minna lygi skrifuð að undirlagi þeirra sem valdamestir voru á hverjum tíma, og skáldsagna ritarar á við Dan Brown færu nær sannleikanum? Það er reyndar oftast svo að ríkjandi öfl sjá um að skrásetja opinbera útgáfu sögunnar. Þegar Íslendingasögurnar eru skoðaðar þá má samt greina að þær hafa ekki verið skráðar undir handleiðslu Noregskonunga þó svo þær geymi heimildir sem til eru um upphaf konungsríkis í Noregi. Það virðist ekki hafi verið nein hefð fyrir sagnaritun í Skandinavíu þegar norðmenn námu Ísland né fyrir þann tíma, það má næstum segja að miðalda saga Noregs væri ekki til nema fyrir Ísland.
Hvernig stóð þá á því að saga þessa tímabils varðveitist á Íslandi? Ágiskun hefur m.a. verið uppi um að það sé vegna þess að á Íslandi séu langir og dimmir vetur og því hafi landsmenn drepið tímann með því að segja hvorir öðrum sögur af uppruna sínum og landnámi (874-930) mann fram að manni þar til einhverjir sáu ástæðu til að skrásetja þær, jafnvel mörghundruð árum seinna s.s. Snorri Sturluson upp úr 1200 og Landnáma einhvertíma upp úr 1100. Langir vetur með skammdegismyrkri eru ekki síður í Noregi svo varla hefur sagnahefðin og skrásetningarþörfin komið þaðan með landnámsfólki.
Við lestur Völsungasögu vakna einnig margar áleitnar spurningar s.s. hvernig stóð á því að sú saga varðveitist á Íslandi sem er talin hafa verið skráð 1270 en sögusviðið er Evrópa 800 árum fyrr, á tímum Atla Húnakonungs (406-453) auk þess sem Völsunga saga hefur að geyma heimildir um hugsunarhátt heiðinna manna og sögu norrænnar goðafræði sem ríkjandi var í norður Evrópu þess tíma. Egils saga sem er talin hafa verið rituð um 1200 segir frá atburðum í Noregi, Englandi og víðar í Evrópu á tímabilinu 850-1000.
Egilssaga segir svo háðuglega frá Noregskonungum að sennilegast er að sögunni hefði verið eitt af konungum í Noregi hefðu þeir vitað af tilvist hennar. En hvað sem öðru líður þá segir sagan á hárnákvæman hátt frá Noregi þessa tíma auk þess að gefa magnaða innsýn í hugarheim heiðninnar í gegnu Egil. Það hefur komið betur í ljós eftir því sem fornleifarannsóknum hefur fleytt fram hvað Egilssaga er nákvæm heimild. Svo má spyrja hvernig standi á því að heimildir um uppruna og Svartahafs tengsl norrænu goðafræðinnar varðveitast á Íslandi, hvort þar geti verið að þar sé afritað eftir mun víðtækara safni gagna en hafi tilheyrt norrænum bókmenntum einum.
Margir hafa bent á að í Íslendingasögurnar og sér í lagi Landnáma sé vilhöll norskættuðum landnemum og þar hljóti að hafa ráðið hagsmunir þeirra er skrifuðu sögurnar. Grettis- og Laxdælasaga geta landnámsfólks sem kom frá Skotlandi. Önundur einfætti forfaðir Grettis fór til Suðureyja Skotlands til að þola ekki ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs. Laxdæla greinir frá landnámi Auðar djúpúðgu sem kom frá Skotlandi og hafði tengsl við konung á Írlandi auk þess sem sagan getur ambáttarinnar Melkorku dóttur Mýrkjartans konungs á Írlandi. Báðar þessar sögur gera ættartengslum sögupersóna við Noreg góð skil en geta þess lauslega hvar þetta fólk hafði alið manninn á Bretlandseyjum.
Eina kenningu sem lítið hefur farið fyrir, um landnám Íslands og tilurð íslendingasagna, má finna í ritgerðasafni Jochums M Eggertssonar frá 1948. Þetta ritgerðasafn heitir einu nafni Brísingamen Freyju og kemur inn á norræna goðafræði, rúnaletur ofl. Í 5. kafla er svo kenning um hvernig Ísland byggðist sem einna helst má líkja við skáldsöguna Da Vinci Code, enda var Jochum ekki hátt skrifaður hjá fræðimannasamfélaginu. Þrátt fyrir merkilegar kenningar sínar varð hann aldrei annað en utangarðs fræðimaður.
Jochum lét eftir sig mikið af handskrifuðum bókum um rannsóknir sínar. Einna þekktust þeirra er bókin Galdraskræða sem var endurútgefin árið 2013 af Lestofunni. Í 5. kafla ritgerða safns síns Brísingamen Freyju leggur Jochum út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, sem Gísli lætur falla í bók sinni Íslensk annálsbrot og Undur Íslands. En þar segir biskup: "Þann 18. Apríl, 1638 byrja ég á lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi ég óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum.
Síðan bendir Jochum á merkilegan hluta í frásögn Gísla biskups í kaflanum Jarðskjálftar og ýmiskonar hræðileg eldgos; -Til þess að ég þreyti ekki lesarann eða virðast ætla að segja neitt ógeðfellt, mundi ég engu bæta við þetta, ef gagnstæður kraftur skapferlis míns kallaði ekki fram í huga mér á þessum stað, að ég hef fræðst um það af gömlum annálum fornmanna, að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. En þetta eru ekki þau myrkur, sem taka alveg fyrir sól og dagsljós og koma af sandskýjum á vissum stöðum og í fjöllum, á meðan þau eru að spýa eldi, heldur einhverjir aðrir furðulegir skuggar".
Þessa frásögn Gísla Oddsonar telur Jochum vera stórmerkilegan útúrdúr frá efni bókarinnar og að Gísli hafi haft aðgang að fornum annálum í Skálholti sem greindu frá falinni fortíð. Eins sagðist Jochum sjálfur hafa yfir hinu glataða fornriti Gullbringu að ráða þar sem kæmi fram ítarlegri útgáfa af landnámi Íslands en um væri getið í Landnámu sem getur þess þó lítillega að fyrir í landinu hafi verið fólk af keltneskum uppruna.
Sú útgáfa landnáms sem kemur fram í Gullbringu er í stuttu máli á þá leið að þegar þeir landnemar komu til Íslands frá Noregi sem vildu forðast ofríki Haralds konungs hárfagra var fyrir á Ísland byggð. Nánar tiltekið hafi sú byggð átt uppruna sinn að sækja til eyjarinnar Iona sem er ein af Suðureyjum Skotlands. Á Iona hafi verið varðveitt viska sem rekja megi til Egipsku píramídana. Þessi vitneskja sem síðar var kennd við galdur hafi upphaflega verið til staðar í fornum menningarheimum en flust frá Egiptalandi til Iona eyja sem eru í eyjahafi Grikklands, þaðan hafi fræði þessarar visku flust til Hebredes eyja í Suðureyjum Skotlands og þaðan til smá eyjar í Suðureyjum sem hafi fengið nafnið Iona eftir hinum Grísku eyjum. Eins kemur fram hjá Jochum að þjóðin Skotar hafi byggt Írland á þeim tíma og eyjar Skotlands talist til Írlands.
Þegar ekki var lengur öruggt að varðveita þessa launhelgu visku á eyjunni Iona við Skotland var hún flutt til Íslands u.þ.b. árið 700, nánar tiltekið til Krýsuvíkur. Þetta fólk kemur löngu fyrir skjalfest landnám Íslands og tekur vel á móti flóttafólki þegar landnám norrænna manna hefst. Eins segist Jochum þess fullviss af heimildum úr fornritinu Gullbringu að Íslendingasögurnar séu m.a. ritaðar að undirlagi Kolskeggs vitra Ýberíasonar sem hafði aðsetur í Krýsuvík, m.a. kemur fram að mestur hluti Heimskringlu Snorra sé upphaflega rituð af Grími Hrafnsyni af Mýramannakyni auk þess sem hann hafi ritað Egils-sögu Skallagrímssonar frænda síns. Grímur þessi hafði aðsetur á Vífilsstöðum ásamt Jóni hinum gamla Kjarvalssyni, þar sem fræðisetur á að hafa verið samhliða því í Krýsuvík. Þeir Jón Kjarvalsson og Kolskeggur vitri Ýberíason eiga að hafa samið Völuspá og Hávamál.
Því sem næst 200 árum seinna á Snorri Sturluson, sem var að upplagi íslenskur höfðingi en ekki fræðimaður, að hafa komist yfir rit þeirra Krýsvíkinga og gert sér grein fyrir um hverskonar verðmæti var að ræða, ráðið til sín skrifara til að endurskrifa og varðveita heimildirnar. Þegar þessi fornu rit voru endurrituð á skinn undir handleiðslu Snorra hafi pólitískt ástand á Íslandi og staða Snorra (sem var lénsmaður Noregskonungs) verið með þeim hætti að það hafi frekar verið varðveitt úr þeim sem var hliðhollara Noregskonungum.
Örlög Kolskeggs, sem á að hafa verið drepinn 1054 við Straum í Kapelluhrauni, urðu þau að með tímanum fékk hann nafnið Kölski í djöfullegri merkingu á íslenskri tungu. Þar sem þau fræði sem upprunnin voru úr fornum menningarheimi og varðveitt voru í Krýsuvík þóknuðust ekki ríkjandi öflum. Megi rekja upphaf þessa til laga sem sett voru á alþingi 1032 og um er getið í Grettissögu en þar segir "að allir forneskjumenn skyldu útlægir af landinu".
"Sannleikurinn finnst hvergi nema rekja til hans í gegnum völundarhús lyginnar, en það kostar mikið mannvit og þekkingu það að gera, og svo, að lokum, reynist það oft miður heppileg vara, er sumir höfðu lengi haft fyrir góðan og gildan sannleika." (Jochum M Eggertsson-Brísingamen Freyju V/52)
Vesturfararnir | Breytt 2.2.2019 kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.1.2019 | 15:12
Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið
Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa". Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar".
Þetta má lesa í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937. Þarna er verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Annars vegar til Göngu Hrólfs forföður Normandí Normanna sem unnu orrustuna um Bretland við Hastings árið 1066 og enska konungsættin er rakin til, hins vegar til landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit. Adam Rutherford vildi meina að þessir bræður og allflestir landnámsmenn Íslands hefðu ekki verið dæmigerðrar norskrar ættar heldur hefði þeirra ættbálkur verið aðfluttur í Noregi. Að stofni til verið ein af 12 ættkvíslum Ísraels, hvísl Benjamíns.
Í ljósi þessa uppruna væru Íslendingar, vegna einangrunar í gegnum aldirnar, ekki Norskastir Norðmanna eins og ætla mætti af Landnámu, heldur hreinasta afbrigðið sem fyrir finnist á jörðinni af ætthvísl Benjamíns. Þessu til stuðnings benti hann m.a. á að ýmsir sagnaritarar telji að þegar Normannar réðust inn í England árið 1066, þá hafi úlfur verið í skjaldarmerki Vilhjálms bastarðar. Úlfur var merki Benjamíns og algengt í mannanöfnum þeirrar ættkvíslar. Rutherford vill meina að nafngift sem ber úlfsnafnið í sér hafi verið algeng hjá landnámsfólki Íslands, s.s. Ingólfur sem sagður er fyrsti landnámsmaðurinn, Kveldúlfur, Þórólfur, Herjólfur, Brynjólfur, Hrólfur, Snjólfur osfv., enda megi úlfs örnefni víða finna á Íslandi þó svo aldrei hafi þar verið úlfar.
Vissuna um uppruna Íslendinga taldi Adam Rutherford sig hafa úr píramídanum mikla í Gíza, en hann var einn þeirra sem var þar við fornleifauppgröft og rannsóknir árið 1925, þegar áður ófundinn veggur kom í ljós sem talinn er hafa að geima skýringar hinna ímsu spádóma sögunnar þ.m.t. spádóm um fæðingu frelsarans, sem og um eyjarnar í vestri með eldlandinu sem má finna í enskri þýðingu Biblíunnar í spádómum Jesaja.
Með útreikningum komst hann auk þess að því Ísland er í geisla norðvestur hliðar píramídans, liggur þar í honum miðjum ásamt Suðureyjum Skotlands. Ísland á samkvæmt spádómnum að komast í brennidepil mankynsögunnar með því að vera á ásnum þar sem geislinn er breiðastur, verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Langt mál er að fara í gegnum þessa útreikninga Rutherford og það sem hann uppgötvaði um Ísland í Gíza píramídanum enda gaf hann út bókina "Hin mikla arfleið Íslands" um þessar rannsóknir sínar auk margra annarra rita.
En hverjir voru Benjamínítar? Samkvæmt hinni helgu bók var Benjamín yngsti sonur Ísraels (Jakobs sonar Ísaks Abrahamssonar) sem bar beinin í Egyptalandi. Ætthvísl Benjamíns var sú minnsta af Ísrael. Í Dómarabókinni 19-21 segir frá refsidómi Benjamíns ættkvíslarinnar sem kveðinn var upp á þeim tíma þegar allar ættkvíslar Ísraels bjuggu í fyrirheitna landinu. Benjamín skildi eytt úr Ísrael vegna níðingsverksins í Gíbeu, mönnum, konum og börnum.
Ísraelsmenn hófu útrýminguna og sáu ekki að sér fyrr en þeir höfðu eitt svo til öllum kynstofni Benjamíns. En þá tók þá að iðrast og sögðu Nú er ein ætthvísl upphöggvin úr Ísrael! Hvernig eigum við að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar að vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum". Það urðu því örlög Benjamíns að fara með vopnum á aðrar þjóðir og ræna sér kvonfangi. Síðar fékk Benjamín uppreisn æru í Ísraelsríki og var Sál fyrsti konungur Ísrael af ætt Benjamíns, Davíð konungur sem á eftir kom gerði Jerúsalem að höfuðborg, sonur hans Salómon lét reisa musterið þar sem hin mikla viska á að hafa verið geymd.
Þegar Ísraelsmenn voru herleiddir af Assýríumönnum voru það aðeins tvær ættkvíslar sem snéru aftur til fyrirheitna landsins, Juda og Benjamín. Benjamín hafði áður búið í Jerúsalem en þegar aftur var snúið varð Galílea heimkynni Benjamíns, Jerúsalem tilheyrði þá Juda. Lærisveinar Jesú eru allir taldir hafa verið af ætthvísl Benjamíns, nema Júdas sem var af ætt Juda líkt og Jesú. Um það bil 100 árum eftir Krist, í kjölfar ofsókna Rómverja, flyst ættkvísl Benjamíns til Litlu Asíu og dreifist þaðan til annarra landi m.a. til Svartahafslanda. Talið er að þeir hafi svo aftur lent á flakk á tímum Atla Húnakonungs skömmu fyrir fall Rómarveldis u.þ.b. árið 400.
Fleiri hafa fetað svipaðar slóðir og Rutherford varðandi uppruna þeirra Norðmanna sem námu Ísland. Þar má nefna Barða Guðmundsson (1900-1957) sagnfræðing, þjóðskjalavörð og um tíma Alþingismann. Árið 1959 kom út ritgerðasafn hans um uppruna Íslendinga. Þar leiðir Barði líkum að því að Íslendingar séu ekki komnir út af dæmigerðum Norðmönnum heldur fólki sem var aðflutt, einkum á vesturströnd Noregs.
Þessu til stuðnings bendir hann á að útfararsiðir íslendinga hafi verið allt aðrir en tíðkuðust á meðal norrænna manna. Samkvæmt fornleifarannsóknum á norðurlöndunum hafi bálfarargrafir verið algengastar, á Íslandi finnist engin bálfarargröf frá þessum tíma né sé um þann útfararsið getið í íslenskum bókmenntum. Því sé ljóst af þessum mikla mun á útfararsiðum Norðmanna og Íslendinga í heiðni að meginþorri þeirra sem fluttu til Íslands frá Noregi hafi þar verið af ættum aðkomumanna.
Barði bendir einnig á baráttuna sem var gegn Óðni í Noregi, guði seiðs og skáldskapar. Hann telur hamremmi, Óðinsdýrkun og skáldskap hafa haldist í hendur, sbr. Egils-sögu Skallagrímssonar. Seiðmennska var í litlu uppáhaldi hjá Haraldi hárfagra og lét hann m.a. Eirík blóðöxi gera ferð til Upplanda þar sem hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn ásamt átta tugum seiðmanna.
Einnig vitnar Barði Guðmundsson í Snorra Sturluson þar sem hann segir að Æsir hafi komið til Norðurlanda frá Svartahafslöndum, undir forystu tólf hofgoða, er réðu fyrir blótum og dómum manna á milli." Óðinn er þeirra æðstur. Þykir Barða einkum merkilegt, að Snorri skuli gera ráð fyrir norrænni sérmenningu, sem upptök eigi í hinum fjarlægu Svartahafslöndum við Donósa, en njóti lítilla vinsælda sem aðflutt í Noregi.
Einn af þeim sem ekki hefur hikað við að umturna hefðbundnum kenningum sögunnar er Thor Hayerdhal. Hann hefur leitað uppruna Óðins á svipuðum slóðum og bent á að við Kasbíhaf, nánar tiltekið í Qobustan héraði í Azjerbaijan séu hellar sem hafi að geima myndir greyptar í stein af bátum sem minni á víkingaskip. Einnig taldi hann að nafngiftina Æsir á guðum norrænnar goðafræði mætti rekja til lands sem bæri það í nafninu s.s. Azer í Azerbaijan.
Við þetta má bæta að rúnaletur var notað á norðurlöndum árhundruðum eftir að latnesk letur náði yfirhöndinni í hinu evrópska Rómarveldi. Rúnir hafa, af ýmsum fræðimönnum, löngum verið kenndar við þær launhelgar sem stundaðar hafa verið við að varðveita viskuna úr musteri Salómons sem ættuð var úr Egypsku píramídunum. Að öllu þessu athuguðu þá er alls ekki svo ólíklegt að fótur sé fyrir kenningum um að uppruni Íslendinga eigi sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist mega ætla.
Það er í íslenskum bókmenntum sem heimildir um goðafræðina varðveitast og má því segja að fornbókmenntirnar séu hin mikla arfleið. En eins líklegt er að sá spádómur sem Adam Rutherford telur sig hafa fundið í píramídanum Gíza og viðrar í bókinni Hin mikla arfleið Íslands", þar sem hann gerir ráð fyrir því að landið muni verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar" hafi komið fram fyrir þúsund árum þegar landnámsmenn opinberuðu siglingaleið á milli Evrópu og Ameríku.
Ps. Þessi færsla var birt hér á síðunni í apríl 2014, sem Úlfar og arfleið.
Vesturfararnir | Breytt 2.2.2019 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
1.1.2019 | 07:31
Íslenskur herforingi - hver var hann?
Þann 2. janúar 1911 birtist í danska blaðinu Politiken grein með fyrirsögninni: Hver var hann?, sem var sögð send inn af alkunnum stjórnmálamanni (sagður vera fyrrverandi varnarmálaráðherra Dana, Christopher Krabbe). Í greininni segir hann frá herforingja sem getið var um í bókinni Eitt horn af Provence, sem er í S-Frakklandi. Í greininni er sagt frá málaliða herdeild, sem fékk þveröfuga dóma miðað við foringja hennar, sem sagður var vera réttsýnn maður og mannúðlegur, og auk þess Íslendingur, svo mörg voru þau orð sem um Íslendinginn voru höfð.
Í febrúar sama ár er í Lögréttu vakin athygli á greininni og lesendur spurðir hvort þeir viti hver maðurinn var. Svo er það akkúrat ári eftir að greinin birtist í Poletiken, að grein er í Eimreiðinni þann 1. janúar 1912, undir fyrirsögninni Íslenskur herforingi, þar sem leitast var við að svara hvaða íslenski maður þetta gæti hafa verið. Undir greininni er fangamarkið V.G., og verður að ætla að hana hafi ritað Valtýr Guðmundsson sagnfræðingur, og ritstjóri Eimreiðarinnar.
Ég rakst á þess greinaskrif fyrir tveimur árum þegar ég var að forvitnast um ævi Jóns lærða Guðmundssonar. En komst þá fljótlega að því að auðveldast myndi vera að kynna sér ævi Jóns með því að lesa bókina Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson. Ég fór því á bókasafnið og útvegaði mér bókina, hafandi fyrst og fremst áhuga á að kynna mér hvað í henni væri að finna um veru Jóns lærða á Austurlandi.
Austur á Hérað hafði Jón flúið vegna galdraofsókna og dvalið þar það sem hann átti ólifað ásamt konu og afkomendum, fyrir utan ferðar til Kaupmannahafnar sem endaði svo fyrir íslenskum dómstól. þar sem hann freistaðist til að fá leiðréttingu mála sinna. En það tókst ekki, hann fékk þó grið áfram á Austurlandi. Í stuttu máli sagt þá var ekki ýkja mikið á þessari næstum 800 síðna bók að græða varðandi veru Jóns lærða á Austurlandi, umfram það sem segir í Fjölmóði hans, sem er nokkurskonar skorinorð ævisaga sem hann skildi eftir sig í bundnu máli.
252. Hitti þar mæta menn / og milda fyrir, / Bjarna sýslumann / og blíðan prófast, / síra Ólaf vorn, / sælan með guði; / umbuni guð þeim / allar velgerðir. (Úr Fjölmóði ævidrápu, Þegar Jón lærði kom á Héraðið) - 317. En að skilnaði / ályktuðu / Jens og junkur / að ég frí skyldi / í Múlasýslu / mína reisa / og hjá kerlingu / kúra síðan. (Úr Fjölmóði eftir að konungsbréf að lokinni Kaupmannahafnar ferð hafði verið tekið fyrir á alþingi).
Svo var það núna um jólin að ég heyrði í litlu systir sem býr í S-Frakklandi að upprifjaðist þessi athyglisverða grein Valtýs Guðmundssonar sagnfræðings í Eimreiðinni. En til tals kom á milli okkar systkinanna hvort nafni minn, Remi Paul Magnús sonur hennar, væri genginn í Franska herinn eins og til hafði staðið síðast þegar við heyrðumst. Það hafði dregist en hann hefði staðist inntökupróf.
Tafirnar höfðu aðallega stafað af nákvæmri bakgrunns rannsókn franska hersins á íslenskri móðurinni. Mér varð á orði að það hefði verið eins gott að franski herinn hefði ekki komist í Íslendingabók því þá hefði verið hægt að rekja nafna aftur til Egils Skallagrímssonar og hann hefði ekki reynst frökkum neitt sérstaklega. En mundu svo eftir greininni í Eimreiðinni þar sem getið var þessa Íslendings sem sagður var hafa verið réttsýnn maður og mannúðlegur. Greinin fylgir hér á eftir;
ÍSLENSKUR HERSHÖFÐINGI
Þann 2. janúar 1911 stóð í danska blaðinu Politiken grein með fyrirsögninni: "HVER VAR HANN?", er blaðið kvað sér senda af alkunnum stjórnmálamanni (höf. kvað vera fyrv. hermálaráðherra Dana C. Krabbe) dönskum sunnan frá Miðjarðarhafströnd. Sú grein hljóðar svo:
"Sex stunda ferð í vestur frá Nízza er bærinn Hyéres. Hann stendur í fjallshlíð og eru krókóttar miðaldagötur upp eftir henni, en uppi á fjallinu rústir af kastalaborg. Við fjallsræturnar eru íbúðarhús í nútíðarstíl. Hyéres er álíka stór og bæirnir Helsingjaeyri og Hilleröd samanlagðir, og hefir víst aldrei stærri verið. En á miðöldunum voru ríkin smá og var þá Hyéres með umhverfi sínu sjálfstætt furstadæmi. 1254 var það sameinað greifadæminu Provence, sem þá var sjálfstætt, og er Provence 1481 sameinaðist konungsríki Frakka, rann Hyéres saman við Frakkland í byrjun 18. aldar átti Frakkakonungur í ófriði við hertogann af Savoyen, og tóku þá herflokkar hertogans Hyéres 1707. Í þeim herflokkum voru flestir liðsmanna Þjóðverjar, Savoyingar og Genúingar; en eftir því, sem Louis Bronard segist frá í bók sinni "Eitt horn af Provence", var foringi þeirra Íslendingur, og um hann er það tekið fram gagnstætt því, er segir um liðsmenn hans , að hann hafi verið "réttsýnn maður og mannúðlegur".
"Þessi frásögn um að Íslendingur hefði haft herstjórn í þjónustu hertogans af Savoyen, vakti eftirtekt mína, og þar sem honum var borin svo vel sagan, fór mér að þykja vænt um hann. Ég hafði aldrei fyrr heyrt hans getið. Og þar sem ég (og sjálfsagt fleiri af lesendum Politiken mundi hafa gaman af að fá eitthvað meira um hann að vita, þá leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til íslenskra sagnfræðinga: Hver var þessi íslendingur? Veit nokkur maður nokkuð um hann?"
Sé hér um sanna sögu að ræða, er ekki ólíklegt, að mörgum Íslendingum mundi ekki síður en Dönum þykja fróðlegt að fá að vita, hver þessi íslenski hershöfðingi hafi verið. Vér Íslendingar höfum ekki átt svo marga hershöfðingja nú á seinni öldum, að ekki væri vert að halda nöfnum þeirra til skila, sem getið hafa sér góðan orðstír. En hér er ekki svo hægt um vik, þar sem nafnsins er ekki getið, enda óvíst, að það gæfi næga leiðbeiningu, þó svo hefði verið. Því Íslendingar hafa svo oft tekið sér ný nöfn, eða önnur í útlöndum en heima fyrir, og gat það vel hafa átt sér stað hér. Hins vegar mun þess hvergi finnast getið í íslenskum ritum, að nokkur Íslendingur hafi gengið í herþjónustu í Savoyen, og er þá ekki annað fyrir hendi til úrlausnar spurningunni, en að beita sennilegum líkum og tilgátum, þó engin vissa geti með því fengist að svo stöddu.
Sá maður, sem böndin virðast helst berast að í þessu efni, er Guðmundur Guðmundsson, sonarsonur Jóns Guðmundssonar lærða, þess er Þormóður Torfason kallaði Plinius Islandicus og sem Guðbrandur Vigfússon segir um í formála sínum fyrir "Íslenskum þjóðsögum", að fáir hafi þá verið svo fjölfróðir og víðlesnir sem hann. Enda var hann göldróttur talinn og slapp með naumindum frá að verða brenndur á báli. Sonur Jóns lærða, en faðir Guðmundar, var séra Guðmundur Jónsson, sem fyrst var prestur á Hvalsnesi (vígður 1633), en síðan (16541683) á Hjaltastað, og dó 1685.
Guðmundur, sonur Guðmundar prests Jónssonar, var fæddur 1643 og var 15 vetra gamall (haustið 1658) sendur utan til náms í Frúarskóla í Kaupmannahöfn. Þá var ófriður milli Svía og Dana og var Guðmundur hertekinn af Svíum. En Danir hertóku aftur skip það, er Guðmundur var á með Svíum, og hefir það líklega verið skip það, er hinn hrausti Manarbúi Jakob Nielsen Dannefer tók af Svíum 2. okt. 1658 og varð frægur fyrir. Var þá Guðmundur hernuminn í annað sinn, og hafði sætt svo illri meðferð, að hann var "af sér kominn af sulti, klæðleysi og órækt". Hætti hann þá við lærdómsnám sitt og gekk á mála sem hermaður, og var 4 ár í herþjónustu, uns hann var leystur úr henni af dönskum herramanni (1662), "því hann var skarpvitur og ritari góður", segir Espólín í Árbókum sínum.
Var hann svo sveinn herramanns þessa í önnur 4 ár, uns hann (1666) gekk í þjónustu Soffíu Amalíu, drottningar Friðriks III., "og fékk náð hennar mikla". Var þá einveldi fyrir skömmu á komið í Danmörku, og gerðist drottning umsvifamikil og var að mörgu leyti meira ráðandi í ýmsum greinum en konungur sjálfur. Var hún skrautgjörn mjög og gefin fyrir skemmtanir, og hóf þá, sem henni geðjaðist að, til metorða og valda, en þeir, sem urðu fyrir ónáð hennar, fengu oft á hörðu að kenna. Það var því ekki lítils vert, að komast inn undir hjá henni.
Vér skulum nú láta Espólín segja sögu hans áfram, með eigin orðum:
"Guðmundur Guðmundarson prests, Jónssonar lærða, hafði nú (1673) verið 14 eða 15 vetur utan, og í veg miklum með Soffíu Amalíu drottningu; hann fékk þá leyfi að finna foreldra sína, og sendi drottningin Guðmundi presti föður hans hökul dýran. Guðmundur kom út, og að Hjaltastað til sunnudagsmessu, öllum óvart og ókenndur, og duldi þess alla, hver hann var; lést hafa skylduerindi til alþingis og Bessastaða, og vilja fara sem fljótast. Faðir hans vildi fá tíðindi, og bað hinn ókunna mann mjög að gjöra sér þann veg, að þiggja að sér máltíð eða annan greiða og spurði að Guðmundi syni sinum. Hann kvað hann lifa og vera gott af hans ráði að segja; og|slíkur væri hann nú orðinn, að prestur mundi eigi kenna hann, þó hann sæi.
Prestur lést víst hyggja, að hann mundi kenna hann, og spurði, hvern vöxt eða þroska hann hefði. Guðmundur mælti alt á dönsku, kvaðst eigi annað segja kunna sannara, en að hann væri mjög líkur sér að vexti og áliti. Ekki var Guðmundur prestur haldinn glettingarbarn, og er þess nokkuð getið fyrri, en þó varð hann eigi að vísari, og hélt Guðmundur honum uppi með þessu fram á aftan, og lést þá vilja brottu. En síðan sagði hann foreldrum sínum með fyrirgefningarbón, hver hann var; urðu þau þá mjög fegin, og þóttust hafa heimt hann úr helju. Var hann um vetur í landi, og fór utan síðan í sömu þjónustu".
Það hafði fyrr orðið um Guðmund Guðmundarson, er hann var með Soffíu Amalíu drottningu, að þá er meistari Jón Vigfússon vígðist til vísibiskups (1674), tók hann bréf fyrir allri Borgarfjarðarsýslu, og ætlaði út. Það mislíkaði drottningu og kvað hann fá annað betra hjá sér; og þorði hann eigi að neita boði hennar, og hafði gjörst fógeti hennar á Láglandi, því að þau smálöndin hafa drottningar í Danmörku til uppeldis sér í ekkjudómi. Gekk hann að eiga þernu eina þýska, þó ættaða vel, og var um hríð í allgóðum veg, þar til er bændur nokkrir kærðu hann um álögur nýjar. Kom það fyrir rétt í Kaupmannahöfn, og vann hann málið, en var þó kærður um hið sama skömmu síðar aftur; þá varð hann undir í málinu, og missti embættis, en þóttist þó eigi annað hafa gjört en skipun síns herra. Og nú er hér var komið, var drottning önduð (1685), og var það eitthvað í efnum, að hann hafði sig til Þéttmerskis; var sagt hönd hans hefði kennst á nokkrum bréfum hennar.
Hann bjó ár nærri Lukkustað, og átti húsið bróðir konu hans, ármaður konungs vistast þar; hann studdi þau Guðmund, því að hann var þá fátækur og hneigður til drykkju. Guðmundur var ritari góður og skáld, þýskur vel, og fór vel við stúdenta íslenska, meðan hann var í uppgangi sínum í Kaupmannahöfn. Ekki vildi hann heyra hallmælt Jóni lærða föðurföður sínum. Hann kvaðst vera að snúa á þýska sálma píslarsálmum Hallgríms prests Péturssonar, og stunda að fylgja orðum og efni, og væri þeir í afhaldi.
Vita menn eigi lengur af honum að segja, en þrjá vetur umfram það, er nú er komið frásögnum (til 1688). Þorleifur prestur, bróðir hans, hélt Hallormsstað í Múlaþingi; um hann er sagt að misst hafi hálft skegg sitt tilfinningarlaust eina nótt, og óx það aftur. En Guðmundur prestur, faðir þeirra, má ætla að dáinn hafi verið fyrir tveimur árum eða þremur, þá tíð er komið er nú áratali (dó 1685).
Það er eigi allfátt, sem mælir með því, að þessi Guðmundur Guðmundsson, sem hér hverfur svo skyndilega úr sögu annálaritaranna íslensku, hafi einmitt verið hershöfðingi sá, er getið er um í Savoyen 1707. Að minnsta kosti er ekki kunnugt um neinn Íslending frá þessu tímabili, sem fremur gæti komið til greina. Að hann hafði sig á brott úr Danmörku eftir andlát Soffíu Amalíu drottningar, er vel skiljanlegt; því þeir, sem verið höfðu gæðingar hennar, áttu þá ekki upp á pallborðið og urðu margir fyrir ofsóknum. Mun hann ekki hafa talið sér óhult þar, enda auðséð, að einhverjar sakir hafa verið á hann bornar, þó orð Espólíns um það séu mjög á huldu. Hann segir aðeins, að "eitthvað það hafi verið í efnum", að hann hafi haft sig til Þéttmerskis, og að sagt hafi verið, að hönd hans hefði kennst á nokkrum bréfum drottningar.
Bæði þetta og að tvívegis er tekið fram, að hann hafi verið "ritari góður", virðist benda á, að drottning hafi notað hann til að rita leyniskjöl sín, og hefir hann þá ef til vill verið grunaður um að hafa ritað erfðaskrá hennar, þá er svo mikið stapp varð út úr, og sem Kristján V. varð svo æfur yfir, að hann lét ónýta hana og brenna á báli. Hafi svo verið, er engin furða, þó Guðmundur hafi viljað forða sér. Að hann einmitt fór suður til Þéttmerskis, er líka skiljanlegt, þar sem kona hans var þýsk og hann átti þar mágafólk, sem gat skotið skjólshúsi yfir hann. En líklega hefir hann ekki heldur álitið sér óhætt þar til lengdar, eftir að erfðaskrá drottningar náðist heim frá Þýskalandi, þar sem hún hafði verið geymd hjá bræðrum hennar.
Er þá allsennilegt, að hann hafi haldið enn lengra suður á bóginn, og það orðið ofan á hjá honum, að taka til ungdómsiðju sinnar; herþjónustunnar. Hafi hann svo, ásamt mörgum Þjóðverjum, gengið í málalið hertogans af Savoyen og smámsaman stigið þar í tigninni, uns hann hafi verið gerður að foringja málaliðsins. Hin frábæra kunnátta hans í þýskri tungu og fjögra ára herþjónusta í málaliði Dana á æskuárunum hafa þá komið honum að góðu haldi. Og hæfileika virðist hann að hafa haft nóga til að hefja sig upp á við. Átti hann bæði kyn til þess, enda segir Espólín um hann sjálfan, að hann hafi verið skarpvitur; þá sýnir og hefðarferill hans í Danmörku, að hann hefir ekki verið neinn miðlungsmaður, og vel kunnað að koma ár sinni fyrir borð og vinna sér hylli manna.
Alt þetta virðist gjöra það sennilegt, að íslenski hershöfðinginn, sem tók Hyéres 1707, hafi einmitt getað verið Guðmundur Guðmundsson, það kemur og ágætlega heim við tímann. Hann var fæddur 1643, og hefði þá 1707 verið orðinn 64 ára að aldri. Og það er 19 árum eftir að hann hverfur frá Þéttmerski og ekkert spyrst til hans framar. Líkurnar fyrir því, að hér sé um sama mann að ræða, eru því svo miklar, að næst liggur að hafa það fyrir satt, ef ekki koma aðrar betri og sennilegri skýringar fram.
Og er ekki nógu gaman að hugsa til þess, að sonarsonur hans Jóns lærða, alþýðusnillingsins okkar þjóðfræga og höfundar Krukkspár, hafi eftir hina dönsku ævintýrabraut sína orðið hershöfðingi og getið sér góðan orðstír suður í Savoyen? - VG
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2326198
28.12.2018 | 12:25
Árið var enn ein steypan
Það er ljótt að ljúga að blessuðum börnunum en þess hafa sést merki í þeim tilgangi að fá þau til að afla sér starfsmenntunar í byggingaiðnaði. Stundum er talað um tæknimenntun til að fegra sements gráan veruleikann og því hefur jafnvel verið haldið fram af hámenntuðu fólki að störfum iðnaðarmanna fylgi ekki óhreinindi, hávaði og kuldi, í þeim tilgangi að bæta ímynd iðnnáms. Enn sannleikurinn er sá að byggingavinna er fyrir hetjur sem kalla ekki allt ömmu sína, þ.m.t. óhreinindi, hávaða og kulda.
Það er síðuhöfundi hulin ráðgáta hvernig mynd náðist af honum með verkfæri í höndunum, en hún birtist við frétt af brúarsteypu við Berufjörð. Myndina tók Anna Elín Jóhannsdóttir verkfr. Vegagerðarinnar
Vilji ungt fólk halda sér í góðu formi og reisa minnisvarða sem standa um ókomin ár, þá eru t.d. byggingastörf betri en bókhald. En hetjur verða sjaldnast langlífar, og það sem verra er að á starfsorkuna gengur, þó svo að lengi sé hægt að jamla áfram í starfi sem krefst álíka líkamsburða og bókhald. Því mættu launin vera betri þar sem hetjunnar er þörf. Það getur allt eins komið að því, eins og komið er fyrir síðuhöfundi, að verslunarstjóri í byggingarvöruverslun grípi fram fyrir hendurnar á honum og beri góssið út í bíl hafandi á orði; láttu mig um þetta Maggi minn, þú ert nefnilega orðinn vesalingur.
Ég hafði orð á því í einni morgunnandakt okkar vinnufélagana að það væri betra að hafa það alveg á hreinu að mannslíkaminn toppaði á 29. aldursári eftir það lægi leiðin niður á við, því betra að leggja áhugann fyrir allslags íþróttaæfingum og kappastælum á hilluna í tíma því annars væri voðinn vís, t.d. dytti mér ekki í hug lengur að að stökkva hæð mína í loft upp og fara heljarstökk þó svo að ég hefði einkventíma talið mig geta það.
Annað ætti við þegar steypa væri í boði, algleymi hennar væri ekki hægt að stilla sig um þegar hjartað væri annars vegar. Vinnufélagi minn sem veit allt betur en hinir tók undir þetta með mér en sagði að það versta við steypu væri það að hugurinn væri alltaf 29 ára þó líkaminn eldist, og á því mætti stór passa sig.
En nú eru þau orðin 29 árin síðan ég var 29 ára þannig að ég ætti kannski að vera á mig kominn líkt og reifabarn, ef þá ekki lagstur í kör, og get því allt eins vel við unað og horft björtum augum til framtíðarinnar.
Einu sinni spurði kollegi minn hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með tilheyrandi hrísgrjónaáti og ærnum peningaskuldbindingum til að losna við steypuvinnu en allt kæmi fyrir ekki í múrverkið væri hann mættur aftur jafnharðan.
Já veistu ekki út af hverju það er sagði ég, og svaraði honum svo sjálfur að bragði; það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum. Málið er nefnilega, að eftir að steypa hefur verið hrærð þarf að koma henni fyrir og móta hana með snatri annars er hætta á að hún verði að grjóthörðum óskapnaði sem kostnaðarsamt yrði að fjarlægja. Maður þarf sem sagt að falla í trans og sýna steypunni samhug í verki og frá svoleiðis sálarháska sleppur maður ekki svo auðveldlega.
Þó svo mikil áhersla hafi verið lögð í að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér frá steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta og sálarheill í meira en fjörutíu ár. Reynt var að telja mér trú um að ég hefði ekki skrokk til erfiðisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það á endanum blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bókhaldinu.
Núna, alveg bláedrú, og öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa; hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei, því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta steypu stressins aðeins meira og æsa mig örlítið minna, því eftir munu standa verkin sýnileg. Þó svo vissulega gæti verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum jafnvel útfyllt exelskjal opinberlega, þá jafnast ekkert af þessu á við varanleg minnismerki.
Stærsta steypan sem mér bauðst að taka þátt í á þessu ári var með ungum og upprennandi köppum við Berufjörð, þar var steypt brú út á botnlausri leirunni. En Vegagerðinni, ásamt bændum og búálfum, hafði fundist Berufjarðarleiran álitleg sem vegstæði. Um leið var tilkynnt um þau tímamót að þjóðvegur eitt yrði allur orðinn með bundnu slitlagi 1. september 2018, þ.e. við verklok vegagerðarinnar í Berufirði. Reyndar var þjóðvegur eitt fluttur "um firði" við sama tækifæri, enda var fyrirsjáanlegt að tímamótamarkmiðið í samgöngumálum landsins myndi ekki nást nema með pólitískum skollaleik.
Þessa ákvörðun tók þáverandi samgönguráðherra og lengdi með því þjóðveg eitt um tugi kílómetra. En eitthvað fóru áformin ekki alveg samkvæmt exelskjalinu, hvað þá dagatalinu, og bíður það verkefni nýráðins forstjóra Vegagerðarinnar að leysa, sem er dýralæknir, skipaður af dýralækni sem plataði sig til samgönguráðherradóms með því að vera á skjön við forvera sinn og ætti þjóðin vera þess minnug hvað dýralæknar geta verið henni dýrir frá síðasta hruni. Er ekki ólíklegt að aukist umsvif tollheimtumanna á komandi árum til að fela axarsköftin og efla hag falskt jarmandi jötuliðsins sjáandi á eftir kjararáði ofaní botnlausa hítina.
En hvað um það, til að gera langa sögu stutta þá sökk vegurinn hvað eftir annað ofan í leiruna og hafa framkvæmdir nú verið stöðvaðar. Þannig að ekkert er í hendi um það hvenær lokið verður við að koma bundnu slitlagi á þjóðveg eitt. En brúin stendur enn sem komið er eins og grjótharður minnisvarði úti á miðri Berufjarðarleirunni, ungum köppum til sóma sem tóku á móti 1000 tonnum af steypu, einn sumardaginn í ár, og komu þeim rennisléttum niður í brúargólfið svo hægt yrði að bruna þjóðveginn hnökralaust, en allt eins getur brúin verið einna líkust óskapnaði skaðmenntuðu exelskjali til stór skammar.
Að endingu vil ég þakka þeim sem hafa enst til að lesa steypu þessarar síðu, og óska þeim velfarnaðar á komandi ári.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.12.2018 | 13:03
Sólin fer á kostum um jólin
Það vefst fyrir sumum hvers vegna halda skal upp á jólin. Flestir halda þó upp á fæðingu frelsarans og það gerir síðuhöfundur.
Margir telja jólin heiðna hátíð aftan úr grárri forneskju, sem á rætur sínar að rekja til vetrarsólstöðu; til þess að nú fer sólin að hækka á lofti og ættu allir að geta sameinast um að því beri að fagna.
Um leið og ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla birti ég hér nokkrar myndir sem ég tók af svölunum í gær, aðfangadag, og núna á jóladagsmorgunn, sem sína að hvað sem öðru líður þá fer sólin á kostum yfir jólin þó með himinskautum sé.
Himininn yfir Fljótsdalshéraði við sólsetur á aðfangadag
Sólarupprás á jóladag
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2018 | 15:25
Þær eru farnar að halla í beygjum
Það er ekki tekið út með sældinni að vera karlamaður þessa dagana. Hvað þá miðaldra karlpungur í tilvistarkreppu með tilheyrandi ranghugmyndir af feðraveldinu uppfullu af allskyns hrútaskýringum. Vinur minn og vinnufélagi komst heldur betur háskalega að orði í vikunni sem leið, í símtali við annan iðnaðarmann og ég varð áheyrandi af símtalinu. Já ég veit það þetta er alltaf sama helvítis vesenið, en stelpu rassgatið kann bara ekki að umgangast þetta og tekur ekki nokkurri tilsögn.
Ég benti félaga mínum á að svona mætti hann alls ekki tala, hann vissi aldrei hvenær tal hans yrði tekið upp og flutt í fjölmiðlum og þá væri stutt í metoo mylluna. Hann sagði að þessi kvenmaður myndi lítið lagast þó svo að sagðar væru fréttir af henni í fjölmiðlum, hún væri bara ekki betur búin á milli eyrnanna en raun bæri vitni. Ég lagði árar í bát, í þetta sinn, enda ekki í fyrsta skipti sem ég reyni að koma vitinu fyrir vin minn.
Atburðir þessa árs hafa oft á tíðum valdið okkur vinnufélögunum angist og örvinglan, þó svo við séum þrátt fyrir allt íslenskir kallamenn. Fyrir nokkrum vikum síðan hafði ég eytt drjúgum hluta kaffitímans í það að gera vinnufélögunum grein fyrir því hvað mikið mæddi á nútímakonunni. Hún þyrfti að sinna framabrautinni bæði með vinnu og háskólanámi, oft hvorutveggja samtímis, auk þess sem tilvera barnanna hvíldi á hennar herðum. Þetta væri svona þrátt fyrir allt það fæðingaorlof sem eyrnamerkt væri körlum, konan fengi kallið ef eitthvað bjátaði á hjá börnunum í leik eða skóla. Þetta sæist best á aksturslagi í umferðinni þar sem konur væru orðnar mun strekktari ökumenn enn karlar.
Vinur minn brunaði í þeim töluðu orðum inn í kaffistofuna, og um leið og hann fór framhjá okkur félögunum til að komast í kaffikönnuna gall í honum; þær eru meir að segja farnar að halla í beygjum. Hvað ertu að meina maður spurði ég; Þú hlýtur að vita það sjálfur, eða manstu ekki þegar við vorum að steypa í sumar og sama manneskjan keyrði þrisvar framhjá eins og druslan dró og við urðum að forða okkur, ferðin var svo mikil á henni að hún þurfti að halla sér til að hendast ekki út í rúðu í beygjunni.
Ég mundi eftir því að við höfðum verið að steypa gangstétt í rólegri íbúðagötu og talið að það væri öruggara að halda okkur ekki á götunni á meðan ung kona ætti leið hjá. Jú það var það sem félagi minn var að meina, hann bætti svo í; Þær eru al varasamastar þessar vinstri grænu því þær myndu strauja mann niður bara ef þær teldu sig vera í rétti, jafnvel þó svo maður væri í gulu vesti með vegagerðarkalla á aðvörunarskiltum í bak og fyrir.
Jú, ég varð líka að gefast upp þarna í kaffitímanum, og viðurkenna það að almennt hafi dregið úr því að fólk hefði nægjanlega aðgát í nærveru sálar þegar það þeytist fram og til baka um blindgötuna.
Dægurmál | Breytt 4.12.2018 kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2018 | 18:49
Fullvalda 20. aldar maðurinn
Ætlarðu ekki að skrifa minningargrein um hann afa þinn, spurði hún Matthildur mín mig fyrir 19 árum síðan. Nei ég get það ekki, var svarið. Þetta þótti minni konu aumt svar. En málið var að ég gat engan veginn skrifað minningargrein um hann afa, sem var bæði minn besti vinur og nafni. Þau skrif hefðu varla orðið um annað en hve missir minn var mikill og þar af leiðandi ekki verið um hann afa minn.
Þegar föðurafi minn hélt á vit forfeðranna, tæplega 91. árs, þá var í þessum heimi til engra forfeðra lengur að leita og var ég þó ekki fertugur. Fram að því var afi minn sá sem alltaf hafði verið til staðar, sá sem hafði grátið með okkur systkinunum og föður við eldhúsborðið morguninn eftir að móðir okkar dó. Afi var sá sem sagði 10 árum seinna, þegar ég fann að ýmsu eftir líkræðu prestsins við útför föður míns; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn ég hef lent í miklu verri jarðarförum hjá honum en þessari.
Níu árum eftir að afi minn dó sagði hún Matthildur mín, ætlaðu ekki að skrifa minningu um hann afa þinn í tilefni 100 ára árstíðar hans, það er oft gert, og það þekktu hann fáir betur en þú. Nei, ég gat það ekki, vegna þess að ég þekkti hann afa minn ekki nógu vel. Það voru nefnilega setningar sem hann sagði á níræðis afmælisdeginum sínum sem fékk mig til að efast um hvort ég þekkti hann afa minn, besta vin og nafna, nógu vel til að geta skrifað svoleiðis æviágrip.
Og hvernig átti ég að vera fær um að skrifa minningu um mann sem lifað hafði meira en tímana tvenna, eða líkt og Tryggvi Emilsson lýsir í bók sinni Fátækt fólk þegar hann minnist ársins 1918 í hálfhruninni torfbaðstofunni á kotbýlinu Gili í Öxnadal. Þá bar enn til stórtíðinda og langsóttra sem gerjuðust svo í hugum manna að margir þeir, sem aldrei sáust brosa út úr skegginu eða virtust kippa sér upp við nokkurn skapaðan hlut, urðu drýldnir á svip og ábúðarmiklir rétt eins og þeir væru allt í einu orðnir að sjálfseignarbændum, en nú var Ísland fullvalda ríki. Ég heyrði föður minn tala um þann ægistóra atburð eins og hann hefði sjálfur átt þátt í úrslitunum. Þessi tíðindi bárust fyrir jól og var þeim fagnað alls staðar þar sem hátíð var haldin. Menn höfðu fylgst með sambandsmálinu framar öllum örðum málum á undanförnum árum og heyrði ég Guðnýju segja að þessi sigur væri fyrirboði annarra og meiri. Sjálfur var ég í uppnámi vegna fregnarinnar, sá landið í nýju og skæru ljósi og taldi víst að nú mundi hækka hagur íslenskra öreiga. Þannig vógu ein stórtíðindi góð á móti þrem stórtíðindum vondum, frostunum miklu, spænsku veikinni og Kötlugosi. (Fátækt fólk bls.279)
Hann afi minn hafði aldrei barmað sér í mín eyru fyrr en á 90 ára afmælisdaginn sinn. Þá var það tvennt sem hann angraði. Annað var hve margar rjúpur hann hefði drepið um ævina. Ég sagði að hann þyrfti nú varla að hafa samviskubit út af þeim, þar sem lífsbarátta fólks á hans yngri árum hlyti oft að hafa verið hörð og hann hefði alltaf borið þá virðingu fyrir bráð sinni að hún hefði verið étin upp til agna. Nei það voru ekki þær rjúpur, heldur rjúpurnar sem hann hafði selt þegar hægt var að selja til Danmerkur; það hefði engu breytt þó ég hefði verið án þeirra peninga, sagði hann. Hitt var atvik frá bernsku sem setti fyrir mér ævi afa míns í allt annað samhengi en ég hafði ímyndað mér fram að því.
Það er ekki fyrr en nú á 110 ára ártíð afa míns að ég ætla að reyna að minnast hans, og nú óumbeðinn. Reyndar var það bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem varð til þess að ég sá lífshlaup afa frá sjónarhóli sem ég hafði ekki komist á meðan hans naut við, en við lestur bókarinnar komst ég á skjá sem gaf aðra sýn. Hann og Tryggvi voru samtímamenn sem lifðu 20. öldina og því hægt að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina.
Á bókarkápu og í formála endurútgáfu Fátæks fólks árið 2010 segir; bókin vakti mikla athygli og umtal þegar hún kom út árið 1976 fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl, en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð. Söguna af fátæku fólki fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í verslun. - Bókin Fátækt fólk var tilnefnd til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs árið 1977, og er haft fyrir satt að munað hafi svo fáum atkvæðum, sem talin voru á færri fingrum en finnast á annarri hendi, að verðlaunin féllu Fátæku fólki.
Bækur Tryggva, Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, ætti hver og einn að lesa sem hefur minnsta áhuga á að kynna sér úr hvað jarðvegi íslenskt þjóðfélag er sprottið. Þó svo að bækur Tryggva Emilssonar hafi verið umdeildar á sínum tíma og hann hafi þótt fara hörðum orðum um menn og málefni, þá var varla hægt að gera það á annan hátt, nema fara í kringum sannleikann eins og köttur í kringum heitan graut. Auk þess segja bækurnar frá tæringunni (berklunum) og því hvernig íslensk alþýða komst út úr hálfhrundum torfbæjunum, sem höfðu verið hennar skjól í þúsund ár, inn í nútímann á aðeins örfáum áratugum.
Ég hafði spurt afa, í einhverri af okkar mörgu samverustundum, hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Hans svar var stutt og skorinort; minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn. Þegar ég gekk eftir hvers vegna, þá talaði hann í örstuttu máli um slaga, haustrigningar og vetrarkulda. Eins kom að lokum upp úr kafinu í þeim samræðum að foreldrar hans hefðu barist við berkla, sem hann taldi húsakostinn ekki hafa bætt. Faðir hans hafði tvisvar verið "hogginn" eins og kallað var, en það er þegar rifbein eru fjarlægð.
Jón Sigvaldason, faðir Magnúsar afa míns var smiður sem átti við berkla að stríða stóran hluta sinnar ævi, hann hefur því átt erfitt með að framfleyta fjölskyldunni. Hann þurfti oftar en einu sinni að leita sér lækninga við tæringunni, en það að vera höggvinn þýddi nánast örkuml og var lokaúrræðið í baráttunni við berkla fyrir tíma sýklalyfjanna. Foreldrar afa þau Jón Sigvaldason og Jónbjörg Jónsdóttir hafa því ekki átt sjö dagana sæla við að koma sínum barnahóp á legg. Það var einmitt á 90 ára afmælisdaginn sem ég heyrði afa í fyrsta og eina skiptið gefa örlitla innsýn í þá hörku sem var í samfélagi þessa tíma. Núna ætla ég að reyna að gera örstutta grein fyrir ævi afa.
Magnús Jónsson var fæddur á Fljótsdalshéraði 27. nóvember 1908 á Skeggastöðum í Fellum. Hvers vegna hann er fæddur á Skeggjastöðum í Fellum veit ég ekki nákvæmlega. Foreldrar hans ólu mestan sinn aldur austan við Lagarfljót á Völlum, í Skriðdal og áttu auk þess sín fjölskyldutengsl í Hjaltastaðaþinghá, en Fell eru vestan við Fljót. Mig minnir þó afi hafi sagst halda að Skeggjastaðir hafi verið hans fæðingastaður vegna þess að þar hafi þau hjónin verið stödd vegna vinnu smiðsins.
Jónbjörg og Jón eignuðust 5 börn sem komust á legg auk þess að missa tvö á unga aldri. Afi var elstur þeirra systkina sem upp komust og aldrei heyrði ég hann tala um þau systkin sem foreldrar hans misstu. En í kirkjubókum og minningargrein um systur hans kemur fram að þau hafa heitið Sigrún, sem fædd var á Ketilsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 10. júní 1901. Látin á Hreimsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 1. júní 1902. Í minningargreinni kemur fram nafnið Björgvin, en ekkert fann ég um fæðingarstað né aldur.
Næst á eftir honum kom Guðrún Katrín fædd 21.11.1911 á Víðilæk, Skriðdal. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 07.01.1956. Svo kom Þuríður fædd 11.11.1913 í Sauðhaga á Völlum. Húsfreyja í Tunghaga dáin 17.05.2006. Þar á eftir kom Benedikt Sigurjón fæddur 14.04.1921 í Hvammi á Völlum. Var búsettur í Reykjavík dáinn 19.11.2005. Síðust kom Sigríður Herborg fædd 17.02.1925 í Tunghaga. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 26.09.1989.
Það var þegar ég rakst á sóknarmanntöl sem höfðu ratað á netið að ég gerði mér fyrst örlitla grein fyrir hverskonar aðstæður þessi systkinahópur hafði alist upp við og er þar sjálfsagt ekki ólíku saman að jafna við marga fjölskylduna sem ekki hafði jarðnæði á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Afi minn er flest árin skráður til heimilis á sama stað og foreldrar hans en önnur ekki, það er þó sammerkt með þeim árum að hann er ævinlega skráður til heimilis á sama stað og Sigurður Björnsson frá Vaði í Skriðdal og Magnea Herborg Jónsdóttir kona Sigurðar, en þau hjón voru kennd við Sauðhaga.
Það má sjá á fæðingarstöðum barna þeirra Jóns og Jónbjargar, eins í sóknarmanntölum að lengi höfðu þau ekki fastan samastað. Það er ekki fyrr en í Tunghaga 1922 að þau teljast ábúendur með jarðnæði. Dóttirin Katrín er fljótlega skráð í sóknarmanntölum á tveimur stöðum, þar sem Jónbjörg móður hennar var og hjá fósturforeldrum á Seyðisfirði. Þuríður er alltaf skráð á sömu stöðum og móðir hennar. Sigurjón fæðist í Hvammi og Herborg í Tunghaga og eru ávalt skráð til sama heimilis og foreldrar.
Svo virðist vera að Sigurður hafi hætt ábúð í Sauðhaga árið 1918 og flust ásamt Magneu Herborgu konu sinni i Vað í Skriðdal, þar sem Ingibjörg móðir hans bjó ásamt seinni manni sínum og systkinum Sigurðar. Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði varð ekkja 39 ára gömul, er ávalt talin kvenskörungur af Viðfjarðarætt, varð 17 barna móðir og stór ættmóðir á Héraði. Hún keypti jörðina Vað árið 1907 sem var Skriðuklausturs eign, en þar hafði hún búið ásamt fyrri manni sínum Birni Ívarssyni sem dó 1900 frá 12 börnum. Hún giftist Jóni Björgvin Jónssyni ráðsmanni sínum 1901 og áttu þau 5 börn saman.
Þegar Sigurður bregður búi í Sauðhaga og fer í Vað 1918, hverfur Jón Sigvaldason úr sóknarmanntölum sennilega vegna sjúkrahúslegu, en Jónbjörg er skráð vinnukona á Mýrum í Skriðdal ásamt Þuríði dóttir sinni. Árið 1923 eru Sigurður og Magnea Herborg aftur komin í Sauðhaga eftir að hafa verið skráð bæði á Vaði og í Tunghaga í millitíðinni. Þennan tíma er Magnús afi ýmist skráður sem tökubarn eða léttadrengur hjá Sigurði og Magneu Herborgu þ.e. 10-14 ára gamall. Þetta fólk hafði áður haldið saman um nokkurt skeiði og verið skráð til heimilis í Sauðhaga og þá Sigurður sem bóndi en foreldrar afa sem vinnufólk.
Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld fólkinu í Sauðhaga, enda var ég part úr tveimur sumrum í sveit hjá nafna mínum og frænda Magnúsi Sigurðssyni á Úlfsstöðum, en hann var frá Sauðhaga. Ég vissi fljótlega að Sigurður og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa við fólkið í Sauðhaga. Þegar ég spurði afa út í þetta þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg í Sauðhaga var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.
Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur búandi á Ormstöðum, sem voru í Hallormsstaðaskógi, og síðar Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, minnir mig að hann hafi sagt að það væri eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum. Magnús og Herborg áttu eina dóttir, Björgu sem dó að fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.
Því er þessi málalenging úr sóknarmanatölum þulin, að megi fá smá innsýn í hverskonar almannatryggingar var um að ræða í upphafi 20. aldarinnar. Almanntryggingin fólst í nánasta fjölskylduneti, eða þá á þann hátt sem ég fann í viðtalsþætti Hallfreðs Eiríkssonar þjóðháttafræðings á ismús, við Sigurbjörn Snjólfsson í Gilsárteigi. En Sigurbjörn var ungur maður að stíga sín fyrstu búskaparár á Völlunum þegar þeir voru æskustöðvar afa míns. Sigurbjörn segir frá því hvernig fátækt barnafólk var litið hornauga af sveitarstjórn og segir þar frá örlögum barna Péturs, sem Sigurbirni sjálfum hafði staðið til boða að taka við af, fullfrískum manninum. En honum hafi boðist annað og flutt með konu og börn í aðra sveit.
"Á Völlunum bjuggu bæði fátæklingar sem og efnaðir menn. Efnuðu mennirnir bjuggu á bestu jörðunum. Fátæklingarnir bjuggu á kotum sem varla var hægt að búa á. Upphaflega lentu Pétur og kona hans sem vinnuhjú hjá séra Magnúsi (Blöndal í Vallanesi) og þau máttu hafa tvö börn með sér. Þau eignuðust fleiri börn og urðu þau þá að finna þeim samastað. Eitt sinn var haldinn sveitarstjórnarfundur og var þar aðalfundarefnið að ráðstafa þurfalingum. Þessir fundir voru kallaðir vandræðafundir. Þessir fundir voru haldnir um sumarmál. Oft var niðursetningum komið fyrir hjá fátæku fólki því að það átti að vera hagur þeirra því að með niðursetningunum fékkst greitt frá sveitarfélaginu."
Það má svo rétt ímynda sér hvernig vandræðafundur Vallahrepps hefði tekið á málum ef fyrirvinna barnafjölskyldu var fársjúkur berklasjúklingur, nánast orðin örkumla, eftir því hvernig var tekið á málefnum þeirra barna Péturs og Sigurbjörns Snjólfssonar fullfrískra ungra manna. En Sigurbjörn telur að svo stutt hafi verið liðið frá afnámi vistarbandsins á Íslandi að sveitastjórnarmönnum á Völlum hafi verið vorkunn með úrlausnirnar. Sjálfur sagðist Sigurbjörn eiga efni sem hann hefði skráð hjá sér vegna þessara framfærslu mála sem hann hefði lagt svo fyrir um að ekki mætti birta fyrr en löngu eftir hans daga og þeirra er hlut áttu að málum, í virðingarskini við samferðamenn sína.
Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20. aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". En eins og komið hefur fram hafði Jón faðir Magnúsar afa míns smíðar að ævistarfi. Í grein Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti.
Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðasta baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið sígilda að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum. Líklegra er þó að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá örkumla smið í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".
Tveimur árum eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans sig á Jaðar í Vallanesinu til að gerast vinnumaður ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson sem dó úr berklum. Til æskuvinkonu sinnar Bjargar ömmu, sem var sjö árum eldri en hann, systur Sigurðar fóstra hans í Sauðhaga. Húsið á Jaðri var stundum talin fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum, og stóð m.a. að vandræðafundunum sem Sigurbjörn Snjólfsson greinir frá.
Nú skal farið hratt yfir sögu enda kom hver dagur 20. aldarinnar eftir þetta með betri tíð, eða eins og segir í dægurlagatextanum; birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr hver dagur sem ég lifði í návist þinn. Afa og ömmu búnaðist vel í Vallanesinu, fyrir átti amma tvær dætur þær Bjarghildi Ingibjörgu og Oddrúnu Valborgu Sigurðardætur. Þau eignuðust svo saman synina Sigurð Þórðarson og Ármann Örn auk þeirra ólust upp hjá þeim Gerður, Sigurður og Emil af eldri börnum þeirra systranna, svo vorum við nokkrir peyjar sem fengum að dvelja þar í sveit á sumrin sem nokkurskonar flórgoðar. Það ruglaði mig oft svolítið í rýminu þegar ég var barn að þau Gerður og Siggi skyldu alltaf kalla þau afa og ömmu, pabba og mömmu, en svo miklu ástfóstri tóku þau við þau gömlu.
Afi var bóndi öll sín bestu ár, hann var eldhugi, hamhleypa til verka og það stóðst fátt fyrir honum. Hann kunni að hnýta saman þvílíku úrvali blótsyrða þegar hann stóð frami fyrir erfiðleikum að meir að segja ég gat ekki annað en lært að nýta mér þær þulur. Ef sérlega illa stóð á var formálin eitthvað á þessa leið; fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Þar með voru hamskiptin komin á og ráðist með áhlaupi til verka þannig að ekkert stóðst í veginum. Ég verð var við það enn þann dag í dag þegar erfiðlega gengur í steypuvinnunni að vinnufélagar mínir eiga til að glotta yfir því orðavali sem ég viðhef í gegnum steypuhauginn.
Amma var fyrrverandi prestfrú í Vallanesi, ekkja sr Sigurðar Þórðarsonar frá Skeiði í Arnarfirði, þess sem hóf prestskap sinn sem aðstoðarprestur hjá sr Magnúsi Blöndal og sameinaði söfnuðinn eftir deilur og daga sr Magnúsar í Vallanesi. Í minni bernsku var Björg amma kirkjuorganisti í Vallneskirkju og afi meðhjálpari. Amma var oft kölluð frú Björg af samsveitungum og vottaði ekki háði í þeirri nafnbót. Enda amma af almúgafólki komin sem ekki hafði verið mulið undir, frúar nafnbótin var tilkomin af verðskuldaðri virðingu fyrir almúgakonunni.
Á Jaðri var tvíbýli og gott á milli granna. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar, bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg, en það var í Vallaneshjáleigu. Amma og afi bjuggu í Jaðri í Vallanesinu til 1970, amma þá búin að vera þar í 45 ár og afi í 34, þá fluttu þau í Selás 26 á Egilsstöðum.
Á Selásnum setti afi upp steinplötu við útidyrnar, sem í var grafið Björg Magnús, ég hafði orð á því við hann að það vantað og á milli nafnanna; við amma þín erum fyrir löngu orðin eitt, nafni minn, svaraði hann. Þarna áttu allir afkomendur afa og ömmu öruggt skjól líkt og í Vallanesi. Afi notaði árin á Egilsstöðum til að fínstilla logann innra með eldhuganum.
Amma sagði mér frá fyrstu kynnum sínum af þessum funa bráða dreng á æskuheimilinu Vaði, og augun hennar ljómuðu við frásögnina. Þá undraði mig ekkert hvernig þau hefðu þekkst frá því þau voru börn á sama heimili, spáði aldrei í það, enda trúir barnsálin því að amma og afi hafi alltaf verið saman. En eftir að ég rakst á sóknarmanntölin á netinu þykist ég vita að litli drengurinn hafi komið í Vað á æskuheimili ömmu með Sigurði eldri bróður hennar sem tökubarn þegar fyrra ábúð hans lauk í Sauðhaga.
Amma og afi bjuggu í 13 ár saman á Selásnum, en þá fór amma á sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Þar lá hún á milli tveggja heima í 5 ár, uns hún kvaddi þennan 20. október 1988. Ég átti oft skjól hjá afa árin sem amma var á sjúkrahúsinu, stundum svo mánuðum skipti. Afi fór á hverjum degi niður á sjúkrahús til að eiga stund með ömmu, ég fór einu sinni, fannst amma ekki vera þar og treysti mér ekki oftar. Stundum sagði afi þegar hann kom heim að lokinni heimsókn á sjúkrahúsið; ég er ekki frá því nafni minn að hún amma þín hafi vitað af mér hjá sér í dag, en aldrei fann hann að fælni minni við sjúkrahúsið.
Þegar systkini afa komu í heimsókn sást langt aftur í gamlan tíma, móttökur og kveðjur þeirra heimsókna voru innilega fallegar. Þegar Tunghagahjónin, Sigþór og Þura systir afa, komu í heimsókn skynjaði maður hvað elsti bróðirinn hafði verið mikils metin þegar foreldrarnir fengu ábúðina í Tunghaga, hrjáð af berklum og komin með 4 barna hóp. Þá hafði næstelsta systirin Katrín verið hjá fósturforeldrum, sem voru skyldfólk á Seyðisfirði, í nokkur ár. Sigþór og Þura giftu sig 1936 árið sem Jón Sigvaldason dó og keyptu síðar Tunghaga. Margir heimsóttu afa reglulega á Selásinn, gamli héraðslæknirinn, presturinn, verkamaðurinn, alþingismaðurinn ofl, ofl, og varð ég oft vitni af áhugaverðum samræðum. Afkomendurnir komu auðvitað oft í heimsókn og upp á milli þeirra gerði afi aldrei.
Það var ekki oft í seinni tíð sem afi var á faraldsfæti en hann kom samt nokkru sinnum í dagsferð á Djúpavog til að heimsækja nafna sinn og einu sinni stoppaði hann í nokkra daga. Skömmu eftir að þau amma og afi hættu að búa í Vallanesinu var farin fjölskylduferð norður í land til að heimsækja afkomendur og vini í Skagafirði. Við bræðurnir vorum í 1946 willysnum með afa, en amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum. Það var allt svo stórkostlegt sem fyrir augu bar að við bræður máttum hafa okkur alla við að minna afa á hvar á veginum willysinn var, og miklar voru áhyggjur okkar bræðra þegar var farið um Ólafsfjarðarmúlann því willysinn átti það til að hrökkva úr gír og ekki var nú útsýnið amalegt í Múlanum þegar halla fór til Ólafsfjarðar. Einu sinni fór afi út fyrir landsteinana og urðu Færeyjar fyrir valinu.
Á Egilsstöðum vann afi fram yfir sjötugt, hann vann nokkur ár í skóverksmiðjunni Agila, síðan sem sendibílstjóri og lagermaður hjá Verslunarvélagi Austurlands, við byggingavinnu og að lokum hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Eftir að hann hætti í fastri vinnu tók hann að sér ýmis verkefni s.s. að sjá um sumarstarfsvöll fyrir unga Egilsstaðabúa þar sem byggð voru fallegustu hús bæjarins, slá og hirða lóðir fyrir stofnanir og hjálpa skólabörnum yfir götu á varasömustu gatnamótum bæjarins. Í dag má sjá lögreglubíl við þessi gatnamót á annatíma þegar vænta má flestra barna, ökumönnum til áminningar. Hann sagði mér eitt sinn að ef hann hefði haft val á sínum yngri árum hefði hann sennilegast ekki orðið bóndi, menntavegurinn hefði orðið fyrir valinu.
Í áranna rás hafði ég ekki áttað mig á hversu stórt hlutverk afi minn hafði í mínu lífi. Á árunum 1997 og 1998 var ég um tíma við störf í Ísrael við að leggja iðnaðargólfefni á verksmiðjur gyðinga í Galíleu. Við höfðum nokkrir íslendingar tekist á hendur að fara í nokkurskonar útrásarvíking í samstarfi við ísraelskan umboðsmann. Þessi ár vann ég í nokkurra vikna úthöldum ásamt gólflagnamönnum sem ég vann ekki með á Íslandi. Við gistum á samyrkjubúum en borðuðum í grennd við vinnustað og var það frekar fábreitt sjoppu fæði, Mc Donalds eða shawarma hjá götusala, svona eitthvað svipað og pilsa með öllu heima á Íslandi.
Á leið í næturstað að loknum vinnudegi var svo reynt að hafa upp á einhverju kræsilegra að éta. Eitt skiptið höfðum við óvænt lent inn á veitingastað hjá aröbum og borðuðum þar góðan mat, -að mér fannst. Ég stakk oft eftir það upp á því við félaga mína að fara aftur á araba staðinn. Það var að endingu látið eftir mér, þegar við sátum að snæðingi þá sagði annar félaginn; hva, þú færð þér svo bara það sama og síðast. Ég jánkaði því og sagði; lambakjötið hérna er næstum jafn gott og það íslenska og næstum eins og afi hafi steikt það. Vinnufélagar litu kímnir á hvern annan og annar þeirra sagði; það hlaut að vera að þessi staður hefði eitthvað að gera með hann afa þinn.
Síðsumars 1999 brugðum við Matthildur mín okkur upp í Hérað ásamt börnunum okkar tveim. Ferðin var farin til að sigla á Lagarfljótinu, en þá hafði ferjan Lagarfljótsormurinn nýlega hafið siglingar frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað. Eins og vanalega komum við á Selásinn til afa og hafði ég gengið með þær grillur að afi myndi hafa gaman að því að koma með í siglinguna. Hann var þá, auk aldursins, orðinn helsjúkur. En á björtum sumardegi þá man maður afa sinn alltaf sem hetju bernskuáranna. Þrátt fyrir hve af honum var dregið gat ég ekki stillt mig um að biðja hann um að koma með í siglinguna. Hann brosti og svaraði; já ég held ég geri það bara nafni minn.
Ormurinn sigldi inn Fljótið í sólskini og 20 stiga hita á meðan Héraðið skartaði sínu fegursta til beggja handa. Við nafnarnir sátum saman í skuti meðan siglt var með vesturbakka Fljótsins, Fellamegin, og fylgdumst með því sem fyrir augu bar. Á móts við Skeggjastaði beygði Lagafljótsormurinn þvert yfir Fljótið og tók landi við Atlavík í Hallormstaðaskógi. Þegar áningunni þar var lokið var siglt út Fljótið að austanverði fram hjá Vallanesinu með sínum líparítgulu fljótsmalarfjörum þar sem afi hafði lifið sín manndómsár, siglingin endaði svo við sporð Lagarfljótsbrúarinnar á Egilsstaðanesinu. Þetta var síðasta ferðin okkar afa, við höfðum farið með bökkum Fljótsins þar sem hann fæddist og ól sinn aldur. Hann hélt svo til æðri heima á vit fólksins síns 13. nóvember 1999. En ég sigldi inn í 21. öldina þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast fullvalda 20. aldar manninum, sem aldrei fór fram á önnur laun í lok dags en að fólkinu hans liði vel.
Hann afi minn var af kynslóð fólks sem lifað hafði frá torfbæ til tölvualdar, fólks sem þakkaði sér hvorki uppbyggingu né framfarir 20. aldarinnar, heldur sagði að svona hefði þetta nú bara æxlast og það hefði tekið þátt í því. Hann var afkomandi kotfólksins, sem tók öllum höfðingjum fram. Hann tilheyrði ungu fólki sem fékk fullveldið í fermingargjöf og mundi tímana tvenna.
Tryggvi Emilsson lýsir hörðum kjörum kotfólksins svo í upphafi 20. aldar. Á vorin ætlaði aldrei að hlána þessar fáu rollur gengu magrar undan hörðum vetrum og snjóþungum. En þegar loksins náði til jarðar og grösin komu græn undan snjónum voru stráin svo kjarngóð að ærnar, sem voru stundum komnar með horlopa, hjörnuðu fljótt við. Lömbin komust á spena og mjólkin varð feitari með hverjum degi, og svo var fært frá. Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði. Börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki á marga fiska. (Fátækt fólk bls.299)
Afkomendur kotfólksins skildu þannig við 20. öldina að Rúnar heitin Júlíusson gat sungið seint á áttuna áratugnum þannig um lífskilyrði kynslóðarinnar okkar sem sigldum um miðjum aldur inn í þá 21., við texta Þorsteins Eggertssonar; betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening, en það verður allt önnur saga. Hvað þá hvort kynslóðinni, sem vanist hefur snappi takist að tengja sig við fullveldið með appi.
Dægurmál | Breytt 20.4.2019 kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)